Categories
Greinar

Eflum íslenskt mál

Deila grein

14/09/2018

Eflum íslenskt mál

Á dögunum voru kynntar aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Þær snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Heildstæð nálgun okkar til stuðnings íslenskunni tengist meðal annars íslenskum fjölmiðlum og þeirra hlutverki í framþróun tungumálsins okkar; þeir spegla sögu okkar og sjálfsmynd.

Aðgerðir stjórnvalda til styrktar einkareknum fjölmiðlum á Íslandi marka ákveðin vatnaskil en við ráðgerum að verja um 400 milljónum í beinar aðgerðir þeim til stuðnings frá og með næsta ári. Þar mun mestu muna um ritstjórnarsjóð sem veita mun endurgreiðslur vegna hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir slíkum endurgreiðslum verða skýr og einföld og styrkveitingar hans fyrirsjáanlegar og óháðar tæknilegum útfærslum. Frumvarp þess efnis mun fara í opið samráð síðar í vetur og verður síðan lagt fyrir í ársbyrjun 2019.

Annað brýnt efni sem við höfum kynnt til þess að jafna hlut íslenskra fjölmiðla er að samræma gjaldtöku við kaup á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum. Til skoðunar er að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra vefmiðla sem taka til sín ört stækkandi hluta auglýsingamarkaðar. Í þessu horfum við til nágrannalanda okkar og Evrópuríkja sem einnig hafa sambærileg mál til skoðunar.

Aukinheldur munum við styðja betur við textun, talsetningu og táknmálstúlkun í myndmiðlum þar sem einkareknir fjölmiðlar munu geta sótt um endurgreiðslur til að mæta kostnaði vegna lögbundinnar textunar og talsetningar. Sérstök áhersla verður þar lögð á efni sem ætlað er börnum og ungmennum.

Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld grípa til beinna aðgerða til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla en slíkt hefur þekkst á Norðurlöndunum um áratuga skeið. Það er von mín og vissa að þessar aðgerðir muni breyta miklu fyrir rekstrarumhverfi þeirra strax á næsta ári.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. september 2018.

