Categories
Fréttir Uncategorized

Konur í Framsókn!

Deila grein

18/10/2022

Konur í Framsókn!

Síðastliðinn laugardag var haldið 20. Landsþing Landssambands Framsóknarkvenna sem nú hefur fengið nýtt nafn Konur í Framsókn eftir lagabreytingartillögu, Berglindar Sunnu Bragadóttur, sem samþykkt var á þingingu. Fundarstjóri var kosinn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður og fundarritari,Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, varaformaður LFK.

Fráfarandi formaður Linda Hrönn Þórssdóttir stiklaði á stóru um þriggja á ára formannstíð sína. Heimsfaraldur setti sinn mikla svip á það metnaðarfulla starf sem hafði verið skipulagt. Hún ræddi stöðu kvenna í heiminum eftir heimsfaraldur og vísaði í erlendar rannskóknir. Talaði um mikilvægi hreyfingar eins og Kvenna í Framsókn í þágu jafnréttismála og þátttöku kvenna í stjórnmálum. Án þátttöku kvenna í stjórnmálum verður jafnrétti aldrei raunverulega náð.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir og Linda Hrönn fóru yfir ársreikninga sambandsins í fjarveru gjaldkera.

Þá flutti Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, ávarp og þakkaði grasrótinni fyrir velgengni í sveitarstjórnarkosningunum. Hann talaði einnig um mikilvægi baklandsins þegar nýliðar eru fyrsta sinn í stjórn og taka þarf á krefjandi málum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar talaði um mikivægi öflugs félags eins og Kvenna í Framsókn. Hún fór yfir stöðu kvenna í samfélaginu m.t.t. jákvæðrar þrjóunar á atvinnumarkaði sl. 35 ár. Að hér væri lagaumhverfi sem stuðli að þessum jákvæðu breytingum með lögum um kynjahlutföll í stjórnum t.d. Ekki síður mikilvægt að aðgengi að leikskólum sé gott og daggæslu sem gert var átak í á sínum tíma undir forystu Kvennalistans og Framsóknar.

Fjöldi kvenna stóð í pontu og tjáðu sig um sín áherslumál. Konur hvöttu aðrar konur til að taka pláss og láta í sér heyra. Leikskólamálin voru rædd, rasismi í samfélaginu, MeToo, staða kvenna þegar kemur að fæðingarorlofi, konur lengur heima því þær eru oftar launalægri. Einnig rætt að það hafi aldrei verið betra að vera kona í stjórnmálum en í dag. Þá var ný stjórn hvött til að taka upp stöðu kvenna í atvinnulífinu.

Nýr formaður var kosinn Guðveig Eyglóardóttir og sagði hún m.a. í framboðsræðu sinni að hennar köllun væri í dag að valdefla aðrar konur.

Þingið var öflugt í alla staði, lagðar fram kraftmiklar ályktanir og augljóst var á konum á þinginu að það var orðið tímabært að hittast. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og ráðherra bauð Konum í Framsókn í móttöku á vinnustofu Kjarvals að þingi loknu.

Ný stjórn er eftirfarandi:

Formaður: Guðveig Eyglóardóttir (NV)

Framkvæmdastjórn:

Berglind Sunna Bragadóttir (R)

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir (SV)

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir (S)

Unnur Þöll Benediktsdóttir (R)

Til vara:

Anna Karen Svövudóttir (SV)

Karítas Ríkharðsdóttir (R)

Landsstjórn (6 og 6 til vara)

Díana Hilmarsdóttir (S)

Fanný Gunnarsdóttir (R-N)

Linda Hrönn Þórisdóttir (SV)

Rakel Dögg Óskarsdóttir (R-S)

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir (NA)

Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir (NV)

Drífa Sigfúsdóttir (S)

Ingveldur Sæmundsdóttir (R)

Magnea Gná Jóhannsdóttir (R-N)

Pálína Margeirsdóttir (NA)

Ragnheiður Ingimundardóttir (NV)

Þórey Anna Matthíasdóttir (SV)

Skoðunarmenn reikninga (2)

Hildur Helga Gísladóttir (SV)

Þorbjörg Sólbjartsdóttir (SV)

Categories
Greinar

Árangur fyrir íslenskuna okkar

Deila grein

17/10/2022

Árangur fyrir íslenskuna okkar

Í lög­um um eft­ir­lit með viðskipta­hátt­um og markaðssetn­ingu er kveðið á um að aug­lýs­ing­ar sem höfða eigi til ís­lenskra neyt­enda skulu vera á ís­lensku. Neyt­enda­stofa hef­ur tekið til meðferðar átta mál vegna tungu­máls í aug­lýs­ing­um sem eiga að höfða til ís­lenskra neyt­enda frá ár­inu 2005, og er eitt mál til skoðunar hjá stofn­un­inni. Í öll­um til­fell­um var aug­lýs­ing­un­um breytt vegna at­huga­semda stofn­un­ar­inn­ar.

