Categories
Greinar

Björt og litrík framtíð myndlistar á Íslandi

Deila grein

04/03/2021

Björt og litrík framtíð myndlistar á Íslandi

Með hækk­andi sól mun fyrsta heild­stæða mynd­list­ar­stefna Íslands líta dags­ins ljós sem mótuð hef­ur verið í nánu sam­starfi við helstu hagaðila í mynd­list á land­inu. Stefn­an mun setja fram heild­stæða sýn fyr­ir mynd­list­ar­líf að vaxa og dafna til árs­ins 2030. Mynd­list hef­ur leikið mik­il­vægt hlut­verk inn­an ís­lensks sam­fé­lags allt frá því snemma á 20. öld og er hratt vax­andi list- og at­vinnu­grein á Íslandi í dag. Á liðinni öld hafa þúsund­ir Íslend­inga numið mynd­list að ein­hverju marki þótt ein­ung­is lítið brot þeirra, eða nokk­ur hundruð, starfi við grein­ina í dag og ein­ung­is hluti þeirra í fullu starfi.

Áhersla í nýrri stefnu verður á fjöl­breytt­an stuðning við list­sköp­un, kennslu í mynd­list og al­menna vit­und­ar­vakn­ingu al­menn­ings um að mynd­list sé fyr­ir alla að njóta. Þá verður stjórn­sýsla og stuðnings­kerfi mynd­list­ar eflt en um leið ein­faldað í þágu ár­ang­urs. Við vilj­um að á Íslandi starfi öfl­ug­ar og sam­stillt­ar mynd­list­ar­stofn­an­ir með þjóðarlista­safn á heims­mæli­kv­arða sem styður með já­kvæðum hætti við alla aðra þætti kraft­mik­ils mynd­list­ar­lífs um allt land og alþjóðlegt orðspor ís­lenskr­ar mynd­list­ar. Mynd­list­armiðstöð tek­ur við hlut­verki Kynn­ing­armiðstöðvar ís­lenskr­ar mynd­list­ar og verður kraft­mik­il miðja stuðnings­kerf­is mynd­list­ar­manna sem vinn­ur með mynd­list­ar­líf­inu. Ný mynd­list­ar­stefna set­ur fram sýn og aðgerðir sem hafa í för með sér hvata til efl­ing­ar á alþjóðlegu mynd­list­ar­starfi hér heima og er­lend­is.

Mynd­list sem at­vinnu­grein á Íslandi stend­ur nú á ákveðnum tíma­mót­um. Ungu fólki fjölg­ar sem kýs að starfa við list­sköp­un, eins og mynd­list­ina, sem er í eðli sínu grein framtíðar, alþjóðleg og sjálf­bær í senn. Stefn­an set­ur fram aðgerðir sem munu auka sýni­leika grein­ar­inn­ar gegn­um mæl­ingu á hag­vís­um henn­ar, ýta úr vegi hindr­un­um og inn­leiða hvata og íviln­an­ir sem styðja við mynd­list­ar­markað. Í ljósi stærðar alþjóðamarkaðar með mynd­list og eft­ir­tekt­ar­verðs ár­ang­urs ís­lenskra mynd­list­ar­manna má ætla að vaxta­tæki­færi mynd­list­ar séu veru­leg. Með auk­inni fjár­fest­ingu hins op­in­bera og einka­geira mun grein­in geta skilað þjóðarbú­inu tals­vert meiri verðmæt­um en hún ger­ir nú. Með fyrstu mynd­list­ar­stefnu Íslands er mótuð framtíðar­sýn sem styðja við já­kvæða sam­fé­lagsþróun auk þess að styðja við mynd­list­ar­líf á Íslandi til framtíðar.

Menn­ing og list­ir hafa gætt líf okk­ar þýðingu á erfiðum tím­um. Mörg stærstu tæki­færa ís­lensks sam­fé­lags og at­vinnu­lífs fel­ast ein­mitt þar. Mynd­list­in er ein þeirra greina sem hef­ur tek­ist á við áskor­an­ir heims­far­ald­urs­ins með aðdá­un­ar­verðum hætti. Söfn, galle­rí og lista­manna­rek­in rými hafa að mestu verið opin og staðið fyr­ir sýn­ing­ar­haldi. Það er löngu tíma­bært að stjórn­völd horfi til framtíðar í mynd­list­ar­mál­um þjóðar­inn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. mars 2021.

Categories
Greinar

ORKUBÚIÐ ER KJÖLFESTUFYRIRTÆKI Á VESTFJÖRÐUM

Deila grein

04/03/2021

ORKUBÚIÐ ER KJÖLFESTUFYRIRTÆKI Á VESTFJÖRÐUM

Á samráðsgátt stjórnvalda má finna drög Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra að aðgerðum til umbóta á regluverki á sviði raforkumála. Þar er sett fram tillaga um að starfshópur hefji könnun á sameiningu RARIK og Orkubús Vestfjarða. Vitnað er í skýrslu Deloitte og bent á að hagræða megi með sameiningu dreifiveitna, og að í því skyni sé fyrsti kostur að sameina RARIK og Orkubú Vestfjarða, í ljósi þess að þær dreifiveitur eru báðar í ríkiseigu.

