Categories
Greinar

Samgönguáætlun komin út – framkvæmdir í hafnarmálum

Deila grein

12/12/2018

Samgönguáætlun komin út – framkvæmdir í hafnarmálum

Í þessari viku lagði samgönguráðherra fram samgönguáætlun á Alþingi. Þar ber margt á góma, veglagning um Teigskóg eru að fullu fjármagnaðar en ennþá er málið fast milli Reykhólahrepps og Vegagerðarinnar. Þar þarf ríkið að grípa inní tafarlaust og höggva á hnútinn svo framkvæmdir geti hafist.

Áætlað er að bjóða út Dynjandisheiði árið 2020 en þar virðist hönnunar og stjórnsýsluferli tefja framkvæmdina eins og glögglega kom fram á fundi Vegagerðarinnar á Ísafirði í sumar. Þar þurfa stjórnvöld sömuleiðis að stíga inní, ákveða hvaða veglínur skuli fara svo hægt sé að fullhanna framkvæmdirnar og bjóða þær út fyrr.

Það er svo mjög ánægjulegt að 550 milljónir séu áætlaðar í stórhættulegan einbreiðan veg í Djúpinu á næsta ári þegar farið verður í framkvæmdir frá Kambsnesi að Eyðinu í Seyðisfirði. Í framhaldinu verður svo einbreiða brúin við Hattadal aflögð og ný tvöföld brú byggð samkvæmt áætluninni.

Hafnarframkvæmdir

Um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi stækkun Sundahafnar á Ísafirði. Slík framkvæmd felur í sér dýpkun við Sundin, niðurrekstri á þili og lengingu hafnarkants. Mikil þörf er á stækkuninni, með því móti er hægt að taka stærri skemmtiferða og flutningaskip að bryggju. Samhliða uppbyggingu eldis fylgir aukin umferð skipa og báta auk þess sem bærinn hefur úthlutað HG lóð undir nýtt frystihús við fyrirhugaðan kant. Auk þess hafa fleiri sjávarútvegstengd fyrirtæki sótt um lóðir á suðurtanganum sem treysta á stækkun hafnarinnar. Þörfin er því brýn.

Það er því mikið fagnaðarefni að samgönguráðherra hafi sett inná 5 ára samgönguáætlun fjármuni til dýpkunar og byggingu hafnarkants við Sundahöfn. Framkvæmdir við hafnir landsins skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga og felur því fjármagnið frá ríkinu það í sér að Ísafjarðarbær getur farið á fullt með Vegagerðinni að fullhanna framkvæmdirnar og  farið af stað í útboð á sínum hluta framkvæmdanna.

Ennfremur er áætlað að klára lagfæringar á Flateyri auk þess sem endurbygging á innri hluta hafnargarðsins á Þingeyri eru kominn á áætlun og ennfremur eru framkvæmdir um að klára þilið á Suðureyri áætlaðar.

Ég vil taka það fram að það hefur verið þverpólitísk samstaða um uppbyggingu hafnarmannvirkja í Ísafjarðarbæ undanfarin ár sem hefur ekki síður hjálpað málinu. Framundan eru því ærin verkefni í uppbyggingu hafnarmannvirkja í Ísafjarðarbæ, bæði í nýframkvæmdum og ekki síður skipulagningu og tiltekt sem ég hlakka til að takast á við.

Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknar í Ísafjarðarbæ og formaður hafnarstjórnar Ísafjarðarbæjar.

Greinin birtist fyrst á bb.is 12. desember 2018.

