Categories
Fréttir

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað“

Deila grein

16/12/2022

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi skil starfshóps í vikunni, sem Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, skipaði um samræmt verklag um þjónustu við þau sem leita til heilbrigðisstofnana vegna kynferðisofbeldis, í störfum þingsins. Unnið er að því að tryggja jafnt aðgengi þolenda að faglegri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag og öðrum aðstæðum.

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað. Eins og fram kemur í skýrslunni er þörf á að samræma þjónustu um allt land. Þá er lagt til að neyðarmóttakan í Fossvogi verði fyrirmynd samræmds verklags og að allar heilbrigðisstofnanir innleiði verklag að þeirri fyrirmynd. Meðal tillagna eru rafrænt skráningarform við skráningu upplýsinga vegna móttöku þolenda og gerenda sem leita á heilbrigðisstofnun, samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn vegna kynferðisofbeldis, mótun fræðsluefnis fyrir þolendur þar sem sérstaklega verði hugað að einstaklingum í viðkvæmri stöðu og sálfræðiþjónustu fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum. Slík sálfræðiþjónusta er fyrirbyggjandi aðferð til þess að koma í veg fyrir að gerendur brjóti af sér aftur,“ sagði Lilja Rannveig.

„Kynferðisofbeldi er meðal alvarlegustu brota á einstaklingi sem til eru. Ofbeldið hefur áhrif á einstakling til frambúðar og setur mark sitt á sálarlíf þeirra og lífsgæði jafnvel það sem eftir er. Því er það svo brýnt að heilbrigðiskerfið okkar taki á móti þolendum og hlúi að þeim á sem bestan hátt.

Sú vinna sem hæstv. heilbrigðisráðherra er í fararbroddi fyrir, ásamt hæstv. dómsmálaráðherra, er til þess fallin að móta kerfið innan stjórnsýslunnar á þann veg að gera nákvæmlega það.

Þetta er mikið fagnaðarefni og ég hvet ríkisstjórnina áfram í þessari vinnu,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar á Alþingi:

„Forseti. Í þessari viku skilaði starfshópur, sem hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson skipaði, niðurstöðum sínum um samræmt verklag um þjónustu við þau sem leita til heilbrigðisstofnana vegna kynferðisofbeldis. Markmiðið er að tryggja jafnt aðgengi þolenda að faglegri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag og öðrum aðstæðum. Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað. Eins og fram kemur í skýrslunni er þörf á að samræma þjónustu um allt land. Þá er lagt til að neyðarmóttakan í Fossvogi verði fyrirmynd samræmds verklags og að allar heilbrigðisstofnanir innleiði verklag að þeirri fyrirmynd. Meðal tillagna eru rafrænt skráningarform við skráningu upplýsinga vegna móttöku þolenda og gerenda sem leita á heilbrigðisstofnun, samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn vegna kynferðisofbeldis, mótun fræðsluefnis fyrir þolendur þar sem sérstaklega verði hugað að einstaklingum í viðkvæmri stöðu og sálfræðiþjónustu fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum. Slík sálfræðiþjónusta er fyrirbyggjandi aðferð til þess að koma í veg fyrir að gerendur brjóti af sér aftur.

Forseti. Kynferðisofbeldi er meðal alvarlegustu brota á einstaklingi sem til eru. Ofbeldið hefur áhrif á einstakling til frambúðar og setur mark sitt á sálarlíf þeirra og lífsgæði jafnvel það sem eftir er. Því er það svo brýnt að heilbrigðiskerfið okkar taki á móti þolendum og hlúi að þeim á sem bestan hátt. Sú vinna sem hæstv. heilbrigðisráðherra er í fararbroddi fyrir, ásamt hæstv. dómsmálaráðherra, er til þess fallin að móta kerfið innan stjórnsýslunnar á þann veg að gera nákvæmlega það. Þetta er mikið fagnaðarefni og ég hvet ríkisstjórnina áfram í þessari vinnu.“

Categories
Fréttir

Ekki skilja Vestfirði eftir í fortíðinni

Deila grein

16/12/2022

Ekki skilja Vestfirði eftir í fortíðinni

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi raforkuöryggi á Vestfjörðum og að það sé ekki tryggt í störfum þingsins.

„Staðreyndin er sú, og ég hef talað um þetta áður, að við á Vestfjörðum erum háð neti varaafls sem hefur verið byggt upp á síðustu árum og eru Vestfirðingar algerlega háðir þessu varaafli til að tryggja gott afhendingaröryggi. Þar undir er líka það sem til þarf til að halda straumi á rafkynntum hitaveitum til húshitunar með tilheyrandi olíunotkun,“ sagði Halla Signý.

Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, en „Vestfirðingar geta ekki fylgt eftir þessum markmiðum meðan þeir þurfa að brenna milljónum lítra af dísilolíu til að halda uppi raforkuöryggi fjórðungsins. Það gengur ekki að skilja Vestfirði eftir í fortíðinni.“

Í skýrslu um raforkumál á Vestfjörðum frá því í vor segir að mikilvægt sé að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess verði að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar svo að hægt sé að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkynntar hitaveitur.

„Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 millj. kr. sem eru til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar á Alþingi:

„Forseti. Fram undan eru dimmustu dagar ársins og í ofanálag eru frosthörkur á landinu. Þá er vont að vita til þess að raforkuöryggi á Vestfjörðum sé ekki tryggt. Það er langt því frá. Staðreyndin er sú, og ég hef talað um þetta áður, að við á Vestfjörðum erum háð neti varaafls sem hefur verið byggt upp á síðustu árum og eru Vestfirðingar algerlega háðir þessu varaafli til að tryggja gott afhendingaröryggi. Þar undir er líka það sem til þarf til að halda straumi á rafkynntum hitaveitum til húshitunar með tilheyrandi olíunotkun. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og teljum við okkur vera vel undirbúin til að takast á hendur metnaðarfullar aðgerðir og fylgja eftir markmiðum til að standast áformin. En Vestfirðingar geta ekki fylgt eftir þessum markmiðum meðan þeir þurfa að brenna milljónum lítra af dísilolíu til að halda uppi raforkuöryggi fjórðungsins. Það gengur ekki að skilja Vestfirði eftir í fortíðinni.

Virðulegi forseti. Í vor kom út skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum og í tillögum hópsins kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt væri að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkynntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 millj. kr. sem eru til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Virðulegi forseti. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra ljósahátíðar.“

Categories
Greinar

Sam­starf um stöðug­leika

Deila grein

15/12/2022

Sam­starf um stöðug­leika

Þegar ég bauð mig fram til Alþingis síðastliðið haust var það vegna þess að ég vildi gera vel. Ástandið í heiminum hefur haft áhrif á efnahagsástandið hér á landi sem og annar staðar. Við getum þó ornað okkur við það að allar líkur eru á að um tímabundið ástand sé að ræða, staða ríkissjóðs er mun sterkari en áður var gert ráð fyrir og viðsnúningur getur því orðið hraður þegar ástandið færist aftur í eðlilegt horf. Við þurfum þó að stíga varlega til jarðar næstu mánuði, tryggja stöðugleika og ná niður verðbólgu og vöxtum.

Stöðugleiki og samvinna

Líkt og áður hefur komið fram í mínum greinarskrifum erum við að upplifa tíma sem kalla á stöðugleika og samvinnu. Þetta vita þeir sem semja um kaup og kjör hér á landi. Þær ánægjulegu fréttir bárust okkur fyrr í vikunni að iðnaðar- og verslunarmenn hafi skrifað undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, en áður höfðu náðst samningar milli SA og SGS. Með undirritun þessara samninga hefur nú verið samið við stærstu félögin á almennum vinnumarkaði, en í þeim eru fleiri en 80 þúsund manns. Um er að ræða skammtímasamninga sem hafa það markmið að styðja við kaupmátt launafólks og brúa bil yfir í nýjan langtímasamning í anda Lífskjarasamningsins.

Í kjölfarið kynntu formenn stjórnarflokkanna þær aðgerðir sem stjórnvöld ætla að leggja til sem stuðning við kjarasamningana. Hér er um að ræða þýðingarmikinn stuðning við fólkið í landinu og þá sér í lagi við lífskjör lág- og millitekjufólks ásamt auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Á sama tíma er áréttað mikilvægi þess að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa stöðugleika í efnahagsmálum svo hægt sé að ná fram lækkun á verðbólgu og vöxtum.

Breytingar á barnabótakerfinu

Einn liður í aðgerðum stjórnvalda eru verulegar breytingar á barnabótakerfinu til þess að styðja við kjarasamninga. Í tillögunum felst að barnabótakerfið verði einfaldað og stuðningur við barnafjölskyldur efldur. Breytingin mun dreifast á tvö ár. Fyrsta skrefið verður tekið nú um áramótin 2023 og svo aftur 1. janúar 2024. Með þessum breytingunum verður dregið úr skerðingum og jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir, ásamt því að lögð er áhersla á að bæta hag allra tekjutíunda og fjölga fjölskyldum sem fá stuðning úr barnabótakerfinu.

Barnabætur hjá millitekjufólki hækka mest og minnst hjá þeim sem hafa hærri laun. Þá verða teknar upp samtímagreiðslur þannig að biðtími eftir barnabótum verður aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns. Þeim fjölskyldum sem njóta stuðnings úr kerfinu fjölgar um 2.900, það eru 2000 nýjar fjölskyldur vegna breytinga í ársbyrjun og 900 vegna breytinga í ársbyrjun 2024. Í óbreyttu kerfi hefði kostnaður vegna barnabóta orðið um 12,1 ma.kr. árið 2023 samhliða hækkandi tekjum fólks og um 10,9 ma.kr. árið 2024. En vegna breytinganna verður kostnaðurinn við kerfið hins vegar um 14,6 ma.kr. 2023 og um 15,9 ma.kr. 2024. Hér er um að ræða mikilvægar breytingar sem koma inn á réttum tíma.