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á 149. löggjafarþingi

Deila grein

12/09/2018

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á 149. löggjafarþingi

Virðulegi forseti, góðir landsmenn.
Samfélagið er á fleygiferð. Þannig viljum við líka hafa það. Án breytinga verður stöðnun og engin framþróun. Tækni- og upplýsingabyltingin á eftir að breyta því hvernig við lifum, högum störfum okkar og menntun. Störfin munu breytast og færast til, óháð landamærum. Miklu skiptir að samfélagið sé undir það búið að taka á móti tækifærum framtíðarinnar, en þar vega þættir eins og menntun og nýsköpun þungt svo stöðugt megi auka verðmætasköpun og bæta lífskjör.
Markmiðið er skýrt hjá ríkisstjórninni. Að koma Íslandi í fremstu röð og efla samkeppnishæfni á sem flestum sviðum. Ríkisstjórnin leggur áherslu á fjölbreytt atvinnulíf til að styrkja gjaldeyrisöflun, draga úr sveiflum og tryggja fyrirsjáanleika í afkomu heimila og fyrirtækja. Framsækin ferðaþjónusta, traustur sjávarútvegur og íslenskt hugvit eru þar mikilvægir drifkraftar tækifæra í komandi framtíð.
Fordæmalaus vöxtur hefur verið í flugsamgöngum en framlag þessara atvinnugreinar til vergrar landsframleiðslu skipta orðið miklu sem lifibrauð og eru margfeldisáhrifin umtalsverð. Nú er farin af stað vinna við að móta fyrstu flugstefnu á Íslandi sem mun taka á öllum þáttum er varða flugstarfsemi hér á landi.
Kæru landsmenn.
Þrátt fyrir góðæri og mikinn uppgang þá eru ákveðnir hópar í samfélaginu sem ekki njóta ávaxta þess til fulls. Við eigum ekki að sætta okkur við það. Hér á landi eiga að vera jöfn tækifæri fyrir alla þannig að allir njóti aukins kaupmáttar og verðmætasköpunar.
Í nýútkominni skýrslu varar Gylfi Zoëga við því að mikið launaskrið geti gert ferðaþjónustuna ósamkeppnishæfa þegar til lengri tíma er litið sem leiði til verri lífskjara. Orðrétt segir: „Verði það að veruleika mætti segja að Íslendingar hefðu farið eins illa að ráði sínu og þegar þeir ofnýttu fiskistofnana á liðnum áratugum. Í hagsögunni yrði ferðaþjónustan þá einungis enn eitt „síldarævintýrið“.
Jöfn tækifæri fyrir alla krefst samvinnu og heiðarlegs samtals þar sem sameiginlegar lausnir eru fundnar svo verðmætasköpunin skiptist jafnar sem stuðlar jafnframt að pólitískum stöðugleika sem kjósendur báðu um fyrir ári síðan.
Stefna í húsnæðismálum, kjararáð, launaþróun, atvinnuleysistryggingar, stefna í menntamálum, samspil launa, bóta, skatta og ráðstöfunartekna eru áherslur sem hafa verið á dagskrá ríkisstjórnarinnar, aðila vinnumarkaðsins og forsvarsmanna Sambands sveitarfélaga. sl. níu mánuði eða frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Viðræðurnar hafa m.a. skilað því að Kjararáð var lagt niður, atvinnuleysisbætur og ábyrgðarsjóður launa hafa hækkað. Slíkir fundir eru mikilvægt veganesti til að hlusta eftir áherslum verkalýðshreyfingarinnar og í því samtali að huga sérstaklega að lægri tekjuhópum. Að því vinnur ríkisstjórnin.
Til marks um það er boðuð veruleg hækkun á barnabótum og hækkun á persónuafslætti í fjárlagafrumvarpi sem kemur lægri tekjuhópum vel.
Húsnæðismál eru eitt af stóru málunum. Fasteignaverð er hátt, allt of hátt fyrir suma, sem skýrist einna helst af of litlu framboði húsnæðis fyrir tekjuminni hópa. Afleiðingar þess smitast út til allra heimila í landinu í formi hærri húsnæðiskostnaðar vegna vísitölutengingar. Félagsmálaráðherra hefur talað skýrt um að bregðast verði við húsnæðisvandanum í samráði við sveitarfélög.
Þá er það áhyggjuefni að vaxtamunur í íslenskum bönkum sé fyrir utan eðlilegra marka, samanborið við Norðurlöndin.
Virðulegi forseti
Verkefnin eru mörg sem setið hafa á hakanum síðustu ár. Ríkisstjórnin er að styrkja mennta-, samgöngu-, velferðar- og heilbrigðismál. Samkeppnishæfni þjóðar byggir á því að þessir grunnþættir séu skilvirkir og standist alþjóðlegan samanburð.
Í fyrstu fjárlögum þessara ríkisstjórnar var verulega bætt í og í fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í gær má sjá að enn er sótt fram.
Góðar samgöngur eru forsenda blómlegs mannlífs í landinu en rík áhersla er á að auka viðhald á vegakerfinu enda hefur þörfin aldrei verið meiri en nú. Ljóst er að mikið verk er óunnið við að byggja upp samgöngukerfið og færa til ásættanlegs horf. Fjármagn hefur verið stóraukið en í ár fara 12 milljarðar til viðhalds og lagfæringa samanborið við 5,5 milljarða 2016. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum.
Samgönguáætlun sem verður lögð fram í næstu viku mun taka mið af fjármálaáætlun og verkefnunum forgangsraðað út frá umferðaröryggi og þróun undanfarinna ára.
Þá er verið að skoða útfærslur á því hvernig hægt er að stórauka þá upphæð sem rynni til nýrra framkvæmda vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum svo þau verði að veruleika.
Góðir landsmenn
Aðgerðaráætlun loftslagsmála hefur verið kynnt til næstu 12 ára. Þar verða allir að láta til sín taka og leggja sitt af mörkum. Meðal aðgerða eru orkuskipti en á næstum árum mun rafbílum fjölga stórkostlega sem flýtir fyrir orkuskiptum og uppfyllir um leið metnaðarfull loftlagsmarkmið. Ánægjulegt er að loftlagsmarkmið og efnahagslegir hvatar fara saman. Ódýrara er að reka rafmagnsbíla, jafnframt er það jákvætt að skipta út aðfluttri orku fyrir hreina innlenda orku. Til þess þarf að tryggja aðgengi að orku fyrir rafknúin ökutæki um land allt.
Fyrir mér er brýnt að íbúar víðs vegar um landið hafi jöfn tækifæri en sumir hverjir hafa mátt þola mikla óvissu í sínum rekstri. Þannig eru mál sauðfjárbænda enn óleyst. Í þeirri vinnu sem nú stendur yfir verður að tryggja að horft sé til sveiflujöfnunarverkfæra til að jafna eftirspurn og framboð. Ávinningurinn er samfélagslegur og liggur í beinum og óbeinum störfum víðs vegar um landið.
Þá hefur þróun á eignarhaldi jarða breyst hratt allra síðustu ár sem hefur eðlilega valdið miklum áhyggjum. Í því sambandi er ekki óeðlilegt að horfa til Norðurlandana m.t.t að setja skilyrði fyrir kaupum á bújörðum.
Framþróun á næstu áratugum veltur á því hversu vel okkur tekst til við að auka á fjölbreytni í atvinnulífi. Samfélag okkar er framsækið, starfar á grunni samvinnu og stendur vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Það er mikilvægt fyrir okkur sem hér störfum að leggja okkur fram við að sjá og skynja heildarmyndina til að taka ákvörðun út frá hagsmunum þjóðarinnar, til skemmri og lengri tíma. Til að finna skynsamlegustu leiðina hefur reynslan kennt mér að það er mikilvægast að hlusta.
Góðar stundir.