Orkubú Vestfjarða var stofnað árið 1978 og var þá sameignarfélag sveitarfélaga á Vestfjörðum og ríkisins en frá árinu 2002 hefur Orkubúið verið í fullu í eigu ríkisins og þar með opinbert hlutafélag. Fyrirtækið býr að áratuga reynslu við virkjun vatnsafls og jarðhita og er eina orkufyrirtækið í landinu sem hefur enn bæði dreifingu og sölu raforku á sömu hendi. Fyrirtækið framleiðir um 60% af orkunotkun Vestfjarða og í pípunum eru áætlanir um frekari virkjanir á Vestfjörðum. Við fyrirtækið starfa um 70 manns bæði við framleiðsluna og dreifikerfið og líta Vestfirðingar á fyrirtækið sem kjölfestufyrirtæki í heimabyggð.

Sérstaða Orkubúsins

Sérstaða OV á raforkumarkaði er sú að ekki hefur verið aðskilið að fullu á milli flutningshluta fyrirtækisins, sem er dreifiveitan, frá framleiðslu, öflun og sölu á raforku. Með breytingu á raforkulögum fyrir nokkrum árum var gerð krafa um aðskilnað samkeppnis- og sérleyfisþáttum raforku. Því má ætla að ef að sameiningu Orkubúsins og RARIK verði þá liggi það fyrir að það þurfi að skipta því upp samkvæmt lögum.

Hvert fer samkeppnishlutinn?

Í 40 ára sögu Orkubúsins hefur verið byggð upp mikil þekking og reynsla innan fyrirtækisins. Ef af sameiningu á dreifihlutanum verður hjá Orkubúinu og RARIK er ljóst að áfram verði starfskraftur staðsettur í fjórðungnum eins og nú er til að reka og viðhalda dreifikerfinu. Hinsvegar er ósvarað hvað verði um samkeppnishlutann sem er öflun og sala raforkunnar. Við í Framsóknarflokknum leggjum höfuðáherslu á að sá hluti verði  áfram í þjóðareigu og að yfirstjórn og starfskraftur þess hluta sé áfram á Vestfjörðum. Ekki síst í ljósi þess  að sveitarfélögin á svæðinu lögðu virkjunarréttindi sín inn í Orkubúið við stofnun þess og því má það ekki verða að framkvæmdum og uppbyggingu sé miðstýrt úr Reykjavík eins og þróunin er í alltof mörgum tilfellum.

Orkusalan ehf er dótturfyrirtæki RARIK og sér um framleiðslu og sölumál innan þess. Það er því í eigu ríkisins en er staðsett í Reykjavík. Ef horft væri til þess að sameina samkeppnishluta Orkubúsins við Orkusöluna þá væri upplagt að flytja það sameiginlega fyrirtæki til Vestfjarðar þar sem þekking og starfskraftar eru til staðar. Með því væri starfsemin einnig nær starfssvæðinu sem er eingöngu útá landsbyggðinni.

Framundan eru því umræður um breytingar á Orkubúinu. Stöndum vörð um hlutverk þess og starfsstöðvar og tryggjum að það geti unnið áfram að meiri raforkuöflun og bættu raforkuöryggi á Vestfjörðum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á bb.is 4. mars 2021.

Categories
Greinar

Af toppi Herðubreiðar

Deila grein

01/03/2021

Af toppi Herðubreiðar

Herðubreið er fallegt fjall og merkilegt og útsýnið af toppnum svíkur ekki.

Þegar litið er fjær sést til Vatnajökuls, Tröllasaga, Grímseyjar, út á Langnes og yfir Austfjarðafjallgarðinn. Það sést meira og minna yfir allt Norðausturkjördæmi. Áskoranir og tækifæri blasa við. Mismunandi byggðir og byggðakjarnar. Kjördæmið er stórt og verkefnin krefjandi en áhugaverð.

Sérstaða fái notið sín

Í störfum mínum sem alþingismaður hef ég ávallt unnið að sameiginlegum hagsmunum íbúa en á sama tíma lagt áherslu á að hver byggð fái notið sinnar sérstöðu og geti ræktað hana. Hver byggð er mikilvægur hlekkur, þar er þekking á aðstæðum og auðlindum lands og sjávar og tækifæri til verðmætasköpunar. Hlutverk opinberra aðila er að skapa umhverfi sem stuðlar að því að fólk og fyrirtæki vaxi og dafni.

Til þess þarf tryggar samgöngur, trygga raforku, örugg fjarskipti og aðgang að grunnþjónustu. Það eru grundvallarréttindi að fólk geti valið sér búsetu þar sem það kýs. Fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu jafnar búsetuskilyrði. Leikreglurnar sem hið opinbera setur atvinnulífinu þurfa að taka tillit til ólíkra aðstæðna, hvort sem markmið þeirra er að tryggja jafnræði á markaði, heilnæmi matvara, skynsamlega nýtingu náttúrunnar eða sjálfbærni.