Aukinn húsnæðisstuðningur

Húsnæðisstuðningur ríkisins verður um 19 ma.kr. á næsta ári og farið í markvissar aðgerðir með áherslu á fjölgun íbúða og áframhaldandi uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Með auknum stofnframlögum og endurbótum í húsnæðisstuðningi náum við því markmiði. Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verða samtals 4 milljarðar strax á næsta ári. Hækka á húsnæðisbætur til leigjenda um 13,8% í upphafi árs til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár, auk þess sem tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta hækka um 7,4%. Með þessu fá 16.800 fjölskyldur í landinu húsnæðisbætur. Húsnæðisbætur til leigjenda hækka með þessu verulega og eru áætlaðar 9,6 ma.kr. þá eru vaxtabætur áætlaðar 2,7 ma.kr. ásamt því að eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi árs 2023.

Þessu til viðbótar mun heimild til þess að ráðstafa séreignarsparnað til kaupa á eigin húsnæði eða inn á höfuðstól húsnæðislána áfram nýtast fram til ársloka 2024. Stjórnvöld láta þar ekki staðar numið heldur munu á samningstímanum taka sérstaklega til skoðunar fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings húsnæðisbóta til leigjenda með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur.

Að standa saman í ólgusjó

Hér hefur einungis verið tæpt á helstu atriðum í aðgerðum stjórnvalda. Stjórnvöld eru með þessu að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að koma þjóðinni í gegnum óvenjulegu tíma. Þá hafa verkalýðsfélögin og Samtök atvinnulífsins aldeilis staðið við sinn hlut í því að ná fram stöðugleika í samfélaginu næstu mánuði og eiga hrós skilið. Nú skiptir mestu máli að allir sem vettlingi geta valdið geri sitt til þess að tryggja stöðugleika. Það er mikilvægt að halda aftur af hækkunum með öllum tiltækum ráðum og ná niður verðbólgunni.

Ég veit að þegar á reynir er samhugurinn mikill. Verjum tíma með okkar nánustu, styðjum og sýnum hvert öðru virðingu og samkennd í aðdraganda jóla. Gleðilega hátíð.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. desember 2022.

Categories
Greinar

Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland

Deila grein

15/12/2022

Traust ríkisfjármál skipta öllu fyrir Ísland

Mik­il ókyrrð hef­ur verið á alþjóðamörkuðum síðustu ár. Verðbólga á heimsvísu hef­ur ekki mælst jafn­há í fjóra ára­tugi. Meg­in­or­sak­ir henn­ar eru heims­far­ald­ur­inn og rösk­un á aðfanga­keðju vegna hans, stríðið í Úkraínu og orkukrepp­an í Evr­ópu. Að auki lít­ur út fyr­ir áfram­hald­andi póli­tíska spennu milli Banda­ríkj­anna og Kína. Stýri­vext­ir halda áfram að hækka og lík­urn­ar aukast veru­lega á að efna­hagsniður­sveifla hefj­ist á heimsvísu. Tími ódýrs láns­fjár­magns er liðinn í bili. Ein­hver glæta er þó að birt­ast eft­ir að verðbólga er far­in að hjaðna í Banda­ríkj­un­um.

Minnk­andi alþjóðaviðskipti

Mikl­ar breyt­ing­ar virðast vera í far­vatn­inu í alþjóðahag­kerf­inu, sem snúa einkum að minnk­andi alþjóðaviðskipt­um og fjár­fest­ingu. Í þessu um­hverfi er sér­stak­lega mik­il­vægt að stefna í rík­is­fjár­mál­um sé traust og að þau séu sjálf­bær hjá ríkj­um. Fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra, Liz Truss, og fjár­málaráðherra Bret­lands, Kwasi Kw­arteng, fundu held­ur bet­ur fyr­ir því að hafa ekki hugað að trú­verðugri rík­is­fjár­mála­stefnu. Frá því að „Litlu-fjár­lög­in“ voru kynnt af þáver­andi for­ystu Íhalds­flokks­ins leið ekki nema um vika þar til þau neydd­ust til að segja af sér. En hvað þýða þess­ir svipti­vind­ar alþjóðafjár­mála­kerf­is­ins og hver er þýðing þeirra hér á landi?

Lygi­leg at­b­urðarás í Bretlandi

Í kjöl­far þess að ,,Litlu-fjár­lög­in“ voru kynnt fór af stað mjög hröð at­b­urðarás á fjár­mála­mörkuðum. Veðköll hóf­ust vegna af­leiðuskuld­bind­inga líf­eyr­is­sjóðakerf­is­ins í bresk­um skulda­bréf­um. Það leiddi til þess að Seðlabanki Eng­lands þurfti að auka laust fé í um­ferð til að hægt væri að mæta veðköll­un­um. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in tapaði sam­stund­is öll­um trú­verðug­leika og í fram­hald­inu urðu stjórn­ar­skipti. Nýr fjár­málaráðherra, James Hunt, hef­ur kynnt fjár­mála­áætl­un sem miðar að því að skulda­lækk­un sé í aug­sýn og skatt­ar voru meðal ann­ars hækkaðir á þá tekju­mestu. Undið var ofan af fyrri áætl­un­um á mettíma. Til­trú og traust hef­ur minnkað vegna þess­ar­ar fram­göngu í rík­is­fjár­mál­um.

