Categories
Greinar

Brotið í blað í málefnum fatlaðs fólks 1. október

Deila grein

03/10/2018

Brotið í blað í málefnum fatlaðs fólks 1. október

Í gær, 1. október, tóku gildi ný heildarlög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Lögin fela í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk. Eitt ber tvímælalaust hæst en það er lögleiðing notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Þessi dagur á því án efa eftir að festa sig í huga þeirra fjölmörgu sem hafa til margra ára barist fyrir því að þetta fyrirkomulag þjónustu yrði sjálfsagður réttur fatlaðs fólks sem þarf á miklum stuðningi að halda til að fá notið sín í samfélaginu og tekið í því virkan þátt og sem mest á jafnréttisgrundvelli.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var af Íslands hálfu árið 2007, hefur haft mikil áhrif á viðhorf samfélagsins til fatlaðs fólks á liðnum árum og ýtt undir margvíslegar úrbætur, bæði til að efla og bæta þjónustu en ekki síður að efla mannréttindi og auka vernd fólks með fötlun. Í samningnum eru tilgreindar almennar meginreglur um túlkun og framkvæmd hans. Þar má nefna áhersluna á frelsið til að taka eigin ákvarðanir og sjálfstæði einstaklinga, fulla þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, virðingu fyrir mannlegum fjölbreytileika, áhersluna á jöfn tækifæri fólks og jafnrétti kynjanna.

Hugmyndafræðin að baki NPA á rætur að rekja til viðhorfsbreytinga sem leitt hafa af samningi Sameinuðu þjóðanna. NPA gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar og með hverjum það býr, viðkomandi stýrir sjálfur hvernig aðstoðin er skipulögð, hvenær hún er veitt og af hverjum. Kveðið er á um rétt til aðstoðar við skipulag þjónustunnar þurfi fatlaður einstaklingur á slíkri aðstoð að halda.

Þjónusta við fatlað fólk er á hendi sveitarfélaganna og hefur svo verið frá árinu 2011. Síðan þá hefur verið unnið markvisst að innleiðingu NPA þjónustuformsins með tilraunaverkefni um framkvæmdina. Sveitarfélögin hafa því umtalsverða þekkingu og reynslu á að byggja og ég er sannfærður um að þeim sé ekkert að vanbúnaði að veita þessa þjónustu, fötluðum og samfélaginu til gagns og góðs.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. október 2018.

Categories
Greinar

Samgöngur til framtíðar

Deila grein

03/10/2018

Samgöngur til framtíðar

Nú hefur samgönguráðherra Sigurður Ingi lagt fram þingsályktunartillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033. Í henni er að finna stefnu í samgöngumálum og skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem skulu ná til alls landsins. Hún kemur inn á heildstæða samþættingu um stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum og byggðamálum. Samgöngur skipta miklu máli þegar talað er um dreifingu ferðamanna um landið.

Það er því eðlilegt að samgönguáætlunar hafi verið beðið með óþreyju enda eru samgöngur og fjarskiptamál undirstaða nútíma samfélags á öllu landinu. Grunnnet vegakerfisins eru þeir stofnvegir og tengja saman byggðir landsins. Vestfirðingar þekkja það svo vel að fjórðungurinn hefur ávallt setið hjá þegar kemur að uppbyggingu grunnnetsins um landið. Þetta á sérstaklega við suðurfirðina sem geta alls ekki státað sig af nútíma grunnneti.

Það er ánægjulegt að sjá að í þessari samgönguáætlun er megináhersla lögð m.a. á grunnnet á Vestfjörðum. Á næstu árum eiga rúmir 25 milljarðar að renna til nýframkvæmda á Vestfjörðum.

Dynjandisheiðin er inni
Þar má fremst telja Dýrafjarðargöng sem nú þegar eru rúmlega hálfnuð. Síðan er gert ráð fyrir 5,3 milljörðum til uppbyggingar á Dynjandisheiðinni. Það er grátlegt að ekki skuli meðfram vinnu við Dýrafjarðargöng verði unnið í heiðinni. En staðreyndin er sú að enn þá er verið að vinna að hönnun vegstæðis. Matskýrsla er að verða tilbúin sem þá á eftir að fara í umhverfismat. Gert er ráð fyrir að hægt verði að bjóða verkið út á árinu 2020. Framkvæmdir við Bíldudalsveg eru inni í tengslum við gerð nýs vegar um Dynjandisheiði.

