Categories
Greinar

Friðhelgi Dynjandisheiðar rofin

Deila grein

07/09/2020

Friðhelgi Dynjandisheiðar rofin

Í haust verða göng milli Dýra­fjarðar og Arn­ar­fjarðar vígð. Þar eygj­um við gríðarlega sam­göngu­bót á Vest­fjörðum. Heils­árs­sam­göng­ur milli norður- og suður­svæðis eru að verða að veru­leika. Vega­gerðin hef­ur boðið út tvo fyrstu kafl­ana í end­ur­nýj­un veg­ar­ins um Dynj­and­is­heiði, sam­tals um tíu kíló­metra langa. Veg­ur var lagður yfir heiðina fyr­ir 61 ári og hef­ur það verið þrek­virki á sín­um tíma, veg­ur­inn hef­ur líka notið friðhelgi síðan. Það má líka kalla það þrek­virki Vest­f­irðinga að mega bíða eft­ir sam­göngu­bót­um á þessu svæði í svo lang­an tíma, svo ekki sé talað um sam­göngu­bæt­ur á suður­fjörðum og suður í Dali. Dynj­and­is­heiðin er löng en frem­ur snjólétt miðað við vest­firsk­ar heiðar og með bætt­um vegi ætti ekki að vera erfitt að þjón­usta heiðina yfir vetr­ar­tím­ann á vest­firsk­an mæli­kv­arða.

Nú hef­ur Vega­gerðin sett í útboð 10 km kafla á Dynj­and­is­heiðinni sem eru tveir kafl­ar við heiðarsporð hvor­um meg­in; ann­ars veg­ar fyr­ir Meðal­nesið og svo upp frá Vatns­firði upp á heiðina að sunn­an­verðu. Verk­in hæf­ust í haust og ætti að vera lokið fyr­ir lok næsta árs og verður unnið svo áfram með upp­bygg­ingu heiðar­inn­ar sem skipu­lag og hönn­un veg­ar­ins leyf­ir. Hver áfangi er mik­il­væg­ur og þótt við vild­um sjá hraðari fram­vindu þá er verkið hafið og það er fyr­ir mestu. Upp­bygg­ing veg­ar­ins bæt­ir einnig aðstæður til vetr­arþjón­ustu og því mik­il­vægt að leiðinni frá heiðinni niður Arn­ar­fjörðinn til Bíldu­dals verði hraðað enda mikl­ir flutn­ing­ar frá Bíldu­dal og suður vegna fisk­eld­is­ins.

Vetr­arþjón­usta fimm daga vik­unn­ar

Vetr­arþjón­usta á Dynj­and­is­heiði hef­ur fylgt G-reglu Vega­gerðar­inn­ar. Þessi regla end­ur­spegl­ar þá órjúf­an­legu leið sem þær syst­ur Dynj­and­is- og Hrafns­eyr­ar­heiðar byggðu. Aðstæður á Hrafns­eyr­ar­heiðinni hafa stýrt þess­ari reglu, eðli­lega. Nú skil­ur leiðir þess­ara fjall­vega og hinn erfiði fjall­veg­ur yfir Hrafns­eyr­ar­heiðina verður ekki til staðar eft­ir opn­un ganga. Vega­gerðin hef­ur þegar ráðgert að halda uppi þjón­ustu fimm daga vik­unn­ar í vet­ur eins og mögu­legt er. Vetr­arþjón­usta er nauðsyn­leg og auka þarf þjón­ust­una strax til að fá reynslu af því hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni. Öryggi veg­far­enda er höfð að leiðarljósi við fram­kvæmd­ir og þjón­ustu á veg­um lands­ins, því er góð vetr­arþjón­usta lyk­il­atriði fyr­ir þá sam­fé­lags­mynd sem rík­ir.

Halla Signý Kristjásdóttir, alþingismaður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2020.

Categories
Greinar

Byltingar­kennd lausn

Deila grein

04/09/2020

Byltingar­kennd lausn

Alþingi hefur samþykkt frumvarp um hlutdeildarlán, þau eru byltingarkennd lausn á húsnæðismarkaði og kemur til móts við ungt fólk og tekjulága. Markmiðið með lögunum er að auðvelda þessum hópi að eignast sína fyrstu íbúð. Húsnæðismál hafa verið eitt af helstu áherslumálum Framsóknarflokksins í gegnum tíðina, áhersla flokksins hefur verið að allir eigi rétt á að eignast tryggt heimili óháð fjárhagsstöðu. Það eru sjálfsögð mannréttindi og hluti af grunnþörfum einstaklinga og fjölskyldna að eiga öruggt þak yfir höfuðið. Í langan tíma hefur ungt fólk átt í erfiðleikum með að eignast heimili og fjölskyldur sem misstu húsnæðið sitt í hruninu hafa verið fastar á leigumarkaði.

Með hlutdeildarlánum veitir ríkið 20% viðbótarlán fyrir húsnæðiskaup sem endurgreitt er við sölu eignarinnar, kaupandi þarf aðeins að leggja út eigið fé sem nemur að lágmarki 5%. Með þessu er verið að brúa bil á milli lána sem veitt eru af fjármálafyrirtækjum eða lífeyrissjóðum og kaupverðs. Nú er því komin raunverulegur möguleiki fyrir tekjulága fyrstu kaupendur að eignast húsnæði. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum heldur fylgja þau fasteigninni og endurgreiðast við sölu eða 25 árum frá lántöku, er þá miðið við sama hlutfall af verðmæti eignarinnar og upphafleg lánveiting hljóðaði uppá.

