Categories
Fréttir Greinar

Alþjóðastjórnmál í ólgusjó

Deila grein

10/10/2023

Alþjóðastjórnmál í ólgusjó

Árás Ham­as-liða á Ísra­el sl. laug­ar­dag á Tóra-helgi­degi Gyðinga hef­ur hrundið af stað at­b­urðarás sem ekki sér fyr­ir end­ann á. Ísra­elsku þjóðinni er afar brugðið og hef­ur Ya­akov Nagal, fyrr­ver­andi yf­ir­maður þjóðarör­ygg­is­ráðs Ísra­els, líkt árás­inni við árás Jap­ana á Pe­arl Har­bor og svo 11. sept­em­ber. Tvennt er líkt við þá at­b­urðarrás; ann­ars veg­ar að árás­in kom Ísra­els­her al­gjör­lega á óvart og hins veg­ar að mann­fallið var mjög um­fangs­mikið en þúsund­ir hafa látið lífið eða særst yfir helg­ina. Ut­an­rík­is­ráðherr­ann okk­ar brást hratt við og lét tryggja að ís­lensk­ir rík­is­borg­ar­ar næðu að kom­ast heim. Er það vel.

Langvar­andi átök og óvænt árás

Átök­in fyr­ir botni Miðjarðar­hafs hafa verið mjög um­fangs­mik­il og ástand­inu oft líkt við púðurtunnu. Stríð hafa oft verið háð á svæðinu og mik­il spenna ríkt þar. Á ár­un­um 2005-2006 yf­ir­gáfu Ísra­els­menn Gasa­svæðið og hafa að miklu leyti haldið sig frá dag­leg­um mál­um á Gasa. Árás Ham­as-liða um liðna helgi er sú mann­skæðasta sem gerð hef­ur verið á Ísra­el frá stofn­un rík­is­ins árið 1948. Þetta er því stór­kost­legt áfall fyr­ir alla þjóðina. Ísra­el­ar hafa lengi lagt mik­inn metnað í leyniþjón­ustu­stofn­an­ir sín­ar sem ísra­elsk­ur al­menn­ing­ur hef­ur borið traust til. Samt sem áður ná Ham­as-sam­tök­in að skipu­leggja og fram­kvæma flókna og margþætta árás og ráðast yfir landa­mæri sem Ísra­el­ar töldu ör­ugg. Þau spor hræða óneit­an­lega í ljósi þess sem gerðist nán­ast slétt­um 50 árum fyrr, þegar Yom Kipp­ur-stríðið braust út með inn­rás ná­grannaþjóða í Ísra­el, sem kom Ísra­el­um al­gjör­lega í opna skjöldu. Sig­ur Ísra­els í því stríði leiddi til þess á end­an­um að Ar­ab­a­ríki beittu olíu­vopn­inu í fyrsta sinn, drógu úr fram­leiðslu og hindruðu auk þess út­flutn­ing á olíu til Vest­ur­landa. Þessi at­b­urðarás magnaði verðbólg­una sem þegar var kom­in á kreik á átt­unda ára­tugn­um og ein­kenndi þann ára­tug. Und­an­farið hafa stjórn­völd í Ísra­el verið að ein­blína á ógn­an­ir frá Íran og mál­efn­um Sýr­lands. Á sama tíma hafa ísra­elsk stjórn­völd verið að semja við Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæm­in og Sádi-Ar­ab­íu um aukna sam­vinnu. Það virðist vera að Ísra­el­ar hafi talið ástandið í Palestínu vera stöðugra en raun­in var. Ótt­inn fram und­an er að sá ár­ang­ur sem náðst hef­ur á síðustu árum í átt að friðsam­ari Mið-Aust­ur­lönd­um sé fyr­ir bí. Við blas­ir að stig­mögn­un á þess­um átök­um get­ur orðið mik­il sem hef­ur í för með sér mjög slæm­ar af­leiðing­ar fyr­ir alþjóðasam­fé­lagið. Það er mik­il­vægt að stríðið breiðist ekki út og að ná­granna­ríki eða her­ská­ir hóp­ar þaðan drag­ist ekki inn í átök­in.

Mikl­ar áskor­an­ir í alþjóðamál­um

Inn­rás­ar­stríð Rússa í Úkraínu hef­ur reynst mik­il áraun og við erum ekki far­in að sjá fyr­ir end­ann á því. Mann­fallið held­ur áfram að vera mjög mikið og skaðleg áhrif þess á hag­kerfi beggja ríkja er gríðarleg. Ljóst er að mikið upp­bygg­ing­ar­starf er fram und­an í Úkraínu að loknu stríði. Að sama skapi hef­ur stríðið reynst Rússlandi mik­il áskor­un og hef­ur hag­kerfi lands­ins gjör­breyst. Refsiaðgerðir Vest­ur­landa hafa reynst þeim þung­ur baggi. Olíu- og gasút­flutn­ing­ur held­ur hins veg­ar áfram að vera mik­il­væg­ur og hef­ur hækk­un á þess­um afurðum aukið gjald­eyris­tekj­ur Rúss­lands. Á móti kem­ur að einka- og sam­neysla þjóða breyt­ist, sem ein­kenn­ir lönd í stríðsátök­um og veik­ir hag­kerfið stór­kost­lega. Kína hef­ur einnig verið að sýna veik­leika­merki og ekki leng­ur mögu­legt að stóla á kröft­ug­an hag­vöxt sem hef­ur meðal ann­ars knúið vöxt heimbú­skap­ar­ins und­an­farna ára­tugi. Hinn geysi­stóri gjald­eyr­is­forði lands­ins er far­inn að drag­ast sam­an og eft­ir því er tekið á fjár­mála­mörkuðum. Spenna held­ur áfram að ein­kenna vinnu­markaðinn í Banda­ríkj­un­um og því telja markaðsaðilar að banda­ríski seðlabank­inn hafi ekki lokið stýri­vaxta­hækk­un­um sín­um og ljóst er að vext­ir þurfa áfram að vera háir. Hækk­andi vaxtaum­hverfi hef­ur breytt fjár­mögn­un­ar­leiðum fyr­ir­tækja og mun það hafa áhrif á fjár­fest­ingu þegar fram líða stund­ir. Banda­ríska fjár­mála­kerfið hef­ur ekki farið var­hluta af þess­um vaxta­hækk­un­um. Ákveðinn doði virðist ein­kenna lyk­il­hag­kerfi í Evr­ópu. Skulda­bréfa­álag á Ítal­íu hef­ur hækkað, þar sem hall­inn á fjár­lög­um er mik­ill ofan á mikl­ar skuld­ir. Markaðsaðilar hafa áhyggj­ur af því að skuld­astaða Ítal­íu sé ósjálf­bær og gæti það smit­ast inn á evru­svæðið. Að sama skapi er hag­vöxt­ur í Þýskalandi lít­ill og hef­ur þessi staða áhrif á markaðsvænt­ing­ar. Hins veg­ar er já­kvætt að verðbólg­an þar er á hraðri niður­leið.

