Categories
Greinar

Hverjir erfa Ísland?

Deila grein

06/09/2021

Hverjir erfa Ísland?

Land er tak­mörkuð auðlind og óum­deilt að meðferð og notk­un lands skipt­ir íbúa jarðar­inn­ar miklu máli til langr­ar framtíðar. Það þarf því eng­an að undra að á síðustu árum hef­ur ásókn í jarðir auk­ist og ein­stak­ling­ar sem ráða yfir miklu fjár­magni sjá tæki­færi í að fjár­festa í jarðnæði hér á landi.

Skorður sett­ar á landa­kaup

Til að bregðast við var ráðist í breyt­ing­ar á jarðalög­um sem samþykkt­ar voru sum­arið 2020. Gerð var mik­il­væg breyt­ing á mark­miðskafla lag­anna að því leyti að mark­mið þeirra er nú fyrst og fremst að stuðla að nýt­ingu lands, í sam­ræmi við land­kosti, með hags­muni sam­fé­lags­ins og kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi.

Í lög­un­um voru einnig sett­ar skorður á jarðakaup þannig að fast­eigna­kaup­andi get­ur ekki eign­ast land ef hann eða tengd­ir aðilar eiga fyr­ir land sem er sam­an­lagt 10 þúsund hekt­ar­ar að stærð nema með sér­stakri und­anþágu frá ráðherra. Einnig þurfa lögaðilar sem eign­ast jörð eða jarðir hér á landi, nú að upp­lýsa Skatt­inn um raun­veru­lega eig­end­ur fé­lags og þá stjórn­ar­menn sem í því sitja.

Með þess­um þörfu breyt­ing­un­um er reynt að sporna við að of marg­ar jarðir safn­ist á fárra hend­ur en Ísland er ekki eina landið sem hef­ur stigið þessi skref. Í mörg­um Evr­ópu­ríkj­um hef­ur verið lögð vax­andi áhersla á varðveislu land­búnaðar­lands og rækt­ar­lands til nota fyr­ir mat­væla­fram­leiðslu og til að tryggja fæðuör­yggi.

Bet­ur má ef duga skal

Sam­kvæmt nú­gild­andi lagaum­hverfi þá geta rúm­lega 500 millj­ón­ir manna keypt land og aðrar fast­eign­ir hér á landi með sömu skil­yrðum og Íslend­ing­ar. Illu heilli hef­ur borið á því, und­an­far­in ár, að jarðir hafi verið keypt­ar upp án þess að eig­end­ur setj­ist þar að eða nýti landið og eign­ir sem þar eru. Það er því nauðsyn­legt að skoða al­var­lega hvort setja eigi frek­ari skil­yrði fyr­ir kaup­um er­lendra aðila á jörðum hér á landi, s.s. að þeir eigi hér lög­heim­ili. Aðrar þjóðir geta verið okk­ur til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Einnig er brýnt að yf­ir­fara skör­un jarðalaga og annarra laga sem varða land­búnað og land­nýt­ingu, eins og laga um nátt­úru­vernd, land­græðslu og skóg­rækt. Ein­föld­un á reglu­verki get­ur til að mynda skapað fjöl­breytt­ari tæki­færi til ný­sköp­un­ar í strjál­býli og aukið verðmæta­sköp­un í sveit­ar­fé­lög­um hring­inn í kring­um landið. Al­mennt þekkja bænd­ur sitt land best, hvað er verðmæt­asta rækt­ar­landið, hvað væri ástæða til að vernda af öðrum ástæðum og hvað gæti hentað til annarr­ar land­nýt­ing­ar. Umráðamenn búj­arða eiga að hafa tæki­færi til að nýta jarðir til verðmæta­sköp­un­ar á upp­byggi­leg­an og sjálf­bær­an hátt.

Nýt­um landið

Lagaum­gjörð um jarðir og auðlind­ir á landi er grund­vall­ar mál sem þarf að vera sí­fellt á dag­skrá. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vill vera leiðandi í þeirri umræðu. Mik­il ásókn er í auðlind­ir okk­ar og mik­il­vægt að við selj­um þær ekki frá okk­ur. Við vilj­um tryggja að kom­andi kyn­slóðir muni erfa land sem er vel búið til sjálf­bærr­ar nýt­ing­ar og verðmæta­sköp­un­ar.