Categories
Greinar

Menntun er tækifæri fyrir alla

Deila grein

07/09/2018

Menntun er tækifæri fyrir alla

Það er mikilvægt að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið nám við sitt hæfi. Við viljum tryggja öllum börnum og ungmennum slík tækifæri og er það leiðarljósið við gerð nýrrar menntastefnu fyrir Ísland til ársins 2030. Markmiðið er einfalt; íslenskt menntakerfi á að vera framúrskarandi og byggja undir samkeppnishæfni hagkerfisins til langrar framtíðar. Liður í því er að halda áfram með þróa menntun fyrir alla eða menntun án aðgreiningar sem reynst hefur vel að mörgu leyti.

Íslenskir skólar mæta fjölbreyttum þörfum nemenda sinna og innan þeirra er unnið frábært starf. Við vitum hins vegar að hægt er að gera betur þegar kemur að samþættingu skólastiga. Þannig er raunin að fötluðum ungmennum sem útskrifast af starfsbrautum framhaldsskóla bjóðast fáir mennta- eða starfskostir að því námi loknu. Þessi staða var rædd á nýlegum fundi Þroskahjálpar með aðstandendum fatlaðra ungmenna á opinskáan og uppbyggilegan hátt og komu þar margar athyglisverðar hugmyndir fram.

Árið 2016 fullgiltu stjórnvöld samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og var það mikið framfaraskref. Samningurinn er leiðarvísir að því hvernig tryggja skuli fötluðum mannréttindi og tækifæri til jafns við aðra en í 24. grein hans er sérstaklega fjallað um menntun. Það er mikilvægt að við leitum allra færra leiða til að uppfylla þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum undirgengist í þessum efnum.

Það er miður að útskrifuðum nemendum af starfsbrautum framhaldsskóla bjóðist ekki fjölbreyttari atvinnu- eða menntatækifæri að námi loknu og að því munum við keppa. Þegar hefur verið hrint af stað vinnu á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins þar sem fram munu koma tillögur til úrbóta um aðgengi fatlaðs fólks að námi og/eða störfum að loknum framhaldsskóla. Mikilvægt verður að stilla saman strengi þeirra sem að þurfa að spila saman í þessum efnum m.a. með velferðarráðuneytinu, sveitarfélögum sem og öðrum hagsmunaaðilum. Ljóst er að bætt yfirsýn, upplýsingagjöf og aukin áhersla á samstarf og samfellu í skóla- og velferðarmálum mun hjálpa okkur að mæta þeim áskorunum sem bíða okkar og stuðla að betra samfélagi og tækifærum fyrir okkur öll.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. september 2018.

Categories
Greinar

Fræðslumál í forgrunni

Deila grein

07/09/2018

Fræðslumál í forgrunni

Stór verkefni eru framundan í fræðslumálum á Akureyri. Eitt það viðamesta er að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla en Alþingi þarf einnig að koma að því verkefni með lengingu fæðingarorlofs. Meirihluti bæjarstjórnar hefur gert það að markmiði sínu að taka yngri börn inn á leikskóla og koma þannig betur til móts við barnafólk á Akureyri. Þar til búið verður að fjölga leikskólaplássum mun barnafjöldi í hverjum árgangi ráða för um hversu mörg börn verður hægt að innrita í leikskólana á hverju hausti en um leið og svigrúm gefst verða þessi mikilvægu skref tekin.

Nýr leikskóli við Glerárskóla
Hafin er vinna við hönnun á nýjum leikskóla á lóð Glerárskóla en þar er gert ráð fyrir rými fyrir 140-150 börn. Þar mun verða sérstaklega búin ungbarnadeild fyrir börn á aldrinum 1-2 ára.  Áætlað er að skólinn verði tekinn í notkun árið 2021. Um leið og það verður að veruleika leggst af starfsemi í efra húsinu á Pálmholti. Húsið er komið til ára sinna og hefur sinnt hlutverki sínu vel. Neðra húsið verður áfram í notkun en með þessu fyrirkomulagi fjölgar leikskólaplássum um 90. Það er að mörgu að hyggja við uppbyggingu leikskóla, s.s. að greina íbúaþörf og aldurssamsetningu í hverfum bæjarins.  Fræðslusvið mun vinna að því verkefni í samvinnu við skipulagssvið en út frá þeim gögnum verður hægt að taka ákvarðanir um næstu skref í uppbyggingu leikskóla.

