Categories
Greinar

Fjárfest í framtíðinni

Deila grein

22/05/2020

Fjárfest í framtíðinni

Til að stuðla að hag­vexti til framtíðar þarf að efla tækn­ina með vís­ind­um og ný­sköp­un. Mik­il­vægt er að skapa framúrsk­ar­andi aðstæður til rann­sókn­ar- og ný­sköp­un­ar­starfs til að fyr­ir­tæk­in í land­inu sjá hag sinn í að fjár­festa í þekk­ing­ar­sam­fé­lagi. Í gegn­um tíðina hef­ur rann­sókn­ar­vilj­inn og sann­leiksþráin knúið vís­ind­in áfram. Reynsla síðustu vikna hef­ur sýnt okk­ur að al­menn­ing­ur ber mikið traust til vís­ind­anna. Því er það vilji rík­is­stjórn­ar­inn­ar að efla enn frek­ar mennt­un, rann­sókn­ir og ný­sköp­un og styðja sam­keppn­is­hæfni þjóðar­inn­ar til framtíðar. Sú fjár­fest­ing hef­ur sjald­an verið mik­il­væg­ari. Til að gera sam­fé­lagið okk­ar enn sam­keppn­is­hæf­ara þarf að ein­blína á einkum þrennt.Við þurf­um að halda áfram að efla mennta­kerfið okk­ar, sem hef­ur unnið þrek­virki á síðustu mánuðum. Hlúð hef­ur verið að vel­ferð nem­enda og reynt að tryggja eins vel og unnt er að þeir geti náð sett­um mark­miðum. Ljóst er að mennta­kerfið okk­ar er sterkt. Við verðum að halda áfram í þeirri veg­ferð og tryggja að mennta­kerfið veiti ein­stak­ling­um tæki­færi. Við erum að leggja sér­staka áherslu á verk, iðn- og tækni­nám til að styrkja færn­ina á ís­lensk­um vinnu­markaði til framtíðar.

Styrkja þarf rann­sókn­ar­innviði og efla allt vís­indastarf til að tryggja enn frek­ar hágæða rann­sókn­ar­um­hverfi á Íslandi. Því hef­ur rík­is­stjórn­in aukið fjár­magn í sam­keppn­is­sjóði í rann­sókn­um. Með þess­um fjár­fest­ing­um höf­um við hækkað út­hlut­un­ar­hlut­fall Rann­sókn­ar­sjóðs um rúm 40% og því er út­hlut­un­ar­hlut­fallið 20%. Þetta nær til mannauðs, með aukn­um styrkj­um og at­vinnu­tæki­fær­um. Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna styrk­ir verk­efni þar sem ung­ir vís­inda­menn hafa fengið fyrstu kynni sín af þátt­töku í vís­inda­starfi sem kveikt hef­ur áhuga til framtíðar. Ný­sköp­un­ar­sjóður náms­manna hef­ur vaxið úr 55 millj­ón­um í 455 millj­ón­ir í ár. Þetta er gert til að búa til ný tæki­færi og virkja þekk­ing­ar­sköp­un.

Fyr­ir­tæk­in í land­inu hafa eflt ný­sköp­un og verið hreyfiafl fram­fara. Þess vegna var brýnt að hækka end­ur­greiðslur til þeirra upp í allt að 35% og þakið hækkað í 1.100 millj­ón­ir króna. Fyr­ir­tækja­rann­sókn­ir eru verk­efnamiðaðri og fram­leiða oft sölu­hæf­ar upp­finn­ing­ar. Áhersla á þróun og ný­sköp­un skil­ar sér marg­falt til sam­fé­lags­ins. Starfs­um­hverfi fyr­ir­tækja þarf að vera hvetj­andi og þau þurfa að vera í stöðu til að fá öfl­uga ein­stak­linga til liðs við sig.

Ríkj­um sem hafa markað sér skýra stefnu um að fjár­festa í hug­viti, rann­sókn­um og ný­sköp­un vegn­ar vel. Við höf­um alla burði til að auka verðmæta­sköp­un sem grund­vall­ast á hug­viti. Með því tryggj­um við far­sæl­an grunn að sterk­ara sam­fé­lagi.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. maí 2020.

Categories
Greinar

Rannsóknarsetur um allt land

Deila grein

18/05/2020

Rannsóknarsetur um allt land

Gott aðgengi að mennt­un og öfl­ugt vís­inda- og rann­sókn­astarf um allt land er mik­il­vægt. Við sem þjóð höf­um ekki efni á að láta tæki­fær­in fara fram hjá okk­ur, jafn­vel án þess að taka eft­ir þeim. Þetta á við bæði um tæki­færi til ný­sköp­un­ar inn­an hefðbund­inna at­vinnu­greina, land­búnaðar og sjáv­ar­út­vegs, en ekki síður inn­an menn­ing­ar­starfs, ferðaþjón­ustu og fleiri greina.

