Categories
Greinar

Grænna Ísland

Deila grein

14/03/2021

Grænna Ísland

Ný­leg­ar jarðhrær­ing­ar á Reykja­nesi hafa verið okk­ur Íslend­ing­um áminn­ing um ná­lægð nátt­úru­afl­anna. Við búum á eyju elds og ísa sem okk­ur hef­ur verið fal­in til varðveislu. Ábyrgð okk­ar felst í því að varðveita landið og nátt­úr­una, en á sama tíma verðum við að nýta þær auðlind­ir sem okk­ur hef­ur verið treyst fyr­ir á skyn­sam­leg­an hátt.

Græn mark­mið á öll­um sviðum

Ábyrg auðlinda­nýt­ing felst ekki í því að láta verðmæti liggja óhreyfð og ónýtt. Hún felst miklu held­ur í því að nýta auðlind­ir með sjálf­bær­um hætti og nýta arðinn og rent­una til að byggja í hag­inn fyr­ir kom­andi kyn­slóðir. Það er á ábyrgð okk­ar sem nú mót­um stefn­una að skila Íslandi í betra ástandi til kom­andi kyn­slóða. Í því felst bæði sjálf­bær nýt­ing nátt­úru­auðlinda, verðmæta­sköp­un og upp­bygg­ing innviða. Þessi mark­mið fara vel sam­an.

Lát­um verk­in tala

Und­ir­ritaður hef­ur notið þeirr­ar gæfu að fá tæki­færi til að láta verk­in tala, þá bæði sem þingmaður Norðaust­ur­kjör­dæm­is og for­ystumaður bænda. Öflug­ur stuðning­ur við skóg­rækt og land­græðslu í takti við verðmæta­sköp­un og innviðaupp­bygg­ingu skil­ar bæði núlif­andi og kom­andi kyn­slóðum há­marks­lífs­gæðum. Það eru for­rétt­indi að vera í stöðu til að láta verk­in tala.

Græn for­ysta

Sauðfjár­rækt var fyrsta at­vinnu­grein­in á Íslandi til setja sér stefnu um fulla kol­efnis­jöfn­un. Verkið var unnið af bestu fag­mönn­um sem tóku út kol­efn­is­fót­spor grein­ar­inn­ar og í kjöl­farið fylgdi raun­hæf og metnaðarfull tíma­sett áætl­un. Það var meðal ann­ars byggt á reynslu af verk­efn­um eins og „Bænd­ur græða landið“ og gæðastýr­ingu í sauðfjár­rækt en yfir 90% bænda hafa unnið land­bót­astarf und­ir merkj­um þeirra.

Kerfið þarf að virka

Því miður hef­ur gengið hæg­ar að hrinda kol­efnis­jöfn­un­ar­verk­efn­inu í fram­kvæmd en að var stefnt. Sama má segja um hug­mynd­ir um stór­fellda beit­ar­skóga­rækt­un sem und­ir­ritaður keyrði af stað í sam­vinnu við skóg­ræktar­fólk fyr­ir fá­ein­um árum. Eina skýr­ingu fyr­ir þessu er meðal ann­ars að finna í því að boðleiðir og verka­skipt­ing í stjórn­sýsl­unni er ekki með þeim hætti sem best væri á kosið til að ná há­marks­ár­angri í kol­efnis­jöfn­un.

Sam­vinna er lyk­ill­inn

Eft­ir­fylgni und­ir­ritaðs á Alþingi, meðal ann­ars með því að vera fyrsti flutn­ings­maður þings­álykt­un­ar­til­lögu þing­manna úr ýms­um flokk­um um þjóðarátak í land­græðslu og skóg­rækt, hef­ur hjálpað til við að halda þess­um mála­flokki á dag­skrá. Sú til­laga miðaðist við að leitað yrði víðtækr­ar sam­vinnu, stjórn­valda, al­menn­ings, at­vinnu­lífs og bænda, stærstu land­eig­enda á Íslandi.

Nýtt ráðuneyti um­hverf­is og land­búnaðar

Það er mik­il­vægt fyr­ir kom­andi kyn­slóðir að kol­efnis­jöfn­un verði for­gangs­verk­efni á Íslandi. Öflugt þjóðarátak í land­græðslu og skóg­rækt í sam­vinnu við bænd­ur get­ur einnig leitt til nýrra at­vinnu­tæki­færa um allt land. Áður en lengra er farið þá þarf að stokka upp í stjórn­sýsl­unni. Eft­ir næstu kosn­ing­ar þarf að setja upp nýtt ráðuneyti um­hverf­is­mála og land­búnaðar. Það er kom­inn tími til að láta verk­in tala og gera Ísland grænna.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar í Norðaust­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtis fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2021.

Categories
Greinar

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Deila grein

11/03/2021

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Öflugir fjarskiptainnviðir eru forsenda búsetu og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Ísland er í röð fremstu ríkja heims í fjarskiptainnviðum samkvæmt mati Alþjóðafjarskiptastofnunarinnar. Sú staða er ómetanleg en enginn endapunktur því tækninni fleygir fram og nýjar áskoranir blasa við. Þörf er á metnaðarfullri framtíðarsýn fyrir útbreiðslu og áreiðanleika fjarskipta um land allt nú þegar landsátakinu Ísland ljóstengt, sem á stóran þátt í að þessari góðu stöðu, fer að ljúka.

Landsátakið Ísland ljóstengt og uppbygging opinberra aðila á fjarskiptaaðstöðu á undanförnum árum er lýsandi dæmi um sérstaka fjármögnun á vegum ríkis og heimafólks til að jafna aðstöðumun milli dreifbýlis og þéttbýlis. Með lokaúthlutun fjarskiptasjóðs seinna í þessum mánuði hefur ríkið styrkt með beinum hætti tengingu um 6.000 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga. Þetta landsátak hefur þegar bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins. 

