Categories
Greinar

Hvert hverfi er þorp

Deila grein

20/10/2022

Hvert hverfi er þorp

Hvert hverfi er þorp – samfélag innan samfélagsins. Vel heppnað skipulag getur af sér byggð þar sem gott er að búa, starfa, fara um og njóta umhverfisins. Slíkt skipulag horfir til félagslegra þátta ekki síður en umhverfislegra eða fagurfræðilegra. Gott skipulag er grunnurinn en samfélag verður auðvitað ekki til á teikniborðinu, og ekki á einni nóttu, heldur með hversdagslegum athöfnum yfir lengri tíma. Það verður ekki til af sjálfu sér og allra síst í tómarúmi. Til þess að hverfi ali af sér samfélagslegan anda verða að vera til staðar rými fyrir íbúa til að koma saman, deila upplýsingum, stofna til og rækta félagstengsl, slaka á, hafa gaman. Í hverju skólahverfi eru skólarnir og leikskólarnir dæmi um slíka staði, fyrir hluta íbúanna í það minnsta. Fyrir yngstu meðlimina, að sjálfsögðu, en líka fyrir foreldrana sem hittast þar á vettvangi foreldrasamstarfs og einnig í gegnum tómstundir barna sinna. Sá hópur sem má hins vegar ekki gleymast eru eldri íbúar bæjarins, þau okkar sem eru hætt að vinna en vilja hafa eitthvað fyrir stafni og eyða hversdeginum í góðu nærumhverfi.

Í Aðalskipulagi Akureyrar 1998 – 2018 voru settar fram hugmyndir um endurnýjun bæjarrýmisins, þar sem blöndun íbúðar- og þjónustuhúsnæðis og grunneiningarnar, götur og torg, áttu að móta umgjörð mannlífs. Nýtt hverfi var að byggjast upp sem átti að anna þörf á húsnæði næstu tvo áratugina. Lífæð þessa nýja hverfis, nefnt eftir bænum Naust, var (og er) samkvæmt skipulagi ‘bæjargatan’ sem þræðir sig í gegnum byggðina frá norðri til suðurs og bindur hana þannig saman. Hjörtu þessa hverfis og Hagahverfisins, sem enn er í uppbyggingu, áttu hins vegar að slá við þrjú torg, þaðan og þangað sem göngustígar kvísluðust milli húsa. Í skipulaginu afmörkuðust torgin af verslunar- og íbúðarhúsum, skólastofnunum og öðrum miðstöðvum sem gera áttu torgin lífleg allan daginn. Þannig var í upphafi gert ráð fyrir hverfisþjónustu innan um íbúðarhúsnæði, svo þjónustan mætti byggjast jafnt og þétt upp, samhliða vaxandi íbúðarbyggð.

Nausta- og Hagahverfi … hvernig hámörkum við lífsgæði íbúa í sátt við náttúruna?

Nausta- og Hagahverfi eru um margt vel heppnuð hverfi þar sem stutt er í fallega náttúru og vinsæl útivistarsvæði, bæði um sumar og vetur. Skólalóðin við Naustaskóla er án efa ein sú líflegasta í gervöllum bænum og sjaldgæft að hún standi auð. Sú framtíðarsýn sem dregin var upp í skipulaginu frá árinu 2018 hefur hins vegar ekki orðið að veruleika og enn í dag er engin þjónusta í hverfunum ef frá eru taldar matvöruverslanir nyrst og vestast í Naustahverfi. Engar aðrar verslanir, bakarí eða hárgreiðslustofur. Engar skrifstofur eða önnur fyrirtæki. Engin heilsugæslustöð og engir kjarnar þar sem boðið er upp á margvíslega þjónustu við eldri íbúa. Fyrir vikið eru þessi tvö nýjustu hverfi bæjarins að flestu leyti úthverfi, með takmarkað aðgengi að þjónustu og fáa staði þar sem íbúar geta komið saman á.

