Categories
Greinar

Viðbótarstuðningur við aldraða

Deila grein

09/07/2020

Viðbótarstuðningur við aldraða

Á loka­dög­um þings­ins var samþykkt frum­varp til laga um fé­lags­leg­an viðbót­arstuðning við aldraða frá fé­lags- og barna­málaráðherra. Viðbót­arstuðning­ur­inn tek­ur til eldri borg­ara sem bú­sett­ir eru hér á landi og eiga eng­in eða tak­mörkuð líf­eyr­is­rétt­indi í al­manna­trygg­ing­um. Þessi hóp­ur hef­ur fallið óbætt­ur hjá garði og haft litla sem enga fram­færslu og jafn­vel þurft að reiða sig á fjár­hags­stuðning sveit­ar­fé­laga frá mánuði til mánaðar. Þetta nær til ein­stak­linga sem hafa náð 67 ára aldri, hafa fasta bú­setu og lög­heim­ili á Íslandi og dvelja hér var­an­lega. Þegar lög­in eru sett er talið að hóp­ur­inn telji um 400 ein­stak­linga. Til að eiga rétt á viðbót­arstuðningi þurfa er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar að hafa ótíma­bundið dval­ar­leyfi á Íslandi og eiga lít­inn sem eng­an rétt frá sínu heimalandi. Það á einnig við um Íslend­inga sem eru að koma heim eft­ir langa fjar­veru á er­lendri grundu. Frum­varpið bygg­ist á niður­stöðum starfs­hóps um kjör aldraðra þar sem fjallað var um þann hóp aldraðra sem býr við lök­ustu kjör­in.

Þessi hóp­ur hef­ur verið jaðar­sett­ur þar sem ís­lenska al­manna­trygg­inga­kerfið hef­ur byggst á því að fólk hafi búið hér alla sína starfsævi og því áunnið sér rétt í 40 ár þegar eft­ir­launa­aldri er náð. Við búum í fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lagi og þeir ein­stak­ling­ar sem hafa flust hingað til lands­ins með lít­il eða eng­in rétt­indi frá sínu heimalandi eru marg­ir hverj­ir fast­ir í fá­tækt­ar­gildru, með þess­ari breyt­ingu er verið að tryggja þeim lág­marks­fram­færslu.

Það var ánægju­legt að fá að fylgja þessu máli í gegn­um vel­ferðar­nefnd, þar sem ég var fram­sögumaður máls­ins, og lenda því í sam­hljómi þing­manna við loka­af­greiðslu máls­ins inni í þingsal.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. júlí 2020.

Categories
Greinar

Umsóknum í kennaranám á Íslandi fjölgar um 46%

Deila grein

08/07/2020

Umsóknum í kennaranám á Íslandi fjölgar um 46%

Mennt­un er grund­völl­ur vel­sæld­ar og fram­fara þjóða. John Stu­art Mill stjórn­mála­heim­spek­ing­ur skrifaði á sín­um tíma að: „Öll efl­ing mennt­un­ar stuðlar að jöfnuði og veit­ir fólki aðgang að sama sjóði þekk­ing­ar.“ Þetta eru orð að sönnu. Þjóðir í fremstu röð eru með framúrsk­ar­andi mennta­kerfi. Í framúrsk­ar­andi mennta­kerfi er staða kenn­ar­ans afar sterk. Því var þess getið í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar að bregðast þyrfti við kenn­ara­skorti með sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og stétt­ar­fé­laga. Ég er stolt af að greina frá því að sam­an höf­um við náð að snúa vörn í sókn.

Staða kenn­ara­náms styrkt

Ráðist var í heild­stæðar aðgerðir í víðtæku sam­starfi við Kenn­ara­sam­band Íslands, Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands, Lista­há­skóla Íslands, Heim­ili og skóla og Sam­tök iðnaðar­ins. Að auki komu að vinn­unni full­trú­ar fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­is. Meðal ann­ars þurfti að bregðast við því að inn­rit­un í leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nám hafði dreg­ist sam­an um 40% frá 2008. Í þess­um aðgerðum fólst meðal ann­ars launað starfs­nám leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nema á loka­ári. Aðgerðirn­ar höfðu afar já­kvæð áhrif og hafa leitt til gríðarlegr­ar fjölg­un­ar um­sókna í kenn­ara­nám. Alls fjölgaði um­sókn­um um 591 milli ár­anna 2019 og 2020, eða um 46%. Þar af er fjölg­un­in mest við Há­skóla Íslands en þar fjölg­ar um­sókn­um um 580 milli ára, eða um 61%.

Mennta­stefna til árs­ins 2030

Þess­ar aðgerðir eru hluti af nýrri mennta­stefnu til árs­ins 2030, sem verður kynnt í upp­hafi nýs skóla­árs. Mark­mið stjórn­valda með stefn­unni er að veita framúrsk­ar­andi mennt­un með áherslu á þekk­ingu, vellíðan, þraut­seigju og ár­ang­ur í um­hverfi þar sem all­ir skipta máli og geta lært í öfl­ugu og sveigj­an­legu mennta­kerfi. Stefn­an mun end­ur­spegla leiðarljósið all­ir geta lært sem fel­ur í sér áherslu á virka þátt­töku allra í lýðræðis­sam­fé­lagi sem bygg­ist á jafn­rétti og mann­rétt­ind­um, heil­brigði, vel­ferð og sjálf­bærni. Mennta­stefn­an er mótuð með aðkomu fjöl­margra aðila úr skóla­sam­fé­lag­inu, meðal ann­ars með fundaröð um land allt um mennt­un fyr­ir alla haustið 2018 og 2019.