Jafnrétti óháð búestu

Ég legg áherslu á jafnrétti óháð búsetu. Þar skiptir sköpum að aftur er kominn skriður á samönguframkvæmdir. Í Umhverfis- og samgöngunefnd hef ég tekið virkan þátt í mótun áætlana um stórauknar samgönguframkvæmdir. Ég er stolt af þeirri vinnu og nefni sérstaklega Loftbrúna í því samhengi, en með henni bjóðast íbúum landsbyggðarinnar niðurgreidd flugfargjöld innanlands. Framkvæmdir við vegi, brýr, flugvelli og hafnir eru komnar á skrið og þeim þarf að halda áfram að krafti. Það er mín sannfæring að góðar samgöngur eru undirstaða þess að fólk geti valið búsetu þar sem það kýs.

Víðtæk samvinna

Hér í Norðausturkjördæmi er gott að búa og ég álít að við sem hér búum getum gert enn betur með víðtækari og betri samvinnu.

Það var heillandi að horfa yfir af toppi Herðubreiðar hér um árið og í störfum mínum sem Alþingismaður í sex ár hefur verið skemmtilegt að kynnast bæði mann- og atvinnulífi á svæðinu. Ég hef brennandi áhuga á að vinna áfram með íbúum kjördæmisins og að mótun samfélags sem stuðlar að því að íbúar geti gripið öll þau tækifæri sem hér eru til staðar.

Þess vegna sækist ég eftir því að leiða lista öflugra frambjóðenda Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi fyrir næstu kosningar.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 26. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Ný sóknar­færi opnast með störfum án stað­setningar

Deila grein

26/02/2021

Ný sóknar­færi opnast með störfum án stað­setningar

Þrátt fyrir að COVID-19 hafi reynt á okkur öll og samfélagið í heild þá hefur faraldurinn engu að síður opnað augu okkar fyrir tækifærum sem voru fjarlæg áður. Þannig hefur ný sýn nú opnast á að hægt sé að sinna mörgum störfum óháð staðsetningu. Ég verð þess áskynja að ungt fólk í dag horfir í auknum mæli til búsetu á landsbyggðinni. Það fylgja því nefnilega ýmis lífsgæði að búa í fámennari og dreifðari byggðarlögum víða um landið. Fjölmörg sveitarfélög bjóða upp á afburða þjónustu fyrir sína íbúa sem er á pari, og jafnvel betri en það sem gerist á höfuðborgarsvæðinu. Það er skylda okkar sem þjóðar að byggð sé blómleg sem víðast um landið og einn þáttur í því er að tryggja að fólk getið stundað vinnu við hæfi og notið sambærilegra grunnlífskjara óháð búsetu.

Í þessu á hið opinbera að ganga fram með góðu fordæmi og hafa að leiðarljósi að auglýsa öll störf sem möguleg eru án staðsetningar. Í stefnumótandi byggðaáætlun sem samþykkt var á þingi árið 2018 er fjallað um þetta. Þar eru sett fram háleit markmið um að árið 2024 verði 10% allra starfa í ráðuneytum og stofnunum þeirra auglýst án staðsetningar. Ráðuneyti og stofnanir hafa þegar áætlað að mögulegt sé að auglýsa um 890 störf án staðsetningar, eða um 13% allra stöðugilda þeirra. Í áðurnefndri byggðaáætlun eru ráðuneyti einnig hvött til þess að þegar að ný starfsemi hefst á vegum þeirra verði henni valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta eru göfug markmið en því miður hefur hægt gengið að sjá þeim framfylgt. Oft finnst manni meir að segja niðurskurðarhnífur hins opinbera bitna harðast á stofnunum sem nú þegar eru staðsettar á landsbyggðinni og ekki horft til samlegðar áhrif við aðra opinbera þjónustu sem þar er að finna. Nærtækast er að nefna lokun fangelsisins á Akureyri árið 2020 og stundum er hreinlega eins og landsbyggðin passi ekki inní Excel skjalið hjá opinberum stofnunum, eins og ég hef áður fjallað um. Þessu þarf að breyta svo áætlanir um störf án staðsetningar hjá hinu opinbera verði trúverðugar.

En til að einfalda að flytja störf út um landið þarf fleira að koma til en góður vilji – innviðirnir þurfa að vera tilbúnir. Við þurfum að geta tryggt að um allt land sé aðgengi að húsnæði og aðstöðu til að hægt sé að koma upp starfsstöðvum. Í mínum heimahverfi í Fjarðabyggð, Neskaupstað, hefur, sem dæmi, nú verið reist Samvinnuhús (Klasasetur), sem hlotið hefur nafnið Múlinn. Húsið er reist fyrir tilstilli og mikinn myndarskap Samvinnufélags Útgerðarmanna í Neskaupstað og þar hefur starfsfólk hina ýmsu stofnanna og fyrirtækja hvaðanæfa að á landinu komið sér fyrir og myndað glæsilegan vinnustað. Svona lagað skiptir máli því að mikilvægt er að þeir sem kjósa að starfa án staðsetningar, jafnvel í einmenningsstörfum, eigi sér vinnustað. Það eru ekki allir svo heppnir að eiga Samvinnufélag eins og Norðfirðingar sem staðið getur fyrir byggingum á svona klösum. Við þurfum því með öllum tiltækum ráðum að tryggja það að þetta verði hægt sem víðast, í gegnum skattkerfið og jafnvel beinum styrkjum af hendi hins opinbera. Sveitarfélögin um landið þurfa einnig að koma að málum til að koma slíkri uppbyggingu áfram.

Við þurfum einnig að tryggja að fjarskiptakerfið sé undir þetta búið. Í því samhengi þarf að gera átak í því að ljúka við ljósleiðaravæðingu byggðarlaga um allt land. Verkefnið Ísland ljóstengt hefur gengið vel og víða er dreifbýlið orðið vel tengt. Hins vegar vantar enn upp á að þéttbýliskjarnar séu tengdir ljósleiðara og í það verkefni þarf að ganga hið fyrsta, jafnvel stíga inn í það og tryggja þannig góðar tengingar um land allt. Næsta skref okkar á að vera verkefnið Ísland fulltengt!

Landsbyggðin hefur upp á svo margt að bjóða, það er okkar hlutverk að tryggja það að henni verði haldið í blómlegri byggð. Það er mín trú að ef hið opinbera stígur fyrstu stóru skrefin í því mikla verkefni sem störf án staðsetningar eru, munu fyrirtæki á almennum markaði fylgja fast á eftir eins og þau eru reyndar þegar farin að gera.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, ritari Framsóknarflokksins og býður sig fram í annað sætið á lista framsóknarmanna í NA-kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Samvinna bænda í sölu búvara

Deila grein

25/02/2021

Samvinna bænda í sölu búvara

Um aldir voru ýmsar landbúnaðarafurðir helsta útflutningsvara landsmanna, á eftir skreið. Allt fram að stofnun kaupfélaganna, þess fyrsta fyrir 119 árum (20. febrúar 1882), áttu landsmenn sér engin samtök um slík viðskipti heldur kom hver og einn bóndi fyrir kaupmenn með afurðir sínar. Einokunarverslun Danakonungs á tímabilinu 1602–1787 sá um að arður af Íslandsverslun skilaði sér refjalaust í fjárhirslur konungs. Eftir lok einokunar tók við tímabil svokallaðrar fríhöndlunar, sem bannaði Íslendingum að versla við aðra en þegna Danakonungs, en hún leiddi til þess að lífinu var haldið í landsmönnum með lægsta mögulega samnefnara á afurðaverði.

Samvinna bænda á sér langa sögu

Á 19. öld hófst alþjóðleg þróun þar sem framleiðendur ýmiss varnings tóku sig saman og bundust samtökum til að sameina krafta sína. Þessa þróun má rekja allt aftur til 1860, fyrst í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríska-Ungverska keisaradæminu og Bretlandi. Þetta var hluti af alþjóðavæðingu þess tíma. Sauðasala íslenskra bænda var fjárhagsleg lyftistöng til sveita á sínum tíma og grunnurinn að stofnun kaupfélaganna hér á landi. Síðan hefur æði mikið vatn runnið til sjávar. Það vekur nokkra athygli að hlýða á forstjóra Samkeppniseftirlitsins á Íslandi vísa ítrekað til þessarar þróunar á sínum tíma, ekki bara hér á landi heldur líka t.d. í Bandaríkjunum, eins og hann gerði á fundi sem Félag atvinnurekenda stóð fyrir þann 11. febrúar sl. Raunar var að heyra að hann teldi þetta einmitt mjög gott skipulag fyrir afurðasölumál.

Sami forstjóri eða sú stofnun sem hann veitir forstöðu hefur ítrekað tjáð sig um afurðasölumál í landbúnaði. Í umsögn sem stofnun veitti Alþingi sl. haust um þingmál 376 segir m.a.:

„Hafa ber í huga í þessu sambandi að það aðhald sem bændum er kleift að sýna viðsemjendum sínum, þ.e. afurðastöðvum, hefur farið þverrandi. Þannig er t.d. ekki til að dreifa samkeppni í kaupum á mjólk frá bændum, auk þess sem bændur eru ekki lengur eigendur kjötafurðastöðva nema að hluta til og geta því ekki beitt eigendaaðhaldi nema að takmörkuðu leyti.“

Viljandi er Sláturfélag Suðurlands þar talið með fyrirtækjum sem teljast í einkaeigu þó eigendur í A-deild stofnsjóðs (bændur) hafi atkvæðisrétt á stjórnar- og aðalfundum og stjórni þannig fyrirtækinu. Einnig telur Samkeppniseftirlitið Sláturfélag Vopnfirðinga hf., Norðlenska ehf. og Fjallalamb hf. með í þessum hópi þó þau séu að verulegu leyti í eigu bænda eða félaga þeirra. Hið rétta er því að stærstur hluti slátrunar á sauðfé, nautgripum og hrossum fer fram í fyrirtækjum sem eru í eigu og/eða stjórnað af bændum. Bændur reka því enn í dag á samstarfsgrunni fyrirtæki sem sjá um vinnslu og sölu afurða þeirra.