Það er ekki of seint að snúa þessari þróun við. Hverfin tvö, tekin sem heild, eru enn í mótun og jafnvel gróin hverfi þróast og þroskast löngu eftir að síðasti byggingarkraninn hverfur á brott. Til þess að byggðin í Nausta- og Hagahverfi dafni og verði að lifandi og sjálfstæðu samfélagi þar sem er gott að búa, teljum við bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri mikilvægt að:

  • Stuðla að því að verslun og þjónusta færist inn í nýbyggt Hagahverfi. Í núgildandi deiliskipulagi er t.d. gert ráð fyrir verslun og þjónustu á mótum Kjarnagötu og Naustagötu. Þar teljum við að breytinga sé þörf á skipulagi svo verktakar sjái sér hag í að byggja upp á viðkomandi lóð.
  • Horfa sérstaklega til þarfa eldri íbúa og hefja samráð og samtal við Félag eldri borgara á Akureyri um hvernig gera megi hverfin að aldursvænni byggð með tilliti til þjónustu og samkomustaða.
  • Klára sem fyrst frágang á leik- og útivistarsvæðum í Hagahverfi.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 1. október 2022.

Categories
Greinar

Glíman við ríkið og reksturinn

Deila grein

20/10/2022

Glíman við ríkið og reksturinn

Nú er hinni árlegu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga nýlokið. Þar komu saman um fjögurhundruð fulltrúar sveitarfélagana. Mikill þungi var í umræðunni um vanfjármögnun verkefna og áskoranir í rekstri sveitarfélaga eins og oft áður. Við sem störfum á vettvangi sveitarsfelaga erum flest að glíma við samskonar áskoranir í rekstrinum. Við viljum öll skapa okkar starfsfólki, íbúum og börnum góða þjónustu, starfsumhverfi og aðbúnað. Sveitarfélagið þarf að vera samkeppnishæft við önnur sveitarfélög og því nauðsynlegt að skapa búseturskilyrði sem laða að bæði fyrirtæki og nýja íbúa.

Einsleit umræða

Þegar kemur að umræðunni um áskoranir í rekstri er orðræðan hjá okkur sveitarstjórnarfólki varðandi þessi mál oft nokkuð einsleit og einkennist af gremju yfir vanfjármögnun á þeim verkefnum sem hafa verið flutt yfir á sveitarfélög og skömmu síðar dunið yfir nýjar reglugerðir sem ekki eru fjármagnaðar. Málefni sem er uppspretta neikvæðrar umræðu á milli ríkis og sveitarfélaga sem einkennist af ágreiningi um hvaðan fjármunirnir eigi að koma.

Það sem okkur skortir í umræðunni um rekstur sveitarfélaga er að líta í eigin barm. Rekstur sveitarfélaga hefur þanist út og ekkert lát virðist vera á þeirra þróun. Sveitarstjórnarfulltrúar vilja eðli málsins samkvæmt láta gott af sér leiða til samfélagsins og margir gefa kost á sér í sveitarstjórnarmálin vegna ákveðinna málefna, hugmynda um ný verkefni og vilja til þess að gera úrbætur á þeirra þjónustu sem sveitarfélagið veitir.

Að standa vörð um lögbundna þjónustu

Það er áskorun hjá mörgum sveitarfélögum að ná að standa vörð um lögbundna þjónustu. Endurbætur og viðhaldi á skólahúsnæði, aukinn launakostnaður, viðhald gatna og gangstétta, búnaður og rekstur slökkviliðs og félagsþjónusta svo eitthvað sé nefnt. Það er vissulega freistandi að ráðstafa fjármunum í fjölbreytt verkefni sem eru hvorki lögbundinn né tilheyra kjarnastarfseminni.

Það er hreinlega skilda okkar að ráðstafa fjármunum vel, koma í veg fyrir sóun og forgangsraða fjármunum í þau verkefni sem eru lögbundin. Það eru fáir íbúar sveitarfélaga sem setja sig inn í rekstur síns sveitarfélags og enn færri sem vakna á morgnana með áhyggjur yfir fjarhagsstöðu síns sveitarfélags. Það blasir við að krafan um góða og faglega þjónustu mun aukast ár frá ári, það er náttúrulögmál. Það má því velta fyrir sér í tengslum við yfirstandandi vinnu við endurskoðun á sveitarstjórnarlögum hvort ekki sé ástæða til að skýra þann ramma enn frekar er lítur bæði að lögbundnum verkefnum og jafnframt að þeim verkefnum sem sveitarfélög eiga hreinlega ekki að setja fjármuni í þegar fjárhagsstaðan er erfið og veltufé frá rekstri í lágmarki? Ég fullviss um að það megi koma í veg fyrir sóun fjármuna með slíkum ramma og styrkja reksturinn.

Hundfúlt eða alveg frábært?

Nú stendur yfir vinna við fjárhagsáætlun hjá sveitarfélögunum. Sú vinna miðar að stórum hluta af því að forgangsraða fjármunum, líta á reksturinn og sjá heildarmyndina. Sveitarstjórnarfulltrúar um allt land standa nú frammi fyrir því að horfast í augu við fjárhag sveitarfélagsins og sjá fram á takmarkað svigrúm til fjárfestinga og e.t.v gjaldskrárhækkanir til að mæta auknum kostnaði. Hundfúlt myndu flestir segja. Sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga er mikilvægur. En það er nokkuð ljóst að skipulag og rekstur sveitarfélaga hefur ekki þróast í takt við verkefnin og áskoranirnar ásamt þeim samfélagsbreytingum sem hafa átt sér stað á síðust áratugum með tilheyrandi kostnaði og þenslu í rekstrinum.

Ég trúi því að kröfur um aukinn aga í fjármálastjórn sveitarfélaga myndu hafa jákvæð áhrif á kjarnastarfsemina og auðvelda kjörnum fulltrúum að byggja upp góða grunnþjónustu í sínu sveitarfélagi.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. október 2022.

Categories
Greinar

Fram­sóknar­leiðin við stjórnar­skrár­breytingar

Deila grein

20/10/2022

Fram­sóknar­leiðin við stjórnar­skrár­breytingar

Síðustu ár hefur mikið verið deilt um breytingar á stjórnarskránni, sitt sýnist hverjum í þeim málum og engin hefur verið niðurstaðan. Við höfum aðila hér í samfélaginu sem vilja engar breytingar gera og þá höfum við háværan hóp sem talar um hina „nýju stjórnarskrá“ og sættir sig við ekkert minna. Á meðan heldur hinn þögli hópur á miðjunni sig til hlés vegna ótta um að dragast inn í öfgafullar umræður sem hann nennir ekki að standa í. Ekkert hefur rekið eða gengið í umræðum um stjórnarskrárbreytingar jafnvel þó að heiðarlegar tilraunir hafi verið gerðar til þess að bæta við mikilvægum ákvæðum.

Það þarf að höggva á hnútinn

Tíu ár eru liðin frá því að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla að nýrri stjórnarskrá fór fram, og staðreyndin er sú að ekki var tekin afstaða um þá atkvæðagreiðslu á Alþingi á þeim tíma. Um hvers vegna það var ekki gert er hægt að deila um til eilífðar. En í staðinn fyrir að halda áfram að deila fram og til baka um „hina nýju stjórnarskrá“ næstu tíu ár án þess að nokkuð þokist áfram þurfum við að finna leið til þess að halda áfram. Staðreyndin er sú að hin „nýja stjórnarskrá“ nýtur ekki vinsælda, það hafa niðurstöður kosninga til Alþingis borið með sér. Fyrir einhverja er þetta erfiður biti að kyngja en eina leiðin áfram er að stíga út úr bergmálshellinum og tala saman.

Framsóknarleiðin hefur gefist vel í íslenskum stjórnmálum, það er að mætast á miðjunni og ná samtali um þau atriði sem við erum sammála um. Framsóknarleiðin grundvallast á samvinnuhugsjóninni; að fólk geti náð meiri árangri með því að vinna saman og aukið styrk sinn. En samvinna byggist ekki aðeins á trausti milli aðila heldur einnig á góðum og málefnalegum umræðum sem leiðar til farsælla niðurstaðna.

Við erum sammála um auðlindaákvæði

Samkvæmt niðurstöðum ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslunnar fyrir tíu árum vildu fleiri aðilar fá inn auðlindaákvæði í stjórnarskránna heldur en að leggja tillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll að nýrri stjórnarskrá. Staðan hefur lítið breyst með það, staðreyndin er sú að mikill meirihluti Íslendinga vill auðlindaákvæði í stjórnarskránna. Íslenska þjóðin vill að auðlindir náttúru Íslands tilheyri íslensku þjóðinni. Hér erum við með atriðið sem flest allir eru sammála um og með samvinnuhugsjónina að vopni ættum við að geta leitað leiða til þess að koma þessu mikilvæga ákvæði inn í stjórnarskrá lýðveldisins í stað þess að grafa skotgrafir á sitthvorum endanum. Við getum byrjað á þessu mikilvæga ákvæði og síðan haldið áfram með samtalið, því við vitum að með stöðnun leysast engin mál.

Framtíðin ræðst á miðjunni

Við í Framsókn skorumst ekki undan þegar kemur að mikilvægum breytingum á stjórnarskránni, en við höfnum öllum öfgum hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri. Framtíðin er á miðjunni og þar getum við sameinast um að koma mikilvægum málum áfram. Þjóðinni allri til heilla.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birist á visir.is 20. október 2022.

Categories
Greinar

Þjónustu- og þekkingar­mið­stöð fyrir ein­hverfa

Deila grein

19/10/2022

Þjónustu- og þekkingar­mið­stöð fyrir ein­hverfa

Hér á landi greinast árlega einstaklingar með einhverfu eða raskanir á einhverfurófi. Einhverfa er röskun í taugaþroska sem kemur jafnan fram snemma í barnæsku. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi en kemur fram með ólíkum hætti allt eftir aldri, þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg er oft talað um einhverfuróf. Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni.

Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða í kjölfarið á geðrænum vanda. Þegar einstaklingur hefur fengið greiningu á einhverfurófi er mikilvægt að einstaklingurinn og fjölskyldan fái fræðslu um einhverfurófið og aðferðir sem gætu hentað þeim vel. Auk þess er mikilvægt ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða að samvinna milli heimilis og skóla sé góð. Nokkar stofnanir koma að málefnum einhverfra en þær eru Barna og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þess utan hafa Einhverfusamtökin stuðlað að upplýsingagjöf og aðstoð til þeirra sem greinast með einhverfu og aðstandenda þeirra. Nauðsynlegt er að einstaklingar með einhverfugreiningu séu teknir með þegar unnið er eftir samn­ingum Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks og öðrum mann­rétt­inda­sátt­mál­um. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa getur verið liður í þeirri vinnu.

Ég hef nú lagt fram þingsályktun ásamt fleiri þingmönnum um að komið verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa þar sem öll sú þekking sem til er um einhverfu verði dregin saman á einn stað og börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir í huga. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa hefði það verkefni að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá væri verkefni hennar einnig að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

Ávinningurinn af þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem þessari væri að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu. Þá skiptir einnig máli að bæta almenna fræðslu til samfélagsins til þess að auka skilning og bæta viðmót gagnvart einhverfum. Þannig má bæta lífsgæði þeirra sem greinast með einhverfu ásamt því að rjúfa mögulega einangrun.

Ágúst Bjarni Garðarsson, er þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist á visir.is 19. október 2022.

Categories
Fréttir

Aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu

Deila grein

19/10/2022

Aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, var fyrirspyrjandi í umræðu á Alþingi við matvælaráðherra um aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu.

„Erfiðar aðstæður hafa skapast í okkar nærumhverfi og í Evrópu undanfarna mánuði og í þeim aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til af hálfu ríkisvaldsins hefur matvælaráðherra verið í fararbroddi verkefna sem snúa t.d. að því að koma að stuðningi við áburðarkaup til bænda og eins að fylgja eftir tillögum spretthóps sem hæstv. atvinnuvegaráðherra skipaði á vordögum en hann skilaði af sér í júní sl.,“ sagði Þórarinn Ingi.

Sagði hann stöðuna ekki vera fara að lagast, verð verða áfram há á aðföngum til matvælaframleiðslu, vegna stríðsins í Úkraínu.

„Mig langar því að eiga samtal við hæstv. ráðherra hvað þetta varðar um það hvort ráðherra hyggist grípa til einhverra frekari aðgerða í ljósi þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir til að tryggja enn frekar stöðu matvælaframleiðslu á Íslandi,“ sagði Þórarinn Ingi og hélt svo áfram, „ ég velti því sömuleiðis upp hvort við getum endurskoðað t.d. tollverndina eða hvort við horfum betur á ytri skilyrði landbúnaðarins hér heima eða þá að farið verði í það að bæta enn frekar í stuðning ríkisins til til landbúnaðarins“.