Mennt­un og rann­sókn­ar­starf

Það eru mik­il sókn­ar­tæki­færi í upp­bygg­ingu þekk­ing­ar­starf­semi, sem tek­ur mið af sér­stöðu hvers landsvæðis fyr­ir sig. Það skil­ar ár­angri að efla svæðis­bundna rann­sókna- og þekk­ing­ar­kjarna og stuðla að fag­leg­um tengsl­um bæði þeirra á milli og við há­skóla, rann­sókn­ar­stofn­an­ir og fyr­ir­tæki. Með auknu sam­starfi má nýta mannauð og aðstöðu bet­ur og auka aðgengi nem­enda og fræðimanna að auðlind­um menn­ing­ar og nátt­úru lands­ins. Slíkt stuðlar að fleiri starf­stæki­fær­um á lands­byggðinni og að fjöl­breytt­ari og sterk­ari sam­fé­lög­um.Það er eng­in til­vilj­un, að í stefnu­mót­andi byggðaáætl­un 2018 – 2024 eru megin­á­hersl­ur lagðar á að jafna aðgengi að þjón­ustu, jafna aðgengi til at­vinnu og stuðla að sjálf­bærri þróun byggðar. Til­lög­ur um efl­ingu rann­sókna og vís­inda­starf­semi og um hag­nýt­ingu upp­lýs­inga­tækni til há­skóla­náms eru sér­lega mik­il­væg­ar í þessu sam­hengi. Þær eru sprottn­ar af skiln­ingi á mik­il­vægi mennt­un­ar og rann­sókna sem afl­gjafa til að tak­ast á við þær sam­fé­lags­legu áskor­an­ir sem lands­byggðin og sam­fé­lagið allt stend­ur frammi fyr­ir á kom­andi árum.

Mennt­un und­ir­staða ný­sköp­un­ar

Ný­sköp­un og hvers kon­ar hag­nýt­ing hug­vits er mik­il­væg­ur grunn­ur fjöl­breytts og sjálf­bærs at­vinnu­lífs, sterkr­ar sam­keppn­is­stöðu, hag­vaxt­ar og vel­ferðar. Ekki síst í ljósi þeirra miklu þjóðfé­lags­umbreyt­inga sem eru og munu eiga sér stað á kom­andi árum, m.a. vegna tækniþró­un­ar.Rann­sókna- og þekk­ing­ar­starf­semi er mik­il­væg­ur hluti af at­vinnu­líf­inu. Eðli­legt er að hluti rann­sókn­a­starf­semi fari fram vítt um landið, þar sem viðfangs­efn­in eru, aðstæður eru hag­stæðar og fólk býr að mik­il­vægri staðþekk­ingu. Samþætt­ing nýrr­ar þekk­ing­ar við rót­gróna svæðis­bundna þekk­ingu skap­ar hverju svæði sér­stöðu, sem styrk­ir stöðu þess. Aðgengi að innviðabúnaði vís­inda­rann­sókna, sam­starf við rann­sak­end­ur rann­sókna­stofn­ana og há­skóla er afar mik­il­vægt.

Starfs­fólk Stofn­un­ar rann­sókna­setra Há­skóla Íslands tekst á við mörg brýn viðfangs­efni sam­tím­ans með rann­sókn­um sín­um og þátt­töku í ým­iss kon­ar nefnd­um og ráðum. Má þar nefna fag­hópa Ramm­a­áætl­un­ar, gerð landsáætl­un­ar í skóg­rækt, stýri­hóp um end­ur­skoðun á stefnu Íslands í vernd líf­fræðilegr­ar fjöl­breytni og fleira.

Vís­indastarf með yngri skóla­stig­um

Mörg rann­sókn­ar­set­ur vinna með yngri skóla­stig­um að ým­iss kon­ar fræðslu­verk­efn­um. Setrið á Suður­landi og grunn­skóli Blá­skóga­byggðar á Laug­ar­vatni taka t.d. þátt í sam­starfs­verk­efni um mat á áhrif­um lofts­lags­breyt­inga á fugla­stofna. Setrið í Bol­ung­ar­vík kem­ur að líf­fræðikennslu 9. og 10. bekk­inga í Grunn­skóla Bol­ung­ar­vík­ur með því að skipu­leggja vett­vangs- og rann­sókna­vinnu þeirra. Setrið á Hólma­vík er með þema­verk­efni um þjóðtrú og galdra meðal nem­enda í grunn­skól­un­um á Hólma­vík og Drangs­nesi svo fátt eitt sé nefnt. Ekki þarf að fjöl­yrða um mik­il­vægi þessa starfs með ungu fólki. Að vekja spurn­ing­ar og leita svara með beit­ingu vís­inda­legra aðferða er liður í að auka skiln­ing á mik­il­vægi gagn­rýnn­ar hugs­un­ar og rann­sókna.Setr­in hafa lagt ríka áherslu á miðlun rann­sókna með ýms­um hætti fyr­ir utan birt­ingu vís­inda­greina, t.a.m. með fyr­ir­lestra­haldi, viðburðum og út­gáfu fyr­ir al­menn­ing sem er hluti þeirr­ar sam­fé­lag­steng­ing­ar sem setr­in leggja svo ríka áherslu á. Starf­semi setr­anna er lyfti­stöng fyr­ir þau sam­fé­lög sem þau starfa í.

Und­an­far­in miss­eri hef­ur verið unnið að færslu Breiðdals­set­urs til Stofn­un­ar Rann­sókna­set­urs Há­skóla Íslands í sam­starfi við Fjarðabyggð og Nátt­úru­fræðistofn­un Íslands. Sú aðgerð er mik­il­væg og trygg­ir áfram­hald­andi mik­il­væga stöðu þess og starf­semi á Breiðdals­vík.

