Categories
Greinar

Skrúður í Dýrafirði

Deila grein

25/10/2023

Skrúður í Dýrafirði

Á dög­un­um und­ir­ritaði Guðlaug­ur Þór, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, friðlýs­ingu vegna Skrúðs í Dýraf­irði. Friðlýs­ing­in tek­ur til Skrúðs í heild auk vegg­hleðslna um­hverf­is garðinn, garðhliðs úr hval­beini, gos­brunns og gróður­húss og annarra sögu­legra mann­virkja.

Skrúður á sér merka sögu og má rekja hana til byrj­un­ar síðustu ald­ar. Hann var gerður í upp­hafi skóla­halds á Núpi og til­gang­ur garðsins var að styðja við mennt­un nem­enda skól­ans, bæði hvað varðar fræðslu um rækt­un ma­t­jurta, grasa­fræðikennslu og ekki síst til að fegra um­hverfið. Nafn garðsins, Skrúður, er fyr­ir­mynd orðsins „skrúðgarður“ sem notað er um slíka garða víða um land.

Garður­inn var gerður að frum­kvæði sr. Sig­tryggs Guðlaugs­son­ar sem var stofn­andi skól­ans á Núpi og fyrsti skóla­stjór­inn. Þau hjón Sig­trygg­ur og Hjaltlína Guðjóns­dótt­ir unnu öt­ul­lega að upp­bygg­ingu garðsins og sótti Hjaltlína sér mennt­un í garðyrkju­fræðum sem nýtt­ist vel við upp­bygg­ingu og viðhald hans.

Fal­in perla

Það er mik­il vinna að viðhalda slík­um garði og halda uppi merkj­um hans í rúma öld. Meðan skóla­hald var á Núpi var hon­um sinnt af skól­an­um enda í eigu hans og þar held ég að hafi sér­stak­lega verið tvær kon­ur sem sinntu þeirri vinnu, Hjaltlína og seinna Ing­unn Guðbrands­dótt­ir ásamt manni henn­ar, Þor­steini Gunn­ars­syni. Eft­ir að Ing­unn og Þor­steinn fóru frá Núpi upp úr ár­inu 1980 fór garðinum að hnigna. Skóla­hald á Núpi var lagt niður árið 1992 og þar með varð garður­inn munaðarlaus en þá tóku heima­menn og áhuga­menn sig sam­an um að koma garðinum til þeirr­ar virðing­ar sem hann áður hafði.

Það hef­ur ekki alltaf gengið þrauta­laust en eitt er víst að það má þakka þá þol­in­mæði og bar­áttu sem unn­in hef­ur verið í þeim efn­um. Nú hef­ur Skrúður fengið ákveðna viður­kenn­ingu sem von­andi gef­ur þann kraft til framtíðar sem hann á skil­inn.

Þeir sem bar­ist hafa fyr­ir um­hirðu garðsins eiga mikl­ar þakk­ir skild­ar. Ég vil hvetja alla sem leið eiga um Dýra­fjörð til að gefa sér tíma til að heim­sækja Skrúð. Það er ánægju­leg heim­sókn, ekki síst fyr­ir sög­una, sér í lagi nú þegar garður­inn er í góðri um­hirðu og fjöl­breytt­ur.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Deila grein

24/10/2023

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Claudia Gold­in hlaut Nó­bels­verðlaun­in í hag­fræði í ár fyr­ir að efla skiln­ing okk­ar á stöðu kvenna á vinnu­markaði. Hagrann­sókn­ir Gold­in ná yfir síðustu 200 ár og fjalla um stöðu kvenna á banda­rísk­um vinnu­markaði og veg­ferðina að auknu launa­jafn­rétti. Rann­sókn­ir henn­ar hafa hrakið hefðbundn­ar álykt­an­ir um hvaða breyt­ur leiði til auk­ins jafn­rétt­is. Fyr­ir rann­sókn­ir Gold­in var talið að auk­inn hag­vöxt­ur leiddi til auk­ins jafn­rétt­is á vinnu­markaðinum. Í rann­sókn­um sem birt­ar voru árið 1990 sýndi Gold­in fram á að það var ekki fyrr en á tutt­ug­ustu öld­inni, þegar störf­um í þjón­ustu­geir­an­um fjölgaði og mennt­un á fram­halds­skóla­stigi þróaðist, að launamun­ur kynj­anna fór að minnka.

Vænt­ing­ar um barneign­ir skýra launamun

Á tutt­ug­ustu öld jókst mennt­un­arstig kvenna stöðugt og hafði áhrif á að minnka launamun­inn fram af. Önnur stór skýri­breyta er aðgang­ur kvenna að getnaðar­varn­arpill­unni árið 1961 í Banda­ríkj­un­um, þar sem hún gerði kon­um kleift að skipu­leggja náms- og starfs­fer­il­inn. Hefðbund­in sögu­skýr­ing á launamun kynj­anna var sú að kon­ur og karl­ar hefðu á unga aldri valið sér mennt­un, sem leiddi síðan til ákveðinna starfa sem væru mis­vel launuð. Gold­in komst hins veg­ar að því að sá launamun­ur sem enn er við lýði skýrist að stærst­um hluta af áhrif­um barneigna. Hagrann­sókn­ir Gold­in sýna fram á að launamun­ur kynj­anna minnkaði í nokkr­um skref­um. Laun kvenna hækkuðu í hlut­falli við laun karla á ár­un­um 1820-50, og svo aft­ur 1890-1930, áður en þau hækkuðu á ár­un­um 1980-2005 (sjá mynd 1).

Mestu breyt­ing­arn­ar eiga sér stað á átt­unda ára­tug síðustu ald­ar. Kyn­bund­inn launamun­ur hef­ur hald­ist nokkuð stöðugur í Banda­ríkj­un­um und­an­far­in 20 ár. Árið 2022 voru meðallaun kvenna 82% af því sem karl­ar höfðu að meðaltali. Meg­in­út­skýr­ing á því að launamun­ur­inn minnk­ar felst í vænt­ing­um, þ.e. ef ung kona stýr­ir því hvenær og hvort hún eign­ast barn og hef­ur meiri vænt­ing­ar um að kon­ur geti unnið fjöl­breytt störf, þá fjár­fest­ir hún meira í framtíð sinni. Á ár­un­um 1967-1979 jókst hlut­fall 20 og 21 árs kvenna sem væntu þess að vera í vinnu 35 ára úr 35% í 80%! Einn ann­ar mik­il­væg­ur áhrifa­vald­ur þess­ara umbreyt­inga, sem fylgdu pill­unni, var að kon­ur gátu frestað gift­ingu sem olli því sam­kvæmt Gold­in að þær tóku há­skóla­nám fast­ari tök­um, gátu hugsað sér sjálf­stæða framtíð og mótað sjálfs­mynd sína fyr­ir hjóna­band og fjöl­skyldu.