Rúmt ár er síðan óveður afhjúpaði veikleika í raforkukerfinu sem olli truflun á fjarskiptum einkum á Norðurlandi og Austurlandi. Brugðist var hratt við og hafa stjórnvöld þegar m.a. bætt varaafl á rúmlega 68 fjarskiptastöðum víða um land. Framhald verður á verkefninu í ár í samvinnu fjarskiptasjóðs sem leggur til fjármuni og Neyðarlínunnar sem sér um framkvæmdir. Öryggiskröfur samfélagsins eru einfaldlega ríkari en það sem fjarskiptafyrirtæki eru skuldbundin til að gera eða geta tryggt á markaðslegum forsendum, einkum á landbyggðinni.

Fyrirsjáanleiki aðalatriði

Fólk vill aðgang að nýjustu og bestu fjarskiptaþjónustu hverju sinni og gerir jafnframt kröfu um að þjónustan sé áreiðanleg, örugg og á viðráðanlegu verði. Regluverkið, með áherslu á samkeppni og markaðslausnir, tryggir það upp að vissu marki. Þolinmæði gagnvart óvissu og bið eftir markaðslausnum er þó á undanhaldi.

Áhyggjur íbúa utan helstu þéttbýlissvæða hafa lengi snúist um hvort ljósleiðarinn eða nýjar kynslóðir farneta verði yfir höfuð í boði. Vissan fyrir því að ljósleiðarinn komi á grundvelli Ísland ljóstengt, hefur skapað ákveðna sátt og skilning gagnvart því að slík uppbygging getur ekki átt sér stað samtímis um allt land. Einhver byggðarlög verða á undan öðrum. Stóra málið er fyrirsjáanleiki um að ljósleiðarinn sé í það minnsta á leiðinni.

Kveikjan að Ísland ljóstengt var framtíðarsýn og markmið stjórnvalda um að ljósleiðaravæða dreifbýlið. Það gleðiefni að sjá nú fyrir endann á þessu samvinnuverkefni sem hornsteinn var lagður að með blaðagrein sem birtist 30. mars 2013 undir yfirskriftinni „Ljós í fjós“.

Landsdekkandi þráðlaus fjarskiptakerfi í opinberri eigu

Þó að 5G uppbygging sé ekki mjög brýn í þeim afmarkaða tilgangi að auka bandbreidd hér á landi, er sannarlega tímabært að huga að almennum markmiðum og aðgerðum til þess að gera samfélagið í stakk búið að hagnýta þá fjölbreyttu þjónustu sem 5G gerir mögulega á næstu árum.

Við þessi tímamót er viðeigandi að setja fram nýja framtíðarsýn sem er verðugur arftaki „Ljós í fjós“.

Neyðarlínan, sem er í opinberri eigu, á og rekur landsdekkandi neyðarfjarskiptakerfið TETRA fyrir neyðar- og viðbragðsaðila af miklum myndarskap. Hugað er nú að endurnýjun eða arftaka þess kerfis hér á landi, í Noregi og víðar.

Rekstur fjarskiptaaðstöðu og sendakerfa reynist Ríkisútvarpinu umtalsverð áskorun og tímabært er fyrir félagið að huga að endurnýjun/arftaka eigin og útvistaðra sendakerfa.

Margt bendir til þess að 5G tæknin geti hæglega leyst þarfir þeirra sem nýta TETRA og RÚV til framtíðar er varðar þráðlaus fjarskipti eða útsendingar. Í því felast tækifæri til tækniuppfærslu og hagræðingar. Fátt bendir til þess að skynsamlegt sé fyrir opinbera aðila að reka mörg sjálfstæð þráðlaus fjarskiptakerfi með háu öryggisstigi til framtíðar á sömu svæðum.

Ljósleiðari og 5G í byggðakjörnum

Ljósleiðaravæðing landsins heldur áfram og eru það eingöngu byggðakjarnar á landsbyggðinni sem búa nú við óvissu um hvort eða hvenær röðin kemur að þeim og á hvaða forsendum. Búast má við að fyrirhugað útboð á tveimur NATO-ljósleiðurum verði útfært m.a. með aukna samkeppni á landshringnum í huga og hvata til ljósleiðarauppbyggingar fjarskiptafyrirtækja í byggðakjörnum. Sú ljósleiðaravæðing, og þar með landsins alls, gæti því verið langt komin fyrir lok næsta kjörtímabils.

Líklegt er að uppbygging 5G gagnvart helstu þéttbýlissvæðum fari fram á markaðslegum forsendum og án sérstakra opinberra hvata. Slík uppbygging er hafin. Fyrirsjáanleiki í uppbyggingu markaðsaðila á 5G gagnvart litlum byggðakjörnum og utan þéttbýlis er hins vegar minni. 

Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu

Á kjörtímabilinu hefur margt áunnist, hvort tveggja er varðar uppfærslu regluverks fjarskipta og netöryggis og uppbyggingu fjarskiptainnviða. Tímabært er að leggja línur fyrir nýja framsókn í fjarskiptum. Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu.

Með slíkri framtíðarsýn og tilheyrandi aðgerðum væri óvissu eytt um það hvort fólk, óháð búsetu, fái notið þeirrar þjónustu sem verður forsenda og hvati samfélagslegra framfara og nýsköpunar um land allt í fyrirsjáanlegri framtíð. Standi hún til boða er eðlilegt að hún verði jafnframt áreiðanleg, örugg og á sanngjörnu verði.

Á svæðum þar sem forsendur fyrir samkeppni í innviðum er ekki til staðar virðist vera skynsamlegt að byggja og reka eitt gott dreifikerfi sem bæði opinberir aðilar og markaðsaðilar geta nýtt. Hagkvæmni í innviðauppbyggingu skiptir máli. Kominn er tími til að opinberir aðilar sem eiga og reka fjarskiptainnviði ræði uppbyggingu fjarskiptainnviða til framtíðar og ákveðið verði hvernig hið mikilvæga hlutverk þeirra og samspil verður útfært með hliðsjón af heildstæðri framtíðarsýn og áherslu á byggðasjónarmið. Þar gæti komið til greina full sameining eða verulega aukið samstarf fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu.