Staða Íslands er sterk

Ísland er stofnaðild­ar­ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins og hef­ur tví­hliða varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in ásamt því að vera virkt aðild­ar­ríki hjá Sam­einuðu þjóðunum. Land­fræðileg staða Íslands hef­ur orðið þess vald­andi að banda­lagsþjóðir hafa lagt mikið upp úr því að vera í virku ör­ygg­is- og varn­ar­sam­starfi. Fyr­ir inn­rás Rúss­lands í Úkraínu má segja að ör­ygg­is- og varn­ar­mál hafi ekki verði í brenni­dep­il. Það má segja að á einni nóttu hafi veru­leiki Evr­ópuþjóða breyst með óverj­an­legri inn­rás Rússa í Úkraínu. Stríðið sem þar geis­ar er grimm áminn­ing um að sú sam­fé­lags­gerð við búum við hér á vest­ur­hveli jarðar er ekki sjálf­sögð.

Átök­in í Úkraínu og stríðið í Ísra­el hafa afar nei­kvæð áhrif á alþjóðasam­fé­lagið. Áhrif­in eru margskon­ar. Alþjóðamarkaðir bregðast illa við óstöðug­leika og olíu­verð hækkaði strax eft­ir helg­ina. Hærra olíu­verð skil­ar sér í hærri verðbólgu en von­andi eru þetta skamm­vinn áhrif. Verð á út­flutn­ingsaf­urðum Úkraínu hef­ur verið sveiflu­kennt, sem hef­ur aukið á óvissu og óstöðug­leika í alþjóðahag­kerf­inu. Þess vegna er afar brýnt að hag­stjórn­in sé styrk á Íslandi, þegar alþjóðastjórn­mál­in eru stödd í ólgu­sjó sem þess­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Sjó­kvíeldi, með eða á móti

Deila grein

09/10/2023

Sjó­kvíeldi, með eða á móti

Það má segja að stormur ríki um þessar mundir í umræðu um sjókvíeldi. Stór orð látin falla og þá skal skunda á Austurvöll og hafa hátt.

Það er líkt og þegar mikil hávaði ríkir á samkomu í stórum sal þá komast aðalatriðin illa til skila. Gífuryrði og misskilningur situr eftir, engum til framdráttar. Ennþá er talað um örfá störf í sjókvíeldi sem unnin eru að erlendum farandverkamönnum sem engu skipta máli og eldið allt eitt umhverfisslys.

Slysaslepping

Kveikjan að þessum stormi núna er slysaslepping sem varð í Patreksfirði í síðasta mánuði sem hafði alvarlegar afleiðingar þar sem fiskurinn var nær kynþroska og leitaði upp í veiðiár á vestanverðu landinu og norðan. Slysasleppingu á alltaf að taka alvarlega, sérstaklega þegar áhrifin verða slík sem hafa verið og það þarf að rannsaka ofan í kjölinn. Fiskeldisfyrirtækin þurfa að bæta sína ferla og opinbert eftirlit þarf að bæta verulega.

Öruggt viðbragð

Við höfum byggt upp öruggt viðbragð við alls kyns atburðum, hvort sem um ræðir mengunarslys, smitsjúkdómar eða náttúruvá. Allt byggir það á að lágmarka mögulegan skaða og áhrif til framtíðar. Því þarf að vera til staðar öruggt viðbragð og eftirlit sem virkjað er strax og slepping verður. Til þess að það megi verða þarf eftirlit að færast nær sjókvíeldinu, bæði til að flýta viðbragði og ekki síst til að byggja upp þekkingu á svæðinu. Þegar upp kemur riða í sauðfé eru allir ferlar þekktir og gengið í verkið. En við erum því miður ansi svifasein í þegar kemur að viðbrögðum við slysasleppingu. Í Noregi eru þeir með lært viðbragð og eldislaxi hefur fækkað í norskum veiðiám þökk sé þeim mótvægisaðgerðum sem virkjaðar hafa verið þar. Mikilvægt er að við horfum til þróunar í nágrannalöndum og nýtum okkur þá reynslu sem þar hefur orðið til, svo hægt verði að byggja upp heilbrigða starfsemi hér á landi.

