Categories
Greinar

Getum við dreift störfum um landið eins og saltkornum úr bauk?

Deila grein

22/01/2022

Getum við dreift störfum um landið eins og saltkornum úr bauk?

Stutta svarið við þessari spurningu er já og þangað stefnum við ótrauð.

Í nýjum stjórnarsáttmála kemur fram að sett verði markmið um hlutfall opinberra starfa utan höfuðborgarsvæðisins, en stefnan er að störf hjá ríkinu verði ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega. Ég veit að margir fagna, enda mikil lífsgæði fólgin í því að búa í því byggðarlagi þar sem fólki líður best. Það er stefna stjórnvalda að fólk eigi raunverulegt val um hvar þar býr og hvar þar starfar.

Stjórnarsáttmálinn styður við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu. Lögð er áhersla á að styðja við frjótt umhverfi um allt land. Það er hagur samfélagsins alls að í hverju byggðarlagi búi fólk með ólíka þekkingu og færni. Þar geta grónar atvinnugreinar dafnað við hlið nýrra starfa, samfélög vaxið og ný tækifæri orðið til.

Blanda má staðbundnum verkefnum og fjarvinnu

Staðbundin störf eru hvers konar umönnun, eftirlits-, þjónustu- og afgreiðsluverkefni sem krefjast samskipta í sama rými. Mörg þessara starfa er þó ekki bundin tilteknum stað heldur tilteknu landsvæði og þau geta flust á milli staða eftir búsetu starfsmanns. Við skilgreiningu staðbundinna starfa getur verið gagnlegt að skipta störfunum í nokkra flokka:

  • Blanda staðbundins hlutastarfs og fjarvinnu.
  • Starf bundið tilteknu landsvæði en hægt að vinna hvar sem er á viðkomandi svæði.
  • Verkefni sem mögulegt er að flytja til stofnana, útibúa eða lögaðila víða um land.
  • Starf sem hægt er að vinna hvaðan sem er óháð staðsetningu.

Fyrsta spurningin varðandi öll opinber verkefni ætti alltaf að vera hvort til staðar sé verkefni í dreifðri byggð sem betra væri að leysa með blöndu af staðbundnum verkefnum og fjarvinnu. Er starfsmaðurinn sem er hæfastur í verkið kannski þegar í starfi hjá opinberum aðila? Slík nálgun gæti sparað opinberum aðilum fé, í vinnuaðstöðu og ferðalög.

Fyrst þarf að skilgreina störfin

Sérhæfð störf og opinber verkefni geta svo sannarlega dreifst um landið með fjarvinnu óháð búsetu. Það er þó engan veginn sama hvernig við skilgreinum staðbundin störf. Þar þarf algerlega að snúa hugsuninni við frá því sem almennt hefur tíðkast. Það þarf að byrja á því að skilgreina störf sem eru staðbundin í dreifbýlustu samfélögunum en ekki öfugt. Störf þar sem hægt er að nota fjarvinnu til að efla og styrkja þjónustu sem eðlilegt er að dreifist um landið.

Fyrst er mikilvægt að greina opinber verkefni sem krefjast viðveru starfsmanna á tilteknum stað á landinu án þess að þörf sé á fullu starfi. Þarna býður tæknin upp á ótal tækifæri til þess að skapa eftirsóknarverð störf þar sem staðbundin þjónusta væri tryggð og viðkomandi starfsmaður nýtir vinnuaðstöðu við að leysa fleiri verkefni.

Það eru til mörg dæmi um lausnir af þessu tagi. Til dæmis hefur starfsmaður Sýslumannsins á Norðurlandi eystra á Þórshöfn lokið rafrænni skönnun fjölskyldumála á landsvísu samhliða því að þjónusta íbúa Langnesbyggðar. Hjúkrunarfræðingurinn á Borgarfirði eystra sinnir símaþjónustu og fleiri verkefnum hjá HSA frá Borgarfirði eystra og smærri framhaldsskólar hafa lengi nýtt fjarkennslu til að miðla sérhæfðri þekkingu milli skóla.

Starfstöðvaklasar eða samvinnuhús

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur einnig fram að styðja eigi uppbyggingu starfsstöðvaklasa. Ýmsar áskoranir fylgja flutningi starfa. Ein þeirra er aðgengi að aðlaðandi vinnuumhverfi og vinnuaðstöðu. Til að mæta þeirri áskorun hefur starfstöðvaklösum eða samvinnuhúsum verið komið upp víða, og annars staðar er slík aðstaða í undirbúningi. Þar eru starfstöðvar, útibú eða aðstaða fyrir stök störf hjá opinberum eða einkaaðilum. Byggðastofnun hefur tekið saman upplýsingar um slíka aðstöðu og sett fram á sérstöku korti. Á kortinu eru nú um 100 mögulegar starfsstöðvar og uppbygging samvinnuhúsa á að verða hluti af byggðaáætlun.

