Categories
Fréttir Greinar

Þrálátar áskoranir í heimsbúskapnum

Deila grein

09/11/2023

Þrálátar áskoranir í heimsbúskapnum

Á und­an­förn­um árum hafa heims­bú­skap­ur­inn og alþjóðaviðskipt­in þurft að tak­ast á við áskor­an­ir af risa­vöxn­um toga. Heims­far­ald­ur­inn sneri dag­legu lífi fólks um all­an heim á hvolf eins og við öll mun­um eft­ir. Neyslu­venj­ur fólks breytt­ust og stjórn­völd víða um heim kynntu um­fangs­mikla efna­hagspakka til stuðnings fólki og fyr­ir­tækj­um ásamt því að seðlabank­ar fjöl­margra ríkja lækkuðu stýri­vexti til að örva hag­kerfi. Aðfanga­keðjur víða um heim fóru úr skorðum með til­heyr­andi hökti í alþjóðaviðskipt­um og áhrif­um á markaði. Í blálok far­ald­urs­ins tók svo við inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Inn­rás­in markaði þátta­skil í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um Evr­ópu og varpaði skýru ljósi á veiga­mikla veik­leika hjá ríkj­um Evr­ópu hvað viðkom orku­ör­yggi, enda voru mörg þeirra háð inn­flutn­ingi á rúss­nesku gasi og olíu. Orku­verð tók að snar­hækka á meg­in­landi Evr­ópu sem og verð á fjöl­mörg­um vöru­flokk­um, til að mynda mat­væl­um. Þar hafði áhrif að Úkraína er stór fram­leiðandi korns, en landið hef­ur oft verið kallað brauðkarfa Evr­ópu. Þá hafa aukn­ar hindr­an­ir í alþjóðaviðskipt­um, til að mynda viðskipta­stríðið milli Banda­ríkj­anna og Kína, bætt gráu ofan á svart.

Verðbólguþró­un­in á heimsvísu fór ekki var­hluta af fyrr­nefndri þróun eins og við þekkj­um einnig hér á landi. Á ár­inu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörg­um sam­an­b­urðarríkj­um. Á tíma­bili mæld­ist sam­ræmd verðbólga á Íslandi sú næst­lægsta í Evr­ópu, 6,4% í nóv­em­ber 2022, en var þá 11,5% hjá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Verðbólg­an á Íslandi hef­ur reynst þrálát­ari og mæl­ist nú 7,9%, hag­vöxt­ur hér er kröft­ugri en víðast hvar. Efna­hags­bat­inn á heimsvísu er hins veg­ar hæg­fara og ójafn eft­ir svæðum. Þó að verðbólga á heimsvísu sé víða í rén­un er of snemmt að fagna sigri. Verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um er enn býsna treg enda gang­ur efna­hags­lífs­ins öfl­ug­ur. Bet­ur hef­ur gengið með verðbólg­una víða í Evr­ópu, en þar eru önn­ur vanda­mál, t.d. mæl­ist nú efna­hags­sam­drátt­ur í Þýskalandi.

Íslensk stjórn­völd vinna að því hörðum hönd­um að lækka skuld­ir rík­is­sjóðs og ná heild­ar­jöfnuði. Kjör á rík­is­skuld­um á heimsvísu hafa versnað veru­lega. Sér­staka at­hygli vek­ur hvað kjör banda­rískra rík­is­skulda hafa versnað og er kraf­an um 4,5% vext­ir til 10 ára. Megin­á­stæðan fyr­ir þess­ari þróun er að fjár­laga­hall­inn er mik­ill auk þess sem skuld­astaðan held­ur áfram að versna. Ásamt því er rek­in aðhalds­söm pen­inga­stefna, þar sem vext­ir hafa hækkað mikið og banda­ríski seðlabank­inn hef­ur snúið við hinni um­fangs­miklu magn­bundnu íhlut­un og hafið sölu á rík­is­skulda­bréf­um. Marg­ir telja að vegna þessa nái markaður­inn ekki að berj­ast gegn þessu mikla fram­boði og því hafi kjör­in versnað mikið. Fyr­ir Ísland skipt­ir mestu í þessu kvika efna­hags­um­hverfi að halda vöku okk­ar og að hag­stjórn­in sé það styrk að verðbólg­an lækki og vaxta­kjör­in batni hratt í kjöl­farið.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gögn eru gulls í­gildi

Deila grein

09/11/2023

Gögn eru gulls í­gildi

Hið árlega heilbrigðisþing verður haldið þriðjudaginn 14. nóvember í Hörpu. Þingið verður að þessu sinni með norrænni skírskotun í tilefni af formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og munu margir innlendir og erlendir fyrirlesarar stíga á stokk í Norðurljósasalnum. Gagnadrifin framþróun íslenska heilbrigðiskerfisins verður í brennidepli og leitað verður svara við þeirri spurningu hvernig gögn, gagnasöfn og gervigreind geti styrkt íslenskt heilbrigðiskerfi.

Norræna nálgunin á velsæld

Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni er í forgrunni heilbrigðisþingsins og aðstæður, lausnir, áskoranir og tækifæri eru sett fram í samhengi við það sem best gerist og gengur á öðrum Norðurlöndum. Ráðherranefndin vinnur eftir stefnuáherslum til ársins 2030 sem miða að því að Norðurlöndin verði best samþætt og sjálfbærustu samfélög veraldar í lok áratugarins.