Með hlutdeildarlánum er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitt heimild til að veita lán til fyrstu kaupenda og kaupenda sem ekki hafa átt fasteign síðastliðin fimm ár og hafa tekjur undir 7.560.000 kr. á ári miðað við einstakling eða 10.560.000 kr. samanlagt fyrir hjón á ári miðað við síðastliðna 12 mánuði. Við þá fjárhæð bætast 1.560.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni fram að 20 ára sem býr á heimilinu. Aðeins er lánað fyrir nýjum íbúðum en heimilað verður að veita hlutdeildarlán til kaupa á hagkvæmum íbúðum í eldra húsnæði utan höfuðborgarsvæðisins sem hlotið hefur gagngerar endurbætur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúðar. Með þessari leið skapast aukin hvati til þess að byggja hagkvæmar og góðar íbúðir sem henta fyrir þennan hóp. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun telur þessa leið ekki þess valdandi að lækka húsnæðisverð þar sem áætlað er að um fjórum milljörðum króna verði varið árlega við kaup á fjögur til fimmhundruð íbúðum.

Í alltof langan tíma hafa tekjulágir setið eftir læstir inni í viðjum oft og tíðum ósanngjarns leigumarkaðar og ekki átt möguleika á að koma sér upp eigin húsnæði fyrir. Við hljótum öll að fagna því að þessi hópur hefur nú raunverulegan möguleika á að koma sér upp húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Til hamingju Ísland áfram veginn.

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og formaður Þingflokks Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. september 2020.

Categories
Greinar

Hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd

Deila grein

03/09/2020

Hlutdeildarlán að skoskri fyrirmynd

Frum­varp félags- og barna­mála­ráð­herra um hlut­deild­ar­lán hefur legið til sam­þykktar þessa dag­ana á Alþingi í þing­stubbi. Um er að ræða nýjan lána­flokk til kaupa á hús­næði. Hlut­deild­ar­lánin eru teg­und lána sem veitt eru með þeim skil­málum að lánað er til til­tek­ins hlut­falls af verði íbúð­ar­hús­næðis við fast­eigna­kaup.

Þetta frum­varp er í sam­ræmi við stjórn­ar­sátt­mála rík­is­stjórn­ar­innar og lífs­kjara­samn­inga á almennum vinnu­mark­aði frá liðnu ári. Hlut­deild­ar­lán­unum er ætlað að bæta stöðu ungra sem og tekju­lágra ein­stak­linga á hús­næð­is­mark­aði að upp­fylltum ákveðnum skil­yrð­um. Þannig getur þessi mark­hópur brúað kröfur um eigið fé til íbúð­ar­kaupa. 

Einnig ættu þau að nýt­ast þeim sem hafa misst hús­næðið sitt og hafa ekki verið í eigin hús­næði í a.m.k. fimm ár. Hlut­deild­ar­lánin skapa einnig auk­inn hvata fyrir bygg­ing­ar­að­ila til að byggja hag­kvæmt íbúð­ar­hús­næði sem hentar tekju­lægri hópum sam­fé­lags­ins.

Hafa gefið góða raun

Hug­myndin að hlut­deild­ar­lánum er fengin frá Skotlandi, en þar hafa þau gefið góða raun og leitt til auk­ins fram­boðs af hag­kvæmu hús­næði. Reynsla Skota sýnir einnig að upp­bygg­ing hefur auk­ist í dreif­býl­inu, sem væri jákvæð þróun í rétta átt hér á landi. Það er tölu­vert dýr­ara að festa kaup í nýbygg­ingum úti á landi í stað eldra hús­næðis á sama svæði, enda ríkir mark­aðs­brestur á fast­eigna­mark­aði úti á landi.

Með því að beina hlut­deild­ar­lánum að hag­kvæmum nýbygg­ing­um, skap­ast auk­inn hvati til þess að byggja í hinum dreifðu byggð­um.

Sveigj­an­leik­inn í fyr­ir­rúmi

Gagn­rýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjár­mála­stofn­anir hafa verið tregar til að lána fyrir íbúð­ar­kaupum á köldum svæð­um. Önnur úrræði sem félags- og barna­mála­ráð­herra hefur ráð­ist í á lands­byggð­inni svara þeirri gagn­rýni mál­efna­lega. Sér­stakur lána­flokkur hjá Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un, bæði til íbúð­ar­kaupa og fram­kvæmda, hefur nú þegar nýst í Blöndu­ós­bæ, Dala­byggð, Akur­eyr­ar­bæ, Norð­ur­þingi, Súð­ar­vík­ur­hreppi, Borg­ar­byggð, Árborg og Ísa­fjarð­ar­bæ. Fjöldi ann­arra slíkra verk­efna eru í píp­un­um.

Und­ir­rituð hefur verið fram­sögu­maður máls­ins í vel­ferð­ar­nefnd Alþing­is, og hefur málið tekið jákvæðum breyt­ingum í umfjöllun nefnd­ar­inn­ar. Má þar m.a. nefna veit­ingu hlut­deild­ar­lána til kaupa á hag­kvæmum íbúðum í eldra hús­næði á lands­byggð­inni ásamt hús­næðis sem hefur verið breytt í íbúðir sem áður hýsti atvinnu­starf­semi og hlotið hefur gagn­gerar end­ur­bæt­ur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúð­ar. Auk þess hefur verið fallið frá því að leggja vexti á hlut­deild­ar­lánin á láns­tím­anum en hlut­deildin héldi sér á fast­eigna­verði hús­næð­is­ins.

