Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um einföldun á ferli umsókna um sérstök útgjöld vegna barns og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flýta þróun rafrænna samskipta og einfalda ferli umsókna hjá sýslumanni um sérstök útgjöld vegna barns. Áhersla verði lögð á að auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna um sérstök útgjöld.
Í greinargerð tillögunnar segir:
„Í 60. gr. barnalaga, nr. 76/2003, er kveðið á um að ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar óskað staðfestingar sýslumanns á samningi vegna útgjalda við skírn, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, sjúkdóm, greftrun eða af öðru sérstöku tilefni. Eins er hægt af sama tilefni að úrskurða það foreldri sem barn býr ekki hjá til þess að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda sem þessa. Verður að hafa uppi slíka kröfu við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.
Á www.syslumenn.is og www.island.is má finna stafrænt eyðublað um beiðni um úrskurð um sérstakt framlag til framfærslu barns sem fylla þarf út í samræmi við skilyrði laganna, þ.e. barn, málsaðila, tilefni og fjárhæð kröfu. Með ákveðnum beiðnum þurfa einnig að fylgja sérstök fylgiskjöl frá opinberum aðilum í samræmi við tilefni hverju sinni, svo sem skattframtöl, tekjuyfirlit, forsjárvottorð, gildandi ákvörðun um meðlag og yfirlit frá sjúkratryggingum vegna greiðsluþátttöku.
Flutningsmenn telja að kröfur hins opinbera til borgara um framlagningu fylgiskjala við málsmeðferð í málum barna umtalsverðar og íþyngjandi, sérstaklega á tímum þar sem stafrænar lausnir og rafræn stjórnsýsla fer vaxandi. Af þeim sökum leggja flutningsmenn til að flýta ætti og hraða þróun rafrænna samskipta í málefnum barna og auðvelda aðgengi milli ríkisaðila að upplýsingum og gögnum vegna umsókna. Sem lið í þeirri vinnu telja flutningsmenn mikilvægt að skoða hvort hægt sé að aflétta frumkvæðisskyldu málsaðila við öflun opinberra fylgiskjala og færa þá skyldu yfir á ríkið eða auka heimildir stjórnvalda til þess að staðfesta tilvist og efni upplýsinga í gegnum www.island.is. Samhliða verði tryggt að sýslumannsembættunum sé gert kleift að afla viðkomandi gagna með stafrænum hætti, eftir atvikum fyrir milligöngu Stafræns Íslands.
Umsóknir um sérstök útgjöld geta verið erfitt og íþyngjandi ferli
Flutningsmenn telja að í samræmi við tækniframfarir ætti umsækjandi samhliða því að leggja fram kröfur um sérstök útgjöld að geta veitt sýslumanni heimild til gagnaöflunar hjá öðrum stjórnvöldum sem málið varðar. Til grundvallar þessum hugmyndum má leggja hina almennu rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, markmið hins opinbera um betri þjónustu og aukið réttaröryggi.“

14/03/2023
Einföldum stjórnsýsluna og bætum þjónustu við almenningIngibjörg Isaksen, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um samræmda vefgátt leyfisveitinga og einföldun á ferli við undirbúning framkvæmda og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra í samvinnu við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að setja á laggirnar samræmda vefgátt fyrir leyfisveitingar, skipulagsferli, mat á umhverfisáhrifum og tengdar málsmeðferðir ásamt því að einfalda ferli við undirbúning framkvæmda.“
- 209. mál, þingsályktunartillaga – samræmda vefgátt leyfisveitinga og einföldun á ferli við undirbúning framkvæmda
- vegvisir.is – er ætlað að greiða aðgengi almennings að áætlunum innviðaráðuneytisins.
- Ávinningur rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli – skýrsla VSÓ ráðgjafar fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins
Í greinargerð tillögunnar segir:
„Þingsályktunartillaga þessi var áður flutt á 152. löggjafarþingi (567. mál) og er nú endurflutt óbreytt. Flutningsmenn telja mikilvægt að nýta kosti rafrænnar þjónustu til hins ýtrasta og leggja því fram tillögu þessa um samræmda vefgátt. Rafræn gátt þar sem finna mætti öll gögn í málsmeðferð vegna leyfisveitinga framkvæmda og nauðsynlegra undanfara hennar myndi einfalda ferli leyfisveitingar til muna. Vefgátt sem þessi myndi spara tíma og tryggja betra aðgengi almennings að gögnum ásamt því að auka skilvirkni og aðhald í vinnubrögðum. Með rafrænni þjónustu geta ólíkar stofnanir þá unnið í sömu gátt en með því er tryggt að gögn flæði auðveldlega milli málsmeðferða. Með rafrænni gátt og breyttu verklagi má einfalda ferlið frá því sem nú er til muna. Markmið vefgáttarinnar er að á einum stað liggi fyrir gögn í málsmeðferð vegna leyfisveitinga framkvæmda og nauðsynlegra undanfara hennar. Útgangspunktur vefgáttarinnar er leyfisveitingin, t.d. framkvæmdaleyfi, byggingarleyfi, nýtingarleyfi, rekstrarleyfi eða starfsleyfi.
Málsmeðferð leyfisveitinga og mat á umhverfisáhrifum er í dag flókið ferli sem er bæði tímafrekt og óskilvirkt. Samkvæmt niðurstöðum skýrslu sem VSÓ Ráðgjöf vann fyrir Samorku, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins um ávinning rafrænnar þjónustu í leyfisveitingaferli kemur fram að ferlið á Íslandi er óþarflega flókið. Þar segir jafnframt að skortur sé á tengslum milli málsmeðferða og þörf sé á að skerpa á hlutverki allra þátttakenda í ferlinu. Talsvert er um tvíverknað í kerfinu, sömu gögn eru lögð ítrekað fram og sömu aðilar koma oft að sama máli. Umsagnar- og kynningarferli taka mikinn tíma og þá er ógagnsæi töluvert, aðgengi að gögnum er erfitt sem og að fylgja málum eftir.
