Categories
Greinar

Fólk færir störf

Deila grein

25/10/2022

Fólk færir störf

Fyrr í dag var haldinn fundur á starfsstöð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Akureyri þar sem tilkynnt var að fimm sérfræðistörf á sviði brunabótamats yrðu auglýst. Verða þau störf staðsett á Akureyri. Með því mun starfsmönnum HMS á Akureyri fjölga úr 16 í 21. Það má með sanni segja að starfstöð HMS á Akureyri hafi sannað gildir sitt hvað varðar flutning starfa út á land. Með tilkomu þessara starfa er ekki verið að flytja neina starfsmenn út á land heldur er verið að auglýsa fimm ný sérfræðistörf við brunabótamat og þar af eitt stjórnandastarf.

Þessi breyting er í anda stefnu stjórnvalda um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og styrkir um leið svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. Síðustu ár hefur hugsun og menning þeirra sem ákveða hvar störf eru unnin tekið miklum breytingum. Við vitum að það er ekki nóg að búa til stefnur og aðgerðaráætlanir því á endanum þarf fólk til þess að færa störf og hér hefir það tekist með góðum hætti. Við vinnum eftir nýjum gildum, staðbundin störf þurfa ekki að vera staðbundin við höfuðborgarsvæðið, með tilkomu rafrænnar stjórnsýslu vitum við að það er hægt að byggja upp og byggja undir starfstöðvar víða um land.

Mikilvægi sérfræðistarfa á landsbyggðinni er augljóst. Sérfræðistörf eru hvort tveggja mikilvæg fyrir samfélagið sem starfið er í sem og landsbyggðina í heild sinni. Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Landsbyggðina hefur vantað opinber störf, sérfræðistörf og vel borgandi störf. Fleiri sérfræðistörf á landsbyggðinni stuðla að aukinni menntun á hverju svæði fyrir sig og þannig vex þekking hjá allri þjóðinni. Margir hverjir sem flytja á höfuðborgarsvæðið til náms eiga örðugt með að snúa aftur heim að námi loknu vegna skorts á góðum störfum. Með aukinni áherslu á óstaðbundin störf og flutning starfa sem þurfa ekki að vera staðbundin á höfuðborgarsvæðinu gefum við fólki aukin starfstækifæri í heimabyggð. Einstaklingar sem snúa aftur í heimahagana eða flytja í fyrsta sinn út á land auðga samfélagið á hverjum stað með margvíslegum hætti. Þannig samfélag viljum við skapa.

Á fyrrnefndum fundi á Akureyri sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra einnig frá því að vinna starfshóps um borgarstefnu væri að hefjast. Í vinnu hópsins er það ekki aðeins höfuðborgin sem er undir heldur einnig svæðisborgin Akureyri. Þótt einhverjir hafi glott þegar við hér fyrir norðan byrjuðum að tala um Akureyri sem borg þá hefur umræðan þróast á þá leið að svæðisborgarhugtakið getur hjálpað okkur mjög við skilgreiningu á hlutverki Akureyrar og skyldum við nágrannasamfélögin. Ég hlakka til að fylgjast með þessari vinnu á næstu mánuðum.

Við í Framsókn eigum okkur sterkar rætur um allt land. Það er í kjarna okkar sem Framsóknarfólks að vilja að byggðirnar hringinn í kringum landið fái að blómstra. Það verður gert með stefnumótun sem unnin er í góðri samvinnu við heimafólk og markvissum aðgerðum sem skapa blómlegar byggðir.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst visir.is 25. október 2022.

Categories
Fréttir

„Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar“

Deila grein

25/10/2022

„Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi störf óháð staðsetningu, í störfum þingsins, í framhaldi af sérstakri umræðu hennar í liðvinni viku við fjármálaráðherra.

„Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að í dag var tilkynnt um flutning nýrra verkefna til starfsstöðvar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, flytjast þangað og stofnað verður nýtt teymi um brunabótamat,“ sagði Líneik Anna.

Framvegis verður 21 stöðugildi á starfsstöð HMS á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf.

„Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytinguna á Akureyri rétt í þessu. Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga sérhæfðum opinberum störfum á landsbyggðinni og í takt við stefnu HMS um öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið,“ sagði Líneik Anna.

