Categories
Fréttir

Skoska leiðin styður atvinnuuppbyggingu og störf utan þéttbýlis

Deila grein

04/09/2019

Skoska leiðin styður atvinnuuppbyggingu og störf utan þéttbýlis

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, bendir á ummæli höfð eftir samgönguráðherra Skotlands að greiðsluþátttöku stjórnvalda á völdum flugleiðum hafi reynst vel. Í Skotlandi hafa um 75.000 íbúar skráð sig í afsláttarkerfið og nýtt sér það tvisvar til þrisvar á ári. Upphaflega hafi greiðsluþátttaka numið 40% af andvirði fargjalda en hafi síðar verið aukin í 50%. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu– og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, átti fund með Michael Matheson samgönguráðherra Skotlands í gær í Edinborg. Ræddu þeir m.a. stuðning skoskra stjórnvalda við íbúa afskekktari byggða og eyjar m.a. í þeim tilgangi að jafna aðgang þeirra að opinberri þjónustu. Þessi aðgerð er nefnd „skoska leiðin“.
Í ályktun 35. Flokksþings Framsóknarmanna, 9.-11. mars 2018, segir að innanlandsflug sé ekki raunhæfur kostur fyrir almenning í landinu vegna hárra flugfargjalda. „Framsóknarflokkurinn vill taka upp niðurgreiðslu á flugi innanlands fyrir íbúa á landsbyggðinni að skoskri fyrirmynd.“
Markmið skoskra stjórnvalda með greiðsluþátttöku er að styðja við íbúa afskekktari byggða en um leið atvinnuuppbyggingu og störf utan þéttbýlis. Greiðsluþátttaka stjórnvalda hófst árið 2006 og hefur verið framlengd reglulega, nú síðast um fjögur ár. Það er lítil samkeppni á flugleiðum til afskekktari svæða Skotlands, sætanýting er um 50% og eru flugfargjöld há í samanburði við það sem byðist til stærri og fjölfarnari áfangastaða sem geta staðið undir stærri flugvélum. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.

Categories
Fréttir

„Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur“

Deila grein

04/09/2019

„Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir það undra sig að kalla vegabætur í Árneshreppi náttúruspjöll þegar verið sé að bæta vegi sem fyrir voru. Rask sem fylgir framkvæmdum á svæðinu grær svo með tímanum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar í dag.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, voru á dögunum í Árneshreppi og skoðuðu vegaframkvæmdirnar í Ingólfs- og Ófeigsfirði og aðstæður við fyrirhugaða Hvalárvirkjun. Hreppsnefndin hefur veitt framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í Ingólfsfirði vegna uppbyggingar vegarins um Ófeigsfjörð segir í frétt á visir.is.
„Við Ásmundur brugðum okkur í Árneshrepp um daginn. Kíktum m.a. á þær vegabætur sem er verið að gera þar. Bæði í Norðurfirði og á kaflanum þaðan og í Ófeigsfjörð. Það undrar mig að kalla þessar vegabætur náttúruspjöll, hér er verið að bæta vegi sem fyrir voru og það rask sem verður við þetta græðir tíminn og er fljótur að því. Sýnist mér að deilurnar um vegabæturnar séu reistar á tilefninu en ekki framkvæmdinni,“ segir Halla Signý.
Það undrar okkur alltaf, sérstaklega Vestfirðinga, þegar að deilur rísa um vegabætur. Þetta er bara jákvæð þróun fyrir samfélagið og kemur alltaf til bóta en ég held að deilurnar séu reistar á tilefninu en ekki framkvæmdinni,“ segir Halla Signý í samtali við visir.is.
„Vonandi eigum við eftir að sjá meira af bættum samgöngum um Árneshreppinn og tek ég þá undir ákall hreppsbúa að koma á góðum vegi sem hægt er að halda meira opnum yfir árið,“ segir Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar“

Deila grein

28/08/2019

„Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði í umræðu um 3. orkupakkan, ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn, að ekkert nýtt hafi komið fram sem ekki hefur verið hrakið af helstu lögspekingum landsins og öðrum sérfræðingum, bæði varðandi stjórnarskrá Íslands og einnig varðandi EES-samninginn sjálfan. „Hluti hans hefur áður verið tekinn inn í lög og reglugerðir og þá vinnu leiddu meira að segja þeir sem harðast berjast gegn honum í dag,“ sagði Sigurður Ingi.

Hvað felst þingsályktunartillögu og lagafrumvörpum sem rætt er um?

„Að hagsmunir neytenda verða betur varðir með sjálfstæðari og sterkari íslenskri Orkustofnun og svo hitt. Að ólíkt því sem gildir í dag verður ekki lagður raforkusæstrengur til Íslands án þess að Alþingi Íslendinga taki um það sérstaka ákvörðun fyrir utan þau réttindi sem Íslendingar hafa auðvitað í gegnum hafréttarsáttmálann sem færir okkur Íslendingum full yfirráð yfir landgrunni og landhelgi okkar.

  • Öllum spurningum um fullveldi og mögulegt fullveldisafsal hefur verið svarað með aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

  • Utanríkisráðherra og orkumálastjóri Evrópusambandsins hafa undirritað sameiginlega yfirlýsingu sem staðfestir þann skilning íslenskra yfirvalda að reglur sameiginlega orkumarkaðarins í Evrópu gildi ekki hér þar sem við erum ótengd. Þessi yfirlýsing sýnir að þótt við tengdumst með raforkusæstreng væri Ísland enn með stöðu einangraðs orkukerfis ótengt, sem eyja.