Nokkur árangur náðist við bætingu ferla tengdra umhverfismati með setningu nýrra laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, en mikilvægt er að ganga enn lengra í samþættingu og einföldun á öllum ferlum framkvæmda. Hér ber að nefna að ákveðið var að koma upp gagna- og samráðsgátt sem Skipulagsstofnun á að starfrækja og á að taka til skipulags, umhverfismats og framkvæmdaleyfis. Skipulagsgáttin sem unnið er að mun fela í sér veigamikla breytingu varðandi aðgengi að upplýsingum og skilvirkni skipulagsferla. Hún mun líka verða hvati til samræmdra vinnubragða. Hér þarf hins vegar að hafa í huga að ferli framkvæmda tekur til mun fleiri þátta en þessara og því mikilvægt að samráðsgátt taki til allra ferla frá upphafi til enda. Hér er vísað til þess að margar framkvæmdir eins og auðlindanýting ýmiss konar hefst á ferli rannsókna og gagnasöfnunar sem háð er umsóknum, leyfum, gagnaskilum, upplýsingagjöf o.fl. til opinberra aðila sem koma svo aftur inn í aðra ferla síðar í framkvæmdaferlinu. Því er mikilvægt að gagna- og samráðsgátt sé ekki bundin við Skipulagsstofnun heldur ætti hún að standa utan stofnana ef svo má segja, en allar hlutaðeigandi stofnanir sem koma að hverri og einni framkvæmd, frá upphafi til enda hennar, hafi aðgang að gáttinni. Mikilvægt er að hafa í huga að hægt er að einfalda samráðsferla og útgáfu á skýrslum án þess að skerða aðgengi almennings og hagsmunaaðila og án þess að ganga gegn Evróputilskipunum. Þannig gætu leyfisveitendur komið að valkostagreiningu í stað Skipulagsstofnunar með það að markmiði að aðeins raunhæfir valkostir komist áfram í matinu. Þá er þörf á að samræma ferli milli sveitarfélaga vegna innviðaframkvæmda sem ná yfir mörg sveitarfélög. Slíkar framkvæmdir þarf að setja í sérstakt ferli þar sem málsmeðferð er samræmd og samstillt. Líta má til annarra Norðurlanda þar sem dæmi eru um að í sérlögum sé að finna sérákvæði um mats- og skipulagsferli tiltekinna framkvæmda og gæti verið heppilegt að nýta þá leið fyrir stórar innviðaframkvæmdir.
Dæmi um vef sem veitir aðgang að opinberum gögnum er Vegvísir.is sem er nýr gagnvirkur upplýsingavefur innviðaráðuneytis. Vefurinn gefur aðgang að lykilupplýsingum um samgöngur, fjarskipti og byggðamál. Vegvísir markar tímamót og eflir stafræna þjónustu og veitir enn betri aðgang að opinberum gögnum. Á vegvísinum er hægt að fylgjast með fjármögnun, framvindu og árangri í yfir 500 verkefnum og stöðu 60 árangursmælikvarða. Á vefnum eru upplýsingar um markmið, aðgerðir, fjármagn, framvindu og árangur í þremur lykiláætlunum ráðuneytisins; samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun og byggðaáætlun.
Skoða mætti hvort vefgáttin ætti heima undir verkefninu Stafrænt Ísland þar sem markmið og áherslur eru að auka samkeppnishæfni, tryggja betri opinbera þjónustu og öruggari innviði ásamt nútímalegra starfsumhverfi. Samkvæmt markmiðum ríkisstjórnarinnar eiga stafræn samskipti að vera meginsamskiptaleið fólks og fyrirtækja við hið opinbera á Íslandi.
Þingsályktunartillaga þessi er í samræmi við ríkisstjórnarsáttmálann en þar kemur fram að ríkisstjórnin einsetji sér að vera á meðal allra fremstu þjóða á sviði stafrænnar tækni og þjónustu. Markmið sé að einfalda stjórnsýslu og bæta þjónustu við almenning ásamt því að auka gagnsæi og aðgengi að upplýsingum með nýtingu stafrænna lausna. Flutningsmenn telja að öll tækifæri til einföldunar séu til staðar og ávinningur af samræmdri vefgátt sé augljós. Því er mikilvægt að stuðla að framþróun í þessum málum í takt við breytta tíma og bætta tækni.“

14/03/2023
Í öðrum löndum hefðu allt upp í 20% heilbrigðisstarfsfólks sagt upp vegna álagsIngibjörg Isaksen, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um greiningu á samkenndarþreytu og tillögur að úrræðum og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hafi það markmið að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla geðheilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum, svo sem starfsfólks heilbrigðiskerfisins, lögreglu, slökkviliðs og í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Hlutverk starfshópsins verði að:
a. greina vandann með gagnreyndum aðferðum, þ.e. rannsaka starfstengd lífsgæði meðal fagfólks í þessum greinum með áherslu á samkenndarþreytu, annars stigs áföll, kulnun og samkenndarsátt,
b. bera niðurstöður saman við þær sem fengist hafa í öðrum löndum,
c. nýta niðurstöður til þess að bera saman starfstengd lífsgæði fagfólks á milli starfseininga og meta þar með þörfina eftir úrræðum,
d. koma með tillögur að úrræðum.