Ákvæði sem þetta skipt­ir máli og það er ánægju­legt að sjá fyr­ir­tæki taka þessi til­mæli Neyt­enda­stofu til sín – en bet­ur má ef duga skal. Íslensk tunga stend­ur á kross­göt­um móts við bjarta framtíð eða menn­ing­ar­legt stór­tjón ef ekki er staðið vel að mál­efn­um henn­ar. Stjórn­völd hafa á und­an­förn­um árum lagt mikla áherslu á að snúa vörn í sókn fyr­ir tungu­málið með ýms­um hætti, en heild­ar­fram­lag stjórn­valda nam rúm­um 10 millj­örðum króna á síðasta kjör­tíma­bili til slíkra verk­efna. Þings­álykt­un um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál á Íslandi sem samþykkt var á Alþingi í júní 2019 og aðgerðaáætl­un sem henni fylgdi. Meg­in­mark­mið henn­ar var að ís­lenska væri notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, ís­lensku­kennsla og mennt­un yrði efld á öll­um skóla­stig­um og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi yrði tryggð. Auk­in­held­ur hef­ur fjár­mun­um verið for­gangsraðað í að styðja skap­andi grein­ar þar sem ís­lenska er aðal­verk­færið. Þannig var til að mynda ís­lensk bóka­út­gáfa efld með stuðnings­kerfi fyr­ir ís­lenska bóka­út­gáfu sem fel­ur í sér end­ur­greiðslu allt að 25% út­gáfu­kostnaðar ís­lenskra bóka með frá­bær­um ár­angri.

Verk­efnið er samt sem áður stórt og kall­ar á að við sem sam­fé­lag tök­um þá ákvörðun að gera okk­ar eig­in tungu­máli hátt und­ir höfði. Ég skynja að vit­und­ar­vakn­ing und­an­far­inna ára sé far­in að skila ár­angri. Það gladdi mig að sjá Icelanda­ir til­kynna ný­verið um breytt fyr­ir­komu­lag við að ávarpa farþega um borð í vél­um sín­um með því að ávarpa fyrst á ís­lensku og svo á ensku. Þannig fá hin fleygu orð „góðir farþegar, vel­kom­in heim‘{lsquo} að hljóma strax við lend­ingu í Kefla­vík, sem mörg­um finnst nota­legt að heyra.

Ann­ar áfangi á þess­ari veg­ferð náðist í vik­unni þegar stjórn ISA­VIA samþykkti bók­un þess efn­is að ís­lenska verði fram­veg­is í for­grunni tungu­mála við end­ur­nýj­un merk­inga­kerf­is í flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar en hingað til hafa merk­ing­ar verið fyrst á ensku og svo ís­lensku.

Of­an­talið skipt­ir máli og er ég þakk­lát hverj­um þeim sem legg­ur sitt af mörk­um til þess að gera tungu­mál­inu okk­ar hærra und­ir höfði. Ég mun halda áfram að hvetja bæði fólk og fyr­ir­tæki til þess að huga að tungu­mál­inu okk­ar. Þrátt fyr­ir að ís­lenska sé ekki út­breidd í alþjóðleg­um sam­an­b­urði þá er hún er lyk­ill­inn að menn­ingu okk­ar og sjálfs­mynd.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 17. október 2022.

Categories
Greinar

Hamingjuóskir til Háskólans á Akureyri

Deila grein

13/10/2022

Hamingjuóskir til Háskólans á Akureyri

Mikilvægri vörðu á langri leið háskólans á Akureyri til framtíðar hefur nú verið náð. Það er nokkuð víst að Háskólinn á Akureyri er rétt að byrja sína sókn. Frá stofnun hefur vöxtur háskólans verið hraður. Við höfum fengið að fylgjast með Háskólanum á Akureyri verða að einni helstu mennta- og rannsóknarstofnun landsins sem sýnt hefur fram á hvernig hægt er vaxa í síbreytilegum tækniheimi. Námsframboð hefur aukist jafnt og þétt og nám hefur eflst svo um munar. Nemendafjöldi Háskólans á Akureyri hefur aukist á ári hverju, en það er ekki skrýtið þar sem háskólinn hefur fengið viðurkenningu frá fræðasamsamfélaginu sem og nemum fyrir gæði og þjónustu. Auk þess er Háskólinn á Akureyri brautryðjandi í nýtingu fjarnáms hér á landi og hefur verið fyrirmynd fyrir aðra háskóla og opnað margar dyr fyrir fólk víðsvegar af landinu.