Mennt­un efl­ir jöfnuð og all­ir eiga að hafa jöfn tæki­færi til náms. Ég hef þá trú að all­ir geti lært og all­ir skipti máli. Kenn­ar­ar, skóla­stjórn­end­ur og aðrar starfs­stétt­ir inn­an mennta­kerf­is­ins eru ein mesta auðlind hvers sam­fé­lags og leggja grunn að öðrum störf­um. Aðsókn í kenn­ara­nám hef­ur stór­auk­ist vegna mark­vissra aðgerða sem hrint hef­ur verið í fram­kvæmd. Með skýrri sýn og stefnu er hægt að bæta sam­fé­lagið sitt. Ég vil þakka öll­um þeim sem hafa komið að því að efla stöðu kenn­ara­náms í land­inu, því það sann­ar­lega skipt­ir máli fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2020.

Categories
Greinar

STYRKING FJÖLMENNINGARSETURS Á ÍS Í BOÐI MIÐFLOKKSINS

Deila grein

06/07/2020

STYRKING FJÖLMENNINGARSETURS Á ÍS Í BOÐI MIÐFLOKKSINS

Frumvarp félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Daða Einarssonar, um málefni innflytjenda sem snýr að móttöku flóttafólks og innflytjendaráð hefur verið afgreitt úr út velferðarnefnd á Alþingi. Eftir vandaða yfirferð, góðar umsagnir og samhljóm innan nefndarinnar var málið  samþykkt en að kröfu Miðflokksins í lok þingsins var málið ekki flutt til afgreiðslu í þingsal. Það má ætla að í þeirri kröfu endurspeglist þeirra viðhorft til málefni innflytjenda.

Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneytinu í samráði við starfshóp um móttökuáætlanir sveitarfélaga. Með þessum breytingum er verið að styrkja Fjölmenningasetrið á Ísafirði þar sem því er ætlað að stýra þessu mikilvægu verkefni og því falið víðtækara hlutverk vegna samræmdar móttöku flóttafólks með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttöku flóttafólks.

Það er mikilvægt í ljósi fjölgunar flóttafólks á liðnum árum að ríki og sveitarfélög tryggi samfellda og jafna þjónustu þessa fólks. Frumvarpið var fullunnið inn í velferðarnefnd Alþingis þar sem undirrituð var framsögumaður málsins. Meirihluti velferðarnefndar taldi brýnt að bæta móttöku einstaklinga með vernd sem hafi ríka þörf fyrir aukinn stuðning fyrst við komu til landsins.

Því miður er málið sett á ís, í boði Miðflokksins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á bb.is 4. júlí 2020.

Categories
Greinar

Afglæpavæðing á neyslu fíkniefna

Deila grein

03/07/2020

Afglæpavæðing á neyslu fíkniefna

Mikið hefur verið rætt um afglæpavæðingu á neyslu fíkniefna og fjölmiðlar gera því í skóna að meirihlutinn á Alþingi hafi hafnað henni í atkvæðagreiðslu nú á síðustu degi þingsins. Sem er í raun ekki rétt. Það hefur verið unnið að þessum málum undanfarin misseri og lögð áhersla á skaðaminnkun í aðgerðum stjórnvalda til að sporna við neikvæðum afleiðingum neyslu.

Í vor var samþykkt frumvarp frá heilbrigðisráðherra um neyslurými  sem er að heimila stofnun og rekstur neyslurýma en þau teljast til skaðaminnkandi aðgerða. Mikilvægur áfangi og stór. Þá hefur verið horfið frá þyngri refsingum fyrir vörslu neysluskammta og smávægileg brot fara ekki á sakskrá lengur og með breyttum umferðarlögum sem kveða á um að mæling á ávana- og fíkniefni í blóði sé einungis grundvöllur refsinga, ekki mæling í þvagi og blóði eins og áður var. Allt er þetta samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að snúa þurfi af braut harðra refsinga fyrir neyslu fíkniefni og vinna frekar að viðunandi meðferðarúrræði.

Frumvarp Pírata sem fellt var á Alþingi fjallaði einfaldlega um  að ákvæði laga um ávana- og fíkniefni um bann við vörslu og meðferð fíkniefna verði breytt á þann hátt að bann við vörslu, kaupum og móttöku efna verði fellt brott. Lítið útfært og í litlu samráði. Vissulega er það samhljóma við skýrslu sem gerð var um málið á sínum tíma en frumvarpið sjálft var ekki unnið í samstarfi við þá aðila sem vinna þurftu svo með útkomuna. Í meðförum nefndarinnar breyttist málið og var á réttri leið þegar það var tekið út en ekki fullunnið og ekki í sátt. Þess vegna var ég ekki tilbúin að fylgja því eftir inni í þingsal þótt ég sé sammála frumhugmyndinni. Við svona stórt skref þarf að skilgreina þetta mun betur og vinna jafnframt að aðgerðum til að mæta breyttu landslagi í þessum efnum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2020.

