Categories
Greinar

Þörunga­eldi er vaxandi grein

Deila grein

16/03/2023

Þörunga­eldi er vaxandi grein

Á dögunum var kynnt skýrsla alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Þar var komið inn á tækifæri og áskoranir í þörungaeldi á Íslandi. Í skýrslunni segir að þörungarækt í heiminum hafi færst í vöxt til að mæta aukinni eftirspurn og bæta framleiðslustýringu. Fjallað er um hvernig skipta megi þörungaeldi í tvær talsvert ólíkar undirgreinar, þ.e. smá- og stórþörungaframleiðslu og svo ólíkar aðferðir sem notaðar eru við ræktun, uppskeru og vinnslu. Vöxtur í smáþörungaeldi er áætlaður verulegur auk nýtingu þörunga úr sjó. Hér erum við því að tala um grein sem getur skilað af sér mörgum milljörðum í þjóðarbúið. Nú standa yfir tilraunir með ræktun á stórþörungum í sjó en í skýrslunni kemur fram að vöntun sé á sértækum reglum og stendur það vexti greinarinnar fyrir þrifum. Í skýrslunni segir að Ísland geti stutt við þörungaeldi með því að fylgja fordæmi nágrannaríkja sem hafa sett stefnur og reglur til að ýta undir sjálfbæran vöxt greinarinnar og í skýrslunni er beint á að sértækt regluverk um smáþörungaframleiðslu á Íslandi sé ekki til en vöntun á því muni sennilega ekki hamla vexti verulega.

Lærum af nágrönnum okkar

Við getum litið til nágranna okkar eins og Norðmanna, Færeyinga, Dana og Skota. Þar hafa aðgerðir verið innleiddar til að styðja við vöxt og snúa þær að því að veita þróunarleyfi og setja skýr reglu- og leyfisveitingakerfi fyrir sjálfbæra stórþörungaframleiðslu. Þetta hefur skilað þeim árangri sem stefnt var að.

Aukum verðmætasköpun við nýtingu þörunga

Í vikunni mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Tillagan felur í sér að Alþingi feli matvælaráðherra, í samráði við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að kanna möguleika á aukinni nýtingu og verðmætasköpun þörunga. Með því að fara yfir lög og reglur við sjálfbæra nýtingu á þörungum sem vaxa villtir eða eru ræktaðir í sjó eða landi. Auk þess miðar vinnan að því að efla rannsóknir og nýsköpun um land allt hvað varðar öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim. Einnig er mikilvægt að styrkja eftirlitsaðila og auka sérfræðiþekkingu um þörungarækt innan viðeigandi stofnana. Vaxandi markaður er fyrir þörunga og afurðir þeirra í heiminum, en villtir þörungar eru takmörkuð auðlind. Þetta eru oft á tíðum mjög dýrar vörur og skapa því mikil verðmæti. Hér á Íslandi eru, eins og við vitum öll, kjöraðstæður fyrir bæði öflun og ræktun þörunga úr sjó ásamt ræktun á landi.

Löggjöfin sem við styðjumst enn sem komið er við, er annars vegar lög um fiskeldi, sem nær þá utan um ræktun þörunga á landi, eða alla vega að einhverju leyti. Svo erum við með nýleg lög sem fjalla um nýtingu sjávargróðurs. Mikilvægt er að gera grein fyrir hvernig lög og reglur styðja við sjálfbæra nýtingu á þörungum og hvort lögin nái yfir það verkefni sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að vexti í nýtingu á þörungum. Með úttekt á lögunum má vinna áfram að því að bæta lagarammann, greininni til heilla. Þá er einnig mikilvægt að kanna af fullri alvöru hvernig efla megi rannsóknir og nýsköpun um land allt sem varðar öflun þörunga, nýtingu þeirra sem og framleiðslu og markaðssetningu á vörum úr þeim.

Markaður fyrir þörunga fer vaxandi

Það þarf að brauðfæða íbúa heimsins. Þar er sjálfbær matvælaframleiðsla lausnin til framtíðar. Á tímum sem nú, er fæðuöryggi í algleymingi. Fleiri skynja án efa mikilvægi öflugrar matvæla- og heilsuefnaframleiðslu hér á landi og eðlilegt er að horfa til þess hvaða frekari tækifæri kunni að vera fyrir hendi fyrir matvælalandið Ísland á komandi árum. Við strendur landsins eru víðfeðmir þaraskógar sem geta orðið enn ein stoðin í eflingu landsins sem matvæla- og bætiefnalands. Þörungategundir eða efni unnin úr þeim eru nú þegar hluti af daglegu lífi flestra Íslendinga þótt fæstir geri sér grein fyrir því. Þörungamjöl eða þörungaþykkni er metið að verðleikum um allan heim og er það flutt héðan lífrænt vottað.

Við höfum gríðarlega mörg og góð tækifæri ef við einbeitum okkur að því hvernig við getum tryggt aukna verðmætasköpun við nýtingu þörunga. Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og hann fer vaxandi. Við vitum að þjóðir í Asíu hafa lengi stundað umfangsmikla framleiðslu á þörungum og svæði í Norður-Ameríku eru komin með dágóða reynslu. Hollendingar eru komnir nokkuð framarlega á þessu sviði, bæði varðandi smáþörunga og ræktun þangs á strengjum. Þannig að þjóðir nær og fjær eru komnar vel áleiðis og engin ástæða fyrir okkur að dragast hér aftur úr. Markmiðið er að uppskera villtra þörunga verði sjálfbær. Stuðningur við þörungaframleiðslu er líka stórt byggðamál því tækifæri eru um allt land í greininni.

Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. mars 2023.

Categories
Fréttir

Fyrsta áætlunin um framkvæmd lýðheilsustefnu birt til umsagnar

Deila grein

16/03/2023

Fyrsta áætlunin um framkvæmd lýðheilsustefnu birt til umsagnar

Birt hafa verið til umsagnar drög að aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra um framkvæmd lýðheilsustefnu til fimm ára. Áætlunin verður lögð fyrir Alþingi til umræðu. Í henni er forgangsraðað til næstu fimm ára stefnumarkmiðum þingsályktunar um lýðheilsustefnu sem samþykkt var á Alþingi 2021. Umsagnarfrestur er til 28. mars næstkomandi.

Ályktun Alþingis felur í sér að leiðarljós lýðheilsustefnu fram til ársins 2030 verði heilsuefling og forvarnir þar sem markmiðið er að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er. Stefnt skal að því að lýðheilsustarf sé markvisst og einkennist meðal annars af þverfaglegu samstarfi heilbrigðisþjónustu og annarra hagaðila, s.s. sveitarfélaga.

Í lok júní 2022 skipaði heilbrigðisráðherra verkefnahóp til að vinna drög að aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu sem hvetji fólk til að huga að eigin heilsu. Hópurinn kallaði fjölmarga aðila sem sinna lýðheilsustarfi á sinn fund og kynnti sér ýmis verkefni sem hafa áhrif á lýðheilsu á einn eða annan hátt. Helstu niðurstöður hópsins voru kynntar á heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu í nóvember 2022. Aðgerðaáætlunin sem nú er birt til umsagnar byggist á vinnu verkefnahópsins, tillögum sem fram komu á heilbrigðisþinginu og stefnum og aðgerðaáætlunum heilbrigðisráðuneytisins sem varða heilsu og forvarnir, s.s. um  heilsueflingu aldraðra, krabbameinsáætlun, geðheilbrigðisstefnu og stafræna heilbrigðisþjónustu. Uppbygging aðgerðaáætlunar lýðheilsustefnu kallast á lykilviðfangsefni heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem felast m.a. í forystu til árangurs, réttri þjónustu á réttum stað, fólkið í forgrunni, virkum notendum, gæði og skilvirk þjónustukaup. 

Helstu aðgerðir samkvæmt áætluninni

Í áætluninni eru skilgreindar 11 aðgerðir í þágu lýðheilsu sem unnið verður að á næstu fimm árum. Hver þeirra er brotin niður í fleiri verkefni. Sem dæmi um aðgerðir og verkefni má nefna:

  • Gildandi löggjöf sem snýr að lýðheilsu metin og greind þörf á sérstökum lögum um lýðheilsu.
  • Lýðheilsumat verði hlut af sjálfbærnimati lagafrumvarpa og gátlistar þróaðir
  • Gerður verði sáttmáli um bætta lýðheilsu og öfluga samvinnu í því skyni
  • Áframhaldandi skipulagður stuðningur við heilsueflandi verkefni í heimabyggð
  • Vitundarvakning með áherslu á að efla heilsulæsi almennings
  • Rafræn upplýsingamiðlun og þróun rafrænna lausna í þágu heilsueflingar og forvarna
  • Efling lýðheilsusjóðs
  • Þróun lýðheilsuvísa og birtingar þeirra – lýðheilsuvakt sett á fót
  • Aukin áhersla á heilsueflingu eldra fólks í samstarfi ríkis og sveitarfélaga
  • Endurmat krabbameinsáætlunar – aðgerðum hrint í framkvæmd
  • Markviss gagnasöfnun um lýðheilsustarf og gagnreyndar aðferðir

Aðgerðaáætlun lýðheilsustefnu í samráðsgátt

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Magnaður á­fangi fyrir ís­lenskuna

Deila grein

15/03/2023

Magnaður á­fangi fyrir ís­lenskuna

Það er sannarlega magnaður áfangi fyrir íslenskuna að tungumálið okkar hafi verið valið í þróunarfasa fyrir nýjustu útgáfu gervigreindarmállíkansins GPT-4, fyrst allra tungumála fyrir utan ensku. Samstarfsverkefni með fyrirtækinu OpenAI hefur komið því til leiðar að stærsta gervigreindarnet heims er nú fínþjálfað til þess að skilja og miðla upplýsingum á íslensku. Það er sannarlega stórmál fyrir mál málanna – íslenska tungu. Ör þróun gervigreindartækni er afar mikilvæg fyrir tungumál eins og okkar og þar felast mörg sóknarfæri sem flest eru ókönnuð enn– en með samstarfinu fáum við ákveðið forskot til þess. Við viljum jú að framtíðin geti svarað okkur á íslensku.