Enn laust hjá dagforeldrum á Akureyri
Um leið og 12-18 mánaða börnum fjölgar í leikskólum þarf að breyta aðbúnaði og aðstöðu innandyra sem og aðlaga skólalóðir að þeirra þörfum. Með uppbyggingu leikskólans við Glerárskóla og mögulegri stækkun á Naustatjörn eða Lundarseli, mun okkur takast að stíga skref í þá átt að bjóða yngri börnum en nú er gert leikskólavist.

Samhliða þessu er vilji til að styrkja starfsumhverfi dagforeldra því þó svo að leikskólaplássum fjölgi verður áfram þörf fyrir þjónustu þeirra. Nú eru starfandi 25 dagforeldrar á Akureyri og fyrirséð að  a.m.k. 3 nýir bætist í hópinn á haustmánuðum.

Nemendafjöldi í leikskólum Akureyrarbæjar skólaárið 2018-2019 verður um 980. Nýir nemendur verða 276 en þar af eru 53 börn fædd í janúar–mars 2017. Stefnt er að því á næsta ári að bjóða börnum sem fædd eru fyrir 30. apríl 2018 leikskólapláss eða mánuði yngri börnum en áður hefur verið. Nemendafjöldi í leikskólum skólaárið 2018-2019 er áætlaður um 980.

Faglærðir eru 90% í leikskólum bæjarins
Mikil umræða hefur verið um mönnun starfsfólks í leikskólum á landinu og sveitarfélögunum gengur misjafnlega vel að ráða faglært starfsfólk.  Á Akureyri hefur verið gengið frá ráðningum fyrir nýhafið skólaár og er hlutfall leikskólamenntaðra sem starfa með börnunum rúmlega 90% sem er með því hæsta sem gerist á landinu. Hlutfall kennara og annarra háskólamenntaðra starfsmanna við kennslu grunnskóla er um 99%.

Akureyrarbær er stoltur af því starfi sem fram fer í skólum bæjarins og forystufólk í bæjarstjórn horfir björtum augum til framtíðar þar sem vandaðir starfshættir og fagmennska eru í fyrirrúmi.

Ingibjörg Isaksenformaður fræðsluráðs og bæjarfulltrúi á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2018.

Categories
Fréttir

SEF hefur vetrarstarfið

Deila grein

05/09/2018

SEF hefur vetrarstarfið

Samband eldri Framsóknarmanna (SEF) er að hefja vetrarstarf sitt á næstu dögum. Mikilvægt verður að virkja eldri félagsmenn í spennandi starf sem framundan er í góðu samstarfi við kjörna fulltrúa flokksins um land allt. Víðsvegar er úrbóta þörf og mikilvægt að ná utan um verkefni er þarfnast úrlausna sem fyrst.
Mikilvægi þess að losna við skerðingar á tekjum eldri borgara hefur verið ofarlega á baugi í umræðunni og aldursfordómar sem fólk mætir ekki síst á vinnumarkaði. Skoða þarf alvarlega að aldursviðmið fyrir töku á ellilífeyri verði ekki hækkað frá því sem nú er enda ljóst að fólk eftir fimmtugt á iðulega í erfiðleikum með að fá vinnu. Fólk á þessum aldri sem hefur menntun, reynslu, getu og vilja til að vinna fær það ekki vegna aldursfordóma. Eins hefur verið rætt um að með sama hætti og jafnað er kynjahlutföll þá gæti reynst mikilvægt að jafna aldursbil hjá ríkinu.
SEF hélt aðalfund sinn snemmsumars og var Drífa Sigfúsdóttir kjörin formaður sambandsins. Aðrir í stjórn eru:
Ólafur Hjálmarsson, Hafnarfirði
Kristinn Snævar Jónsson, Reykjavík
Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir, Garðabæ
Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir, Akureyri
Varastjórn:
Vilhjálmur Sörli Pétursson, Árborg
Þórey Anna Matthíasdóttir, Hafnarfirði
Jóngeir H. Hlinason, Vogum
Loks eru fulltrúar úr öllum kjördæmum í trúnaðarráði SEF.

Categories
Greinar

Samgöngur – úrbætur í sjónmáli

Deila grein

03/09/2018

Samgöngur – úrbætur í sjónmáli

Góðar og greiðar samgöngur eru undirstaða hagvaxtar og velmegunar þjóðfélaga. Ríkisstjórnin ætlar á næstu árum að bæta enn við þau fjárframlög til vegaframkvæmda og veitir ekki af og taka á uppsöfnuðum vanda hringinn í kringum landið. Áherslan er á umferðaröryggi því eitt slys er einu slysi of mikið.

Slitnir vegir

Vegakerfi okkar samfélags er yfir 12 þúsund kílómetrar að lengd. Umferð hefur stóraukist, ekki síst vegna komu ferðamanna sem flestir fara út á vegina yfir sumarið. Árið 2010 kom hingað um hálf milljón ferðamanna, sjö árum seinna voru þeir 2,2 milljónir. Á síðustu tíu árum hefur umferðin aukist um 30% á hringveginum. Á sama tíma hefur vegakerfið liðið fyrir stórfelldan niðurskurð fjármuna. Það er því víða laskað og þörf á viðhaldi og þjónustu afar aðkallandi.

Fækkum slysum

Við eigum ekki að sætta okkur við að banaslys sé eðlilegur hluti af samgöngukerfinu. Fyrir utan mannlegan harmleik sem umferðarslys valda hleypur kostnaður þeirra á tugum milljarða. Í nýrri samgönguáætlun verður forgangsraðað í þágu öryggis og viðhalds þar sem metnaðarfull og skilvirk markmið verða sett um öryggi samgangna og gerðar skilvirkar öryggisáætlanir fyrir samgöngur á landi, á sjó og í lofti. Framtíðarmarkmiðið er að lágmarka og draga úr alvarleika umferðarslysa.

Auknir fjármunir

Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú. Við forgangsröðun fjármuna verður litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Slík vinna stendur nú sem hæst og mun birtast í samgönguáætlun sem verður lögð fram á Alþingi nú í haust.

Framkvæmdir á Suðurlandi

Sunnlendingar finna verulega fyrir aukinni umferð enda er fjölmargar náttúruperlur og sögustaði að finna í fjórðungnum. Meðal framkvæmda í sumar er styrking, breikkun og sementsfestun á kafla Laugarvatnsvegar, sementsfestun á Biskupstungnabraut, brú yfir Fullsæl og vegtenging brúar (Biskupstungnabraut-Reykjavegur og Laugarvatnsvegur), endursteypa á gólfi brúar yfir Ölfusá, miklar framkvæmdir við Suðurlandsveg, undirgöng og nærliggjandi vegtengingar milli Selfoss og Hveragerðis, svo eitthvað sé nefnt. Austar í fjórðungnum má nefna nýjar brýr yfir Brunná, Stigá, Hverfisfljót, Hólá og Kvíá sem og byrjun framkvæmda við Hornafjarðarfljót en í sumar stendur til við að ljúka vegtengingu við Hólm. Að lokum má nefna vegtengingu við gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri.

Framkvæmdalistinn er ekki tæmandi, en gefur engu að síður sterklega til kynna áherslu ríkisstjórnarinnar að bæta skuli samgöngukerfi landsins og þar með umferðaröryggi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingsmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst í Suðra 30. ágúst 2018.

Categories
Greinar

Galdur orðaforðans

Deila grein

29/08/2018

Galdur orðaforðans

Við leggj­um mikla áherslu á að auka og bæta læsi, sér­stak­lega hjá börn­um og ung­menn­um. Lestr­ar­færni er lyk­ill að lífs­gæðum og raun­ar grund­völl­ur að flestu öðru námi. Við vit­um líka að lest­ur er ein flókn­asta hug­ræna aðgerðin sem börn þurfa að ná tök­um á í skól­an­um. Þekk­ing á grunnþátt­um læsis og hvaða viðfangs­efni eru best til þess að efla lestr­ar­færni hef­ur auk­ist mjög og hafa rann­sókn­ir á því sviði leitt til fram­fara í lestr­ar­kennslu, ekki síst fyr­ir börn sem glíma við lestr­ar­erfiðleika.

Á dög­un­um var hald­in fróðleg ráðstefna á veg­um Rann­sókn­ar­stofu um þroska, mál og læsi sem skipu­lögð var til heiðurs dr. Hrafn­hildi Ragn­ars­dótt­ur sem er einn merk­asti fræðimaður okk­ar og kenn­ari á sviði þroska- og mál­vís­inda. Ann­ar aðal­fyr­ir­les­ara ráðstefn­unn­ar var Vi­beke Gröver, pró­fess­or og fyrr­um for­seti Menntavís­inda­sviðs Osló­ar-há­skóla en hún kynnti meðal ann­ars merki­lega rann­sókn sína á tengsl­um orðaforða og lesskiln­ings. Að sögn Gröver er hægt að sjá mark­tæk­ar fram­far­ir í orðaforða, frá­sagn­ar­hæfni og skiln­ingi á sjón­ar­horn­um annarra með ákveðnum aðferðum og inn­gripi. Allt eru þetta al­ger­ir und­ir­stöðuþætt­ir lesskiln­ings. Þess­ar niður­stöður eiga er­indi við alla for­eldra barna sem vinna að því að auka lestr­ar­færni sína. For­eldr­ar eru fyr­ir­mynd­ir barna sinna, ekki síst þegar kem­ur að tungu­mál­inu og hvernig við not­um það. Góður orðaforði gagn­ast vel í námi og hann er auðvelt að auka. Það er göm­ul saga og ný að orð eru til alls fyrst.

