Categories
Greinar

Unga fólkið okkar hefur áhrif

Deila grein

10/10/2020

Unga fólkið okkar hefur áhrif

Unglings­ár­in eru tíma­bil spenn­andi breyt­inga. Lík­ami og sál þrosk­ast, vina­hóp­ur og nærum­hverfi breyt­ast, með til­færslu ung­menna milli skóla­stiga. Ung­ling­ar í dag lifa á tím­um sam­fé­lags­miðla og í því fel­ast tæki­færi en einnig áskor­an­ir. Flæði af upp­lýs­ing­um krefst þess að ung­menni séu gagn­rýnni en fyrri kyn­slóðir á það efni sem fyr­ir þau er lagt. Þörf­in fyr­ir skil­merki­legri og öfl­ugri kyn­fræðslu, kennslu í sam­skipt­um og lífs­leikni hef­ur því aldrei verið meiri.

Kyn­fræðsla er hluti af aðal­nám­skrá og því hef­ur það verið skól­anna að fræða ung­menn­in okk­ar. Flest­ir virðast þó vera sam­mála því, að í breytt­um heimi þurfi að gera bet­ur. Síðastliðið vor ályktaði Alþingi um mik­il­vægi skipu­lagðra for­varna gegn kyn­ferðis­legu og kyn­bundnu of­beldi og áreitni. Tryggja þurfi að inn­tak kennsl­unn­ar verði að meg­in­stefnu til þríþætt. Í fyrsta lagi að al­menn­ar for­varn­ir stuðli að sterkri sjálfs­mynd og þekk­ingu á mörk­um og marka­leysi, þar á meðal í sam­skipt­um kynj­anna og sam­skipt­um milli full­orðinna og barna. Í öðru lagi að auka fræðslu um kyn­heil­brigði og kyn­hegðun, einkum í grunn­skól­um og fram­halds­skól­um. Í þriðja lagi þarf að halda áfram op­in­skárri um­fjöll­un um eðli og birt­ing­ar­mynd­ir kyn­ferðis­legs og kyn­bund­ins of­beld­is og áreitni. Til framtíðar þarf einnig að und­ir­búa starfs­fólk sem starfar með börn­um og ung­menn­um til að sjá um for­varn­ir, fræðslu og viðbrögð við kyn­ferðis­legu og kyn­bundnu of­beldi og áreitni.

Í liðinni viku átti ég áhuga­verðan fund með Sól­borgu Guðbrands­dótt­ur, bar­áttu­konu og fyr­ir­les­ara, og Sig­ríði Dögg Arn­ar­dótt­ur kyn­fræðingi um þessi mál­efni. Báðar hafa þær unnið með ungu fólki, hvor á sinn hátt, og þekkja vel þörf­ina á skil­merki­leg­um aðgerðum. Niðurstaða fund­ar­ins var að fela sér­stök­um starfs­hópi að taka út kyn­fræðslu­kennslu í skól­um og gera til­lög­ur að úr­bót­um í sam­ræmi við of­an­greinda þings­álykt­un. Sú vit­und­ar­vakn­ing sem orðið hef­ur um kyn­ferðis­legt og kyn­bundið of­beldi og áreitni er geysi­lega mik­il­væg fyr­ir sam­fé­lagið, en það er brýnt að þekk­ing­in skili sér mark­visst inn í skóla­kerfið.

Aðkoma barna og ung­menna er lyk­il­atriði til að ná sam­stöðu og sátt um mál­efni sem þeim tengj­ast. Þess vegna hef­ur ráðuneytið haldið sam­ráðsfundi með sam­tök­um nem­enda, til að heyra þeirra skoðanir og viðhorf varðandi ákv­arðana­töku í heims­far­aldr­in­um. Þetta hef­ur gefið mjög góða raun.

Komi í ljós að fræðslan sé óviðun­andi mun ég leggja mitt af mörk­um svo mennta­kerfið sinni þess­ari skyldu. Í mín­um huga er þetta eitt mik­il­væg­asta bar­áttu­málið til að auka vel­ferð ung­menna á Íslandi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2020.

Categories
Greinar

António Guterres á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík

Deila grein

09/10/2020

António Guterres á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík

Í fyrsta sinn í sögu Norð­ur­landa­ráðs fer árlegt þing ráðs­ins, sem halda átti í Hörpu í lok októ­ber, fram staf­rænt. Þar verða mörg mik­il­væg mál­efni nor­rænu ríkj­anna í brennid­epli. Það er sér­stak­lega ánægju­legt fyrir starf Norð­ur­landa­ráðs að António Guterres, aðal­fram­kvæmda­stjóri Sam­ein­uðu þjóð­anna, mun taka þátt í sam­eig­in­legum staf­rænum fundi Norð­ur­landa­ráðs um Covid-19 í þing­vik­unni þann 27. októ­ber næst­kom­andi. Þá fáum við Norð­ur­landa­búar inn­sýn inn í hvaða áskor­anir alheims­far­ald­ur­inn hefur haft í för með sér fyrir alla heims­byggð­ina. Áskor­anir sem ekki enn sér fyrir end­ann á. 