  • Enn fremur hefur verið fengin yfirlýsing EFTA-landanna sama efnis sem fulltrúar ESB í sameiginlegu EES-nefndinni mótmæltu ekki. Annars vegar hefur yfirlýsing ráðherranna pólitískt gildi og hins vegar bókun í sameiginlegu EES-nefndinni þjóðréttarlegt gildi samkvæmt 31. gr. Vínarsáttmálans.

  • Auk þess liggur fyrir áðurnefnt frumvarp sem við ræðum á morgun sem tryggir að ákvörðun um raforkusæstreng verður aðeins tekin á Alþingi Íslendinga.“

Um hvað snýst þá málið?

„Jú, hún snýst um að róta í sama grugguga vatninu og helst er í tísku að róta í víða um heim og felur í sér að etja borgurunum saman til að ná völdum. Þeir sem harðast hafa barist gegn orkupakkanum hafa hrakist frá einum hálfsannleik til annars í málflutningi sínum og hafa allar svokallaðar röksemdir verið hraktar þegar þær hafa komið fram.
Það styttist í ellefu ára afmæli hrunsins. Við erum enn að berjast við að græða þetta stóra sár sem það skildi eftir og einkennist helst af skorti á trausti. Því finna allir fyrir. Það sár verður ekki grætt og það traust verður ekki endurheimt með því að hlaupa eftir órökstuddum fullyrðingum manna sem hafa það eitt á stefnuskránni að magna upp ófrið í samfélaginu, helst til að breiða yfir eigin vandræði.

  • Við erum ekki kosin á Alþingi Íslendinga til að takmarka tækifæri komandi kynslóða.

  • Við erum heldur ekki kosin á Alþingi til að hafa vit fyrir þeim.

  • Við erum kosin til að tryggja aukin tækifæri, stærri tækifæri fyrir framtíðina og það hefur sýnt sig að framtíðinni er oftast betur treystandi en fortíðinni.

Framsókn hefur ætíð verið framsækinn og alþjóðasinnaður flokkur og það sem felst í því að vera alþjóðasinnaðir er að hafa sterkar tengingar til nágranna- og vinaþjóða í gegnum bandalög og samninga.

  • Ég nefni Norðurlandaráð og Norðurlandasamstarf.

  • Ég nefni NATO, samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og fjölmarga fríverslunarsamninga við þjóðir úti um allan heim.

Ég heyri í umræðunni að margir eru farnir að óttast, jafnvel fyrirlíta, þennan stimpil, alþjóðasinnaður. Þeir telja felast í honum afsal valds og undirlægjuhátt.
Þá ber að horfa til þess að Íslendingar hafa allt frá landnámi, líkt og allar þjóðir, búið í samfélagi með öðrum þjóðum, misjafnlega nánu og niðurnjörvuðu.

  • Við höfum verið undir konungum Noregs og Danmerkur, þjóða sem í dag eru okkar helstu vina- og samstarfsþjóðir.

  • Öllu skynsömu fólki hlýtur að vera ljóst hversu gríðarlega mikilvægur samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er Íslendingum.

  • Við erum alþjóðasinnað samfélag sem á allt sitt undir því að vera í góðum samskiptum við viðskiptaþjóðir okkar.

Alþjóðasamningar eru okkur öllum mikilvægir. Horfum bara á sjávarútveginn með sína mikilvægu vinnustaði á sjó og landi.

  • Horfum á tæknigeirann, Marel, 3X, Össur.

  • Horfum á nýsköpunarfyrirtækin, Kerecis á Ísafirði, CCP hér í Reykjavík, landbúnaðinn, orkufyrirtækin, iðnaðinn, skapandi greinarnar, ferðaþjónustuna sem hefur eflt samfélag um allt land.

Fyrir hverju eiga íslenskir stjórnmálamenn að berjast ef ekki fyrir því að næstu kynslóðir Íslendinga sjái sér hag í að búa og starfa á þessu fallega landi, alls staðar á landinu og gegnum alþjóðasamninga að koma vöru sinni á markað heimsins.

Við Íslendingar stöndum árið 2019 frjáls og fullvalda þjóð og getum borið höfuðið hátt, þjóð sem má segja að hafi áhrif í heiminum langt umfram það sem eðlilegt má teljast ef miðað væri við höfðatölu.

Sú staða hefur ekki síst náðst fyrir tilstilli Framsóknar og þeirrar gríðarlegu áhrifa sem flokkurinn hefur haft á íslenskt samfélag í ríflega aldarlangri sögu sinni.
Sú staða hefur ekki náðst með því að við sitjum heima, bak við læstar dyr, heldur vegna þess að við þorum að vera í alþjóðlegu samstarfi, vegna þess að

  • við flýjum ekki af hólmi við stjórn landsins.

  • Við flýjum ekki af hólmi þegar berjast þarf fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Í pólitík er mikilvægt að vita hvenær á að taka slaginn og hvenær á ekki að taka slaginn. Saga Framsóknar sannar að við höfum jafnan borið gæfu til að taka yfirvegaðar ákvarðanir frekar en að slá frá okkur þegar aðrir ragmana okkur.

  • Það þarf kjark til að hugsa um hagsmuni heildarinnar, um heildarhagsmuni Íslands.

  • Það þarf sterk bein til að sitja undir aðdróttunum og jafnvel svívirðingum sem hafðar hafa verið uppi síðustu mánuðina.