Um stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins

En víkjum aðeins að stjórnsýslu Samkeppniseftirlitsins. Sama dag og yfirlýsingar forstjóra þess um verndaraðgerðir á krepputímum rötuðu á síður Viðskiptablaðsins, birtist í því grein eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, og Maríu Kristjánsdóttur lögmann, þar sem stjórnsýsluframkvæmd Samkeppniseftirlitsins var gerð að umtalsefni. Í þessari grein var m.a. vakin athygli á því að samrunaeftirlit stofnunarinnar byggist, líkt og í Noregi og ESB, á tveimur hlutum – fasa I og fasa II; almennt er gert ráð fyrir því að tilkynntir samrunar fari í fasa I en einungis mál sem komi til með að hafa skaðleg áhrif á samkeppni fari í fasa II. Hin furðulega staða er hins vegar uppi að t.a.m. í bæði Noregi og ESB fara 2-3% tilkynntra samruna í fasa II á meðan hlutfallið hér á landi var að meðaltali tæp 44% á tímabilinu 2017-2020. Ekki er hægt að draga af þessu aðra ályktun en að stjórnsýsla Samkeppniseftirlitsins sé mjög frábrugðin stjórnsýslu systurstofnunar þess í Noregi og framkvæmdastjórnar ESB.

Hvað leggur Samkeppniseftirlitið svo til?

Fyrr er vikið að því að stofnun kaupfélaganna virðist forstjóra Samkeppniseftirlitsins hugleikin. En stofnunin hefur einnig bent á aðrar leiðir fyrir bændur til að styrkja stöðu sína í afurðasölumálum. Í fyrr tilvitnaðri umsögn til Alþingis er bent á að með breytingum á regluumhverfi megi gera bændum betur kleift að „… vinna afurðir sínar sjálfir og bjóða þær neytendum á grundvelli eigin hugvits og nýsköpunar. Með því gætu bændur sýnt bæði kjötafurðastöðvum og dagvöruverslunum aukið aðhald.“

Fákeppni á smásölumarkaði

Þessi nálgun Samkeppniseftirlitsins, sem lausn á því viðfangsefni bænda að kaupendur varanna eru að stærstum hluta tvær smásölukeðjur, hljóma nánast útópískar. Verslanir Haga (Bónus og Hagkaup) auk Krónunnar fara með 76% verslunar á smásölustigi hér á landi. Hvernig dettur forstjóra Samkeppniseftirlitsins í hug að það  bæti stöðu bænda að mæta á pikköppunum sínum á planinu fyrir framan skrifstofur þessa fyrirtækja með kjöt af heimaslátruðu á pallinum? Kjötið þarf að selja sem fyrst því bændur hafa ekki geymslur fyrir það. Ég læt lesendum eftir að geta sér til um niðurstöðuna. Stofnun kaupfélaganna á sínum tíma var einmitt ætlað að vera svar við sambærilegri stöðu. Á sama hátt styður t.d. ESB við það að bændur skipuleggi afurðasölustarf sitt með samvinnu – hefur ESB haft það að stefnu sinni allt frá gerð Rómarsáttmálanna 1958. Sameina þarf slagkraft margra til að mæta fákeppni á smásölumarkaði og samkeppni erlendis frá eins og ríkir hér á landi.

Bætum stöðu íslensks landbúnaðar

Aukið svigrúm landbúnaðar í nágrannalöndum okkar til að skipuleggja samstarf í skjóli undanþága frá samkeppnislögum hlýtur að teljast hluti af samkeppnisforskoti hans gagnvart okkar landbúnaði. Samkeppniseftirlitinu væri nær að benda á þennan óeðlilega mun og hvetja stjórnvöld til að minnka hann, fremur en að freista þess að koma í veg fyrir að hann sé jafnaður að hluta með því að auka lítils háttar svigrúm íslensks landbúnaðar gagnvart samkeppnisreglum.

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Nýr Mennta­sjóður lands­byggðinni í vil

Deila grein

25/02/2021

Nýr Mennta­sjóður lands­byggðinni í vil

Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi sl. vor. Hér er um að ræða heildarendurskoðun námslánakerfisins og miðar að því að jafna stuðning ríkisins til námsmanna. Þessar breytingar eiga sér langan aðdraganda, fyrri menntamálaráðherrum hefur ekki tekist að koma þeim í gegn en Lilja Alfreðs fékk málið í sínar hendur og náði því áfram.

Nýtt nafn á þessu gamla kerfi segir til um hversu miklar breytingar eru gerðar, með þeim erum við að færast nær því sem gerist í nágrannalöndum okkar í þeim efnum og tímabært var að færa nær nútímaviðmiðum.