Það er sameiginleg sýn innan ráðherranefndarinnar að gagnadrifin heilbrigðismál og hagnýting framsækinna gervigreindarlausna séu lykilatriði til að tryggja samkeppnishæfni norrænna heilbrigðiskerfa og stuðla að sjálfbærni þeirra. Sú nálgun byggir á þeirri forsendu að heilbrigðismál séu stærsta velferðarmálið og jafnframt ein stærsta áskorun allra þjóða. Heilbrigðismál eru efst á baugi í norrænum stjórnmálum og velsæld norrænu ríkjanna hvílir að mörgu leiti á heilbrigðismálum og hagkerfi sem styður við velsæld.

Viðamikil dagskrá

Dagskrá heilbrigðisþings endurspeglar umfang málefnisins og er fjölbreytt og áhugaverð. Hún er fyrir alla að fylgjast með, vekja til umhugsunar og hvetja til umræðu. Sjónum er beint að því hversu mikilvæg umgjörð og innviðauppbygging innan heilbrigðiskerfisins er þegar kemur að viðkvæmum upplýsingum, geymslu þeirra og notkun. Meginmarkmið með aukinni stafvæðingu og bættri nýtingu á gögnum og gagnagrunnum er að efla heilbrigðiskerfið með tilliti til ákvörðunartöku, samvinnu heilbrigðisstétta, upplýsingagjöf, vísinda og greininga í þágu notenda.

Ofarlega á baugi verða siðferðileg sjónarmið við notkun gagna og gervigreindar í heilbrigðiskerfinu. Notkun gervigreindar innan heilbrigðisgeirans er ekki aðeins mikið tækifæri heldur vekur hún upp margar áleitnar spurningar um tækniframfarir og siðferði. Markmið er að nýta alla framþróun líkt og gervigreindina til góðs og í þágu almennings. Til þess að tryggja að svo verði þarf að svara siðfræðilegum spurningum og tryggja að öll umgjörð og regluverk endurspegli siðferðileg gildi.

Nýjasta tækni og vísindi

Góð heilbrigðisgögn eru gulls ígildi. Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar verður að hvíla á tryggum grunni heilbrigðisgagna, gæðum, skilvirks og réttláts regluverks, trausts og þekkingar. Það þurfa allir að vera á sömu blaðsíðu þegar að kemur að því að taka stór skref í átt að frekari nýtingu heilbrigðisupplýsinga og gagna undir hatti stafrænnar þróunar og vísinda. Þróun sem getur skapað forsendur fyrir öflugra heilbrigðiskerfi sem mætir sívaxandi þörf fyrir flókna og kostnaðarsama heilbrigðisþjónustu.

Á þinginu verður einstaklingsmiðuð heilbrigðisþjónusta í brennidepli. Það er heilbrigðisþjónusta sem byggir á skilningi á því hvað veldur mannlegri fjölbreytni, gögnum sem að henni lúta og hvernig hægt er að nýta þessa auknu þekkingu einstaklingnum til góðs. Sökum þessa er nauðsynlegt að stjórnvöld og heilbrigðiskerfi tryggi leiðir til að ná utan um gögn og gagnagrunna tengdum heilsufarsupplýsingum sem nýta má til bættra ákvarðana, yfirsýnar og spár um framvindu sjúkdóma og lækninga.

Til þess að ná þeim árangri hef ég ákveðið að mynda hóp með helstu hagaðilum og sérfræðingum til að vinna að því að tryggja áframhaldandi framþróun í heilbrigðiskerfinu og efla einstaklingsmiðaða heilbrigðisþjónustu. Framþróun sem byggir á traustum grunni aðgengilegra, öruggra og góðra gagna til að geta nýtt tækniframfarir, vísindaframfarir og gervigreind í þágu fólksins í landinu.

Sækjum saman fram

Framfarir í tækni og vísindum hafa gert okkur kleift að lækna fjölmarga sjúkdóma, halda öðrum í skefjum og fyrirbyggja suma. Áherslur og þarfir breytast með breyttu landslagi tækni, sjúkdóma og aukinni þekkingar. Kröfur til heilbrigðisþjónustu breytast og oftar en ekki eru vísindi og tækni á undan kerfinu og innviðum þess.

Samþætt og samstillt nálgun hins opinbera í samstarfi við helstu sérfræðinga, atvinnulíf, félagasamtök og fólkið í landinu er því nauðsynleg til að undirbúa heilbrigðiskerfið og samfélagið undir markvissa gagnanýtingu og notkun gervigreinar til góðs. Allar stærri ákvarðanir í málaflokknum þurfa að vera vel ígrundaðar og byggja á samtali, samvinnu og sameiginlegum siðfræðilegum gildum þjóðarinnar. Þannig skapast sátt um hvert við stefnum sem þjóð á tækniöld.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Þar sem er vilji, þar er vegur

Deila grein

08/11/2023

Þar sem er vilji, þar er vegur

Undirritaður var í Silfrinu á RÚV á mánudagskvöldið og ræddi þar um húsnæðismál og hvernig okkur á að takast að byggja nægilegt magn íbúða svo mæta megi þeim áskorunum sem nú blasa við okkur. Það er hægt.

