Categories
Fréttir Greinar

Lið fyrir lið

Deila grein

31/03/2023

Lið fyrir lið

Í gær var skrifað undir samninga milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkarinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári.

Á Íslandi eru tæplega 2000 manns á biðlista eftir liðskiptiaðgerð. Allt of margir á þeim lista hafa beðið of lengi eftir aðgerð þannig að sjúkdómsástandið er farið að skerða lífsgæði og draga verulega úr virkni. Góðu fréttirnar eru þær að við eigum fjölmarga hæfileikaríka skurðlækna hér á landi, öflugt heilbrigðisstarfsfólk og almennt góða aðstöðu til að framkvæma þessar aðgerðir. Við höfum því fulla burði til þess að stytta biðlista og halda í við hratt vaxandi þörf á liðskiptaaðgerðum til framtíðar. Samstillt átak og samvinna kerfisins í heild er forsenda þess að það gangi eftir.

Vaxandi þörf fyrir liðskiptaaðgerðir

Undanfarna áratugi hefur orðið mikil aukning í liðskiptaaðgerðum á heimsvísu og jókst uppsöfnuð þörf fyrir þessum aðgerðum einnig í heimsfaraldrinum. Algengast er að skipt sé um hné og næst algengast er að skipt sé um mjaðmir. Ein helsta undirliggjandi orsök þess að skipta þarf um lið er slitgigt en hún eykst með árunum. Við lifum lengur með slitgigtinni en við gerðum áður og því er þörf fyrir liðskiptaaðgerðir að aukast samhliða breyttri aldurssamsetningu. Aukin þróun og bætt tækni í bæði aðgerðum og gerviliðunum sjálfum hefur aukið möguleikann á liðskiptaaðgerðum fyrr á lífsleiðinni. Sökum þessa hefur aðgerðum einnig fjölgað í yngri aldurshópum. Það er alveg ljóst að þörfin fyrir liðskiptaaðgerðir mun halda áfram að aukast næstu árin og við þeirri þróun þarf að bregðast.

Jafnt aðgengi óháð efnahag

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé réttlætismál. Núverandi fyrirkomulag liðskiptaaðgerða gengur þvert á það markmið. Það er skýrt að óbreytt staða er ekki valmöguleiki. Þegar ekki eru til staðar samningar um þjónustukaup ríkis á einkarekinni heilbrigðisþjónustu sem þörf er á, höfum við ekki tök á að skipuleggja heilbrigðisþjónustu landsins heildstætt.

Ef stytta á bið eftir liðskiptaaðgerðum og á sama tíma mæta vaxandi þörf fyrir slíkum aðgerðum þarf markvisst að halda áfram að fjölga aðgerðum allra þjónustuaðila næstu árin. Til þess að ná því markmiði þarf að huga að mörgu í skipulagi þjónustunnar. Sérstaklega varðandi legurými og mönnun. Við verðum að nýta allt kerfið og virkja alla þjónustuaðila til að taka höndum saman og leysa þetta viðamikla verkefni.

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Í heilbrigðisþjónustu þarf sífellt að endurmeta skipulag og forgangsröðun til að bregðast við síbreytilegum þörfum þjóðfélagsins. Þegar kemur að þjónustukaupum hins opinbera þá er mikilvægt að hafa í huga heilsu og hag þjóðarinnar til lengri tíma. Hún verður ekki tryggð nema með jöfnu aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Allir sjúkratryggðir einstaklingar eiga að komast í liðskiptiaðgerð á ásættanlegum tíma án tillits til efnahags.

Það er vert að hafa í huga að sjúkratryggðir einstaklingar hafa heimildir til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli EES- samningsins ef ekki er hægt að veita þá þjónustu innan ákveðinna tímamarka hér á landi. Það þjónar ekki hagsmunum sjúklingsins og er ekki skynsamleg nýting á almannafé að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu erlendis sem hægt er að bjóða upp á hér á landi með hagkvæmari hætti.

Samvinna

Við búum svo vel að eiga hæft og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur ávallt að leiðarljósi að forgangsraða mannafla, fjármunum og aðstöðu í þágu einstaklingsins sem þarf á hjálp að halda. Hér er líka ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu og forgangsraðar fjármunum í þágu þess. Við erum lítið land og þurfum á því að halda að geta unnið saman í þágu fólksins í landinu. Ef allir leggja sitt af mörkum, stjórnvöld og þjónustuaðilar óháð rekstrarformi, er mögulegt að eyða biðlistum í liðskiptaaðgerðir og auka lífsgæði fjölmargra Íslendinga.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Heima er best

Deila grein

29/03/2023

Heima er best

Öldrun er ó­um­flýjan­legur hluti af lífinu, þegar við eldumst söfnum við að okkur þekkingu, lífs­reynslu og visku sem getur verið okkur sjálfum og öðrum dýr­mæt. Þakk­læti, sterkari og dýpri tengsl við fjöl­skyldu, vini og ást­vini og ekki síður oft og tíðum aukinn tími til að sinna á­huga­málum sem veita á­nægju og aukna lífs­fyllingu.

Það eru margir kostir sem fylgja því að eldast, en einnig á­skoranir. Með hækkandi aldri er ekki ó­senni­legt að fólk þurfi að­stoð og stuðning við dag­leg verk­efni, sér í lagi þegar heilsan tekur upp á að bregðast. Þörfin fyrir að­stoð verður stundum meiri með aldrinum og því er mikil­vægt að fólk hafi mögu­leika á að þiggja þjónustu sem það getur treyst á. Þjónustu sem eykur öryggi, lífs­gæði, vald­eflir og mætir þjónustu­þörf eins og best verður á kosið hverju sinni. Þegar við spyrjum eldra fólkið okkar út í óskir sínar eru svörin oftast á þá leið að ein­stak­lingurinn vill geta búið heima eins lengi og kostur er. En svo það sé mögu­legt verðum við að skapa að­stæður sem styðja við þeirra óskir.