Orð til alls fyrst

Samstarf þetta er afrakstur af heimsókn sendinefndar forseta Íslands í maí sl. þar sem við heimsóttum meðal annars höfuðstöðvar OpenAI í San Fransisco. Fyrirtækið er leiðandi í alþjóðlegri umræðu um opið aðgengi að gervigreindartækni og ábyrga og örugga þróun hennar fyrir heimsbyggðina alla. Hægt var að nýta íslensku að takmörkuðu leyti í fyrri útgáfu mállíkansins en með þessari nýju uppfærslu er árangurinn margfalt betri og möguleikar gervigreindarinnar til þess að læra hraðar og miðla betur á íslensku hafa aukist verulega.

Samstarfið um íslenska virkni tækninnar er eitt af sex þróunarverkefnum sem OpenAI stendur að í tengslum við útgáfu GPT-4 og það eina af þeim sem tengist annarri þjóðtungu en ensku. Til skoðunar er í framhaldinu hvort samstarfið geti síðar orðið fyrirmynd fyrir önnur tungumál og því er íslenskan ákveðinn brautryðjandi að þessu leyti.

Dýrmæt þekking

Samvinna skilar okkur árangri. Við komum með heilmikið að borðinu í samtali okkar við erlend tæknifyrirtæki – Íslendingar hafa fjárfest í mikilvægu innviðum á sviðum máltækni gegnum fyrstu máltækniáætlun stjórnvalda sem formlega var farið af stað með árið 2019 og lýkur nú í ár.

Um 60 manns hafa unnið að fjölbreyttum verkefnum og hér á landi hefur byggst upp dýrmæt fagþekking á þessu spennandi sviði vísinda og nýsköpunar sem eftir er tekið. Íslenskar kjarnalausnir á sviðum máltækni eru aðgengilegar í opnum aðgangi, m.a. fyrir frumkvöðla, fólk í nýsköpun og fyrirtæki í fjölbreyttum rekstri sem geta þróað notendalausnir út frá þeim. Hagnýting slíkra lausna fyrir almenning verður ein megináhersla í áframhaldandi máltækniverkefnum en brátt hefst vinna við að undirbúning og skrif næstu áætlunar.

Þakkir og stolt

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem komið hafa að þessum spennandi verkefnum, ekki síst forseta Íslands sem lagt hefur sitt lóð á vogarskálarnar við að tala máli íslenskunnar í alþjóðlegu samhengi – og annarra tungumála fámennari ríkja – samstarfsfólki hjá Almannarómi og SÍM-hópnum, og sjálfboðaliðunum sem fyrir tilstilli máltæknifyrirtækisins Miðeindar komu að þjálfun gervigreindarinnar síðustu misserin.

Fá málefni eru mér jafn hugleikin og íslenskan, tungumálið er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir. Við höfum ríkum skyldum að gegna við að tryggja aðgengi að íslensku og notkun hennar til framtíðar. Íslenskt hugvit og ástríða munu stuðla að því að það verði gerlegt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2023.

Categories
Greinar

Metnaðar­full hús­næðis­á­ætlun í Hafnar­firði

Deila grein

15/03/2023

Metnaðar­full hús­næðis­á­ætlun í Hafnar­firði

Húsnæðisáætlun 2023 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 1. mars sl. Um er að ræða afar metnaðarfulla áætlun, mesta uppbyggingarskeið í sögu Hafnarfjarðar er hafið.

Hvar er verið að byggja í Hafnarfirði?

Í september 2021 voru 236 íbúðir í byggingu. Í dag eru þær rúmlega 1500. Langflestar eru þær í byggingu í Hamranesi. Á þessu ári hefst uppbygging í fyrsta áfanga Áslands 4 en þar verða parhúsa- og einbýlishúsalóðir. Búið er að úthluta öllum lóðum í þessum fyrsta áfanga fyrir utan fjórar lóðir sem nú eru í auglýsingu. Ásland 4 er afar eftirsótt hverfi enda verður það eitt fallegasta íbúðarhverfi landsins.

Síðustu ár hefur verið unnið að skipulagi iðnaðarsvæðisins Hraun vestur, svæði sem afmarkast af Reykjavíkurvegi, Fjarðarhrauni og Flatahrauni. Hafist verður handa við fyrsta áfanga þess hverfis á þessu ári. Búið er að samþykkja deiliskipulagstillögu þar sem gert er ráð fyrir 490 íbúðum ásamt verslun og þjónustu. Þetta er vissulega svæði sem við hefðum óskað að framkvæmdir væru hafnar en nú fer loks að sjá fyrir endann á því ferli og framkvæmdir geta hafist að krafti.

Óseyrarhverfið er einnig í undirbúningi og bindum við vonir við að framkvæmdir hefjist á því svæði á þessu ári. Þar er gert ráð allt að 700 íbúðum auk verslunar og þjónustu. Í samfélagi dagsins í dag er mikilvægt að huga að þéttingu byggðar sem og að brjóta nýtt land til byggingar. Óseyrarsvæðið og Hraun vestur eru dæmi um slíka þéttingareiti. Eins er íbúðabyggð meira að teygja sig á hafnarsvæði enda umsvif og verkefni hafna að breytast. Íbúðir á slíkum svæðum eru vinsælar og eftirsóttar.