Leiðrétt­ur launamun­ur karla og kvenna á Íslandi er 4,3%

Sam­kvæmt rann­sókn Hag­stofu Íslands var óleiðrétt­ur launamun­ur karla og kvenna 9,1% árið 2022 og dróst sam­an frá fyrra ári úr 10,2%. Óleiðrétt­ur launamun­ur kynj­anna á Íslandi hef­ur minnkað hægt og bít­andi síðustu ára­tugi. Launamun­ur á Íslandi eykst eft­ir aldri og er mun­ur­inn 0,7% á meðal 24 ára og yngri og 16,3% á meðal 55-64 ára. Þessi niðurstaða er í sam­ræmi við rann­sókn sem Hag­stof­an gerði árið 2021 en þar kom fram að launamun­ur karla og kvenna dróst sam­an frá 2008 til 2020. Kyn­bund­in skipt­ing vinnu­markaðar í störf og at­vinnu­grein­ar skýr­ir að miklu leyti þann launamun sem er til staðar en áhrif mennt­un­arstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin (sjá mynd 2).

Það er afar já­kvætt að launamun­ur kynj­anna haldi áfram að minnka enda er það hag­ur allra. Ísland er metið vera sá staður í ver­öld­inni þar sem best er að vera úti­vinn­andi kona, sam­kvæmt tíma­rit­inu Econom­ist og glerþaks­vísi­töl­unni.

Enn í dag hafa barneign­ir og hjú­skap­ur mik­il áhrif á launamun í Banda­ríkj­un­um

Launamun­ur kynj­anna út frá fram­halds­námi í Banda­ríkj­un­um hef­ur ekki breyst mikið frá ár­inu 2005 og Gold­in hef­ur verið að leita skýr­inga. Í bók sem hún gaf út árið 2021 kem­ur hún með þá kenn­ingu að störf­um sem fela í sér mikla yf­ir­vinnu og óvissu sé um að kenna. Fram kem­ur í lang­tíma­gögn­um þar sem fylgst er með lífi og tekj­um ein­stak­linga í Banda­ríkj­un­um að laun karla og kvenna eru áber­andi svipuð strax eft­ir fram­halds­nám eða há­skóla­nám. Á fyrstu árum starfs­fer­ils­ins er launamun­ur lít­ill hjá ný­út­skrifuðum há­skóla­nem­um og skýrist hann að mestu leyti af ólíku náms- og starfs­vali karla og kvenna. Karl­ar og kon­ur byrja nán­ast á sama tekju­grunni og hafa mjög svipuð tæki­færi. Það er ekki fyrr en lengra er liðið á æv­ina, um tíu árum eft­ir að há­skóla­námi lýk­ur, að mik­ill launamun­ur kem­ur í ljós hjá körl­um og kon­um, sér­stak­lega þeim kon­um sem eiga tvö börn.

Barneign­ir hafa ekki mik­il áhrif á launamun á Íslandi en yf­ir­vinna skýr­ir mun­inn

Þegar svo­kallaður leiðrétt­ur launamun­ur er skoðaður var hann 4,3% á Íslandi árið 2019. Þetta þýðir að ef karl­ar og kon­ur ynnu að jafnaði sömu störf, í sömu at­vinnu­grein­um, þá stæði eft­ir að kon­ur fengju að meðaltali um 4,3% lægri laun en karl­ar vegna kyns síns. Hins veg­ar þegar aðeins er leiðrétt fyr­ir lýðfræðileg­um breyt­um, þ.e. aldri, hjú­skap­ar­stöðu og fjölda barna, var leiðrétt­ur launamun­ur 10,9% árið 2019. Það gef­ur til kynna að breyt­urn­ar í líkan­inu skýri ein­ung­is að litlu leyti óleiðrétta launamun­inn. Niður­stöður gefa einnig til kynna að þess­ar breyt­ur hafi mark­tækt ólík áhrif á karla og kon­ur. Hjú­skap­arstaða á Íslandi hef­ur til að mynda eng­in áhrif á laun kvenna en það að ein­stak­ling­ur sé í sam­búð hef­ur já­kvæð áhrif á laun karla. Slík áhrif eru þekkt í fjöl­mörg­um lönd­um en ný­leg rann­sókn frá Banda­ríkj­un­um sýn­ir að áhrif­in eru einkum vegna þess að karl­menn með hærri laun eru lík­legri til þess að kvæn­ast, þ.e. laun­in hafa áhrif á hjú­skap­ar­stöðu en ekki öf­ugt. Fjöldi barna und­ir tveggja ára aldri hef­ur sam­kvæmt rann­sókn­inni ómark­tæk áhrif á laun kvenna á Íslandi og lít­il áhrif (til lækk­un­ar) á laun karla.

Hagrann­sókn­ir Gold­in eru mjög áhuga­verðar. Áður en Gold­in hóf rann­sókn­ir sín­ar töldu marg­ir fræðimenn að spurn­ing­um um launamun kynj­anna í sögu­legu sam­hengi væri ósvarað vegna skorts á gögn­um. Segja má að sú leið sem Ísland hef­ur farið í jafn­rétt­is­mál­um sanni hag­fræðikenn­ing­ar Gold­in, þ.e. að með öfl­ugri upp­bygg­ingu leik­skóla­stigs­ins ásamt 12 mánaða fæðing­ar­or­lofi hafi launamun­ur­inn minnkað mark­visst. Fram­sæk­in kvenna­bar­átta í gegn­um tíðina skipt­ir einnig sköp­um. Þrátt fyr­ir það er launamun­ur og hann eykst eft­ir aldri. Þessu þarf að breyta ásamt því að efla leik­skóla­stigið og starfs­um­hverfi kenn­ara!

Ég óska sam­fé­lag­inu til ham­ingju með dag­inn og hvet okk­ur öll til áfram­hald­andi góðra verka í þágu jafn­rétt­is­mála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

At­vinnu­öryggi vegna barn­eigna

Deila grein

23/10/2023

At­vinnu­öryggi vegna barn­eigna

Einn af hornsteinum jafnréttisbaráttunnar hér á landi er að tryggja rétt til fæðingarorlofs og tryggja atvinnuöryggi barnshafandi kvenna og síðar beggja foreldra, þannig að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna fyrirhugaðs fæðingar- eða foreldraorlofs.