Ráðherra geri Alþingi grein fyrir niðurstöðum starfshópsins og kynni tillögur að úrræðum eigi síðar en 1. maí 2023.“
Í greinargerð tillögunnar segir:
„Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 152. löggjafarþingi (241.mál) og er nú endurflutt með örlitlum breytingum og viðbótarumfjöllun í greinargerð. Við umfjöllun málsins á 152. löggjafarþingi bárust átta umsagnir, en í þeim öllum var tekið undir markmið þingsályktunartillögunnar og þörfin á greiningu á samkenndarþreytu og tillögur að úrbótum undirstrikaðar. Í umsögnum kom fram að mikilvægt væri að starfshópurinn yrði skipaður fagfólki með sérþekkingu á sviði samkenndarþreytu, kulnunar og annars stigs áfalla. Sammerkt er með umsögnum að sterkar vísbendingar séu um að einkenni samkenndarþreytu hafi versnað til muna síðustu ár og aukning hafi verið í langvarandi veikindum.
Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að heilbrigðis- og menntakerfinu stafi ógn af samkenndarþreytu (e. compassion fatigue), annars stigs áföllum og kulnun en að samkenndarsátt (e. compassion satisfaction) sé verndandi þáttur. Í mjög einfölduðu máli er samkenndarþreyta það þegar fagfólk gefur meira af eigin orku til vinnu sinnar en það fær til baka. Sérfræðingar hafa greint samkenndarþreytu í tvennt, annars stigs áfall og kulnun. Til að útskýra nánar samkenndarþreytu þarf að byrja á því að benda á að áfall er þegar einstaklingur upplifir eða verður vitni að atburði sem hann telur að geti verið lífsógnandi eða valdið alvarlegum meiðslum hjá honum sjálfum eða öðrum. Viðbrögð hans geta verið sterk streituviðbrögð, mikill ótti, skelfing og hjálparleysi. Ákveðinn hluti þeirra sem lenda í áfalli veikist af sálrænum kvillum, t.d. áfallastreituröskun, í kjölfar áfallins. Samkvæmt skilgreiningu áfalls eru það ekki eingöngu þeir sem hafa sjálfir upplifað áfallaatburðinn sem geta þróað með sér áfallastreituröskun heldur einnig þeir sem heyra um eða verða vitni að atburðinum. Dr. Charles Figley benti á þá staðreynd 1995 að margar fagstéttir (svo sem sálfræðingar, kennarar og hjúkrunarfræðingar) þróuðu með sér einkenni sem væru sambærileg einkennum áfallastreituröskunar þegar þær yrðu ítrekað vitni að þjáningu, angist og sorg skjólstæðinga sinna og að atgervisflótti væri greinanlegur hjá fagfólki sem vinnur við það að hjálpa öðrum. Í framhaldi skilgreindi Figley annars stigs áfall, samkenndarþreytu og samkenndarsátt. Hann segir mannlegt að upplifa líkamleg og andleg viðbrögð við því að verða vitni að þjáningu annara.
Annars stigs áfall á við þegar starfsmaðurinn finnur að vinnan hefur veruleg áhrif á líðan hans. Það getur m.a. komið fram í endurupplifunum tengdum atviki sem hann vann með í starfi, óöryggi, vonleysi, forðun, kvíða, depurð og/eða tilfinningalegum doða. Annars stigs áfall getur komið í kjölfar staks atburðar eða vegna endurtekinna atburða. Þrátt fyrir að hugtakið kulnun (e. burnout) sé sífellt oftar í umræðunni hefur ekki enn skapast víðtæk sátt um skilgreiningu þess þó að einkennin séu almennt viðurkennd. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur ekki enn skilgreint kulnun sem sjúkdóm eða röskun en skilgreinir hana sem heilkenni í kjölfar langvarandi streitu á vinnustað. Þrátt fyrir að formlegri greiningar séu ekki komnar fram er kulnun raunveruleg ógn. Kulnun er talin þróast smám saman yfir langvarandi tímabil sé ekki brugðist við afleiðingum streitu eða áfalla í vinnu og hún lýsir sér m.a. í tilfinningalegri örmögnun, bölsýni, aftengingu og/eða neikvæðni gagnvart vinnufélögum og vinnustað og neikvæðu mati á eigin getu ásamt minna sjálfstrausti og minni afköstum.
Heilbrigðisstarfsmaður upplifir samkenndarsátt m.a. þegar honum líður vel í vinnu, upplifir öryggi á vinnustað, að traust ríki á meðal starfsfélaga, að það sem hann gerir skipti máli fyrir skjólstæðing hans, aðstandendur og samfélagið. Þá fær starfsmaðurinn orku til baka frá umhverfinu sem vegur á móti orkunni sem hann gaf af sér við það að hjálpa öðrum. Hægt er að stuðla að samkenndarsátt með íhlutun, t.d. með fræðslu og námskeiðum, með því að fá handleiðslu frá fagaðila, hafa skýr mörk á milli einkalífs og vinnu, gefa svigrúm fyrir slökun, hugleiðslu og núvitundaræfingar og loks með því að taka eftir því sem vel er gert og veita styrkleikum athygli. Auðveldara getur reynst að vinna með annars stigs áföll heldur en kulnun og því er mikilvægt að greina vandann sem fyrst.