Stofnun SÞ og nor­ræn hug­mynda­fræði

Sam­ein­uðu þjóð­irnar fagna 75 ára afmæli á þessu ári og hafa á und­an­förnum ára­tugum efnt til umfangs­mestu sam­ræðu sem um getur um alheims­sam­vinnu til að móta betri fram­tíð í þágu allra jarð­ar­búa. Starf­semi sam­tak­anna er sam­ofið þeirri hug­mynda­fræði sem Norð­ur­landa­ráð byggir á en það voru einmitt Danir og Norð­menn sem stofn­uðu Sam­ein­uðu þjóð­irnar árið 1945. 

Íslendingar og Svíar bætt­ust síðan í hóp­inn ári eftir og Finnar urðu aðilar árið 1955. Því má með sanni segja að nor­ræna sam­starf­ið, sem er elsta sam­starf í heimi af sínu tagi, hafi lagt grund­völl að því far­sæla starfi sem Sam­ein­uðu þjóð­irnar hafa gefið af sér í gegnum tíð­ina. 

Þétt sam­starf Norð­ur­landa á vett­vangi SÞ

Sú tengin og tengsl sem hefur verið milli nor­rænu land­anna og Sam­ein­uðu þjóð­anna frá upp­hafi hefur mótað starf þeirra á umfangs­mik­inn hátt. For­sæt­is­ráð­herrar og utan­rík­is­ráð­herrar Norð­ur­land­anna halda reglu­lega fundi þar sem mál­efni Sam­ein­uðu þjóð­anna eru meðal ann­ars til umræðu. Þar að auki fjalla löndin um mál­efni Sam­ein­uðu þjóð­anna á vett­vangi Norð­ur­landa­ráðs, í beinum sam­skiptum milli ráðu­neyta og einnig milli frjálsra félaga­sam­taka á Norð­ur­lönd­un­um. Enn fremur eru starf­andi þing­manna­sam­tök Norð­ur­landa þar sem mál­efni Sam­ein­uðu þjóð­anna eru rædd. Ríkur vilji er til að við­halda þeirri sterku ímynd sem Norð­ur­löndin hafa skapað sér sem sam­held­inn ríkja­hópur innan Sam­ein­uðu þjóð­anna sem vinnur meðal ann­ars að bættum mann­rétt­indum og jafn­rétti.

Hin nor­ræna sýn og veg­ferð heldur áfram að styrkj­ast í sam­vinnu á alþjóða­vett­vangi og þar er sam­ráð við Sam­ein­uðu þjóð­irnar mik­il­vægt til að við­halda tengslum og láta verkin tala. 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, for­seti Norð­ur­landa­ráðs og þing­maður Fram­sókn­ar­flokksins.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 9. október 2020.

Categories
Greinar

Treystum innlenda matvælaframleiðslu – nú verður að grípa inn í!

Deila grein

09/10/2020

Treystum innlenda matvælaframleiðslu – nú verður að grípa inn í!

Það hefur verið ákall um að bændur búi við frelsi og starfi á samkeppnismarkaði með vörur sínar svo við neytendur getum haft val. En umhverfið og leikreglurnar sem þeim standa til boða gerir þeim nær ókleift að starfa á jafnréttisgrundvelli á markaði.

Þegar maður velur sér atvinnu, þá höfuð við ákveðið frelsi til að fara eftir áhugasviði, möguleikum og færni. Væntingar okkar til starfsins eru fyrst og fremst að geta framfært sér og sínum auk þess að starfið færi manni þá lífshamingju sem allir sækjast eftir. Sauðfjárbúskapur sem og annar búskapur er fjölbreytt starf og felur í sér ólík viðfangsefni eftir árstíðum, Þetta er ekki einungis bundið við að rækta sauðfé og framleiða matvæli, heldur er bóndinn líka landvörslumaður sem bæði græðir landið og nýtir. Þetta kallar á fjölbreytta hæfileika og útsjónarsemi. En afkoman skiptir máli og þegar afurðaverð hefur lækkað um tugi prósenta síðustu fimm ár fer gamanið að grána.

Tollaglæpir og lögbrot

Íslenskir bændur keppa á sama samkeppnismarkaði og iðnaðarbúskapur í Evrópu, með því verða starfsskilyrði þeim erfið. Ákall um virka samkeppni er krafa okkar neytenda til að njóta gæða og betra verðs, leikreglur eru settar en hver er niðurstaðan?

Samkeppnisstaða innlendrar matvælaframleiðslu má sín lítils á móti erlendri iðnaðarframleiðslu sem nýtur mikilla niðurgreiðsla í sínu heimalandi sem og verndartolla. Sá tollasamningur sem var gerður árið 2016 fól í sér minni tollaálagningu á landbúnaðarvörum til landsins á ákveðnum matvælum, á móti því að við gætum flutt út kjöt- og mjólkurafurðir til Evrópusambandsins á lægri tollum. Tollverndin er fyrir hendi og samningurinn er skýr en hver er raunveruleikinn? Staðreyndin er sú að verið er að brjóta lög, innflutningsaðilar komast upp með að skipta um tollflokka út á miðju Atlandshafi til þess eins að greiða lægri tolla eða sleppa alveg við þá. Njóta neytendur þess? Ég efa það stórlega. Tapið er allra, bænda og neytanda! Hvað er gert, við skipum nefnd til að fara yfir málið! Hér er um að ræða gífurlegar fjárhæðir fyrir ríkissjóð. Ef hinn sami innflytjenda myndi svíkja undan skatti þá yrði hann umsvifalaust kærður.

Vonlaus samkeppnisskilyrði – grípum inn í

Samkeppnislögin sem gilda hér á landi eiga við um milljóna þjóðir og innan þeirra eiga íslenskir bændur að starfa. Framsóknarmenn hafa lagt fram frumvarp sem veitir afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga. Með frumvarpinu er tilgangurinn að veita innlendum kjötiðnaði tækifæri til að hagræða í þágu neytanda og til að bregðast við ört vaxandi samkeppni við afurðir frá erlendum mörkuðum. Afurðarstöðvar í kjötiðnaði geta nú mjög takmarkað sameinast eða unnið saman þar sem það er í andstöðu við ákvæði samkeppnislaga. Það skilar sér í of háum rekstrarkostnaði, háu verði til neytenda og lægri afurðaverði til bænda.

Hvað er í pakkanum?

Nú þegar hefur verið opnað á aukinn innflutning á ferskum matvælum hingað. Það er eðlileg krafa ekki bara bænda heldur neytenda, að farið sé eftir ströngum reglum heilbrigðis og gæðakröfum. Til að mæta þeim áskorunum á innflutning á ferskum matvælum lagði atvinnuveganefnd Alþingis fram aðgerðaráætlun sem var samþykkt á vordögum 2019. Aðgerðaráætlunin miðar að því að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Innflutningur hrárra matvæla þarf að vera undir ströngu eftirliti og þar má ekki gefa neinn afslátt. Sagt er frá því í síðasta Bændablaði að í fyrra mánuði hafi fyrsta tilfelli afrískar svínapestar greinst í Þýskalandi. Íslenskir bændur og neytendur verða að geta treyst því að eftirlitið sé virkt hér þar sem innlend framleiðsla er viðkvæm og opin fyrir útbreiðslu alls kyns dýrasjúkdóma og fæðuöryggi okkar ógnað.

Treystum starfskilyrði bænda

Sauðfjárbændur og aðrir bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur sem vilja athafna sig í eðlilegu umhverfi. Það er skylda stjórnvalda að byggja undir innlenda matvælaframleiðslu og auka þar með fæðuöryggi landsins þannig náum við meira jafnvægi og komum í veg fyrir að þessi framleiðsla leggist af. Við eigum ekki að hræðast að móta starfsskilyrði bænda með eðlilegum hætti, það verða allir að sníða sér stakk eftir vexti. Þannig er hag íslenskra bænda og neytenda best borgið. Áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. október 2020.

Categories
Greinar

Íslensk kvikmyndagerð á tímamótum

Deila grein

08/10/2020

Íslensk kvikmyndagerð á tímamótum

Menn­ing og list­ir skipta mestu máli þegar hrikt­ir í stoðum sam­fé­laga. Þær setja líðandi stund í sam­hengi, veita skjól frá amstri hvers­dags­ins og skapa sam­stöðu.

Grósk­an í ís­lensku menn­ing­ar­lífi er með ólík­ind­um. Þar liggja líka mörg af okk­ar stærstu tæki­fær­um til að byggja upp hug­vits­drifið og skap­andi at­vinnu­líf. Óvíða eru þessi tæki­færi meiri en í kvik­myndal­ist og til að ýta und­ir áfram­hald­andi vöxt hafa stjórn­völd nú lagt lín­urn­ar, með kvik­mynda­stefnu til næstu tíu ára. Þessi fyrsta heild­stæða kvik­mynda­stefna var kynnt í vik­unni, en hún bygg­ist á til­lög­um verk­efna­hóps sem skipaður var fyr­ir ári. Í hópn­um sátu full­trú­ar list­grein­ar­inn­ar, at­vinnu­lífs og stjórn­valda og lagði hóp­ur­inn ríka áherslu á sam­ráð við hagaðila í grein­inni. Niðurstaðan er metnaðarfull og raun­sæ, og ég er sann­færð um að stefn­an mun styðja vöxt kvik­mynda­gerðar sem list­grein­ar og alþjóðlega sam­keppn­is­hæfr­ar fram­leiðslu­grein­ar.

Í stefn­unni eru sett fram meg­in­mark­mið til næstu tíu ára og aðgerðir til­greind­ar með kostnaðaráætl­un­um. Um leið eru aðilar gerðir ábyrg­ir fyr­ir ein­stök­um aðgerðum til að tryggja fram­kvæmd og eft­ir­fylgni. Aðgerðirn­ar lúta ann­ars veg­ar að efl­ingu kvik­mynda­menn­ing­ar og kvik­myndal­ist­ar og hins veg­ar að efl­ingu at­vinnu­lífs í kring­um kvik­mynd­a­starf­semi sem er bæði alþjóðleg og sjálf­bær.

