„Við verðum að halda áfram að vinna, stjórnmálin hér, ríkisstjórnin og Alþingi allt, við verðum að taka höndum saman í þessu mikilvæga verkefni, að ná hér niður verðbólgu og vöxtum vegna þess að það er allra hagur, hvort sem litið er til fólksins í landinu eða fyrirtækja,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi.
Ræddi hann áskoranir er samfélagið þarf að takast á við í efnahagsmálum. Allt of margt sé að hækka, lán, matarkarfan, tryggingarnar o.s.frv.. Jafnframt sé verkefni framundan í vetur hjá aðilum vinnumarkaðarins að koma á nýjum kjarasamningum.
„Nú koma tíðindi af því að við þurfum jafnvel að byggja enn meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er annað verkefni sem við þurfum að takast á hendur og verkefnin eru ærin,“ sagði Ágúst Bjarni og bætti við, „verðbólgan mun lækka, vextir munu lækka og til þess að svo megi verða þá þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika.“
„Svo er það alveg ljóst að á einhverjum tímapunkti í þessu þá munu verkin dæma og ég er alveg viss um það að þegar þau verk eru skoðuð til hlítar þá fær núverandi ríkisstjórn góða dóma,“ sagði Ágúst Bjarni.
Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:
„Virðulegur forseti. Þrátt fyrir fréttir morgunsins og ákvörðun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, ákvörðun sem ég ber virðingu fyrir, þá blasa við okkur áskoranir í efnahagsmálum, áskoranir sem við þurfum að takast á við. Hér er verðbólga, hér eru vextir háir. Það er allt að hækka, við finnum það hvert sem við förum, lánin okkar, matarkarfan, tryggingarnar o.s.frv., en það eru ýmis merki á lofti um að við séum þó að stefna í rétta átt. Húsnæðismarkaðurinn er annað. Nú koma tíðindi af því að við þurfum jafnvel að byggja enn meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er annað verkefni sem við þurfum að takast á hendur og verkefnin eru ærin. Ofan á þetta koma kjarasamningar. Þetta er brýnt mál, mjög brýnt. Verðbólgan mun lækka, vextir munu lækka og til þess að svo megi verða þá þarf pólitískan stöðugleika, ekki óstöðugleika. Við verðum að halda áfram að vinna, stjórnmálin hér, ríkisstjórnin og Alþingi allt, við verðum að taka höndum saman í þessu mikilvæga verkefni, að ná hér niður verðbólgu og vöxtum vegna þess að það er allra hagur, hvort sem litið er til fólksins í landinu eða fyrirtækja. Svo er það alveg ljóst að á einhverjum tímapunkti í þessu þá munu verkin dæma og ég er alveg viss um það að þegar þau verk eru skoðuð til hlítar þá fær núverandi ríkisstjórn góða dóma.“

10/10/2023
Byggðir í sókn í 10 árÍ síðustu viku fór fram kjördæmavika og þingmenn voru á ferð og flugi að heimsækja fyrirtæki, fólk og stofnanir. Margt stendur upp úr en sérstaklega ánægjulegt var að taka þátt í afmælismálþingi um byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir sem var haldið á Raufarhöfn. Verkefnið stendur á þeim tímamótum að fagna tíu ára starfsafmæli.
Jákvæðni og samheldni
Allt frá fyrstu skrefum vakti verkefnið athygli stjórnvalda og hefur öðlast fastan sess í stefnu ríkisins í byggðamálum. Verkefnið er fjármagnað sem ein af 44 aðgerðum byggðaáætlunar sem ætlað er að styðja við blómleg byggðarlög um land allt. Það má með sanni segja að margt hafi breyst á áratug og mikilvægt er að nýta þessi tímamót til að meta árangurinn og halda áfram að finna leiðir til að efla smærri þorp og sveitir landsins. Hugmyndafræðin og vinnulagið sem unnið er eftir hefur hins vegar unnið sér verðskuldaðan sess. Sú hugmyndafræði gengur út á að efla þátttöku og frumkvæði íbúa. Á Norðausturlandi höfum við séð hvernig verkefni Brothættra byggða getur ýtt undir jákvæðni og samheldni íbúa. Byggðarlögin eru ólík að stærð og gerð, atvinnuvegirnir geta verið ólíkir en alltaf eru það íbúarnir sjálfir sem vita best á hverju skal byggja.
Næg verkefni fram undan
Landsbyggðirnar eiga mikið inni og víða eru fræ í jörðu sem geta sprottið með næringu og alúð. Fjórtán byggðarlög hafa tekið þátt í Brothættum byggðum frá upphafi og í gegnum þetta átak hafa um 650 frumkvæðisverkefni íbúa fengið stuðning við að verða að veruleika. Þessir styrkir hafa hvatt fólk til dáða og leitt af sér alls kyns framtak sem hefur ekki bara auðgað nærsamfélögin, heldur auðgað íslenska menninguog sannarlega átt þátt í því að gera hvern landshluta enn skemmtilegri heim að sækja.