Helstu breytingar

Helstu nýmælin eru að inn kemur styrkjakerfi, beinn stuðningur og ívilnanir sem eru undanþegnar lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% niðurfærslu af höfuðstól námsláns þeirra ásamt verðbótum, að loknu námi. Þá verður það meginregla að bæði útgreiðsla og afborganir námslána verða mánaðarlegar. Sem styðjandi aðgerðir má nefna beinan stuðning vegna framfærslu barna, en námsmaður á rétt á styrk til framfærslu barns/barna undir 18 ára aldri sem nemur einföldum barnalífeyri á mánuði með hverju barni. Námsmenn sem greiða meðlag með barni undir 18 ára aldri geta einnig fengið styrk vegna meðlagsgreiðslna sem nemur sömu upphæð. Mikilvæg breyting er að ábyrgðamannafyrirkomulag LÍN er afnumið og ábyrgðir á námslánum falla niður að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Byggðasjónarmiðin eru áberandi

Fyrir síðustu kosningar lagði Framsóknarflokkurinn áherslu á að byggðajöfnunaraðgerðir væri að finna sem víðast og hægt væri að beita sérstökum íviljunum vegna afborgana á námslánum og þær séu hagstæðari að hluta fyrir þá sem búa í hinum dreifðari byggðum. Þetta atriðið má finna í reglum hins nýja Menntasjóðs. Þar er að finna heimild til að veita rétt til tímabundinna ívilnana við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina, og vegna endurgreiðsla námslána hjá lánþegum sem eru búsettir og starfa á svæðum sem skilgreind eru í samráði við Byggðastofnun. Uppleggið er að lánþegi sem hefur lokið námi og er búsettur á skilgreindu svæði nýti i menntun sína þar að lágmarki í 50% starfshlutfalli í a.m.k. tvö ár.

Byggð um allt land

Ívilnandi aðgerðir sem stjórnvöld setja eru mikilvægt tæki til að hafa áhrif á byggðaþróun og ekki síst til að hafa áhrif á að efla þjónustu í veikum byggðum og styrkja nærsamfélagið. Í Noregi byggir byggðastefna á því að halda öllu landinu í byggð og áhersla lögð á valfrelsi einstaklinga til að velja sér búsetu. Það er mikilvægt að byggja undir sterka samfélagsgerð og fjölbreytta þjónustu. Í Noregi hafa verið notað ívilnandi skattaaðgerðir til að efla byggð. Þar með talið með niðurfellingu eða lækkun á endurgreiðslu námslána með ágætum árangri. Það verður fróðlegt að fylgjast með næstu ár hvort þessar aðgerðir eigi eftir að skila sér með jafn góðum árangri og hjá frændum okkar í Noregi. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Einstök börn – hjartað í kerfinu

Deila grein

25/02/2021

Einstök börn – hjartað í kerfinu

Undanfarna daga hefur félagið Einstök börn staðið fyrir mikilvægu árveknisátaki undir slagorðinu „Fyrir utan ramma“, en markmið átaksins er meðal annars að auka samfélagslegan skilning á stöðu barna með sjaldgæfa sjúkdóma. Hluti af átakinu hefur falist í því að foreldrar og forráðamenn barna í þessum hópi hafa stigið fram og lýst því að þeim hafi reynst erfitt að eiga við þau stuðningskerfi sem eiga að veita börnunum og fjölskyldum þeirra nauðsynlega þjónustu. Þessi kerfi séu rekin af ólíkum aðilum, ríki og sveitarfélögum, og samskipti milli þessara aðila virðist ekki vera eins markviss og þau gætu verið. Of mikið sé um að foreldrar þurfi að berjast fyrir því að fá nauðsynlega þjónustu, lendi oft á veggjum og brenni út.

Mig langar að þakka Einstökum börnum fyrir starf þeirra og ekki síst fyrir þá mikilvægu brýningu sem árveknisátak þeirra er. Börn og fjölskyldur þeirra eiga ekki að þurfa að upplifa að þau þurfi að berjast við kerfi sem hafa það hlutverk að veita þeim stuðning og ég er sammála því að við, hið opinbera, þurfum að gera betur. Frá því ég tók við embætti ráðherra hefur það einmitt verið mér mikið hjartans mál að tryggja að kerfin okkar starfi saman í þágu barna og fjölskyldna, að þjónusta og stuðningur byggist upp kringum einstaklingana sem þjónustuna þurfa, en að kerfin okkar byggist ekki upp kringum sig sjálf. Í lok árs 2020, með þetta að markmiði, lagði ég fram lagafrumvarp á Alþingi um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Fái það frumvarp jákvæða afgreiðslu Alþingis verður vonandi stigið stórt skref í því að tryggja betri stuðning við börn og fjölskyldur þeirra sem geta þá, í stað baráttu við hin mismunandi kerfi samfélagsins, einbeitt sér að þeim áskorunum sem geta mætt börnum með sjaldgæfa sjúkdóma og fjölskyldum þeirra.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Allir geta lært – en það læra ekki allir eins

Deila grein

23/02/2021

Allir geta lært – en það læra ekki allir eins

Í ís­lensk­um skól­um er gríðarleg­ur kraft­ur og vilji til góðra verka, bæði meðal nem­enda og starfs­fólks. Við vilj­um samt alltaf gera bet­ur og þar vinn­ur margt með okk­ur. Þekk­ing á skóla­starfi hef­ur auk­ist, rann­sókn­ir eru betri og fleiri, tækn­in skap­ar tæki­færi. Staða og náms­ár­ang­ur les­blindra barna er eitt þeirra mála sem hafa verið mér hvað hug­leikn­ust frá því ég tók við embætti mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra árið 2017. Ég trúi því af öllu hjarta að læsi sé lyk­ill­inn að lífs­gæðum og end­ur­spegli hæfni okk­ar til að skynja og skilja um­hverfið og sam­fé­lagið á gagn­rýn­inn hátt. Þess vegna leggj­um við höfuðáherslu á að efla læsi, og á mik­il­vægi þess að mæta öll­um nem­end­um sem glíma við les­blindu og lestr­arörðug­leika. Skiln­ing­ur á eðli les­blindu og áhrifa henn­ar hef­ur auk­ist og það viðhorf fer hverf­andi að sum­ir geti ein­fald­lega ekki lært. Það er skylda og vilji stjórn­valda að hjálpa öll­um börn­um að finna leið til þess að læra, vaxa og blómstra.