Horfum til framtíðar

Leiðarstefið birtist í stjórnarsáttmálanum, og ég hlakka til að fylgja því eftir í mínum störfum á Alþingi á kjörtímabilinu. Ef rétt er á málum haldið geta sett markmið valdið straumhvörfum í rekstri opinberra verkefna og byggðaþróun. Það þarf stefnu og aðgerðir, þekkingu og tækni, en stærsta verkefnið er að breyta hugsun og menningu þeirra sem ákveða hvar störf eru unnin. Það þarf fólk til að færa störf.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. janúar 2022.

Categories
Greinar

Það vorar og veiran veikist

Deila grein

22/01/2022

Það vorar og veiran veikist

Í upp­hafi árs 2020 fóru að ber­ast frétt­ir af því að heims­far­ald­ur væri yf­ir­vof­andi vegna skæðrar veiru. Nokkuð sem við átt­um svo sann­ar­lega ekki von á. Síðan eru liðin tvö ár. Það er óhætt að segja að við höf­um farið hæðir og lægðir í far­aldr­in­um. Nú erum við stödd á enn ein­um toppn­um, sem virðist vera og er von­andi hæst­ur en ekki verst­ur. Stjórn­völd fengu óvænt það öfl­uga verk­efni í fangið að bregðast við af­leiðing­um far­ald­urs­ins með marg­vís­leg­um hætti. Í upp­hafi var tek­in sú skyn­sam­lega ákvörðun að fylgja sér­fræðing­um í sótt­varnaaðgerðum, það var okk­ar gæfa.

Rétt­ar sótt­varnaaðgerðir

Við sjá­um það nú að með því að fylgja sér­fræðing­um náðum við að halda heil­brigðis­kerf­inu það öfl­ugu að það hélt í við veiru­skömm­ina. Ég ætla ekki að leyfa mér að hugsa til þess hvernig ástandið væri ef okk­ur hefði ekki tek­ist það. Í því sam­hengi get­um við litið til annarra þjóða sem börðust í bökk­um þrátt fyr­ir öfl­ugt heil­brigðis­kerfi. Í Banda­ríkj­un­um voru á þessu tíma­bili fleiri lík­geymslugám­ar fyr­ir utan sjúkra­hús í New York en bíl­ar starfs­manna. Fólk hér á landi ger­ir sér kannski ekki al­mennt grein fyr­ir því að heil­brigðis­stofn­an­ir víða um Ísland voru með plön um hvar ætti að geyma lík­in. Við get­um þakkað fyr­ir að sú sviðsmynd raun­gerðist ekki.

Eitt það mik­il­væg­asta er að okk­ur hef­ur tek­ist að halda skól­um lands­ins opn­um. Sér­fræðing­ar eru þegar farn­ir að tala um að langvar­andi sótt­kví og aðskilnaður frá skóla geti haft nei­kvæð áhrif á náms­ár­ang­ur barna og and­lega líðan. Hvernig ætli staðan sé hjá þeim börn­um víða er­lend­is sem voru skikkuð heim í marga mánuði, og eru jafn­vel nú, tveim­ur árum seinna, að sækja skóla tak­markað?

Aðgerðir á aðgerðum ofan

Veir­an hef­ur boðið upp á marg­vís­leg verk­efni og enn blæs úr öll­um átt­um. Stjórn­völd hafa borið gæfu til að leggja fram efna­hags­leg­ar mót­vægisaðgerðir til að minnka þau efna­hags­legu áhrif sem heims­far­ald­ur­inn hef­ur hrundið af stað. Stjórn­völd hafa þurft að hugsa hratt og bregðast við, þær aðgerðir sem stjórn­völd hafa lagt fram telja á þriðja tug. Þær fela í sér stuðning við rekstr­araðila vegna ófyr­ir­séðs tekju­falls, aðgerðir til að örva eft­ir­spurn, aðgerðir til að viðhalda ráðning­ar­sam­bandi og skapa störf, aðgerðir til að varðveita kaup­mátt heim­ila og ekki síst vernd­un viðkvæmra hópa.

Í haust var lagt mat á ár­ang­ur af þess­um aðgerðum. Var það mat sér­fræðings að hag­stæð skuld­astaða rík­is­sjóðs, hag­kvæmt sam­spil pen­inga­stefnu og rík­is­fjár­mála og aðgerðir stjórn­valda hefðu mildað áhrif heims­far­ald­urs­ins á efna­hags­lífið sem end­ur­spegl­ast í hratt minnk­andi at­vinnu­leysi.

