Hvað ætlum við að gera og hvernig á að gera það? Það er stóra spurningin sem allir kappkosta við að tjá sig um þessar mundir. Vinnumarkaðurinn kallar eftir skýrum aðgerðum stjórnvalda og að kjör fólks séu jöfnuð með einhverjum hætti. Það er útópía að halda því fram að fullkominn jöfnuður í þróuðu samfélagi sé mögulegur. Það er þó hægt að jafna stöðuna með aðgerðum af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum og það er ekkert launungamál. Það þarf að beita samvinnuhugsuninni og samheldni til að koma böndum á verðbólguna með fjölþættum aðgerðum og stuðla að frekari kaupmáttaraukningu hjá venjulegu launafólki.
Menntun metin til launa
Ákveðin kjaragliðnun hefur átt sér stað en sú þróun hefur átt sér stað lengi.
Við þurfum líka að horfast í augu við að þá gliðnun má einnig rekja til hærra menntunarstigs hér á landi. Það er fagnaðarefni að sjá fólk sækja sér aukna þekkingu og þar með er það að skila þeirri þekkingu í virðisaukningu fyrir samfélagið. Við viljum að menntun sé metin til launa og að það sé hvati til að auka þekkingu sína og færni á vinnumarkaði. Það er eðlilegt að slíkur hvati sé til staðar til að afla sér frekari þekkingar á sínu sviði og fyrir aukna þekkingu er sanngjarnt að fá betur greitt. Við eigum að hvetja fólk til að sækja sér aukna þekkingu og þarna á jöfnuðurinn að vera mestur. Að allir geti aflað sér þekkingar í formi menntunar og að það skili sér í launum.
Eru sanngjarnar leikreglur til staðar?
Kjaragliðnunin er mest á milli fjármagnseigenda og launafólks en á undanförnum tíu árum hafa fjármagnstekjur aukist gífurlega eða um 120% að raunvirði. Atvinnutekjur í hagkerfinu jukust um 53%.
Ekki er greitt tryggingargjald né útsvar af útgreiddum arði og mikill munur er á milli skattlagningar á hagnað lögaðila og tekjuskatts. Það er því spurning hvort ekki sé löngu kominn tími til að taka þetta til endurskoðunar. Að mínu mati er þessari spurningu auðsvarað. Það þarf að girða fyrir tekjutilflutning milli launa og fjármagnstekna.
Allir skila sínu til samfélagsins
Er ekki kominn tími til að taka samtalið um það skatthlutfall sem fjármagnseigendur greiða af útgreiddum arði? Við þurfum að skapa sanngjarnara og skilvirkara skattkerfi og að fjármagnstekjuskattur verði settur í þrepaskiptingu. Við eigum að styðja vel við nýsköpunarstarfsemi auk lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Punkturinn með þessari grein er að breiðu bökin borgi rétt til samfélagsins. Við getum gert mun betur í þeim efnum og ég kalla eftir því hér með.
Við búum jú öll í þessu landi saman og ættum þar af leiðandi að bera samfélagslega ábyrgð saman og að allir greiði sitt með skilvirkari hætti inn í samneysluna. Það á að vera leiðarljósið í þessum efnum og við eigum að búa til sanngjarnari leikreglur í skattkerfinu okkar.
Væntingar um traust ríkisfjármál vinna á verðbólgu
Opinber fjármál hafa verið mikið í umræðunni í tengslum við þróun verðbólgu. Innan hagfræðinnar eru ýmsar kenningar uppi um hvaða þættir efnahagskerfisins hafi mest áhrif á þróun verðlags og eru um það skiptar skoðanir. Meginorsakirnar liggja víða í hagkerfinu og því þarf enn sterkara samspil peningamála, fjármála hins opinbera og vinnumarkaðarins til að ná tökum á verðbólgunni.
Ljóst er að Covid-19 aðgerðir bæði í peningamálum og ríkisfjármálum, áhrif framleiðsluhnökra í alþjóðahagkerfinu og stríðið í Úkraínu hafa haft mikil áhrif á verðbólgu síðasta árs. Hins vegar sjáum við að áhrif stríðsins fara dvínandi á verðbólgu, þar sem hækkanirnar hafa þegar komið fram. Í stjórnmálaumræðunni er kastljósið er í auknum mæli að beinast að þætti opinberra fjármála. Því er við hæfi að fara yfir nýlega kenningu hagfræðingsins John F. Cochrane en í nýútgefinni bók sinni Fiscal Theory and the Price Level beinir hann spjótum sínum að verðbólguvæntingum á sviði ríkisfjármála.
Ríkisfjármálakenningin og verðbólga
Kjarni ríkisfjármálakenningarinnar er að verðlag ráðist af stefnu stjórnvalda í opinberum fjármálum. Samkvæmt þessari kenningu hefur ríkisfjármálastefnu, þar með talið útgjalda-og skattastefna, bein áhrif á verðlagið. Minni halli á ríkisrekstri ætti að leiða til lægra raunvaxtastigs sem ætti síðan að ýta undir meiri fjárfestingar. Þar með verða til auknar fjármagnstekjur, sem myndast við meiri fjárfestingu, sem er ein helsta uppspretta framleiðni vinnuafls. Þetta skapar svo grunninn að hærri raunlaunum og þannig má segja að minni fjárlagahalli sé óbein leið til að auka raunlaun og bæta lífskjör.
Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
Staðreyndin er sú að ef ríkissjóður er rekinn með halla, þá þarf hann að fjármagna þann halla með útgáfu nýrra skuldabréfa. Þannig eykst framboð ríkisskuldabréfa á markaði, sem aftur lækkar verð þeirra og leiðir til þess að vextir hækka. Eitt skýrasta dæmið um að tiltekt í ríkisfjármálum og trúverðug stefna hafi skilað vaxtalækkun var að finna í forsetatíð Bill Clintons, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna.
„Minni fjárlagahalli skapar störf!”
„Minni fjárlagahalli býr til störf“! Þetta var eitt af því sem hagfræðingateymi Clintons, sem leitt var af fjármálaráðherra hans Robert Rubin, sögðu við hann þegar var verið að kljást við mikinn halla á fjárlögum.
Í heimi hagfræðinnar voru þeir Stephen Turnovsky og Marcus Miller (1984), ásamt Olivier Blanchard (1984), byrjaðir að þróa hagfræðikenningar sem færðu rök fyrir því hvernig trúverðugur samdráttur á væntum fjárlagahalla í framtíðinni gæti aukið heildareftirspurn í hagkerfi dagsins í dag.
Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.
Grunnhugmynd þeirra var sú að ef fjárfestar væru sannfærðir um að skuldir ríkisins yrðu lægri í framtíðinni, þá myndu langtímavextir í dag lækka og örva þannig núverandi eftirspurn. Líkön þeirra sýndu hins vegar ekki fram á að lækkun á núverandi fjárlagahalla yrði þensluhvetjandi þá stundina. Með öðrum orðum að margfeldi skatta væri neikvætt. Turnovsky-Miller-Blanchard-kenningin gaf samt fræðilega útskýringu á efnahagslegum uppgangi á Clinton-tímabilinu. Ríkissjóðurinn fór úr methalla í góðan afgang á örskömmum tíma.
Heimild: Fiscal Theory and Price Level, Kafli 4, Debt, Deficits, Discount Rates, and Inflation, bls 84.
Frumjöfnuður ríkissjóðsins fór úr því að vera í jafnvægi um 1990 í 6% afgang af vergri landsframleiðslu árið 2001. Á sama tíma fór skuldir ríkissjóðs úr því að vera um 50% af landsframleiðslu í 30%. Þessi miklu umskipti þýddu meðal annars að vaxtaálag lækkaði og á sama tíma var verðbólga lág. Eins og sá má á ofangreindri mynd, þá er sterk fylgni á milli afgangs á frumjöfnuði, lækkun ríkisskulda og lágrar verðbólgu.
Fjármálaráðherrann Rubin hefur iðulega fengið lof í lófa fyrir að hafa stýrt því að þessi leið yrði farin enda skildu fáir skuldabréfamarkaðinn eins vel og hann. Stjórnvöld settu fram trúverðuga áætlun í ríkisfjármálum og fjárfestar keyptu hana og því skiluðu aðhaldssöm ríkisfjármál lægra vaxtastigi!
Ríkisfjármálakenningin og mikilvægi væntinga
Grunnhugmyndin á bak við kenningu John Cochrane er að aðhald fjármála hins opinbera ákvarði verðlag í hagkerfinu. Ríkisfjármálakenningin hans snýst að auki um hvert virði ríkisskulda sé. Virði ríkisskuldabréfa annars vegar og almennra hlutabréfa og skuldabréfa hins vegar er metið að jöfnu. Á sama hátt og hlutabréf- eða skuldabréfaverð skila arði og/eða verðbótum á núvirði, þá jafngildir raunvirði ríkisskulda núvirtum afgangi ríkisfjármála. Ef tiltrúin á skynsöm ríkisfjármál hverfur, þá getur það leitt til verðbólgu. Það nákvæmlega sama gerist ef markaðsaðilar hafa ekki trú á að arðgreiðslur verði góðar eða tekjur fyrirtækis á markaði, því þá lækka hlutabréfin í verði eða það verður bankaáhlaup.
Að mati Cochrane á að vera hægt að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila bæði er varðar vænt ríkisfjármál og peningastefnu.
Hvað með Ísland?
Verðbólga mældist 9,9% á ársgrundvelli í apríl. Verðbólga er of há. Þessi mæling var hærri en flestir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í kjölfarið hækkaði ávöxtunarkrafa ríkisbréfa hratt en jafnaði sig þó þegar líða tók á daginn. Baráttan við verðbólguna er á vandasömum tímapunkti. Ljóst er að allar aðgerðir Seðlabanka Íslands og ríkisfjármálanna þurfa að miða að því að ná böndum á verðbólgunni áður en upphefst víxlverkun launa og verðlags.
Hægt er að ná tökum á verðbólgu með tiltölulega lítilli niðursveiflu hagkerfisins, ef almenningur hefur trú á því að aukið aðhald ríkisfjármála og peningastefnu verði framfylgt markvisst. Allt snýst þetta um væntingar almennings og markaðsaðila
Trúverðugleikinn er allt á þessum tímapunkti og má með sanni segja að núverandi ríkisstjórn hafi kappkostað við að minnka skuldir ríkissjóðs til að auka lánshæfi ríkissjóðs Íslands. Skuldir ríkissjóðs nema um 33% af landsframleiðslu og við lok ríkisfjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að þær nemi um 30%.
Lokaorð
Í þessari grein hef ég lagt út með hagfræðikenningar sem eiga við Bandaríkin. Ljóst er að mikill munur er hagkerfum Íslands og Bandaríkjanna. Hins vegar eru það ákveðin lögmál hagfræðinnar sem eiga ávallt við. Sterk skuldastaða lækkar ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréf. Sjálfbær ríkisfjármál lækka verðbólgu.
Lítið hagkerfi þarf ávallt að hafa borð fyrir báru í efnahagsmálum. Skuldir þurfa að vera lágar, gjaldeyrisforði hár og viðskiptajöfnuðurinn þarf að skila afgangi. Náist þessi árangur á næstunni munu vextir lækka og staða heimila og fyrirtækja batna. Ísland hefur skapað ein bestu lífskjör sem völ eru á og hefur alla burði til að auka enn frekar jöfnuð og fjárfesta í velferðarkerfinu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst á Innherji á visir.is 4. maí 2023.
Í lok liðins mánaðar voru staðfest þau gleðilegu tíðindi að Íslensk Erfðagreining muni taka þátt í því að rannsaka riðu í íslensku sauðfé, en riða er langvinnur og ólæknandi smitsjúkdómur sem leggst á sauðfé og veldur svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Sjúkdómurinn er erfiður viðureignar og ekki hefur verið fundið upp bóluefni til þess að verjast honum. Sú aðferð sem hefur verið notuð hér á landi, þegar upp hefur komið riða á bæ, hefur verið að slátra öllu fé á bænum, fara í jarðvegsskipti, hreinsa, brenna og sótthreinsa. Hér er um er að ræða verulega íþyngjandi aðgerð með tilheyrandi áfalli fyrir alla sem málið snertir.
Verndandi arfgerð
Fram til þessa höfum við ekki haft önnur úrræði við að uppræta sjúkdóminn en að aflífa stofninn. Í kjölfarið á því að fundist hefur arfgerð sem er verndandi gegn riðu eru nú loksins möguleikar á breyttri aðferðarfræði við útrýmingu á riðuveiki. ARR-arfgerðin hefur hlotið viðurkenningu sem verndandi arfgerð en til eru fleiri arfgerðir sem ekki eru viðurkenndar en unnið er að rannsóknum á þeim. Það er mat þeirra sem hér skrifa undir að mikilvægt sé að styðja við enn frekari rannsóknir og vinnu við að greina íslenska fjárstofninn. Þannig má rækta upp stofn sem er ónæmur gegn riðunni. Á þeim forsendum hefur Íslensk Erfðagreining nú komið að borðinu.
Aðkoma Íslenskrar erfðagreiningar mikilvæg
Það er mikið fagnaðarefni að fá Íslenska Erfðagreiningu til liðs við sauðfjárbændur, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins (RML) og fleiri sem hafa látið sig málið varða. Aðkoma Íslenskrar Erfðagreiningar er mjög mikilvæg þar sem hægt er setja aukinn þunga í að arfgerðagreina íslenska fjárstofninn með öflugra og ódýrari hætti þar sem fyrirtækið hefur yfir að ráða aflmiklum tækjum og sérfræðingum á þessu sviði. Það þekkjum við frá heimsfaraldri covid. Íslensk Erfðagreining sannar nú enn og ný mikilvægi sitt en nú í þágu íslensku sauðkindarinnar.
Ljósið við endann
Verkefnið nú er að finna allar þær kindur sem bera riðuþolna arfgerð. Í framhaldi af því verður svo hægt að dreifa þeim um landið og byggja upp sterkan fjárstofn sem tekur ekki riðu. Fyrirséð er að þetta verkefni komi til með að taka nokkur ár. Þrátt fyrir dimma daga sem gengið hafa yfir sjáum við nú loks ljósið við enda ganganna, og í kjölfarið breytt vinnubrögð sömuleiðis. Niðurskurður mun vonandi von bráðar tilheyra fortíðinni. Framtíðin er samvinnuverkefni bænda, vísindamanna og stjórnvalda.
HönnunarMars, uppskeruhátíð hönnunar og arkitektúrs, er einn af skemmtilegustu vorboðunum. Framsækin hönnun og nýjungar leiða saman sýnendur og gesti á hátíðinni sem stendur yfir dagana 3-7. maí. Á hátíðinni verða tækifæri til að upplifa, læra, njóta og tengjast en hátíðin hefur fest sig í sessi sem einn mikilvægasti kynningarvettvangur íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Til marks um það eru um 100 sýningar, 400 þátttakendur og 100 viðburðir á hátíðinni í ár sem endurspeglar þá miklu grósku sem á sér stað í hönnun og arkitektúr á Íslandi.
Þessi mikli fjölbreytileiki færir okkur einnig heim sanninn um það hvernig íslensk hönnun og arkitektúr eru mikilvægt breytingaafl og tæki til nýsköpunar sem nýst getur okkar samfélagi á fjölbreyttari hátt en marga órar fyrir. Þar hefur starfsfólk Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, og ótal samstarfsaðilar þeirra, unnið þrekvirki við að þróa spennandi hátíð sem höfðar til víðs hóps og hefur sannarlega átt stóran hlut í því að koma íslenskri hönnun rækilega á kortið – svo eftir er tekið.
Á þessu kjörtímabili verða málefni hönnunar og arkitektúrs í öndvegi í menningar- og viðskiptaráðuneytinu í góðri samvinnu við hagaðila. Markmið þeirrar vinnu er skýrt; við ætlum að hrinda nýrri hönnunarstefnu fyrir Ísland í framkvæmd með aðgerðum sem skila árangri, fagmennsku og gæðum til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag. Hinni nýju stefnu er ætlað að virkja mannauð í hönnunargreinum til þess að leysa brýn verkefni samtímans, auka lífsgæði og stuðla að sjálfbærri verðmætasköpun.
Meðal lykilaðgerða eru að setja lög um hönnun og arkitektúr, efla Hönnunarsjóð, bæta aðgengi nýskapandi hönnunarverkefna að samkeppnissjóðum, endurskoða menningarstefnu í mannvirkjagerð og að tryggja þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr.
Strax í ár var Hönnunarsjóður efldur og nemur umfang sjóðsins nú 80 m.kr. Þessu fé er úthlutað úr sjóðnum til að stuðla að því að efla þekkingu, atvinnu- og verðmætasköpun og stuðla að auknum útflutningi á íslenskri hönnun með því að styrkja kynningar- og markaðsstarf erlendis.
Það eru stór efnahagsleg tækifæri fólgin í því að styðja skipulega við skapandi greinar líkt og hönnun og arkitektúr. Nægir þar að líta til Danmerkur þar sem umfang hönnunar, arkitektúrs og annarra skapandi greina hefur farið vaxandi í hagkerfinu undanfarin ár. Má þar til að mynda nefna að tískuvarningur er fjórða stærsta útflutningsstoð Danmerkur.
Það er ekki annað hægt en að fyllast stolti yfir sköpunarkrafti, fagmennsku og elju íslenska hönnunarsamfélagsins. Ég hef sterka sannfæringu fyrir því að efla íslenska hönnun og arkitektúr enn frekar, sem fag- og atvinnugrein, útflutningsgrein og mikilvæga aðferðafræði – sem mun á endanum leiða til aukinna lífsgæða fyrir samfélagið. Ég þakka aðstandendunum HönnunarMars fyrir þeirra metnaðarfulla starf og undirbúning og óska öllum gestum hönnunarsamfélagsins hér á landi gleðilegrar hátíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. maí 2023.
Stjórnmál geta verið allavega. Í mínum huga eru þau mikilvægt tæki til að móta samfélag og vinna að framförum. Átök eru hluti af stjórnmálunum, hluti af lýðræðinu. Almennt gilda í stjórnmálum ákveðnar leikreglur. Þær eru mikilvægar og snúa helst að því að stjórnmálamenn komi fram af heilindum og nýti sér ekki viðkvæm málefni til að skapa ótta meðal borgaranna. Það er ekki aðeins ómerkilegt heldur skaðlegt.
Öryggi vallarins skerðist ekki
Síðustu daga hefur umræðan um Reykjavíkurflugvöll verið áberandi. Tilefni umræðunnar eru niðurstöður skýrslu faglegs starfshóps sem fékk það verkefni að rýna áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug – og rekstaröryggi flugvallarins. Niðurstaða starfshópsins er að byggðin hafi að óbreyttu áhrif á aðstæður á Reykjavíkurflugvelli en með aðgerðum muni öryggi hans ekki skerðast.
Samkomulagið tryggir völlinn í áratugi
Reykjavíkurflugvöllur er gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskt samfélag. Ekki er hann aðeins mikilvæg brú milli borgar og landsbyggðanna heldur er hann órjúfanlegur hluti af heilbrigðisþjónustu landsins. Þetta skilja allir og þess vegna var skrifað undir samkomulag árið 2019 um það að Reykjavíkurflugvöllur myndi verða við óbreytt skilyrði í Vatnsmýrinni þar til annar jafngóður eða betri kostur fyndist og það sem meira er: Flugvöllurinn verður óbreyttur í Vatnsmýri þar til annar flugvöllur getur tekið við öllum þeim skyldum sem á Reykjavíkurflugvellli hvíla. Það þýðir einfaldlega að Reykjavíkurflugvelli verður ekki haggað í áratugi. Um það snýst samkomulag ríkis og borgar frá árinu 2019.