Í samgönguáætlun er miðað við að uppbygging vegar í Gufudalssveit hefjist strax á næsta ári. Það er því vonandi að hreppsnefnd Reykhólahrepps komist sem fyrst að skynsamlegri niðurstöðu sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Þetta eru stærstu framkvæmdirnar sem lagðir eru til. Af öðrum verkefnum má nefna Örlygshafnarveg um Hvallátur sem er á áætlun 2019 upp á 120 milljónir og framkvæmdir um Veiðleysuháls sem unnið verður að á næstu árum. Á næsta ári verður farið í framkvæmdir á Djúpvegi í Hestfirði og Seyðisfirði og í Álftafirði.

Öryggi vegfarenda
Í samgönguáætlun er áhersla lögð á öryggi. Liður í því er að gera átak við lagningu á bundnu slitlagi þar sem það vantar og fækka einbreiðum brúm á umferðamestu vegum landsins.

Viðhald vega
Miklu skiptir að lögð sé áhersla á viðhald vega jafnhliða nýframkvæmdum. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir verulega aukningu á framlögum til viðhalds vega. Enda uppsöfnuð þörf mikil. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar að kemur að öryggi vegfarenda.

Framtíðar sinfónían
Nú á haustdögum er þingsályktunartillagan lögð fyrir þingið og verður vonandi samþykkt áður en þingið fer í jólafrí. Það er mitt mat að vel megi við una en þó sakna ég þess sárlega að ekki skuli vera minnst á Súðavíkurgöng. Á síðastliðnu þingi lagði ég fram fyrirspurn til samgönguráðherra um hvort hann teldi ekki öruggt að göngin yrðu í komandi samgönguáætlun. Engu var lofað í þeim efnum en bent á að næstu göng sem horft væri til væru Norðfjarðargöng. Það skiptir máli að þingmenn kjördæmisins haldi áfram að minna á mikilvægi Súðavíkurganga svo auka megi öryggi vegfarenda og efla uppbyggingu í Súðavík og nágrannasveitarfélögunum.

Samgönguáætlunin er fjármögnuð og er samstíga samþykktri fjármálaáætlun. Hér er því ekki á ferðinni ófjármagnaður óskalisti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Greinin birtist fyrst á www.bb.is 28. september 2018.

Categories
Greinar

Bú er landstólpi

Deila grein

01/10/2018

Bú er landstólpi

Við trúum því að það sé skylda okkar sem þjóðar að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu, þar á meðal sauðfjárræktina, sem nú á í erfiðleikum. Samfélagið styður greinina í gegnum búvörusamning sem gerður var 2016. Þar er lögð áhersla á góða framleiðsluhætti sem byggja til dæmis á velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbærri landnýtingu. Tilgangurinn er einnig að tryggja  fjölbreytt framboð gæðafurða á sanngjörnu verði fyrir neytendur.Stuðningurinn hefur þau áhrif að verðið til þeirra er lægra en annars væri.Þá er lögð áhersla á að minnka kostnað við kerfið sjálft.

Nauðsynleg næstu skref

Það er nauðsynlegt að endurskoða ákveðna þætti búvörusamningsins vegna breyttra forsenda, sérstaklega þá sem geta verið framleiðsluhvetjandi.  Sauðfjárbændur hafa sjálfir bent á að nauðsynlegt sé að ná jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar lambakjöts á innanlandsmarkaði. Það er aðgerð sem er hugsuð til að bregðast við núverandi ytri aðstæðum.

Samið var um að búvörusamningarnir yrðu endurskoðaðir tvisvar á 10 ára samningstíma og nú stendur fyrri endurskoðunin yfir. Afkoman í sauðfjárræktinni hefur verið á niðurleið síðustu þrjú ár. Markaðir hafa lokast og sterkt gengi krónunnar hefur gert útflutning óhagstæðari. Í kjölfarið hefur verð til bænda hríðfallið. Þeir fá nú að meðaltali 387 krónur greiddar fyrir hvert kíló lambakjöts. en þyrfti að vera 650-700 krónur til reksturinn teldist viðunandi. Það er því ljóst að markaðsbrestur hefur orðið í greininni.

