Categories
Greinar

Það má ekki verða of dýrt að spara

Deila grein

04/05/2022

Það má ekki verða of dýrt að spara

Fjármál sveitarfélaga fá ekki endilega mesta plássið í umræðunni fyrir kosningar. Flest vitum við þó að sterkur fjárhagur er nokkuð augljós og mikilvægur undirliggjandi þáttur allra málaflokka. Vissulega eru til undantekningar, en almennt séð er fjárhagsstaða sveitarfélaga á Íslandi ekki sterk. Hún einkennist oft af hárri skuldsetningu og litlum afgangi þegar búið er að greiða af lánum og ráðstafa fjármunum til lögbundinna verkefna.

Í Kópavogi hefur aðhalds verið gætt undanfarin ár í rekstri og skuldsetningu bæjarins. Þar hefur mikil áhersla verið lögð á að lækka skuldir sem hlutfall af umfangi rekstrar og hefur það gengið vel á meirihluta vakt Framsóknar í bænum.

Minni lántökur hafa eðlilega leitt til þess að fjárfestingar hafa verið fjármagnaðar úr rekstrinum án þess að bætt sé í heildarskuldir. Það er mjög jákvæð þróun sem mörg sveitarfélög mættu taka sér til eftirbreytni.

En stöldrum aðeins við. Getum við ef til vill verið skynsamari í fjárfestingum? Vissulega. Því sú hætta sem skapast þegar of mikillar íhaldssemi er gætt á skuldahliðinni, er að ef reksturinn skilar ekki nægjanlega miklum arði þá verður ekki aflögu nægt fjármagn til viðhalds og framkvæmda innviða. Færa má rök fyrir að þessi staða sé uppi hjá Kópavogsbæ núna því það vantar nokkuð upp á að veltufé frá rekstri bæjarins standi undir nýframkvæmdum og viðhaldi eigna bæjarins.

Þessi staða er mjög varasöm til lengri tíma, einkum er varðar viðhaldsþætti mannvirkja. Þar er bærinn í sömu stöðu og við í okkar heimilisrekstri. Ef við vanrækjum viðhald á okkar eigum þá safnast þörfin upp og hittir okkur fyrir af margföldum þunga síðar meir. Því miður eru allt of mörg dæmi um það á undanförnum árum að mannvirki sveitarfélaga hafi verið vanrækt þangað til þau verða ónýt og kostnaður við endurbyggingu margfaldur á við það sem væri ef jöfnu og kerfisbundnu viðhaldi er sinnt. Í því samhengi má segja að stundum geti verið dýrt að spara og að lántaka geti verið skynsamleg í arðsöm og verkefni sem tryggja gott ástand eigna og gæði þeirra sem íverustaður fyrir þá sem þar dvelja.

Mætumst á miðjunni í Kópavogi og leggjum aukna áherslu á arðsemi af rekstri Kópavogsbæjar til að efla getu hans til framkvæmda og viðhalds fyrir eigin afli. Það margborgar sig.

Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar í Kópavogi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Gerum góðan bæ enn betri

Deila grein

04/05/2022

Gerum góðan bæ enn betri

Grindavík! Sjávarbærinn sem nær ekki að bjóða sjómönnum sínum örugga innsiglingu á erfiðum vetrardögum þegar öldurnar láta til sín taka. Íþróttabærinn sem bíður sínum iðkendum upp á heimaleiki í meira en 40 km fjarlægð þar sem fótboltavellir bæjarins eru undir ákveðnum regluviðmiðum. Fjölskyldubærinn sem fælir fjölskyldur til nærliggjandi sveitarfélaga til þess að eiga notalega stund saman í barnvænu, öruggu og hlýju sundumhverfi. 

Ársreikningar Grindavikurbæjar árið 2021 sýnir glögglega hagstæðu afkomu bæjarins enn eitt árið. Nokkrir bæjarstjórnarmenn gengu nýlega í pontuna og lýstu yfir stolti sínu á ársreikningnum – réttilega að mínu mati. En það eigum við einnig, kæru Grindvíkingar, að vera og það af okkur sjálfum og starfsmönnum bæjarins sem láta verkin tala og sýna aðgát í rekstri með okkar framlagi til Grindavíkurbæjar.

Grindavíkurbær er fjölmennasti  atvinnurekandi í Grindavík og það án þess að vera með starfsgildið mannauðsstjóra. Því þurfum við að breyta, við þurfum sviðstjóra sem sýnir mannauðsmálum bæjarins jafn mikla athygli og fjármálastjóri sýnir kostnaðarliðum. Það eru starfsmenn bæjarins sem tryggja og framkvæma m.a. lögbundinni þjónustu til bæjarbúa. Við þurfum að hlúa betur að starfsmönnum bæjarins með því að auka fjárfestingu í þeirra starfsumhverfi, starfsþróun og starfsgildum. 

Ég trúi að fjárfestingarnar í mannauð Grindavíkurbæjar sé lykillinn í að bæta þjónustu og innviði bæjarins. Við erum með örugga höfn sem veitir framúrskarandi þjónustu til stærstu atvinnugreinar Grindavíkur en með aðstoð ríkisins er nauðsynlegt að við séum að skoða leiðir sem tryggir öruggari innsiglingu fyrir alla báta og skip sem vilja sækja höfnina í Grindavík. Við höfum verið að fjárfesta í íþróttamannvirkjum á svæðinu en það er ljóst að það er enn verk að vinna svo allir heimaleikir séu leiknir í Grindavík og sundlaugarsvæðið samræmist væntingum bæjarbúa.  

Samfélagið okkar samanstendur af mörgum ólíkum einstaklingum sem allir hafa sína sögu að segja en það er einmitt þessi fjölbreytileiki sem gerir okkar samfélag bara litríkara. Margir af þessum einstaklingum kjósa að standa á hliðarlínunni á meðan aðrir gefa kost á sér í verkin. Þrátt fyrir það er mikilvægt að við tryggjum að við virðum hvoru tveggja og sýnum hvert öðru virðingu. Þó svo að okkar hugmyndir, skoðanir og/eða aðferðir séu ólíkar er ég viss um við eigum sameiginlega sýn og það er að bæta Grindavíkurbæ. 

Framundan eru breytingar á bæjarstjórninni og langar mig að þakka þeim sem frá hverfa fyrir sitt framlag, þið eigið hrós skilið fyrir vel unnin störf. Takk! Ef ég er svo lánsamur að taka sæti í bæjarstjórn fyrir hönd Framsóknar mun ég þurfa aðstoð. Ég mun biðja um hjálp, ég vona að hjálparhönd verði mér veitt þegar ég bið um hana. Ef ég er ekki að skilja málefnið nógu vel má útskýra það aftur fyrir mér svo ég geti öðlast betri skilning. Við munum ekki alltaf vera sammála en ég mun bera virðingu fyrir skoðunum annarra. Þegar góðir hlutir gerast mun ég hrósa þeim sem koma að málinu og jafnframt veita uppbyggilega endurgjöf til þeirra þegar hlutirnir ganga hægt eða hreinlega ekki upp. Ég hleyp ekki frá ábyrgð, ég hef og er ávallt tilbúinn að axla og fagna ábyrgð. Mig langar að vera virkur og taka þátt í að bæta okkar samfélag, verum saman í liði, það þarf heilt samfélag til að gera Grindavík að enn betri bæ.

Sverrir Auðunssonskipar 2. sæti á lista Framsóknar í Grindavík.

Greinin birtist fyrst á vf.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Lóðir fyrir 300 íbúðir í Borgarbyggð

Deila grein

04/05/2022

Lóðir fyrir 300 íbúðir í Borgarbyggð

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins á undanförnum árum. Sér í lagi vegna lóðaskorts á höfuðborgarsvæðinu og einsleitni í lóðaframboði. Sveitarfélög eins og Árborg, Hveragerði og Akranes hafa byggst hratt upp og til að mynda mun íbúum í Árborg að öllum líkindum fjölga um 1800 á þessu ári. Þessari fjölgun hefur einnig fylgt uppbygging þjónustu og innviða í viðkomandi sveitarfélögum sem bæði eru af hálfu hins opinbera og ekki síður hefur hinn aukni íbúafjöldi gert það að verkum að fyrirtæki og þjónusta sem ekki voru til staðar hafa nú öðlast rekstrargrundvöll og dafna og búa til aukinn fjölbreytileika atvinnulífs og betri þjónustu.

Byggjum í Brákarey og Bjargslandi

Við í Framsókn viljum hraða skipulagsvinnu til þess að geta boðið upp á fleiri lóðir í Borgarnesi strax í upphafi næsta árs. Það þarf að flýta vinnu við þróunarverkefni í Brákarey þar sem innviðir eru að stórum hluta til staðar fyrir uppbyggingu og því hægt að byrja fyrr en ef um uppbyggingu á alveg nýju hverfi væri að ræða. Slík þróunarverkefni hafa gefið góða raun í öðrum sveitarfélögum og má þar helst líta á verkefni eins og uppbyggingu nýs miðbæjar á Selfossi, sem var þróunarverkefni þar sem tvinnað var saman atvinnu og verslunarstarfsemi með íbúðabyggð. Einnig viljum við flýta skipulagsferli og gatnagerð á nýrri götu sem er utan um Kveldúlfshöfðann frá enda Fjólukletts þannig að hægt verði að koma því í auglýsingu sem fyrst. Þetta eru forgangsverkefni þar sem nánast ekkert er til af óúthlutuðum lóðum í Borgarnesi í dag. Við viljum uppbyggingu og þá verðum við að flýta þessum verkefnum eins og kostur er.

Byggjum í dreifbýli

Mikilvægt er tryggja lóðaframboð og að gatnagerð sé klár til að hægt sé að úthluta fleiri lóðum á Hvanneyri og Varmalandi þar sem Borgarbyggð á byggingarland. Aðlaga skipulag að þörfum húsbyggjenda og skipuleggja fleiri lóðir til að tryggja nægilegt framboð á hverjum tíma. Við eigum að leitast við að koma í veg fyrir það rof sem hefur orðið í framboðshlið lóðamála í Borgarbyggð. Nægt land er til staðar. Það þarf bara að skipuleggja það og hefja gatnagerð.

Byggjum handan Borgarvogarins

Nú er að fara af stað arkitektasamkeppni um nýja byggð á landi handan Borgarvogarins og er það gríðarlega spennandi framtíðarsýn og við erum ekki í nokkrum vafa um að það verkefni muni slá í gegn þegar fram líða stundir, en það er langhlaup. Það þýðir ekki að það megi halla sér aftur, það þarf að keyra þetta verkefni stöðugt áfram til þess að þetta verði að veruleika fyrr en seinna.

Byggjum upp í Borgarbyggð

Til þess að við sjáum atvinnutækifærum fjölga, til þess að fólkið sem fer og menntar sig geti komið heim, til þess að afi og amma geti minnkað við sig húsnæði á efri árum, þá þarf að byggja. Skipuleggja land, fara í gatnagerð og stuðla að byggingu íbúðarhúsnæðis í allri Borgarbyggð. Viðvarandi húsnæðisskortur hefur verið vandamál undanfarin ár og hefur verið erfitt fyrir þá sem eru á leigumarkaði að fá húsnæði og sama á við um atvinnurekendur sem eru í húsnæðisleit fyrir starfsfólk sitt. Fáar eignir eru á sölu og hefur íbúum ekki fjölgað í takt við það sem gerist hjá nágrannasveitarfélögum eins og til dæmis Akranesi. Við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna og keyra uppbygginguna í gang. Við þurfum nýja Framsókn í húsnæðismálum!

Davíð Sigurðsson, skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Borgarbyggð.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Leikskólarnir og lífsgæðin

Deila grein

04/05/2022

Leikskólarnir og lífsgæðin

Það er fátt sem skiptir jafn miklu máli fyrir lífsgæði ungra barnafjölskyldna en metnaðarfull stefna sveitarfélaga í málefnum leikskóla og dagvistunar. Að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla svo foreldrar komist aftur út á vinnumarkaðinn byggir undir öryggi þeirra og sjálfstæði og eykur lífsgæðin. Lág leikskólagjöld eykur ráðstöfunartekjur foreldra og þar með lífsgæðin. Framsækið og vandað starf í góðu húsnæði eykur lífsgleði og lífsgæði barna og eflir þau til framtíðar. Ef við ætlum að auka lífsgæði foreldra og ungra barna þá byrjum við á leikskólunum.

Kostnaðarþátttaka foreldra

Á síðastliðnum áratug hefur kostnaðarþátttaka foreldra farið  úr því að vera 23% af kostnaðinum og niður í 15%. Þetta skiptir máli ekki bara fyrir efnaminni fjölskyldur heldur allt barnafólk sem er að koma undir sig fótunum. Við viljum leita leiða til að lækka þetta hlutfall enn frekar, einkum og sér í lagi fyrir efnaminni fjölskyldur. Gjaldfrír leikskóli á að vera markmið til framtíðar. Við gerum okkur hins vegar líka grein fyrir því að leikskólarnir hafa fengið ærin verkefni á síðustu árum. Við verðum fyrst að klára að brúa bilið og bæta starfsaðstæður barna og starfsfólks. Við verðum að finna leiðir til að sinna þeim verkefnum vel sem við höfum þegar tekið okkur fyrir hendur.

Á að lögbinda leikskólana?

Við gerum miklar kröfur til leikskólanna enda hefur faglegt starf þeirra blómstrað. Starfsfólk leikskólanna býr yfir mikilli þekkingu, reynslu og menntun. Leikskólinn er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og þar fer fram mikilvægur undirbúningur fyrir það sem tekur við. Framsókn vill í samvinnu við skólasamfélagið skoða kosti og galla þess að gera elsta árganginn í  leikskólum að skyldubundnu skólastigi. Sérstaklega nú þegar þróunin er sú að það fækkar í árgöngum og pláss skapast í grunnskólum bæjarins. Þetta pláss getum við t.d. nýtt til að taka á móti elstu börnunum í leikskólunum og skapað þannig forskólastig sem undirbýr öll börn jafnt áður en eiginlegt grunnskólanám hefst. Slíkt stig, ef við horfum til framtíðar, yrði að sjálfsögðu gjaldfrjálst. Um leið rýmkar plássið hjá leikskólunum og ávinningurinn því talsverður fyrir bæinn.

Leikskólarnir og farsæld barna

Öll börn eiga að fá að njóta sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins. Ásmundur Einar Daðason, skóla og barnamálaráðherra, hefur unnið mikið og gott starf fyrir farsæld barna og fjölskyldna. Á síðasta ári samþykkti Alþingi frumvarp til nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Þetta framfaraskref miðar að snemmtækum stuðningi við börn til að tryggja aukna samvinnu og samfellu í þjónustu við börn. Lögin taka að sjálfsögðu til þeirrar þjónustu sem veitt er í leikskólum rétt eins og öðrum skólastigum. Það er gríðarlega þýðingarmikið að þeim breytingum sem lögin fela í sér verði komið til framkvæmda sem fyrst og innleiðingu lokið.

Það er nefnilega staðreynd, hvernig sem á það er litið, að lífsgæðin byrja á góðum leikskólum.

Gunnar Már Gunnarsson, fulltrúi Framsóknar í fræðslu- og lýðheilsuráði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Björgum göngustígunum!

Deila grein

04/05/2022

Björgum göngustígunum!

Undirritaður er útivistarmaður og mætti þar af leiðandi finna rök með því að greinarstúfur þessi sé skrifaður með hlutdrægu hugarfari.

Það er þó einlæg skoðun mín að umfjöllunarefnið komi okkur öllum við enda um manngerð fyrirbæri að ræða sem eiga að einfalda okkur leið til þess að njóta náttúrunnar.

Hér er ég að tala um göngustíga í sveitarfélaginu Norðurþingi, ekki síst á og í kringum Húsavík. Á sínum tíma var lyft miklu grettistaki í gerð göngustíga á svæðinu og er úrval þeirra í grunninn mjög mikið. Þeir tengja saman miklar perlur eins og Botnsvatn, Skrúðgarðinn, Katlavöll og Húsavíkurfjall. Undanfarin ár hafa margir af þessum göngustígum dalað og viðhaldi þeirra lítið sinnt í flestum tilfellum. Það er þróun sem þarf að stoppa enda mikil hlunnindi fólgin í því að geta tölt um náttúruna á flottum stígum sem falla vel að umhverfinu. Viðhald göngustíga er engu að síður allnokkur vinna sem þarf að gera í áföngum eftir þeirri goggunarröð sem réttust þykir.

Á kjörtímabilinu sem leið ákvað Skipulags- og framkvæmdaráð að skoða þágildandi gönguleiðakort Húsavíkur og skipta leiðunum niður í forgangsröð hvað viðhald varðaði. Til þess að árangur náist sem fyrst ætti sveitarfélagið að beita sér fyrir því að sá möguleiki verði fyrir hendi að félagasamtök taki að sér viðhald afmarkaðra gönguleiða. Verkefnin væru þá unnin í samstarfi við starfsmenn framkvæmdasviðs og gætu verið hluti af þjónustusamningum sem sveitarfélagið er aðili að. Undanfarin misseri hafa verið gerðir nokkrir samningar sem lúta að skógrækt. Það er afar jákvætt en að sama skapi hljóta að liggja mikil tækifæri í því að vilji slíkra félagasamtaka til umhverfisverkefna í þágu samfélagsins verði nýttur í viðhald á því sem fyrir er. Þar koma göngustígar sterkir inn og að nægu að taka.

Heiðar Rafn Halldórsson, í 8. sæti á lista Framsóknar og félagshyggju fyrir sveitastjórnarkosningar í Norðurþingi vorið 2022.

Greinin birtist fyrst á 640.is 4. maí 2022.

Categories
Greinar

Leitum víðar í öflugan mannauð

Deila grein

04/05/2022

Leitum víðar í öflugan mannauð

Það er augljóst keppikefli fyrir háskólabæinn Akureyri að hér séu staðsett fleiri störf sem krefjast sérfræðiþekkingar. Við þurfum að kalla ríkið að borðinu og það sem fyrst. Þá er hins vegar gott að hafa í huga að hið opinbera hefur sjálft allan hag af því byggja upp starfsemi sína víðar en í Reykjavík. Um allt land má finna hæft og hæfileikaríkt fólk sem annaðhvort getur ekki eða vill ekki hafa búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Það má því með einföldum hætti stækka þann mannauð sem ríkið getur sótt í og um leið leiðrétta misskiptingu opinberra starfa sem nú er milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Öllum til heilla! 

Missum ekki af tækifærinu 

Ekki er þó nóg að flytja einfaldlega störf, því umhverfið sem við sköpum íslenskri stjórnsýslu þarf að vera gróskumikið og lifandi. Við eigum að vanda vel til verka og umfram allt skapa öflugar starfsstöðvar. Við þurfum að tryggja að opinberir starfsmenn á Akureyri séu, og finnist þeir vera, jafnir starfssystkinum sínum á höfuðborgarsvæðinu. Við tryggjum það með því að búa okkar fólki samkeppnishæfa og nútímalega starfsaðstöðu sem tekur mið af nýjustu tækni og vinnulagi samtímans. Slík uppbygging er reyndar nauðsynleg – þegar horft er til þess markmiðs að Ísland verði meðal allra fremstu þjóða heims í stafrænni þjónustu. Við fáum því seint betra tækifæri en einmitt nú til að ráðast í metnaðarfulla uppbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins. Missum ekki af því!

Varanlegt framlag til byggðaþróunar á Íslandi

Aðstöðuleysi má ekki koma í veg fyrir að störf á vegum hins opinbera verði til víðar en á höfuðborgarsvæðinu og það er samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að tryggja að svo verði ekki. Við í Framsókn viljum fjölga störfum án staðsetningar og við viljum berjast fyrir framsækinni uppbyggingu sem styður við skilvirkari og betri þjónustu við íbúa landsins. Gróskumikill stjórnsýsluklasi á Akureyri verður varanlegt framlag til byggðaþróunar á Íslandi. Ekki veitir af!

Gunnar Már Gunnarsson

Höfundur er verkefnisstjóri í Brothættum byggðum og skipar 2. sæti á lista Framsóknar á Akureyri til bæjarstjórnarkosninga.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 3. maí 2022.

Categories
Greinar

Hver er verðmiðinn á vellíðan barna?

Deila grein

04/05/2022

Hver er verðmiðinn á vellíðan barna?

Nú stendur innleiðing farsældarlaganna yfir, en þau snúa að samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Innleiðingin felur meðal annars í sér að endurskoða og samræma verklag allrar þjónustu sem er veitt innan þeirra kerfa er koma að málefnum barna að einhverju leyti. Þannig ná lögin yfir alla þjónustu hvort sem hún er á ábyrgð ríkis eða sveitarfélaga. Þjónustunni er skipt niður á þrjú stig sem veitir okkur mun betri yfirsýn og tryggir samfellda þjónustu barna. Akureyrarbær hefur tækifæri til að vera leiðandi í þeirri innleiðingu, og sýna þannig fram á að sveitarfélagið er sannarlega Barnvænt sveitarfélag – í orði sem og á borði.

Það er kalt á toppnum

Við sjáum fyrir okkur pýramída sem skiptist í þrennt þar sem neðsti hlutinn, þessi breiðasti, táknar alla grunnþjónustu sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum og styður við farsæld barna; þarna erum við til dæmis með ungbarnavernd, leik- og grunnskóla og annars konar stuðning sem er veittur í samræmi við mat á þörfum barnsins. Áskoranir barna á fyrsta stigi krefjast í einhverjum tilfellum tímabundinnar þjónustu sem er þá sniðin að þörfum barnsins. Í miðju pýramídans er veittur markvissari stuðningur ef að stuðningur á fyrsta stigi bar ekki árangur, þjónusta annars stigs er einnig oft tímabundin en sem dæmi um þá þjónustu er heilbrigðis- félags- eða skólaþjónusta. Á þessu stigi þarfnast barn mögulega aukins stuðnings vegna til dæmis félagslegrar einangrunar eða námserfiðleika. Efst á pýramídanum, í litla hlutanum, er veitt einstaklingsbundinn og sérhæfður stuðningur sem er oft veittur til lengri tíma. Áskoranir barna sem hafa fetað sig upp pýramídann eru þannig að þau þurfa úrræði svo að heilsu þeirra og öryggi sé ekki ógnað og skortur á stuðningi á þriðja stigi getur haft virkilega alvarlegar afleiðingar. Dæmi um þjónustu á þriðja stigi eru til dæmis vistunarúrræði á grundvelli barnaverndarlaga og fjölþættur stuðningur við jaðarsett börn. Á þriðja stigi eru málin nær undantekningarlaust barnaverndarmál. Auðvitað viljum við ekki að börn þurfi að upplifa það að tróna á toppnum í þessum pýramída, enda getur það verið bæði kalt og einmanalegt. Hinsvegar viljum við að þau börn sem sannarlega þurfa á stuðningi að halda, fái hann og að við útrýmum hættunni á að þau falli fram af eða á milli. Við viljum ekki að þau týnist í kerfinu og með þessari samþættingu þjónustu sjáum við til þess að öryggi barna sé tryggt.

Hvernig byrgjum við brunninn?

Eðlilega upplifum við vanmátt þegar við hugsum um börnin á þriðja stigi, og við getum rætt það þar til við verðum blá í framan með kökkinn í hálsinum, en til að byrgja brunninn er nauðsynlegt að efla grunninn og styrkja stoðir pýramídans. Við þurfum að standa við bakið á þeim sem veita grunnþjónustu innan sveitarfélaga og við þurfum að efla forvarnir. Ef við eflum snemmtæka íhlutun, sem þýðir að við leggjum meiri kraft í forvarnir barna fyrr, veitum við þeim verkfæri sem mun fækka þeim börnum sem leita upp pýramídann. Fyrir þá sem hugsa í krónum og aurum þá er toppurinn dýrastur fyrir kerfið og börnin sem þangað leita kosta sveitarfélögin meira en þau sem eru á fyrsta stigi. Ef við leggjum fjármagn í forvarnir fyrir börn og foreldra þeirra, munum við með tímanum spara sveitarfélaginu töluverða fjármuni. Akureyrarbær býr svo vel að vera með framúrskarandi forvarnarstarf á landsvísu, sem önnur sveitarfélög líta til. Við erum heppin að þurfa ekki að finna upp hjólið, við þurfum bara að smyrja það og ryðverja. Eflum forvarnarstarf sveitarfélagsins enn frekar og styðjum þannig við börnin í þessu fyrsta Barnvæna sveitarfélagi landsins.

Alfa Jóhannsdóttir

Alfa Jóhannsdóttir starfar sem forvarnarfulltrúi gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum og skipar 3. sæti á lista Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 4. maí 2022.

Categories
Uncategorized

Sveitarstjórnarframboð – hlekkir á framboðin

Deila grein

03/05/2022

Sveitarstjórnarframboð – hlekkir á framboðin

Akranesheimasíðastefnuskrá

Akureyriheimasíðastefnuskrá

Árborg

Borgarbyggð

Blönduós og Húnavatnshreppur

Dalvíkurbyggð

Fjarðabyggð – heimasíða – stefnuskrá

Garðabær

Grindavíkheimasíðastefnuskrá

Hafnarfjörður

Hornafjörður

Húnaþing vestra – heimasíða – stefnuskrá

Hveragerði

Ísafjarðarbær – heimasíða – stefnuskrá

Kópavogur

Mosfellsbær

Múlaþing

Norðurþing – heimasíða – stefnuskrá

Mýrdalshreppur

Rangárþing eystraheimasíðastefnuskrá

Reykjanesbær

Reykjavík

Skagafjörður – heimasíða – stefnuskrá

Suðurnesjabær – heimasíða – stefnuskrá

Vopnafjarðarhreppur

Ölfus

Categories
Greinar

Er betra að búa annars staðar en í Reykjavík?

Deila grein

03/05/2022

Er betra að búa annars staðar en í Reykjavík?

Nýlega birti Félagsvísindastofnun HÍ niðurstöður úr Þjóðmálakönnun um þjónustu sveitarfélaga í aðdraganda kosninga. Ánægja íbúa er mun minni í Reykjavík en að jafnaði í öðrum sveitarfélögum. Einungis 42,1% Reykvíkinga eru frekar ánægðir eða mjög ánægðir með þjónustuna sem borgin veitir samanborið við 65,8% íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur og 62,1% íbúa landsbyggðarinnar. Niðurstöðurnar eru blaut tuska í andlit borgaryfirvalda. En koma þær eitthvað sérstaklega á óvart?

Listinn er langur og auðvelt er að benda á atriði eins og viðvarandi lóðaskort, langa biðlista í leikskólum, myglaða skóla vegna skorts á viðhaldi, samgöngur í ólestri, sorphirðu og svo mætti lengi telja. Það bíður betri tíma en hér ætla ég að fjalla um þjónustu sem er mun sértækari og vill oft gleymast með hækkandi sól en það er snjómokstur á götum borgarinnar.

Snjómokstur í ólestri

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um nýliðinn vetur. Hann var harðari en gengur og gerist. En við búum á Íslandi. Eins og afi minn sagði alltaf „ Á Íslandi er allra veðra von… með korters fyrirvara.“ Þrátt fyrir að Veðurstofan og Almannavarnir gefi út mun nákvæmari spár og viðvaranir en áður þá er eins og borgaryfirvöld séu minna undirbúin til að takast á við áskoranir Vetur konungs. Margar vikur í röð var ekki hægt að moka götur borgarinnar sem olli því að smærri bílar áttu erfitt um vik. Þegar lengra leið á voru göturnar orðnar að eins konar lestarteinum með tilheyrandi skemmdum á bílum vegna hjólfara sem voru allt að 25-30 sentimetra djúp. Þegar klakabrynjuðu göturnar voru loks mokaðar olli það gríðarlegum skemmdum á götum með tilheyrandi kostnaði. Ástandið var svo slæmt að fyrirtæki í borginni tóku sig saman og greiddu fyrir mokstur gatna sem voru á forræði borgarinnar.

En hvað klikkaði? Vissulega stjórnum við ekki veðri og færð en fyrirhyggja og skilningur á verkefnum skiptir miklu máli um hvernig til tekst. Borgaryfirvöld fengu sent kvörtunarbréf frá starfsfólki vetrarþjónustu Reykjavíkurborgar þar sem talað var um hringlandahátt, þekkingar- og skilningsleysi á verkefninu og hreint út sagt virðingarleysi af hálfu borgaryfirvalda. Snjómoksturstæki máttu ekki vera á nagladekkjum vegna stefnu borgarstjórnarmeirihlutans um að draga úr notkun nagladekkja alveg óháð því hvers konar aðstæður við er að glíma. Starfsfólk er því sett í ómögulega stöðu og engan veginn gert kleift að sinna starfi sínu af kostgæfni.

Snjómokstur er kannski ekki ofarlega í huga okkar núna þegar grasið er að grænka en punkturinn er þessi. Fyrst ekki er haldið betur á afmörkuðu verkefni eins og snjómokstri, hvernig fer þá með öll stóru verkefnin?

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, framkvæmdastjóri, varaþingmaður og skipar 4. sæti lista Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. maí 2022.

Categories
Greinar

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir í Suður­nesja­bæ

Deila grein

03/05/2022

Gjald­frjálsar skóla­mál­tíðir í Suður­nesja­bæ

Næring er ein af grunnþörfum mannsins. Vannæring getur haft varanleg neikvæð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna. Næring er lykilatriði til að allir nemendur ljúki á jafnréttisgrundvelli grunnskólastigi án aðgreiningar og endurgjalds.

Öll viljum við að börnin okkar séu vel nærð í amstri dagsins og teljum við í Framsókn því sjálfsagt að bjóða upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum Suðurnesjabæjar. Þannig stuðlum við jafnræði á milli heimila óháð efnahag og stöðu foreldra.

Lykilatriði fyrir gott og heilbrigt samfélag er að réttindi barna og tækifæri þeirra sé sem best til að dafna og þroska hæfileika sína. Við viljum vera stolt af Suðurnesjabæ.

Skólaskyldu er ætlað að leggja grunn að virkri þátttöku barna í lýðræðissamfélagi og veita viðeigandi undirbúning og fjölbreytt tækifæri fyrir frekara nám eða störf á vinnumarkaði. Tryggjum börnunum okkar bjarta framtíð.

Framsókn vill vera hreyfiafl framfara í samfélaginu!

Anton Kristinn Guðmundsson, skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. maí 2022.