„Þó svo að mjög vel hafi verið staðið að mörgu sem viðkemur viðbrögðum ríkisvaldsins í þessari stöðu þarf meira til til að tryggja stöðuna enn frekar af því að það eru margir hlutir sem hjálpast að við að gera framleiðsluna erfiðari. Ég nefni þar sem dæmi hækkun á fjármagnskostnaði og þess háttar. Verkefnin eru fram undan og þau eru verulega krefjandi en mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu hefur sennilega sjaldan eða aldrei verið meira,“ sagði Þórarinn Ingi.

Andsvar matvælaráðherra má sjá í spilaranum hér að neðan:

Categories
Fréttir

Tryggt ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð

Deila grein

19/10/2022

Tryggt ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um breytingu á lögum um ættleiðingar.

Í breytingunni felst að einstaklingur sem hefur verið í sambúð eða hjúskap við annað foreldrið en síðar slitið samvistum við það, geti óskað eftir að ættleiða barnið án þess að lagatengsl rofni við hitt foreldrið. Einnig er lögð til heimild til að ættleiða barn eða kjörbarn einstaklings sem hefur fallið frá.

Frumvarpið var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi og er nú endurflutt með breytingum í samræmi við athugasemdir sem bárust.

Hér er um að ræða að sá sem ættleiðir kemur í stað annars foreldris, þ.e. að barn hafi eftir ættleiðingu lagatengsl við tvo aðila.

Markmið frumvarpsins er að tryggja að umsækjandi sem alið hefur upp barn geti fengið ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð eða hjónabandi við foreldrið.

Eins og staðan er nú getur einstaklingur sem alið hefur upp barn í fjölda ára ekki sótt um að ættleiða það barn ef viðkomandi hefur slitið sambúð eða hjónabandi við hitt foreldrið. Mögulega eiga þessir einstaklingar önnur börn saman og sá sem óskar eftir ættleiðingunni vill tryggja að barn sem hefur alist upp hjá viðkomandi hafi sömu réttindi og önnur börn hans.

Samkvæmt núgildandi lögum getur einstaklingur sem óskar eftir að ættleiða barn sem alist hefur upp hjá umsækjanda sótt um ættleiðingu sem einstaklingur, en það hefur þau réttaráhrif að lagatengsl barns við báða blóðforeldra rofnar.

Frumvarpið:

Categories
Greinar

Lyfti­stöng fyrir heil­brigðis­þjónustu á Suður­nesjum

Deila grein

19/10/2022

Lyfti­stöng fyrir heil­brigðis­þjónustu á Suður­nesjum

Undanfarin ár hefur orðið hröð fólksfjölgun á Suðurnesjum með tilheyrandi vaxtarverkjum. Lýðheilsuvísar sem Embætti Landlæknis birtir reglulega hafa sýnt að ýmsir þættir í daglegu lífi sem hafa áhrif á líðan og heilsu hafa verið óhagstæðari á Suðurnesjum en annar staðar á landinu. Í dag búa um 30 þúsund íbúar á svæðinu og það hefur blasað við um tíma að Heilsugæslan á Suðurnesjum nái ekki að anna öllum þessum fjölda. Íbúar á svæðinu hafi um tíma barist yfir bættri heilsugæslu á svæðinu og hefur sú barátta nú skilað árangri.

Tvær nýjar heilsugæslustöðvar

Heilbrigðisráðuneytið fékk það verkefni að bæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum eftir að þverfaglegur starfshópur sem hafði það að markmiði að gera stöðumat og aðgerðaráætlun um eflingu þjónustu ríkisins á svæðinu skilaði skýrslu sinni. Til þess að bregðast við stöðunni þá fól Heilbrigðisráðherra Sjúkratryggingum Íslands að auglýsa eftir rekstraraðila til þess að reka nýja heilsugæslustöð í Reykjanesbæ. Sjúkratryggingar hafa nú gengið að tilboði Heilsugæslunnar Höfða í rekstur nýrrar einkarekinnar heilsugæslustöðvar í Reykjanesbæ. Samkvæmt útboðsgögnum skal heilsugæslustöðin vera opnuð 4-6 mánuðum eftir undirritun samnings, en undirritun er fyrirhuguð á allra næstu dögum. Það er því ljóst að ný heilsugæslustöð mun líta dagsins ljós á vormánuðum.