Eftirlit á staðnum

Því er mikilvægi eftirlits á þeim stöðum sem sjókvíeldið er staðsett mikið. Það má líkja því við að ef Ísfirðingar yrðu uppvísir að slæmri umferðamenningu, keyrðu ítrekað yfir hámarkshraða eða undir áhrifum áfengis, það kynni ekki góðri lukka að stýra og ákall yrði eftir auknu eftirliti lögreglu en stjórnvöld myndu bregðast við með því að ráða fleiri í lögregluna á Selfossi. Hvaða áhrif myndi það hafa á umferðamenningu á Ísafirði? Einnig þarf nýsköpun, rannsóknir og þróun á sviði sjókvíeldis að vera til í nærumhverfi eldisins sem og annarsstaðar.

Aukið og virkt eftirlit

Með breytingu á lögum um fiskeldi frá árinu 2019 var gert ráð fyrir að áhættumatið skuli samkvæmt lögum taka tillit til mótvægisaðgerða, sem annarsvegar skal lámarka hættu á stroki úr kvíum og hins vegar aðgerðir sem grípa skuli til þegar mögulegt strok verður. Er lögfesting þessara mótvægisaðgerða algjört lykilatriði, þar sem þær draga enn frekar úr líkum á skaðlegum áhrifum eldisins og stuðla þannig að umhverfisvænni rekstri og betri sátt við aðra hagsmuni. Þessar mótvægisaðgerðir þarf að virkja enn frekar.

Í fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár er gert ráð fyrir aukinni fjárveitingu upp á 126 milljónir króna vegna eftirlits í sjókvíeldi auk þess sem til stendur að hækka verðmætagjald sjókvíeldis. Áætlað er að verðmætagjald fyrirtækja í sjókvíeldi verði komið í 2,1 milljarð á komandi ári og það rennur í fiskeldisjóð. Auk þess greiða rekstraraðilar sem ala lax í sjókví árlegt gjald í umhverfissjóð sem greiðir kostnað við rannsóknir vegna burðaþolsmats, vöktunar og annarra eftirlitsverkefna.

Stefna um lagareldi

Matvælaráðherra hefur lagt fram tillögu um stefnu í uppbyggingu og umgjörð lagareldis, stefnu til ársins 2040 sem nú er komin í samráðsgátt. Tillagan hefur að markmiði að skapa greininni skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Lagareldið nær yfir sjókvíeldi, landeldi, úthafseldi og þörungarækt.

Þegar horft er til sjókvíeldis segir í tillögunni að áskoranirnar séu vissulega til staðar og til þess að greinin geti áfram verið mikilvæg stoð í efnihag landsins verður áfram að vinna að því að mæta þeim áskorunum með festu. Það er bæði verkefni þeirra fyrirtækja sem stunda greinina, samfélaganna þar sem greinin er stunduð og stjórnvalda sem halda utan um eftirlit og lagaumgjörð. Það er raunverulegur möguleiki með því að hafa vísindin í forgrunni sem byggja á að lágmarka umhverfisáhrif greinarinnar. Þannig byggjum við upp sameiginlegan ábata með nýtingu auðlinda til verðmætasköpunar .

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. október 2023.

Categories
Greinar

Menningarsalur, já takk

Deila grein

04/10/2023

Menningarsalur, já takk

Á undanförnum áratugum hefur menningarsalur okkar sunnlendinga staðið tómur og engum til gagns. Mikið hefur verið um málefnið rætt en ekkert hefur gerst. Nú er mál að linni. Við þurfum að fá stað á Suðurlandi fyrir menningarviðburði. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands hefur verið stofnuð, kórar eru víða aðþrengdir um pláss og aðrir sviðslistahópar gera sér hóflegt húsnæði að góðu. Á þessu ástandi tapa allir, því líf okkar allra er fátækara með takmarkaðan aðgang að listviðburðum.

Menningarsalurinn og skýrsluskrif

Á árinu 2021 var tekin saman skýrsla af EFLU þar sem kostnaður við fullbúinn sal var metinn og sérfræðiálitum var safnað saman. Margir hlutaðeigandi aðilar voru spurðir álits og samantektin er greinargóð. Áætlaður kostnaður við uppbygginguna losaði milljarð króna. Áætla má að kostnaður yrði hærri ef ráðist væri í framkvæmdir nú. Þessi framkvæmdakostnaður miðar við að salurinn sé fullbúinn. Ráðherra menningar Lilja Alfreðsdóttir sótti nýverið fund hjá okkur í Hótel Selfoss og tók af öll tvímæli um að ríkið hyggðist ekki auka við framlag sitt sem er um 280 mkr. Féð er til reiðu og bíður eftir því að komast í vinnu okkur öllum til handa.

Stofna þarf félag

Til að koma málum af stað þarf að vinna málstaðnum framgang. Í október verður menningarmánuður Árborgar og þá er líklegt að víða verði gaman. Alls kyns viðburðir verða settir upp okkur til ánægju og lærdóms. Allt þetta mun gerast án menningarsalarins sem er sorglegt. 
Við þurfum að leggjast á árarnar um að stofna félagasamtök þar sem sveitarfélagið Árborg mun leggja eignina inn. Enn fremur mætti nálgast ráðherra menningarmála, Lilju Alfreðsdóttur, og kanna með að leggja fram fé ríkisins í samtökin. Til viðbótar mætti gera rekstrarsamning við eigendur hótelsins og þá er kominn tími til að bjóða einstaka verkþætti út. Þetta er nú allur galdurinn og er fyrirsjáanlegt að opna mætti menningarsalinn fyrir undir 500 mkr. ef aðhalds er gætt og ef allir sætta sig við að einungis hluta er lokið í fyrsta áfanga og salnum komið í notkun. Svo þetta megi fram ganga þá þarf að vinna að framgang málsins og erum við í Framsókn í Árborg tilbúin að vinna að málinu með öllum sem brenna fyrir bættri aðstöðu menningar á Suðurlandi.

Arnar Freyr Ólafsson, oddviti Framsóknar í Árborg.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 3. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskipti

Deila grein

03/10/2023

Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskipti

Þökk sé þeim mikla krafti sem verið hef­ur í alþjóðaviðskipt­um und­an­farna ára­tugi hafa lífs­kjör hundraða millj­óna manna batnað veru­lega með aukn­um kaup­mætti. Ísland hef­ur tekið virk­an þátt í þess­ari þróun og er eng­um blöðum um það að fletta að efna­hags­leg­ur vöxt­ur lands­ins hef­ur byggst á opn­um alþjóðaviðskipt­um – þar sem hugað hef­ur verið að greiðslu­jöfnuði þjóðarbús­ins.

Hag­saga Íslands er saga fram­fara en um leið og Ísland hóf aft­ur frjáls viðskipti og fór að nýta auðlind­ir lands­ins í eig­in þágu juk­ust hér lífs­gæði og vel­meg­un. Á þeirri veg­ferð hef­ur tækni­væðing sam­fé­lags­ins lagt sitt af mörk­um og skilað auk­inni skil­virkni og nýt­ingu fram­leiðsluþátta. Þannig störfuðu í upp­hafi 20. ald­ar­inn­ar um 80% af vinnu­afl­inu í land­búnaði og sjáv­ar­út­vegi en 100 árum síðar er sam­svar­andi hlut­fall um 10%. Á sama tíma hef­ur verðmæta­sköp­un auk­ist um­tals­vert. Ut­an­rík­is­viðskipti hafa á sama tíma orðið mun fjöl­breytt­ari en þegar um 90% gjald­eyristekna komu frá sjáv­ar­út­vegi. Meg­in­út­flutn­ings­stoðir hag­kerf­is­ins eru fjór­ar í dag; ferðaþjón­usta, sjáv­ar­út­veg­ur, iðnaður og skap­andi grein­ar.

Á und­an­förn­um árum hafa ýms­ar áskor­an­ir birst í heimi alþjóðaviðskipt­anna. Eft­ir að Brett­on-Woods-gjald­miðlaum­gjörðin leið end­an­lega und­ir lok á átt­unda ára­tugn­um tók við tíma­bil sem ein­kennd­ist af efna­hags­legri stöðnun og hárri verðbólgu. Réðust til að mynda Banda­rík­in og Bret­land í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar til að snúa þeirri þróun við sem fólust meðal ann­ars í því að losa um eign­ar­hald rík­is­ins á ýms­um þátt­um hag­kerf­is­ins, skatt­ar voru lækkaðir, ein­blínt var á fram­boðshliðina og létt var á reglu­verki.

Eft­ir gríðarlegt póli­tískt umrót í Kína ára­tug­ina á und­an náðist samstaða um að hefja mikið efna­hags­legt um­bóta­skeið sem hóst með valda­töku Deng Xia­op­ing 1978. Í kjöl­far þess að Banda­rík­in og Bret­land fóru að styrkj­ast efna­hags­lega ásamt Kína fóru mörg önn­ur ríki að þeirra for­dæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæm­in auk­in viðskipti inn­an EFTA, ESB og EES sem styrktu hag­kerfi inn­an þeirra vé­banda og ekki síst þeirra ríkja sem opnuðust eft­ir fall ráðstjórn­ar­ríkj­anna. Að sama skapi skipti sköp­um fyr­ir þróun heimsviðskipta inn­ganga Kína í Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ina árið 2001. Í kjöl­farið urðu breyt­ing­ar á sam­keppn­is­hæfni og út­flutn­ingi Kín­verja með til­heyr­andi aukn­ingu í alþjóðaviðskipt­um.

Við höf­um séð viðskipta­hindr­an­ir og -höml­ur aukast tölu­vert und­an­far­inn ára­tug. Í því sam­hengi hef­ur Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn bent á að heims­fram­leiðsla geti dreg­ist sam­an um 7% en það jafn­gild­ir sam­an­lagðri stærð franska og þýska hag­kerf­is­ins! Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa aug­un á til að stuðla að áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn í heim­in­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksins

Deila grein

02/10/2023

Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksins

Mik­il­væg­ar og gagn­leg­ar upp­lýs­ing­ar koma fram í nýrri skýrslu starfs­hóps er Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, skipaði til að meta gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna. Hópn­um var ætlað að greina tekju­mynd­un, þar á meðal þókn­an­ir, þjón­ustu- og vaxta­tekj­ur og vaxtamun viðskipta­bank­anna þriggja í nor­ræn­um sam­an­b­urði. Á manna­máli er spurn­ing­in hvort ís­lensk heim­ili greiði hlut­falls­lega meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili ann­ars staðar á Norður­lönd­um.

Í ljós kem­ur að vaxtamun­ur viðskipta­bank­anna hef­ur verið að aukast. Það kem­ur fram í töl­um og gögn­um þegar upp­gjör bank­anna það sem af er ári eru skoðuð. Það verður að vera krafa okk­ar neyt­enda að bank­arn­ir minnki vaxtamun­inn og skipti þannig ávinn­ingn­um á sann­gjarn­ari hátt. Þá eru sum þjón­ustu­gjöld ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Það er óviðun­andi staða. Nefnt er dæmi um að gjald­taka ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sé dul­in en hún veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Þá seg­ir að geng­isálag bank­anna á korta­færsl­um skeri sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Um er að ræða 6,6 millj­arða geng­isálag á ís­lenska neyt­end­ur fyr­ir að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um.