Rík­is­út­gjöld aukast í Evr­ópu og Ítal­ía áfram í hættu

Seðlabank­ar heims­ins hafa verið að hækka stýri­vexti og sam­hliða hef­ur fjár­mögn­un­ar­kostnaður verið að aukast. Að sama skapi sjá­um við ekki fyr­ir end­ann á stríðinu í Úkraínu og orkukreppu margra Evr­ópu­ríkja. Þýska­land hef­ur þegar riðið á vaðið til að styðja bet­ur við fyr­ir­tæk­in og heim­il­in í land­inu vegna hækk­andi orku­verðs og settu rúma 200 millj­arða evra til þess. Fjár­málaráðherra Þýska­lands, Christian Lindner, hafnaði því að aðgerðapakk­inn væri verðbólgu­hvetj­andi en engu að síður hef­ur verðbólga ekki mælst hærri í 70 ár og ávöxt­un­ar­krafa þýskra rík­is­skulda hækkað. Annað ríki í Evr­ópu, Ítal­ía, er enn viðkvæm­ara fyr­ir þreng­ing­um. Ítal­ía er háð rúss­nesku gasi og hef­ur lítið svig­rúm í rík­is­fjár­mál­un­um í ljósi mik­illa skulda og hækk­andi vaxta­greiðslna til að koma til móts við hækk­andi orku­verð. Ávöxt­un­ar­kraf­an á rík­is­skulda­bréf­in hef­ur verið að hækka veru­lega. Ófyr­ir­sjá­an­leiki í orku­öfl­un í Evr­ópu veld­ur því að fjár­fest­ar gera ráð fyr­ir að erfiðara verði að koma bönd­um á verðbólg­una.

Tauga­veiklaðir markaðir

Við sjá­um ekki fyr­ir end­ann á vaxta­hækk­un­um seðlabanka og því mun mynd­ast álag á helstu fjár­mála­mörkuðum. Vegna þessa er búið að herða tök­in á öll­um mörkuðum og lausa­fjárstaða þjóða og fyr­ir­tækja hef­ur versnað. Það má færa sann­fær­andi rök fyr­ir því að við mun­um sjá mikl­ar verðbreyt­ing­ar á mörkuðum og meiri óstöðug­leika á næsta ári. Gjá mynd­ast meðal þjóða sem hafa trú­verðug rík­is­fjár­mál og sjálf­bær­an greiðslu­jöfnuð ann­ars veg­ar og hins veg­ar þeirra þar sem grunnstoðir hag­kerfa eru veik­ar líkt og á Ítal­íu, í Tyrklandi og Arg­entínu. Seðlabanki Banda­ríkj­anna hef­ur hækkað vexti hraðar en aðrir seðlabank­ar að und­an­skild­um Seðlabanka Íslands. Þetta þýðir að gengi Banda­ríkja­dals hef­ur hækkað veru­lega eða um rúm 17% frá árs­byrj­un. Banda­rík­in hafa því verið að flytja verðbólg­una til annarra ríkja og því hafa aðrar þjóðir þurft að hækka vexti hraðar en ella.

Fjár­lög rík­is­sjóðs Íslands 2023 sýna af­komu­bata

Hag­vaxt­ar­horf­ur hafa styrkst á Íslandi og hag­vöxt­ur er óvíða meiri og mæl­ist 7,3% á 3. árs­fjórðungi sam­kvæmt töl­um Hag­stof­unn­ar. Hann er drif­inn áfram af mikl­um vexti í út­flutn­ingi, sér­stak­lega í ferðaþjón­ustu, og kröft­ugri einka­neyslu. Hlut­ur hins op­in­bera er að minnka í fjár­fest­ing­um og vöxt­ur sam­neyslu er hóf­leg­ur. Þrátt fyr­ir auk­in út­gjöld er lögð rík áhersla á að styrkja stöðu rík­is­fjár­mál­anna og hvika ekki frá því meg­in­mark­miði að lækka skuld­ir á næstu árum. Í ár hef­ur dregið hratt úr mikl­um halla­rekstri rík­is­sjóðs árin 2020 og 2021 sem ætlað var að draga úr áhrif­um heims­far­ald­urs­ins á fjár­hag heim­ila og fyr­ir­tækja. Efna­hags­bat­inn hef­ur leitt til mik­ill­ar tekju­aukn­ing­ar rík­is­sjóðs og þess að skulda­hlut­föll hins op­in­bera eru mun lægri en gert var ráð fyr­ir. Þessi efna­hags­bati er kröft­ug­ur og því hef­ur mynd­ast spenna í þjóðarbú­inu. Fjár­mál hins op­in­bera þurfa að róa í sömu átt og stefna Seðlabanka Íslands. Halli á rekstri rík­is­sjóðs verður því tæp­lega 3% af lands­fram­leiðslu. Útlit er fyr­ir að skulda­hlut­föll verði að sama skapi nær óbreytt frá samþykktri fjár­mála­áætl­un frá því í sum­ar, eða um 33% af VLF. Það er al­veg ljóst í mín­um huga að afar brýnt er að rík­is­sjóður nái tök­um á þess­um halla á næstu árum. Ísland er í kjöraðstöðu til að sýna fram á sjálf­bær rík­is­fjár­mál vegna af­komu­bata og framtíðar­horf­ur eru því bjart­ar.