Auk þessara svæða sem nefnd eru hér að ofan má nefna Hjallabraut, Hlíðarbraut og Dvergsreitinn en íbúðir á þessum reitum verða tilbúnar á þessu ári og því næsta. Dvergsreiturinn er risinn og gaman að sjá að íbúðir og atvinnurými rjúka út, enda staðsetningin stórkostleg í miðbænum.

Fjölgun félagslegra íbúða

Framkvæmdir við uppbyggingu á 148 íbúðum Bjargs íbúðafélags í þremur fjölbýlishúsum í Hamranesi ganga vel. Af þessum 148 íbúðum munu 9 íbúðir bætast við félagslegt húsnæðiskerfi Hafnarfjarðarbæjar. Nú þegar er búið að ganga frá húsaleigusamningum á tveimur íbúðum og verða hinar sjö íbúðirnar tilbúnar síðsumars og í haust. Þessi fjölgun inn í félagslega kerfi Hafnarfjarðarbæjar er sú mesta sem hefur orðið á einu ári í langar tíma og munar verulega um þá viðbót. Hinar 139 íbúðirnar eru til að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Bjarg er sjálfseignarstofnun sem er rekin án hagnaðarmarkmiða og leiguverð er því lægra en gengur og gerist á almenna leigumarkaðinum.

Auk þessara 9 íbúða í félagslega íbúðarkerfið munum við að sjálfsögðu halda áfram að leita eftir eignum til að kaupa inn í kerfið.

Okkur er full alvara í því verkefni að tryggja íbúum bæjarfélagsins og framtíðar íbúum fjölbreytt búsetuúrræði og góða blöndu húsnæðis. Bæjarráð og síðar bæjarstjórn þann 6. apríl 2022 samþykkti að úthluta Brynju, hússjóði ÖBÍ, 12% stofnframlag vegna kaupa á 10 íbúðum í Hafnarfirði. Áætlað stofnframlag Hafnarfjarðarbæjar vegna þeirra kaupa er 67.442.742 kr.

Mikilvægt að taka upp svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins

Í húsnæðisáætlun er að sjálfsögðu gert ráð fyrir markmiðum rammasamnings milli ríkis og sveitarfélaga. Samfylkingin í Hafnarfirði hefur talað hátt um það að meirihlutinn ætli sér ekki taka þátt í þessu verkefni. Það er einfaldlega rangt. Undirbúningur og viðræður eru í gangi. Mikilvægt að halda því til haga að síðasta byggingarland Hafnarfjarðar er Vatnshlíðin og er áætlað að hafist verði handa við það hverfi árið 2026. Samhliða viðræðum við HMS um rammasamninginn þá þarf Hafnarfjörður að beita sér fyrir því að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði tekið upp. Við þurfum nýtt land til uppbyggingar, nýtt land til að standa við þá skilmála er koma fram í rammasamningnum. Þangað til munum við að sjálfsögðu vinna með HMS að útfærslu á þeim markmiðum er koma fram í samkomulaginu.

Spennandi tímar

Nýleg þjónustukönnun Gallups sýnir fram á það að það er almennt gott að búa í Hafnarfirði. Ánægja með skipulagsmál eykst sem og ánægja með nánasta umhverfi. Aðstaða til íþróttaiðkunar er einnig góð að mati íbúa. Hafnarfjörður er í fjórða sæti yfir 20 stærstu sveitarfélögin þar sem þykir best að búa.

Við í meirihlutanum ætlum að halda áfram á þessari braut. Halda áfram að vinna að uppbyggingu sveitarfélagsins okkar. Minnihlutinn hefur talað um aðgerðarleysi, vísum því alfarið á bug. Tölurnar um uppbyggingu og mælingar á viðhorfi Hafnfirðinga segja allt aðra sögu.

Það eru spennandi tímar fram undan.

Valdimar Víðisson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. mars 2023.

Categories
Fréttir

Skilvirkni í stjórnkerfinu skal taka til gagngerrar endurskoðunar

Deila grein

14/03/2023

Skilvirkni í stjórnkerfinu skal taka til gagngerrar endurskoðunar

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, ræddi mikilvægi þess að fræðast á vettvangi hvernig aðrar þjóðir takast á við sambærileg verkefni og áskoranir til að viðhalda góðri velferð, í störfum þingsins.

„Virðulegi forseti. Það er öllum hollt að horfa yfir túngarðinn og velta fyrir sér hvernig nágranninn heldur á sínum málum. En það er enn betra að sækja nágrannann heim, hlusta og fræðast. Sá sem hér stendur átti þess kost ásamt atvinnuveganefnd Alþingis að sækja heim frændur okkar í Færeyjum og Noregi í síðustu viku.

Ísland og Færeyjar og Noregur eiga margt sameiginlegt. Undirstaða góðra lífskjara er frumframleiðsla; sjávarútvegur og fiskeldi, landbúnaður og orkuvinnsla.

Vissulega eru mismunandi áherslur á mikilvægi atvinnugreina milli landa en á þessum grunnstoðum byggist velferð þessara þjóða ásamt nýsköpun og skapandi greinar. En þegar kemur að því að móta starfsskilyrði, skilvirkni og umgjörð atvinnugreina getum við Íslendingar gert mun betur í þeim efnum.