Þetta er eins og á sveitaböllunum í gamla daga. Það gáfust mörg tækifærin til slagsmála þegar einstaka ófriðarmaður bauð upp í slíkan dans. Það þarf hins vegar ekki alltaf að taka þátt í þeim slagsmálum. Þau skila engu.
Þessi ríkisstjórn stendur þéttan vörð um heildarhagsmuni íslensku þjóðarinnar og tekur þá slagi sem þarf að taka. Það er mikilvægt þegar kemur að auðlindum Íslands að tryggja full yfirráð þjóðarinnar yfir þeim.

  • Það er mikilvægt að við hugsum um hagsmuni heildarinnar í bráð og í lengd.

  • Það er einnig mikilvægt að við tökum ákvarðanir um hagsmuni þjóðarinnar á réttum forsendum, að við göngum ekki inn í stjórnmál reiðinnar, stjórnmál óttans og gerum þau að okkar lögheimili og varnarþingi.

Eftir átök þessa þings hlýtur öllum að vera ljóst að við þurfum að leggja mun meiri áherslu á hagsmuni Íslands í allri vinnu varðandi EES-samninginn.
Orkupakki þrjú kom á sjóndeildarhringinn fyrir meira en tíu árum og algjörlega óeðlilegt að málið hafi ekki komist inn í almenna umræðu fyrr en á síðasta ári.
Það er líka alvarlegt hvernig haldið var á málum varðandi innflutning á kjöti á sínum tíma. Þeir sem koma að vinnu við EES-samninginn fyrir Íslands hönd verða að gera sér fulla grein fyrir því að hagsmunir Íslands ganga öllum hagsmunum framar við samningaborðið.
Það er síðan íslenskra stjórnmála að skilgreina betur ríka hagsmuni Íslands og slá hreinni og sterkari tón í hagsmunagæslunni.
Eitt af því jákvæða sem hatrömm umræða síðustu mánaða ætti að kenna okkur og við að taka með okkur út úr henni er að við verðum að vera grimmari á fyrstu stigum hvers máls sem kemur upp í EES-samningnum og við verðum smæðar okkar vegna að forgangsraða kröftunum og einbeita okkur að hagsmunum sem tengjast auðlindum okkar. Með öðrum orðum: Allt frá fyrsta degi umræðu, til að mynda um orkupakka fjögur, verður að greina áhrifin og tryggja íslenska hagsmuni, m.a. með ítrekun á núverandi fyrirvörum með bókunum á fyrstu stigum máls.

  • Ríkisstjórnin hefur sett aukinn kraft og mannafla til að geta verið öflugri í hagsmunagæslunni á fyrstu stigum.

En hvernig höfum við í ríkisstjórnarflokkunum nálgast þetta verkefni?

Jú, við höfum hlustað á áhyggjur manna. Við höfum kallað til sérfræðinga. Við höfum hlustað á álit. Við höfum komist að niðurstöðu.
Hagsmunir Íslands eru tryggðir með fyrirvörum og aðgerðum sem eru skrifaðir eftir ráðgjöf helstu sérfræðinga og taka tillit til þeirra áhyggjuradda sem hafa verið uppi í samfélaginu, ekki fyrirvörum sem eru settir einhliða af Alþingi heldur hafa bréfin tvö sem bárust í vor, annars vegar frá EFTA og hins vegar orkumálastjóra Evrópusambandsins, bæði pólitískt og þjóðréttarlegt gildi samkvæmt Vínarsáttmálanum.

  • Slíkar yfirlýsingar eru bindandi. Um það hafa fallið fjölmargir dómar sem sérfræðingar hafa vitnað um fyrir utanríkismálanefnd.

  • Ísland er fullvalda ríki.

  • Hingað leggur enginn sæstreng, virkjar eða fer í nokkrar mannvirkjaframkvæmdir án aðkomu íslenskra yfirvalda. Með aðgerðum ríkisstjórnarinnar verður það enn erfiðara en til að mynda nú.

  • Það er ekki minnst á skyldu Íslendinga í orkupakka þrjú til að leggja sæstreng. Það hefur verið hrakið margsinnis. Engin grein pakkans fjallar um það.

  • Ekki er um að ræða neitt brot á fjórfrelsinu ef íslensk stjórnvöld neita að leggja hingað streng. Fjórfrelsið fjallar um viðskiptahindranir. Það er ekki viðskiptahindrun að neita að byggja mannvirki.

  • Við höfum okkar eigið regluverk, hafréttarsáttmála, skipulagslög, sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga og eftir morgundaginn frumvarp þar sem Alþingi tekur ákvörðunina og margt fleira.

  • Það er ekki verið að framselja vald til erlendra stofnana með innleiðingu á orkupakka þrjú. Þátttaka EFTA-ríkjanna byggir á tveggja stoða kerfinu.

  • Eins og orkupakki þrjú er lagður fram er heldur ekki um brot á stjórnarskrá að ræða, samanber álit allra okkar helstu sérfræðinga, líka þeirra sem voru með efasemdir í upphafi, alveg eins og við Framsóknarmenn. Þess vegna stöldruðum við við og fundum leiðir sem tryggðu hagsmuni Íslands, fullveldi og yfirráð okkar yfir auðlindum landsins, líka orkuauðlindinni sem er ein okkar allra mikilvægasta auðlind til langrar framtíðar.

