Categories
Greinar

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur

Deila grein

28/10/2022

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur

Fyrir okkur sem samfélag er mikilvægt að huga að með sem allra besta móti að eldri þegnum þessa lands. Eldra fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og það sem hentar einum þarf ekki að henta öðrum. Þá þarf samfélagið einnig að vera tilbúið til þess að takast á við sístækkandi hóp eldra fólks með það að markmiði að koma til móts við þeirra þarfir. Svo hægt sé að greina stöðu eldra fólks með markvissum og skilvirkum hætti er nauðsynlegt að hafa við höndina rétt tól og tæki. Af því tilefni hef ég lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi sem snýr að um markvissri öflun gagna um líðan, velferð og efnahag eldra fólks.

Líðan velferð og efnahagur eldra fólks

Í tillögunni er lagt lag til að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að útbúa mælaborð með það að markmiði að halda utan um og safna tölfræðilegum upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks og ná þannig fram heildarmynd af almennri stöðu eldra fólks í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við. Í dag liggja ekki fyrir markvissar, samræmdar og tímanlegar upplýsingar um líðan, stöðu og velferð eldra fólks á hverjum tíma. Við þurfum að huga að framsetning upplýsinga sé samræmd, aðeins þannig getum við náð fram heildarmynd af stöðu eldra fólks á hverjum tíma fyrir sig. Þegar við höfum aðgang að slíkum gagnabanka geta stjórnvöld beint sjónum sínum að þeim verkefnum sem brýnast liggja við og forgangsraðað í rétta átt.

Önnur lönd hafa sum hver sett upp rafræn mælaborð eða gagnvirkar heimasíður sem birta tölfræði um ýmsa þætti er varða eldra fólk, velferð þess og líðan. Meðal þess sem slíkar upplýsingaveitur varpa ljósi á eru fjöldatölur, kynjahlutfall í hverjum aldurshópi, hve margir búa einir eða með öðrum, í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði, fjöldi og aldur þeirra sem leita á bráðamóttökur, fjöldi þeirra sem fá tiltekna aðstoð eða þjónustu hjá sveitarfélagi sínu og svo mætti lengi telja.

Nýtum reynsluna

Sem liður í því að endurskoða félagslega umgjörð barna á Íslandi þróaði Kópavogsbær mælaborð í samstarfi við UNICEF og félagsmálaráðuneytið í tengslum við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og verkefnið barnvænt sveitarfélag. Markmiðið með mælaborðinu var að halda utan um helstu tölfræðigögn er varpa ljósi á líðan, velferð og réttindi barna á Íslandi. Mælaborðið hefur hlotið mikið lof og sýnt að það varpar góðu ljósi á stöðu barna á Íslandi. Horfa má til þess mælaborðs og útbúa sérstakt mælaborð sem hefur það að markmiði að kortleggja líðan, stöðu og velferð aldraðra. Með mælaborði sem þessu má svo greina líðan og velferð eldra fólks og ná fram heildarmynd af almennri stöðu aldraðra í samfélaginu með það að markmiði að beina sjónum stjórnvalda að þeim verkefnum sem brýnt er að takast á við og forgangsraða hverju sinni. Með nýju rafrænu mælaborði um líðan og velferð aldraðra mætti gera ráð fyrir að almenningur, notendur og stjórnvöld hafi betra aðgengi að raunupplýsingum um það sem er að gerast og hvað kallar á rétta úrlausn samfélagsins á hverjum tíma. Þá samdi Félags- og barnamálaráðuneytið í lok árs 2020 við Akureyrarbæ um þróunarverkefni við að undirbúa og kortleggja uppsetningu á mælaborði á líðan og velferð aldraðra, með hliðsjón af mælaborði barna. Mikilvægt er að taka þetta verkefni áfram og upp á næsta stig.

Stefna til framtíðar

Við þurfum að geta mælt aðstæður eldra fólks og við þurfum að nýta mælingarnar til að marka stefnuna til framtíðar, vinna að aðgerðaráætlun og úthluta fjármagni. Þá skiptir einnig verulegu máli að geta fylgst með hvort þær aðgerðir sem ráðist er í beri tilætlaðan árangur. Með öðrum orðum við verðum að geta mælt til að geta bætt. Það er staðreynd að breytingar í aldurssamsetningu þjóðarinnar er ein af stóru áskorunum íslensks samfélags. Fjöldi eldra fólks eykst og hlutfall aldraðra af heildarmannfjölda fer ört hækkandi á næstu árum og áratugum. Þessi tillaga er ein varða í leiðinni að bættri stöðu eldra fólks á Íslandi.

Ingibjörg Isaksen, Þingflokksformaður Framsóknar.