Erlendar rannsóknir sýna að samkenndarþreyta meðal heilbrigðisstarfsfólks er vaxandi vandi. Þá er sérstök áhætta talin fylgja því að vinna á bráðadeildum (slysa- og gjörgæsludeildum) og krabbameinsdeildum. Fyrir yfirstandandi heimsfaraldur (COVID-19) bentu rannsóknir til þess að samkenndarþreyta væri að aukast á meðal heilbrigðisstarfsfólks og nauðsynlegt væri að fyrirtæki og stofnanir ígrunduðu mikilvægi þess að hlúa að mannauðnum. Ætla má að samkenndarþreyta sé enn meiri eftir COVID-19 þar sem öryggi fagfólks hefur verið ógnað og starfsaðstæður hafa orðið enn meira krefjandi. Það hefur sýnt sig að þegar vinnustaðir leggja áherslu á að sporna við samkenndarþreytu með íhlutun á borð við námskeið um samkenndarþreytu og samkenndarsátt þá eykst samkenndarsátt, það dregur úr samkenndarþreytu og minni líkur eru á atgervisflótta. Í desember 2021 benti Alma Möller landlæknir á að starfsfólk Landspítalans væri að þreytast. Í því samhengi benti hún á að í öðrum löndum hefðu allt upp í 20% heilbrigðisstarfsfólks sagt upp vegna álags.
Til þess að greina vandann er oft stuðst við spurningalistann Professional Quality of Life Measure (ProQOL) sem er mælitæki sem kannar bæði neikvæð og jákvæð áhrif þess að starfa við að hjálpa þeim sem hafa upplifað eða eru að upplifa einhvers konar þjáningu, angist eða sorg og/eða hafa lent í áfalli. Hérlendis eru ekki til rannsóknir þar sem ProQOL sjálfsmatskvarðinn hefur verið notaður til að rýna í starfstengd lífsgæði. Í umsögn Handleiðslufélags Íslands um málið frá 152. þingi kom fram að þriggja manna starfshópur félagsráðgjafa og handleiðara ynni að þýðingu á spurningalistanum yfir á íslensku ásamt stöðlun með leyfi frá útgefanda. Nú er búið að þýða og bakþýða spurningalistann og unnið er að því að leggja lokahönd á íslensku útgáfuna. Hún gæti því innan skamms verið tilbúin til notkunar, bæði klínískt og til rannsókna. Hugtökunum samúðarþreytu og samúðarsátt í þingsályktunartillögunni frá 152. þingi hefur verið breytt í samkenndarþreytu og samkenndarsátt í samræmi við þýðingu starfshópsins.
Í umsögn Kennarasambands Íslands kom fram að aukning langvarandi veikinda, m.a. kulnunar, hefði verið það mikil að skerða hefði þurft réttindi félagsmanna KÍ til sjúkradagpeninga vegna hættu á að Sjúkrasjóður KÍ mundi tæmast. Í umsögninni kom jafnframt fram að nýjar rannsóknir sýndu að einkenni kulnunar hefðu aukist. Hjördís Sigursteinsdóttir, dósent við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri, hefur unnið að slíkum rannsóknum frá árinu 2010. Í rannsókn frá árinu 2019 mældust 33% grunnskólakennara með engin merki um kulnun í starfi, 43,8% mældust með nokkur atriði sem einstaklingur ætti að vera meðvitaður um, 20,5% mældust með kulnunareinkenni sem þeir ættu að gera eitthvað í og 2,7% mældust svo útbrunnir að þeir ættu að leita sér tafarlaust hjálpar til að breyta stöðu sinni. Árið 2021 var sami spurningarlisti lagður fyrir og kom í ljós að hlutfall grunnskólakennara með kulnunareinkenni sem þeir ættu að gera eitthvað í var hærra en árið 2019, eða 23,6%. Einnig hafði hækkað hlutfall þeirra grunnskólakennara sem voru svo útbrunnir að þeir ættu að leita sér tafarlaust hjálpar til að breyta stöðu sinni, og var 3,6%.
Í umsögn Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að fastlega megi áætla að samkenndarþreyta sé til staðar meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga eins og víða erlendis þótt ekki hafi verið gerðar stórar rannsóknir þess eðlis hér á landi. Hins vegar hefur kulnun, sem er skilgreint afbrigði samkenndarþreytu, verið rannsökuð meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga. Rannsóknir sýna fram á að kulnunareinkenni eru að færast í aukana hjá hjúkrunarfræðingum og sérstaklega á tímum heimsfaraldurs þar sem hjúkrunarfræðingar hafa gegnt lykilhlutverki. Auk gríðarlegs álags tengdu faraldrinum hafi áfram þurft að sinna þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda og hafi þetta mikla álag farið að skila sér í uppsögnum hjúkrunarfræðinga, langvarandi veikindum og kulnun í starfi. Um 25% aukning hefur orðið á umsóknum hjúkrunarfræðinga í Styrktarsjóð Fíh 2020–2021 og hefur hún aldrei verið jafnmikil. Samkvæmt upplýsingum frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði hefur fjöldi hjúkrunarfræðinga sem sækja þjónustu hjá þeim aldrei verið eins mikill og nú.
