Categories
Fréttir

17. júní ávarp formanns!

Deila grein

17/06/2022

17. júní ávarp formanns!

Kæra Framsóknarfólk!

Upp er runninn sautjándi júní, þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Landið okkar hefur tekið græna litinn sem fer því svo vel. Og það á ekki einungis við tún, hlíðar og skóga heldur hefur græni liturinn færst yfir samfélagið. Sumir tala um grænu bylgjuna þegar rætt er um árangur Framsóknar í kosningunum í haust og vor. Fyrir ári síðan, í byrjun júní, var fylgi Framsóknar að mælast 10,4% sem var örlítið undir fylgi okkar í þingkosningunum 2017. Við höfðum á því kjörtímabili búið við slakar skoðanakannanir. Í september 2020, réttu ári fyrir þingkosningar, mældumst við með 6,7% fylgi í könnun Gallup. En við misstum ekki móðinn, gleymdum ekki erindi okkar og uppruna, heldur héldum ótrauð áfram að berjast fyrir stefnumálum okkar og hugsjónum.

Árangur Framsóknar hefur ekki orðið að veruleika fyrir einhverja heppni. Að baki þessa árangurs er þrotlaus vinna flokksfólks um allt land. Metnaðarfullir frambjóðendur mega síns lítils ef ekki væri fyrir öfluga grasrót sem leggur nótt við dag í kosningabaráttu fyrir þing- og sveitarstjórnarkosningar.

Á þjóðhátíðardaginn 2022 horfi ég stoltur á árangur okkar í Framsókn. Stoltur af því öfluga fólki sem flokkurinn hefur á að skipa um allt land. Stoltur af þeim krafti sem í fólkinu mínu býr, fólki sem gefst aldrei upp, fólki sem vinnur saman að því að bæta samfélagið okkar.

Ég er þakklátur fyrir það að standa í stafni þessa merka umbótaafls sem Framsókn er.

Ég óska ykkur, kæru félagar, gleðilegs þjóðhátíðardags og vona að sumarið verði ykkur gjöfult og gott.

Kær kveðja, Sigurður Ingi

Categories
Greinar

Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi

Deila grein

15/06/2022

Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi

Straum­hvörf urðu í um­hverfi kvik­mynda­gerðar árið 1999 þegar lög um end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar á Íslandi voru samþykkt. Með þeim var rekstr­ar­um­hverfi kvik­mynda­geir­ans eflt með 12% end­ur­greiðslu­hlut­falli á fram­leiðslu­kostnaði hér­lend­is. Síðan þá hef­ur alþjóðleg sam­keppni á þessu sviði auk­ist til muna og fleiri ríki hafa fetað í fót­spor Íslands þegar kem­ur að því að auka sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­geir­ans með það að mark­miði að laða að er­lend verk­efni og efla inn­lenda fram­leiðslu. Það er í takt við þá áherslu stjórn­valda víða í heim­in­um að efla skap­andi grein­ar og hug­vits­drif­in hag­kerfi sem skara fram úr.

Það er skýr sýn rík­is­stjórn­ar­inn­ar að Ísland eigi að vera í far­ar­broddi í því að efla skap­andi grein­ar og hug­verka­drif­inn iðnað. Með það í huga er ánægju­legt að segja frá að frum­varp um hækk­un end­ur­greiðslu­hlut­falls úr 25% í 35% í kvik­mynda­gerð er nú á loka­metr­um þings­ins. Mark­mið þess er að styðja enn frek­ar við grein­ina með hærri end­ur­greiðslum til að stuðla að því að fleiri stór verk­efni verði unn­in al­farið á Íslandi. Verk­efn­in þurfa að upp­fylla þrjú ný skil­yrði til að eiga kost á 35% end­ur­greiðslu. Í fyrsta lagi verða þau að vera að lág­marki 350 m.kr að stærð, starfs­dag­ar hér á landi þurfa að vera að lág­marki 30 og fjöldi starfs­manna sem vinna beint að verk­efn­inu þarf að vera að lág­marki 50.

Mark­mið laga­setn­ing­ar­inn­ar frá 1999 hef­ur gengið eft­ir en um­svif kvik­mynda­gerðar hafa auk­ist all­ar göt­ur síðan. Kvik­mynda­gerð hef­ur verið áber­andi í ís­lensku menn­ing­ar- og at­vinnu­lífi og hef­ur velta grein­ar­inn­ar þre­fald­ast und­an­far­inn ára­tug og nem­ur nú um 30 millj­örðum króna á árs­grund­velli en vel á fjórða þúsund starfa við kvik­mynda­gerð. Sí­fellt fleira ungt fólk starfar við skap­andi grein­ar eins og kvik­mynda­gerðina enda er starfs­um­hverfið fjöl­breytt og spenn­andi og ýmis tæki­færi til starfsþró­un­ar hér inn­an­lands sem og er­lend­is. Þá er einnig óþarft að telja upp öll þau stór­verk sem tek­in hafa verið upp að hluta hér á landi með til­heyr­andi já­kvæðum áhrif­um á ferðaþjón­ust­una og ímynd lands­ins. Þannig kom til dæm­is fram í könn­un Ferðamála­stofu frá sept­em­ber 2020 að 39% þeirra sem svöruðu sögðu að ís­lenskt lands­lag í hreyfi­mynda­efni, þ.e. kvik­mynd­um, sjón­varpsþátt­um og tón­list­ar­mynd­bönd­um, hefði m.a. haft áhrif á val á áfangastað.

