Categories
Greinar

Íslenskan er okkar allra

Deila grein

16/11/2022

Íslenskan er okkar allra

Íslensk tunga er dýrmæt auðlind sem á stóran þátt í að móta okkar sterka samfélag. Tungumálið er tenging við söguna og mikilvægur hluti af menningarlegu fullveldi þjóðarinnar. Upp er runnin dagur íslenskrar tungu þar sem við minnum okkur á það grundvallarhlutverk sem tungumálið okkar gegnir fyrir sjálfsmynd þjóðarinnar.

Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin sett íslenskuna í öndvegi með fjölþættum aðgerðum. Þannig nam fjárfesting í málefnum íslenskunnar á síðasta kjörtímabili rúmum 10 milljörðum kr. Í núverandi stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er áfram lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu.

Ráðherranefnd um íslensku 

Í vikunni raungerðist ein varða á þeirri vegferð þegar að ný ráðherranefnd um íslenska tungu var sett á laggirnar. Í henni eiga fast sæti forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Nefndinni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins. 

Áfram íslenska 

Þegar litið er yfir farinn veg hefur margt áunnist til þess að styðja við tungumálið okkar. Sú vinna hefur grundvallast á meðal annars á þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi en hún var samþykkt á Alþingi 2019. Í kjölfarið fylgdi aðgerðaáætlun fyrir árin 2019-2022 undir yfirskriftinni „Áfram íslenska“.

Meginmarkmið hennar var að íslenska væri notuð á öllum sviðum samfélagsins, íslenskukennsla og menntun yrði efld á öllum skólastigum og að framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi yrði tryggð með því að gera tækjunum okkar kleift að eiga í samskiptum okkar á íslensku. Aukinheldur var fjármunum forgangsraðað í að styðja skapandi greinar þar sem íslenska er aðalverkfærið. Bókaútgáfa var efld með nýju stuðningskerfi og hefur fjöldi útgefinna bóka á íslensku aukist mjög. Sérstakur barnabókasjóður var settur á laggirnar til þess að fjölga barnabókum á íslensku og einkareknir fjölmiðlar studdir enda gegna þeir mikilvægu hlutverki í að miðla efni á móðurmálinu.

Hugmyndir og samtakamáttur 

Á málþingi um málefni íslenskunnar í upphafi vikunnar, þar sem ráðherranefnd um íslensku var kynnt, voru stjórnvöld brýnd til áframhaldandi aðgerða í þágu íslenskunnar. Þar komu fram margar góðar hugmyndir og gagnlegar vangaveltur – meðal annars frá fulltrúum yngri kynslóða sem meðal annars töluðu ötullega fyrir bættu aðgengi að bæði mynd- og lesefni á íslensku fyrir sinn aldur og áhugasvið. Skýrt ákall mátti finna í erindum á málþinginu að huga þyrfti betur að íslenskukennslu fyrir fullorðna, þá sér í lagi talþjálfun og jafnframt auka almennt umburðarlyndi fyrir íslensku sem töluð er með hreim. Eða líkt og frú Vigdís Finnbogadóttir áréttaði í sinni hugvekju á málþinginu – við erum öll með hreim, öll tölum við tungumálið með okkar eigin blæbrigðum.

Næstu skref

Stjórnvöld eru staðráðin í að halda áfram að efla íslenskuna og verður ný þingsályktunartillaga og uppfærð aðgerðaáætlun þess efnis lögð fram á komandi vorþingi. Í þeim verður meðal annars boðað stóraukið aðgengi að íslenskukennslu fyrir útlendinga, áframhaldandi þróun máltæknilausna sem nýtast fólki á öllum aldri bæði í leik og starfi og vitundarvakning um mikilvægi þess að íslenskan verði sýnilegri í samfélaginu.

Á undanförnum vikum hafa okkur birst ýmsar fréttir um aukna samfélagsvitund í þá veru. Má þar til dæmis nefna stefnubreytingu Isavia um að merkingar í Flugsstöð Leifs Eiríkssonar verði fyrst á íslensku í stað ensku og fyrirmyndar framtak sama fyrirtækis um að veita erlendu starfsfólki aðgang að íslenskukennslu á vinnutíma.

Ég hvet fólk og fyrirtæki til þess að taka virkan þátt í þessari vegferð. Það er sameiginlegt verkefni okkar sem samfélags að tryggja að móðurmálið standi tímans tönn og verði á vörum okkar um aldur og ævi – því íslenskan er okkar allra.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Vörðusteinar

Deila grein

16/11/2022

Vörðusteinar

Verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hefur reynst vel, samstarf við fagaðila heftur aukist og þolendum verið tryggð betri þjónusta. Þolendur heimilisofbeldis veigra sér oft við því að tilkynna lögreglu um ofbeldi enda gerandinn oft einstaklingur sem er nákominn þolanda. Í smærri sveitarfélögum þar sem íbúar þekkja flestir hvern annan getur það ekki síður verið þungbært að tilkynna um heimilisofbeldi. Því er mikilvægt að þau stjórnvöld sem starfa náið með íbúunum hafi víðtækar heimildir til þess að eiga frumkvæði að því að grípa inn í og eiga samstarf við önnur stjórnvöld um viðbrögð við slíkum brotum. Þótt verklagsreglur ríkislögreglustjóra hafi tryggt samstarf lögreglu við önnur stjórnvöld þarf samstarfið einnig að verða formfast í hina áttina, þ.e. með tilkynningum félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntastofnana til lögreglu og með samstarfi þeirra á milli að frumkvæði annarra yfirvalda. En til þess að slík upplýsingagjöf geti átt sér stað með skilvirkum hætti, með hagsmuni brotaþola að leiðarljósi, þarf skýrari lagaheimildir til upplýsingamiðlunar. Allt samráð milli stofnana samfélagsins þarf að eiga sér stað með þátttöku og samþykki brotaþola. Þegar ástæða er til að ætla að barn hafi orðið vitni að heimilisofbeldi eða orðið þolandi þess þarf þó að tryggja að skilyrði um þátttöku og samþykki brotaþola komi ekki í veg fyrir inngrip stjórnvalda sem sé andstætt hagsmunum barnsins. Kanna þarf hvort rýmka þurfi og skilgreina betur tilkynningarskyldu stjórnvalda, sem hafa afskipti af málum barna, til barnaverndarnefndar og lögreglu og kerfin utan um barnið geti miðlað upplýsingum sín á milli til að grípa börnin betur í þeim aðstæðum sem þau eru því miður alltof oft sett í.

Fleiri steinar styrkja vörðuna.

Í lok síðustu viku bárust fréttir frá Heilbrigðisráðuneytinu um að unnið sé að því að innleiða samræmt verklag og bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins við þolendur heimilisofbeldis. Markmið þeirrar vinnu er að þolendum heimilisofbeldis verði tryggð sem best þjónusta og þjónustan þróuð og efld til lengri tíma litið. Vinnan er gerð í samstarfi við embætti Landlæknis í kjölfar niðurstaðna skýrslu sem unnin var fyrir ráðuneytið á síðasta ári. Skýrslan fól í sér mat á því hvernig heilbrigðisþjónusta mætir ólíkum þörfum kynjanna og tillögur að úrbótum. Ein tillagan var ákvörðun um að móta samræmt og bætt verklag. Þjónustan felur m.a. í sér þær breytingar að framvegis geti allir þeir sem þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar í kjölfar heimilisofbeldis fengið tilvísun til félagsráðgjafa sem hefur sérfræðiþekkingu í málaflokknum. Einnig bætist við boð um þjónustu sálfræðings. Þá er hafin vinna við að setja upp rafrænt skráningarform í sjúkraskrá sem áætlað er að verði komið inn hjá öllum heilbrigðisstofnunum á næsta ári. Þar verða skráðar niðurstöður á réttarlæknisfræðilegum skoðunum á þolendum ofbeldis þegar svo ber við og framkvæmdar eru í alvarlegustu tilfellunum.

Hér er um að ræða mikilvægan stein í vörðuna og þetta ýtir áfram þingmáli sem ég lagði fram um að starfshópur yrði settur á fót sem yrði falið að móta tillögur um bætt verklag um miðlun upplýsinga um heimilisofbeldi á milli kerfa. Markmiðið með þingsályktunartillögunni er að endurskoðun fari fram á núverandi kerfum með það fyrir augum að einfalda upplýsingamiðlun milli barnaverndaryfirvalda, félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og menntamálayfirvalda við að miðla upplýsinga milli stofnana og til lögreglu. Skoðanir og skráning áverka í heimilisofbeldismálum og skráning sönnunargagna sem fást hjá heilbrigðisyfirvöldum þurfa að fara fram með óyggjandi hætti svo þær upplýsingar séu nothæfar ef til sakamáls kemur.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

Höfum við næga orku?

Deila grein

15/11/2022

Höfum við næga orku?

„Hæstv. forseti. Við höfum næga orku. Það er setning sem við fáum mjög oft að heyra. Og það er alveg rétt, við höfum næga orku ef við ætlum að halda áfram að keyra alla flutninga á mengandi jarðefnaeldsneyti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að fara í orkuskipti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að veita fyrirtækjum tækifæri til að styrkja eigin innviði og tryggja samkeppnishæfni sína og minnka kolefnisspor sitt á alþjóðavísu.

Þannig að ef við ætlum að fara í orkuskiptin, taka þátt í alþjóðlegum verkefnum og minnka kolefnisspor heimsins þá sé ég ekki annað en við séum ekki með næga orku. Við erum ekki sjálfbær í orkuframleiðslu og þurfum að geta farið í rannsóknir, skoðað og rætt þá orkukosti sem við höfum á Íslandi. Orkukostirnir sem við höfum eru misjafnir að gæðum og sumir munu aldrei verða að veruleika. En það er mikilvægt að við ræðum þær hugmyndir sem koma fram.

Rannsóknir á orkukostum skipta miklu máli til þess að við vitum um hvað við erum að tala og um hverja við erum raunverulega að taka ákvörðun. Það má nefna dæmi um rannsóknir á náttúru, á hljóðvist og nærliggjandi samfélagi. Þetta eru hlutir sem þarf að rannsaka áður en tekin er ákvörðun um að virkja og því er mjög mikilvægt að gera rannsóknir.

Loftslagsmál eru ekki eitthvað sem við leysum á eyju úti í Atlantshafi en við þurfum að geta lagt okkar af mörkum fyrir heimsbyggðina því að þetta er alþjóðlegt vandamál. Hvert skref skiptir máli,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi..

Categories
Fréttir

Vetrardagskrá Framsóknar í Reykjanesbæ

Deila grein

14/11/2022

Vetrardagskrá Framsóknar í Reykjanesbæ

Öflugt starf er á vegum Framsóknar í Reykjanesbæ og fram í desember eru eftirfarandi viðburðir á dagskrá að Hafnargötu 62.

Vöfflukaffi laugardaginn 19. nóvember Kl. 10:30- 12:00

Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknar og Eva Stefánsdóttir, fulltrúi í menningar- og atvinnuráði Reykjanesbæjar

Vöfflukaffi laugardaginn 26 nóvember Kl. 10:30-12:00

Það verður fjölmenni sem tekur á móti gestum þann 26. nóvember en þá verða þingmennirnir Jóhann Friðrik Friðriksson og Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir með okkur og fara yfir störf þingsins. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi og varaþingmaður Framsóknar og Friðþjófur H Karlsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Reykjanesbæjar fara yfir gang mála í sveitarfélaginu.

Jólakaffi Framsóknar í Reykjanesbæ laugardaginn 3. desember kl. 10:30- 12:00

Þær Bjarney Rut Jensdóttir, formaður lýðheilsuráðs og Magnea H. Bjarnadóttir, formaður Framsóknarfélags Reykjanesbæjar taka á móti gestum í jólakaffi.

Stjórn Framsóknar í Reykjanesbæ býður gesti hjartanlega velkomna á viðburðina framundan.

Mynd: samband.is 14. nóv. 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Fréttatilkynning

Deila grein

13/11/2022

Fréttatilkynning

Nú um helgina fór fram haustfundur miðstjórnar Framsóknar og var fundurinn haldinn á Ísafirði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, talaði meðal annars í opnunarræðu sinni um þá einstöku stöðu sem við búum við á heimsvísu þegar kemur að orkumálum. Hann benti á að staða Íslands sé einstök, því við höfum tækifæri til, ef rétt er á haldið, að ná fullkomnu orkusjálfstæði. Ísland geti orðið með fyrstu þjóðum til að framleiða alla orku innanlands, spara gjaldeyri og byggja upp nýjan öflugan grænan iðnað. Þá sagði Sigurður Ingi að orkusjálfstæði sé einnig mikilvægt þegar kemur að fæðuöryggi.

Sigurður Ingi fjallaði um mikilvægi þess að ná sátt um að stærri hluti af ofurhagnaði einstakra fyrirtækja renni til þjóðarinnar og nauðsyn þess að gera breytingar á kerfinu í sjávarútvegi, að staðfesta í stjórnarskrá að fiskurinn í sjónum sé eins og aðrar auðlindir landsins í eigu þjóðarinnar. Þá fjallaði Sigurður Ingi um húsnæðismál, enda snúist þau ekki bara um öryggi, lífsgæði og jöfnuð, heldur séu þau einnig stórt efnahagsmál. Því þurfi að byggja miklu meira til að koma jafnvægi á húsnæðismarkaðinn.

Sigurður Ingi dró fram helstu áherslumál ráðherra, breytingar á heilbrigðiskerfinu undir styrkri stjórn Willums Þórs Þórssonar, heilbrigðisráðherra. Hann benti á að framundan séu áskoranir í heilbrigðismálunum, þjóðin sé að eldast og því fylgi verkefni sem ekki sé hægt að horfa fram hjá. Þar spila forvarnir lykilhlutverk og Willum hafi þar stigið mikilvæg skref, síðast með mikilvægri umræðu á Heilbrigðisþingi sem helgað var lýðheilsu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, vinnur áfram að málefnum barna sem ekki aðeins hefur orðið forgangsmál hans heldur einnig snert huga þjóðarinnar. Nú er unnið að nýrri heildstæðri löggjöf um skólaþjónustu sem mun tryggja jafnræði meðal allra, óháð búsetu og skólastigi. Þá hefur Ásmundur Einar tekið þétt utan um íþróttamálin og undirbúningur nýrrar þjóðarhallar er í fullum gangi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur verið sterkur talsmaður menningar og lagt áherslu á skapandi greinar, þær skipta máli fyrir listamenn sem og þjóðarbúið. Stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar er að verða að veruleika, en síðasta vor fékk Lilja samþykkt á Alþingi frumvarp sem kvað á um hækkun endurgreiðslu stærri kvikmyndaverkefna úr 25% í 35%. Þá á ferðaþjónustan stóran þátt í viðspyrnu efnahagslífsins eftir heimsfaraldurinn, ráðherra ferðamála veit það og vinnur því nú að aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu til ársins 2030 þar sem þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar er viðurkennt og sérstök áhersla lögð á dreifingu ferðamanna um landið, lengingu ferðatímabils á kaldari svæðum og áframhaldandi innviðauppbyggingu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður flokksins, fór meðal annars í ræðu sinni yfir stöðu efnahagsmála. Hún kom inn á að horfur á heimsvísu séu að versna en þrátt fyrir það sé staðan hér á landi óvenju góð, verðbólga á Íslandi sé næst lægst á EES svæðinu á eftir Sviss. Þar spili stórt hlutverk hversu sjálfbær við erum í orkumálum og mikilvægt sé að halda áfram á því sviði. Þá talaði Lilja um ofurhagnað bankanna og mikilvægi þess að ná utan um hann svo hægt sé að ná fram sátt í samfélaginu.

Categories
Greinar

Kjálki alheimsins

Deila grein

12/11/2022

Kjálki alheimsins

Vest­fjarðakjálk­inn er stór­brot­inn í alla staði. Í vik­unni heim­sótti ég Vest­f­irði til þess að eiga sam­tal við heima­menn um tæki­færi svæðis­ins, sér í lagi á sviði ferðaþjón­ustu og menn­ing­ar­mála. Með til­komu nýs menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is fyrr á ár­inu urðu tíma­bær­ar breyt­ing­ar að veru­leika. Í fyrsta sinn heyra þannig menn­ing, ferðaþjón­usta og viðskipti und­ir einn og sama fagráðherr­ann. Mála­flokk­arn­ir flétt­ast sam­an með ýmsu móti hring­inn í kring­um landið.

Sem at­vinnu­veg­ir skapa þess­ir mála­flokk­ar gríðarleg verðmæti fyr­ir þjóðarbúið. Þannig verða rúm­lega 40% af gjald­eyris­tekj­um þjóðar­inn­ar til í gegn­um ferðaþjón­ustu svo dæmi sé tekið. Með réttu hef­ur ferðaþjón­ust­an stund­um verið kölluð stærsta sjálfsprottna byggðaaðgerð Íslands­sög­un­ar en störf­um í grein­inni hef­ur fjölgað gríðarlega á fáum árum, en tugþúsund­ir starfa í grein­inni.

Einn af lær­dóm­um heims­far­ald­urs­ins var hversu mik­il­vægt það var að taka vel utan um ferðaþjón­ust­una og styðja fólk og fyr­ir­tæki í grein­inni í gegn­um far­ald­ur­inn. Stjórn­völd gripu strax til um­fangs­mik­illa aðgerða með það að mark­miði að verja þá þekk­ingu, reynslu og innviði sem eru ferðaþjón­ust­unni nauðsyn­leg­ir í viðspyrnu henn­ar eft­ir far­ald­ur­inn. Kröft­ug viðspyrna grein­ar­inn­ar í ár á meðal ann­ars stærst­an þátt í því að af­koma rík­is­sjóðs verður rúm­um 60 millj­örðum betri í ár en upp­haf­lega var gert ráð fyr­ir.

Það er því mik­il­vægt að hlúa að ferðaþjón­ustu og menn­ingu með mark­viss­um hætti um allt land í sam­starfi við heima­menn á hverju svæði fyr­ir sig. Það er uppörv­andi að finna fyr­ir þeirri bjart­sýni sem rík­ir hjá aðilum í þess­um grein­um á Vest­fjörðum. Vest­f­irðir voru til að mynda efst­ir á lista yfir svæði, borg­ir eða lönd til að heim­sækja árið 2022 í ár­legu vali hin virta ferðabóka­út­gef­anda Lonely Pla­net. Mý­mörg tæki­færi fel­ast í viðkenn­ingu sem þess­ari, sem get­ur reynst mik­il lyfti­stöng fyr­ir ferðaþjón­ustu og menn­ingu á svæðinu sem og fyr­ir Ísland sem áfangastað.

Má segja að val Lonely Pla­net hafi strax haft áhrif en ferðaþjón­ustuaðilar láta vel af aðsókn ferðamanna til Vest­fjarða í sum­ar. Dreif­ing ferðamanna um landið er mik­il­væg og það er sam­eig­in­legt verk­efni rík­is, sveit­ar­fé­laga og fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu að nýta tæki­færi líkt og þetta til að stuðla að fleiri heim­sókn­um ferðamanna til Vest­fjarða og annarra kald­ari ferðamanna­svæða utan há­anna­tíma. Til að svo megi verða þarf meðal ann­ars að treysta innviði og tryggja greiðar vega­sam­göng­ur að helstu nátt­úruperl­um yfir vetr­ar­tím­ann, hvetja til fjár­fest­inga í hót­el­um og afþrey­ingu ásamt því að vinna mark­visst með sér­stöðu hvers svæðis fyr­ir sig.

Það er til mik­ils að vinna ef rétt er haldið á spil­um. Ég mun leggja mig alla fram við að vinna náið með hagaðilum til að stuðla að vexti ferðaþjón­ustu um allt land og að fleiri geti starfað við grein­ina á árs­grund­velli.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 12. nóvember 2022.

Categories
Greinar

SOS allt í neyð

Deila grein

10/11/2022

SOS allt í neyð

Í þessari viku mælti ég fyrir tillögu minni til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Með tillögunni er matvælaráðherra falið af Alþingi að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu á hverjum tíma.

 Mikilvægi endurskoðunar

Á undanförnum árum höfum við orðið verulega vör við það að ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geti haft það í för með sér að flutningsleiðir til landsins geti stöðvast. Það er því ekkert launungamál að við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem lögð var fyrir Alþingi í byrjun október sl. er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur, leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma. Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Útfært fyrirkomulag gæti falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf mismunandi leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða. Í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér 2021 var fjallað um fæðuöryggi og hvað þarf til að uppfylla viðmið þess efnis. Þar kemur fram að við stöndum okkur að mörgu leyti vel en við erum og verðum áfram háð innflutningi á ákveðnum vörum sem og aðföngum til að geta framleitt ýmsar vörur innan lands.

Fæðuöryggi landsins

Við þurfum að taka ríkari ábyrgð vegna fæðuöryggis landsins. Byggja upp frekari innviði og fyrirkomulag sem gerir það að verkum að við eigum neyðarbirgðir af þeim matvælum sem við getum framleitt hér á landi hverju sinni. Þessi umræða hefur kviknað oft undanfarin ár en minna hefur orðið úr aðgerðum til þess að mæta henni. Nú er kominn tími til að koma sér að verki í þessum málum og er ég þess fullviss að hæstvirtur matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, muni taka þessari tillögu minni vel og hrinda slíkum aðgerðum í framkvæmd.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Deila grein

10/11/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins

Haldinn í Edinborgarhúsinu, Ísafirði 12.-13. nóvember 2022

Dagskrá:

Laugardagur 12. nóv.

12:15 – Setning miðstjórnarfundar, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

12:20 – Ræða formanns Framsóknar, Sigurðar Inga Jóhannssonar

12:45 – Ræða varaformanns Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir

13:00 – Almennar umræður

15:30 – Kaffihlé

16:00 – Inngangur að umræðum um innra starf – Ásmundur Einar Daðason ritari Framsóknar

16:10 – Vinnuhópar um innra starf

18:30 – Fundi frestað til morguns

19:30 – Kvöldverðarhóf

Sunnudagur 13. nóv.

09:30 – Formaður sveitarstjórnarráðs flytur skýrslu

09:40 – Formaður launþegaráðs flytur skýrslu

09:50 – Formaður fræðslu og kynningarnefndar flytur skýrslu

10:00 – Fulltrúi málefnanefndar flytur skýrslu

10:10 – Kaffihlé

10:20 – Umræður um innra starf

12:50 – Kosningar í fastanefndir miðstjórnar, málefnanefnd, fræðslu og kynningarnefnd

12:20 – Hádegisverðarhlé

12:50 – Afgreiðsla mála

13:20 – Önnur mál

13:35 – Fundarslit

Categories
Greinar

Að dansa í kringum gullkálfinn

Deila grein

10/11/2022

Að dansa í kringum gullkálfinn

Íbúar þessa lands hafa á síðustu misserum og árum tekist á við fordæmalausa tíma og aðstæður. Alheimsfaraldur skall á með harkalegum afleiðingum fyrir ríki heims þar sem fjölskyldur, heimili og fyrirtæki kljást enn við afleiðingarnar.

 Í kjölfarið kom svo stríð í Evrópu, eitthvað sem flest okkar töldu heyra sögunni til og nær óhugsandi að slíkur atburður gæti endurtekið sig. Ég tel því rétt, í ljósi þess, að höfða hér til samvisku banka og tryggingafélaga sem með aðgerðum sínum og stefnu geta haft mikil áhrif á lífskjör fólks í landinu.

Kjaraviðræður

Fram undan eru kjaraviðræður og allar líkur eru á að þær verði nokkuð þungar. Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur hækkun útgjalda hjá fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði numið allt að 128.607 krónum á mánuði ef miðað er við útgjöld hennar frá fyrra ári. Þetta eru verulega, verulega háar tölur, og til það sé hægt að fleyta íslenskum fjölskyldum í gegnum núverandi ástand þarf meira til en að ríkið komi inn með aðgerðir. Hér þurfa allir að líta í sinn eigin barm og hugsa með sér hvað hægt sé að gera til að koma samfélaginu öllu á þann stað sem við viljum vera. Þá tel ég rétt að horfa sérstaklega til þeirra sem oft eru kölluð breiðu bökin í daglegu tali.

Iðgjöld hafa hækkað…

Iðgjöld tryggingafélaga hafa hækkað mikið á síðastliðnum árum á sama tíma og tryggingafélög sitja á milljarða bótasjóði. Ábyrgð tryggingarfélaga á heimils bókhald íslenskra heimila er mikil. Í samtölum mínum við fólk hef ég heyrt að ekki sé óeðlilegt að fjölskyldur séu að greiða á bilinu 40-55 þúsund krónur á mánuði fyrir líf-, bíla og heimilistryggingar. Það sjá allir sem sjá vilja að hér er um að ræða verulegar upphæðir þegar þær eru settar í samhengi við önnur útgjöld sem meðaltalsfjölskyldan þarf að greiða. Þá tek ég sérstaklega út barnafjölskyldur sem fyrir utan að greiða af húsnæðislánum eða leigu þurfa einnig að greiða leikskólagjöld, fæðiskostnað í skólum, íþróttaæfingar o.s.frv. Það getur ekki verið að við ætlum okkur að stefna þangað sem samfélag að tryggingar séu aðeins á færi þeirra efnameiri.

…Og bankarnir skila miklum hagnaði

Þá birtu Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki uppgjör sitt í október vegna fyrstu níu mánaða ársins. Þar kemur fram að samanlagður hagnaður þeirra á tímabilinu var 50,2 milljarðar króna. Það má segja það með kaldhæðni að það sé vissulega minni hagnaður en árið á undan en arðsemin er yfir markmiði hjá öllum nema Landsbankanum sem stendur þó alveg ágætlega.

Í þessu samhengi er þó ánægjulegt að segja frá því að menningar- og viðskiptaráðherra hefur skipað vinnuhóp til að greina gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna. Tilgangur þessarar vinnu er að kanna hlut þjónustu- og vaxtagjalda, vaxtamun og hvers konar aðra gjaldtöku af viðskiptavinum í arðsemi bankanna. Markmiðið er að sjá svart og hvítu hvort íslensk heimili greiði meira fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu en önnur heimili á Norðurlöndunum. Ég bind miklar vonir við þessa vinnu, því ef auka á samkeppnishæfni landsins þá þarf rekstur heimilanna í landinu að vera samkeppnishæfur.

Að lokum, fer ekki betur á því að þessi stöndugu fyrirtæki myndu stíga ölduna með almenningi í landinu í stað þess að dansa í kringum gullkálfinn.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Bættari heilsa með góðu heilsulæsi

Deila grein

09/11/2022

Bættari heilsa með góðu heilsulæsi

Heilbrigðisráðherra hefur boðað til heilbrigðisþings fimmtudaginn 10. nóvember á Hilton Reykjavík Nordica. Að þessu sinni er heilbrigðisþingið helgað lýðheilsu og er öllum opið. 

Lýðheilsuþingið er haldið undir sömu formerkjum og heilbrigðisþingin sem haldin hafa verið árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna var í mótun. Á þinginu að þessu sinni verður lögð sérstök áhersla á allt það sem við sem einstaklingar getum gert til þess að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Með því að helga þingið í ár lýðheilsu er þeim áherslum sem fram koma í nýrri heilbrigðisstefnu fylgt eftir með áherslu á innleiðingu hennar en stefna til ársins 2030 var samþykkt á síðasta löggjafarþingi. 

Á þinginu verður einnig farið yfir hvernig stjórnvöld og stofnanir í samfélaginu geta skapað sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum stigum æviskeiðsins. Um þessar mundir er að störfum verkefnahópur sem vinnur að mótun aðgerðaáætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu og afrakstur heilbrigðisþingsins á fimmtudaginn mun án efa nýtast við þá vinnu.

Heilsan í dag skiptir máli fyrir framtíðina

Öflugt og gott heilbrigðiskerfi skiptir gríðarlega miklu máli þegar kemur að heilsufari þjóðarinnar og þar koma til álita margir áhrifaþættir. Um langt skeið hefur verið virk samvinna á milli Embættis landlæknis og fjölmargra sveitarfélaga um verkefnið Heilsueflandi samfélag. Sveitarfélögin hafa í auknum mæli lagt áherslu á málaflokkinn og ráðið lýðheilsufulltrúa til starfa. Sveitarfélögin eru m.a. að leggja áherslu á heilsueflandi umhverfi s.s. hjóla- og gönguleiðir, næringu barna í skólum, forvarnir og heilsueflingu eldra fólks svo eitthvað sé nefnt.

Efling lýðheilsu er þverfaglegt verkefni þar sem árangurinn byggist á samvinnu, sannreyndum aðferðum og skýrri stefnumörkun stjórnvalda. Út frá arðsemi skilar löggjöf mestum heilsufarslegum ábata. Út frá þeim rökum er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld meti einnig áhrif löggjafar og stjórnvaldsákvarðana á heilsu landsmanna. 

Við erum sem þjóð að verða meðvitaðri um þá þætti sem stuðla að bættari heilsu okkar. Með því að efla heilsulæsi enn frekar má auka þekkingu og skilning á því hvaða áhrif ólíkir valkostir hafa. það er ótvíræður hagur okkar allra að við leggjum áherslu á að fyrirbyggja sjúkdóma og gera þjóðinni auðveldara fyrir að velja heilbrigðan lífsstíl. Heilbrigðisþing tileinkað lýðheilsu er sannarlega skref í rétta átt.

Heilsa eins, hagur allra!

Jóhann Friðrik Friðriksson, Alþingismaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2022.