Starf­semi rann­sókna­setr­anna hef­ur eflst á und­an­förn­um árum og ótví­rætt sannað gildi sitt við efl­ingu rann­sókna, há­skóla- og at­vinnu­starf­semi víða um land og aukið tengsl Há­skóla Íslands við sveit­ar­fé­lög, stofn­an­ir, fyr­ir­tæki, fé­laga­sam­tök og ein­stak­linga. Setr­in eru því mik­il­væg­ur hlekk­ur í þeirri keðju þekk­ing­ar- og verðmæta­sköp­un­ar sem Há­skóli Íslands vill styrkja, ekki síst nú á tím­um mik­illa breyt­inga í byggða- og at­vinnu­mál­um.

Mannauður er dýr­mæt­asta auðlind hverr­ar þjóðar og það er for­gangs­verk­efni að skapa þær aðstæður að ungt vel menntað fólk um allt land kjósi að hasla sér völl hér heima og treysta með því und­ir­stöðum sam­fé­lags­ins. For­senda þess er traust mennta­kerfi og sam­keppn­is­hæf­ur vinnu­markaður, sem get­ur tek­ist á við sí­breyti­leg­ar þarf­ir at­vinnu- og þjóðlífs.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. maí 2020.

Categories
Greinar

Sumar­störf fyrir náms­menn

Deila grein

15/05/2020

Sumar­störf fyrir náms­menn

Vegna Covid-19 faraldursins stendur ferðaþjónusta á Íslandi frammi fyrir algjöru hruni, að minnsta kosti tímabundið. Áhrifa faraldursins gætir einnig í öðrum atvinnugreinum og við stöndum frammi fyrir dýpstu kreppu sem við höfum séð í langan tíma. Fjöldi fólks á atvinnuleysisskrá hefur aukist mikið undanfarið, margir eru á hlutabótum en einnig er nokkur fjöldi atvinnulaus. Í slíku árferði er ljóst að minna verður um tímabundin störf í sumar, störf sem námsmenn hafa leitað í á sumrin. Stjórnvöld hafa undanfarnar vikur unnið að aðgerðum til þess að koma til móts við námsmenn, annars vegar með úrræðum tengdum menntakerfinu en einnig með því að skapa störf fyrir námsmenn yfir sumartímann.

Lærum af reynslunni

Við þurfum að læra af reynslunni og nýta þær lausnir sem hafa reynst okkur vel áður. Eftir efnahagshrunið árið 2008 varð ljóst að skynsamleg nýting fjármagns væri að skapa grundvöll til virkni fyrir námsmenn. Samkvæmt könnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem var framkvæmd dagana 6.-8. apríl, var staða stúdenta þá með þeim hætti að útlit var fyrir að um 7.000 stúdentar hefðu ekki tryggt sér atvinnu yfir sumartímann. Verkefni stjórnvalda er að taka þessa stöðu til greina og leysa úr henni á sem skynsamlegastan hátt.

3.400 sumarstörf fyrir námsmenn í fyrstu lotu

Við höfum því farið af stað með átaksverkefni til þess að fjölga störfum fyrir námsmenn yfir sumartímann. Alþingi hefur samþykkt veitingu fjármagns til verkefnisins upp á 2,2 milljarða króna og markmiðið er að skapa 3.400 störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í fyrstu lotu. Átakið er unnið í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og er undirbúningur þegar vel á veg kominn. Sveitarfélögin munu sjálf auglýsa störfin en Vinnumálastofnun mun auglýsa störf á vegum stofnana ríkisins. Störfin verða auglýst opinberlega á næstu dögum og þurfa stofnanir og sveitarfélög að skapa ný störf í tengslum við átakið. Miðað er við ráðningartímabilið frá 1. júní til 31. ágúst.

Þegar hafa verið staðfest rúmlega 1.700 störf við sveitarfélögin, sem þau geta auglýst strax og stofnanir ríkisins hafa skilað inn tillögum að störfum til Vinnumálastofnunar.

Í byrjun næstu viku gerum við svo ráð fyrir að Vinnumálastofnun staðfesti allt að 1.700 störf við stofnanir ríkisins sem verða auglýst í kjölfarið. Ef stofnanir ríkisins skila inn færri tillögum en 1.700, mun samsvarandi fjöldi tillagna frá sveitarfélögunum verða samþykktur, svo heildarfjöldinn mun alltaf nema 3.400 störfum í þessari atrennu. Í byrjun júní mun væntanlega liggja fyrir hversu margir námsmenn hafi sótt um störf bæði hjá ríki og sveitarfélögum og hversu marga námsmenn verður hægt að koma til móts við með þeim úrræðum sem við höfum kynnt.

Við teljum mjög mikilvægt að koma sem flestum námsmönnum í störf þar sem þeir fá bæði reynslu og virkni, ásamt því að skila verðmætum inn í hagkerfið. Ef þau úrræði sem við höfum þegar kynnt duga ekki til við að grípa námsmenn sem eru í vanda yfir sumartímann munum við hiklaust kanna hvort ekki verði hægt að veita meira fjármagni til þess að skapa enn fleiri störf eða finna aðrar leiðir til þess að tryggja framfærslu þessa hóps.

Ásmundur Einar Daðasson, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2020

Categories
Greinar

Varlega af stað

Deila grein

14/05/2020

Varlega af stað

Við för­um var­lega af stað í opn­un lands­ins eft­ir að hafa náð ótrú­leg­um tök­um á út­breiðslu veirunn­ar og treyst­um á vís­ind­in. Það er mik­il­vægt að við för­um var­lega og það er mik­il­vægt að við nýt­um þekk­ingu okk­ar á veirunni til að koma hjól­un­um bet­ur af stað. Það verður ekki litið fram hjá því að fjöl­marg­ar fjöl­skyld­ur um allt land eiga mikið und­ir því að gest­ir sæki landið heim að nýju þótt ekki sé hægt að bú­ast við því að kraft­ur­inn verði jafn­mik­ill og síðustu ár.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur á nokkr­um árum orðið ein af und­ir­stöðum ís­lenska efna­hags­kerf­is­ins, skapað mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur og veitt mikl­um fjölda fólks at­vinnu og þar með lífsviður­væri. Ferðaþjón­ust­an hef­ur styrkt byggðir lands­ins og komið til viðbót­ar öðrum grunnstoðum: land­búnaði, sjáv­ar­út­vegi og iðnaði. Hún hef­ur opnað augu okk­ar fyr­ir þeim fjár­sjóði sem nátt­úr­an er og þannig breytt gild­is­mati margra.

Ég hef orðið var við að Íslend­ing­ar hlakka til að ferðast um landið sitt í sum­ar. Sól­ar­vörn­in verður kannski ekki alltaf höfð uppi við eins og á sól­ar­strönd­um en eins og við vit­um búa töfr­ar í sam­spili lands­lags og veðurs hvort held­ur það blæs, skín eða úðar. Eft­ir­minni­leg­ustu augna­blik­in eru ekki endi­lega þau sól­ríku.

Þótt Íslend­ing­ar verði dug­leg­ir að ferðast inn­an­lands í sum­ar er ljóst að það kem­ur ekki til með að duga til að verja þau störf sem orðið hafa til í ferðaþjón­ust­unni síðustu árin. Því er það já­kvætt skref og mik­il­vægt að opna landið fyr­ir komu er­lendra gesta um miðjan júní. Áður en það ger­ist hef­ur verið tek­in ákvörðun um að sótt­kví B verði út­víkkuð þannig að kvik­mynda­gerðar­menn og aðrir af­markaðir hóp­ar geti komið til starfa á Íslandi.

Kvik­mynda­gerð hef­ur lengi staðið Fram­sókn nærri og skemmst að minn­ast þess að flokk­ur­inn stóð fyr­ir því að tekið var upp það end­ur­greiðslu­kerfi sem enn er við lýði hér á landi. Það kerfi hef­ur lagt grunn­inn að öfl­ugri kvik­mynda­gerð á Íslandi sem hef­ur mikið menn­ing­ar­legt gildi. Þar að auki hef­ur kvik­mynda­gerðin skapað at­vinnu og tekj­ur og fært ís­lenskt lands­lag inn í aðra menn­ing­ar­heima, hvort sem þeir heita Hollywood eða Bollywood.

Ég finn að fólk tek­ur því fagn­andi að það losni um þau höft sem verið hafa á líf­inu á Íslandi síðustu vik­ur og mánuði. Það er vor í lofti, jafn­vel sum­ar sunn­an und­ir vegg, og við fet­um okk­ur var­lega af stað und­ir leiðsögn sótt­varna­yf­ir­valda. Áfram veg­inn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. maí 2020.

Categories
Greinar

Nýsköpunarstofa fyrir námsfólk í Hafnarfirði

Deila grein

13/05/2020

Nýsköpunarstofa fyrir námsfólk í Hafnarfirði

Nýverið ákvað Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, að verja 2.200 milljónum króna til að fjölga störfum fyrir námsmenn í sumar og munu þau skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga. Í síðustu viku samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðar að skapa 250 ný sumarstörf fyrir hafnfirskt námsfólk og frumkvöðla og er ákvörðunin liður í nýsamþykktri aðgerðaáætlun bæjarfélagsins vegna COVID-19.

Öllum sviðum bæjarfélagsins var falið að taka saman lista yfir afmörkuð verkefni sem einkum mætti bjóða hafnfirsku námsfólki og frumkvöðlum til vinnslu í tímabundnum störfum. Í heild bárust 80 verkefnatillögur frá sviðunum. Horft er sérstaklega til nýrra og nýstárlegra verkefna þar sem nýta má menntun og færni þátttakenda á sviði umhverfis- og framkvæmdamála, upplýsingatækni, fræðslumála, fjölskyldumála, menningarmála, íþróttamála og heilsueflandi samfélags. Starfsemin mun fara fram í fallegu húsnæði gamla Lækjarskóla við Lækinn, þar sem hópurinn mun fá aðstöðu ásamt því að hafa aðgengi að sérfræðingum Hafnarfjarðarbæjar.

Við vitum ekki hvernig störf framtíðarinnar koma til með að líta út og við lifum á tímum þar sem öll tækniþróun og aðrar samfélagslegar breytingar gerast á ógnarhraða. Nýsköpun er ekki sérstök atvinnugrein, heldur á nýsköpun sér stað í öllum atvinnugreinum og alls staðar. Við teljum að nýta megi þá starfsemi sem hér er boðuð til nýjunga og umbóta í starfsemi bæjarins sem síðar gagnast samfélaginu öllu; koma auga á áður óséð tækifæri til þróunar á öllum sviðum. Með þessu erum við að fjárfesta til framtíðar og um leið að tryggja unga fólkinu okkar hér í Hafnarfirði góð sumarstörf.

