Það er stundum sagt að vextir séu eins og þyngdarafl. Þeir toga alla niður á við, bæði heimili og ríkissjóð. Ríkið ver tugum milljarða í vaxtagreiðslur á hverju ári, um 125 milljarða árið 2026, og ekki er útlit fyrir að þessar greiðslur lækki á næstu árum.
Fjölskyldur búa við svimandi vaxtabyrði af húsnæðislánum sínum og fyrirtæki standa frammi fyrir fjármögnunarkostnaði sem er með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Þetta dregur þróttinn úr hagkerfinu og skerðir möguleika okkar til að hraða t.a.m. innviðauppbyggingu og byggja upp sjálfbæra framtíð.
Veruleg tekjuaukning skapar sögulegt svigrúm
Hallinn árið 2026 er áætlaður um 15 milljarðar, sem er minna en eitt prósent af heildarútgjöldum ríkisins. Þetta er tiltölulega lítill halli en hann er táknrænn. Tækifærið sem við höfum til að ná jafnvægi tekna og gjalda er stórt.
Áætlað er að tekjur ríkisins muni aukast um 80 milljarða umfram áætlun árið 2025 og verða 27 milljörðum meiri árið 2026 en gert var ráð fyrir. Þetta eru jákvæðar fréttir. Þessi tekjuauki jafngildir rekstri heilbrigðisstofnana, menntaskóla eða viðbót við innviðauppbyggingu í nokkur ár.
Aðalatriði er þó að þessi tekjuaukning veitir einstakt svigrúm til að koma í veg fyrir hallarekstur strax á árinu 2026 án þess að skerða grunnþjónustu.
Hallalaus fjárlög skipta okkur öll máli
Hallalaus fjárlög 2026 væru ekki bara jákvæðar fréttir fyrir þá sem skulda, sem við flest gerum. Þau væru ein sterkustu skilaboð um aga og ráðdeild sem íslensk stjórnvöld hafa sent frá sér í áraraðir á sviði efnahagsmála. Þau myndu styrkja trúverðugleika ríkisfjármála, bæta verðbólguhorfur og flýta verulega fyrir vaxtalækkunum Seðlabankans.
Fyrir heimilin og fyrirtækin myndi þetta þýða lægri vexti, bætt lánskjör og aukið svigrúm til fjárfestinga. Þetta er verkefni sem allir ættu að sameinast um.
Raunhæfar leiðir
Það þarf ekki róttækan niðurskurð til að ná hallalausum fjárlögum. Hægt er að fresta framkvæmdum sem ekki eru brýnustu forgangsmál e.t.v. um eitt ár. Þá má velta fyrir sér þeim möguleika að endurskoða skattkerfið til skemmri og lengri tíma og draga úr undanþágum. Það er svo mikið í húfi að við verðum að gera betur. Vafalaust mun þetta verða rætt ásamt öðru fram að 2. umræðu frumvarps til fjárlaga.
Svo má ekki gleyma því að fjármögnunarkostnaður ríkisins myndi lækka verulega við endurfjármögnun lána og skuldbindinga um leið og verðbólguvæntingar batna. Í því felst milljarða sparnaður fyrir ríkissjóð.
Nýtum tækifærið
Fjárlög 2026 geta orðið hallalaus. Það væri ekki aðeins hagræn niðurstaða heldur söguleg yfirlýsing um aga, stöðugleika og ábyrgð gagnvart framtíðarkynslóðum. Slík niðurstaða væri til marks um að þjóðin geti staðið saman þegar mest á reynir líkt og gert var í þjóðarsáttinni á níunda áratugnum.
Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri. Spurningin er hvort stjórnvöld og stjórnarandstaða, atvinnulíf og verkalýðshreyfing, fjölskyldur og fyrirtæki taki höndum saman. Ef allir leggja sitt af mörkum getum við tryggt hallalaus fjárlög 2026 og skapað traustari framtíð fyrir Ísland.
Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 20. september 2025.