Categories
Greinar

Nýtt menningarframlag streymisveitna

Deila grein

28/10/2022

Nýtt menningarframlag streymisveitna

Með örri tækniþróun hef­ur fjöl­miðlaveit­um sem miðla mynd­efni eft­ir pönt­un, svo­kölluðum streym­isveit­um, fjölgað til muna á síðustu árum. Stór­ar alþjóðleg­ar streym­isveit­ur eru ráðandi á markaðnum og búa þær við þann kost að geta verið staðsett­ar í einu ríki evr­ópska efna­hags­svæðis­ins (EES-ríki) en beint efni sínu til annarra EES-ríkja. Mik­il umræða hef­ur verið um fram­lag slíkra alþjóðlegra streym­isveitna til þeirra landa þar sem þjón­usta af þeim er keypt, svo­nefnt menn­ing­ar­fram­lag. Slíkt fram­lag get­ur verið af ýms­um toga, t.d. með gjald­töku, skatt­lagn­ingu eða skil­yrði um fjár­fest­ingu inn­an viðkom­andi lands. Á sama tíma hef­ur OECD verið að beita sér fyr­ir sam­ræmdri nálg­un hvað viðkem­ur gjald­töku á sta­f­rænu efni sem fer yfir landa­mæri.

Til er verk­færi fyr­ir EES-ríki, svo kölluð AVMSD-til­skip­un, til að fá þær er­lendu streym­isveit­ur, sem staðsett­ar eru í lög­sögu ann­ars rík­is en miðla efni sem beint er að ís­lensk­um neyt­end­um, til að gefa til baka til sam­fé­lags­ins hluta af þeirri veltu sem aflað er hér á landi. Í til­skip­un­inni kem­ur fram að ef aðild­ar­ríki krefja fjöl­miðlaveit­ur inn­an lög­sögu þess um fjár­fram­lög til fram­leiðslu á evr­ópsku efni, þ.m.t. með beinni fjár­fest­ingu í efni og með fram­lagi til lands­bund­inna sjóða, opn­ar til­skip­un­in á þann mögu­leika að skylda er­lend­ar streym­isveit­ur til að greiða til­tekna pró­sentu í t.a.m. Kvik­mynda­sjóð – og efla þannig ís­lenska kvik­mynda­gerð.

Ýmis lönd í Evr­ópu horfa nú til þess að nýta sér til­skip­un­ina til þess að efla inn­lenda kvik­mynda­gerð. Til dæm­is ligg­ur frum­varp fyr­ir þjóðþingi Dan­merk­ur sem legg­ur til að streym­isveit­ur sem beina efni að dönsk­um neyt­end­um skuli greiða 6% menn­ing­ar­fram­lag sem nýt­ist Kvik­mynda­sjóði Dan­merk­ur og öðrum tengd­um menn­ing­ar­verk­efn­um. Norðmenn leggja til tvær leiðir. Sú fyrri, sem er jafn­framt sú sem von­ir standa til að verði heim­iluð, er sú að gera kröfu um beina fjár­fest­ingu í norsku efni að til­tek­inni upp­hæð eða pró­sentu og ef streym­isþjón­ust­an fjár­fest­ir ekki fyr­ir viðmiðunar­upp­hæðinni þá skal hún greiða mis­mun­inn í sjóð sem er sam­bæri­leg­ur Kvik­mynda­sjóði. Vara­leiðin er sú að gera aðeins kröfu um beina fjár­fest­ingu.

Á und­an­förn­um árum hafa ís­lensk stjórn­völd lagt mikla áherslu á að efla um­hverfi menn­ing­ar og skap­andi greina á Íslandi. Í því sam­hengi er vert að nefna að fram­lög til menn­ing­ar­mála hafa auk­ist veru­lega, eða úr 10,7 millj­örðum árið 2017 í 17,7 millj­arða miðað við fjár­laga­frum­varp árs­ins 2023. Það er rúm­lega 65% hækk­un! Við þess­ar töl­ur bæt­ast end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar og hljóðrit­un­ar en í ár er áætlað að þær nemi um 3,3 millj­örðum króna.

Ég er þeirr­ar skoðunar að Ísland eigi að inn­leiða menn­ing­ar­fram­lag af streym­isveit­um svipað því sem unnið er í sam­an­b­urðarríkj­um okk­ar. Slíkt fram­lag er einn liður í því að styrkja um­gjörð menn­ing­ar hér á landi og veita grein­inni auk­inn slag­kraft til þess að vaxa til framtíðar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 25. október 2022.

Categories
Greinar

Þakkir til eldra fólks

Deila grein

28/10/2022

Þakkir til eldra fólks

Þau sem á undan okkur hafa gengið hafa lagt grunninn að því góða samfélagi sem við búum í dag. Ef ekki væri fyrir fórnir og vinnandi hendur þeirra sem eldri eru þá er nokkuð víst að samfélagið okkar væri með öðru móti.

Öfugt við okkar kynslóð þá heyrist ekki hátt í eldra fólki. Upp til hópa er eldra fólk nægjusamt enda alið upp við erfiðari aðstæður en mörg hver okkar sem yngri erum. En hvers vegna er ég að velta þessu hér upp?

Jú, það er vegna þess að það gleymist oft að þakka fyrir það sem vel er gert, við tökum lífinu og samfélaginu eins og sjálfsögðum hlut.

Fjölbreyttur hópur

Til þess að sýna þakklæti er það skylda okkar sem samfélags og þeirra sem eru við stjórnvölinn að huga með sem allra besta móti að eldri þegnum þessa lands.

Eldra fólk er fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir og það sem hentar einum þarf ekki endilega að henta öðrum. Við þurfum að varast það að tala um eldra fólk sem einn og sama hópinn þegar rætt er um aðgerðir til að bæta stöðu þess.