Í þeim krefjandi aðstæðum sem samfélagið allt tekst nú á við, verður gaman að fylgjast með þessari starfsemi í sumar og vonandi sjá hana vaxa og dafna til framtíðar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí 2020.

Categories
Greinar

Áfram veginn

Deila grein

13/05/2020

Áfram veginn

Ríkisstjórnin kynnti í dag áætlun sína um opnun landsins frá fimmtánda júní. Það er gríðarlega mikilvægt skref fyrir Ísland og íslenska ferðaþjónustu. Það er ekki síst merki um mikinn árangur sem íslenskt heilbrigðis- og vísindafólk hefur náð í baráttunni við kórónuveiruna á síðustu mánuðum. Ákvörðunin um opnun landsins byggist á því að vísindin telja okkur í það góðri stöðu að við getum tekið á móti gestum að nýju.

Við höfum á síðustu vikum og mánuðum notið leiðsagnar þríeykisins og munum gera það áfram. Það var gifturík ákvörðun að gefa vísindafólkinu eftir stýrið í þessum leiðangri. Kraftur þekkingarinnar í heilbrigðisvísindum hér á landi, öguð vinnubrögð lögreglumanna og annarra í smitrakningarteyminu og samstaða og samhugur þjóðarinnar eru grunnurinn að þeim árangri sem náðst hefur. Við verðum áfram árvökul, það mun ekki breytast þótt landið verði opnað, reynsla okkar er okkur dýrmæt í þeim skrefum sem stigin verða.

Þrátt fyrir þessa mikilvægu ákvörðun er ljóst að við verðum áfram að huga vel að smitvörnum. Þar er handþvotturinn mikilvægastur. Það er líka brýnt að við virðum rými hvert annars og minnkum þannig hættuna á smitum. Það á reyndar ekki aðeins við um kórónuveiruna heldur aðra smitsjúkdóma.

Ég hef áður ritað um mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið. Ferðaþjónustan er líka gríðarlega mikilvæg fyrir byggðir landsins. Segja má að hún sé lífæð byggðanna með allri sinni starfsemi vítt og breitt um landið og styðji þannig við aðrar mikilvægar atvinnugreinar eins og landbúnað og sjávarútveg. Opnun landsins veitir von um að þessi lífæð fái að nýju aukinn þrótt til að vinna að viðspyrnu landsins alls.

Einnig er vert að minnast á það að sóttkví B var útvíkkuð og nær nú einnig til ferða vísindamanna, blaðamanna, æfinga íþróttaliða og síðast en ekki síst til kvikmyndagerðarfólks sem hyggur á tökur hér á landi. Áhugi kvikmyndagerðarfólks á landinu hefur lengi verið mikil og nú undanfarið hefur áhuginn aukist þar sem flest lönd hafa lokað landamærum sínum vegna veirunnar.

Rétt er að taka fram að ákvörðun um opnun landsins er tekin eftir að hafa fengið ráð frá því fólki sem leitt hefur baráttuna gegn kórónuveirunni. Þótt skrefin séu stór þá eru þau varfærin og verða metin á reglubundinn hátt. Við förum áfram varlega en bjóðum gesti velkomna. Þannig höldum við áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. maí 2020.

Categories
Greinar

Lærdómssamfélagið

Deila grein

12/05/2020

Lærdómssamfélagið

Skólafólk lyfti grettistaki þegar takmarkanir á skólastarfi komu til framkvæmda snemma í mars. Kennarar og stjórnendur þurftu á augabragði að umbylta öllu skólastarfi og koma til móts við nemendur, svo námsframvindan yrði fyrir sem minnstum skaða. Skólar brugðust ólíkt við eftir aðstæðum, og færðu sig mismikið yfir í rafræna kennslu og samskipti. Alls staðar voru þó stigin stór þróunarskref, sem skólarnir geta nýtt sér þegar kórónutímabilinu lýkur.

Rafræn samskipti hafa þróast hratt síðustu misseri. Mikill ávinningur felst í því fyrir samfélagið allt að nýta tæknina. Samvinna getur orðið skilvirkari og þátttakendur virðast oft einbeittari, fólk virðist frekar mæta á réttum tíma á fjarfundi en hefðbundna, pappír sparast og umferð minnkar, svo dæmi séu nefnd. Öllum er ljóst, að aukið tæknilæsi skapar grundvöll fyrir margbreytilegar tæknilausnir.

Ekkert kemur þó í stað beinna samskipta milli nemenda, kennara og annars starfsfólks skólanna. Góðir kennarar og skólastjórnendur eru ómetanlegir. Skólasamfélagið á hverjum stað er einkar mikilvægt fyrir félagslegan þroska, geðheilbrigði, færni í samskiptum og almennt nám. Skólinn er vettvangur barna til að hitta og spegla sig í jafningjum sínum og starfsfólki. Þetta á ekki síst við þá sem standa höllum fæti og líklega muna flestir eftir góðum kennara sem hafði varanlega góð áhrif á líf þeirra. Þess vegna er skólasamfélagið, með sinni mannlegu nánd og tengsl í fyrirrúmi, eitt af því dýrmætasta sem íslenskt menntakerfi á.