„Ég fagna því heils hugar að opinber störf færist á landsbyggðina. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að fjölbreytt, opinber störf dreifist um landið allt. Það verður gert eftir ýmsum leiðum, t.d. með því að efla starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða auka tækifæri til að vinna störf óháð staðsetningu. Markviss vinna á þessu sviði samhliða stöðugri eflingu innviða gefur íbúum landsins raunverulegt val um búsetu. Reynslan af flutningi opinberra starfa og verkefna er góð. Áfram veginn,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Í síðustu viku ræddi ég hér í sérstakri umræðu við hæstv. fjármálaráðherra um störf óháð staðsetningu, dreifingu opinberra starfa um landið og mikilvægi þess að sérhæfð störf verði til um land allt. Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að í dag var tilkynnt um flutning nýrra verkefna til starfsstöðvar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, flytjast þangað og stofnað verður nýtt teymi um brunabótamat. Framvegis verður því 21 stöðugildi á starfsstöðinni á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytinguna á Akureyri rétt í þessu. Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga sérhæfðum opinberum störfum á landsbyggðinni og í takt við stefnu HMS um öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið. Á Sauðárkróki eru nú 27 störf við brunavarnir og einnig er þar þjónustuver, bakvinnsla og umsýsla með greiðslum húsnæðisbóta. Þá eru einnig starfsstöðvar í Borgarnesi og Reykjavík. Ég fagna því heils hugar að opinber störf færist á landsbyggðina. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að fjölbreytt, opinber störf dreifist um landið allt. Það verður gert eftir ýmsum leiðum, t.d. með því að efla starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða auka tækifæri til að vinna störf óháð staðsetningu. Markviss vinna á þessu sviði samhliða stöðugri eflingu innviða gefur íbúum landsins raunverulegt val um búsetu. Reynslan af flutningi opinberra starfa og verkefna er góð. Áfram veginn.“

Categories
Fréttir

Fimm störf til Akureyrar

Deila grein

25/10/2022

Fimm störf til Akureyrar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hyggst efla starfsemi sína enn frekar á landsbyggðinni með því færa verkefni á sviði brunabótamats á starfsstöð HMS á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, verða flutt til Akureyrar og nýtt teymi stofnað um verkefnin. Framvegis verður 21 stöðugildi á starfsstöð HMS á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf. Störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti breytingarnar á fundi í starfsstöð HMS á Akureyri í dag. Hann sagði þær vera fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og að þær féllu einnig vel að stefnu HMS sem væri með öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið.

„Við fögnum því að opinberum störfum fjölgi á landsbyggðinni. Ég hef í ráðherratíð minni beitt mér fyrir því að fólk eigi kost á að vinna fjölbreytt opinber störf um land allt, ýmist með því að efla opinberar stofnanir á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða efla tækifæri til að vinna störf án staðsetningar. Það er einnig viðvarandi verkefni að efla innviði til að fólk hafi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Akureyri hefur ríku svæðisbundnu hlutverki gegna sem stærsti þéttbýliskjarni á landsbyggðinni og því er ánægjuefni að fá þessi sérfræðistörf í bæinn,“ sagði Sigurður Ingi.

Góð reynsla af flutningi starfa

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem HMS flytur verkefni til á milli starfsstöðva. Árið 2020 var brunavarnasvið flutt til Sauðárkróks. Þar eru nú um 27 störf en auk brunavarna er þar unnið í þjónustuveri og við umsýslu með greiðslu húsnæðisbóta.

„Flutningur starfa hefur góða raun hjá HMS. Nú eru breyttir tímar og tæknin vinnur með okkur. Stofnunin er ekki lengur eitt hús, heldur vinnum við í mörgum teymum um land allt, á Akureyri, í Borgarnesi, Reykjavík og á Sauðárkróki,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS. „Við ætlum að festa í sessi öflugt teymi á Akureyri sem fer með ábyrgð og framkvæmd skráningar fasteigna á öllu Íslandi. Það mun sjá um brunabótamat og endurskoða framkvæmd þess allt frá lagalegri umgjörð til tæknilegrar útfærslu. Samhliða ætlum við að hefja átaksverkefni við afmörkun eigna í landeignaskrá og birta í stafrænni kortasjá HMS. Við stefnum fljótlega að því að opna vefsjá landeigna þar sem afmörkun og þinglýst eignarhald lands verður gert aðgengilegt öllum án gjaldtöku,“ sagði Hermann.

Hagræðing skapar 300 milljóna kr. fjárfestingu í grunnkerfum

Hermann minnti á að markmiðið með flutningi fasteignaskrár til HMS var að bæta þjónustu og ná fram hagræðingu með því að nýta innviði stofnunarinnar til að styðja við fleiri teymi og verkefni. Hann upplýsti að með flutningi fasteignaskrár til HMS hafi skapast rekstrarleg samlegð sem gerir HMS kleift að fjárfesta 300 millj.kr. í grunnkerfum fasteignaskrár á árinu 2023 án nýrra fjárheimilda. „Uppbygging grunnkerfa fasteignaskrár er gríðarlega mikilvæg og í samræmi við stefnu stjórnvalda um stafræna þjónustu,“ sagði hann á fundinum.

HMS er með starfsstöðvar á Akureyri, í Borgarnesi, á Sauðárkróki og í Reykjavík en stofnunin er í nánu samstarfi við sveitarfélög um allt land.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 25. október 2022.

Categories
Greinar

Nýtt menningarframlag streymisveitna

Deila grein

25/10/2022

Nýtt menningarframlag streymisveitna

Með örri tækniþróun hef­ur fjöl­miðlaveit­um sem miðla mynd­efni eft­ir pönt­un, svo­kölluðum streym­isveit­um, fjölgað til muna á síðustu árum. Stór­ar alþjóðleg­ar streym­isveit­ur eru ráðandi á markaðnum og búa þær við þann kost að geta verið staðsett­ar í einu ríki evr­ópska efna­hags­svæðis­ins (EES-ríki) en beint efni sínu til annarra EES-ríkja. Mik­il umræða hef­ur verið um fram­lag slíkra alþjóðlegra streym­isveitna til þeirra landa þar sem þjón­usta af þeim er keypt, svo­nefnt menn­ing­ar­fram­lag. Slíkt fram­lag get­ur verið af ýms­um toga, t.d. með gjald­töku, skatt­lagn­ingu eða skil­yrði um fjár­fest­ingu inn­an viðkom­andi lands. Á sama tíma hef­ur OECD verið að beita sér fyr­ir sam­ræmdri nálg­un hvað viðkem­ur gjald­töku á sta­f­rænu efni sem fer yfir landa­mæri.

Til er verk­færi fyr­ir EES-ríki, svo kölluð AVMSD-til­skip­un, til að fá þær er­lendu streym­isveit­ur, sem staðsett­ar eru í lög­sögu ann­ars rík­is en miðla efni sem beint er að ís­lensk­um neyt­end­um, til að gefa til baka til sam­fé­lags­ins hluta af þeirri veltu sem aflað er hér á landi. Í til­skip­un­inni kem­ur fram að ef aðild­ar­ríki krefja fjöl­miðlaveit­ur inn­an lög­sögu þess um fjár­fram­lög til fram­leiðslu á evr­ópsku efni, þ.m.t. með beinni fjár­fest­ingu í efni og með fram­lagi til lands­bund­inna sjóða, opn­ar til­skip­un­in á þann mögu­leika að skylda er­lend­ar streym­isveit­ur til að greiða til­tekna pró­sentu í t.a.m. Kvik­mynda­sjóð – og efla þannig ís­lenska kvik­mynda­gerð.

Ýmis lönd í Evr­ópu horfa nú til þess að nýta sér til­skip­un­ina til þess að efla inn­lenda kvik­mynda­gerð. Til dæm­is ligg­ur frum­varp fyr­ir þjóðþingi Dan­merk­ur sem legg­ur til að streym­isveit­ur sem beina efni að dönsk­um neyt­end­um skuli greiða 6% menn­ing­ar­fram­lag sem nýt­ist Kvik­mynda­sjóði Dan­merk­ur og öðrum tengd­um menn­ing­ar­verk­efn­um. Norðmenn leggja til tvær leiðir. Sú fyrri, sem er jafn­framt sú sem von­ir standa til að verði heim­iluð, er sú að gera kröfu um beina fjár­fest­ingu í norsku efni að til­tek­inni upp­hæð eða pró­sentu og ef streym­isþjón­ust­an fjár­fest­ir ekki fyr­ir viðmiðunar­upp­hæðinni þá skal hún greiða mis­mun­inn í sjóð sem er sam­bæri­leg­ur Kvik­mynda­sjóði. Vara­leiðin er sú að gera aðeins kröfu um beina fjár­fest­ingu.

Á und­an­förn­um árum hafa ís­lensk stjórn­völd lagt mikla áherslu á að efla um­hverfi menn­ing­ar og skap­andi greina á Íslandi. Í því sam­hengi er vert að nefna að fram­lög til menn­ing­ar­mála hafa auk­ist veru­lega, eða úr 10,7 millj­örðum árið 2017 í 17,7 millj­arða miðað við fjár­laga­frum­varp árs­ins 2023. Það er rúm­lega 65% hækk­un! Við þess­ar töl­ur bæt­ast end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar og hljóðrit­un­ar en í ár er áætlað að þær nemi um 3,3 millj­örðum króna.

Ég er þeirr­ar skoðunar að Ísland eigi að inn­leiða menn­ing­ar­fram­lag af streym­isveit­um svipað því sem unnið er í sam­an­b­urðarríkj­um okk­ar. Slíkt fram­lag er einn liður í því að styrkja um­gjörð menn­ing­ar hér á landi og veita grein­inni auk­inn slag­kraft til þess að vaxa til framtíðar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 25. október 2022.

Categories
Greinar

Byggjum upp skólaþjónustu til framtíðar – taktu þátt!

Deila grein

25/10/2022

Byggjum upp skólaþjónustu til framtíðar – taktu þátt!