Til að byrja með þá er rétt að segja að í þessu verkefni er enginn eyland; ekki ríkið, ekki Seðlabankinn, ekki sveitarfélög og ekki framkvæmdaaðilar. Ábyrgðin er allra.

Ég hef áður gagnrýnt Seðlabankann á þeim nótum sem ég gerði í þættinum á mánudagskvöldið. Mér þykir rörsýn Seðlabankans of mikil og of mikill skortur vera á sýn á stóru myndina, heildarsamhengi hlutanna til framtíðar, og hvert við erum raunverulega að stefna. Við þurfum framtíðarsýn og getu til að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina eftir 2, 3, 5 eða 10 ár?

Varðandi Seðlabankann, þá er það auðvitað augljóst að vaxtahækkanir hafa haft neikvæð áhrif á framboðshliðina og hert lánþegaskilyrði hafa það einnig, en gera það á hinni hlið peningsins. Annars vegar er dýrt að framkvæma íbúðir vegna hárra vaxta og hins vegar er nær ógerningur að selja íbúðir vegna hertra lánþegaskilyrða Seðlabankans. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp og er í raun stórhættulegur kokteill sem hefur letjandi áhrif á framkvæmdaaðila, þvert á það sem við þurfum nú. Samdrátturinn í byggingu nýrra íbúða er augljós á milli ára, eða um 70%. Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

1) Seðlabankinn þarf vegna þessa að stíga skref til baka þegar kemur að lánþegaskilyrðum.

2) Aðgerðir innviðaráðherra er varða aðgerðir í almenna íbúðakerfinu, þar sem stofnframlög voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin hafa skilað góðum árangri og styðja við markmið um aukið framboð á húsnæðismarkaði.

Í heimsfaraldrinum var samþykkt að veita sveitarfélögunum heimild til að víkja frá fjármálareglum sveitarstjórnarlaga þar sem markmiðið var að tryggja sveitarfélögum aukið svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra aðstæðna sem faraldrinum fylgdi.

3) Það má horfa á sambærilega aðgerð þegar kemur að skynsamlegu og tímabundnu fráviki frá svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins enda hefur fólksfjölgun verið langt umfram allar spár frá þeim tíma þegar vaxtarmörk voru ákvörðuð fyrir höfuðborgarsvæðið í kringum árin 2014-2015. Slík endurskoðun myndi tryggja lóðir á nýbyggingarsvæðum í bland við nauðsynlega þéttingu byggðar og verða til þess að markmið um aukna uppbyggingu húsnæðis muni raungerast um land allt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Að­gangur að námi hefur á­hrif á bú­setu­frelsi

Deila grein

01/11/2023

Að­gangur að námi hefur á­hrif á bú­setu­frelsi

Skólastarf hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár eins og endurspeglast í menntastefnu til 2030, en þar segir „Menntun er lykill að tækifærum framtíðar og eitt helsta hreyfiafl samfélaga og velsældar mannkyns.“ Þannig má álykta að samkeppnishæfni þjóða byggi á menntun og sama á við um samkeppnishæfni landshluta.

Á dögunum sótti ég málstofu um menntun á Hringborði norðurslóða. Kom þar fram að munur væri á þróun samfélaga með og án háskóla en beita þyrfti öðrum aðferðum í háskólastarfi í dreifbýli en borgum til að ná fram samfélagsáhrifum.

Fjarnám

Framboð á fjarnámi á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugi og hef ég fylgst með því hvernig menntuðum kennurum, félagsliðum, sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað í mínu nær umhverfi, séð marga byrja á að ná í framhaldsskólaeiningar í fjarnámi og komast á háskólastigið. Ég hef líka átt samtöl við marga sem ekki hafa komist í það nám sem mestur áhugi er fyrir, vegna búsetu, starfs eða fjölskylduaðstæðna. Fólk sem séð hefur hvar skóinn kreppir og viljað sækja þekkingu sem vantar í samfélagið þar sem það býr, s.s. master í sálfræði, talmeinafræði eða félagsráðgjöf. Ég hef líka talað við fólk sem ekki hefur fengið að taka vettvangsnám á landsbyggðinni þó það vilji einmitt vera undirbúið fyrir störf þar, á þetta t.d. við um heilbrigðisgreinar, tölvunarfræði og íþróttafræði.

Það er ekki alltaf auðvelt að nálgast upplýsingar um framboð á fjarnámi og lengi var svarið, „þú getur bæði farið í hjúkrun og kennslu, en þú getur líka prófað að skrá þig í eitthvað annað og sjá hvað kennararnir segja“. Þetta hefur sem betur fer aðeins breyst en vonbrigði mín eru hvað breytingar á framboði fjarnáms og sveigjanlegs náms hafa verið hægar.

