Categories
Fréttir

Lýðheilsa er fjölþætt og kallar á lausnir á öllum sviðum samfélagsins

Deila grein

16/11/2020

Lýðheilsa er fjölþætt og kallar á lausnir á öllum sviðum samfélagsins

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, sagði á Alþingi í liðinni viku að „[e]itt af því sem við leiðum hugann frekar að við þær aðstæður sem við erum að kljást við er lýðheilsa“. 

Willum Þór sagði lýðheilsu vera fjölþætta, enda snéri hún að líkamlegu, félagslegu og andlegu heilbrigði manna. Minnti hann á að allt íþróttastarf yrði að komast af stað að sem fyrst enda mikilvægasta forvörnin til góðrar lýðheilsu.

„Um leið þakka ég og hrósa stjórnvöldum og skólafólki, ekki síst, fyrir að halda skólastarfi gangandi. Það er ómetanlegt og afar mikilvægt framlag til lýðheilsu,“ sagði Willum Þór.

„Ég vil nota tækifærið hér, virðulegi forseti, til að vekja athygli á skilaboðum Geðhjálpar um undirskriftasöfnun sem er í gangi um að setja geðheilbrigði í forgang. Ég vil um leið hnykkja á þeim aðgerðum sem miða að því að hlúa að geðheilbrigði. Þessi skilaboð eru mikilvæg, ekki síst á þessum tímum og minna okkur um leið á mikilvægi forvarnarstarfs. Ég hef auðvitað ekki tíma hér, á þessum tveimur mínútum, til að fara yfir allar nýjar aðgerðir en allar eru þær góðar. Ég vil nefna heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi sem er algerlega tímabær til að ná utan um málaflokkinn og tryggja samhæfingu ólíkra málefnasviða og í framhaldinu gagnsæi útgjalda og samspil við aðra þætti samfélagsins. Aukinn stuðningur og fræðsla til foreldra og aukin áhersla á þennan þátt í skólakerfinu og stofnun Geðráðs er mikilvægur liður í að fylgja eftir stefnumótun og aðgerðum á þessu sviði,“ sagði Willum Þór að lokum.

  • Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í störfum þingsins 5. nóvember 2020.
Categories
Fréttir

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Deila grein

16/11/2020

Margar aðgerðir eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni á Alþingi í liðinni viku að hollt væri að rifja upp allt það sem vel hefur tekist til í óvæntum aðstæðum. Fór hún sérstaklega yfir þær félagslegu aðgerðir sem farið hefur verið í vegna Covid.

„Stjórnvöld hafa nú þegar notað rúmlega 22 milljarða í úrræði til að viðhalda ráðningarsambandi og tryggja afkomu fólks. Þar vegur hlutabótaleiðin þyngst en alls hafa yfir 35.000 launþegar hjá 6.600 atvinnurekendum fengið greiddar hlutabætur frá því að lögin voru samþykkt en gera má ráð fyrir að 79% þeirra séu enn í ráðningarsamning við vinnuveitenda. Laun hafa verið greidd í sóttkví og tímabundin sumarstörf fyrir námsmenn orðið til hjá ríki og sveitarfélögum,“ sagði Líneik Anna.

Benti Líneik Anna á að framfærendur fatlaðra og langveikra barna hafi getað sótt um eingreiðslu vegna aukinnar umönnunar. Þá voru í vor settar 386 milljónir í ýmsar félagslegar aðgerðir, svo sem Hjálparsíma, 1717, unnið var með Móðurmáli, samtökum um tvítyngi, að fjarkennslu og heimanámsaðstoð og upplýsingar um Covid gerðar aðgengilegar á ýmsum tungumálum. Raunin varð að mikið var óskað eftir þessari þjónustu.

Sagði Líneik Anna ótal margar aðrar aðgerðir sem snúa sérstaklega að vernd heimila, vinnumarkaðsmálum, tómstundastarfi og innflytjendum hafi jafnframt heppnast vel.

„Það er ljóst að þegar allir leggjast á eitt finnast leiðir til að koma okkur í gegnum Covid. Mörg þessara verkefna og aðgerða þarf svo að þróa áfram meðan Covid stendur yfir og sumar eru komnar til að vera, einkum þær sem snúa að viðkvæmum hópum,“ sagði Líneik Anna að lokum.

  • Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins 5. nóvember 2020.
Categories
Fréttir

Tveir fyrrum formenn SUF bornir til grafar í dag

Deila grein

11/11/2020

Tveir fyrrum formenn SUF bornir til grafar í dag

Í dag eru bornir til grafar tveir fyrrum formenn Sambands Ungra Framsóknarmanna, þeir Örlygur Hálfdánarson og Már Pétursson. Framsóknarfólk vottar aðstandendum sína dýpstu samúð.

Örlygur Hálfdánarson

Örlygur var formaður Sambands ungra Framsóknarmanna 1960-1966. Hann fæddist 21. desember 1929 í Viðey á Kollafirði og ólst þar upp og á Seltjarnarnesi og lést á Hjúkrunarheimilinu Sóltúni í Reykjavík 30. október 2020.

„Ég hefi sjaldan heyrt hina svonefndu einstaklingshyggjumenn  viðurkenna jafn augljóslega yfirburði samvinnunnar heldur enn þessa þrjá menn, því það gerðu þeir með því að koma hvergi inn á megin málið, samvinnuhugsjónina, en voru sífellt að japla á gömlum lummum úr æskulýðssíðu Morgunblaðsins. Samvizkan hlýtur að kvelja þessa ungu menn, sem augsýnilega viðurkenna gildi og mátt samvinnuhreyfingarinnar í hjarta sínu en afneita henni þó.  – Örlygur Hálfdánarson á kappræðufundi milli Samvinnuskólans og Verzlunarskólans vorið 1954.

Örlygur kom meðal annars að stofna og var fyrsti formaður félags ungra samvinnumanna, sem fékk nafnið Fræðslu- og kynningarsamtök ungra samvinnumanna, skammstafað FOKUS. Hlutverk félagsins var að auka kynni á samvinnustefnunni meðal æskufólks. Örlygur var jafnframt duglegur að flytja erindi um ræðumennsku og fundarstjórn og fundarreglur, áður en hann varð formaður SUF.

Frétt frá 8. þingi SUF 1960:
Frétt frá 11. þingi SUF 1966:

Már Pétursson

Már var formaður Sambands ungra Framsóknarmanna 1970-1972. Hann fæddist á Guðlaugsstöðum í Blöndudal 11. desember 1939 og lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 31. október 2020.

Á formannsárum Más gaf Samband ungra Framsóknarmanna m.a. út bókina „Land í mótun — byggðaþróun og byggðaskipulag“ en höfundur hennar var Áskell Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri á Húsavík og síðar framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Norðlendinga. Fjallar bókin um þróun og skipulag byggðanna.

Frétt frá 13. þingi SUF 1970:
Frétt frá 14. þingi SUF 1972:
Categories
Fréttir

Nýr þjóðarleikvangur

Deila grein

11/11/2020

Nýr þjóðarleikvangur

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur fengið samþykkt í ríkisstjórn að hefja viðræður við Reykjavíkurborg um næstu skref vegna byggingar nýs þjóðarleikvangs í knattspyrnu.

„Laugardalsvöllur var reistur af stórhug fyrir 63 árum og hefur reynst vel – fært þjóðinni ógleymanleg augnablik og skilað íslensku knattspyrnufólki á stærstu úrslitakeppnir í heimi,“ segir Lilja Dögg.

„Hann er hins vegar barn síns tíma og langt frá því að uppfylla viðmið, m.a. um öryggi og aðstöðu vallargesta, aðgengi fatlaðs fólk, aðstöðu leikmanna, dómara og fjölmiðla, hitakerfi o.s.frv. Það er því löngu tímabært að ráðast í byggingu nýs þjóðarleikvangs og ég er vongóð um að hann muni rísa á næstu 5 árum.“

Með viðræðum við Reykjavíkurborg er mikilvægt skref stigið í að byggja keppnisaðstöðu sem stenst alþjóðlegar kröfur, en undanfarin ár hefur Laugardalsvöllur þurft undanþágur og sérstakan viðbúnað vegna keppnisleikja í alþjóðlegum mótum. Viðræðurnar munu byggja á valkostagreiningu breska ráðgjafafyrirtækisins AFL, sem varð hlutskarpast í útboði sem efnt var til á evrópska efnahagssvæðinu snemma árs. Í greiningunni er kostnaðar- og tekjumat eftirtalinna valkosta, auk viðskiptaáætlunar og mats á efnahagslegum þáttum:

  • Að núverandi völlur verði að mestu leyti óbreyttur, en ráðist verði í lágmarksendurbætur og -lagfæringar.
  • Að Laugardalsvöllur verði endurbættur svo hann uppfylli kröfur og staðla Knattspyrnusambands Evrópu (EUFA) og Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA).
  • Að byggður verði nýr 15.000 manna leikvangur, með opnanlegu þaki eða án þaks.
  • Að byggður verði fjölnotaleikvangur með 17.500 sætum, með opnanlegu þaki eða án þaks.

Völlur með sætum fyrir 15.000 áhorfendum talinn hagkvæmasti kosturinn
AFL telur að 15.000 manna leikvangur án þaks sé hagkvæmasti kosturinn, ef eingöngu sé horft til beinna fjárhagslegra þátta. Hins vegar myndi slíkur leikvangur með opnanlegu þaki skila bestu heildarniðurstöðunni m.t.t. vinnsluvirðis, efnahagslegra áhrifa, nýtingar og fleiri þátta. Þá telur AFL að ofangreindir valkostir A og B séu ekki fýsileg langtímalausn.

Valkostagreiningin var unnin að undirlagi Þjóðarleikvangs ehf., félags sem KSÍ, Reykjavíkurborg og ríkið stofnuðu til að halda utan um verkefnið.

Categories
Fréttir

Opnun Dýrafjarðarganga – ræða Sigurðar Inga

Deila grein

26/10/2020

Opnun Dýrafjarðarganga – ræða Sigurðar Inga

Ég fagna því að vera með ykkur á öldum ljósvakans – hvar sem þið eruð stödd í dag – og fá að opna Dýrafjarðargöng. Þetta eru mikil og langþráð tímamót í samgöngum á Vestfjörðum og skipta sköpum fyrir byggðir þar. Gögnin koma í stað fjallvegarins um Hrafnseyrarheiði sem  hingað til hefur aðeins verið fær á sumrin. Þetta eru mikil tímamót.  Með göngunum og framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á Dynjandisheiði opnast ný heilsársleið – hringtenging um Vestfirði.

Eitt fyrsta embættisverk nýkjörins forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, var að fara í opinbera heimsókn til sunnanverðra Vestfjarða í september 1996. Hann sá tækifæri til að bæta lífskjör á svæðinu ekki síst á sviði ferðaþjónustu. Hann kvaðst sannfærður um að Vestfirðir yrðu næsta framtíðarland í ferðaþjónustu á Íslandi. Það yrði þó aðeins að veruleika ef vegakerfið stæðist samanburð við aðra landshluta. Enn fremur sagði hann:

„Það kemst enginn hjá því sem um Barðaströnd fer að kynnast því að því miður er verulegur munur á vegakerfinu í Barðastrandasýslu og öðrum landshlutum. Það er greinilegt að það þarf að gera verulegt átak á næstu árum til að Barðastrandasýsla haldi jöfnuði á við aðra landshluta.“          

Síðan eru liðin 24 ár. Unnið hefur verið að verkefninu með mismiklum hraða síðan en stórar og umfangsmiklar framkvæmdir hafa fengið að bíða. Í þeirri samgönguáætlun sem lögð var fram og samþykkt á Alþingi í sumar er með sanni hægt að segja að Vestfirðingar muni loks sjá smiðshöggið rekið á þetta risavaxna verkefni.

Í dag opnum við eitt þessara stóru verka, sjálf Dýrafjarðargöng, en framkvæmdir hófust árið 2017. Göngin eru ein umfangsmesta einstaka framkvæmd í vegakerfinu og munu leysa erfiðan farartálma af hólmi, Hrafnseyrarheiði. Göngin munu bæta umferðaröryggi, spara tíma á ferðalögum og nýtast vel um ókomin ár.

Í framhaldi af Dýrafjarðargöngum er eðlilegt að vegurinn yfir Dynjandisheiði verði endurbyggður. Nýverið var fyrsti áfangi þess verkefnis boðinn út af Vegagerðinni þar sem gert er ráð fyrir verklokum næsta haust. Heildarverkið á svo að klárast á fyrsta tímabili samgönguáætlunar eða fyrir árið 2024.

Annað risastórt samgönguverkefni hér á svæðinu er Vestfjarðavegur um Gufudalssveit. Hluti þess vegstæðis liggur eins og þjóðkunnugt er um Teigsskóg. Sú framkvæmd hefur hangið í lausu lofti um árabil vegna kærumála. Með úrskurði umhverfis- og auðlindamála fyrr í haust gefst nú loks kostur á að ýta þessari nauðsynlegu samgöngubót úr vör. Hún mun stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi mikið. Strax í haust stefnir Vegagerðin að því að bjóða út þverun Þorskafjarðar en  heildarverkið á að klárast fyrir árið 2024, rétt eins og með Dynjandisheiði.

Á samgönguáætlun er einnig þriðja risaverkefnið í landshlutanum, nýr Bíldudalsvegur frá flugvellinum á Bíldudal og upp á Dynjandisheiði. Þetta verkefni er á á öðru tímabili  samgönguáætlunar, og ætti því að vera lokið á tímabilinu 2025-2029.

Í þessum þremur verkefnum ásamt Dýrafjarðargöngum munu alls um 105 km af nýjum, greiðum og öruggum vegum bætast við vegakerfið hér á Vestfjörðum og koma í stað erfiðustu og hættulegustu vegkafla á svæðinu.

Þetta er þó ekki það eina sem við ætlum að bæta í samgöngukerfi Vestfjarða á næstu árum. Á undanförnum misserum hafa staðið yfir endurbætur á 7 km kafla af Djúpvegi milli Hestfjarðar og Seyðisfjarðar. Á Ströndum eru komin á áætlun framkvæmdir á Veiðileysuhálsi og Innstrandavegi, alls 17 km. Einnig mætti telja til framkvæmdir um Hattardalsá í Álftafirði, Örlygshafnarveg um Hvallátur auk þess sem við erum að breikka brýrnar yfir Botnsá í Tálknafirði og Bjarnardalsá í Önundarfirði.

Þar fyrir utan höfum við aukið umtalsvert framlög í uppbyggingu á tengivegum, en það nýtist ekki síst í hinum dreifðu byggðum. Að lokum er rétt að benda á að á síðustu árum höfum við tekið viðhald vega föstum tökum og stóraukið framlög til þess, en það tryggir að vegakerfið, verðmætasta einstaka eign ríkisins, hér og annars staðar haldist öruggt og áreiðanlegt.

Í almenningssamgöngum höfum við tekið það mikilvæga skref að opna Loftbrú, sem veitir 40% afslátt af flugfargjöldum fyrir íbúa sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu, svo sem hér á Vestfjörðum. Þetta tel ég vera mikið jafnréttismál. Þetta breytir öllu fyrir íbúana sjálfa sem nú greiða talsvert lægra verð til að sótt sækja þjónustu, menningu eða bara gert það sem þá langar til á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hefur einnig gríðarlega mikla þýðingu fyrir flugreksturinn sjálfan. Hagfræðin og heilbrigð skynsemi segir okkur að verð skiptir máli þegar kemur að eftirspurn. Það að hér um vil helminga verð til almennings á þessari mikilvægu samgönguleið ætti að skila sér í bættum lífskjörum almennings á Vestfjörðum auk þess að skjóta styrkari stoðum undir flugsamgöngur sem vonandi leiðir til aukinnar tíðni áætlunarflugs. 

Dýrafjarðargöng er enn einn áfanginn í þeirri vegferð að koma Vestfjörðum öllum í almennilegt heilsársvegasamband og sumir myndu segja við umheiminn. Ferðaþjónustan mun styrkjast þegar greið leið liggur allt árið að náttúruperlum Vestfjarða. Ég er þess fullviss að menning og afþreying mun styrkjast með tilkomu heilsárstengingar milli Suðurfjarða og norður um. Nú opnast til dæmis möguleikar fyrir krakkana á Bíldudal, Patreksfirði og Tálknafirði og víðar að bregða sér t.d. til Ísafjarðar á skíði. Og á sama verður auðveldara fyrir þá sem koma norðan frá, að skreppa til þessara staða, nú eða fara suður til Reykjavíkur. En síðast og ekki síst þá munu Dýrafjarðargöng auka umferðaröryggi íbúa á svæðinu.

Það er ekki nokkur spurning í mínum huga að allar þessar framkvæmdir muni skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Það var hárrétt hjá hinum nýkjörna forseta á sínum tíma að góðir samgönguinnviðir eru grunnforsenda þess að atvinnulíf geti haldið áfram að þróast og eflast. Samfélagslegur ábati verður ekki til vegna efnahagslegra umsvifa heldur ekki síst ef okkur tekst að fækka slysum.

Við sjáum skýr merki um það í slysatölum að við erum að ná árangri í fækkun alvarlegra slysa á Vestfjörðum (sjá graf) og miðað við metnaðarfull uppbyggingaráform okkar ættum við að geta gert okkur vonir um að svo haldi áfram.

Fyrir mig sem ráðherra samgöngumála er ánægjulegt að sjá að allt hefur gengið að óskum við þessa framkvæmd. Ég vil þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóginn síðastliðin ár svo göngin gætu orðið að veruleika. Það eru liðin rétt rúm þrjú ár frá því að vinna hófst við göngin. Það er ekki á hverjum degi sem risaframkvæmd eins og þessi opnar samkvæmt áætlun.

Síðasta haftið var sprengt fyrir rúmu ári síðan, haustið 2019, og hér stöndum við svo í dag með þessa mikilvægu samgöngubót. Allt er klárt, og það þrátt fyrir Covid sem setti strik í reikninginn, þökk sé snurðulausri samvinnu hins íslenska Suðurverks og hins tékkneska fyrirtækis Metrostav.

Góðir gestir – ég endurtek hamingjuóskir – til Vestfirðinga sérstaklega – í tilefni dagsins og megi þetta verða upphaf að lokaáföngum í Vestfjarðahringnum.

Líkast til er enginn hópur sem á eftir að njóta Dýrafjarðarganga jafn vel og lengi og börnin. Enda voru það börnin, nánar tiltekið nemendur við Grunnskólann á Þingeyri, sem að eigin frumkvæði tóku fyrstu skóflustunguna fyrir svo löngu síðan, heilum áratug, að þau sem það gerðu eru orðin fullorðin. Það er því viðeigandi að það séu vestfirsk börn sem fara fyrst í gegnum göngin í sannkallaðri vígsluferð. Það er einnig gaman að segja frá því að í þessari fyrstu ferð um Dýrafjarðargöng verður hann Gunnar Gísli Sigurðsson, með nemendum Grunnskólans á Þingeyri. Hann hefur hátt í hálfa öld haldið Hrafnseyrarheiðinni opinni, alltaf þegar það var hægt.

En áður en ég hringi vestur til að biðja um að slárnar við gangamunnana verði reistar fyrir almennri umferð, gef ég Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar orðið.

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins, við vígslu Dýrafjarðarganga laugardaginn 25. október í húsnæði Vegagerðinnar í Reykjavík.

Categories
Fréttir

Sveitarfélögin eru ekki að sækja í lánasjóð sveitarfélaga

Deila grein

23/10/2020

Sveitarfélögin eru ekki að sækja í lánasjóð sveitarfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði nálgun Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns, vera mjög ómálefnalega þegar hann segði að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að stefna sveitarfélögunum í einhvern vanda, þegar allir vita við hvað sé að fást í þessu samfélagi, sem er heimsfaraldur, Covid. Þetta koma fram í óundirfyrirspurnum á Alþingi í dag.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður, spurði Sigurð Inga hvernig það megi vera að hann hafi varið jafn glæfralega og ábyrgðarlausa stefnu gagnvart sveitarfélögum landsins. Þingmaðurinn sagði stöðu sveitarfélaga geta orðið alvarlega ef stefna ríkisstjórnarinnar næði fram að ganga. Vitnaði hann til þess að rekstur sveitarfélaga hafi ekki verið losaralegur á undanförnum árum og það samkvæmt mati aðalhagfræðings Kviku. Sveitarfélögin hafi skilað álíka rekstrarjöfnuði og ríkissjóður ef frá eru taldar einskiptistekjur ríkissjóðs vegna slitabúa föllnu bankanna.

„Það er markmið stjórnvalda að gefa í upp úr niðursveiflunni, að koma með innspýtingu og drífa allt af stað aftur,“ sagði þingmaðurinn og í framhaldi, „en á sama tíma sýnir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að fjárfesting sveitarfélaga verður langt undir sögulegu meðaltali. Niðurstaðan er að þótt fjárfestingar ríkisins tvöfaldist á næsta ári miðað við árið 2019 minnkar fjárfesting bæði sveitarfélaga og opinberra fyrirtækja“.

Sigurður Ingi sagði fullyrðingar þingmannsins um að hér væru öll sveitarfélög vel rekin ekki vera rétta, heldur standi sveitarfélögin mjög misjafnlega. „Sum sveitarfélög gætu staðið sig mun betur og jafnvel stærsta sveitarfélag landsins sem ætti þó að hafa mestu hagræðingarmöguleikana í krafti stærðar,“ sagði Sigurður Ingi og bætti við, „margt bendir til þess að ef það sveitarfélag eitt og sér þarf að treysta á byggingarréttartekjur til þess að vera í plús þá sé eitthvað verulega að í þeim rekstri“.

Sagðist Sigurður Ingi vera tilbúin í umræðu hvernig megi auka opinberar fjárfestingar, á málefnalegan hátt. „Við gætum aukið þær og að því hefur ríkisstjórnin stefnt. Ég veit að slíkur áhugi er til staðar, ég heyri það alla vega hjá einstökum þingmönnum fjárlaganefndar,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði að hvetja eigi til fjárfestinga sveitarfélaganna og sagði ekki rétt að þau geti ekki nálgast lánsfé.

„Það eru 75 milljarðar í lánasjóði sveitarfélaga á mjög góðum kjörum sem sveitarfélögin geta sótt í en sækja ekki í,“ sagði Sigurður Ingi.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi vill segja upp tollasamningi við ESB

Deila grein

10/10/2020

Sigurður Ingi vill segja upp tollasamningi við ESB

Sigurður Ingi Jóhannssonsamgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir í grein í Morgunblaðinu í dag að skoðun sín sé að segja eigi upp tollasamningi við ESB. Ríkisstjórnin sé með það til skoðunar að segja eigi þessum ESB-tollasamningi upp, segir Sigurður Ingi enn fremur. Mjólk­uriðnaður­inn og „afurðastöðvar í kjöti“, hafi ekki nýtt tæki­fær­in sem samn­ing­ur­inn skapaði þeim og að Bret­land sé gengið úr ESB.

Eft­ir­litið þarf að virka. Þær frétt­ir ber­ast þessi miss­er­in að þar sé allt í skötu­líki. Inn­flutn­ings­fyr­ir­tæk­in kom­ist upp með að brjóta tolla­samn­ing­inn með rangri flokk­un á vör­um, jafn­vel svo árum skipti. Af­leiðing­in eru und­an­skot á toll­um, jafn­vel svo nem­ur hundruðum millj­óna, án þess að nokk­ur eft­ir­lits- og ábyrgðaraðili bregðist við. Það er ekki hægt að sætta sig við að samn­ing­ar séu brotn­ir, þannig skekk­ist sam­keppni við bænd­ur, sam­keppni milli fyr­ir­tækja sem halda sig inn­an laga og hinna sem svíkj­ast um að greiða op­in­ber gjöld og snuða þannig al­menn­ing beint. Þetta þarf að rann­saka.

Að auki hef­ur orðið forsendubrestur eft­ir að samn­ing­ur­inn komst á. Ann­ars veg­ar hafa þeir sem fóru fram á að samn­ing­ar yrðu gerðir, mjólk­uriðnaður­inn og „afurðastöðvar í kjöti“, ein­hverra hluta vegna ekki nýtt tæki­fær­in sem samn­ing­ur­inn skapaði þeim. Hins veg­ar er Bret­land gengið úr ESB – eða í þann mund að gera það. Það er því mín skoðun og til skoðunar inn­an ríkisstjórnarinnar að það eigi að segja þess­um ESB-tolla­samn­ingi upp, segir Sigurður Ingi.

Landbúnaður – hvað er til ráða? er í yfirskrift greinar Sigurðar Inga. Segir hann landbúnað á Íslandi standa á kross­göt­um og hafi gert í þó nokk­ur ár. „Neyslu­breyt­ing­ar al­menn­ings, auk­in alþjóðleg sem og inn­lend sam­keppni og breytt­ur rík­is­stuðning­ur (minni beinn fram­leiðsl­u­stuðning­ur) hafa valdið lægri tekj­um á fram­leiðslu­ein­ingu hjá bænd­um. Á móti hafa vax­andi ferðamanna­fjöldi, ný­sköp­un í störf­um á lands­byggðinni og stærri bú vegið á móti,“ segir Sigurður Ingi. 

Nefnir Sigurður Ingi að landsmenn sýni mikinn stuðning við inn­lenda fram­leiðslu og þá hafi auk­in krafa um minna kol­efn­is­fót­spor, minni lyfja­notk­un, meiri sjálf­bærni og meiri holl­ustu ýtt und­ir fram­leiðslu ís­lenskra bænda.

En hvernig tryggj­um við ör­ugg­an aðgang að inn­lend­um mat­væl­um? Það þarf aug­ljós­lega að grípa til í það minnsta þeirra aðgerða sem nefnd­ar hafa verið til þess að bæta af­komu bænda. Svo höf­um við val. Rík­is­stjórn­in styður við frum­kvæði um að velja ís­lenskt. Átakið „Láttu það ganga“ er gott og gilt, styður við inn­lenda fram­leiðslu og skap­ar störf. Reglu­verkið um upp­runa­merk­ing­ar þarf að vera skýr­ara. Að ein­hverju leyti er framtíð land­búnaðar í hönd­um hvers og eins. Ef við vilj­um fá ör­ugg­an, ómengaðan og holl­an mat á borðið – fyr­ir börn­in okk­ar og for­eldra sem og okk­ur sjálf – þá eig­um við að geta gert kröfu í versl­un­inni, á veit­ingastaðnum og mötu­neyt­inu um upp­runa­merk­ing­ar. Við höf­um val. Íslenskt – já takk, segir Sigurður Ingi.

Categories
Fréttir

Þriðji geirinn – bætt lýðheilsa!

Deila grein

06/10/2020

Þriðji geirinn – bætt lýðheilsa!

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins á Alþingi í dag þá staðreynd að í fjárlagafrumvarpinu sé áætlað að 2,1 milljarður fari í að styðja þriðja geirann.

„Þriðji geirinn er mjög fjölþættur og afar mikilvægur og ekki síst allt það sjálfboðaliðastarf sem fer fram í þeim geira. Það eru fjölmargar rannsóknir sem staðfesta að þetta styrkir uppvöxt barna og unglinga. Þátttaka í öllu skipulögðu íþrótta- og menningartengdu tómstundastarfi styður við uppvöxt þeirra og bætir lýðheilsu til lengri tíma,“ sagði Willum Þór. 

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur boðað frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld, sem snúa að þriðja geiranum. 

„Það er í samræmi við tillögur starfshóps sem skilaði skýrslu um þetta efni og tillögum til að hvetja og styrkja skattalegt umhverfi þriðja geirans. Ég vil fagna þeim viðbrögðum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra að boða þetta frumvarp,“ sagði Willum. 

Sagði hann starfshópinn hafa komist að því að nágrannaríki okkar væru með víðtækari skattalega hvata en séu á Íslandi. 

„Hér er verið að bregðast við því, og ég vil fagna því,“ sagði Willum að lokum.

Categories
Fréttir

Munu bændur einir sitja uppi með þetta tjón?

Deila grein

05/10/2020

Munu bændur einir sitja uppi með þetta tjón?

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og formaður Þingflokks Framsóknarmanna, hefur kallað eftir svörum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort ekki verði séð til þess að aukið fjármagn verði sett í Bjargráðasjóð. Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

„Óveðrið sem gekk yfir landið i desember í fyrra hafði miklar og afleiðingar eins og okkur er öllum kunnugt. Ríkið brást hratt við og gengið hefur verið í mikilvæga vinnu varðandi t.d. rafmagnsmál. Vinnu við að koma rafmagni í jörð hefur verið hraðað og munu um 250 km. komast í jörð á þessu ári. Landsmönnum hefur því verið tryggt meira öryggi og aukin lífsgæði. Ætla verður að þetta styrki byggð um land allt.,“ sagði Þórunn.

„En veðurofsinn kubbaði niður girðingar á stórum landsvæðum og eru girðingar stór kostnaðarliður á hverju búi. Til viðbótar kom í ljós kal í túnum á stórum svæðum norðan- og austanlands. Samkvæmt mínum heimildum eru svæði þar sem í raun enginn sleppur við kalskemmdir,“ sagði Þórunn.

Bændur brugðust við með því að endurvinna tún og ræktun en veðráttan var áfram erfið og á Norðurlandi var vorið afar þurrt og stór hluti endurvinnslunnar mistókst af þeim sökum. Þá hefur ágangur gæsa og álfta einnig verið mikill.

„Nú er staðan sú að margir eru tæpir á hey og þurfa því að taka ákvörðun um hvort mæta eigi því með fækkun á búfé eða hvort kosta eigi upp á kostnaðarsöm heykaup. Heyrist mér bændur ekki allir bjartsýnir á að hið opinbera komi að þessu með þeim því ekki hefur verið sett aukið fjármagn í Bjargráðasjóð. Síðast var sótt um aukafjármagn í hann árið 2013. 

Sýnist mér regla vera sú að alltaf þegar áföll hafa orðið þá hafi verið sótt um aukaframlög. Stjórnvöld hafa farið þá leið að safna ekki upp fjármunum í sjóðinn en alltaf komið til aðstoðar þegar áföll hafa orðið.“

Fyrir Bjargráðasjóði eru nú umsóknir vegna 4700 hektara  af kalskemmdum og eins umsóknir vegna um 200 km. af girðingum.

„Ég vil því spyrja hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir því að aukið fjármagn verði sett í Bjargráðasjóð, því ekki trúi ég því að bændur eigi að sitja einir með þetta tjón,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga

Deila grein

02/10/2020

Ræða Sigurðar Inga

Ræða Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formanns Framsóknarflokksins, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi fimmtudaginn 1. október 2020.

***

Virðulegi forseti. Formaður Miðflokksins fór í ræðu sinni yfir að stefna ríkisstjórnarinnar væri stefna Vinstri grænna. Formaður Samfylkingarinnar kom svo upp og sagði að þessi stefna væri hægri stefna Sjálfstæðisflokksins. Svarið liggur auðvitað í augum uppi: Stefna þessarar ríkisstjórnar er stefna Framsóknarflokksins. [Hllátur í þingsal.] Það er rétt sem formaður Samfylkingarinnar sagði: Vinna, vöxtur, velferð. Þetta eru kjörorð framsóknarstefnunnar og Samfylkingin er að taka þau upp. Þegar hann lýsti síðan hvaða áform þyrfti að fara í í fjárfestingarátakinu var hann lýsa fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar. Það er rétt hjá formanni Samfylkingarinnar að allur heimurinn er að fara í þá átt. Ræða mín er ónýt því að ég þurfti að byrja á þessu en ég ætla samt að fara í nokkra hluti.

Upp er runnin 1. október og áttundu mánaðamótin frá því að kórónuveirufaraldurinn fór fyrir alvöru að hafa áhrif á líf okkar. Fjöldi fólks sem var með vinnu 1. mars er nú án atvinnu. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa miðað að því að milda þetta mikla högg um leið og heilsa landsmanna er vernduð eftir því sem best er hægt. Og hvað felst í því að milda höggið? Jú, það felst fyrst og fremst í því að standa vörð um atvinnu fólks og lifibrauð þess og líklega er stærsta aðgerðin hlutastarfaleiðin. Eftir því sem á hefur liðið höfum við framlengt hana og framlengt tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Markmiðið er að standa vörð um ráðstöfunartekjur heimilanna eftir því sem kostur er því að mánaðamótin koma með öllum sínum skuldbindingum. Við stöndum vörð um störfin og við sköpum ný störf. Það er atvinna, atvinna, atvinna sem málið snýst um.

Sumarið var ólíkt síðustu sumrum, engir erlendir ferðamenn. Íslendingar fóru hins vegar um landið og ég held að það hafi aukið skilning okkar allra á aðstæðum fólks hringinn í kringum landið og skapað sterkari tilfinningu fyrir landinu. Okkar fagra Ísland er nefnilega ekki bara höfuðborg og landsbyggð. Við eigum landsbyggðir, ólíkar en samt með sömu hagsmuni fólks, hagsmuni þar sem atvinna er efst á blaði, það að geta mætt mánaðamótunum án þess að vera með kvíðahnút í maganum. Um það snýst vinna okkar á Alþingi og í ríkisstjórn, síðustu mánuðina, næstu vikur, næstu mánuði: Að standa vörð um störf og skapa ný störf. Atvinna, atvinna, atvinna.

Næstu mánuði leggjum við grunn að framtíðinni. Það eru viðamikil mennta- og starfsúrræði fram undan fyrir þá sem missa vinnuna auk áherslunnar á að skapa ný störf og ný tækifæri. Það á ekki síst við á þeim svæðum sem hafa orðið harðast úti vegna frosts í ferðaþjónustu, atvinnugreininni sem hefur auk landbúnaðar og sjávarútvegs verið lífæðin í byggðum landsins. Við vitum öll að þegar þessar hörmungar hafa gengið yfir er framtíðin björt í ferðaþjónustu á Íslandi. Náttúran er enn jafn fögur, innviðir enn til staðar og styrkjast með ári hverju með metnaðarfullum samgönguframkvæmdum, og það sem er mikilvægast: Þekkingin hjá fólkinu og krafturinn er enn til staðar og mun springa út sem aldrei fyrr þegar veiran gefur eftir og ferðaþráin springur út að nýju. Nú eiga lítil og meðalstór fyrirtæki allt sitt undir því að fjármagnseigendur séu þolinmóðir og bíði af sér ölduganginn. Þar eru störf fólks og heimili í húfi.

Ég er bjartsýnn að eðlisfari og síðustu mánuðir hafa styrkt þann eiginleika minn því að ég hef upplifað mikla samstöðu þjóðarinnar við erfiðar aðstæður. Þrátt fyrir þá miklu erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir, þrátt fyrir að við getum ekki lifað eðlilegu lífi og þrátt fyrir að kreppan komi mismunandi við fólk hefur ríkt skilningur um að við komumst í gegnum þetta saman, með samvinnu, með skilningi á aðstæðum annarra, umburðarlyndi og bjartsýni. Og verkefnið er fyrst og fremst atvinna, atvinna, atvinna.

Í dag er gleðidagur. Eftir margra ára baráttu fyrir bættum samgöngum á sunnanverðum Vestfjörðum hefur sá dómur loks verið kveðinn upp að framkvæmdir geti hafist í gegnum Teigsskóg. Áfram veginn um Teigsskóg.

Fullyrða má að aukningin í nýframkvæmdum á næstu árum í samgöngum vegi á móti samdrætti næstu ára á ýmsum öðrum sviðum. Sú sókn grundvallast annars vegar á metnaðarfullri framtíðarsýn í 15 ára samgönguáætlun og á viðbótarfjármagni sem lagt var í samgönguframkvæmdir og fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar. Samgönguframkvæmdir næstu ára skapa 8.700 störf einar og sér.

Þá er mikilvægt að við séum meðvituð um áhrif okkar sem neytenda þegar við kaupum íslenskar vörur, hvort heldur er lambakjöt eða súkkulaði eða fatnaður. Þannig verjum við störf og sköpum ný. Við höfum val. Íslenskt – gjörið svo vel og Láttu það ganga.

Haustið bítur aðeins í nef okkar og veturinn færist nær. Frá því að þing var sett haustið 2019 hefur margt gengið á, ekki aðeins veiran heldur var síðasti vetur mörgum erfiðum með vályndum veðrum. Óveður sem gengu yfir landið síðasta vetur sýndu svo ekki verður um villst aðstöðumun milli landshluta. Ríkisstjórnin brást við af festu og nú myndu óveður af þessari stærðargráðu ekki hafa slík áhrif. Það er búið að framkvæma.

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er breið í eðli sínu. Þar koma saman ólíkir kraftar sem endurspegla að miklu leyti skoðanir þjóðarinnar. Hún hefur verið einbeitt í því að horfa á sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar og vinna að sátt í samfélaginu. Hún er á réttum tíma á réttum stað. Við þurfum að vernda störf, við þurfum að skapa störf. Það er verkefni sem við getum sameinast um. Þegar fer að vora verðum við tilbúin til að snúa vörn í sókn. Framsókn fyrir íslenskt samfélag. Vinna, vöxtur, velferð, formaður Samfylkingarinnar, því að framtíðin ræðst á miðjunni

Það er 1. október 2020 í dag og við erum í miðju stríði við kórónuveiruna. En hver mánaðamót sem renna upp héðan í frá segja okkur líka að það styttist í að lífið færist að nýju í eðlilegt horf. Gleymum því ekki. Sameinumst um að vernda störf og skapa störf því að verkefnið er brýnt og verkefnið er ljóst: Atvinna, atvinna, atvinna. — Góðar stundir.

***