Ég hef hlustað á umræðuna í allan dag og fylgst með umræðunni í sumar. Það hefur ekkert breyst frá yfirferð utanríkismálanefndar frá því í vor nema hvað þessi lykilatriði eru orðin enn skýrari en áður. Því er meirihlutaálit utanríkismálanefndar enn í fullu gildi. Þar stendur í næstsíðustu málsgreininni, með leyfi forseta:

„Framangreindar yfirlýsingar hafa bæði pólitískt og þjóðréttarlegt gildi. Í tilkynningu Íslands til EFTA-skrifstofunnar um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara verður vísað sérstaklega bæði til yfirlýsingar framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn ESB og utanríkisráðherra frá 20. mars sl. og til sameiginlegrar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna innan EES sem gefin var í sameiginlegu EES-nefndinni 8. maí sl. Þar með er skjalfestur sá sameiginlegi skilningur allra aðila að Ísland hafi eftir sem áður full yfirráð yfir orkuauðlindum sínum.“

Móttaka þessa formlega bréfs þegar það fer án andmæla er enn ein staðfesting á máli okkar.

Ég hef hins vegar fullan skilning á áhyggjum margra landsmanna, ekki síst í ljósi þróunar heimsmála þar sem við höfum séð meiri uppskiptingu auðs þar sem þeir ríkari verða ríkari og frekari til fjár og áhrifa en aðrir bera minna úr býtum.

Ein birtingarmynd hérlendis er uppkaup auðmanna, ekki síst erlendra, á landi á Íslandi. Margir landsmenn hafa rætt það í tengslum við orkupakka þrjú sem auðvitað tengist því ekki neitt.

  • Þar er nefnilega við okkur sjálf að eiga. Við höfum ekki borið gæfu til, alla vega ekki hingað til, að setja regluverk um kaup á landi og endurskoða þar með þá löggjöf sem sett var fyrir fimmtán árum og opnaði allar gáttir og tók út allar hindranir. Ríkisstjórnin hefur hins vegar í hyggju að setja aftur á slíkar reglur.

  • Annað atriði sem margir ræða í tengslum við orkupakka þrjú en hefur heldur ekkert með orkupakka þrjú að gera er mismunandi dreifingarkostnaður á rafmagni í landi og síhækkandi kostnaður við dreifingu, ekki síst í dreifbýli. Þar sem auðlindin er að langmestu leyti í eigu almennings ættu auðvitað allir landsmenn að sitja við sama borð þegar kemur að dreifingarkostnaði. Það er jafnræði.

En núverandi fyrirkomulag er ekki vegna orkupakka eitt eða tvö.

Þetta eru íslensk lög sem við sjálf getum sett og núverandi ríkisstjórn ætlar sér að breyta. Við getum líka sett ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum til að tryggja þetta enn frekar.
Þannig er margt sem rætt er um í tengslum við orkupakka þrjú sem hefur ekkert með hann að gera en eru hins vegar mjög mikilvæg mál sem við þurfum að setja á dagskrá, þurfum að sammælast hér í þinginu um að klára á næstu vikum, mánuðum, misserum. Það erum við svo sannarlega klár í í ríkisstjórnarflokkunum.

  • Við ætlum að taka þessi mál því að þau eru í okkar eigin höndum, þau varða ekki Evrópusambandið eða orkupakka þrjú eða EES-samninginn, þau eru í okkar höndum.

  • Við ætlum í ríkisstjórnarflokkunum að breyta í þágu almennings á Íslandi.“

Categories
Fréttir Greinar

Í upphafi skyldi endirinn skoða

Deila grein

15/08/2019

Í upphafi skyldi endirinn skoða

Fá mál á vettvangi löggjafans hafa verið jafn mikið rædd síðustu ár og innleiðing 3 orkupakkans í löggjöf um raforkumál nú á þessu ári. Þá hefur þetta mál allt vakið upp miklar tilfinningar og ótta meðal almennings, enda erfitt að sjá og skilja hvað þessi innleiðing á regluverki geri fyrir land og þjóð. Hafa þeir, sem eru á móti innleiðingunni, sett fram ýmis rök um að með þessu sé verið að greiða fyrir lagningu sæstrengs til landsins, forræði yfir þessum mikilvægu auðlindum sem endurnýjanleg orka er sé í hættu, verð á raforku hækki og jafnframt að yfirstjórn orkumála færist af okkar hendi sem þjóðar yfir til Evrópusambandsins smátt og smátt með hverjum pakkanum sem frá Brussel kemur.
Á móti hafa þingmenn og ýmsir embættismenn bent á að um sé að ræða innleiðingu á löggjöf sem lítil áhrif hafi hér á landi þar sem Ísland er einangrað raforkukerfi í ljósi legu landsins. Um sé að ræða einn lið í samstarfi Evrópuþjóða á grundvelli EES og engin hætta sé á að við missum neitt forræði yfir okkar raforkumálum. Það sé okkur nauðsynlegt að vera í alþjóða samstarfi og samningar eins og EES kalli á samstarf á báða bóga. Þá séu þeir fyrirvarar sem ríkisstjórnin hefur sett við innleiðingu 3 orkupakkans þannig að í engu sé sjálfstæði og fullveldi okkar stefnt í voða í máli þessu.
Það væri að æra óstöðugan að týna til allt það sem sagt hefur verið um þetta mál á síðustu mánuðum enda hefur umræðan, því miður, ekki verið á köflum mjög málefnaleg né farið í röksemdir og þarfir okkar sem þjóðar. Spilað hefur verið á tilfinningar og þá taktík að búa til óvini í umræðunni á báða bóga. Þá hefur það ekki einfaldað neinum að taka afstöðu til málsins að lögfrótt fólk hefur ruðst fram á ritvöllinn með mismunandi skilning og skoðanir á málinu.
En engu að síður er nauðsynlegt að hlusta á alla þá gagnrýni sem þetta mál hefur fengið á sig og afskrifa hana ekki sem þjóðernisraus og afturhald. Kannanir sýna að þjóðin hefur áhyggjur af hvað innleiðing 3 orkupakkans hefur í för með sér, í framtíðinni, en fyrir hana vinna kjörnir fulltrúar og embættismenn þar sem hagsmunir heildarinnar ættu að vera að leiðarljósi.
Það er morgunljóst að við sem lítil og friðsæl þjóð þurfum að eiga í góðu samstarfi um heim allan. Bæði til að koma afurðum okkar í verð, flytja inn það sem okkur vantar og taka þátt í samstarfi þjóða á sem flestum sviðum til að leggja okkar að mörkum. Slík nauðsynleg samvinna er meðal annars fólgin í EES samningnum sem við höfum verið þáttakendur í síðastliðinn 25 ár og hefur fært okkur ýmsis lífsgæði sem við tökum orðið sem sjálfsögðum hlut. Engu að síður þurfum við í ljósi stærðar okkar og sérstöðu að nýta okkur undanþágur þar sem við á í því samstarfi og að tillit sé tekið til sérstöðu okkar sem lítils ríkis og um slíkt sé ekki vafi sem hægt er að rangtúlka.
Innleiðing orkupakka 3 er fyrsta mál á dagskrá þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir sumarfrí nú í lok ágúst. Að mínu mati er brýnt til að umræðan rati ekki í sama farið aftur, með tilheyrandi sundrungu, að þingheimur sammælist um það að málið, eins og það er nú sett fram með þeim fyrirvörum að hingað sé ekki hægt að leggja sæstreng án samþykkis Alþingis og þeir hlutar orkupakkans sem snúa að flutningi yfir landamæri taki ekki gildi, verði sent til sameiginlegu EES nefndarinnar til umsagnar og staðfestingar á því hvort áðurnefndir fyrirvarar haldi þannig að slíkt sé hafið yfir allan vafa. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir þá verði orkupakkinn fyrst innleiddur þegar óvissunni hefur verið eytt og rökin í málinu orðin skýr.
Það er eðlilegt að mál sem þetta þar sem framtíð orkuauðlinda þjóðarinnar blandast inn í sé umdeilt. Því er nauðsynlegt að allt í kringum það sé skýrt framsett og óvissu gæti ekki þannig að hægt sé að ala á úlfúð og hræðslu. Framtíð okkar og byggðar í landinu öllu mun ekki síst liggja í því hvernig orkumálum verði umhaldið og nauðsynlegt er að almannaheill sé höfð í forgrunni.
Eitt af grunngildum Framsóknarflokksins sem samvinnuflokks í gegnum tíðina hefur verið slagorðið; Máttur hinna mörgu, þar endurspeglast að samvinna heildarinnar skilar ávallt meiru. Þó misjafnar skoðanir séu á samvinnu- eða einkarekstri þá hljótum við að geta verið öll sammála um að slík grunnstoð sem orkuauðlindir eru þurfa að vera í almannaeign og öll stjórnsýsla í kringum þær hafnar yfir vafa.
 
Höfundur er forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og ritari Framsóknarflokksins.
 
 

Categories
Fréttir

Ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar

Deila grein

12/08/2019

Ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar

Sveitarstjórnarráð Framsóknarflokksins skorar á þingmenn flokksins að beita sér hratt og af fullum þunga í þeirri viðleitni að koma böndum og regluverki á jarðarkaup erlendra aðila. Sú þróun sem hefur átt sér stað síðustu ár er óviðunandi. Forsenda fyrir heilbrigðri byggð í landinu og því að samfélög þrífist í dreifðari byggðum hlýtur að vera tengd því að eigendur búi á jörðum sínum eða í næsta nágrenni og að hagsmunir eigenda og samfélagsins fari saman.
Það er ekki hagur samfélagsins okkar í heild að aðilar fjárfesti í jörðum í stórum stíl til þess eins að nýta þær auðlindir sem þar eru en færa samfélaginu ekkert til baka, hvorki í formi útsvarstekna né annars sem má telja til hagsbóta fyrir nærsamfélagið.
Aðrar þjóðir hafa sett sér regluverk til að fyrirbyggja þá þróun sem virðist eiga sér stað á Íslandi í dag. Til eru fjölmörg fordæmi sem taka á þessu málefni og því sjálfsagt að líta til þeirra til að vinna verkin hratt og vel.
Ingibjörg Isaksen, formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru“

Deila grein

09/08/2019

„Skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru“

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menningarmálaráðherra, segir það hafa verið stór­kost­legt að taka þátt í Íslend­ingadög­un­um í Mountain í Norður-Dakóta í Banda­ríkj­un­um og í Gimli í Manitoba-fylki í Kan­ada um liðna helgi. Þetta kemur fram í grein hennar í Morgunblaðinu í vikunni, „Fjársjóður í vesturheimi“.
„Vest­ur-Íslend­ing­ar leggja mikið á sig til þess að rækta tengsl sín við Ísland og halda sögu sinni og menn­ingu á lofti. Á þess­um slóðum í Kan­ada og Banda­ríkj­un­um eru af­kom­end­ur Íslend­inga sem tala ís­lensku án þess að hafa búið á Íslandi. Þrátt fyr­ir að rúm 100 ár séu liðin frá því að bú­ferla­flutn­ing­ar vest­urfar­anna liðu und­ir lok er fólk enn mjög meðvitað um upp­runa sinn og er stolt af hon­um. Slíkt er alls ekki sjálf­gefið en sú þrautseigja, áhugi, dugnaður og þjóðrækni sem býr í Vest­ur-Íslend­ing­um er til eft­ir­breytni,“ segir Lilja.
„Íslend­inga­deg­in­um var fagnað í 120. skipti í bæn­um Mountain í Norður-Dakóta í Banda­ríkj­un­um og í 130. skipti í Gimli í Manitoba-fylki í Kan­ada um liðna helgi. Að deg­in­um standa af­kom­end­ur vest­urfara sem héldu frá Íslandi til Norður-Am­er­íku á ár­un­um 1875-1914 en talið er að milli 15.000 og 20.000 Íslend­ing­ar hafi flust bú­ferl­um og hafið nýtt líf í Vesturheimi. Á þess­um tíma fluttu um 52 millj­ón­ir Evr­ópu­búa til Vesturheims meðal ann­ars vegna þess að land­búnaðarsam­fé­lög­in gátu ekki fram­leitt nægj­an­lega mikið í takt við þá miklu fólks­fjölg­un sem átti sér stað í Evr­ópu en á tíma­bil­inu 1800-1930 fjölgaði íbú­um álf­unn­ar úr 150 millj­ón­um í 450 millj­ón­ir.“
Manitoba er fjöl­menn­asta byggðarlag Íslend­inga í heim­in­um utan Íslands en sam­kvæmt Hag­stofu Kan­ada hafa um 90 þúsund Kan­ada­menn skráð upp­runa sinn sem ís­lensk­an. Sögu þessa fjöl­menna hóps þarf að gera betri skil á Íslandi og það er skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru,“ segir Lilja.

Categories
Fréttir

„Þoli illa að sitja hjá“

Deila grein

09/08/2019

„Þoli illa að sitja hjá“

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð og formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, segir stórfelld uppkaup á jörðum er safnist í hendur fárra eignamanna og falli í flestum tilfellum úr hefðbundnum búskap ógna byggðum landsins, atvinnuuppbyggingu og sjálfstæði þjóðar. Þetta kemur fram í grein hennar í vikunni, „Uppkaup á landi“.
„Síðastliðna daga hef ég sem sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar fengið upphringingar frá blaðamönnum vegna sölu á jörðinni Atlastöðum í Svarfaðardal til fyrirtækis í eigu erlendra aðila. Spurt er hvort sveitarfélagið hafi áhyggjur af sölunni og innt er eftir viðbrögðum.
Sveitarfélagið hefur ekki forkaupsrétt að jörðum í sveitarfélaginu og því kom salan ekki inn á borð sveitarstjórnar. Aukin heldur er það ekki á stefnuskrá sveitarstjórnar að kaupa jarðir. Því getur sveitarstjórn ekki annað en setið hjá og vonað að nýir eigendur muni rækta sína jörð, standa við þær skuldbindingar sem felast í jarðareign í sveit og verði virkir þátttakendur í samfélagi sveitarinnar,“ segir Katrín.
Segir Katrín að ráðamenn hafi lengi ætlað að koma lagasetningu á þessi kaup. Bendir hún á að nágrannaþjóðir hafi brugðist við slíkum kaupum og sett lög um að „jarðir þurfi að vera í ákveðnum búskap eða nýtingu, að einn og sami aðili og tengdir aðilar megi ekki eiga fleiri en X jarðir, að eigandi þurfi að vera með lögheimili á jörðinni o.s.frv.“.
„Ég er ein af þeim sem þoli illa að sitja hjá og horfa á þetta gerast fyrir framan nefið á mér. Ég veit að þannig er með margan Íslendinginn. Því hvet ég núverandi ríkisstjórn til lagasetningar á haustþingi sem vonandi tekur fyrir uppkaup á landi með þeim hætti sem er að gerast í dag,“ segir Katrín.
Uppkaup á landi

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Guðveig Lind Eyglóardóttir

Deila grein

06/08/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Guðveig Lind Eyglóardóttir

Í Borgarbyggð leiddi Guðveig Lind Eyglóardóttir lista Framsóknar í Borgarbyggð fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018. Guðveig Lind er fædd 1976 og uppalinn í Borgarnesi og er með BA gráða í Ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. „Ég starfa á Icelandair Hótel Hamar og og er í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Ég hef leitt lista Framsóknar í Borgarbyggð síðan 2014. Ég er gift Vigfúsi Friðrikssyni verslunarmanni í Kaupfélagi Borgfirðinga og saman eigum við þrjú börn Ásdísi Lind, Hilmar Karl og Hallgrím.“
„Eftir að ég flutti aftur heim í Borgarnes árið 2013, eftir að hafa verið í burtu í nokkur ár, fann ég hvað taugarnar við gamla sveitarfélagið voru sterkar og tækifærin mikil til að efla svæðið. Þrátt fyrir að sveitarstjórnarstörfin taki mikinn tíma og orku oft á tíðum þá dvínar eldmóðurinn ekki fyrir því að vinna með sveitarstjórnarfólki af öllu landinu til að efla byggðir landsins og auka lífsgæði íbúa og starfsumhverfi fyrirtækja. Ég er sérstaklega þakklát fyrir það hversu heppin ég hef verið með öfluga félaga á lista Framsóknar hér í Borgarbyggð og ég er auðmjúk yfir því trausti sem mér hefur verið sýnt með því að gefa mér það tækifæri að leiða listann annað kjörtímabil.“

Mikil ábyrgð og áskorun að sitja í sveitarstjórn – ég er auðmjúk yfir traustinu

„Á kjörtímabilinu 2014-2018 kynntist ég öllum málaflokkum og starfsemi sveitarfélagsins vel. Ég hef setið í byggðarráði, fræðslunefnd og umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd ásamt því að taka þátt í fjölmörgum starfs- og vinnuhópum. Einnig hef ég setið í stjórn SSV (Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi).
Á síðasta kjörtímabili naut ég þess að fá frekari innsýn í fjölbreytt verkefni og starfsemi sveitarfélagsins sem hefur gert mig enn áhugasamari nýta krafta mína á vettvangi sveitarstjórnarmála.
Því fylgir mikil ábyrgð og áskorun að sitja í sveitarstjórn og vinna að því að tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi sveitarfélagsins samfara því að viðhalda góðri grunnþjónustu og vera framsækið hreyfiafl breytinga og framfara.
Fyrst og fremst hef ég áhuga á að nýta krafta mína til að vinna að framgangi góðra stefnumála og verkefna í þágu samfélagsins,“ segir Guðveig Lind.

Áherslumál Framsóknar í Borgarbyggð

Skapa trausta sveitarstjórn og stöðugleika í rekstri sveitarfélagsins. • Fagleg afgreiðsla nefnda og sveitarstjórnar er nauðsynleg til að vinna embættismanna og starfsmanna sveitarfélagsins geti verið góð og geti gengið greiðlega fyrir sig. • Að skapa jarðveg fyrir frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi og byggingu leiguíbúða. • Forsendur fyrir því að hægt sé að ráðast fyrir alvöru í kynningu og markaðssetningu á búsetukostum Borgarbyggðar er að grunnþættir innviða séu til staðar. • Við stefnum að lækkun gatnagerðargjalda og gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið, stórátak í uppbyggingu á leiguhúsnæði í Borgarnesi, Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. • Framsóknarfólk trúir því að góð þátttaka allra aldurshópa í fjölbreyttum tómstundum og íþróttum hafi forvarnargildi, breyti samfélaginu til hins betra og auki lífsgæði íbúa. Við viljum því hefjast handa við undirbúning að skipulagi og byggingu á fjölnota íþróttahúsi í Borgarnesi. • Við leggjum áherslu á metnaðarfulla menntastefnu í leikskóla, grunnskóla og upp í framhaldsskóla. Hér þarf að stórefla sérfræðiþjónustu skólanna til að standast reglugerðir og koma til móts við ólíkan hóp nemenda. • Framsókn leggur áherslu á að þjónusta við eldri borgarar verði eins góð og kostur er og að fólk geti búið heima hjá sér eins lengi og unnt er. • Gera þarf gangskör í að bæta aðgengismál í sveitarfélaginu og huga sérstaklega að því við gerð nýrra gangstétta og gatna.

Fréttir og greinar

„Ég er algjörlega háð útivist“


„Ég á stóra fjölskyldu sem er mér afar kær og áhugamálin snúa helst að samveru með fjölskyldunni og vinum. Ég er algjörlega háð útivist og finnst ekkert betra en að ganga úti í náttúrunni allan ársins hring. Nýtt áhugamál datt inn í sumar en ég fór að sækja tíma í golfi og finn að það á vel við mig, enda ekki annað hægt en að njóta þar sem við eigum einn fallegasta golfvöll á landinu í Hamarslandi í Borgarnesi. Ég hef mikinn áhuga á jarðfræði Íslands og hef sérstaklega gaman að því að lesa og fræðast um allt sem því við kemur,“ segir Guðveig Lind.

Categories
Fréttir

„Bara einn olíubrúsann í viðbót til að hafa tiltækan þegar græna orkan svíkur“

Deila grein

25/07/2019

„Bara einn olíubrúsann í viðbót til að hafa tiltækan þegar græna orkan svíkur“

„Mótmælendur streyma vestur til að mótmæla bættum vegi frá Ingólfsfirði yfir í Ófeigsfjörð. Mótmælendur þurfa á leið sinni vestur að fara um tvíbreiða vegi sem liggja um einkalönd til að setja sig upp á móti vegabótum á Vestfjörðum.“ Þetta segir Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í yfirlýsingu í gær.
Tilefni þessa er að í fréttum hefur komið fram. hjá andstæðingum Hvalárvirkjunar. að stór hópur fólks sé á leið vestur til að mótmæla. Vesturverk hefur hafið undirbúning í Seljanesi í Árneshreppi vegna Hvalárvirkjunar, en unnið er að lagfæringum á veginum í firðinum.
„Kannski eru þau ekki að mótmæla vegi, heldur virkjun, eða kannski ekki, heldur bara breytingum. Því við hér fyrir vestan erum svo mikið krútt og breytingar fara okkur ekki vel. Fara svo heim og kveikja ljós í ágústhúminu og sjóða sér ýsu á rafeldavélinni, þau geta það. Hafa trausta græna orku allt árið til sinna tilbúnu þarfa.
Við hérna fyrir vestan pöntum okkur bara einn olíubrúsann í viðbót til að hafa tiltækan þegar græna orkan svíkur.
En verið velkomin, þau þurfa að borða, gista og spjalla, Vestfirðingar eru gestrisnir.
Alltaf gaman að fá gesti,“ segir Halla Signý.