Hærri kostnaður vegna greiðslumiðlun­ar

Í skýrsl­unni kem­ur fram að kostnaður þjóðfé­lags­ins vegna greiðslumiðlun­ar sé mun hærri hér á landi en ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun hef­ur í för með sér hærra verð á vöru og þjón­ustu til ís­lenskra neyt­enda, sem á end­an­um bera kostnaðinn. Seðlabank­inn áætl­ar að kostnaður sam­fé­lags­ins af notk­un greiðslumiðla hér á landi á ár­inu 2021 hafi verið um 47 millj­arðar króna eða um 1,43% af vergri lands­fram­leiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslu­korta ríf­lega 20 millj­arðar króna. Lang­stærst­ur hluti af færsl­un­um fer í gegn­um innviði er­lendra korta­fyr­ir­tækja.

Í skýrsl­unni seg­ir að það geti marg­borgað sig að kanna hvað sé í boði og í hverju kostnaður viðkom­andi liggi helst við bankaþjón­ustu. Vil ég hvetja alla til að skoða þetta gaum­gæfi­lega í sín­um viðskipt­um því það má vera að tæki­færi séu til að lækka til­kynn­ing­ar- og greiðslu­gjöld. Þá seg­ir að einnig sé hægt að at­huga hvort ódýr­ara sé að nota kred­it­kort, de­bet­kort eða kaupa gjald­eyri áður en farið er til út­landa.

Bank­arn­ir standi með fólki og fyr­ir­tækj­um

Það mun verða sam­fé­lags­leg­ur ávinn­ing­ur fólg­inn í öfl­ugri neyt­enda­vakt en sú vakt þarf að vera sam­vinnu­verk­efni okk­ar allra. Starfs­hóp­ur­inn legg­ur fram eft­ir­far­andi til­lög­ur til úr­bóta í skýrsl­unni:

 Sett verði á fót sam­an­b­urðar­vef­sjá með verði fjár­málaþjón­ustu að norskri og sænskri fyr­ir­mynd.

 Kannaðir verði mögu­leik­ar á að draga úr kostnaði í inn­lendri greiðslumiðlun í sam­ræmi við ábend­ing­ar Seðlabanka Íslands í ný­leg­um skýrsl­um.

 Auk­in áhersla verði lögð á fjár­mála­fræðslu fyr­ir al­menn­ing frá hlut­laus­um aðilum til að efla fjár­mála­læsi neyt­enda.

 Stjórn­völd búi til ramma og skýr­ar leik­regl­ur og fyr­ir­tæki setji fram upp­lýs­ing­ar og val­mögu­leika á skilj­an­leg­an hátt.

Bönk­un­um hef­ur tek­ist að auka hagnað og bæta arðsem­ina með auk­inni hagræðingu en í upp­gjör­um bank­anna er ekki að finna jafn skýr merki um lækk­un gjalda til viðskipta­vina. Okk­ur Íslend­ing­um er vita­skuld nauðsyn­legt að eiga sterkt banka­kerfi. En til að styðja og styrkja öfl­ugt at­vinnu- og efna­hags­líf verða viðskipta­bank­ar að njóta al­menns trausts í sam­fé­lag­inu. Ljóst má vera að hér má gera mikið mun bet­ur. Inn­heimta ým­issa gjalda, þókn­ana og vaxta­kostnaðar á ekki að vera neyt­end­um tor­skil­in á all­an hátt. Þá er það jú skýrt dæmi um að sam­keppni skorti á markaðnum og eins það að við neyt­end­ur séum ekki nægi­lega á verði. Það er hins veg­ar að breyt­ast og það er gott. Það er til mik­ils að vinna að ná sam­an um að hér verði spilaður sann­gjarn leik­ur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. vara­formaður efna­hags- og viðskipta­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. október 2023.

Categories
Greinar Sveitarstjórnarfólk

Menntun og vel­sæld barna í fyrsta sæti

Deila grein

28/09/2023

Menntun og vel­sæld barna í fyrsta sæti

Sveitarfélag í örum vexti er eins og unglingur með vaxtarverki. Unglingurinn er hvattur áfram í þeirri vissu að þetta sé tímabil sem komast muni yfir, það er hlúð að honum eins og frekast er unnt. Framkvæmdir við þriðja áfanga stækkunar grunnskólans eru vel á veg komnar. Þegar þetta er ritað eru nemendur við skólann 445 talsins, fjölgun nemenda nam 10% árið 2021 og 5,6% árið 2022. Haustið 2025 er von á stórum árgangi í 1. bekk eða nemendafjölda sem nemur þremur bekkjum í árgangi.

Í áfanga þessum sem nú er byggður er mötuneyti skólans stækkað en í dag skiptist hádegishlé í fimm holl, auk þess að nemendur í 2. og 5. bekk borða þrjá – fjóra daga í sinni heimastofu. Í þriðja áfanga bætist við auk mötuneytis, sérfræðingarými, aðstaða skólahjúkrunarfræðings, sér- og stuðningsdeild, aðstaða fyrir starfsfólk mötuneytis, salur og þrjár minni kennslustofur. Þriðji áfangi Grunnskólans í Hveragerði er hluti af fjárfestingaráætlun bæjarins fyrir árin 2023-2026. Áætlunin var samþykkt, á 555. fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 8. desember 2022, með fimm atkvæðum meirihluta Framsóknar og Okkar Hveragerðis en minnihlutinn D- listi sat hjá við afgreiðsluna.

Nemendur, starfsfólk, stjórnendur og aðrir hagaðilar hafa sýnt mikið æðruleysi gagnvart þeim húsnæðisskorti sem við búum við í dag og eiga miklar þakkir skyldar fyrir samstarfsviljann. Allir hafa lagst á eitt við það að láta hlutina ganga upp og þreyja þorrann þar til aðstaðan verður betri en áætluð verklok stækkunar grunnskólans í Hveragerði er árið 2025. Menntun og velsæld barna er í fyrsta sæti!

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hálfleikur

Deila grein

25/09/2023

Hálfleikur

Í dag eru liðin slétt tvö ár frá Alþingiskosningum. Í þeim vann Framsókn frækinn kosningasigur sem skilaði flokknum 13 þingmönnum og tryggði áframhaldandi stjórnarsamstarf Framsóknar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks. Á þeim sex árum sem liðin eru hefur mikið mætt á íslensku samfélagi en um leið hefur mikið áunnist.

Þrátt fyrir að ég hafi síðustu vikur þurft að fara mér hægt vegna aðgerðar sem ég gekkst undir í byrjun mánaðarins hef ég ekki farið varhluta af umræðunni í samfélaginu. Ég finn áhyggjur fólks aukast af afkomu sinni vegna hárrar verðbólgu. Hún er stærsta áhyggjuefnið og stærsta verkefnið sem samfélagið tekst á við þessi misserin. Til að verðbólgan verði kveðin í kútinn þá er ekkert annað í boði en að við stöndum saman.

Samstaða

Íslenskt samfélag er gott. Okkur hefur í gegnum tíðina auðnast að standa saman þegar á bjátar. Skýrasta dæmið um það síðustu árin er heimsfaraldurinn. Í honum sýndi samfélagið að það er fullt af hlýju og samlíðan. Segja má að verðbólgan sé faraldur en stóri munurinn er þó sá að covid lagðist ekki misjafnlega á fólk eftir stöðunni á bankabókinni. Í baráttunni við verðbólguna er erfiðara að ná samstöðu um aðgerðir því þær bitna misjafnlega á fólki eftir því hvernig það stendur fjárhagslega. Hagsmunir heimilanna og lífsgæði barna eru mikilvægasti þátturinn sem taka verður tillit til þegar aðgerðir gegn og vegna verðbólgu eru ákveðnar.

Agi eða örvænting?

Því miður eru engar töfralausnir til sem lækka verðbólgu bara sisona. Agi og samstaða eru lykilþættir í þeirri baráttu. Þegar stjórnmálin standa frammi fyrir erfiðum áskorunum eiga sumir það til að flýja ábyrgð sína og byrja að hrópa á torgum um hin og þessi málefni sem þeir telja geta gefið þeim fleiri like og jafnvel prósentustig í könnunum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa misst fylgi á síðustu mánuðum. Því fylgir oft titringur eins og fólk hefur tekið eftir. Einstaka stjórnmálamenn og flokkar fara þá ókyrrast og ýfa fjaðrirnar, pota í aðra, stíga á tær, allt til að skapa um sig umtal. Sumir leita uppi leðju til að sletta og polla til að hræra upp í til að skapa ótta, óþol og öfund með von um að þeir sjálfir komist í sviðsljósið. En örvænting fer engum vel. Nær væri að fólk myndi setjast niður og hugsa hvernig best sé að skapa almenna samstöðu um framtíðarsýn og síðast en ekki síst skapa aukið traust á stjórnmálunum og efnahagsstjórn landsins.

Dómsdagsspámenn

Þessa dagana er ekki skortur á dómsdagsspám um ríkisstjórnarsamstarfið í fjölmiðlum, heitum pottum og einstaka þingflokksherbergjum. Það lækkar ekki verðbólgu. Fyrir nokkrum dögum rakst ég á konu sem hafði á orði við mig að henni þætti útlitið nú ekki bjart fyrir stjórnina, hver höndin upp á móti annarri og erfitt að ímynda sér að hún væri á vetur setjandi. Ég sagði við hana að vissulega mætti fólk stundum anda aðeins með nefinu áður en það léti vaða á samstarfsfólk sitt en þetta væri aðallega merki um stress. Eftir smá spjall urðum við sammála um það að það væri nú ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að skorast undan ábyrgð á erfiðum tímum. Allavega myndi Framsókn ekki gefast upp.

Seinni hálfleikur

Það eru tvö ár liðin af kjörtímabilinu og við í Framsókn erum stolt af því sem við höfum áorkað á þeim tíma. Leikurinn er þó ekki búinn. Það eru ýmsar áskoranir sem íslenskt samfélag tekst á við. Við í Framsókn byrjum seinni hálfleik með sömu markmið og áður: Að vinna af heilindum að umbótum fyrir íslenskt samfélag með samvinnu. Það er bjargföst skoðun mín að til að ná sigri í baráttunni við verðbólgu verða einhverjir að gefa eftir en fyrst og fremst verða allir að gefa af sér.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Verðbólga og neytendavernd

Deila grein

25/09/2023

Verðbólga og neytendavernd

Langa­tíma­af­leiðing­ar hárr­ar verðbólgu eru slæm­ar fyr­ir sam­fé­lög. Verðbólg­an hitt­ir einkum fyr­ir þá sem minnst eiga. Hóp­ur­inn sem verst fer út úr verðbólgu­hremm­ing­un­um er sá sem ný­verið kom inn á hús­næðismarkaðinn.

Í riti Seðlabank­ans Fjár­mála­stöðug­leiki 2023/​2, sem kom út í vik­unni, er staða heim­ila og fyr­ir­tækja rýnd í sam­hengi við aukið aðhald pen­inga­stefn­unn­ar að und­an­förnu. Verðbólga og hækk­andi vext­ir hafa þyngt greiðslu­byrði heim­ila og fyr­ir­tækja þó skuld­setn­ing sé lít­il í sögu­legu sam­hengi og eig­in­fjárstaðan góð. Þannig hef­ur hækk­andi vaxta­stig dregið úr um­svif­um á íbúðamarkaði en veru­lega hef­ur dregið úr nýj­um lán­veit­ing­um til heim­ila á ár­inu. Hrein ný íbúðalán fyrstu sjö mánuði árs­ins námu aðeins rúm­um 58 mö.kr., sam­an­borið við 111 ma.kr. á sama tíma­bili á síðasta ári.

Nokk­ur hluti úti­stand­andi óverðtryggðra íbúðalána sem veitt voru á ár­un­um 2020 og 2021 ber fasta vexti sem brátt losna og verða end­ur­skoðaðir með til­heyr­andi hækk­un á greiðslu­byrði lán­anna. Seðlabank­inn ger­ir ráð fyr­ir því að hald­ist vaxta­stig áfram hátt megi að öðru óbreyttu gera ráð fyr­ir að greiðslu­byrði heim­il­anna þyng­ist veru­lega. Hag­kerfið okk­ar má ekki verða eitt­hvert gæfu­hjól, þ.e. að gæf­an ákv­arðist ein­göngu út frá því hvenær komið er inn á hús­næðismarkaðinn. Öruggt þak yfir höfuðið er eitt stærsta vel­ferðar­mál sam­tím­ans.

Staða stóru viðskipta­bank­anna er sterk, eig­in­fjár­hlut­föll þeirra há og arðsemi af reglu­leg­um rekstri góð. Það er í takt við þróun und­an­far­inna ára, sem var meðal ann­ars rak­in í skýrslu starfs­hóps sem ég skipaði um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna og kynnt var ný­lega. Það er eðli­legt að viðskipta­bank­arn­ir nýti þessa stöðu til þess að koma til móts við þau heim­ili sem glíma við og munu glíma við þyngri greiðslu­byrði en áður.

Ein af til­lög­um starfs­hóps um gjald­töku og arðsemi ís­lensku bank­anna var að efla þyrfti neyt­enda­vernd á fjár­mála­markaði. Ég hef þegar komið vinnu við hana í far­veg en haf­in er grein­ing­ar­vinna á veg­um míns ráðuneyt­is í tengsl­um við ákveðna þætti fast­eignalána til neyt­enda og neyt­endalána til að efla neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu. T.a.m. hvernig staðið er að upp­lýs­inga­gjöf og leiðbein­ing­um til neyt­enda í tengsl­um við lán­veit­ing­ar út frá mis­mun­andi lána­form­um, áhrif­um vaxta, verðbólgu o.s.frv. Skoðað verður eft­ir­lits­hlut­verk Neyt­enda­stofu og Seðlabanka Íslands gagn­vart lán­veit­end­um við fram­kvæmd lán­veit­ing­ar til neyt­enda og eft­ir að lán er veitt, þ.m.t. við skil­mála­breyt­ing­ar og van­skil. Þá verður einnig skoðað hvaða upp­lýs­ing­um og leiðbein­ing­um þarf að koma á fram­færi til neyt­enda um mis­mun­andi lána­form, áhrif vaxta, verðbólgu o.s.frv. og hvernig þeim verði miðlað með sem skil­virk­ust­um hætti.

Verðbólga er marg­slungið fyr­ir­bæri og bar­átt­an við hana krefst sam­taka­mátt­ar sam­fé­lags­ins. Þar skipt­ir stuðning­ur við heim­il­in miklu máli og öfl­ug neyt­enda­vakt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hugum að heyrn

Deila grein

22/09/2023

Hugum að heyrn

Sagt er að menn hafir fimm skilningarvit eða skynfæri: Sjón, heyrn, lyktarskyn, snertiskyn og bragðskyn. Öll eru þau jafn mikilvæg. Þeir sem fæðast með heyrn reiða sig mikið á hana og vilja halda í hana sem lengst. Með snemmtækri íhlutun og forvörnum er hægt að kortleggja og bregðast við ef svo sé ekki raunin. Fólk á öllum aldri býr við skerta heyrn og með hækkandi aldri minnkar heyrnin, um eftirlaunaaldur má búast við tvöföldum fjölda heyrnarskertra einstaklinga. Einn af hverjum sex Íslendingum með skerta heyrn.

Mennta þarf fólk í heyrnarfræðum

Það er bagalegt fyrir þá sem búa við heyrnarskerðingu að geta ekki gengið að þeirri þjónustu sem byggð hefur verið upp á síðustu áratugum með vissu. Eins og staðan er í dag eru um 2000 manns á biðlista hjá Heyrnar og talmeinastöð Íslands (Hér eftir HTÍ). Ástæðan er margvísleg, það vantar sérmenntað fólk til starfa auk þess sem húsnæðið sem stofnunin hefur verið í síðastliðin 50 ár er ekki hentug fyrir starfsemi af þessu tagi og fyrir utan að það er löngu sprungið. Einstaklingar með kuðungsígræðslu geta ekki leitað annað eftir sérfræðiaðstoð líkt og þeim sem sinna greiningu og talmeinaþjónustu. HTÍ gegnir skyldum og hefur þjónustað einstaklinga sem búa við heyrnarskerðingu sl. 40 ár. HTÍ sér um heyrnarmælingu nýbura, greiningu, meðferð og endurhæfingu heyrnarskertra barna og fullorðinna. Þá sinnir HTÍ einnig ráðgjafahlutverk til foreldra, skóla og dvalarheimila svo eitthvað sé nefnt. Heyrnarskert börn og unglingar sem eru undir reglulegu eftirliti HTÍ eru um 300 talsins.