5G verður bráðlega nauðsynleg innviðaþjónusta gangi spár eftir. Verður nokkurs konar grunnþjónusta og því enn ríkari ástæða til þess að setja fram heildstæða nálgun þess hvernig við ætlum að tryggja þá grunnþjónustu íslensku samfélagi til hagsbóta, óháð búsetu. Sundabraut verður ekki byggð á einum degi og það sama á við um 5G þjónustu um land allt, en framtíðarsýnin og markmiðin þurfa að vera skýr.

Verkefnið hlýtur að vera að tryggja fyrirsjáanleika í aðgengi, öryggi og verðlagningu 5G þjónustu gagnvart byggð, atvinnulífi, samgöngum og samfélagslega mikilvægum svæðum á landsbyggðinni sem og annars staðar. Einn lykill að þeirri vegferð er að nýta tækifæri til uppfærslu og langtíma hagkvæmni í fjárfestingum og rekstri landsdekkandi þráðlausra fjarskiptakerfa opinberra aðila, þ.m.t. Neyðarlínu og Ríkisútvarps. Annar lykill er að auka samvinnu og samþætta starfsemi fjarskiptainnviðafyrirtækja í opinberri eigu þannig að styðji við þessa vegferð, þ.m.t. að efla fjarskiptaaðstöðu og ljósleiðarastofnnet um landið.

Valkostir við uppbyggingu á landsbyggðinni

Fyrir liggur hvert viðfangsefnið er en ekki hvernig eigi að leysa það. Líkt og oftast eru valkostir í þeim efnum.

Nýstárlegur valkostur væri að efla Neyðarlínuna og fela henni að byggja og reka 5G kerfi, a.m.k. á markaðsbrestssvæðum, sem leysti af TETRA og kerfi RÚV á þeim svæðum. Með því gæti skapast möguleiki fyrir markaðsaðila að semja um aðgang að öruggum 5G sendum Neyðarlínunnar og möguleiki fyrir Neyðarlínuna að semja um aðgang að öruggum 5G sendum markaðsaðila á markaðssvæðum þeirra.

Aðrir hefðbundnari valkostir koma til greina, t.d. væri hægt að bíða og sjá hvað markaðsaðilum hugnast að gera á næstu árum. Þar má horfa til aukins samstarfs og samnýtingar við innviðauppbyggingu og jafnvel bjóða út 5G þjónustu svæðisbundið. Einnig mætti fela markaðsaðilum með útboðsleið að leysa verkefni Neyðarlínunnar og RÚV heildstætt um allt land með 5G og svo framvegis.

Það eru sem sagt fleiri en einn valkostur um leiðir og gaumgæfa þarf útfærslu þeirra. Aðalatriðið er að sammælast um það markmið að ná samlegð, hagræði og auknu öryggi með þróun kerfa RUV og Neyðarlínunnar í ljósi þeirrar 5G uppbyggingar sem fyrir dyrum stendur, almenningi í landinu öllu til heilla.

Áfram veginn

Greina þarf og bera saman mismunandi leiðir til að ná fram þeirri framtíðarsýn sem lögð er hér fram, Ísland fulltengt – ljósleiðari og 5G óháð búsetu. Þær hafa tiltekna kosti og galla, mismunandi eftir því hver metur. Hér er ekki talað fyrir almennri ríkisvæðingu fjarskipta, heldur raunsæi gagnvart þeim fyrirsjáanlega markaðsbresti sem verður m.a. í uppbyggingu framtíðarkerfa og ekki síst 5G innviða. Þróunin er ör og mikilvægt er að taka verkefnið traustum tökum. Endurskoðun fjarskiptaáætlunar er hafin og því er tímabært að ræða um sameiginlega framtíðarsýn fyrir samfélagið og færar leiðir. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðarbyggðar og formaður Fjarskiptaráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. mars 2021.

Categories
Greinar

Íslenskt, já takk

Deila grein

10/03/2021

Íslenskt, já takk

Umræða um fæðuör­yggi hef­ur verið tölu­verð síðastliðin ár og sitt sýnst hverj­um. Þannig finnst mörg­um að stjórn­völd þurfi að gera meira til að tryggja það, m.a. með betri regl­um um eign­ar­hald á jörðum, tolla­vernd og fjár­magn til ný­sköp­un­ar. Öðrum finnst merki­legra að efla alþjóðlegt sam­starf í þess­um efn­um, hvernig svo sem það trygg­ir fæðuör­yggi.

Ný­lega kom út skýrsla um fæðuör­yggi sem unn­in var fyr­ir at­vinnu­vega- og ný­sköp­un­ar­ráðuneytið. Þar eru Íslend­ing­ar tald­ir vel rúm­lega sjálf­bær­ir með fisk, af kjötþörf lands­manna eru 90% fram­leidd inn­an­lands og 43% af græn­meti. Fyr­ir­sögn með frétt á Rík­is­út­varp­inu var: „Íslensk fram­leiðsla full­næg­ir eft­ir­spurn að mestu“.

Sum­um finnst kannski allt í lagi að þetta sleppi að „mestu“ en ég held að það sé full þörf á að bæta veru­lega í, og þá ein­vörðungu varðandi ís­lenska fram­leiðslu. Græn­met­is­fram­leiðsla ann­ar sam­kvæmt þess­ari skýrslu aðeins tæp­lega helm­ingi neyslu. Það er al­gjört lyk­il­atriði að ná þess­ari pró­sentu­tölu upp og setja full­an kraft í það. Það má gera með auknu fjár­magni til ný­sköp­un­ar eða það sem betra er – með ódýr­ara raf­magni sem fram­leitt er í heima­byggð. Ég geri mér grein fyr­ir að þessi markaður er harður sam­an­borið við inn­flutt græn­meti sem er ræktað án hús­næðis og raf­magns er­lend­is. Markaðshlut­deild sýn­ir þó að ís­lensk fram­leiðsla á góða mögu­leika á að stækka enn frek­ar og þá veg­ferð þarf að hefja – eigi síðar en núna.