Um mitt ár 2019 var undir­ritaður samningur milli Sjúkra­trygginga Ís­lands (SÍ) og Öldrunar­heimila Akur­eyrar (ÖA) sem fól m.a. í sér heimild til að hefja ný­sköpunar- og þróunar­verk­efni um sveigjan­leg dag­dvalar­rými. Þar var á­hersla lögð á þver­fag­lega teymis­vinnu til að skapa mark­vissa og öfluga starf­semi. Sveigjan­leg dag­dvöl sem var þjónusta alla daga, allan ársins hring sem að­lagaði sig þörfum ein­stak­lingsins. Á­hersla var lögð á að styðja not­endur dag­þjálfunar til sjálf­stæðis og sjálf­ræðis, á­samt því að efla færni og sjálfs­bjargar­getu heima og í dag­þjálfun.

Sveigjan­leg dag­þjálfun

Hug­mynda­fræði dag­þjálfunar eða dag­dvalar er að vera stuðnings­úr­ræði við eldra fólk sem býr í heima­húsum. Mark­miðið með þjálfuninni er að við­halda færni og getu fólks til að búa á­fram heima og er á­vinningurinn af því að koma í veg fyrir eða seinka vistun á hjúkrunar­heimili. Fjöl­breytni og sveigjan­leiki úr­ræða skiptir höfuð­máli og veitir sveigjan­leg dag­þjálfun marg­vís­legan á­vinning sem getur hjálpað til við að auka lífs­gæði.

Einn af helstu kostum þessarar þjónustu er mögu­leikinn til að hlusta á það sem eldra fólkið vill og sníða þjónustuna að þess á­herslum. Þjálfun sem þessi getur veitt veru­legan á­vinning m.a. með bættri and­legri og til­finninga­legri líðan. Fjöl­skyldu­með­limir eru oft og tíðum þeir aðilar sem bera á­byrgð á eldri ást­vinum sínum og það getur á tímum verið krefjandi.

Með því að nýta sveigjan­lega dag­þjálfun geta um­önnunar­aðilar dregið sig í hlé og sinnt sínum verk­efnum á sama tíma og þeir vita að ást­vinir þeirra fá þá um­önnun sem þörf er á. Þá hefur fé­lags­leg ein­angrun verið vanda­mál meðal eldra fólks, sér­stak­lega þeirra sem búa einir eða hafa tak­markaða hreyfi­getu. Með sveigjan­legri dag­þjálfun aukast sam­skipti við aðra sem getur hjálpað til við að koma í veg fyrir ein­mana­leika, kvíða og þung­lyndi.

Verk­efnið hefur skilað árangri

Verk­efnið hefur skilaði sýni­legum árangri, það er ó­tví­ræður á­vinningur af sveigjan­legri dag­þjálfun í formi bættra lífs­gæða fyrir not­endur og fjöl­skyldur þeirrar. Not­endur, að­stand­endur og starfs­fólk eru að mestu sam­mála um að úr­ræðið hafi bætt and­lega líðan og hafi stuðlað að við­heldni og jafn­vel fram­förum í líkam­legri færni og getu. Úr­ræðið er nú þegar orðinn mikil­vægur hlekkur í þróun milli­stigsúr­ræða í þjónustu við aldraða.

Rauði þráðurinn í niður­stöðum framan­greinds ný­sköpunar- og þróunar­verk­efnis var að um­sóknum um hjúkrunar­rými fækkaði. Þátt­tak­endum fannst þeir fá þjónustu sem veitti þeim tæki­færi til að geta búið lengur heima við öryggi, þar sem þeim var tryggð sú að­stoð sem þeir þurftu á að halda.

Þá upp­lifðu að­stand­endur þeirra sem tóku þátt í verk­efninu einnig aukið öryggi. Hér er um að ræða þjónustu sem festa þarf í sessi til fram­tíðar.

Vilji til að þjónusta eldra fólk

Sam­setning mann­fjöldans á Ís­landi er að þróast á þann veg að hlut­fall eldra fólks hækkar frá því sem áður var og við þurfum að tryggja að kerfin okkar verði til­búin til þess að styðja við þennan stækkandi hóp. Það getum við gert með því að koma til móts við fólk með fjöl­breyttum úr­ræðum og þjónustu. Ný við­horf í þjónustu við eldra fólk þar sem á­hersla er lögð á aldurs­vænt og styðjandi sam­fé­lag munu leiða okkur að betri sam­fellu og sterkari heildar­sýn fyrir þjónustu við eldra fólk.

Á­vinningurinn af að­gerðum sem þessum dregur úr á­lagi á ýmsum sviðum heil­brigðis­mála eins og t.d. heilsu­gæslu, fé­lags­þjónustu og hjúkrunar­heimilum. Auk þess með því að veita eldra fólki þjónustu við hæfi og þörf hverju sinni verða meiri líkur á auknum lífs­gæðum og sjálf­stæði eldra fólks.

Mark­miðið stjórn­valda er að bæta lífs­gæði eldra fólks með því við­halda færni og virkni ein­stak­lingsins og þar spila for­varnir, heilsu­efling og endur­hæfing stóran þátt í heil­brigðri öldrun þjóðarinnar. Það sýnir sig einna best í þings­á­lyktunar­til­lögu sem er nú í með­förum Al­þingis.

Um er að ræða að­gerða­á­ætlun um þjónustu við eldra fólk sem ætlað er að vera leiðar­vísir fyrir stjórn­völd til að skapa skýra fram­tíðar­sýn um hvaða leiðir verði farnar til að bæta þjónustu við eldra fólk og vinna heildar­stefnu sem felur í sér að eitt þjónustu­stig taki hnökra­laust við af öðru, að á­byrgð á þjónustu­þáttum milli aðila sé skýr og að gráum svæðum verði út­rýmt.

Um er að ræða að­gerða­á­ætlun til fjögurra ára og er mark­miðið að tryggja að eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heima­þjónustu á vegum sveitar­fé­laga eða heil­brigðis­þjónustu.

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 29. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Stutt við þolendur heimilisofbeldis

Deila grein

29/03/2023

Stutt við þolendur heimilisofbeldis

Heimilisofbeldi er óásættanlegt samfélagslegt mein. Fólk af öllum kynjum verður fyrir heimilisofbeldi og því miður eru tilfellin allt of mörg. Mikilvægt er að þolendur heimilisofbeldis fái jafnt og greitt aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu og stuðning eins fljótt og auðið er. Þjónustu sem er skipulögð með hagsmuni þolenda að leiðarljósi.