Hér er um að ræða fyrstu einkareknu heilsugæslustöðina utan höfuðborgarsvæðisins og má svo sannarlega segja að hér sé um að ræða lyftistöng fyrir alla heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Mikilvægt er að tryggja heilsugæslu fyrir alla, enda er heilsugæslunni ætlað stórt hlutverk í heilbrigðisþjónustunni við landsmenn samkvæmt lögum. Samhliða þessu mikilvæga skrefi hefur verið tekin ákvörðun um byggingu nýrrar heilsugæslustöðvar í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ sem á að þjóna um 15.000 íbúum. Húsnæði stöðvarinnar verður um 1.350 fermetrar. Ríkissjóður fjármagnar framkvæmdina að fullu en Reykjanesbær leggur til lóðina og liggur fyrir ákvörðun um að heilsugæslustöðin verði reist við Tjarnarbraut/Njarðarbraut.

Blandaður rekstur er leið til bættrar þjónustu

Reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið góð og njóta þær trausts meðal notenda sinna og auka val. Við í Framsókn með Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í fararbroddi teljum það vera skynsamlega þróun að hafa einkareknar heilsugæslustöðvar samhliða ríkisreknum. Með því má tryggja að fleiri læknar sæki sér menntun sem heilsugæslulæknar og aukin þjónusta verður í boði. Erfitt hefur verið að fá lækna til þess að fara í sérnám í heimilislækningum. Meðal annars vegna þess að þeir hafa bara eitt form til að fara inn í, það er að starfa á ríkisreknum heilsugæslum á meðan aðrir sérgreinalæknar hafa farið í rekstur með ólíkum hætti. Horfa þarf heildstætt á allan rekstur í heilbrigðiskerfinu en þó er mikilvægast af öllu að allir geti sótt sér heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Alþingismaður fyrir Framsókn í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. október 2022.

Categories
Fréttir

„Tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni“

Deila grein

19/10/2022

„Tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi mikilvægi byggðamála, störfum þingsins á Alþingi, enda væru staða landshlutanna ójöfn. Það eigi við um þjónusta ríkis, sveitarfélaga á svæðinu, vegalengda í þjónustu, fjölbreytni atvinnulífs og aðgengi að framhaldsskólamenntun og svo mætti lengi telja.

„Það sem mig langar sérstaklega að beina sjónum mínum að í þessari ræðu er Norðurland vestra, Strandir og Dalir. Þessi búsældarlegu svæði eiga undir högg að sækja og hefur íbúaþróun síðastliðinna ára sýnt það með mjög afgerandi hætti að aðgerða er þörf á svæðinu,“ sagði Stefán Vagn.

Sagði hann að önnur landsvæði hafi náð að fylgja eftir þróun í íbúafjölda og hagvexti en að þá sitji þetta svæði eftir. Íbúaþróun á svæðinu er undir landsmeðaltali undanfarin ár. Það fluttu tæplega 100 manns af svæðinu umfram aðflutta á árunum 2012-2019 eða rúmlega 1% af íbúum svæðisins. Hagvöxtur á Norðurlandi vestra er undir landsmeðaltali eða að jafnaði 2,5% á árunum 2012-2019 sem er um 2% undir hagvexti annarra landshluta.

Stefán Vagn sagði ljóst „að þær byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í á liðnum árum hafa ekki virkað sem skyldi fyrir þetta svæði og í byggðastefnunni og byggðaáætluninni hefur þetta svæði ekki verið gripið með nægilegum hætti.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við grípum inn í áður en það verður of seint og tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Ræða Stefáns Vagns:

„Virðulegur forseti.

Byggðamál eru mér ofarlega í huga og hafa verið lengi og eru í raun aðalástæða þess að ég hóf afskipti mín af stjórnmálum fyrir um 13 árum síðan, fyrst sem sveitarstjórnarmaður og síðan sem fulltrúi á Alþingi. Það er ljóst og hefur verið í langan tíma að staða landshlutanna er ekki jöfn. Fyrir því eru margar ástæður; þjónusta ríkis á viðkomandi svæði, þjónusta sveitarfélaga á svæðinu, vegalengdir í þjónustu, fjölbreytni atvinnulífs og aðgengi að framhaldsskólamenntun, svo lengi mætti telja.

