Categories
Fréttir

Stafrænt kynferðisofbeldi stærsta áskorunin – löggjöfin hefur ekki að geyma vernd

Deila grein

22/05/2020

Stafrænt kynferðisofbeldi stærsta áskorunin – löggjöfin hefur ekki að geyma vernd

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, bar upp fyrirspurn á Alþingi í vikunni um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir að stefnt skuli að gerð áætlunar um að útrýma kynbundnu ofbeldi, ekki síst stafrænu kynferðisofbeldi. Stýrihópi forsætisráðherra um heildstæðar úrbætur varðandi kynferðislegt ofbeldi hefur verið falið að móta stefnu gegn stafrænu kynferðisofbeldi og er sú vinna grundvölluð á skýrslu frá því í janúar á þessu ári er forsætisráðuneytið gaf út.

„Mér leikur forvitni á að vita hvernig vinnunni í heild miðar og lagði ég því fram fyrirspurn í febrúar um framvindu málsins en aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi eru enn jafn mikilvægar og þær voru þá og því gott að fara yfir þær nú,“ sagði Líneik Anna.
„Breyting á daglegum samskiptum fólks hefur verið mikil enda hafa stafræn samskipti aukist ár frá ári. Það hefur skapað nýjar áskoranir í daglegu lífi á mörgum sviðum. Breytingin hefur kallað á breytingar á umgjörð og lagaumgjörð á samskiptum einstaklinga, s.s. persónuvernd. Mörgum finnst þá lagaumhverfið ekki ná að fylgja þróuninni í notkun tækninnar eftir, en fræðimenn hafa bent á andvaraleysi á hvers konar stafrænu kynferðisofbeldi geta haft mjög alvarlegar afleiðingar, til skemmri og lengri tíma, og ekki síst í litlum samfélögum eins og á Íslandi eins og í stærri samfélögum. Ofbeldi getur eins og annað ofbeldi dregið úr lífsgæðum þeirra sem fyrir verða, valdið hvort tveggja andlegum og líkamlegum veikindum, s.s. kvíða og óútskýrðum verkjum,“ sagði Líneik Anna.
Líneik Anna sagði það hafa reynst erfitt að kortleggja umfang stafræns kynferðisbrota heildstætt m.a. vegna þess að löggjöfin hafi ekki að geyma vernd um stafræna kynhelgi. Þá hafi samnorræn úttekt sýnt fram á brotaþolar hafi ekki talið borga sig að leita réttar síns vegna þessa á Íslandi.
Líneik Anna spurði (i) hvað liði heildar stefnumótun um aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi, (ii) hvort hugað væri að lagabreytingum til að styrkja stöðu þolenda slíkra brota og (iii) með hvaða hætti mætti stuðla að vitundarvakningu gegn stafrænu kynferðisofbeldi.
Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, var til andsvara og sagði stafrænt kynferðisofbeldi vera eina stærstu áskorunina er Íslendingar stæðu frammi fyrir til að koma á fullu jafnrétti kynjanna. Benti Katrín á að samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, um „jafnrétti kynjanna“, þá sé það það markmið er þjóðir heims eigi enn hvað lengst í land með að ná. Kynferðisofbeldi er þar stærsta hindrunin í að fullt jafnrétti komist á. Sagði hún að lagasetning ætti að fylgja eftir með þríþættum stefnumarkmiðum:

  • forvarnir og fræðsla
  • úrbætur á meðferð mála í réttarvörslukerfinu
  • aukinn stuðningur við þolendur brota

Dómsmálaráðherra hefur verið falið það verkefni að ráðast í smíði löggjafar og lagaframkvæmdar og sagðist forsætisráðherra vænta þess að þingmálaskrá dómsmálaráðherra í haust muni innihalda drög að nýrri löggjöf.

***

  1. Drög að aðgerðaáætluninni er unnin með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Sérstaklega hefur verið tekið mið af skyldum stjórnvalda í tengslum við samning Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningurinn), samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW), samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun (Lanzarote-samningurinn). Tillagan tekur jafnframt mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun þar sem meðal annars kemur fram að stuðla skuli að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum.
  2. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016-2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála sem og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra.Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Því er mikilvægt að ríki horfi ekki eingöngu til meðaltala við mælingar á árangri sínum heldur nálgist innleiðingu markmiðanna á heildstæðan hátt. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Þá eru innri tengsl og samþætt eðli markmiðanna afar þýðingarmikil fyrir framkvæmd þeirra. Óhætt er að fullyrða að ef þjóðum heims tekst að ná markmiðunum innan gildistíma áætlunarinnar þá mun líf allra og umhverfi hafa batnað til mikilla muna árið 2030.
Categories
Fréttir

Áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum

Deila grein

20/05/2020

Áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja milljarði króna, fram til ársins 2023, til að styðja við rannsóknir og nýsköpun á samfélagslegum áskorunum, í gegnum Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
Forsætisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra kynntu áætlunina í dag  sem og skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna og fjölluðu að auki um frekari áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum.
Árið 2018 átti Vísinda- og tækniráð í víðtæku samráði við almenning, vísindamenn, þingmenn og aðra hagaðila um þær brýnustu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir til næstu ára. Niðurstaðan var að leggja áherslu á þrjár áskoranir:

  1. loftslagsbreytingar og sjálfbærni
  2. heilbrigðisvísindi og velferð
  3. fjórða iðnbyltingin

Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar nær yfir stefnumótandi áætlanir þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni. Verkefni skulu unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Rannís.
Ríkisstjórnin hefur jafnframt samþykkt aðgerðaáætlun sem miðar að því að nýta þau tækifæri sem fjórða iðnbyltingin felur í sér til bæta lífskjör og auka velsæld.
Aðgerðaáætlunin felur í sér 27 aðgerðir sem stjórnvöld munu vinna að á komandi misserum. Hún er unnin af verkefnisstjórn sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2019 og byggir á ýtarlegri greiningu á þeim tækifærum og áskorunum sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag.
Unnið er að því innan Stjórnarráðsins að hrinda tillögum verkefnisstjórnarinnar í framkvæmd. Sumt snýr að innviðum stjórnkerfisins, annað að því að efla stofnanir og sjóði sem vinna eiga að frumkvöðlastarfi og nýsköpun. Mikilvægt er að móta stefnu Íslands í málefnum gervigreindar, eins og verkefnastjórnin bendir á í skýrslu sinni. Þetta verður meðal helstu verkefna íslensks samfélags á komandi árum.
Þá hefur verið sett á laggirnar þvervísindalegt rannsóknarsetur Margrétar Danadrottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag. Leggur danski Carlsbergsjóðurinn 500 m.kr til setursins, íslenska ríkið 140 m.kr. og Rannsóknasjóður 100 m.kr. í tilefni af 80 ára afmæli Danadrottingar og 90 ára afmæli Vigdísar. Rannsóknarsetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands. Áhersla verður lögð á að ráða unga vísindamenn að verkefninu.
Aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna. Tillögur verkefnisstjórnar.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Afrekið sem skólafólk vann“

Deila grein

20/05/2020

„Afrekið sem skólafólk vann“

„Nú þegar farfuglarnir eru flestir komnir, reglur um samkomur rýmkaðar, sundlaugar opnar, margir nýklipptir og skólaárinu að ljúka er full ástæða til að rifja upp afrekið sem skólafólk vann í kjölfar kórónuveirunnar,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í gær.

„Skólastjórnendur, kennarar, leiðbeinendur og annað starfsfólk á öllum skólastigum um land allt brugðust við ákalli um breytta kennsluhætti og viðveru. Starfinu var kollvarpað á núll einni og fólk stóðst prófið með glans. Niðurstaðan er sú að Ísland er eitt fárra landa sem tókst að halda skólakerfinu sínu gangandi í heimsfaraldri. Takk fyrir það.“

Þórunn kom í framhaldi inn á aðgerðir stjórnvalda vegna sumarnáms og sumarstarfa. „800 milljónum verður varið í að tryggja markvisst sumarnám á framhalds- og háskólastigi. Á framhaldsskólastigi er gert ráð fyrir að rúmlega 80 áfangar verði í boði, að námsframboð nái til sem flestra landshluta í staðnámi og einnig að fjarnám verði í boði. Komið verður sérstaklega til móts við starfsnámsnemendur og stuðningur býðst nemendum með annað móðurmál en íslensku,“ sagði Þórunn.

„Sumarnám í háskóla hefst í lok maí og athugið að allir háskólar landsins taka þátt í þessu verkefni og munu bjóða upp á yfir 200 fjölbreyttar námsleiðir. Utan hefðbundinnar kennslu bjóðast símenntunarúrræði, undirbúningur fyrir háskólanám og færnibrú fyrir fólk sem vill skipta um starfsvettvang. Áhersla er lögð á að skrásetningargjöldum verði haldið í lágmarki og að innritaðir nemar greiði ekki skólagjöld fyrir sumarið. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur brugðist við með margvíslegum aðgerðum til hagsbóta fyrir námsmenn, m.a. að rýmka reglur og undanþágur og lengja umsóknarfresti.“

„Stjórnvöld ætla að ná til þessa hóps námsmanna sem hvorki fær starf né aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja um 2,2 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Þegar er auglýst eftir nemum í sumarstörf hjá sveitarfélögum og opinberum stofnunum. Við sjáum strax árangur af þessum aðgerðum og auk þess hafa stjórnvöld veitt aukafjármagn til mikilvægra sjóða á sviði rannsókna og vísinda. Stóra verkefnið er að vinna gegn atvinnuleysi. — Áfram við,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Fréttir

„Koma sem flestum námsmönnum í störf“

Deila grein

14/05/2020

„Koma sem flestum námsmönnum í störf“

Aðgerðir stjórnvalda vegna sumarnáms og sumarstarfa voru kynntar á fundi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, í Háskólanum í Reykjavík í dag.
„Við viljum tryggja að námsmenn geti nýtt sína krafta á komandi sumri. Íslenskir námsmenn eru stór og fjölbreyttur hópur en það er menntun þeirra og árangur sem leggur grunninn að  framtíðarhagsæld okkar samfélags. Aðgerðir okkar nú miða að því að fjölga valkostum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur sem vilja nýta komandi sumar – til náms eða fjölbreyttra starfa,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
„Við teljum mjög mikilvægt að koma sem flestum námsmönnum í störf þar sem þeir fá bæði reynslu og virkni, ásamt því að skila verðmætum inn í hagkerfið. Samhliða þessum aðgerðum munum við skoða leiðir til að skapa fleiri störf eða grípa til annarra aðgerða, verði þörf á því, en lagt er upp með að við grípum námsmenn með einhvers konar úrræði fyrir miðjan júní,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.
Allir háskólar landsins og alls 15 framhaldsskólar hyggjast bjóða upp á sumarnám í sumar. Breiddin í námsframboði þeirra er afar mikil; þar verður bæði að hægt að taka einingarbæra áfanga sem og fjölbreytt námskeið. Sérstök áhersla er á nám sem nýtist sem undirbúningur fyrir háskólanám, námskeið á sviði iðn- og verknáms, valkosti á sviði símenntunar og færnibrýr fyrir atvinnuleitendur sem vilja skipta um starfsvettvang. Boðið verður upp á nám sem tekur frá einni og upp í tíu vikur.
Upplýsingar um námsframboð skóla verður að finna á heimasíðum þeirra en aðsókn mun ráða því hvaða námsframboð verður endanlega í boði.

2,2 milljarðar kr. í sumarstörf fyrir námsmenn

Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja um 2.2 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að með átakinu verði til 3.400 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga. Um er að ræða fjórum sinnum stærra átak en ráðist var í eftir hrunið, sumrin 2010 og 2011.
Átak þetta er unnið í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og er undirbúningur þegar vel á veg kominn. Sveitarfélögin munu sjálf auglýsa störfin en Vinnumálastofnun mun auglýsa störf á vegum stofnana ríkisins. Störfin verða auglýst opinberlega á næstu dögum og þurfa stofnanir og sveitarfélög að skapa ný störf í tengslum við átakið. Miðað er við ráðningartímabilið frá 1. júní til 31. ágúst.
Þegar hafa verið staðfest hafa verið 1.709 störf við sveitarfélögin, sem þau geta auglýst strax. Í byrjun næstu viku er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun staðfesti allt að 1.700 störf við stofnanir ríkisins sem verða auglýst í kjölfarið.
Komi í ljós að þessi fjöldi sumarstarfa og annarra úrræða nái ekki til nægilega margra námsmanna verður leitað leiða til að skapa fleiri störf og/eða tryggja aðrar leiðir til framfærslu.

Mikilvægi rannsókna og vísinda

Auk þessa hafa stjórnvöld einnig veitt auka fjármagni til mikilvægra sjóða á sviði rannsókna og vísinda, vegna COVID-19. Framlög til Nýsköpunarsjóðs námsmanna hafa hækkað verulega og nema alls 485 milljónum kr. í ár. Þá var 700 milljónum kr. veitt í Rannsóknasjóð og Innviðasjóð, og 700 milljónum kr. í Tækniþróunarsjóð.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Börn og samgöngur“

Deila grein

13/05/2020

„Börn og samgöngur“

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, gerði í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í gær, að umtalsefni afhendingu umboðsmanns barna og hóps ungmenna ríkisstjórninni niðurstöðu barnaþings sem haldið var í nóvember sl.
„Barnaþing er nú orðið fastur liður í tilverunni. Til þess var stofnað með lögum og skal það haldið annað hvert ár með þátttöku barna og ungmenna hvaðanæva að af landinu. Áherslur stjórnvalda á aukin áhrif barna og ungmenna koma víða fram og vil ég í dag draga athygli ykkar að merkilegu málþingi sem var einnig haldið í nóvember.“
„Það þing hafði yfirskriftina Börn og samgöngur. Það eru tíðindi því að samkoma af þessu tagi hefur ekki verið haldin áður. Þrátt fyrir að börn séu stórnotendur samgöngukerfisins er hvergi minnst á þau í gildandi samgönguáætlun og aðeins tæpt á ungmennum. Börn ferðast með bílum, börn fljúga, börn hjóla, börn ganga, börn sigla og börn ferðast með strætó. Þeirra sjónarmið þurfa að koma fram líkt og annarra. Þess vegna var eitt af umbótaverkefnum samgönguráðs að koma sérstökum kafla um börn og samgöngur inn í samgönguáætlun.“
„Hagsmunir barna í umferðinni eru á margan hátt ólíkir hagsmunum þeirra sem eldri eru sem og hegðun þeirra í umferðinni. Okkur veitir ekki af liðsinni barna, að fá skoðanir þeirra fram og varpa sýn á hugmyndir þeirra sem þekkja kerfið í dag og eru líka framtíðarnotendur.
Nú hefur samráð þess vegna bæst inn í verkferla samgönguráðs við undirbúning samgönguáætlunar. Samtal við fólk á öllum aldri um allt land er mikilvægt til að samræma sjónarmið.
Hæstv. forseti. Í fyrsta fjárfestingarpakka ríkisstjórnarinnar verða til 1.000 störf næstu árin vegna framkvæmda við samgöngumannvirki og það verður svo til þess að eignamyndun ríkisins eykst. Og athugið að þetta er allt fyrir utan gildandi samgönguáætlun. Við erum stórhuga og í miklum framkvæmdum. Það er á okkar ábyrgð að hafa ungmenni með í ráðum. