Categories
Fréttir Greinar

Jólakveðja Konur í Framsókn

Deila grein

21/12/2022

Jólakveðja Konur í Framsókn

Konur í Framsókn.

Síðustu ár hefur þeim konum fjölgað sem hafa gengið til liðs við Framsókn. Konur með fjölbreytta reynslu og bakgrunn úr atvinnulífinu, af vinnumarkaði, menntaðar, mæður, dætur og ömmur. Konur sem hafa lagt fram krafta sína, þekkingu og reynslu með það eitt að markmiði að láta gott af sér leiða.

Konur sem hafa samsvarað sig við stefnu flokksins.

Konur sem hafa skynjað samvinnukraftinn, viljann og framtakssemina sem einkennir Framsókn.

Konur sem hafa upplifað að rödd þeirra hefur áhrif.

Aldrei hafa eins margar konur setið í sveitarstjórnum fyrir hönd Framsóknar og aldrei fleiri leitt lista Framsóknar en nú.

Mikil virkni og kraftur er meðal kvenna í Framsókn og aldrei hafa fleiri konur leitt lista flokksins í sveitarfélögum en nú og aldrei hafa fleiri konur setið í sveitarstjórnum fyrir Framsókn. Sá árangur sem Framsókn hefur náð á landsvísu byggist fyrst og fremst á liðsheild og trausti. Við vitum að framlag okkar og frammistaða muni leiða til árangurs og það skiptir höfuðmáli.

Við vitum að til að viðhalda þeim árangri sem höfum náð er getan til að skilja og þakka fyrir það að við erum ekki einsleitur hópur mikilvæg. Við erum meðvitaðar um eigin viðhorf og höfum viljan til að setja okkur í spor annara. Við erum opnar gagnvart ólíkum hugmyndum og sjónarmiðum, því allar hafa eitthvað fram að færa. Þannig höfum við náð sameiginlegum markmiðum og skapað traust.

Hvati kvenna til að starfa innan Framsóknar er sprottinn af áhuga og eldmóð fyrir ólíkum málaflokkum enda er fjölbreyttur hópur kvenna innan flokksins með færni, þekkingu, reynsla úr öllum áttum. Stefnt er að því virkja málefnavinnu og samtal innan stækkandi hóps Framsóknar enn frekar á nýju ári með málefnahópum. Konur í Framsókn eiga raddir á öllum málefnasviðum og taka virkan þátt í þeirra vinnu.  Efnahag- velferðar-, mennta-, orku-, sjávarútvegs- umhverfis- og skipulagsmál, matvælaframleiðsla, nýsköpunar – og menningarmál eru málefni kvenna í Framsókn.

Hlutdeild kvenna í stjórnmálum er enn þá aðeins um 20% þegar litið á heimsvísu og örfáir þjóðhöfðingjar heims eru konur. Þrátt fyrir að umhverfi stjórnmálanna sé almennt talið karllægt þá höfum við náð ákveðnum árangri með að brjótast úr því umhverfi hér á landi. Reynsla kvenna úr stjórnmálum er besti vitnisburðurinn um stöðuna hér á landi og jafnframt hvatning og innblástur fyrir næstu kynslóðir kvenna. Sérhver kona sem eitt sinn var stúlka kannast við að hafa speglaði sig í kvenfyrirmyndum. Það eru fyrirmyndirnar sem geta skipt sköpum þegar stígið er inn á svið stjórnmálanna. Heilsteyptar fyrirmyndir með gott siðferði og góða dómgreind.

Hvetjum konur á öllum aldri til að taka þátt í stjórnmálum.

Ég get ekki látið það hjá líða að minnast á það að fátt skemmtilegra  en þegar Framsóknar konur hittast. “Rannsóknir” undirritaðrar hafa leitt í ljós síðustu ár að konur í Framsókn kunna einfaldlega að njóta þess að koma saman. Þar er gleðin ávallt við völd.

Takk fyrir ykkar framlag, samtölin, innblásturinn og samveruna á árinu sem er að líða.

Ég óska ykkur öllum og gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, formaður Kvenna í Framsókn.

Categories
Fréttir

Byggðirnar fá að blómstra!

Deila grein

20/12/2022

Byggðirnar fá að blómstra!

Frá því síðast hefur margt drifið á daga þingmanna Framsóknar. En það má segja að enginn dagur sé eins.