Það dug­ar ekki að tala um slík­an vilja, held­ur þurf­um við að setja okk­ur mark­mið og láta hend­ur standa fram úr erm­um. Þess vegna er brýnt að setja metnaðarfulla mennta­stefnu til árs­ins 2030, og inn­leiðing­in er haf­in með skýr­um mark­miðum og aðgerðum til að ná ár­angri! Í mennta­stefn­unni er börn­um og ung­menn­um heitið stuðningi við hæfi sem fyrst á náms­ferl­in­um. Því fyrr sem stuðning­ur­inn er veitt­ur, því betri ár­ang­urs má vænta. Stuðning­ur get­ur beinst að nem­and­an­um sjálf­um eða um­hverfi hans og mik­il­vægt er að laga stuðning­inn að þörf­um viðkvæmra ein­stak­linga og hópa. Á næstu vik­um mun ég leggja til alls­herj­ar-átaks­verk­efni rík­is og sveit­ar­fé­laga, sem felst í því að öll börn á Íslandi fái viðeig­andi stuðning fyr­ir 7 ára ald­ur. Það er for­gangs­mál og sam­taka er það raun­hæft mark­mið.

Þraut­seigja og hug­rekki liggja til grund­vall­ar mennta­stefn­unni. Við meg­um ekki við því að horfa fram hjá kröft­um og hæfi­leik­um allra, því sam­fé­lagið þarf sann­ar­lega á þeim að halda til að vaxa og dafna. Nú á fimmtu­dag­inn verður ný ís­lensk heim­ild­ar­mynd um ungt fólk og les­blindu sýnd á RÚV. Mynd­in er fróðleg og hvetj­andi og von­ir standa til að hún muni vekja umræðu um eðli og al­gengi les­blindu, þau úrræði sem standa til boða og mik­il­vægi þraut­seigj­unn­ar fyr­ir per­sónu­leg­an ár­ang­ur í námi.

Við höf­um áorkað miklu og sjá­um strax já­kvæðar breyt­ing­ar, t.d. með fjölg­un um­sókna í iðnnám, fjölg­un kenn­ara­nema og hækk­un braut­skrán­ing­ar­hlut­falls í fram­halds­skól­um. Það er nóg af verk­efn­um fram und­an, en við get­um engu að síður verið stolt af nem­end­um í ís­lensk­um skól­um, hug­viti þeirra og hug­mynda­flugi, færni og aug­ljós­um sköp­un­ar­krafti. Ef byggt er á styrk­leik­um barna og ung­menna, og við finn­um leiðina sem hent­ar hverj­um og ein­um, þá höf­um við engu að kvíða.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Réttur barna til íþróttaiðkunar

Deila grein

19/02/2021

Réttur barna til íþróttaiðkunar

Árið 1907 tóku lög um skólaskyldu gildi á Íslandi. Samkvæmt ágætri grein Ragnars Þorsteinssonar, fyrrum fræðslustjóra Reykjavíkurborgar, sem kom út í tilefni af 100 ára afmæli laganna var ekki einhugur um útfærsluna í kringum aldamótin þótt flestum hafi verið það ljóst að mikilvægi menntunar fyrir íslensk börn og almenning væri grundvöllur framfara þjóðarinnar til lengri tíma. Mér vitanlega hefur ekki nokkrum Íslendingi dottið í hug að afnema skólaskyldu né láta sér detta sú fásinna í hug að öll börn ættu ekki að hafa sama rétt til menntunar hér á landi óháð efnahag. Við trúum því og treystum að menntun sé hluti mannréttinda okkar og fjárfestingu í menntun barnanna okkar sé vel varið.

Rannsóknir sýna að menntun er ávísun á aukin lífsgæði einstaklinga og samfélaga. Menntun hefur einnig jákvæð áhrif á heilsufar en heilsa okkar er jú eitt það dýrmætasta sem við eigum. Sá sem ekki er við góða heilsu á í erfiðleikum með að njóta annarra þátta daglegs lífs. Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið og því benda rannsóknir til þess að félagsleg umgjörð barna hafi mótandi áhrif á velgengni þeirra á lífsleiðinni. En börn þurfa ekki aðeins menntun. Börn þurfa einnig ást og umhyggju, tækifæri til þess að vera börn og upplifa heiminn í leik og starfi. Börn þurfa að læra samvinnu og öðlast félagsþroska þar sem mikilvægi samstarfs er oft grundvöllur að árangri í lífinu. Börn þurfa virka hreyfingu og þar vega tækifærin til íþróttaiðkunar þungt.