Í samræmi við það sem rakið hefur verið hér að framan telja flutningsmenn brýnt að skoðað verði hvernig kerfið hlúir að fólkinu sem vinnur við að hjálpa öðrum. Kostnaður vegna veikinda, ofþreytu og neikvæðra afleiðinga álagseinkenna er mikill, hvort sem er fyrir einstaklinginn eða kerfið. Því er mikilvægt að hanna gagnalíkan út frá rannsóknum til þess að meta hverjir séu í meiri hættu en aðrir á að þróa með sér samkenndarþreytu og þannig mætti grípa fyrr inn í. Þörf er á að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla geðheilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum svo að hægt sé að efla aðgerðir til heilsueflingar og forvarna.“

14/03/2023
ER EINMANALEIKI VANDAMÁL MEÐAL ELDRI BORGARA?Tveir vinnuhópar eru nú að störfum sem tengjast málefnum eldri borgara á Akureyri, vinna við seinni hluta aðgerðaáætlunar í málefnum eldri borgara og endurskoðun á íbúabyggð aðalskipulags. Af þessu tilefni óskuðum við bæjarfulltrúar Framsóknar eftir umræðu um málefni eldri borgara á bæjarstjórnarfundi þann 7. mars síðastliðinn.
Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi, birti grein um áherslur okkar í skipulagsmálum eldri borgara https://www.akureyri.net/is/frettir/husnaedismal-eldri-borgara-a-akureyri-1 en hér ætla ég að reyna að stikla á stóru og taka saman helstu punkta úr ræðu minni um einmanaleika og félagslega einangrun eldri borgara.
Árið 2022 voru tæplega helmingur íbúa 60 ára og eldri í Félagi eldri borgara á Akureyri. Það þýðir þó ekki að helmingur eldri borgara sitji meira og minna heima og sæki ekki í félagsskap utan heimilis. Sú kynslóð sem er um og yfir sjötugt í dag er að stórum hluta mjög virkur hópur sem er vanur að ferðast um allan heim og duglegur í alls kyns hreyfingu. Þetta er hópur sem mun líklega þegar tíminn líður vera duglegur að nýta sér þjónustu félagsmiðstöðva Akureyrarbæjar.
Ástæða til að kanna einmanaleika meðal eldri borgara á Akureyri
Landssamband eldri borgara gerði rannsókn í samvinnu við Reykjavíkurborg árið 2016 þar sem fram kom að 17% eldri borgara væru stundum eða oft einmana en það er sá mælikvarði sem notaður er til að mæla félagslega einangrun. Í rannsókninni kom skýrt fram að sá hópur sem helst finnur til einmannaleika er fólk sem meðal annars þiggur heimaþjónustu, hefur misst maka, á veikan maka, hefur gengið í gegnum erfiða hluti, heyrir illa, er fjárhagslega illa statt og hefur ekki mikið samband við ættingja. Þetta er hópur sem er ólíklegur til að sækja í félagsmiðstöðvarnar og það sem er í boði í verkefninu Virk efri ár nema með mikilli hvatningu og sértækum aðgerðum. Því er full ástæða til að kanna einmanaleika sérstaklega meðal eldri borgara á Akureyri.
Verkefnið Virk eftir ár: https://www.akureyri.is/is/thjonusta/velferd-og-fjolskyldan/eldri-borgarar/virk-efri-ar
Félagslegi þátturinn skiptir mestu máli er kemur að lýðheilsu
Samkvæmt Dóru Guðrúnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra Lýðheilsusviðs embættis landlæknis, þá er félagslegi þátturinn lang mikilvægasti þátturinn er kemur að hamingju og vellíðan, og skiptir meira máli en heilsa og efnahagsleg gæði svo dæmi sé tekið. Eldra fólk býr mun lengur heima en áður sem þýðir að við sem sveitarfélag berum lengur og meiri ábyrgð á félagslegri örvun þeirra og ætti því vera að vera hluti af lýðheilsustefnu okkar. Það er almenn ánægja með verkefnið Virk efri ár en nú þegar því verður fylgt eftir þarf að kanna hvaða hópur þiggur þessa þjónustu í dag og fara í aðgerðir til þess að auka breidd hans í víðtæku samstarfi t.d. heimaþjónustunnar, öldungaráðs, Félags eldri borgara og starfsmanns verkefnisins Virk eftir ár.
Nú er hafin vinna við seinni aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara sem er ætlað að taka á á heimaþjónustu og samhæfingu við aðra þjónustu, sem og búsetu eldra fólks og samgöngum. Allt tengist þetta félagslegum þáttum og þörfum eldri borgara og því mikilvægt að aðgerðir til að rjúfa félagslega einangrun fái töluvert vægi í henni.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.
Heimildir: Málþing um einmanaleika eldra fólks og hvað sé til ráða haldið af Landssambandi eldri borgara árið 2020. https://www.leb.is/malthing-um-einmanaleika-eldra-folks-og-hvad-se-til-rada/

14/03/2023
Bregðast verður við tilkomu nýrra verslunarháttaHafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um um breytingu á áfengislögum, um afnám opnunarbanns á frídögum og hefur hún mælt fyrir frumvarpinu á Alþingi.
„Með frumvarpi þessu er lagt til að 2. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 6. gr. a áfengislaga falli brott en samkvæmt ákvæðunum skulu áfengisútsölustaðir vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og fyrsta mánudag í ágúst. Af ákvæðunum leiðir að áfengisútsölustöðum er óheimilt að hafa opið á sunnudögum og öðrum tilgreindum dagsetningum.
Slíkt bann við opnunartíma staða sem selja áfengi og sölu frá framleiðslustað samræmist ekki tíðaranda samfélagsins,“ sagði Hafdís Hrönn.
„Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu stuðlar að frelsi til að veita og sækja þjónustu á framangreindum dögum. Með tilkomu nýrra áfengisverslana, sérstaklega netverslana, er talið að veita þurfi áfengisútsölustöðum rýmri heimildir til að bregðast við tilkomu nýrra verslunarhátta. Frumvarp þetta gerir t.d. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins auðveldara að opna dyr sínar fyrir neytendum þegar þeim hentar best.
