Categories
Fréttir

Þetta er samfélagslegt verkefni – vinnum þetta hratt og vel!

Deila grein

31/01/2020

Þetta er samfélagslegt verkefni – vinnum þetta hratt og vel!

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, sagði í sérstökum umræðum um örorku kvenna og álag við umönnun, á Alþingi í gær, að með heilsueflingu, endurhæfingu, uppbyggingu hjúkrunarrýma og öðrum snertiflötum heilbrigðismála megi finna leiðir til að draga úr því óhjákvæmilega og gríðarlega álagi í mörgum tilvikum sem umönnun fylgir á fólk. Að lausn þessa sé samfélagslegt verkefni og að stjórnvöld sé m.a. með framlagi til Landspítala fyrir sérstakt stuðningsteymi fyrir langveik börn með miklar stuðningsþarfir vegna sjaldgæfra sjúkdóma að bæta og styrkja þennan þátt.
„Ég hef lagt fram, virðulegi forseti, þingsályktunartillögu ásamt þingmönnum allra flokka um sértæka þjónustueiningu fyrir einstaklinga með sjaldgæfa sjúkdóma og ætla að vísa í tillögugreinina því að hún talar vel inn í það samhengi sem hv. málshefjandi setur málið í, með leyfi forseta:
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem geri tillögur að fyrirkomulagi sértækrar þjónustueiningar fyrir einstaklinga sem greinast með sjaldgæfa sjúkdóma. Þjónustueiningin verði til þess að tryggja að sjúklingar hafi einn viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og til þess að ný þekking og nýjustu rannsóknir skili sér í bættri þjónustu sem byggist á nýjustu gagnreyndu þekkingu hverju sinni. Þá verði starfshópnum falið að leita leiða til þess að tryggja einfaldari og skjótari aðgengi að nauðsynlegum lyfjum vegna sjaldgæfra sjúkdóma.“
Hvatti Willum Þór til þess að vinna þetta mál hratt og vel því að við tölum einum rómi í þessu samfélagslega verkefni.

Categories
Fréttir Uncategorized

Dregið verði úr álagi á fjölskyldumeðlimi – hvort sem á maka eða börn

Deila grein

31/01/2020

Dregið verði úr álagi á fjölskyldumeðlimi – hvort sem á maka eða börn

Ásgerður K. Gylfadóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, segir að öflug heimahjúkrun, félagsleg heimaþjónusta og dagdvalarrými séu úrræði sem komi til móts við einstaklinga sem vegna langvinnra veikinda eða öldrunar þurfi á stuðningi að halda. Það dragi og úr álagi á fjölskyldumeðlimi, hvort sem á maka eða börn viðkomandi. Þetta kom fram í sérstakri umræðu um örorku kvenna og álag við umönnun á Alþingi í gær.
„Bið eftir dvalarúrræði getur verið mjög erfið og tekið mjög á fjölskyldur og jafnvel fjarskylda ættingja einstaklinga sem eiga ekki neina aðra að,“ sagði Ásgerður.

„Aukið fjármagn þarf til heimahjúkrunar og kom fram í máli ráðherra að unnið væri að því. En mig langar að beina athyglinni að heimahjúkrun í byggðum úti á landi þar sem langt er að fara því að fjármagnið, eins og kerfið er byggt upp í dag, byggir svolítið á fjölda heimsókna frekar en því að langt sé að fara til eins einstaklings.“

„Það er verið að efla heimaþjónustu, dagdvalir, hjúkrunarrými og innleiða velferðartækni í heimaþjónustu. Þetta eru allt aðgerðir sem munu létta álagi af þeim umönnunaraðilum sem í dag eru að vinna þessi störf, en við skulum ekki gleyma forvörnunum.
Líkamleg virkni og styrktarþjálfun, ekki síst á efri árum, er forvörn sem ríkið ætti að koma með afgerandi hætti að með sveitarfélögunum. Það er fjárfesting sem mun draga úr þörf fyrir heilbrigðisþjónustu til langs tíma.
Það er líka forvörn fyrir okkur sem yngri erum að vera dugleg að hreyfa okkur og hugsa vel um okkur þannig að það komi seinna til þess að börnin okkar eða skyldmenni þurfi að fara að hugsa um okkur,“ sagði Ásgerður.