Categories
Greinar

Bættar sam­göngur í Hafnar­firði og ná­grenni

Deila grein

03/07/2020

Bættar sam­göngur í Hafnar­firði og ná­grenni

Ámánu­dags­kvöld urðu þau stór­tíðindi á Al­þingi að fjögur stór sam­göngu­verk­efni voru sam­þykkt: sam­göngu­á­ætlanir til fimm og fimm­tán ára, lög um sam­vinnu­verk­efni í sam­göngum sem byggja á Hval­fjarðar­ganga­módelinu og lög um hluta­fé­lag um fram­kvæmdir vegna sam­göngu­sátt­mála höfuð­borgar­svæðisins.

Fólk gerir sér ef­laust ekki fylli­lega grein fyrir því af­reki sem Sigurður Ingi Jóhanns­son, sam­göngu- og sveitar­stjórnar­ráð­herra, hefur unnið með því að ná þessum málum í gegn. Þeir sem hafa fylgst með um­ræðum um sam­göngu­mál á höfuð­borgar­svæðinu síðustu árin og ára­tugina vita að þar hefur verið mikill á­greiningur milli ríkisins og sveitar­fé­laganna og þá sér­stak­lega Reykja­víkur­borgar. Enda hefur ríkt al­gjör stöðnun í sam­göngum á þessu fjöl­mennasta svæði landsins og af­leiðingarnar aug­ljósar: sí­fellt þyngri um­ferð, meiri tafir og meiri mengun.

Sam­göngu­sátt­málinn sem skrifað var undir markar tíma­mót að mörgu leyti. Stóra af­rekið felst ekki síst í að ná öllum sveitar­fé­lögunum og ríkinu að sama borði með það að mark­miði að ná sam­komu­lagi um niður­stöðu sem allir aðilar geta sætt sig við. Sú leið hefur ekki verið ein­föld enda ólík sjónar­mið uppi. Með þessu sam­tali ráð­herrans við sveitar­fé­lögin og Vega­gerðina hefur ísinn verið brotinn og við, í­búar í Hafnar­firði og á höfuð­borgar­svæðinu öllu, sjáum nú loks fram á betri tíð í sam­göngum.

Niður­staðan er fjöl­breyttar sam­göngur þar sem stofn­brautir verða byggðar upp, göngu- og hjóla­stígar lagðir og inn­viðir al­vöru al­mennings­sam­gangna verða að veru­leika. Allt styður þetta við heil­brigðara sam­fé­lag, styttir ferða­tíma á svæðinu, minnkar mengun og eykur allt um­ferðar­öryggi.

Þetta var mögu­legt með leið Fram­sóknar: sam­vinnu. Ekki vinstri, ekki hægri heldur á­fram veginn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrí og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. júní 2020.

Categories
Greinar

Nýr Mennta­sjóður náms­manna: Stærsta hags­muna­málið í ára­tugi

Deila grein

01/07/2020

Nýr Mennta­sjóður náms­manna: Stærsta hags­muna­málið í ára­tugi

Til­gangur stjórn­málanna er að breyta rétt og bæta sam­fé­lagið þar sem hið lýð­ræðis­lega um­boð verður til. Fram kemur í stjórnar­sátt­mála ríkis­stjórnarinnar að ráðist verði í endur­skoðun náms­lána­kerfisins, þar sem lögð er á­hersla á jafn­rétti til náms, skil­virkni og náms­styrkja­kerfi að nor­rænni fyrir­mynd. Öll þessi fyrir­heit hafa verið efnd í nýjum Mennta­sjóði náms­manna en ný lög, nr. 60/2020, taka gildi í dag.

Jafn­rétti til náms

Lögin fela í sér grund­vallar­breytingar á stuðningi við náms­menn. Fjár­hags­staða nem­enda verður betri og skulda­staða þeirra að loknu námi mun síður ráðast af fjöl­skyldu­að­stæðum. Ein leið til að ná þessu fram var að tryggja barna­styrkinn sem lögin kveða á um – for­eldrar í námi fá fjár­styrk en ekki lán til að fram­fleyta börnum sínum. Nýja kerfið miðar að því að jafna stuðning og dreifingu styrkja ríkisins til náms­manna sem taka náms­lán. Sér­stak­lega verður hugað að hópum sem reynst hefur erfiðara að sækja nám s.s. ein­stæðum for­eldrum, fjöl­skyldu­fólki og náms­mönnum utan höfuð­borgar­svæðisins. Með þessari kerfis­breytingu viljum við auka gagn­sæi, fyrir­sjáan­leika og skipta gæðum með jafnari og rétt­látari hætti milli náms­manna.

Af­nám á­byrgða­manna­kerfisins

Ný lög boða einnig af­nám á­byrgðar­manna­kerfisins. Á­byrgð á­byrgðar­manns á náms­lánum teknum í tíð eldri laga falla niður sé lán­þegi í skilum við Lána­sjóð ís­lenskra náms­manna, LÍN, og ekki á van­skila­skrá. Þetta er gríðar­lega mikið hags­muna­mál fyrir marga í ís­lensku sam­fé­lagi. Það er mikil­vægt að allir hafi jöfn tæki­færi til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi.

Aukin skil­virkni og bestu kjör

Þá er jafn­framt inn­byggður mikill hvati til bættrar náms­fram­vindu með 30% niður­færslu á höfuð­stól og verð­bótum ef námi er lokið innan til­tekins tíma. Enn fremur munu náms­menn njóta bestu láns­kjara ríkis­sjóðs Ís­lands og náms­að­stoðin, lán og styrkir, verða undan­þegin lögum um stað­greiðslu opin­berra gjalda. Heimilt verður að greiða út náms­lánin mánaðar­lega og lán­þegar geta valið hvort lánin séu verð­tryggð eða ó­verð­tryggð. Þessi mikil­vægu lög munu því stuðla mark­visst að betra nýtingu fjár­muna, aukinni skil­virkni og þjóð­hags­legum á­vinningi fyrir sam­fé­lagið.

Aukinn sveigjan­leiki á tímum CO­VID-19

Á vanda­sömum tímum er mikil­vægt að tryggja vel­líðan nem­enda og standa vörð um mennta­kerfið okkar. Á tímum CO­VID-19 sýndi LÍN skjót og sveigjan­leg við­brögð með hags­muni nem­enda að leiðar­ljósi. Þessi við­horf verða á­fram í há­vegum höfð í nýjum Mennta­sjóði. Búið er að hrinda í fram­kvæmd nýju náms­styrkja­kerfi sem er að nor­rænni fyrir­mynd. Með nýjum lögum er verið að sinna til­gangi stjórn­málanna, þ.e. að breyta rétt, bæta sam­fé­lagið og standa við fyrir­heit stjórnar­sátt­málans.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júní 2020.

Categories
Greinar

Stóra stökkið í samgöngum

Deila grein

01/07/2020

Stóra stökkið í samgöngum

Ný­samþykkt sam­göngu­áætlun sem nær til ár­anna 2020-2034 er stórt stökk í sam­göng­um á Íslandi. Þetta er ein mik­il­væg­asta áætl­un sem ríkið stend­ur að enda er sam­göngu­kerfið, vega­kerfið, flug­vell­ir og hafn­ir, lík­lega stærsta eign ís­lenska rík­is­ins, metið á tæpa 900 millj­arða króna. Aldrei áður hef­ur jafn­mikl­um fjár­mun­um verið varið til sam­gangna og gert er í þess­ari áætl­un sem á eft­ir að skila sér í ör­ugg­ari og greiðari um­ferð um allt land.

Stóra byggðastefn­an

Í ná­granna­lönd­um okk­ar er stund­um talað um stóru byggðastefn­una þegar rætt er um sam­göngu­áætlan­ir land­anna. Í sam­göngu­áætlun fel­ast enda gríðarlega mikl­ir hags­mun­ir fyr­ir sam­fé­lög­in vítt og breytt um landið. Efna­hags­leg­ir hags­mun­ir eru líka mjög mikl­ir því all­ar stytt­ing­ar á leiðum inn­an og milli svæða fela í sér þjóðhags­leg­an sparnað.

Skoska leiðin – niður­greiðsla á far­gjöld­um

Sam­göngu­áætlun­in sem ég lagði fram í lok árs­ins 2019 og var samþykkt á Alþingi á mánu­dag mark­ar að mörgu leyti tíma­mót. Inn­an henn­ar er fyrsta flug­stefna sem gerð hef­ur verið á land­inu þótt flug á Íslandi hafi átt ald­araf­mæli á síðasta ári. Eitt af stóru mál­un­um er að í haust hef­ur það sem í dag­legu tali hef­ur verið nefnt „skoska leiðin“ göngu sína. Í henni felst að ríkið mun greiða niður hluta af flug­far­gjaldi þeirra sem búa á lands­byggðinni. Það er mikið rétt­læt­is­mál að þeir sem búa fjarri höfuðborg­inni og vilja og þurfa að sækja þjón­ustu þangað fái niður­greiðslur á ferðum sín­um með flugi. Þetta er mik­il­vægt skref í því að jafna aðstöðumun þeirra sem búa ann­ar staðar en á suðvest­ur­horn­inu.

Greiðar og góðar sam­göng­ur fyr­ir alla ferðamáta

Inn­an sam­göngu­áætlun­ar er einnig sér­stök áætl­un um al­menn­ings­sam­göng­ur milli lands­hluta. Þar er líka mik­il áhersla á upp­bygg­ingu, göngu- og hjóla­stíga og reiðvega. Er því mik­il áhersla lögð á alla far­ar­máta til að mæta kröf­um sem flestra um greiðar og góðar sam­göng­ur.

Sam­vinnu­verk­efni flýta fram­förum

Sam­hliða sam­göngu­áætlun voru líka samþykkt lög um sam­vinnu­verk­efni í sam­göng­um sem byggja á Hval­fjarðarganga­mód­el­inu. Þau verk­efni sem falla und­ir lög­gjöf­ina eru ný brú yfir Ölfusá ofan Sel­foss, lág­lendis­veg­ur og göng í gegn­um Reyn­is­fjall, ný brú yfir Horna­fjarðarfljót, nýr veg­ur yfir Öxi, önn­ur göng und­ir Hval­fjörð og hin langþráða Sunda­braut. Allt eru þetta verk­efni sem fela í sér veru­lega stytt­ingu leiða og aukið ör­yggi en þeir sem vilja ekki nýta sér þessi mann­virki geta áfram farið gömlu leiðina en munu þá verða af þeim ávinn­ingi, fjár­hags­leg­um og varðandi ör­yggi.