Fram­leiðsla á kjöti er síðan sér­kapítuli! Sú fram­leiðsla styðst við kerfi sem fáir skilja að fullu. Kerfið virðist hannað til að all­ir tapi eða hangi átta­villt­ir í lausu lofti. Afurðastöðvar eru alltaf á tæp­asta vaði og nú sein­ast greindi SS frá því að ta­prekst­ur væri vegna skorts á ferðamönn­um í land­inu. Bænd­ur geta því ekki átt von á hækk­un afurðaverðs þegar afurðastöð er rek­in með halla, það þarf eng­an sér­fræðing að sunn­an til að skilja það. Kannski fel­ast í þessu öllu ein­föld skila­boð til bænda. Ef góðu ferðamanna­ár­in skiluðu ekki betra verði til bænda, hvernig er þessi rekst­ur eig­in­lega upp­byggður?

Hvorki afurðastöðvar né hrá­efn­is­fram­leiðend­ur (bænd­ur) fá viðun­andi hluta af kök­unni. Hvað er að þessu kerfi? Fyr­ir löngu varð það aug­ljóst að þetta geng­ur ekki leng­ur upp og það er ekki enda­laust hægt að skoða, vinna að, stefna að eða setja ein­hver mark­mið í þess­um mál­um. Það þarf að fram­kvæma og gera. Það er ein aug­ljós skekkja í þessu ferli sem þarf að taka strax á. Það er sú staðreynd að afurðastöðvar flytja marg­ar hverj­ar inn kjöt til að selja meðfram ís­lenskri fram­leiðslu sinni. Það eru jafn­vel sett­ar tak­mark­an­ir á slátrun naut­gripa á sama tíma og afurðastöðvar eru að flytja inn naut­gripa­kjöt. Þetta er gert á sama tíma og afurðastöðvar eru að vinna fyr­ir bænd­ur og marg­ar í eigu bænda. Ef þetta er ekki hags­muna­árekst­ur, þá eru hags­muna­árekstr­ar ekki til.

Marg­ar afurðastöðvar vinna nefni­lega ekki að hags­mun­um bænda, það er al­veg ljóst. En það skal tekið fram að þetta á ekki við um all­ar kjötaf­urðastöðvar. Jafn­framt er óskilj­an­legt af hverju Lands­sam­tök slát­ur­leyf­is­hafa eru ekki sterk­ari tals­menn á móti inn­flutn­ingi á kjöti, sem ætti að vera eitt af þeirra aðaláherslu­atriðum. Kannski er það af því að sum­ar afurðar­stöðvar eru bæði að éta kök­una og halda henni. Bænd­ur sem eiga afurðastöðvar þurfa að ganga fram með for­dæmi, í breiðri sam­vinnu, og láta afurðastöðvar sín­ar hætta að vera þátt­tak­end­ur í inn­flutn­ingi á kjöti. Með því væru þær að setja hags­muni bænda og at­vinnu­sköp­un­ar í fyrsta sætið. Í fram­haldi er hægt að gera þá kröfu á full­trúa afurðastöðva í Lands­sam­tök­um slát­ur­leyf­is­hafa að vinna gegn inn­flutn­ingi á kjöti og leggj­ast á árar ís­lenskr­ar fram­leiðslu.

Íslensk fram­leiðsla er at­vinnu­lífi og lands­byggðinni mjög mik­il­væg. Stór hluti mat­vöru­fram­leiðslu fer fram á lands­byggðinni og oft eru þessi fyr­ir­tæki mátt­ar­stólp­ar at­vinnu­lífs smærri sam­fé­laga. Þetta má heim­færa yfir á alla fram­leiðslu á Íslandi, hvort sem það er iðnaður, þjón­usta, orkuiðnaður eða annað. Við vilj­um skapa at­vinnu og öfl­ug ís­lensk fyr­ir­tæki sem geta sinnt inn­an­lands­markaði sem og selt úr landi fram­leiðslu sína. Með því tryggj­um við fæðuör­yggi á sama tíma og við sköp­um gjald­eyri fyr­ir þjóðarbúið.

Gunnar Tryggvi Halldórsson, fram­bjóðandi í próf­kjöri Fram­sókn­ar­flokks í Norðvest­ur­kjör­dæmi. gth@blondu­os.is

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. mars 2021.

Categories
Greinar

Græn skyn­semi og Fram­sókn

Deila grein

09/03/2021

Græn skyn­semi og Fram­sókn

Velsæld allra byggðarlaga á Íslandi er háð því að hægt sé að nýta hugvit til að skapa verðmæti á sjálfbæran hátt í sátt við náttúru og samfélag. Verðmætasköpun er grundvöllur þeirrar samhjálpar og velferðar sem gerir öllum kleift að njóta lífsins í samræmi við sínar eigin óskir og þrár. Um þetta snúast stjórnmál. Hið hárrétta jafnvægi velmegunar og lífshamingju er línudans á miðjunni þar sem öfgum bæði til hægri og vinstri er haldið í skefjum með skynsemi og samvinnu. Þennan dans hefur Framsókn fullkomnað.

Velmegun byggir á verðmætasköpun

Velmegun Íslands byggir á skynsamlegri nýtingu auðlinda. Við erum í grunninn matvælaframleiðsluþjóð sem byggir nútíma lífsskilyrði sín á skilvirkum landbúnaði og sjávarútvegi þar sem öflugir bændur og hugdjarfir sjómenn hafa hellulagt stíginn frá fátækt til bjargálna. Við eigum öll mikið undir því að framleiðslugreinum hér á landi verði búin sanngjörn og hvetjandi umgjörð. Um það snúast íslensk stjórnmál að stórum hluta. Þar þarf að láta verkin tala.

Umgjörðin verður að virka

Sú umgjörð þarf að vera skynsamleg með sjálfbærni í forgangi. Verðmætin verða til hjá fólki og fyrirtækjum þegar gjafir náttúrunnar til sjávar og sveita eru nýttar með dugnaði, frumkvöðlakrafti og hugviti. Hvorki Alþingi né stjórnsýslustofnanir í Reykjavík mega þvælast fyrir því að nýjar búgreinar eins og kolefnisjöfnun geti skotið rótum. Það er afar mikilvægt að allt regluverk og lagaumgjörð sé eins og best er á kosið. Stefnan þarf að vera skýr og við Íslendingar verðum að setja grænar áherslur á oddinn.