Það að eiga vona á barni og bjóða einstakling í heiminn er sennilega eitt af því fallegasta og dýrmætasta sem margir gera í lífinu, ef svo má segja. Að verða foreldri er einstakt í sjálfu sér, umsvifalaust fer margt að snúast um það barn sem er á leiðinni. Ábyrgðartilfinning í bland við eftirvæntingu.

Tæknifrjóvgun og tengdar meðferðir eru oft langt og erfitt ferli, inngrip sem hefur áhrif á líkamlega- og andlega líðan. Kostnaður sem fólk ber er þónokkur í dag og felur jafnframt í sér áhættu. Ferlið getur verið afar tímafrekt og algjör ógjörningur að tryggja að allt heppnist í fyrstu tilraun. Í einhverjum tilfellum þarf nokkrar tilraunir áður en ferlið heppnast, það er ef það heppnast. Á sama tíma getur það tekið á að ná ekki að sinna vinnu sinni eins og best verður á kosið og engum til hagsbóta að starfsmaðurinn standi mögulega höllum fæti gagnvart vinnuveitanda sínum á þeim tíma sem hann freistar þess að eignast barn og stofna til fjölskyldu.

Einstaklingar sem þurfa að leita í slíkt ferli hafa ekki sömu möguleika og aðrir til þess að halda áformum sínum leyndum um að eignast barn og stofna til fjölskyldu. Þeir einstaklingar sem ekki þurfa að gangast undir ferli sem þetta eru alla jafna ekki að upplýsa yfirmenn um áform um barneignir, enda er um að ræða einkamál hvers og eins.

Við eigum að vera vakandi fyrir því hvað má betur fara, bregðast við nýjum þörfum og þétta velferðarkerfi okkar á grundvelli jafnréttismála, því hef ég lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Það er stækkandi hópur sem hér um ræðir, en slíkum meðferðum hefur fjölgað um fjölgaði um meira en helming hér á landi á síðustu fjórum árum, en á síðasta ári voru 571 tæknifrjóvgunaraðgerð framkvæmd hér á landi, sem í mínum huga undirstrikar mikilvægi þessa máls, enda tel ég að við megum engan tíma missa.

Mikilvægar breytingar

Í mínum tillögum felast annars vegar viðurkenning á réttindum þeirra sem eru í tæknifrjóvgunarferli og hins vegar styrking á atvinnuöryggi fólks sem eru í meðferð vegna tæknifrjóvgana. Þannig að það sé skýrt í lögunum að óheimilt sé að segja starfsfólki á því tímabili sem virk meðferð með tæknifrjóvgun fer fram. Að því sögðu, þó það sé heimilt sé að geyma fósturvísa í allt að 10 ár þá ber að hafa í huga að vernd gegn uppsögn með þessum hætti er ætluð að eiga við á þeim tíma sem starfsmaðurinn undirgengst virka meðferð og getur sýnt fram á staðfestingu þess eðlis. Það er mikilvægt að halda áfram að styrkja réttaröryggi í jafnréttisbaráttunni, þeirri vegferð er aldrei lokið fremur en öðrum verkefnum.

Við höfum tök á að tryggja framangreint með samþykki á frumvarpinu sem hér um ræðir. Það er því einlæg von mín að frumvarpið hljóti brautargengi í þinginu á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tilbúin að bregðast við breyttum aðstæðum

Deila grein

22/10/2023

Tilbúin að bregðast við breyttum aðstæðum

„Stjórn­völd þurfi að vera búin und­ir það að hlut­irn­ir geti snú­ist svo­lítið hratt,“ sagði Jón Bjarki Bents­son aðal­hag­fræðing­ur Íslands­banka í Morg­unút­varp­inu á Rás 2 á mánu­dag­inn spurður um stöðu heim­il­anna og hvernig hún geti tekið breyt­ing­um á næstu mánuðum. Það eru krefj­andi aðstæður uppi um þess­ar mund­ir og brýn verk­efni fram und­an. Verðbólga hef­ur áhrif á sam­fé­lagið allt þar sem fólk og fyr­ir­tæki finna fyr­ir hækk­andi vöxt­um sem reyn­ist mörg­um þung­ur baggi að bera. Það ligg­ur fyr­ir að stór hluti lána er á föst­um vöxt­um sem losna nú á kom­andi árs­fjórðung­um og það get­ur breytt stöðunni nokkuð hratt til hins verra. Því er sér­stak­lega mik­il­vægt að stjórn­völd fylg­ist náið með stöðunni, greini hana og bregðist við með aðgerðum fyr­ir þá hópa sem verða hvað verst úti með ábyrg­um og ör­ugg­um hætti.

Lægri verðbólga og fyr­ir­sjá­an­legra vaxtaum­hverfi

Stjórn efna­hags­mála verður mik­il­væg­asta verk­efni stjórn­mál­anna og sam­fé­lags­ins alls á næstu mánuðum með það að mark­miði að ná hér tök­um á verðbólgu og vöxt­um. Það ger­um við fyrst og fremst með ábyrg­um rekstri og aðhaldi í rík­is­fjár­mál­um, um leið og viðkvæm­ir hóp­ar eru varðir með aðgerðum fyr­ir áhrif­um verðbólg­unn­ar. Kjara­samn­ing­ar á vinnu­markaði losna nú um ára­mót­in og þar er allra hag­ur að vel tak­ist til. Höfuðmark­miðið er að lenda far­sæl­um lang­tíma­kjara­samn­ing­um sem styðja við það mik­il­væga verk­efni að ná hér niður verðbólgu og vöxt­um sem er óum­deilt mesta kjara­bót heim­ila og fyr­ir­tækja í land­inu. Heilt yfir er staðan nokkuð góð á vinnu­markaði, þar sem at­vinnu­leysi er í lág­marki og nýj­um at­vinnu­tæki­fær­um fjölg­ar stöðugt í fjöl­breytt­ara at­vinnu­lífi um land allt.

