Categories
Greinar

Spennandi atvinnuverkefni við Njarðvíkurhöfn

Deila grein

31/08/2020

Spennandi atvinnuverkefni við Njarðvíkurhöfn

Við sem búum á Suðurnesjum vitum að hér eru mörg tækifæri fyrir öflugt og skapandi fólk. Hér eru tækifærin.

Nú blasir við okkur afar spennandi tækifæri hvað varðar atvinnuuppbyggingu, það er bygging skipaþjónustuklasa við Njarðvíkurhöfn. Byggja þarf skjólgarð við höfnina svo að þurrkvíin geti orðið að veruleika. Verkefnið getur umbylt aðstöðu til þjónustu við íslenskan og erlendan skipaflota og skapað tugi nýrra starfa hér á svæðinu.

Frumkvæði stjórnenda til fyrirmyndar

Stjórnendur Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og Reykjaneshafnar eiga heiður skilinn fyrir að hafa tekið frumkvæðið og lagt í umfangsmikinn undirbúning svo að þessi uppbygging í kringum Njarðvíkurhöfn geti orðið að veruleika. Reykjanesbær styður verkefnið og hafa ofangreindir aðilar undirritað viljayfirlýsingu um á uppbygginu hafnar- og upptökumannvirkja í Njarðvík.

Eftirspurn eftir þjónustunni er til staðar

Þjónustuklasinn mun leggja áherslu á þjónustu við skip á norðurslóðum, íslensk sem erlend, til viðhalds, breytinga og endurnýjunar. Auknar kröfur um betri  mengunarvarnir í skipum, skipti yfir í vistvæna orku og lækkun orkukostnaðar, skapa ný tækifæri á þessu sviði. Þjónustuklasinn getur tiltölulega fljótt skapað á annað hundrað störf og samfélaginu umtalsverðar tekjur til framtíðar. Bein vinna í hinni nýju kví kallar á 70–80 heilsársstörf auk óbeinna starfa. Varlega áætlað er gert ráð fyrir að verkefni fyrst um sinn tengd kvínni skapi þannig um 120 störf. Ekki er óraunhæft að ætla að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingar-klasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250–350 bein og óbein störf.

Stuðningur ríkisvaldsins nauðsynlegur

Forsenda þessa verkefnis er að Reykjaneshöfn geri nýjan skjólgarð í Njarðvíkurhöfn sem mun umbreyta allri hafnaraðstöðu þar og skapa möguleika fyrir byggingu kvíarinnar. Til þess að sú forsenda gangi eftir þarf Reykjaneshöfn mögulega að forgangsraða sínum verkefnum í þágu skjólgarðsins.

Nú þegar Skipasmíðastöðin í samstarfi við Reykjaneshöfn og Reykjanesbæ hafa sýnt vilja í verki og farið í mikla undirbúningvinnu og rannsóknir, og átt samtöl við fjárfesta, þá sé ég ekki annað en þingmenn muni styðja fjármögnun skjólgarðsins sem öllum ráðum. Við verðum að finna leiðir til að koma þessu verkefni af stað. Með því munu skapast tugir og hundruðir nýrra starfa. Við Suðurnesjafólk þurfum á þeim að halda.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á vf.is 29. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Samvinna er lykillinn að árangri

Deila grein

31/08/2020

Samvinna er lykillinn að árangri

„Það sem gerist er að það verður þessi gríðarlega samvinna og samskipti. Okkar fremstu vísindamenn á alþjóðavísu og fyrirtæki á þessum markaði fara að deila upplýsingum. Þetta er einstakt – sigur fyrir mannkynið, ef ég má orða það sem svo,“ var haft eftir Birni Rúnari Lúðvíkssyni, yfirlækni ónæmisdeildar Landspítalans í frétt Vísis í síðustu viku. Það viðhorf er orðið ríkjandi að samvinnan og samskiptin muni leiða okkur út úr þessu ástandi sem ríkir í heiminum um þessar mundir. Þetta er viðhorf sem er inngróið í stefnu Framsóknar enda hefur flokkurinn í gegnum tíðina verið boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar.

Leiðin til eðlilegs lífs

Þegar þessi orð eru rituð stöndum við enn í ströngu við að koma í veg fyrir vöxt veirunnar á Íslandi eftir að hafa lifað tiltölulega eðlilegu lífi framan af sumri. Barátta okkar gegn veirunni hafði gengið vel en eins og sóttvarnarlæknir hefur ítrekað í máli sínu frá upphafi faraldursins verðum við að læra að lifa með veirunni í mánuði eða ár áður en við getum aftur snúið til eðlilegs lífs.

Hagur heimilanna

Veiran hefur haft áhrif á líf okkar allra. Ríkisstjórnin hefur auk baráttunnar við heilbrigðisvána komið fram með umfangsmiklar aðgerðir til að milda efnahagslegt högg á fjölskyldur og fyrirtæki. Þær aðgerðir hafa verið mikilvægar en áfram verður unnið að frekari viðbrögðum til að vernda hag heimilanna, til þess að skapa ný störf og auka verðmætasköpun svo samfélagið nái sínum fyrri styrk.

Uppgangur öfga

Á síðustu misserum höfum við upplifað uppgang öfga í heiminum og við förum ekki varhluta af því hér á Íslandi. Leiðtogar stjórnmálaafla hafa sumir stigið fram með lýðskrumið að vopni og höggvið skörð í samfélagið til þess eins að ná aukinni áheyrn og með það að markmiði að öðlast meiri völd. Það gera þeir með því að etja hópum gegn hver öðrum, skapa óánægju og fylla fólk þannig vanmætti. Það er öndvert við það sem ég trúi að stjórnmál eigi að gera því ég lít á stjórnmál sem tæki til að efla fólk og samfélög og til að búa til betri og hamingjuríkari heim.

Samvinnuleiðin í stjórnmálum

Öfgar til hægri og vinstri eru okkur vel kunn í samtímasögunni og hafa þær ekki fært okkur betri samfélög. Það hefur hins vegar samvinnan gert. Ef við lítum yfir sögu Íslands sem lýðveldisins sjáum við að stjórn landsins hefur verið í höndum samsteypustjórna og þar hefur Framsókn oftar en ekki verið þátttakandi. Þessi samvinnuleið í íslenskum stjórnmálum hefur getið af sér samfélag sem ætíð er ofarlega ef ekki efst á listum þjóða sem þykja skara fram úr þegar kemur að almennum lífsgæðum í heiminum. Þau stjórnmálaöfl sem við sjáum nú yst til hægri og yst til vinstri bjóða engum til samtals heldur miða að því að níða skóinn af öðrum, oft með því að hafa uppi stór orð um svik, prinsippleysi og jafnvel landráð ef það yljar eigin sjálfsmynd þá stundina.

Skynsemin sigrar alltaf að lokum

Yfirlýsingar sem eingöngu er ætlað að ögra og etja fólki saman eru að sönnu ekki mikils virði en þær eru eyðileggjandi. Segja má að öfgarnar næri hvor aðra en leiði aldrei til niðurstöðu því það eru aðrar og skynsamari stjórnmálahreyfingar sem leiða fólk saman og hreyfa samfélagið til betra horfs.

Samtal, samvinna: framfarir

Á síðasta degi þingsins voru samþykkt lög og þingsályktanir sem gera fjárfestingu í samgöngum upp á 900 milljarða króna mögulega. Í þeim pakka var, auk fjölmargra brýnna verkefna um allt land, samgöngusáttmáli um uppbygginu á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að algjör stöðnun hefur ríkt í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár og áratugi. Það var eitt af helstu markmiðum mínum þegar ég settist í stól samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að stórauka samgönguframkvæmdir og þar með talið að höggva á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Með markvissu samtali og samráði tókst það og íbúar höfuðborgarsvæðisins sjá fram á bjartari tíma í samgöngum og á það jafnt við um þá sem nota fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur eða eru gangandi og hjólandi.

Sundrað samfélag er veikt samfélag

Stjórnmál verða alltaf samvinna og samkomulag nema við viljum búa í sundruðu samfélagi. Þeir sem mest níða niður stjórnmálin virðast líta svo á að málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða séu óásættanlegar og að öll samvinna sé svik. Þegar þessar raddir verða ráðandi í umræðunni, hjá fjölmiðlum og álitsgjöfum, þá eykst krafan um enginn flokkur gefi neitt eftir og þá verður ekkert samtal, engin samvinna og þar af leiðandi engin framþróun; bara stöðnun, tortryggni og ófullnægja allra. Allra nema þeirra sem njóta þess að segja að allir séu prinsipplausir; allir nema þeir sjálfir.

Heimsfaraldurinn getur leitt til sundrungar og átaka en líkt og þegar kemur að því að ráða niðurlögum veirunnar sjálfrar þá þurfum við samvinnu til að byggja upp sterkara samfélag. Framsókn mun hér eftir sem hingað til vinna að sátt um framþróun samfélagsins. Sú sátt verður ekki til með öfgum til hægri eða vinstri. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. ágúst 2020.

Categories
Fréttir

„Það tókst að skapa þrisvar sinnum fleiri sumarstörf en gert var eftir efnahagshrunið“

Deila grein

28/08/2020

„Það tókst að skapa þrisvar sinnum fleiri sumarstörf en gert var eftir efnahagshrunið“

„Virðulegi forseti. Covid-faraldurinn kom til okkar eins og þruma úr heiðskíru lofti, líkt og komið hefur verið inn á í umræðum hér. Ríkisstjórnin hefur brugðist við af festu í öllum aðgerðum sem gripið hefur verið til. Mörg þeirra verkefna sem við öll í þessu samfélagi höfum verið að vinna að höfum við þurft að framkvæma í breyttri mynd eða leggja til hliðar vegna Covid-19. Hjá ríkisstjórninni hefur allur tími verði nýttur í að bregðast við faraldrinum, tryggja þjónustu og verja fólk og fjölskyldur í viðkvæmri stöðu. Framsóknarflokkurinn og ég höfum lagt áherslu á það að verja hópa í viðkvæmri stöðu. Það höfum við gert innan félagsmálaráðuneytisins. Það hefur menntamálaráðherra gert innan menntamálaráðuneytisins og sveitarstjórnarráðherra innan sveitarstjórnarráðuneytisins.

Sem ráðherra félagsmála get ég sagt að við unnum eftir því kerfi í gegnum kórónufaraldurinn að tryggja samvinnu og samstarf á milli allra aðila sem voru að þjónusta viðkvæma hópa í samfélaginu. Með samvinnu við sveitarfélög og með samvinnu við frjáls félagasamtök tókst í gegnum faraldurinn síðasta vetur að tryggja, því sem næst, þjónustu við alla viðkvæma hópa í íslensku samfélagi. Ég vil þakka hinu öfluga starfsfólki sem hefur staðið í framlínunni, ekki bara í heilbrigðiskerfinu heldur líka í félagsþjónustunni, í þjónustu við viðkvæma hópa við afar krefjandi aðstæður. Það hefur staðið vaktina í sveitarfélögum landsins og gerir það enn þá núna þegar veiran er að skjóta sér niður á nýjan leik.

Í viðkvæmum hópum í samfélagi okkar er fólk í viðkvæmri stöðu. Þetta eru kannski ekki háværustu hóparnir í samfélaginu en þetta er fólk sem þarf, miklu meira en við sem erum í þessum þingsal, á eðlilegri rútínu að halda. Það þarf að geta sinnt eðlilegu lífi, mætt í vinnuna og á þá staði sem það þarf í daglegu lífi. Þetta fólk þurfti að þola mikla félagslega einangrun síðasta vetur. Við höfum eytt um 6 milljörðum kr. af almannafé til að tryggja félagslegar úrbætur fyrir þessa hópa núna í sumar og á vormánuðum og þeim fjármunum er einkar vel varið. Ég vil líka segja að viðkvæmir hópar mega ekki við því að veiran skjóti niður rótum á nýjan leik þannig að fólk þurfi að loka sig inni í allan vetur, eins og það þurfti að gera síðasta vetur.

Hvað varðar vinnumarkaðinn þá höfum við farið í margvíslegar aðgerðir í vinnumarkaðsmálum og munum halda áfram á þessum þingstubbi að ræða frekari aðgerðir. Við munum halda áfram á þingvetrinum sem fram undan er að ræða aðgerðir hvað þetta snertir; hlutabótaúrræðið, greiðslur til fólks sem fer í sóttkví og sumarstörfin sem við sköpuðum á nýliðnu sumri. Það tókst að skapa þrisvar sinnum fleiri sumarstörf en gert var eftir efnahagshrunið og náðist ekki að fylla í öll sumarstörfin fyrir námsmenn. Við erum að undirbúa aðgerðir sem ræddar verða í þinginu er varða námsúrræði fyrir þá sem hafa verið langtímaatvinnulausir og við munum þurfa að ráðast í frekari aðgerðir. En þegar menn segja að ríkisstjórnin hafi ekki notað sjóði almennings til að grípa fólkið og fjölskyldurnar sem hafa misst vinnuna þá er það beinlínis rangt. Á yfirstandandi ári munu yfir 70 milljarðar af almannafé renna í gegnum atvinnuleysistryggingar til fólks, til heimila, sem hefur misst vinnuna. Til samanburðar runnu á síðasta ári rúmlega 20 milljarðar í atvinnuleysistryggingar og 24 milljarðar á árinu 2009. Það fer þrisvar sinnum hærri upphæð núna í það að grípa fólk, grípa fjölskyldur.

Síðan vil ég segja að þessi veira er ólíkindatól, eins og komið hefur fram. Kannski er best fyrir okkur að viðurkenna að við erum ekki með öll svörin. Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þess vegna er lykilatriði að halda áfram að vera snögg að bregðast við, vera tilbúin að endurskoða ákvarðanir og taka aðra stefnu ef veiran fer að haga sér öðruvísi. Það hefur ríkisstjórnin haft að leiðarljósi. Það hef ég haft að leiðarljósi og það eigum við að hafa að leiðarljósi á komandi vetri.“

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, á Alþingi 27. ágúst 2020.

Categories
Fréttir

Upphaf skólaársins er tákn um vilja, þrek og samhug

Deila grein

28/08/2020

Upphaf skólaársins er tákn um vilja, þrek og samhug

„Virðulegur forseti. Nú reynir á íslenskt samfélag en ég er sannfærð um að okkur takist að ná utan um þá áskorun sem farsóttin er. Mín meginmarkmið sem ráðherra mennta- og menningarmála eru að standa vörð um skólahald í landinu og styrkja menningu og íþróttir. Ég er sannfærð um að það takist.

Í vor tókst okkur að halda menntakerfinu gangandi. Ísland var eitt fárra ríkja sem vann það afrek. Ljóst er að skólastjórnendur, kennarar, nemendur og foreldrar lögðu mikið á sig til að halda úti skólastarfi. Leiðarljósið í þeirri vinnu var velferð nemenda. Það var mjög ánægjulegt að sjá nemendur útskrifast og halda áfram. Það gladdi hjarta mitt mjög mikið að sjá að á Íslandi væri hægt að gera þessa hluti á sama tíma og skólabörn víða í veröldinni hafa ekki komið inn í skólana sína frá því í febrúar. Það er hryllileg tilhugsun. Hér á landi höfum við náð að halda utan um grunnstoðir þessa samfélags. Auðvitað eru áskoranir og við vitum að það fylgir þessari farsótt.

Fyrsti skóladagur vetrarins markar nýtt upphaf í huga nemenda en í þetta sinn er upphaf skólaársins einnig tákn um vilja, þrek og samhug þeirra sem bera ábyrgð. Við munum gera það sem þarf til að tryggja fjármagn inn í menntakerfið og að skólahald verði fyrir sem minnstri röskun. Við sjáum öll hversu viðkvæm staðan er en við verðum öll að vinna í sameiningu og samvinnu. Ég hef verið í mikilli samvinnu við öll skólastig landsins og er stolt af skólafólki okkar og kennaraforystu. Á næstunni mun ég kynna nýja menntastefnu fyrir Ísland en tilgangur hennar er að móta öflugt og sveigjanlegt menntakerfi sem nær til framtíðarinnar.

Virðulegur forseti. Ljóst er að það hefur reynt á menninguna og íþróttirnar. Stjórnvöld gripu strax til aðgerða með því að veita aukið fjármagn til menningarmála og íþrótta. Ég vil nefna að við erum áfram að vinna með þá stöðu. Það er ljóst að við þurfum að fara í frekari aðgerðir og mig langar að nefna að við erum að skoða listasjóð sem gæti náð til listamanna sem hafa misst tekjurnar tímabundið. Þarna erum við að horfa í átt til annarra Norðurlanda. Auðvitað hefur það líka verið tilkynnt að hlutabótaleiðin hefur verið framlengd. Hún hefur verið að nýtast listamönnum afar vel og það er gott að við séum með slík úrræði til að styðja betur við samfélagið okkar. Það sama á við um íþróttirnar. Auðvitað viljum við geta mætt og stutt okkar lið og við erum að vonast til þess að þær aðgerðir sem við höfum gripið til verði til þess að von bráðar getum við mætt á völlinn til þess. Við erum að gera allt sem við mögulega getum til að tryggja að íþróttastarf í landinu nái að halda áfram og að börnin okkar geti sótt æfingar sínar. Við erum ekki bara að gera allt sem við mögulega getum til þess að verja grunnstoðir samfélagsins heldur líka til að efla þær. Ég er sannfærð um að við munum ná utan um þessa stöðu, tryggja öflugt skólahald og líka sækja fram á sviði menningar og íþrótta.“

Ræða Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformanns Framsóknar á Alþingi 27. ágúst 2020.

Categories
Fréttir

Boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar

Deila grein

27/08/2020

Boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar

Virðulegi forseti.

Í viðtali í síðustu viku sagði yfirlæknir ónæmisdeildar Landspítalans, með leyfi forseta: „Það sem gerist er að það verður þessi gríðarlega samvinna og samskipti. Okkar fremstu vísindamenn á alþjóðavísu og fyrirtæki á þessum markaði fara að deila upplýsingum. Þetta er einstakt – sigur fyrir mannkynið, ef ég má orða það sem svo“.

Það viðhorf er orðið ríkjandi að samvinnan og samskiptin muni leiða okkur út úr þessu ástandi sem ríkir í heiminum um þessar mundir. Þetta er viðhorf sem er inngróið í stefnu Framsóknar enda hefur flokkurinn í gegnum tíðina verið boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar.

Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur fært okkur mörg og stór verkefni. Hver hefði ímyndað sér fyrir ári síðan að fara þyrfti í aðgerðir til að tryggja flugsamgöngur til landsins, tryggja almenningssamgöngur milli svæða, heimila sérstaklega fjarfundi hjá sveitarstjórnum því fólk gæti ekki komið saman,  og margt fleira má telja upp. Þá má ekki gleyma því að í miðju kófinu í vor voru samþykkt lög og þingsályktanir um samgönguverkefni sem að heildarumfangi nema 900 milljörðum króna næstu 15 árin. Í því felast störf, meira umferðaröryggi og aukin lífsgæði um landið allt.

Það sem stendur upp úr í mínum huga er þó sú samheldni sem hefur einkennt viðbrögð þjóðarinnar. Fólk hefur tekið höndum saman um að berjast við veiruna þótt það hafi kostað fórnir, bæði efnahagslegar og hvað varðar breytingu á daglegu lífi fólks. En líkt og þjóðin hefur staðið með sóttvarnaryfirvöldum þá mun Framsókn og þessi ríkisstjórn standa með þjóðinni. Nú er mikilvægasta verkefnið að verja störf og skapa störf – fjölbreytt störf um allt land því áfall ferðaþjónustunnar er áfall landsbyggðanna. Í viðbragðinu nú leika tvö ráðuneyti Framsóknar lykilhlutverk, félags- og barnamálaráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið sem tryggja velferð okkar og skapa tækifæri okkar fyrir framtíðina.

Stærsta ákvörðun, sú langstærsta, sem þessi ríkisstjórn hefur tekið er ákvörðunin um að mæta þessari kreppu ekki með skattahækkunum eða niðurskurði heldur með sókn. Við sækjum fram með auknum fjárfestingum ríkisins á sama tíma og við grípum þá sem lenda tímabundið í hremmingum vegna atvinnumissis. Þetta getur þessi ríkisstjórn af því hún hefur breiða skírskotun. Hún er ríkisstjórn jafnvægis og með þessu jafnvægi hefur okkur tekist að ná samstöðu um að breyta námslánakerfinu, barnamálakerfinu, húsnæðiskerfinu, samgöngukerfinu – svo nokkur mál Framsóknar séu nefnd.

Heimsfaraldurinn getur leitt til sundrungar og átaka en líkt og þegar kemur að því að ráða niðurlögum veirunnar sjálfrar þá þurfum við samvinnu til að byggja upp sterkara samfélag. Framsókn mun hér eftir sem hingað til vinna að sátt um framþróun samfélagsins. Sú sátt verður ekki til með öfgum til hægri eða vinstri. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknar á Alþingi 27. ágúst 2020.

Categories
Fréttir

Mikilvægar breytingar á lögum er varða vinnumarkaðinn fyrir Alþingi

Deila grein

26/08/2020

Mikilvægar breytingar á lögum er varða vinnumarkaðinn fyrir Alþingi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fékk samþykkit í ríkisstjórn í dag frumvarp um breytingu á lögum er varða vinnumarkaðinn til að mæta efnahagslegum áhrifum Covid-19 heimsfaraldursins.

„Ég held að okkur sé það öllum ljóst að það óvissuástand sem nú ríkir á vinnumarkaði muni vara lengur en við gerðum ráð fyrir í fyrstu og við getum gert ráð fyrir því að fjöldaatvinnuleysi muni dragast á langinn. Það er því gríðarlega mikilvægt að við tryggjum stöðu heimilanna við þessar krefjandi aðstæður og stöndum með fjölskyldum landsins, og það erum við að gera með þessum aðgerðum,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.

  • Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fara úr þremur mánuðum í sex mánuði, enda séu ákveðin skilyrði uppfyllt.
  • Hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði.
  • Greiðslur launa vegna einstaklinga í sóttkví munu einnig halda áfram.

Markmiðið með framlengingu á rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði er að komið til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi vegna Covid-19 faraldursins og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri. Réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði tekur gildi þegar lögin verða samþykkt og gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta réttinn fyrir 1. október 2021.

Réttur til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfali vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda, hlutabótaleiðin, hefur verið lengdur til 31. október 2020. Ekki eru lagðar til efnislegar breytingar en samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 50 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðarlaun fá fullar bætur á móti skertu hlutfalli í vinnu.

Þá verða tímabundnar greiðslur vegna einstaklinga sem sæta sóttkví án þess að vera sýktir, samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda, heimilaðar áfram á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.

Categories
Fréttir

„Nám er tækifæri“

Deila grein

26/08/2020

„Nám er tækifæri“

„Við vitum að næstu misseri verða krefjandi á ýmsum vígstöðvum en við ætlum að blása til sóknar og gera atvinnuleitendum, sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur, betur kleift að stunda nám án þess að missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

„Það er skynsamlegt fyrir okkur sem samfélag að verja fjármunum í að virkja atvinnuleitendur til náms. Slíkt skilar sér í aukinni færni, þekkingu og verðmætum fyrir samfélagið allt til lengri tíma.“

  • Atvinnuleitendum verður gert kleift að hefja nám og fá fullar atvinnuleysisbætur í eina önn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Eftir fyrstu önnina tekur Menntasjóður námsmanna við. 
  • Frítekjumark vegna skattskyldra tekna einstaklinga sem koma af vinnumarkaði hefur verið hækkað úr 4,1 m.kr. í 6,8 m.kr. til að tryggja þessum hópi rýmri rétt til námslána. 

Aðgerðirnar eru hluti af átakinu „Nám er tækifæri“ en markmiðið er að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum og hvetja þá til þess að sækja sér formlega menntun til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

  • Fjármögnun er tryggð fyrir allt að 3.000 atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og vilja skrá sig í nám í dagskóla á vorönn 2021, haustönn 2021 eða vorönn 2022. Kjósi atvinnuleitendur að hefja nám mun það ekki hafa áhrif á bótarétt og nýtingu hans.
  • Átakið afmarkast við starfs- og tækninám í framhaldsskóla eða háskóla en fyrirsjáanlegur skortur er í þeim geirum. Atvinnuleitendum verður einnig greidd leið í brúarnám.
  • Þá verður háskólamenntuðum boðið upp á flýtileiðir til annarrar prófgráðu þar sem skortur er, til dæmis í og heilbrigðis- og kennslugreinum.

Ríflega helmingur þeirra sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur hafa einungis lokið grunnnámi. 500 milljónir króna verða settar í aðgerðir til að fjölga verulega þátttakendum í vottuðum námsleiðum framhaldsfræðslunnar og símenntastöðvanna í samstarfi Vinnumálastofnunar og Fræðslusjóð. Þá er fjármagn tryggt fyrir allt að 150 námsmenn í háskólabrýr.

Fjölbreyttar aðgerðir til uppbyggingar

100 milljónir króna verða settar í sérstakan kynningar- og þróunarsjóð til að skapa svigrúm til þróunar á nýjungum í námi, kennsluaðferðum og mati á reynslu atvinnuleitenda. 

Þá verður ráðist í fjölbreyttar aðgerðir til uppbyggingar:

  • Má þar nefna samskiptatorg atvinnu- og menntamála á Suðurnesjum.
  • Aukin áhersla hjá Vinnumálastofnun til að aðstoða viðkvæmustu hópana aftur inn á vinnumarkað ásamt því að NEET verkefni Vinnumálastofnunar, í samstarfi við VIRK, sem snýr að því að virkja 18-29 ára einstaklinga sem hafa flosnað upp úr námi eða verið inn og út af vinnumarkaði verður útvíkkað á landsvísu.
Categories
Greinar

Menntun fyrir alla

Deila grein

25/08/2020

Menntun fyrir alla

Fyrsti skóla­dag­ur vetr­ar­ins mark­ar nýtt upp­haf. Vet­ur­inn sem leið ein­kennd­ist af viljaþreki og sam­hug þeirra sem bera ábyrgð á skóla­starfi. Mennta­kerfið bar ár­ang­ur sem erfiði, og það tókst að út­skrifa alla ár­ganga í vor. Ég er full­viss um að það sem meðal ann­ars tryggði góðan ár­ang­ur síðasta vet­ur var sam­ráð og gott upp­lýs­ingaflæði. Á ann­an tug sam­ráðsfunda voru haldn­ir með lyk­ilaðilum mennta­kerf­is­ins, all­ir sýndu mikla ábyrgð og lögðu hart að sér við að tak­ast á við áskor­an­ir með fag­leg­um hætti.

Það er mik­il­vægt að halda áfram góðu sam­ráði til að tryggja ár­ang­ur. Fyr­ir helgi skrifuðu full­trú­ar lyk­ilaðila í starf­semi grunn­skól­anna und­ir sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu um leiðarljós skól­anna. Þar lof­um við að gera allt hvað við get­um til að tryggja áfram skólastarf með um­hyggju, sveigj­an­leika og þraut­seigju að leiðarljósi.

Mark­miðið er að tryggja mennt­un en ekki síður ör­yggi. Því voru gefn­ar út leiðbein­ing­ar til skóla og fræðsluaðila, með það að mark­miði að auðvelda skipu­lagn­ingu skóla­starfs og sam­eig­in­leg­an skiln­ing á regl­um sem gilda. Með þeim er ít­rekuð sú ábyrgð sem hvíl­ir nú á skól­um og fræðsluaðilum; eft­ir­fylgni við sótt­varn­a­regl­ur með ör­yggi og vel­ferð nem­enda, kenn­ara og starfs­fólks að leiðarljósi. Ábyrgð sem hvíl­ir á fram­halds- og há­skóla­nem­end­um er ekki síður mik­il. Ein­stak­lings­bundn­ar sótt­varn­ir vega þungt í bar­átt­unni og jafn­framt þurf­um við að sýna hvert öðru til­lits­semi og virðingu.

Vissu­lega urðu trufl­an­ir á skóla­starfi í vet­ur. Áskor­an­ir mæta okk­ur á nýju skóla­ári en munu þó ekki slá tón­inn fyr­ir kom­andi vet­ur. Reynsl­unni rík­ari ætl­um við að láta skóla­starfið ganga eins vel og hægt er. Vellíðan nem­enda, fé­lags­leg virkni og vel­ferð þeirra til lengri tíma er efst á for­gangslista sam­fé­lags­ins. Víða um heim hafa börn ekki kom­ist í skóla í hálft ár og marg­ir ótt­ast var­an­leg áhrif á sam­fé­lög. Því er það sett í for­gang á Íslandi að hlúa að vel­ferð nem­enda. Sam­kvæmt samn­ingi Sam­einuðu þjóðanna um rétt­indi barns­ins eiga öll börn rétt á mennt­un.

Ljóst er að ís­lenska mennta­kerfið vann af­rek síðastliðinn vet­ur; skól­ar héld­ust opn­ir og nem­end­ur náðu flest­ir sín­um mark­miðum. Nú höf­um við öll eitt sam­eig­in­legt mark­mið; að standa vörð um skóla­kerfið okk­ar og sækja fram til að tryggja framúrsk­ar­andi mennt­un á öll­um skóla­stig­um. Kynnt verður til­laga til þings­álykt­un­ar um mennta­stefnu til árs­ins 2030 á haustþingi, þar sem mennt­un lands­manna er í önd­vegi. Mennta­stefn­an er afrakst­ur mik­ill­ar sam­vinnu allra helstu hagaðila. Það er til­hlökk­un að kynna hana og ég full­yrði að öfl­ugt mennta­kerfi mun vera lyk­ilþátt­ur í því að efla sam­keppn­is­hæfni þjóðar­inn­ar. Til að mennta­kerfið sé öfl­ugt, þarf það að vera fjöl­breytt og hafa í boði nám við hæfi hvers og eins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Menntakerfið sett í forgang í samfélaginu

Deila grein

24/08/2020

Menntakerfið sett í forgang í samfélaginu

Góð mennt­un er grund­völl­ur vel­sæld­ar þjóða. Á mánu­dag geng­ur nýtt skóla­ár í garð og metaðsókn er í nám. Það er þjóðhags­lega mik­il­vægt að skól­arn­ir komi sterk­ir inn í haustið. Um all­an heim eru skól­ar ekki að opna með hefðbundn­um hætti í haust, og í sum­um lönd­um hafa börn ekki farið í skól­ann síðan í fe­brú­ar. Skaðinn sem hlýst af því til lengri tíma er ómet­an­leg­ur.

Enn er með öllu óvíst hvenær far­ald­ur­inn geng­ur yfir. Nú, þegar við erum stödd í ann­arri bylgju far­ald­urs­ins hafa stjórn­völd skerpt aft­ur á sótt­vörn­um og hert aðgerðir. Ef­laust eru það von­brigði í huga margra en reynsl­an sýn­ir okk­ur að sam­taka náum við mikl­um ár­angri. Í vet­ur tók­um við hönd­um sam­an til að tryggja mennt­un og vel­ferð nem­enda. Og það tókst! All­ir ár­gang­ar náðu að út­skrif­ast í vor og Ísland var eitt af fáum ríkj­um í heim­in­um sem hélt skól­um opn­um á meðan far­ald­ur­inn stóð sem hæst.

Sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing: Um­hyggja, sveigj­an­leiki og þraut­seigja

Rétt viðbrögð ráða mestu um áhrif áfalla. Við sjá­um fram á ann­an skóla­vet­ur þar sem veir­an mun hafa áhrif á skólastarf. Því hef­ur um­fangs­mikið sam­ráð átt sér stað á síðustu vik­um. Kenn­ara­for­yst­an, á annað hundrað skóla­stjórn­end­ur, kenn­ar­ar og sér­fræðing­ar hafa fjar­fundað með mér og sótt­varn­ar­yf­ir­völd­um. Á fund­un­um var rætt um skipu­lag fram­halds- og há­skóla­starfs í upp­hafi nýs skóla­árs en einnig hvernig skól­ar geta upp­fyllt skyld­ur sín­ar gagn­vart nem­end­um, í sam­ræmi við sótt­varn­a­regl­ur.

Fram­halds- og há­skól­ar eru þegar byrjaðir að skipu­leggja starf sitt og blanda sam­an fjar- og staðkennslu. Fjöl­marg­ir munu leggja áherslu á að taka vel á móti ný­nem­um, enda er mik­il­vægt að ný­nem­ar geti kynnst og lært inn á nýja skóla og náms­kerfi. All­ir eru sam­stiga í því að nú sé tæki­færi fyr­ir skóla og kenn­ara að efla sig í tækn­inni og auka þekk­ingu og gæði fjar­kennslu.

Ég fann strax mikla sam­stöðu og vilja hjá öll­um sem tengj­ast mennta­kerf­inu að standa sam­an í þessu verk­efni. Því ákváðum við, Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Kenn­ara­sam­band Íslands og Fé­lag fræðslu­stjóra og stjórn­enda skóla­skrif­stofa, að gefa út sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu um skóla­starfi á tím­um kór­ónu­veirunn­ar. Um­hyggja, sveigj­an­leiki og þraut­seigja verða leiðarljósið okk­ar í haust. Við telj­um mik­il­vægt að all­ir nem­end­ur njóti mennt­un­ar óháð fé­lags- og menn­ing­ar­leg­um bak­grunni og þarf sér­stak­lega að huga að nem­end­um í viðkvæmri náms­stöðu, nýj­um nem­end­um og fram­kvæmd kennslu í list- og verk­grein­um.

Leiðbein­ing­ar: Fram­halds- og há­skól­ar

Mark­mið okk­ar allra er að tryggja mennt­un en ekki síður ör­yggi og vel­ferð nem­enda, kenn­ara og starfs­fólks skól­anna. Það var því einnig ákveðið að gefa út leiðbein­ing­ar til skóla og fræðsluaðila, með það að mark­miði að auðvelda skipu­lagn­ingu skóla­starfs og sam­eig­in­leg­an skiln­ing á regl­um sem gilda. Með þeim er ít­rekuð sú ábyrgð sem hvíl­ir nú á skól­um og fræðsluaðilum; eft­ir­fylgni við sótt­varn­ar­regl­ur með ör­yggi og vel­ferð nem­enda, kenn­ara og starfs­fólks að leiðarljósi. Þar er einnig ít­rekað að fram­kvæmd náms og skipu­lag geti breyst með áhættu­stig­um og tak­mörk­un­um, en mik­il­vægt sé að fylgj­ast með líðan allra nem­enda. Þá er lögð áhersla er lögð á gott upp­lýs­ingaflæði til nem­enda, for­ráðamanna, kenn­ara og starfs­fólks um stöðu mála, úrræði og stuðning sem í boði er.

Þings­álykt­un: Mennta­stefna til framtíðar

Með nýrri heil­stæðri mennta­stefnu til árs­ins 2030 mun­um við standa vörð um og efla skóla­kerfið okk­ar. Til­laga að þings­álykt­un um mennta­stefn­una verður lögð fyr­ir Alþingi í haust. Mark­mið stjórn­valda með þess­ari mennta­stefnu er að veita framúrsk­ar­andi mennt­un með áherslu á þekk­ingu, vellíðan, þraut­seigju og ár­ang­ur í um­hverfi þar sem all­ir skipta máli og all­ir geta lært. Mennta­stefn­an er mótuð í breiðu sam­starfi, meðal ann­ars með aðkomu fjöl­margra full­trúa skóla­sam­fé­lags­ins sem tóku þátt í fundaröð ráðuneyt­is­ins um mennt­un fyr­ir alla, svo og full­trú­um sveit­ar­fé­laga, for­eldra, nem­enda, skóla­stjórn­enda og at­vinnu­lífs­ins.

Mik­il áhersla er lögð á að kennsla og stjórn­un mennta­stofn­ana verði framúrsk­ar­andi og að all­ir hafi jöfn tæki­færi til mennt­un­ar. Nám­skrá, náms­um­hverfi og náms­mat þarf að styðji við hæfni til framtíðar og mennta­stefna trygg­ir fram­kvæmd og gæði skóla- og fræðslu­starfs.

Þess­ir óvissu­tím­ar sem við lif­um nú sýna að allt mennta­kerfið hef­ur getu til að standa sam­an með sam­taka­mátt að leiðarljósi. Það er mik­il­væg­ara nú en nokkru sinni fyrr að móta mennta­stefnu, sem veit­ir von um betri framtíð.

Ég tel að mennt­un og hæfni sé lyk­il­for­senda þess að Ísland geti mætt áskor­un­um framtíðar­inn­ar, sem fel­ast meðal ann­ars í örum breyt­ing­um á sam­fé­lagi, nátt­úru og tækni. Það er því okk­ar brýn­asta vel­ferðar­mál til framtíðar, að tryggja aðgang að góðu og sterku mennta­kerfi. Næstu fjár­lög og fjár­mála­stefna mun ein­kenn­ast af því grund­vall­ar­sjón­ar­miði að setja mennt­un þjóðar­inn­ar í for­gang.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. ágúst 2020.

Categories
Fréttir

Framsóknarfélag Múlaþings samþykkir framboðslista

Deila grein

21/08/2020

Framsóknarfélag Múlaþings samþykkir framboðslista

Framboðslisti fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í nýju sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, var samþykktur á almennum félagsfundi Framsóknarfélags Múlaþings sem fram fór í gær. Kosið verður til sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags 19. september næstkomandi.

Framboðslisti Framsóknar hefur tekið lítils háttar breytingum frá listanum sem búið var að samþykkja vegna áður boðaðra kosninga í vor.

Vilhjálmur Jónsson, bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri á Seyðisfirði, færist úr þriðja sæti upp í annað sæti. Jónína Brynjólfsdóttirverkefnastjóri hjá Austurbrú, færist úr fimmta sæti upp í það þriðja og Helga Erla Erlendsdóttir, fyrrverandi skólastjóri á Borgarfirði, fer að eigin ósk úr öðru sæti í það fimmta.

Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, leiðir framboðslistann og Eiður Ragnarsson, ferðaþjónustubóndi og fyrrverandi bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð, skipar fjórða sæti framboðslistans.

Framboðslisti Framsóknar var samþykktur samhljóða og mikill hugur er í Framsóknarfólki fyrir komandi kosningar. Sérstakur gestur fundarins var Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, sem færði fundinum og frambjóðendum kveðjur frá þingflokki Framsóknarmanna.

B-lista Framsóknarflokks fyrir sveitarstjórnarkosningar í nýju sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar, 19. september næstkomandi skipa:

  1. Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi, Fljótsdalshéraði
  2. Vilhjálmur Jónsson, bæjarfulltrúi, Seyðisfirði
  3. Jónína Brynjólfsdóttir, Fljótsdalshéraði
  4. Eiður Ragnarsson, Djúpavogi
  5. Helga Erla Erlendsdóttir, Borgarfirði eystri
  6. Helga Rós Magnúsdóttir, Seyðisfirði
  7. Benedikt Hlíðar Stefánsson, Fljótsdalshéraði
  8. Alda Ósk Harðardóttir, Fljótsdalshéraði
  9. Guðmundur Björnsson Hafþórsson, Fljótsdalshéraði
  10. Jón Björgvin Vernharðsson, Fljótsdalshéraði
  11. Gunnhildur Helga Eldjárnsdóttir, Seyðisfirði
  12. Karl Snær Valtingojer, hreppsnefndarmaður, Djúpavogi
  13. Guðrún Ásta Friðbertsdóttir, Fljótsdalshéraði
  14. Þorsteinn Kristjánsson, Borgarfirði eystra
  15. Valgeir Sveinn Eyþórsson, Fljótsdalshéraði
  16. Óla Björg Magnúsdóttir, Seyðisfirði
  17. Eiður Gísli Guðmundsson, Djúpavogi
  18. Guðfinna Harpa Árnadóttir, Fljótsdalshéraði
  19. Hjalti Þór Bergsson, Seyðisfirði
  20. Aðalheiður Björt Unnarsdóttir, Fljótsdalshéraði
  21. Þorvaldur Jóhannsson, fv. Bæjarstjóri, Seyðisfirði
  22. Gunnhildur Ingvarsdóttir, Fljótsdalshéraði

Mynd: Frá vinstri, Eiður Ragnarsson, Vilhjálmur Jónsson, Stefán Bogi Sveinsson og Jónína Brynjólfsdóttir.