Það eru næg verkefni eftir þegar horft er fram á við, verkefni sem stjórnvöld þurfa að koma að með einum eða öðrum hætti. Sameiginlegt viðfangsefni í öllum byggðum, svo eitthvað sé nefnt, eru húsnæðismálin. Þar er þörf á átaki svo húsnæðisskortur standi ekki uppbyggingu fyrir þrifum, hvorki í þessum landshluta né annars staðar. Samgöngur og aðrir innviðir eru grunnstoð samfélaga og forsenda uppbyggingar atvinnulífs. Núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir mikilli uppbyggingu í þessum málaflokki en margt óunnið enn. Eins þurfum við að skipuleggja fiskveiðar við landið þannig að þær styðji við atvinnulíf og uppbyggingu sem víðast. Þessi og mörg önnur verkefni eru fram undan, og gott að hafa í huga nú þegar við fögnum þessum tímamótum. Brothættar byggðir eru frábært verkfæri og nú þurfum við bara að bæta í verkfærakistuna.
Til hamingju – byggðir í sókn í 10 ár!
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður NA.
Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 10. október 2023.

10/10/2023
Alþjóðastjórnmál í ólgusjóÁrás Hamas-liða á Ísrael sl. laugardag á Tóra-helgidegi Gyðinga hefur hrundið af stað atburðarás sem ekki sér fyrir endann á. Ísraelsku þjóðinni er afar brugðið og hefur Yaakov Nagal, fyrrverandi yfirmaður þjóðaröryggisráðs Ísraels, líkt árásinni við árás Japana á Pearl Harbor og svo 11. september. Tvennt er líkt við þá atburðarrás; annars vegar að árásin kom Ísraelsher algjörlega á óvart og hins vegar að mannfallið var mjög umfangsmikið en þúsundir hafa látið lífið eða særst yfir helgina. Utanríkisráðherrann okkar brást hratt við og lét tryggja að íslenskir ríkisborgarar næðu að komast heim. Er það vel.
Langvarandi átök og óvænt árás
Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa verið mjög umfangsmikil og ástandinu oft líkt við púðurtunnu. Stríð hafa oft verið háð á svæðinu og mikil spenna ríkt þar. Á árunum 2005-2006 yfirgáfu Ísraelsmenn Gasasvæðið og hafa að miklu leyti haldið sig frá daglegum málum á Gasa. Árás Hamas-liða um liðna helgi er sú mannskæðasta sem gerð hefur verið á Ísrael frá stofnun ríkisins árið 1948. Þetta er því stórkostlegt áfall fyrir alla þjóðina. Ísraelar hafa lengi lagt mikinn metnað í leyniþjónustustofnanir sínar sem ísraelskur almenningur hefur borið traust til. Samt sem áður ná Hamas-samtökin að skipuleggja og framkvæma flókna og margþætta árás og ráðast yfir landamæri sem Ísraelar töldu örugg. Þau spor hræða óneitanlega í ljósi þess sem gerðist nánast sléttum 50 árum fyrr, þegar Yom Kippur-stríðið braust út með innrás nágrannaþjóða í Ísrael, sem kom Ísraelum algjörlega í opna skjöldu. Sigur Ísraels í því stríði leiddi til þess á endanum að Arabaríki beittu olíuvopninu í fyrsta sinn, drógu úr framleiðslu og hindruðu auk þess útflutning á olíu til Vesturlanda. Þessi atburðarás magnaði verðbólguna sem þegar var komin á kreik á áttunda áratugnum og einkenndi þann áratug. Undanfarið hafa stjórnvöld í Ísrael verið að einblína á ógnanir frá Íran og málefnum Sýrlands. Á sama tíma hafa ísraelsk stjórnvöld verið að semja við Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi-Arabíu um aukna samvinnu. Það virðist vera að Ísraelar hafi talið ástandið í Palestínu vera stöðugra en raunin var. Óttinn fram undan er að sá árangur sem náðst hefur á síðustu árum í átt að friðsamari Mið-Austurlöndum sé fyrir bí. Við blasir að stigmögnun á þessum átökum getur orðið mikil sem hefur í för með sér mjög slæmar afleiðingar fyrir alþjóðasamfélagið. Það er mikilvægt að stríðið breiðist ekki út og að nágrannaríki eða herskáir hópar þaðan dragist ekki inn í átökin.