Vegurinn áfram er grænn

Framsóknarflokkurinn hefur lengi verið rödd hinna dreifðu byggða á Alþingi. Hann talar fyrir velferð sem byggir á raunverulegri verðmætasköpun um allt land. Flokkurinn hafnar öfgum til vinstri og hægri og er rödd skynseminnar á Alþingi. Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt mun ýta undir fjölgun starfa um allt land. Beitarskógar og kolefnisjöfnun eru önnur græn verkefni sem fjölga möguleikum þeirrar kynslóðar sem er að vaxa úr grasi. Lífræn ræktun, handverksbrugghús, heimaslátrun og önnur vinnsla afurða bjóða upp á fjölmörg tækisfæri þar sem þörfin er mest.

Fjölbreytni og samvinna

Eigi íslenskur landbúnaður að blómstra verður að hlúa að fjölbreytninni en á sama tíma verður að hagræðis og búa til skynsamlegan ramma utan um stóru framleiðsluna sem þjónar fjöldanum. Lagabreyting sem auðveldar þeim samstarf eða sameiningu kjötafurðastöðva er nauðsynleg til þess að greinin blómstri í alþjóðlegri samkeppni. Slík undanþága getur leitt til mikillar hagræðingar sem skilar sér í hærra afurðaverði til bænda og öflugri rekstri fyrirtækjanna.

Öflug stjórnsýsla þjóni þjóðinni

Efling matvælaframleiðslu er mikilvægt hagsmunamál fyrir lífskjör okkar allra. Það eru landgræðslu og loftslagsmálin líka. Þetta þarf að fara saman svo sjávarplássin og sveitirnar blómstri. Við verðum að láta verkin tala í þessum efnum og breyta því sem við sjáum að virkar ekki sem skyldi. Sameining umhverfismála og landbúnaðar í eitt ráðuneyti gæti hjálpað okkur á þessari vegferð. Fáar aðrar breytingar á stjórnkerfinu myndu leiða til álíka aukningar í verðmætasköpun eða fjölgun starfa.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. mars 2021.

Categories
Greinar

Hinn þögli faraldur

Deila grein

09/03/2021

Hinn þögli faraldur

Ákominn heilaskaði og afleiðingar hans hafa ekki fengið mikið pláss í umræðunni hér á landi. Það sinnuleysi hefur leitt af sér skilningsleysi á afleiðingum hans, bæði innan velferðar- og menntakerfisins sem og á vinnumarkaðnum. Það er því ekki að undra að hann hafi verið kallaður, Hinn þögli faraldur. Í síðustu viku stóð ég fyrir sérstökum umræðum á Alþingi um endurhæfingarúrræði fyrir fólk með ákomin heilaskaða. Ég tel það brýnt og mikilvægt að ræða þessi mál.

Sem betur fer hefur undanfarin misseri orðið þó nokkur vitundarvakning varðandi afleiðingar ákomins heilaskaða. Hér á landi hljóta árlega um 2000 manns heilaáverka, af þeim glíma 200-300 manns við langvarandi afleiðingar og fötlun af þeim sökum. Þá bætast við á ári hverju um 10 einstaklingar sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda eftir heilaskaða. Þörf er á átaki í forvörnum til þess að koma í veg fyrir slys sem þessi. Íþróttahreyfingin hefur hrint af stað átaki þar sem slagorðið er: Ekki harka af þér höfuðhögg! Þar er mælt er með að einstaklingar leiti strax til bráðamóttöku vegna þess að afleiðingarnar koma oft og tíðum fram síðar.

Það þarf að bregðast við

Heilaskaði getur haft víðtæk og truflandi áhrif á einbeitingu, minni, mál, persónuleika, tilfinningar, hegðun, hæfni til samskipta, innsæi, framtakssemi og geðslag. Önnur möguleg einkenni í kjölfar heilaskaða geta verið flog, skert hormónaframleiðsla, höfuðverkur, svimi, skert hreyfigeta, truflun á skyni og samhæfingu vöðva. Einstaklingar með heilaskaða og sérfræðingar á því sviði hafa haft uppi ákall síðustu ár að bæta þurfi greiningu og skráningu á heilaáverkum og efla sérhæfa íhlutun, meðferð og stuðning við þá sem hafa orðið fyrir skaða af völdum heilaáverka. Hér á landi vantar sárlega heildstæða meðferð og endurhæfingaúrræði.

Það eru fleiri sem sitja uppi með afleiðingarnar

Þeir sem standa næst einstaklingi með ákominn heilaskaða, fjölskylda og vinir sitja einnig uppi með vanda og koma að lokuðum dyrum í samfélaginu. Heilaskaða getur fylgt geðræn vandamál, mörg heilsufarsleg vandamál og félagsleg einangrun. Þessir einstaklingar einangrast þegar þeir fá ekki hvorki meðferð né endurhæfingu. Auka þarf fræðslu, rannsóknir og vitundarvakningu hjá almenningi og innan heilbrigðisgeirans um afleiðingar ákomins heilaskaða.

Eins og fyrr segir eru um 10 einstaklingar sem bætast við árlega sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda eftir heilaskaða. Þetta eru einstaklingar sem eiga í miklum félagslegum erfiðleikum, missa tengsl við fjölskylduna og oft eru fangelsin þeirra eina skjól. Við þekkjum flest sögu einstaklinga sem falla alls staðar á milli kerfa eftir áföll og ekkert úrræði virðist passa. Mál þessara einstaklinga falla bæði undir félagsleg úrræði sveitarfélaga, heilbrigðiskerfisins og menntakerfis. Flestir þessir einstaklingar eiga sér sögu innan lögreglunnar og búsetuúrræðin eru fá.