Stefn­an set­ur skýr mark­mið um efl­ingu fjöl­breyttr­ar og metnaðarfullr­ar mennt­un­ar á sviði kvik­mynda­gerðar. Boðaðar eru mark­viss­ar aðgerðir til að efla mynd- og miðlalæsi barna og ung­linga og styðja við skap­andi hugs­un. Slíkt hef­ur aldrei verið mik­il­væg­ara en nú, á tím­um of­gnótt­ar af upp­lýs­ing­um sem erfitt er að henda reiður á. Þá er í stefn­unni kveðið á um vandað og metnaðarfullt kvik­mynda­nám á há­skóla­stigi, nokkuð sem grein­in hef­ur kallað eft­ir um langt skeið. Námið mun efla list­rænt sjálf­stæði ís­lenskr­ar kvik­mynda­gerðar, auka fag­lega umræðu og opna spenn­andi tæki­færi til náms og starfa.

Lof­orð um bætt starfs­um­hverfi fyr­ir grein­ina kall­ar einnig á aðgerðir, m.a. breyt­ing­ar á skattaum­hverfi og upp­færslu á end­ur­greiðslu­kerfi. Þar á Ísland í harðri alþjóðlegri sam­keppni, enda sjá marg­ar þjóðir kosti þess að byggja upp kvik­myndaiðnað í sínu landi. Yf­ir­stand­andi al­heimskreppa hef­ur síst dregið úr vilja þjóða til að laða til sín kvik­mynda­fram­leiðend­ur og Ísland get­ur ekki leyft sér að sitja aðgerðalaust hjá. Kost­ir nú­ver­andi end­ur­greiðslu­kerf­is eru marg­ir, en með því að hækka end­ur­greiðslu­hlut­fallið kæm­ist Ísland í flokk þeirra eft­ir­sókn­ar­verðustu. Fyr­ir því mun ég beita mér, til hags­bóta fyr­ir grein­ina sjálfa og hag­kerfið allt.

Rík sagna­hefð Íslend­inga hef­ur skilað okk­ur hundruðum kvik­mynda, heim­ilda- og stutt­mynda, sjón­varpsþátta og öðru fjöl­breyttu efni á síðustu ára­tug­um. Marg­ar er­lend­ar kvik­mynd­ir og þátt­araðir hafa verið tekn­ar hér og fjöldi ferðamanna heim­sótt Ísland ein­göngu vegna ein­stakr­ar nátt­úru­feg­urðar og menn­ing­ar sem birt­ist í kvik­mynd­um og sjón­varpsþátt­um. Ávinn­ing­ur­inn af þessu er mik­ill. Auk­in fjár­fest­ing í kvik­mynda­gerð er því bæði viðskipta­tæki­færi fyr­ir þjóðarbúið og áburður í mót­un menn­ing­ar okk­ar og sam­fé­lags­ins.

Á vor­mánuðum hækkuðu stjórn­völd fjár­veit­ing­ar í Kvik­mynda­sjóð um 120 millj­ón­ir króna, til að tryggja áfram­hald­andi kvik­mynda­fram­leiðslu á erfiðum tím­um. Með nýju kvik­mynda­stefn­unni verður bætt um bet­ur, því í fjár­laga­frum­varpi fyr­ir árið 2021 eru 550 millj­ón­ir króna eyrna­merkt­ar efl­ingu sjóða til fram­leiðslu á fjöl­breytt­ari kvik­mynda­verk­um, stuðningi við sjálfsprott­in kvik­mynda­menn­ing­ar­verk­efni, betri kvik­mynda­mennt­un o.s.frv.

Ég óska þjóðinni til ham­ingju með glæsi­lega kvik­mynda­stefnu. Hún er hvatn­ing og inn­blást­ur öll­um þeim sem vinna við kvik­mynda­gerð og sam­fé­lag­inu sem nýt­ur afrakst­urs­ins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. október 2020.

Categories
Greinar

Frábærar fréttir!

Deila grein

07/10/2020

Frábærar fréttir!

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum fyrir skömmu, að leggja til að komið yrði á fót menntaneti á Suðurnesjum í samstarfi við menntastofnanir á svæðinu til að efla náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Menntamálaráðherra mun stýra þessu nýja menntaneti í samvinnu við heimamenn en forsætisráðherra sagði að svona verkefni hafi verið gert víðar með góðum árangri. Það er mikið gleðiefni að haldið sé áfram veginn til styrkingar náms á Suðurnesjum.

Nám er tækifæri

Fyrirhugað er að ráðstafa allt að 300 milljónum króna til kaupa á þjónustu hjá menntanetinu sem hluti af átakinu Nám er tækifæri. Þá hefur verið ákveðið að styrkja þær námsleiðir sem í boði eru hjá Keili gegn því að sveitarfélögin á Suðurnesjum komi jafnframt inn með fjármuni á móti. Stjórnvöld hafa að undanförnu átt samtöl við forsvarsmenn sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga á Suðurnesjum, menntastofnanir og atvinnurekendur á svæðinu um aðgerðir til að bregðast við stöðu vinnumarkaðarins á svæðinu. Atvinnuleysi þar hefur farið vaxandi eftir að Kórónafaraldurinn hófst, fór hæst í kringum 25% í upphafi faraldursins, en var í september í kringum 17%. Það skiptir máli á tímum sem þessum að fólk hafi greiðan aðgang að aukinni menntun til þess að styrkja sig á atvinnumarkaði til framtíðar.

Fjölbreytni og sveigjanleiki

Fjölbreytt námsframboð og sveigjanlegt námsumhverfi, sem skapað er í nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, er nauðsynlegt svo að atvinnulíf og samfélag vaxi og dafni. Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur verið mikil lyftistöng fyrir samfélagið á Suðurnesjum frá stofnun árið 1976. Menntaskólinn Ásbrú (Keilir), Fisktækniskólinn og MSS eru stofnanir sem orðið hafa til vegna frumkvæðis einkaaðila, sveitarfélaga á Suðurnesjum og fyrirtækja á svæðinu. Þörfin fyrir fjölbreyttar námsleiðir, starfsþjálfun og endurmenntun hefur verið áþreifanleg. Nú eru þessar menntastofnanir orðnar rótgrónar í samfélaginu og hafa sannað gildi sitt. Menntunarstig fólks á svæðinu hefur hækkað, sérstaklega kvenna. Það er ekki síst bættu aðgengi að námi að þakka sem og fjölbreyttum námsleiðum og sveigjanlegum kennsluháttum. Höldum áfram þessa leið.

Breyttar kröfur vinnumarkaðarins

Sjálfvirknivæðing undanfarinna ára og hraðar tæknibreytingar munu ekki hægja á sér. Með þeim breytingum er einsýnt að kröfur um fjölbreytta menntun á framhaldsskólastigi sem og ákall eftir nútímalegum og sveigjanlegum kennsluháttum muni halda áfram að aukast. Ný tækifæri eru handan við hornið. Í skýrslu starfshóps forsætisráðuneytisins um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna kemur fram að líkur á sjálfvirknivæðingu starfa minnka með hærra menntunarstigi. Líklegt er að mörg störf sem krefjast lítillar menntunar muni hverfa eða taka miklum breytingum. Vægi framhaldsskólanáms verður því sífellt meira og þörfin fyrir fjölbreyttar námsleiðir vex. Því þarf að auka áherslu á tæknigreinar og nýsköpun auk þess að halda áfram að bjóða upp á hefðbundið bóknám og iðngreinar. Menntun er máttur.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Víkurfréttum 7. október 2020.

Categories
Greinar

Lengi lifi ís­lensk kvik­mynda­gerð!

Deila grein

07/10/2020

Lengi lifi ís­lensk kvik­mynda­gerð!

Í dag er ég er glöð því í fyrsta skipti í sögu þessarar þjóðar er lögð fram heildstæð stefna íslenskra stjórnvalda í kvikmyndagerð. Því ber að fagna. Íslenskri kvikmyndagerð hefur fleygt fram og er nú í hæsta gæðaflokki. Það færi verðum við að nýta. Í stefnu Framsóknarflokksins er lögð áhersla á að styðja við skapandi greinar, listir og menningarstarfsemi, ekki síst vegna þess að sýnt hefur verið fram á að slíkur stuðningur skilar sér margfalt til baka til samfélagsins. Lilja Dögg Alfreðsdóttir Mennta og menningarmálaráðherra Framsóknarflokksins hefur komið áherslum flokksins áfram með myndarlegri kvikmyndarstefnu sem ber nafnið Kvikmyndastefna til ársins 2030 – listgrein á tímamótum.

Ísland land tækifæranna

Markmiðið með kvikmyndastefnunni er að auðga kvikmyndarmennningu, sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar og eflir íslenska tungu. Bjóða á uppá fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar og styðja við að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðar. Stefnan er komin, nú þurfum við bara að vinna saman og ná þessum markmiðum. Við Íslendingar getum verið stoltir yfir þeim góðu listamönnum sem hér búa, það er ekki sjálfgefið að svo fámenn þjóð eigi jafn marga frambærilega listamenn. Með auknu framboði í námi í kvikmyndagerð verður stuðlað að áframhaldandi vexti íslenskra listamanna.

Kvikmyndagerð skapar atvinnu

Kvikmyndagerð er listgrein en hún er líka svo miklu meiri en það. Hún er ört vaxandi iðngrein sem hefur alla burði til að styðja við verðmætasköpun og samkeppnishæfni þjóðarbúsins á næstu árum og áratugum. Kvikmyndagerð skapar umtalsverð verðmæti fyrir ríkissjóð, skapar á fjórða þúsund beinna og afleiddra starfa og laðar að erlenda fjárfestingu. Á bakvið eina bíómynd eru mörg handtök og mörg sérhæfð störf lista- og kvikmyndagerðarmanna en við framleiðslu á kvikmynd skapast fjöldi annarra afleiddra starfa. Með því að laða til landsins stór erlend verkefni styður það enn frekar við íslenska ferðaþjónustu út um allt land hvort sem um er að ræða t.d. gistiheimili, hótel, leiðsögumenn, bílaleigur eða veitingastaði. Er þá ótalinn öll sú landkynningin sem kvikmyndagerð getur fært okkur til framtíðar. Allt helst þetta í hendur. Áfram veginn!

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokks.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. október 2020.

Categories
Greinar

Hvaða íslenski sjónvarpsþáttur er bestur?

Deila grein

07/10/2020

Hvaða íslenski sjónvarpsþáttur er bestur?

Íslendingar elska íslenskt sjónvarpsefni! Allt frá því að Hrafn Gunnlaugsson, Egill Eðvarðsson og Björn G. Björnsson færðu þjóðinni fyrstu alísl­ensku þáttaröðina árið 1977 – Undir sama þaki – og fram á þennan dag, safnast kynslóðirnar saman við sjónvarpsskjáinn til að upplifa eitthvað alveg sérstakt. Tækniþróun og erlendar streymisveitur hafa skapað fjölmörg tækifæri fyrir íslenskt þáttagerðarfólk, bæði til fjármögnunar og dreifingar. Íslenskt efni nýtur vinsælda víða um heim, nú síðast Brot, sem framleitt var í samstarfi við Netflix og var um tíma efst á áhorfslistum streymisveitunnar. Þrátt fyrir vinsældirnar hefur fjármögnun á íslenskum sjónvarpsþáttum gjarnan verið þung. Kvikmyndasjóður hefur haft takmarkaða burði til að uppfylla þarfirnar, enda umsóknir í sjóðinn langt umfram stærð hans og kvikmyndir í fullri lengd fjárfrekar.

Til að mæta þessari brýnu þörf verður settur á laggirnar sérstakur fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis og er tilurð hans hluti af heildstæðri kvikmyndastefnu fyrir Ísland, sem kynnt var í gær. Sjóðurinn verður rekinn að fyrirmynd Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins og er ætlað að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti í allt að þremur þáttaröðum á ári fyrst um sinn, en í náinni framtíð gæti framleiðslugeta orðið allt að tíu til tólf þáttaraðir á ári.

Sú ríka þörf Íslendinga um aldir að segja sögur hefur orðið kveikjan að hundruðum kvikmyndaverka sem mörg eiga stóran sess í hjörtum okkar. Fyrir elju, einurð og sterka sýn þeirra sem starfað hafa að kvikmyndagerð er nú í mótun burðug list- og atvinnugrein sem stenst fyllilega alþjóðlegan samanburð. Velta greinarinnar hefur þrefaldast á áratug og skapað þúsundir starfa. Þá fjölbreyttu flóru þarf að vökva, svo hún blómstri um ókomna tíð, tryggja greininni bestu mögulegu aðstæður til að vaxa og dafna. Með kvikmyndastefnu til ársins 2030 er vörðuð raunsæ en metnaðarfull braut inn í framtíðina.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greini birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. október 2020.

Categories
Greinar

Góður kennari gerir kraftaverk

Deila grein

05/10/2020

Góður kennari gerir kraftaverk

Alþjóðadag­ur kenn­ara er í dag. Fá störf eru jafn sam­fé­lags­lega mik­il­væg og kenn­ara­starfið. Við mun­um öll eft­ir kenn­ur­um sem höfðu mik­il áhrif á okk­ur sem ein­stak­linga, námsval og líðan í skóla.

Góður kenn­ari skipt­ir sköp­um. Góður kenn­ari mót­ar framtíðina. Góður kenn­ari dýpk­ar skiln­ing á mál­efn­um og fær nem­andann til að hugsa af­stætt í leit að lausn­um á viðfangs­efn­um. Góður kenn­ari opn­ar augu nem­enda fyr­ir nýj­um hlut­um, hjálp­ar þeim áfram á beinu braut­inni og stend­ur við bakið á þeim sem þurfa á því að halda. Góður kenn­ari tek­ur upp hansk­ann fyr­ir þá sem minna mega sín og ger­ir krafta­verk í lífi barns. Góður kenn­ari lyft­ir þung­um brún­um og get­ur kallað fram hlátra­sköll. Góður kenn­ari styrk­ir ein­stak­ling­inn.

Skólastarf á tím­um heims­far­ald­urs er ómet­an­legt. Þegar fyrst var mælt fyr­ir um tak­mark­an­ir á skóla­haldi, þann 13. mars, var rík áhersla lögð á mikið og gott sam­ráð við lyk­ilaðila í skóla­sam­fé­lag­inu; Kenn­ara­sam­band Íslands, Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, skóla­meist­ara og rek­tora, og ekki síður nem­end­ur. Það sam­starf hef­ur skilað góðum ár­angri, gagn­kvæm­um skiln­ingi á stöðu ólíkra hópa og sam­tali sem tryggt hef­ur skólastarf í land­inu, á sama tíma og börn í mörg­um öðrum lönd­um hafa þurft að sitja heima.

Nem­end­ur á öll­um skóla­stig­um eru yfir hundrað þúsund tals­ins. Í leik- og grunn­skól­um eru um 64.650 nem­end­ur og 11.450 starfs­menn. Í fram­halds- og há­skól­um eru um 41.000 nem­end­ur. Aðstæður skóla og nem­enda hafa verið ólík­ar í heims­far­aldr­in­um og skoðanir um aðgerðir á hverj­um tíma skipt­ar. All­ir hafa þó lagst á eitt við að tryggja ör­yggi og vel­ferð nem­enda og starfs­fólks og ég dá­ist mjög að þeirri seiglu sem birt­ist í ár­angr­in­um. Það er ómet­an­legt fyr­ir börn að kom­ast í skól­ann sinn, að læra og eiga fast­an punkt í til­veru sem er að hluta til á hvolfi.

Við erum menntaþjóð. Við vilj­um vera sam­fé­lag sem hugs­ar vel um kenn­ara sína, sýn­ir þeim virðingu og þá viður­kenn­ingu sem þeir eiga skilið. Við vilj­um vera sam­fé­lag sem fjár­fest­ir í mennt­un, enda er framúrsk­ar­andi mennt­un ein meg­in­for­senda þess að Ísland verði sam­keppn­is­hæft á alþjóðavett­vangi. Fjár­laga­frum­varpið í ár sýn­ir glögg­lega mik­il­vægi mennt­un­ar og hvernig for­gangsraðað er í þágu þessa.

Aldrei hef ég verið eins stolt af ís­lensku mennta­kerfi og ein­mitt nú, þegar hindr­un­um er rutt úr vegi af fag­mennsku og góðum hug. Kenn­ar­ar og skóla­stjórn­end­ur hafa sýnt mikla yf­ir­veg­un og bar­áttu­vilja. Um­hyggja, sveigj­an­leiki og þraut­seigja hef­ur verið leiðarljósið okk­ar nú í haust og við mun­um halda áfram á þeirri veg­ferð. Ég hvet alla til að halda áfram að vinna að far­sæl­um lausn­um á þeim verk­efn­um sem blasa við okk­ur.

Kæru kenn­ar­ar. Ykk­ar fram­lag í bar­átt­unni við veiruna skæðu verður seint fullþakkað. Takk fyr­ir að halda áfram að kenna börn­un­um okk­ar og leggja ykk­ur fram við að bjóða nem­end­um upp á eins eðli­legt líf og hægt er.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. október 2020.

Categories
Greinar

Spennandi upphaf

Deila grein

01/10/2020

Spennandi upphaf

Þing­setn­ing­ar­dag­ur­inn 1. októ­ber er gleðidag­ur. Hann mark­ar upp­haf sam­starfs á þingi, þar sem öll mál eru sett fram af heil­um hug þing­manna og full­vissu um að málið bæti sam­fé­lagið.

Þings­álykt­un um mennta­stefnu til 2030

Und­an­farið hef­ur mennta­kerfið staðist mikið álag. Við eig­um áfram að sækja fram til að tryggja framúrsk­ar­andi mennt­un á öll­um skóla­stig­um og í haust mun ég kynna til­lögu til þings­álykt­un­ar um mennta­stefnu til árs­ins 2030, þar sem mennt­un lands­manna er í önd­vegi. Stefn­an er afrakst­ur mik­ill­ar sam­vinnu allra helstu hagaðila og þar verður áhersla lögð á fjög­ur mark­mið: jöfn tæki­færi til náms, kennslu í fremstu röð, gæði skóla­starfs­ins og hæfni mennta­kerf­is­ins til framtíðar. Ég hlakka til að tala fyr­ir henni á þingi, enda er mennta­kerfi lyk­ilþátt­ur í sam­keppn­is­hæfni þjóðar­inn­ar.

Auk­in rétt­indi eft­ir iðnnám

Í ljósi breyt­inga í fram­halds­skól­um á liðnum árum er nauðsyn­legt að bæta stöðu þeirra sem hafa lokið öðru prófi en stúd­ents­prófi. Ég vil að gildi loka­prófa taki mið af hæfni og þekk­ingu nem­enda, en ekki að eitt sé sjálf­krafa æðra öðru, og mun mæla fyr­ir laga­breyt­ingu í þá veru. Með henni vil ég ýta und­ir að nem­end­ur fái notið þeirr­ar hæfni, þekk­ing­ar og færni sem þeir hafa öðlast með ólík­um loka­próf­um frá mis­mun­andi fram­halds­skól­um. Mik­il­vægt er að vægi ein­inga verði gegn­sætt og end­ur­spegli til­tek­inn mæli­kv­arða, svo náms­lok frá fram­halds­skóla verði met­in með sam­bæri­leg­um hætti við inn­rit­un í há­skóla.