Merkur áfangi

Árið 2009 hófst formlegur undirbúningur á viðurkenningu doktorsnáms við Háskólann á Akureyri og síðan þá hefur það verið eitt af meginmarkmiðum skólans. Undanfarin ár hefur skólinn haft það í stefnu sinni að efla núverandi námsumhverfi, styrkja innviði og auka vægi rannsókna. Nú hefur þessu markmiði verið náð þar sem fyrsta doktorsvörnin fór fram við Háskólann á Akureyri þann 11. október sl. Þar varði Karen Birna Þorvaldsdóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum og má með sanni segja að vörnin hafi ekki aðeins verið merkur áfangi fyrir Karenu Birnu heldur einnig fyrir Háskólann á Akureyri. Þá berast fréttir af því að fyrirhugaðar eru í nánustu framtíð enn fleiri doktorsvarnir. Við vitum öll hversu mikilvægt það er fyrir samfélagið allt að hafa háskóla í þessum gæðaflokki. Mennt er máttur sem sannarlega eflir samfélagið og það er óumdeildur ábati af því að öflugir háskólar séu til staðar þvert yfir landið.

Bættari byggð

Háskólinn á Akureyri er án efa ein öflugasta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í hér á landi og hefur margsinnis sannað gildi sitt. Mikilvægi háskólans fyrir sitt nærumhverfi er óumdeilt og við erum heppin að hafa svo framsækinn háskóla til staðar í samfélaginu okkar. Þegar einstaklingar geta sótt það nám sem þeir vilja, innan síns sveitarfélags eða í nærliggjandi sveitarfélagi, skiptir það sköpum í byggðamálum. Þannig á það að vera og þannig ætlum við að halda því. Háskólinn á Akureyri dregur einnig að sér nýtt fólk hingað norður sem kemur með nýjar hugsanir og ferska vinda. Þannig vaxa og dafna samfélög.

Til hamingju!

Að endingu vil ég óska Karen Birnu Þorvaldsdóttur innilega til hamingju með doktorsvörnina og starfsfólki Háskólans á Akureyri einnig með þennan merka áfanga. Framtíð Háskólans á Akureyri er svo sannarlega björt.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. október 2022.

Categories
Fréttir

„Orkuöryggi er þjóðaröryggismál“

Deila grein

13/10/2022

„Orkuöryggi er þjóðaröryggismál“

„Ég þreytist seint á að koma hingað upp og ræða um orkuöryggi sem er þjóðaröryggismál hér í landinu. Þrátt fyrir að veður spili inn í getum við ekki kennt veðrinu einu um þegar kemur að rafmagnsleysi. Staðreyndin er sú að við þurfum að byggja upp sterkara kerfi með fjölbreyttari lausnum,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Á landsbyggðinni starfa stór fyrirtæki sem eru háð góðu afhendingaröryggi raforku. Um síðustu helgi var álverið á Reyðarfirði hætt komið vegna rafmagnsleysis. Ef álver er án rafmagns í meira en fjórar klukkustundir fer að harðna í kerjunum með þeim afleiðingum að þau eyðileggjast.“

Fór Ingbjörg yfir að Landsnet vinni nú að endurnýjun byggðalínunnar en að mörg ljón séu í veginum fyrir áframhaldandi endurnýjun byggðalínunnar.

„Það er ekki boðlegt að fyrirtæki með milljarða fjárfestingar búi við slíkt rekstraróöryggi og það sama á við um minni fyrirtæki sem og búrekstur.“

Sagði Ingibjörg mikilvægt að byggja upp öruggt og skilvirkt kerfi og að smávirkjanir muni gegna þar lykilhlutverki, raforkukerfinu til stuðnings.

„Þegar Laxárlína sló út um síðustu helgi fylgdi ekki straumleysi í kjölfarið þar sem Laxárvirkjun og Þeistareykjavirkjun sáu svæðinu fyrir rafmagni. Þannig var fyrirtækjum og fjölskyldum séð fyrir rafmagni sem annars hefðu búið við straumleysi.“

Smávirkjanir gegna lykilhlutverki á landsbyggðinni og styðja m.a. við byggðaþróun þar sem annars skortir raforku benti Ingibjörg á.

