Categories
Fréttir

„Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar“

Deila grein

25/10/2022

„Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi störf óháð staðsetningu, í störfum þingsins, í framhaldi af sérstakri umræðu hennar í liðvinni viku við fjármálaráðherra.

„Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að í dag var tilkynnt um flutning nýrra verkefna til starfsstöðvar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, flytjast þangað og stofnað verður nýtt teymi um brunabótamat,“ sagði Líneik Anna.

Framvegis verður 21 stöðugildi á starfsstöð HMS á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf.

„Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytinguna á Akureyri rétt í þessu. Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga sérhæfðum opinberum störfum á landsbyggðinni og í takt við stefnu HMS um öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið,“ sagði Líneik Anna.

„Ég fagna því heils hugar að opinber störf færist á landsbyggðina. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að fjölbreytt, opinber störf dreifist um landið allt. Það verður gert eftir ýmsum leiðum, t.d. með því að efla starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða auka tækifæri til að vinna störf óháð staðsetningu. Markviss vinna á þessu sviði samhliða stöðugri eflingu innviða gefur íbúum landsins raunverulegt val um búsetu. Reynslan af flutningi opinberra starfa og verkefna er góð. Áfram veginn,“ sagði Líneik Anna að lokum.

Ræða Líneikar Önnu á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Í síðustu viku ræddi ég hér í sérstakri umræðu við hæstv. fjármálaráðherra um störf óháð staðsetningu, dreifingu opinberra starfa um landið og mikilvægi þess að sérhæfð störf verði til um land allt. Í því ljósi er sérstaklega ánægjulegt að í dag var tilkynnt um flutning nýrra verkefna til starfsstöðvar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, flytjast þangað og stofnað verður nýtt teymi um brunabótamat. Framvegis verður því 21 stöðugildi á starfsstöðinni á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti breytinguna á Akureyri rétt í þessu. Breytingin er fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga sérhæfðum opinberum störfum á landsbyggðinni og í takt við stefnu HMS um öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið. Á Sauðárkróki eru nú 27 störf við brunavarnir og einnig er þar þjónustuver, bakvinnsla og umsýsla með greiðslum húsnæðisbóta. Þá eru einnig starfsstöðvar í Borgarnesi og Reykjavík. Ég fagna því heils hugar að opinber störf færist á landsbyggðina. Það er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt að fjölbreytt, opinber störf dreifist um landið allt. Það verður gert eftir ýmsum leiðum, t.d. með því að efla starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða auka tækifæri til að vinna störf óháð staðsetningu. Markviss vinna á þessu sviði samhliða stöðugri eflingu innviða gefur íbúum landsins raunverulegt val um búsetu. Reynslan af flutningi opinberra starfa og verkefna er góð. Áfram veginn.“

Categories
Fréttir

Fimm störf til Akureyrar

Deila grein

25/10/2022

Fimm störf til Akureyrar

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hyggst efla starfsemi sína enn frekar á landsbyggðinni með því færa verkefni á sviði brunabótamats á starfsstöð HMS á Akureyri. Fimm opinber sérfræðistörf, þar af eitt stjórnunarstarf, verða flutt til Akureyrar og nýtt teymi stofnað um verkefnin. Framvegis verður 21 stöðugildi á starfsstöð HMS á Akureyri. Breytingarnar eru hluti af endurskipulagningu eftir að verkefni tengd fasteignaskrá voru færð til HMS í fyrra. Starfsfólk sem áður sinnti þessum verkefnum er komið í önnur störf. Störfin fimm verða öll auglýst á næstu dögum.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti breytingarnar á fundi í starfsstöð HMS á Akureyri í dag. Hann sagði þær vera fullkomlega í takt við stefnu ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og að þær féllu einnig vel að stefnu HMS sem væri með öfluga starfsemi á nokkrum stöðum um landið.

„Við fögnum því að opinberum störfum fjölgi á landsbyggðinni. Ég hef í ráðherratíð minni beitt mér fyrir því að fólk eigi kost á að vinna fjölbreytt opinber störf um land allt, ýmist með því að efla opinberar stofnanir á landsbyggðinni, flytja sérhæfð störf eða efla tækifæri til að vinna störf án staðsetningar. Það er einnig viðvarandi verkefni að efla innviði til að fólk hafi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Akureyri hefur ríku svæðisbundnu hlutverki gegna sem stærsti þéttbýliskjarni á landsbyggðinni og því er ánægjuefni að fá þessi sérfræðistörf í bæinn,“ sagði Sigurður Ingi.

Góð reynsla af flutningi starfa

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem HMS flytur verkefni til á milli starfsstöðva. Árið 2020 var brunavarnasvið flutt til Sauðárkróks. Þar eru nú um 27 störf en auk brunavarna er þar unnið í þjónustuveri og við umsýslu með greiðslu húsnæðisbóta.

„Flutningur starfa hefur góða raun hjá HMS. Nú eru breyttir tímar og tæknin vinnur með okkur. Stofnunin er ekki lengur eitt hús, heldur vinnum við í mörgum teymum um land allt, á Akureyri, í Borgarnesi, Reykjavík og á Sauðárkróki,“ segir Hermann Jónasson, forstjóri HMS. „Við ætlum að festa í sessi öflugt teymi á Akureyri sem fer með ábyrgð og framkvæmd skráningar fasteigna á öllu Íslandi. Það mun sjá um brunabótamat og endurskoða framkvæmd þess allt frá lagalegri umgjörð til tæknilegrar útfærslu. Samhliða ætlum við að hefja átaksverkefni við afmörkun eigna í landeignaskrá og birta í stafrænni kortasjá HMS. Við stefnum fljótlega að því að opna vefsjá landeigna þar sem afmörkun og þinglýst eignarhald lands verður gert aðgengilegt öllum án gjaldtöku,“ sagði Hermann.

Hagræðing skapar 300 milljóna kr. fjárfestingu í grunnkerfum

Hermann minnti á að markmiðið með flutningi fasteignaskrár til HMS var að bæta þjónustu og ná fram hagræðingu með því að nýta innviði stofnunarinnar til að styðja við fleiri teymi og verkefni. Hann upplýsti að með flutningi fasteignaskrár til HMS hafi skapast rekstrarleg samlegð sem gerir HMS kleift að fjárfesta 300 millj.kr. í grunnkerfum fasteignaskrár á árinu 2023 án nýrra fjárheimilda. „Uppbygging grunnkerfa fasteignaskrár er gríðarlega mikilvæg og í samræmi við stefnu stjórnvalda um stafræna þjónustu,“ sagði hann á fundinum.

HMS er með starfsstöðvar á Akureyri, í Borgarnesi, á Sauðárkróki og í Reykjavík en stofnunin er í nánu samstarfi við sveitarfélög um allt land.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 25. október 2022.

Categories
Fréttir Uncategorized

Árlegt heilsuþing helgað lýðheilsu

Deila grein

21/10/2022

Árlegt heilsuþing helgað lýðheilsu

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra boðar til heilbrigðisþings 2022 sem að þessu sinni verður helgað lýðheilsu. Þingið verður haldið 10. nóvember á hótel Hilton Reykjavík Nordica. Þingið er öllum opið en fulltrúar heilbrigðisstofnana, fræðasamfélagsins, sveitarfélaga, skólanna, íþróttahreyfingarinnar og annarra félagasamtaka sem láta sig málið varða eru sérstaklega hvattir til þátttöku.

Boðsbréf ráðherra til útprentunar 

Kæri viðtakandi.

Heilbrigðisþing hafa verið haldin árlega frá árinu 2018 þegar gildandi heilbrigðisstefna til ársins 2030 var í mótun. Þingin hafa verið tileinkuð mikilvægum málefnum sem varða heilbrigðiskerfið og skipulag heilbrigðisþjónustu. Í ár hef ég ákveðið að helga þennan árlega viðburð lýðheilsu og boða því til lýðheilsuþings 10. nóvember næstkomandi. Þar verður einstaklingurinn í forgrunni með áherslu á allt það sem við getum sjálf gert til að efla, vernda og viðhalda góðri heilsu. Jafnframt verður fjallað um hvernig stjórnvöld og stofnanir samfélagsins geta með ákvörðunum sínum og aðgerðum skapað almenningi sem bestar aðstæður til heilsueflingar á öllum æviskeiðum.

Alþingi samþykkti á síðasta ári lýðheilsustefnu til ársins 2030. Stefnan á sér stoð í heilbrigðisstefnu þar sem fram koma þau markmið að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lýðheilsustefnu skulu stjórnvöld stuðla að því að landsmenn verði meðvitaðir um ábyrgð á eigin heilsu, m.a. með fræðslu og vitundarvakningu um gildi forvarna og heilsueflingar, svo sem á sviði næringar, hreyfingar og geðræktar. Liður í því er að tryggja fólki greiðan aðgang að hagnýtum og gagnreyndum upplýsingum um þessi efni sem auðvelda hverjum og einum að stunda heilbrigðan lífsstíl og viðhalda heilsu sinni eða bæta hana.

Verkefnahópur vinnur nú að mótun aðgerðaáætlunar um framkvæmd lýðheilsustefnu og er gert ráð fyrir að nýta afrakstur lýðheilsuþingsins inn í þá vinnu. 

Heilsulæsi – lykill að árangri

Þótt öflugt heilbrigðiskerfi og góð heilbrigðisþjónusta skipti miklu fyrir heilsufar landsmanna eru ótalmargir aðrir þættir sem eru ráðandi um það hvort almenn lýðheilsa sé góð. Við tökum á hverjum degi ákvarðanir sem hafa áhrif á heilsu okkar, oft án þess að leiða hugann sérstaklega að því. Dæmi um þetta eru ákvarðanir og val sem snýr t.d. að mataræði og öðrum neysluvörum, hreyfingu, svefni, félagslegum samskiptum, ýmsum streituvaldandi þáttum og svo mætti áfram telja. Mikilvægt er að hver og einn þekki og skilji hvaða áhrif ólíkir valkostir geta haft á heilsuna. Það skiptir jafnframt miklu máli að fólk þekki hvaða líkamleg eða andleg einkenni geta falið í sér viðvörun um að bregðast þurfi við og breyta venjum eða leita hjálpar heilbrigðisstarfsfólks. Þekking og skilningur á þessum þáttum nefnist heilsulæsi en þar kemur þó margt fleira til sem fjallað verður um á lýðheilsuþinginu 10. nóvember. 

Þátttaka og skráning

Lýðheilsuþingið er öllum opið en ég hvet sérstaklega fulltrúa heilbrigðisstofnana, fræðasamfélagsins, sveitarfélaga, skólanna, íþróttahreyfingarinnar og annarra félagasamtaka sem láta sig málið varða, til að taka daginn frá. 

Lýðheilsuþingið 10. nóvember verður haldið á hótel Hilton Reykjavík Nordica kl. 8.30 – 16.30. Nánari upplýsingar eru á heilbrigdisthing.is og þar fer einnig fram skráning þátttöku. Einnig er minnt á facebooksíðu þingsins. Aðgangur er ókeypis.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Tilkynningin birtist fyrst á stjornarradid.is 21. október 2022.

Categories
Fréttir

Brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi

Deila grein

21/10/2022

Brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi

Í yndislegu veðri föstudaginn 21. október var brúin yfir Jökulsá á Sólheimasandi formlega opnuð af innviðarráðherra og formanni Framsóknar, Sigurði Inga Jóhannssyni ásamt, forstjóra vegagerðarinnar, Bergþóru Þorkelsdóttur og sveitarstjórum í aðliggjandi sveitarfélögum, þeim Einari Freyr Elínarsyni og Antoni Kára Halldórssyni sem mættust á miðri leið og klipptu á borðann. Brúin er mikil lyftistöng fyrir samfélagið og eykur öryggi vegfarenda á einum fjölfarnasta vegi landsins.

Categories
Fréttir

Aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu

Deila grein

19/10/2022

Aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, var fyrirspyrjandi í umræðu á Alþingi við matvælaráðherra um aðgerðir til að treysta innlenda matvælaframleiðslu.

„Erfiðar aðstæður hafa skapast í okkar nærumhverfi og í Evrópu undanfarna mánuði og í þeim aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til af hálfu ríkisvaldsins hefur matvælaráðherra verið í fararbroddi verkefna sem snúa t.d. að því að koma að stuðningi við áburðarkaup til bænda og eins að fylgja eftir tillögum spretthóps sem hæstv. atvinnuvegaráðherra skipaði á vordögum en hann skilaði af sér í júní sl.,“ sagði Þórarinn Ingi.

Sagði hann stöðuna ekki vera fara að lagast, verð verða áfram há á aðföngum til matvælaframleiðslu, vegna stríðsins í Úkraínu.

„Mig langar því að eiga samtal við hæstv. ráðherra hvað þetta varðar um það hvort ráðherra hyggist grípa til einhverra frekari aðgerða í ljósi þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir til að tryggja enn frekar stöðu matvælaframleiðslu á Íslandi,“ sagði Þórarinn Ingi og hélt svo áfram, „ ég velti því sömuleiðis upp hvort við getum endurskoðað t.d. tollverndina eða hvort við horfum betur á ytri skilyrði landbúnaðarins hér heima eða þá að farið verði í það að bæta enn frekar í stuðning ríkisins til til landbúnaðarins“.

„Þó svo að mjög vel hafi verið staðið að mörgu sem viðkemur viðbrögðum ríkisvaldsins í þessari stöðu þarf meira til til að tryggja stöðuna enn frekar af því að það eru margir hlutir sem hjálpast að við að gera framleiðsluna erfiðari. Ég nefni þar sem dæmi hækkun á fjármagnskostnaði og þess háttar. Verkefnin eru fram undan og þau eru verulega krefjandi en mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu hefur sennilega sjaldan eða aldrei verið meira,“ sagði Þórarinn Ingi.

Andsvar matvælaráðherra má sjá í spilaranum hér að neðan:

Categories
Fréttir

Tryggt ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð

Deila grein

19/10/2022

Tryggt ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður frumvarps til laga um breytingu á lögum um ættleiðingar.

Í breytingunni felst að einstaklingur sem hefur verið í sambúð eða hjúskap við annað foreldrið en síðar slitið samvistum við það, geti óskað eftir að ættleiða barnið án þess að lagatengsl rofni við hitt foreldrið. Einnig er lögð til heimild til að ættleiða barn eða kjörbarn einstaklings sem hefur fallið frá.

Frumvarpið var áður lagt fram á 151. löggjafarþingi og er nú endurflutt með breytingum í samræmi við athugasemdir sem bárust.

Hér er um að ræða að sá sem ættleiðir kemur í stað annars foreldris, þ.e. að barn hafi eftir ættleiðingu lagatengsl við tvo aðila.

Markmið frumvarpsins er að tryggja að umsækjandi sem alið hefur upp barn geti fengið ættleiðingarleyfi þrátt fyrir að hafa slitið sambúð eða hjónabandi við foreldrið.

Eins og staðan er nú getur einstaklingur sem alið hefur upp barn í fjölda ára ekki sótt um að ættleiða það barn ef viðkomandi hefur slitið sambúð eða hjónabandi við hitt foreldrið. Mögulega eiga þessir einstaklingar önnur börn saman og sá sem óskar eftir ættleiðingunni vill tryggja að barn sem hefur alist upp hjá viðkomandi hafi sömu réttindi og önnur börn hans.

Samkvæmt núgildandi lögum getur einstaklingur sem óskar eftir að ættleiða barn sem alist hefur upp hjá umsækjanda sótt um ættleiðingu sem einstaklingur, en það hefur þau réttaráhrif að lagatengsl barns við báða blóðforeldra rofnar.

Frumvarpið:

Categories
Fréttir

„Tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni“

Deila grein

19/10/2022

„Tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi mikilvægi byggðamála, störfum þingsins á Alþingi, enda væru staða landshlutanna ójöfn. Það eigi við um þjónusta ríkis, sveitarfélaga á svæðinu, vegalengda í þjónustu, fjölbreytni atvinnulífs og aðgengi að framhaldsskólamenntun og svo mætti lengi telja.

„Það sem mig langar sérstaklega að beina sjónum mínum að í þessari ræðu er Norðurland vestra, Strandir og Dalir. Þessi búsældarlegu svæði eiga undir högg að sækja og hefur íbúaþróun síðastliðinna ára sýnt það með mjög afgerandi hætti að aðgerða er þörf á svæðinu,“ sagði Stefán Vagn.

Sagði hann að önnur landsvæði hafi náð að fylgja eftir þróun í íbúafjölda og hagvexti en að þá sitji þetta svæði eftir. Íbúaþróun á svæðinu er undir landsmeðaltali undanfarin ár. Það fluttu tæplega 100 manns af svæðinu umfram aðflutta á árunum 2012-2019 eða rúmlega 1% af íbúum svæðisins. Hagvöxtur á Norðurlandi vestra er undir landsmeðaltali eða að jafnaði 2,5% á árunum 2012-2019 sem er um 2% undir hagvexti annarra landshluta.

Stefán Vagn sagði ljóst „að þær byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í á liðnum árum hafa ekki virkað sem skyldi fyrir þetta svæði og í byggðastefnunni og byggðaáætluninni hefur þetta svæði ekki verið gripið með nægilegum hætti.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við grípum inn í áður en það verður of seint og tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Ræða Stefáns Vagns:

„Virðulegur forseti.

Byggðamál eru mér ofarlega í huga og hafa verið lengi og eru í raun aðalástæða þess að ég hóf afskipti mín af stjórnmálum fyrir um 13 árum síðan, fyrst sem sveitarstjórnarmaður og síðan sem fulltrúi á Alþingi. Það er ljóst og hefur verið í langan tíma að staða landshlutanna er ekki jöfn. Fyrir því eru margar ástæður; þjónusta ríkis á viðkomandi svæði, þjónusta sveitarfélaga á svæðinu, vegalengdir í þjónustu, fjölbreytni atvinnulífs og aðgengi að framhaldsskólamenntun, svo lengi mætti telja.

Það sem mig langar sérstaklega að beina sjónum mínum að í þessari ræðu er Norðurland vestra, Strandir og Dalir. Þessi búsældarlegu svæði eiga undir högg að sækja og hefur íbúaþróun síðastliðinna ára sýnt það með mjög afgerandi hætti að aðgerða er þörf á svæðinu. Meðan önnur landsvæði hafa fylgt eftir þróun í íbúafjölda og hagvexti situr þetta svæði eftir. Með því er ég á engan hátt að gera lítið úr erfiðleikum annarra svæða, dreifbýlla eða þéttbýlla, en langar hins vegar að vekja sérstaklega athygli á þessu svæði hér í dag. Íbúaþróun á svæðinu hefur verið undir landsmeðaltali undanfarin ár. Þó svo að fjölgað hafi á svæðinu örlítið síðustu ár er sú fjölgun ekki í neinum takti við það sem önnur landsvæði eru að horfa á. Alls fluttu tæplega 100 manns af svæðinu umfram aðflutta á árunum 2012–2019 en það er rúmlega 1% af íbúum svæðisins. Hagvöxtur er einnig undir landsmeðaltali og má þar nefna að hagvöxtur á Norðurlandi vestra var að jafnaði 2,5% á árunum 2012–2019 en það er um 2% undir hagvexti annarra landshluta.

Að þessu sögðu er ljóst að þær byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í á liðnum árum hafa ekki virkað sem skyldi fyrir þetta svæði og í byggðastefnunni og byggðaáætluninni hefur þetta svæði ekki verið gripið með nægilegum hætti.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að við grípum inn í áður en það verður of seint og tíminn er ekki með okkur í liði í þessu verkefni.“

Categories
Fréttir

Framkvæmd farsældarlaganna

Deila grein

19/10/2022

Framkvæmd farsældarlaganna

Elsa Lára Arnardóttir, varaþingmaður, fór yfir framkvæmd farsældarlaganna, í störfum þingsins, á Alþingi, sem hafa verið innleidd í velfarðar- og skólakerfinu. Hugmyndafræðin er komin inn í vinnuferla hjá sveitarfélögum.

„Unnið er að því að þjónusta börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á réttum stað í kerfinu og lögð er áhersla á að grípa fyrr inn í til að aðstoða börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Nokkur sveitarfélög hafa ráðið verkefnastjóra og málsstjóra inn á bæjarskrifstofur og tengiliðir starfa innan skólakerfisins, sem er nauðsynlegt til að ná markmiðum farsældarlaganna,“ sagði Elsa Lára.

Tengiliðirnir og fagfólkið á velferðar- og skólasviðum grípa nú fyrr inn í mál barna, til að finna leiðir til að vinna að aðgerðum. Mikilvægi þessa er einstaklega þarft nú vegna frétta af ofbeldismálum og slæmri líðan barna og ungmenna.

„Nauðsynlegt er að sveitarfélögum verði áfram tryggt fjármagn til að framkvæmd þessara laga nái fram að ganga til lengri tíma og að horft verði til þess hvaða sveitarfélög hafa ráðið til sín málsstjóra og tengiliði og fá þá greitt í samræmi við það,“ sagði Elsa Lára.

Hún vill að tryggt sé að heilsugæslan geti tekið þátt í þessu verkefni af fullum þunga líkt og lagt er upp með í farsældarlögunum. Segir hún að á nokkrum heilbrigðisstofnunum um landið skorti tengiliði inn í mæðra- og ungbarnavernd.

„Að lokum vil ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir góða vinnu í þágu barna og ungmenna en hann hefur verið að stíga mjög stórt skref til að koma á móts við þau og fjölskyldur þeirra. Með nýjustu aðgerðinni er hann m.a. að stíga stórt skref til þess að þjónusta skólasamfélagið betur og það er full þörf á því,“ sagði Elsa Lára að lokum.

Ræða Elsu Láru á Alþingi:

„Herra forseti.

Ég ætla að ræða um framkvæmd farsældarlaganna, þessara mikilvægu laga sem hafa nú verið innleidd, m.a. í velferðar- og skólakerfinu okkar. Nú þegar er hugmyndafræði laganna komin inn í vinnuferla hjá sveitarfélögum. Unnið er að því að þjónusta börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra á réttum stað í kerfinu og lögð er áhersla á að grípa fyrr inn í til að aðstoða börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra. Nokkur sveitarfélög hafa ráðið verkefnastjóra og málsstjóra inn á bæjarskrifstofur og tengiliðir starfa innan skólakerfisins, sem er nauðsynlegt til að ná markmiðum farsældarlaganna. Saman nær þessi hópur, ásamt öðru fagfólki á velferðar- og skólasviðum, að grípa fyrr inn í mál barna, ungmenna og fjölskyldna til að finna leiðir til að vinna að aðgerðum, m.a. fyrir börnin og fjölskyldur þeirra til að bæta líðan þeirra og gæði. Þetta er einstaklega mikilvægt á þessum tíma þegar við fáum í sífellu fréttir af ofbeldismálum og slæmri líðan barna og ungmenna. Nauðsynlegt er að sveitarfélögum verði áfram tryggt fjármagn til að framkvæmd þessara laga nái fram að ganga til lengri tíma og að horft verði til þess hvaða sveitarfélög hafa ráðið til sín málsstjóra og tengiliði og fá þá greitt í samræmi við það. Einnig þarf að tryggja að heilsugæslan geti tekið þátt í þessu verkefni af fullum þunga eins og lagt er upp með í farsældarlögunum, en á nokkrum heilbrigðisstofnunum um landið skortir tengiliði inn í mæðra- og ungbarnavernd. Nauðsynlegt er að bregðast við þeirri stöðu.

Að lokum vil ég þakka hæstv. mennta- og barnamálaráðherra fyrir góða vinnu í þágu barna og ungmenna en hann hefur verið að stíga mjög stórt skref til að koma á móts við þau og fjölskyldur þeirra. Með nýjustu aðgerðinni er hann m.a. að stíga stórt skref til þess að þjónusta skólasamfélagið betur og það er full þörf á því.“

Categories
Fréttir Uncategorized

Konur í Framsókn!

Deila grein

18/10/2022

Konur í Framsókn!

Síðastliðinn laugardag var haldið 20. Landsþing Landssambands Framsóknarkvenna sem nú hefur fengið nýtt nafn Konur í Framsókn eftir lagabreytingartillögu, Berglindar Sunnu Bragadóttur, sem samþykkt var á þingingu. Fundarstjóri var kosinn Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður og fundarritari,Hjördís Guðný Guðmundsdóttir, varaformaður LFK.

Fráfarandi formaður Linda Hrönn Þórssdóttir stiklaði á stóru um þriggja á ára formannstíð sína. Heimsfaraldur setti sinn mikla svip á það metnaðarfulla starf sem hafði verið skipulagt. Hún ræddi stöðu kvenna í heiminum eftir heimsfaraldur og vísaði í erlendar rannskóknir. Talaði um mikilvægi hreyfingar eins og Kvenna í Framsókn í þágu jafnréttismála og þátttöku kvenna í stjórnmálum. Án þátttöku kvenna í stjórnmálum verður jafnrétti aldrei raunverulega náð.

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir og Linda Hrönn fóru yfir ársreikninga sambandsins í fjarveru gjaldkera.

Þá flutti Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, ávarp og þakkaði grasrótinni fyrir velgengni í sveitarstjórnarkosningunum. Hann talaði einnig um mikilvægi baklandsins þegar nýliðar eru fyrsta sinn í stjórn og taka þarf á krefjandi málum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar talaði um mikivægi öflugs félags eins og Kvenna í Framsókn. Hún fór yfir stöðu kvenna í samfélaginu m.t.t. jákvæðrar þrjóunar á atvinnumarkaði sl. 35 ár. Að hér væri lagaumhverfi sem stuðli að þessum jákvæðu breytingum með lögum um kynjahlutföll í stjórnum t.d. Ekki síður mikilvægt að aðgengi að leikskólum sé gott og daggæslu sem gert var átak í á sínum tíma undir forystu Kvennalistans og Framsóknar.

Fjöldi kvenna stóð í pontu og tjáðu sig um sín áherslumál. Konur hvöttu aðrar konur til að taka pláss og láta í sér heyra. Leikskólamálin voru rædd, rasismi í samfélaginu, MeToo, staða kvenna þegar kemur að fæðingarorlofi, konur lengur heima því þær eru oftar launalægri. Einnig rætt að það hafi aldrei verið betra að vera kona í stjórnmálum en í dag. Þá var ný stjórn hvött til að taka upp stöðu kvenna í atvinnulífinu.

Nýr formaður var kosinn Guðveig Eyglóardóttir og sagði hún m.a. í framboðsræðu sinni að hennar köllun væri í dag að valdefla aðrar konur.

Þingið var öflugt í alla staði, lagðar fram kraftmiklar ályktanir og augljóst var á konum á þinginu að það var orðið tímabært að hittast. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og ráðherra bauð Konum í Framsókn í móttöku á vinnustofu Kjarvals að þingi loknu.

Ný stjórn er eftirfarandi:

Formaður: Guðveig Eyglóardóttir (NV)

Framkvæmdastjórn:

Berglind Sunna Bragadóttir (R)

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir (SV)

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir (S)

Unnur Þöll Benediktsdóttir (R)

Til vara:

Anna Karen Svövudóttir (SV)

Karítas Ríkharðsdóttir (R)

Landsstjórn (6 og 6 til vara)

Díana Hilmarsdóttir (S)

Fanný Gunnarsdóttir (R-N)

Linda Hrönn Þórisdóttir (SV)

Rakel Dögg Óskarsdóttir (R-S)

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir (NA)

Sonja Lind Estrajher Eyglóardóttir (NV)

Drífa Sigfúsdóttir (S)

Ingveldur Sæmundsdóttir (R)

Magnea Gná Jóhannsdóttir (R-N)

Pálína Margeirsdóttir (NA)

Ragnheiður Ingimundardóttir (NV)

Þórey Anna Matthíasdóttir (SV)

Skoðunarmenn reikninga (2)

Hildur Helga Gísladóttir (SV)

Þorbjörg Sólbjartsdóttir (SV)

Categories
Fréttir

„Orkuöryggi er þjóðaröryggismál“

Deila grein

13/10/2022

„Orkuöryggi er þjóðaröryggismál“

„Ég þreytist seint á að koma hingað upp og ræða um orkuöryggi sem er þjóðaröryggismál hér í landinu. Þrátt fyrir að veður spili inn í getum við ekki kennt veðrinu einu um þegar kemur að rafmagnsleysi. Staðreyndin er sú að við þurfum að byggja upp sterkara kerfi með fjölbreyttari lausnum,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Á landsbyggðinni starfa stór fyrirtæki sem eru háð góðu afhendingaröryggi raforku. Um síðustu helgi var álverið á Reyðarfirði hætt komið vegna rafmagnsleysis. Ef álver er án rafmagns í meira en fjórar klukkustundir fer að harðna í kerjunum með þeim afleiðingum að þau eyðileggjast.“

Fór Ingbjörg yfir að Landsnet vinni nú að endurnýjun byggðalínunnar en að mörg ljón séu í veginum fyrir áframhaldandi endurnýjun byggðalínunnar.