Tökum dæmi. Norðmenn ganga mun lengra en Íslendingar er kemur að því að heimila sínum landbúnaði samstarf og samvinnu og þegar spurt er: Hvers vegna gerið þið það? þá er svar Norðmanna á þessa leið: Við búum í stóru landi og við erum ekki nema 5,3 milljónir. Okkar landbúnaður getur ekki keppt við framleiðslu frá þjóðum, t.d. innan ESB.

Hér á landi höfum við heimilað mjólkurframleiðslunni að taka sambærileg skref en kjötframleiðslan hefur enn sem komið er ekki fengið það sem til þarf, þ.e. heimild til samstarfs og samvinnu. Samt búum við í stóru landi og við erum ekki nema 360.000.

Skilvirkni í stjórnkerfi er nokkuð sem þarf að taka til gagngerrar endurskoðunar. Í Noregi t.d. tekur ekki nema 26 vikur að fá niðurstöðu um það hvort menn geti farið í sjókvíaeldi eða ekki. Hérna getur það tekið allt að átta árum eða tíu,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.

Categories
Fréttir

Eflum opinbera þjónustu á landsbyggðinni

Deila grein

14/03/2023

Eflum opinbera þjónustu á landsbyggðinni

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi atvinnutækifæri og möguleika fólks á að finna störf við hæfi í störfum þingsins.

„Ein af forsendum byggðar er atvinna. Því fjölbreyttara atvinnulíf, því meiri möguleika eiga einstaklingar á að finna störf við hæfi og jafnframt færa sig á milli starfa, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Byggðaþróun og byggðastefna eru orð sem oft hafa verið notuð hér inni í þessum sal í gegnum árin og ætla ég ekki að efast um það eina mínútu að þeir sem þeim hafi beitt hafi viljað efla byggð og uppbyggingu alls Íslands. Í því felst jú byggðastefna,“ sagði Stefán Vagn.

„Þegar horft er í nýja skýrslu Byggðastofnunar um fjölda og dreifingu ríkisstarfa kemur margt athyglisvert í ljós sem mig langar að ræða hér í ræðunni. Ef skoðaður er fjöldi opinberra starfa og hvernig þau dreifast um landið kemur í ljós að í Reykjavíkurborg eru 16.477 opinber störf eða 62,1% opinberra starfa á landinu. Í Hafnarfirði eru störfin 725, 994 í Kópavogi, 469 í Garðabæ og 291 í Mosfellsbæ. Samtals eru á höfuðborgarsvæðinu 19.052 opinber störf. Samanborið við aðra landshluta eru 1.538 á Suðurlandi, 582 á Austurlandi, 860 á Vesturlandi, 1.327 á Reykjanesi, 2.168 á Norðurlandi eystra, 536 á Norðurlandi vestra og 480 á Vestfjörðum.

Ég hef lengi talað fyrir flutningi opinberra starfa út á land og tel að eitt það mikilvægasta í byggðastefnunni sé að auka framboð á störfum um allt land. Til að bregðast við þessari þróun held ég að sé mjög mikilvægt að við horfum í auknum mæli til þess að auglýsa störf með staðsetningu og þá sérstaklega á þeim svæðum þar sem þróunin hefur verið neikvæð, bæði er kemur að íbúaþróun og fjölda opinberra starfa. Það skulum við gera undir formerkjum byggðastefnu og til að efla opinbera þjónustu á landsbyggðinni,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Categories
Fréttir

Upplýsingar á einum stað um alla aðstoð sem stendur til boða

Deila grein

14/03/2023

Upplýsingar á einum stað um alla aðstoð sem stendur til boða

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa og hefur hann mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra í samvinnu við mennta- og barnamálaráðherra að koma á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa.

Í greinargerð tillögunnar segir:

„Hér á landi greinast árlega einstaklingar með einhverfu eða raskanir á einhverfurófi. Einhverfa er röskun í taugaþroska sem kemur jafnan fram snemma í barnæsku. Einhverfa er yfirleitt meðfædd og til staðar alla ævi en kemur fram með ólíkum hætti allt eftir aldri, þroska og færni og sökum þess hve einhverfa er margbreytileg er oft talað um einhverfuróf.

Hægt er að hafa áhrif á framvindu einhverfu með markvissum aðgerðum, sérstaklega snemma á lífsleiðinni. Nokkuð er um að einstaklingar greinist á fullorðinsárum með einhverfu og þá oft í framhaldi af kulnun eða í kjölfarið á geðrænum vanda. Þegar einstaklingur hefur fengið greiningu á einhverfurófi er mikilvægt að einstaklingurinn og fjölskyldan fái fræðslu um einhverfurófið og aðferðir sem gætu hentað þeim vel. Auk þess er mikilvægt ef um leik- eða grunnskólabarn er að ræða að samvinna milli heimilis og skóla sé góð.

Nokkrar stofnanir koma að málefnum einhverfra en þær eru Barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, Ráðgjafar- og greiningarstöð, Sjúkratryggingar Íslands, Tryggingastofnun og Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þess utan hafa Einhverfusamtökin stuðlað að upplýsingagjöf og aðstoð til þeirra sem greinast með einhverfu og aðstandenda þeirra.

Nauðsynlegt er að einstaklingar með einhverfugreiningu séu teknir með þegar unnið er eftir samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasáttmálum. Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa getur verið liður í þeirri vinnu.

Flutningsmenn telja mikilvægt að komið verði á fót þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa þar sem öll sú þekking sem til er um einhverfu verði dregin saman á einn stað og börn jafnt sem fullorðnir geti fengið þjónustu með þeirra þarfir í huga.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir einhverfa hefði það verkefni að veita þjónustu á sviði ráðgjafar, hæfingar og endurhæfingar ásamt því að afla og miðla þekkingu á aðstæðum einhverfra í því skyni að bæta þjónustu og stuðla að framförum. Þá væri verkefni hennar einnig að hafa yfirsýn yfir aðstæður þeirra sem eru einhverfir og gegna samhæfingarhlutverki gagnvart öðrum sem veita umræddum notendum þjónustu. Auk þess væri hlutverk þjónustu- og þekkingarmiðstöðvarinnar að sinna fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við aðstandendur, skóla og aðrar þjónustustofnanir.

Ávinningurinn af þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem þessari væri að einhverfir, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna og aðstandendur þeirra, sem og skólar og vinnustaðir geti sótt upplýsingar um alla þá aðstoð sem stendur þeim til boða ásamt því að fá leiðbeiningar og fræðslu. Þá skiptir einnig máli að bæta almenna fræðslu til samfélagsins til þess að auka skilning og bæta viðmót gagnvart einhverfum. Þannig má bæta lífsgæði þeirra sem greinast með einhverfu ásamt því að rjúfa mögulega einangrun.“

Categories
Fréttir

Horft er á námskeiðin sem fyrsta stigs meðferð fyrir börn með ADHD

Deila grein

14/03/2023

Horft er á námskeiðin sem fyrsta stigs meðferð fyrir börn með ADHD

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um ókeypis fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra að koma á fót fræðslu og þjálfun foreldra barna, allt að 16 ára, með ADHD strax við greiningu. Fræðslan og námskeiðin standi til boða þeim að kostnaðarlausu.

Í greinargerð tillögunnar segir:

„Fjölmargir einstaklingar glíma við ofvirkni og athyglisbrest sem í daglegu tali er oft kallað ADHD (e. Attention Deficit Hyperactivity Disorder). Einkenni ADHD skjóta almennt upp kollinum snemma á æviskeiði einstaklings, þ.e. um 7 ára aldur, og geta haft áhrif á alla þætti lífsins, svo sem nám, vinnu og félagsleg samskipti. Rannsóknir sýna að allt að eitt af hverjum tíu börnum glímir við ADHD. Það þýðir að í 20–30 manna kennslustund eru líklega um 2–3 einstaklingar með ADHD. Börn og unglingar með athyglisbrest með eða án ofvirkni eiga einnig oft við aðra erfiðleika að stríða. Ákveðinn hópur er t.d. með sértæka námsörðugleika og alvarlegir félags- og hegðunarerfiðleikar eru ekki óalgengir. Þeim er mjög hætt við að þróa með sér mótþróahegðun. Kvíði og depurð er algeng og mörg þessara barna sýna einkenni áráttuhegðunar.

Uppeldi barna með ADHD getur reynst frábrugðið uppeldi barna án ADHD, sérstaklega þar sem foreldrar verða að aðlaga sig að upplifun og einkennum barnanna. Oft kemur það fyrir að foreldrar finna fyrir óvissu í uppeldinu og eiga erfitt með að ákveða næstu skref. Margir foreldrar kynna sér ADHD og allt sem taugaþroskaröskunin felur í sér. Sumir leita sér aðstoðar hjá sérfræðingum.

Flutningsmenn telja það nauðsynlegt að foreldrar hafi aðgengi að fræðslu og þjálfun fyrir foreldra barna með ADHD og séu hvattir til þess að sækja þá fræðslu og þjálfun. Slík námskeið eiga að standa þeim, sem og forráðamönnum þegar það á við, til boða, þau eru samfélaginu til bóta og eiga að vera þeim að kostnaðarlausu.

Á síðustu árum hafa tilraunir verið gerðar til að sýna árangur námskeiða fyrir foreldra barna með ADHD. Horft er á námskeiðin sem fyrsta stigs meðferð fyrir börn með ADHD ásamt því að þau séu til þess fallin að aðstoða foreldra við að öðlast meiri skilning, þekkingu og reynslu á röskuninni.

Á námskeiðunum sitja foreldrar fyrirlestra, fá lesefni og vinna verkefni sem tengjast uppeldi barna með ADHD. Námskeiðin eru ekki talin skila árangri að því leyti að draga úr hefðbundnum einkennum röskunarinnar, en foreldrar hafa almennt talið þau hjálpa þeim og börnum þeirra og það skilar sér vissulega í uppeldi og samskiptum barna með ADHD og foreldra þeirra. Þá telja rannsakendur og foreldrar að námskeiðin hafi haft jákvæð áhrif á námshæfileika og félagslega færni barnanna. Í Danmörku hafa slík námskeið verið talin árangursrík og talið er að þau verði mjög algeng um allan heim í náinni framtíð.