„Smávirkjanir stuðla ekki einungis að auknu orkuöryggi í landinu heldur geta þær einnig verið mikilvægur þáttur í að tryggja vaxtarmöguleika landsbyggðarinnar. Við þurfum að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem við erum í varðandi orkuöryggi landsins en samhliða uppbyggingu smávirkjana er þó mikilvægt að gleyma því aldrei að vera í góðu samtali við samfélögin og mestu skiptir að uppbygging verði gerð af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins,“ sagði Ingibjörg í lok ræðu sinnar.

Ræða Ingibjargar á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Ég þreytist seint á að koma hingað upp og ræða um orkuöryggi sem er þjóðaröryggismál hér í landinu. Þrátt fyrir að veður spili inn í getum við ekki kennt veðrinu einu um þegar kemur að rafmagnsleysi. Staðreyndin er sú að við þurfum að byggja upp sterkara kerfi með fjölbreyttari lausnum. Á landsbyggðinni starfa stór fyrirtæki sem eru háð góðu afhendingaröryggi raforku. Um síðustu helgi var álverið á Reyðarfirði hætt komið vegna rafmagnsleysis. Ef álver er án rafmagns í meira en fjórar klukkustundir fer að harðna í kerjunum með þeim afleiðingum að þau eyðileggjast.

Sem betur fer vinnur Landsnet nú að endurnýjun byggðalínunnar og nýgangsettar flutningslínur á Norðausturlandi sönnuðu rækilega gildi sitt og komu í veg fyrir ófremdarástand í óveðrinu um síðustu helgi. En betur má ef duga skal enda mörg ljón í veginum fyrir áframhaldandi endurnýjun byggðalínunnar. Það er ekki boðlegt að fyrirtæki með milljarða fjárfestingar búi við slíkt rekstraróöryggi og það sama á við um minni fyrirtæki sem og búrekstur. Mikilvægt er að ráðast í þau verkefni sem þörf er á til þess að byggja upp öruggt og skilvirkt kerfi hér á landi. Smávirkjanir gegna þar lykilhlutverki en þær geta komið inn á raforkukerfi til stuðnings. Staðbundnar virkjanir geta skipt gríðarlegu máli. Þegar Laxárlína sló út um síðustu helgi fylgdi ekki straumleysi í kjölfarið þar sem Laxárvirkjun og Þeistareykjavirkjun sáu svæðinu fyrir rafmagni. Þannig var fyrirtækjum og fjölskyldum séð fyrir rafmagni sem annars hefðu búið við straumleysi. Smávirkjanir gegna einnig lykilhlutverki á landsbyggðinni og styðja m.a. við byggðaþróun þar sem annars skortir raforku.

Smávirkjanir stuðla ekki einungis að auknu orkuöryggi í landinu heldur geta þær einnig verið mikilvægur þáttur í að tryggja vaxtarmöguleika landsbyggðarinnar. Við þurfum að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem við erum í varðandi orkuöryggi landsins en samhliða uppbyggingu smávirkjana er þó mikilvægt að gleyma því aldrei að vera í góðu samtali við samfélögin og mestu skiptir að uppbygging verði gerð af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins.“

Categories
Fréttir

Góður árangur í orkuskiptum og sparneytnari bílar kalla á nýja nálgun gjaldtöku

Deila grein

13/10/2022

Góður árangur í orkuskiptum og sparneytnari bílar kalla á nýja nálgun gjaldtöku

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, fór yfir að mikilvægt væri að halda því til haga að hugmyndir um nýja gjaldtöku í samgöngumálum séu ekki einkamál Framsóknar. Í umræðu á Alþingi hefur formanni Framsóknar jafnvel verið gert það upp að ætla að leggja sérstakan skatt á fólk sem ekur í gegnum göng. Ágúst Bjarni vildi leiðrétta ýmislegt í umræðunni og fara yfir staðreyndirnar í málinu. 

„Hugmyndir um veggjöld í umferðinni komu fyrst fram í áliti umhverfis- og samgöngunefndar við umfjöllun um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Undir álitið rituðu sjö nefndarmenn úr sex þingflokkum. Það er því langt því frá að þetta sé einkamál Framsóknar.“ 

Alþingi tók ákvörðun um gjaldtöku í umferðinni og er innviðaráðherra að framfylgja þeirri ákvörðun. 

„Staðreyndin er sú að við stefnum að breyttu kerfi. Tekjur hafa dregist verulega saman vegna góðs árangurs í orkuskiptum og vegna sparneytnari bíla. Það eru ekki bara Hvalfjarðargöng sem liggja undir í þessu máli, eða göng á landsbyggðinni, heldur samgöngukerfið í heild.“ 

„Ég minni á að fjármagna á m.a. borgarlínuna með gjaldtöku í umferðinni og allt tal um mismunun eftir búsetu er því ekki á rökum reist. Það er mikilvægt að sýna stillingu í umræðunni um gjaldtöku í umferðinni. Það hefur ekki komið fram með hvaða hætti gjaldtakan eigi að vera en eitt er víst að horfa þarf til sanngirni, atvinnusvæða o.fl. í þessari vinnu og ég trúi því að niðurstaðan muni taka mið af því,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.