Miklar áskoranir í alþjóðamálum
Innrásarstríð Rússa í Úkraínu hefur reynst mikil áraun og við erum ekki farin að sjá fyrir endann á því. Mannfallið heldur áfram að vera mjög mikið og skaðleg áhrif þess á hagkerfi beggja ríkja er gríðarleg. Ljóst er að mikið uppbyggingarstarf er fram undan í Úkraínu að loknu stríði. Að sama skapi hefur stríðið reynst Rússlandi mikil áskorun og hefur hagkerfi landsins gjörbreyst. Refsiaðgerðir Vesturlanda hafa reynst þeim þungur baggi. Olíu- og gasútflutningur heldur hins vegar áfram að vera mikilvægur og hefur hækkun á þessum afurðum aukið gjaldeyristekjur Rússlands. Á móti kemur að einka- og samneysla þjóða breytist, sem einkennir lönd í stríðsátökum og veikir hagkerfið stórkostlega. Kína hefur einnig verið að sýna veikleikamerki og ekki lengur mögulegt að stóla á kröftugan hagvöxt sem hefur meðal annars knúið vöxt heimbúskaparins undanfarna áratugi. Hinn geysistóri gjaldeyrisforði landsins er farinn að dragast saman og eftir því er tekið á fjármálamörkuðum. Spenna heldur áfram að einkenna vinnumarkaðinn í Bandaríkjunum og því telja markaðsaðilar að bandaríski seðlabankinn hafi ekki lokið stýrivaxtahækkunum sínum og ljóst er að vextir þurfa áfram að vera háir. Hækkandi vaxtaumhverfi hefur breytt fjármögnunarleiðum fyrirtækja og mun það hafa áhrif á fjárfestingu þegar fram líða stundir. Bandaríska fjármálakerfið hefur ekki farið varhluta af þessum vaxtahækkunum. Ákveðinn doði virðist einkenna lykilhagkerfi í Evrópu. Skuldabréfaálag á Ítalíu hefur hækkað, þar sem hallinn á fjárlögum er mikill ofan á miklar skuldir. Markaðsaðilar hafa áhyggjur af því að skuldastaða Ítalíu sé ósjálfbær og gæti það smitast inn á evrusvæðið. Að sama skapi er hagvöxtur í Þýskalandi lítill og hefur þessi staða áhrif á markaðsvæntingar. Hins vegar er jákvætt að verðbólgan þar er á hraðri niðurleið.
Staða Íslands er sterk
Ísland er stofnaðildarríki Atlantshafsbandalagsins og hefur tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin ásamt því að vera virkt aðildarríki hjá Sameinuðu þjóðunum. Landfræðileg staða Íslands hefur orðið þess valdandi að bandalagsþjóðir hafa lagt mikið upp úr því að vera í virku öryggis- og varnarsamstarfi. Fyrir innrás Rússlands í Úkraínu má segja að öryggis- og varnarmál hafi ekki verði í brennidepil. Það má segja að á einni nóttu hafi veruleiki Evrópuþjóða breyst með óverjanlegri innrás Rússa í Úkraínu. Stríðið sem þar geisar er grimm áminning um að sú samfélagsgerð við búum við hér á vesturhveli jarðar er ekki sjálfsögð.
Átökin í Úkraínu og stríðið í Ísrael hafa afar neikvæð áhrif á alþjóðasamfélagið. Áhrifin eru margskonar. Alþjóðamarkaðir bregðast illa við óstöðugleika og olíuverð hækkaði strax eftir helgina. Hærra olíuverð skilar sér í hærri verðbólgu en vonandi eru þetta skammvinn áhrif. Verð á útflutningsafurðum Úkraínu hefur verið sveiflukennt, sem hefur aukið á óvissu og óstöðugleika í alþjóðahagkerfinu. Þess vegna er afar brýnt að hagstjórnin sé styrk á Íslandi, þegar alþjóðastjórnmálin eru stödd í ólgusjó sem þessum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2023.

09/10/2023
Sjókvíeldi, með eða á mótiÞað má segja að stormur ríki um þessar mundir í umræðu um sjókvíeldi. Stór orð látin falla og þá skal skunda á Austurvöll og hafa hátt.
Það er líkt og þegar mikil hávaði ríkir á samkomu í stórum sal þá komast aðalatriðin illa til skila. Gífuryrði og misskilningur situr eftir, engum til framdráttar. Ennþá er talað um örfá störf í sjókvíeldi sem unnin eru að erlendum farandverkamönnum sem engu skipta máli og eldið allt eitt umhverfisslys.
Slysaslepping
Kveikjan að þessum stormi núna er slysaslepping sem varð í Patreksfirði í síðasta mánuði sem hafði alvarlegar afleiðingar þar sem fiskurinn var nær kynþroska og leitaði upp í veiðiár á vestanverðu landinu og norðan. Slysasleppingu á alltaf að taka alvarlega, sérstaklega þegar áhrifin verða slík sem hafa verið og það þarf að rannsaka ofan í kjölinn. Fiskeldisfyrirtækin þurfa að bæta sína ferla og opinbert eftirlit þarf að bæta verulega.
Öruggt viðbragð
Við höfum byggt upp öruggt viðbragð við alls kyns atburðum, hvort sem um ræðir mengunarslys, smitsjúkdómar eða náttúruvá. Allt byggir það á að lágmarka mögulegan skaða og áhrif til framtíðar. Því þarf að vera til staðar öruggt viðbragð og eftirlit sem virkjað er strax og slepping verður. Til þess að það megi verða þarf eftirlit að færast nær sjókvíeldinu, bæði til að flýta viðbragði og ekki síst til að byggja upp þekkingu á svæðinu. Þegar upp kemur riða í sauðfé eru allir ferlar þekktir og gengið í verkið. En við erum því miður ansi svifasein í þegar kemur að viðbrögðum við slysasleppingu. Í Noregi eru þeir með lært viðbragð og eldislaxi hefur fækkað í norskum veiðiám þökk sé þeim mótvægisaðgerðum sem virkjaðar hafa verið þar. Mikilvægt er að við horfum til þróunar í nágrannalöndum og nýtum okkur þá reynslu sem þar hefur orðið til, svo hægt verði að byggja upp heilbrigða starfsemi hér á landi.
Eftirlit á staðnum
Því er mikilvægi eftirlits á þeim stöðum sem sjókvíeldið er staðsett mikið. Það má líkja því við að ef Ísfirðingar yrðu uppvísir að slæmri umferðamenningu, keyrðu ítrekað yfir hámarkshraða eða undir áhrifum áfengis, það kynni ekki góðri lukka að stýra og ákall yrði eftir auknu eftirliti lögreglu en stjórnvöld myndu bregðast við með því að ráða fleiri í lögregluna á Selfossi. Hvaða áhrif myndi það hafa á umferðamenningu á Ísafirði? Einnig þarf nýsköpun, rannsóknir og þróun á sviði sjókvíeldis að vera til í nærumhverfi eldisins sem og annarsstaðar.
Aukið og virkt eftirlit
Með breytingu á lögum um fiskeldi frá árinu 2019 var gert ráð fyrir að áhættumatið skuli samkvæmt lögum taka tillit til mótvægisaðgerða, sem annarsvegar skal lámarka hættu á stroki úr kvíum og hins vegar aðgerðir sem grípa skuli til þegar mögulegt strok verður. Er lögfesting þessara mótvægisaðgerða algjört lykilatriði, þar sem þær draga enn frekar úr líkum á skaðlegum áhrifum eldisins og stuðla þannig að umhverfisvænni rekstri og betri sátt við aðra hagsmuni. Þessar mótvægisaðgerðir þarf að virkja enn frekar.
Í fjárlagafrumvarpi fyrir komandi ár er gert ráð fyrir aukinni fjárveitingu upp á 126 milljónir króna vegna eftirlits í sjókvíeldi auk þess sem til stendur að hækka verðmætagjald sjókvíeldis. Áætlað er að verðmætagjald fyrirtækja í sjókvíeldi verði komið í 2,1 milljarð á komandi ári og það rennur í fiskeldisjóð. Auk þess greiða rekstraraðilar sem ala lax í sjókví árlegt gjald í umhverfissjóð sem greiðir kostnað við rannsóknir vegna burðaþolsmats, vöktunar og annarra eftirlitsverkefna.
Stefna um lagareldi
Matvælaráðherra hefur lagt fram tillögu um stefnu í uppbyggingu og umgjörð lagareldis, stefnu til ársins 2040 sem nú er komin í samráðsgátt. Tillagan hefur að markmiði að skapa greininni skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Lagareldið nær yfir sjókvíeldi, landeldi, úthafseldi og þörungarækt.
Þegar horft er til sjókvíeldis segir í tillögunni að áskoranirnar séu vissulega til staðar og til þess að greinin geti áfram verið mikilvæg stoð í efnihag landsins verður áfram að vinna að því að mæta þeim áskorunum með festu. Það er bæði verkefni þeirra fyrirtækja sem stunda greinina, samfélaganna þar sem greinin er stunduð og stjórnvalda sem halda utan um eftirlit og lagaumgjörð. Það er raunverulegur möguleiki með því að hafa vísindin í forgrunni sem byggja á að lágmarka umhverfisáhrif greinarinnar. Þannig byggjum við upp sameiginlegan ábata með nýtingu auðlinda til verðmætasköpunar .
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 9. október 2023.
Menningarsalur, já takk

04/10/2023
Menningarsalur, já takkÁ undanförnum áratugum hefur menningarsalur okkar sunnlendinga staðið tómur og engum til gagns. Mikið hefur verið um málefnið rætt en ekkert hefur gerst. Nú er mál að linni. Við þurfum að fá stað á Suðurlandi fyrir menningarviðburði. Sinfóníuhljómsveit Suðurlands hefur verið stofnuð, kórar eru víða aðþrengdir um pláss og aðrir sviðslistahópar gera sér hóflegt húsnæði að góðu. Á þessu ástandi tapa allir, því líf okkar allra er fátækara með takmarkaðan aðgang að listviðburðum.