Þó svo að stjórn­völd eigi ekki form­lega aðkomu að kjara­samn­ings­gerðinni er ljóst að aðilar vinnu­markaðar­ins munu kalla eft­ir því að stjórn­völd liðki fyr­ir samn­ings­gerð. Þar er lík­legt að há­vær­ust verði kraf­an um frek­ari úrræði til að stuðla að auknu hús­næðis­ör­yggi og að barna­fjöl­skyld­ur og þeir sem lak­ast standa verði var­in. Stjórn­völd átta sig á hlut­verki sínu í kom­andi kjara­samn­ing­um og mik­il­vægi þess að vel tak­ist til. Nú þegar hef­ur rík­is­stjórn­in stigið inn með aðgerðir á hús­næðismarkaði þar sem stutt hef­ur verið við upp­bygg­ingu með op­in­ber­um stuðningi og má þar nefna upp­bygg­ingu al­mennra íbúða og veit­ingu hlut­deild­ar­lána til kaupa á hag­kvæm­um íbúðum. Eins hef­ur verið stutt við barna­fjöl­skyld­ur með hækk­un barna­bóta með hærri grunn­fjár­hæð og skerðinga­mörk­um. Þessu til viðbót­ar er hér rétt að nefna að húsa­leigu­bæt­ur hafa verið hækkaðar um fjórðung frá miðju ári 2022 auk þess sem frí­tekju­mörk voru hækkuð til jafns við hækk­un bóta.

Hús­næðismarkaður á kross­göt­um

Tryggt fram­boð og ör­yggi á hús­næðismarkaði er mikið hags­muna­mál í ís­lensku sam­fé­lagi. Lang­tíma­skort­ur á íbúðum á Íslandi hef­ur valdið því að bæði leigu- og fast­eigna­verð hef­ur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið sem mun koma í veg fyr­ir að leigu- og fast­eigna­verð muni halda áfram að hækka óeðli­lega mikið líkt og verið hef­ur á und­an­förn­um árum. Sú leið er aukið fram­boð af hús­næði. Mark­mið innviðaráðherra um aukna hús­næðis­upp­bygg­ingu og þær aðgerðir sem gripið hef­ur verið til er mik­il­vægt inn­legg í þá veg­ferð. Hins veg­ar er það svo að hús­næðismarkaður­inn hef­ur fundið veru­lega fyr­ir aðgerðum Seðlabank­ans, þar sem kaup­end­um hef­ur verið gert erfiðara um vik að kom­ast inn á markaðinn og fjár­mögn­un ný­fram­kvæmda er orðin dýr­ari. Þvert á það sem við þurf­um nú, og þegar allt er sam­an tekið, hef­ur þetta letj­andi áhrif á fram­kvæmdaaðila til að halda áfram að fram­kvæma íbúðir.

Ég er fullmeðvitaður um þann línu­dans sem þetta er á tím­um hárra vaxta og verðbólgu, en nú­ver­andi ástand mun ein­ung­is leiða til hærra leigu­verðs og auka þrýst­ing á mjög hátt fast­eigna­verð þegar nú­ver­andi ástandi slot­ar. Það er eng­um til góðs og að mínu mati ljóst að gera þarf sér­stak­ar ráðstaf­an­ir til að leysa þann hnút sem við erum kom­in í. Slíkt mætti gera með tíma­bundn­um og sér­tæk­um lána­skil­mál­um hjá fjár­mála­fyr­ir­tækj­um til að tryggja áfram nauðsyn­lega upp­bygg­ingu. Með slíku myndu fjár­mála­fyr­ir­tæk­in rísa und­ir þeirri ábyrgð sem á þeim hvíl­ir um þess­ar mund­ir. Þessu til viðbót­ar tel ég skyn­sam­legt að ráðast í nauðsyn­leg­ar laga­breyt­ing­ar á fjár­fest­inga­heim­ild­um líf­eyr­is­sjóða sem myndi gera þeim heim­ilt að eiga meira en 20% í fé­lagi sem myndi sinna fast­eigna­verk­efn­um fyr­ir líf­eyr­is­sjóði og gæti þar með styrkt okk­ur sem sam­fé­lag í því verk­efni að hér á landi verði til traust­ur og heil­brigður leigu­markaður.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ísland er lánsamt ríki

Deila grein

22/10/2023

Ísland er lánsamt ríki

Kast­ljós helstu stjórn­mála­leiðtoga heims­ins held­ur áfram að bein­ast að ástand­inu fyr­ir botni Miðjarðar­hafs, sem stig­magnaðist mjög hratt í kjöl­far grimmi­legra árása Ham­as-hryðju­verka­sam­tak­anna í Ísra­el. Svæðið er því miður aft­ur orðið púðurt­unna þar sem hætta er á enn frek­ari stig­mögn­un og opn­un nýrra víg­lína með slæm­um af­leiðing­um. Vís­bend­ing­ar í þessa veru birt­ast okk­ur meðal ann­ars í átök­um Ísra­els­hers og Hez­bollah-sam­tak­anna í Líb­anon sem hafa skipst á skot­um yfir landa­mær­in í norður­hluta Ísra­els. Augu margra bein­ast að Íran sem hef­ur um ára­bil stutt við Hez­bollah- og Ham­as-sam­stök­in, ásamt öðrum víga­hóp­um í Mið-Aust­ur­lönd­um, með vopn­um, þjálf­un og hernaðar­upp­lýs­ing­um.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti ávarpaði þjóð sína á fimmtu­dags­kvöld í fram­haldi af heim­sókn sinni til Mið-Aust­ur­landa í vik­unni. Fór ávarpið fram úr for­seta­skrif­stof­unni sjálfri sem þykir til marks um al­var­leika máls­ins, en þetta var aðeins annað ávarp for­set­ans til þjóðar sinn­ar með þeim hætti. Biden fór meðal ann­ars yfir þá var­huga­verðu stöðu sem er uppi í heim­in­um, þar sem stríð geis­ar í Evr­ópu vegna ólög­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu og hins veg­ar stríðið milli Ísra­els og Ham­as.

Þetta eru sann­ar­lega viðsjár­verðir tím­ar sem við lif­um á og ekki síst í ljósi þess að enn skýr­ari skil í alþjóðastjórn­mál­un­um virðast vera að teikn­ast upp, þar sem til að mynda hernaðarleg sam­vinna Rúss­lands, Írans og Norður-Kór­eu hef­ur auk­ist til muna. Í því sam­hengi má nefna að Norður-Kórea hef­ur ákveðið að sjá Rúss­um fyr­ir vopn­um og skot­fær­um fyr­ir stríðsrekst­ur þeirra í Úkraínu, líkt og Íran­ir hafa gert um tals­vert skeið. Því hef­ur meðal ann­ars verið velt upp hvort með þýðari sam­skipt­um sín­um við Norður-Kór­eu séu Rúss­ar að búa sér til sterk­ari stöðu á Kór­eu­skag­an­um, þar sem ástandið er nú þegar viðkvæmt milli Norður- og Suður-Kór­eu.