Categories
Greinar

Mikil tíðindi

Deila grein

31/01/2020

Mikil tíðindi

Þau ánægjulegu tíðindi komu frá Alþingi í vikunni að búið væri að samþykkja tillögu ríkisstjórnarinnar að tillögu til þingsályktunar um stefnumótun í málefnum sveitarfélaga. Stefnumótunin, sem er hin fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, hefur verið lengi í undirbúningi og víðtækt samráð farið fram um allt land. Á aukalandsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust var samþykkt með afgerandi meirihluta að lýsa yfir stuðningi við tillöguna og þá framtíðarsýn og áherslur sem í henni felast.

Vissulega eru skiptar skoðanir um einstakar aðgerðir, ekki síst varðandi ákvæði um lágmarksfjölda íbúa, sem verður 250 frá almennum sveitarstjórnarkosningum 2022 og 1.000 fjórum árum síðar. Sum minni sveitarfélög hafa sett fyrirvara og lagt áherslu á að vilji íbúa eigi að ráða för. Það kom t.d. mjög vel fram á fjölmennum íbúafundi sem ég sótti á Grenivík í vikunni. Þar hefur byggst upp blómlegt samfélag þar sem íbúar njóta góðrar þjónustu og búa við atvinnuöryggi. Það eru ýmsar leiðir til að tryggja að svo verði en umfram allt er það að mestu í höndum íbúanna sjálfra.

Stefnumörkuninni er að sjálfsögðu ekki beint gegn einstökum sveitarfélögum heldur felur hún í sér heildarsýn fyrir allt landið um eflingu sveitarstjórnarstigsins með ýmsum aðgerðum. Það stendur ekki til að sameina samfélög eða byggðarlög – þau verða áfram til og vonandi blómleg og fjölbreytt. Sveitarfélög hafa síðan góðan tíma til að ákveða á lýðræðislegan hátt hvernig lágmarksviðmiðum verður náð og því fylgir mikill fjárhagslegur stuðningur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Ég tel þessa stefnumörkun vera eitt mesta umbótaverkefni í opinberri stjórnsýslu sem um getur. Stjórnsýsla sveitarfélaga eflist, tækifæri skapast til að bæta þjónustu og geta þeirra til að berjast fyrir hagsmunamálum íbúanna eykst. Nýtt og öflugra sveitarstjórnarstig verður til. Nú þegar þessi ánægjulegu tíðindi liggja fyrir hefst vinna í ráðuneytinu við að útfæra einstakar aðgerðir stefnumótunarinnar, meðal annars varðandi lágmarksíbúafjölda og í þeirri vinnu verður áfram haft náið og gott samráð við sveitarstjórnarstigið.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. janúar 2020.

Categories
Fréttir

Stjórnvöld hlusti á raddir íbúa og sveitarstjórnar

Deila grein

30/01/2020

Stjórnvöld hlusti á raddir íbúa og sveitarstjórnar

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, fór yfir stöðu tveggja flugvalla á Norðurlandi vestra, þ.e. flugvöllinn á Blönduósi og Alexandersflugvöll á Sauðárkróki, í störfum þingsins á Alþingi í gær.
„Í kjölfar þess gjörningaveðurs sem gekk yfir landið í upphafi desembermánaðar og þeirra óveðra sem komið hafa í framhaldinu hafa komið upp fjöldi tilfella og fjöldi daga þar sem Norðurland vestra hefur verið einangrað í vegsamgöngum við aðra landshluta sem og að vegir hafa verið lokaðir innan svæðis. Í nokkur skipti á þessu tímabili stóðu lokanir yfir í nokkra daga í senn.
Í ljósi þess að á undanförnum árum hefur sjúkrahúsþjónusta á Norðurlandi vestra og í raun víðar á landsbyggðinni verið færð að stórum hluta í stærri sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri erum við sem á svæðinu búa orðin miklu háðari sjúkraflutningum en áður. Alvarlegri tilfelli eru í fæstum tilfellum meðhöndluð í héraði og sama á við um fæðingarþjónustu,“ sagði Stefán Vagn.
Stefán Vagn minnti á að flugvellirnir séu gríðarlegt öryggistæki fyrir íbúa á Norðurlandi vestra og sagði mikilvægt að þeir séu þjónustaðir og viðhaldið að á þá sé treystandi þegar neyðin er mest.

„Alexandersflugvöllur er með ein bestu lendingarskilyrði á landinu og lokast nánast aldrei sökum veðurs og að mínu mati og fjölda annarra ætti hann að gegna mun stærra hlutverki en hann gerir í dag. Flugvöllurinn á Blönduósi er þannig staðsettur að hann er mjög nálægt þjóðvegi 1 og hefur sannað sig sem mikilvægt öryggistæki fyrir íbúa og gesti svæðisins.“

„Hér er um mikið öryggis- og byggðamál að ræða fyrir íbúa Norðurlands vestra og mikilvægt fyrir stjórnvöld að hlusta á raddir íbúa og sveitarstjórnar í þessu mikilvæga máli,“ sagði Stefán Vagn.

Categories
Fréttir

„Forsenda framtíðarhagvaxtar“

Deila grein

29/01/2020

„Forsenda framtíðarhagvaxtar“

Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi, sagði í sérstakri umræðu um útgreiðslu á ónýttum persónuafslætti, á Alþingi í gær, að fjárfesting í ungu fólki sé lykillinn að framtíð og nýsköpun. Námsmenn á aldursbilinu 16-25 ára eru tveir þriðju af þeim hópi er nær ekki að nýta persónuafsláttinn. Það eru um 10 milljarðar er koma ekki til útgreiðslu.
„Þá velti ég fyrir mér hvernig við styðjum þetta fólk best.“

„Mér finnst umræðan góðra gjalda verð sem og hugmyndafræðin sem liggur að baki. Mér finnst hún hafa dregið fram einkum tvennt,
í fyrsta lagi að þetta sé augljóslega rætt í samhengi við tekjuskattskerfið og hlutverk persónuafsláttar í því kerfi og
í öðru lagi aukinn stuðning við þá sem hafa lægri tekjur.“

„Ég held að flestir séu sammála því að fjárfesting í ungu fólki og fólki almennt sé lykillinn að framtíð og nýsköpun. Það er oft sagt forsenda framtíðarhagvaxtar. Þess vegna er öflugt menntakerfi og forsendur þess í raun og veru að við tryggjum að allir geti aflað sér menntunar. Fyrir þinginu liggur frumvarp sem felur í sér þá helstu nýbreytni að auka og jafna stuðning í formi styrkja,“ sagði Willum Þór.

Categories
Greinar

Vísindasamvinna Íslands og Japans

Deila grein

29/01/2020

Vísindasamvinna Íslands og Japans

Ísland hefur látið að sér kveða í alþjóðlegu vísindasamstarfi á norðurslóðum þar sem rannsóknir á landslagi, lífríki og samfélögum norðurslóða eru í brennidepli. Íslenskir vísindamenn og stofnanir búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á fjölmörgum sviðum slíkra rannsókna, má þar sem dæmi nefna rannsóknir á samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, jöklum og breytingum á vistkerfi sjávar. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir Ísland og íslenska vísindamenn að taka þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi tengdu norðurslóðum.

Ísland og Japan standa sameiginlega að alþjóðlegum fundi vísindamálaráðherra um rannsóknasamstarf á norðurslóðum í Tókýó í nóvember. Undirbúningur er langt á veg kominn og næstkomandi föstudag verður haldinn kynningarfundur um áherslur ráðherrafundarins með fulltrúum sendiráða í Reykjavík og samstarfsaðilum úr vísindasamfélaginu. Í aðdraganda fundarins í Tókýó er lögð áhersla á að virkja vísindasamfélagið og íbúa á norðurslóðum, til að fá fram þeirra sýn og sjónarmið sem geta nýst við mótun stefnu og aðgerða stjórnvalda. Leiðarljós ráðherrafundarins eru samvinna, þátttaka, gagnsæi og nýsköpun. Við erum þakklát fyrir það góða samband og sameiginlegu sýn sem Ísland og Japan deila. Sem eyjaþjóðir deilum við meðal annars áhyggjum af heilbrigði sjávar. Sameiginlega fleti má einnig finna í áherslum ríkjanna á umhverfisvernd og sjálfbærni.