Verkefni okkar

Okkar verkefni er að leggja áherslu á að ná saman upplýsingum um líðan, velferð og efnahag eldra fólks og ná þannig fram heildarmynd af almennri stöðu eldra fólks í samfélaginu svo hægt sé að forgangsraða verkefnum sem brýnt er að takast á við.

Samhliða því þarf fjölbreytta og ólíka þjónustu fyrir eldra fólk og mikilvægt er að það fái að vera þátttakendur í öllum málum sem það snertir.

Tryggjum áhyggjulaust ævikvöld

Ég vil þakka þeim sem eldri eru fyrir þeirra hlutverk við að skapa það góða samfélag sem við búum við á Ísland í dag.

Verkefni okkar á Alþingi er nú eftir sem áður að vinna að verkefnum í þágu

eldra fólks og tryggja því áhyggjulaust ævikvöld.

Ingibjörg Ólöf Isaksen, Alþingismaður og þingfloksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 28. október 2022.

Categories
Greinar

Matarskortur – samvinnuverkefni þjóða

Deila grein

28/10/2022

Matarskortur – samvinnuverkefni þjóða

Í liðnum mánuði lagði undirrituð land undir fót ásamt þremur öðrum þingmönnum. Ferð okkar var heitið á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Þessi heimsókn okkar var virkilega fróðleg og upplýsandi. En meðan á heimsókninni stóð var haldinn neyðarfundur í þinginu þar sem til umræðu var ályktun aðildarríkja þar sem innlimun Rússa á fjórum héruðum í austanverðri Úkraínu var fordæmd. Þessi neyðarfundur var sá 11. frá upphafi en Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar árið 1945. Hér var því um sögulegan viðburð að ræða, enda lifum við sögulega tíma.

Hungursneyðin eykst

Í ferðinni sóttum við heim nokkrar undirstofnanir Sameinuðu þjóðanna, greina mátti þunga undiröldu hjá stofnunum, enda stríð í Úkraínu, yfirvofandi matvælaskortur í heiminum, afleiðingar Covid og loftslagsváin allt umlykjandi. Í kynningu á starfsemi Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP komu fram sláandi staðreyndir. Búist er við að nærri 350 milljónir manna í 82 löndum standi fram fyrir matvælaskorti á komandi ári og er það nærri fjórðungs aukning frá byrjun þessa árs, þar af eru um helmingur börn. Þessar staðreyndir eru ógnvænlegar.

Þótt við hér á Íslandi búum ekki við hungur eða matarskort, þá erum við samt sem áður hluti af þessari heild. Staðreyndin er sú að matarverð í Evrópu fer hækkandi og á sama tíma er orkuskortur yfirvofandi í álfunni með ófyrirséðum afleiðingum. Framboð á hrávöru minnkar stöðug á meðan Rússar halda Úkraínu í heljargreipum. Þótt framleiðslan haldi áfram í landinu þá eru flutningsleiðir takmarkaðar til Evrópu. Það er áskorun og mjög mikilvægt að halda flutningsleiðum opnum í stríði, að öðrum kosti liggja hráefni undir skemmdum og ná ekki til þeirra sem þurfa nauðsynlega á þeim að halda.

Við erum hluti af stóru myndinni

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna sinnir mikilvægum störfum með sinni dyggu aðstoð. Ísland hefur lagt fram fjárhagslegan stuðning við verkefnið og nýlega ákváðu íslensk stjórnvöld að tvöfalda kjarnaframlög sín til tveggja mannúðarstofnana annars vegar til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna og til Flóttamannastofnunar UNHCR, vegna alvarlegs mannúðarástands víðs vegar um heim. Viðbótarframlagið nemur alls 200 m.kr. og renna 100 m.kr. til hvorrar stofnunar.

Matvælaáætlun SÞ hefur lagt áherslu á skólamáltíðir. Það er ekki bara mikilvægt að börnin nærist heldur eru skólamáltíðir einnig hvati til að börn mæti í skólann og þannig fengið nauðsynlega fræðslu og eftirfylgni. Auk þess njóta 1500 bændur á svæðinu góðs af átakinu í formi framleiðsluþróunar og geta þar með bætt afkomu sína.

Verðum að fylgjast vel með þróun mála

Hér er ekki verið að fara með heimsósóma og hrakspár. Staðreyndir tala sýnu máli og mikilvægt er að þjóðir heims sameinist um styrkja þau svæði sem þurfa á neyðaraðstoð að halda. Lausn á fyrirliggjandi vanda er meðal annars sú að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna styrki þjóðir til að virkja og nýta sínar auðlindir sem best til að bjarga mannslífum. Það er nefnilega samvinnuverkefni þjóða að lágmarka þann skaða sem er að verða vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem og þegar aðrar hörmungar skekja heiminn. Það er nefnilega mannlegt að standa saman.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. október 2022.

Categories
Greinar

Ertu á sjéns?

Deila grein

26/10/2022

Ertu á sjéns?

Þegar fólk lendir á sjéns, þá er mikilvægt að hafa nokkra hluti á hreinu: Eru allir til í þetta? Hvar eru getnaðarvarnirnar?

Getnaðarvarnir gegna margvíslegum tilgangi. Eins og nafn þeirra segir til um – eiga þær að koma í veg fyrir getnað – en margar aðrar ástæður liggja að baki þess að fólk notar getnaðarvarnir. Sumar þeirra minnka líkur á kynsjúkdómum, aðrar hafa áhrif á hormónastarfsemi og veita fólki meira frelsi yfir sínum eigin líkama.

Fríar getnaðarvarnir

Ég vil að getnaðarvarnir verði ókeypis fyrir einstaklinga sem eru yngri en 25 ára og hef lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi ásamt 11 öðrum þingmönnum.

Einhverjir spyrja sig eflaust hvers vegna? En svarið er einfalt.

Getnaðarvarnir skipta miklu máli fyrir kynheilbrigði einstaklinga en samkvæmt skýrslum fer notkun smokks og annarra varna dvínandi meðal ungs fólks sem leiðir af sér að tilfellum kynsjúkdóma fer fjölgandi . Auðséð er að framangreint getur haft margs konar afleiðingar og því er mikilvægt að koma til móts við ungt fólk sem mögulega hefur ekki efni á getnaðarvörnum. Ungt fólk á að hafa þann möguleika að geta notað getnaðarvarnir án þess að þurfa að hafa áhyggjur af kostnaði.

Önnur Evrópulönd eru að gera þetta

Í fjölda ríkja, sem við berum okkur helst saman við, eru getnaðarvarnir ókeypis. Þó er mismunandi hvaða verjur það eru sem eru aðgengilegar án endurgjalds og hverjum þær eru aðgengilegar með tilliti til aldurs, kyns o.fl. Víða í Evrópu eru getnaðarvarnir aðgengilegar ungmennum þeim að kostnaðarlausu, þar á meðal í Bretlandi, Noregi, Þýskalandi og Frakklandi. Ef við skoðum svo nánara dæmi frá Frakklandi þá voru getnaðarvarnir nýlega gerðar ókeypis fyrir konur sem eru yngri en 25 ára. Meðal röksemda ríkisstjórnar Frakklands fyrir þeirri aðgerð voru áhyggjur um að konur hætti að nota getnaðarvarnir af fjárhagslegum ástæðum.

Vert er að minnast á skýrslu alþjóðlegu rannsóknarinnar Heilsa og líðan skólabarna (e. Health Behaviour in School-Aged Children), sem gerð hefur verið hér á landi frá árinu 2006. Þar kom fram í síðustu könnun að meðal 15 ára ungmenna í Evrópu og Norður-Ameríku segist einn af hverjum fjórum strákum og ein af hverjum sex stelpum hafa stundað kynlíf. Þar kom einnig fram að notkun getnaðarvarna hefði farið minnkandi síðastliðið ár, sem er mikið áhyggjuefni.

Kynheilbrigði

Kynsjúkdómar dreifast auðveldlega milli einstaklinga við samfarir og það getur tekið langan tíma fyrir einkenni þeirra að koma í ljós. Stundum koma þau aldrei í ljós á áberandi hátt og því þurfa einstaklingar að huga að kynheilbrigði í hvívetna, nota verjur og fara reglulega í skoðun ef tilefni er til þess. Kynsjúkdómur getur haft neikvæð áhrif á lífsgæði einstaklings til lífstíðar. Sumir þeirra fylgja viðkomandi alla ævi. Þeir geta leitt til ófrjósemi og ýmissa veikinda.

Ungt fólk á að geta stuðlað að kynheilbrigði og spornað gegn óskipulögðum barneignum án þess að þurfa að hafa fjárhagslegar áhyggjur.

Kynheilbrigði er nefnilega lýðheilsumál.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst 26. október 2022.

Categories
Greinar

Fólk færir störf

Deila grein

25/10/2022

Fólk færir störf

Fyrr í dag var haldinn fundur á starfsstöð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar á Akureyri þar sem tilkynnt var að fimm sérfræðistörf á sviði brunabótamats yrðu auglýst. Verða þau störf staðsett á Akureyri. Með því mun starfsmönnum HMS á Akureyri fjölga úr 16 í 21. Það má með sanni segja að starfstöð HMS á Akureyri hafi sannað gildir sitt hvað varðar flutning starfa út á land. Með tilkomu þessara starfa er ekki verið að flytja neina starfsmenn út á land heldur er verið að auglýsa fimm ný sérfræðistörf við brunabótamat og þar af eitt stjórnandastarf.

Þessi breyting er í anda stefnu stjórnvalda um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni og styrkir um leið svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem stærsta þéttbýliskjarnans á landsbyggðinni. Síðustu ár hefur hugsun og menning þeirra sem ákveða hvar störf eru unnin tekið miklum breytingum. Við vitum að það er ekki nóg að búa til stefnur og aðgerðaráætlanir því á endanum þarf fólk til þess að færa störf og hér hefir það tekist með góðum hætti. Við vinnum eftir nýjum gildum, staðbundin störf þurfa ekki að vera staðbundin við höfuðborgarsvæðið, með tilkomu rafrænnar stjórnsýslu vitum við að það er hægt að byggja upp og byggja undir starfstöðvar víða um land.

Mikilvægi sérfræðistarfa á landsbyggðinni er augljóst. Sérfræðistörf eru hvort tveggja mikilvæg fyrir samfélagið sem starfið er í sem og landsbyggðina í heild sinni. Við viljum að fólk eigi raunverulegt val um hvar það býr og starfar. Landsbyggðina hefur vantað opinber störf, sérfræðistörf og vel borgandi störf. Fleiri sérfræðistörf á landsbyggðinni stuðla að aukinni menntun á hverju svæði fyrir sig og þannig vex þekking hjá allri þjóðinni. Margir hverjir sem flytja á höfuðborgarsvæðið til náms eiga örðugt með að snúa aftur heim að námi loknu vegna skorts á góðum störfum. Með aukinni áherslu á óstaðbundin störf og flutning starfa sem þurfa ekki að vera staðbundin á höfuðborgarsvæðinu gefum við fólki aukin starfstækifæri í heimabyggð. Einstaklingar sem snúa aftur í heimahagana eða flytja í fyrsta sinn út á land auðga samfélagið á hverjum stað með margvíslegum hætti. Þannig samfélag viljum við skapa.

Á fyrrnefndum fundi á Akureyri sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra einnig frá því að vinna starfshóps um borgarstefnu væri að hefjast. Í vinnu hópsins er það ekki aðeins höfuðborgin sem er undir heldur einnig svæðisborgin Akureyri. Þótt einhverjir hafi glott þegar við hér fyrir norðan byrjuðum að tala um Akureyri sem borg þá hefur umræðan þróast á þá leið að svæðisborgarhugtakið getur hjálpað okkur mjög við skilgreiningu á hlutverki Akureyrar og skyldum við nágrannasamfélögin. Ég hlakka til að fylgjast með þessari vinnu á næstu mánuðum.

Við í Framsókn eigum okkur sterkar rætur um allt land. Það er í kjarna okkar sem Framsóknarfólks að vilja að byggðirnar hringinn í kringum landið fái að blómstra. Það verður gert með stefnumótun sem unnin er í góðri samvinnu við heimafólk og markvissum aðgerðum sem skapa blómlegar byggðir.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst visir.is 25. október 2022.

Categories
Greinar

Nýtt menningarframlag streymisveitna

Deila grein

25/10/2022

Nýtt menningarframlag streymisveitna

Með örri tækniþróun hef­ur fjöl­miðlaveit­um sem miðla mynd­efni eft­ir pönt­un, svo­kölluðum streym­isveit­um, fjölgað til muna á síðustu árum. Stór­ar alþjóðleg­ar streym­isveit­ur eru ráðandi á markaðnum og búa þær við þann kost að geta verið staðsett­ar í einu ríki evr­ópska efna­hags­svæðis­ins (EES-ríki) en beint efni sínu til annarra EES-ríkja. Mik­il umræða hef­ur verið um fram­lag slíkra alþjóðlegra streym­isveitna til þeirra landa þar sem þjón­usta af þeim er keypt, svo­nefnt menn­ing­ar­fram­lag. Slíkt fram­lag get­ur verið af ýms­um toga, t.d. með gjald­töku, skatt­lagn­ingu eða skil­yrði um fjár­fest­ingu inn­an viðkom­andi lands. Á sama tíma hef­ur OECD verið að beita sér fyr­ir sam­ræmdri nálg­un hvað viðkem­ur gjald­töku á sta­f­rænu efni sem fer yfir landa­mæri.

Til er verk­færi fyr­ir EES-ríki, svo kölluð AVMSD-til­skip­un, til að fá þær er­lendu streym­isveit­ur, sem staðsett­ar eru í lög­sögu ann­ars rík­is en miðla efni sem beint er að ís­lensk­um neyt­end­um, til að gefa til baka til sam­fé­lags­ins hluta af þeirri veltu sem aflað er hér á landi. Í til­skip­un­inni kem­ur fram að ef aðild­ar­ríki krefja fjöl­miðlaveit­ur inn­an lög­sögu þess um fjár­fram­lög til fram­leiðslu á evr­ópsku efni, þ.m.t. með beinni fjár­fest­ingu í efni og með fram­lagi til lands­bund­inna sjóða, opn­ar til­skip­un­in á þann mögu­leika að skylda er­lend­ar streym­isveit­ur til að greiða til­tekna pró­sentu í t.a.m. Kvik­mynda­sjóð – og efla þannig ís­lenska kvik­mynda­gerð.

Ýmis lönd í Evr­ópu horfa nú til þess að nýta sér til­skip­un­ina til þess að efla inn­lenda kvik­mynda­gerð. Til dæm­is ligg­ur frum­varp fyr­ir þjóðþingi Dan­merk­ur sem legg­ur til að streym­isveit­ur sem beina efni að dönsk­um neyt­end­um skuli greiða 6% menn­ing­ar­fram­lag sem nýt­ist Kvik­mynda­sjóði Dan­merk­ur og öðrum tengd­um menn­ing­ar­verk­efn­um. Norðmenn leggja til tvær leiðir. Sú fyrri, sem er jafn­framt sú sem von­ir standa til að verði heim­iluð, er sú að gera kröfu um beina fjár­fest­ingu í norsku efni að til­tek­inni upp­hæð eða pró­sentu og ef streym­isþjón­ust­an fjár­fest­ir ekki fyr­ir viðmiðunar­upp­hæðinni þá skal hún greiða mis­mun­inn í sjóð sem er sam­bæri­leg­ur Kvik­mynda­sjóði. Vara­leiðin er sú að gera aðeins kröfu um beina fjár­fest­ingu.

Á und­an­förn­um árum hafa ís­lensk stjórn­völd lagt mikla áherslu á að efla um­hverfi menn­ing­ar og skap­andi greina á Íslandi. Í því sam­hengi er vert að nefna að fram­lög til menn­ing­ar­mála hafa auk­ist veru­lega, eða úr 10,7 millj­örðum árið 2017 í 17,7 millj­arða miðað við fjár­laga­frum­varp árs­ins 2023. Það er rúm­lega 65% hækk­un! Við þess­ar töl­ur bæt­ast end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar og hljóðrit­un­ar en í ár er áætlað að þær nemi um 3,3 millj­örðum króna.

Ég er þeirr­ar skoðunar að Ísland eigi að inn­leiða menn­ing­ar­fram­lag af streym­isveit­um svipað því sem unnið er í sam­an­b­urðarríkj­um okk­ar. Slíkt fram­lag er einn liður í því að styrkja um­gjörð menn­ing­ar hér á landi og veita grein­inni auk­inn slag­kraft til þess að vaxa til framtíðar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 25. október 2022.

Categories
Greinar

Byggjum upp skólaþjónustu til framtíðar – taktu þátt!

Deila grein

25/10/2022

Byggjum upp skólaþjónustu til framtíðar – taktu þátt!

Hinn 17. október sl. kynnti ég áform um viðamiklar breytingar á menntakerfinu og ný heildarlög um skólaþjónustu. Uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um allt land, sem byggð er á þrepaskiptum stuðningi, er ein af meginaðgerðum menntastefnu til ársins 2030. Að baki menntastefnunni var umfangsmikið samráð og greiningarvinna við að þróa og byggja upp íslenska menntakerfið til framtíðar. Nú er kominn tími til að hrinda þessum verkþætti í framkvæmd og ná þannig mikilvægum áfanga í þágu farsældar barna.

Markmið nýrra laga er að tryggja jafnræði í þjónustu við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum óháð aldri, uppruna og búsetu, mæta ákalli um aukna ráðgjöf og stuðning við starfsfólk og stjórnendur á vettvangi skólans, efla þverfaglega samvinnu og samþættingu milli skóla- og þjónustustiga í þágu farsældar barna og tryggja öllum skólum faglegt bakland í sínum fjölbreyttu verkefnum.

Í þeirri vinnu sem er fram undan er mikilvægt að fá fram sjónarmið sem flestra til að ná farsælli niðurstöðu. Samráð við hlutaðeigandi gegnir lykilhlutverki til að koma sem best til móts við þarfir haghafa skólasamfélagsins og tengdra þjónustukerfa. Nú fyrir helgi sendi ég boð til haghafa um allt land og hvet öll sem hafa áhuga til að taka þátt í samráði og móta skólaþjónustu til framtíðar.

Á næstu vikum taka til starfa samráðshópar þar sem kallað er eftir víðtæku samráði við börn og ungmenni, foreldra, kennara, stjórnendur og starfsfólk í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum, skólaþjónustu og öðrum þjónustukerfum.

Þau sem hafa áhuga á því að taka þátt í þessari vinnu eru hvött til að senda inn ábendingar eða skrá sig til þátttöku í samráðshópum með því að senda póst á netfangið mrn@mrn.is með „Skólaþjónusta“ í efnislínu fyrir lok dags 4. nóvember nk.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2022.

Categories
Greinar

Læknar óskast til starfa – sól og góðum móttökum heitið!

Deila grein

25/10/2022

Læknar óskast til starfa – sól og góðum móttökum heitið!

Austurland hefur gott orð á sér fyrir svo margra hluta sakir. Hér er hitastigið alltaf ásættanlegt á sumrin, skíðasnjórinn í tonnavís á veturna og falleg hauststól sem mýkir lendinguna fyrir okkur úr sumri yfir í vetur. Við höfum óspillta náttúruna í bakgarðinum, afþreyingu fyrir fjölskylduna á hverju strái og öflugt fólk sem vinnur að því alla daga að gera þetta samfélag gott fyrir þá sem hér búa. Hér hefur verið næg atvinna í boði, þjónusta við íbúa víða metnaðarfull, uppbygging og framfarir sjáanlegar og nú horfum við einnig fram á að greiðist úr íbúðarhúsnæðisvandanum sem við, eins og aðrir landshlutar, höfum staðið frammi fyrir.

Þrátt fyrir paradísina sem Austurland er, þá finnst auðvitað alltaf eitthvað sem betur má fara. Þrátt fyrir vilja og metnað þessa góða samfélags, næst ekki að manna Heilbrigðisstofnunina okkar svo ásættanlegt sé. Það sem af er hausti hefur í tvígang þurft að loka skurðstofu HSA á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupsstað vegna manneklu. Í annað skiptið var enginn svæfngarlæknir á staðnum og í hitt skiptið vantaði skurðlækni. Án þessara sérfræðinga er ekki hægt að halda skurðstofu, og þar af leiðandi lífsnauðsynlegri neyðarþjónustu, opinni. Nú horfum við svo fram á að þær konur sem eiga von á barni í lok árs eða byrjun þess næsta, þurfa að eyða jólunum að heiman ásamt fjölskyldum sínum og jafnvel stærra stuðningsneti, þegar starfandi skurðlæknir er í fríi.

Í fyrsta lagi er þetta óásættanlegt fyrir þá sem þurfa að nota þjónustuna, í þessu tilviki barnshafandi konur og fjölskyldur þeirra, að þurfa að fara að heiman og dvelja annarsstaðar með öllu því álagi sem því fylgir. Það hjálpar alveg örugglega ekki til þegar kemur að því að lágmarka streitu fyrir fæðingu sem við vitum að er mikilvægt. Í ofanálag er óvissuþátturinn um hvort konan og ófætt barn hennar þurfi síðan yfir höfuð á þjónustunni að halda þegar til kastanna kemur.

Í öðru lagi er ástandið óásættanlegt fyrir sérfræðinginn, sem þó sinnir þessu starfi alla jafna, að eiga erfitt með að taka sér frí frá vinnu til að vera með sinni fjölskyldu af því hann veit að enginn leysir hann af á meðan. Það er streituvaldur í starfi og einkalífi, sem sennilega seint myndi teljast eftirsóknarverður og fæstir ráða við til lengri tíma.

Í þriðja lagi er þetta óboðlegt fyrir alla íbúa fjórðungsins, að ekki takist að halda úti bráðaþjónustu alla daga ársins. Íbúar upplifa óöryggi þegar ekki er hægt að treysta á að neyðarþjónusta sé til staðar og í ofanálag kemur síðan óvissuþátturinn sem snýr að færð og veðri. Fjallvegir á milli byggðakjarna eru stundum illfærir yfir háveturinn og flugið ótraust líka af sömu ástæðu. Ástandið heldur svo áfram að vinda upp á sig vegna þess að flugvöllurinn okkar er staðsettur á Egilsstöðum en sjúkrahúsið í Neskaupsstað, sem gerir það að verkum að stundum þarf að flytja sjúklinga oftar en einu sinni á milli staða til að koma viðkomandi í ákjósanlegt eða lífsnauðsynlegt úrræði. En þau mál í heild sinni eru reyndar efni í aðra grein.

En hver er ástæðan fyrir því að við náum ekki að halda uppi nauðsynlegri þjónustu alla daga ársins? Það er ekki hægt að benda í neina ákveðna átt í leit að sökudólgum þar sem virkt samtal um leiðir til úrbóta hefur verið í gangi á milli þeirra sem að málinu koma. Það er allsstaðar vilji til að laga ástandið en einhversstaðar stendur hnífurinn pikkfastur í kúnni. Það er eflaust fleiri en einn þáttur sem veldur því að læknamönnun er ekki ásættanleg á austurlandi, og það á reyndar jafnt við um sjúkrahúsið eins og heilsugæslurnar. Hver svosem ástæðan fyrir því er að hingað fást ekki læknar til starfa og búsetu, þá hljótum við öll að vera sammála um að hér þarf eitthvað að breytast. Það þarf að vinna markvisst og samhent að því að koma þessum málum í réttan farveg. Sveitarfélögin, Heilbrigðisstofnun Austurlands og í raun samfélagið allt þarf að finna leiðir til að gera landshlutann okkar eftirsóknarverðan og ákjósanlegan stað til að búa og starfa. Töfralausnin er sennilega ekki til en með vilja og metnað samfélagsins alls, nauðsynlegri aðstoð stjórnvalda, góðu sumrin og allan skíðasnjóinn, hljótum við að geta í sameiningu fundið lausnina sem við öll erum að bíða eftir.

Björg Eyþórsdóttir, sveitarstjórnarfulltrúi Framsóknar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 24. október 2022.

Categories
Greinar

Um leiðar­val að Fjarðar­heiðar­göngum

Deila grein

24/10/2022

Um leiðar­val að Fjarðar­heiðar­göngum

Á fundi sveitarstjórnar Múlaþings þann 14. september síðastliðinn var ákvörðun umhverfis- og framkvæmdaráðs um leiðarval vegna Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin staðfest. Var þar með samþykkt að vegur að Fjarðarheiðargöngum liggi um þá leið sem Vegagerðin hefur kynnt sveitarfélaginu og kölluð er hin nýja suðurleið. Aðrar forsendur þessarar ákvörðunar eru meðal annars að vegtenging um Melshorn haldi sér á aðalskipulagi og að um þá leið verði Borgarfjarðarvegur tengdur við hringveginn í fyllingu tímans. Jafnframt er lögð áhersla á að sett verði ný vegtenging frá Selbrekku inn á Fagradalsbraut.

Aðdragandi þessarar ákvörðunar er drjúgur, eins og kemur fram í umhverfismatsskýrslu framkvæmdanna. Árið 2020 lagði Vegagerðin til við starfshóp á vegum bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs að jarðgangamunninn yrði við Dalhús. Rök fyrir þeirri staðsetningu eru meðal annars að þannig næst meiri ávinningur fyrir samfélagið á Austurlandi í heild auk þess að með þessari staðsetningu næst jafnframt stytting á jarðgöngunum.

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs féllst á þessa tillögu Vegagerðarinnar en þar með var ljóst að gildandi aðalskipulag Fljótsdalshéraðs þyrfti að breyta enda er í gildandi aðalskipulagi gert ráð fyrir að gangnamunninn sé við Steinholt. Vegagerðin vann fyrst tillögu að matsáætlun fyrir umhverfismat og var hún kynnt í október 2020. Í framhaldi var gerð umhverfismatsskýrsla sem var kynnt með tillögu Vegagerðarinnar um aðalvalkost í apríl síðastliðnum. Þessi gögn má kynna sér á vefsjá Vegagerðarinnar um framkvæmdina 

Samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana þarf Vegagerðin að færa rök fyrir vali sínu á aðalvalkosti í umhverfismatsskýrslu. Með hliðsjón af þeim þáttum sem þar voru til skoðunar lagði Vegagerðin til að farin verði svonefnd suðurleið Héraðsmegin og að einnig verði ný veglína Seyðisfjarðarmegin.

Í umhverfismatsskýrslu koma suðurleið og miðleið betur út en norðurleið hvað varðar umferðaröryggi, kostnað, þjóðhagslegan ávinning og áhrif á náttúrufar, landnotkun, fornleifar og samfélagsleg áhrif. Vegagerðin telur því mestan ávinningin koma fram með því að fara suðurleið.

Matið sýnir einnig að allir valkostir fela í sér rask innan verndarsvæða og á vistgerðum, þ.e. birki og votlendi, sem njóta verndar skv. 61. gr. Náttúruverndarlaga. Því er gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum sem felast í uppgræðslu og endurheimt vistgerða.

Sú aðalskipulagsbreyting sem nú er unnið að á sér því umtalsverðan aðdraganda. Vinnslutillaga fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi var kynnt íbúum 14. júlí sl. og var frestur til að senda inn athugasemdir til 25. ágúst.

Það er mikilvægt að fá fram afstöðu íbúa og annarra hagsmunaaðila til þeirra valkosta sem fjallað er um í umhverfissmatsskýrslu framkvæmdanna (suðurleið, miðleið og norðurleið) og var það gert með opnum fundum þar sem kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar voru til viðtals og sátu fyrir svörum um framhaldið. Fáar athugasemdir komu frá íbúum á þessum kynningartíma.

Í kjölfar þessa ferlis tók sveitarstjórn ákvörðun um leiðarvalið og er nú unnið að gerð endanlegrar tillögu til breytinga á aðalskipulaginu í samræmi við þá ákvörðun. Sú tillaga kemur síðan til sveitarstjórnar til afgreiðslu þegar hún verður orðin fullunnin síðar í vetur.

Það er ljóst að sveitarfélagið þarf síðan einnig að horfa á þessa skipulagsbreytingu í stærra samhengi. Þar má vísa til þess við horfum til þess hvernig ný veglína getur átt samleið með stækkun flugvallar sem og legu nýrrar Lagarfljótsbrúar. Enda berum við þá von í brjósti að skammt sé í þær framkvæmdir.

Við teljum að með hinni nýju suðurleið myndist tækifæri til að færa Lagarfljótsbrúnna innar og best væri að ná þjóðveginum inn fyrir þéttbýlið án þess að aftengja það um of. Horfandi til möguleika á lengingu flugbrautarinnar, það er til suðurs eins og gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi, teljum við að ná megi því markmiði að koma þungaumferð út fyrir þéttbýlin okkar hér við fljótið án þess að missa snertiflöt við bæinn, þannig að vegurinn liggi einkum að og um svæði fyrir verslun, þjónustu og iðnað.

Það má fastlega gera ráð fyrir því að þegar Seyðfirðingar og Fjarðarbúar koma í Egilsstaði til að sinna sínum erindum munu þeir áfram fara um miðleið. Umferð um hana mun hinsvegar minnka verulega því sú umferð sem ekki á beint erindi í Egilsstaði mun fara um suðurleið.

Suðurleiðin skapar möguleika á beinni tengingu af þjóðvegi inn á iðnaðarsvæðið á Miðási sem er gríðarlega mikilvægt og grunnforsenda þess að við náum því markmiði að þungaflutningar verði sem mest utan bæjarmarkanna. Til að ýta enn frekar undir þetta markmið má einnig beita ýmsum takmarkandi umferðarstýringum með þetta fyrir augum þó að tekið verið tillit til innanbæjarflutninga. Sú útfærsla bíður betri tíma og mögulegt er að til þess þurfi ekki að koma rætist sú ósk okkar að þungaflutningar leiti í akstur um beina og breiða þjóðvegi frekar en að fara um miðbæinn.

Sú gagnrýni hefur komið fram að betra hefði verið að hugsa til framtíðar hvað varðar stækkun byggðar áður en veglína yrði ákveðin. Í því sambandi er rétt að benda á að í gildandi aðalskipulagi er töluvert rými til stækkunar þéttbýlis sem ekki er búið að fullnýta og skerðist á engan hátt við þetta leiðarval. Það verður síðan eitt af verkefnunum við gerð nýs aðalskipulags að ákveða næstu skref í stækkun þéttbýlisins. Fjölmargir góðir valkostir standa til boða hvað það varðar og gildir þá einu hvaða leið hefði verið valin fyrir þessar framkvæmdir.

Við erum þess fullviss að þessi ákvörðun sveitarstjórnar að samþykkja tillögu Vegagerðarinnar verði okkur öllum til heilla og að við munum innan skamms sjá vinnu við Fjarðarheiðargöng hefjast.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. október 2022.