Hærra end­ur­greiðslu­hlut­fall hér á landi mun því valda nýj­um straum­hvörf­um í kvik­mynda­gerð hér á landi og auka verðmæta­sköp­un þjóðarbús­ins. Með kvik­mynda­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 hafa stjórn­völd markað skýra sýn til að ná ár­angri í þess­um efn­um – enda hef­ur Ísland mannauðinn, nátt­úr­una og innviðina til þess að vera framúrsk­ar­andi kvik­mynda­land sem við get­um verið stolt af. Ég er þakk­lát fyr­ir þann þver­póli­tíska stuðning sem er að teikn­ast upp við málið á Alþingi Íslend­inga og er ég sann­færð um að málið muni hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 15. júní 2022

Categories
Fréttir

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu

Deila grein

14/06/2022

Ísland á að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður Þingflokks Framsóknar, sagði í umræðu um Rammaáætlun á Alþingi í dag að til að geta leyst farsællega úr misflóknum verkefnum verði að hafa þá eiginleika að geta horft til allra átta og geta átt gott samtal og samvinnu.

Rammaáætlun er mikilvægt stjórntæki, eitt af mörgum sem varðar vernd svæða og orkunýtingu, sem vert sé að halda í, efla og styrkja frekar. Hins vegar liggja fyrir fjölmargar athugasemdir um nauðsyn þess að löggjöfin verði endurskoðuð.

Samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun verði endurskoðuð frá grunni til að tryggja ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd virkjunarkosta á Íslandi. Í ljósi reynslunnar er mikilvægt að í þá endurskoðun verði ráðist án tafar. Við þá endurskoðun skiptir höfuðmáli að skapa traust á því ferli sem rammaáætlun er, útrýma tortryggni og auka sátt um einstaka virkjunarkosti og forsendur fyrir því að ráðist yrði í nýtingu og vernd þeirra. Enn fremur er mikilvægt að endurskoðað ferli stuðli að markmiðum um orkuöryggi, orkusjálfstæði og sjálfbærni í takt við orkustefnu Íslands.

Ræða Ingibjargar Isaksen:

„Virðulegi forseti!

Ábyrgð okkar sem störfum hér á Alþingi er mikil og fyrir okkur liggja mörg misflókin verkefni. Til að geta leyst farsællega úr þeim þurfum við að hafa þá eiginleika að geta horft til allra átta. Hvort sem er til nútíðar, fortíðar en ekki síður til framtíðar. Að geta átt gott samtal og samvinnu verður oft og tíðum til þess að niðurstaða næst í flókin verkefni – svo var í vinnu tengdum svokölluðum ramma.

Allt í frosti frá 2013

Saman höfum við í umhverfis- og samgöngunefnd loksins náð sátt um ramman sem segja má að legið hafi í frosti allt frá árinu 2013. Þýðingarmikil og langþráð sátt og samstaða hefur nú verið náð, en fyrir nefndina hafa komið fjölmargir gestir og þakka ég þeim fyrir góð innlegg og umræður.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og ætlum okkur að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Við höfum jafnframt sett okkur markmið um að Íslands nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftslagsvánni. En svo þeim markmiðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálfbærri þróun að leiðarljósi. Okkar hlutverk er að nýta ekki meira en við þurfum, huga að sjálfbærni og umhverfisvænni lifnaðarháttum. Það er brýnt að við temjum okkur betra og heilbrigðara neyslumynstur.

Mikilvægt er að sátt ríki um þær virkjanir sem þarf til þess að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins samhliða því að horft sé til betri orkunýtingar, þá þarf að koma í veg fyrir tap á orku úr orkukerfinu ásamt því að bæta nýtingu á þeim virkjunum sem fyrir eru.

Ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma

Rammaáætlunin er mikilvægt stjórntæki sem varðar vernd svæða og orkunýtingu og sem vert er að halda í og styrkja enn frekar. Hún nær yfir helstu orkulindir landsins og í meðferð hennar á að taka tillit til ólíkra hagsmuna á breiðum grundvelli. Rammaáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi.

Mikilvægt er að þróa áfram þetta góða verkfæri okkar í ljósi breyttra áherslna í ferðaþjónustu, samfélaginu, skuldbindingum Íslands og stöðu í heimsmálum.  Ég fagna því að samstaða hafi loks náðist um þau atriðið sem tiltekin eru í nefndaráliti, það er vissulega ekki sjálfgefið.

Stór hluti af landinu er nú þegar í nýtingu eða vernd sem einnig telst til nýtingar. Það er mikilvægt að við nýtum landið okkar af varfærni því við viljum að komandi kynslóðir fái að njóta ósnortinnar náttúru. Okkar dýrmætasti arfur til komandi kynslóða er hrein og tær náttúra, en svo við getum skilað af okkur arfinum með þeim hætti þurfum við að skipuleggja hvernig við göngum um náttúru landsins með skýrri framtíðarsýn.

Vernd og friðun á tilteknum landsvæðum er góðra gjalda verð, en gæta þarf varúðar þegar ákveðið er að friðlýsa stór svæði til framtíðar. Enn er ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma og það er ekki okkar að taka ákvarðanir um það fyrir komandi kynslóðir. Þó að við hér tökum ekki ákvarðanir að friðlýsa tiltekin svæði þýðir það þó ekki að við höfum fyrirætlanir að nýta þau, heldur skiljum við þær ákvarðanir eftir fyrir þingmenn framtíðarinnar.

Orkusjálfstæði þjóða verður sífellt mikilvægara í kvikum heimi og nauðsynlegt að þjóðir geti brugðist hratt við breyttum forsendum.

