Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór í störfum þingsins yfir þjóðfélagsumræðuna gagnvart sjókvíaeldi. Umræðan hefur farið hátt eftir að Ríkisendurskoðandi birti nýverið skýrslu sína um stjórnsýsluúttekt á greininni. Boston Consulting Group kom einnig fram með skýrsla þars sem metin voru framtíðartækifæri og áskoranir í íslensku lagareldi og greina tækifæri til sjálfbærrar verðmætasköpunar.
Fjölmargar jákvæðar hliðar lagareldis – engin ástæða til skautunar í umræðunni um laxeldi
„Staðreyndin er að sjókvíaeldi er ekki jafn slæmt og það er málað upp í fjölmiðlum. Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar. Ef við tölum um próteinframleiðslu er kolefnisfótspor fiskeldis, þar með talið sjókvíaeldis, minna en próteinframleiðsla annarra dýraafurða á landi. Hér á landi eru góð skilyrði fyrir fiskeldi, þ.e. sjálfbær orka, góð vatnaskipti í fjörðum og mikil og góð þekking á lífríki sjávar. Allt þetta er mikilvægt til að fiskeldi vegni vel. Fiskeldið er komið af stað og við höfum alla möguleika á að sjá það dafna í sátt við umhverfi og samfélag,“ sagði Halla Signý.
Ísland getur skapað sér samkeppnisforskot í lagareldi með skýrum ramma utan um eldið segir í skýrslu Boston Consulting Group. Eins verði að sinna eftirliti og rannsóknum í nærumhverfinu og styrkja þarf getu sveitarfélaganna til að fjárfesta í innviðum með endurskoðun á skiptingu skatta og gjalda á milli ríkis og sveitarfélaga.
„Þessi atriði hef ég bent á hér áður og lagt til tillögur þess efnis. Okkar verkefni er að laga þau atriði sem bent hefur verið á í þessum skýrslum, greininni til heilla,“ sagði Halla Signý að lokum.
Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Undanfarnar vikur hefur sjókvíaeldi verið mikið í umræðunni eftir að ríkisendurskoðandi birti skýrslu sem innihélt stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi. Þá kom einnig út önnur skýrsla á dögunum, skýrsla sem unnin var af Boston Consulting Group og var ætlað að meta framtíðartækifæri og áskoranir í íslensku lagareldi og greina tækifæri til sjálfbærrar verðmætasköpunar. Skýrslan tekur undir málflutning þeirra sem horfa á fiskeldi sem lykilstoð í uppbyggingu sterkrar landsbyggðar og sem vaxandi stoð í hagkerfi landsins. Í þeirri skýrslu er einnig komið inn á jákvæðar hliðar lagareldis. Því miður er ákveðin skautun í umræðunni hér á landi um laxeldi. Staðreyndin er að sjókvíaeldi er ekki jafn slæmt og það er málað upp í fjölmiðlum. Fiskeldi er sjálfbær matvælaframleiðslulausn til framtíðar. Ef við tölum um próteinframleiðslu er kolefnisfótspor fiskeldis, þar með talið sjókvíaeldis, minna en próteinframleiðsla annarra dýraafurða á landi. Hér á landi eru góð skilyrði fyrir fiskeldi, þ.e. sjálfbær orka, góð vatnaskipti í fjörðum og mikil og góð þekking á lífríki sjávar. Allt þetta er mikilvægt til að fiskeldi vegni vel. Fiskeldið er komið af stað og við höfum alla möguleika á að sjá það dafna í sátt við umhverfi og samfélag.
Í skýrslu BCG kemur fram að Ísland geti skapað sér samkeppnisforskot í lagareldi, en til þess þarf sterkan ramma utan um eldið. Bæði fiskeldi og sveitarfélög sem koma að eldinu hafa ítrekað kallað eftir að eftirliti og rannsóknum sé sinnt í nærumhverfi þess. Þá tekur BCG undir ákall sveitarfélaganna um að endurskoða þurfi skiptingu skatta og gjalda á milli ríkis og sveitarfélaga til að auka getu sveitarfélaga til að fjárfesta í innviðum. Þessi atriði hef ég bent á hér áður og lagt til tillögur þess efnis. Okkar verkefni er að laga þau atriði sem bent hefur verið á í þessum skýrslum, greininni til heilla.“
23/03/2023
„Landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi“„Niðurstöðurnar eru skýrar – það er landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins, um svar háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn hennar um fjölda nemenda í háskólum á Íslandi og um framboð á fjarnámi.
„Ef við horfum á hvern háskóla fyrir sig verð ég að byrja á því að hrósa Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri fyrir að bjóða upp á alla sína áfanga í fjarnámi. Einnig eru um 70% nemenda í Landbúnaðarháskólanum skráð í fjarnám og í Háskólanum á Hólum er hægt að stunda fjarnám í öllum bóklegum áföngum,“ sagði Lilja Rannveig.
„Þetta er vel hægt – þetta er spurning um viðhorf“
„Í skólunum á höfuðborgarsvæðinu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, eru rúmlega 80% allra áfanga á háskólastigi sem í boði eru á landinu. Af þeim áföngum er einungis hægt að taka 11% í fjarnámi,“ sagði Lilja Rannveig.
„Viðhorfsbreytinga er þörf“
„Við viljum hafa búsetu hringinn í kringum landið og við eigum ekki að þurfa að neyða fólk til að flytjast búferlaflutningum til þess eins að stunda nám nema það sé nauðsynlegt fyrir námsframvindu, eins oft í verklegum fögum. Þess má geta að þetta er líka stórt lýðheilsumál. Rannsóknir sýna að skert aðgengi að menntun getur leitt til verri heilsu. Aukið aðgengi að menntun er eitt af verkfærum okkar til að auka jöfnuð í landinu og fjarnám er ein besta leiðin til þess,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:
„Hæstv. forseti. Í vikunni fékk ég svar frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn minni um fjölda nemenda í háskólum á Íslandi og um framboð á fjarnámi. Niðurstöðurnar eru skýrar; það er landfræðilegur munur á viðhorfi og framboði til fjarnáms á háskólastigi. Ef við horfum á hvern háskóla fyrir sig verð ég að byrja á því að hrósa Háskólanum á Bifröst og Háskólanum á Akureyri fyrir að bjóða upp á alla sína áfanga í fjarnámi. Einnig eru um 70% nemenda í Landbúnaðarháskólanum skráð í fjarnám og í Háskólanum á Hólum er hægt að stunda fjarnám í öllum bóklegum áföngum. Þetta er vel hægt. Þetta er bara spurning um viðhorf. Í skólunum á höfuðborgarsvæðinu, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, eru rúmlega 80% allra áfanga á háskólastigi sem í boði eru á landinu. Af þeim áföngum er einungis hægt að taka 11% í fjarnámi. Viðhorfsbreytinga er þörf. Við viljum hafa búsetu hringinn í kringum landið og við eigum ekki að þurfa að neyða fólk til að flytjast búferlaflutningum til þess eins að stunda nám nema það sé nauðsynlegt fyrir námsframvindu, eins oft í verklegum fögum. Þess má geta að þetta er líka stórt lýðheilsumál. Rannsóknir sýna að skert aðgengi að menntun getur leitt til verri heilsu. Aukið aðgengi að menntun er eitt af verkfærum okkar til að auka jöfnuð í landinu og fjarnám er ein besta leiðin til þess.“
23/03/2023
Breytingar á losunarheimildunum í flugi – harkalegar fyrir ÍslandIngibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar og formaður þingmannanefndar EFTA og EES, sótti fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES í Strassborg á dögunum. Þingmannanefndin hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins og um áskoranir í starfi sínu.
Á fundinum lagði Ingibjörg sérstaka áherslu á áhyggjur Íslendinga af einni grundvallaráskorun sem varðar viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi. Sagði hún Ísland ætla að sjálfsögðu að taka fullan þátt í Parísarloftslagsmarkmiðunum og að Ísland hafi sett metnaðarfull markmið um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og styðji markmið „Fit for 55 pakkans“. En að Íslendingar hafi verulegar áhyggjur af því hversu harðar fyrirhugaðar breytingar á beitingu ETS-kerfisins yrðu fyrir flugið í landinu.
Endurskoðun ETS-kerfisins mun leiða til alvarlegrar röskunar á jöfnum samkeppnisskilyrða flugfélaga sem nota Ísland til millilendinga á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Tilgangur endurskoðunarinnar er skiljanlegur, enda ætlað að flýta fyrir grænum umskiptum í fluggeiranum og ýta neytendum yfir í aðra umhverfisvænni ferðamáta fyrir skemmri leiðir innan ESB.
„Við Íslendingar erum hins vegar ekki með lestarsamgöngur eða aðra sambærilega ferðamáta og landið því háð flugferðum til og frá Evrópu þar sem það er eina raunhæfa leiðin til að ferðast til og frá landinu,“ sagði Ingibjörg,
„Við munum því ekki styðja að fella viðeigandi reglugerð inn í EES-samninginn án aðlögunar, vegna okkar landfræðilegu aðstæðna. Ég vil leggja áherslu á að á meðan Ísland styður fullkomlega markmið „Græna samningsins“ munu áhrifin bitna harðar á Íslandi en öðrum þar til raunhæfar grænar lausnir verða að veruleika. Ísland mun þurfa aðlögun þar til það gerist,“ sagði Ingibjörg.
Stríðið í Úkraínu
Að lokinni umfjöllun um EES málin var stríðið í Úkraínu næst til umræðu líkt og hefur verið í brennidepli í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á síðasta ári.
„Fyrir rúmu ári hefði það verið óhugsandi fyrir flest okkar að við værum hér í dag og ræddum áframhaldandi stríð í Úkraínu. Ár er liðið frá því að Rússar hófu mestu átök á meginlandi Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni. Á þessum tíma hafa íbúar Úkraínu sýnt aðdáunarvert hugrekki og seiglu í baráttunni fyrir sameiginlegum gildum okkar á sama tíma og þola daglegar skelfingar stríðsins,“ sagði Ingibjörg og hélt áfram, „það er aðeins Rússland sem getur og verður að stöðva stríðið. Og það er skylda okkar að styðja Úkraínu, eins lengi og það tekur,“ sagði Ingibjörg.
Ísland hefur tekið á móti yfir tvö þúsund og fimm hundruð úkraínskum flóttamönnum frá stríðsbyrjun, sem er töluvert miðað við íbúafjölda 375.000. Á síðasta ári var fjárhagslegur stuðningur Íslands við Úkraínu áætlaður um 2,2 milljarðar króna (u.þ.b. 14,5 milljónir evra). Áætlað er að fjárstuðningur í ár fari umfram það.
Orkumál í Evrópu
Að lokinni umfjöllun um Úkraínu voru orkumál í Evrópu á dagskrá fundarins, þau munu enda verða ítrekað til umfjöllunar á vettvangi þingmannanefnda EFTA og EES líkt og á síðasta ári. Stríðið í Úkraínu hefur haft gríðarlega mikil áhrif á orkuframboð, orkuverð og orkuöryggi í Evrópu.
„Það er mikilvægt að styðja við skapandi lausnir nýsköpunariðnaðarins til að draga úr losun. Frábært dæmi er Carbfix verkefnið sem er langvarandi umhverfislausn sem fjarlægir koltvísýring (CO2) úr loftinu og breytir því í stein á innan við tveimur árum. Á síðasta ári fékk Carbfix um 110 milljónir evra styrk frá Nýsköpunarsjóði Evrópu til að reisa koltvísýringsgeymslustöð á Íslandi, þá fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Áætlað er að starfsemin hefjist um mitt ár 2026 og fullum afköstum verður náð árið 2031, þegar allt að 3 milljónir tonna af CO2 verða geymd árlega með því að jarðefna það varanlega neðanjarðar,“ sagði Ingibjörg.
„Carbfix verkefnið er fullkomið dæmi um hvernig EES-samningurinn gagnast bæði EES-EFTA aðildarríkjunum og ESB. Ég vil að lokum ítreka skuldbindingu Íslands til að vinna við hlið ESB til að tryggja sjálfbæra og örugga orkuframtíð,“ sagði Ingibjörg.
„Þegar tæknin skilur íslensku“
22/03/2023
„Þegar tæknin skilur íslensku“Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins mikilvægi þess að íslenskan sé fyrst alla tungumála fyrir utan ensku, í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4.
„Samstarf Íslendinga við fyrirtækið OpenAI hefur nú komið því til leiðar að verið er að fínþjálfa stærsta gervigreindarnet heims til að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er stórfrétt fyrir okkur öll sem notum íslenska tungu,“ sagði Líneik Anna.
„Það er víða horft til þessarar vinnu frá öðrum sem tala fámennistungumál, m.a. frá fámennum þjóðum frumbyggja á norðurslóðum. Þessi árangur byggist á margra ára samvinnu fólks sem vinnur við tækni, vísindi, stjórnsýslu og stjórnmál, “ sagði Líneik Anna.
„Árangurinn byggir ekki síst á framsýni þessa fólks sem hefur unnið með það sem við höfum kallað tungutækni og seinna máltækni í hátt í aldarfjórðung. Vegna þessarar vinnu komum við Íslendingar með heilmikið að borði erlendra tæknifyrirtækja. Íslendingar hafa með öðrum orðum fjárfest í mikilvægum innviðum á sviði máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019, og nú er komið að því að móta næsta kafla hennar. Gervigreindin hefur vaxandi áhrif á daglegt líf okkar allra, svo sem í gegnum ryksuguvélmenni, yfirlestur á texta, ritgerðarskrif, val á tónlist eða upplýsingar um veðrið. Þegar tæknin skilur íslensku styður hún við daglega notkun tungumálsins og í því felast mörg sóknarfæri. Tungumálið íslenska geymir upplýsingar um menningu, náttúru landsins og þjóð og á henni byggjast mörg tækifæri framtíðar. Þess vegna þarf framtíðin að tala íslensku,“ sagði Líneik Anna að lokum.
***
Ræða Líneikar Önnur í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Ég má til með að ræða hér um mikilvægi þess að íslenska hafi verið valin í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Samstarf Íslendinga við fyrirtækið OpenAI hefur nú komið því til leiðar að verið er að fínþjálfa stærsta gervigreindarnet heims til að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er stórfrétt fyrir okkur öll sem notum íslenska tungu.
Það eru margir sem velta því fyrir sér hvort samstarfið geti síðar orðið fyrirmynd fyrir önnur tungumál og alþjóðlega er íslenska því ákveðinn brautryðjandi. Það er víða horft til þessarar vinnu frá öðrum sem tala fámennistungumál, m.a. frá fámennum þjóðum frumbyggja á norðurslóðum. Þessi árangur byggist á margra ára samvinnu fólks sem vinnur við tækni, vísindi, stjórnsýslu og stjórnmál.
Árangurinn byggir ekki síst á framsýni þessa fólks sem hefur unnið með það sem við höfum kallað tungutækni og seinna máltækni í hátt í aldarfjórðung. Vegna þessarar vinnu komum við Íslendingar með heilmikið að borði erlendra tæknifyrirtækja. Íslendingar hafa með öðrum orðum fjárfest í mikilvægum innviðum á sviði máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019, og nú er komið að því að móta næsta kafla hennar. Gervigreindin hefur vaxandi áhrif á daglegt líf okkar allra, svo sem í gegnum ryksuguvélmenni, yfirlestur á texta, ritgerðarskrif, val á tónlist eða upplýsingar um veðrið. Þegar tæknin skilur íslensku styður hún við daglega notkun tungumálsins og í því felast mörg sóknarfæri. (Forseti hringir.) Tungumálið íslenska geymir upplýsingar um menningu, náttúru landsins og þjóð og á henni byggjast mörg tækifæri framtíðar. Þess vegna þarf framtíðin að tala íslensku.“
Nýr framkvæmdastjóri Framsóknar
20/03/2023
Nýr framkvæmdastjóri FramsóknarHelgi Héðinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Framsóknar. Hann tekur við af Teiti Erlingssyni, sem hefur sinnt hlutverki framkvæmdastjóra tímabundið frá áramótum. Helgi hefur störf í dag, en Teitur mun áfram starfa á skrifstofu Framsóknar.