Mikilvægi samtals milli vísindasamfélagsins og stjórnvalda eykst stöðugt og það er brýn þörf á auknu alþjóðlegu vísindasamstarfi á norðurslóðum. Fundir sem þessir eru kærkominn vettvangur fyrir okkur til þess að miðla þekkingu, ræða aðgerðir og ekki síst forgangsraða verkefnum. Til þess að mæta áskorunum sem fylgja loftslagsbreytingum er mikilvægt að ríki vinni saman og myndi samstarfsnet um sameiginlega vísindalega þekkingu og vinni sameiginlega að því að hafa áhrif á raunverulegar aðgerðir og lausnir.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. janúar 2020.
Categories
Greinar

Jákvæð gáruáhrif í hagkerfinu

Deila grein

28/01/2020

Jákvæð gáruáhrif í hagkerfinu

Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn hef­ur lækkað hag­vaxt­ar­spá sína lít­ils­hátt­ar á heimsvísu árin 2020-2021 og spá­ir nú rúm­lega 3% hag­vexti. Lækk­un­in á einkum við um evru­svæðið en einnig hef­ur hægt á hag­vexti í þróuðum hag­kerf­um í Asíu. Í Kína hef­ur hag­vöxt­ur ekki mælst minni í lang­an tíma, ekki síst vegna viðskipta­deilna milli Banda­ríkj­anna og Kína.

Á ár­inu verða þrír meg­in­straum­ar ráðandi í alþjóðahag­kerf­inu. Í fyrsta lagi verður fyr­ir­komu­lag og um­gjörð heimsviðskipta áfram háð nokk­urri óvissu, þrátt fyr­ir tolla­sam­komu­lag sem Kín­verj­ar og Banda­ríkja­menn gerðu um miðjan mánuðinn. Í öðru lagi munu þjóðir heims áfram þurfa að laga sig að lág­vaxtaum­hverfi vegna minnk­andi hag­vaxt­ar og í þriðja lagi munu tækni­fram­far­ir og sjálf­virkni­væðing hafa mik­il áhrif á vinnu­markaði. Straum­arn­ir vega hver ann­an að ein­hverju leyti upp, því á sama tíma og viðskipta­deil­ur drógu úr þrótti hag­kerfa á síðasta ári ýttu lág­ir stýri­vext­ir und­ir hag­vöxt. Þá hafa tækni­fram­far­ir dregið úr kostnaði og verðbólga verið til­tölu­lega lág, jafn­vel í hag­kerf­um sem hafa notið mik­ils vaxt­ar.

Ísland er gott dæmi um þjóðríki sem hef­ur notið góðs af greiðum viðskipt­um á milli þjóða. Það er skylda okk­ar að greiða fyr­ir frjáls­um viðskipt­um og hlúa í leiðinni að hags­mun­um þjóðar­inn­ar. Að und­an­förnu hef­ur dregið úr hag­vexti í mörg­um lyk­ilviðskipta­ríkj­um Íslands. Iðnfram­leiðsla í Þýskalandi hef­ur dreg­ist sam­an og hag­vöxt­ur hef­ur minnkað í Frakklandi og Ítal­íu. Þannig hafa viðskipta­kjör Íslands versnað vegna minnk­andi hag­vaxt­ar. Hins veg­ar brugðust fjár­mála­markaðir vel við frétt­um um tíma­bundið sam­komu­lag banda­rískra og kín­verskra stjórn­valda. Áhættu­álag á skulda­bréfa­mörkuðum lækkaði og verð á hluta­bréfa­mörkuðum hækkaði. Það eru góðar frétt­ir fyr­ir Ísland, sem nýt­ur góðs af aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika um um­gjörð heimsviðskipta.