Í síðustu viku var fjöldi mála afgreiddur, m.a. fjárlög 2023. Meginmarkmið þeirra fjárlaga snúa að fjórum lykilþáttum:

  • Stefnt er að því að lækka rekstrarhalla og stöðva hækkun skuldahlutfalls á næsta ári.
  • Stjórnarmeirihlutinn stefnir að draga úr mótvægisaðgerðum vegna heimsfaraldurs Covid-19 og styðja við markmið Seðlabankans um að draga úr verðbólguþrýstingi.
  • Staðinn verður vörður um heimilin í landinu, með því að viðkvæmir hópar séu varðir fyrir áhrifum verðbólgunnar.
  • Innviðir og grunnþjónusta verða styrkt og raunvirði bóta almannatrygginga verði viðhaldið.

Lífskjarasókn ríkisstjórnarinnar verður haldið áfram. Mikill tekjuvöxtur hefur styrkt stöðu heimilanna á sl. árum, og staða þeirra hefur aldrei verið sterkari. Með því að stuðla að áframhaldandi hagvexti verður Ísland í mun sterkari stöðu en mörg nágrannalönd.

Ríkisstjórnin tilkynnti í tengslum við gerð kjarasamninga hækkun á húsnæðisbótum ætlað leigjendum sem eru undir tekju- og eignamörkum. Eins á að auka framboð íbúða í almenna íbúðakerfinu. Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur.

Mikilvægast af öllu verður að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum til að styðja við markmið samninga. Verkefnið er að verja kaupmátt og lífskjör launafólks, m.a. ná niður verðbólgu og vöxtum.

Á haustþingi fer annars mikill tími Alþingis í vinnu vegna fjárlaga hvers árs. Þess til viðbótar eru umræður um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga, eða „bandormurinn“ svokallaði. Hann hefur að geyma efnisatriði af margvíslegum toga, sem hafa áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Fjárlög fyrir næsta ár snúast um skynsama stjórnun fjármagns og að fjárfesta í fólki. Áherslur Framsóknar á sviði heilbrigðismála, velferðar, byggðarmála, stuðnings við heimili og félagslegs stuðnings má finna um allt frumvarpið. Þingflokkurinn er stoltur af árangrinum í krefjandi aðstæðum í kjölfar heimfaraldurs, stríðs í Evrópu o.fl.

Þingmenn Framsóknar hafa markvisst lagt sig fram við að koma framfaramálum á dagskrá Alþingis. Með lagafrumvörpum, þingsályktunum, fyrirspurnum, sérstökum umræðum og störfum þingsins. Vil ég nefna nokkra þætti til að veita smá yfirsýn á störfin í haust.

Þórarinn Ingi Pétursson hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, (afurðastöðvar í kjötiðnaði). Þar leggur hann til að þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga verði afurðastöðvum í kjötiðnaði heimilt að sameinast. Að þeim verði gert heimilt að gera með sér samkomulag um verkaskiptingu og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara.

Halla Signý Kristjánsdóttir hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um endurskoðun á laga- og reglugerðaumhverfi sjókvíaeldis með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi. Fara eigi t.d. í heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi.

Ingibjörg Isaksen hefur lagt fram þingsályktun um markvissa öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Að útbúið verði mælaborð með það að markmiði að halda utan um og safna tölfræðilegum upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks. Þannig verður mögulegt að ná fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við.  Ingibörg hefur einnig lagt fram beiðni um skýrslu um jöfnun kostnaðar vegna flugvélaeldsneytis, sem skal draga fram hugsanlegar aðgerðir til að lækka kostnað vegna flugvélaeldsneytis og afgreiðslu þess á Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli.

Ágúst Bjarni Garðarsson er með tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.  Þar er m.a. lagt til að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og að launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir er með tillögu til þingsályktunar um ókeypis fræðslu og þjálfun foreldra barna með ADHD, sem standi þeim til boða þeim að kostnaðarlausu.

Jóhann Friðrik Friðriksson er með tillögu til þingsályktunar um innleiðingu lýðheilsumats í íslenska löggjöf. Leggur hann til að sérfræðihópur verði skipaður með þátttöku fagráðuneyta, fræðasamfélags og Embættis landlæknis og leggi til leiðir sem tryggja rýni allra stjórnarfrumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á heilsu þjóðarinnar.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir er með tillögu til þingsályktunar um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Kynheilbrigði er hluti af lýðheilsu þjóðarinnar og getnaðarvarnir gefi einstaklingum tækifæri á því að hafa meiri stjórn á sínu eigin lífi. Fjárhagur ungs fólks er oft mismunandi eftir mánuðum. Suma mánuði kemur fyrir að peningaskortur neyði ungt fólk til að hagræða.

Einnig má nefna nokkrar sérstakar umræður í haust, sem þingmenn Framsóknar hafa haft frumkvæði að. Umræða um fjölþáttaógnir og netöryggismál voru að frumkvæði Jóhanns Friðriks og umræða um störf án staðsetningar að frumkvæði Líneikar Önnu Sævarsdóttur.

Að lokum vill undirrituð hrósa formanni okkar, Sigurði Inga Jóhannssyni, fyrir markvissa vinnu við að fjölga störfum úti á landi. Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Utan höfuðborgarsvæðisins hefur verið skortur á opinberum störfum, sérfræðistörfum og öðrum vel borgandi störfum. Fleiri sérfræðistörf á landsbyggðinni stuðla að aukinni menntun á hverju svæði fyrir sig og þannig vex þekking hjá allri þjóðinni. Einstaklingar sem snúa aftur í heimahagana eða flytja í fyrsta sinn út á land auðga samfélagið á hverjum stað með margvíslegum hætti. Þannig samfélag viljum við skapa. Sigurður Ingi hefur svo sannanlega staðið fyrir því í verki að byggðirnar hringinn í kringum landið fái að blómstra. Við í Framsókn eigum okkur sterkar rætur um allt land.

Framtíðin er björt með Framsókn!

Með kveðju frá Austurvelli,

Ingibjörg Isaksen

Categories
Fréttir

Aðalfundur Framsóknarfélags Suðurnesjabæjar

Deila grein

19/12/2022

Aðalfundur Framsóknarfélags Suðurnesjabæjar

Boðað er til aðalfundar Framsóknarfélags Suðurnesjabæjar mánudaginn 9. janúar í Vörðunni að Miðnestorgi 3 í Suðurnesjabæ kl. 20.00.

Dagskrá:
Venjulega aðalfundarstörf.
Kosning stjórnar.
Önnur mál.

Stjórn,

Framsóknarfélags Suðurnesjabæjar

Mynd: sudurnesjabaer.is 19. desember 2022.

Categories
Fréttir

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað“

Deila grein

16/12/2022

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi skil starfshóps í vikunni, sem Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, skipaði um samræmt verklag um þjónustu við þau sem leita til heilbrigðisstofnana vegna kynferðisofbeldis, í störfum þingsins. Unnið er að því að tryggja jafnt aðgengi þolenda að faglegri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag og öðrum aðstæðum.

„Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað. Eins og fram kemur í skýrslunni er þörf á að samræma þjónustu um allt land. Þá er lagt til að neyðarmóttakan í Fossvogi verði fyrirmynd samræmds verklags og að allar heilbrigðisstofnanir innleiði verklag að þeirri fyrirmynd. Meðal tillagna eru rafrænt skráningarform við skráningu upplýsinga vegna móttöku þolenda og gerenda sem leita á heilbrigðisstofnun, samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn vegna kynferðisofbeldis, mótun fræðsluefnis fyrir þolendur þar sem sérstaklega verði hugað að einstaklingum í viðkvæmri stöðu og sálfræðiþjónustu fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum. Slík sálfræðiþjónusta er fyrirbyggjandi aðferð til þess að koma í veg fyrir að gerendur brjóti af sér aftur,“ sagði Lilja Rannveig.

„Kynferðisofbeldi er meðal alvarlegustu brota á einstaklingi sem til eru. Ofbeldið hefur áhrif á einstakling til frambúðar og setur mark sitt á sálarlíf þeirra og lífsgæði jafnvel það sem eftir er. Því er það svo brýnt að heilbrigðiskerfið okkar taki á móti þolendum og hlúi að þeim á sem bestan hátt.

Sú vinna sem hæstv. heilbrigðisráðherra er í fararbroddi fyrir, ásamt hæstv. dómsmálaráðherra, er til þess fallin að móta kerfið innan stjórnsýslunnar á þann veg að gera nákvæmlega það.