Breytingar á þessum málaflokki hafa staðið yfir í ráðuneytinu í nokkur ár. Skýrsla Finnborgar Salome Steinþórsdóttur um kynja- og jafnréttissjónarmið í heilbrigðisþjónustu frá árinu 2021 var kveikjan að því að leggja mat á heilbrigðisþjónustu varðandi kynbundið ofbeldi, skýra verkferla og bæta úrræði. Skipaður var þverfaglegur starfshópur sem var falið að móta samræmt verklag vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis sem sækja þjónustu á heilbrigðisstofnanir landsins. Síðan þá hefur fjölmargt unnist, í góðu samstarfi milli ráðuneyta og stofnanna. Þar má m.a. nefna að samstarf við ríkislögreglustjóra við útfærslu rafrænnar samskiptagáttar milli heilbrigðiskerfis og lögreglunnar er hafið. Þá hafa félagsráðgjafar og sálfræðingur sem sérstaklega voru ráðnir vegna innleiðingar verklags við móttöku þolenda heimilisofbeldis hafið störf. Einnig hefur sálfræðiþjónusta við þolendur og gerendur í kynferðisbrotamálum verið aukin og hafin er gerð fræðsluefnis og kennslumyndbanda sem mun nýtast víða. Meðal annars við kennslu í háskólum en þörf er á aukinni þekkingu á málaflokknum.

Fljótlega verður innleitt nýtt samræmt verklag við móttöku þolenda heimilisofbeldis í heilbrigðisþjónustu. Verklagið miðar að því að ná á heildstæðan hátt utan um þarfir einstaklingsins. Meðal annars er tenging við félagsráðgjafa og áfallateymi sem getur veitt viðeigandi sálrænan stuðning og mögulega meðferð við áfallastreitu ef þörf krefur. Einnig er boðin tenging við lögmann í viðeigandi málum ef til að mynda um kynferðisbrot er að ræða. Innleidd verður samræmd skráning á þessum málum og leitast við að einfalda allar boðleiðir. Verklagið á að vera til þess fallið að aukagæði þjónustunnar og tryggja samræmi, sanngirni og jafnræði.

Samhliða umbótum á verklagi liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingu breytingum á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Markmið breytingarinnar er að skýra heimild heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna heimilisofbeldi til lögreglu. Tilkynningin yrði gerð í samráði við sjúkling og er heilbrigðisstarfsfólki þá heimilt að miðla til lögreglu þeim upplýsingum sem eru taldar nauðsynlegar í þeim tilgangi að tryggja nauðsynlega vernd og stuðning.

Samkvæmt íslenskum rannsóknum kemur kona annan hvern dag á bráðamóttökuna á Landspítala vegna líkamlegra áverka í kjölfar heimilisofbeldis. Þá eru ótaldar komur á aðrar heilbrigðisstofnanir, heilsugæslu og til annars heilbrigðisstarfsfólks. Þessar tölur vekja óhug og draga fram þörf fyrir aukinn stuðning, vandaða verkferla og þéttari samvinnu. Ég bind von við að þessar breytingar, sem unnar hafa verið af miklum samtakamætti, skili sér í auknum stuðning við þolendur og öruggara samfélagi.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst 29. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Strand­veiðar eitt skref á­fram, tvö aftur­á­bak

Deila grein

29/03/2023

Strand­veiðar eitt skref á­fram, tvö aftur­á­bak

Matvælaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að hverfa aftur til þess fyrirkomulags strandveiða sem var hér fyrir árið 2018. Það er að segja að aflaheimildum sem ráðstafað er til strandveiða verði skipt upp í fjögur landssvæði. Auk þess er lagt upp með að aflaheimildir hvers landssvæðis og tímabils geti verið innan sama svæðis flutt yfir á næsta tímabil innan fiskveiðiársins. Það þýðir að hvert svæði getur geymt þær aflaheimildir sem ekki tókst að ná á land í þeim mánuði sem liðinn er yfir á næsta mánuð.

Mikil vinna var lögð í þær breytingar sem gerðar voru á kerfinu árið 2018 þar sem landið varð eitt svæði. Helstu breytingar sem þá voru gerðar voru að veiðidagar urðu bundnir við 12 daga í hverjum mánuði á hvern bát þessa fjóra mánuði strandveiðitímabilsins og gilti það meðan hámarksafla væri náð. Einnig var ákvæði sem heimilaði strandveiðibátum að landa ufsa sem VS-afla og sá afli myndi þá ekki teljast til viðmunar inn í hámarksafla. Þær breytingar sem voru gerðar voru með stuðningi landssambands smábátaeiganda en vissulega voru háværar raddir um að þetta yrði dauðadómur yfir kerfinu þar sem bátar myndu flykkjast á A- svæðið til þess að veiða þar sem það gæfi meira af sér og heimildir tímabilsins myndu nást strax á fyrstu tveimur mánuðunum.

Breytingar breytinganna vegna

Smábátasjómenn hafa eðli máls samkvæmt mikla skoðun á kerfinu, ekki bara tengt svæðum heldur einnig á flestum útfærslum þess. En svarið við þeirra athugasemdum ætti þó ekki að vera að kollvarpa núverandi kerfi og í raun að taka þá áhættu að markmið kerfisins í heild sé sett í hættu.

Áform matvælaráðherra er að hverfa til fyrra horfs sem veldur í raun meiri misskiptingu milli landssvæða en núverandi kerfi bíður upp á. Ekki er útfært í frumvarpinu hvernig aflaheimildum verði skipt milli landssvæða eða hvaða aðferðum verði beitt við að reikna það út. Erfitt getur reynst að finna út hvaða magn á að fara inn á hvert svæði.

Áður en breytt var úr skiptingu yfir í einn pott gat mismunur á milli svæða verið allt frá 6 dögum en á öðrum 20 dagar og nú hefst aftur kapphlaupið á miðin með ófyrirséðum afleiðingum.