Mikill munur í framboði á fjarnámi milli háskóla

Í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur frá því í mars 2023, kemur fram að mikill munur sé á hlutfalli þeirra námskeiða sem aðgengileg eru í fjarnámi eftir háskólum. Hæst er hlutfallið í Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst eða 100% og lægst, eða 0% í Listaháskóla Íslands. Sérstaka athygli vekur að við HÍ er aðeins 15,9% námskeiða aðgengileg í fjarnámi og niðurstaðan er að 75% námskeiða við háskóla á Íslandi eru einungis aðgengileg í staðnámi.

Í meira en 100 ár höfum við sem samfélag lagt áherslu á jafnrétti til náms eins og endurspeglast í menntastefnunni til 2030, þar sem m.a. er lögð áhersla á jöfn tækifæri fyrir alla og framúrskarandi menntun alla ævi. Í því ljósi getur ekki talist ásættanlegt að aðeins 25% námskeiða við íslenska háskóla séu í boði í fjarnámi, hvorki fyrir einstaklinginn né samfélagið.

Framboð á fjarnámi frá íslenskum háskólum þarf að stór auka. Einnig er þörf á að bæta umgjörð og upplýsingagjöf um hvaða nám er hægt að nálgast í fjarnámi.

Fimmtudaginn 2. nóvember fer Byggðaráðstefnan 2023 fram í Reykjanesbæ og ráðstefnan verður í beinu streymi. Þemað að þessu sinni er Búsetufrelsi og þar verður samspil háskólanáms og búsetufrelsis meðal umræðuefna og vil ég hvetja alla til að fylgjast með.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Bjart fram undan í ferða­þjónustu á Norður- og Austur­landi

Deila grein

31/10/2023

Bjart fram undan í ferða­þjónustu á Norður- og Austur­landi

Í dag lenti fyrsta flugvél EasyJet á Akureyrarflugvelli og hóf þar með vikulegt áætlunarflug í vetur. Þetta er stórmerkur áfangi og vart hægt að hugsa sér betri leið til að fagna vetrarkomunni. EasyJet er eitt öflugasta flugfélag Evrópu sem getur, ef vel gengur, gjörbreytt öllum forsendum fyrir heilsársferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Þennan fyrsta vetur eru áætlaðar 44 ferðir, eða yfir 8.000 ný flugsæti sem ferja hingað til lands ferðaþyrsta gesti sem munu án efa fara vítt og breitt um landshlutana. Þessar ferðir bætast við það framboð sem erlendar ferðaskrifstofur hafa þegar boðað. Eftir jól heldur Voigt Travel áfram með vetrarferðir frá Amsterdam, og svissneska ferðaskrifstofan Kontiki býður upp á ferðir til Akureyrar frá Zurich í febrúar og mars. Allt spennandi áfangastaðir fyrir okkur heimafólkið sömuleiðis. Þetta er stórkostleg framför og ljóst að það góða uppbyggingar- og kynningarstarf sem hefur verið leitt í gegnum markaðsstofurnar er að skila okkur markverðum árangri.

Aukin fjárfesting í hótelrekstri

Lenging ferðamannatímabilsins er forsenda þess að áfangastaðir geti vaxið og dafnað. Aukinn stöðugleiki og minni árstíðarsveiflur gera fjárfestingar í ferðaþjónustu meira aðlaðandi fyrir erlenda sem innlenda fjárfesta. Stórfelld uppbygging við Grenivík, yfirstandandi og fyrirhuguð uppbygging við Hafnarstræti á Akureyri og við Skógarböðin í Eyjafirði – og svo mætti áfram telja – er vonandi vitnisburður um töluverða bjartsýni þegar kemur að áframhaldandi vexti í landshlutanum. Slíkar fjárfestingar skila sér ekki bara til þeirra aðila sem standa að hótelrekstrinum, heldur til ótal ferðaþjónustuaðila sem selja þjónustu, vörur og veitingar til ferðamanna. Þar með talin einstök náttúruböð og laugar sem hafa glatt bæði heimamenn og gesti.

Varaflugvallagjald grundvöllur frekari vaxtar

Ferðaþjónustan hefur vaxið og dafnað sem mikilvæg stoð í innlendum efnahag en innviðirnir þurfa að sjálfsögðu að fylgja þeirri þróun. Það er því ekki síður ástæða til að fagna góðum gangi í framkvæmdum á flughlaðinu á Akureyri sem kemst í gagnið fljótlega á nýju ári. Viðbyggingin við flugstöðina er risin og þá verður farið í breytingar á eldri byggingum og framkvæmdum þar lokið næsta sumar. Stækkun flugstöðvarinnar er lykilatriði í uppbyggingu ferðaþjónustu og mun gera völlinn betur í stakk búinn til þess að þjóna alþjóðaflugi. Hér erum við að sjá í verki aukna áhersla á uppbyggingu innanlandsflugvalla en alls fara um 1.350 m.kr. til þeirra verkefna með tilkomu varaflugvallagjalds þar sem lögð verður áhersla á uppbyggingu varaflugvallanna í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Sé horft til næstu skrefa er mikilvægt að hraða vinnu við GPS aðflug, sem getur bætt öryggi og nýtingarmöguleika, og jafna eldsneytiskostnað milli landshluta. Með samhentu átaki getum við aukið samkeppnishæfni flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, styrkt stöðu ferðaþjónustu á bæði Norður- og Austurlandi og ýtt undir betri dreifingu ferðamanna.