Þetta er mikið fagnaðarefni og ég hvet ríkisstjórnina áfram í þessari vinnu,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar á Alþingi:

„Forseti. Í þessari viku skilaði starfshópur, sem hæstv. heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson skipaði, niðurstöðum sínum um samræmt verklag um þjónustu við þau sem leita til heilbrigðisstofnana vegna kynferðisofbeldis. Markmiðið er að tryggja jafnt aðgengi þolenda að faglegri heilbrigðisþjónustu óháð búsetu, efnahag og öðrum aðstæðum. Allir þolendur kynferðisofbeldis eiga að geta fengið aðstoð, sama hvað. Eins og fram kemur í skýrslunni er þörf á að samræma þjónustu um allt land. Þá er lagt til að neyðarmóttakan í Fossvogi verði fyrirmynd samræmds verklags og að allar heilbrigðisstofnanir innleiði verklag að þeirri fyrirmynd. Meðal tillagna eru rafrænt skráningarform við skráningu upplýsinga vegna móttöku þolenda og gerenda sem leita á heilbrigðisstofnun, samræmt verklag um heilbrigðisþjónustu við börn vegna kynferðisofbeldis, mótun fræðsluefnis fyrir þolendur þar sem sérstaklega verði hugað að einstaklingum í viðkvæmri stöðu og sálfræðiþjónustu fyrir sakborninga í kynferðisbrotamálum. Slík sálfræðiþjónusta er fyrirbyggjandi aðferð til þess að koma í veg fyrir að gerendur brjóti af sér aftur.

Forseti. Kynferðisofbeldi er meðal alvarlegustu brota á einstaklingi sem til eru. Ofbeldið hefur áhrif á einstakling til frambúðar og setur mark sitt á sálarlíf þeirra og lífsgæði jafnvel það sem eftir er. Því er það svo brýnt að heilbrigðiskerfið okkar taki á móti þolendum og hlúi að þeim á sem bestan hátt. Sú vinna sem hæstv. heilbrigðisráðherra er í fararbroddi fyrir, ásamt hæstv. dómsmálaráðherra, er til þess fallin að móta kerfið innan stjórnsýslunnar á þann veg að gera nákvæmlega það. Þetta er mikið fagnaðarefni og ég hvet ríkisstjórnina áfram í þessari vinnu.“

Categories
Fréttir

Ekki skilja Vestfirði eftir í fortíðinni

Deila grein

16/12/2022

Ekki skilja Vestfirði eftir í fortíðinni

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, ræddi raforkuöryggi á Vestfjörðum og að það sé ekki tryggt í störfum þingsins.

„Staðreyndin er sú, og ég hef talað um þetta áður, að við á Vestfjörðum erum háð neti varaafls sem hefur verið byggt upp á síðustu árum og eru Vestfirðingar algerlega háðir þessu varaafli til að tryggja gott afhendingaröryggi. Þar undir er líka það sem til þarf til að halda straumi á rafkynntum hitaveitum til húshitunar með tilheyrandi olíunotkun,“ sagði Halla Signý.

Stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, en „Vestfirðingar geta ekki fylgt eftir þessum markmiðum meðan þeir þurfa að brenna milljónum lítra af dísilolíu til að halda uppi raforkuöryggi fjórðungsins. Það gengur ekki að skilja Vestfirði eftir í fortíðinni.“

Í skýrslu um raforkumál á Vestfjörðum frá því í vor segir að mikilvægt sé að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess verði að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar svo að hægt sé að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkynntar hitaveitur.

„Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 millj. kr. sem eru til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar á Alþingi:

„Forseti. Fram undan eru dimmustu dagar ársins og í ofanálag eru frosthörkur á landinu. Þá er vont að vita til þess að raforkuöryggi á Vestfjörðum sé ekki tryggt. Það er langt því frá. Staðreyndin er sú, og ég hef talað um þetta áður, að við á Vestfjörðum erum háð neti varaafls sem hefur verið byggt upp á síðustu árum og eru Vestfirðingar algerlega háðir þessu varaafli til að tryggja gott afhendingaröryggi. Þar undir er líka það sem til þarf til að halda straumi á rafkynntum hitaveitum til húshitunar með tilheyrandi olíunotkun. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og teljum við okkur vera vel undirbúin til að takast á hendur metnaðarfullar aðgerðir og fylgja eftir markmiðum til að standast áformin. En Vestfirðingar geta ekki fylgt eftir þessum markmiðum meðan þeir þurfa að brenna milljónum lítra af dísilolíu til að halda uppi raforkuöryggi fjórðungsins. Það gengur ekki að skilja Vestfirði eftir í fortíðinni.

Virðulegi forseti. Í vor kom út skýrsla starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum og í tillögum hópsins kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt væri að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkynntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 millj. kr. sem eru til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkrar rannsóknar myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Allt er þetta liður í að nálgast markmið okkar um að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040.

Virðulegi forseti. Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra ljósahátíðar.“

Categories
Fréttir

Akureyri sem svæðisborg

Deila grein

15/12/2022

Akureyri sem svæðisborg

Tölum Ísland upp, án þess að tala einstök svæði niður. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra, þegar starfshópur um mótun borgarstefnu kom saman til fyrsta fundar í innviðaráðuneytinu í dag, 14. desember. Markmiðið með stofnun starfshópsins er að efla stærstu þéttbýlissvæði landsins, Reykjavík og Akureyri, og styrkja samkeppnishæfni þeirra og hlutverk í byggðaþróun.   

Hlutverk hópsins er tvíþætt. Að skilgreina hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og stuðla að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins. Enn fremur að skilgreina hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar til að hún geti boðið upp á meiri fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum.

Formaður starfshópsins er Ingvar Sverrisson, framkvæmdastjóri Aton.JL. Aðrir í starfshópnum eru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi á Akureyri, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með hópnum starfa Ásdís Sigurbergsdóttir, ráðgjafi hjá Aton.JL, Jóhanna Sigurjónsdóttir, sérfræðingur í innviðaráðuneytinu, og Reinhard Reynisson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn ljúki störfum eigi síðar en í árslok 2023.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 14. desember 2022.

Categories
Fréttir

Góður starfsandi mikilvægur!

Deila grein

14/12/2022

Góður starfsandi mikilvægur!

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, sagðist vilja nú undir lok haustþings þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu hausti og hrósa fyrir sérstaklega gott starf í nefndum, góða samvinnu, því að samvinna og samstarf skipta auðvitað öllu máli á þessum starfsvettvangi.

Sagði hún að þótt stundum þurfi að takast hart á um ýmis málefni væri góður starfsandi mikilvægur. Haustið hafi liðið hratt og góð mál hlotið framgang á Alþingi.

„Ég vil sérstaklega hrósa fjárlaganefnd og samvinnu fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar sem hefur skilað okkur fjárlögum þar sem heildarmyndin er góð, auk þess sem þar eru mikilvæg framlög í stór og smá framfaraverkefni. Svo ég nefni bara einhver þá sýna auðvitað fjárlögin að þessi ríkisstjórn leggur áherslu á heilbrigðiskerfið og að efla það á sem flestum sviðum,“ sagði Líneik Anna.

„Það eru líka mikilvæg viðbótarframlög í íslenskukennslu fyrir innflytjendur, mikilvæg viðbótarframlög í löggæsluna þar sem ég sé fyrir mér að aftur verði hægt að taka upp forvarnaverkefni lögreglunnar sem hafa ekki verið nægilega öflug á síðustu misserum og aukin framlög í ýmis smærri verkefni um land allt.

En svo vil ég auðvitað hrósa ríkisstjórninni fyrir samstarfið við þá sem hafa verið að vinna að kjarasamningum. Það er mikið fagnaðarefni að sjá þær aðgerðir sem kynntar hafa verið til að styðja við og skapa auknar forsendur fyrir meiri stöðugleika í efnahagsmálum, auk lækkunar vaxta og verðbólgu,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég vil hér undir lok haustþings þakka þingmönnum fyrir samstarfið á þessu hausti og hrósa fyrir sérstaklega gott starf í nefndum, góða samvinnu, því að samvinna og samstarf skipta auðvitað öllu máli á þessum starfsvettvangi. Þótt stundum þurfi að takast hart á um ýmis málefni er góður starfsandi mikilvægur. Haustið hefur liðið hratt og góð mál hafa hlotið framgang. Ég vil sérstaklega hrósa fjárlaganefnd og samvinnu fjárlaganefndar og ríkisstjórnarinnar sem hefur skilað okkur fjárlögum þar sem heildarmyndin er góð, auk þess sem þar eru mikilvæg framlög í stór og smá framfaraverkefni. Svo ég nefni bara einhver þá sýna auðvitað fjárlögin að þessi ríkisstjórn leggur áherslu á heilbrigðiskerfið og að efla það á sem flestum sviðum. Það eru líka mikilvæg viðbótarframlög í íslenskukennslu fyrir innflytjendur, mikilvæg viðbótarframlög í löggæsluna þar sem ég sé fyrir mér að aftur verði hægt að taka upp forvarnaverkefni lögreglunnar sem hafa ekki verið nægilega öflug á síðustu misserum og aukin framlög í ýmis smærri verkefni um land allt. En svo vil ég auðvitað hrósa ríkisstjórninni fyrir samstarfið við þá sem hafa verið að vinna að kjarasamningum. Það er mikið fagnaðarefni að sjá þær aðgerðir sem kynntar hafa verið til að styðja við og skapa auknar forsendur fyrir meiri stöðugleika í efnahagsmálum, auk lækkunar vaxta og verðbólgu.“

Categories
Fréttir

Tryggjum ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka

Deila grein

14/12/2022

Tryggjum ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka

„Í þessari viku tilkynnti franska ríkisstjórnin að hún ætli að tryggja ungmennum 18-25 ára ókeypis smokka. Það gerist í kjölfar þess að ríkisstjórnin hafði tryggt konum undir 25 ára ókeypis getnaðarvarnir. Það er nefnilega stefna frönsku ríkisstjórnarinnar að ekkert ungmenni eigi að þurfa að sleppa notkun getnaðarvarna sökum kostnaðar,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Þetta er ekki einungis gert til að sporna við þungun ungra einstaklinga sem vilja ekki eignast börn eða telja sig ekki tilbúna til barneigna strax, þetta er einnig árangursríkasta aðgerðin til að sporna gegn dreifingu kynsjúkdóma. Þetta er stefna Frakklands.“

„En af hverju er þetta ekki stefna Íslands líka? Við höfum burði til að vera leiðandi ríki í kynheilbrigði en tölfræðin hefur sýnt andstæða vegferð hér á landi. Kynheilbrigði er lýðheilsumál, mörg ungmenni stunda kynlíf og við getum ekki breytt því en við getum hvatt þau til að gera það á heilbrigðan og skynsaman máta,“ sagði Lilja Rannveig.

Nýlegar kannanir hafa sýnt að notkun getnaðarvarna meðal barna og ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku fari minnkandi. Það er m.a. af fjárhagslegum ástæðum.

„Við eigum að tryggja ungu fólki þann kost að geta notað getnaðarvarnir sama hvað. Því hef ég lagt tvívegis fram þingsályktunartillögu um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Þetta er mikilvægt lýðheilsu- og forvarnamál. Með því að tryggja ungu fólki ókeypis getnaðarvarnir getum við unnið gegn útbreiðslu kynsjúkdóma og tryggt að ungt fólk geti stuðlað að kynheilbrigði og komið í veg fyrir óskipulagðar barneignir án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Í þessu tilviki væri mjög sniðugt að gera eins og Frakkland,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar:

„Hæstv. forseti. Í þessari viku tilkynnti franska ríkisstjórnin að hún ætli að tryggja ungmennum 18–25 ára ókeypis smokka. Það gerist í kjölfar þess að ríkisstjórnin hafði tryggt konum undir 25 ára ókeypis getnaðarvarnir. Það er nefnilega stefna frönsku ríkisstjórnarinnar að ekkert ungmenni eigi að þurfa að sleppa notkun getnaðarvarna sökum kostnaðar. Þetta er ekki einungis gert til að sporna við þungun ungra einstaklinga sem vilja ekki eignast börn eða telja sig ekki tilbúna til barneigna strax, þetta er einnig árangursríkasta aðgerðin til að sporna gegn dreifingu kynsjúkdóma. Þetta er stefna Frakklands. En af hverju er þetta ekki stefna Íslands líka? Við höfum burði til að vera leiðandi ríki í kynheilbrigði en tölfræðin hefur sýnt andstæða vegferð hér á landi. Kynheilbrigði er lýðheilsumál, mörg ungmenni stunda kynlíf og við getum ekki breytt því en við getum hvatt þau til að gera það á heilbrigðan og skynsaman máta. Nýlegar kannanir hafa sýnt að notkun getnaðarvarna meðal barna og ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku fari minnkandi. Það er m.a. af fjárhagslegum ástæðum. Við eigum að tryggja ungu fólki þann kost að geta notað getnaðarvarnir sama hvað. Því hef ég lagt tvívegis fram þingsályktunartillögu um ókeypis getnaðarvarnir fyrir einstaklinga yngri en 25 ára. Þetta er mikilvægt lýðheilsu- og forvarnamál. Með því að tryggja ungu fólki ókeypis getnaðarvarnir getum við unnið gegn útbreiðslu kynsjúkdóma og tryggt að ungt fólk geti stuðlað að kynheilbrigði og komið í veg fyrir óskipulagðar barneignir án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur. Í þessu tilviki væri mjög sniðugt að gera eins og Frakkland.“