Reykjavíkurflugvöllur er líflína
Ég hef fullan skilning á því að sú ófaglega og á köflum ómerkilega umræða sem hefur átt sér stað síðustu daga veki ótta hjá fólki, ekki síst þeim sem búa fjarri höfuðborginni og hafa þurft að reiða sig á sjúkraflug til að koma veikum eða slösuðum ættingjum á Landspítalann. Reykjavíkurflugvöllur er nefnilega ekkert venjulegt mannvirki, hann getur verið líflína.
Staðreyndir – ekki upphrópanir
Markmið innviðaráðherra með því að skipa hóp sérfræðinga eftir tilnefningar frá Isavia, öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna, háskólasamfélaginu, Veðurstofu Íslands og Reykjavíkurborg undir forystu verkfræðingsins Eyjólfs Árna Rafnssonar var að draga fram staðreyndir og færa umræðuna um þetta viðkvæma málefni, Reykjavíkurflugvöll, af blóðvelli stjórnmálanna. Jafnmikilvæg umræða verður að vera byggð á staðreyndum en ekki upphrópunum og æsingi. Stjórnmálamenn mega ekki láta kappið bera fegurðina ofurliði.
Nýlega birti Byggðastofnun nýjar mannfjöldatölur um íbúafjölda sveitarfélaga og byggðakjarna og kom þar fram að íbúar á Íslandi eru 387.758 en þar af búa 369.048 (95%) í byggðakjörnum og 18.710 (5%) í dreifbýli.
Á höfuðborgarsvæðinu eru 240.882 íbúar (64% landsmanna) en 135.366 (36%) búa utan höfuðborgarsvæðis. Íbúum landsins fjölgaði um 11.510 (3,1%) á árinu 2022 en mest fjölgun varð á Suðurnesjum (6,7%) og á Suðurlandi (4,2%). Þegar maður rýnir í þessar tölur má sjá að íbúum landsbyggðar fer fækkandi og straumurinn liggur allur á suðvesturhornið, ég tel að það sé mikilvægt að við höldum öllu landinu í byggð og gerum fólki kleift að velja sér búsetu í landinu þar sem það vill búa og stuðla þannig að blómlegri byggð um allt Ísland. Landið er fagurt og frítt og náttúruundrin víðast hvar stórkostleg og það eru í raun forréttindi að búa á landsbyggðinni.
En hvað getum við gert til þess að auka búsetu á landsbyggðinni?
Ég tel að tækifæri landsbyggðarinnar séu í fjórum atriðum, ferðaþjónustu, sjávarútvegi, landbúnaði og einnig ætti að færa stofnanir og störf hins opinbera út á land, það er vel hægt með nútímatækni og störfum án staðsetningar.
Hvað sjávarútveg varðar þá þarf að hugsa það kerfi upp á nýtt, kerfið er búið að missa marks og er að eiga sér stað samþjöppun sem stuðlar að því að aflaheimildir dreifast ekki á byggðir landsins, heilu sveitarfélögin og þorpin lamast. Ég tel að best væri að aflaheimildum væri skipt jafnt á milli sveitarfélaga í landinu. Til að tryggja atvinnu í byggðarkjörnunum.
Í landbúnaðinum ríkir alvarleg staða, meðalaldur bænda er 60 ár og fer þeim fækkandi.Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum úr matvæla- ráðuneytinu hefur orðið um fimm prósenta fækkun sauðfjár á milli ára, úr tæplega 386 þúsund niður í rúmlega 366 þúsund fjár. Sögulega þykir það nú tíðindum sæta að sauðfé er færra á landinu en mannfjöldi. Staða nautakjötsframleiðslunnar á Íslandi er grafalvarleg. Nú stefnir í að haustið 2024 verði á markaði um 300 tonnum minna af íslensku nautakjöti en síðustu tvö ár.
Það þarf að stórauka framlög til bænda í gegnum búvörusamninga, einnig þarf ríkið að skapa sér nýja stefnu sem snýr að fæðuöryggi í landinu, aðgengi að matvælum sem framleidd eru í landinu fer minnkandi. Setjum landsbyggðina á dagskrá og verndum grunngildi þjóðarinnar.
Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ og formaður bæjarráðs.
Markmið núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru metnaðarfull. Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið og stefnir að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Auk þess er stefnt að því að Ísland nái að verða óháð jarðefnaeldsneyti í lofti, láði og legi árið 2050. Til að þessi markmið ríkisstjórnarinnar verði að veruleika þurfa allir Íslendingar að leggjast með stjórnvöldum á árarnar.
Sameiginleg markmið
Það er ekki ágreiningur um að við þurfum að ná þessum markmiðum og það er sátt um orkuskipti í samgöngum. Við erum sammála um að tími aðgerða er runninn upp og ég held að við séum meðvituð um ábyrgð okkar allra að þessum markmiðum. En það er ágreiningur um hvernig við ætlum að ná þessum markmiðum. Við erum sammála um að við viljum halda áfram að byggja upp velferðarþjóðfélag en það verður ekki gert nema að halda áfram að treysta raforkuöryggi um allt land ásamt því að huga að frekari orkuöflun með grænni orku.
Ljóst er að það þarf að fara í umtalsverðar fjárfestingar í orkuskiptum, nýsköpun og tækniinnleiðingu svo markmiðin náist. Raforkuöryggi samanstendur af framboði á raforku, eftirspurn og flutningskerfi. Allt þetta þarf að vera til staðar og er stór þáttur í að við getum náð loflagsmarkmiðum stjórnvalda. Það er að tryggja nægjanlega raforku um allt land.
Hlaða rafmagnsbílinn með jarðefnaeldsneyti
Það virðist sem margir gerir sér ekki grein fyrir að við erum ekki búin að tryggja raforkuöryggi hringinn í kringum landið. Því miður er staðreyndin sú að á sama tíma og við ætlum okkur að verða kolefnishlutlaus erum við að nota milljónir tonna af jarðeldsneyti. Á Vestfjörðum hafa verið brennd yfir 2,1 milljónir lítra af olíu milli áranna 2021-2022 til þess að til að kynda fjarvarmaveitur og tryggja upphitun húsnæðis á svæðinu. Þá er ótalin olían sem fór í að tryggja raforkuöryggi í öflugri varaaflsstöð í Bolungarvík, það má því leiða líkur að því að einhver hafi hlaðið rafmagnsbílinn sinn fyrir vestan með jarðefniseldsneyti.
Raforkuöryggi og framboð á nægri raforku er forsenda efnahagslegra framfara. Auk þess sem nægjanleg græn orkuframleiðsla leiðir okkur að markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum og er nauðsynleg fyrir orkuskipti í samgöngum og hjá fiskiskipum. Til þess þarf að vera aðgengi að grænni orku hringinn í kringum landið.
Kolefnislosun frá landbúnaði
Þá er kolefnislosun frá landbúnaði metin töluverð, en hún er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Það þarf því að kortleggja sem næst raunverulega langtímakolefnislosun í framræstu ræktarlandi á Íslandi og þörf er á átaki í að mæla hana skipulega sem víðast. Væntanlega þarf að mæla út frá mismunandi jarðvegi og á mismunandi landsvæðum. Það er mjög mikilvægt að frekari og stöðug vöktun fari fram á kolefnislosun frá landbúnaði um allt land, ekki síst til þegar horft er til markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.
Það þarf samtakamátt til að ná árangri í loftslagsmálum og það eru margir þættir sem þarf að horfa til, það er ekki nein ein lausn. Fyrst og fremst þurfum við samvinnu og samtal til þess að komast áfram.
Uppbygging varaflugvalla á Íslandi hafa ekki verið í samræmi við vöxt alþjóðarflugs síðustu misseri. Flestar ferðir til og frá landinu eru í gegnum Keflavíkurflugvöll en hins vegar erum við að sjá aukið millilandaflug gegnum flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Í kjölfarið sjáum við stóraukningu veitingastaða, gistirýma, afþreyingar og verslana á svæðinu. Með auknu flugi og aukinni verslun og þjónustu getum við aukið velmegun svæðisins til muna. Við þessa þróun myndast ný tækifæri á Norðausturlandi.
Ein leið til að halda áfram að stuðla að þessum vexti er að tryggja að flugvellir okkar séu vel í stakk búnir til að takast á við fjölgun ferðamanna. Til þess að svo verði þurfum við að ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir, byggja upp og stækka innviði flugvallanna svo þeir geti sinnt hlutverki sínu sem mikilvægar gáttir inn í landið.
Við getum hins vegar ekki horft fram hjá þeirri fjárhagslegu byrði sem þessum framkvæmdum fylgir. Bygging og viðhald flugvalla krefst umtalsverðrar fjárfestingar og til þess að hægt sé að ráðast í slíkar framkvæmdir þarf að tryggja að nauðsynlega fjármuni til þess.
Hóflegt gjald skilar 1,2-1,5 ma króna
Í vikunni mælti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrir frumvarpi í þinginu um svokallað varaflugvallagjald. Um er að ræða mjög hóflegt gjald á hvern farþega sem getur þó skilað stjórnvöldum 1.200-1.500 milljónum kr. ár hvert ef miðað er við sex milljónir farþega. Þá benda allar spár til þess að þessar upphæðir geti orðið enn hærri þar sem farþegaspár gera ráð fyrir mun fleiri farþegum.
Ísland er eitt af fáum ríkjum í heiminum sem leggur engan skatt á flugferðir, en skattheimta sem þessi er mjög sambærileg í flestum öðrum ríkjum innan EES. Það er því mikilvægt að við nýtum skynsamlegar leiðir til þess að fjármagna uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum.
Ég tel afar skynsamlegt að stíga þetta skref og fara í þessa gjaldtöku og tryggja með því fjármagn til þess að fara í nauðsynlega og uppsafnaða uppbyggingu á innanlandsflugvöllum. Forgangsraða verkefnunum, byrja þar sem skóinn kreppir og svo ef vel gengur þá verður vonandi fjármagn hugsað til frekari uppbyggingar annarra flugvalla sem þjónusta m.a. sjúkraflugi í landinu.
Við þurfum, vegna öryggissjónarmiða að hafa til taks flugvelli ef loka þarf Keflavíkurflugvelli af einhverjum ástæðum líkt og reynslan sl. vetur sýndi okkur.
Eins og við vitum er ferðaþjónustan mikilvægur þáttur í atvinnulífi okkar og við höfum séð verulega aukningu á fjölda ferðamanna sem heimsækja landið okkar á undanförnum árum.
Þess vegna tel ég mikilvægt að umrætt varaflugvallagjald verði greidd leið í gegnum þingið. Með því getum við hvatt fleira fólk til að heimsækja landið okkar og leggja sitt af mörkum til hagkerfis okkar, á sama tíma og við getum aflað aukatekna til að styðja við framkvæmdir við flugvallarmannvirki okkar.
Það er von mín að þingmenn taki höndum saman um að tryggja að flugvellir okkar séu vel í stakk búnir til að takast á við vöxt ferðaþjónustunnar og viðhalda stöðu Íslands sem áhugaverðs ferðamannastaðar og samkeppnishæfum áfangastað.
Íslenski dansflokkurinn fagnar því í ár að 50 ár eru liðin frá stofnun hans. Í hálfa öld hefur dansflokkurinn verið framsækinn nútímadansflokkur skipaður úrvalsdönsurum í hæsta gæðaflokki en um er að ræða listastofnun á sviði sviðslista í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk hans er að sýna dansverk, vera vettvangur fyrir framþróun og nýsköpun danslistar á Íslandi og glæða áhuga landsmanna á danslist. Dansflokkurinn hefur unnið með mörgum af fremstu danshöfundum veraldar auk þess að leggja rækt við íslenska danssköpun með því að setja á svið verk eftir íslenska danshöfunda. Verkefnaval hans er fjölbreytt og tryggt skal að á dagskrá hvers starfsárs séu íslensk dansverk. Dansflokkurinn ferðast víða um heim með verk sín og heldur fjölbreyttar sýningar á Íslandi og þá alla jafna í Borgarleikhúsinu sem hefur verið heimili flokksins síðan 1997. Ár árinu 2022 sýndi Íslenski dansflokkurinn 62 sýningar, þar af 18 erlendis í 10 sýningarferðum. Það er merkilegur árangur en dagskrá afmælisársins ber vel með sér þennan mikla þrótt sem býr í þessum hálfrar aldrar gamla dansflokki. Fjölbreytni ræður ríkjum í dagskrá ársins, sem tekur mið af afmælisárinu þar sem saga dansflokksins og dansins á Íslandi í fortíð, nútíð og framtíð er áberandi.
Dans sem listform gagnrýnir og hvetur, hneykslar og hrífur. Dansarinn tekst á við allar víddir mannlegrar tilvistar, dans er landamæralaust afl sem getur hreyft við öllum gerðum áhorfenda, ungum sem öldnum. Listræn fjölbreytni og náin tengsl við grasrótina eru mikilvægir þættir fyrir dansumhverfið á Íslandi, sem er í stöðugri mótun, og á síðustu árum hafa sýnileiki dansins og vinsældir hans aukist til muna. Enda hefur Íslenski dansflokkurinn kappkostað að eiga í nánu samstarfi við stofnanir, félög og aðra sem sinna danslist með listrænan ávinning og fjölbreytni að markmiði og lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að stuðla að listuppeldi og fræðslustarfi í samvinnu við menntastofnanir og gera nemendum og almenningi kleift að kynna sér starfsemi dansflokksins.
Á undanförnum árum hafa verið stigin mikilvæg skref til þess að efla umgjörð sviðslista á Íslandi. Árið 2019 voru fyrstu heildarlögin um sviðslistir sett hér á landi sem hafa það að markmiði búa leiklist, danslist, óperuflutningi, brúðuleik og skyldri liststarfsemi hagstæð skilyrði. Á þeim grunni var meðal annars sviðslistaráð sett á laggirnar og tók ný Sviðslistamiðstöð formlega til starfa – en sambærilegar miðstöðvar hafa lengi verið starfræktar fyrir aðrar listgreinar. Með Sviðslistamiðstöð skapast fleiri sóknarfæri fyrir sviðslistafólk innanlands sem utan, meðal annars með stuðningi í formi ráðgjafar, tengslamyndunar, kynningar, miðlunar og útflutnings. Samhliða þessu hafa fleiri hópum verið tryggðir kjarasamningar og vinna við þarfagreiningu vegna óperustarfsemi í landinu sem hefur miðað vel áfram með það að markmiði að setja á laggirnar þjóðaróperu. Samspil ólíkra sviðlistagreina skiptir máli, en þegar á fjalirnar er komið haldast gjarnan í hendur dans, tónlist, leikur og fleira. Allt ofantalið eru atriði sem skipta máli í öflugu menningarlífi þjóðarinnar.
Það er ekki sjálfsagt að eiga jafn framúrstefnulegan dansflokk og við eigum hér á landi en hann hefur getið sér gott orð víða um heim undir styrkri handleiðslu Ernu Ómarsdóttur listdansstjóra og hennar teymi. Ég er stolt af þeirri frumsköpun og framleiðslu á menningu sem okkar frábæra listadansfólk drífur áfram. Stjórnvöld munu halda áfram að skapa menningu í landinu góð skilyrði og styðja þannig við fjalir fullar af lífi. Ég óska Íslenska dansflokknum, starfsfólki hans og unnendum til hamingju með 50 ára afmælið og hvet fólk til þess að kynna sér þá metnaðarfullu dagskrá sem hann hefur upp á að bjóða.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. apríl 2023.
Fljótagöng og samgöngur í Fljótum og til Siglufjarðar
Nú í vikunni var birt sláandi mynd af ástandi Siglufjarðarvegar. Þar sést greinilega hversu mikið hefur hrunið úr hlíðinni, en það er stutt í að vegurinn verði í raun ófær eða honum lokað sem öryggisráðstöfun.
Öllum ætti að vera ljóst að núverandi veglína er ekki framtíðarlausn og að horfa verði til annarra leiða hvað varðar samgöngur milli Fljóta og Siglufjarðar. Að þessu sögðu er ljóst að framkvæmdir við Fljótagöng þola enga bið og hefja þarf undirbúning þeirra strax. Göng á milli Fljóta og Siglufjarðar yrðu gríðarleg samgöngubót fyrir vegfarendur á þessari leið en ekki síður myndi slík framkvæmd auka umferðaröryggi verulega.
Öryggi í forgangi
Öryggi þeirra sem um vegina fara er að mínu mati sá þáttur sem sérstaklega þarf að horfa til við forgangsröðun jarðgangna. Íbúar í Fljótum sækja mikla þjónustu til Siglufjarðar og því ljóst að samfélagsleg áhrif Fljótagangna yrðu mikil. Þungaflutningar frá Siglufirði t.d. með sjávarafurðir suður myndu nýta leiðina um Fljót þar sem sú vegalengd er töluvert styttri en inn Eyjafjörð og Öxnadalsheiði. Því myndi þessi gangnagerð skila fyrirtækjum á svæðinu mikilli hagræðingu. Eins eru börn í Fljótum að sækja skólaþjónustu til Siglufjarðar og íbúar í einhverjum mæli vinnu. Hugsum um fólkið og öryggi þeirra sem þjónustuna þurfa að sækja annað.
Við þurfum að vera tilbúin
Það er hins vegar ljóst að þó svo að Fljótagöngum yrði forgangsraðað ofarlega í nýrri jarðgangnaáætlun, sem boðuð hefur verið í vor og ákvörðun tekin um að hefjast strax handa við undirbúning og framkvæmd gangnanna, er tíminn frá ákvörðun til opnunar talinn í árum. Því er afar brýnt að Vegagerðin sé tilbúin að bregðast við ef Siglufjarðarvegur lokast, en eins og áður var sagt getur slíkt gerst með stuttum fyrirvara og í raun hvenær sem er.
Skynsamlegasta aðgerðin, sem ég tel í raun einboðin, er að farið verði strax í það að laga veginn um Lágheiði og gera hann tilbúinn til að taka við þeirri umferð sem kæmi ef Siglufjarðarvegur lokast. Ekki er verið að tala um að byggja um malbikaðan uppbyggðan veg heldur einfaldlega laga veginn þannig að hann sé akstursfær allt árið. Með þessu móti yrði einnig komið til móts við íbúa og fyrirtæki á svæðinu, sem árum saman hafa barist fyrir uppbyggingu á þeim vegi og er ill- eða ófær stóran hluta vetrarins.
Við þurfum að horfast í augu við þá staðreynd að Siglufjarðarvegur getur lokast án fyrirvara. Þá verðum við að vera kominn af stað með varaplan, sem að mínu mati er uppbygging og lagfæring á veginum um Lágheiði á meðan Fljótagöng eru í undirbúningi.
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
This website uses cookies to improve your experience while you navigate through the website. Out of these cookies, the cookies that are categorized as necessary are stored on your browser as they are essential for the working of basic functionalities of the website. We also use third-party cookies that help us analyze and understand how you use this website. These cookies will be stored in your browser only with your consent. You also have the option to opt-out of these cookies. But opting out of some of these cookies may have an effect on your browsing experience.
Necessary cookies are absolutely essential for the website to function properly. This category only includes cookies that ensures basic functionalities and security features of the website. These cookies do not store any personal information.
Any cookies that may not be particularly necessary for the website to function and is used specifically to collect user personal data via analytics, ads, other embedded contents are termed as non-necessary cookies. It is mandatory to procure user consent prior to running these cookies on your website.