Ræða Ágústs Bjarna á Alþingi:

„Virðulegur forseti.

Hér hefur ítrekað verið rætt um gjaldtöku í samgöngumálum. Jafnvel hefur formanni Framsóknar verið gert það upp að ætla að leggja sérstakan skatt á fólk sem keyrir í gegnum göng, líkt og kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar hér í störfum þingsins í gær. Það er því greinilega ýmislegt sem þarf að fara yfir og leiðrétta.

Það er mikilvægt að halda til haga að þessar hugmyndir um nýja gjaldtöku í samgöngumálum eru ekki einkamál Framsóknar. Hugmyndir um veggjöld í umferðinni komu fyrst fram í áliti umhverfis- og samgöngunefndar við umfjöllun um samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033. Undir álitið rituðu sjö nefndarmenn úr sex þingflokkum. Það er því langt því frá að þetta sé einkamál Framsóknar. Ég ítreka: Tillögur um gjaldtöku í umferðinni hafa verið samþykktar hér á Alþingi og er innviðaráðherra að framfylgja þeirri ákvörðun Alþingis. Það færi betur ef þingmenn og aðrir myndu kynna sér málefnin aðeins betur áður en þeir koma hingað upp og tjá sig með þeim hætti sem gert var hér í gær af hv. þingmanni.

Staðreyndin er sú að við stefnum að breyttu kerfi. Tekjur hafa dregist verulega saman vegna góðs árangurs í orkuskiptum og vegna sparneytnari bíla. Það eru ekki bara Hvalfjarðargöng sem liggja undir í þessu máli, eða göng á landsbyggðinni, heldur samgöngukerfið í heild. Ég minni á að fjármagna á m.a. borgarlínuna með gjaldtöku í umferðinni og allt tal um mismunun eftir búsetu er því ekki á rökum reist. Það er mikilvægt að sýna stillingu í umræðunni um gjaldtöku í umferðinni. Það hefur ekki komið fram með hvaða hætti gjaldtakan eigi að vera en eitt er víst að horfa þarf til sanngirni, atvinnusvæða o.fl. í þessari vinnu og ég trúi því að niðurstaðan muni taka mið af því.“

Categories
Fréttir

„Við sættum okkur ekki við ofbeldi“

Deila grein

12/10/2022

„Við sættum okkur ekki við ofbeldi“

Elsa Lára Arnardóttir, varaþingmaður, fór yfir í störfum þingsins áhugaverðan fyrirlestur hjá Félagi háskólakvenna sem bar yfirskriftina, „Við sættum okkur ekki við ofbeldi“. Fyrirlesturinn var byggður á meistararitgerð Soffíu Ámundadóttir og samtals rannsókn hennar á meðal skólastjórnenda í grunnskólum Reykjavíkur. „Rannsóknin varðar málefni sem hefur verið tabú að ræða en það er mikilvægt að við opnum á umræðu um þetta mikilvæga mál, barnanna okkar vegna,“ sagði Elsa Lára.

„Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skólastjórnendur upplifa aukningu ofbeldis meðal barna og alvarlegri birtingarmyndir nú heldur en áður. Um leið upplifa skólastjórnendur líka úrræðaleysi. Börnin sem talað er um hér og beita ofbeldi eru mörg hver að berjast við vanlíðan, kvíða, þunglyndi eða slaka félagsfærni.“

Rannsóknin sýnir fram á að mikilvægt sé að hlúa vel að námi og velferð barna í skólasamfélaginu.

„Starfsmenn skólasamfélagsins bera mikla ábyrgð á að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og hjálpa þeim að þroskast við öruggar aðstæður. Það sama gildir vissulega um samfélagið í heild sinni, þ.e. sveitarfélögin, ríkisvaldið og auðvitað foreldra og forráðamenn.“

„Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að skólinn er rekinn af sveitarfélögum en þetta er samfélagslegt verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég fagna því að farsældarlögin og menntastefnan hafi verið samþykkt hér á Alþingi og þakka fyrir framgang þeirra verkefna. Það er verkefni sem kemur okkur í rétta átt en við verðum að ganga lengra. Ríkisvaldið, sveitarfélögin og hlutaðeigandi aðilar verða að taka höndum saman, koma saman og eiga samtal um það hvernig eigi að koma til móts við börn með sértækan vanda og skapa samræmda verkferla og úrræði um það hvernig við eigum að aðstoða börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra sem eru í flókinni stöðu og koma jafnframt með úrræði sem styðja við starfsmenn skólakerfisins,“ sagði Elsa Lára að lokum.