Útkoman alltaf háð óvissu

Árið 2020 tók Byggðastofnun út þær breytingar sem voru gerðar tveimur árum fyrr. Almennt voru svarendur ánægðir með kerfið og þær breytingar sem höfðu verið gerðar. Vestlendingar og Vestfirðingar voru hvað ánægðastir með breytingarnar sem gerðar höfðu verið á strandveiðikerfinu, en Norðlendingar og Austfirðingar síður ánægðir þó meirihluti þeirra taldi þó breytingar á kerfinu til bóta. Ýmsar ábendingar komu fram til þess að bæta kerfið enn betur. Nú hefur matvælaráðherra skipað samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu og hefur hún ekki lokið vinnu sinni og því er það úr takt að koma fram með þetta frumvarp á meðan sú vinna stendur yfir.

Að vori er ávallt óvissa hvernig strandveiði komi til með að verða að sumri. Ytri aðstæður er ekki hægt að festa í lög. Veðurfari, gæftum og fiskgengd væri gott að geta stjórnað en það er því miður ekki í boði. Nú ætti að vera að fara í hönd sjötta sumarið eftir að þessa breytingar voru gerðar. Farsælast væri að í haust væri tekið út hvernig til hafi tekist og hvað mætti betur fara í stað þess að rykkja í bakkgírinn án þess að stíga á kúplinguna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Það þarf að ganga í verkin!

Deila grein

28/03/2023

Það þarf að ganga í verkin!

Það eru mörg verkefnin á hverjum tíma sem við sem þjóð þurfum að leysa, en okkur gengur misvel að leysa þau hratt og örugglega. Það á einna helst við innan þess opinbera og þörf er á því að breyta áherslum með það að markmiði að auka skilvirkni í kerfinu og leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir í stað þess að vera sífellt að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru á hverjum tíma.

Stjórnvöld hafa úrslitavaldið í mörgum málum, en það er eins og kerfið glími við ákveðna ákvörðunarfælni þegar kemur að ýmsum málum. Í því samhengi má velta fyrir sér hvort stjórnvöld hafi sett sér of íþyngjandi reglur þegar kemur að minnstu málum, allt þarf að rannsaka og rýna ofan í kjölinn með tilheyrandi töfum. Þá er einnig mörgum rangfærslum haldið á lofti í fjölmiðlum og í umræðunni sem flækja málin og verða til þess að þau tefjast enn frekar. Í þessu samhengi langar mig að benda á mál sem krefjast tafarlausra úrlausna en hafa þó beðið fullnaðarafgreiðslu í alltof langan tíma.

Sameining í kjötiðnaði

Það hefur legið fyrir um tíma að staða bænda hefur farið versnandi á síðustu árum og það hefur verið margrætt en lítið að gert. Rekstrargrundvöllurinn er hverfandi með hverjum mánuði, nýliðun er lítil sem engin og bændur kalla ítrekað eftir aðgerðum til að koma starfsgreininni aftur í fyrra horf. Nú hafa okkur borist fréttir að nýjar greiningar bendi til þess að stefnu skorti við framleiðslu á íslensku, svína-, nautgripa- og kindakjöti. Það þvert á markmið ríkisstjórnarinnar um að styðja við bændur og tryggja fæðuöryggi landsins til framtíðar.

Sá sem hér skrifar hefur ásamt fleiri aðilum ítrekað bent á þau tækifæri sem fólgin eru í sameiningu afurðastöðva. En með slíkum aðgerðum er hægt að ná fram sambærilegri hagræðingu og hefur náðst í kringum mjólkuriðnaðinn. Þeir sem starfa innan kjötiðnaðarins hafa bent á að slík hagræðing geti komið rekstrargrundvelli bænda aftur á réttan kjöl eftir erfiða tíma og myndi að öllum líkindum skila sér til neytenda í formi lægra verðs og bættri afkomu bænda. Af hverju er þessi leið ekki farin?

Orkuþörfin

Þá liggur það fyrir að við þurfum meiri orku, bæði til þess að mæta markmiðum okkar um kolefnishlutleysi og orkuskipti en einnig til fylgja eftir náttúrulegri fólksfjölgun ásamt því að styðja við hagvöxt. Við erum öll meðvituð um orkuþörfina, sem mun aðeins aukast í náinni framtíð. Hins vegar virðist vera talsverð tregða við að hefja framkvæmdir á nýjum virkjunum og ferlið er allt of þungt í vöfum. Sem dæmi má nefna Hvammsvirkjun, en það hefur tekið 16 mánuði að fá framkvæmdaleyfi fyrir henni og hún er svo sannarlega ekkert einsdæmi í kerfinu. Ef við ætlum okkur að ná settum markmiðum og tryggja áframhaldandi hagvöxt í landinu þá þurfum við að fara tala minna og vinna meira. Það er alltaf hægt að skoða og rýna, gera stefnur og ferla, en núverandi staða krefst skjótrar ákvarðanatöku.

Gangnagerð

Greiðar samgöngur eru forsendur vaxta og eru lífæðar hvers samfélags, sér í lagi fyrir hinar dreifðari byggðir þar sem góðar samgöngur eru forsenda þess að byggja upp öflugt atvinnulíf á hverju svæði fyrir sig. Íbúar á landsbyggðinni vita allt um erfiðar samgöngur, en það veltur á veðráttu þann daginn hvort hægt sé að ferðast milli staða. Oft þarf yfir erfiða fjallvegi að fara með tilheyrandi vandkvæðum og mörg svæði bíða eftir jarðgöngum til þess að tryggja betri samgöngubætur. En það kostar að fara í framkvæmdir sem þessar og því þarf að forgangsraða verkefnum með þeim afleiðingum að lítið gerist. Fjöldi gangna hafa beðið talsverðan tíma án hreyfingar og það tekur áratugi fyrir göng að raungerast frá hugmynd þar til hægt er að taka þau í notkun.