Það er ljóst að ekki gilda sömu við­mið um fast­eign­ar­markað á stór-höf­uð­borg­ar­svæð­inu og á köldum svæð­um. Sveigj­an­leiki í kerf­inu verður að vera til staðar til að koma til móts við sér­stakar aðstæður þar. Lyk­ill­inn að góðri nið­ur­stöðu í hús­næð­is­málum er sam­vinna milli Hús­næð­is- og mann­virkja­stofn­un­ar, sveit­ar­fé­laga, bygg­ing­ar­fyr­ir­tækja og fjár­mála­stofn­ana. Með góðu sam­tali næst við­un­andi jafn­vægi milli eft­ir­spurnar og fram­boðs á hús­næð­is­mark­aði og á sama tíma eykur það mögu­leika tekju­lágra að eign­ast eigið hús­næði.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingis­maður Fram­sókn­ar­ í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 3. september 2020.

Categories
Greinar

Vegabréf til framtíðar

Deila grein

03/09/2020

Vegabréf til framtíðar

Það er mark­mið mitt að tryggja börn­um hér á landi mennt­un sem stenst alþjóðleg­an sam­an­b­urð. Það er skylda stjórn­valda að rýna vel mæl­ing­ar og bregðast við, ef aðrar þjóðir búa sín börn bet­ur und­ir framtíðina.

Náms­fram­vinda ræðst af ýms­um þátt­um. Góður námsorðaforði og hug­taka­skiln­ing­ur, álykt­un­ar­hæfni, færni í rök­hugs­un, ánægja af lestri og fjöl­breytni les­efn­is vega mjög þungt í því að nem­end­ur nái tök­um á náms­efn­inu. Til að skilja vel og til­einka sér inni­hald náms­efn­is án aðstoðar þarf nem­andi að þekkja 98% orða í texta. Ef hlut­fallið lækk­ar í 95% þurfa flest­ir nem­end­ur aðstoð, t.d. hjálp frá kenn­ara, sam­nem­end­um eða úr orðabók­um.

Alþjóðleg­ar sam­an­b­urðar­rann­sókn­ir hafa leitt í ljós að ís­lensk­ir nem­end­ur virðast ekki hafa sömu færni og nem­end­ur ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um hvort sem litið er til lesskiln­ings, stærðfræði eða nátt­úru­læsis. Það kall­ar á menntaum­bæt­ur sem fel­ast meðal ann­ars í því að rýna nám­skrár, náms­gögn og viðmiðun­ar­stunda­skrár. Slík rýni hef­ur meðal ann­ars leitt í ljós, að móður­máls­tím­ar á miðstigi í Svíþjóð eru 35% fleiri en á Íslandi. M.a. þess vegna stend­ur nú til að auka vægi móður­máls­kennslu hér­lend­is. Mark­miðið með því er ekki að fjölga mál­fræðitím­um á kostnað skap­andi náms­greina, held­ur skapa kenn­ur­um svig­rúm til að vinna með tungu­málið á skap­andi og skemmti­leg­an hátt. Þeim treysti ég full­kom­lega til að nýta svig­rúmið vel, svo námsorðaforði ís­lenskra skóla­barna og lesskiln­ing­ur auk­ist. Það er for­senda alls náms og skap­andi hugs­un­ar, enda er gott tungu­tak nauðsyn­legt öll­um sem vilja koma hug­mynd­um sín­um í orð. Með auk­inni áherslu á móður­máls­notk­un er því verið að horfa til framtíðar.

Á und­an­förn­um þrem­ur árum hafa stoðir mennta­kerf­is­ins verið styrkt­ar með ýms­um hætti. Ný lög um mennt­un og hæfi kenn­ara og skóla­stjórn­enda hafa orðið að veru­leika og við höf­um ráðist í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að fjölga kenn­ur­um. Við höf­um stutt við út­gáfu bóka á ís­lensku með mjög góðum ár­angri, þar sem aukn­ing­in hef­ur verið mest í flokki barna- og ung­menna­bóka. Þá samþykkti Alþingi þings­álykt­un um efl­ingu ís­lensk­unn­ar, sem fel­ur í sér 10 aðgerðir sem snúa að um­bót­um í mennta­kerf­inu. Marg­ar eru þegar komn­ar í fram­kvæmd og ég er sann­ar­lega vongóð um góðan afrakst­ur.

Íslenskt skóla­kerfi er til fyr­ir­mynd­ar og hef­ur unnið þrek­virki á tím­um kór­ónu­veirunn­ar. Mik­ill metnaður ein­kenn­ir allt skólastarf og vilj­um við stuðla að frek­ari gæðum þess. Mark­mið stjórn­valda er að veita framúrsk­ar­andi mennt­un með áherslu á þekk­ingu, vellíðan og þraut­seigju. All­ir nem­end­ur skipta máli og ég hef þá trú að all­ir geti lært. Góð mennt­un er helsta hreyfiafl sam­tím­ans og hún er verðmæt­asta vega­bréf barn­anna okk­ar inn í framtíðina.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Categories
Greinar

Spennandi atvinnuverkefni við Njarðvíkurhöfn

Deila grein

31/08/2020

Spennandi atvinnuverkefni við Njarðvíkurhöfn

Við sem búum á Suðurnesjum vitum að hér eru mörg tækifæri fyrir öflugt og skapandi fólk. Hér eru tækifærin.

Nú blasir við okkur afar spennandi tækifæri hvað varðar atvinnuuppbyggingu, það er bygging skipaþjónustuklasa við Njarðvíkurhöfn. Byggja þarf skjólgarð við höfnina svo að þurrkvíin geti orðið að veruleika. Verkefnið getur umbylt aðstöðu til þjónustu við íslenskan og erlendan skipaflota og skapað tugi nýrra starfa hér á svæðinu.