Jafnvægi í framleiðslu

Sauðfjárbændur hafa bent á að allt að 10% hækkun gæti komið til greina en sé gengið of langt getur það haft afar neikvæð áhrif á greinina í held og þau samfélög sem á henni byggja. Það eru samfélög sem hafa takmörkuð tækifæri til annarrar starfsemi.  Nauðsynlegt er að stjórnvöld beiti sér fyrir því að til verði verkfæri sem geri mögulegt að takast á við stöðu sem þessa og haft áhrif á markaðinn.  Við höfum engin slík nú, en þau eru til í flestum nágrannaríkjum okkar.  Afurðageirinn þarf líka að hagræða og endurskipuleggja sig með hliðsjón af þessum aðstæðum.  Hann þarf að vera nægileg öflugur til að tryggja gæði og vöruframboð sem svara kröfum neytandans með tilsvarandi markaðsstarfi. Með framantöldum aðgerðum er von til þess að jafnvægi náist og afkoma bænda batni í kjölfarið.

Horft til framtíðar

Þetta eru nauðsynlegar aðgerðir til  að koma á móts við núverandi vanda, sem vonandi verður fljótt að baki svo sauðfjárræktin geti farið að byggja sig upp að nýju.

Ríkistjórnin hefur sett metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum. Þjóð sem hefur það að leiðarljósi að minnka kolefnisspor okkar og nálgast sjálfbærni til framtíðar hlýtur að hlúa vel að umhverfi íslenskrar matvælaframleiðslu.. Sauðfjárbændur vilja taka þátt í því enda hafar þeir sett sér markmið um kolefnisjöfnun greinarinnar.  En greinin hefur víðtæka þýðingu.  Fyrir utan matvælaframleiðsluna og byggðalegu þýðinguna sem áður er nefnd er hún jafnframt verðmætur hluti af menningu íslenskrar þjóðar.  Þess vegna styður samfélagið við hana og við teljum að svo eigi áfram að vera.

Halla Signý Kristjánsdóttir 7. þingmaður NV kjördæmis og Þórunn Egilsdóttir 4. þingmaður NA kjördæmis.

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. október 2018.

Categories
Greinar

Þjóðareign

Deila grein

30/09/2018

Þjóðareign

Hvalfjarðargöng eru einstök framkvæmd í íslenskri samgöngusögu. Þessi mikla samgöngubót var tekin í notkun 11. júlí 1998. Nú tuttugu árum síðar tekur íslenska ríkið yfir rekstur Hvalfjarðaganga. Göngin eru dæmi um vel heppnaða framkvæmd og eru mikil samgöngubót fyrir íslenskt samfélag í heild. Nú tuttugu árum síðar, í lok tímabils er Hvalfjarðargöng eign þjóðarinnar. Gjaldtöku hefur verið hætt.

Ávinningur

Í dag er öllum ljóst að gerð Hvalfjarðarganga var mikið gæfuspor í samgöngum á landinu og gríðarleg samgöngubót, um það verður ekki deilt. Með tilkomu þeirra styttist leiðin norður um land um 42 km og milli Reykjavíkur og Akranes um 60 km. Möguleikarnir á stærri vinnumarkaði og skólavist urðu fleiri og fjölbreyttari sem leiddi til jákvæðra íbúaþróunar eftir að bættum samgöngum var komið á. Ávinningur íbúa á Vesturlandi er þar einna mestur og hleypur væntanlega á milljörðum. Ferðakostnaður er lægri, atvinnutækifærin eru fleiri,  vöruverð hagstæðara og svona mætti áfram telja. Göngin hafa styrkt byggð og búsetu.

Umdeild neðansjávargöng

Hvalfjarðargöng eru fyrstu sinnar tegundar hér á landi, neðansjávargöng. Meðan á undirbúningi og framkvæmd stóð voru margir tortryggnir, eðlilega. Framkvæmdin var afar umdeild og meirihluti þjóðarinnar sagðist aldrei myndu aka um þau. En raunin er önnur. Á þeim tæpu tuttugu árum sem liðin eru frá opnum Hvalfjarðarganga hafa verið farnar meira en 32 milljónir ferða um göngin, sem hafa sparað akstur sem nemur um 2.100 milljónum kílómetra og þannig lagt sitt á vogarskálarnar með minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þá eru ótalin þau jákvæðu áhrif á umferðaröryggi en vegstyttingar eru afar mikilvægar til að fækka slysum.

Hvalfjarðargangamódel

Þegar litið er til baka, verður ekki betur séð en reynslan af fyrirkomulagi við byggingu og rekstur Hvalfjarðaganga er góð. Hvalfjarðargöng sem einkaframkvæmd hafa staðið undir sér án ríkisábyrgðar. Rekstur þeirra og greiðslur af lánum hefur verið greitt með tekjum af þeim sem aka í gegnum göngin. Frekari framkvæmdir með sama fyrirkomulagi, þ.e. Hvalfjarðargangamódeli ættu því, að öllu óbreyttu, að vera fýsilegur kostur. Í samgönguáætlun eru nokkrar framkvæmdir sem geta farið fyrr af stað ef Hvalfjarðargangamódelið yrði yfirfært á fleiri svæði. Ég hef áður nefnt nokkrar framkvæmdir, s.s. brýr og göng sem væru vel til þess fallnar að verða fjármagnaðar líkt og Hvalfjarðargöngin. Önnur jarðgöng og stórar vegaframkvæmdir sem eru í samgönguáætlun, á svæðum þar sem er markaðsbrestur, ættu í því ljósi að byggjast fyrr.

Ný göng?

Umtalsverð aukning á umferð hefur orðið um Hvalfjarðargöng síðustu ár. Í kjölfarið hefur verið í umræðunni hvort ekki þurfi að grafa fyrir öðrum göngum, tvöfalda göngin sem þótti óhugsandi á sínum tíma. Meðalumferð það sem af er árs er um 7.200 bílar á dag Umferðaraukninguna má fyrst og fremst rekja til innlendra vegfarenda en minna en 10% ferða eru erlendir ferðamenn. Miðað við umferðarspá má gera ráð fyrir að ársdagsumferð nái þessu marki um 8.000 bíla á árinu 2020, en það er viðmiðunarmarkið á að tvöfalda þurfi Hvalfjarðargöng. Slík göng eru á samgönguáætlun en gert ráð fyrir að framkvæmdin verður fjármögnuð utan fjárlaga. Gera má ráð fyrir að ferlið frá ákvörðun til opnunar taki um 3 ár. Samhliða þarf að horfa til lagningar Sundabrautar en í samgönguáætlun er einnig gert ráð fyrir að hún verði fjármögnuð utan fjárlaga.

Fyrir hönd ráðuneytisins vil ég þakka Speli ehf. fyrir árangursríkt samstarf og óska landsmönnum öllum til hamingju með göngin sín.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. september 2018.

Categories
Greinar

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Deila grein

28/09/2018

Sveitarstjórnarstigið til framtíðar

Sveitarstjórnarfólk um allt land er í óða önn að leggja línur fyrir starfsemi síns sveitarfélags á yfirstandandi kjörtímabili. Næstu fjögur ár verða notuð til að búa í haginn og styrkja þjónustu við íbúanna, skapa grundvöll fyrir bætt lífsskilyrði og búsetu hvar sem er á landinu. Takast á við gamlar sem nýjar áskoranir.

Áskoranir
Og þessar áskoranir eru margar og sumar flóknar. Íbúar gera eðlilega kröfu um góða þjónustu og góðu mannlífi. Rafræn stjórnsýsla ryður sér til rúms og fjórða iðnbyltingin er hafin – fer á ógnarhraða þar sem gervigreind, sjálfkeyrandi bílar, drónar verða brátt hluti af daglegu lífi. Þá leggur ný löggjöf auknar kröfur á stjórnsýslu sveitarfélaga, eins og ný sveitarstjórnarlög, upplýsingalög og nú síðast lög um persónuvernd.

Stærð og geta sveitarfélaganna
Á sama tíma stöndum við frammi fyrir því að mörg sveitarfélög eru fámenn. Sú spurning gerist áleitnari hvort þau séu nægjanlega vel í stakk búin til að takast á við umfangsmiklar áskoranir. Meira en helmingur sveitarfélaga er með færri en eittþúsund íbúa, það er að segja 39 af 72!