Hinn 17. október sl. kynnti ég áform um viðamiklar breytingar á menntakerfinu og ný heildarlög um skólaþjónustu. Uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um allt land, sem byggð er á þrepaskiptum stuðningi, er ein af meginaðgerðum menntastefnu til ársins 2030. Að baki menntastefnunni var umfangsmikið samráð og greiningarvinna við að þróa og byggja upp íslenska menntakerfið til framtíðar. Nú er kominn tími til að hrinda þessum verkþætti í framkvæmd og ná þannig mikilvægum áfanga í þágu farsældar barna.

Markmið nýrra laga er að tryggja jafnræði í þjónustu við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum óháð aldri, uppruna og búsetu, mæta ákalli um aukna ráðgjöf og stuðning við starfsfólk og stjórnendur á vettvangi skólans, efla þverfaglega samvinnu og samþættingu milli skóla- og þjónustustiga í þágu farsældar barna og tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum fjölbreyttu verkefnum.

Í þeirri vinnu sem er fram undan er mikilvægt að fá fram sjónarmið sem flestra til að ná farsælli niðurstöðu. Samráð við hlutaðeigandi gegnir lykilhlutverki til að koma sem best til móts við þarfir haghafa skólasamfélagsins og tengdra þjónustukerfa. Nú fyrir helgi sendi ég boð til haghafa um allt land og hvet öll sem hafa áhuga til að taka þátt í samráði og móta skólaþjónustu til framtíðar.

Á næstu vikum taka til starfa samráðshópar þar sem kallað er eftir víðtæku samráði við börn og ungmenni, foreldra, kennara, stjórnendur og starfsfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, skólaþjónustu og öðrum þjónustukerfum.

Þau sem hafa áhuga á því að taka þátt í þessari vinnu eru hvött til að senda inn ábendingar eða skrá sig til þátttöku í samráðshópum með því að senda póst á netfangið mrn@mrn.is með „Skólaþjónusta“ í efnislínu fyrir lok dags 4. nóvember nk.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2022.

Categories
Greinar

Læknar óskast til starfa – sól og góðum móttökum heitið!

Deila grein

25/10/2022

Læknar óskast til starfa – sól og góðum móttökum heitið!

Austurland hefur gott orð á sér fyrir svo margra hluta sakir. Hér er hitastigið alltaf ásættanlegt á sumrin, skíðasnjórinn í tonnavís á veturna og falleg hauststól sem mýkir lendinguna fyrir okkur úr sumri yfir í vetur. Við höfum óspillta náttúruna í bakgarðinum, afþreyingu fyrir fjölskylduna á hverju strái og öflugt fólk sem vinnur að því alla daga að gera þetta samfélag gott fyrir þá sem hér búa. Hér hefur verið næg atvinna í boði, þjónusta við íbúa víða metnaðarfull, uppbygging og framfarir sjáanlegar og nú horfum við einnig fram á að greiðist úr íbúðarhúsnæðisvandanum sem við, eins og aðrir landshlutar, höfum staðið frammi fyrir.

Þrátt fyrir paradísina sem Austurland er, þá finnst auðvitað alltaf eitthvað sem betur má fara. Þrátt fyrir vilja og metnað þessa góða samfélags, næst ekki að manna Heilbrigðisstofnunina okkar svo ásættanlegt sé. Það sem af er hausti hefur í tvígang þurft að loka skurðstofu HSA á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupsstað vegna manneklu. Í annað skiptið var enginn svæfngarlæknir á staðnum og í hitt skiptið vantaði skurðlækni. Án þessara sérfræðinga er ekki hægt að halda skurðstofu, og þar af leiðandi lífsnauðsynlegri neyðarþjónustu, opinni. Nú horfum við svo fram á að þær konur sem eiga von á barni í lok árs eða byrjun þess næsta, þurfa að eyða jólunum að heiman ásamt fjölskyldum sínum og jafnvel stærra stuðningsneti, þegar starfandi skurðlæknir er í fríi.

Í fyrsta lagi er þetta óásættanlegt fyrir þá sem þurfa að nota þjónustuna, í þessu tilviki barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra, að þurfa að fara að heiman og dvelja annarsstaðar með öllu því álagi sem því fylgir. Það hjálpar alveg örugglega ekki til þegar kemur að því að lágmarka streitu fyrir fæðingu sem við vitum að er mikilvægt. Í ofanálag er óvissuþátturinn um hvort konan og ófætt barn hennar þurfi síðan yfir höfuð á þjónustunni að halda þegar til kastanna kemur.

Í öðru lagi er ástandið óásættanlegt fyrir sérfræðinginn, sem þó sinnir þessu starfi alla jafna, að eiga erfitt með að taka sér frí frá vinnu til að vera með sinni fjölskyldu af því hann veit að enginn leysir hann af á meðan. Það er streituvaldur í starfi og einkalífi, sem sennilega seint myndi teljast eftirsóknarverður og fæstir ráða við til lengri tíma.