Það sem mig langar sérstaklega að beina sjónum mínum að í þessari ræðu er Norðurland vestra, Strandir og Dalir. Þessi búsældarlegu svæði eiga undir högg að sækja og hefur íbúaþróun síðastliðinna ára sýnt það með mjög afgerandi hætti að aðgerða er þörf á svæðinu. Meðan önnur landsvæði hafa fylgt eftir þróun í íbúafjölda og hagvexti situr þetta svæði eftir. Með því er ég á engan hátt að gera lítið úr erfiðleikum annarra svæða, dreifbýlla eða þéttbýlla, en langar hins vegar að vekja sérstaklega athygli á þessu svæði hér í dag. Íbúaþróun á svæðinu hefur verið undir landsmeðaltali undanfarin ár. Þó svo að fjölgað hafi á svæðinu örlítið síðustu ár er sú fjölgun ekki í neinum takti við það sem önnur landsvæði eru að horfa á. Alls fluttu tæplega 100 manns af svæðinu umfram aðflutta á árunum 2012–2019 en það er rúmlega 1% af íbúum svæðisins. Hagvöxtur er einnig undir landsmeðaltali og má þar nefna að hagvöxtur á Norðurlandi vestra var að jafnaði 2,5% á árunum 2012–2019 en það er um 2% undir hagvexti annarra landshluta.

Að þessu sögðu er ljóst að þær byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í á liðnum árum hafa ekki virkað sem skyldi fyrir þetta svæði og í byggðastefnunni og byggðaáætluninni hefur þetta svæði ekki verið gripið með nægilegum hætti.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við grípum inn í áður en það verður of seint og tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni.“

Categories
Fréttir

Framkvæmd farsældarlaganna

Deila grein

19/10/2022

Framkvæmd farsældarlaganna

Elsa Lára Arnardóttir, varaþingmaður, fór yfir framkvæmd farsældarlaganna, í störfum þingsins, á Alþingi, sem hafa verið innleidd í velfarðar- og skólakerfinu. Hugmyndafræðin er komin inn í vinnuferla hjá sveitarfélögum.

„Unnið er að því að þjónusta börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á réttum stað í kerfinu og lögð er áhersla á að grípa fyrr inn í til að aðstoða börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Nokkur sveitarfélög hafa ráðið verkefnastjóra og málsstjóra inn á bæjarskrifstofur og tengiliðir starfa innan skólakerfisins, sem er nauðsynlegt til að ná markmiðum farsældarlaganna,“ sagði Elsa Lára.

Tengiliðirnir og fagfólkið á velferðar- og skólasviðum grípa nú fyrr inn í mál barna, til að finna leiðir til að vinna að aðgerðum. Mikilvægi þessa er einstaklega þarft nú vegna frétta af ofbeldismálum og slæmri líðan barna og ungmenna.

„Nauðsynlegt er að sveitarfélögum verði áfram tryggt fjármagn til að framkvæmd þessara laga nái fram að ganga til lengri tíma og að horft verði til þess hvaða sveitarfélög hafa ráðið til sín málsstjóra og tengiliði og fá þá greitt í samræmi við það,“ sagði Elsa Lára.

Hún vill að tryggt sé að heilsugæslan geti tekið þátt í þessu verkefni af fullum þunga líkt og lagt er upp með í farsældarlögunum. Segir hún að á nokkrum heilbrigðisstofnunum um landið skorti tengiliði inn í mæðra- og ungbarnavernd.

„Að lokum vil ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir góða vinnu í þágu barna og ungmenna en hann hefur verið að stíga mjög stórt skref til að koma á móts við þau og fjölskyldur þeirra. Með nýjustu aðgerðinni er hann m.a. að stíga stórt skref til þess að þjónusta skólasamfélagið betur og það er full þörf á því,“ sagði Elsa Lára að lokum.

Ræða Elsu Láru á Alþingi:

„Herra forseti.