Meðferðir hafa sýnt árangur

Atferlistengd taugaendurhæfing hefur gefist vel erlendis og í því samhengi er hægt að horfa til Kanada. Þar er miðað við að endurhæfa færni og sjálfstjórn með það að markmiði að auka sjálfstæði og lífsgæði. Meðferðin felst í því að þjálfa þessa einstaklinga í félagslega viðeigandi hegðun með aðferðum atferlisgreiningar þannig að þeir geti lifað í sátt og samlyndi við aðra í samfélaginu.

Við Háskóla Íslands er í bígerð að setja á fót þverfaglegt nám á MS stigi í endurhæfingavísindum sem ætlað er að taka á m.a. endurhæfingu einstaklinga með ákominn heilaskaða. Það er mikilvægt að mennta upp starfsfólk sem vinnur með einstaklinga á öllum stigum og í allri þjónustu til þess að endurhæfa einstaklinga sem hafa orðið fyrir ákomnum heilaskaða. Það er mikilvægt fyrir líðan þeirra og aðstandanda og ekki síst heildarábati fyrir samfélagið allt.

Við vitum hvað þarf að gera, nú þarf bara að stíga næstu skref.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. mars 2021.

Categories
Greinar

Klárum leikinn

Deila grein

05/03/2021

Klárum leikinn

Að kljást við Kórónaveiruna er auðvitað flóknara verkefni en hver annar fótboltaleikur. Við erum þó á viðkvæmum tímapunkti í þessari baráttu og ég ætla að leyfa mér samlíkinguna við fótboltaleik.

Þjóðin hefur sameinast í verkefninu í heilt ár og náð samstöðu í sóttvörnum. Þess vegna, ásamt harðari aðgerðum á landamærum, getum við nú leyft okkur langþráðar tilslakanir, umfram og á undan flestum öðrum þjóðum.

Það er þó enn mikið atvinnuleysi, tekjufall og sjóðsþurrð hjá fjölmörgum heimilum og fyrirtækjum. Við eigum mikið undir að allir hafi orku til að taka þátt í viðspyrnunni. Hættan er sú næstu þrjá til fjóra mánuði að við föllum í þá gryfju að bíða, og kosningar hafa áhrif hér.

Það eru þekkt viðbrögð á lokamínútum fótboltaleiks þegar liðið hefur barist rosalega í 85 mín., leikurinn stendur í 90 mín. plús. Við erum 1-0 yfir. Við bökkum, bíðum og horfum á dómarann og klukkuna. Einhver kallar „einbeiting“. Gott og vel og verðugt, en hún verður að vera á réttu hlutina. Ekki á klukkuna, dómarann og vonina um að sleppa til. Ekki á prófkjör, stjórnarsáttmálann, kosningar eða hækkandi sól.

Umræðan nú hverfist mikið til um framvindu bólusetninga hér og annars staðar í heiminum, enda algert lykilatriði í baráttunni við veiruna og forsenda þess að koma atvinnulífinu af stað, ná niður atvinnuleysi og endurheimta fyrri efnahagslegan styrk.

Einbeitingin verður að vera á boltann og næsta návígi, næstu sendingu; atvinnulífið, heimilin og fyrirtækin, sumarstörfin fyrir skólafólkið, virkni þeirra sem eru atvinnulausir og að allir verði tilbúnir að taka við ferðamönnum þegar þeir koma. Nú snýst þetta um aukakraft. Einbeitingin felst m.a. í framlengingu úrræða sem eru til staðar og hafa virkað.

Við höfum vikið fjármálareglum til hliðar og aukið svigrúm til aukinnar skuldsetningar ríkissjóðs. Það var gert til þess að mæta efnahagslegum afleiðingum faraldursins, draga úr högginu og mæta óhikað tekjufalli og auknum útgjöldum, sem birtast í fjölmörgum aðgerðum. Markmiðið allan tímann er að koma okkur í gegnum þetta þannig að við verðum öll tilbúin þegar ferðamennirnir koma og viðspyrnan hefst fyrir alvöru.

Nú er ekki tíminn til að bíða! Við ætlum að koma saman út úr þessu með grænt, stafrænt og skapandi hagkerfi.

Klárum leikinn fyrir heimilin og fyrirtækin og viðspyrnuna fyrir íslenskan efnahag.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. mars 2021.

Categories
Greinar

Hann Tóti tölvukall

Deila grein

05/03/2021

Hann Tóti tölvukall

Að vera snjall í tölvuspili er kannski ekki nóg í dag til að halda í við stafræna þróun allt og um kring, en kannski ákveðinn kostur eins og þegar ofangreint fyrrum topplag kom út með Ladda 1985. Notkun veraldarvefsins og stafrænnar tækni fjórðu iðnbyltingarinnar breytir heiminum. Hún hefur víðtæk áhrif á hagkerfi nútímans og verður samfélögum sífellt mikilvægari.

Samkeppnishæfni Íslands

Stafræn þróun er óumflýjanleg og mannkyninu gagnleg og getur skapað gríðarleg verðmæti. Í slíkri þróun felast í senn mikil tækifæri og hættur og því mikilvægt að undir hana séum við búin. Á það ekki síst við þegar kemur að atvinnulífi, vinnumarkaði og stafrænni hæfni almennings. Íslensk fyrirtæki og almenningur eru ekki nægilega meðvituð og undirbúin undir þær breytingar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Almenningur gegnir fyrst og fremst hlutverki neytenda stafrænnar tækni. Nauðsynlegt er að bæta tækni- og upplýsingalæsi og efla frumkvæði þegar kemur að nýtingu stafrænnar tækni til framþróunar og sköpunar. Ef svo fer fram sem horfir mun staða okkar draga úr samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og þjóðarinnar allrar. Skortur á stafrænni hæfni getur hæglega framkallað samfélagslegan ójöfnuð.