Menningarsalurinn og skýrsluskrif
Á árinu 2021 var tekin saman skýrsla af EFLU þar sem kostnaður við fullbúinn sal var metinn og sérfræðiálitum var safnað saman. Margir hlutaðeigandi aðilar voru spurðir álits og samantektin er greinargóð. Áætlaður kostnaður við uppbygginguna losaði milljarð króna. Áætla má að kostnaður yrði hærri ef ráðist væri í framkvæmdir nú. Þessi framkvæmdakostnaður miðar við að salurinn sé fullbúinn. Ráðherra menningar Lilja Alfreðsdóttir sótti nýverið fund hjá okkur í Hótel Selfoss og tók af öll tvímæli um að ríkið hyggðist ekki auka við framlag sitt sem er um 280 mkr. Féð er til reiðu og bíður eftir því að komast í vinnu okkur öllum til handa.
Stofna þarf félag
Til að koma málum af stað þarf að vinna málstaðnum framgang. Í október verður menningarmánuður Árborgar og þá er líklegt að víða verði gaman. Alls kyns viðburðir verða settir upp okkur til ánægju og lærdóms. Allt þetta mun gerast án menningarsalarins sem er sorglegt. Við þurfum að leggjast á árarnar um að stofna félagasamtök þar sem sveitarfélagið Árborg mun leggja eignina inn. Enn fremur mætti nálgast ráðherra menningarmála, Lilju Alfreðsdóttur, og kanna með að leggja fram fé ríkisins í samtökin. Til viðbótar mætti gera rekstrarsamning við eigendur hótelsins og þá er kominn tími til að bjóða einstaka verkþætti út. Þetta er nú allur galdurinn og er fyrirsjáanlegt að opna mætti menningarsalinn fyrir undir 500 mkr. ef aðhalds er gætt og ef allir sætta sig við að einungis hluta er lokið í fyrsta áfanga og salnum komið í notkun. Svo þetta megi fram ganga þá þarf að vinna að framgang málsins og erum við í Framsókn í Árborg tilbúin að vinna að málinu með öllum sem brenna fyrir bættri aðstöðu menningar á Suðurlandi.
Arnar Freyr Ólafsson, oddviti Framsóknar í Árborg.
Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 3. október 2023.

03/10/2023
Auðlegð þjóða snýst um opin alþjóðaviðskiptiÞökk sé þeim mikla krafti sem verið hefur í alþjóðaviðskiptum undanfarna áratugi hafa lífskjör hundraða milljóna manna batnað verulega með auknum kaupmætti. Ísland hefur tekið virkan þátt í þessari þróun og er engum blöðum um það að fletta að efnahagslegur vöxtur landsins hefur byggst á opnum alþjóðaviðskiptum – þar sem hugað hefur verið að greiðslujöfnuði þjóðarbúsins.
Hagsaga Íslands er saga framfara en um leið og Ísland hóf aftur frjáls viðskipti og fór að nýta auðlindir landsins í eigin þágu jukust hér lífsgæði og velmegun. Á þeirri vegferð hefur tæknivæðing samfélagsins lagt sitt af mörkum og skilað aukinni skilvirkni og nýtingu framleiðsluþátta. Þannig störfuðu í upphafi 20. aldarinnar um 80% af vinnuaflinu í landbúnaði og sjávarútvegi en 100 árum síðar er samsvarandi hlutfall um 10%. Á sama tíma hefur verðmætasköpun aukist umtalsvert. Utanríkisviðskipti hafa á sama tíma orðið mun fjölbreyttari en þegar um 90% gjaldeyristekna komu frá sjávarútvegi. Meginútflutningsstoðir hagkerfisins eru fjórar í dag; ferðaþjónusta, sjávarútvegur, iðnaður og skapandi greinar.
Á undanförnum árum hafa ýmsar áskoranir birst í heimi alþjóðaviðskiptanna. Eftir að Bretton-Woods-gjaldmiðlaumgjörðin leið endanlega undir lok á áttunda áratugnum tók við tímabil sem einkenndist af efnahagslegri stöðnun og hárri verðbólgu. Réðust til að mynda Bandaríkin og Bretland í umfangsmiklar kerfisbreytingar til að snúa þeirri þróun við sem fólust meðal annars í því að losa um eignarhald ríkisins á ýmsum þáttum hagkerfisins, skattar voru lækkaðir, einblínt var á framboðshliðina og létt var á regluverki.
Eftir gríðarlegt pólitískt umrót í Kína áratugina á undan náðist samstaða um að hefja mikið efnahagslegt umbótaskeið sem hóst með valdatöku Deng Xiaoping 1978. Í kjölfar þess að Bandaríkin og Bretland fóru að styrkjast efnahagslega ásamt Kína fóru mörg önnur ríki að þeirra fordæmi. Þegar nær er litið eru bestu dæmin aukin viðskipti innan EFTA, ESB og EES sem styrktu hagkerfi innan þeirra vébanda og ekki síst þeirra ríkja sem opnuðust eftir fall ráðstjórnarríkjanna. Að sama skapi skipti sköpum fyrir þróun heimsviðskipta innganga Kína í Alþjóðaviðskiptastofnunina árið 2001. Í kjölfarið urðu breytingar á samkeppnishæfni og útflutningi Kínverja með tilheyrandi aukningu í alþjóðaviðskiptum.