Í þessu samhengi má þar nefna virkjunarkostir í Skjálfandafljóti, þ.e. Fljótshnúksvirkjun, Hrafnabjargavirkjun A, B og C, en þeir eru í verndarflokki samkvæmt fyrirliggjandi tillögu og telur meiri hlutinn ekki tilefni til að leggja til breytingar á því. Skjálfandafljót er eitt af þeim svæðum þar sem leggja þarf mat á friðlýsingu heilla vatnasviða samhliða endurskoðun á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ekki er rétt að taka ákvörðun um friðlýsingu heilla vatnasviða fyrr en þetta mat liggur fyrir.

Þá hefur í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans kostum í biðflokki verið fjölgað. Betra fer á því að virkjunarkostir séu flokkaðir í biðflokk heldur en verndar eða nýtingarflokk á meðan frekari gagna er aflað. Mikilvægt er að samfélagsleg áhrif og óvissa um raunveruleg áhrif framkvæmda á náttúru og lífríki liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um hvort svæði eigi að fara í verndar eða nýtingarflokk.

Það að svæði séu flutt í biðflokk þýðir ekki að þau séu sjálfkrafa komin í nýtingarflokk eða verndarflokk heldur er verið að endurmeta og endurskoða þessa kosti, það er langt síðan að fyrri verkefnastjórn gerði tillögu um þessi svæði og síðan hefur margt breyst.

Þá hafa einnig kostir sem ekki áttu heima í biðflokki verið teknir út. Athugasemdir komu fram að fjölmarga virkjunarkosti væri að finna í biðflokki áætlunarinnar sem enginn virkjunaraðili hafi óskað eftir mati á. Má þar nefna meðal annars virkjunarkosti á Torfajökulssvæðinu, í laxveiðiám á Austurlandi og aðra kosti sem Orkustofnun hefur að eigin frumkvæði og á grundvelli heimildar í lögum nr. 48/2011 falið verkefnisstjórn að fjalla um.

Um er að ræða 28 virkjunarkosti, ýmist til nýtingar vatnsafls eða jarðhita. Ástæða þess að viðkomandi virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk er fyrst og fremst sú að ekki eru til nægjanleg gögn um viðkomandi virkjunarkost og því ekki nægilegar forsendur til að hægt sé að leggja til flokkun í verndarflokk eða nýtingarflokk.

Á meðan virkjunarkosturinn flokkast í biðflokk eru hins vegar takmörk lögð á aðra landnýtingu á svæðinu. Þannig eru dæmi um að ekki sé hægt að friðlýsa virkjunarkosti í verndarflokki gegn orkuvinnslu þar sem virkjunarkostur innan sama svæðis er í biðflokki.

Því mætti segja að viðkomandi virkjunarkostur sé að vissu leyti fastur í biðflokki þar sem enginn virkjunaraðili er að vinna í þróun hans, og þar á meðal öflun nauðsynlegra gagna til að hægt sé að leggja til endanlega flokkun í vernd eða nýtingu. Því leggur meiri hlutinn til sem hluti af þeirri sátt sem mikilvægt er að náist um áætlunina að fella þessa tilteknu kosti úr áætluninni þar sem enginn virkjunaraðili stendur að baki þeim. Þetta tel ég vera mikilvægt og nauðsynlegt skref.

Framtíðin býr í vindinum

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru. Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli og jarðvarma, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosti fyrir raforkuvinnslu.

Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu. Í fyrirliggjandi tillögu er í fyrsta sinn að finna virkjunarkosti í vindorku. Vindorkukostinum í Búrfellslundi er raðað í biðflokk í fyrirliggjandi tillögu með þeim rökum að hann sé á röskuðu svæði sem hafi lágt verndargildi en áhrif hans á ferðamennsku og útivist séu hins vegar mikil.

Meirihluti nefndarinnar leggur þó til að virkjunarkosturinn verði færður úr biðflokki í nýtingarflokk með þeim rökum að virkjunarkosturinn er á hendi opinbers fyrirtækis og á svæði sem er þegar raskað og með lágt verndargildi. Auk þess sem sjónræn áhrif eru töluvert minni en upphaflega var áætlað. Þá telur meirihlutinn að Búrfellslundur geti verið mikilvægur hluti þess að tryggja betur nýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem fyrir eru á svæðinu auk þess sem það rennir styrkari stoðum undir orkuöryggi.

Öll sú orka sem býr í vindinum getur verið lykilþáttur þegar kemur að því að tappa af þeim þrýstingi sem skapast hefur á kerfið síðustu ár vegna tafa í afgreiðslu á rammanum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að setja eigi sérstök lög um nýtingu vindorku með það að markmiðið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera. Leggja á áherslu á að vindorkuver byggist upp á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum þar sem unnt verður að tryggja afhendingaröryggi og lágmarka umhverfisáhrif. Framtíðin býr svo sannarlega í vindinum.

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildarorkunotkun og við Íslendingar gerum. Af því getum við verið stolt. Langan tíma tekur að virkja nýja orkukosti, langtímaáætlanir þurfa að gera ráð fyrir orkukostum til að mæta framtíðarþörfum og auka þannig fyrirsjáanleika og stöðugleika. Því skiptir gríðarlegu máli að sátt hafi náðst um þann ramma sem við leggjum fram hér í dag. Takk fyrir góða vinnu.“

Categories
Fréttir

Störf þingsins: Stefán Vagn og Ágúst Bjarni

Deila grein

14/06/2022

Störf þingsins: Stefán Vagn og Ágúst Bjarni

Stefán Vagn Stefánsson og Ágúst Bjarni Garðarsson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag.

Stefán Vagn ræddi löggæslumál og stöðu löggæslunnar á Íslandi. Fór hann yfir að mat sitt væri að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. En það veki undrun sína með nýju lögregluráði að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Mikilvægt væri að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.