„Það er ekki boðlegt að fyrirtæki með milljarða fjárfestingar búi við slíkt rekstraróöryggi og það sama á við um minni fyrirtæki sem og búrekstur.“

Sagði Ingibjörg mikilvægt að byggja upp öruggt og skilvirkt kerfi og að smávirkjanir muni gegna þar lykilhlutverki, raforkukerfinu til stuðnings.

„Þegar Laxárlína sló út um síðustu helgi fylgdi ekki straumleysi í kjölfarið þar sem Laxárvirkjun og Þeistareykjavirkjun sáu svæðinu fyrir rafmagni. Þannig var fyrirtækjum og fjölskyldum séð fyrir rafmagni sem annars hefðu búið við straumleysi.“

Smávirkjanir gegna lykilhlutverki á landsbyggðinni og styðja m.a. við byggðaþróun þar sem annars skortir raforku benti Ingibjörg á.

„Smávirkjanir stuðla ekki einungis að auknu orkuöryggi í landinu heldur geta þær einnig verið mikilvægur þáttur í að tryggja vaxtarmöguleika landsbyggðarinnar. Við þurfum að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem við erum í varðandi orkuöryggi landsins en samhliða uppbyggingu smávirkjana er þó mikilvægt að gleyma því aldrei að vera í góðu samtali við samfélögin og mestu skiptir að uppbygging verði gerð af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins,“ sagði Ingibjörg í lok ræðu sinnar.

Ræða Ingibjargar á Alþingi:

„Virðulegi forseti.

Ég þreytist seint á að koma hingað upp og ræða um orkuöryggi sem er þjóðaröryggismál hér í landinu. Þrátt fyrir að veður spili inn í getum við ekki kennt veðrinu einu um þegar kemur að rafmagnsleysi. Staðreyndin er sú að við þurfum að byggja upp sterkara kerfi með fjölbreyttari lausnum. Á landsbyggðinni starfa stór fyrirtæki sem eru háð góðu afhendingaröryggi raforku. Um síðustu helgi var álverið á Reyðarfirði hætt komið vegna rafmagnsleysis. Ef álver er án rafmagns í meira en fjórar klukkustundir fer að harðna í kerjunum með þeim afleiðingum að þau eyðileggjast.

Sem betur fer vinnur Landsnet nú að endurnýjun byggðalínunnar og nýgangsettar flutningslínur á Norðausturlandi sönnuðu rækilega gildi sitt og komu í veg fyrir ófremdarástand í óveðrinu um síðustu helgi. En betur má ef duga skal enda mörg ljón í veginum fyrir áframhaldandi endurnýjun byggðalínunnar. Það er ekki boðlegt að fyrirtæki með milljarða fjárfestingar búi við slíkt rekstraróöryggi og það sama á við um minni fyrirtæki sem og búrekstur. Mikilvægt er að ráðast í þau verkefni sem þörf er á til þess að byggja upp öruggt og skilvirkt kerfi hér á landi. Smávirkjanir gegna þar lykilhlutverki en þær geta komið inn á raforkukerfi til stuðnings. Staðbundnar virkjanir geta skipt gríðarlegu máli. Þegar Laxárlína sló út um síðustu helgi fylgdi ekki straumleysi í kjölfarið þar sem Laxárvirkjun og Þeistareykjavirkjun sáu svæðinu fyrir rafmagni. Þannig var fyrirtækjum og fjölskyldum séð fyrir rafmagni sem annars hefðu búið við straumleysi. Smávirkjanir gegna einnig lykilhlutverki á landsbyggðinni og styðja m.a. við byggðaþróun þar sem annars skortir raforku.

Smávirkjanir stuðla ekki einungis að auknu orkuöryggi í landinu heldur geta þær einnig verið mikilvægur þáttur í að tryggja vaxtarmöguleika landsbyggðarinnar. Við þurfum að horfast í augu við þá alvarlegu stöðu sem við erum í varðandi orkuöryggi landsins en samhliða uppbyggingu smávirkjana er þó mikilvægt að gleyma því aldrei að vera í góðu samtali við samfélögin og mestu skiptir að uppbygging verði gerð af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins.“