Að mati flutningsmanna er eðlilegt að áfengisútsölustaðir hafi rétt til að ákveða opnunartíma án þess að það sé skilyrt í lögum. Breytingin sem lögð er til með frumvarpi þessu felur einungis í sér að heimilt verður að hafa áfengisútsölustaði á fyrrgreindum dagsetningum opna, ekki er um skyldu að ræða. Það er talið vera í samræmi við sambærilegar reglur annars staðar á Norðurlöndum. Opnunartími ríkisrekinna áfengisverslana á Norðurlöndunum er almennt ákveðinn með öðrum hætti en lagasetningu.
Stjórnir, reglugerðir og ákvarðanir ráðuneyta ráða för við slíka ákvarðanatöku. Slíkt veitir þeim verslunum rýmra frelsi til að ráða sínum opnunartíma og breyta honum ef ástæða er talin vera til þess. Sem dæmi má nefna að í Svíþjóð er opnunartími hjá Systembolaget ákveðinn af stjórn félagsins og í Finnlandi er opnunartími Alko ákveðinn með reglugerð ráðherra.
Opnunarbann áfengisútsölustaða á þessum dagsetningum kann að leiða til þess að einstaklingar leiti annarra leiða til að nálgast vörurnar á þeim tíma. Þær leiðir geta m.a. verið áfengiskaup af aðilum sem framleiða og selja áfengi án tilskilinna leyfa og í bága við lög og reglur, en ákveðin áhætta getur falist í vörum sem keyptar eru á þann hátt þar sem þær eru ekki framleiddar í samræmi við reglur og viðurkennda staðla. Einnig eru slíkar vörur almennt sterkari, þ.e. innihalda meira magn af vínanda, og geta verið skaðlegar heilsu fólks.
Að mati flutningsmanna er frumvarpið til þess fallið að áfengi verði áfram selt í öruggu umhverfi þar sem eftirlit er með aldurstakmörkum og stuðlað að forvörnum. Þá telja flutningsmenn að mikilvægt sé að blása til stórsóknar í forvörnum meðal annars með því að auka það fjármagn sem eyrnamerkt er forvörnum og setja upp áætlun sem endurmetin verði með reglubundnum hætti.
Meginefni frumvarpsins snýr að því að auka þjónustu við neytendur og að enn sé viðhaft tilgreint eftirlit með sölu áfengis,“ sagði Hafdís Hrönn.
Gæti ein meðferð sparað ævilanga umönnun?

14/03/2023
Gæti ein meðferð sparað ævilanga umönnun?Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls í störfum þingsins á byltingunni í lyfjavísindum sem nú á sér stað í heiminum með gena- og frumumeðferðum. Tók hún þátt í pallborði sem formaður velferðarnefndar Alþingis um þau tækifæri og áskoranir sem felast í þessum meðferðum.
„Sannarlega áhugavert viðfangsefni. Sérhæfð gena, frumu eða vefjameðferð, á sjaldgæfum jafnt sem algengum sjúkdómum geta umbreytt lífi sjúklinga og kalla á alveg nýja hugsun í heilbrigðiskerfinu. Það þarf að endurhugsa verkferla og mat á ávinningi – út frá siðferði, fræðum og fjármögnun,“ sagði Líneik Anna.
„Áskoranirnar í ákvarðanatöku í þessum efnum eru ekki í fjarlægri framtíða, þær eru að mæta okkur hér og nú. Það sem mér er efst í huga eftir ráðstefnuna er mikilvægi þess að íslenskt samfélag og íslenska heilbrigðiskerfið sé virkur þátttakandi í breytingunum.
Í þessu verkefni álít ég að samvinna norðurlandanna sé algjör forsenda árangurs, til að greina tækifærin, meta ávinning, forgangsraða, skipta sérhæfðum verkefnum og samræma verklag. Samvinna í 28 milljóna norrænu samfélagi ætti að geta náð utan um verkefnið bæði faglega og fjárhagslega meðan árangurinn gæti hreinlega orðið tilviljanakenndur ef við vinnum hvert í okkar horni.“
„Við Íslendingar höfum allt að vinna og líka ýmsu að miðla inn í svona samstarf eins og góðri þekkingu á erfðaefni íslensku þjóðarinnar.
Ákvörðun um meðferðir af þessu tagi getur þurft að byggja á miklu breiðara heilsutæknilegumati en við hefðbundnar lyfjameðferðir og meðferðin sjálf kallar oft á þverfaglegt samtarf. Gæti ein meðferð sparað ævilanga umönnun?,“ sagði Líneik Anna að lokum.

14/03/2023
Bætum verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfaHafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál á milli kerfa barnaverndaryfirvalda, félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópnum verði m.a. falið að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins eigi síðar en í júní 2023.“
„Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Ásgerði K. Gylfadóttur um heimilisofbeldismál (452. mál á 149. löggjafarþingi) kemur fram mikill munur á fjölda heimilisofbeldismála sem skráð voru í málaskrá ákæruvaldsins á tímabilinu 1. janúar 2015 til 3. janúar 2019 eftir landshlutum. Þá segir að nýjar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hafi reynst vel, samstarf við fagaðila hafi aukist og þolendum sé tryggð betri þjónusta.
Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldið enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hver annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari forvirkar lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndarnefndar.
Markmiðið með þingsályktunartillögu þessari er að núverandi kerfi verði endurskoðað með það fyrir augum að einfalda barnaverndaryfirvöldum, félagsmálayfirvöldum, heilbrigðisyfirvöldum og menntamálayfirvöldum að miðla upplýsingum sín á milli og til lögreglu.“

14/03/2023
Tvöföldun Reykjanesbrautar bætir umferðaröryggiTvöföldun Reykjanesbrautar frá gatnamótunum við Krýsuvík að Hvassahrauni hefur verið boðin út. Það er mikið gleðiefni. Hér er um að ræða 5,6 kílómetra kafla, en þar undir eru einnig bygging brúarmannvirkja og undirganga fyrir akandi, gangandi og hjólandi. Þetta er brýn framkvæmd sem mun auka umferðaröryggi til muna og fækka slysum á þessum vegkafla. Álagið á Reykjanesbrautinni hefur aukist til muna með stærri byggð suður með sjó samhliða gríðarlegri fjölgun ferðamanna á síðustu árum.
Þær jákvæðu fréttir bárust síðan í liðinni viku að Ísland hafi bætt stöðu sína í umferðaröryggi samkvæmt nýjum bráðabirgðatölum Evrópusambandsins. Þær tölur byggja á fjölda látinna í umferðinni miðað við hverja 100.000 íbúa í ríkjum Evrópu.
Við sem þjóð erum þar í þriðja sæti á eftir Noregi og Sviðþjóð með fæst banaslys árið 2022. Hér er auðvitað ýmislegt sem hefur áhrif og má þar nefna að ökutækin eru orðin öruggari, vegir eru orðnir betri auk þess sem fræðsla og forvarnir eru að skila sér í bættri hegðun í umferðinni.

Fréttir sem þessar eru auðvitað gleðilegar; þær skipta máli og sýna það svart á hvítu að við erum á réttri leið. Það gerist ekki af sjálfu sér, heldur hefur ráðherra samgöngumála verið með sérstaka áherslu á umferðaröryggismál síðustu ár sem nú er að skila sér. Að því sögðu er nauðsynlegt að ítreka það, og taka sérstaklega fram, að hvert banaslys í umferðinni er einu banaslysi of mikið. Við þurfum því stöðugt að halda áfram og reyna með öllum tiltækum ráðum og aðgerðum að fyrirbyggja slík slys.
Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2023.

14/03/2023
Tryggjum fjölbreytt atvinnutækifæri um allt landHalla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um flutning höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stefna að flutningi höfuðstöðva Rariks ohf. á landsbyggðina og að kanna á grundvelli hagsmuna félagsins hvar væri hentugast að byggja upp höfuðstöðvarnar og efla starfsstöðvar Rariks um landið.“
Rarik ohf. er opinbert hlutafélag sem stofnað var 1. ágúst 2006 og tók þá við rekstri Rafmagnsveitna ríkisins. Meginhlutverk Rariks ohf. er að afla raforku og dreifa henni með hagkvæmum hætti til almennings og atvinnulífs. Um 90% af dreifikerfi raforku í landinu eru í umsjón félagsins, m.a. í flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, Reykjanesskaga og Vestfjarða, að því er fram kemur á heimasíðu þess. Mikilvægi Rariks ohf. fyrir samfélagið í heild er óumdeilt.
Höfuðstöðvar Rariks ohf. eru í Reykjavík. Rarik ohf. er vinnuveitandi um 200 starfsmanna, sem starfa víða um landið. Af þeim starfa um 60 manns á höfuðborgarsvæðinu. Mikill meiri hluti opinberra stofnana og hlutafélaga er á höfuðborgarsvæðinu og sömuleiðis eru flestar höfuðstöðvar opinberra stofnana og hlutafélaga þar. Þetta leiðir til þess að yfirgnæfandi fjöldi opinberra starfa stendur einungis einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu eða í nærliggjandi byggðum til boða, eðli málsins samkvæmt.
Í IX. kafla grundvallarstefnuskrár Framsóknarflokksins kemur fram að flokkurinn telji það til grundvallarréttinda að fólki sé kleift að velja sér búsetu á landinu þar sem það kýs. Til þess að uppfylla það markmið þarf að tryggja ákveðin búsetuskilyrði um allt land. Með því er m.a. átt við að tryggð séu fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land.
Með dreifingu opinberra starfa, t.d. í höfuðstöðvum Rariks ohf., mundi hið opinbera stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land. Á þann hátt er hægt að jafna búsetuskilyrði og gera fólki kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs ásamt því að koma í veg fyrir mismunun sem gerir greinarmun á fólki eftir búsetu.
Eins og nefnt er að framan hefur Rarik ohf. umsjón með 90% af dreifikerfi raforku í landinu, en það nær til Vesturlands, Norðurlands, Austurlands og Suðurlands og 43 þéttbýliskjarna víðs vegar um landið. Af þessu er ljóst að starfsemin er viðamikil og dreifð um landið allt. Finna má bækistöðvar félagsins m.a. á Selfossi, Höfn í Hornafirði, Seyðisfirði, Sauðárkróki, Siglufirði og í Ólafsvík. Meginstarfsemi Rariks ohf. fer fram á landsbyggðinni auk þess sem allar virkjanir félagsins eru þar. Þó eru höfuðstöðvar félagsins í Reykjavík. Núverandi staðsetning höfuðstöðvanna er ekki talin endurspegla starfsemina jafn vel og hægt væri.
Fjölbreyttari störf á landsbyggðina
Fólksfækkun á landsbyggðinni vegna flutninga til höfuðborgarsvæðisins hefur lengi verið meginvandamál samfélaga á landsbyggðinni. Meðal helstu ástæðna fólksfækkunarinnar er skortur á störfum og lítil fjölbreytni starfa. Atvinnuöryggi og fjölbreytni starfa tryggir stöðugleika í íbúafjölda, laðar frekar til sín nýja íbúa og stuðlar að því að ungt fólk snúi heim aftur eftir nám. Skortur á fjölbreytni skekkir hlutfall þeirra aldurshópa sem eru almennt virkastir á vinnumarkaðinum. Þetta leiðir til fækkunar íbúa sem hefur í för með sér skerðingu á útsvarstekjum sveitarfélaga.
Mikilvægt er að tryggja jöfn búsetuskilyrði um land allt. Með því að dreifa ríkisstörfum jafnt um landið er hægt að tryggja öllum landsmönnum jöfn tækifæri ásamt því að halda landinu öllu í blómlegri byggð. Það er þó aðeins gert við rétt skilyrði, sem flutningsmenn telja vera fyrir hendi í tilviki flutnings Rariks ohf. á landsbyggðina.“

14/03/2023
Ber að takmarka eignarhald erlendra aðila?Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður tillögu til þingsályktunar um eignarhald í laxeldi og hefur hún mælt fyrir henni á Alþingi.
Tillögugreinin hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að skipa starfshóp sem hafi það að markmiði að:
a. koma fram með tillögur um hvernig takmarka megi samþjöppun eignarhalds á laxeldisleyfum,
b. skoða hvort takmarka eigi eignarhald erlendra aðila á laxeldisleyfum.
Ráðherra leggi niðurstöður starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en 30. september 2023.“
„Fiskeldi á Íslandi er ung atvinnugrein í örum vexti en mikill uppgangur hefur verið í fiskeldi á heimsvísu undanfarna áratugi. Gríðarleg framþróun hefur einnig orðið í laxeldi í nágrannalöndum okkar í Norður-Atlantshafi; laxeldi er til að mynda umfangsmeira í hagkerfi Noregs en hefðbundinn sjávarútvegur. Mikilvægt er að horfa til þróunar í nágrannalöndum og nýta þá reynslu sem þar hefur orðið til svo að hægt verði að byggja upp heilbrigða starfsemi hér á landi.
Eignarhald laxeldisfyrirtækja á Íslandi hefur þróast þannig að mikil samþjöppun hefur orðið, sem getur leitt til þess að fáein fyrirtæki verði allsráðandi. Í þessum rekstri sem öðrum er stærðarhagkvæmni mikilsverð en við ákveðna stærð verða til óæskileg áhrif, m.a. á atvinnuöryggi þeirra sem starfa í greininni. Lög um fiskeldi, nr. 71/2008, setja ekki skorður við framsali á rekstrarleyfum í laxeldi, en framsal, leiga og veðsetning á rekstrarleyfum er þó háð samþykki Matvælastofnunar. Hugsanlegt er að einn aðili eignist öll gild rekstrarleyfi og stýri þannig allri framleiðslu á eldisfiski og seiðaeldi á sjó og landi. Við það skapast sú hætta að einn aðili stjórni stórum landsvæðum með þeim afleiðingum að samfélög, sveitarstjórnir og stjórnvöld eigi meira undir honum en góðu hófi gegnir. Þá ná samkeppnislög, nr. 44/2005, illa utan um samþjöppun í laxeldi á Íslandi þar sem laxeldisfyrirtæki selja meginþorra framleiðslu sinnar úr landi. Flutningsmenn benda á að í fiskeldislögum í Færeyjum er að finna ákvæði sem banna það að lögaðili eignist meira en helming útgefinna laxeldisleyfa. Þar er einnig að finna ákvæði um að enginn lögaðili, sem er ekki búsettur í Færeyjum, geti átt meira en 20% af atkvæðisbærum hlutum í fyrirtækjum sem hafa laxeldisleyfi. Rætt er um það í Noregi að leiða sambærileg ákvæði í lög.
Laxeldisfyrirtæki á Íslandi eru í meirihlutaeigu útlendinga og útlit fyrir verulega samþjöppun á því eignarhaldi. Í íslenskum lögum er ekki að finna takmarkanir á eignarhaldi erlendra aðila í fiskeldi. Flutningsmenn telja brýnt að athugað verði hvort takmarka beri slíkt eignarhald erlendra aðila. Líta má til þess að í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, er ákvæði um að fiskveiðar í íslenskri efnahagslögsögu séu eingöngu heimilar fyrirtækjum sem eru ekki í eigu erlendra aðila að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé. Flutningsmenn telja mikilvægt að kannað verði hvort setja þarf sambærilegar reglur að því er snertir laxeldi.
Flutningsmönnum þykir áríðandi að tryggt verði með lagasetningu að laxeldi á Íslandi verði ekki í eigu örfárra aðila, að fjölbreytni ríki í greininni og að eignarhald verði staðbundið. Miklu varðar að samhliða uppbyggingu laxeldis á Íslandi verði gengið úr skugga um að atvinnulíf og mannlíf á viðkomandi svæðum blómstri. Vissulega er ekki unnt að tryggja með dreifðu eignarhaldi að slátrun eða vinnsla eldisfisks verði á tilteknum stað. Með betri tengingu við byggðina sem í hlut á verða þó auknar líkur til þess að ákvarðanir verði teknar með tilliti til hennar. Við framþróun laxeldisfyrirtækja á Íslandi þarf að horfa til byggðasjónarmiða og sjá til þess að eldið skili tekjum til þess samfélags þar sem fyrirtækin eru staðsett. Flutningsmenn eru hlynntir laxeldi á Íslandi en telja þýðingarmikið að greinin verði ekki í eigu örfárra aðila. Laxeldi á Íslandi verður að vaxa og dafna í sátt við umhverfi og samfélag.“