Jaka­hlaup

Að standa í stafni og taka ákv­arðanir í þessu ástandi má líkja við jaka­hlaup, erfitt er að taka lang­tíma­ákv­arðanir. Þegar fót­un­um er náð á einn jaka þarf að ákv­arða hvaða jaka skal stefnt á næst. Það eru næg verk­efni fram und­an að fást við eftir­köst veirunn­ar, geðheilsu þjóðar­inn­ar og áfram­hald­andi upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs og efl­ingu sam­fé­lags­ins.

Við erum orðin lúin eft­ir þenn­an tíma. En við verðum að halda áfram veg­inn ásamt því að halda okk­ur við skyn­sam­leg­ar sótt­varnaaðgerðir og ár­ang­urs­rík­ar efna­hags­leg­ar aðgerðir. Við meg­um held­ur ekki gleyma því að brosa. Það vor­ar og veir­an gef­ur eft­ir, það er ekki í boði að gef­ast upp núna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar 2022.

Categories
Greinar

Stöðvum of­beldi

Deila grein

21/01/2022

Stöðvum of­beldi

Í dag mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál. Um er að ræða endurflutning en Silja Dögg Gunnarsdóttir fyrrverandi þingmaður Framsóknar hefur lagt málið tvisvar áður fram. Hér er um að ræða samfélagslega mikilvægt mál sem mér finnst brýnt að komist í gegnum þingið. Hver einstaklingur á að geta lifað frjáls og notið lífsins. Enginn á að þurfa að búa við ofbeldi en engu að síður eru fjölmargir einstaklingar sem búa við daglegt ofbeldi á heimilum sínu. Heimilum sem ættu öllu jafna að vera griðastaður hvers einstaklings.

Heimilisofbeldi í vexti

Frá því Ríkislögreglustjóri opnaði vefgátt Neyðarlínunnar vegna ofbeldis hafa að meðaltali 235 manns heimsótt hana á dag. Samkvæmt tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra er algengt að fólk lesi sér til um andlegt ofbeldi og að ungt fólk afli sér upplýsinga um ofbeldi. 600 sinnum hefur heimsókn í vefgáttina leitt til netspjalls við viðbragðsaðila. Tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu sjö árum sem og tilkynningum til barnaverndarnefnda vegna heimilisofbeldis.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að líkja má aðstæðum barns sem býr við heimilisofbeldi við aðstæður barns sem býr á stríðshrjáðu svæði. Þá eru þolendur ofbeldis fjórum sinnum líklegri að glíma við geðröskun en þeir sem ekki hafa upplifað ofbeldi. Mikilvægt er að löggjafinn standi með þessum einstaklingum og geri allt sem í hans valdi stendur til þess að verja þolendur heimilisofbeldis.

Hið opinbera þarf að bregðast við

Í þingsályktunartillögunni sem nú liggur fyrir er lagt til að Alþingi feli innanríkisráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda.

Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft að tilkynna lögreglu um ofbeldi. Þess vegna er brýnt að þeir aðilar sem starfa náið með íbúunum geti tekið frumkvæði að því að grípa inn í með viðeigandi hætti. Þó verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi reynst vel og tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld, er ljóst að formfesta þarf samstarfið í hina áttina, þ.e. milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari forvirkar lagaheimildir til upplýsingamiðlunar.

Okkar er ábyrgðin

Ég bind einlægar vonir við Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu. Löggjafinn þarf að standa með þolendum heimilisofbeldis, stjórnvöld eiga að geta gripið inn í aðstæður án þess að brotaþoli þurfi að vera þátttakandi í aðgerðum. Við verum að geta stöðvað ofbeldi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2022.

Categories
Greinar

Í ólgusjó faraldurs

Deila grein

21/01/2022

Í ólgusjó faraldurs

Hver hefði trúað því að við stæðum enn í sama brimskaflinum nú í upphafi árs 2022 vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Undirritaður var fullur bjartsýni síðastliðið sumar þegar bólusetningar stóðu sem hæst, að nú væri þessari vegferð að ljúka. Því miður var sú ekki raunin. Við getum þó verið nokkuð bjartsýn að það fari að hylla undir lok faraldursins; veiran virðist vera að gefa eftir ef svo má segja. Sífellt færri veikjast og færri leggjast inn á spítala með alvarleg veikindi. Við getum vissulega einnig þakkað bólusetningum fyrir þessa góðu stöðu.