Ingibjörg Isaksen, skipar 1. sæti B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 2. sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Þetta er ekki bara saklaus brandari

Deila grein

06/09/2021

Þetta er ekki bara saklaus brandari

Þetta er ekki bara saklaus brandari! Það er erfitt fyrir mig að trúa því́, að fulltrúi fólksins – Flokks flokksins – frambjóðandi til þings geri grín að kjósendum sinum og láti jafnvel birti það opinberlega. Neikvæð framsetning í́ fjölmiðlum viðheldur neikvæðri ímynd í garð Pólverja. Jafnvel þó́ svo að það sé gert með gríni. Var tilgangurinn með þessu að móðga, særa eða gera lítið úr þessum samfélagshóp? Ég bara spyr.

Það er alltaf gott að grínast, en maður þarft að vita hvers konar brandarar eru viðeigandi og þá einnig hvort það sé þess virði að deila þeim opinberlega. Fólk gerir ekki grín að fólki sem það telur sig fulltrúa fyrir. Í dag saklaus brandari og á morgun hvað? Svona saklausir brandarar hafa því́ miður mikinn kraft, því þeir eru endurteknir af börnum, fullorðnum í skólum og á vinnustöðum. Hvernig á Pólverjum að liða við að heyra svona brandara?

Við viljum byggja upp eitt, sterk og virðingarfullt samfélag, svo þetta er ekki rétta leiðin. Hvers vegna er þessi brandari ekki saklaus? Vegna þess að það veldur neikvæðum tilfinningum, vegna þess að honum er beint til einnar þjóðar. Pólverjar á Íslandi eru stærsti hópur innflytjenda.

Þeir eru duglegt, heiðarlegt fólk sem starfar á fjölmörgum sviðum og halda atvinnulífi á Íslandi gangandi, jafnvel þegar illa gengur. Við verðum að vera meðvituð um að þetta fólk á ekki skilið að því́ sé hæðst. Þeir eiga skilið virðingu. Við sem komum frá Póllandi og höfum tekið hér virkan þátt i ́ samfélaginu, lagt okkar af mörkum við að gera samfélagið hér á Íslandi jafn gott og það raunverulega er – erum líka kjósendur. Við samþykkjum þetta ekki. Það er með öllu óásættanlegt.

Anna Karen Svövudóttir, skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og kemur frá Póllandi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2021.

Categories
Greinar

Sósíal­istar vilja byltingu, Fram­sókn vill fram­farir

Deila grein

05/09/2021

Sósíal­istar vilja byltingu, Fram­sókn vill fram­farir

Gunnar Smári Egilsson, oddviti Sósíalistaflokksins, svarar grein minni Sitt er hvað, sam­vinna og sam­vinna í ítarlegu og löngu máli eins og hans er von og vísa. Gunnar Smári er góður penni og beittur og endurskrifar sögu Framsóknar eins og hún sé á tiltölulega beinni leið til helvítis. Eins og áður er Sósíalistaflokkurinn fastur í fortíðinni enda er tal flokksmanna um arðrán, auðvald og kúgun, ómur frá upphafi síðustu aldar. Samvinnan sem Gunnari Smára er svo ofarlega í huga er samvinna sósíalista, sósíalista einna, ekki samvinna ólíkra afla um hvernig best sé að bæta samfélagið.

Stjórnmál eru ekki trúarbrögð

Í huga sósíalista virðist vera eitt einfalt svar við öllu og það er svar þeirra sjálfra. Að þessu leyti er hugarheimur þessa ysta vinstris ekki ólíkt hugarheimi þeirra sem liggja lengst til hægri með sína óheftu markaðshyggju. Um þá óheftu markaðshyggju má segja að hún hefur beðið skipbrot tvisvar sinnum á síðustu þrettán árum. Óheftur markaður skóp hrunið og óheftur markaður réði ekki við heimsfaraldurinn. Í bæði skipti hefur almenningur þurft að hlaupa undir bagga. Um sósíalismann þarf ekki að hafa mörg orð því saga síðustu aldar er öðrum þræði hörmungarsaga þeirrar öfgastefnu. Yst til hægri og yst til vinstri eru stjórnmál trúarbrögð þeirra sem telja sig hafa fundið hinn eina stóra sannleik. Í mínum huga eru stjórnmál ekki trúarbrögð heldur mikilvægt tæki til að bæta samfélagið.