Á hinn bóg­inn urðu vatna­skil í vest­rænni sam­vinnu í kjöl­far inn­rás­ar Rússa í Úkraínu og hef­ur hernaðarsam­vinna Vest­ur­landa stór­auk­ist í kjöl­farið. Blað var brotið í sögu Evr­ópu­sam­bands­ins þegar það stóð í fyrsta sinn fyr­ir bein­um hernaðarstuðningi við Úkraínu og öfl­ug ríki inn­an sam­bands­ins, líkt og Þýska­land, hafa stór­aukið fram­lög sín til varn­ar­mála.

Ísland er lán­samt ríki að mörgu leyti. Ný­verið var til­kynnt að Ísland væri ör­ugg­asta ríki heims sam­kvæmt Alþjóðlegu friðar­vísi­töl­unni (e. Global Peace Index), en það er 15. skiptið í röð sem það ger­ist. Það að búa við frið og ör­yggi er því miður ekki sjálfsagt í heim­in­um eins og nú­tím­inn ber glögg merki um. Ísland hef­ur tekið rétt­ar ákv­arðanir í gegn­um tíðina, til dæm­is með stofnaðild sinni að Atlants­hafs­banda­lag­inu 1949 og samn­ingi um tví­hliða varn­ar­sam­starf við Banda­rík­in 1951. Við sem þjóð verðum að halda áfram að vera á tán­um, á sama tíma og við stönd­um með al­menn­um borg­ur­um, sem því miður fara alltaf verst út úr stríðsátök­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. október 2023.

Categories
Fréttir

„Gríðarlega mikilvægt að ríkið sýni ábyrgð“

Deila grein

19/10/2023

„Gríðarlega mikilvægt að ríkið sýni ábyrgð“

„Nú erum við í fjárlagavinnunni og erum eðlilega upptekin af þáttum eins og vergri landsframleiðslu, útgjaldaaukningu, aðhaldi og fjármögnun ýmissa málaflokka ríkisvaldsins. Vextir eru háir vegna verðbólgu og markmiðið er að ná verðbólgu niður. Því er gríðarlega mikilvægt að ríkið sýni ábyrgð. Nú er það markmið flestra ef ekki allra kjörinna fulltrúa að auka velsæld landsmanna en það getur verið flókið að meta farsæld út frá mismunandi forsendum og varla hægt að segja að allt sé frábært ef einungis er horft á afmarkaða þætti. Sem dæmi, virðulegi forseti, má segja að ef við horfum á samfélagið í kringum okkur er hagnaður fyrirtækis til að mynda ekki endilega mælikvarði á ánægju starfsmanna, launin okkar til að mynda eru ekki endilega mælikvarði á það hvernig börnunum okkar líður og ekki er verg landsframleiðsla alltaf mælikvarði á hamingju þjóðarinnar,“ sagði Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, tók t.d. upp hagvísa árið 2011 sem fanga margvíslegar víddir efnahagslegra og félagslegra framfara. Þar er verið að mæla velferð, umhverfisgæði, gæði opinberrar þjónustu, öryggi og aðgang að heilbrigðisþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Við Íslendingar höfum verið ofarlega á þessum mælikvarða á undanförnum árum og vorum í þriðja sæti árið 2020. Nýverið komu út lýðheilsuvísar embættis landlæknis og sýna þeir þróun heilsutengdra þátta milli landshluta og hvernig sú þróun er yfir tíma, alveg frábær vinna. Við eigum að taka meira tillit til þessara upplýsinga við fjárlagagerð, fjármálaáætlun og löggjöf almennt hér á landi. Ef við gerum þetta þá leggjum við enn sterkari grunn að velferð samfélagsins til framtíðar,“ sagði Jóhann Friðrik.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Nú erum við í fjárlagavinnunni og erum eðlilega upptekin af þáttum eins og vergri landsframleiðslu, útgjaldaaukningu, aðhaldi og fjármögnun ýmissa málaflokka ríkisvaldsins. Vextir eru háir vegna verðbólgu og markmiðið er að ná verðbólgu niður. Því er gríðarlega mikilvægt að ríkið sýni ábyrgð. Nú er það markmið flestra ef ekki allra kjörinna fulltrúa að auka velsæld landsmanna en það getur verið flókið að meta farsæld út frá mismunandi forsendum og varla hægt að segja að allt sé frábært ef einungis er horft á afmarkaða þætti. Sem dæmi, virðulegi forseti, má segja að ef við horfum á samfélagið í kringum okkur er hagnaður fyrirtækis til að mynda ekki endilega mælikvarði á ánægju starfsmanna, launin okkar til að mynda eru ekki endilega mælikvarði á það hvernig börnunum okkar líður og ekki er verg landsframleiðsla alltaf mælikvarði á hamingju þjóðarinnar.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, tók t.d. upp hagvísa árið 2011 sem fanga margvíslegar víddir efnahagslegra og félagslegra framfara. Þar er verið að mæla velferð, umhverfisgæði, gæði opinberrar þjónustu, öryggi og aðgang að heilbrigðisþjónustu, svo eitthvað sé nefnt. Við Íslendingar höfum verið ofarlega á þessum mælikvarða á undanförnum árum og vorum í þriðja sæti árið 2020. Nýverið komu út lýðheilsuvísar embættis landlæknis og sýna þeir þróun heilsutengdra þátta milli landshluta og hvernig sú þróun er yfir tíma, alveg frábær vinna. Við eigum að taka meira tillit til þessara upplýsinga við fjárlagagerð, fjármálaáætlun og löggjöf almennt hér á landi. Ef við gerum þetta þá leggjum við enn sterkari grunn að velferð samfélagsins til framtíðar.“

Categories
Fréttir

Aðeins ein leið ‒ auka framboð á húsnæði

Deila grein

19/10/2023

Aðeins ein leið ‒ auka framboð á húsnæði

„Það er óhætt að segja að húsnæðismarkaðurinn á Íslandi sé á krossgötum. Langtímaskortur á íbúðum hér á landi hefur valdið því að bæði leigu- og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið til að koma í veg fyrir að leigu- og fasteignaverð haldi áfram að hækka óeðlilega mikið líkt og verið hefur á undanförnum árum. Sú leið er að auka framboð á húsnæði. Þar eru markmið innviðaráðherra um aukna húsnæðisuppbyggingu og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til mikilvægt innlegg í þá vegferð,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Hins vegar er það svo að húsnæðismarkaðurinn hefur fundið verulega fyrir aðgerðum Seðlabankans þar sem kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn og fjármögnun nýframkvæmda er orðin miklum mun dýrari, þvert á það sem við þurfum nú. Þegar allt er saman tekið hefur þetta letjandi áhrif á framkvæmdaraðila til að halda áfram framkvæmdum við íbúðir.