Staðan í alþjóðakerf­inu er án for­dæma í nú­tíma­hag­sög­unni, þar sem hátt at­vinnu­stig hef­ur jafn­an verið ávís­un á aukna verðbólgu. Víðast hvar eru stjórn­völd mjög meðvituð um stöðuna og lík­lega verður hag­stjórn í aukn­um mæli í hönd­um þeirra, þar sem hag­kerfi verða örvuð í niður­sveiflu. Mik­il­vægt er að halda áfram að fjár­festa í mannauði. Sú verður a.m.k. raun­in á Íslandi, þar sem hag­stjórn mun taka mið af aðstæðum og innviðafjár­fest­ing­ar munu aukast. Skýr­ari leik­regl­ur í sam­skipt­um viðskipta­stór­veld­anna munu hafa já­kvæð gáru­áhrif um all­an heim, sem og fram­kvæmd löngu boðaðrar út­göngu Breta úr Evr­ópu­sam­band­inu nú um mánaðamót­in.

Óvissa er óvin­ur bæði þjóða og fyr­ir­tækja en um leið og aðstæður breyt­ast til hins betra taka þau fljótt við sér. Það er mik­il­vægt fyr­ir al­menn­ing hvar í heim­in­um sem er.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2020.

Categories
Fréttir

Aðgerðir fari að skila sér til sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna

Deila grein

27/01/2020

Aðgerðir fari að skila sér til sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, sagði í umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið, á Alþingi í liðinni viku, að takist hafi að ná þeim meginmarkmiðum sem fiskveiðistjórnarkerfið átti að færa okkur í öndverðu að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna við landið og tryggja með því trausta atvinnu í landinu. En sagði þetta ekki hafa verið sársaukalaust.
„Já, þetta hefur tekist og má rekja þessa sögu aftur til þess að Hafrannsóknastofnun gaf út að til þess að hámarka afrakstur þorskstofnsins þyrfti að helminga sókn í hann og jafnframt koma í veg fyrir smáfiskadráp vegna lélegs ástand hans. En svo var kvótinn settur á markað og þá hófst sundurlyndið um kerfið. Mikil lóðrétt samþætting sjávarútvegsfyrirtækja hefur sannarlega skilað af sér stærri og verðmætari fyrirtækjum en að sama skapi hefur kvótinn verið á hreyfingu milli byggðarlaganna þannig að í sumum byggðum stendur lítið eftir nema sá félagslegi kvóti sem til skiptanna er,“ sagði Halla Signý.
„Við eigum það til að hreykja okkur af því að íslenskur sjávarútvegur sé sá besti og sjálfbærasti í heimi. En til þess að teljast sjálfbært þarf kerfið að vera allt í senn efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega sjálfbært. Á því er enginn vafi að kerfið okkar er efnahagslega sjálfbært, í umhverfismálum stendur íslenskur sjávarútvegur sterkt og nytjastofnar hafa dafnað.
En er fiskveiðistjórnarkerfið okkar samfélagslega sjálfbært?
Þar má a.m.k. að gera úrbætur. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur skipað nefnd sem á að endurskoða félagslegt aflamark og vil ég hvetja hann til dáða í því verkefni og til að sjá til þess að aðgerðir fari að skila sér til þeirra sjávarbyggða sem verst hafa úti orðið vegna kvótatilfærslna,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Auðlindaákvæði í stjórnarskrá“