Ræða Elsu Láru á Alþingi:

„Virðulegur forseti.

Í hádeginu fór ég á áhugaverðan fyrirlestur hjá Félagi háskólakvenna sem bar yfirskriftina: Við sættum okkur ekki við ofbeldi. Fyrirlesturinn var byggður á meistararitgerð Soffíu Ámundadóttir og var rannsókn sem var gerð meðal skólastjórnenda í grunnskólum Reykjavíkur. Rannsóknin varðar málefni sem hefur verið tabú að ræða en það er mikilvægt að við opnum á umræðu um þetta mikilvæga mál, barnanna okkar vegna. Rannsóknin sem ég tala um hér er byggð upp á samtölum við skólastjórnendur í Reykjavík. Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að skólastjórnendur upplifa aukningu ofbeldis meðal barna og alvarlegri birtingarmyndir nú heldur en áður. Um leið upplifa skólastjórnendur líka úrræðaleysi. Börnin sem talað er um hér og beita ofbeldi eru mörg hver að berjast við vanlíðan, kvíða, þunglyndi eða slaka félagsfærni. Í rannsókninni kemur fram að mikilvægt sé að skólasamfélagið hlúi vel að námi og velferð barna. Starfsmenn skólasamfélagsins bera mikla ábyrgð á að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda og hjálpa þeim að þroskast við öruggar aðstæður. Það sama gildir vissulega um samfélagið í heild sinni, þ.e. sveitarfélögin, ríkisvaldið og auðvitað foreldra og forráðamenn.

Herra forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að skólinn er rekinn af sveitarfélögum en þetta er samfélagslegt verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég fagna því að farsældarlögin og menntastefnan hafi verið samþykkt hér á Alþingi og þakka fyrir framgang þeirra verkefna. Það er verkefni sem kemur okkur í rétta átt en við verðum að ganga lengra. Ríkisvaldið, sveitarfélögin og hlutaðeigandi aðilar verða að taka höndum saman, koma saman og eiga samtal um það hvernig eigi að koma (Forseti hringir.) til móts við börn með sértækan vanda og skapa samræmda verkferla og úrræði um það hvernig við eigum að aðstoða börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra (Forseti hringir.) sem eru í flókinni stöðu og koma jafnframt með úrræði sem styðja við starfsmenn skólakerfisins.“

Categories
Greinar

Eitt mesta upp­byggingar­skeið seinni tíma er hafið í Hafnar­firði

Deila grein

12/10/2022

Eitt mesta upp­byggingar­skeið seinni tíma er hafið í Hafnar­firði

Fyrir kosningarnar í vor var mörgum tíðrætt um þá fólksfækkun sem hafði orðið í Hafnarfirði á Covid tímum. Þá fækkaði íbúum og að hluta mátti rekja það til erlendra verkamanna sem fengu ekki vinnu og þurftu að flytja frá bænum. Á þau sjónarmið var ekki hlustað og meirihlutanum kennt um þessa fólksfækkun. Staðan í dag er sú að íbúum Hafnarfjarðar hefur fjölgað um 2,2% frá 1. desember 2021 til 1. september 2022. Langmesta fjölgun íbúða í byggingu á landinu er í Hafnarfirði en þar hefur íbúðum í byggingu fjölgað um 559 frá því í mars eða um 69% aukning. Eitt mesta uppbyggingarskeið seinni tíma er hafið.

Á fundi bæjarráðs í september var samþykkt að hefja úthlutun lóða í nýjasta hverfi bæjarins, Áslandi 4. Þar verða einbýli í bland við lítil fjölbýli, parhús og raðhús. Ásland 4 verður eitt fallegasta íbúðarhverfi höfuðborgarsvæðisins. Framundan er svo uppbygging á Óseyrarsvæðinu, í miðbænum og Hraun vestur.