Uppbygging sem auðveldar markaðssetningu á Íslandi öllu

Öll þessi uppbygging eru góð tíðindi ekki bara fyrir landshlutana tvo heldur landið allt. Fjöldi ferðamanna er nú svipaður og fyrir heimsfaraldur og allt útlit fyrir áframhaldandi aukningu næstu ár. Einhverjir þessara ferðamanna hafa komið áður og eru að snúa aftur til landsins – og einhver hluti þeirra sem eru að koma í fyrsta skipti munu vilja koma aftur, ef við tökum vel á móti gestunum. Það er þó nokkuð ljóst að við ýtum ekki undir áhuga þeirra með því að selja sömu vöruna tvisvar. Ef við ætlum að gera sem mest úr ferðaþjónustu, til hagsbóta fyrir nærsamfélögin okkar um allt land, þá verðum við að skapa spennandi áfangastaði, með öfluga innviði og góðar gáttir til landsins.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis og Gunnar M. Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Harpa spilar með tónlistarlífi þjóðarinnar

Deila grein

31/10/2023

Harpa spilar með tónlistarlífi þjóðarinnar

Á und­an­förn­um árum hef­ur margt áunn­ist til að styrkja veru­lega um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu. Tónlist er ekki ein­ung­is veg­leg­ur hluti af menn­ingu lands­ins, hún er einnig at­vinnu­skap­andi og mik­il­væg út­flutn­ings­grein þar sem tón­list­ar­verk­efni geta skapað mörg af­leidd störf. Ný tón­list­ar­stefna var samþykkt á síðasta þingi með það að mark­miði að styðja við tónlist sem list­grein, tón­listar­fólk og aðra sem starfa við tónlist. Tón­list­ar­lífið hér­lend­is er und­ir­byggt af metnaðarfullu tón­list­ar­námi um allt land, sam­starfi og þori til þess að fara ótroðnar slóðir. Þess­um mikla krafti finn­ur maður sér­stak­lega fyr­ir í grasrót tón­list­ar­lífs­ins, sem er óþrjót­andi upp­spretta frumsköp­un­ar í tónlist. Hluti af um­gjörð menn­ing­ar­mála í land­inu snýr að aðstöðu til tón­list­ariðkun­ar og aðgengi að slíkri aðstöðu. Eitt mark­miða í tón­list­ar­stefn­unni er að hús­næði til tón­list­ariðkun­ar verði greint og kort­lagt, t.d. hvaða hús­næði í eigu hins op­in­bera, t.d. menn­ing­ar­hús eða fé­lags­heim­ili um allt land, væri hægt að nýta und­ir sköp­un, hljóðrit­un eða flutn­ing tón­list­ar.

Eitt okk­ar helsta tón­list­ar­hús, Harpa, starfar í sam­ræmi við eig­enda­stefnu rík­is­ins og Reykja­vík­ur­borg­ar, þar sem m.a. er lögð áhersla á menn­ing­ar­legt hlut­verk Hörpu og það mark­mið eig­enda að með rekstri henn­ar sé stuðlað að efl­ingu ís­lensks tón­list­ar- og menn­ing­ar­lífs. Í sam­ræmi við eig­enda­stefn­una hef­ur Harpa mótað sér dag­skrár­stefnu sem miðar að því að auka fjöl­breytni tón­leika­halds, styðja við ný­sköp­un í tónlist og auðvelda aðgengi ungs tón­listar­fólks úr gras­rót­inni, þvert á tón­list­ar­stefn­ur, að Hörpu sem tón­list­ar­húsi allra lands­manna.

Liður í þessu er t.a.m. sam­starf Hörpu, Tón­list­ar­borg­ar­inn­ar Reykja­vík­ur og Rás­ar 2 um sér­staka tón­leikaröð til­einkaða grasrót ís­lenskr­ar tón­list­ar, þvert á stefn­ur, sem kall­ast Upp­rás­in og fer fram í Kaldalóni. Aug­lýst var eft­ir um­sókn­um um þátt­töku í tón­leikaröðinni sl. vor og bár­ust alls 134 um­sókn­ir. Fjöldi og gæði um­sókna fór fram úr von­um aðstand­enda verk­efn­is­ins. Úr varð að 88 ung­ir ein­stak­ling­ar munu koma fram á tón­leikaröðinni, á mánaðarleg­um tón­leik­um fram á vor þar sem flutt­ar verða fjöl­breytt­ar teg­und­ir tón­list­ar.

Harpa legg­ur til sal­inn Kaldalón auk tækja og vinnu í tengsl­um við tón­leik­ana. Tón­list­ar­borg­in trygg­ir að flytj­end­ur fái greitt fyr­ir að koma fram. Rás 2 ann­ast kynn­ing­ar­starf fyr­ir tón­listar­fólkið og tek­ur tón­leik­ana upp. Miðaverði er stillt í hóf en tón­leika­gest­ir eru hvatt­ir til að styrkja tón­listar­fólkið með frjálsu viðbótar­fram­lagi. Það skipt­ir ungt tón­listar­fólk máli að fá tæki­færi líkt og þetta til þess að koma tónlist sinni á fram­færi í glæsi­legri aðstöðu líkt og Harpa hef­ur upp á að bjóða. Hér er aðeins um eina góða dæmi­sögu að ræða af mörg­um um þá miklu gerj­un sem á sér stað í menn­ing­ar­lífi þjóðar­inn­ar, en þær eru mý­marg­ar sem er fagnaðarefni fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2023.