Erfið staða

Veitingaaðilar hafa staðið frammi fyrir mjög erfiðri stöðu undanfarin tvö ár. Þrátt fyrir það þá held ég að ekki nokkrum manni hafi dottið það í hug eða ætlast til þess yfir höfuð að fá allt tekjutap þessa tímabils að fullu bætt. Hins vegar er staðan þannig að mörgum fyrirtækjum í þessum atvinnugeira hefur blætt verulega þetta tímabil og eigið fé að verða uppurið og jafnvel gengið á sparifé eigenda margra fyrirtækja vegna íþyngjandi aðgerða sem hafa komið hart niður á þeim. Fyrirtækin finna verulega fyrir takmörkunum sem í gildi hafa verið en á bak við þau, eins og önnur fyrirtæki í landinu, eru einstaklingar og fjölskyldur með allar sínar skuldbindingar og mörg hver lagt allt undir til að halda rekstrinum gangandi. Þetta á vissulega við um margar aðrar atvinnugreinar í gegnum faraldurinn.

Við munum koma til móts við þessa atvinnugrein og ákveðið hefur verið að grípa til sérstakra aðgerða til þess að mæta fyrirtækjum í veitingarþjónustu. Þessar aðgerðir fela meðal annars í sér heimild til þess að fresta staðgreiðslu skatta og tryggingargjalds og framlengja umsóknarfrest vegna almennra viðspyrnustyrkja fyrir nóvember 2021. Nú eru komnar fram frekari tillögur og ég fagna þeim, því það er mikilvægt að við bregðumst hratt og örugglega við.

Styrkur til veitingastaða

Fyrir þinginu liggur frumvarp til laga um styrki til rekstraraðila veitingastaða sem hafa sætt takmörkunum á opnunartíma. Þar er lagt til að rekstraraðilar veitingastaða með vínveitingaleyfi sem hafa þurft að sæta skerðingu á opnunartíma og hafa orðið fyrir minnst 20% tekjufalli í almanaksmánuði frá desember 2021 til mars 2022 vegna takmarkananna geti fengið styrk til að mæta rekstrarkostnaði á tímabilinu. Lagt er til að styrkurinn geti numið 90% af rekstrarkostnaði þann almanaksmánuð sem umsókn varðar. Samanlagðir styrkir til einstakara rekstraraðila geta orðið 10 til 12 millj. kr. Efnahags- og viðskiptanefnd er nú með málið til umfjöllunar og mun rýna allar útfærslur vel. Það er hins vegar staðföst trú mín að frumvarpið sé gott, en um leið og brýnt er að bregðast hratt við, þarf að vanda þarf vel til verka.

Með hækkandi sól

Við þurfum að komast í gegnum þetta saman, ég mun reyna að leggja mitt af mörkum með að kalla eftir úrræðum og greiða leið þeirra í gegnum þingið. Ég ber þá von í brjósti mér að þetta verði síðasti veturinn sem við þurfum að grípa til úrræða vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Það er janúar, febrúar handan við hornið og áður en við vitum sitjum við í sólinni og tökum fagnandi á móti bjartari tímum.

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður fyrir Framsókn og 1. varaformaður Efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2022.

Categories
Greinar

Farðu var­lega, það gæti komið snjó­flóð

Deila grein

19/01/2022

Farðu var­lega, það gæti komið snjó­flóð

Þorrinn er á næsta leiti með öllum sínum tilbrigðum í veðri sem okkur býðst á þessu landi. En það þarf ekki þorrann til að vá liggi yfir á vegum landsins. Í þessari viku urðu öfgar í veðrabrigðum þess valdandi að vegir um Súðavíkur- og Eyrarhlíð lokuðust vegna snjóflóða. Lokunin um Súðarvíkurhlíð stóð yfir í 14 klukkustundir. Þar á undan hafði verið viðvörun vegna snjóflóðahættu í tvo sólarhringa. Þegar veginum var lokað síðastliðið sunnudagskvöld urðu 25 manns veðurtepptir í Súðavík. Súðvíkingar eru þekktir fyrir taka vel á móti fólki í þessum aðstæðum en það er þó ekki auðvelt sérstaklega á tímum samkomutakmarkanna.

Það má segja að Vestfirðingar séu orðnir vanir öðru eins í gegnum árin en þrátt fyrir það er grundvallarþörf þess samfélags sem við erum búin að hanna greiðar samgöngur. Kröfur um enn meiri samvinnu í samfélögum krefjast betri og öruggari samgangna. Gríðarlegar samgöngubætur hafa orðið á Vestfjörðum, þá sérstaklega á norðanverðu svæðinu. Mikil aukning hefur orðið á vetrarþjónustu sl. áratugi en úrbóta er enn þörf. Sér í lagi þegar frekari uppbygging atvinnulífs við Djúp eru fyrirhugaðar, bæði í laxeldinu og á vinnslu kalkþörunga í Súðavík.