Carbfix, Tækniskólinn og Krýsuvík

Samhliða þessari miklu uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og þeirra innviða sem fylgir því eru fjölmörg spennandi verkefni framundan. Búið er að setja verkefnastjórn um Tækniskólann. Viljayfirlýsing um komu hans til Hafnarfjarðar var undirrituð á síðasta kjörtímabili og er vinna hafin við undirbúning. Carbfix verkefnið er ákaflega spennandi umhverfisverkefni sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar styður heilshugar. Fyrsti áfangi þessa verkefnis verður komin til framkvæmda árið 2026 og full starfsemi árið 2032 miðað við verkáætlun. Eins má nefna að bæjarstjórn Hafnarfjarðar stendur heilshugar á bakvið það að byrjað verði að nýta orku og heitt vatn á Krýsuvíkursvæðinu og uppbyggingu auðlindagarðs á því svæði. Það verkefni er að fara af stað.

Kæru bæjarbúar, takk fyrir stuðninginn

Í sveitarstjórnarkosningunum í vor vann Framsókn í Hafnarfirði góðan sigur. Við fórum úr einum bæjarfulltrúa í tvo og í sögulegu samhengi er það mikill sigur fyrir flokkinn hér í Hafnarfirði. Framsókn var í meirihluta í bæjarstjórn kjörtímabilið 2018 – 2022 og svo aftur núna.

Ég vil þakka bæjarbúum fyrir þennan mikla stuðning.

Við í Framsókn ætlum að vinna áfram vel fyrir Hafnarfjörð og Hafnfirðinga. Við hlökkum til samstarfsins á kjörtímabilinu sem nú er farið af stað.

Valdimar Víðisson

Höfundur er formaður bæjarráðs í Hafnarfirði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. október 2022.

Categories
Fréttir

Hraða verður vinnu að koma dreifikerfinu í jörð!

Deila grein

11/10/2022

Hraða verður vinnu að koma dreifikerfinu í jörð!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins að það hafi sýnst sig svo sannarlega að framkvæmdir Landsnets og Rarik síðustu ára hafi skilað árangri og aukið verulega raforkuöryggi í Norðausturkjördæmi. Þar sem dreifikerfið er ekki enn komið í jörð eins og á Jökuldal, í Bárðardal, á suðurfjörðum Austfjarða og víðar, voru íbúar á einstökum bæjum og sveitum rafmagnslausir klukkustundum saman. Lengstu kaflar dreifikerfisins sem enn eru tengdir með loftlínu eru á Austurlandi.

„Verkefni eins og Hólasandslína 3, Kröflulína 3, yfirbyggð tengivirki og dreifikerfi í jörð skipta sköpum þegar svona veður ganga yfir. Það liggur jafnframt fyrir að með frekari reynslu og þjálfun við að nýta sjálfvirkni nýrra mannvirkja er hægt að gera enn betur,“ sagði Líneik Anna.

„Í ljósi nýliðinna atburða og kröfu um þriggja fasa rafmagn í svo til allri nýsköpun og atvinnuuppbyggingu til sveita tel ég að við getum ekki beðið svo lengi.

Stjórnvöld verða að stuðla að hraðari vinnu við að koma dreifikerfinu í jörð og jafnframt við uppbyggingu Byggðalínunnar,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti

Haustveðrin koma svo sannanlega með látum í ár, og nú þegar hafa gengið yfir tvö veður sem bæði höfðu áhrif á dreifi- og flutningskerfi raforku auk annars.

Í kjördæmaviku hittum við þingmenn Norðausturkjördæmis fulltrúa Landsnets og Rarik og fórum yfir stöðu raforkukerfisins.

Þó það hafi orðið raforkutruflanir í þessum veðrum þá sýndi það sig svo sannarlega að framkvæmdir síðustu ára skila árangri og auka raforkuöryggi verulega. Verkefni eins og Hólasandslína 3, Kröflulína 3, yfirbyggð tengivirki og dreifikerfi í jörð skipta sköpum þegar svona veður ganga yfir. Það liggur jafnframt fyrir að með frekari reynslu og þjálfun við að nýta sjálfvirkni nýrra mannvirkja er hægt að gera enn betur.

Starfsmenn þessara fyrirtækja unnu hörðum höndum meðan á veðrunum stóð og í kjölfarið, stýrðu kerfum í takt við áhrif veðursins, gerðu við staura, þrifu seltu, börðu niður ísingu, komu upp varaafli og þurftu meira segja að vefja bárujárnsplötu utan af spenni á rafmagnsstaur.

Samt sem áður bjuggu íbúar á einstökum bæjum og sveitum við rafmagnsleysi klukkustundum saman. Þetta gerðist þar sem dreifikerfið er ekki komið í jörð eins og á Jökuldal, í Bárðardal, á suðurfjörðum Austfjarða og víðar. Lengstu kaflar dreifikerfisins sem enn eru tengdir með loftlínu eru á Austurlandi.

Eftir aðventustorminn 2019 var áætlunum um að koma dreifikerfi RARK í jörð flýtt og nú er áætlað að ljúka því verkefni 2030.

Í ljósi nýliðinna atburða og kröfu um þriggja fasa rafmagn í svo til allri nýsköpun og atvinnuuppbyggingu til sveita tel ég að við getum ekki beðið svo lengi.

Stjórnvöld verða að stuðla að hraðari vinnu við að koma dreifikerfinu í jörð og jafnframt við uppbyggingu Byggðalínunnar.“

Categories
Greinar

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Deila grein

07/10/2022

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Á örfáum áratugum hefur samfélagið borið gæfu til þess að lyfta geðheilbrigðismálum ofar og ofar í forgangsröðuninni. Þar er enginn hópur undanskilinn; allt frá börnum til eldri borgara og allt litrófið þar á milli. Ríkisstjórnin hefur skilgreint geðheilbrigði í víðum skilningi sem eitt af sínum forgangsmálum og þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 15. júní með öllum greiddum atkvæðum.

Leikáætlun er nauðsynleg

En hvaða þýðingu hefur geðheilbrigðisstefna til ársins 2030? Stefnan tekur mið af ályktunum Alþingis um heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu og er í henni lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. Eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Þannig getum við horft á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi.

Heilbrigðiskerfið er komið með leiðarvísi og skýrt umboð Alþingis til að setja geðheilbrigði á oddinn. Verkefnið er krefjandi og áskoranirnar margar en með réttar áherslur og forgangsröðun færumst við áfram veginn og treystum hag geðheilbrigðisþjónustu um land allt.

Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila.

Fjórþætt nálgun

Fyrsti áhersluþátturinn lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis með áherslu á mikilvægi þess að hlúa að geðheilsunni alla ævi.

Annar áhersluþátturinn lýtur að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi milli hlutaðeigandi þjónustuveitendenda.

Þriðji áhersluþátturinn lýtur að notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Slíkt samtal þarf að leiða til þess að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi verði í vaxandi mæli notendamiðuð og áhersla sé þar með lögð á valdeflingu notenda.

Fjórði áhersluþátturinn lýtur að nýsköpun, vísindum og þróun og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Framfarir í geðheilbrigðisþjónustu

Töluverðar framfarir hafa orðið á undanförnum árum. Sérstaklega er varðar upplýsta umræðu. Landspítali og starfsemi tengd honum hefur þar verið leiðandi og þjónusta hans er í stöðugri þróun. Þá hafa ýmis félagasamtök átt stóran þátt í uppbyggilegri, fordómalausri og lausnamiðaðri umræðu. En eins og nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu bendir réttilega á þá eru ennþá grá svæði í þjónustunni og sérstaklega þegar farið er út fyrir veggi þjóðarsjúkrahússins, út í samfélagið og út á landsbyggðina.

Undanfarið hafa verið byggð upp þverfagleg geðheilsuteymi heilsugæslunnar víða um landið sem veita aukna geðþjónustu í samfélaginu. Einnig hafa verið stofnuð sérhæfðari geðteymi á borð við geðheilsuteymi fangelsa og geðheilsuteymi fjölskylduvernd. En það þarf að halda áfram að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu og eyða kerfisbundið út gráu svæðunum.

Áherslan á aukna samfellu þjónustunnar og samvinnu milli þjónustustiga og úrræða innan heilbrigðiskerfisins og annarrar velferðarþjónustu. Þá þarf sérstaklega að huga að því að tryggja fullnægjandi mönnun í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi. Að lokum þarf að tryggja aukið samtal og samræmt upplýsingaflæði á viðeigandi hátt milli mismunandi þjónustuaðila. Kallar það á vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir.

Orð eru til alls fyrst

Opin og fordómalaus umræða um geðheilbrigðismál hefur komið okkur sem samfélagi á betri stað. Umræðan þroskast og þekking eykst. Stefnur eru skrifaðar og síðan er komið að aðgerðum. Við þekkjum öll að þegar lagt er af stað í vegferð umbóta þá fyrst koma raunverulegir brestir kerfisins í ljós. Aðgerðaráætlunin til 2030 mun því leggja áherslu á að ryðja markvisst úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir framförum í málaflokknum og styðja við umbætur, samvinnu og jafnræði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. október 2022.

Categories
Fréttir

Laugardagskaffi í Reykjanesbæ

Deila grein

07/10/2022

Laugardagskaffi í Reykjanesbæ

Það er komið að fyrsta vöfflukaffi og laugardagasfundi vetrarins hjá Framsókn í Reykjanesbæ. Bæjarfulltrúar verða á staðnum og fara yfir upphaf nýs kjörtímabils.