Í þriðja lagi er þetta óboðlegt fyrir alla íbúa fjórðungsins, að ekki takist að halda úti bráðaþjónustu alla daga ársins. Íbúar upplifa óöryggi þegar ekki er hægt að treysta á að neyðarþjónusta sé til staðar og í ofanálag kemur síðan óvissuþátturinn sem snýr að færð og veðri. Fjallvegir á milli byggðakjarna eru stundum illfærir yfir háveturinn og flugið ótraust líka af sömu ástæðu. Ástandið heldur svo áfram að vinda upp á sig vegna þess að flugvöllurinn okkar er staðsettur á Egilsstöðum en sjúkrahúsið í Neskaupsstað, sem gerir það að verkum að stundum þarf að flytja sjúklinga oftar en einu sinni á milli staða til að koma viðkomandi í ákjósanlegt eða lífsnauðsynlegt úrræði. En þau mál í heild sinni eru reyndar efni í aðra grein.

En hver er ástæðan fyrir því að við náum ekki að halda uppi nauðsynlegri þjónustu alla daga ársins? Það er ekki hægt að benda í neina ákveðna átt í leit að sökudólgum þar sem virkt samtal um leiðir til úrbóta hefur verið í gangi á milli þeirra sem að málinu koma. Það er allsstaðar vilji til að laga ástandið en einhversstaðar stendur hnífurinn pikkfastur í kúnni. Það er eflaust fleiri en einn þáttur sem veldur því að læknamönnun er ekki ásættanleg á austurlandi, og það á reyndar jafnt við um sjúkrahúsið eins og heilsugæslurnar. Hver svosem ástæðan fyrir því er að hingað fást ekki læknar til starfa og búsetu, þá hljótum við öll að vera sammála um að hér þarf eitthvað að breytast. Það þarf að vinna markvisst og samhent að því að koma þessum málum í réttan farveg. Sveitarfélögin, Heilbrigðisstofnun Austurlands og í raun samfélagið allt þarf að finna leiðir til að gera landshlutann okkar eftirsóknarverðan og ákjósanlegan stað til að búa og starfa. Töfralausnin er sennilega ekki til en með vilja og metnað samfélagsins alls, nauðsynlegri aðstoð stjórnvalda, góðu sumrin og allan skíðasnjóinn, hljótum við að geta í sameiningu fundið lausnina sem við öll erum að bíða eftir.

Björg Eyþórsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 24. október 2022.

Categories
Greinar

Um leiðar­val að Fjarðar­heiðar­göngum

Deila grein

24/10/2022

Um leiðar­val að Fjarðar­heiðar­göngum

Á fundi sveitarstjórnar Múlaþings þann 14. september síðastliðinn var ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs um leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin staðfest. Var þar með samþykkt að vegur að Fjarðarheiðargöngum liggi um þá leið sem Vegagerðin hefur kynnt sveitarfélaginu og kölluð er hin nýja suðurleið. Aðrar forsendur þessarar ákvörðunar eru meðal annars að vegtenging um Melshorn haldi sér á aðalskipulagi og að um þá leið verði Borgarfjarðarvegur tengdur við hringveginn í fyllingu tímans. Jafnframt er lögð áhersla á að sett verði ný vegtenging frá Selbrekku inn á Fagradalsbraut.

Aðdragandi þessarar ákvörðunar er drjúgur, eins og kemur fram í umhverfismatsskýrslu framkvæmdanna. Árið 2020 lagði Vegagerðin til við starfshóp á vegum bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að jarðgangamunninn yrði við Dalhús. Rök fyrir þeirri staðsetningu eru meðal annars að þannig næst meiri ávinningur fyrir samfélagið á Austurlandi í heild auk þess að með þessari staðsetningu næst jafnframt stytting á jarðgöngunum.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs féllst á þessa tillögu Vegagerðarinnar en þar með var ljóst að gildandi aðalskipulag Fljótsdalshéraðs þyrfti að breyta enda er í gildandi aðalskipulagi gert ráð fyrir að gangnamunninn sé við Steinholt. Vegagerðin vann fyrst tillögu að matsáætlun fyrir umhverfismat og var hún kynnt í október 2020. Í framhaldi var gerð umhverfismatsskýrsla sem var kynnt með tillögu Vegagerðarinnar um aðalvalkost í apríl síðastliðnum. Þessi gögn má kynna sér á vefsjá Vegagerðarinnar um framkvæmdina 

Samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þarf Vegagerðin að færa rök fyrir vali sínu á aðalvalkosti í umhverfismatsskýrslu. Með hliðsjón af þeim þáttum sem þar voru til skoðunar lagði Vegagerðin til að farin verði svonefnd suðurleið Héraðsmegin og að einnig verði ný veglína Seyðisfjarðarmegin.

Í umhverfismatsskýrslu koma suðurleið og miðleið betur út en norðurleið hvað varðar umferðaröryggi, kostnað, þjóðhagslegan ávinning og áhrif á náttúrufar, landnotkun, fornleifar og samfélagsleg áhrif. Vegagerðin telur því mestan ávinningin koma fram með því að fara suðurleið.

Matið sýnir einnig að allir valkostir fela í sér rask innan verndarsvæða og á vistgerðum, þ.e. birki og votlendi, sem njóta verndar skv. 61. gr. Náttúruverndarlaga. Því er gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum sem felast í uppgræðslu og endurheimt vistgerða.

Sú aðalskipulagsbreyting sem nú er unnið að á sér því umtalsverðan aðdraganda. Vinnslutillaga fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi var kynnt íbúum 14. júlí sl. og var frestur til að senda inn athugasemdir til 25. ágúst.

Það er mikilvægt að fá fram afstöðu íbúa og annarra hagsmunaaðila til þeirra valkosta sem fjallað er um í umhverfissmatsskýrslu framkvæmdanna (suðurleið, miðleið og norðurleið) og var það gert með opnum fundum þar sem kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar voru til viðtals og sátu fyrir svörum um framhaldið. Fáar athugasemdir komu frá íbúum á þessum kynningartíma.

Í kjölfar þessa ferlis tók sveitarstjórn ákvörðun um leiðarvalið og er nú unnið að gerð endanlegrar tillögu til breytinga á aðalskipulaginu í samræmi við þá ákvörðun. Sú tillaga kemur síðan til sveitarstjórnar til afgreiðslu þegar hún verður orðin fullunnin síðar í vetur.

Það er ljóst að sveitarfélagið þarf síðan einnig að horfa á þessa skipulagsbreytingu í stærra samhengi. Þar má vísa til þess við horfum til þess hvernig ný veglína getur átt samleið með stækkun flugvallar sem og legu nýrrar Lagarfljótsbrúar. Enda berum við þá von í brjósti að skammt sé í þær framkvæmdir.

Við teljum að með hinni nýju suðurleið myndist tækifæri til að færa Lagarfljótsbrúnna innar og best væri að ná þjóðveginum inn fyrir þéttbýlið án þess að aftengja það um of. Horfandi til möguleika á lengingu flugbrautarinnar, það er til suðurs eins og gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi, teljum við að ná megi því markmiði að koma þungaumferð út fyrir þéttbýlin okkar hér við fljótið án þess að missa snertiflöt við bæinn, þannig að vegurinn liggi einkum að og um svæði fyrir verslun, þjónustu og iðnað.

Það má fastlega gera ráð fyrir því að þegar Seyðfirðingar og Fjarðarbúar koma í Egilsstaði til að sinna sínum erindum munu þeir áfram fara um miðleið. Umferð um hana mun hinsvegar minnka verulega því sú umferð sem ekki á beint erindi í Egilsstaði mun fara um suðurleið.

Suðurleiðin skapar möguleika á beinni tengingu af þjóðvegi inn á iðnaðarsvæðið á Miðási sem er gríðarlega mikilvægt og grunnforsenda þess að við náum því markmiði að þungaflutningar verði sem mest utan bæjarmarkanna. Til að ýta enn frekar undir þetta markmið má einnig beita ýmsum takmarkandi umferðarstýringum með þetta fyrir augum þó að tekið verið tillit til innanbæjarflutninga. Sú útfærsla bíður betri tíma og mögulegt er að til þess þurfi ekki að koma rætist sú ósk okkar að þungaflutningar leiti í akstur um beina og breiða þjóðvegi frekar en að fara um miðbæinn.

Sú gagnrýni hefur komið fram að betra hefði verið að hugsa til framtíðar hvað varðar stækkun byggðar áður en veglína yrði ákveðin. Í því sambandi er rétt að benda á að í gildandi aðalskipulagi er töluvert rými til stækkunar þéttbýlis sem ekki er búið að fullnýta og skerðist á engan hátt við þetta leiðarval. Það verður síðan eitt af verkefnunum við gerð nýs aðalskipulags að ákveða næstu skref í stækkun þéttbýlisins. Fjölmargir góðir valkostir standa til boða hvað það varðar og gildir þá einu hvaða leið hefði verið valin fyrir þessar framkvæmdir.

Við erum þess fullviss að þessi ákvörðun sveitarstjórnar að samþykkja tillögu Vegagerðarinnar verði okkur öllum til heilla og að við munum innan skamms sjá vinnu við Fjarðarheiðargöng hefjast.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. október 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Árlegt heilsuþing helgað lýðheilsu

Deila grein

21/10/2022

Árlegt heilsuþing helgað lýðheilsu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings 2022 sem að þessu sinni verður helgað lýðheilsu. Þingið verður haldið 10. nóvember á hótel Hilton Reykjavík Nordica. Þingið er öllum opið en fulltrúar heilbrigðisstofnana, fræðasamfélagsins, sveitarfélaga, skólanna, íþróttahreyfingarinnar og annarra félagasamtaka sem láta sig málið varða eru sérstaklega hvattir til þátttöku.