Categories
Greinar

Sporin hræða

Deila grein

30/10/2023

Sporin hræða

Í morgun, fimmtudaginn 26. október, fór fram opinn fundur í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis þar sem til umræðu var skýrsla peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Í lögum um Seðlabanka Íslands er kveðið svo á að peningastefnunefnd bankans skuli gefa Alþingi skýrslu um störf sín tvisvar á ári. Nýlega ræddi aðalhagfræðingur Íslandsbanka um stöðu heimilanna í útvarpsviðtali þar sem hann sagði að stjórnvöld þyrftu að vera búin undir það að hlutirnir geti breyst svolítið hratt. Verðbólga hefur áhrif á samfélagið allt þar sem fólk og fyrirtæki finna fyrir hækkandi vöxtum. Nú liggur það fyrir að stór hluti lána er á föstum vöxtum sem losna nú á komandi ársfjórðungum og það getur breytt stöðunni nokkuð hratt til hins verra. Stjórnvöld þurfa því að fylgjast náið með stöðunni, greina hana og bregðist við með aðgerðum fyrir þá hópa sem verða hvað verst úti með ábyrgum og öruggum hætti. Annað mál er svo húsnæðismarkaðurinn í heild þar sem sporin hræða.

Langtíma kjarasamningar og aðkoma stjórnvalda

Kjarasamningar á vinnumarkaði losna nú um áramótin og þar er allra hagur að vel takist til. Þar er sérstaklega mikilvægt að lenda farsælum langtíma kjarasamningum sem styðja við það mikilvæga verkefni að ná hér niður verðbólgu og vöxtum sem er óumdeilt mesta kjarabót heimila og fyrirtækja í landinu. Þó svo að stjórnvöld eigi ekki formlega aðkomu að kjarasamningsgerðinni er ljóst að aðilar vinnumarkaðarins munu kalla eftir því að stjórnvöld liðki fyrir samningsgerð. Þar er líklegt að háværust verði krafan um frekari úrræði til að stuðla að auknu húsnæðisöryggi og að barnafjölskyldur og þeir sem lakast standa verði varin. Stjórnvöld átta sig á hlutverki sínu í komandi kjarasamningum og mikilvægi þess að vel takist til. Nú þegar hefur ríkisstjórnin stigið inn með aðgerðir á húsnæðismarkaði þar sem stutt hefur verið við uppbyggingu með opinberum stuðningi og má þar nefna uppbyggingu almennra íbúða og veitingu hlutdeildarlána til kaupa á hagkvæmum íbúðum. Eins hefur verið stutt við barnafjölskyldur með hækkun barnabóta með hærri grunnfjárhæð og skerðingarmörkum. Þessu til viðbótar er hér rétt að nefna að húsaleigubætur hafa verið hækkaðar um fjórðung frá miðju ári 2022 auk þess sem frítekjumörk voru hækkuð til jafns við hækkun bóta.

Áhyggjur af sýn Seðlabankans þegar kemur að stöðunni á húsnæðismarkaði

Tryggt framboð og öryggi á húsnæðismarkaði er mikið hagsmunamál í íslensku samfélagi. Langtímaskortur á íbúðum á Íslandi hefur valdið því að bæði leigu- og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið sem mun koma í veg fyrir að leigu- og fasteignaverð muni halda áfram að hækka óeðlilega mikið líkt og verið hefur á undanförnum árum. Sú leið er aukið framboð af húsnæði. Markmið innviðaráðherra um aukna húsnæðisuppbyggingu og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til er mikilvægt innlegg í þá vegferð. Hins vegar er það svo að húsnæðismarkaðurinn hefur fundið verulega fyrir aðgerðum Seðlabankans, þar sem kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik með að komast inn á markaðinn, vegna hertra lánþegaskilyrða, og fjármögnun nýframkvæmda er orðin dýrari. Þvert á það sem við þurfum nú, og þegar allt er saman tekið, þá hefur þetta letjandi áhrif á framkvæmdaaðila til að halda áfram að framkvæma íbúðir. Ég hef verulegar áhyggjur af sýn Seðlabankans þegar kemur að stöðunni á húsnæðismarkaði og það virðist vera að bankinn haldi að hann sé eyland þegar að þessum málum kemur og það sé allra annarra að leysa úr stöðunni. Það er bara ekki svo einfalt, því allt hangir þetta saman.

Ég er full meðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu, en okkur verður að bera gæfa til þess að setjast niður og tryggja að við komumst saman út úr núverandi ástandi sem mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar. Það er engum til góðs og að mínu mati er það algjörlega ljóst að gera þarf sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við erum komin í. Við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum lenda á sama stað og árin eftir hrun þegar framkvæmdir svo gott sem stöðvuðust sem síðar leiddi til umframeftirspurnar. Afleiðingarnar af slíku þekkjum við of vel.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á eyjan.is 26. október 2023.

Categories
Greinar

Fram­leiðsla á dilka­kjöti á Ís­landi að hverfa

Deila grein

27/10/2023

Fram­leiðsla á dilka­kjöti á Ís­landi að hverfa

Árið 2022 var heildarframleiðsla á dilkakjöti um 7.408 tonn. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í framleiðslu á þessu ári 2023 og að framleiðslan fari niður í 7.205 tonn.

Árið 2017 var heildarframleiðsla á dilkakjöti um 9.206 tonn. Frá þeim tíma hefur framleiðsla dregist saman um nær 1.986 tonn, eða 22%. Yfir sama tímabil hefur sauðfé fækkað um 108.000 vetrar fóðraðir ær, eða 23%.

Meðalaldur íslenskra bænda er um 60 ár og nýliðun í bændastéttinni lítil. Erfitt rekstar umhverfi og aukinn innflutningur á kjöti erlendis frá gerir bændum erfitt fyrir.

Bændasamtök Íslands hafa bent á að 12 milljarðar króna vanti inn í íslenskan landbúnað vegna kostnaðarhækkana síðustu ára, meðal annars heimsfaraldursins og stríðsins í Úkraínu sem hafa leitt af sér mikla verðbólgu og afurðaverðshækkanir á aðföngum.

Leggja þarf aukið fé til búvörusamninga til að stuðla að tilvist bænda í íslenskum landbúnaði. Einnig þarf að setja aukið fé í rammasamninginn og vinna markvisst að því að hvetja ungt og kraftmikið fólk til starfa í landbúnaði og innleiða hlutdeildarlánin út fyrir þéttbýlið.

Núverandi búvörusamningar tóku gildi 1. janúar 2017. Þeir eru gerðir milli ríkisins og Bændasamtaka Íslands en þar er fjallað um stjórn á framleiðslu búvara og framlaga til landbúnaðarins af hálfu ríkisins. Framlög á fjárlögum vegna búvörusamninganna í ár hljóða upp á 17,2 milljarða króna, nautgriparækt fær um 8,4 milljarða, sauðfjárrækt 6,2 milljarða, garðyrkja rúman milljarð og svo erum við með rammasamninginn sem hljóðar upp á 1,5 milljarða króna. Rammasamningur á að taka utan um jarðræktarstyrki og nýliðun svo fátt eitt sé nefnt.

Matvælaráðherra þarf að beita sér með mun sterkari hætti og gera sér grein fyrir hversu mikilvæg atvinnugrein landbúnaðurinn er í þessu landi. Þetta snýst í raun um fæðuöryggi þjóðar og fullveldi landsins. Ef fram heldur sem horfir og að landbúnaði verður ekki viðhaldið í landinu þýðir það verulegt tap á gjaldeyri vegna þess að þá þarf að flytja allan mat inn í landið og því fylgir óöryggi sem er afleiðing á að vera ekki sjálfbær í eigin matvælaframleiðslu. Ef ekkert verður aðhafst í málinu núna á næstu misserum, þá er líka verið að kippa stoðunum undan landsbyggðinni og dreifbýli á Íslandi.

Anton Guðmundssonodd­viti Fram­sókn­ar og formaður bæj­ar­ráðs í Suður­nesja­bæ

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 26. október 2023

Categories
Fréttir Greinar

Fæðuöryggi á krossgötum

Deila grein

25/10/2023

Fæðuöryggi á krossgötum

Íslenskur landbúnaður, matarkista þjóðarinnar stendur um margt á krossgötum. Hann hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum áratugum. Tæknibylting hefur gjörbreytt framleiðslu aðstæðum, ekki síst vegna aukinna krafna um aðbúnað dýra og eins kröfu markaðarins um lægra verð á matvælum.

Breytt umhverfi

Síðustu ár hefur orðið mikil hagræðing í landbúnaði þar sem búum hefur fækkað og stækkað. Framleiðsla í mjólk, hvítu kjöti og eggjum líklega aldrei verið keyrð á jafn hagkvæman máta, með stærri einingum án þess að mannskap hafi fjölgað mikið við vinnu á hverju búi og framleiðslan hefur aldrei verið meiri. Allt eins og áður segir er þetta gert til þess að framleiða gæða matvöru við sem bestar og hagkvæmastar aðstæður, enda staðreyndin að fá lönd geta státað sig af jafn hreinum landbúnaði og gæða afurðum eins og Íslendingar gera nú. En til þess að komast á þennan stað hefur landbúnaður þurft að fjárfesta verulega á undanförnum 15-20 árum. Þetta er fjárfesting til framtíðar, hús, vélar, tæki og ræktun sem munu nýtast næstu áratugina.

Aukin skuldsetning

Krossgöturnar eru þær að með stærri og meiri fjárfestingu hefur skuldsetning búanna líka aukist verulega og þegar vaxtarstig er með þeim ætti sem nú er mikil hætta á að illa fari. Það þarf þolinmótt fjármagn því það er hagur okkar allra að við búum að blómlegum landbúnaði til lengri tíma. Fjármagn sem þetta hefur tæplega verið í boði hjá lánastofnunum á þeim kjörum og þeim lánstíma sem hefði þurft. Íslenskur landbúnaður snýst um fæðuöryggi þjóðarinnar. Það hefur sannarlega sýnt sig í þeim átökum sem hafa átt sér stað í Austur Evrópu hversu mikilvægt fæðuöryggi er hverri þjóð. Því er mikilvægt að við stöndum í fæturna og styðjum þessa grein eins og best verður á kosið svo íslenskir bændur geti sinnt sínu hlutverki hvernig sem árar.