Við höfum séð viðskiptahindranir og -hömlur aukast töluvert undanfarinn áratug. Í því samhengi hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bent á að heimsframleiðsla geti dregist saman um 7% en það jafngildir samanlagðri stærð franska og þýska hagkerfisins! Þetta er þróun sem þjóðir heims verða að hafa augun á til að stuðla að áframhaldandi lífskjarasókn í heiminum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. október 2023.

02/10/2023
Hagræðing í bankakerfinu hefur ekki skilað sér til fólksinsMikilvægar og gagnlegar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu starfshóps er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skipaði til að meta gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna. Hópnum var ætlað að greina tekjumyndun, þar á meðal þóknanir, þjónustu- og vaxtatekjur og vaxtamun viðskiptabankanna þriggja í norrænum samanburði. Á mannamáli er spurningin hvort íslensk heimili greiði hlutfallslega meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en heimili annars staðar á Norðurlöndum.
Í ljós kemur að vaxtamunur viðskiptabankanna hefur verið að aukast. Það kemur fram í tölum og gögnum þegar uppgjör bankanna það sem af er ári eru skoðuð. Það verður að vera krafa okkar neytenda að bankarnir minnki vaxtamuninn og skipti þannig ávinningnum á sanngjarnari hátt. Þá eru sum þjónustugjöld ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Það er óviðunandi staða. Nefnt er dæmi um að gjaldtaka íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sé dulin en hún vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Þá segir að gengisálag bankanna á kortafærslum skeri sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Um er að ræða 6,6 milljarða gengisálag á íslenska neytendur fyrir að nota greiðslukort sín í erlendum færslum.
Hærri kostnaður vegna greiðslumiðlunar
Í skýrslunni kemur fram að kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar sé mun hærri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun hefur í för með sér hærra verð á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem á endanum bera kostnaðinn. Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 milljarðar króna eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 milljarðar króna. Langstærstur hluti af færslunum fer í gegnum innviði erlendra kortafyrirtækja.
Í skýrslunni segir að það geti margborgað sig að kanna hvað sé í boði og í hverju kostnaður viðkomandi liggi helst við bankaþjónustu. Vil ég hvetja alla til að skoða þetta gaumgæfilega í sínum viðskiptum því það má vera að tækifæri séu til að lækka tilkynningar- og greiðslugjöld. Þá segir að einnig sé hægt að athuga hvort ódýrara sé að nota kreditkort, debetkort eða kaupa gjaldeyri áður en farið er til útlanda.
Bankarnir standi með fólki og fyrirtækjum
Það mun verða samfélagslegur ávinningur fólginn í öflugri neytendavakt en sú vakt þarf að vera samvinnuverkefni okkar allra. Starfshópurinn leggur fram eftirfarandi tillögur til úrbóta í skýrslunni:
Sett verði á fót samanburðarvefsjá með verði fjármálaþjónustu að norskri og sænskri fyrirmynd.
Kannaðir verði möguleikar á að draga úr kostnaði í innlendri greiðslumiðlun í samræmi við ábendingar Seðlabanka Íslands í nýlegum skýrslum.
Aukin áhersla verði lögð á fjármálafræðslu fyrir almenning frá hlutlausum aðilum til að efla fjármálalæsi neytenda.
Stjórnvöld búi til ramma og skýrar leikreglur og fyrirtæki setji fram upplýsingar og valmöguleika á skiljanlegan hátt.
Bönkunum hefur tekist að auka hagnað og bæta arðsemina með aukinni hagræðingu en í uppgjörum bankanna er ekki að finna jafn skýr merki um lækkun gjalda til viðskiptavina. Okkur Íslendingum er vitaskuld nauðsynlegt að eiga sterkt bankakerfi. En til að styðja og styrkja öflugt atvinnu- og efnahagslíf verða viðskiptabankar að njóta almenns trausts í samfélaginu. Ljóst má vera að hér má gera mikið mun betur. Innheimta ýmissa gjalda, þóknana og vaxtakostnaðar á ekki að vera neytendum torskilin á allan hátt. Þá er það jú skýrt dæmi um að samkeppni skorti á markaðnum og eins það að við neytendur séum ekki nægilega á verði. Það er hins vegar að breytast og það er gott. Það er til mikils að vinna að ná saman um að hér verði spilaður sanngjarn leikur.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. október 2023.

28/09/2023
Menntun og velsæld barna í fyrsta sætiSveitarfélag í örum vexti er eins og unglingur með vaxtarverki. Unglingurinn er hvattur áfram í þeirri vissu að þetta sé tímabil sem komast muni yfir, það er hlúð að honum eins og frekast er unnt. Framkvæmdir við þriðja áfanga stækkunar grunnskólans eru vel á veg komnar. Þegar þetta er ritað eru nemendur við skólann 445 talsins, fjölgun nemenda nam 10% árið 2021 og 5,6% árið 2022. Haustið 2025 er von á stórum árgangi í 1. bekk eða nemendafjölda sem nemur þremur bekkjum í árgangi.
Í áfanga þessum sem nú er byggður er mötuneyti skólans stækkað en í dag skiptist hádegishlé í fimm holl, auk þess að nemendur í 2. og 5. bekk borða þrjá – fjóra daga í sinni heimastofu. Í þriðja áfanga bætist við auk mötuneytis, sérfræðingarými, aðstaða skólahjúkrunarfræðings, sér- og stuðningsdeild, aðstaða fyrir starfsfólk mötuneytis, salur og þrjár minni kennslustofur. Þriðji áfangi Grunnskólans í Hveragerði er hluti af fjárfestingaráætlun bæjarins fyrir árin 2023-2026. Áætlunin var samþykkt, á 555. fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 8. desember 2022, með fimm atkvæðum meirihluta Framsóknar og Okkar Hveragerðis en minnihlutinn D- listi sat hjá við afgreiðsluna.
Nemendur, starfsfólk, stjórnendur og aðrir hagaðilar hafa sýnt mikið æðruleysi gagnvart þeim húsnæðisskorti sem við búum við í dag og eiga miklar þakkir skyldar fyrir samstarfsviljann. Allir hafa lagst á eitt við það að láta hlutina ganga upp og þreyja þorrann þar til aðstaðan verður betri en áætluð verklok stækkunar grunnskólans í Hveragerði er árið 2025. Menntun og velsæld barna er í fyrsta sæti!
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknar í Hveragerði.
Greinin birtist fyrst á visir.is 27. september 2023.

25/09/2023
HálfleikurÍ dag eru liðin slétt tvö ár frá Alþingiskosningum. Í þeim vann Framsókn frækinn kosningasigur sem skilaði flokknum 13 þingmönnum og tryggði áframhaldandi stjórnarsamstarf Framsóknar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks. Á þeim sex árum sem liðin eru hefur mikið mætt á íslensku samfélagi en um leið hefur mikið áunnist.
Þrátt fyrir að ég hafi síðustu vikur þurft að fara mér hægt vegna aðgerðar sem ég gekkst undir í byrjun mánaðarins hef ég ekki farið varhluta af umræðunni í samfélaginu. Ég finn áhyggjur fólks aukast af afkomu sinni vegna hárrar verðbólgu. Hún er stærsta áhyggjuefnið og stærsta verkefnið sem samfélagið tekst á við þessi misserin. Til að verðbólgan verði kveðin í kútinn þá er ekkert annað í boði en að við stöndum saman.
Samstaða
Íslenskt samfélag er gott. Okkur hefur í gegnum tíðina auðnast að standa saman þegar á bjátar. Skýrasta dæmið um það síðustu árin er heimsfaraldurinn. Í honum sýndi samfélagið að það er fullt af hlýju og samlíðan. Segja má að verðbólgan sé faraldur en stóri munurinn er þó sá að covid lagðist ekki misjafnlega á fólk eftir stöðunni á bankabókinni. Í baráttunni við verðbólguna er erfiðara að ná samstöðu um aðgerðir því þær bitna misjafnlega á fólki eftir því hvernig það stendur fjárhagslega. Hagsmunir heimilanna og lífsgæði barna eru mikilvægasti þátturinn sem taka verður tillit til þegar aðgerðir gegn og vegna verðbólgu eru ákveðnar.
Agi eða örvænting?
Því miður eru engar töfralausnir til sem lækka verðbólgu bara sisona. Agi og samstaða eru lykilþættir í þeirri baráttu. Þegar stjórnmálin standa frammi fyrir erfiðum áskorunum eiga sumir það til að flýja ábyrgð sína og byrja að hrópa á torgum um hin og þessi málefni sem þeir telja geta gefið þeim fleiri like og jafnvel prósentustig í könnunum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ríkisstjórnarflokkarnir hafa misst fylgi á síðustu mánuðum. Því fylgir oft titringur eins og fólk hefur tekið eftir. Einstaka stjórnmálamenn og flokkar fara þá ókyrrast og ýfa fjaðrirnar, pota í aðra, stíga á tær, allt til að skapa um sig umtal. Sumir leita uppi leðju til að sletta og polla til að hræra upp í til að skapa ótta, óþol og öfund með von um að þeir sjálfir komist í sviðsljósið. En örvænting fer engum vel. Nær væri að fólk myndi setjast niður og hugsa hvernig best sé að skapa almenna samstöðu um framtíðarsýn og síðast en ekki síst skapa aukið traust á stjórnmálunum og efnahagsstjórn landsins.
Dómsdagsspámenn
Þessa dagana er ekki skortur á dómsdagsspám um ríkisstjórnarsamstarfið í fjölmiðlum, heitum pottum og einstaka þingflokksherbergjum. Það lækkar ekki verðbólgu. Fyrir nokkrum dögum rakst ég á konu sem hafði á orði við mig að henni þætti útlitið nú ekki bjart fyrir stjórnina, hver höndin upp á móti annarri og erfitt að ímynda sér að hún væri á vetur setjandi. Ég sagði við hana að vissulega mætti fólk stundum anda aðeins með nefinu áður en það léti vaða á samstarfsfólk sitt en þetta væri aðallega merki um stress. Eftir smá spjall urðum við sammála um það að það væri nú ekki hægt að bjóða þjóðinni upp á það að skorast undan ábyrgð á erfiðum tímum. Allavega myndi Framsókn ekki gefast upp.
Seinni hálfleikur
Það eru tvö ár liðin af kjörtímabilinu og við í Framsókn erum stolt af því sem við höfum áorkað á þeim tíma. Leikurinn er þó ekki búinn. Það eru ýmsar áskoranir sem íslenskt samfélag tekst á við. Við í Framsókn byrjum seinni hálfleik með sömu markmið og áður: Að vinna af heilindum að umbótum fyrir íslenskt samfélag með samvinnu. Það er bjargföst skoðun mín að til að ná sigri í baráttunni við verðbólgu verða einhverjir að gefa eftir en fyrst og fremst verða allir að gefa af sér.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.
Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2023.

25/09/2023
Verðbólga og neytendaverndLangatímaafleiðingar hárrar verðbólgu eru slæmar fyrir samfélög. Verðbólgan hittir einkum fyrir þá sem minnst eiga. Hópurinn sem verst fer út úr verðbólguhremmingunum er sá sem nýverið kom inn á húsnæðismarkaðinn.
Í riti Seðlabankans Fjármálastöðugleiki 2023/2, sem kom út í vikunni, er staða heimila og fyrirtækja rýnd í samhengi við aukið aðhald peningastefnunnar að undanförnu. Verðbólga og hækkandi vextir hafa þyngt greiðslubyrði heimila og fyrirtækja þó skuldsetning sé lítil í sögulegu samhengi og eiginfjárstaðan góð. Þannig hefur hækkandi vaxtastig dregið úr umsvifum á íbúðamarkaði en verulega hefur dregið úr nýjum lánveitingum til heimila á árinu. Hrein ný íbúðalán fyrstu sjö mánuði ársins námu aðeins rúmum 58 mö.kr., samanborið við 111 ma.kr. á sama tímabili á síðasta ári.
Nokkur hluti útistandandi óverðtryggðra íbúðalána sem veitt voru á árunum 2020 og 2021 ber fasta vexti sem brátt losna og verða endurskoðaðir með tilheyrandi hækkun á greiðslubyrði lánanna. Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að haldist vaxtastig áfram hátt megi að öðru óbreyttu gera ráð fyrir að greiðslubyrði heimilanna þyngist verulega. Hagkerfið okkar má ekki verða eitthvert gæfuhjól, þ.e. að gæfan ákvarðist eingöngu út frá því hvenær komið er inn á húsnæðismarkaðinn. Öruggt þak yfir höfuðið er eitt stærsta velferðarmál samtímans.
Staða stóru viðskiptabankanna er sterk, eiginfjárhlutföll þeirra há og arðsemi af reglulegum rekstri góð. Það er í takt við þróun undanfarinna ára, sem var meðal annars rakin í skýrslu starfshóps sem ég skipaði um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna og kynnt var nýlega. Það er eðlilegt að viðskiptabankarnir nýti þessa stöðu til þess að koma til móts við þau heimili sem glíma við og munu glíma við þyngri greiðslubyrði en áður.
Ein af tillögum starfshóps um gjaldtöku og arðsemi íslensku bankanna var að efla þyrfti neytendavernd á fjármálamarkaði. Ég hef þegar komið vinnu við hana í farveg en hafin er greiningarvinna á vegum míns ráðuneytis í tengslum við ákveðna þætti fasteignalána til neytenda og neytendalána til að efla neytendavernd á sviði fjármálaþjónustu. T.a.m. hvernig staðið er að upplýsingagjöf og leiðbeiningum til neytenda í tengslum við lánveitingar út frá mismunandi lánaformum, áhrifum vaxta, verðbólgu o.s.frv. Skoðað verður eftirlitshlutverk Neytendastofu og Seðlabanka Íslands gagnvart lánveitendum við framkvæmd lánveitingar til neytenda og eftir að lán er veitt, þ.m.t. við skilmálabreytingar og vanskil. Þá verður einnig skoðað hvaða upplýsingum og leiðbeiningum þarf að koma á framfæri til neytenda um mismunandi lánaform, áhrif vaxta, verðbólgu o.s.frv. og hvernig þeim verði miðlað með sem skilvirkustum hætti.
Verðbólga er margslungið fyrirbæri og baráttan við hana krefst samtakamáttar samfélagsins. Þar skiptir stuðningur við heimilin miklu máli og öflug neytendavakt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2023.