Boðsbréf ráðherra til útprentunar 

Kæri viðtakandi.

Heilbrigðisþing hafa verið haldin árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna til ársins 2030 var í mótun. Þingin hafa verið tileinkuð mikilvægum málefnum sem varða heilbrigðiskerfið og skipulag heilbrigðisþjónustu. Í ár hef ég ákveðið að helga þennan árlega viðburð lýðheilsu og boða því til lýðheilsuþings 10. nóvember næstkomandi. Þar verður einstaklingurinn í forgrunni með áherslu á allt það sem við getum sjálf gert til að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Jafnframt verður fjallað um hvernig stjórnvöld og stofnanir samfélagsins geta með ákvörðunum sínum og aðgerðum skapað almenningi sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum æviskeiðum.

Alþingi samþykkti á síðasta ári lýðheilsustefnu til ársins 2030. Stefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu þar sem fram koma þau markmið að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lýðheilsustefnu skulu stjórnvöld stuðla að því að landsmenn verði meðvitaðir um ábyrgð á eigin heilsu, m.a. með fræðslu og vitundarvakningu um gildi forvarna og heilsueflingar, svo sem á sviði næringar, hreyfingar og geðræktar. Liður í því er að tryggja fólki greiðan aðgang að hagnýtum og gagnreyndum upplýsingum um þessi efni sem auðvelda hverjum og einum að stunda heilbrigðan lífsstíl og viðhalda heilsu sinni eða bæta hana.

Verkefnahópur vinnur nú að mótun aðgerðaáætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu og er gert ráð fyrir að nýta afrakstur lýðheilsuþingsins inn í þá vinnu. 

Heilsulæsi – lykill að árangri

Þótt öflugt heilbrigðiskerfi og góð heilbrigðisþjónusta skipti miklu fyrir heilsufar landsmanna eru ótalmargir aðrir þættir sem eru ráðandi um það hvort almenn lýðheilsa sé góð. Við tökum á hverjum degi ákvarðanir sem hafa áhrif á heilsu okkar, oft án þess að leiða hugann sérstaklega að því. Dæmi um þetta eru ákvarðanir og val sem snýr t.d. að mataræði og öðrum neysluvörum, hreyfingu, svefni, félagslegum samskiptum, ýmsum streituvaldandi þáttum og svo mætti áfram telja. Mikilvægt er að hver og einn þekki og skilji hvaða áhrif ólíkir valkostir geta haft á heilsuna. Það skiptir jafnframt miklu máli að fólk þekki hvaða líkamleg eða andleg einkenni geta falið í sér viðvörun um að bregðast þurfi við og breyta venjum eða leita hjálpar heilbrigðisstarfsfólks. Þekking og skilningur á þessum þáttum nefnist heilsulæsi en þar kemur þó margt fleira til sem fjallað verður um á lýðheilsuþinginu 10. nóvember. 

Þátttaka og skráning

Lýðheilsuþingið er öllum opið en ég hvet sérstaklega fulltrúa heilbrigðisstofnana, fræðasamfélagsins, sveitarfélaga, skólanna, íþróttahreyfingarinnar og annarra félagasamtaka sem láta sig málið varða, til að taka daginn frá. 

Lýðheilsuþingið 10. nóvember verður haldið á hótel Hilton Reykjavík Nordica kl. 8.30 – 16.30. Nánari upplýsingar eru á heilbrigdisthing.is og þar fer einnig fram skráning þátttöku. Einnig er minnt á facebooksíðu þingsins. Aðgangur er ókeypis.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Tilkynningin birtist fyrst á stjornarradid.is 21. október 2022.

Categories
Fréttir

Brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi

Deila grein

21/10/2022

Brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi

Í yndislegu veðri föstudaginn 21. október var brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi formlega opnuð af innviðarráðherra og formanni Framsóknar, Sigurði Inga Jóhannssyni ásamt, forstjóra vegagerðarinnar, Bergþóru Þorkelsdóttur og sveitarstjórum í aðliggjandi sveitarfélögum, þeim Einari Freyr Elínarsyni og Antoni Kára Halldórssyni sem mættust á miðri leið og klipptu á borðann. Brúin er mikil lyftistöng fyrir samfélagið og eykur öryggi vegfarenda á einum fjölfarnasta vegi landsins.

Categories
Greinar

Tíma henti­stefnu í orku­málum er lokið

Deila grein

21/10/2022

Tíma henti­stefnu í orku­málum er lokið

Fögur orð duga skammt ef hugur fylgir ekki með. Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og for­maður Vinstri grænna, kynnti upp­færð mark­mið Ís­lands í lofts­lags­málum á leið­toga­fundi í desember 2020. Upp­færð mark­mið kveða á um 55% sam­drátt í losun gróður­húsa­loft­tegunda fyrir árið 2030 í sam­floti með Noregi og ESB. Þessi mark­mið eru göfug og góð en svo það verði raun­hæft að ná þeim verður að huga að orku­öflun með grænni orku.