Ágúst Bjarni sagði það mikilvægt og nauðsynlegt að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt, samvinnuverkefnið milli ríkis og sveitarfélaga og sagðist hann fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Nefndi hann að spennan sem er nú á markaðnum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, hafi margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spennt bogann og hækkandi vaxtastig hafi haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Vill hann hvetja sveitarfélög til að stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafi til þess fullt vald.

Stefán Vagn Stefánsson í störfum þingsins:

„Virðulegur forseti. Það sem mig langar að gera að umtalsefni mínu hér í ræðu í dag eru löggæslumál og staða löggæslunnar á Íslandi. Sá málaflokkur er reyndar efni í umræðu í heilan dag en mig langar að taka eitt mál sérstaklega til umfjöllunar úr þeim fjölmörgu álitaefnum sem koma til greina þegar lögreglan er annars vegar.

Sameining lögregluembættanna og aðskilnaður við sýslumenn 2015 var mikið framfaraskref fyrir lögregluna. Ég vil meina að þær breytingar að lögregluembættin fengu sérstakan lögreglustjóra hafi verið mikið gæfuspor og lyft lögreglunni og löggæslunni upp á annan og miklu betri stall. Þær breytingar tókust almennt vel þó svo að í slíkum breytingum séu alltaf einhverjir hnökrar sem þarf að laga, en núna árið 2022 eru þeir flestir ef ekki allir í baksýnisspeglinum. Engin stofnun er þó sterkari en starfsfólkið sem í henni starfar. Mikill mannauður er í lögreglunni og það er mikilvægt að hlúa vel að starfsmönnum og tryggja að þeir geti þroskast og eflst í starfi, sér og embættunum til framdráttar. Með nýju lögregluráði var komið á samstarfsvettvangi lögreglustjóra um framtíð og stefnu löggæslunnar til komandi ára. Það er vel. Það er þó eitt sem vekur undrun mína og hefur gert frá stofnun lögregluráðs, það er einfaldlega sú staðreynd að ekki er einn einasti lögreglumaður í því lögregluráði. Það er mikilvægt að rödd lögreglumanna fái að heyrast á slíkum samráðsvettvangi þegar verið er að ræða um framtíð og stefnu lögreglunnar til komandi ára.

Virðulegur forseti. Ég skora á dómsmálaráðherra að gera bragarbót á því og tryggja að rödd lögreglumanna, fagstéttarinnar, fái að heyrast í lögregluráði í framtíðinni og gera breytingar sem til þarf á lögregluráði svo lögreglan muni eiga fulltrúa þar í framtíðinni.“

***

Ágúst Bjarni Garðarsson í störfum þingsins:

„Virðulegur forseti. Ég vil gera stöðuna á húsnæðismarkaði að umtalsefni mínu og hef svo sem gert það áður í þessum ræðustól. Það er mikilvægt í ljósi þeirrar stöðu sem við öll stöndum frammi fyrir og það er nauðsynlegt og samvinnuverkefni milli ríkis og sveitarfélaga að tryggja hér öfluga uppbyggingu um land allt. Ég fagna þeim aðgerðum sem ríkið hefur boðað í þeim efnum til að tryggja að svo verði. Það þarf að stytta alla ferla — ég þekki það bara af eigin raun og ég held að við könnumst öll við það sem hér erum inni — án þess auðvitað að það bitni á vinnubrögðum framkvæmdaraðila. Í þessu samhengi er mikilvægt að treysta þær stofnanir sem mikilvægar eru svo tillögur að uppbyggingu fái sanngjarna og faglega meðferð og afgreiðslu. Við sjáum það öll að það álag sem er nú á markaðnum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, hefur margvísleg áhrif á heimili og stöðu þeirra. Ákveðnir hópar hafa verið að stækka við sig og spenna bogann, ef svo má segja, og hækkandi vaxtastig hefur haft veruleg áhrif á mánaðarlegar greiðslur þess hóps og auðvitað annarra. Við sjáum það núna á nýlegri hækkun á miklu fasteignamati og ég held að það sé rétt í því sambandi að hvetja sveitarfélög til að stíga þar inn og — hvað segir maður? — éta þessa hækkun ekki í einum bita heldur stilla álagningarstuðulinn af með þeim hætti að hækkunin bitni ekki öll á íbúum sveitarfélaganna. Sveitarfélögin hafa til þess fullt vald.“

***

Categories
Greinar

Gerum bæinn okkar að snyrtilegasta bæ landsins með sameiginlegu átaki

Deila grein

13/06/2022

Gerum bæinn okkar að snyrtilegasta bæ landsins með sameiginlegu átaki

Þau sem hafa starfað með mér í pólitík vita að umgengnismál í umhverfi okkar brenna á mér. Þess vegna fagna ég því að í málefnasamningi meirihlutans sé komið inn á þetta þó ég hefði viljað sjá kveðið fastar að orði. Það þarf að kortleggja hvar ábyrgðin liggur og hvaða verkferlum við getum beitt. Gámar með útrunnin stöðuleyfi, númeralausir bílar út um allan bæ, iðnaðar- og atvinnulóðir fullar af drasli og dóti sem ætti frekar heima innandyra eða í förgun heyra vonandi bráðlega sögunni til. Atvinnustarfsemi og íbúðabyggð verða að geta farið saman ef við ætlum að halda áfram að byggja hér upp sterkt atvinnusvæði.

Ég settist í umhverfis- og mannvirkjaráð fyrir áramót og talaði þar fyrir því að farið væri í úttekt á þessum málum. Þegar ráðið tók fyrir fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra þann 11. febrúar síðastliðinn var bókað: ,,Óskar ráðið eftir því að upplýsinga sé aflað um heimildir og ábyrgðarskiptingu milli umhverfis- og mannvirkjasviðs, þjónustu- og skipulagssviðs og heilbrigðiseftirlitsins”. Enn hefur ekkert sést af þeirri vinnu en nauðsynlegt er að kortleggja hvar ábyrgðin liggur nákvæmlega.

Umræðan í bænum verður sífellt háværari

Við í Framsókn heimsóttum fjölda fyrirtækja í vor og bar þetta málefni oftar en einu sinni á góma. Í einu iðnaðarhverfinu spurði mig eigandi fyrirtækis hvort við ætluðum ekki að gera eitthvað í þessum málum. Bærinn væri að kafna úr rusli og bætti við að um leið og honum yrði gert að taka til á lóð sinni myndi hann hiklaust gera það. Þetta þarf bara að koma við veskið hjá fólki sagði hann.

Það hlýtur að vera hluti af markaðssetningu bæjarins að gera gangskör í þessum málum og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja að hafa snyrtilegt í kringum sig og sjálfsagður hluti af þeirra markaðssetningu. Sem betur fer eru mörg fyrirtæki í bænum sem ganga mjög snyrtilega um og eru öðrum til fyrirmyndar og því skal haldið til haga að Akureyrarbær er alls ekki saklaus hér.

Hvað getum við gert?

Þegar umhverfis- og mannvirkjaráð fékk kynningu á drögum af nýsamþykktri umhverfis- og loftlagsstefnu benti ég á að umgengnisþátturinn fengi alltof lítið vægi og svo aftur á vinnufundi með bæjarstjórn um stefnuna. Lagði ég til að bætt yrði við sjötta kaflanum sem tæki á umgengni en því miður fékk það ekki hljómgrunn. Meginstefið í stefnunni eru loftlags- og úrgangsmál sem er vel en það eina sem ég fann sem kemst næst því sem ég tala um er: ,,Til að bæta nærumhverfi íbúa er mikilvægt að reglulega fari fram hreinsunarátak í bænum” Þetta snýst ekki um reglulegt hreinsunarátak, við þurfum að breyta umgengninni til framtíðar og koma upp verkferlum til þess.

Nú er verið að auglýsa starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og ætla ég alls ekki að kasta rýrð á það starf sem þar er unnið en með nýju fólki koma oft nýjar áherslur. Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra er að finna samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Verkfærið virðist vera til og nú verðum við að sýna þor til að beita þessari samþykkt og leita annarra lausna í bland við hana til að hreinsa bæinn okkar.

Nýsamþykkt umhverfis- og loftlagsstefna: https://fundargatt.akureyri.is/meetingsearch/displaydocument.aspx?itemid=D3cao4JFs0qFOXlkdcBlQQ&meetingid=e73HToNif0uYXtIOyP4e8g1&filename=Umhverfis-og%20loftlagsstefnan%20mai%202022.pdf&cc=Document

Samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra: https://www.hne.is/static/files/HNE/Samningar/samthykkt-um-umgengni-og-thrifnad-utan-huss-a-starfssvaedi-hne-nr.-463-2002.pdf

Sunna Hlín Jóhannesdóttir er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. júní 2022.

Categories
Greinar

Á­fram veginn á Vest­fjörðum

Deila grein

13/06/2022

Á­fram veginn á Vest­fjörðum

Við Vestfirðingar líkt og íbúar annarra landshluta erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir nú enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og útséð með að sú þróun komi til með að breytast næstu áratugi.

Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að bið eftir samgöngubótum en nú er útlit fyrir að þeir sem búa og stafa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. Framkvæmdir síðustu fimm ára eru þakkaverðar en við Vestfirðingar verðum þó ávallt að vera í baráttugírnum ef við viljum komast til jafns við aðra landshluta hvað varðar nútíma samgöngur.

Milljarða framkvæmdir

Tuttugu milljarð króna metnaðarfullar og langþráðar samgönguframkvæmdir á Vestfjörðum eru nú á áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við 5 ára samgönguáætlun 2020-2024. Á þessu fimm ára tímabili verður fjárfest í vegaframkvæmdum fyrir 18,2 milljarða kr., höfnum og sjóvörnum fyrir tæpan 1,5 milljarð kr. og flugvöllum fyrir 212 milljónir kr. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir.

Já tölum um Dynjandisheiðina

Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi yfir Dynjandisheiði eru nú þegar hafnar. Nýlega var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024, frá Norðdalsá og um háheiðina sem skal vera lokið árið 2024. Þá er lokið fyrsta áfanga, þegar unnir voru 12 km kaflar annars vegar við Þverdalsá og hins vegar kafli fyrir Meðalnesið. Þegar þessum hluta er lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á um 25 km kafla.

Frá opnum Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt halda veginum um heiðina opnum yfir verstu veðramánuðina. Þessi uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður og suðursvæðisins allt árið um kring.

Vegabætur í Gufudalssveit

Þá er enn eitt stórverkefnið hafið í Gufudalssveit og það hillir undir að vegur um Teigskóg verði loksins að veruleika. Vinna er hafin við veginn og þar með er séð fyrir endann á áratuga deilu um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun.

Víðar er unnið að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla í þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir þjóðina í heild sinni, hvort sem það er vegna verðmætra þjóðartekna sem verða til á Vestfjörðum, byggðasjónarmiða eða ferðaþjónustu. Allt hjálpar þetta hvort öðru.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2022

Categories
Greinar Uncategorized

Bréf frá Íslandi

Deila grein

13/06/2022

Bréf frá Íslandi

Um þess­ar mund­ir er þess minnst að 250 ár eru liðin frá merk­um vís­inda­leiðangri sem Eng­lend­ing­ur­inn sir Joseph Banks leiddi til Íslands árið 1772. Með hon­um í för og einna fremst­ur þeirra vís­inda­manna sem þátt tóku í leiðangr­in­um var hinn sænski Daniel Soland­er, nátt­úru­fræðing­ur og fyrr­ver­andi nem­andi Linnæ­us­ar við Upp­sala­há­skóla.