Helgi er með meistaragráðu í stjórnun (MBA), meistaragráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og BSc í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands, en Helgi sinnti einnig stundakennslu við Háskóla Íslands um árabil samhliða námi. Helgi hefur mikla reynslu af rekstri og stjórnun fyrirtækja ásamt því að hafa setið í ýmsum stjórnun bæði sem aðalmaður og stjórnarformaður. Einnig hefur Helgi víðtæka reynslu á sveitarstjórnarstiginu sem sveitarstjórnarfulltrúi, oddviti og sem sveitarstjóri Skútustaðahrepps. Helgi er fyrsti varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og hefur tvisvar tekið sæti á Alþingi á núverandi kjörtímabili.
Helgi er 34 ára og er trúlofaður Rannveigu Ólafsdóttur, lögfræðingi. Saman eiga þau tvö börn.
Við bjóðum Helga velkominn til starfa og þökkum Teiti Erlingssyni fyrir vel unnin störf.
20/03/2023
Saman mótum við skýra framtíðarsýnUndanfarnar vikur og mánuði hefur KPMG unnið í samstarfi við bæjarstjórn og stjórnendur stofnana í Hveragerði að úttekt á stjórnsýslu og stefnumótun sveitarfélagsins. Álíka úttekt á rekstri bæjarins fór fram fyrir um 10 árum.
Róum í sömu átt
Framsókn í Hveragerði hefur lagt mikla áherslu á skýra framtíðarsýn og mikilvægi þess að horfa til lengri tíma þegar kemur að rekstri sveitarfélagsins og stefnumörkun. Að setja sér sameiginleg markmið og móta leiðir að þeim hefur reynst farsæl leið til að ná árangri. Við stefnumótun er staðan greind eftir styrkleikum, veikleikum, ógnunum og tækifærum. Mikill samhljómur var á meðal þeirra sem unnið hafa að drögunum enda margt jákvætt unnist á undanförnum árum.
Höldum áfram
Fyrstu drög að stefnumótun hafa verið kynnt stjórnendum og nú gefst bæjarbúum tækifæri til að leggja sitt á vogarskálarnar með því að taka þátt í íbúakönnun og hafa þannig áhrif á hvert stefnan verður tekin.
Höfum áhrif
Íbúakönnunin fer fram í gegnum heimasíðu Hveragerðisbæjar hveragerdi.is og stendur til 26. mars næstkomandi. Bæjarbúar eru hvattir til að taka þátt, forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi og setja þannig fram sínar áherslur. Að íbúakönnun lokinni verða niðurstöður tengdar við stefnumótunina og því næst lögð fram aðgerðaráætlun að innleiðingu stefnunnar fyrir samfélagið í Hveragerði. Vinnum saman að enn betri bæ.
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknar í Hveragerði
16/03/2023
Val um fjölbreytta ferðamátaÞegar samgöngusáttmáli ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var undirritaður árið 2019 hafði ríkt frost í uppbyggingu innviða á höfuðborgarsvæðinu og í raun frost í samskiptum höfuðborgarsvæðisins og ríkisins er vörðuðu samgöngur. Samgöngusáttmálinn markaði því tímamót.
Í samgöngusáttmálanum felst sameiginleg sýn á hvernig umferðarvandi höfuðborgarsvæðisins verður best leystur til lengri tíma. Það er ljóst að til að mæta þörfum íbúa höfuðborgarsvæðisins sem eru helmingur landsmanna verður sá vandi ekki leystur einvörðungu með því að styrkja stofnvegakerfið. Hann verður heldur ekki leystur með því að horfa einvörðungu á almenningssamgöngur. Niðurstaða samgöngusáttmálans er blönduð leið þar sem annars vegar eru lagðir miklir fjármunir í umfangsmiklar stofnvegaframkvæmdir til að bæta flæði umferðar um höfuðborgarsvæðið og hins vegar uppbygging hágæðaalmenningssamgangna. Auk þess er lögð mikil áhersla á uppbyggingu göngu- og hjólastíga.
Öflugra stofnvegakerfi
Framkvæmdir við stofnvegi eru tæpur helmingur af kostnaði við samgöngusáttmálann. Af þeim 10 stóru stofnvegaframkvæmdum sem eru á sviði sáttmálans er þremur lokið. Nú þegar hefur verið lokið framkvæmdum við kafla Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut að Hafravatnsvegi, kafla Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að Krýsuvíkurvegi og kafla Suðurlandsvegar frá Bæjarhálsi að Vesturlandsvegi. Á næstu mánuðum hefjast framkvæmdir við langþráða tengingu Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut og undirbúningur við gatnamót Reykjanesbrautar og Bústaðavegar er á lokametrunum. Þessar framkvæmdir eru meðal þeirra mikilvægustu í samgöngusáttmálanum og munu greiða verulega fyrir umferð íbúa svæðisins.
Hágæða almenningssamgöngur
Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgar hratt og nemur fjölgunin tugum þúsunda á síðustu tíu árum.. Það er ljóst að til að tryggja betra flæði umferðar og þar með aukin lífsgæði fólks á svæðinu er nauðsynlegt að byggja upp hágæðaalmenningssamgöngur eins og við þekkjum frá þeim löndum og borgum sem við berum okkur helst saman við. Góðar almenningssamgöngur eru ekki einungis mikilvægt loftslagsmál og brýnt til að draga úr svifryksmengun heldur létta þær verulega á kostnaði fjölskyldna þegar auðveldara verður að fækka bílum á heimili. Aukin áhersla á almenningssamgöngur er nefnilega ekki, eins og sumir halda fram, árás á fjölskyldubílinn. Betri almenningssamgöngur eru nauðsynlegar til þess að gera umferðina skilvirkari og betri. Nú þegar nýta höfuðborgarbúar um það bil 12 milljónir ferða í Strætó og er auðvelt að ímynda sér hversu mikið vandinn myndi aukast við að 30-35 þúsund manns bættust við á hverjum degi á götunum í fjölskyldubílum. Að sama skapi er augljóst að betri almenningssamgöngur draga úr umferðarþunga og þeim töfum sem eru vegna umferðarhnúta í dag.
Aukin áhersla á virka ferðamáta
Eftir því sem tíminn líður nýta stöðugt fleiri sér aðra samgöngumáta en bíl og almenningssamgöngur í daglegu lífi. Með bættum hjólastígum hafa möguleikarnir til að hjóla til og frá vinnu aukist verulega, bæði á hefðbundnum reiðhjólum en einnig á rafhjólum og rafhlaupahjólum. Þróunin hefur verið hröð síðustu árin frá því að skrifað var undir samgöngusáttmálann og því hefur krafan um aukna áherslu á uppbyggingu hjólastíga aukist í takti við aukna notkun.Bættar samgöngur þýða aukin lífsgæði
Samgöngusáttmálinn er risastórt verkefni. Hann er í stöðugri þróun eins og eðlilegt er með svo umfangsmiklar framkvæmdir. Um sáttmálann og þá framtíðarsýn sem hann boðar er breið sátt enda felast í honum gríðarlegar umbætur. Bættar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu þýða aukin lífsgæði fyrir íbúa svæðisins. Þær stytta umferðartímann, minnka mengunina og búa til betri tengingar fyrir fólk og fyrirtæki á svæðinu. Mikilvægt er að íbúar höfuðborgarsvæðisins geti valið sér ferðamáta, hvort sem það er fjölskyldubíllinn, almenningssamgöngur eða gangandi og hjólandi. Um þessa fjölbreytni snýst samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar. Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs og oddviti Framsóknar í Reykjavík, Orri Vignir Hlöðversson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Kópavogi, Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Hafnarfirði, Brynja Dan, oddviti Framsóknar í Garðabæ, Halla Karen Kristjánsdóttir, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Mosfellsbæ.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. mars 2023.
16/03/2023
Fyrsta áætlunin um framkvæmd lýðheilsustefnu birt til umsagnarBirt hafa verið til umsagnar drög að aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra um framkvæmd lýðheilsustefnu til fimm ára. Áætlunin verður lögð fyrir Alþingi til umræðu. Í henni er forgangsraðað til næstu fimm ára stefnumarkmiðum þingsályktunar um lýðheilsustefnu sem samþykkt var á Alþingi 2021. Umsagnarfrestur er til 28. mars næstkomandi.
Ályktun Alþingis felur í sér að leiðarljós lýðheilsustefnu fram til ársins 2030 verði heilsuefling og forvarnir þar sem markmiðið er að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er. Stefnt skal að því að lýðheilsustarf sé markvisst og einkennist meðal annars af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu og annarra hagaðila, s.s. sveitarfélaga.
Í lok júní 2022 skipaði heilbrigðisráðherra verkefnahóp til að vinna drög að aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu sem hvetji fólk til að huga að eigin heilsu. Hópurinn kallaði fjölmarga aðila sem sinna lýðheilsustarfi á sinn fund og kynnti sér ýmis verkefni sem hafa áhrif á lýðheilsu á einn eða annan hátt. Helstu niðurstöður hópsins voru kynntar á heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu í nóvember 2022. Aðgerðaáætlunin sem nú er birt til umsagnar byggist á vinnu verkefnahópsins, tillögum sem fram komu á heilbrigðisþinginu og stefnum og aðgerðaáætlunum heilbrigðisráðuneytisins sem varða heilsu og forvarnir, s.s. um heilsueflingu aldraðra, krabbameinsáætlun, geðheilbrigðisstefnu og stafræna heilbrigðisþjónustu. Uppbygging aðgerðaáætlunar lýðheilsustefnu kallast á lykilviðfangsefni heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem felast m.a. í forystu til árangurs, réttri þjónustu á réttum stað, fólkið í forgrunni, virkum notendum, gæði og skilvirk þjónustukaup.
Helstu aðgerðir samkvæmt áætluninni
Í áætluninni eru skilgreindar 11 aðgerðir í þágu lýðheilsu sem unnið verður að á næstu fimm árum. Hver þeirra er brotin niður í fleiri verkefni. Sem dæmi um aðgerðir og verkefni má nefna:
- Gildandi löggjöf sem snýr að lýðheilsu metin og greind þörf á sérstökum lögum um lýðheilsu.
- Lýðheilsumat verði hlut af sjálfbærnimati lagafrumvarpa og gátlistar þróaðir
- Gerður verði sáttmáli um bætta lýðheilsu og öfluga samvinnu í því skyni
- Áframhaldandi skipulagður stuðningur við heilsueflandi verkefni í heimabyggð
- Vitundarvakning með áherslu á að efla heilsulæsi almennings
- Rafræn upplýsingamiðlun og þróun rafrænna lausna í þágu heilsueflingar og forvarna
- Efling lýðheilsusjóðs
- Þróun lýðheilsuvísa og birtingar þeirra – lýðheilsuvakt sett á fót
- Aukin áhersla á heilsueflingu eldra fólks í samstarfi ríkis og sveitarfélaga
- Endurmat krabbameinsáætlunar – aðgerðum hrint í framkvæmd
- Markviss gagnasöfnun um lýðheilsustarf og gagnreyndar aðferðir
Aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu í samráðsgátt
Heimild: stjr.is
15/03/2023
Magnaður áfangi fyrir íslenskunaÞað er sannarlega magnaður áfangi fyrir íslenskuna að tungumálið okkar hafi verið valið í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Samstarfsverkefni með fyrirtækinu OpenAI hefur komið því til leiðar að stærsta gervigreindarnet heims er nú fínþjálfað til þess að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er sannarlega stórmál fyrir mál málanna – íslenska tungu. Ör þróun gervigreindartækni er afar mikilvæg fyrir tungumál eins og okkar og þar felast mörg sóknarfæri sem flest eru ókönnuð enn– en með samstarfinu fáum við ákveðið forskot til þess. Við viljum jú að framtíðin geti svarað okkur á íslensku.
Orð til alls fyrst
Samstarf þetta er afrakstur af heimsókn sendinefndar forseta Íslands í maí sl. þar sem við heimsóttum meðal annars höfuðstöðvar OpenAI í San Fransisco. Fyrirtækið er leiðandi í alþjóðlegri umræðu um opið aðgengi að gervigreindartækni og ábyrga og örugga þróun hennar fyrir heimsbyggðina alla. Hægt var að nýta íslensku að takmörkuðu leyti í fyrri útgáfu mállíkansins en með þessari nýju uppfærslu er árangurinn margfalt betri og möguleikar gervigreindarinnar til þess að læra hraðar og miðla betur á íslensku hafa aukist verulega.
Samstarfið um íslenska virkni tækninnar er eitt af sex þróunarverkefnum sem OpenAI stendur að í tengslum við útgáfu GPT-4 og það eina af þeim sem tengist annarri þjóðtungu en ensku. Til skoðunar er í framhaldinu hvort samstarfið geti síðar orðið fyrirmynd fyrir önnur tungumál og því er íslenskan ákveðinn brautryðjandi að þessu leyti.
Dýrmæt þekking
Samvinna skilar okkur árangri. Við komum með heilmikið að borðinu í samtali okkar við erlend tæknifyrirtæki – Íslendingar hafa fjárfest í mikilvægu innviðum á sviðum máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019 og lýkur nú í ár.
Um 60 manns hafa unnið að fjölbreyttum verkefnum og hér á landi hefur byggst upp dýrmæt fagþekking á þessu spennandi sviði vísinda og nýsköpunar sem eftir er tekið. Íslenskar kjarnalausnir á sviðum máltækni eru aðgengilegar í opnum aðgangi, m.a. fyrir frumkvöðla, fólk í nýsköpun og fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri sem geta þróað notendalausnir út frá þeim. Hagnýting slíkra lausna fyrir almenning verður ein megináhersla í áframhaldandi máltækniverkefnum en brátt hefst vinna við að undirbúning og skrif næstu áætlunar.
Þakkir og stolt
Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að þessum spennandi verkefnum, ekki síst forseta Íslands sem lagt hefur sitt lóð á vogarskálarnar við að tala máli íslenskunnar í alþjóðlegu samhengi – og annarra tungumála fámennari ríkja – samstarfsfólki hjá Almannarómi og SÍM-hópnum, og sjálfboðaliðunum sem fyrir tilstilli máltæknifyrirtækisins Miðeindar komu að þjálfun gervigreindarinnar síðustu misserin.
Fá málefni eru mér jafn hugleikin og íslenskan, tungumálið er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir. Við höfum ríkum skyldum að gegna við að tryggja aðgengi að íslensku og notkun hennar til framtíðar. Íslenskt hugvit og ástríða munu stuðla að því að það verði gerlegt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2023.
14/03/2023
Skilvirkni í stjórnkerfinu skal taka til gagngerrar endurskoðunarÞórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, ræddi mikilvægi þess að fræðast á vettvangi hvernig aðrar þjóðir takast á við sambærileg verkefni og áskoranir til að viðhalda góðri velferð, í störfum þingsins.
„Virðulegi forseti. Það er öllum hollt að horfa yfir túngarðinn og velta fyrir sér hvernig nágranninn heldur á sínum málum. En það er enn betra að sækja nágrannann heim, hlusta og fræðast. Sá sem hér stendur átti þess kost ásamt atvinnuveganefnd Alþingis að sækja heim frændur okkar í Færeyjum og Noregi í síðustu viku.
Ísland og Færeyjar og Noregur eiga margt sameiginlegt. Undirstaða góðra lífskjara er frumframleiðsla; sjávarútvegur og fiskeldi, landbúnaður og orkuvinnsla.
Vissulega eru mismunandi áherslur á mikilvægi atvinnugreina milli landa en á þessum grunnstoðum byggist velferð þessara þjóða ásamt nýsköpun og skapandi greinar. En þegar kemur að því að móta starfsskilyrði, skilvirkni og umgjörð atvinnugreina getum við Íslendingar gert mun betur í þeim efnum.
Tökum dæmi. Norðmenn ganga mun lengra en Íslendingar er kemur að því að heimila sínum landbúnaði samstarf og samvinnu og þegar spurt er: Hvers vegna gerið þið það? þá er svar Norðmanna á þessa leið: Við búum í stóru landi og við erum ekki nema 5,3 milljónir. Okkar landbúnaður getur ekki keppt við framleiðslu frá þjóðum, t.d. innan ESB.
Hér á landi höfum við heimilað mjólkurframleiðslunni að taka sambærileg skref en kjötframleiðslan hefur enn sem komið er ekki fengið það sem til þarf, þ.e. heimild til samstarfs og samvinnu. Samt búum við í stóru landi og við erum ekki nema 360.000.
Skilvirkni í stjórnkerfi er nokkuð sem þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Í Noregi t.d. tekur ekki nema 26 vikur að fá niðurstöðu um það hvort menn geti farið í sjókvíaeldi eða ekki. Hérna getur það tekið allt að átta árum eða tíu,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.