Flutningsmenn telja það vera til heilla að námskeið sem þessi verði haldin hér á landi og að foreldrar barna með ADHD hafi tækifæri til að sækja þau sér að kostnaðarlausu. Með fræðslu og þjálfun, sem felur m.a. í sér verkefnavinnu, eru foreldrar barna með ADHD betur í stakk búnir að kenna börnunum og ala þau upp.

Mikil tækifæri til samfélagsbóta eru talin felast í framangreindum námskeiðum. Vissulega fylgir þeim kostnaður fyrir hið opinbera en samfélagslegur ábati af slíku verkefni verður ekki metinn til fjár og því er mikilvægt að kostnaður falli ekki á foreldra.

Markmiðið er að börn með ADHD eigi auðveldara með alla þætti eðlilegs lífs, þar á meðal nám, vinnu og félagsleg samskipti, bæði í nútíð og framtíð. Ásamt því munu foreldrar, og samfélagið allt, öðlast frekari skilning og þekkingu á ADHD, sem margir Íslendingar, bæði ungir sem aldnir, glíma við í dag.“

Categories
Fréttir

Flýtum og hröðum þróun rafrænna samskipta í málefnum barna

Deila grein

14/03/2023

Flýtum og hröðum þróun rafrænna samskipta í málefnum barna

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flýta þróun rafrænna samskipta og einfalda ferli umsókna hjá sýslumanni um sérstök útgjöld vegna barns. Áhersla verði lögð á að auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna um sérstök útgjöld.

Í greinargerð tillögunnar segir:

„Í 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, er kveðið á um að ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar óskað staðfestingar sýslumanns á samningi vegna útgjalda við skírn, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, sjúkdóm, greftrun eða af öðru sérstöku tilefni. Eins er hægt af sama tilefni að úrskurða það foreldri sem barn býr ekki hjá til þess að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda sem þessa. Verður að hafa uppi slíka kröfu við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

Á www.syslumenn.is og www.island.is má finna stafrænt eyðublað um beiðni um úrskurð um sérstakt framlag til framfærslu barns sem fylla þarf út í samræmi við skilyrði laganna, þ.e. barn, málsaðila, tilefni og fjárhæð kröfu. Með ákveðnum beiðnum þurfa einnig að fylgja sérstök fylgiskjöl frá opinberum aðilum í samræmi við tilefni hverju sinni, svo sem skattframtöl, tekjuyfirlit, forsjárvottorð, gildandi ákvörðun um meðlag og yfirlit frá sjúkratryggingum vegna greiðsluþátttöku.

Flutningsmenn telja að kröfur hins opinbera til borgara um framlagningu fylgiskjala við málsmeðferð í málum barna umtalsverðar og íþyngjandi, sérstaklega á tímum þar sem stafrænar lausnir og rafræn stjórnsýsla fer vaxandi. Af þeim sökum leggja flutningsmenn til að flýta ætti og hraða þróun rafrænna samskipta í málefnum barna og auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna. Sem lið í þeirri vinnu telja flutningsmenn mikilvægt að skoða hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu málsaðila við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum www.island.is. Samhliða verði tryggt að sýslumannsembættunum sé gert kleift að afla viðkomandi gagna með stafrænum hætti, eftir atvikum fyrir milligöngu Stafræns Íslands.

Umsóknir um sérstök útgjöld geta verið erfitt og íþyngjandi ferli

Flutningsmenn telja að í samræmi við tækniframfarir ætti umsækjandi samhliða því að leggja fram kröfur um sérstök útgjöld að geta veitt sýslumanni heimild til gagnaöflunar hjá öðrum stjórnvöldum sem málið varðar. Til grundvallar þessum hugmyndum má leggja hina almennu rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, markmið hins opinbera um betri þjónustu og aukið réttaröryggi.“

Categories
Fréttir

Einföldum stjórnsýsluna og bætum þjónustu við almenning

Deila grein

14/03/2023

Einföldum stjórnsýsluna og bætum þjónustu við almenning

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um samræmda vefgátt leyfisveitinga og einföldun á ferli við undirbúning framkvæmda og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að setja á laggirnar samræmda vefgátt fyrir leyfisveitingar, skipulagsferli, mat á umhverfisáhrifum og tengdar málsmeðferðir ásamt því að einfalda ferli við undirbúning framkvæmda.“

Í greinargerð tillögunnar segir:

„Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 152. löggjafarþingi (567. mál) og er nú endurflutt óbreytt. Flutningsmenn telja mikilvægt að nýta kosti rafrænnar þjónustu til hins ýtrasta og leggja því fram tillögu þessa um samræmda vefgátt. Rafræn gátt þar sem finna mætti öll gögn í málsmeðferð vegna leyfisveitinga framkvæmda og nauðsynlegra undanfara hennar myndi einfalda ferli leyfisveitingar til muna. Vefgátt sem þessi myndi spara tíma og tryggja betra aðgengi almennings að gögnum ásamt því að auka skilvirkni og aðhald í vinnubrögðum. Með rafrænni þjónustu geta ólíkar stofnanir þá unnið í sömu gátt en með því er tryggt að gögn flæði auðveldlega milli málsmeðferða. Með rafrænni gátt og breyttu verklagi má einfalda ferlið frá því sem nú er til muna. Markmið vefgáttarinnar er að á einum stað liggi fyrir gögn í málsmeðferð vegna leyfisveitinga framkvæmda og nauðsynlegra undanfara hennar. Útgangspunktur vefgáttarinnar er leyfisveitingin, t.d. framkvæmdaleyfi, byggingarleyfi, nýtingarleyfi, rekstrarleyfi eða starfsleyfi.