Hinn aðal­fyr­ir­les­ar­inn á ráðstefn­unni var dr. Cat­her­ine Snow, pró­fess­or við Har­vard há­skóla. Hún er meðal virt­ustu fræðimanna heims á sviði málþroska og læsis og hef­ur stýrt tíma­mót­a­rann­sókn­um á læsi og lesskiln­ingi barna og ung­menna sem orðið hafa leiðarljós í stefnu­mót­un á öll­um skóla­stig­um í Banda­ríkj­un­um. Í sínu er­indi ræddi hún mik­il­vægi sam­ræðunn­ar fyr­ir þróun lesskiln­ings og orðaforða og nefndi að ein ár­ang­urs­rík­asta leiðin til þess að auka þá færni væri að virkja nem­end­ur í umræðum um al­vöru mál­efni í skóla­stof­unni.

Mennt­a­rann­sókn­ir á borð við þær sem kynnt­ar voru á fyrr­greindri ráðstefnu eru sam­fé­lag­inu afar mik­il­væg­ar. Í sínu stóra sam­hengi styðja þær við stefnu­mót­un og áhersl­ur við mót­un mennta­kerfa og þar með sam­fé­laga. Við stönd­um frammi fyr­ir mörg­um áskor­un­um um þess­ar mund­ir og ég tel mik­il­vægt að ís­lenskt mennta­kerfi sé hreyfiafl breyt­inga og fram­fara til framtíðar. For­senda þess að verða virk­ur þátt­tak­andi í lýðræðisþjóðfé­lagi er góð lestr­ar­færni; að geta lesið, skrifað og gert grein fyr­ir skoðunum sín­um með hjálp ólíkra miðla. Það er sam­fé­lags­legt verk­efni að bæta læsi og lestr­ar­færni á Íslandi, þar höf­um við allt að vinna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. ágúst 2018.

Categories
Fréttir

Ingi Tryggvason látinn

Deila grein

28/08/2018

Ingi Tryggvason látinn

Ingi Tryggvason, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins er látinn. Ingi lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík 22. ágúst, 97 ára að aldri.
Ingi var alþingismaður Norðurlands eystra 1974–1978, en hafði verið varaþingmaður Norðurlands eystra mars 1972, janúar–febrúar og nóvember 1973 og maí 1974.
Ingi var fæddur á Litlu-Laugum í Reykjadal 14. febrúar 1921. Foreldrar hans voru Tryggvi Sigtryggsson bóndi á Laugabóli í Reykjadal og Unnur Sigurjónsdóttir. Eiginkona Inga var Anna Septíma Þorsteinsdóttir kennari og húsmóðir. Synir Inga og Önnu eru: Haukur Þór, Tryggvi, Þorsteinn Helgi, Steingrímur og Unnsteinn. Sambýliskona Inga síðustu árin var Unnur Kolbeinsdóttir.
Ingi tók kennarapróf KÍ 1942 og sótti kennaranámskeið í Askov á Jótlandi 1946. Hann nam í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn 1946–1947 og í The Polytechnic School of Modern Languages í Lundúnum 1947–1948.
Kennari í Lundarreykjadal 1942–1943, við barnaskólann á Eskifirði 1943–1944, skólastjóri barnaskólans í Grenivík 1944–1945, kennari við Héraðsskólann á Laugum 1945–1946 og 1949–1970 og við Gagnfræðaskólann á Siglufirði 1948–1949. Sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Reykdæla 1952–1974. Bóndi á Kárhóli í Reykjadal 1955–1986. Ferðaþjónustubóndi á Narfastöðum í Reykjadal frá 1988.
Ingi var í stjórn Sparisjóðs Reykdæla 1952–1982. Í hreppsnefnd Reykdælahrepps 1966–1974. Í stjórn Sambands íslenskra sparisjóða 1967–1981. Í stjórn Stéttarsambands bænda 1969–1987, formaður stjórnarinnar frá 1981. Skipaður 1971 í endurskoðunarnefnd laga um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Í Sexmannanefnd — verðlagsnefnd landbúnaðarins 1972–1987. Í skólanefnd Héraðsskólans á Laugum 1974–1982, formaður 1974–1978. Í tryggingaráði 1974–1978. Í stjórn Landverndar 1975–1981. Í Framleiðsluráði landbúnaðarins 1976–1987, formaður þess frá 1980. Forstöðumaður ullar- og skinnaverkefnis Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins 1978–1980. Sat á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1978. Stjórnarformaður Grænmetisverslunar landbúnaðarins 1980–1987. Í stjórn Norrænu bændasamtakanna 1981–1987. Í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins 1982–1990 og í stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins 1982–1988.
Við Framsóknarmenn minnumst alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti og vottum aðstandendum innilega samúð.

Categories
Greinar

Endurbætur á vegakerfinu aldrei meiri en nú

Deila grein

13/08/2018

Endurbætur á vegakerfinu aldrei meiri en nú

Vegakerfi okkar samfélags er yfir 12 þúsund kílómetrar að lengd. Umferð hefur stóraukist, ekki síst vegna komu ferðamanna sem flestir fara út á vegina yfir sumarið. Árið 2010 kom hingað um hálf milljón ferðamanna, sjö árum seinna voru þeir 2,2 milljónir. Á síðustu tíu árum hefur umferðin aukist um 30% á hringveginum. Á sama tíma hefur vegakerfið liðið fyrir stórfelldan niðurskurð fjármuna. Það er því víða laskað og þörf á viðhaldi og þjónustu afar aðkallandi.

Auknir fjármunir

Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú. Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Við forgangsröðun fjármuna verður litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Slík vinna stendur nú sem hæst og mun birtast í samgönguáætlun sem verður lögð fram á Alþingi nú í haust.

Aukinn kostnaður

Aukinni umferð fylgir aukinn kostnaður. Á síðustu árum hafa framlög til vegakerfisins verið í öfugu hlutfalli við fjölda notenda og ekna kílómetra á vegum. Afleiðing þess er að ýmsar brýnar framkvæmdir til að auka umferðaröryggi, hafa setið á hakanum. Hægt yrði að tvöfalda þá upphæð sem rynni til vegakerfisins með sérstöku notendagjaldi af einstökum mannvirkjum, s.s. brúm og göngum. Það er ein þeirra leiða sem eru í skoðun til að tryggja aukið fjármagn í vegakerfið til framtíðar – til hagsbóta fyrir okkur öll.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Greinar

Þakklæti á fullveldisafmæli og áskoranir framtíðar

Deila grein

18/07/2018

Þakklæti á fullveldisafmæli og áskoranir framtíðar

Haldið er upp á það í dag að 100 ár eru frá því að samn­ingn­um um full­veldi Íslands var lokið með und­ir­rit­un sam­bands­lag­anna sem tóku gildi 1. des­em­ber 1918. Sjálf­stæðis­bar­átt­an ein­kenndi 19. öld­ina og markaði end­ur­reisn Alþing­is Íslend­inga. Frels­isþráin var mik­il og sner­ist stjórn­má­laum­ræðan einkum um það hvernig Íslend­ing­ar myndu ráða sín­um mál­um sjálf­ir.

Sjálf­stæðis­bar­átt­an færði okk­ur betri lífs­kjör
Full­veld­is­árið 1918 var krefj­andi og stóð ís­lenska þjóðin frammi fyr­ir áskor­un­um af nátt­úr­unn­ar hendi sem settu svip á þjóðlífið. Þá var frosta­vet­ur­inn mikli og haf­ís tor­veldaði sigl­ing­ar víða um landið. Spánska veik­in tók sinn toll af þjóðinni og Katla hóf upp raust sína. Full­veld­inu var fagnað hóf­lega í ljósi þess sem á und­an hafði gengið en árið 1918 færði ís­lensku þjóðinni auk­inn rétt og varðaði mik­il­væg­an áfanga á leið okk­ar til sjálf­stæðis. Á þeim hundrað árum sem liðin eru höf­um við sem frjálst og full­valda ríki náð að bylta lífs­kjör­um í land­inu. Við höf­um borið gæfu til að nýta auðlind­ir lands­ins á sjálf­bær­an hátt og styðja við öfl­ugt vel­ferðarsam­fé­lag, þar sem all­ir eiga að fá tæki­færi til að lifa gæfu­ríku lífi óháð efna­hag. Hins veg­ar er það svo að þrátt fyr­ir að ís­lensku sam­fé­lagi hafi vegnað vel á full­veld­is­tím­an­um er ekki sjálf­gefið að svo verði næstu 100 árin. Því verðum við að vera meðvituð um þær áskor­an­ir sem við stönd­um frammi fyr­ir og tak­ast á við þær af festu. Mig lang­ar til að fjalla um þrjú grund­vall­ar­atriði sem oft eru nefnd sem for­send­ur full­veld­is, en þau eru fólk, land og lög­bundið skipu­lag. Öll þessi atriði skipta máli í fortíð, nútíð og framtíð.