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem nú stendur yfir á Akureyri, setti ég fram tillögu um að mótuð yrði sameiginleg stefna um að fækka og efla sveitarfélögin. Það mætti t.d. byrja á átaki þar sem sveitarfélög hafa tiltekin tíma, segjum fjögur til átta ár, til að ná tilteknum markmiðum í frjálsum sameiningum. Samhliða yrði fjárhagslegur stuðningur Jöfnunarsjóð sveitarfélaga við sameiningar og til skuldalækkunar stóraukin. Ég gæti séð það fyrir mér að um 15 milljarðar færu í slíkan stuðning á tímabilinu.

Eftir að þessu tímabili lyki tæki við ákvæði sveitarstjórnarlaga um lágmarksíbúafjölda. Þau sveitarfélög sem ekki hefðu nýtt tímann til að ná settu markmiði þyrftu þar með að sameinast nágrannasveitarfélagi.

Ég veit að sjónarmiðin verða ólík og áherslurnar mismunandi. En verkefnið er skýrt – að móta eina stefnu fyrir íslensk sveitarfélög, fyrir framtíðina. Stærð sveitafélaga og geta þeirra til að sinna lögbundnum verkefnum og styðja við umbreytingar og framþróun samfélagsins verður hluti af þeirri stefnumörkun.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. september 2018.

Categories
Greinar

Efling iðnnáms á Íslandi

Deila grein

26/09/2018

Efling iðnnáms á Íslandi

Það er frábært að heimsækja íslenska framhaldsskóla. Á ferðum mínum undanfarna mánuði hef ég komið inn í ófáa slíka og hitt þar metnaðarfullt skólafólk og öfluga nemendur. Þar er unnið geysilega fjölbreytt og mikilvægt uppbyggingarstarf alla daga. Framhaldsskólastigið er brúin milli bernskunnar og fullorðinsáranna bæði hvað varðar nám og þroska.

Á fjárlögum þessa árs kom inn umtalsverð hækkun framlaga til framhaldsskólanna, alls um 1,2 milljarðar kr., og í nýju frumvarpi til fjárlaga ársins 2019 sést að sú fjárveiting til skólanna mun halda sér á næsta ári. Heildarútgjöld til framhaldsskólastigsins eru áætluð tæpir 33 milljarðar kr. á næsta ári en þar undir er rekstur á yfir 30 skólum úti um allt land. Í þessum skólum eru um 18.000 nemendur. Auknir fjármunir sem runnið hafa til skólanna að undanförnu gera þeim kleift að efla sitt skólastarf enn frekar, meðal annars með því að bæta námsframboð, styrkja stoðþjónustu og endurnýja búnað og kennslutæki.

Forgangsröðun í verki 

Fjárlagafrumvarp næsta árs ber þess merki að ríkisstjórnin forgangsraðar í þágu verk-, iðn- og starfsnáms. Við viljum að nemendur í öllum landshlutum hafi aðgengi að fjölbreyttu starfsnámi, ekki síður en bóknámi, sem uppfyllir kröfur næsta skólastigs og atvinnulífsins. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 224 milljóna kr. hækkun til reksturs framhaldsskóla og er lögð sérstök áhersla á að hækka verð reikniflokka starfs- og verknáms. Einnig eru framlög tryggð til að efla kennsluinnviði fyrir verk- og starfsnám, t.d. bætta verknámsaðstöðu í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla. Enn fremur er unnið að þróun rafrænna ferilbóka fyrir nemendur í starfsnámi og einföldun í skipulagi námsins.

Það er mikilvægt að hver og einn nemandi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eykur ekki aðeins ánægju nemenda heldur dregur einnig úr líkum á brotthvarfi. Umfangsmikil verkefni sem við vinnum að á framhaldsskólastiginu eru meðal annars að sporna gegn brotthvarfi, stuðla að bættri líðan nemenda og styðja betur við nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Á réttri leið 

Á undanförnum mánuðum höfum við séð jákvæð teikn á lofti í menntamálum. Nemendum sem innritast á ákveðnar verk- eða starfsnámsbrautir framhaldsskóla fjölgaði umtalsvert í haust, eða hlutfallslega um 33% á milli ára. Við viljum halda áfram á þessari vegferð og sækja fram fyrir allt menntakerfið okkar. Það mun skila sér í ánægðari nemendum og samkeppnishæfara hagkerfi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. september 2018.