Daniel Soland­er fædd­ist árið 1733 í Norður­botni og það kom brátt í ljós að hann var góðum hæfi­leik­um bú­inn. Soland­er er lýst af sam­tíma­fólki sem vin­sæl­um og heill­andi manni sem klædd­ist iðulega lit­rík­um fatnaði. Að loknu námi í Upp­söl­um leiddi vís­inda­starfið Soland­er til Lund­úna þar sem hann hóf störf við Brit­ish Muse­um sem sér­fræðing­ur í flokk­un­ar­kerfi Linnæ­us­ar. Í kjöl­farið varð hann jafn­framt sam­starfsmaður Josephs Banks, hins fræga enska nátt­úru­fræðings. Áður en af Íslands­för­inni varð tóku þeir Banks meðal ann­ars þátt í mikl­um land­könn­un­ar­leiðangri um Kyrra­hafið með Cook kaf­teini og varð Soland­er þá fyrst­ur Svía til að sigla um­hverf­is hnött­inn.

Sir Lawrence, skipið sem bar leiðang­urs­menn frá Bretlandi, sigldi þann 29. ág­úst inn Hafn­ar­fjörð. Soland­er hélt rak­leiðis til Bessastaða á fund stift­amt­manns og amt­manns og hétu emb­ætt­is­menn­irn­ir full­um stuðningi við leiðang­ur­inn. Sir Lawrence fékk m.a. leyfi til að kasta akk­er­um í Hafnar­f­irði, en til þess þurfti leyfi vegna ein­ok­un­ar­versl­un­ar Dana sem enn var við lýði.

Ferðalöng­un­um var tekið með kost­um og kynj­um hér á landi. Þeir nutu fé­lags­skap­ar frammámanna í sam­fé­lag­inu, stunduðu nátt­úru­rann­sókn­ir, söfnuðu ýms­um rit­heim­ild­um og skrá­settu jafn­framt líf og aðbúnað í land­inu í máli og mynd­um. Einn af hápunkt­um leiðang­urs­ins var ferð um Suður­land þar sem m.a. var gengið á Heklu.

Hinn 9. októ­ber 1772 sigldi Sir Lawrence aft­ur frá Hafnar­f­irði og áleiðis til Bret­lands með gögn um nátt­úru, sam­fé­lag og sögu. Þessi til­tölu­lega stutta heim­sókn til Íslands markaði djúp spor.

Með í leiðangr­in­um til Íslands var Uno von Troil sem síðar varð erki­bisk­up í Upp­söl­um. Hann skrifaði bók um ferð þessa, Bref rör­ande en resa till Is­land eða Bréf frá Íslandi, sem var gef­in út árið 1777. Bók Uno von Troil var næstu ár á eft­ir þýdd á þýsku, ensku, frönsku og hol­lensku. Bók­in seld­ist vel og var prentuð í nokkr­um up­p­lög­um. Lýs­ing hans á Íslandi hafði mik­il áhrif í Evr­ópu 18. ald­ar og vakti áhuga ná­granna okk­ar á landi og þjóð.

Áhrifa leiðang­urs­ins varð ekki síst vart í Svíþjóð, þar sem Bréf frá Íslandi átti þátt í að skapa til­finn­ingu fyr­ir djúp­um tengsl­um þjóðanna, í gegn­um tungu­mál, sögu og menn­ingu. Sam­bland af sögu­legri teng­ingu Íslands og Svíþjóðar, for­vitni og fé­lags­lynd­um eig­in­leik­um Soland­ers og von Troils ásamt ein­stakri þekk­ingu þeirra skipti sköp­um fyr­ir leiðang­ur­inn. Menn­irn­ir tveir mynduðu sterk tengsl við ís­lensku gest­gjaf­ana í gegn­um sam­eig­in­leg­an bak­grunn í nor­rænu tungu­máli, menn­ingu og sögu.

Í sam­starfi við menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið mun sænska sendi­ráðið standa fyr­ir mik­illi dag­skrá tengdri rann­sókn­ar­ferð Daniels Soland­ers sem mun standa yfir í tvö ár með þátt­töku um 30 ís­lenskra sam­starfsaðila. Þema verk­efn­is­ins er Soland­er 250 – Bréf frá Íslandi. Tíma­móta­árið ein­kenn­ist af nánu sam­tali lista og vís­inda. Það er þver­menn­ing­ar­legt og opn­ar á sam­tal milli norður­skauts- og Kyrra­hafs­svæðis­ins og inn­an Norður­landa. Tíma­móta­árið lít­ur jafn­framt fram á við, inn í sam­eig­in­lega framtíð okk­ar. Verk­efnið snýst um sam­tal vinaþjóðanna Íslend­inga og Svía um sam­eig­in­lega sögu, sem og lofts­lag, nátt­úru og menn­ingu í fortíð, nútíð og framtíð.

Ein­stök lista­sýn­ing er horn­steinn tíma­móta­árs­ins. Í sam­starfi við Íslenska grafík hef­ur tíu ís­lensk­um lista­mönn­um verið boðið að hug­leiða Ísland, Soland­er og leiðang­ur­inn árið 1772. Lista­menn­irn­ir sem taka þátt í því eru Anna Lín­dal, Aðal­heiður Val­geirs­dótt­ir, Daði Guðbjörns­son, Gíslína Dögg Bjarka­dótt­ir, Guðmund­ur Ármann Sig­ur­jóns­son, Iré­ne Jen­sen, Laura Valent­ino, Soffía Sæ­munds­dótt­ir, Val­gerður Björns­dótt­ir og Vikt­or Hann­es­son. Tíu grafíklista­verk þeirra mynda sýn­ingu sem heit­ir Soland­er 250: Bréf frá Íslandi. Sýn­ing­in verður form­lega vígð í Hafnar­f­irði í ág­úst.