Categories
Fréttir

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar – en aðeins fyrsta skrefið

Deila grein

14/12/2022

Stórt skref fyrir Vestmannaeyjar – en aðeins fyrsta skrefið

„Í gær bárust fréttir af því að áætlunarflug flugfélagsins Ernis til Vestmannaeyja verði hafið að nýju í kjölfar samkomulags félagsins við innviðaráðuneytið. Flogið verður þrisvar í viku og gildir samningurinn til 1. apríl.“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Fyrir tveimur árum var reglulegt flug til og frá Eyjum lagt niður í kjölfar heimsfaraldurs Covid. Eftirspurnin fór minnkandi og rekstrargrundvöllur fyrir fluginu fór dvínandi. Eftir það var flug til og frá Eyjum í miklu uppnámi og íbúar Vestmannaeyja fundu fyrir því.

„Lengi hafa íbúar Vestmannaeyja kallað eftir bættum samgöngum til og frá Eyjum en bættar samgöngur af þessu tagi eru afar mikilvægar fyrir íbúa og atvinnulíf þar. Einnig er flugið liður í því að tryggja lágmarksþjónustu yfir vetrarmánuðina,“ sagði Hafdís Hrönn.

„Að hafa náð þessu samkomulagi er sigur fyrir Vestmannaeyjar, Flugfélagið Erni og innviðaráðherra. Þar njóta allir góðs af. Einnig megum við ekki gleyma því að reglulegt flug til og frá Eyjum er mikilvægt öryggismál, að hafa tvær mögulegar samgönguleiðir þar sem ein þeirra er fljótt flug beint til Reykjavíkur, sem getur skipt sköpum þegar íbúar þurfa t.d. að sækja nauðsynlega þjónustu þaðan. Að auki hafa margir nýtt sér flug til og frá Eyjum þegar óvissa er í áætlunarferðum Herjólfs sem getur verið þegar það er vont í sjóinn, sérstaklega yfir vetrartímann“

„Virðulegi forseti. Þetta er stórt skref fyrir Vestmannaeyjar en þetta er aðeins fyrsta skrefið. Við eigum að tryggja Eyjamönnum tryggar samgönguleiðir til frambúðar og finna varanlegar lausnir. Það er mikið fagnaðarefni að Ernir hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar með fleiri flugferðum í viku hverri. Ég vil óska Vestmannaeyingum og innviðaráðherra til hamingju með þetta fyrsta skref í samkomulaginu,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Í gær bárust fréttir af því að áætlunarflug flugfélagsins Ernis til Vestmannaeyja verði hafið að nýju í kjölfar samkomulags félagsins við innviðaráðuneytið. Flogið verður þrisvar í viku og gildir samningurinn til 1. apríl. Fyrir tveimur árum var reglulegt flug til og frá Eyjum lagt niður í kjölfar heimsfaraldurs Covid. Eftirspurnin fór minnkandi og rekstrargrundvöllur fyrir fluginu fór dvínandi. Eftir það var flug til og frá Eyjum í miklu uppnámi og íbúar Vestmannaeyja fundu fyrir því. Lengi hafa íbúar Vestmannaeyja kallað eftir bættum samgöngum til og frá Eyjum en bættar samgöngur af þessu tagi eru afar mikilvægar fyrir íbúa og atvinnulíf þar. Einnig er flugið liður í því að tryggja lágmarksþjónustu yfir vetrarmánuðina. Að hafa náð þessu samkomulagi er sigur fyrir Vestmannaeyjar, Flugfélagið Erni og innviðaráðherra. Þar njóta allir góðs af. Einnig megum við ekki gleyma því að reglulegt flug til og frá Eyjum er mikilvægt öryggismál, að hafa tvær mögulegar samgönguleiðir þar sem ein þeirra er fljótt flug beint til Reykjavíkur, sem getur skipt sköpum þegar íbúar þurfa t.d. að sækja nauðsynlega þjónustu þaðan. Að auki hafa margir nýtt sér flug til og frá Eyjum þegar óvissa er í áætlunarferðum Herjólfs sem getur verið þegar það er vont í sjóinn, sérstaklega yfir vetrartímann.