Deila grein

27/01/2020

„Auðlindaákvæði í stjórnarskrá“

„Við ræðum hér fiskveiðistjórnarkerfi okkar Íslendinga. Með núverandi fiskveiðistjórnarkerfi, sem er aflamarkskerfi, hefur tekist að byggja upp öflugan, tæknivæddan og umhverfisvænan sjávarútveg sem færir okkur gríðarlegar útflutningstekjur á ári hverju, veltu, störf og afleidd störf um allt land. Allt frá því að framsal kvóta var gefið frjálst hefur ágreiningur verið um eiginlegt eignarhald hans. Lög og reglugerðir vitna ýmist í fiskinn sjálfan, nytjastofna eða veiðiheimildir og þykja hvorki skýra óskorað eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindinni né heldur hverjir fari með forræði og ráðstöfunarrétt hennar,“ sagði Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í umræðum um fiskveiðistjórnunarkerfið á Alþingi í síðustu viku.
„Við þessu er einfalt svar. Auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Framsókn hefur unnið og mun áfram vinna að því að óskorað og ótvírætt eignarhald þjóðarinnar á öllum náttúruauðlindum Íslands muni lögfest í stjórnarskrá. Auðlindaákvæðið mun ekki eitt og sér koma á sætti um fiskveiðistjórnarkerfið en það er eitt af fjölmörgum skrefum sem hægt er að taka,“ sagði Þórarinn Ingi.
„Á kjörtímabilinu 2013–2016 starfaði svokölluð sáttanefnd með fulltrúum stjórnmálaflokka og hagsmunaaðila sem gerði tillögur að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Langtímasamningar um veiðiheimildir sem undirstrika eignarhald þjóðarinnar og gefa sjávarútvegsfyrirtækjum tækifæri til langtímahugsunar og fyrirsjáanleika voru rauði þráðurinn í þeim breytingum sem lagðar voru til. Slíkar breytingar gætu verið annað skref. Á sama tíma hljótum við að velta því fyrir okkur hvort kvótaþakið, bæði á heildarveiðiheimildum og í einstökum tegundum, sé ekki of hátt því að kvótakerfið var ekki gert til þess að heimildir gætu þjappast saman á fárra hendur og að fáir einstaklingar gætu orðið of ríkir.“

„Frú forseti. Ég er ekki að tala um algera byltingu í fiskveiðistjórnarkerfinu heldur tímabærar og réttlátar umbætur í skrefum.“

Categories
Fréttir

„Þekkingunni ber að viðhalda“

Deila grein

27/01/2020

„Þekkingunni ber að viðhalda“

„Fyrir tíu árum gerðumst við aðilar að matvælalöggjöf EES. Tilgangur matvælalöggjafarinnar er að stýra því að auka gæði matvæla og bæta stöðu neytenda. Við gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og að sama skapi eiga neytendur rétt á því að sambærilegar kröfur séu gerðar til innfluttra matvæla,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í umræðu um stefnu stjórnvalda í matvælaframleiðslu á Alþingi í liðinni viku.
Halla Signý benti á að loftslagsmál væri eitt helsta áherslumál ríkisstjórnarinnar og að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hafi að markmiði að Ísland ná markmiðum Parísarsamkomulagsins árið 2030 og kolefnishlutleysi árið 2040.
„Hluti af þeirri áætlun hlýtur að vera að stefna að því að styrkja innlenda matvælaframleiðslu og styrkja alla umgjörð og nýtingu lands í átt að sjálfbærni. Innlend matvælaframleiðsla er best til þess fallin að fækka kolefnissporum og stuðla að minni umhverfissporum. Fæðuöryggi byggist á þekkingu á matvælaframleiðslu og -vinnslu. Slík þekking er oft staðbundin og hér á landi þarf að viðhalda þeirri þekkingu á sérstöðu okkar. Íslenskir bændur þekkja handbragð við heimaslátrun. Það eru verðmæti sem ber að varðveita. Meðhöndlun íslenska lambakjötsins er því mikilvæg og við sem höfum alist upp við það að hafa aðgang að heimaslátruðu kjöti og vitum hversu mikilvægt er að kjötið nái að meyrna vitum að þar nást fram mestu gæði kjötsins,“ sagði Halla Signý.
„Þekkingunni ber að viðhalda. Þess vegna er það skylda okkar löggjafans að vinna að því að búa svo um að handbragð við heimaslátrun verði áfram hluti af íslenskri menningu. Viðbrögð á undanförnum árum við heimaslátrun hafa í besta falli verið vandræðaleg og fálmkennd. Við leggjum á boð og bönn í þágu heilbrigðiskrafna þrátt fyrir að vita betur. Því er sala nú á heimaslátruðu kjöti glæpur, já, eins og að selja fíkniefni,“ sagði Halla Signý.