Forðumst tvíverknað

Stafræn þróun hefur áhrif um allt samfélagið. Því er nauðsynlegt að tryggja yfirsýn og samræmingu allra aðgerða helstu hagaðila til að nýta megi samlegðaráhrif til fullnustu, tryggja þekkingaryfirfærslu, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja að ekkert gleymist í þessari mikilvægu vinnu. Í dag vantar m.a. mikið upp á að til staðar séu skýr stefna og aðgerðir varðandi stuðning við fyrirtæki í stafrænni umbreytingu, eflingu stafrænnar hæfni á vinnumarkaði og að efling stafrænnar hæfni sé skýrt og markvisst fram sett í menntastefnu og aðgerðum í menntamálum. Hins vegar má sjá allt þetta skýrt sett fram í fjölmörgum stefnum og aðgerðaáætlunum þeirra landa sem við helst berum okkur saman við, svo sem Norðurlandanna og í löndum sem vel hentar að líta til og læra af í þessum málum, svo sem í Hollandi og Írlandi.

Köllum eftir heildstæðri stefnu

Hvetja þarf og styðja stjórnvöld, sveitarfélög, menntakerfið, atvinnulífið og launþega til að grípa til skjótra, öflugra og markvissra aðgerða í þeim tilgangi að efla stafræna þekkingu og færni og auka þannig tækifæri til nýtingar stafrænnar tækni í íslensku atvinnulífi og samfélaginu í heild í því skyni hefur undirrituð, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, lagt fram tillögu um að skipaður verði starfshópur sem eig að móta heildstæða stefnu um stafræna þróun með aðgerðaáætlun til fimm ára hið skemmsta. Við verðum að tryggja markvisst samstarf og stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar svo tryggja megi áframhaldandi samkeppnishæfni landsins og lífsgæði.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og „takkaóður fjandi“.

Hlekkur á málið á vef Alþingis:

https://www.althingi.is/altext/151/s/0775.html

Categories
Greinar

Sterkir innviðir – góð búsetuskilyrði

Deila grein

05/03/2021

Sterkir innviðir – góð búsetuskilyrði

Í starfi mínu í bæjarstjórn Vesturbyggðar er mér tíðrætt um innviði og uppbyggingu þeirra. Hvers vegna? Segja má að umræða um mál tengd innviðum sé algeng í mínu nærumhverfi þar sem hnignun hafði verið viðvarandi um nokkurt skeið í sveitarfélaginu. Það sem gerist við slíkar aðstæður er að innviðir fúna. Þegar hægðist á fyrrnefndri hningnun og hjólin fóru að snúast í rétta átt – var mikið verk fyrir höndum. Sveitarfélagið réðist í vinnu við að útbúa innviðagreiningu en það þótti nauðsynlegt til þess að átta sig bæði á stöðu innviða sveitarfélagsins og framtíðar þörfum. Brýnt var á þessu stigi að forgangsraða rétt í þeirri uppbyggingu sem framundan var.

Íslensk hagfræðileg skilgreining orðsins innviðir er eftirfarandi; „Atvinnu- og þjónustumannvirki sem mynda undirstöðu efnahagslífs í hverju landi, s.s. orkuveitur, fjarskipta- og samgöngumannvirki, skólar, sjúkrahús o.þ.h.“

Innviðir er nokkuð víðfemt orð og hefur sama gildi í hvaða samfélagi sem er, nauðsyn þess að hafa innviði samfélags í lagi er óumdeild og á allsstaðar við. Innviðir eru grunnstoð þess að hægt sé að stuðla að jafnrétti til búsetu, þeir stuðla að samkeppnishæfni samfélaga, en í þeim efnum er meðal annars brýnt að samgöngumannvirki séu í lagi og að fjarskiptasamband og afhendingaröryggi raforku sé tryggt. Samkeppnishæfni samfélaga á landsbyggðinni er viðkvæm og þarf að standa um hana vörð og tryggja að hún sé bætt á þeim svæðum sem hún er ekki til staðar eða af skornum skammti.

Störf án staðsetningar eru til að mynda nokkuð háð því að ástand innviða sé sem jafnast heilt á litið yfir landsbyggðina. Í nútímasamfélagi ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að allir landshlutar standi jafnir að vígi hvað slík störf varðar. Mörg spennandi tækifæri á sviði tækni og nýsköpunar eru farin af stað og verður gaman að fylgjast með framvindu til dæmis í verkefnum á borð við Orkídeu sem er samstarfsverkefni um nýsköpun á Suðurlandi á vegum Landsvirkjunar, Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, Landbúnaðarháskóla Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. En þar er um að ræða samstarf með að það markmiði að auka verðmætasköpun og gera orkutengdum tækifærum hærra undir höfði á sviði hátæknimatvælaframleiðslu og líftækni. Sambærileg samstarfsverkefni eru EIMUR á Norðurlandi og Blámi á Vestfjörðum.

Ef innviðir eru sveltir verður uppbyggingin gríðarlega erfið og þung þegar hjólin fara að snúast að nýju og úr geta orðið miklir vaxtaverkir sem erfitt getur verið að takast á við.

Því er mikilvægt að næra innviði landsbyggðarinnar jafnt og þétt og leggja alla áherslu á að halda áfram því kraftmikla uppbygginarstarfi sem þegar er hafið. Til þess þarf öfluga forystu fólks með breiðan bakgrunn og djúpan skilning á mismunandi þörfum í fjöldbreyttum samfélagsmyndum.

Iða Marsibil Jónsdóttir, frambjóðandi í 2.-3. sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 5. mars 2021.

Categories
Greinar

Öflug samvinna um farsæld barna

Deila grein

05/03/2021

Öflug samvinna um farsæld barna

Þessa dagana er til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis frumvarp frá Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Með fylgir frumvarp um stofnun Barna- og fjölskyldustofu og frumvarp um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Frumvarpið um samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna hefur fengið góðan undirbúning með aðkomu margra sérfræðinga og hagsmunaaðila í málefnum barna. Breytingarnar sem lagt er upp með eru að efla stuðningsteymi næst barninu og að samhæfing og vöktun á þjónustu allra kerfa tali saman. Gert er ráð fyrir öflugu farsældarráði, samráðsvettvangi sveitarfélagi með ráðgjöf og eftirlitið með þjónustunni er bætt.