Tækniþróun og iðnbyltingar munu ekki leysa kennarann af hólmi. Skólastarf byggir á öflugu lærdómssamfélagi þar sem skólafólk, nemendur og foreldrar mynda jákvæða og uppbyggilega menningu. Það er ástæða til að fagna auknu tæknilæsi, sem styður við jákvætt og uppbyggilegt skólastarf á öllum skólastigum. Kennarar og skólastjórnendur halda áfram mikilvægi sínu, því eitt af því sem kemur fram hjá nemendum á COVID-tímum er söknuður í lærdómssamfélagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. maí 2020.

Categories
Greinar

Menntun er lausnin

Deila grein

12/05/2020

Menntun er lausnin

Viðbrögð þjóða heims munu ráða mestu um það hverj­ar var­an­leg­ar af­leiðing­ar Covid-19 far­ald­urs­ins verða. Ástandið hef­ur sann­ar­lega þjappað þjóðum sam­an en það er afar brýnt að stjórn­völd haldi vöku sinni gagn­vart sam­fé­lags­hætt­unni sem blas­ir við. Þjóðfé­lags­hóp­ar eru mis­vel bún­ir und­ir höggið sem hlýst af ástand­inu. At­vinnu­leysi er mis­skipt eft­ir at­vinnu­grein­um og landsvæðum. Þeir sem búa við þröng­an kost eru lík­legri til að upp­lifa mikið álag á heim­il­um en þeir sem búa rúmt. Það blas­ir því við að fé­lags- og efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar far­ald­urs­ins geta aukið mis­réttið í sam­fé­lag­inu til fram­búðar. Það má ekki ger­ast!

Þetta hef­ur verið leiðarljósið í vinnu stjórn­valda fyr­ir náms­menn. Ráðist hef­ur verið í marg­vís­leg­ar aðgerðir sem miða að því að létta náms­mönn­um róður­inn í efna­hags­leg­um ólgu­sjó, en marg­ir þeirra upp­lifa nú mikið álag og áhyggj­ur af fram­færslu. Ýmsar til­slak­an­ir hafa verið gerðar hjá Lána­sjóði ís­lenskra náms­manna. Fram­halds- og há­skól­arn­ir hafa lagað náms­mat að aðstæðunum og aukið ráðgjöf og þjón­ustu við nem­end­ur. Stjórn­völd hafa boðað þúsund­ir sum­arstarfa fyr­ir náms­menn og skól­arn­ir bjóða upp á sum­ar­nám til að koma til móts við nem­end­ur sem vilja nýta þann mögu­leika.

Þá hef­ur auknu fjár­magni verið veitt í Ný­sköp­un­ar­sjóð náms­manna, sem út­hlutaði ný­verið styrkj­um til 74 fjöl­breyttra verk­efna. Þessi verk­efni eru skemmti­leg og spenn­andi – allt frá snerti­hlust­un og sjó­veik­i­hermi til framtíðar­skóga – og breidd­in til marks um fjöl­breyti­leika ís­lenska mennta­kerf­is­ins og ný­sköp­un­ar­kraft stúd­enta. Ný­sköp­un­ar­verk­efni sem kom­ast á lagg­irn­ar fyr­ir til­stuðlan sjóðsins geta borið rík­an ávöxt og breyst í stærri og viðameiri tæki­færi fyr­ir náms­menn, fyr­ir­tæki og stofn­an­ir. Þannig er sjóður­inn mik­il­væg brú fyr­ir at­vinnu­lífið og vís­inda­sam­fé­lagið.

Íslensk­ir náms­menn eru van­ir því að tak­ast á við krefj­andi verk­efni og leysa úr þeim. Þeir skila verk­efn­um, skrifa rit­gerðir, rann­saka sam­fé­lagið og skapa eitt­hvað nýtt. Þeir standa sam­an þegar á reyn­ir en fagna líka sam­an við kær­kom­in til­efni, svo sem út­skrift­ir. Þeir eru framtíð þessa lands og er fjöl­breyti­leiki og færni þeirra öðrum inn­blást­ur. Ein­mitt þess vegna er öfl­ugt mennta­kerfi svo mik­il­vægt. Mennta­kerfi sem rækt­ar sköp­un­ar­gáfu náms­manna, skap­ar jöfn tæki­færi fyr­ir ungt fólk og gegn­ir þannig jöfn­un­ar­hlut­verki í sam­fé­lag­inu. Nauðsyn þess að fólk geti sótt sér mennt­un óháð bak­grunni eða efna­hag hef­ur á síðari tím­um sjald­an verið brýnni en nú. Kostnaður­inn af slík­um mark­miðum er um­tals­verður en þó marg­falt minni en kostnaður­inn sem hlýst af ójafn­rétti og mis­skipt­ingu. Fá­fræði sem hlýst af kerfi mis­skipt­ing­ar er skaðleg, bæði fyr­ir efna­hag sam­fé­laga, lífs­gæði og lýðræði.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. maí 2020.