Gera má ráð fyr­ir að þró­un­in verði sú að ríki séu í aukn­um mæli að fást við vax­andi rík­is­út­gjöld, erfiðari bar­áttu við verðbólgu og að hinir alþjóðlegu fjár­mála­markaðir muni veita aðhald vegna þeirra þreng­inga sem eru á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum. Við eig­um að taka þessa at­b­urðarás al­var­lega, þar sem kröf­ur um trú­verðuga rík­is­fjár­mála­stefnu eru að aukast ásamt því að alþjóðaviðskipti eru að drag­ast sam­an. Smærri ríki þurfa því að vanda sig enn frek­ar. Horf­ur ís­lensks efna­hags eru bjart­ar, hag­vöxt­ur er mik­ill og bygg­ist á auk­inni verðmæta­sköp­un. Að sama skapi halda skuld­ir áfram að lækka og er skuld­astaða rík­is­sjóðs ein sú besta í Evr­ópu. Þrátt fyr­ir þessa stöðu ber okk­ur að vera ætíð á tán­um til þess að auka kaup­mátt og vel­ferð í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 15. desember 2022.

Categories
Fréttir

Akureyri sem svæðisborg

Deila grein

15/12/2022

Akureyri sem svæðisborg

Tölum Ísland upp, án þess að tala einstök svæði niður. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra, þegar starfshópur um mótun borgarstefnu kom saman til fyrsta fundar í innviðaráðuneytinu í dag, 14. desember. Markmiðið með stofnun starfshópsins er að efla stærstu þéttbýlissvæði landsins, Reykjavík og Akureyri, og styrkja samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun.   

Hlutverk hópsins er tvíþætt. Að skilgreina hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðla að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins. Enn fremur að skilgreina hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar til að hún geti boðið upp á meiri fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.

Formaður starfshópsins er Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL. Aðrir í starfshópnum eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með hópnum starfa Ásdís Sigurbergsdóttir, ráðgjafi hjá Aton.JL, Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, og Reinhard Reynisson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en í árslok 2023.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 14. desember 2022.

Categories
Fréttir

Góður starfsandi mikilvægur!

Deila grein

14/12/2022

Góður starfsandi mikilvægur!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, sagðist vilja nú undir lok haustþings þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu hausti og hrósa fyrir sérstaklega gott starf í nefndum, góða samvinnu, því að samvinna og samstarf skipta auðvitað öllu máli á þessum starfsvettvangi.

Sagði hún að þótt stundum þurfi að takast hart á um ýmis málefni væri góður starfsandi mikilvægur. Haustið hafi liðið hratt og góð mál hlotið framgang á Alþingi.

„Ég vil sérstaklega hrósa fjárlaganefnd og samvinnu fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar sem hefur skilað okkur fjárlögum þar sem heildarmyndin er góð, auk þess sem þar eru mikilvæg framlög í stór og smá framfaraverkefni. Svo ég nefni bara einhver þá sýna auðvitað fjárlögin að þessi ríkisstjórn leggur áherslu á heilbrigðiskerfið og að efla það á sem flestum sviðum,“ sagði Líneik Anna.

„Það eru líka mikilvæg viðbótarframlög í íslenskukennslu fyrir innflytjendur, mikilvæg viðbótarframlög í löggæsluna þar sem ég sé fyrir mér að aftur verði hægt að taka upp forvarnaverkefni lögreglunnar sem hafa ekki verið nægilega öflug á síðustu misserum og aukin framlög í ýmis smærri verkefni um land allt.