Frumkvæði stjórnenda til fyrirmyndar

Stjórnendur Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og Reykjaneshafnar eiga heiður skilinn fyrir að hafa tekið frumkvæðið og lagt í umfangsmikinn undirbúning svo að þessi uppbygging í kringum Njarðvíkurhöfn geti orðið að veruleika. Reykjanesbær styður verkefnið og hafa ofangreindir aðilar undirritað viljayfirlýsingu um á uppbygginu hafnar- og upptökumannvirkja í Njarðvík.

Eftirspurn eftir þjónustunni er til staðar

Þjónustuklasinn mun leggja áherslu á þjónustu við skip á norðurslóðum, íslensk sem erlend, til viðhalds, breytinga og endurnýjunar. Auknar kröfur um betri  mengunarvarnir í skipum, skipti yfir í vistvæna orku og lækkun orkukostnaðar, skapa ný tækifæri á þessu sviði. Þjónustuklasinn getur tiltölulega fljótt skapað á annað hundrað störf og samfélaginu umtalsverðar tekjur til framtíðar. Bein vinna í hinni nýju kví kallar á 70–80 heilsársstörf auk óbeinna starfa. Varlega áætlað er gert ráð fyrir að verkefni fyrst um sinn tengd kvínni skapi þannig um 120 störf. Ekki er óraunhæft að ætla að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingar-klasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250–350 bein og óbein störf.

Stuðningur ríkisvaldsins nauðsynlegur

Forsenda þessa verkefnis er að Reykjaneshöfn geri nýjan skjólgarð í Njarðvíkurhöfn sem mun umbreyta allri hafnaraðstöðu þar og skapa möguleika fyrir byggingu kvíarinnar. Til þess að sú forsenda gangi eftir þarf Reykjaneshöfn mögulega að forgangsraða sínum verkefnum í þágu skjólgarðsins.

Nú þegar Skipasmíðastöðin í samstarfi við Reykjaneshöfn og Reykjanesbæ hafa sýnt vilja í verki og farið í mikla undirbúningvinnu og rannsóknir, og átt samtöl við fjárfesta, þá sé ég ekki annað en þingmenn muni styðja fjármögnun skjólgarðsins sem öllum ráðum. Við verðum að finna leiðir til að koma þessu verkefni af stað. Með því munu skapast tugir og hundruðir nýrra starfa. Við Suðurnesjafólk þurfum á þeim að halda.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á vf.is 29. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Samvinna er lykillinn að árangri

Deila grein

31/08/2020

Samvinna er lykillinn að árangri

„Það sem gerist er að það verður þessi gríðarlega samvinna og samskipti. Okkar fremstu vísindamenn á alþjóðavísu og fyrirtæki á þessum markaði fara að deila upplýsingum. Þetta er einstakt – sigur fyrir mannkynið, ef ég má orða það sem svo,“ var haft eftir Birni Rúnari Lúðvíkssyni, yfirlækni ónæmisdeildar Landspítalans í frétt Vísis í síðustu viku. Það viðhorf er orðið ríkjandi að samvinnan og samskiptin muni leiða okkur út úr þessu ástandi sem ríkir í heiminum um þessar mundir. Þetta er viðhorf sem er inngróið í stefnu Framsóknar enda hefur flokkurinn í gegnum tíðina verið boðberi samvinnunnar sem leysir úr læðingi helstu framfaramál í sögu þjóðarinnar.

Leiðin til eðlilegs lífs

Þegar þessi orð eru rituð stöndum við enn í ströngu við að koma í veg fyrir vöxt veirunnar á Íslandi eftir að hafa lifað tiltölulega eðlilegu lífi framan af sumri. Barátta okkar gegn veirunni hafði gengið vel en eins og sóttvarnarlæknir hefur ítrekað í máli sínu frá upphafi faraldursins verðum við að læra að lifa með veirunni í mánuði eða ár áður en við getum aftur snúið til eðlilegs lífs.

Hagur heimilanna

Veiran hefur haft áhrif á líf okkar allra. Ríkisstjórnin hefur auk baráttunnar við heilbrigðisvána komið fram með umfangsmiklar aðgerðir til að milda efnahagslegt högg á fjölskyldur og fyrirtæki. Þær aðgerðir hafa verið mikilvægar en áfram verður unnið að frekari viðbrögðum til að vernda hag heimilanna, til þess að skapa ný störf og auka verðmætasköpun svo samfélagið nái sínum fyrri styrk.

Uppgangur öfga

Á síðustu misserum höfum við upplifað uppgang öfga í heiminum og við förum ekki varhluta af því hér á Íslandi. Leiðtogar stjórnmálaafla hafa sumir stigið fram með lýðskrumið að vopni og höggvið skörð í samfélagið til þess eins að ná aukinni áheyrn og með það að markmiði að öðlast meiri völd. Það gera þeir með því að etja hópum gegn hver öðrum, skapa óánægju og fylla fólk þannig vanmætti. Það er öndvert við það sem ég trúi að stjórnmál eigi að gera því ég lít á stjórnmál sem tæki til að efla fólk og samfélög og til að búa til betri og hamingjuríkari heim.

Samvinnuleiðin í stjórnmálum

Öfgar til hægri og vinstri eru okkur vel kunn í samtímasögunni og hafa þær ekki fært okkur betri samfélög. Það hefur hins vegar samvinnan gert. Ef við lítum yfir sögu Íslands sem lýðveldisins sjáum við að stjórn landsins hefur verið í höndum samsteypustjórna og þar hefur Framsókn oftar en ekki verið þátttakandi. Þessi samvinnuleið í íslenskum stjórnmálum hefur getið af sér samfélag sem ætíð er ofarlega ef ekki efst á listum þjóða sem þykja skara fram úr þegar kemur að almennum lífsgæðum í heiminum. Þau stjórnmálaöfl sem við sjáum nú yst til hægri og yst til vinstri bjóða engum til samtals heldur miða að því að níða skóinn af öðrum, oft með því að hafa uppi stór orð um svik, prinsippleysi og jafnvel landráð ef það yljar eigin sjálfsmynd þá stundina.

Skynsemin sigrar alltaf að lokum

Yfirlýsingar sem eingöngu er ætlað að ögra og etja fólki saman eru að sönnu ekki mikils virði en þær eru eyðileggjandi. Segja má að öfgarnar næri hvor aðra en leiði aldrei til niðurstöðu því það eru aðrar og skynsamari stjórnmálahreyfingar sem leiða fólk saman og hreyfa samfélagið til betra horfs.

Samtal, samvinna: framfarir

Á síðasta degi þingsins voru samþykkt lög og þingsályktanir sem gera fjárfestingu í samgöngum upp á 900 milljarða króna mögulega. Í þeim pakka var, auk fjölmargra brýnna verkefna um allt land, samgöngusáttmáli um uppbygginu á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að algjör stöðnun hefur ríkt í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár og áratugi. Það var eitt af helstu markmiðum mínum þegar ég settist í stól samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að stórauka samgönguframkvæmdir og þar með talið að höggva á þann hnút sem hefur verið í samskiptum ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Með markvissu samtali og samráði tókst það og íbúar höfuðborgarsvæðisins sjá fram á bjartari tíma í samgöngum og á það jafnt við um þá sem nota fjölskyldubílinn, almenningssamgöngur eða eru gangandi og hjólandi.

Sundrað samfélag er veikt samfélag

Stjórnmál verða alltaf samvinna og samkomulag nema við viljum búa í sundruðu samfélagi. Þeir sem mest níða niður stjórnmálin virðast líta svo á að málamiðlanir milli ólíkra sjónarmiða séu óásættanlegar og að öll samvinna sé svik. Þegar þessar raddir verða ráðandi í umræðunni, hjá fjölmiðlum og álitsgjöfum, þá eykst krafan um enginn flokkur gefi neitt eftir og þá verður ekkert samtal, engin samvinna og þar af leiðandi engin framþróun; bara stöðnun, tortryggni og ófullnægja allra. Allra nema þeirra sem njóta þess að segja að allir séu prinsipplausir; allir nema þeir sjálfir.

Heimsfaraldurinn getur leitt til sundrungar og átaka en líkt og þegar kemur að því að ráða niðurlögum veirunnar sjálfrar þá þurfum við samvinnu til að byggja upp sterkara samfélag. Framsókn mun hér eftir sem hingað til vinna að sátt um framþróun samfélagsins. Sú sátt verður ekki til með öfgum til hægri eða vinstri. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Menntun fyrir alla

Deila grein

25/08/2020

Menntun fyrir alla

Fyrsti skóla­dag­ur vetr­ar­ins mark­ar nýtt upp­haf. Vet­ur­inn sem leið ein­kennd­ist af viljaþreki og sam­hug þeirra sem bera ábyrgð á skóla­starfi. Mennta­kerfið bar ár­ang­ur sem erfiði, og það tókst að út­skrifa alla ár­ganga í vor. Ég er full­viss um að það sem meðal ann­ars tryggði góðan ár­ang­ur síðasta vet­ur var sam­ráð og gott upp­lýs­ingaflæði. Á ann­an tug sam­ráðsfunda voru haldn­ir með lyk­ilaðilum mennta­kerf­is­ins, all­ir sýndu mikla ábyrgð og lögðu hart að sér við að tak­ast á við áskor­an­ir með fag­leg­um hætti.

Það er mik­il­vægt að halda áfram góðu sam­ráði til að tryggja ár­ang­ur. Fyr­ir helgi skrifuðu full­trú­ar lyk­ilaðila í starf­semi grunn­skól­anna und­ir sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu um leiðarljós skól­anna. Þar lof­um við að gera allt hvað við get­um til að tryggja áfram skólastarf með um­hyggju, sveigj­an­leika og þraut­seigju að leiðarljósi.

Mark­miðið er að tryggja mennt­un en ekki síður ör­yggi. Því voru gefn­ar út leiðbein­ing­ar til skóla og fræðsluaðila, með það að mark­miði að auðvelda skipu­lagn­ingu skóla­starfs og sam­eig­in­leg­an skiln­ing á regl­um sem gilda. Með þeim er ít­rekuð sú ábyrgð sem hvíl­ir nú á skól­um og fræðsluaðilum; eft­ir­fylgni við sótt­varn­a­regl­ur með ör­yggi og vel­ferð nem­enda, kenn­ara og starfs­fólks að leiðarljósi. Ábyrgð sem hvíl­ir á fram­halds- og há­skóla­nem­end­um er ekki síður mik­il. Ein­stak­lings­bundn­ar sótt­varn­ir vega þungt í bar­átt­unni og jafn­framt þurf­um við að sýna hvert öðru til­lits­semi og virðingu.