Framsókn: Framsækinn miðjuflokkur

Framsókn er framsækinn miðjuflokkur. Í því felst að Framsókn vinnur með það besta úr báðum heimum, heimum vinstrisins og hægrisins. Við erum frjálslynt umbótaafl eins og Hermann Jónasson talaði um á sinni tíð og útskýrði frjálslyndi með þessum orðum: „Þetta felur í sér að flokkurinn er fordómalaus um úrlausnir aðsteðjandi vandamála á hverjum tíma. Hann vill beita aðferðum þekkingar og vísinda til að ryðja framþróuninni braut á grundvelli þeirra þjóðfélagslegu gilda sem stefna hans byggist á.“

Fortíðarþrá sósíalista

Ég heyri engan samvinnutón í trúarjátningu sósíalista. Ég heyri bara tón sundrungar. Sama hver spurningin er þá er svarið alltaf öfgakennd krafa um að brjóta niður og byggja svo upp á forsendum sósíalista. Alltumlykjandi er síðan fortíðarþráin, hvað allt var gott í gamla daga en ömurlegt í dag. Hvert sem litið er í stefnumálum sósíalista er afturhvarf til fortíðar, krafan um að gera Ísland gott aftur.

Hið jákvæða afl hvers og eins

Við búum í góðu samfélagi en alltaf má gera betur. Það gerum við með því að byggja á hinu jákvæða afli sem býr í hverjum og einum. Það gerum við með því að skapa umhverfi þar sem allir geta blómstrað – á eigin forsendum en ekki annarra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. september 2021.

Categories
Greinar

Jafna þarf aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Deila grein

05/09/2021

Jafna þarf aðgengi að heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Nokkuð hefur verið rætt um heilbrigðiskerfið síðustu misseri, hvernig skuli byggja það upp og hvort auka eigi þátt einkageirans. Í dag er fjórðungur kerfisins rekin af einkaaðilum, kerfið sjálft fer sístækkandi með fjölgun íbúa og hækkandi lífaldri ásamt aukum fjölda ferðamanna.  Framsóknarflokkurinn styður blandað kerfi og telur að það sé farsæll kostur til að efla heilbrigðiskerfið í heild. Við þurfum að beina kastljósinu á hvernig sé best að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu og tryggja að allir landsmenn hafi jafnt aðgengi hvarvetna á landinu og óháð efnahag. Það er gríðarlega mikilvægt að fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónusta sé aðgengileg sem flestum í nálægð við heimabyggð. Íbúar í dreifðum byggðum þurfa að hafi góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu sem borin er uppi af heilbrigðisstofnunum út um landið.

Fólk vill búa við öryggi

Í nýútkominni skýrslu Byggðastofnunar um byggðafestu og búferlaflutninga sem gerð var meðal íbúa í stærri bæjum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu kemur fram aðgengi að heilbrigðisþjónustu vegi þungt þegar val á búsetu er metið, eðlilega. Við búum við gott heilbrigðiskerfi sem hefur sýnt það og sannað síðustu misseri að það getur brugðist hratt og örugglega við þegar mikið liggur við. En aðgengi að fæðingarhjálp og aðgengi að sérfræðingum er misjafnt eftir því hvar á landinu fólk býr. Því þarf að efla utanspítalaþjónustu og sjúkraflutninga á landsbyggðinni, þetta er baráttumál sérstaklega í hinum dreifðum byggðum, þar sem erfitt hefur verið að halda úti skurðstofum og fæðingarhjálp.  Öflug bráðaþjónusta utan spítala er nauðsynlegur hlekkur í öflugu heilbrigðiskerfi.

Nýtum okkur tæknina.

Í aðgerðaráætlun sem sett var í tengslum við heilbrigðisstefnu sem gildir til 2030 koma fram áherslur á að aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni verði bætt með fjarheilbrigðisþjónustu. Fjarheilbrigðisþjónustu fylgja bæði tækifæri og áskoranir. Mótun slíkrar þjónustu þarf að ígrunda vel,  bæði þeirra sem njóta og veita.  Tæknin er til staðar og ætti að geta nýst til að auka gæði og spara bæði tíma og fjármagn og til þess að hún virki þarf hún að styðja þá þjónustu sem fyrir er. Með fjarheilbrigðisþjónustu er hægt að nýta betur þann mannauð sem hver stofnun býr yfir. Þjónustan verður aðgengileg óháð búsetu og fagfólk hefur aðgang að meiri stuðningi í sínu heimahéraði. Fjarheilbrigðisþjónusta kemur þó aldrei í stað þjónustu í heimabyggð, hún getur brúað bilið í mörgum tilfellum og fækkað dýrum ferðum fólks milli landshluta í leit að þjónustu.

Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu er mikilvægt, það ætti að vera leiðarljós fyrir þá sem óska eftir sæti á Alþingi. Það hefur aldrei verið neitt leyndarmál að við hjá Framsókn viljum gott heilbrigðiskerfi fyrir alla í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir sama flokk í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birist fyrst á visir.is 20. ágúst 2021.

Categories
Greinar

Vaxtarstyrkur fyrir frístundaiðkun barna

Deila grein

02/09/2021

Vaxtarstyrkur fyrir frístundaiðkun barna

Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi hefur almennt reynst einstaklingum til góða. Kostirnir við slíka þátttöku eru ófáir, en iðkun skipulags frístundastarfs hefur jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu, bætir félagslíf, hefur sterkt forvarnargildi og bætir lífsgæði til muna. Hér á landi er mikil áhersla lögð á skipulagt frístundastarf og að allir hafi tækifæri til að taka þátt, og þá sérstaklega börn og ungmenni. Það hefur jákvæð áhrif á þroska barna og heilsu að taka þátt í slíku starfi hvort sem þau æfa knattspyrnu, karate, á píanó, rafíþróttir, taki þátt í skátunum eða hvað annað. Það er göfugt markmið að tryggja það að öll börn hafi tækifæri til að taka þátt.

Styrkjum frístundaiðkun barna

Það markmið hefur verið viðloðandi í mörg ár. Ríkið og sveitarfélög hafa unnið í nánu samstarfi við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins til að tryggja gott skipulagt frístundastarf þvert yfir landið ásamt því að tryggja tækifæri til íþrótta- og tómstundaiðkunar fyrir öll börn óháð efnahag eða félagslegra aðstæðna. Bæði ríki og sveitarfélög hafa nýtt fyrirkomulag frístundastyrks í vinnu að umræddu markmiði. Frístundastyrkur er ákveðin greiðsla sem flest sveitarfélög bjóða fjölskyldum til að niðurgreiða skipulagða íþrótta- og tómstundaiðkun. Tilvist styrks, upphæð hans og fyrirkomulag er mismunandi eftir sveitarfélögum. Einnig hefur Ásmundur Einar, félags- og barnamálaráðherra, ráðstafað fé til slíkrar styrkveitingar frá ríkinu á tímum Covid-19.

Vaxtarstyrkur

Þrátt fyrir þetta eru fjölskyldur hér á landi sem ekki ná að standa straum af kostnaði við frístundaiðkun barna sinna. Þetta þarf að laga. Það er almenn skoðun innan samfélagsins um að öll börn eiga skilið tækifæri til að njóta góðs af skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, og Framsóknarflokkurinn tekur í sama streng.

Ein stærsta áhersla Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að sjá til þess að ríkið veiti öllum fjölskyldum árlegan 60 þúsund króna vaxtarstyrk fyrir hvert barn og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Fyrir tveggja barna fjölskyldu yrði styrkurinn 120 þúsund krónur og fyrir þriggja barna fjölskyldu 180 þúsund krónur. Sýnt hefur verið fram á að skipulagt frístundastarf styrkir líkamlegan og andlegan þroska barna, ýta undir sjálfstæði þeirra og styrkja sjálfsmynd. Þessi aðgerð jafnar tækifæri barna til virkrar þátttöku í tómstundastarfi svo að ekkert barn missir af.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í skessuhorn.is 2. september 2021.

Categories
Greinar

Jöfnum leikinn með vaxta­rstyrkjum

Deila grein

02/09/2021

Jöfnum leikinn með vaxta­rstyrkjum

Á síðastliðnum árum hefur samfélagið áttað sig á mikilvægi íþrótta- og tómstunda á þroska barna. Kostirnir við iðkun íþrótta- og tómstunda eru fjölmargir. Í þeim efnum má til dæmis nefna lýðheilsusjónarmið, en frístundaiðkun stuðlar að líkamlegu og andlegu heilbrigði. Að auki hafa rannsóknir sýnt að ungmenni sem stunda skipulagt frístundastarf eru ólíklegri til að neyta áfengis- eða annarra vímugjafa eða stunda aðra óæskilega hegðun. Forvarnargildi frístundastarfs er óumdeilanlegt.

Frístundastyrkir

Tölfræðin sýnir að íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna hefur aukist innan þeirra sveitarfélaga sem bjóða upp á slíkan styrk. Þrátt fyrir að slíkir styrkir standa mörgum til boða hér á landi þá eru enn fjölskyldur sem standa höllum fæti fjárhagslega og eiga erfitt með að greiða fyrir frístundastarf barna sinna. Það er mat Framsóknar að styðja verði enn betur við börn og ungmenni hér á landi til að stunda þá frístund sem þau vilja ásamt því að styðja við íþrótta- og tómstundahreyfingar landsins.

Jöfnum aðstöðu fjölskyldna með vaxtarstyrkjum

Eitt helsta kosningaloforð Framsóknar fyrir komandi alþingiskosningar er að ríkið styðji við frístundir barna með árlegri 60 þúsund króna vaxtarstyrkjum til allra barna og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Fyrirkomulag þeirra er mjög sambærilegt frístundastyrkjum, en takmarkast ekki við búsetu eða neina aðra þætti. Allar fjölskyldur eru jafnar þegar að styrknum kemur og öll börn hér á landi geta fengið að njóta góðs af honum.

Hvort sem um er að ræða líkamlegt eða andlegt atgervi og félagsskap sem börn sem stunda íþróttir og aðrar tómstundir öðlast þá er ljóst að til mikils er að vinna með því að jafna aðstöðu allra barna til þátttöku í íþróttum og tómstundum óháð efnahag. Það á við um allt skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hvort sem það er knattspyrna, píanó, júdó, hestamennska, skák, skátar, körfubolti, myndlist eða hvað annað. Með þessu náum við frekari jöfnuði, stuðlum að lýðheilsu og forvörnum ásamt því að tryggja fjölbreytta íþrótta- og tómstundaiðkun á Íslandi.

Brynja Dan Gunnarsdóttir, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Norður.

Sigrún Elsa Smáradóttir, situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Reykjavík Suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2021.

Categories
Greinar

Spurninga­leikur, 18 stig í boði

Deila grein

02/09/2021

Spurninga­leikur, 18 stig í boði

Ýmsir flokkar, sem ég myndi leyfa mér að kalla eins máls- eða eins manns flokka, hafa oftar en ekki haft uppi stór orð varðandi störf ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Ýmist kallað hana kyrrstöðustjórn, stjórn þriggja Framsóknarflokka (sem ég reyndar kann nokkuð vel við) eða stólastjórnina. Orðræðan hefur verið á þann veg að myndun þessarar ríkisstjórnar hafi ekki snúist um annað en völd og stóla og samstöðu um engar breytingar. Í þessu sambandi leyfi ég mér sérstaklega að nefna Evrópusambandsflokkinn, Viðreisn og flokk Sigmundar Davíðs, Miðflokkinn.

Leikurinn

Að þessu sögðu, þá ákvað ég að setjast niður og rýna nokkuð gaumgæfulega í afrekaskrá stjórnvalda á þessu kjörtímabili og útbúa lítinn spurningaleik fyrir alla; sem þó er ekki tæmandi fyrir þann árangur sem náðst hefur. Nú mæli ég með því að þú, ágæti lesandi, sækir blað og penna og merkir X fyrir framan þann bókstaf sem þú telur geyma rétta svarið. Líkt og í knattspyrnunni eru 3 stig í boði fyrir hvert rétt svar, í heildina heil 18 stig. Gangi þér vel.

Spurning #1

Fæðingarorlof í heilt ár. Hvaða flokkur lengdi fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækkaði greiðsluhámark úr 370 þúsund krónum í 600 þúsund krónur?

__A Viðreisn 

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #2

Auðveldari fyrstu íbúðakaup. Hvaða flokkur innleiddi sérstök hlutdeildarlán (einungis 5% útborgun), sem nýja leið fyrir ungt fólk og tekjuminni, til að eignast þak yfir höfuðið?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #3

Nýr menntasjóður. Hvaða flokkur setti á fót nýjan menntasjóð sem er með hærri framfærslu, möguleika á 30 % niðurfellingu höfuðstóls, val um óverðtryggð lán og beinan fjárstuðning við foreldra í námi?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #4

Loftbrúin brúar bilið. Hvaða flokkur innleiddi sérstaka Loftbrú (40% afsláttur af flugfargjaldi þrisvar sinnum á ári); aðgerð til að brúa bilið milli þeirra sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem búa næst þjónustunni sem þar er að finna?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #5