En svo vil ég auðvitað hrósa ríkisstjórninni fyrir samstarfið við þá sem hafa verið að vinna að kjarasamningum. Það er mikið fagnaðarefni að sjá þær aðgerðir sem kynntar hafa verið til að styðja við og skapa auknar forsendur fyrir meiri stöðugleika í efnahagsmálum, auk lækkunar vaxta og verðbólgu,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég vil hér undir lok haustþings þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu hausti og hrósa fyrir sérstaklega gott starf í nefndum, góða samvinnu, því að samvinna og samstarf skipta auðvitað öllu máli á þessum starfsvettvangi. Þótt stundum þurfi að takast hart á um ýmis málefni er góður starfsandi mikilvægur. Haustið hefur liðið hratt og góð mál hafa hlotið framgang. Ég vil sérstaklega hrósa fjárlaganefnd og samvinnu fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar sem hefur skilað okkur fjárlögum þar sem heildarmyndin er góð, auk þess sem þar eru mikilvæg framlög í stór og smá framfaraverkefni. Svo ég nefni bara einhver þá sýna auðvitað fjárlögin að þessi ríkisstjórn leggur áherslu á heilbrigðiskerfið og að efla það á sem flestum sviðum. Það eru líka mikilvæg viðbótarframlög í íslenskukennslu fyrir innflytjendur, mikilvæg viðbótarframlög í löggæsluna þar sem ég sé fyrir mér að aftur verði hægt að taka upp forvarnaverkefni lögreglunnar sem hafa ekki verið nægilega öflug á síðustu misserum og aukin framlög í ýmis smærri verkefni um land allt. En svo vil ég auðvitað hrósa ríkisstjórninni fyrir samstarfið við þá sem hafa verið að vinna að kjarasamningum. Það er mikið fagnaðarefni að sjá þær aðgerðir sem kynntar hafa verið til að styðja við og skapa auknar forsendur fyrir meiri stöðugleika í efnahagsmálum, auk lækkunar vaxta og verðbólgu.“

Categories
Fréttir

Tryggjum ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka

Deila grein

14/12/2022

Tryggjum ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka

„Í þessari viku tilkynnti franska ríkisstjórnin að hún ætli að tryggja ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka. Það gerist í kjölfar þess að ríkisstjórnin hafði tryggt konum undir 25 ára ókeypis getnaðarvarnir. Það er nefnilega stefna frönsku ríkisstjórnarinnar að ekkert ungmenni eigi að þurfa að sleppa notkun getnaðarvarna sökum kostnaðar,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Þetta er ekki einungis gert til að sporna við þungun ungra einstaklinga sem vilja ekki eignast börn eða telja sig ekki tilbúna til barneigna strax, þetta er einnig árangursríkasta aðgerðin til að sporna gegn dreifingu kynsjúkdóma. Þetta er stefna Frakklands.“

„En af hverju er þetta ekki stefna Íslands líka? Við höfum burði til að vera leiðandi ríki í kynheilbrigði en tölfræðin hefur sýnt andstæða vegferð hér á landi. Kynheilbrigði er lýðheilsumál, mörg ungmenni stunda kynlíf og við getum ekki breytt því en við getum hvatt þau til að gera það á heilbrigðan og skynsaman máta,“ sagði Lilja Rannveig.

Nýlegar kannanir hafa sýnt að notkun getnaðarvarna meðal barna og ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku fari minnkandi. Það er m.a. af fjárhagslegum ástæðum.

„Við eigum að tryggja ungu fólki þann kost að geta notað getnaðarvarnir sama hvað. Því hef ég lagt tvívegis fram þingsályktunartillögu um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Þetta er mikilvægt lýðheilsu- og forvarnamál. Með því að tryggja ungu fólki ókeypis getnaðarvarnir getum við unnið gegn útbreiðslu kynsjúkdóma og tryggt að ungt fólk geti stuðlað að kynheilbrigði og komið í veg fyrir óskipulagðar barneignir án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Í þessu tilviki væri mjög sniðugt að gera eins og Frakkland,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar:

„Hæstv. forseti. Í þessari viku tilkynnti franska ríkisstjórnin að hún ætli að tryggja ungmennum 18–25 ára ókeypis smokka. Það gerist í kjölfar þess að ríkisstjórnin hafði tryggt konum undir 25 ára ókeypis getnaðarvarnir. Það er nefnilega stefna frönsku ríkisstjórnarinnar að ekkert ungmenni eigi að þurfa að sleppa notkun getnaðarvarna sökum kostnaðar. Þetta er ekki einungis gert til að sporna við þungun ungra einstaklinga sem vilja ekki eignast börn eða telja sig ekki tilbúna til barneigna strax, þetta er einnig árangursríkasta aðgerðin til að sporna gegn dreifingu kynsjúkdóma. Þetta er stefna Frakklands. En af hverju er þetta ekki stefna Íslands líka? Við höfum burði til að vera leiðandi ríki í kynheilbrigði en tölfræðin hefur sýnt andstæða vegferð hér á landi. Kynheilbrigði er lýðheilsumál, mörg ungmenni stunda kynlíf og við getum ekki breytt því en við getum hvatt þau til að gera það á heilbrigðan og skynsaman máta. Nýlegar kannanir hafa sýnt að notkun getnaðarvarna meðal barna og ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku fari minnkandi. Það er m.a. af fjárhagslegum ástæðum. Við eigum að tryggja ungu fólki þann kost að geta notað getnaðarvarnir sama hvað. Því hef ég lagt tvívegis fram þingsályktunartillögu um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Þetta er mikilvægt lýðheilsu- og forvarnamál. Með því að tryggja ungu fólki ókeypis getnaðarvarnir getum við unnið gegn útbreiðslu kynsjúkdóma og tryggt að ungt fólk geti stuðlað að kynheilbrigði og komið í veg fyrir óskipulagðar barneignir án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Í þessu tilviki væri mjög sniðugt að gera eins og Frakkland.“