Sýn­ing þessi verður sýnd á ell­efu stöðum víðsveg­ar um Ísland ásamt lista­sýn­ing­unni Para­dise Lost – Daniel Soland­er’s Legacy og inni­held­ur verk eft­ir tíu lista­menn frá Kyrra­hafs­svæðinu sem áður hafa verið sýnd á Nýja-Sjálandi, í Ástr­al­íu og Svíþjóð. Þetta er ein­stak­ur viðburður, sam­tal í gegn­um list milli norður­slóða og Kyrra­hafs, hér á Íslandi. Von­ast er einnig til þess að þetta veki áhuga meðal hinna fjöl­mörgu er­lendu gesta Íslands. Auk þess er ætl­un­in, með öllu verk­efn­inu árin 2022 og 2023, að vekja áhuga og for­vitni barna á nátt­úru­vís­ind­um og stór­kost­legri flóru Íslands. Við send­um vissu­lega bréf frá Íslandi með þönk­um um list­ir og vís­indi, um menn­ing­ar­tengsl og um sam­eig­in­lega framtíð okk­ar!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og

Pär Ahlber­ger sendi­herra Svíþjóðar á Íslandi.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. júní 2022

Categories
Fréttir

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Deila grein

09/06/2022

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Halla Signý Kristjánsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag. Halla Signý segir Vestfirðinga eiga Íslandsmet í þolinmæði er kemur að samgöngubótum en nú hillir loks undir aðgerðir enda fullfjármagnaðar framkvæmdir komnar á rekspöl. Metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum upp á 20 milljarða kr. eru nú á áætlun í samræmi við samgönguáætlun til 2024.

Jóhann Friðrik benti á að áfengislög eru frá 1998 og að margt breyst frá þeim tíma, ekki síst á sviði forvarna og rannsókna. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að fram fari heildarendurskoðun á áfengislögum með að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og síðast sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Við Vestfirðingar, líkt og íbúar annarra landshluta, erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og sú þróun er ekki að fara að breytast næstu áratugi. Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að samgöngubótum og nú er útlit fyrir að þeir sem búa og starfa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. 20 milljarða kr. metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum eru nú í áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við fimm ára samgönguáætlun, 2020–2024. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir. Já, við skulum tala um Dynjandisheiðina. Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði eru þegar hafnar. Í síðustu viku var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024. Þegar þessum kafla lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á 25 km kafla á heiðinni. Frá opnun Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt að halda veginum um heiðinna opnum yfir verstu vetrarmánuðina. Uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður- og suðursvæðis allt árið um kring.

Virðulegi forseti. Enn eitt stóra verkefnið er hafið í Gufudalssveit. Það hillir undir að vegur um Teigsskóg verði að veruleika. Vinna við veginn hafin og þar með er séð fyrir áratugadeilur um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun. Víðar er verið að vinna að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla á þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir okkur, hvort sem við búum á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu.“

Jóhann Friðrik Friðriksson í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Eitthvert vinsælasta viðfangsefni hér á þingi ár eftir ár snýr að áfengislöggjöfinni í landinu. Enginn þarf að velkjast í vafa um þá staðreynd að áfengi er alls ekki eins og hver önnur vara. Heilsufarslegur og samfélagslegur skaði af áfengisneyslu er gríðarlegur og veldur umtalsvert meiri skaða en öll önnur vímuefni, enda eina löglega vímuefnið á markaði. Sem betur fer nota flestir áfengi í hófi en rannsóknir sýna að hömlur á aðgengi skila árangri í þeirri viðleitni stjórnvalda að lágmarka óæskileg áhrif á lýðheilsu í landinu. Sem dæmi um frumvörp sem snúa að breytingum á áfengislögum og koma upp í hugann má nefna frumvarp um aðkomu sveitarfélaga að staðarvali áfengisverslana, sala áfengis á framleiðslustað, frumvarp um sölu áfengis á sunnudögum og leyfi til sölu áfengis í íslenskum netverslunum. Mér að vitandi liggur ekki lýðheilsumat til grundvallar þessum frumvörpum. Myndi það vera verulega til bóta og mun ég því leggja slíkt til.

Virðulegi forseti. Sjálfur er ég hlynntur frelsi með ábyrgð og vill því taka fram að í 1. gr. áfengislaga segir, með leyfi forseta: „Tilgangur laga þessara er að vinna gegn misnotkun áfengis.“ Lögin eru frá 1998, en frá þeim tíma hefur margt breyst, sér í lagi á sviði forvarna og rannsókna. Ég tel því mikilvægt að farið verði í heildarendurskoðun á áfengislögum með það að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og fremst þeirra sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.“

Categories
Fréttir

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Deila grein

09/06/2022

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Ingibjörg Isaksen og Stefán Vagn Stefánsson töluðu fyrir hönd Framsóknar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.

Ingibjörg talaði um orkumál, fæðuöryggi og heilbrigðismál. Hún sagði að á síðustu árum hafi verið gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið en það væri ekkert nema fyrir mannauðinn sem þar starfar.

Takk, framlínufólk í heilbrigðiskerfinu!

Covid faraldurinn reyndi mikið á framlínufólkið í heilbrigðiskerfinu, sem lagði á sig ómælda vinnu. Samstaða þess og ósérhlífni hélt heilbrigðiskerfinu gangandi. Sagði hún að við getum seint þakkað þeim nægilega. Nýtti hún tækifærið og sagði takk!