Virðulegi forseti. Þetta er stórt skref fyrir Vestmannaeyjar en þetta er aðeins fyrsta skrefið. Við eigum að tryggja Eyjamönnum tryggar samgönguleiðir til frambúðar og finna varanlegar lausnir. Það er mikið fagnaðarefni að Ernir hafi tekið að sér að þjónusta svæðið aftur og vonandi er hægt að byggja upp flug til og frá Vestmannaeyjum til frambúðar með fleiri flugferðum í viku hverri. Ég vil óska Vestmannaeyingum og innviðaráðherra til hamingju með þetta fyrsta skref í samkomulaginu.“

Categories
Fréttir

Hópurinn sem fær ekki alltaf mikla athygli

Deila grein

14/12/2022

Hópurinn sem fær ekki alltaf mikla athygli

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um hóp er fái ekki alltaf mikla athygli. Sagði hann hópinn mæta til vinnu, sjá um börnin, séu þau til staðar, elda matinn og borga reikninga. Þetta sé lífsins gangur dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.

„Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað eða hafa yfir höfuð rétt á því að kvarta,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki á meðal þeirra tekjulægstu en eru ólík og bera oft mikið álag. Hér er ég m.a. að tala um ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega að eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig.“

Sagði hann að á sama tíma sé ungt fólk að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel.

„Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta. Við þurfum að huga að þessu fólki og ríkisstjórnin hefur nú kynnt aðgerðir til að styðja við markmið samninga um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks ásamt því að skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, m.a. lækkun vaxta.

Aðgerðir stjórnvalda styðja enn frekar við lífskjör millitekjufólks og er það gert með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur.

Áhersla er á fjölgun íbúa, aukin stofnframlög auk endurbóta á húsnæðisstuðningi.

Húsnæðisbætur hækka um 13,8% í upphafi árs 2023 til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár.

Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur,“ sagði Ágúst Bjarni.


Ræða Ágústs Bjarna á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að tekist hafi að lenda kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Ég hef áður rætt um hóp sem fær ekki alltaf mikla athygli. Þetta er hópurinn sem mætir til vinnu, sér um börnin, séu þau til staðar, eldar matinn og borgar reikninga. Svona gengur lífið fyrir sig dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð. Ég leyfi mér að segja að þetta sé hópurinn sem telur sig ekki vera í þeirri stöðu að geta kvartað eða hafa yfir höfuð rétt á því að kvarta. Þau sem þessum hópi tilheyra eru ekki á meðal þeirra tekjulægstu en eru ólík og bera oft mikið álag. Hér er ég m.a. að tala um ungt fólk sem er að koma undir sig fótunum í lífinu á sama tíma og það er að ljúka námi, mögulega að eignast börn, fara í fæðingarorlof, koma sér þaki yfir höfuðið eða jafnvel stækka við sig. Allt þetta á sama tíma og það er að byggja upp atvinnuferil með tilheyrandi kröfum um að standa sig vel. Þetta tímabil í lífi fólks getur verið allt í senn hið ánægjulegasta og hið kvíðvænlegasta. Við þurfum að huga að þessu fólki og ríkisstjórnin hefur nú kynnt aðgerðir til að styðja við markmið samninga um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks ásamt því að skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, m.a. lækkun vaxta. Aðgerðir stjórnvalda styðja enn frekar við lífskjör millitekjufólks og er það gert með markvissum aðgerðum í húsnæðismálum og auknum stuðningi við barnafjölskyldur. Áhersla er á fjölgun íbúa, aukin stofnframlög auk endurbóta á húsnæðisstuðningi. Húsnæðisbætur hækka um 13,8% í upphafi árs 2023 til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár. Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðninginn aukinn verulega sem fjölga mun barnafjölskyldum sem fá barnabætur.“