Vissu­lega urðu trufl­an­ir á skóla­starfi í vet­ur. Áskor­an­ir mæta okk­ur á nýju skóla­ári en munu þó ekki slá tón­inn fyr­ir kom­andi vet­ur. Reynsl­unni rík­ari ætl­um við að láta skóla­starfið ganga eins vel og hægt er. Vellíðan nem­enda, fé­lags­leg virkni og vel­ferð þeirra til lengri tíma er efst á for­gangslista sam­fé­lags­ins. Víða um heim hafa börn ekki kom­ist í skóla í hálft ár og marg­ir ótt­ast var­an­leg áhrif á sam­fé­lög. Því er það sett í for­gang á Íslandi að hlúa að vel­ferð nem­enda. Sam­kvæmt samn­ingi Sam­einuðu þjóðanna um rétt­indi barns­ins eiga öll börn rétt á mennt­un.

Ljóst er að ís­lenska mennta­kerfið vann af­rek síðastliðinn vet­ur; skól­ar héld­ust opn­ir og nem­end­ur náðu flest­ir sín­um mark­miðum. Nú höf­um við öll eitt sam­eig­in­legt mark­mið; að standa vörð um skóla­kerfið okk­ar og sækja fram til að tryggja framúrsk­ar­andi mennt­un á öll­um skóla­stig­um. Kynnt verður til­laga til þings­álykt­un­ar um mennta­stefnu til árs­ins 2030 á haustþingi, þar sem mennt­un lands­manna er í önd­vegi. Mennta­stefn­an er afrakst­ur mik­ill­ar sam­vinnu allra helstu hagaðila. Það er til­hlökk­un að kynna hana og ég full­yrði að öfl­ugt mennta­kerfi mun vera lyk­ilþátt­ur í því að efla sam­keppn­is­hæfni þjóðar­inn­ar. Til að mennta­kerfið sé öfl­ugt, þarf það að vera fjöl­breytt og hafa í boði nám við hæfi hvers og eins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Menntakerfið sett í forgang í samfélaginu

Deila grein

24/08/2020

Menntakerfið sett í forgang í samfélaginu

Góð mennt­un er grund­völl­ur vel­sæld­ar þjóða. Á mánu­dag geng­ur nýtt skóla­ár í garð og metaðsókn er í nám. Það er þjóðhags­lega mik­il­vægt að skól­arn­ir komi sterk­ir inn í haustið. Um all­an heim eru skól­ar ekki að opna með hefðbundn­um hætti í haust, og í sum­um lönd­um hafa börn ekki farið í skól­ann síðan í fe­brú­ar. Skaðinn sem hlýst af því til lengri tíma er ómet­an­leg­ur.

Enn er með öllu óvíst hvenær far­ald­ur­inn geng­ur yfir. Nú, þegar við erum stödd í ann­arri bylgju far­ald­urs­ins hafa stjórn­völd skerpt aft­ur á sótt­vörn­um og hert aðgerðir. Ef­laust eru það von­brigði í huga margra en reynsl­an sýn­ir okk­ur að sam­taka náum við mikl­um ár­angri. Í vet­ur tók­um við hönd­um sam­an til að tryggja mennt­un og vel­ferð nem­enda. Og það tókst! All­ir ár­gang­ar náðu að út­skrif­ast í vor og Ísland var eitt af fáum ríkj­um í heim­in­um sem hélt skól­um opn­um á meðan far­ald­ur­inn stóð sem hæst.

Sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing: Um­hyggja, sveigj­an­leiki og þraut­seigja

Rétt viðbrögð ráða mestu um áhrif áfalla. Við sjá­um fram á ann­an skóla­vet­ur þar sem veir­an mun hafa áhrif á skólastarf. Því hef­ur um­fangs­mikið sam­ráð átt sér stað á síðustu vik­um. Kenn­ara­for­yst­an, á annað hundrað skóla­stjórn­end­ur, kenn­ar­ar og sér­fræðing­ar hafa fjar­fundað með mér og sótt­varn­ar­yf­ir­völd­um. Á fund­un­um var rætt um skipu­lag fram­halds- og há­skóla­starfs í upp­hafi nýs skóla­árs en einnig hvernig skól­ar geta upp­fyllt skyld­ur sín­ar gagn­vart nem­end­um, í sam­ræmi við sótt­varn­a­regl­ur.

Fram­halds- og há­skól­ar eru þegar byrjaðir að skipu­leggja starf sitt og blanda sam­an fjar- og staðkennslu. Fjöl­marg­ir munu leggja áherslu á að taka vel á móti ný­nem­um, enda er mik­il­vægt að ný­nem­ar geti kynnst og lært inn á nýja skóla og náms­kerfi. All­ir eru sam­stiga í því að nú sé tæki­færi fyr­ir skóla og kenn­ara að efla sig í tækn­inni og auka þekk­ingu og gæði fjar­kennslu.

Ég fann strax mikla sam­stöðu og vilja hjá öll­um sem tengj­ast mennta­kerf­inu að standa sam­an í þessu verk­efni. Því ákváðum við, Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, Kenn­ara­sam­band Íslands og Fé­lag fræðslu­stjóra og stjórn­enda skóla­skrif­stofa, að gefa út sam­eig­in­lega yf­ir­lýs­ingu um skóla­starfi á tím­um kór­ónu­veirunn­ar. Um­hyggja, sveigj­an­leiki og þraut­seigja verða leiðarljósið okk­ar í haust. Við telj­um mik­il­vægt að all­ir nem­end­ur njóti mennt­un­ar óháð fé­lags- og menn­ing­ar­leg­um bak­grunni og þarf sér­stak­lega að huga að nem­end­um í viðkvæmri náms­stöðu, nýj­um nem­end­um og fram­kvæmd kennslu í list- og verk­grein­um.