Raf­væðing ferja og hafna

Á síðasta ári urðu þau tíma­mót að nýr Herjólf­ur hóf sigl­ing­ar milli Eyja og lands. Ekki er síst ánægju­legt að ferj­an er knú­in raf­magni, svo­kölluð tvinn-ferja. Áfram verður hlúð að al­menn­ings­sam­göng­um með ferj­um. Mik­il fjár­fest­ing verður í höfn­um víða um land og áhersla lögð á að búa þær búnaði til að skip geti tengst raf­magni til að vinna gegn óþarfa út­blæstri.

Tíma­mót í sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu

Að síðustu vil ég nefna að með sam­göngu­áætlun og samþykkt laga um stofn­un hluta­fé­lags um upp­bygg­ingu sam­göngu­innviða höfuðborg­ar­svæðis­ins er stigið stærsta skref sem stigið hef­ur verið í upp­bygg­ingu á höfuðborg­ar­svæðinu. Eru þær fram­kvæmd­ir byggðar á sam­göngusátt­mála rík­is­ins og sex sveit­ar­fé­laga á höfuðborg­ar­svæðinu sem und­ir­ritaður var í fyrra. Með hon­um var höggvið á þann hnút sem hef­ur verið í sam­skipt­um rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna á höfuðborg­ar­svæðinu og komið hafði í veg fyr­ir al­vöru­upp­bygg­ingu á svæðinu. Sátt­mál­inn mark­ar tíma­mót sem mun skila sér í greiðari sam­göng­um, hvort sem litið er á fjöl­skyldu­bíl­inn, al­menn­ings­sam­göng­ur eða gang­andi og hjólandi um­ferð.

Ég bið alla um að fara var­lega í um­ferðinni í sum­ar og sýna til­lit þeim fjöl­mörgu sem vinna við upp­bygg­ingu og end­ur­bæt­ur á veg­un­um. Góða ferð á ís­lensku ferðasumri.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. júní 2020.

Categories
Greinar

Fjármagn tryggt í menntakerfið

Deila grein

29/06/2020

Fjármagn tryggt í menntakerfið

Þúsund­ir náms­manna eru að út­skrif­ast þessa dag­ana og horfa með björt­um aug­um til framtíðar. Ísland er eitt fárra ríkja í ver­öld­inni þar sem nem­end­ur höfðu greitt aðgengi að mennt­un í gegn­um heims­far­ald­ur­inn. Staða skól­anna var mis­jöfn en all­ir kenn­ar­ar og skóla­stjórn­end­ur lögðu mikla vinnu á sig svo að nem­end­ur þeirra fengju fram­gang í námi. Hug­ar­farið hjá okk­ar skóla­fólki hef­ur verið stór­kost­legt. Víða ann­ars staðar í ver­öld­inni hafa skól­ar ekki enn verið opnaðir, og ekki gert ráð yfir því fyrr en jafn­vel í haust. Gæðin sem liggja í ís­lensku mennta­kerfi eru mik­il og styrk­ur­inn kom svo sann­ar­lega fram í vor.

Verk­efnið framund­an er af tvenn­um toga. Ann­ars veg­ar þarf mennta­kerfið að geta tekið á móti þeim mikla áhuga sem er á mennt­un og hins veg­ar þarf að skapa ný tæki­færi fyr­ir þá sem eru án at­vinnu.

Mik­il aðsókn er í nám í haust og ákvað rík­is­stjórn­in að fram­halds­skól­um og há­skól­um yrði tryggt nægt fjár­magn til að mæta eft­ir­spurn­inni. Fjár­veit­ing­ar verða nán­ar út­færðar þegar fjárþörf skól­anna ligg­ur end­an­lega fyr­ir. Áætlan­ir gera ráð fyr­ir fjölg­un nem­enda á fram­halds­skóla­stigi um allt að 2.000 og um 1.500 á há­skóla­stigi. Um­sókn­um um há­skóla­vist fjölg­ar um 23% milli ára og mik­il aðsókn er í fjöl­breytt starfs- og iðnnám fram­halds­skól­anna. Inn­rit­un ný­nema yngri en 18 ára í fram­halds­skóla hef­ur gengið vel. Aðsókn eldri nema er mest í fjöl­breytt starfs­nám fram­halds­skól­anna og unnið er að þeirri inn­rit­un í sam­vinnu við Mennta­mála­stofn­un. Gangi spár eft­ir gæti nem­end­um á fram­halds­skóla­stigi fjölgað um allt að 10%. Und­ir­bún­ing­ur hófst strax í byrj­un mars og það er lofs­vert hversu vel stjórn­end­ur og kenn­ar­ar í mennta­kerf­inu hafa brugðist við.

Sam­hæf­ing­ar­hóp­ur um at­vinnu- og mennta­úr­ræði vinn­ur hörðum hönd­um að því að styrkja stöðu þeirra sem eru án at­vinnu. Eitt brýn­asta sam­fé­lags­verk­efni sem við eig­um nú fyr­ir hönd­um er að styrkja þenn­an hóp og búa til ný tæki­færi. Öllu verður tjaldað til svo að staðan verði skamm­vinn. Sam­fé­lög­um ber siðferðis­leg skylda til að móta stefnu sem get­ur tekið á at­vinnu­leysi. Leggja stjórn­völd því mikla áherslu á að auka færni á ís­lensk­um vinnu­markaði ásamt því að lág­marka fé­lags- og efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar COVID-19-far­ald­urs­ins. Þar er mennt­un eitt mik­il­væg­asta tækið og því hef­ur sjald­an verið nauðsyn­legra en nú að tryggja aðgengi að mennt­un.

Staða Íslands var sterk þegar heims­far­ald­ur­inn skall á og því hvíl­ir enn frek­ari skylda á stjórn­völd­um að horfa fram á við og fjár­festa í framtíðinni. Kjarni máls­ins er að vita hvaða leiðir skila ár­angri, sem efla ís­lenskt sam­fé­lag til langs tíma. Brýnt er að tæki­færi framtíðar­inn­ar séu til staðar og unnið verður dag og nótt til að tryggja sem mesta verðmæta­sköp­un í sam­fé­lag­inu okk­ar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. júní 2020.

Categories
Greinar

Stór dagur fyrir lýðræðið í Vestmannaeyjum

Deila grein

25/06/2020

Stór dagur fyrir lýðræðið í Vestmannaeyjum

Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja sem haldinn var þann 11. júní sl. var til umræðu endurskoðuð samþykkt um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar. Hljómar vafalaust ekki spennandi í eyrum allra en umræðan var engu að síður áhugavert og skemmtilegt!

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur verið skipuð 7 fulltrúum allt frá kosningum 1994 þegar bæjarfulltrúum var fækkað úr 9 í 7 en fyrir þann tíma höfðu bæjarfulltrúar í bæjarstjórn Vestmannaeyja verið 9. Sveitarfélögum er í sjálfsvald sett hversu margir fulltrúar sitja í sveitarstjórn en það skal þó það vera innan ákveðinna marka. Séu íbúar í sveitarfélagi á bilinu 2.000 – 9.999 skulu vera 7–11 aðalmenn í sveitarstjórn. Íbúafjöldi í Vestmannaeyjum í lok fyrsta ársfjórðungs 2020 var 4.370 og fjölgar ár frá ári sem er mikið gleðiefni.

Til glöggvunar sýnir myndin hér að neðan fjölda íbúa við lok árs 2019 og fjölda sveitarstjórnarfulltrúa í þeim sveitarfélögum þar sem íbúafjöldi er á því bili sem nefnt var hér að ofan, þ.e. 2.000-9.999 íbúar. Sömuleiðis má sjá í súluritinu hversu margir íbúar eru bak við hvern bæjarfulltrúa.

Í Vestmannaeyjum eru í dag 622 íbúar pr. bæjarfulltrúa en að meðaltali eru í þessum sveitarfélögum 466 íbúar á hvern fulltrúa. Skipuðu 9 fulltrúar bæjarstjórn Vestmannaeyja væru 483 íbúar á hvern bæjarfulltrúa sem er eftir sem áður fyrir ofan meðaltal þessara sveitarfélaga.

Fjölmörg rök hafa verið færð fyrir fjölgun bæjarfulltrúa og á fundi gærkvöldsins voru nokkur þeirra rakin. Til að mynda hefur Dr. Gunnar Helgi Kristinsson hefur gert viðamiklar rannsóknir á sveitarstjórnarstiginu og telur að fjölgun sveitarstjórnarfulltrúa sé almennt talið styrkja lýðræði á sveitarstjórnarstiginu. Fyrir því eru nefndar ýmsar ástæður, meðal annars að með fleiri fulltrúum sé meiri möguleiki á að endurspegla félagslega skiptingu og hugmyndir kjósenda. Sömuleiðis hafa rök verið færð fyrir því að fleiri fulltrúar skapi skilyrði fyrir nánara sambandi milli íbúa og sveitarstjórnarfólks.

Bent hefur verið á að fleiri bæjarfulltrúar séu hvati að fjölgun framboða og komi þannig í veg fyrir kerfi fárra en stórra flokka en slíkt póli­tískt lands­lag hefur mynd­ast hér á landi þó það hafi verið á undanhaldi á undanförnum árum í takt við þróun lýðræðisins. Sömuleiðis er ljóst að færri atkvæði í kosningum „falli dauð niður“ eftir því sem bæjarfulltrúum fjölgar við það að færri atkvæði þarf á bakvið hvern fulltrúa í sveitarstjórn. Fjölgun bæjarfulltrúa hefur það einnig í för með sér að rétt­ari mynd er gefin af vilja kjós­enda sem styrkir betra og sterkara lýð­ræði.

Krafa nútímans er að kalla eftir sem breiðastri skírskotun á vettvangi stjórnmála, hvort sem um er að ræða samsetningu mismunandi aldurshópa, kynja, atvinnu, menntunar o.s.frv. Hugsanlega kæmu fram í sviðsljósið framboð sem markvisst eru stofnuð til að tryggja raddir ákveðinna hópa í bæjarstjórn, hópa sem í dag hafa ekki rödd.

Sveitarstjórnarstigið er lýðræðislegur vettvangur og er kjörnum fulltrúum í sveitarstjórnum ætlað að endurspegla vilja íbúa. Eftir sem íbúum í Vestmannaeyjum fjölgar og fjölbreytileikinn eykst í samfélaginu er mikilvægt að bæjarstjórn tryggi tækifæri allra til þess að láta rödd sína heyrast. Fjölgun bæjarfulltrúa styrkir lýðræðið í nærsamfélaginu. Tillagan er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og þeim reglum um kosningar til sveitarstjórna að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúanna.

Þess vegna bar ég upp við bæjarstjórn eftirfarandi tillögu:

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir, til viðbótar við þau drög sem liggja fyrir fundinum, breytingu á 1. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar, þannig að kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn Vestmannaeyja fjölgi úr 7 í 9.“

Ég bauð bæjarstjórn að fresta tillögunni til næsta fundar til þess að geta rætt hana betur og mótað okkur skoðanir á henni en ekki var einhugur um það. Tillagan var samþykkt.

Þó svo að breytingin taki ekki gildi fyrr en um næstu bæjarstjórnarkosningar lít ég engu að síður svo á að 11. júní hafi verið stór dagur fyrir lýðræðið í Vestmannaeyjum!

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyjabær.

Categories
Greinar

Stórsókn í menntamálum í verki

Deila grein

22/06/2020

Stórsókn í menntamálum í verki

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar var lögð rík áhersla á að efla mennt­un í land­inu með hags­muni nem­enda og þjóðar­inn­ar allr­ar að leiðarljósi. Efla bæri ný­sköp­un og þróun enda er mennt­un kjarn­inn í ný­sköp­un til framtíðar.

Mik­il­vægt væri að stuðla að viður­kenn­ingu á störf­um kenn­ara, efla fag­legt sjálf­stæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öll­um skóla­stig­um. Bregðast þurfti við kenn­ara­skorti og tryggja þurfti fram­halds­skól­um meira frelsi og fjár­magn.

Sér­stök áhersla var lögð á list­nám og aukna tækniþekk­ingu sem gerði ís­lenskt sam­fé­lag sam­keppn­is­hæf­ara á alþjóðavísu. Iðnnám og verk- og starfs­nám yrði einnig eflt í þágu fjöl­breytni og öfl­ugra sam­fé­lags.

Meg­in­mark­mið rík­is­stjórn­ar­inn­ar voru jafnt aðgengi að námi óháð bú­setu og öðrum aðstæðum. Lögð var áhersla á fram­halds­fræðslu, að Ísland nái meðaltali OECD-ríkj­anna og Norður­landa varðandi fjár­mögn­un há­skóla­stigs­ins, efl­ing Vís­inda- og tækni­ráðs og ráðist í upp­bygg­ing­ar skóla­bygg­inga. Auk þess yrði ráðist í heild­ar­end­ur­skoðun náms­lána­kerf­is­ins.

Það má með sanni segja að þau fyr­ir­heit hafi raun­gerst á und­an­för­um árum.

Sum­ar tæki­fær­anna

Skrán­ing í sum­ar­nám fram­halds­skól­anna og há­skól­anna hef­ur slegið öll met. Rúm­lega 5.100 nem­end­ur hafa skráð sig í slíkt nám og 330 í sum­ar­nám fram­halds­skól­anna. Mark­hóp­ur sum­ar­náms á há­skóla­stigi er mjög fjöl­breytt­ur, í þeim hópi eru m.a. nem­end­ur sem ljúka námi úr fram­halds­skóla á vorönn og vilja und­ir­búa sig fyr­ir há­skóla­nám, aðrir framtíðar­há­skóla­nem­ar, nú­ver­andi há­skóla­nem­ar og ein­stak­ling­ar sem vilja styrkja stöðu sína á vinnu­markaði, brúa færni­bil eða skipta um starfs­vett­vang. Há­skól­arn­ir bjóða upp á yfir 200 náms­leiðir sem mæta þess­um mark­hóp­um með fjöl­breytt­um hætti. Alls var 800 millj­ón­um kr. varið til að efla sum­ar­námið.

Aðsókn­in er von­um fram­ar enda marg­ir spenn­andi náms­kost­ir í boði hjá fram­halds- og há­skól­um. Það gleður mig sér­stak­lega hversu mik­il aðsókn er í ís­lensku­nám­skeið hjá Há­skóla Íslands. Íslenska sem annað mál er orðið vin­sæl­asta ein­staka fagið þar, nú þegar eru yfir 400 nem­end­ur skráðir. Bú­ist er við allt að 70% aukn­ingu frá fyrri árum. Þetta er afar ánægju­leg þróun!

Nám á næstu mánuðum

Aðsókn­in í sum­ar­nám gaf okk­ur vís­bend­ing­ar um hvernig haust­námið myndi líta út. Há­skóla Íslands barst til að mynda met­fjöldi um­sókna í grunn­nám, eða um 6.720 um­sókn­ir sem er tæp­lega 21% aukn­ing frá síðasta ári. Um­sókn­ir í fram­halds­nám eru tæp­lega 5.000 og heild­ar­fjöldi um­sókna því vel á tólfta þúsund. Á sama tíma hafa aldrei fleiri sótt um nám við Há­skól­ann í Reykja­vík. Skól­an­um bár­ust 3.900 um­sókn­ir um skóla­vist fyr­ir næsta skóla­ár. Það er um 13% fjölg­un frá síðasta ári. Um­sókn­um um meist­ara­nám fjölg­ar í öll­um deild­um há­skól­ans, um þriðjung að jafnaði. Mest er fjölg­un í um­sókn­um um grunn­nám, annað árið í röð, í iðn- og tækni­fræðideild og sál­fræðideild, eða um 34%.

Nýir tím­ar í starfs- og tækni­námi: Mik­il aðsókn í iðnnám

Okk­ur hef­ur jafn­framt tek­ist að efla iðnnám ásamt verk- og starfs­námi. Aðsókn í iðn- og starfs­nám í Tækni­skól­an­um hef­ur auk­ist jafnt og þétt und­an­far­in ár, bæði úr grunn­skóla og frá eldri nem­end­um. Sér­stök aukn­ing er í bygg­ing­ar­grein­um og skera pípu­lagn­ir sig þar úr með 84% aukn­ingu á um­sókna­fjölda í dag­skóla milli ára. Aðgerðaáætl­un mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneyt­is­ins, Sam­taka iðnaðar­ins og Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga var hrundið af stað með það að mark­miði að auka áhuga ung­menna á starfs- og tækni­mennt­un og þar með fjölga ein­stak­ling­um með slíka mennt­un á vinnu­markaði. Aðgerðaáætl­un­in legg­ur meðal ann­ars áherslu á að efla kennslu grunn­skóla­nema í verk-, tækni og list­grein­um; jafna stöðu iðnmenntaðra í fram­halds­námi; ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms; bæta aðgengi á lands­byggðinni og styrkja náms- og starfs­ráðgjöf.

Það er mik­il­vægt að hver og einn nem­andi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eyk­ur ekki aðeins ánægju nem­enda held­ur styrk­ir sam­fé­lagið okk­ar til langs tíma.

Kenn­ar­ar í sókn

Til að mæta áskor­un­um framtíðar þurf­um við fjöl­hæfa og dríf­andi kenn­ara. Aðgerðir voru kynnt­ar til að fjölga kenn­ur­um, í þeim fólust meðal ann­ars launað starfs­nám leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nema á loka­ári. Þess­ar aðgerðir skiluðu strax ár­angri en um­sókn­um fjölgaði um 30% milli ára.

Við sjá­um enn meiri fjölg­un í haust. Menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands fékk 980 um­sókn­ir í grunn­nám eða hátt í 200 fleiri en í fyrra, eða um 26% fleiri. Um­sókn­ir um grunn­nám í leik­skóla­kenn­ara­fræði og diplóma­nám í leik­skóla­fræði nærri tvö­fald­ast á milli ára, fara úr tæp­lega 100 í rúm­lega 190. Um­sókn­um í grunn­skóla­kenn­ara­nám og kennslu­fræði eru um 340 í ár eða um fimmt­ungi fleiri en í fyrra. Íþrótta- og heilsu­fræði nýt­ur einnig mik­illa vin­sælda og þar hafa um 150 sóst eft­ir því að hefja nám eða um fimmt­ungi fleiri en í fyrra. Sömu­leiðis hef­ur Há­skól­inn á Ak­ur­eyri aldrei fengið eins marg­ar um­sókn­ir í leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nám.

Þetta eru afar góðar frétt­ir, enda er öfl­ugt mennta­kerfi borið upp af öfl­ug­um kenn­ur­um.

Mennta­sjóður og ný­sköp­un

Það er frá­bært að sjá hve vel hef­ur tek­ist að styrkja rann­sókn­ar­innviði og efla allt vís­indastarf. Aukið fjár­magn í sam­keppn­is­sjóði í rann­sókn­um nær til mannauðs, með aukn­um styrkj­um og at­vinnu­tæki­fær­um. Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna styrk­ir verk­efni þar sem ung­ir vís­inda­menn fá sín fyrstu kynni af þátt­töku í vís­inda­starfi sem kveikt hef­ur áhuga til framtíðar. Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna hef­ur vaxið úr 55 millj­ón­um í 455 millj­ón­ir í ár. Þetta er gert til að búa til ný tæki­færi og virkja þekk­ing­ar­sköp­un. Mesta fram­fara­skref í þágu náms­manna sem hef­ur verið kallað eft­ir í mörg ár er Mennta­sjóður náms­manna! Sjóður­inn er bylt­ing fyr­ir fjöl­breytt­an hóp fólks sem stund­ar há­skóla­nám hér á landi og fjöl­skyld­ur þessa lands. Með nýju kerfi verður fjár­hags­staða náms­manna betri og skuld­astaða þeirra að námi loknu ræðst síður af fjöl­skylduaðstæðum. Auk þessa nýja kerf­is höf­um við unnið að því síðustu ár að bæta hag náms­manna með því að auka ráðstöf­un­ar­tekj­ur þeirra með hækk­un fram­færslu og tekju­viðmiða.

Það er því eng­um of­sögn­um sagt að stór­sókn sé haf­in í mennta­mál­um!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. júní 2020.