Jarðgöng er lausnin

Það er ljóst að það þarf að ráðast í jarðgangnaframkvæmdir milli Súðavíkur og Ísafjarðar, aðeins þannig er hægt að tryggja öryggi vegfarenda. Það er ekki bara lokun vegarins sem skapar vanda heldur eru oft í gildi óvissustig, þá falla snjóflóð utan lokana sem og grjóthrun. Það ber þó að taka fram að vöktun á hættunni hefur aukist og orðið betri. Þrátt fyrir að vegfarendur pirri sig á lokunum, þá er gott að vita af því að fylgst er vel með þegar hættuástand skapast og brugðist við því. Það vill enginn að slys verði á veginum.

Uppbygging samfélaga

Samgöngubætur og greiðar samgöngur er grunnur fyrir uppbyggingu og þéttingu samfélaga. Það er gríðarlega mikilvægt að skoða hugmyndir um jarðgöng milli byggðakjarna á Vestfjörðum af fullri alvöru. Á Vestfjörðum býr fólk sem sækir vinnu daglega milli svæða, fólk sem vinnur m.a. við fiskeldi en það skilar þjóðarbúinu milljarða í útflutningstekjur. Svo að þessi atvinnugrein sem og aðrar á svæðinu haldi áfram að skila tekjum til þjóðarinnar þá þurfa að vera til staðar skilvirkar, öruggar, heilsárs samgöngur. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að huga að jarðgöngum frá Patreksfirði yfir í Tálknafjörð og undir Hálfdán.

Við þurfum að horfa til framtíðar, fleiri jarðgöng eru og eiga að vera möguleg. Mikilvægt er að um þau sé kveðið í samgönguáætlunum næstu ára. Ég get lofað ykkur því að jarðgöng koma til með að borga sig á margan hátt.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. janúar 2022.

Categories
Greinar

Allir landshlutar sækja fram

Deila grein

18/01/2022

Allir landshlutar sækja fram

Rétt fyrir áramótin voru fyrstu fjárlög nýrrar ríkisstjórnar samþykkt á Alþingi. Þar má finna mörg jákvæð mál sem gefa tilefni til bjartsýni inn í nýja árið. Meðal þeirra mála má sérstaklega nefna að samþykkt var 100 milljóna króna styrking á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta.

Mikilvægi sóknaráætlana landshluta er óumdeilt, og umrædd styrking samræmist efni nýs stjórnarsáttmála. Þar kemur fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana allra landshluta.

Uppbygging heima fyrir

Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki í eflingu nýsköpunar og menningarstarfs á landsbyggðinni. Þessar sóknaráætlanir hafa nú þegar sannað sig. Þær hafa stuðlað að því að fjármunir nýtast hratt og á áhrifaríkan hátt í öflugri byggðaþróun. Í hverjum samráðsvettvangi fyrir sig eru fengnir fulltrúar frá því svæði sem hver áætlun varðar. Þar fá heimamenn að viðra sínar áherslur og uppbygging fer fram í takt við þær. Það er mikilvægt, enda vita fáir betur en heimamenn hvað vænlegast er til árangurs á sínu svæði.

Mikilvæg verkefni

Hér fyrir okkur, heimamenn í Norðausturkjördæmi, standa mikilvæg verkefni. Tækifærin til frekari uppbyggingar bæði hvað varðar menningu og atvinnu eru heldur betur til staðar. Með auknum fjárstuðningi til sóknaráætlana landshluta stuðlum við að frekari framsókn á Austurlandi og Norðurlandi eystra, þar sem fjármagnið er nýtt í takt við áherslur heimamanna.

Frekari efling og uppbygging flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, þróun þekkingarsamfélagsins á Austurlandi og NÍN (Nýsköpun í norðri) verkefnið eru dæmi um áhersluverkefni sóknaráætlana landshluta. Þessi verkefni, ásamt fleirum, stuðla að fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum í Norðausturkjördæmi, og gerir svæðin meira aðlaðandi fyrir íbúa kjördæmisins sem og einstaklinga sem hafa hug á því að flytja hingað.

Framsækni um allt land

Það er ánægjulegt að hafa fengið að kjósa með auknum fjárstuðningi til sóknaráætlana landshluta. Þessar áætlanir boða frekari sókn um allt land. Slíkar aðgerðir ríma vel við áherslur Framsóknar um öfluga byggðastefnu og velsæld um alla landshluta. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga. Þannig tryggjum við aukin gæði um allt Ísland.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 17. janúar 2022.

Categories
Greinar

Að vera manneskja

Deila grein

17/01/2022

Að vera manneskja

Ég hef átt mörg samtöl við dóttur mína sem er 15 ára um andlegt heilbrigði og líðan. Samtöl sem hafa leitt til umræðu um almenna líðan ungs fólks og hugmynda um væntinga til lífsins, hamingju og hvað það er að vera manneskja. Það er ótal margt sem hefur áhrif á börn og unglinga og þannig hefur það alltaf verið.

Sérstaklega hraðar og stöðugar breytingar hafa verið í umhverfi unglinga síðustu ár m.a. í tengslum við samfélagsmiðla og þróun samfélagsins. Áskoranirnar eru alltaf að verða flóknari og fjölbreyttari. Þrátt fyrir mikið flæði upplýsinga sem hefur vissulega sína jákvæðu hliðar þá er það mikil áskorun fyrir þennan hópa að sigta út og sortera áreitið og upplýsingarnar.

Ég leyfi mér að fullyrða að allar manneskjur glíma við á einhverjum tíma kvíða, hugsanavillur, depurð eða streitu. Þetta er einfaldlega partur af lífinu eins og fullorðið fólk þekkir. Því fannst mér mjög eðlilegt þegar dóttir mín spurði mig, af hverju það væri einblínt á kennslu og bækur um starfsemi líkamans sem snéri að vöðvum, hjarta, beinum, blóðrás o.þ.h í skólum en ekki því sem snéri að því, að vera manneskja ?

Það er eilífðar bras að vera manneskja það þekkjum við öll. Lífið gefur og tekur, vindurinn ekki alltaf mildur og dalirnir og topparnir misjafnlega krefjandi og margir.

Hvaða er í nesti í skólanum?

Það sem skiptir höfuð máli er, hvernig við erum í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem við mætum í lífinu og hvernig við getum stutt annað fólk. Undirbúning að þessu ferðalagi lífsins þarf að hefjast snemma og fræðslan þar að taka mið af þörfum og þroska unglinga.

Við verðum einfaldlega að huga því að endurskoða aðalnámsskrá grunnskóla að þessu leiti og nesta börnin okkar, færa þeim viðeigandi þekkingu til að hlúa að andlegri heilsu. Hjálpa þeim að þekkja þessar eðlilegu áskoranir sem við öll þurfum að takast á við, vinna með hugsanir sínar, sjálfsmynd og líðan.

Í aðalnámskrá grunnskóla er alls ekki vel tekið utanum þetta. Nauðsynlegt er að huga að þessu markvisst innan skólakerfisins til að koma til móts við þessa brýnu þörf. Kennsla á hugrænni atferlismeðferð HAM, væri sem dæmi aðferðarfræði sem mætti huga að því að kenna börnum að tileinka sér. Áherslur sem þessar munu án efa gagnast þeim út lífið.

Andlegt heilbrigði er ein grundvallar forsenda fyrir því að einstaklingurinn geti nýtt til framtíðar aðra færni og nám. Fræðsla sem þessi mun að sjálfsögðu ekki koma í staðinn fyrir sérfræðiaðstoð og stofnanir sem sinna alvarlegum veikindum og vanlíðan barna. Þetta er þó gríðarlega mikilvægur þáttur í langtíma markmiðum er lúta að heilbrigði einstaklingsins og þjóðarinnar til framtíðar.

Ég tel ekki ástæðu til að telja upp þær greinar, ræður og rit sem hafa fjallað um líðan barna og unglinga ásamt skorti á úrræðum og plássi í heilbrigðiskerfinu fyrir þennan hóp síðustu ár. Það eru mikil verðmæti sem felast í því að kenna unglingum snemma að tileinka sér aðferðir sem miða að því að hlúa að eigin líðan.

Líðan og andlegt heilbrigði barna og unglinga er viðfangsefni sem ætti að vera í forgangi í okkar samfélagi. Það þarf ekki að tíunda hverjar afleyðingarnar geta verið fyrir einstaklinginn, skólakerfið og samfélagið ef ekki er hugað að þessum málum. Að sama skapi er ávinningurinn af því að leggja áherslu á þessi mál augljós til framtíðar fyrir einstaklinginn og samfélagið allt.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. janúar 2022.

Categories
Greinar

Efnahagsleg loftbrú sem virkar

Deila grein

15/01/2022

Efnahagsleg loftbrú sem virkar

Þær áskor­an­ir sem heim­ur­inn hef­ur þurft að tak­ast á við vegna heims­far­ald­urs­ins eru for­dæma­laus­ar. Íslenskt sam­fé­lag, ekki síður en önn­ur sam­fé­lög, hef­ur þurft að leggja sig allt fram við að tak­ast á við þann veru­leika sem veir­an hef­ur fært okk­ur til að tryggja áfram­hald­andi hag­sæld til framtíðar. Strax í upp­hafi far­ald­urs ákvað rík­is­stjórn­in að beita rík­is­fjár­mál­un­um af krafti til þess að tryggja öfl­uga viðspyrnu sam­fé­lags­ins – sem er meðal ann­ars í anda breska hag­fræðings­ins Johns M. Keynes. Keynes hafði legið und­ir feldi við rann­sókn­ir á krepp­unni miklu, þar sem nei­kvæður spírall dró kraft­inn úr hag­kerf­um um all­an heim.