Leiðbein­ing­ar: Fram­halds- og há­skól­ar

Mark­mið okk­ar allra er að tryggja mennt­un en ekki síður ör­yggi og vel­ferð nem­enda, kenn­ara og starfs­fólks skól­anna. Það var því einnig ákveðið að gefa út leiðbein­ing­ar til skóla og fræðsluaðila, með það að mark­miði að auðvelda skipu­lagn­ingu skóla­starfs og sam­eig­in­leg­an skiln­ing á regl­um sem gilda. Með þeim er ít­rekuð sú ábyrgð sem hvíl­ir nú á skól­um og fræðsluaðilum; eft­ir­fylgni við sótt­varn­ar­regl­ur með ör­yggi og vel­ferð nem­enda, kenn­ara og starfs­fólks að leiðarljósi. Þar er einnig ít­rekað að fram­kvæmd náms og skipu­lag geti breyst með áhættu­stig­um og tak­mörk­un­um, en mik­il­vægt sé að fylgj­ast með líðan allra nem­enda. Þá er lögð áhersla er lögð á gott upp­lýs­ingaflæði til nem­enda, for­ráðamanna, kenn­ara og starfs­fólks um stöðu mála, úrræði og stuðning sem í boði er.

Þings­álykt­un: Mennta­stefna til framtíðar

Með nýrri heil­stæðri mennta­stefnu til árs­ins 2030 mun­um við standa vörð um og efla skóla­kerfið okk­ar. Til­laga að þings­álykt­un um mennta­stefn­una verður lögð fyr­ir Alþingi í haust. Mark­mið stjórn­valda með þess­ari mennta­stefnu er að veita framúrsk­ar­andi mennt­un með áherslu á þekk­ingu, vellíðan, þraut­seigju og ár­ang­ur í um­hverfi þar sem all­ir skipta máli og all­ir geta lært. Mennta­stefn­an er mótuð í breiðu sam­starfi, meðal ann­ars með aðkomu fjöl­margra full­trúa skóla­sam­fé­lags­ins sem tóku þátt í fundaröð ráðuneyt­is­ins um mennt­un fyr­ir alla, svo og full­trú­um sveit­ar­fé­laga, for­eldra, nem­enda, skóla­stjórn­enda og at­vinnu­lífs­ins.

Mik­il áhersla er lögð á að kennsla og stjórn­un mennta­stofn­ana verði framúrsk­ar­andi og að all­ir hafi jöfn tæki­færi til mennt­un­ar. Nám­skrá, náms­um­hverfi og náms­mat þarf að styðji við hæfni til framtíðar og mennta­stefna trygg­ir fram­kvæmd og gæði skóla- og fræðslu­starfs.

Þess­ir óvissu­tím­ar sem við lif­um nú sýna að allt mennta­kerfið hef­ur getu til að standa sam­an með sam­taka­mátt að leiðarljósi. Það er mik­il­væg­ara nú en nokkru sinni fyrr að móta mennta­stefnu, sem veit­ir von um betri framtíð.

Ég tel að mennt­un og hæfni sé lyk­il­for­senda þess að Ísland geti mætt áskor­un­um framtíðar­inn­ar, sem fel­ast meðal ann­ars í örum breyt­ing­um á sam­fé­lagi, nátt­úru og tækni. Það er því okk­ar brýn­asta vel­ferðar­mál til framtíðar, að tryggja aðgang að góðu og sterku mennta­kerfi. Næstu fjár­lög og fjár­mála­stefna mun ein­kenn­ast af því grund­vall­ar­sjón­ar­miði að setja mennt­un þjóðar­inn­ar í for­gang.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Virkni mikilvægust

Deila grein

17/08/2020

Virkni mikilvægust

Á liðnu vori var kór­ónu­veir­an bremsa á sam­fé­lags­lega virkni. Leik­hús­um var lokað. Tón­leik­um var af­lýst. Mörg­um skóla­bygg­ing­um læst. Vinnustaðir sendu starfs­fólk heim og göt­urn­ar tæmd­ust. Samstaða ríkti um að kveða veiruna í kút­inn og aðgerðir skiluðu ár­angri.

Þótt veir­an hafi upp­vak­in minnt á sig á und­an­förn­um vik­um er mik­il­vægt að halda sam­fé­lag­inu virku. Finna ábyrg­ar leiðir til að lifa líf­inu; halda skól­um opn­um, fyr­ir­tækj­um gang­andi, list­a­lífi kviku. Heilsa þjóðar­inn­ar ræðst nefni­lega af mörg­um þátt­um, and­legri nær­ingu og líðan, sam­skipt­um við aðra, já­kvæðum hugs­un­um og frelsi.