Að þessu sögðu er ég fullmeðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar. Það er engum til góðs og að mínu mati er ljóst að gera þarf sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við stöndum frammi fyrir. Slíkt mætti gera með tímabundnum og sértækum lánaskilmálum hjá fjármálafyrirtækjum til að tryggja áfram nauðsynlega uppbyggingu. Með slíku myndu fjármálafyrirtækin að mínu mati rísa undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir um þessar mundir. Þessu til viðbótar tel ég skynsamlegt að ráðast í nauðsynlegar lagabreytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða sem myndi gera þeim heimilt að eiga meira en 20% í félagi sem myndi sinna fasteignaverkefnum fyrir lífeyrissjóði og gæti þar með styrkt okkur sem samfélag í því verkefni að hér á landi verði til traustur og heilbrigður leigumarkaður,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Það er óhætt að segja að húsnæðismarkaðurinn á Íslandi sé á krossgötum. Langtímaskortur á íbúðum hér á landi hefur valdið því að bæði leigu- og fasteignaverð hefur hækkað mikið. Það er aðeins ein leið til að koma í veg fyrir að leigu- og fasteignaverð haldi áfram að hækka óeðlilega mikið líkt og verið hefur á undanförnum árum. Sú leið er að auka framboð á húsnæði. Þar eru markmið innviðaráðherra um aukna húsnæðisuppbyggingu og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til mikilvægt innlegg í þá vegferð.

Hins vegar er það svo að húsnæðismarkaðurinn hefur fundið verulega fyrir aðgerðum Seðlabankans þar sem kaupendum hefur verið gert erfiðara um vik að komast inn á markaðinn og fjármögnun nýframkvæmda er orðin miklum mun dýrari, þvert á það sem við þurfum nú. Þegar allt er saman tekið hefur þetta letjandi áhrif á framkvæmdaraðila til að halda áfram framkvæmdum við íbúðir.

Að þessu sögðu er ég fullmeðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar. Það er engum til góðs og að mínu mati er ljóst að gera þarf sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við stöndum frammi fyrir. Slíkt mætti gera með tímabundnum og sértækum lánaskilmálum hjá fjármálafyrirtækjum til að tryggja áfram nauðsynlega uppbyggingu. Með slíku myndu fjármálafyrirtækin að mínu mati rísa undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir um þessar mundir. Þessu til viðbótar tel ég skynsamlegt að ráðast í nauðsynlegar lagabreytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða sem myndi gera þeim heimilt að eiga meira en 20% í félagi sem myndi sinna fasteignaverkefnum fyrir lífeyrissjóði og gæti þar með styrkt okkur sem samfélag í því verkefni að hér á landi verði til traustur og heilbrigður leigumarkaður.“

Categories
Fréttir

„Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum“

Deila grein

19/10/2023

„Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir störf þingmannanefndar um norðurskautsmál er fundaði á Egilsstöðum í vikunni í störfum þingsins. Þátttakendur voru þingmenn og starfsmenn þjóðþinga frá Norðurlöndunum, Kanada og Bandaríkjunum. Eins sátu fulltrúar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs fundina. Margir þátttakendur á þessum fundi munu í framhaldinu taka þátt í Hringborði norðurslóða.

„Áherslurnar í samstarfi þingmannanna snúast nú sem áður um þrjár stoðir sjálfbærni: Í fyrsta lagi þróun mannlífs á norðurslóðum og þar með málefni frumbyggja og velferð í samfélögunum, loftslagsbreytingar og sambúð manns og náttúru og loks sjálfbæra efnahagsþróun.

Áhrif loftslagsbreytinga blasa nú við í öllum þessum löndum, hvort sem er með tíðari krapaflóðum á Austfjörðum eða gróðureldum í Norður-Ameríku. Á fundinum kynnti Morten Høglund formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu og átti virkt samtal við nefndarmenn í gegnum fjarfundabúnað um samstarfið í víðu samhengi. Starfsmenn þeirra vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem hafa starfsstöð á Akureyri kynntu vinnuna sem fram fer á þeirra vegum,“ sagði Líneik Anna.

„Á þessum fundum ræða þingmenn leiðir til að ná árangri í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum íbúa við norðurskautið og kynna sér samfélögin þar sem fundað er hverju sinni, enda alltaf hægt að læra hvert af öðru. Í því skyni fengu gesti kynningu á orkumálum á Austurlandi, heimsóttu Fljótsdalsstöð og hitaveitu Múlaþings auk þess að fá innsýn í sjávarútveg og ýmsa uppbyggingu á ferðaþjónustu. Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Þingmannanefnd um norðurskautsmál fundaði á Egilsstöðum í gær. Þann fund sóttu rúmlega 20 manns, þingmenn og starfsmenn þjóðþinga frá Norðurlöndunum, Kanada og Bandaríkjunum. Þá sitja fulltrúar Vestnorræna ráðsins og Norðurlandaráðs fundina. Margir þátttakendur á þessum fundi munu í framhaldinu taka þátt í Hringborði norðurslóða. Áherslurnar í samstarfi þingmannanna snúast nú sem áður um þrjár stoðir sjálfbærni: Í fyrsta lagi þróun mannlífs á norðurslóðum og þar með málefni frumbyggja og velferð í samfélögunum, loftslagsbreytingar og sambúð manns og náttúru og loks sjálfbæra efnahagsþróun.

Áhrif loftslagsbreytinga blasa nú við í öllum þessum löndum, hvort sem er með tíðari krapaflóðum á Austfjörðum eða gróðureldum í Norður-Ameríku. Á fundinum kynnti Morten Høglund formennskuáætlun Noregs í Norðurskautsráðinu og átti virkt samtal við nefndarmenn í gegnum fjarfundabúnað um samstarfið í víðu samhengi. Starfsmenn þeirra vinnuhópa Norðurskautsráðsins sem hafa starfsstöð á Akureyri kynntu vinnuna sem fram fer á þeirra vegum. Annars vegar er vinnuhópurinn sem hefur skammstöfunina CAFF, sem fjallar um viðhald líffræðilegs fjölbreytileika, bæði flóru og fánu, og hins vegar hópurinn PAME, sem fæst við umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu í hafinu.

Á þessum fundum ræða þingmenn leiðir til að ná árangri í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum íbúa við norðurskautið og kynna sér samfélögin þar sem fundað er hverju sinni, enda alltaf hægt að læra hvert af öðru. Í því skyni fengu gesti kynningu á orkumálum á Austurlandi, heimsóttu Fljótsdalsstöð og hitaveitu Múlaþings auk þess að fá innsýn í sjávarútveg og ýmsa uppbyggingu á ferðaþjónustu. Samtal milli þjóða hefur aldrei verið mikilvægara í því ástandi sem nú ríkir í heiminum.“

Categories
Fréttir Greinar

Taugatitringur á alþjóðamörkuðum en hægfara bati

Deila grein

19/10/2023

Taugatitringur á alþjóðamörkuðum en hægfara bati

Síðasta vika á fjár­mála­mörkuðum hef­ur ein­kennst af flótta fjár­festa úr áhættu í ör­yggi, þ.e. ávöxt­un­ar­krafa á rík­is­skulda­bréf hef­ur lækkað meðan hluta­bréf­in hafa fallið í verði. Meg­in­or­sök­in er að mikl­ar vær­ing­ar eru í alþjóðastjórn­mál­un­um. Stríðin í Mið-Aust­ur­lönd­um og Úkraínu hafa mest um þessa þróun að segja.

Horf­urn­ar og hagspá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins

Efna­hags­bat­inn á heimsvísu er hæg­fara og ójafn eft­ir svæðum. Hag­vöxt­ur er minni hjá ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkj­um. Ýmsir þætt­ir vega þungt, t.a.m. hafa vext­ir hjá ýms­um ný­markaðsríkj­um verið hærri vegna auk­inn­ar verðbólgu, sem hef­ur dregið úr hag­vexti. Sú verðbólga sem heims­bú­skap­ur­inn hef­ur verið að kljást við hef­ur verið drif­in áfram af mörg­um þátt­um, en helst ber að nefna rösk­un á aðfanga­keðjunni, um­fangs­mikl­ar stuðningsaðgerðar op­in­berra aðila til að styðja við eft­ir­spurn vegna covid-19, stríðið í Úkraínu, vax­andi spennu í sam­skipt­um Banda­ríkj­anna og Kína ásamt auk­inni vernd­ar­stefnu ríkja um heim all­an. Verðbólga á heimsvísu er víða í rén­un en það er of snemmt að fagna sigri. Verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um er enn býsna treg enda öfl­ug­ur gang­ur efna­hags­lífs­ins, en bet­ur hef­ur gengið með verðbólg­una víða í Evr­ópu, en þar eru önn­ur vanda­mál, t.d. mæl­ist efna­hags­sam­drátt­ur í Þýskalandi. Í efna­hags­spá AGS sem birt­ist í síðustu viku er gert ráð fyr­ir að hag­vöxt­ur á heimsvísu lækki úr 3,5% árið 2022, í 3% bæði árið 2023 og árið 2024. Hagspá­in er und­ir sögu­leg­um vexti á heimsvísu, sem var að meðaltali 3,8% fyrstu tvo ára­tugi ald­ar­inn­ar. Hækk­un stýri­vaxta seðlabanka sem bein­ist gegn verðbólgu held­ur áfram að hægja á efna­hags­um­svif­um. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga á heimsvísu lækki úr 8,7% árið 2022 í 6,9% árið 2023 og 5,8% árið 2024. Áætlað er að und­ir­liggj­andi (kjarna)verðbólga lækki meira og smám sam­an og hafa spár um verðbólgu árið 2024 verið end­ur­skoðaðar til hækk­un­ar. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga á heimsvísu nái jafn­vægi árið 2025. Spár fyr­ir árið 2023 og 2024 eru hins veg­ar end­ur­skoðaðar lít­il­lega til lækk­un­ar og ekki er gert ráð fyr­ir að verðbólga nái mark­miði fyrr en árið 2025 í flest­um til­vik­um.

Áfram­hald­andi órói í heims­hag­kerf­inu

Áhætt­an í alþjóðahag­kerf­inu held­ur áfram að aukast og end­ur­spegl­ast það á fjár­mála­mörkuðum. Greina má þessa áhættuþætti í fimm þætti. Í fyrsta lagi hafa stríðin í Úkraínu og Mið-Aust­ur­lönd­um veru­lega nei­kvæð áhrif á líf fólks­ins á svæðinu. Skelfi­leg stríð sem bitna verst á sak­lausu fólki. Í öðru lagi, þá hækkaði verðbólg­an í Banda­ríkj­un­um lít­ils hátt­ar, sem gef­ur til kynna að hún er þrálát­ari en von­ir stóðu til. Þetta þýðir að vext­ir verða hærri til lengri tíma í Banda­ríkj­un­um en ýms­ir markaðsaðilar gerðu ráð fyr­ir. Í þriðja lagi rík­ir stöðnun í Kína og hag­kerfið þar er að mæta ýms­um nýj­um áskor­un­um í fjár­mála­kerf­inu og á fast­eigna­markaði. Þetta er ný staða fyr­ir kín­verska hag­kerfið, sem hef­ur vaxið gríðarlega síðustu ára­tugi og að mörgu leyti dregið vagn­inn varðandi hag­vöxt í heims­bú­skapn­um. Að sama skapi skort­ir enn á gagn­sæi á mörkuðum þar og því hafa fjár­fest­ar meiri fyr­ir­vara en ella. Í fjórða lagi hef­ur skuld­astaða ný­markaðs- og þró­un­ar­ríkja versnað og í háu vaxtaum­hverfi þurfa fleiri ríki á end­ur­skipu­lagn­ingu skulda að halda. Sömu lög­mál ríkja um einka­geir­ann sem ekki hef­ur farið var­hluta af vaxta­hækk­un­um eft­ir ára­tugi hag­kvæmra vaxta. Að lok­um má nefna að alþjóðavæðing hef­ur átt und­ir högg að sækja og hef­ur vöxt­ur alþjóðlegra viðskipta­hindr­ana verið mik­ill. Sú þróun ýtir und­ir hækk­an­ir á verðbólgu á heimsvísu.

Tíðar stýri­vaxta­hækk­an­ir hafa ekki skilað til­ætluðum ár­angri – hvað veld­ur?