Ný nálgun

Íslendingar þurfa að fara hugsa landbúnað með nýrri nálgun á framtíð hans og vaxtarmöguleika. Snýr það bæði að fjármögnun atvinnugreinarinnar og ekki síður endurskoðun á fyrirkomulagi tolla og innflutnings á afurðum erlendis frá. Ný nálgun sem Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar kom inn á í grein nýlega gæti verið áhugaverð. Þar sem hann varpar því fram að við höfum tækifæri til þess að nota í ríkari mæli Byggðastofnun sem útlánaaðila til kynslóðaskipta í landbúnaði. Ásamt því sem hann veltir því upp hvort hægt væri að nýta hugmyndafræði sem búin var til með hlutdeildarlánum fyrir fyrstu kaupendur fasteigna til þess að hjálpa ungu fólki að komast inn í landbúnað, þar sem ríkið myndi leggja til 20-30% í formi hlutdeildarlána við jarðakaup. Í landbúnaði þar sem þarf þolinmótt fjármagn þurfa lán sem þessi helst að vera til a.m.k. 50 ára á lágum vöxtum.

Með þessum aðgerðum væri hægt að skapa umhverfi þar sem eðlileg fjárfesting getur átt sér stað, þar sem búin geta fjárfest og hagrætt án þess að vera sokkin í fen skulda og vaxta og þegar hriktir í stoðum efnahagslífsins geta orðið stórslys með tilheyrandi gjaldþrotum og flótta úr landbúnaði. Íslendingar hafa einfaldlega ekki efni á að eiga ekki blómlegan landbúnað til að sinna grundvallarþörfum þjóðarinnar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2023.

Categories
Greinar

Skrúður í Dýrafirði

Deila grein

25/10/2023

Skrúður í Dýrafirði

Á dög­un­um und­ir­ritaði Guðlaug­ur Þór, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, friðlýs­ingu vegna Skrúðs í Dýraf­irði. Friðlýs­ing­in tek­ur til Skrúðs í heild auk vegg­hleðslna um­hverf­is garðinn, garðhliðs úr hval­beini, gos­brunns og gróður­húss og annarra sögu­legra mann­virkja.

Skrúður á sér merka sögu og má rekja hana til byrj­un­ar síðustu ald­ar. Hann var gerður í upp­hafi skóla­halds á Núpi og til­gang­ur garðsins var að styðja við mennt­un nem­enda skól­ans, bæði hvað varðar fræðslu um rækt­un ma­t­jurta, grasa­fræðikennslu og ekki síst til að fegra um­hverfið. Nafn garðsins, Skrúður, er fyr­ir­mynd orðsins „skrúðgarður“ sem notað er um slíka garða víða um land.

Garður­inn var gerður að frum­kvæði sr. Sig­tryggs Guðlaugs­son­ar sem var stofn­andi skól­ans á Núpi og fyrsti skóla­stjór­inn. Þau hjón Sig­trygg­ur og Hjaltlína Guðjóns­dótt­ir unnu öt­ul­lega að upp­bygg­ingu garðsins og sótti Hjaltlína sér mennt­un í garðyrkju­fræðum sem nýtt­ist vel við upp­bygg­ingu og viðhald hans.

Fal­in perla

Það er mik­il vinna að viðhalda slík­um garði og halda uppi merkj­um hans í rúma öld. Meðan skóla­hald var á Núpi var hon­um sinnt af skól­an­um enda í eigu hans og þar held ég að hafi sér­stak­lega verið tvær kon­ur sem sinntu þeirri vinnu, Hjaltlína og seinna Ing­unn Guðbrands­dótt­ir ásamt manni henn­ar, Þor­steini Gunn­ars­syni. Eft­ir að Ing­unn og Þor­steinn fóru frá Núpi upp úr ár­inu 1980 fór garðinum að hnigna. Skóla­hald á Núpi var lagt niður árið 1992 og þar með varð garður­inn munaðarlaus en þá tóku heima­menn og áhuga­menn sig sam­an um að koma garðinum til þeirr­ar virðing­ar sem hann áður hafði.

Það hef­ur ekki alltaf gengið þrauta­laust en eitt er víst að það má þakka þá þol­in­mæði og bar­áttu sem unn­in hef­ur verið í þeim efn­um. Nú hef­ur Skrúður fengið ákveðna viður­kenn­ingu sem von­andi gef­ur þann kraft til framtíðar sem hann á skil­inn.

Þeir sem bar­ist hafa fyr­ir um­hirðu garðsins eiga mikl­ar þakk­ir skild­ar. Ég vil hvetja alla sem leið eiga um Dýra­fjörð til að gefa sér tíma til að heim­sækja Skrúð. Það er ánægju­leg heim­sókn, ekki síst fyr­ir sög­una, sér í lagi nú þegar garður­inn er í góðri um­hirðu og fjöl­breytt­ur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. október 2023.