Categories
Greinar

Jöfn tækifæri til tónlistarnáms

Deila grein

10/12/2018

Jöfn tækifæri til tónlistarnáms

Tón­list­ar­líf á Íslandi hef­ur átt mik­illi vel­gengni að fagna og vor­um við minnt á það ný­lega á degi ís­lenskr­ar tón­list­ar sem hald­inn var hátíðleg­ur 6. des­em­ber síðastliðinn. Öflugt tón­list­ar­nám legg­ur grunn­inn að og styður við skap­andi tón­list­ar- og menn­ing­ar­líf í land­inu en ný­verið var und­ir­ritað sam­komu­lag rík­is­ins og sveit­ar­fé­lag­anna um stuðning við tón­list­ar­nám til árs­loka 2021. Mark­miðið er að jafna aðstöðumun nem­enda til tón­list­ar­náms á fram­halds­stigi og söngnám á mið- og fram­halds­stigi og festa fjár­mögn­un náms­ins bet­ur í sessi. Ljóst er að um veiga­mikið skref er að ræða en grunn­fjár­hæð fram­lags rík­is­ins er 545 millj­ón­ir kr. á árs­grund­velli sem greiðist til Jöfn­un­ar­sjóðs sveit­ar­fé­lag­anna sem ann­ast út­hlut­an­ir fram­lag­anna. Á móti skuld­binda sveit­ar­fé­lög­in sig til að taka tíma­bundið yfir verk­efni frá ríki sem nema 230 millj­ón­um kr. á ári og sjá til þess að fram­lag renni til kennslu þeirra nem­enda sem inn­ritaðir eru í viður­kennda tón­list­ar­skóla án til­lits til bú­setu. Sam­komu­lagið er um­fangs­mikið en það snert­ir 33 viður­kennda tón­list­ar­skóla víða um land en þar stunda nú um 600 nem­end­ur nám á fram­halds­stigi.Það skipt­ir máli fyr­ir tón­list­ar­lífið í land­inu að um­gjörðin sé sterk og innviðir góðir. Á síðasta ári var gerð út­tekt á veltu ís­lenskr­ar tón­list­ar fyr­ir Sam­tón, ÚTÓN og at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið. Úttekt­in var unn­in af dr. Mar­gréti Sigrúnu Sig­urðardótt­ur og Erlu Rún Guðmunds­dótt­ur. Helstu niður­stöður eru þær að heild­ar­tekj­ur ís­lenska tón­list­ariðnaðar­ins á ár­un­um 2015-2016 voru um það bil 3,5 millj­arðar kr., auk 2,8 millj­arða kr. í af­leidd­um gjald­eyris­tekj­um til sam­fé­lags­ins vegna komu tón­list­ar­ferðamanna til lands­ins. Þá stend­ur lif­andi flutn­ing­ur á tónlist und­ir tæp­lega 60% af heild­ar­tekj­um ís­lenskr­ar tón­list­ar á meðan hljóðrituð tónlist og höf­und­ar­rétt­ur nema hvort um sig 20%. Að auki sýn­ir út­tekt­in að lif­andi flutn­ing­ur er mik­il­væg­asta tekju­lind sjálfra tón­list­ar­mann­anna á meðan plötu­sala hef­ur dreg­ist sam­an.

Það er mik­il­vægt að halda áfram að styrkja um­gjörð skap­andi greina í land­inu. Ný­und­ir­ritað sam­komu­lag um tón­list­ar­nám skipt­ir sköp­um á þeirri veg­ferð og mun gera fleir­um kleift að stíga sín fyrstu skref í tónlist um land allt. Að auki hafa verið stig­in mik­il­væg skref í upp­bygg­ingu menn­ing­ar­húsa á lands­byggðinni en þau hafa haft ótví­ræð já­kvæð marg­feld­isáhrif á tón­list­ar- og menn­ing­ar­líf bæja og nærsam­fé­laga. Við vilj­um að all­ir lands­menn geti notið lista og menn­ing­ar og tekið virk­an þátt í slíku starfi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember 2018.

Categories
Greinar

Auknir fjármunir til verkefna í þágu barna

Deila grein

10/12/2018

Auknir fjármunir til verkefna í þágu barna

Þann 1. janú­ar næst­kom­andi tek­ur til starfa nýtt fé­lags­málaráðuneyti í sam­ræmi við ákvörðun Alþing­is um breytta skip­an Stjórn­ar­ráðsins. Embætt­istit­ill minn breyt­ist frá sama tíma og verður fé­lags- og barna­málaráðherra. Fyr­ir þeirri breyt­ingu er ein­föld ástæða. Ég hef frá fyrsta degi í stóli ráðherra sem fer með mál­efni barna lagt sér­staka áherslu á þann mála­flokk og lagt kapp á vinnu við verk­efni í þágu barna og barna­fjöl­skyldna.

Að mínu frum­kvæði und­ir­rituðu fimm ráðherr­ar vilja­yf­ir­lýs­ingu um aukið sam­starf í þágu barna nú í haust. Hún end­ur­spegl­ar vilja okk­ar til að tryggja sam­starf þvert á kerfi, stuðla að sam­felldri þjón­ustu við börn og for­eldra þegar þörf er fyr­ir hendi og skapa meiri viðbragðsflýti inn­an kerf­is­ins með aukn­um hvata til snemm­tækr­ar íhlut­un­ar. Auk ráðherra­yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar hef­ur verið sett á fót þver­póli­tísk þing­manna­nefnd um mál­efni barna, sem er einnig mik­il­vægt til að raun­gera þá ríku áherslu á mál­efni barna sem sam­fé­lag okk­ar þarf svo mikið á að halda.

Þótt orð séu til alls fyrst, þarf líka fjár­muni til að hrinda góðum vilja í fram­kvæmd. Þess vegna er gott að geta sagt frá því að samstaða var í rík­is­stjórn­inni um að auka fram­lög til mál­efna barna um 200 millj­ón­ir króna til að styðja við þá end­ur­skoðun á mála­flokkn­um sem nú stend­ur yfir og vinna að ýms­um mik­il­væg­um verk­efn­um sem varða snemm­tæka íhlut­un og aðstoð og einnig má nefna fjár­magn upp á tugi millj­óna á þessu ári og 80 millj­ón­ir á næsta ári sem nýt­ist börn­um í fíkni­vanda.

1,8 millj­arðar til hækk­un­ar fæðing­ar­or­lofs

Stuðning­ur við for­eldra er stuðning­ur við börn. Þess vegna stend­ur rík­is­stjórn­in ein­huga að baki hækk­un á greiðslum til for­eldra í fæðing­ar­or­lofi á næsta ári. Full­ar greiðslur hækka úr 520.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. og nem­ur heild­ar­kostnaður þess­ar­ar aðgerðar 1,8 millj­örðum króna. Enn frem­ur hækk­um við mót­fram­lagið í líf­eyr­is­sjóð úr 8% í 11,5% á næsta ári. Stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er bæði að hækka greiðslurn­ar og lengja or­lofið og leng­ing þess verður næsta skrefið í þessu máli.

Loks vil ég geta um aukið fram­lag vegna upp­bygg­ing­ar sér­stakra bú­setu­úr­ræða fyr­ir börn með al­var­leg­ar þroska- og geðrask­an­ir en um 150 millj­ón­um króna verður varið á næsta ári til þess.

Það er gam­an að geta kynnt þessi mik­il­vægu verk­efni í þágu barna sem unnið er að. Vilji stjórn­valda er skýr og ein­beitt­ur í þess­um efn­um. Mál­efni barna hafa meðbyr og það er vax­andi skiln­ing­ur fyr­ir því í sam­fé­lag­inu að börn­in okk­ar eru mik­il­væg­asta fjár­fest­ing framtíðar­inn­ar.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. desember 2018.

Categories
Greinar

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Deila grein

06/12/2018

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Árið 2003 voru þeir 14 en eru nú 8. Hátt á þriðja hundrað börn fæðast árlega sem eiga foreldra sem búa yfir hundrað kílómetra frá fæðingarþjónustu. Félags- og jafnréttisráðherra hyggst í samvinnu við heilbrigðisráðherra stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu og gera nauðsynlegar úrbætur.

Nýtt sjúkrahótel bætir þjónustuna
Þrátt fyrir að fæðingarstöðum fækkað, þá hefur fátt komið í staðinn fyrir það fólk sem býr fjarri fæðingarþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðakostnað fyrir móður, en það er allt og sumt. Mikill kostnaður getur fylgt því að greiða fyrir gistingu nærri fæðingarþjónustu sem og ferðakostnað fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og uppihald. Markmið nýs sjúkrahótels við Landspítala, sem opnar á næstunni, er m.a. að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð og að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða. Góð aðstaða verður fyrir fjölskyldufólk á sjúkrahótelinu.

Nauðsynlegt að breyta lögum um fæðingarorlof
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð ítrekað fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, með breytingu á lögum um fæðingarorlof.  Með frumvarpinu var lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Velferðarnefnd Alþingis tókst ekki að afgreiða frumvarpið á vordögum en því ber að fagna að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ætli að fara ítarlega yfir stöðu þessa hóps og leggja fram tillögur að úrbótum.

Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á feykir.is 4. desember 2018.

Categories
Greinar

Staðsetning fyrirhugaðrar Þjóðgarðastofnunar

Deila grein

06/12/2018

Staðsetning fyrirhugaðrar Þjóðgarðastofnunar

Það hefur staðið til að umhverfis- og auðlindaráðherra komi á fót Þjóðgarðastofnun sem mun annast náttúruvernd á friðlýstum svæðum í samræmi við náttúruverndarlög. Með því er verið að sameina verkefni og stjórnsýslu á þessu sviði undir eina stjórn og á einn stað. Nýlega spurði ég umhverfis- og auðlindaráðherra hvort það kæmi til greina að staðsetja fyrirhugaða stofnun á landsbyggðinni og ef svo er, hvað lægi til grundvallar slíkri ákvörðun.

Gott aðgengi að stjórnsýslu

Þau atriði sem ráðherra telur brýnt að horfa til þegar tekin verður ákvörðun um starfsstöðvar nýrrar stofnunar eru tengsl stjórnenda og lykilstarfsfólks við stjórnsýsluna. Það sé mikilvægt að stofnunin hafi gott aðgengi að stjórnsýslu eins og ráðuneytum og öðrum stofnunum sem snúa að slíkri starfsemi. Ráðherra bendir á að hægt sé með öruggum hætti að viðhalda tengslum á rafrænan hátt en að ekki megi gera lítið úr mikilvægi beinna samskipta.

Ráðherra telur mikilvægt að góð samskipti séu við hagaðila og að virkt samráð sé forsenda þess að vel takist upp. Sterk rök eru fyrir því að á hverju starfssvæði stofnunarinnar eða í hverjum landshluta þurfi að vera nokkuð öflug starfsstöð með getu til þess að sinna slíkum samtölum ásamt annarri þjónustu, t.d. hluta af miðlægri þjónustu stofnunarinnar.

Verkefni um allt land

Verkefni fyrirhugaðrar stofnunar eru á hendi þriggja stofnana sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Þær stofnanir starfa víða um land eins og Umhverfisstofnun sem starfar á tíu stöðum á landinu. Eðli starfsemi nýrrar stofnunar sem færi með málefni náttúrverndar, t.a.m. friðlýsingar og rekstur og umsjón friðlýstra svæða, fæli í sér að meginþungi starfseminnar yrði á landsbyggðinni.

Þekking og frumkvæði

Það er ljóst að mikil þekking um náttúruvernd og náttúrurannsóknir býr á landsbyggðinni. Starfsfólk Náttúrustofa og Umhverfisstofnunar um landið sinnir eftirliti með náttúru landsins með gagnasöfnun, fræðslu, ráðgjöf, þjónustu og fleiru.

Á Hvanneyri er Landbúnaðarskóli Íslands. Sérstæða hans er að viðfangsefni skólans er náttúra landsins, nýting, viðhald og verndun, eins og segir á heimasíðu skólans. Þar er rekin öflugur skóli í búfræði og búvísindum auk þess sem þar er öflug rannsóknastarfsemi á sviði búvísinda, náttúru- og umhverfisfræða.

Það er því ekki erfitt að finna hentuga staðsetningu fyrir fyrirhugaða Þjóðgarðastofnun þar sem hægt er að nálgast forsendurnar sem liggja til grundvallar slíkri stofnun.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 5. desember 2018.

Categories
Greinar

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Deila grein

03/12/2018

Tryggjum jöfnuð gagnvart fæðingarþjónustu

Fæðingarstöðum á Íslandi hefur fækkað hin síðari ár. Árið 2003 voru þeir 14 en eru nú 8. Hátt á þriðja hundrað börn fæðast árlega sem eiga foreldra sem búa yfir hundrað kílómetra frá fæðingarþjónustu. Félags- og jafnfréttisráðherra hyggst í samvinnu við heilbrigðisráðherra stofna starfshóp til að fara heildstætt yfir aðstæður barnshafandi kvenna á landsbyggðinni með tilliti til staðsetningar fæðingarþjónustu og gera nauðsynlegar úrbætur.

Nýtt sjúkrahótel bætir þjónustuna
Þrátt fyrir að fæðingarstöðum fækkað, þá hefur fátt komið í staðinn fyrir það fólk sem býr fjarri fæðingarþjónustu. Sjúkratryggingar Íslands greiða ferðakostnað fyrir móður, en það er allt og sumt. Mikill kostnaður getur fylgt því að greiða fyrir gistingu nærri fæðingarþjónustu sem og ferðakostnað fyrir aðra fjölskyldumeðlimi og uppihald. Markmið nýs sjúkrahótels við Landspítala, sem opnar á næstunni, er m.a. að útvega gistingu fyrir fólk af landsbyggðinni sem er að sækja þjónustu sem ekki er veitt í heimabyggð og að veita konum af landsbyggðinni gistingu nálægt fæðingardeild meðan beðið er fæðingar sérstaklega ef að er um áhættufæðingar að ræða. Góð aðstaða verður fyrir fjölskyldufólk á sjúkrahótelinu.

Nauðsynlegt að breyta lögum um fæðingarorlof
Vegna þessa augljósa ójafnræðis sem fólk býr við varðandi aðgengi að fæðingarþjónustu lagði undirrituð ítrekað fram frumvarp, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, með breytingu á lögum um fæðingarorlof. Með frumvarpinu var lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks framlengist sem nemur þeim tíma sem þeir þurfa að dveljast fjarri heimili til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp. Sú breyting yrði til þess að öllum börnum yrði tryggður jafn réttur til að njóta samvista við foreldra sína fyrstu mánuði lífsins. Slík breyting yrði einnig í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem veitt hefur verið lagagildi hérlendis með lögum nr. 19/2013. Velferðarnefnd Alþingis tókst ekki að afgreiða frumvarpið á vordögum en því ber að fagna að félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra ætli að fara ítarlega yfir stöðu þessa hóps og leggja fram tillögur að úrbótum.

Í svo fámennu og dreifbýlu landi sem Ísland er, er skiljanlegt að erfitt sé að halda úti fæðingarþjónustu á hverjum stað. Engu að síður verðum við að tryggja jöfnuð á milli þegna landsins og því verður kerfið að vera skipulagt á þann hátt, að komið sé til móts við fólk sem ekki á kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á eyjafrettir.is 3. desember 2018.

Categories
Greinar

Samvinna í lykilhlutverki

Deila grein

03/12/2018

Samvinna í lykilhlutverki

Á 100 ára afmæli fullveldisins finnur maður fyrir nálægð sögunnar í hversdeginum. Lítur yfir farinn veg og sér hvernig hreyfingar samfélagsins dag frá degi verða efniviður í Íslandssöguna. Finnur fyrir ákveðnum þunga á öxlunum en á sama tíma stolti yfir því að fá að taka þátt í sögu þjóðarinnar sem stjórnmálamaður og formaður þess flokks sem hefur í sinni 102 ára sögu haft gríðarleg áhrif á framþróun Íslands. Framsókn á stóran þátt í uppbyggingu atvinnutækifæra á tíma fullveldis Íslands og þá ekki síður í menntamálum og heilbrigðiskerfinu.Okkur hefur farnast velÞað verður víst ekki sagt um okkur Íslendinga að við séum fjölmenn þjóð. Þeim mun mikilvægari verður hver og einn og framlag hans til samfélagsins og þróunar þess. Kannski er það hluti af ástæðu þess hvað okkur hefur auðnast að hreyfa okkur hratt frá fábrotnu samfélagi til þess fjölbreytta og öfluga samfélags sem við byggjum í dag. Okkur Íslendingum hefur farnast vel sem fullvalda þjóð.

Samfélag okkar er ekki fullkomið frekar en önnur samfélög. Við erum þó lánsöm að búa við mikinn jöfnuð og líklega mesta samfélagslega hreyfanleika þannig að fólk getur unnið sig upp samfélagsstigann með hjálp öflugs menntakerfis og námslánakerfis sem sitjandi ríkisstjórn ætlar að breyta í átt að meiri stuðningi og jöfnuði en við höfum þekkt hér á landi áður. Menntun er lykilatriði í því að gefa fólki byr undir vængi og þá um leið samfélaginu. Menntun er grundvöllur allra framfara og við setjum ávallt manngildi ofar auðgildi.

Vélin sem knýr samfélagið

Atvinnulífið er vélin sem knýr samfélagið áfram. Framsókn hefur ávallt verið umhugað um að byggja upp sterkt og fjölbreytt atvinnulíf um allt land. Án atvinnu veikjast bæði samfélög og einstaklingar. Með atvinnu kemur styrkur og áræðni sem skilar fólki og byggðarlögum auknum lífsgæðum og samfélaginu öllu tekjum til að halda utan um þá sem minna mega sín. Stundum þarf að taka umdeildar ákvarðanir til að snúa vörn í sókn. Slíkt verður ávallt að gera með manngildið í öndvegi.

Frjálslyndi og farsæld

Síðasta öld er af mörgum kölluð öld öfganna. Á þeirri öld lék Framsókn og samvinnuhugsjónin oft lykilhlutverk í að leiða saman ólík öfl við stjórn landsins. Eins og segir í grunnstefnu flokksins aðhyllumst við frjálslynda hugmyndafræði og teljum farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika. Líklega hefur sjaldan verið nauðsynlegra að rödd og hugmyndafræði Framsóknar heyrist en einmitt nú þegar pólar stjórnmálanna verða ýktari. Nú er mikilvægt að hlusta vel á ólíkar raddir og leiða mál til lykta með samvinnu.

Sátt manns og náttúru

Framtíðin brosir við okkur. Framfarir eru stöðugar, bæði hvað varðar efnahag okkar og lýðræðislegt samfélag. Verkefni okkar stjórnmálamannanna er að þróa áfram samfélagið með því að skapa aðstæður og umhverfi sem gefur öllum tækifæri til að blómstra. Hvert skref sem tekið er verður að hlúa að þeim eiginleikum sem mikilvægastir eru fyrir manneskju og samfélag. Síðustu 100 ár hafa sýnt okkur að Íslendingum eru allir vegir færir. Nú bíður okkar allra verkefnið að efla og styrkja samfélagið í sátt manns og náttúru. Eins og áður er samvinnan þar í lykilhlutverki.

Ég óska Íslendingum öllum til hamingju á hundrað ára afmæli fullveldis Íslands.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Categories
Greinar

Menntun og menning til framtíðar

Deila grein

03/12/2018

Menntun og menning til framtíðar

Á þessum hátíðardegi fögnum við aldarafmæli fullveldis þjóðarinnar. Með sambandslögunum milli Íslands og Danmerkur, sem gildi tóku 1. desember 1918, var það viðurkennt að Ísland væri fullvalda og frjálst ríki og hefur dagurinn því sérstöðu í sögu okkar. Ég vona að sem flestir gefi sér tækifæri til þess að taka þátt í viðburðum sem skipulagðir eru víða um land af þessu hátíðlega tilefni. Tímamót gefa færi á að líta um öxl og svo vill til að um þessar mundir er ár liðið frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Þetta fyrsta ár hefur verið afar lærdóms- og viðburðaríkt en sem mennta- og menningarmálaráðherra hef ég fengið að kynnast frábæru og fjölbreyttu starfi sem unnið er að á þeim vettvangi.

Stórsókn í menntamálum

Ríkisstjórnin hefur frá upphafi tekið það verkefni föstum tökum að stuðla að nauðsynlegri uppbyggingu samfélagslegra innviða. Í stjórnarsáttmálanum boðuðum við stórsókn í menntamálum og samþykkt fjármálaáætlun næstu ára ber þess skýr merki. Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og leggur grunninn að áframhaldandi velsæld okkar. Við viljum að skapandi og gagnrýnin hugsun, læsi og þátttaka í lýðræðissamfélagi verði áfram undirstaða íslenska skólakerfisins og það geti mætt örum samfélagsbreytingum. Á því byggist samkeppnishæfni okkar til framtíðar. Vinna er hafin við mótun nýrrar menntastefnu til ársins 2030 og þar setjum við í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta-, atvinnu- og velferðarmálum.

Mikilvægi kennara

Brýnt verkefni okkar á sviði menntamála er að styrkja umgjörð í kringum kennara á öllum skólastigum og auka nýliðun í stétt þeirra. Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum því kennarar eru lykilfólk í mótun framtíðarinnar. Fjölþættar aðgerðir sem snúa að nýliðun kennara verða brátt kynntar en við höfum unnið að þeim í góðu samstarfi við skólasamfélagið.

Eflum iðn-, starfs- ogverknám

Eitt forgangsmála okkar er að efla iðn-, starfs- og verknám. Í því felst að styrkja utanumhald með verk- og starfsþjálfun nemenda og auka aðgengi að náminu. Niðurfelling efnisgjalda var mikilvægt skref í þá átt. Þá er brýnt að kynna betur þá fjölbreyttu náms- og starfskosti sem í boði eru. Sú vinna fer einkar vel af stað og sem dæmi fjölgaði innrituðum nemendum á verk- og starfsnámsbrautum framhaldsskóla hlutfallslega um 33% milli ára á haustönn. Kostir verk- og starfsmenntunar eru ótvíræðir og mikil eftirspurn eftir fólki með slíka menntun á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Vinnum gegn brotthvarfi

Annað stórt verkefni eru aðgerðir gegn brotthvarfi nemenda á framhaldsskólastigi. Aðgerðir á því sviði snúast meðal annars um aukin framlög til framhaldsskólastigsins, betri kortlagningu á brotthvarfsvandanum og bætta geðheilbrigðisþjónustu fyrir nemendur framhaldsskólanna. Niðurstöður útreikninga á árlegu nýnemabrotthvarfi sýna að það hefur minnkað miðað við gögn síðustu þriggja ára og er það vel, sem og að nú hefur svokölluð »25 ára regla« verið afnumin.

Styrkara háskólastig

Til að stuðla að hagvexti og umhverfi þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit þróast er mikilvægt að fjárfesta í háskólastiginu og hvetja til öflugs samstarfs þess við atvinnulífið. Heildarfjárframlög háskólastigsins nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða kr. eða um 5% milli ára. Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Fjárfestingar okkar í menntakerfinu hafa aukist að undanförnu og hefur hlutfall háskólamenntaðra hér á landi vaxið hratt. Það er ánægjulegt að atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum er mjög lítið hér á alþjóðlegan mælikvarða.

Menningin

Aðgengi að menningu er þýðingarmikill þáttur þess að lifa í framsæknu samfélagi, því skiptir máli að landsmenn allir geti notið lista og menningar og tekið þátt í slíku starfi. Við fylgjum eftir þeirri vinnu sem unnin hefur verið í uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni og á þessu ári hafa verið tekin mikilvæg skref í uppbyggingu slíkra húsa, á Sauðárkróki og Egilsstöðum. Menningarhúsin hafa sannað mikilvægi sitt víða um land og þau hafa ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif, bæði á bæi og nærsamfélög. Á síðustu árum hefur átt sér stað vitundarvakning í verkefnum tengdum barnamenningu. Í tilefni af fullveldisafmælinu verður stofnaður barnamenningarsjóður með það markmið að styrkja börn til virkrar þátttöku í menningarlífi, listsköpun, hönnun og nýsköpun. Jafnframt verður nýjum styrkjaflokki bætt við styrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta sem sérstaklega verður ætlaður barna- og ungmennabókum.

Framtíðin er á íslensku

Íslensk stjórnvöld hafa kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar. Aðgerðirnar snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins. Þeim til grundvallar er eindreginn vilji til að tryggja framgang tungumálsins, t.a.m. með stuðningi við bókaútgáfu, einkarekna fjölmiðla, máltækni og menntun. Á næstunni mun ég leggja fram þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál hér á landi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta meðal annars skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.

Verkin tala

Sem ráðherra fagna ég áhuga á þróun mennta- og menningarmála og þakka þann ríka samvinnuvilja sem ég skynja á vettvangi minna starfa. Hvort tveggja er okkur mikilvægt til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem við höfum sett okkur. Nú horfum við 100 ár aftur í tímann, fögnum tímamótum og hugsum jafnframt til framtíðar. Hún er full af spennandi verkefnum og tækifærum. Til hamingju með fullveldisdaginn.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2018.

Categories
Greinar

Náttúruminjasafn á tímamótum

Deila grein

03/12/2018

Náttúruminjasafn á tímamótum

Sýning Náttúruminjasafns Íslands helguð einni mikilvægustu auðlind okkar, vatninu, verður opnuð í Perlunni á morgun, sjálfan fullveldisdaginn. Sýningin ber yfirskriftina Vatnið í náttúru Íslands og mun veita gestum nýstárlega sýn í leyndardóma vatnsins og mikilvægi þess fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu. Markmið sýningarinnar er meðal annars að benda okkur á að umgangast vatnið í öllum sínum myndum af aðdáun og virðingu og fræða gesti um undur náttúrunnar.

Opnun sýningarinnar er merkur áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins. Hún er fyrsta stóra sýningin sem höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum setur upp á eigin vegum síðan safnið var formlega sett á laggirnar árið 2007. Einnig má segja að þessi sýning sé fyrsta skrefið í áttina að því að hér á landi verði til fullbúið safn í náttúrufræðum þar sem fyrir hendi verða sérfræðingar á sviði náttúru- og safnafræða og aðstaða til móttöku náttúruminja, skráningar þeirra og varðveislu. Safnið fær nú til afnota 340 fm hæð í Perlunni í Öskjuhlíð þar sem fyrirtækið Perla norðursins setur upp fjölbreyttar sýningar tengdar íslenskri náttúru og hugviti, listfengi og nýjustu tækni er einnig beitt til þess að gera upplifun gesta sem áhrifaríkasta.

Náttúruminjasafn Íslands er mennta- og fræðslustofnun og ein af grunnstoðum samfélagsins á því sviði. Miðlun með sýningahaldi er mikilvægur þáttur í starfsemi allra safna og nú þegar meiri samkeppni er um tíma fólks og athygli þarf að huga vel að framsetningu og miðlunarleiðum. Nýja sýningin er bæði frumleg og falleg og gerir ráð fyrir virkri þátttöku gesta. Fagnaðarefni er að börnum er gert sérstaklega hátt undir höfði í miðlun sýningarinnar og er sýningin að verulegu leyti sniðin að því að vekja áhuga ungra gesta. Tveir safnkennarar munu sinna sérstaklega móttöku skólahópa á sýninguna og sjá um kennslu, einkum fyrir leik- og grunnskóla.

Íslensk náttúra hefur mikla sérstöðu á alþjóðavísu og er eitt helsta aðdráttarafl fyrir erlendra gesti sem hingað sækja. Í þessari nýju sýningu Náttúruminjasafnsins er þekkingu vísindamanna á íslenskri náttúru miðlað á eftirtektarverðan hátt og fá gestir tækifæri til að upplifa vatnið í nýju og fræðandi ljósi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. nóvember 2018.

Categories
Greinar

Auðveldum ungu fólki að kaupa fyrstu fasteign

Deila grein

29/11/2018

Auðveldum ungu fólki að kaupa fyrstu fasteign

Hús­næðismál eru vel­ferðar­mál. Eitt af meg­in­hlut­verk­um hins op­in­bera er að halda uppi öfl­ugu vel­ferðar­kerfi þar sem öll­um lands­mönn­um, óháð bú­setu, er tryggð ör­ugg fram­færsla, heil­brigðis- og fé­lagsþjón­usta, mennt­un og raun­hæf­ur kost­ur á að eign­ast eða leigja sér ör­uggt hús­næði. Þess vegna verða stjórn­völd og sam­fé­lagið sem heild að líta á og nálg­ast hús­næðismál með sama hætti og önn­ur brýn vel­ferðar­mál.

Staðan á ís­lensk­um hús­næðismarkaði er þannig í dag að skort­ur er á íbúðum fyr­ir ungt fólk og tekju­lága á viðráðan­legu verði. Sam­kvæmt nýj­ustu könn­un Íbúðalána­sjóðs telja 57% leigj­enda sig búa við hús­næðis­ör­yggi sam­an­borið við 94% þeirra sem búa í eig­in hús­næði. Ein­ung­is 8% leigj­enda eru á leigu­markaði vegna þess að þeir vilja vera þar en 64% leigj­enda segj­ast vera á leigu­markaðnum af nauðsyn. Þetta er ekki ásætt­an­legt. Fast­eigna­verð hef­ur stór­hækkað og kaup­end­ur að fyrstu íbúð þurfa annað hvort að eiga nokkr­ar millj­ón­ir króna í spari­fé eða fá hjálp frá aðstand­end­um til að geta keypt íbúð. Marg­ir eru í þeirri stöðu að þess­ir kost­ur eru ein­fald­lega ekki í boði. „Að eign­ast þak yfir höfuðið“ fyr­ir unga og tekju­lága ein­stak­linga er við nú­ver­andi aðstæður risa­vaxið verk­efni svo ekki sé dýpra í ár­ina tekið. Við þessu þarf að bregðast.

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar seg­ir: „Rík­is­stjórn­in mun fara í aðgerðir sem lækka þrösk­uld ungs fólks og tekju­lágra inn á hús­næðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðnings­kerfi hins op­in­bera end­ur­skoðuð þannig að stuðning­ur­inn nýt­ist fyrst og fremst þess­um hóp­um. Meðal ann­ars verða skoðaðir mögu­leik­ar á því að hægt verði að nýta líf­eyr­is­sparnað til þess.“

Í sam­ræmi við þetta höf­um við verið að kort­leggja þau úrræði sem stjórn­völd í ná­granna­lönd­um okk­ar bjóða upp á fyr­ir tekju­lága á íbúðamarkaði. Þar hef­ur einkum verið litið til Nor­egs og Sviss.

Í Sviss er heim­ilt að nýta upp­safnaðan líf­eyr­is­sparnað til að afla eig­in­fjár­fram­lags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyr­ir­fram­greidd­an eða veðsetja hann. Al­menn­ur líf­eyr­is­sparnaður má vera allt að 90% kaup­verðs en viðbót­ar­líf­eyr­is­sparnaður allt að 100%.

Hus­ban­ken, sem er syst­ur­stofn­un Íbúðalána­sjóðs í Nor­egi, býður upp á sér­stak­an hús­næðisstuðning, svo­kölluð Start­lán, til að aðstoða af­markaðan hóp tekju­lágra við að kaupa sér íbúð. Start­lán eru íbúðalán með lægri vöxt­um og lægri eig­in­fjár­kröfu en tíðkast á markaði. Þau eru aðeins veitt þeim sem geta ekki aflað sér fjár­mögn­un­ar fyr­ir íbúð með hefðbundn­um hætti. Stærsti hóp­ur lán­taka eru fjöl­skyld­ur sem búa við slæma fjár­hags­lega stöðu en start­lán hafa einnig verið veitt m.a. til fyrstu kaup­enda, flótta­manna, fólks með fötl­un og fólks sem býr við fé­lags­leg vanda­mál.

Ný­lega lagði ég fram til­lögu í rík­is­stjórn um að farið væri í að út­færa fyrr­greind­ar lausn­ir hér á landi. Ég bind mikl­ar von­ir við að úr­bæt­ur til handa fyrstu kaup­end­um verði til þess að lækka þrösk­uld ungs fólks og tekju­lágra inn á hús­næðismarkaðinn.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. nóvember 2018.