Pen­inga­stefn­an í Banda­ríkj­un­um hef­ur verið afar aðhalds­söm í rúmt ár og verðbólg­an hef­ur lækkað og nem­ur nú 3,7%. Stýri­vext­ir hafa ekki verið jafn­há­ir í Banda­ríkj­un­um í 22 ár. Banda­ríska hag­kerfið er ekki að bregðast við stýri­vöxt­um með hefðbundn­um hætti. Þrátt fyr­ir það hef­ur fram­leiðslutapið ekki verið mikið né held­ur hef­ur at­vinnu­leysið auk­ist. Meg­in­or­sök verðbólg­unn­ar er dýpri en að hægt sé að skýra hana út ein­vörðungu með efna­hagsaðgerðum sem tengj­ast covid-19. Þó hafa marg­ir talið að um­fram­eft­ir­spurn­in í banda­ríska hag­kerf­inu í kjöl­far covid-19 sé rót vand­ans. Hins veg­ar er það svo að þess­ar efna­hagsaðgerðir hafa aukið ójafn­vægið sem kom vegna þeirra efna­hagsaðgerða sem farið í í kjöl­far alþjóðlegu fjár­málakrepp­unn­ar 2008-2010. Stýri­vext­ir voru lækkaðir veru­lega og hin magn­bundna íhlut­un var afar um­fangs­mik­il, þannig að kaup seðlabanka á skulda­bréf­um voru mik­il og pen­inga­magn í um­ferð jókst veru­lega eða sem nem­ur um 8 trilljón­um banda­ríkja­dala. Aug­ljós­lega hef­ur þessi aukn­ing mik­il áhrif á eft­ir­spurn í hag­kerf­inu. Pen­inga­magn í um­ferð jókst frá því að vera um 500 millj­arðar í 8 trilljón­ir frá 2007-2022. Banda­ríski seðlabank­inn hef­ur hafið áætl­un um að draga úr skulda­bréfa­kaup­un­um og draga úr þessu pen­inga­magni í um­ferð. Að sama skapi hef­ur rík­is­fjár­mál­in skort aðhald enda er fjár­laga­hall­inn í ár um 10% af lands­fram­leiðslu þrátt fyr­ir kröft­uga viðspyrnu hag­vaxt­ar í kjöl­far covid. Á ár­un­um 2020 og 2021 var fjár­laga­halli um 10-14% af lands­fram­leiðslu. Seðlabanki Banda­ríkj­anna hef­ur ekki verið einn í því að stækka efna­hags­reikn­ing­inn sinn veru­lega, sama þró­un­in hef­ur verið í öll­um helstu seðlabönk­um ver­ald­ar.

Stærsta viðfangs­efni ís­lensks sam­fé­lags

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þeirri verðbólguþróun sem hef­ur átt sér stað í heim­in­um. Á ár­inu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörg­um sam­an­b­urðarríkj­um. Á tíma­bili mæld­ist sam­ræmd verðbólga á Íslandi sú næst­lægsta í Evr­ópu, eða 6,4% í nóv­em­ber 2022 sam­an­borið við 11,5% hjá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Verðbólg­an hér á landi hélt áfram að hækka þar til hún náði há­marki í byrj­un árs þegar hún mæld­ist 10,2%. Síðan þá höf­um við séð hana lækka en í dag stend­ur hún í 8%. Mik­ill þrótt­ur hef­ur ein­kennt ís­lenska hag­kerfið síðasta ár, sem skýrist af mikl­um viðsnún­ingi í ferðamennsk­unni og hag­kvæm­um viðskipta­kjör­um fyr­ir sjáv­ar­út­veg og iðnað. Helsta stjórn­tæki Seðlabanka Íslands, stýri­vext­irn­ir, er farið að skila til­ætluðum ár­angri til kæl­ing­ar. Rík­is­fjár­mál­in hafa stigið skarpt til hliðar frá því í covid og ný­lega hef­ur rík­is­stjórn­in kynnt aðhald­samt fjár­laga­frum­varp fyr­ir árið 2024 þar sem lögð er áhersla á aðhald og aukna for­gangs­röðun í rík­is­rekstr­in­um á sama tíma og staðinn er vörður um mik­il­væga grunnþjón­ustu í land­inu. Glím­an við verðbólg­una er stærsta viðfangs­efni sam­fé­lags­ins, en verðbólg­an bitn­ar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnam­inni. Það að ná niður verðbólgu er al­gjört for­gangs­mál rík­is­stjórn­ar­inn­ar, en á þeirri veg­ferð þurfa all­ir að ganga í takt; stjórn­völd, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnu­markaðar­ins. Ég er bjart­sýn á að við mun­um sjá verðbólg­una lækka á kom­andi mánuðum ef við höld­um rétt á spil­un­um, en það er til mjög mik­ils að vinna fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki lands­ins að ná tök­um á henni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2023.

Categories
Greinar

Stjórnvöld þurfa að bregðast strax við

Deila grein

19/10/2023

Stjórnvöld þurfa að bregðast strax við

Það blasir við um þessar mundir að íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum, upp er komin sú staða sem gerir það að verkum að lítil endurnýjun á sér stað í landbúnaði, meðalaldur íslenskra bænda er 57 ár og er greinin og stéttin að eldast töluvert.

Skortur er á aðgerðum stjórnvalda í þessum efnum til að tryggja rausnarlegan stuðning fyrir nýliðun í landbúnaði
og stuðla að fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar til framtíðar.
Stórauka þarf framlög til bænda í gegnum búvörusamninga og hækka strax tafarlaust tolla á innflutt kjöt sem gengur kaupum og sölu á frjálsum markaði á verði sem íslenskir bændur geta ekki keppt við.

Ráðast þarf tafarlaust í aðgerðir til að stuðla að nýliðun í landbúnaðinum með því að markaðssetja nám í landbúnaðartengdum fræðum og veita fólki stuðning við að taka við af foreldrum sínum. Einnig þarf að styðja við þá sem vilja láta drauminn rætast og hefja búskap. Það er ekki bara fullnægjandi að hafa nýliðunarstyrk, heldur verðum við líka að tryggja aðra hluti. Eins og við sjáum í hlutdeildarlánunum. Þessar ívilnanir þurfum við að innleiða í landbúnaðarkerfinu til að aðstoða ungt fólk við að koma sér upp búi og húsi og aðstöðu. Við þurfum að koma með þessar lausnir með skjótum hætti, sé það meiningin að tryggja hér fæðuöryggi og auka framleiðslu á landbúnaðarvörum.

Bændur hafa fundið rækilega fyrir hækkun á aðföngum, eins og fóðri, plasti og áburði. Ástæðan er sú að hráefni til áburðarframleiðslu eru meðal annars í Rússlandi. Einnig er vaxtakostnaður og verðbætur að sliga íslenska
bændur, sem hafa fjárfest fyrir gríðarlegar fjárhæðir í tækjakost sínum. Sauðfé í landinu er nú orðið færra en mannfólk vegna þess að bændur bregða búi og enginn tekur við, ætlum við að halda áfram á þessari braut inn í framtíðina og glata þannig sjálfstæðri matvælaframleiðslu og um leið fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar?

Anton Guðmundssonodd­viti Fram­sókn­ar og formaður bæj­ar­ráðs í Suður­nesja­bæ

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 19. október 2023