Nauðsynlegt að gefa út ný virkjanaleyfi

Hún sagði að það sé Alþingis að standa vaktina að ná kolefnishlutleysi. Það þurfi fjölbreyttar lausnir í orkumálum; nýjar virkjanir og styrking núverandi virkjana. Nauðsynlegt sé að gefa út ný virkjanaleyfi, því vernd og virkjun geti haldist í hendur. Hún sagði nóg af grænni orku sem mætti nýta í sátt við náttúruna.

Ingibjörg sagði afleiðingar stríðsins í Úkraínu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bændur. Það geti leitt til þess að framboð á innlendri vöru dragist saman og leitt til þess að fæðuöryggi verði í hættu. Það þurfi að bregðast við.

Samtal og samvinna leiðarljós í þágu samfélagsins alls

Stefán Vagn fór yfir það sem ríkisstjórninni hefur tekist vel upp með og að nú þurfi að halda áfram. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar.

Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða.

Búsetuskilyrði jöfnuð enn frekar með skattkerfinu

Stefán Vagn nefndi t.d. verkefnið „Óstaðbundin störf“ og að tryggja þurfi góðar samgöngur um allt land því það skapi fleiri atvinnutækifæri. Hann ræddi hvort ekki væri kominn tími til að nýta skattkerfið til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig mætti t.d. hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins.

Stefán Vagn sagði engan tíma mega missa að bregðast við vanda bænda, og að mikilvægt sé að taka samtalið en á sama tíma bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Það sé mikilvægt til þess að ná árangri.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagur: ræða Stefáns Vagns Stefánssonar

Deila grein

09/06/2022

Eldhúsdagur: ræða Stefáns Vagns Stefánssonar

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Mig langar að tala um að halda áfram. Síðastliðin fjögur og hálft ár hefur miklu verið áorkað þrátt fyrir mikinn öldugang. Ríkisstjórninni hefur tekist að rétta skútuna af og sigla henni í rétta átt þrátt fyrir ólgusjó í formi kórónuveirufaraldursins og nú innrásar Rússa í Úkraínu. En við ætlum að halda áfram. Mörg þjóðþrifamál bíða afgreiðslu okkar og það er okkar á Alþingi að vakta þau, breyta og bæta og að lokum afgreiða þau með besta mögulega hætti. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls.

Við í Framsókn leggjum áherslu á að setja allt landið á dagskrá, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Það á enginn að mæta afgangi. Okkur ber að sameinast um það markmið að jafna búsetuskilyrði þvert yfir landið. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar. Í þeirri vinnu eru margir boltar sem við þurfum að grípa. Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða. Má þar nefna verkefnið „Óstaðbundin störf“ þar sem opinber störf eru greind á nýjan máta. Eru þau staðbundin eða er hægt að vinna þau hvar sem er? Þau síðarnefndu eiga að vera skilgreind sem störf án staðsetningar, störf sem hægt er að vinna á Sauðárkróki, Ísafirði, Reykjavík eða í Borgarfirði. Þetta verkefni skiptir landsbyggðina miklu máli og getur breytt sviðsmynd Íslands á jákvæðan máta. Einnig velti ég fyrir mér hvort tími sé kominn á að nýta skattkerfið okkar til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig getum við t.d. hvatt lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins. Með því getum við bætt fjölþætta verðmætasköpun um allt land og fjárfest í fólki. Fordæmin eru til staðar en verkefni sem þetta hefur gefist vel í Noregi þar sem skattkerfið hefur verið nýtt í þágu byggðaþróunar.

Við höfum gert stórátak í samgöngumálum á síðastliðnum árum og höfum háleit markmið um að halda áfram veginn. Það á við bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Fullnægjandi samgöngur eru undirstaða samkeppnishæfs samfélags og velmegunar þjóðarinnar. Með góðum samgöngum komumst við langt í jöfnun búsetuskilyrða en samgöngur eru forsenda byggða og innviða verðmætasköpunar. Hér er mikilvægt að ýta ekki á bremsuna. Við ætlum að gefa í, stytta vegalengdir á milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og bæta umferðaröryggi.

Við í Framsókn trúum á fjölgun fjölbreytilegra atvinnutækifæra þvert yfir landið. Þar spila óstaðbundin störf stóra rullu. Á sömu hlið teningsins má nefna nýsköpun, ferðaþjónustu og spennandi tækifæri í kvikmyndagerð.

Á landsbyggðinni eru landbúnaður og sjávarútvegur burðarstoðir í atvinnulífi og grunnstoðir fæðuöryggis Íslands. Mikilvægt er að standa vörð um þessar starfsgreinar, ekki aðeins fyrir þá sem þar vinna heldur einnig í þágu neytenda og fæðuöryggis þjóðarinnar. Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál og við eigum að horfa þannig á málaflokkinn. Í landbúnaði berjast margir í bökkum við að finna rekstrargrundvöll í núverandi stöðu og ekki hefur stríðið í Úkraínu bætt aðstæður með hækkandi kostnaði á aðföngum. Við megum engan tíma missa við að finna lausnir á þeirri stöðu sem bændur lifa við í dag. Vinna þarf með landbúnaði og sjávarútvegi í sátt í leit að lausnum. Mikilvægi sáttar og samvinnu er óumdeilt og þau sjónarmið verða að vera leiðarljós í nýrri vinnu samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu sem matvælaráðherra hefur nú skipað.

Verkefnin fram undan eru misjöfn að stærð og burðum. Með samvinnu, samtali og virðingu fyrir ólíkum skoðunum munum við komast í gegnum þau saman. Það er verkefnið.

Góðir landsmenn. Ég óska þingmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars.