Categories
Fréttir

Samningar um aukið framboð á húsnæði í undirbúningi

Deila grein

13/09/2022

Samningar um aukið framboð á húsnæði í undirbúningi

Sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga um stóraukið framboð íbúða á næstu árum hófst formlega í dag þegar haldinn var upphafsfundur um framkvæmd rammasamnings sem undirritaður var í júlí sl. Rammasamningurinn kveður á um að fjölga íbúðum um 20.000 á fimm árum og 35.000 á tíu árum, þar af verði 30% nýrra íbúða hagkvæmar á viðráðanlegu verði og 5% íbúða félagsleg húsnæðisúrræði.

HMS mun á næstu vikum, fyrir hönd ríkisins, vinna með sveitarfélögum við að meta núverandi húsnæðisáætlanir, greina tækifæri til frekari uppbyggingar og gera samninga um slíkar áætlanir. Samningarnir munu kveða á um fjölda íbúða, íbúðagerð og staðsetningu til að skapa fyrirsjáanleika til næstu ára. Samkvæmt húsnæðisáætlunum fyrir árið 2022 er aðeins gert ráð fyrir um 16.000 nýjum íbúðum á fimm árum. Á sama tíma verður farið yfir áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir vegna aukinnar uppbyggingar og endurmat á íbúðaþörf. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Nú verða allir að róa í sömu átt og leggja allt kapp á að tryggja aukið framboð íbúða. Jafnvægi á húsnæðismarkaði er nauðsynlegt til þess að skapa húsnæðisöryggi, hagstætt vaxtaumhverfi til lengri tíma og verja efnahag heimilanna. Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga sem undirritaður var í sumar var mikilvægur áfangi að ná sameiginlegri sýn um það hvernig megi ná jafnvægi á húsnæðismarkaði og fyrirsjáanleika fyrir stjórnvöld og byggingaraðila um uppbyggingu. Nú er unnið markvisst að því að útfæra samninginn með sveitarfélögum, m.a. til að tryggja nægjanlega fjölda byggingarhæfra lóða, eyða flöskuhálsum í skipulagsferlum og meta hvaða fjármuni ríkið leggur til í húsnæðisstuðning og stofnframlög. Við bíðum nú eftir kostnaðarmati HMS og sveitarfélaga til að geta metið endanlegar tillögur að fjármögnun til verkefnisins úr ríkissjóði. Þetta er viss áskorun á tímum þegar gæta þarf sjónarmiða um aðhald á fjárlögum. Þó er ljóst að hússnæðisskortur hækkar fasteignaverð og vísitölu, sem aftur getur hækkað verðbólgu og hefur þannig bein áhrif á ráðstöfunartekjur fólksins í landinu. Skynsamleg fjárfesting hins opinbera í húsnæðisstuðning er því mikilvæg og tryggir aukið framboð íbúða og dregur úr þenslu á fasteignamarkaði.“

Kostnaðarmat húsnæðisstuðnings í undirbúningi

HMS og Samband íslenskra sveitarfélaga munu í október nk. skila innviðaráðherra kostnaðarmati og tillögum um það hver húsnæðisstuðningur við sveitarfélög þarf að vera til að byggja upp hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði í samræmi við markmið rammasamningsins.

Þá er starfshópur um húsnæðisstuðning að störfum með það hlutverk að endurskoða beinan húsnæðisstuðning til einstaklinga. Á grundvelli þeirrar vinnu og á grundvelli tillagna starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði, frá maí 2022, er gert ráð  fyrir breytingum og auknum húsnæðisstuðningi ríkisins frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 2023. Þar sem starfshóparnir eru enn að störfum er horft til annarrar umræðu fjárlaga í því samhengi. 

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga „Að útfæra einstaka þætti rammasamningsins er mikil en jákvæð áskorun fyrir ríki og sveitarfélög. Við erum að feta nýja slóð í þessari samvinnu og mikilvægt er að vel til takist. Rammasamningurinn hefur nú þegar skapað væntingar sem við megum ekki bregðast. Fyrir liggur tímasett aðgerðaáætlun með 24 verkefnum og aðgerðum sem við verðum að einhenda okkur í að framkvæma. Með samstilltu átaki geta ríki og sveitarfélög vonandi náð markmiðum samningsins.“

Þriðjungur íbúða hagkvæmar á viðráðanlegu verði eða félagsleg húsnæðisúrræði

Samkvæmt rammasamningi er gert ráð fyrir að 30% nýrra íbúða verði hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði, sem byggðar er með stofnframlögum frá ríkinu eða með hlutdeildarlánum, samtals um 6.000 íbúðir á næstu fimm árum. Að sama skapi er áætlað að 5% íbúðanna verði félagsleg húsnæðisúrræði á vegum sveitarfélaganna, eða um 1.000 íbúðir á næstu fimm árum. Með þessum aðgerðum er verið að mæta þeim hópi sem hefur átt erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn bæði fyrstu kaupendum og tekju- og eignalægri hópum.

Húsnæðisstefna og húsnæðisáætlun í byrjun næsta árs

Að lokinni þessari vinnu og þegar samningar milli HMS og sveitarfélaga um aukna uppbyggingu á hverjum stað liggja fyrir mun HMS í upphafi næsta árs leggja fram og birta heildstæða húsnæðisáætlun fyrir allt landið. Í húsnæðisáætluninni, sem verður stafræn, verður nákvæm áætlun um uppbyggingu í hverju sveitarfélagi fyrir sig og því verður hægt fylgjast með framvindu uppbyggingar nýrra íbúða á vef HMS.

Innviðaráðuneytið vinnur nú að gerð húsnæðisstefnu með aðgerðaáætlun, sem verður sú fyrsta sem gerð hefur verið í málaflokknum. Grænbók verður kynnt í haust og þingsályktunartillaga um húsnæðisstefnu kynnt í upphafi árs 2023.

Helstu áfangar

  • 30. nóvember – Húsnæðis- og skipulagsmál færð til innviðaráðuneytisins í tengslum við ríkisstjórnarskipti í því skyni að tryggja betri samhæfingu með sveitarfélögum og aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði.
  • 17. febrúar – Starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði skipaður – Frétt
  • 19. maí – Starfshópur um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði kynnti tillögur – Frétt
  • 6. júlí – Starfshópar skipaðir um húsnæðisstuðning og húsaleigulög – Frétt
  • 12. júlí – Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um húsnæðismál undirritað – Frétt 
  • Lok september – Starfshópar um húsnæðisstuðning og húsaleigulög skila niðurstöðum.
  • Október – HMS og Samband íslenskra sveitarfélaga skila kostnaðarmati og tillögum um aukinn húsnæðisstuðning sem þarf til uppbyggingar hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði í samræmi við markmið rammasamningsins.
  • Áramótin 2022-2023 – HMS hefur tekið saman allar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga í eina heildstæða og stafræna húsnæðisáætlun fyrir allt landið – eftir að sveitarfélög og HMS hafa gert samninga um einstakar húsnæðisáætlanir.
  • Vorþing 2023 – Húsnæðisstefna stjórnvalda með aðgerðaáætlun kynnt og lögð fram á Alþingi sem þingsályktunartillaga.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 13. september 2022.

Categories
Fréttir

Ingibjörg leiddi viðræður þingmannanefndar EFTA við Tæland

Deila grein

12/09/2022

Ingibjörg leiddi viðræður þingmannanefndar EFTA við Tæland

Þingmannanefnd EFTA undir forystu Ingibjargar Isaksen heimsótti Tæland dagana 5.–9. september, eftir að fyrsta lota fríverslunarsamninga Tælands og EFTA hófst að nýju í Bangkok í júní sl. EFTA mun hýsa næstu umferð tvíhliða fundi viðræðnanna dagana 31. október – 4. nóvember nk. í Genf í Sviss.

Í viðtali við Bangkok Post sagði Ingibjörg að fríverslunarsamningurinn við Tæland og EFTA myndi ekki aðeins hjálpa til við að bæta efnahagsleg tengsl milli þessara tveggja aðila heldur myndi hann einnig þróa sjálfbæran vöxt.

„Samtökin miða einnig að því að opna nýja markaði á heimsvísu með því að gera viðskiptasamninga við mikilvæg lönd um allan heim, eins og Tæland,“ sagði Ingibjörg.

EFTA eru öll Vestur-Evrópuríki en þau sem eru ekki aðilar að Evrópusambandinu (ESB). EFTA ríkin hafa sjálfstæða viðskiptastefnu og sameina krafta sína um að gera viðskiptasamninga og opna markaði um allan heim.

EFTA samanstendur af Íslandi, Liechtenstein, Noregi og Sviss. Það er alþjóðleg stofnun sem sett er á laggirnar til að stuðla að viðskiptum og efnahagslegum samþættingu milli fjögurra aðildarríkja sinna.

Ingibjörg sagði að nálganir EFTA nái yfir ýmis svið eins og vöruskipti, þjónustuviðskipti, rafræn viðskipti, hugverkarétt, opinber innkaup, almenn viðskipti og sjálfbæra þróun.

„EFTA leitast við að setja metnaðarfull ákvæði í viðskiptasamninga og ákvæði um sjálfbærri þróun til tryggingar að samningur sé í samræmi við sjálfbærni, með ákvæði um kolefnislosun hagkerfisins, sjálfbærri stjórnun náttúruauðlinda og að virt séu réttindi launafólks,“ sagði Ingibjörg.

Aðspurð hvers vegna EFTA hefði áhuga á fríverslunarviðræðum við Tæland sagði hún EFTA-löndin lítil og útflutningsmiðuð hagkerfi með sterkt og fjölbreytt hagkerfi, þeir höfðu hins vegnar tiltölulega takmarkaða innri markaði.

„Það er nauðsynlegt að opna nýja markaði til að fá hráefni eða íhluti erlendis að og auka útflutningstækifæri um allan heim,“ bætti Ingibjörg við.

Fríverslunarsamningurinn myndi færi fólk í Evrópu og Tælandi nær með viðskiptum þar sem margir ríkisborgarar frá EFTA-löndunum búa nú í Tælandi og margir Tælendingar búa í EFTA-löndum. Fríverslunarsamningur mun augljóslega auka ferðaþjónustu á milli þessara svæða.

EFTA ríkin eru þegar á meðal helstu fjárfesta í Tælandi og í fararbroddi í grænni tækni og höfðu aðilar því gott tækifæri til að skiptast á upplýsingum til að hjálpa Tælandi að takast á við áskoranir tengdum orku- og loftslagsmálum.

EFTA leitast einnig við að setja fram metnaðarfull ákvæði í viðskipsamninga, stuðla að sjálfbærri þróun til að tryggja að samningurinn verði í samræmi við sjálfbærni, kolefnislosun hagkerfisins, sjálfbæra stjórnun náttúruauðlinda og tryggja að réttindi launafólks séu virt.

Categories
Fréttir Uncategorized

Um 9 milljarða kvikmyndaverkefni til Íslands

Deila grein

12/09/2022

Um 9 milljarða kvikmyndaverkefni til Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra leiddi sendinefnd á vegum Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) með áherslu á kvikmyndir og tónlist. Markmið ferðarinnar er að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.

Í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á uppbyggingu skapandi greinum. Jafnframt er ítrekað í stefnu stjórnvalda að kvikmyndagerð geti orðið enn mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi. Ljóst er að tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Í því ljósi kynnti ráðherrann Ísland sem ákjósanlegan fjárfestingakost í skapandi greinum og fór yfir sterka stöðu landsins efnahagslega. Meðal umræðuefna á fundnum ráðherra með fyrirtækjunum voru tækifæri og áskoranir í kvikmyndagerð ásamt þeim tækifærum sem felast í skapandi greinum á Íslandi. Nýleg hækkun úr 25% í 35% á endurgreiðslu framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð, sem samþykkt var á Alþingi í vor, var kynnt fulltrúum fyrirtækjanna og geta Íslands til að takast á við stór kvikmyndaverkefni rædd.

Eitt af dótturfyrirtækjum Universal, HBO max, tilkynnti í sumar um að þáttaröðin True Detective verði tekin upp á Íslandi. Um er að ræða stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar en umfang þess er áætlað um 9 milljarðar króna en tökur munu standa yfir í 9 mánuði.

,,Ég finn fyrir miklum meðbyr hér í Los Angeles með þeim aðgerðum sem við höfum verið að hrinda í framkvæmd á undanförnum misserum til þess að efla skapandi greinar á Íslandi. Verkefnið True Detective er stærsta erlenda fjárfesting á sviði menningar í Íslandssögunni. Með skýrri sýn og margþáttuðum aðgerðum er okkur að takast að gera landið okkar að mjög álitlegum samstarfskosti í heimi kvikmyndanna. Alþjóðleg kvikmyndafyrirtæki eru tilbúin til þess að fjárfesta í stærri verkefnum til lengri tíma en þau gerðu. Það er gríðarlegur sigur fyrir íslenska menningu og efnahagslíf og staðfesting þess að það sem stjórnvöld eru að gera skiptir máli,’’ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Þá veitti ráðherra miðlunum Deadline, The Location Guide og Hollywood Reporter viðtöl þar sem hún fór yfir sýn sína um að gera Ísland að skapandi miðstöð milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 11. september 2022.

Mynd: Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Categories
Fréttir

Umferð hleypt á nýtt hringtorg

Deila grein

09/09/2022

Umferð hleypt á nýtt hringtorg

“Góð tilfinning að aka nýjan kafla á Suðurlandsvegi í dag. Stór áfangi í átt að auknu umferðaröryggi á kaflanum milli Selfoss og Hveragerðis.” sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra við opnun nýs hringtorgs við Biskupstungnabraut.

Umferð var hleypt á nýtt hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan kafla Suðurlandsvegar undir Ingólfsfjalli fimmtudaginn 8. september. Kaflinn nær frá hringtorginu og um fjóra kílómetra í átt að Hveragerði. Svo styttist í útboð á nýrri Ölfusárbrú!

Framkvæmdir gengið vonum framar

Framkvæmdir hafa gengið framar vonum og eru nokkuð á undan áætlun. Framundan er að steypa brúargólf á tvær brýr, yfir Bakkárholtsá og við Kotströnd. Þá á eftir að malbika veginn frá Kotströnd að Kirkjuferjuvegi en sá hluti hringvegarins var byggður nýr frá grunni. Vonir standa til að opna allan veginn milli Hveragerðis og Selfoss fyrir árslok en verkinu í heild á að ljúka í september 2023 samkvæmt útboði. Þá styttist einnig í útboð á nýrri Ölfusárbrú samkvæmt upplýsingum innviðarráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Categories
Fréttir

Kjördæmisþing á Höfn

Deila grein

08/09/2022

Kjördæmisþing á Höfn

Stjórn Kjördæmissambands Framsóknar í Suðurkjördæmi boðar til kjördæmisþings á Hótel Höfn, Hornafirði 29. október kl. 13-17. Fyrir fundargesti sem mæta snemma á Hornafjörð verður boðið upp á stuð og stemningu á föstudagskvöld.

Nánari upplýsingar verða veittar þegar nær dregur. 

Categories
Fréttir

Landsþing Landssambands Framsóknarkvenna 

Deila grein

08/09/2022

Landsþing Landssambands Framsóknarkvenna 

Landsþing Landssambands Framsóknarkvenna (LFK) verður haldið á Hverfisgötu 33 3. hæð laugardaginn 15. október 2022 kl. 13–18.

Dagskrá:

  1. Hefðbundin aðalfundarstörf
    a. Skýrsla stjórnar
    b. Ársreikningar
  2. Ávarp gesta
  3. Umræður um Framsókn til framtíðar
  4. Ályktanir
  5. Lagabreytingar
  6. Kosningar
    a. Formaður
    b. Framkvæmdastjórn
    (4 og 2 til vara)
    c. Landsstjórn – einn í hverju kjördæmi (6 og 6 til vara)
    d. Skoðunarmenn reikninga (2)
  7. Önnur mál

Skráning og verð:
Þinggjöld eru kr. 3.000 og innifalið í því eru kaffiveitingar yfir daginn.
• Skráning á þingið fer fram á framsokn@framsokn.is fyrir 12.10.
• Tillögur að lagabreytingum og ályktunum sendist á
framsokn@framsokn.is fyrir 8.10.

Framboð óskast send á
framsokn@framsokn.is fyrir 8.10.

Framkvæmdastjórn LFK

Categories
Fréttir Uncategorized

Kynnti Ísland sem vænlegan tökustað fyrir Netflix

Deila grein

07/09/2022

Kynnti Ísland sem vænlegan tökustað fyrir Netflix

Umgjörð kvikmyndagerðar á Íslandi og hækkaðar endurgreiðslur vegna kostnaðar í kvikmyndagerð voru ræddar á fundi Lilju D. Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra með fulltrúum Netflix í Los Angeles ásamt því að kynna sér starfsemi fyrirtækisins.

Á fundinum fór ráðherra meðal annars yfir nýsamþykktar breytingar á lögum um endurgreiðslur framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð sem fela í sér hækkun úr 25% í 35% að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Markmið breytinganna er að laða að stærri erlend kvikmyndaverkefni sem alfarið verða unnin á Íslandi.

Breytingarnar eru liður í Kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem kynnt var árið 2020 en ýmsum aðgerðum í stefnunni hefur nú þegar verið hrint í framkvæmd, allt frá vegvísi um sjálfbærni í kvikmyndagerð til nýrrar kvikmyndadeildar við Listaháskóla Íslands.

,,Ég hef sterka sannfæringu fyrir mikilvægi þess að búa skapandi greinum hagfelld skilyrði á Íslandi og stjórnvöld eru á slíkri vegferð. Nýleg hækkun á endurgreiðsluhlutfalli mun auka alþjóðlega samkeppnishæfni landsins í kvikmyndaheiminum og hafa jákvæð margfeldisáhrif á íslenskt samfélag. Í kvikmyndagerð eru fjölmörg spennandi og vel launuð störf, sem skemmtilegt er að takast á við. Ísland hefur margt fram að færa á þessu sviði, góða innviði og mannauð ásamt stórbrotinni náttúru,’’ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Fundurinn er hluti af ferð ráðherra til Los Angeles sem skipulögð er af Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) með áherslu á kvikmyndir og tónlist. Markmið ferðarinnar er að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 7. september 2022.

Mynd: Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Categories
Fréttir Uncategorized

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Deila grein

05/09/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Landstjórn Framsóknar samþykkti í vor að boða til haustfundar miðstjórnar í Norðvestur kjördæmi og var 12. – 13. nóvember fyrir valinu. Fundurinn verður haldinn í Edinborgarhúsinu og hefst kl. 10:00 á laugardagsmorgun og stendur fram yfir hádegi á sunnudeginum. Kvöldverðarhóf verður á laugardagskvöldinu.

Hægt verður að fá gistingu á Hótel Ísafirði og Holt Inn.

Hægt er að panta gistingu á Hótel Ísafirði með því að senda tölvupóst á  lobby@hotelisafjordur.is kóðinn er „fundur Framsóknar“. 

Til að bóka á Holt Inn senda tölvupóst á holtinn@holtinn.is „Framsókn“. 

Upplýsingar um gistinguna:

Hótel Ísafjörður:

•              tveggja manna herbergi 20.000.- m/morgunmat nóttin

•              eins manns herbergi 16.500 m/morgunmat nóttin

https://isafjordurhotels.is/

Holt Inn:

•              Um þrjár herbergistegundir er að ræða, verðin eru eftirfarandi með morgunmat: 15.173.-, 16.618.- og 19.508.- 

Við hvetjum fólk til að panta sem fyrst til þess að hægt sé að bregðast við ef tryggja þarf fleiri herbergi.

Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

Á haustfundi skal taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu. 

Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn:

a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og

b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.

Fræðslu- og kynningarnefnd. 

Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. a-lið gr. 10.4. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með framkvæmd kynningar- og fræðslumála Framsóknarflokksins.

Málefnanefnd. 

Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. b-lið gr. 10.5. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með málefnastarfi og stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins.

Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið framsokn@framsokn.is.

Framsókn

Categories
Fréttir

Hálf öld frá einvígi aldarinnar

Deila grein

05/09/2022

Hálf öld frá einvígi aldarinnar

Um þessar mundir eru 50 ár liðin frá því að skákeinvígi aldarinnar fór fram í Laugardalshöll milli þeirra Bandaríkjamannsins Bobby Fischers og Sóvíetmannsins Boris Spasskís. Þessara tímamóta var minnst í sal Skáksögufélagsins á Hótel Natura en einvígið er að mörgum talið einn hápunkta kalda stríðsins en skákmennirnir tveir tefldu röð skáka í Reykjavík í júlí og ágústmánuði árið 1972.

,,Einvígi Fischers og Spasskys um heimsmeistaratitilinn í skák árið 1972 í Reykjavík hafði meiri áhrif heldur en nokkur óraði fyrir, bæði í heiminum öllum en ekki síst hér á Íslandi. Það var ekki aðeins að Ísland og Reykjavík urðu þekkt heldur varð gróskan í skákheiminum meiri en nokkur gat vænst,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptráðherra meðal annars við tilefnið.

Þá greindi ráðherra einnig frá áforum ríkisstjórnarinnar í samstarfi við Reykjavíkurborg um að halda opna samkeppni um minnisvarða um einvígið. Einnig verður tímamótanna einnig minnst með vitundavakningu um skák í skólum, málþingi og sérstakri afmælishátíð sem nær hápunkti dagana 25 .- 30. október þegar fram fer heimsmeistaramótið í Fischer-slembiskák.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá þau: Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, Einar Þorsteinsson, formann Borgarráðs, Gunnar Björnsson, formann Skáksambands Íslands, Guðna Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, Sæmund Pálsson – Sæma Rokk, vinur og lífvörður Bobby Fischer og Guðmund G. Þórarinsson, fyrrverandi formann Skáksambands Íslands. 

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is

Myndir: Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Categories
Fréttir Greinar

Ingvar Gíslason

Deila grein

31/08/2022

Ingvar Gíslason

Minningargrein

Í dag kveðjum við mæt­an mann, Ingvar Gísla­son. Ingvar hóf ung­ur að árum af­skipti af stjórn­mál­um. Hann skipaði sér í raðir Fram­sókn­ar­fólks, þá 18 ára mennta­skóla­nemi á Ak­ur­eyri, á stof­nári lýðveld­is 1944. Fyr­ir hon­um átti að liggja að helga krafta sína starfi Fram­sókn­ar­flokks­ins og veita stefnu flokks­ins braut­ar­gengi í ræðu og riti. Ingvar sat 26 ár á Alþingi, 1961-1987. Hann var mennta­málaráðherra 1980-1983 og voru það einkum tvö verk­efni er biðu úr­lausn­ar hans öðrum frem­ur á þeim tíma, mál­efni Rík­is­út­varps­ins og Þjóðar­bók­hlöðunn­ar og sam­ein­ing Lands­bóka­safns og Há­skóla­bóka­safns. Ingvar vann að end­ur­skipu­lagn­ingu RÚV, nýju út­varps­húsi og frum­varpi til út­varps­laga. Eins má nefna lög um Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna sem voru stórt skref á þeim tíma. Ungu fólki var þá gert kleift að sækja nám víðsveg­ar um heim­inn þar sem nú var lánað fyr­ir skóla­gjöld­um.

Ingvar sagði svo sjálf­ur frá að hann hefði litið á sig og raun­ar hvern og einn alþing­is­mann sem varn­ar­mann sjálf­stæðis og full­veld­is Íslands á grund­velli stjórn­ar­skrár lýðveld­is­ins.

„Þótt tím­inn sé hraðfleyg­ur er of langt gengið að trúa því að mann­leg til­vera sé eins og fljúg­andi fis í svipti­vind­um. Ekki af­neita ég for­laga­trú, en póli­tísk nauðhyggja leiðir menn af­vega. Sann­leik­ur­inn er sá að með skyn­semi, gætni og guðshjálp ræður maður­inn sín­um næt­urstað. Ég vona af ein­lægni að for­usta Fram­sókn­ar­flokks­ins sé fær um að til­einka sér þessa of­ur­ein­földu fílósófíu rosk­inna og reyndra manna. Hún er í fullu sam­ræmi við heim­speki alþýðumanns­ins, bú­and­karls­ins og smá­borg­ar­ans.“

Ingvar var ein­arður stuðnings­maður sterks at­vinnu­lífs um land allt og þess að dreifa at­vinnu­tækj­un­um með það fyr­ir aug­um að skapa líf­væn­leg skil­yrði á hverj­um byggi­leg­um stað á Íslandi.

„Það er skoðun Fram­sókn­ar­manna og sem bet­ur fer margra annarra góðra Íslend­inga, að þrátt fyr­ir lands­stærð okk­ar miðað við fólks­fjölda, þá séu staðhætt­ir slík­ir hér á landi, að við höf­um ekki efni á því, hvorki í nútíð né framtíð, að van­rækja nokk­urn þann blett lands­ins, sem í byggð er og í byggð má verða. Það er lífs­skil­yrði þess­ari þjóð og skyldu­kvöð henn­ar, að hún haldi öllu sínu landi í byggð og hagi svo stjórn­ar­stefnu sinni, að því marki verði náð. Það er ekki annað en fals­kenn­ing, að við eig­um ein­hver önn­ur úrræði betri til lífs­bjarg­ar í þessu landi en að byggja upp at­vinnu­líf sveita, kaup­túna og þorpa um­hverf­is landið.“

Á fundi ungra Fram­sókn­ar­manna, eft­ir að þing­mennsku hans var lokið sagði Ingvar m.a.: „Miðju­flokk­ur á hvorki að vera eins og bjöllu­kólf­ur sem sveifl­ast ým­ist til hægri eða vinstri eða eins og vís­ir á ónýtri klukku sem alltaf bend­ir í eina átt. Öðru nær. Miðju­flokk­ur á að vera kjarn­inn í flokka­kerf­inu, eins kon­ar seg­ull. Þangað eiga hreyf­ing­ar sam­tím­ans að leita, þangað á straum­ur­inn að liggja. Þar á að skilja á milli þess sem er gott og fram­sækið og þess sem er illt og aft­ur­virkt, þess sem er já­kvætt og þess sem er nei­kvætt.“

Við Fram­sókn­ar­fólk minn­umst Ingvars með virðingu og fær­um ætt­ingj­um hans ein­læga samúðarkveðju við lát hans.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son,

formaður Fram­sókn­ar.