Categories
Greinar

Kvikmyndir framtíðarinnar

Deila grein

11/05/2020

Kvikmyndir framtíðarinnar

Kvik­mynda­gerð á Íslandi hef­ur ávallt ein­kennst af ástríðu. Dríf­andi frum­kvöðlar ruddu braut­ina og á þeirra vinnu er nú ris­in glæsi­leg at­vinnu­grein, sem ekki aðeins styrk­ir menn­ingu í land­inu og gleður hjartað held­ur býr til gott orðspor og skap­ar þúsund­ir starfa. Þótt langt sé liðið frá brautryðjand­a­starfi Óskars Gísla­son­ar, Lofts Guðmunds­son­ar, Vig­fús­ar Sig­ur­geirs­son­ar og fleiri hef­ur heild­stæð kvik­mynda­stefna fyr­ir Ísland ekki verið mótuð hér­lend­is fyrr en nú. Vinna við gerð slíkr­ar stefnu til árs­ins 2030 hófst á síðasta ári og er nú á loka­metr­un­um. Þar birt­ist metnaðarfull og raun­sæ framtíðar­sýn.

Af litl­um neista

Kvik­mynda­menn­ing á Íslandi hef­ur þró­ast hratt á síðustu ára­tug­um. Neyt­end­ur hafa orðið kröfu­h­arðari, gæðin hafa auk­ist og kvik­myndað efni sem bygg­ist á ís­lensk­um sög­um fær sí­fellt meiri dreif­ingu hjá alþjóðleg­um streym­isveit­um og miðlum.Fyr­ir ligg­ur að COVID-19-heims­far­ald­ur­inn hef­ur haft ómæld efna­hags­leg áhrif um all­an heim. Þar hafa menn­ing og list­ir tekið á sig stórt högg, ekki síst vegna aðgerða sem hamla miðlun list­ar og menn­ing­ar. Stjórn­völd hafa brugðist við með marg­vís­leg­um hætti, svo list- og verðmæta­skap­andi fólk geti sinnt sinni köll­un og starfi. Einn liður í því er 120 millj­óna viðbótar­fram­lag í Kvik­mynda­sjóð, sem skap­ar grund­völl til að setja ný og spenn­andi verk­efni af stað og þannig sporna við sam­drætti í at­vinnu­grein­inni. Slík­ur neisti get­ur haft gríðarleg áhrif, skapað fjár­fest­ingu til framtíðar, menn­ing­ar­auð og fjölda starfa.

Fram­leiðsla á vönduðu ís­lensku efni skil­ar sér í aukn­um út­flutn­ings­tekj­um, auk­inni sam­keppn­is­hæfni Íslands og fleiri alþjóðleg­um sam­starf­stæki­fær­um. Marg­ir ferðamenn hafa ein­mitt heim­sótt Ísland ein­göngu vegna ein­stakr­ar nátt­úru­feg­urðar og menn­ing­ar sem birt­ist í kvik­mynd­um og sjón­varpsþátt­um víða um ver­öld. Ávinn­ing­ur­inn af slík­um heim­sókn­um er mik­ill og sam­kvæmt hag­töl­um eru skatt­tekj­ur af þeim mæld­ar í tug­um millj­arða. Þegar ferðalög milli landa verða aft­ur heim­il munu kvik­mynda­ferðalang­ar aft­ur mæta til leiks.

Upp­tökustaður nú og til framtíðar

Yfir 15 þúsund manns starfa við menn­ingu, list­ir og skap­andi grein­ar á Íslandi eða tæp­lega 8% vinnu­afls. Þar af starfa á fjórða þúsund manns við kvik­mynda­gerð með ein­um eða öðrum hætti, og hef­ur at­vinnu­grein­in þre­faldað ár­sveltu sína á ein­um ára­tug. Stjórn­völd fjár­festu í grein­inni fyr­ir tæpa 2 millj­arða í fyrra, auk þess sem gott end­ur­greiðslu­kerfi laðar er­lenda fram­leiðend­ur til lands­ins. End­ur­greiðslur vegna fram­leiðslu­kostnaðar sveifl­ast nokkuð milli ára og nam í fyrra um 1,1 millj­arði króna. Ólíkt öðrum út­gjöld­um fel­ast góð tíðindi í auk­inni end­ur­greiðslu, því hún eykst sam­hliða auk­inni veltu grein­ar­inn­ar – rétt eins og hrá­efn­is­kostnaður í fram­leiðslu hækk­ar með auk­inni vöru­sölu. Það eru góðar frétt­ir, en ekki slæm­ar.Árang­ur Íslands í bar­átt­unni gegn COVID-19 hef­ur vakið at­hygli víða og meðal ann­ars náð aug­um stærstu kvik­mynda­fram­leiðenda heims. Er­lend­ir fjöl­miðlar hafa m.a. greint frá því, að sjálft Hollywood líti nú sér­stak­lega til þeirra landa sem hafa haldið far­aldr­in­um í skefj­um. Raun­ar er staðan sú, að nán­ast öll sjón­varps- og kvik­mynda­fram­leiðsla hef­ur verið sett á ís nema í Suður-Kór­eu og á Íslandi. Fram­leiðend­ur hafa þegar haf­ist handa og nú standa yfir tök­ur á nýrri þáttaröð fyr­ir Net­flix hér á landi, und­ir stjórn Baltas­ars Kor­máks. Þetta eru gleðitíðindi!