Sótt­varn­a­regl­ur taka í aukn­um mæli mið af því. Í fram­halds- og há­skól­um eru nánd­ar­mörk nú einn metri í stað tveggja í vor. Börn í grunn- og leik­skól­um þurfa ekki að lúta nánd­ar­regl­um og heim­ild hef­ur feng­ist til æf­inga og keppni í íþrótt­um. Hár- og snyrti­stof­ur standa opn­ar að upp­fyllt­um ákveðnum skil­yrðum og þjón­usta af ýms­um toga blómstr­ar. Listviðburðir eru enn tak­mörk­un­um háðir, þar sem nánd­ar- og fjölda­sam­komu­regl­ur gera menn­ing­ar­starf ým­ist ómögu­legt eða fjár­hags­lega óráðlegt. Slíkt get­ur menn­ing­arþjóð ekki látið stöðva sig og við get­um fundið leiðir til að njóta menn­ing­ar og lista. Til dæm­is standa von­ir til að gild­andi nánd­ar­regl­ur í skól­um og íþrótt­a­starfi fá­ist fyrr en síðar yf­ir­færðar á leik­húsið, svo leik­ar­ar á sviði geti hafið æf­ing­ar. Með bein­um stuðningi hins op­in­bera gæti viðburðahald haf­ist, þrátt fyr­ir regl­ur um há­marks­fjölda. Hug­mynd­ir í þá veru hafa verið rædd­ar, þar sem stuðning­ur­inn fæli frek­ar í sér hvata til auk­inn­ar menn­ing­ar­virkni frek­ar en bæt­ur vegna glataðra tæki­færa. Sam­hliða þarf að tryggja lista­mönn­um rétt­indi sam­bæri­leg þeim sem launþegar al­mennt njóta, en sjálf­stætt starf­andi lista­fólk hef­ur í mörg­um til­vik­um fallið milli skips og bryggju þegar kem­ur að rétti til at­vinnu­leys­is­bóta.

Al­menn­ar sótt­varn­a­regl­ur, aðgerðir á landa­mær­um, per­sónu­legt hrein­læti og ábyrg hegðun hvers og eins okk­ar er for­senda þeirr­ar sam­fé­lags­legu virkni sem við æskj­um. Við get­um með rétt­um viðhorf­um og lausnamiðaðri hugs­un blásið lífi í menn­ing­ar­starf og þannig sam­fé­lagið allt. Við get­um fylgt ís­lenska ferðasumr­inu eft­ir með ís­lensk­um menn­ing­ar­vetri. Und­an­farn­ir mánuðir hafa sýnt að við búum í sterku sam­fé­lagi, því þrátt fyr­ir for­dæma­laus­ar aðstæður er staðan al­mennt góð. At­vinnu­stig er betra en ótt­ast var, kaup­mátt­ur og einka­neysla er meiri, op­in­ber­ar fram­kvæmd­ir að aukast og skólastarf er að hefjast. Með sam­stöðu og bjart­sýni að leiðarljósi mun­um við sigr­ast á aðstæðunum.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst 2020.

Categories
Greinar

Þjóðhagslegt mikilvægi skóla

Deila grein

07/08/2020

Þjóðhagslegt mikilvægi skóla

Við mót­un far­sæll­ar efna­hags­stefnu þjóðríkja er ein­blínt á að auka sam­keppn­is­hæfni og styrkja viðnámsþrótt­inn. Þeim ríkj­um sem hafa þetta tvennt að leiðarljósi vegn­ar vel.

Ísland hef­ur verið þeirr­ar gæfu aðnjót­andi að efna­hag­ur heim­ila, fyr­ir­tækja og staða hins op­in­bera hef­ur styrkst mikið á und­an­förn­um árum. Vegna þess­ar­ar hag­felldu stöðu hef­ur rík­is­stjórn­in getað mótað mark­viss­ar aðgerðir til að styðja við hag­kerfið, lyk­ilþætt­ir í þeirri stefnu eru að fjár­festa í mennt­un og menn­ingu.

Í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar kem­ur fram að öf­ugt mennta­kerfi sé meg­in­for­senda fram­fara og kjarn­inn í ný­sköp­un þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Við vilj­um að stærri hlut­ur hag­kerf­is­ins sé drif­inn áfram af hug­viti og stuðlað sé að auk­inni verðmæta­sköp­un í öllu hag­kerf­inu. Með því fæst meira jafn­vægi í þjóðarbú­skap­inn og minni sveifl­ur verða í gjald­eyr­is­sköp­un. Til þess að búa til slíkt um­hverfi, þar sem ný­sköp­un blómstr­ar og verkvit, þarf skýra stefnu í mennta­mál­um og ár­ang­ur. Mennta­stefn­an tek­ur mið af þessu hug­ar­fari og ég hlakka til að kynna hana.

Stærsta sam­fé­lags­verk­efnið okk­ar er að skól­arn­ir komi sterk­ir inn í haustið. Um all­an heim eru skól­ar ekki að opna með hefðbund­um hætti í haust og skaðinn sem hlýst af því til lengri tíma er ómet­an­leg­ur. Við verðum öll sem eitt að leggja mikið af mörk­um til að tryggja sterka stöðu allra skóla­stiga í land­inu. Á næstu dög­um fer af stað um­fangs­mikið sam­ráð og sam­vinna við alla lyk­ilaðila til að stuðla að því að það verði að raun­inni.

Skól­ar gegna þjóðhags­lega mik­il­vægu hlut­verki og lengri tíma skóla­lok­un er óæski­leg. Það er þjóðahags­lega mik­il­vægt að for­gangsraða í þágu skóla­kerf­is­ins. Stjórn­völd hafa aukið veru­lega fjár­veit­ing­ar til mennta­kerf­is­ins. Ég full­yrði að slík ráðstöf­un sé ein sú arðbær­asta sem sam­fé­lagið legg­ur í og við for­gangs­röðum í þágu mennt­un­ar. Öll heims­byggðin stend­ur frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um á tím­um far­sótt­ar og sótt er að grunn­sam­fé­lags­gerðinni.

Á Íslandi höf­um við alla burði til þess að sækja fram á þeim sviðum sem eru okk­ur dýr­mæt­ust. Við höld­um áfram að for­gangsraða í þágu framtíðar­inn­ar í sam­vinnu hvert við annað.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2020.