Bylting í málefnum barna. Hvaða flokki tókst að skapa breiða sátt um byltingu í málefnum barna, sem síðar skilaði sér í tímamótalöggjöf vorið 2021 sem tryggir að barnið sé hjartað í kerfinu?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #6

Samgöngusáttmálinn. Hvaða flokki tókst að rjúfa áratuga kyrrstöðu í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu með samkomulagi ríkisins og sex sveitarfélaga sem þar eru?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Höldum áfram að fjárfesta í fólki

Leikinn væri hægt að lengja umtalsvert en látum þetta duga í bili enda einungis til gamans gert. Hér má sjá, svo ekki verði um villst, að áherslur Framsóknar á kjörtímabilinu og í ólgusjó Covid, hafa verið að fjárfesta í fólki og innviðum í íslensku samfélagi. Engin kyrrstaða, bara framfarir. Ég vona að þér hafi gengið vel í leiknum og sért með fullt hús stiga. Rétt svar var X fyrir framan B í öllum tilfellum. Ég vil meina að það sé líka hið eina rétta svar á kjördag, þann 25. september næstkomandi. Nú sem fyrr er mikilvægt að halda áfram á veg samvinnu og skynsamlegra lausna. Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Ágúst Bjarni Garðsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2021.

Categories
Greinar

Jákvæð áhrif samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Deila grein

02/09/2021

Jákvæð áhrif samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Stuttu eft­ir að ég tók til starfa sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra blossaði #églíka-bylt­ing­in upp, bet­ur þekkt sem #met­oo. Kyn­ferðis­leg áreitni og of­beldi er sam­fé­lags­mein, og hug­rakk­ir hóp­ar ein­stak­linga stigu fram, sögðu sög­ur sín­ar og vöktu okk­ur öll til um­hugs­un­ar. Kon­ur í íþrótta­hreyf­ing­unni létu einnig há­vært í sér heyra, og ég boðaði full­trúa þeirra strax á fund til að ræða mögu­leg­ar aðgerðir til úr­bóta.

Í kjöl­farið skipaði ég starfs­hóp sem vann bæði hratt og ör­ugg­lega til að tryggja að raun­veru­leg­ur ár­ang­ur næðist. Öryggi iðkenda og annarra þátt­tak­enda var sett í önd­vegi við alla vinnu hóps­ins sem taldi mik­il­vægt að til­lög­urn­ar næðu einnig til æsku­lýðsstarfs utan skóla. Hóp­ur­inn skilaði afar grein­argóðu yf­ir­liti og gagn­leg­um til­lög­um sem við unn­um áfram, og út frá þeim til­lög­um lagði ég síðan fram ný lög um sam­skiptaráðgjafa íþrótta- og æsku­lýðsstarfs.

Mark­miðið var að bjóða upp á ör­uggt um­hverfi þar sem börn, ung­ling­ar og full­orðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geta stundað íþrótt­ir eða æsku­lýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða rétt­ar síns vegna kyn­ferðis­legr­ar áreitni og of­beld­is sem þar koma upp án ótta við af­leiðing­arn­ar.

Sam­skiptaráðgjaf­inn tók til starfa í fyrra og þar er öll­um ábend­ing­um um einelti, áreitni og of­beldi tekið al­var­lega og þær kannaðar, öll mál eru unn­in eft­ir ákveðnu verklagi með trúnað og skiln­ing að leiðarljósi. Auk þess get­ur sam­skiptaráðgjafi veitt fé­lög­um og sam­tök­um leiðbein­ing­ar varðandi slík mál og ger­ir til­lög­ur til úr­bóta þegar við á. Á fyrsta starfs­ár­inu fékk sam­skiptaráðgjaf­inn 24 mál á sitt borð, þar af átta tengd kyn­ferðis­legri áreitni eða of­beldi. Mik­il­vægi ráðgjaf­ans er því byrjað að sanna sig.

Íþrótta­hreyf­ing­in er mik­il­vægt afl í ís­lensku sam­fé­lagi. Þar fer fram öfl­ugt starf á hverj­um degi, sem styrk­ir og mót­ar ein­stak­linga á öll­um aldri. For­varn­ar­gildi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs er ótví­rætt. Því er brýnt að til staðar séu skýr­ir ferl­ar, virk upp­lýs­inga­gjöf og hlut­leysi í mál­um af þess­um toga, sem oft eru viðkvæm og flók­in. Þessi lög voru tíma­móta­skref, sem sendu skýr skila­boð um að áreitni og of­beldi sé ekki liðið í íþrótta- og æsku­lýðsstarfi. Það hef­ur jafn­framt glatt mig í þessu ferli hve vel for­ysta ÍSÍ og UMFÍ hef­ur unnið með okk­ur, og það eru all­ir á sömu blaðsíðunni; að upp­ræta þessa mein­semd og bæta um­hverfi íþrótta- og æsku­lýðsstarfs á Íslandi.