Fólkið og tungu­málið
Ein af þeim áskor­un­um sem ég vil sér­stak­lega nefna er staða ís­lensk­unn­ar. Tung­an hef­ur átt und­ir högg að sækja í kjöl­far örra sam­fé­lags- og tækni­breyt­inga sem hafa breytt dag­legu lífi okk­ar. Til að mynda hef­ur snjall­tækja­bylt­ing­in aukið aðgang að er­lendu afþrey­ing­ar­efni. Þá get­ur fólk talað við tæk­in sín á ensku. Við vilj­um bregðast við þessu og liður í því er fram­kvæmd á mál­tækni­áætl­un fyr­ir ís­lensku 2018-2022. Mark­mið henn­ar er að tryggja að hægt sé að nota ís­lensku í sam­skipt­um við tæki og í allri upp­lýs­inga­vinnslu og gera tungu­málið okk­ar gild­andi í sta­f­ræn­um heimi til framtíðar. Það er hins veg­ar ekki nóg að snara öll­um snjall­tækj­um yfir á ís­lenska tungu. Við verðum sjálf að vera meðvituð um mik­il­vægi þess að leggja rækt við málið okk­ar og nota það. Það eru for­rétt­indi fyr­ir litla þjóð að tala eigið tungu­mál. Því vil ég brýna alla til þess að leggja sitt af mörk­um við að rækta það.

Landið okk­ar og eign­ar­hald
Önnur áskor­un sem ég vil nefna snýr að landi og eign­ar­haldi á því. Lög um eign­ar­rétt og af­nota­rétt fast­eigna kveða á um að eng­inn megi öðlast eign­ar­rétt eða af­nota­rétt yfir fast­eign­um á Íslandi nema viðkom­andi aðili sé ís­lensk­ur rík­is­borg­ari eða með lög­heim­ili á Íslandi. Hins veg­ar get­ur ráðherra vikið frá þessu skil­yrði sam­kvæmt um­sókn frá áhuga­söm­um aðilum, sem ger­ir nú­ver­andi lög­gjöf frem­ur ógagn­sæja. Heim­ild­ir og tak­mark­an­ir er­lendra aðila utan EES-svæðis­ins er lúta að fast­eign­um hér á landi eru einnig óskýr­ar. Það verður að koma í veg fyr­ir að landið hverfi smám sam­an úr eigu þjóðar­inn­ar og að nátt­úru­auðlind­ir glat­ist. Staðreynd­in er sú að land­fræðileg lega Íslands er afar dýr­mæt og mik­il­vægi henn­ar mun aukast í framtíðinni. Í rík­is­stjórn­arsátt­mál­an­um er kveðið á um að skoðaðar verði leiðir til að setja skil­yrði við kaup á landi sem taka mið af stefnu stjórn­valda um þróun byggða, land­nýt­ingu og um­gengni um auðlind­ir. Það er nauðsyn­legt að marka skýr­ari stefnu í þessu máli.

Mik­il­væg þrískipt­ing valds­ins
Í þriðja lagi lang­ar mig að nefna lög­bundið skipu­lag. Það sem felst í því að verða frjálst og full­valda ríki er einka­rétt­ur þjóðar­inn­ar til þess að fara með æðstu stjórn dómsvalds, lög­gjaf­ar- og fram­kvæmd­ar­valds. Það stjórn­ar­far sem reynst hef­ur far­sæl­ast er lýðræðið. Þess vegna er brýnt að efla Alþingi til að styðja við stjórn­skip­an lands­ins. Umboðið sem kjörn­ir full­trú­ar hljóta í kosn­ing­um er afar þýðing­ar­mikið og mik­il­vægt að styðja við það. Alþing­is­mönn­um ber að varðveita þetta umboð af mik­illi kost­gæfni og það er okk­ar hlut­verk að tryggja að op­in­ber stefnu­mót­un taki ávallt mið af því. Alþing­is­menn eru kjörn­ir til að fram­fylgja mál­um sem þeir fá umboð til í kosn­ing­um. Póli­tískt eign­ar­hald á stefnu­mót­un er lyk­il­atriði í því að hún sé far­sæl og sjálf­bær. Ef kjörn­ir full­trú­ar fram­kvæmda­valds­ins missa sjón­ar á umboði sínu og hlut­verki gagn­vart kjós­end­um er lýðræðið sjálft í hættu.

Full­veldið og sá rétt­ur sem því fylg­ir hef­ur gert okk­ur kleift að stýra mál­um okk­ar ásamt því að vera virk­ir þátt­tak­end­ur í alþjóðasam­fé­lag­inu. Á dög­um sem þess­um, þegar við horf­um 100 ár aft­ur í tím­ann, fyll­umst við flest þakk­læti fyr­ir þær ákv­arðanir sem tryggðu okk­ur þessi rétt­indi. Hug­ur­inn leit­ar síðan óneit­an­lega til framtíðar og þeirra verk­efna sem bíða okk­ar, það er okk­ar að tryggja þá far­sæld.

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. júlí 2018.