Categories
Greinar

Kjarasamningar – Áskorun til okkar allra

Deila grein

24/09/2018

Kjarasamningar – Áskorun til okkar allra

Nánast allir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum renna út í lok árs auk þess sem samningar á opinberum vinnumarkaði verða lausir í mars. Margir segja að undiraldan nú sé ekkert frábrugðin því sem alltaf gerist í aðdraganda kjarasamninga. Hins vegar er margt sem bendir til þess að umræðan nú sé þyngri heldur en verið hefur í langan tíma. Stöðugleiki efnahagslífsins og aukinn jöfnuður í samfélaginu getur farið saman í komandi kjarasamningum en til þess að svo geti orðið verða allir að leggja sitt af mörkum. Við setningu Alþingis fyrr í mánuðinum hvatti ég til þess að sýnd væri ábyrgð við þessar aðstæður og allir yrðu að líta í eigin barm.

Þyngra hljóð í atvinnurekendum 

Það er margt sem bendir til þess að svigrúm til launahækkana sé ekki mikið um þessar mundir. Áætlanir gera því miður ráð fyrir því að atvinnuleysi fari vaxandi á næsta ári. Ferðaþjónustan hefur verið talsvert í umræðunni og flugfélögin glíma við rekstrarerfiðleika. Hljóðið í atvinnurekendum kringum landið er þyngra nú en verið hefur í 2-3 ár. Það eiga allir að geta verið sammála um að það versta við þessar aðstæður væru hækkanir sem í framhaldinu myndu verða étnar upp af verðbólguskoti.

Hækkanir í efstu lögum verður að stöðva 

Árin fyrir fall bankanna blöskraði mörgum hvernig toppar samfélagsins voru komnir á himinhá laun með risa kaupaukum/bónusum. Í sumum tilfellum voru árslaun einstaklinga hærri heldur en verkamaður getur látið sig dreyma um á heilli starfsævi. Eftir fall bankanna tóku allir á sig byrðar til að rífa upp efnahagslífið og það tókst með undraverðum hætti. Nú hafa margir á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og með tali um ábyrgð í efnahagsmálum megi skilja sem svo að þar sé talað til millistéttarinnar og þeirra sem hafa lægri tekjur.

Íslenskt samfélag byggist á jöfnuði og þeirri grunnhugsun að við viljum tryggja öllum jafna möguleika. Jafnvel þó að við séum búin að tryggja öllum ákveðinn grunn verðum við líka að horfa til þess að jöfnuður snýst um raunverulegan samanburð. Því snýst þetta ekki bara um hækkanir í prósentum, heldur hvort við getum leyft börnum okkar það sama óháð efnahag.

Á sama tíma eigum við að hvetja fólk til framsækni í námi og vinnu og að þeir sem mennti sig eða leggi meira á sig fái hærri laun. Sé farið of langt í þessa átt stuðlum við að ójöfnuði.

Endurtekin áskorun – Náum samstöðu um breytingar 

Ég fagna því að fara í samtal við aðila vinnumarkaðar um það hvernig við getum aukið jöfnuð í opinbera kerfinu líkt og kallað hefur verið eftir. Hinsvegar verða bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur að fara yfir óeðlilegar hækkanir og kaupaukakerfi hjá forystufólki þeirra fyrirtækja sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða. Það gengur ekki að fyrirtæki í almannaeign séu að greiða himinháa bónusa ofan á laun sem fyrir eru hærri en þekkjast annars staðar í samfélaginu. Ég trúi því ekki að skattkerfið sé eina leiðin til að ná tökum á þessari óheilbrigðu stefnu.

Ég vil endurtaka áskorun mína til forystumanna lífeyrissjóða, til verkalýðshreyfingarinnar og til samtaka atvinnulífsins að endurskoða launakerfi og kaupauka hjá toppum þeirra fyrirtækja sem þeir eru í forystu fyrir. Það er mögulegt hjá okkur sem höfum hæstar tekjur að taka nú höndum saman og sýna að það sé vilji allra í samfélaginu til að auka jöfnuð og leggja þannig okkar af mörkum til að tryggja stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Það verða allir að taka á sig byrðar ef við ætlum að halda stöðugleika á vinnumarkaði.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. september 2018.

Categories
Greinar

Fjárfest í háskólastiginu

Deila grein

24/09/2018

Fjárfest í háskólastiginu

Hagvöxtur hér á landi verður í framtíðinni fremur drifinn áfram af hugviti en auðlindum. Með því fæst meira jafnvægi í þjóðarbúskapinn og minni líkur eru á sveiflukenndum vexti í efnahagslífinu. Til þess að stuðla að slíku jafnvægi og umhverfi þar sem nýsköpun blómstrar og verkvit þróast er mikilvægt að fjárfesta í háskólastiginu og hvetja til öflugs samstarfs þess við atvinnulífið. Fjárlög ársins 2019 sem kynnt voru á dögunum bera þessari áherslu stjórnvalda glöggt vitni.

Heildarfjárframlög háskólastigsins munu nema tæpum 47 milljörðum kr. á næsta ári en að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum er það hækkun um 2,2 milljarða eða um 5% milli ára. Þetta eru háar fjárhæðir en sýnt er að hver króna sem fer í fjárfestingu á háskólastiginu skilar sér áttfalt til baka til samfélagsins.

Sem dæmi um hækkanir innan málefnasviðs háskólastigsins eru fjárveitingar til reksturs háskóla og rannsóknastofnana sem hækka um 245 milljónir kr. milli ára og framlög til fræða- og þekkingarsetra sem hækka um 50 milljónir kr. Í fjárlagafrumvarpinu er einnig fylgt eftir áherslum um nýliðun kennara með sérstöku 50 milljóna kr. framlagi til endurskoðunar á kennaranámi.

Stuðningur við námsmenn eykst um 3,5% milli ára, heildarfjárheimild þess málaflokks fyrir árið 2019 er áætluð 8,2 milljarðar kr. og hækkar um tæpar 282 milljónir kr. frá fjárlögum þessa árs vegna aukins framlags til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Vinnu við endurskoðun á LÍN miðar vel áfram og er stefnt að því að frumvarp þess efnis fari í opið samráð á fyrri hluta ársins 2019.

Markmiðið með auknum framlögum til kennslu og rannsókna á háskólastigi er fyrst og fremst að auka gæði náms. Sé miðað við nýjasta meðaltal Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. OECD) um framlag á hvern háskólanemanda stefnir í að árið 2020 hafi Ísland náð því markmiði eins og ráðgert er í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Menntun er forsenda samkeppnishæfni okkar til framtíðar og því þurfa fjárfestingar okkar að taka mið af.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. september 2018.

Categories
Greinar

Við upphaf þingvetrar

Deila grein

17/09/2018

Við upphaf þingvetrar

Nú styttist í að Alþingi vereði sett að nýju. Hvaða mál verða þá helst til umræðu. Við hjá Suðurnesjablaðinu heyrðum í Silju Dögg Gunnarsdóttur úr Suðurkjördæmi.

Hvaða mál verða helst til umræðu þegar Alþingi kemur saman eftir sumarhlé?

Fjárlögin verða auðvitað stóra málið, eins og alltaf. Það er staðreynd að við Suðurnesjamenn höfum ekki fengið það sem okkur ber við úthlutun fjármuna og því ætlum við okkur að breyta. Þó að skilningur hafi aukist innan embættismannakerfisins á aðstæðum hér suður með sjó, þá er hann enn ekki nægur. Við stöndum ekki bara frammi fyrir mestu fólksfjölgun sem sögur fara af, heldur erum við einnig með sérstaka íbúasamsetningu, þar sem fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn. Einnig er ekki horft nægilega til þess hversu margir fara um flugstöðina á hverjum sólarhring sem hefur t.a.m. stóraukið álag á löggæslu og sjúkraflutninga. Í fimm ára fjármálaáætlun (sem er ramminn fyrir málasvið ráðuneyta í fjárlögum ár hvert)  sem samþykkt var í vor er eftirfarandi texti:

„Fordæmalaus fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun ferðamanna um land allt kallar á skoðun á því hvort fjárveitingar geti í ríkari mæli færst á milli svæða. Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðherra að gera endurskoðun fjárveitinga gagnsærri en verið hefur og upplýsa um þá þætti sem ráða úthlutun fjármuna. Þar þarf sérstaklega að horfa til íbúaþróunar á Suðurnesjum þar sem heilbrigðisframlög á íbúa eru lægri en annars staðar á landinu.“

Að fá þessar setningar samþykktar í fjármálaáætlun var ákveðinn sigur fyrir okkur hér á svæðinu. En við þurfum að halda vel á spöðunum og gæta hagsmuna íbúa á Suðurnesjum.