Enn í dag er ég gríðarlega þakk­lát þeim þolend­um sem stigið hafa fram. Þeirra hug­rekki hef­ur skilað var­an­leg­um breyt­ing­um sem ég er sann­færð um að muni styrkja íþrótta- og æsku­lýðsstarf um land allt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2021.

Categories
Greinar

Sitt er hvað, sam­vinna og sam­vinna

Deila grein

01/09/2021

Sitt er hvað, sam­vinna og sam­vinna

Hann er um margt áhugaverður, skyndilegur áhugi Gunnars Smára Egilssonar forsprakka Sósíalista á samvinnunni og uppruna Framsóknar. Og eflaust er Gunnar Smári sammála mér um það að samvinna er grundvöllur allra framfara. Það er hins vegar sitt hvað, samvinna Framsóknar og samvinna Sósíalista.

Mér þótti það áhugavert þegar Gunnar Smári tók sósíalíska trú fyrir skemmstu og hefði fyrir tveimur árum síðan ekki getað sagt fyrir um það að Sósíalistar yrðu haustið 2021 að mælast í könnunum með þingmenn inni á Alþingi Íslendinga.

Samvinna frjálsra íslenskra bænda

Gunnar Smári finnur að því að Framsókn hafi þroskast með árunum, en Framsókn er orðin rúmlega aldargömul. Rætur Framsóknar er að finna í samvinnuhreyfingunni sem Gunnar Smári telur vera sósíalíska. Það má svo sem teygja það svo til að það sé eitthvað til í því en eðli þeirrar hreyfingar bænda sem kaupfélögin urðu til úr snerist ekki um sósíalisma eins og við þekkjum hann heldur um það að bændur tóku höndum saman til að bæta kjör sín. Þeir stofnuðu með sér kaupfélög til að geta einbeitt sér að ræktuninni. Bændur lögðu dilka sína inn í kaupfélögin sem sáu jafnan um að slátra, vinna og selja vörur bændanna. Svipaða sögu er að segja af mjólkinni. Einhverjir myndu sjá í þessu einhvern kapítalískan þráð. Það styður líka við það sem ég hef sagt um að Framsókn, samvinnan og framtíðin eigi sér lögheimili og varnarþing á miðju stjórnmálanna. Hugsjón samvinnuhreyfingarinnar var sterk og er sterk og kaupfélög frjálsra íslenskra bænda eiga ekkert sameiginlegt með samyrkjubúum Sovétsins.

Samvinnuhreyfingin er sterk alþjóðleg hreyfing enn í dag. Í Bandaríkjunum, til að mynda, er stór hluti raforkuflutningskerfisins rekinn af samvinnufélögum. Í Bretlandi eru sterk samvinnufélög sem reka verslanakeðjur, flutningafyrirtæki og fleira.

Draumur úr svefni fortíðar

Oddviti Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður er skeleggur maður og oft gaman að hlusta á hann halda sínar eldræður. Það er ekki síst þegar maður þekkir lítið til málaflokkanna sem manni þykir hann sannfærandi. En þegar hann talar um stjórnmál er eins og hann hafi lent í tímavél. Auðvitað þroskast stjórnmálin með tímanum og miðjan færist í róti samfélagsins, líkt og jaðrarnir til hægri og vinstri. Það sem felst í því að vera miðjuflokkur eins og Framsókn er að við höfnum þessum öfgum og trúum á raunverulega samvinnu sem leiðir okkur að niðurstöðu sem er til hagsbóta fyrir almenning. Sú bylting sem Sósíalistaflokkurinn boðar er hins vegar eins og draumur úr svefni fortíðar sem flestir hafna vaknað af – en því miður ekki allir.

Það vildi ég að sósíalisminn hefði þroskast með tímanum eins og stefna Framsóknar. Samfélagið hefur nefnilega tekið jákvæðum stakkaskiptum frá því í upphafi síðustu aldar. Fátt er það í fortíðinni sem stenst kröfur nútímans, allra síst þau lífsgæði sem voru almenn fyrir miðja síðustu öld. Það er nefnilega þannig að á öllum mælikvörðum er Ísland í efstu sætum þegar kemur að lífsgæðum; á öllum mælikvörðum nema á mælikvarða nostalgíunnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. september 2021.