Við þurfum að horfa til þeirra nágrannaríkja okkar sem standa okkur framar í þessum efnum og sjá hvernig þau bregðast við sömu áskorunum, hvort sem það snýr að forvinnu vegna ganga eða að fjármögnun. Í því samhengi vil ég einnig hvetja lífeyrissjóðina til þess að taka þátt í samfélagslega arðbærum verkefnum en við þurfum að vera duglegri að nýta okkur samvinnuverkefni PPP í auknum mæli. Ég er er tilbúin til þess að greiða leið fleiri verkefna í gegnum Alþingi með þeim hætti. Það gengur ekki að íbúar bíði fjórðung lífs síns eftir göngum og öðrum samgöngubótum í sínu nærumhverfi.

Munurinn milli okkar og Norðmanna

Stór munur er á milli Íslands og nágrannaþjóða okkar. Hann grundvallast í framkvæmdatíma, það er að það sem tekur Íslendinga talsverðan tíma að klára tekur t.d. Norðmenn mun styttri tíma. Norðmenn eru gott dæmi, en þó fjárhagslegar aðstæður þeirra eru betri þá er munurinn aðallega fólginn í því að ákvarðanir eru teknar fyrr. Ef fiskeldisleyfi eru sérstaklega tekin til álita þá er furðulegt að hér á landi taki 8 ár að veita fiskeldisleyfi þegar það tekur að hámarki 26 mánuði í Noregi. Þetta kemur fjárhagsaðstæðum ekkert við. Rannsóknir taka minni tíma. Öll skoðun og vinna fram að leyfisveitingu tekur mun minni tíma. Þessi mismunur einskorðast ekki við veitingu leyfa. Við þurfum að finna punktinn í ferlinu þar sem tregða við að taka lokaákvörðun myndast og breyta áherslum.

Við þurfum að fara að ganga í þau verk sem fyrir okkur liggja og láta þau raungerast, framkvæmdarleysi, of mikið tal og ákvörðunarfælni leiðir til stöðnunar og þar vill engin vera.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Gul viðvörun í húsnæðiskortinu

Deila grein

28/03/2023

Gul viðvörun í húsnæðiskortinu

Nýverið kynnti seðlabankastjóri tólftu stýrivaxtahækkunina í röð. Peningastefnunefnd ákvað að hækka stýrivexti um heila prósentu og flestir landsmenn, ef ekki allir, eru nú orðnir meðvitaðir um það hvaða afleiðingar þetta hefur á rekstur heimila. Stýrivaxtahækkanir og verðbólga hækka lánin, matarkarfan er orðin dýrari, tryggingar hafa hækkað og veski landsmanna léttist í takt. Þær jákvæðu fréttir bárust hins vegar í morgun að verðbólgan virðist vera að þokast niður.

Einn fyrir alla, allir fyrir einn

Afleiðingar af þessum hækkunum eru auðvitað margþættar. Þetta er þungt högg fyrir marga en hefur kannski hvað mest áhrif á einstaklinga og húsnæðismarkaðinn, sérstaklega þá sem eru að taka sín fyrstu skref hvað varðar húsnæðiskaup, starfsframa og stofnun fjölskyldu. Ungt fólk á varla möguleika í núverandi aðstæðum. Fjölmargir berjast í bökkum við að eiga fyrir afborgunum og sumir neyðast jafnvel til að selja eignir sem þó getur reynst erfitt líkt og markaðurinn er í dag. Þessi þróun mun að öllu óbreyttu halda áfram þegar fastir vextir óverðtryggðra lána renna sitt skeið.

Hlutfall fyrstu kaupenda á fasteignamarkaðnum hefur dregist verulega saman og er það bein afleiðing aðgerða Seðlabankans sem ég hef margoft bent á. Þetta er vond þróun og húsnæðismarkaðurinn sem hefur verið í mikilli grósku undanfarin ár er nú botnfrosinn. Seðlabankanum hefur tekist ætlunarverkið sem var að kæla markaðinn, en við verðum að spyrja okkur að því hvernig við ætlum að bregðast við í nútíð og til framtíðar. Á tímum hækkandi verðbólgu og vaxta stoppar lífið samt sem áður ekki og við sjáum margt fólk, ungt fjölskyldufólk og aðra fyrstu kaupendur í fullkominni pattstöðu. Fólk verður áfram að finna sér heimili en húsnæðisverð, lánakjör og aðrar aðstæður leyfa það ekki.

Hvað er til ráða?

Það gefur augaleið að grípa þurfi fyrstu kaupendur og gera sérstakar ráðstafanir til að leysa þann hnút sem við erum komin í. Til viðbótar þurfum við auðvitað að hafa skýra sýn á uppbyggingu húsnæðis til framtíðar. Ég hef áður skrifað og rætt um ýmsar leiðir til að bregðast við stöðunni og ég er farin að upplifi mig sem rispaða plötu. Við þurfum á einhverjum tímapunkti að horfa til rýmkunar á reglum og kröfum hvað varðar veitingu hlutdeildarlána til fyrstu kaupenda. Við þurfum núna að breyta reglum er varða veðsetningu lána fyrstu kaupenda svo að auðveldara sé að festa kaup á húsnæði. Við þurfum núna að greina umhverfi framkvæmdaðila og mér þykir líklegast að nauðsynlegt sé að ráðast í sértækar aðgerðir fyrir þá sem fyrirhuga byggingu hagkvæmra íbúða á næstu mánuðum og má þar horfa til sérstakra, og tímabundna, lánaskilmála hjá fjármálafyrirtækjum. Þetta væri þá sú sértæka aðgerð sem þyrfti til svo til tryggja megi nauðsynlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis til framtíðar og koma í veg fyrir fyrirsjáanlega stöðnun. Þá ákalla ég lífeyrissjóðina um að koma inn með öflugri hætti og taka þátt í uppbyggingu heilbrigðs leigumarkaðar. Þurfi til þess lagabreytingu þá er það okkar þingmanna að bregðast þar við.

Ég er full meðvitaður um þann línudans sem þetta er á tímum hárra vaxta og verðbólgu, en núverandi ástand mun einungis leiða til hærra leiguverðs og auka þrýsting á mjög hátt fasteignaverð þegar núverandi ástandi slotar.

Það eru ýmis verkfæri til staðar og spurningin er að nýta þau. Ég er tilbúinn til þess að vinna að lausn mála og kalla á fleiri til að vera með mér í því liði.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Eigum við ekki að láta græðgina eiga sig

Deila grein

28/03/2023

Eigum við ekki að láta græðgina eiga sig

Vegna ummæla sem látin voru falla í Bítinu á Bylgjunni nú í gærmorgun um að fólk þurfi annað hvort að rísa upp eða gefast upp í því ástandi sem nú ríkir á markaðnum, fannst mér tilvalið að setjast niður og skrifa nokkra punkta inn í umræðuna. Þessi ummæli eru nefnilega ekki til þess fallin að skapa einingu í samfélaginu, heldur þvert á móti til að skapa sundrung og stefna ólíkum hópum upp á móti hverjum öðrum.

Verðbólgan liggur eins og mara á þjóðinni sem virðist aldrei ætla að hypja sig. Þegar við horfum fram á verkefni sem eru jafn þung og þetta, sem nú eru uppi, er afar mikilvægt að horft sé í lausnir og leitað sé leiða um það hvernig og hvar við höfum tök á að stíga niður fæti. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í síðustu viku um heilt prósentustig og standa þeir núna í 7,5%. Hér er um að ræða ákvörðun sem hefur víðtæk áhrif á samfélagið í heild, á heimilin í landinu, fyrirtækin og verð á matvöru svo dæmi séu tekin. Staðan er þegar orðin verulega krefjandi en umræða um að enginn sé að gera neitt og að enginn ætli sér að gera neitt er hættuleg og verulega óupplýsandi. Við þurfum öll að finna til ábyrgðar þegar kemur að umræðunni, nálgast hana á ábyrgan hátt og láta allan hræðsluáróður eiga sig.

Vaxtakvíði

Framundan er eftir sem áður að leysa stöðuna og þá þarf að horfa til þess hvað sé til ráða? Eigum við að hækka skatta á þá sem minnst mega við því, til þess eins að tryggja útgjaldahlið ríkissjóðs? Að mínu viti er þar engum greiði gerður!

Við vitum að ástandið í samfélaginu hefur gert fólki erfiðara um vik við að komast inn á fasteignamarkaðinn. Það skýrist einna helst af þyngri greiðslumatsskilyrðum og hærri eiginfjárskilyrðum sem Seðlabankinn tók ákvörðun um á síðasta ári, með það að markmiði að kæfa markaðinn og stöðva gífurlegar hækkanir á fasteignaverði sem hafa verið fordæmalausar síðustu árin. Ef þessar aðgerðir skila því sem áætlað er að þær skili, þá er það gott og vel. En við þurfum líka að muna að Róm var ekki byggð á einum degi. Árangur af þessum aðgerðum getur tekið tíma að skila sér þannig að fundið sé fyrir því.

Heimilin í landinu eru einnig farin að finna vel fyrir hækkunum á greiðslubyrði af húsnæðislánum sökum hækkandi vaxta. Kvíði er farinn að myndast hjá þeim sem þó náðu að festa vextina á lánunum sínum á hagstæðum tíma. Fastvaxtatíminn er fljótur að líða og búast má við töluverðri snjóhengju þegar þeim fastvaxtatíma líkur. Það er afar stórt stökk að fara úr 3% föstum vöxtum yfir í 8% vextina sem í boði eru í dag og má því búast við töluverðu höggi.

Samfélagsleg ábyrgð á öllum vígstöðum

En tölum aðeins um samfélagslega ábyrgð. Eru allir aðilar í samfélaginu virkilega nauðbeygðir til að nýta sér í hvert sinn allan þann vaxtahækkunarramma sem myndast við hækkun stýrivaxta? Þarf matarkarfan að hækka í hvert sinn og þarf alltaf að hækka vextina á húsnæðislánin okkar? Miðað við fjárhagsstöðu stórfyrirtækjanna og arðgreiðslurnar, afkomuhagnað bankanna og þau laun sem þeir hafa tök á að greiða stjórnarformönnum sínum er svarið einfaldlega NEI! Hvers vegna skila þessar gríðarlegu hækkanir sér aldrei til neytandans? Hvar er samfélagslega ábyrgðin ef hún er yfir höfuð til staðar?

Þjónustugjöld virðast fara vaxandi á öllum stöðum í samfélaginu. Þó bólar ekkert á aukinni þjónustu tengdri hækkuninni. Þvert á móti virðist þjónustan hægt og bítandi vera að færast alfarið yfir í netheima með tilheyrandi sjálfsafgreiðslum. Tökum sem dæmi gerð greiðslumats. Áður fyrr fór þessi þjónusta í gegnum þjónustufulltrúa bankanna. Í dag er þessi vinna öll sett í hendur neytandans í gegnum sjálfsafgreiðslukerfi á þeirra svæðum. Neytandinn hefur greiðslumatsferli í gegnum sinn netbanka, hakar í að afla megi upplýsinga frá Creditinfo um stöðu hans yfir tekjur og skuldir og bætir svo við tilfallandi auka liðum ef þörf er á. Þessi vinna kostar neytandann 10.000 kr. sem þýðir að hann greiðir þessa upphæð fyrir að þjónusta sig alfarið sjálfur. Hvenær er komið nóg?

Sýnum samstöðu

Hræðsluáróður skapar glundroða í samfélaginu og þegar slík staða kemur upp, horfum við fram á að rökræn nálgun á verkefnið sem framundan er, gæti staðið höllum fæti ef skrefin eru ekki varfærnislega stigin og allir fara saman inn í þetta, gangandi í takt. Sagan sýnir okkur að efnahagskrísa skapar sundrung en ekki sameiningu og því þurfum við að breyta. Við þurfum að sýna samstöðu og nálgast þetta sem ein heild. Við búum hér á landi saman og verðum því öll að finna til okkar samfélagslegu ábyrgðar og hjálpast að við að reisa samfélagið upp aftur. Það verðum við að gera saman.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Íslenskan á öld gervigreindarinnar

Deila grein

27/03/2023

Íslenskan á öld gervigreindarinnar

Mál­efni gervi­greind­ar hafa verið tals­vert í þjóðfé­lagsum­ræðunni hér í landi í kjöl­far þess að banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI, eða Opin gervi­greind á ís­lensku, til­kynnti að tungu­málið okk­ar hefði verið valið í þró­un­ar­fasa fyr­ir nýj­ustu út­gáfu gervi­greind­ar­mállík­ans­ins GPT-4, fyrst allra tungu­mála fyr­ir utan ensku. Þetta þýðir að við get­um átt sam­ræður við líkanið á ís­lensku og spurt það spjör­un­um úr um hin ýmsu mál­efni og fengið svör á ís­lensku. Þessi ákvörðun fyr­ir­tæk­is­ins var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir menn­ingu okk­ar og þá miklu heima­vinnu sem lagst hef­ur verið í hér á landi til að gera þetta mögu­legt.

Ný­verið ritaði Bill Gates, einn stofn­enda Microsoft, grein þar sem hann fer yfir að öld gervi­greind­ar­inn­ar sé runn­in upp og að tækn­in eigi eft­ir að hafa mikl­ar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar í för með sér. Þannig rek­ur hann hvernig gervi­greind­in eigi eft­ir að breyta störf­um fólks, námi, ferðalög­um, heil­brigðisþjón­ustu og sam­skipt­um svo dæmi séu tek­in. Hann nefn­ir meðal ann­ars að til­koma gervi­greind­ar­inn­ar sé jafn bylt­ing­ar­kennd og til­koma farsím­ans, al­nets­ins og einka­tölv­unn­ar.

Það skipt­ir máli að Ísland verði ger­andi og taki virk­an þátt í þróun og inn­leiðingu yf­ir­stand­andi tækni­breyt­inga til þess að bæta sam­fé­lagið en á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið stór og fram­sæk­in skref til þess að huga að þess­um breyt­ing­um með ein­mitt það í huga. Má þar til að mynda nefna stefnu Íslands um gervi­greind sem var unn­in árið 2021 að beiðni for­sæt­is­ráðherra. Þar var mótuð skýr framtíðar­sýn um hvernig ís­lenskt sam­fé­lag geti unnið með gervi­greind, öll­um til hags­bóta. Í stefn­unni er meðal ann­ars farið yfir ýmsa snertifleti gervi­greind­ar við ís­lenskt sam­fé­lag, til að mynda rétt­indi Íslend­inga gagn­vart nýrri tækni, þau gildi sem hafa þarf til hliðsjón­ar við inn­leiðingu henn­ar og hvernig leysa beri úr álita­mál­um henni tengdri.

Það skipt­ir höfuðmáli að mann­fólkið stjórni tækn­inni en ekki öf­ugt. Eitt af þeim stóru atriðum sem Bill Gates ræðir meðal ann­ars í grein sinni er mik­il­vægi þess að gervi­greind­in sé nýtt til góðs en ekki til ill­virkja. Þar hef­ur hann svo sann­ar­lega lög að mæla.

Segja má að eitt fram­sækn­asta skref sem stjórn­völd hafa stigið í seinni tíð hafi verið að fjár­festa í mik­il­væg­um innviðum á sviðum mál­tækni í gegn­um fyrstu mál­tækni­áætl­un stjórn­valda og und­ir­byggja þannig að ís­lensk­an gæti orðið gjald­geng í heimi tækn­inn­ar. Þannig var Ísland virk­ur ger­andi í því að þróa tækni til hags­bóta fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki hér á landi sem og er­lend­is og leggja sitt af mörk­um til þess að auka nota­gildi gervi­greind­ar á okk­ar eig­in for­send­um. Eft­ir þessu var meðal ann­ars tekið þegar ég, ásamt for­seta Íslands og sendi­nefnd, heim­sótt­um OpenAI í fyrra og töluðum máli ís­lensk­unn­ar. Það er sann­ar­lega ánægju­legt að sjá ár­ang­ur vinnu und­an­far­inna ára skila sér með fyrr­nefnd­um hætti. Við þurf­um hins veg­ar að halda áfram að standa vakt­ina og tryggja að tækn­in skili okk­ur bætt­um lífs­kjör­um á okk­ar for­send­um.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Samvinna fyrir betra heilbrigðiskerfi

Deila grein

24/03/2023

Samvinna fyrir betra heilbrigðiskerfi

Sjúkratryggingar Íslands óskuðu á dögunum eftir tilboðum frá einkaaðilum innan heilbrigðisgeirans til að framkvæma liðskiptaaðgerðir á mjöðmum og hnjám. Í síðustu viku bárust góðar fréttir frá Sjúkratryggingum Íslands sem opinberuðu hvaða tilboð voru samþykkt og meginfyrirkomulag samninga en fjögur tilboð bárust stofnuninni. Um er að ræða tilboð í allt að 700 aðgerðir sem munu bæta lífskjör einstaklinga til muna. Þessi aðgerð er að frumkvæði Willum Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra og hefur það að markmiði að stytta biðlista fyrir liðskiptaaðgerðir.

Aðgerðir stjórnvalda

Stjórnvöld hér á landi hafa lagt kapp á að framfylgja þeirri stefnu að bjóða öllum hér á landi upp á nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, enda er það ein af meginstoðum þess að búa til gott velferðarsamfélag. Þróun samfélagsins og aukin eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu hefur leitt til þess að bregðast þarf við með nýjum áherslum innan heilbrigðiskerfisins. Ef við ætlum okkur að ná að framfylgja þeirri þjónustu sem kallað er eftir þurfa stjórnvöld að finna jafnvægi í blönduðu heilbrigðiskerfi í þágu einstaklingsins.

Ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á eflingu heilbrigðiskerfisins á þessu kjörtímabili. Fjárframlög til heilbrigðismála hafa aukist verulega sem endurspeglar aftur forgangsröðun og áherslur stjórnvalda, en lagt var til 12 milljarð króna viðbótarframlag til heilbrigðismála við síðustu fjárlög til þess að styrkja heilbrigðiskerfið. Fjárframlögin eru til þess fallin að mun betur er hægt að leysa þau mörgu verkefni sem blasa við. Ofangreindir samningar eru meðal þeirra aðgerða sem þörf var að fara í enda um mjög brýnt mál að ræða. Það er ótækt að láta fólk bíða lengi eftir nauðsynlegum aðgerðum sem hamla lífsgæði og draga úr virkni. Stjórnvöld eru með þessu að leita leiða til að stytta biðlista og koma fólki, sem þarf á ákveðinni þjónustu að halda, aftur í fyrra form. Bið eftir liðskiptiaðgerðum síðustu ár hefur verið allt of löng meðal annars vegna uppsafnaðar þarfar auk þess sem heimsfaraldurinn spilaði þar einnig stórt hlutverk.

Framsókn hefur lengi beitt sér fyrir bættri heilbrigðisþjónustu óháð efnahag eða búsetu. Þjónustan þarf að vera í samræmi við aðstæður, möguleika og vilja hvers og þá þarf að horfa til þess að halda kostnaðarþáttöku eins lágri og hægt er. En það er eitt að segja það og annað að framkvæma. Við í Framsókn höfum haldið okkar stefnu sem við lögðum upp með í síðustu alþingiskosningum á lofti og unnið í átt að auknum framlögum ríkisstjórnarinnar til heilbrigðismála og stefna Framsóknar í heilbrigðismálum endurspeglast nú með þessum samningum.

Tækifæri utan stofnana

Samvinna er vænlegust til árangurs hvað varðar forvarnir, lýðheilsu, geðheilbrigðisþjónustu, öldrunarþjónustu og nær allra þá þjónustu sem varðar heilbrigði þjóðarinnar. Meðal þeirra stefnumála sem Framsókn setti í fararbrodd fyrir síðustu kosningar var að stórefla heilbrigðisþjónustu utan sjúkrastofnana. Við sjáum í verki hversu vel það reynist heilbrigðisþjónustu landsins að stuðla að frekara samspili innan blandaðs heilbrigðiskerfis. Tvö dæmi um það eru nýlegir samningar um kaup á endómetríósuaðgerðum og liðskiptaaðgerðum. Þessir samningar eru gott dæmi um hvernig hægt er að bæta kerfið til muna með auknu samstarfi með heilbrigðisþjónustuaðila utan hins opinbera. Samningarnir um kaup á endómetríósuaðgerðum eru dæmi um mikilvægt skref í átt að styttingu biðlista og jöfnun aðgengi. Of margar konur hafa glímt við einkenni endómetríósu í of langan tíma, og það er mikið fagnaðarefni að þær fá loksins nauðsynlega þjónustu.

Nú er komið að liðskiptunum, en undirrituð trúir ekki öðru en að báðir þessir samningar geta reynst fordæmi til framtíðar um hvernig samvinna heilbrigðisstarfsmanna, bæði innan og utan hins opinbera, getur skipt sköpum fyrir sjúklinginn sjálfan, enda á hann ávallt að vera í forgrunni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokkformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. mars 2023.

Categories
Greinar

Mun unga fólkið okkar fjárfeta í húsnæði í Móahverfi?

Deila grein

24/03/2023

Mun unga fólkið okkar fjárfeta í húsnæði í Móahverfi?

Akureyrarbær auglýsir nú útboð lóða í fyrsta áfanga Móahverfis og fagna ég því að sjá þar birtast áherslur Framsóknarfólks í húsnæðismálum. Í samræmi við rammasamning ríkis og sveitarfélaga þar sem kveðið er á um að 30% húsnæðis eigi að vera hagkvæmt húsnæði eru sett skilyrði um að 20% af þeim íbúðum sem byggðar verði í fjölbýlishúsnunum eigi að falla undir skilmála hlutdeildarlána.

Eins og sakir standa þá eru forsendur lánanna reyndar brostnar hér á Akureyri vegna gríðarlegrar hækkunar á fasteignaverði.  Hins vegar er í gangi endurskoðun á skilmálum hlutdeildarlána og mikilvægt að henni verði lokið sem fyrst.

Fyrir kosningar vorið 2022 lögðu frambjóðendur Framsóknar á Akureyri áherslu á að ungu fólki yrði hjálpað að koma þaki yfir höfuð sér.  Ég leyfi mér að endurbirta hér brot úr grein minni Hvar á unga fólkið að búa? sem birtist í á Akureyri.net í apríl á síðasta ári en þar beini ég sjónum að mikilvægi hlutdeildarlána í þessu samhengi, þótt nauðsynlegt sé einnig að skoða fleiri leiðir í framhaldinu. Sem dæmi er greiðslubyrðarhlutfall Seðlabankans að gera ungu fólki erfiðara fyrir en samkvæmt því má afborgun einungis vera 35-40% af útborguðum launum.

Hvar á unga fólkið að búa?

Unga fólkið er framtíð Akureyrar og hér vilja þau í meira mæli festa rætur en hafa eðlilega áhyggjur af hækkandi fasteignaverði. Við í Framsókn viljum auðvelda ungu fólki að koma þaki yfir höfuð sér og einn liður í því er að tryggja að hér verði byggðar íbúðir sem henta við úthlutun hlutdeildarlána.

Lán fyrir útborgun

Frumvarp um hlutdeildarlán, sem lagt var fram af félags- og barnamálaráðherra Ásmundi Einari Daðasyni og samþykkt árið 2020, er ætlað að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu íbúð. Hlutdeildarlánin bera hvorki vexti né afborganir á lánstímanum. Lántakendur endurgreiða hlutdeildarlánið þegar íbúðin er seld.

Dæmi:

  • Kaupandi leggur fram a.m.k. 5% kaupverðs í útborgun.
  • Kaupandi tekur húsnæðislán fyrir 75% kaupverðs.
  • Húsnæðis- og mannvirkjastofnun veitir kaupanda hlutdeildarlán fyrir allt að 20% kaupverðs.

Forgangsverkefni á næsta kjörtímabili

 Við í Framsókn viljum tryggja að í boði verði fleiri hlutdeildarlánaíbúðir með sérstökum reglum í úthlutun lóða eða semja beint við byggingarverktaka um byggingu slíkra íbúða með sérstökum samningum við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Við teljum að þegar lóðaframboð eykst, sem er algjör grunnforsenda, og meiri ró kemst á markaðinn sé þetta gerlegt og eigi að vera forgangsverkefni á næsta kjörtímabili.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 24. mars 2023.