Categories
Fréttir

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar – en aðeins fyrsta skrefið

Deila grein

14/12/2022

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar – en aðeins fyrsta skrefið

„Í gær bárust fréttir af því að áætlunarflug flugfélagsins Ernis til Vestmannaeyja verði hafið að nýju í kjölfar samkomulags félagsins við innviðaráðuneytið. Flogið verður þrisvar í viku og gildir samningurinn til 1. apríl.“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Fyrir tveimur árum var reglulegt flug til og frá Eyjum lagt niður í kjölfar heimsfaraldurs Covid. Eftirspurnin fór minnkandi og rekstrargrundvöllur fyrir fluginu fór dvínandi. Eftir það var flug til og frá Eyjum í miklu uppnámi og íbúar Vestmannaeyja fundu fyrir því.

„Lengi hafa íbúar Vestmannaeyja kallað eftir bættum samgöngum til og frá Eyjum en bættar samgöngur af þessu tagi eru afar mikilvægar fyrir íbúa og atvinnulíf þar. Einnig er flugið liður í því að tryggja lágmarksþjónustu yfir vetrarmánuðina,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Að hafa náð þessu samkomulagi er sigur fyrir Vestmannaeyjar, Flugfélagið Erni og innviðaráðherra. Þar njóta allir góðs af. Einnig megum við ekki gleyma því að reglulegt flug til og frá Eyjum er mikilvægt öryggismál, að hafa tvær mögulegar samgönguleiðir þar sem ein þeirra er fljótt flug beint til Reykjavíkur, sem getur skipt sköpum þegar íbúar þurfa t.d. að sækja nauðsynlega þjónustu þaðan. Að auki hafa margir nýtt sér flug til og frá Eyjum þegar óvissa er í áætlunarferðum Herjólfs sem getur verið þegar það er vont í sjóinn, sérstaklega yfir vetrartímann“

„Virðulegi forseti. Þetta er stórt skref fyrir Vestmannaeyjar en þetta er aðeins fyrsta skrefið. Við eigum að tryggja Eyjamönnum tryggar samgönguleiðir til frambúðar og finna varanlegar lausnir. Það er mikið fagnaðarefni að Ernir hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar með fleiri flugferðum í viku hverri. Ég vil óska Vestmannaeyingum og innviðaráðherra til hamingju með þetta fyrsta skref í samkomulaginu,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Í gær bárust fréttir af því að áætlunarflug flugfélagsins Ernis til Vestmannaeyja verði hafið að nýju í kjölfar samkomulags félagsins við innviðaráðuneytið. Flogið verður þrisvar í viku og gildir samningurinn til 1. apríl. Fyrir tveimur árum var reglulegt flug til og frá Eyjum lagt niður í kjölfar heimsfaraldurs Covid. Eftirspurnin fór minnkandi og rekstrargrundvöllur fyrir fluginu fór dvínandi. Eftir það var flug til og frá Eyjum í miklu uppnámi og íbúar Vestmannaeyja fundu fyrir því. Lengi hafa íbúar Vestmannaeyja kallað eftir bættum samgöngum til og frá Eyjum en bættar samgöngur af þessu tagi eru afar mikilvægar fyrir íbúa og atvinnulíf þar. Einnig er flugið liður í því að tryggja lágmarksþjónustu yfir vetrarmánuðina. Að hafa náð þessu samkomulagi er sigur fyrir Vestmannaeyjar, Flugfélagið Erni og innviðaráðherra. Þar njóta allir góðs af. Einnig megum við ekki gleyma því að reglulegt flug til og frá Eyjum er mikilvægt öryggismál, að hafa tvær mögulegar samgönguleiðir þar sem ein þeirra er fljótt flug beint til Reykjavíkur, sem getur skipt sköpum þegar íbúar þurfa t.d. að sækja nauðsynlega þjónustu þaðan. Að auki hafa margir nýtt sér flug til og frá Eyjum þegar óvissa er í áætlunarferðum Herjólfs sem getur verið þegar það er vont í sjóinn, sérstaklega yfir vetrartímann.

Virðulegi forseti. Þetta er stórt skref fyrir Vestmannaeyjar en þetta er aðeins fyrsta skrefið. Við eigum að tryggja Eyjamönnum tryggar samgönguleiðir til frambúðar og finna varanlegar lausnir. Það er mikið fagnaðarefni að Ernir hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar með fleiri flugferðum í viku hverri. Ég vil óska Vestmannaeyingum og innviðaráðherra til hamingju með þetta fyrsta skref í samkomulaginu.“

Categories
Fréttir

Hópurinn sem fær ekki alltaf mikla athygli

Deila grein

14/12/2022

Hópurinn sem fær ekki alltaf mikla athygli

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um hóp er fái ekki alltaf mikla athygli. Sagði hann hópinn mæta til vinnu, sjá um börnin, séu þau til staðar, elda matinn og borga reikninga. Þetta sé lífsins gangur dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.

„Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað eða hafa yfir höfuð rétt á því að kvarta,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki á meðal þeirra tekjulægstu en eru ólík og bera oft mikið álag. Hér er ég m.a. að tala um ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega að eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig.“

Sagði hann að á sama tíma sé ungt fólk að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel.

„Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta. Við þurfum að huga að þessu fólki og ríkisstjórnin hefur nú kynnt aðgerðir til að styðja við markmið samninga um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks ásamt því að skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, m.a. lækkun vaxta.

Aðgerðir stjórnvalda styðja enn frekar við lífskjör millitekjufólks og er það gert með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur.

Áhersla er á fjölgun íbúa, aukin stofnframlög auk endurbóta á húsnæðisstuðningi.

Húsnæðisbætur hækka um 13,8% í upphafi árs 2023 til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár.

Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að tekist hafi að lenda kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Ég hef áður rætt um hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli. Þetta er hópurinn sem mætir til vinnu, sér um börnin, séu þau til staðar, eldar matinn og borgar reikninga. Svona gengur lífið fyrir sig dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað eða hafa yfir höfuð rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki á meðal þeirra tekjulægstu en eru ólík og bera oft mikið álag. Hér er ég m.a. að tala um ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega að eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig. Allt þetta á sama tíma og það er að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel. Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta. Við þurfum að huga að þessu fólki og ríkisstjórnin hefur nú kynnt aðgerðir til að styðja við markmið samninga um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks ásamt því að skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, m.a. lækkun vaxta. Aðgerðir stjórnvalda styðja enn frekar við lífskjör millitekjufólks og er það gert með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Áhersla er á fjölgun íbúa, aukin stofnframlög auk endurbóta á húsnæðisstuðningi. Húsnæðisbætur hækka um 13,8% í upphafi árs 2023 til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár. Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur.“

Categories
Fréttir

Myndlistarstefna lögð fyrir Alþingi

Deila grein

14/12/2022

Myndlistarstefna lögð fyrir Alþingi

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mun leggja fram tillögu til þingsályktunar um myndlistarstefnu fyrir Alþingi á næstu dögum.

Stefnan byggir á vinnu verkefnahóps með fulltrúum frá Sambandi íslenskra myndlistarmanna, myndlistarráði, Listasafni Íslands, Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, listskreytingasjóði, i8 Gallerí og þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneyti, en hópnum var falið að móta heildstæða stefnu um málefni myndlistar á Íslandi til ársins 2030. 

„Það eru miklar gleðifréttir að geta lagt fram tillögu til þingsályktunar um myndlistarstefnu. Stefnan kallar á fjölbreyttan stuðning við listsköpun, menntun og myndlæsi sem stuðlar að kraftmikilli myndlistarmenningu. Öflug myndlistarmenning getur þannig aukið þekkingu og áhuga almennings á myndlist og bætt lífsgæði og ánægju,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Í stefnunni eru lögð til markviss skref til þess að einfalda en að sama skapi styrkja stofnana- og stuðningskerfi myndlistar og hlúa markvissar en áður að innviðum atvinnulífs myndlistar. Með því má bæta samkeppnishæfni fyrirtækja og efla útflutning og markaðssetningu á íslenskri myndlist. 

Í stefnunni er fjallað um framtíðarsýn myndlistarumhverfisins til ársins 2030 og meginmarkmið hennar sem eru fjögur talsins:

1. Á Íslandi ríki kraftmikil myndlistarmenning.
2. Stuðningskerfi myndlistar á Íslandi verði einfalt og skilvirkt.
3. Íslensk myndlist verði sýnileg og vaxandi atvinnugrein.
4. Íslensk myndlist skipi alþjóðlegan sess.

Hvert og eitt þessara markmiða skal stuðla að umbótum og jákvæðum breytingum svo framtíðarsýn stefnunnar geti orðið að veruleika. 

Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun, en aðgerðirnar verða endurskoðaðar árlega í tengslum við gerð fjármálaáætlunar og fjárlaga til að greiða götu nýrra verkefna og efla myndlistarstarfsemi hér á landi enn frekar næsta áratug. Menningar- og viðskiptaráðuneyti mun fylgjast með framvindu aðgerða og birta upplýsingar þar að lútandi með reglubundnum hætti. 

Aðgerðirnar eru 16 talsins, en þess má geta að gert hefur verið ráð fyrir fjármagni til Myndlistarmiðstöðvar að upphæð 20 m.kr. til eins árs til stofnunar miðstöðvarinnar, vitundarvakningar, kynningarefnis, vefsíðugerðar og fleira. Auk þess eru aðrar aðgerðir sem tilgreindar eru fyrir árið 2023 þegar fjármagnaðar. 

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 14. desember 2022.

Mynd: Stjórnarráðið