Málsmeðferð leyfisveitinga og mat á umhverfisáhrifum er í dag flókið ferli sem er bæði tímafrekt og óskilvirkt. Samkvæmt niðurstöðum skýrslu sem VSÓ Ráðgjöf vann fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins um ávinning rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli kemur fram að ferlið á Íslandi er óþarflega flókið. Þar segir jafnframt að skortur sé á tengslum milli málsmeðferða og þörf sé á að skerpa á hlutverki allra þátttakenda í ferlinu. Talsvert er um tvíverknað í kerfinu, sömu gögn eru lögð ítrekað fram og sömu aðilar koma oft að sama máli. Umsagnar- og kynningarferli taka mikinn tíma og þá er ógagnsæi töluvert, aðgengi að gögnum er erfitt sem og að fylgja málum eftir.

Nokkur árangur náðist við bætingu ferla tengdra umhverfismati með setningu nýrra laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, en mikilvægt er að ganga enn lengra í samþættingu og einföldun á öllum ferlum framkvæmda. Hér ber að nefna að ákveðið var að koma upp gagna- og samráðsgátt sem Skipulagsstofnun á að starfrækja og á að taka til skipulags, umhverfismats og framkvæmdaleyfis. Skipulagsgáttin sem unnið er að mun fela í sér veigamikla breytingu varðandi aðgengi að upplýsingum og skilvirkni skipulagsferla. Hún mun líka verða hvati til samræmdra vinnubragða. Hér þarf hins vegar að hafa í huga að ferli framkvæmda tekur til mun fleiri þátta en þessara og því mikilvægt að samráðsgátt taki til allra ferla frá upphafi til enda. Hér er vísað til þess að margar framkvæmdir eins og auðlindanýting ýmiss konar hefst á ferli rannsókna og gagnasöfnunar sem háð er umsóknum, leyfum, gagnaskilum, upplýsingagjöf o.fl. til opinberra aðila sem koma svo aftur inn í aðra ferla síðar í framkvæmdaferlinu. Því er mikilvægt að gagna- og samráðsgátt sé ekki bundin við Skipulagsstofnun heldur ætti hún að standa utan stofnana ef svo má segja, en allar hlutaðeigandi stofnanir sem koma að hverri og einni framkvæmd, frá upphafi til enda hennar, hafi aðgang að gáttinni. Mikilvægt er að hafa í huga að hægt er að einfalda samráðsferla og útgáfu á skýrslum án þess að skerða aðgengi almennings og hagsmunaaðila og án þess að ganga gegn Evróputilskipunum. Þannig gætu leyfisveitendur komið að valkostagreiningu í stað Skipulagsstofnunar með það að markmiði að aðeins raunhæfir valkostir komist áfram í matinu. Þá er þörf á að samræma ferli milli sveitarfélaga vegna innviðaframkvæmda sem ná yfir mörg sveitarfélög. Slíkar framkvæmdir þarf að setja í sérstakt ferli þar sem málsmeðferð er samræmd og samstillt. Líta má til annarra Norðurlanda þar sem dæmi eru um að í sérlögum sé að finna sérákvæði um mats- og skipulagsferli tiltekinna framkvæmda og gæti verið heppilegt að nýta þá leið fyrir stórar innviðaframkvæmdir.

Dæmi um vef sem veitir aðgang að opinberum gögnum er Vegvísir.is sem er nýr gagnvirkur upplýsingavefur innviðaráðuneytis. Vefurinn gefur aðgang að lykilupplýsingum um samgöngur, fjarskipti og byggðamál. Vegvísir markar tímamót og eflir stafræna þjónustu og veitir enn betri aðgang að opinberum gögnum. Á vegvísinum er hægt að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri í yfir 500 verkefnum og stöðu 60 árangursmælikvarða. Á vefnum eru upplýsingar um markmið, aðgerðir, fjármagn, framvindu og árangur í þremur lykiláætlunum ráðuneytisins; samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun.

Skoða mætti hvort vefgáttin ætti heima undir verkefninu Stafrænt Ísland þar sem markmið og áherslur eru að auka samkeppnishæfni, tryggja betri opinbera þjónustu og öruggari innviði ásamt nútímalegra starfsumhverfi. Samkvæmt markmiðum ríkisstjórnarinnar eiga stafræn samskipti að vera meginsamskiptaleið fólks og fyrirtækja við hið opinbera á Íslandi.

Þingsályktunartillaga þessi er í samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann en þar kemur fram að ríkisstjórnin einsetji sér að vera á meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu. Markmið sé að einfalda stjórnsýslu og bæta þjónustu við almenning ásamt því að auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum með nýtingu stafrænna lausna. Flutningsmenn telja að öll tækifæri til einföldunar séu til staðar og ávinningur af samræmdri vefgátt sé augljós. Því er mikilvægt að stuðla að framþróun í þessum málum í takt við breytta tíma og bætta tækni.“