Ég ætla að ræða um framkvæmd farsældarlaganna, þessara mikilvægu laga sem hafa nú verið innleidd, m.a. í velferðar- og skólakerfinu okkar. Nú þegar er hugmyndafræði laganna komin inn í vinnuferla hjá sveitarfélögum. Unnið er að því að þjónusta börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á réttum stað í kerfinu og lögð er áhersla á að grípa fyrr inn í til að aðstoða börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Nokkur sveitarfélög hafa ráðið verkefnastjóra og málsstjóra inn á bæjarskrifstofur og tengiliðir starfa innan skólakerfisins, sem er nauðsynlegt til að ná markmiðum farsældarlaganna. Saman nær þessi hópur, ásamt öðru fagfólki á velferðar- og skólasviðum, að grípa fyrr inn í mál barna, ungmenna og fjölskyldna til að finna leiðir til að vinna að aðgerðum, m.a. fyrir börnin og fjölskyldur þeirra til að bæta líðan þeirra og gæði. Þetta er einstaklega mikilvægt á þessum tíma þegar við fáum í sífellu fréttir af ofbeldismálum og slæmri líðan barna og ungmenna. Nauðsynlegt er að sveitarfélögum verði áfram tryggt fjármagn til að framkvæmd þessara laga nái fram að ganga til lengri tíma og að horft verði til þess hvaða sveitarfélög hafa ráðið til sín málsstjóra og tengiliði og fá þá greitt í samræmi við það. Einnig þarf að tryggja að heilsugæslan geti tekið þátt í þessu verkefni af fullum þunga eins og lagt er upp með í farsældarlögunum, en á nokkrum heilbrigðisstofnunum um landið skortir tengiliði inn í mæðra- og ungbarnavernd. Nauðsynlegt er að bregðast við þeirri stöðu.

Að lokum vil ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir góða vinnu í þágu barna og ungmenna en hann hefur verið að stíga mjög stórt skref til að koma á móts við þau og fjölskyldur þeirra. Með nýjustu aðgerðinni er hann m.a. að stíga stórt skref til þess að þjónusta skólasamfélagið betur og það er full þörf á því.“

Categories
Greinar Uncategorized

Vin í eyði­mörkinni

Deila grein

18/10/2022

Vin í eyði­mörkinni

Eitt mesta uppvaxtarskeiðið í sögu Hveragerðis er hafið sem ekkert lát virðist vera á. Fjölgunin kallar á uppbyggingu innviða og hefur byggingu nýs leikskóla í Kambalandi verið flýtt. Eins hefur tveggja áfanga viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði verið sameinuð í eina og er því markvisst unnið að hönnun þeirra byggingar. Með því náum við að bregðast við þeirri fólksfjölgun sem verið hefur. Einnig er það verkefni næstu mánaða að fylgja eftir ákvörðunum um uppbyggingu nýrra íþróttamannvirkja með það að markmiði að þjóna betur þörfum íþróttastarfsins og bæjarbúa.

Fram undan eru áframhaldandi útboð á lóðum í eigu sveitarfélagsins til að mæta eftirspurn og þörf um húsnæði. Einnig vinna einkaaðilar að byggingu húsnæðis, fjöldi íbúða verður byggður við Lindarbrún og þá eru áform um að byggð verði fjölbýlishús á Tívolíreitnum. Fjölbreytt húsnæði mun því verða í boði í Hveragerði allt frá minni íbúðum í einbýlishús og markmið ríkisstjórnar um að auka framboð og jafna stöðuna á markaði höfð til hliðsjónar.

Þeir innviðir sem í uppbyggingu eru verða til þess fallnir að anna þeirri fjölgun íbúa sem gert er ráð fyrir. Fram að því verður verkefnið að takast á við vaxtarverki. Meðal annars með því að bjóða upp á foreldragreiðslur til að mæta þeirri stöðu fái barn ekki vist á leikskóla 12 mánaða gamalt.

Það er ákaflega ánægjulegt að sjá og upplifa áhuga fólks á því að búa í sveitarfélaginu og þar með velja sér Hveragerði til búsetu. Meðalaldur íbúa hefur farið lækkandi, fleira og fleira fólk með ung börn sækir í Hveragerði enda fjölskylduvænn bær og hafa bæjaryfirvöld skýr markmið um að hlúa enn betur að fjölskyldufólki. Við íbúar erum þakklát fyrir þennan mikla áhuga og hlýju sem Hveragerði er sýndur enda bærinn umvafinn einstökum náttúruperlum sem og fjölbreytileika tengdum heilsu- og þjónustu þar sem frumkvöðlar fá sín notið. Kannski er þetta einmitt umhverfið sem dregur fram það allra besta enda Hveragerði sannkölluð vin í hugum margra.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknar og forseti bæjarstjórnar í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. október 2022.