Fjög­ur mark­mið, tíu aðgerðir

Með fyrstu heild­stæðu kvik­mynda­stefn­unni er vörðuð raun­sæ en metnaðarfull braut sem mun styðja við vöxt og alþjóðlega sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­gerðar á Íslandi. Mark­miðin eru fjög­ur. Í fyrsta lagi að hlúa að kvik­mynda­menn­ingu, styrkja ís­lenska tungu og efla miðlun menn­ing­ar­arfs. Í öðru lagi vilj­um við styrkja fram­leiðslu og innviði kvik­mynda­gerðar. Í þriðja lagi á að efla alþjóðleg tengsl og alþjóðlega fjár­mögn­un ásamt kynn­ingu á Íslandi sem tökustað. Og síðast en ekki síst er stefnt að efl­ingu kvik­mynda­læsis og kvik­mynda­mennt­un­ar sem nái upp á há­skóla­stig. Hverju mark­miði kvik­mynda­stefn­unn­ar fylgja til­lög­ur að aðgerðum, kostnaðaráætl­un og ábyrgðaraðili sem á að tryggja fram­kvæmd og eft­ir­fylgni.Rík sagna­hefð Íslend­inga hef­ur skilað okk­ur hundruðum kvik­mynda, heim­ilda- og stutt­mynda, sjón­varpsþátta og öðru fjöl­breyttu efni á síðustu ára­tug­um. Ísland er orðið eft­ir­sótt­ur tökustaður og sí­fellt fleiri alþjóðleg­ar stór­mynd­ir eru fram­leidd­ar á Íslandi. Fjár­fest­ing í kvik­mynda­gerð er ekki bara gott viðskipta­tæki­færi held­ur einnig nauðsyn­legt afl í mót­un sam­fé­lags­ins. Íslensk kvik­mynda­gerð viðheld­ur og efl­ir ís­lenska tungu, leik­ur veiga­mikið hlut­verk í varðveislu menn­ing­ar­arfs­ins og efl­ir sjálfs­mynd þjóðar­inn­ar. Fjár­fest­ing í þess­ari at­vinnu­grein mun því ávallt skila okk­ur ríku­lega til baka, á fleiri en einn veg.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2020.

Categories
Greinar

Viðspyrna fyrir viðkvæma hópa

Deila grein

07/05/2020

Viðspyrna fyrir viðkvæma hópa

Í vetur hefur svo sannarlega reynt á samvinnu og útsjónarsemi Íslendinga, þegar almannavarnarhlutverk okkar allra virkjaðist skyndilega. Með öflugu samstarfi og samtakamætti hefur okkur tekist að koma böndum á útbreiðslu veirunnar, þó kófið sé ekki alveg gengið niður er farið að sjá til sólar gegnum renninginn.

Það ríkir óvissa á mörgum sviðum og það mun áfram reyna á samvinnu og útsjónarsemi okkar allra; við áframhaldandi almannavarnir, við úrvinnslu afleiðinga COVID 19 faraldursins, við að skapa samfélaginu tekjur og við að tryggja velferð allra íbúa landsins. Aðgerðir stjórnvalda til varnar, verndar og viðspyrnu miða að því að verja afkomu heimila og fyrirtækja og skapa ný störf.

Fjölbreyttar félagslegar aðgerðir

Veiran hefur áhrif á tilveru okkar allra en fólk hefur mismunandi leiðir og tækifæri til að bregðast við. Hér vil ég sérstaklega benda á að 5,7 milljarðar króna eru ætlaðar til að styðja sérstaklega við viðkvæmustu hópana í samfélaginu. Komið verður til móts við fjölskyldur langveikra eða fatlaðra barna, sem hafa þurft að auka umönnun heima fyrir með tímabundnum greiðslum. Stutt verður við tómstundir barna af lágtekjuheimilum til að tryggja tækifæri þeirra til íþrótta- og frístundastarfs. Átak í náms- og starfsúrræðum fyrir atvinnuleitendur og sumarverkefni fyrir námsmenn eru í vinnslu. Þá er bætt í aðgerðir gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum. Röskun á rútínu getur reynst börnum sérstaklega erfið og rannsóknir hafa sýnt að ofbeldi eykst þar sem álag er mikið á fjölskyldur. Áhersla á stuðning við viðkvæma hópa er því gríðarlega mikilvæg á þessum sérstöku tímum.

Virkjum samtakamáttinn

Félagsleg verkefni eru flest ef ekki öll þess eðlis að þau verða ekki leyst nema í víðtæku samstarfi milli ríkis, sveitarfélaga, félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga.

Sem dæmi má nefna að til að fjármunir sem ætlað er að tryggja þátttöku barna og unglinga í skipulögðu íþróttastarfi nýtist, þarf ríkið að miðla fjármagni til sveitarfélaga, sem koma þeim til þarfra verka í samvinnu við stjórnir íþróttafélaga, þjálfara og tengiliði foreldra. Nú er mikil hætta á að börn flosni upp úr tómstunda- og frístundastarfi ef ekkert væri að gert. Með þessum stuðningsaðgerðum vilja stjórnvöld taka sérstaklega utan um þennan hóp og vinna gegn brottfalli úr tómstundastarfi, enda hefur það ótvírætt forvarnargildi og stuðlar að velferð.

Við höfum einmitt séð samtakamáttinn í kringum íþróttafélögin birtast í Facebook-leik, þar sem ungir sem aldnir heita styrkjum og styðja við bakið á sínu íþróttafélagi með framlögum til starfsins. Nýtum kraftin í kringum íþróttafélögin. Tækifærin til viðspyrnu liggja víða.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. maí 2020.