Við höfum verk að vinna

Sam­hliða því að draga úr losun gróður­húsa­loft­tegunda bíður okkur verðugt verk­efni við að byggja upp flutnings­kerfi raf­orku í landinu á­samt því að sjá til þess að orku­þörf sam­fé­lagsins sé upp­fyllt. Þrátt fyrir ótal við­varanir og á­köll eru ein­staklingar hér á landi sem neita að horfast í augu við sann­leikann þegar kemur að stöðunni í orku­málum hér á landi. Það dugar ekki að vera tví­ráð í skoðunum og vona það besta ef við ætlum okkur að ná þeim mark­miðum sem við höfum sett um losun gróður­húsa­loft­tegunda og um orku­skipti í sam­göngum. Við höfum verk að vinna og við þurfum að gera það með virku sam­tali og sáttar­leiðum í málum sem þykja erfiðari en önnur.

Fram­tíð í vindorku

Mikil fram­þróun hefur orðið í vindorku­tækni á síðustu árum, það mikil að nú fyrst er hægt fyrir al­vöru að ræða um upp­byggingu vindorku­vera á Ís­landi. En því miður er um­ræða um vindorku strax komin í skot­grafirnar og farið að tala um gull­grafara­æði, lukku­riddara og á­hlaup á svæði, í stað þess að taka vandaða um­ræðu um kosti og galla þess að fram­leiða endur­nýjan­lega orku með því að beisla vindinn. Allar hug­myndir um nýtingu vindorku eru skotnar niður áður en sam­talið hefst. Það er nauð­syn­legt geta tekið sam­talið svo hægt sé að komast að niður­stöðu hvaða leið við getum verið sam­mála um að fara. Við eigum gnægð af vindi til þess að virkja hér á Ís­landi og það er ó­skyn­sam­legt að taka ekki sam­talið um hvernig hægt sé að nýta þá auð­lind til að mæta fram­tíðar­þörf fyrir græna orku.

Smá­virkjanir gegna mikil­vægu hlut­verki

Þá hefur frétta­flutningur ný­verið og um­ræður í kjöl­farið um smá­virkjanir snúist í sömu átt og um­ræðan um vindorkuna. Hugsan­lega gera fæstir sér grein fyrir mikil­vægi smá­virkjana hér á landi þegar ó­veður geisar yfir landið með til­heyrandi raf­magns­leysi. Um daginn héldu smá­virkjanir uppi raf­magni víða á Norð­austur­landi þegar stærri raf­línur slógu út. Þá eru smá­virkjanir einnig mikil­vægar til þess að styrkja dreifi­kerfi raf­orku um landið en allt að fimmtungur allrar raf­orku sem RA­RIK dreifir til við­skipta­vina kemur frá smá­virkjunum víða um land.

Raf­orku­kerfið okkar þarf að vera á­falla­þolið en góðir inn­viðir eru undir­staða öflugs sam­fé­lags. Mikil­vægt er að hlúa að inn­viðum, styrkja og endur­nýja þegar við á. Horfa þarf til mis­munandi lausna til að efla raf­orku­öryggi landsins. Ljúka þarf endur­nýjun megin­flutnings­kerfisins sem liggur í kringum landið (byggða­línan) enda er hún orðin hálfrar aldar gömul og raf­orku­notkun hefur marg­faldast frá því að hún var byggð. Fyrstu á­fangar á þeirri veg­ferð komust í gagnið í sumar eftir tíu ára undir­búning. Þá þarf að flýta jarð­strengja­væðingu dreifi­kerfisins og tryggja að vara­afl sé til staðar þar sem þörf krefur. Tryggja þarf nægt fram­boð á raf­orku en fjöl­breytt orku­fram­leiðsla víða um land stuðlar að auknu orku­öryggi. Þetta er verk­efni sem leysir sig ekki sjálft.

Við þurfum að tala saman

Enn og aftur höfum við verið minnt á hvað orku­inn­viðirnir okkar eru mikil­vægir fyrir heilsu, öryggi og lífs­viður­væri fólks. Í af­taka­veðrinu sem gekk yfir landið um daginn varð víð­tækt raf­magns­leysi með til­heyrandi tjóni og ó­þægindum, þrátt fyrir upp­byggingu á kerfinu og um­fangs­mikinn undir­búning og við­búnað þeirra sem stuðla að öryggi og vel­ferð lands­manna. Ef við ætlum okkur að ná árangri í lofts­lags­málum á­samt því að tryggja orku­öryggi allra lands­manna þá er mikil­vægt að öll um­ræða sé hóf­stillt og í sam­ræmi við það verk­efni sem við okkur blasir. Við vitum hvað verk­efnið er og við vitum hvað er í húfi. Tölum saman.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, Alþingismaður og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 21. október 2022.