Áhersla á umferðaröryggi

Hitt stóra málið verður án efa samgönguáætlun, sem verður lögð fram í haust. Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú.

Hvað mál munt þú helst leggja áherslu á?

Mannréttindi, félagslegt réttlæti og þá sérstaklega réttindi barna, eru mér afar hugleikin. Ég mun endurflytja þingmálin mín sem ekki voru samþykkt sl. vor, þ.e. þingsályktun um réttindi barna til að þekkja uppruna sinn, frumvarp um breytingar á lögum barnalífeyri (börn sem hafa misst foreldri), frumvarp um bótarétt fanga, þ.e. að þeir sem stunda vinnu og/eða nám á meðan á afplánun stendur geti unnið sér inn rétt til atvinnuleysisbóta, breytingar á lögum um fæðingarorlof, þ.e. að fólk sem þarf að fara að heima til að fá fæðingarþjónustu fái þann tíma bættan með lengra fæðingarorlofi, frumvarp um aukið eftirlit með dæmdum barnaníðingum sem og frumvarp um bann við ónauðsynlegum aðgerðum á kynfærum drengja (umskurðarfrumvarpið).

Þingveturinn framundan verður án efa spennandi og  skemmtilegur. Ég vona að hann verði einnig árangursríkur, okkur öllum til hagsbóta.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst í Suðurnesjablaðinu 6. september 2018.

Categories
Greinar

Bókaþjóðin les og skrifar

Deila grein

17/09/2018

Bókaþjóðin les og skrifar

Ein bók, einn penni, eitt barn eða einn kennari geta breytt heiminum.« Orð þessi eru höfð eftir Malölu Yousafzai, ungri pakistanskri konu sem barist hefur fyrir réttindum barna og þá ekki síst stúlkna til þess að fá að ganga í skóla. Bækur breyta heiminum á hverjum degi; þær eru einn farvegur hugsana okkar, ímyndunarafls, skoðana og sagna og í fjölbreytileika sínum auðga þær tilveru okkar, fræða og skemmta.

Staðreyndin er þó sú að læsi barnanna okkar hefur hrakað í alþjóðlegum samanburði. Að auki hefur bóksala í landinu dregist verulega saman eða um 36% á síðustu 10 árum. Ástæður þess má einna helst rekja til breyttrar samfélagsgerðar og örrar tækniþróunar því aukið framboð lesefnis og myndefnis á netinu hefur leitt til þess að lestur bóka á íslensku hefur minnkað verulega. Þessi þróun skapar ógn við tungumálið.

Á dögunum var kynnt heildstæð aðgerðaáætlun til stuðnings íslenskunni og þar á meðal eru aðgerðir til stuðnings íslenskri bókaútgáfu. Með nýju frumvarpi, sem lagt verður fram nú á haustþingi, verður sett á laggirnar nýtt stuðningskerfi sem felur í sér 25% endurgreiðslu vegna beins kostnaðar við útgáfu íslenskra bóka. Áætluð framlög eru um 400 milljónir kr. frá og með árinu 2019. Að auki verður stofnaður sérstakur barna- og unglingabókasjóður en yngri kynslóðin hefur bent ötullega á að auka þurfi framboð af slíkum bókum.

Mikilvægi bókaútgáfu er óumdeilt fyrir varðveislu íslenskunnar. Það er ekki síst á herðum íslenskrar bókaútgáfu að bregðast við þessum breyttum aðstæðum. Rithöfundar hafa sannarlega fundið fyrir þeim samdrætti sem orðið hefur í sölu íslenskra bóka og þeirra hagsmunir eru samofnir árangri útgefenda.

Markmiðið með þessum aðgerðum er að auka lestur og efla bókaútgáfu í landinu. Ég er sannfærð um að þessar aðgerðir eru til þess fallnar að auka framboð, fjölbreytni og sölu á íslenskum bókum til framtíðar. Þær munu stuðla að lækkun á framleiðslukostnaði bóka og auka þannig svigrúm til kaupa á vinnu og þjónustu. Þessar aðgerðir eiga fyrirmynd í endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar hér á landi en þær hafa reynst vel á þeim vettvangi og haft jákvæða keðjuverkun í för með sér.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. september 2018.