Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur undirritað samning við Barnaheill. Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi í þágu farsældar barna.
Markmið samningsins er að styðja við rekstur og starfsemi Barnaheilla í því að vinna að réttindum og velferð barna með Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Einkum er ætlað að styðja við verkefnin Verndarar barna og Vináttu – forvarnarverkefni gegn einelti.
Verndarar barna snýr að vitundarvakningu, fræðslu og forvörnum til verndar barna gegn ofbeldi. Verkefnið var fyrst sett á laggirnar árið 2006 á vegum samtakanna Blátt áfram, sem sameinaði krafta sína við Barnaheill árið 2019.
Vinátta er forvarnaverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum, 1.–4. bekk grunnskóla, frístundaheimilum og dagforeldrum. Verkefnið felst í útgáfu námsefnis sem ætlað er börnum, foreldrum þeirra og starfsfólki sem og námskeiðum fyrir starfsfólk. Vináttu er ætlað að þjálfa félagsfærni og samskipti og stuðla að góðum skólabrag.
Í lok nóvember var gengið frá samningi til styrktar Veru, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun, um stuðning við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi.
Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 13. desember 2022.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til aðgerða í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Eru aðgerðirnar til þess fallnar að styðja við markmið samninganna um að verja kaupmátt og lífskjör launafólks og skapa forsendur fyrir stöðugleika í efnahagsmálum, lækkun verðbólgu og vaxta.
Áhersla er lögð á fjölgun íbúða og uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum, endurbótum í húsnæðisstuðningi og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.
Barnabótakerfið verður einfaldað og stuðningur aukinn verulega en með breytingunum fjölgar fjölskyldum sem fá barnabætur. Stjórnvöld munu einnig á samningstímabilinu vinna að ýmsum umbótum, m.a. er varða heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði, afkomutryggingu í fæðingarorlofi, atvinnuleysistryggingum og ábyrgðarsjóði launa auk málefna vinnustaðanámssjóðs.
Þá verður stuðningur veittur til að auka aðhald á neytendamarkaði með því að bæta aðgengi almennings að upplýsingum um þróun verðlags og skapa þannig hvata fyrir fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum.
Í tengslum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023 lagði ríkisstjórnin einnig fram sérstakar aðgerðir í nokkrum veigamiklum málaflokkum sem styðja við markmið samninganna og treysta grundvöll lífskjara en þar vega þyngst yfir 12 milljarða aukning til heilbrigðismála og hækkun á frítekjumarki örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna í 200.000 krónur á mánuði.
Nánar um aðgerðirnar
Húsnæðismál
Fjölgun nýrra íbúða. Stjórnvöld munu í samningum við sveitarfélög á grundvelli rammasamkomulags um uppbyggingu íbúða næstu 10 árin hafa að markmiði að auka lóðaframboð og veita nauðsynlegan fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu.
Fjölgun almennra íbúða. Áfram verður unnið að öflugri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verða 4 milljarðar króna á árinu 2023.
Endurbætur verða gerðar á húsnæðisstuðningi.
Húsnæðisbætur leigjenda hækka um 13,8% í upphafi næsta árs og tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta hækka um 7,4%.
Eignaskerðingamörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi næsta árs.
Almenn heimild til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ráðstöfunar inn á höfuðstól verður framlengd til ársloka 2024.
Fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings og húsnæðisbóta til leigjenda verður tekið til endurskoðunar á samningstímanum með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur.
Bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda:
Aðilar vinnumarkaðarins fá aðkomu að starfshópi um endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöð og húsnæðisöryggi leigjenda.
Barnabætur
Barnabótakerfið verður einfaldað, stuðningur við barnafjölskyldur efldur og fjölskyldum sem njóta stuðnings fjölgað.
Dregið verður úr skerðingum í barnabótakerfinu, jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir og skilvirkni og tímanleiki bótanna aukinn.
Teknar verða upp samtímagreiðslur barnabóta þannig að biðtími eftir bótum verði aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns.
Heildarfjárhæð barnabóta verður 5 milljörðum hærri en í núverandi kerfi á næstu tveimur árum.
Önnur mál
Veittur verður 10 m.kr. viðbótarstuðningur til að auka aðhald á neytendamarkaði.
Skoðaðar verða leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga leigufélögum.
Lagt verður mat á greiðslur og hámarksfjárhæðir í Fæðingarorlofssjóði og ábyrgðasjóði launa með það að markmiði að þær verði endurskoðaðar á árinu 2024. Stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins munu sameiginlega leggja mat á tekjuöflun og ráðstöfun tryggingagjalds með það að markmiði að tryggja langtímajafnvægi í fjármögnun þeirra réttinda sem það stendur undir í Ábyrgðasjóði launa, Fæðingarorlofssjóði, starfsendurhæfingarsjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði.
Nefnd um heildarendurskoðun atvinnuleysistrygginga skal ljúka vinnu sinni eigi síðar en í lok apríl 2023. Unnið verður að innleiðingu á umbótum í atvinnuleysistryggingakerfinu á samningstímanum í samræmi við tillögur nefndarinnar.
Málefni og fjármögnun vinnustaðanámssjóðs verði tekin til endurskoðunar í tengslum við gerð fjármálaáætlunar á árinu 2023 til að styðja við markmið um aukið vægi starfsnáms.
Aðrar aðgerðir ríkisstjórnarinna vegna afgreiðslu fjárlaga
Ríkisstjórnin lagði á dögunum til sérstakar aðgerðir í nokkrum veigamiklum málaflokkum vegna afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2023 sem styðja við markmið samninganna og treysta grundvöll lífskjara. Heilbrigðismál vega þar þyngst en lögð er til yfir 12 milljarða aukning í þeim málaflokki. Er gert ráð fyrir að framlögin renni bæði til rekstrar sjúkrahúsa og heilsugæslunnar, eða um 4,3 milljarðar króna. Einnig er rík áhersla á að framlögin nýtist í beina þjónustu við sjúklinga, svo sem með því að vinna niður biðlista eftir liðskiptaaðgerðum og með auknum framlögum til heimahjúkrunar og aðgerða til að dreifa álagi í heilbrigðisþjónustu.
Meðal annarra mikilvægra mála má nefna að lagður er til rúmur milljarður til hækkunar frítekjumarks öryrkja í 200.000 krónur á mánuði og að gefnir verði eftir 5 milljarðar króna af tekjuskatti einstaklinga en útsvarstekjur sveitarfélaga hækkaðar á móti til að bæta afkomu þeirra í tengslum við stöðu á málaflokki fatlaðs fólks.
Þá er gert ráð fyrir stórauknum framlögum á sviði almanna- og réttaröryggis, þar á meðal um 900 milljónum króna til lögreglunnar og hálfs milljarðs hækkun í aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Sauðfjárbændur samhljóma á aðalfundum – niðurtröppun taki ekki gildi um áramótin
Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, var með óundirbúna fyrirspurn fyrir matvælaráðherra á Alþingi um greiðslumark sauðfjárbænda.
Minnti hún matvælaráðherra á að greiðslumarkið væri eini öryggi greiðslugrunnurinn sem sauðfjárbændur hljóta sama hvort ári vel eða illa. Því komi það á óvart að ætlan ráðherra væri að hefja að nýju niðurtröppun á greiðslumarkinu.
„Árið 2019 var ákveðið að stöðva niðurtröppun greiðslumarks vegna slæmrar afkomu í stéttinni. Það var án efa rétt skref á sínum tíma en staða sauðfjárbænda í dag er því miður engu skárri en þá. Það vekur því furðu að hefja eigi niðurtröppun að nýju þegar staðan hefur ekki batnað síðan árið 2019 og nýliðun er því miður í lágmarki,“ sagði Ingibjörg.
„Sauðfjárbændur á Norðvestur- og Norðausturlandi horfa áhyggjufullir á áframhaldið, skyldi umrædd niðurtröppun verða að veruleika, enda þau svæði landsins sem verst verða úti ef þetta gengur eftir. Sauðfjárbændur hafa ítrekað ávarpað fyrirhugaða niðurtröppun og deilt áhyggjum sínum af stöðunni, bæði opinberlega og innan sinna raða.“
Á síðustu tveimur aðalfundum sauðfjárbænda hefur niðurstaðan verið samhljóma um að niðurtröppun skuli ekki taka gildi um áramótin. Augljóst sé að sauðfjárbændur standa saman í þessu hagsmunamáli.
„Að auki vekja þessi áform sérstakan óhug meðal yngri sauðfjárbænda sem margir hafa fjárfest í greiðslumarki. Þessi óvissa er alls ekki til þess fallin að auka nýliðun innan stéttarinnar. Þetta er skýr vilji bænda og hann byggir ekki á óskhyggju heldur nauðsyn.“
„Vegna þessa vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hyggst halda niðri niðurtröppun á greiðslumarki til sauðfjárbænda áfram í lok ársins þrátt fyrir ákall sauðfjárbænda og þann mikla sameiningarmátt sem loksins er innan greinarinnar,“ sagði Ingibjörg.
„Ekki þeir er hringja í ráðherra, ráðuneytið og í fleiri“
Matvælaráðherra segir að bændur hefðu enga eina skoðun á kerfinu, það hafi komið fram í svörum bænda í könnunum og eins í samtölum bænda er hringja í ráðherra, ráðuneytið og í fleiri, eru ólík.
„Þegar sauðfjárbændur eru spurðir hversu sanngjarnt eða ósanngjarnt þeim finnist greiðslumarkskerfið vera þá er afstaða sauðfjárbænda klofin. Sá hluti sauðfjárbænda sem á mikið greiðslumark vill halda í það kerfi og finnst það sanngjarnt. Þeir bændur sem eiga lítið greiðslumark og sjá að þangað flytjast fjármunir finnst þetta kerfi ósanngjarnt.“
„Raunar er kerfið svo umdeilt að meira að segja fimmtungur þess hluta sauðfjárbænda sem á mikið greiðslumark telur að kerfið sé ósanngjarnt þrátt fyrir það. Þessi spurning var lögð fyrir sauðfjárbændur sumarið 2021 í könnun á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og könnuninni svöruðu 770 sauðfjárbændur,“ sagði matvælaráðherra.
„Aðalatriðið er það, virðulegi forseti, að halda því til haga að á mínum tíma í embætti hefur svo sannarlega verið hlustað á bændur,“ sagði matvælaráðherra.
Vilji sauðfjárbænda sjaldan verið jafn skýr
Ingibjörg sagði það „afar ánægjulegt að heyra að það sé verið að hlusta á sauðfjárbændur. Það er varla hægt að ítreka nógu oft hversu mikilvægt það er að taka samtalið og það sé hlustað, því að sjaldan hefur vilji sauðfjárbænda verið jafn skýr og núna.“
„Við eigum að koma í veg fyrir að rekstrargrundvöllur sauðfjárbænda sem stendur höllum fæti í dag fari versnandi. Með leyfi forseta, vitna ég hér til samningsins:
„Á grundvelli upplýsinga skv. 1. mgr. getur framkvæmdanefnd búvörusamninga ákveðið að færa fjármuni á milli einstakra verkefna sem falla undir samning um starfsskilyrði sauðfjárræktar. Heimilt er að færa árlega allt að 20% þeirrar fjárhæðar sem ætluð er til hvers verkefnis.“
„Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er þetta ekki leið sem er hugsanlega fær þar sem kveðið er á um þetta í samningnum sjálfum?“
Matvælaráðherra svarði því til að ef fallast ætti á beiðnina myndi rúmlega helmingur bænda fá hærri greiðslur en helmingur bænda fá lægri greiðslur.
„Heildarumfangið er upp á rúmar 110 millj. kr. sem myndi flytjast milli bænda, en þetta eru 2,3% af heildarumfangi sauðfjársamningsins. Það er rétt að árétta að við þessa breytingu lækkar ekki stuðningurinn við sauðfjárrækt heldur færist, bara þannig að það sé sagt,“ sagði matvælaráðherra.
Eingreiðsla til örorku- og endurhæfingarlýfeyrisþega
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar mælti fyrir nefndaráliti meirihluta velferðarnefndar um eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlýfeyrisþega í desember að fjárhæð 60.300 kr. sem á að greiðast eigi síðar en 31. desember 2022.
Framsókn í Árborg býður upp á möndlugraut í Framsóknarhúsinu Eyravegi 15, laugardaginn 10. desember kl. 11:00-12:00. Bæjarfulltrúar og nefndarfólk Framsóknar í Árborg taka á móti gestum.
Mikil gróska hefur verið í íslenskri kvikmyndagerð síðustu fimm ár og hefur velta í geiranum aukist um 85% á þessu tímabili og er nú u.þ.b. 30 milljarðar króna.
Einnig hefur skapast mikil atvinna í geiranum og vinna á fjórða þúsund einstaklingar við kvikmyndagerð á Íslandi í dag segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins í dag.
„Gróskan í kvikmyndagerð er einstök. Ég er þakklát fyrir þann víðtæka stuðning sem að málið hefur fengið á Alþingi, bæði með því að hækka endurgreiðslurnar í sumar í allt að 35% og nú með því að færa aukið fjármagn undir endurgreiðsluliðinn. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að stuðningur við skapandi greinar hafi jákvæð margföldunaráhrif á samfélagið og er viss um að þessi breyting muni efla innlenda kvikmyndagerð og draga stór erlend fjárfestingarverkefni til landsins,“ er haft eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra í tilkynningunni.
Berdreymi í leikstjórn Guðmundar Arnar Guðmundssonar er ein þeirra íslensku kvikmynda sem kom fyrir sjónir almennings á þessu herrans ári 2022. Ljósmynd/Aðsend
Fleiri erlend verkefni
Stjórnvöld hafa markað framsækna stefnu til að styðja við íslenska kvikmyndagerð og fjármagn til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi er aukið um fjóra milljarða króna fyrir aðra umræðu fjárlaga 2023. Stuðningur við kvikmyndaframleiðslu gerir það að verkum að verkefni sem hafa fengið vilyrði frá kvikmyndasjóð geta nú hafist á áætluðum tíma.
Veltan jókst á milli áranna 2019 og 2020 um 50% eða um 6,5 milljarða og frá árinu 2021 jókst veltan um 7% frá 2020, en sú aukning skýrst að hluta vegna fleiri erlendra verkefna. Árið í ár er síðan geysilega gott, með aukningu frá 2021 upp á 25% eða um 2,9 milljarða króna.
Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi verið eitt stærsta álagspróf á heilbrigðiskerfið á síðari tíma.
„Okkur er öllum ljóst að það þarf að taka breytingum til að fylgja hraðri þróun og mæta breyttum þörfum samfélagsins,“ sagði Ingibjörg.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu sé réttlætismál og það verði að tryggja þann aðgang og ná stöðugleika innan heilbrigðiskerfisins.
„Langvarandi samningsleysi og langir biðlistar hindra aðgengi og auka ójöfnuð og því er nauðsynlegt að þessi verkefni séu leyst. Að þessu sögðu er algjört forgangsmál að við náum að semja við þá sem veita þjónustu utan sjúkrahúsa,“ sagði Ingibjörg.
Auka verði fjárframlag ríkisins til heilbrigðismála og skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi til framtíðar.
„Nýlega náðust samningar um aðgerðir vegna legslímuflakks, sem er virkilega ánægjulegt. Í 2. umr. fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir rúmlega 12 milljarða viðbótarframlagi til heilbrigðismála þar sem verið er að fjárfesta í breytingum og umbótum til framtíðar og styrkja grunnkerfi heilbrigðisþjónustunnar. Einnig er þar gert ráð fyrir 750 milljónum sem eru eyrnamerktar í liðskiptaaðgerðir,“ sagði Ingibjörg.
Farið hefur verið í verkefni til að efla menntun heilbrigðisstarfsmanna og fjölga þeim og m.a. með nýrri reglugerð um sérnám lækna. Eins verður hámarksaldur heilbrigðisstarfsfólks hækkaður.
„Viðamikil vinna er komin af stað um að bæta heilbrigðisþjónustu eldra fólks, stuðla að bættri lýðheilsu og forvarnastarfsemi. Ásamt þessu hefur endurhæfingarþjónusta verið efld. Eins og þið heyrið eru verkefnin ærin en algerlega augljóst að hér er ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu,“ sagði Ingibjörg að lokum.
Ræða Ingibjargar á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Heilbrigðiskerfið hefur verið undir miklu álagi síðastliðin ár og okkur er öllum ljóst að það þarf að taka breytingum til að fylgja hraðri þróun og mæta breyttum þörfum samfélagsins. Eitt stærsta álagspróf síðari tíma var heimsfaraldur kórónuveirunnar. Í þeim faraldri sáum við dugnað og krafta okkar heilbrigðisstarfsmanna sem lyftu grettistaki og stóðust það próf með glæsibrag. Þó finnur kerfið enn fyrir eftirköstum faraldursins sem og öðrum útistandandi verkefnum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál og það þarf að tryggja þann aðgang og ná stöðugleika innan heilbrigðiskerfisins. Langvarandi samningsleysi og langir biðlistar hindra aðgengi og auka ójöfnuð og því er nauðsynlegt að þessi verkefni séu leyst. Að þessu sögðu er algjört forgangsmál að við náum að semja við þá sem veita þjónustu utan sjúkrahúsa. Einnig þurfum við að auka fjárframlag ríkisins til heilbrigðismála og skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi til framtíðar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið mikilvæg skref í átt að þessum markmiðum á því eina ári sem hann hefur gegnt embætti. Nýlega náðust samningar um aðgerðir vegna legslímuflakks, sem er virkilega ánægjulegt. Í 2. umr. fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir rúmlega 12 milljarða viðbótarframlagi til heilbrigðismála þar sem verið er að fjárfesta í breytingum og umbótum til framtíðar og styrkja grunnkerfi heilbrigðisþjónustunnar. Einnig er þar gert ráð fyrir 750 milljónum sem eru eyrnamerktar í liðskiptaaðgerðir. Farið hefur verið í verkefni til að efla menntun heilbrigðisstarfsmanna og fjölga þeim og m.a. með nýrri reglugerð um sérnám lækna. Ásamt þessu verður hámarksaldur heilbrigðisstarfsfólks hækkaður. Viðamikil vinna er komin af stað um að bæta heilbrigðisþjónustu eldra fólks, stuðla að bættri lýðheilsu og forvarnastarfsemi. Ásamt þessu hefur endurhæfingarþjónusta verið efld. (Forseti hringir.) Eins og þið heyrið eru verkefnin ærin en algerlega augljóst að hér er ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu.“
„Stórt og mikilvægt skref í áttina að því að bæta líðan barnanna okkar“
„Virðulegi forseti. Í haust hafa borist fréttir af ofbeldi og einelti meðal barna. Margir í samfélaginu hrukku við en því miður er hér ekki um einsdæmi að ræða. Það eru til börn sem beita ofbeldi og þá eru til börn sem verða fyrir ofbeldi,“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.
Með öllum tiltækum ráðum verður að uppræta þetta samfélagslega mein og á öllum stigum. Aðaláherslan hefur verið á aðstoða fórnarlamba ofbeldis, en það er ekki síður mikilvægt að veita viðeigandi fræðslu og stuðning til þeirra sem beita ofbeldi.
„Þeir sem beita ofbeldi eiga oft og tíðum við einhvern innri vanda að stríða og því er mikilvægt að þeir einstaklingar fái rétta leiðsögn og stuðning út í lífið. Með öðrum orðum, það er jafn mikilvægt að aðstoða þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir ofbeldi,“ sagði Hafdís Hrönn.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði á dögunum samning til styrktar Veru, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun. Samningurinn snýr að stuðningi við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi.
Vera er heildstætt langtímameðferðarúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu sem rekið eru af Vímulausri æsku. Samtökin stofnuðu Foreldrahús árið 1999 en kjarnastarfsemi þess er ráðgjöf, meðferð og fræðsla.
„Þessi samningur sem gerður var við Veru er stórt og mikilvægt skref í áttina að því að bæta líðan barnanna okkar en hér er um að ræða lið í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.“
„Markmið stjórnvalda gegn ofbeldi er m.a. að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. Mikilvægt er að allar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki sérstaklega til forvarna og fræðslu,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.
Ræða Hafdísar Hrannar:
„Virðulegi forseti. Í haust hafa borist fréttir af ofbeldi og einelti meðal barna. Margir í samfélaginu hrukku við en því miður er hér ekki um einsdæmi að ræða. Það eru til börn sem beita ofbeldi og þá eru til börn sem verða fyrir ofbeldi. Um er að ræða samfélagslegt mein sem er mikilvægt að uppræta með öllum tiltækum ráðum og þrátt fyrir að það séu ekki vísbendingar að börn verði ofbeldisfull þegar þau verða eldri er engu að síður þörf á að grípa inn í. Það er mikilvægt að leita allra leiða til að stöðva ofbeldi í samfélaginu á öllum stigum. Lengi hefur aðaláherslan verið að veita þeim sem verður fyrir ofbeldi aðstoð og það er vissulega nauðsynlegt, enda er það gríðarlegt áfall að verða fyrir ofbeldi, en það er ekki síður mikilvægt að veita viðeigandi fræðslu og stuðning til þeirra sem beita ofbeldi. Þeir sem beita ofbeldi eiga oft og tíðum við einhvern innri vanda að stríða og því er mikilvægt að þeir einstaklingar fái rétta leiðsögn og stuðning út í lífið. Með öðrum orðum, það er jafn mikilvægt að aðstoða þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir ofbeldi.
Í síðustu viku undirritaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samning til styrktar Veru, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun. Samningurinn snýr að stuðningi við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi. Vera er heildstætt langtímameðferðarúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu sem rekið eru af Vímulausri æsku. Samtökin stofnuðu Foreldrahús árið 1999 en kjarnastarfsemi þess er ráðgjöf, meðferð og fræðsla. Í Foreldrahúsi er starfrækt fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar, foreldranámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga og stuðningsmeðferð við ungmenni í vímuefnavanda. Þessi samningur sem gerður var við Veru er stórt og mikilvægt skref í áttina að því að bæta líðan barnanna okkar en hér er um að ræða lið í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið stjórnvalda gegn ofbeldi er m.a. að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. Mikilvægt er að allar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki sérstaklega til forvarna og fræðslu.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins að á síðasta kjörtímabili hafi farið fram mikil vinna til breytinga á þjónustu í þágu farsældar barna. Vinnan skilaði sér í farsældarlögunum og er innleiðing þeirra þegar farin af stað.
„Samstarf um aukna þjónustu í þágu farsældar barna er framtíðarstef í velferð barna til að vaxa sem fullgildir fullorðnir einstaklingar í íslensku samfélagi,“ sagði Halla Signý.
„Þegar þessar breytingar verða virkjaðar má búast við miklum framförum í þjónustu við börn. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið sjálft. Þeir sem vinna við þjónustu barna hafa fagnað þessari hugarfarsbreytingu sem lengi hefur verið kallað eftir og þegar var farið að tala um að nýta þessa hugmyndafræði fyrir aðra þjónustuhópa. Það hefur nú verið gert.“
„Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra ýttu í gær úr vör drögum að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Um er að ræða heildarendurskoðun þjónustu við aldraðra og eru fimm þætti lagðar til grundvallar: Samþætting, virkni, upplýsing, þróun og heimili,“ sagði Halla Signý.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar. Lögð verður fram þingsályktunartillögu á komandi vorþingi sem felur í sér aðgerðaáætlun um samþættingu á þjónustu við eldra fólk með að markmiði að tryggja því þjónustu við hæfi.
„Forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stórt hlutverk í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar til framtíðar. Það er fátt verðmætara samfélaginu en að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. Líkt og með breytingar í þágu farsældar barna er þetta arðbært verkefni fyrir þjóðfélagið en mesti ábatinn er þegar þessi hugmyndafræði verður komin inn í alla þjónustu sem snýr að eldra fólki því þá verður heldur betur gott að eldast á Íslandi,“ sagði Halla Signý að lokum.
Ræða Höllu Signýjar:
„Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili var mikil vinna lögð í breytingar á þjónustu í þágu farsældar barna. Útkoman úr þeirri vinnu voru farsældarlögin svokölluðu og innleiðing á þeim er þegar farin af stað og lofar góðu. Samstarf um aukna þjónustu í þágu farsældar barna er framtíðarstef í velferð barna til að vaxa sem fullgildir fullorðnir einstaklingar í íslensku samfélagi. Þegar þessar breytingar verða virkjaðar má búast við miklum framförum í þjónustu við börn. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið sjálft. Þeir sem vinna við þjónustu barna hafa fagnað þessari hugarfarsbreytingu sem lengi hefur verið kallað eftir og þegar var farið að tala um að nýta þessa hugmyndafræði fyrir aðra þjónustuhópa. Það hefur nú verið gert. Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra ýttu í gær úr vör drögum að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Um er að ræða heildarendurskoðun þjónustu við aldraðra og eru fimm þætti lagðar til grundvallar: Samþætting, virkni, upplýsing, þróun og heimili. Líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar. Heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa svo sannarlega tekið verkefnið upp á sína arma og stendur til að leggja fram þingsályktunartillögu á komandi vorþingi sem felur í sér aðgerðaáætlun um samþættingu á þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að tryggja því þjónustu við hæfi.
Virðulegi forseti. Forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stórt hlutverk í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar til framtíðar. Það er fátt verðmætara samfélaginu en að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. Líkt og með breytingar í þágu farsældar barna er þetta arðbært verkefni fyrir þjóðfélagið en mesti ábatinn er þegar þessi hugmyndafræði verður komin inn í alla þjónustu sem snýr að eldra fólki því þá verður heldur betur gott að eldast á Íslandi.“
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.