Categories
Greinar

Pappa­r­ör og pólitík

Deila grein

31/08/2021

Pappa­r­ör og pólitík

Eftir að hafa heyrt mikið talað um kolsvarta loftslagsskýrslu síðustu daga skynjar maður alvarleika málsins. Hvert og eitt okkar þarf að leggja sitt af mörkum. Vissulega er hver einstaklingur bara dropi í hafið, en margt smátt gerir eitt stórt og betur má ef duga skal. Ég er einn af eigendum Extraloppunnar sem er lítið og grænt fyrirtæki staðsett í Smáralindinni. Fyrirtæki sem vinnur að umhverfismálum og sýnir samfélagslega ábyrgð þegar kemur að endurnýtingu og minnkun kolefnisspora. Í hvert sinn sem þú kaupir notaðar vörur í stað nýrra minnkar þú koltvísýringsmengun að því er nemur framleiðslu og því flytja vöruna á áfangastað.

Breytt hugsun

Við þurfum og við erum að breyta neysluvenjum og hugsunarhætti fólks. Þegar Extraloppan var stofnuð fannst mér það vera lykilatriði. Landsmenn hafa tekið okkur betur en nokkurt okkar þorði að vona. Hringrásin hefur skapast og alltaf fleiri og fleiri ákveða að hefja leitina af því sem vantar, hjá okkur. Um það snýst málið, að við gefum þeim hlutum og fatnaði sem við hyggjumst ekki nota lengra líf og kaupum svo notaða hluti sem bíða þess að fá nýjan eiganda.

Hvað hefur sparast?

Systurfyrirtæki Extraloppunnar, Barnaloppan, fékk umhverfisverkfræðinga hjá Eflu til þess að reikna fyrir sig kolefnisspor sem hafa sparast með tilkomu verslunarinnar frá 2018-2019. Niðurstaðan er sláandi, rúm 5.000 tonn höfðu sparast í losun koltvísýrings sem jafnast á við 2.500 bíla á einu ári og ætla má að Extraloppan sé með svipaðar tölur. Frá opnun Extraloppunnar árið 2019 hafa selst yfir 400.000 vörur ef við reiknum þetta til dagsins í dag þá eru þetta um 12 – 15.000 tonn sem jafnast á við 6-7.000 bíla á ári.

Að endurnýta og endurvinna

Á heimsvísu er áætlað að textílneysla hvers jarðarbúa sé um 11 kg og að textíliðnaðurinn valdi um 8% gróðurhúsaáhrifa á jörðinni. Það fara t.d. um 6-8 þúsund lítrar af vatni í að framleiða bómul í einar gallabuxur. Sú aðgerð sem dregur hvað mest úr þessum áhrifum er að endurnýta og endurvinna.

Breytingar til hins betra

Við þurfum öll að vera meðvituð. Auðvitað finnst okkur öllum skrítið að drekka kókómjólkina með papparöri og það er í eðli mannsins að finnast breytingar erfiðar. Hér áður fyrr flokkuðum við ekki rusl og einu sinni settum við allt í litla plastpoka í grænmetisdeildinni en við venjumst öllu og furðu hratt eins og heimsfaraldurinn hefur sýnt og sannað. Öll þessi litlu skref eru skref í átt að hreinni jörð fyrir okkur og afkomendur okkar. Margt smátt gerir eitt stórt, og stjórnvöld verða því að örva og hvetja atvinnulífið til þess að leggja sitt af mörkum. Atvinnulífið verður að sjá hag sinn af því að taka þátt. Slíkt er hægt t.d. með hagrænum hvötum eða skattaívilnunum. Leiðin þarf að vera markvissari og skilvirkari. Nýsköpun og verðmætasköpun í loftslagsmálum verður að vera í forgrunni.

Það er nefnilega þannig að auðlindir heimsins eru ekki ótakmarkaðar og endurnýting á framleiddum vörum hlýtur að vera af hinu góða fyrir bæði neytendur og umhverfið. Með því að standa í stað munum við ekki ná árangri, en með því að sækja fram og hvetja fólk og fyrirtæki áfram með okkur eru okkur allir vegir færir.

Brynja Dan Gunnarsdóttir, er í 2. sæti lista Framsóknarflokksins í Reykjavík norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2021.