Niður­sveifla og markaðsbrest­ur snar­fækkaði störf­um, minnkaði kaup­mátt og í leiðinni tekj­ur hins op­in­bera, sem hélt að sér hönd­um til að eyða ekki um efni fram. Keynes hélt því fram að þannig hefðu stjórn­völd dýpkað krepp­una og valdið óbæt­an­legu tjóni. Þvert á móti hefði hið op­in­bera átt að örva hag­kerfið með öll­um til­tæk­um ráðum, ráðast í op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir og eyða tíma­bundið um efni fram. Þannig væru ákveðin um­svif í hag­kerf­inu tryggð, þar til kerfið yrði sjálf­bært að nýju.

Með þetta meðal ann­ars í huga hef­ur rík­is­stjórn­in varið millj­örðum króna síðan 2020 til að tryggja kröft­uga viðspyrnu á sviði menn­ing­ar­mála. Með fjár­magn­inu hef­ur tek­ist að brúa bilið fyr­ir lista­fólkið okk­ar þar til hjól sam­fé­lags og at­vinnu­lífs fara að snú­ast á nýj­an leik. Afrakst­ur þess­ar­ar fjár­fest­ing­ar er óum­deild­ur. Menn­ing og list­ir eru auðlind sem skil­ar efna­hags­leg­um gæðum til sam­fé­lags­ins í formi at­vinnu, fram­leiðslu á vöru og þjón­ustu til neyslu inn­an­lands og út­flutn­ings. Við þurf­um ekki annað en að horfa til þeirra landa sem fremst eru, þar sem rann­sókn­ir sýna að skap­andi at­vinnu­grein­ar leggja sí­fellt meira til hag­vaxt­ar.

Sömu sögu má segja af viðspyrnuaðgerðum stjórn­valda fyr­ir ferðaþjón­ust­una en sam­tals var 31 millj­arði króna varið til þeirra árin 2020 og 2021. Ný­verið var kynnt grein­ing KPMG á áætlaðri stöðu ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu í árs­lok 2021. Aðgerðir stjórn­valda hafa skipt sköp­um í að styðja við aðlög­un­ar­hæfni ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækja á tím­um covid og gera grein­ina bet­ur í stakk búna til þess að þjón­usta fleiri ferðamenn þegar fólks­flutn­ing­ar aukast að ráði milli landa á ný. Ferðaþjón­ust­an verður lyk­ill­inn að hröðum efna­hags­bata þjóðarbús­ins en grein­in get­ur á skömm­um tíma skapað gríðarleg­ar gjald­eyris­tekj­ur fyr­ir landið.

Þrátt fyr­ir að við séum stödd á krefj­andi tíma­punkti í far­aldr­in­um er ég bjart­sýn á framtíðina. Ég trúi því að ljósið við enda gang­anna sé ekki svo ýkja langt í burtu en þangað til munu stjórn­völd halda áfram að styðja við menn­ing­una, ferðaþjón­ust­una og fleira eins og þurfa þykir, með efna­hags­legri loft­brú sem virk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskipta-, menn­ing­ar- og ferðamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. janúar 2022.

Categories
Greinar

Áfram í sókn

Deila grein

13/01/2022

Áfram í sókn

Sóknaráætlanir landshlutanna eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Um er að ræða einkar vel heppnaða aðgerð þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga stofna með sér samráðsvettvang og stilla upp áætlun sem setur fram sýn og markmið sem draga fram sérstöðu svæðanna. Þannig er stutt við ákvarðanir um úthlutun fjármagns og verkefni sem unnin eru undir merkjum sóknaráætlana.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins nú í desember lagði fjárlaganefnd til 100 milljóna kr. styrkingu á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta. Ég fagna að sú tillaga hafi hlotið samþykki. Mikilvægi sóknaráætlana kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sérstaklega tekið fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana landshlutanna.

Uppbygging í takt við áherslur heimamanna

Sóknaráætlanir hafa sannað sig sem öflugt byggðarþróunartæki og þeir fjármunir sem í þær er veitt nýtast hratt og vel til ýmiss konar uppbyggingar í héraði í takti við áherslur heimamanna. Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki til þess að efla nýsköpun og menningarstarf á landsbyggðinni.

Í kjölfarið á heimsfaraldri kórónuveirunnar var veitt viðbótarfjármagni inn í áætlanirnar til þess að sporna við áhrifum faraldursins. Undirritaður telur mikilvægt að áframhaldandi stuðningur sé til staðar, bæði vegna þess að faraldurinn ætlar að vera þaulsetnari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og einnig til að styðja við uppbyggingu vegna áhrifa faraldursins sem mun væntanlega gæta eitthvað áfram komandi ár.

Landshlutasamtökin eru mikilvægur hlekkur

Landshlutasamtökin hafa svo sannarlega staðið undir þeirri ábyrgð að verja fjármagni í mikilvæg verkefni til stuðnings atvinnu- og byggðarþróun og nýsköpun með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Þau eru vel til þess fallinn að styðja við hverskonar nýsköpun á landsbyggðinni og hagnýtingu hugvits. Með samstarfi sem þessu gerum við atvinnulífið á landsbyggðinni fjölbreyttara og fjölgum spennandi og verðmætum störfum. Við viljum styðja við umhverfi þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín og það getur vaxið og dafnað. Sóknaráætlanir í gegnum landshlutasamtökin stuðla að jákvæðri samfélags- og byggðarþróun í takt við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þær treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshluta og landsins alls í leið.

Áfram veginn

Aukin stuðningur við sóknaráætlanir eru í takt við stefnu Framsóknarflokksins, en við í Framsókn höfum alltaf verið talsmenn öflugrar byggðastefnu. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga um allt land. Þannig byggjum við Ísland framtíðarinnar.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 13. janúar 2022.

Categories
Greinar

Jöfn tæki­færi til vel­sældar og þroska

Deila grein

07/01/2022

Jöfn tæki­færi til vel­sældar og þroska

Eftir stutt en snarpt desemberþing liggja nú fyrir helstu áherslur fyrir árið 2022. Það er mér sérstakt ánægjuefni að samþykktur hefur verið áframhaldandi íþrótta- og tómstundastyrkur barna á tekjulágum heimilum. Það er mér sem og félögum mínum í Framsókn mikið hjartans mál að öll börn eigi rétt á að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag foreldra. Endurspeglaðist það meðal annars í áherslum flokksins fyrir síðustu kosningar þar sem lagt var upp með viðbótar tómstundarstyrk fyrir öll börn.

Áframhaldandi stuðningur

Í fjáraukalögum fyrir 2020 samþykktu stjórnvöld að veita sérstakan 50.000 kr. íþrótta- og tómstundastyrki til barna á tekjulágum heimilum. Tryggja átti að úrræðið beindist að börnum foreldra sem höfðu lágar tekjur eða höfðu misst atvinnu að hluta eða öllu leyti. Úrræðið nýttist jafnframt börnum á heimilum einstæðra foreldra og öryrkja.

Við gerð fjárlaga fyrir árið 2021 samþykktu stjórnvöld að veita fjármuni í íþrótta- og tómstundastyrki að fjárhæð 25.000 kr. fyrir hvert barn. Styrkurinn miðaðist við að heildartekjur heimilisins væru lægri en 787.200 kr. á mánuði, á tímabilinu mars til júní 2021. Við gerð núverandi fjárlaga er þessum styrk áframhaldið og samþykkt hefur verið að veita 50.000 kr. styrk fyrir hvert barn á tekjulágum heimilum árið 2022. Gert er ráð fyrir að um 10.400 börn nýti styrkinn í ár.

Tækifæri skipta máli

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka barna og unglinga í íþrótta- og tómstundastarfi hafi forvarnargildi. Sýnt hefur verið fram á að unglingar og börn sem leggja reglulega stund á íþróttir eða aðra hreyfingu eru síður líkleg til þess að þróa með sér neikvætt atferli. Auk forvarnargildis þá hafa rannsóknir einnig sýnt fram á að þátttaka í skipulögðu íþrótta og/eða tómstundastarfi skilar sér með betri námsárangri, betri líðan, betri félags þroska, meiri sjálfsvirðingu og jákvæðri líkamsmynd.

Með því að gefa börnum jöfn tækifæri til þess að stunda tómstundir eru stjórnvöld á sama tíma að veita börnum jöfn tækifæri til þess að ná árangri, bæta félagslegan þroska sinn og samskiptahæfileika. Börn sem stunda tómstundir verða alla jafnan sterkari einstaklingar á uppvaxtarárum sínum. Það hlýtur því að vera markmið samfélagsins í heild að búið sé í haginn fyrir börnin okkar og að við skilum af okkur sterkum og sjálfstæðum einstaklingum sem hafa tækifæri til að blómstra í samfélaginu.

Við erum rétt að byrja

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar á að vinna áfram í samstarfi við sveitarfélög að jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf óháð efnahag, aðstæðum og búsetu. Þar segir að lögð verði áhersla á að öll börn geti tekið þátt í íþrótta og tómstundastarfi enda sé slíkt starf mikilvægur þáttur í þroska og uppvexti barna. Áframhaldandi stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf er upptakturinn að því sem koma skal á þessu kjörtímabili.

Hafdís Hörnn Hafsteinsdóttir, þingmaður Suðurkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. janúar 2022.