Samkvæmt ÍSÍ má ætla að um 60.000 börn og ungmenni á Íslandi stundi íþróttir en mikilvægi íþrótta er ótvírætt fyrir þroska og heilsu barna auk þess sem forvarnargildi þeirra er staðreynd. Nágrannaþjóðir okkar horfa öfundaraugum á gæði þjálfunar og faglega umgjörð íþróttastarfs hér á landi þar sem áhersla hefur verið lögð á menntun þjálfara og fyrsta flokks aðstöðu. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur um langt skeið lagt mikla áherslu á íþróttir og tómstundir þó svo málaflokkurinn sé ekki lögbundin þjónusta rétt eins og menntakerfið eða velferðarþjónustan. Nýlega var ákveðið að ráðast í gríðarlega metnaðarfulla framkvæmd við Stapaskóla þar sem sundlaug og fullbúið keppnisíþróttahús mun rísa á næstu árum auk þess sem hvatagreiðslur voru hækkaðar og fyrirmyndarsamningar gerðir við íþróttafélögin til þess að efla starf þeirra enn frekar. Fjármunum þessum er vel varið en betur má ef duga skal.

Fyrir rúmri öld var það ákvörðun alþingis að leggja grunninn að menntakerfi okkar til framtíðar. Grunnurinn að íþróttastarfi hér á landi hefur fyrir löngu verið lagður með þrotlausri vinnu sjálfboðaliða en upp á vantar að tryggja öllum börnum og ungmennum gjaldfrjálsar íþróttir hér á landi óháð efnahag þeirra sem að þeim standa. Það er kominn tími til þess að ríkisvaldið viðurkenni mikilvægi íþróttastarfs fyrir lýðheilsu í landinu og fjármagni þennan mikilvæga málaflokk til jafns við sveitarstjórnarstigið. Fyrsta skrefið í þá átt væri mótframlag ríkisins með hverju barni sem stundar íþróttir hér á landi. Langtímaplanið væri svo gjaldfrjálsar íþróttir á Íslandi fyrir öll börn og ungmenni upp að lögaldri. Nánari útfærsla færi fram í samstarfi við íþróttahreyfinguna. Arðurinn af fjárfestingunni væri ómetanlegur til langrar framtíðar.

Jóhann Friðrik Friðriksson, er lýðheilsufræðingur og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. febrúar 2021.

Categories
Greinar

Kæri nágranni!

Deila grein

19/02/2021

Kæri nágranni!

Sem formaður velferðarráðs hef ég fengið að taka þátt í þeirri vinnu að auka lífsgæði í Reykjanesbæ í nánu samstarfi við íbúa og starfsfólk. Fyrir það er ég afskaplega þakklát og stolt af öllum þeim sem ég hef fengið að vinna með í málaflokknum. Við hér í Reykjanesbæ erum lánsöm. Lánsöm af því að hér standa íbúar þétt saman, aðstoða hvern annan og rétta fram hjálparhönd þegar þörf er á. Við erum líka lánsöm því við búum yfir ótrúlegu starfsfólki sem brennur fyrir því að vinna starf sitt af alúð og hefur valið að starfa í málaflokknum af hugsjón. Hugsjón um að það sem þau leggja af mörkum skili sér í því að bæta lífsgæði annarra.

En af hverju leggjum við áherslu á að veita góða velferðarþjónustu? Það er til þess að við íbúar upplifum að öryggisnet sveitarfélagsins grípi okkur þegar við þurfum á því að halda. Öryggi er eitt það mikilvægasta í lífi okkar allra. Við erum á þessari stundu að ganga í gegnum tíma sem eru, eins og margoft hefur komið fram, fordæmalausir. Öryggi hefur sennilega aldrei verið mikilvægara en einmitt núna. Á þessari stundu kemur einnig fram að hlutverk samfélagsins í að tryggja öryggi er gríðarlegt þegar einstaklingar og fjölskyldur sem hafa sjaldan eða aldrei þurft að leita eftir stuðningi sveitarfélagsins þurfa nú að gera einmitt það. Það er á þeirri stundu sem mikilvægt er að minna á að velferðarþjónusta er ekki til staðar eingöngu fyrir ákveðna hópa samfélagsins. Hún er og hefur ætíð verið fyrir okkur öll.

Það er von mín að þú, kæri nágranni minn í Reykjanesbæ, upplifir öryggi og vitir að það er öryggisnet með sterku fagfólki á öllum starfsstöðvum sveitarfélagsins sem stendur þétt við bak okkar þegar á reynir. Næstu mánuðir munu mæta okkur með ýmsum áskorunum. En við höfum sýnt og sannað að við gefumst ekki auðveldlega upp og þegar við stöndum aftur á fætur verðum við enn sterkari. Í okkur býr nefnilega ótrúleg seigla. Við þekkjum það vel að þurfa að hjálpa hvert öðru á fætur og gerum það af miklum kærleika og vináttu. Saman getum við gert það!

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar og varabæjarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vf.is 18. febrúar 2021.