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Stefán Vagn Stefánsson

Deila grein

23/07/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Stefán Vagn Stefánsson

Í Skagafirði leiddi Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og formaður byggðaráðs, framboðslista Framsóknarflokks 2018. Stefán Vagn er fæddur 17. janúar 1972 og er sonur Hrafnhildar Stefánsdóttur frá Hjaltastöðum í Blönduhlíð í Skagafirði og Stefáns Guðmundssonar fyrrverandi alþingismanns frá Sauðárkróki.
Stefán Vagn hóf störf í lögreglunni á Sauðárkróki 1997 og starfaði þar til ársins 1998 er hann hóf störf í lögreglunni í Reykjavík. Hóf nám í lögregluskóla ríkisins árið 1998 og að skóla loknum hóf Stefán störf hjá lögreglunni í Reykjavík. Árið 2001 hóf hann störf í sérsveit ríkislögreglustjóra og starfaði þar til ársins 2007. Hóf störf í greiningardeild ríkislögreglustjóra árið 2007 til 2008 þegar hann hóf störf sem yfirlögregluþjónn á Sauðárkróki. Stefán starfaði samhliða lögreglustarfinu hjá utanríkisráðuneytinu og fór til Afganistan sem friðargæsluliði 2006 til 2007. Stefán Vagn er giftur Hrafnhildi Guðjónsdóttur og eiga þau þrjú börn.
Stefán var kjörinn til setu í sveitastjórn sveitafélagsins Skagafjarðar 2010 en hann var oddviti lista Framsóknar. Eftir sveitastjórnarkosningarnar 2010 var hann kjörinn formaður byggðarráðs sveitarfélagsins.

Hvers vegna í stjórnmál?

„Ég vil vinna að öflugum byggðum um land allt og að sjálfsögðu sérstaklega hér í Skagafirði. Ég segi það hreint út að við þurfum öfluga byggðarstefnu fyrir Ísland, við verðum að lyfta grettistaki. Það verður að jafna þann aðstöðumun sem hefur myndast á milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar og fyrir því berst ég,“ segir Stefán Vagn.

Áherslumál Framsóknar í Skagafirði

Hjá sveitarfélaginu verði viðhöfð ábyrg og gegnsæ stjórnsýsla líkt og undanfarin ár og öll framtíðarstörf auglýst eins og verið hefur. • Áfram verði sýnt aðhald og ábyrgð í rekstri sveitarsjóðs. Undir forystu Framsóknarflokksins hefur verið rekin ábyrg fjármálastjórn sem hefur skilað sér í mikilli innviðauppbyggingu á sama tíma og skuldahlutfall sveitarsjóðs hefur lækkað. • Í tengslum við endurskoðun á gildandi aðalskipulagi verði unnin sérstök stefnumörkun fyrir atvinnu- og byggðaþróun í Sveitarfélaginu Skagafirði í samvinnu við heimamenn á hverju svæði. • Tryggja þarf nægt framboð íbúðalóða á Hofsósi, í Varmahlíð og á Sauðárkróki. • Tryggja þarf íbúum Skagafjarðar aðgang að öflugri félagsþjónustu og að allir aldraðir íbúar sveitarfélagsins njóti lögbundinnar þjónustu. • Farið verði í viðræður við samgönguyfirvöld um að tryggja viðhald safn-, tengi- og þjóðvega um allt héraðið. • Sveitarfélagið á að standa vörðu um hagsmuni bænda enda landbúnaður einstaklega mikilvægur þáttur í atvinnulífi héraðsins. • Halda þarf merki Skagafjarðar á lofti sem eins öflugasta matvælaframleiðsuhéraðs landsins.

Fréttir og greinar

Hvítabjörninn á Þverárfjalli þann 2. júní 2008


Lögregla fékk tilkynningu um hvítabjörn og fór á staðinn til að staðfesta upplýsingarnar en á undan hafði fjölmiðlum verið tilkynnt um komu hvítabjarnarins. Þegar fréttist af hvítabirninum streymdi mikið af fólki á vettvanginn og voru margir komnir á undan lögreglu á staðinn. Byrjað var á að loka veginum við afleggjara Þverárfjallsvegs og Hrauns á Skaga en fólk var staðráðið í því að sjá dýrið og taka myndir af því þannig að sumir notuðu hjáleið sem lögreglumaður vissi ekki af og komst því nær. Af upplýsingum sjónarvotta að dæma virtist fólk ekki gera sér nokkra grein fyrir þeirri hættu sem stafaði af dýrinu.
Lögregla kallaði til fjórar skyttur sem komu á vettvang skömmu á eftir lögreglu. Einnig var leitað aðstoðar Náttúrustofu Norðurlands vestra (NNV). Þegar hér var komið reyndi lögreglan að tryggja vettvang eftir föngum en það var erfitt þar sem mikið af fólki var á staðnum nokkur hundruð metra frá dýrinu. Lögregla og skyttur fylgdust með dýrinu en fljótlega kom að því styggð og dýrið fór á hreyfingu. Hvarf dýrið í um fimm mínútur og sást aftur þar sem það var komið töluvert lengra til suðvesturs og útfyrir þá lokun sem lögregla hafði sett. Mikil þoka var ofar í hlíðum Þverárfjalls og af öryggisástæðum og ótta við að dýrið myndi týnast í þokunni var tekin ákvörðun um að fella dýrið.
Stefáni Vagni varð á orði á dögunum: „Rakst aftur á þennan, nú í Perlunni.“