Nú stendur HTÍ frammi fyrir þeirri erfiðu stöðu að ekki fæst fólk með þá sérmenntun sem til þarf svo hægt sé að halda svona starfsemi gangandi. Með hækkandi aldri þjóðarinnar má gera ráð fyrir að í hópi fullorðinna með væga eða slæma heyrnarskerðingu fjölgi um 20 – 30 þúsund manns á næstu 20 árum. Því er brýnt að fara í átak að mennta fólk í heyrnarfræðum hér á landi bæði í framhaldsskólum og í háskólum. Í vor fól Heilbrigðisráðuneytið Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu að skoða leiðir til að skapa námstækifæri á þessu sviði. Heilbrigðisbraut Fjölbrautaskólans í Ármúla hefur þegar hafið undirbúning námsins en til þess að byggja upp heildstætt nám skiptir máli skiptir máli að HTÍ sé í stakk búin að taka sinna nemendum sem fari í nám í heyrnartækni.

Heyrumst!

Það er mikilvægt að heildstæð þjónusta sé tryggð og það er þjóðhagslega hagkvæmt að halda henni uppi, því það fjölgar stöðugt í þeim hópi sem þarf á þessari þjónustu að halda. Við verðum að koma í veg fyrir að fólk einangrast félagslega og sé jafnvel frá vinnu vegna skorti á viðeigandi úrræðum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Hvers vegna má ekki ræða hag­ræðingu?

Deila grein

21/09/2023

Hvers vegna má ekki ræða hag­ræðingu?

Síðustu daga hefur sprottið upp mikil og ekki síður mikilvæg umræða um framtíð menntunar og menntastofnana. Menntamálaráðherra ákvað í lok apríl síðastliðnum að setja af stað könnun um aukið samstarf eða sameiningu nokkurra framhaldsskóla á landinu. Markmið þeirrar vinnu hefur ávallt verið að styrkja faglega umgjörð námsins og rekstrarleg málefni skólanna. Það getur í einhverjum tilfellum þýtt sameiningu einstakra skóla til að búa til nýjar og öflugri einingar þar sem það er bæði hægt, og á við, til að takast á við þær breytingar og áskoranir sem fram undan eru á sviði menntamála. Sameining má hins vegar aldrei vera sameiningarinnar vegna, heldur verður að standa traustum fótum og það þarf að vera tryggt að slíkt stuðli að betra námi og traustari umgjörð nemenda og starfsfólks til framtíðar. Það er leiðarljós okkar og ég veit að slíkt er leiðarljós ráðherra málaflokksins.

Hagræðing eða sparnaður?

Með sparnaði er verið að skera niður fjármagn eða færa fjármagn úr einum málalfokki yfir í annan. Hagræðing innan málaflokks snýst hins vegar um að nýta þá fjármuni sem til staðar á betri hátt. Hún snýst um að nýta fjármuni á þá staði þar sem þeir eiga raunverulega heima. Í menntamálum eiga fjármunir að fara í að styrkja menntun nemenda, umgjörð þeirra og umgjörð starfsfólks. Þeir eiga ekki að fara í óþarfa steinsteypu eða rekstrarlega yfirbyggingu. Þetta virðist Sjálfstæðisflokknum hugnast illa. Flokki sem oft og iðulega tala í orði fyrir því að fara vel með og nýta fjármuni með skynsamlegum hætti. Óli Björn Kárason, þingmaður flokksins, skrifaði sérkennilega grein um eina af þessum umræddu tillögum í Morgunblaðið á dögunum og tók það sérstaklega fram að þau áform sem ráðherra hefði kynnt, og þingmaðurinn væri alfarið á móti og aðrir þingmenn flokksins tekið undir, væru ólík öðrum sambærilegum áformum eins og sameiningu annarra stofnana hér á landi. Hvernig má það vera? Þessi rök halda auðvitað engu vatni, ekki dropa, og jaðra við að vera hlægileg frá jafn skynsömum manni og Óla Birni. Hugmyndin er ekki að skera niður, hugmyndin er að nýta fjármuni betur og styrkja menntun. Það er allra hagur. Sjálfstæðisflokkurinn er bara flokkur hins opinbera, líður vel að þenja kerfið út, leggja auknar álögur á fólk í stað þess að fara vel með og sækja fjármuni á þá staði þar sem þeir raunverulega eru. Og standa með venjulegu fólki. Einhvern tímann hefði þetta kallast að vera kominn út í horn, eða jafnvel að magalenda út í skurði. Ég skal ekki segja.

Áskoranir í menntamálum fram undan

Bóknámsnemum er að fækka en nemendum í iðn- og tæknimenntun er að fjölga. Það er áskorun og það þarf kjark til að bregðast við þeirri áskorun. Fyrir um ári síðan var staðan sú að um 700 einstaklingar komust ekki inn í iðnnám. Staðan er einfaldlega þessi að við þurfum að fjárfesta í verknámi, starfsnámi og þá nemendum og umgjörð þeirra sem slíkt nám velja. Við þurfum sérfræðinga og öfluga einstaklinga til að taka þátt í þessum áskorunum sem fram undan eru við að byggja upp, virkja, skapa og taka þátt í nýsköpun og orkuskiptum. Þetta er að gerast mjög hratt. Ljósið í þessu öllu saman, raunar sé ég litla birtu vegna umræðunnar, er að nú hljóta kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að styðja við auknar fjárveitingar til framhaldsskólanna svo að þeir nemendur sem fari í dýrara nám fái tækifæri til að njóta þeirrar nauðsynlegu fjölbreytni sem um er rætt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. september 2023.