Það þarf heilt þorp til að ala upp barn

Þegar barn fæðist færum við því hamingjuóskir með vonum um að því farnist vel í lífinu og megi ganga áfallalítið um lífsins götu. Á fyrstu árum barns er lagður sá grunnur sem einstaklingur byggir líf sitt á. Mikilvægt er að heimilið, skólinn, íþrótta- og félagslífið og heilbrigðiskerfið myndi heildstæða umgjörð. Það þarf að horfa heildstætt á þjónustu allan lífsferil barns til fullorðinsára. Mikilvægt er að ábyrgð og frumkvæðisskylda stjórnvalda sé tryggð á öllum stigum. Til þess að tryggja heildstæða umgjörð þarf að fylgjast með velferð og farsæld barna og foreldra, bregðast við þörf þeirra fyrir þjónustu með skilvirkum hætti strax í upphafi og að tryggja að kerfin tali saman með það að markmiði að þjónusta sé samfelld og samþætt. Um þetta snýst frumvarpið. Það skref sem nú er verið að stíga er mikilvægt til farsældar barna.

Samvinna skilar árangri

Búast má við miklum framförum í þjónustu við börn þegar þetta frumvarp verður að lögum. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið. Hér er um að ræða hugmyndir um að þjónusta við börn verði sniðin með það í huga að nálgast hvert barn með þarfir þess og réttindi í huga. Samvinna aðila sem koma að farsæld barna á eftir að borga sig fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið sjálft. Til að ná hámarksábata með breytingunni þarf að auka forvarnir og snemmbæran stuðning.  Koma í veg fyrir áföll í barnæsku sem skilar sér síðar með því að draga úr frekari áföllum á fullorðinsárum. Vissulega liggur nokkur kostnaður bæði fyrir ríki og sveitarfélög með innleiðingunni en ábatinn til lengri tíma er óumdeildur og fer stigvaxandi meðan fleiri einstaklingar hafa fengið þennan grunn. Hagfræðingar tala um að þetta verkefni flokkist með arðbærari verkefnum sem hið opinbera hefur ráðist í. Mesti  ábatinn er sterkari einstaklingur sem hefur vaxið upp til fullorðinsára samhliða traustu neti þjónustu sem hefur gripið einstaklinginn þegar þörf reyndist. Samvinna skilar okkur betri einstaklingum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknarflokks í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 4. mars 2021.

Categories
Greinar

Landsbyggðin fái opinber störf

Deila grein

05/03/2021

Landsbyggðin fái opinber störf

Störf án staðsetningar hafa verið og eru mikið í umræðunni. Það er opinber stefna að 10% allra atvinnuauglýsinga á vegum ríkis og stofnana verði án staðsetninga árið 2024. Það er gott og mikilvægt markmið sem á að auka tækifæri landsbyggðarinnar ásamt því að jafna tækifæri til atvinnu.

Störf án staðsetningar verða þó að þjóna tilgangi sínum. Slík stefna getur nefnilega virkað öfugt fyrir landsbyggðina. Þessi stefna þarf þannig að skila meira en hún tekur af landsbyggðinni og skila raunverulegum ávinningi samkvæmt markmiðum sínum.

Það þekkja trúlega allir einhverja sem hafa flutt atvinnu með sér frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Slíkt er bagalegt fyrir hina dreifðu byggð. Það getur vissulega verið til bóta fyrir einstaka starfsmenn að hafa slíkt frelsi, en slíkt „frelsi“ getur verið andstætt gegn þeirri stefnu að auka vægi starfa án staðsetningar. Það þarf því að skoða slíka valmöguleika með meiri heildarsýn.

Það þyrfti að mínu mati að koma á regluverki sem passar jöfnuð milli svæða. Það eru ekki allir jafnir í dreifbýlinu, því að á mörgum slíkum stöðum er verulegt atvinnuleysi eða fá og fábrotin atvinnutækifæri. Það er lítið mál að setja á reglugerð um ákveðinn fjölda starfa sem á að auglýsa án staðsetningar, en þarf líka að huga að jafnræði innan þess. Það færi því betur á að svæðaskipta og auglýsa þrengra til að dreifa störfum jafnara um landið með hliðsjón af því hvar eru helstu áskoranirnar.

Gera má ráð fyrir að umsækjendur frá höfuðborgarsvæðinu séu mun fleiri en þeir sem eru frá landsbyggðinni sökum íbúafjölda. Þannig er talsverð pressa fyrir umsækjendur af landsbyggð að komast í gengum fyrstu skoðun og vera taldir í hóp hæfustu umsækjenda í forvalinu. Þurfum við ekki að hugsa þetta þrengra og kannski skilgreina svæði vegna starfa með hliðsjón af dreifingu stöðugilda um landið?

Stærri flutningar starfsstöðva geta verið af hinu góða, eins og hefur verið rætt varðandi aðalskrifstofu RARIK. Það gæti verið lyftistöng fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni, en það má ekki stjórnast eingöngu af því hver er frekastur í hagsmunabaráttu fyrir sitt svæði heldur fremur hvar eru áskoranir og vandi. Ef við skoðum möguleika með þetta ákveðna fyrirtæki þá væri betra að efla núverandi starfsstöðvar um land allt frekar en að hugsa flutning í einni heild á nýjan stað. Það gæti endurvakið þessa öflugu vinnustaði um land allt sem standa nú margir hverjir mjög hallandi fæti með hálf tómar skrifstofur.

Grunnkrafan um störf án staðsetningar er frelsi starfsmanna til að vera með búsetu hvar sem er á landinu. Það er vissulega góð stefna, en það vantar stjórntæki til að jafna tækifæri og möguleika fyrir landsbyggðina, bæði með stærri flutningum á stofnunum sem og við einstaka ráðningar.

Heimsfaraldur hefur kennt okkur að nýta mun betur tækni til atvinnu og samskipta sem við verðum að nota við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Fjarvinna býður upp á mikil tækifæri sem þarf að fanga núna þegar tækifæri gefst til að styrkja byggð. Það er undir okkur landsbyggðarfólki komið að beita okkur fyrir jöfnum tækifærum í þessum málum.

Gunnar Tryggvi Halldórsson, frambjóðandi í prófkjöri Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. mars 2021.