Álykt­un um menn­ing­ar­stefnu til 2030

Und­ir­bún­ing­ur að gerð menn­ing­ar­stefnu til árs­ins 2030 er í full­um gangi. Ég vona að hún verði hvatn­ing og inn­blást­ur til þeirra fjöl­mörgu sem vinna á sviði ís­lenskr­ar menn­ing­ar til að halda áfram sínu góða starfi. Menn­ing skap­ar sam­fé­lag, ger­ir okk­ur mennsk, og er því ómet­an­leg. Okk­ur ber að rækta menn­ing­una, setja markið hátt og ná ár­angri. Stefn­an á að nýt­ast stjórn­völd­um í allri umræðu um menn­ing­ar­mál, stefnu­mót­un á af­mörkuðum sviðum og ákv­arðana­töku.

Sterk­ir fjöl­miðlar

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar eru fyr­ir­heit um bætt rekstr­ar­um­hverfi einka­rek­inna fjöl­miðla. Því verki er ekki lokið og því mun ég leggja fram fjöl­miðlafrum­varpið svo­kallaða í þriðja sinn. Ég vænti þess að samstaða ná­ist um frum­varpið, enda hef­ur málið lengi verið á döf­inni og þörf­in brýn. Reynsl­an af Covid-19-stuðningi við fjöl­miðla á þessu ári sýn­ir líka að hægt er að út­færa stuðning af þessu tagi á sann­gjarn­an hátt. Fjöl­miðlar gegna mik­il­vægu hlut­verki við að efla sam­fé­lags­lega umræðu. Stuðning­ur ger­ir fjöl­miðlum kleift að efla rit­stjórn­ir sín­ar, vera vett­vang­ur skoðana­skipta og tján­ing­ar­frels­is og rækja hlut­verk sitt sem einn af horn­stein­um lýðræðis­ins.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. október 2020.

Categories
Greinar

Öflug byggða­stefna

Deila grein

30/09/2020

Öflug byggða­stefna

Það er á­nægju­legt að sjá og meta fram­gang byggða­á­ætlunar það sem af er og ég tel að vel hafi tekist til bæði við fram­kvæmd og fyrir­komu­lag á­ætlunarinnar. Vel hefur gengið að sam­þætta byggða­sjónar­mið við aðrar stefnur og á­ætlanir ríkis og sveitar­fé­laga: byggða­gler­augun eru nú sett upp á f leiri stöðum en áður hefur verið. Vissu­lega mætti vera meira fjár­magn úr að spila en það fé sem til ráð­stöfunar er hefur verið vel nýtt.

Einnig hefur tekist vel til við að virkja marga aðila þvert á hrepps­mörk, stjórn­sýslu­stig og mála­flokka, og sveitar­stjórnar­stigið er mun betur tengt við fram­kvæmd byggða­á­ætlunar en áður. Það var hár­rétt á­kvörðun að sam­þætta byggða- og sveitar­stjórnar­mál undir einum ráð­herra. Þegar horft er yfir sviðið og farinn veg tel ég full­ljóst að sveitar­stjórnar- og byggða­mál verði ekki að­skilin héðan í frá.

Loft­brúin (Skoska leiðin) er ein mikil­vægasta byggða- og sam­göngu­að­gerð síðari ára. Loft­brúin veitir 40% af­slátt af heildar­far­gjaldi fyrir allt að sex flug­leggi á ári og er mark­miðið að bæta að­gengi íbúa á lands­byggðinni sem búa fjarri höfuð­borginni að mið­lægri þjónustu. Ljóst er að hér er um mikið rétt­lætis­mál að ræða fyrir þá sem búa fjarri höfuð­borginni og bæði vilja og þurfa að sækja þjónustu þangað. Það er því sér­stak­lega á­nægju­legt að Loft­brúin sé nú orðin að veru­leika og komin til fram­kvæmda.

Í byrjun sumars hélt byggða­mála­ráð góðan um­ræðu­fund um endur­skoðun byggða­á­ætlunar, hvar við stöndum og hvert beri að stefna til fram­tíðar. Það var mjög gott að fá yfir­lit yfir byggða­stefnu og að­gerðir á Norður­löndunum. Við endur­skoðun byggða­á­ætlunar er mikil­vægt að skoða sér­stak­lega hvaða að­gerðir eru að skila árangri og byggja á­fram á þeim verk­efnum sem hafa þótt reynast vel.

Um leið er ljóst að sveitar­stjórnar­fólk um land allt lætur sig byggða­mál varða og það þurfum við líka að gera hér á höfuð­borgar­svæðinu. Byggða­stefna á að ná til landsins alls, en ekki bara til veikustu byggðar­laganna eins og áður var. Það er mikil­vægt fyrir okkur sem munum nú bera á­byrgð á því fyrir hönd ráð­herra og ríkis­stjórnar að endur­skoða byggða­á­ætlun og tryggja að hún verði það verk­færi sem byggðir landsins hafa þörf fyrir.

Við höfum úr miklu að moða og höldum glöð til móts við verk­efnið. Að lokum vil ég hvetja alla lands­menn, nær og fjær, til að taka þátt í því opna sam­ráðs­ferli sem nú stendur yfir. Mótum saman nýja og öfluga byggða­stefnu fyrir landið.

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður byggðamálaráðs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 30. september 2020.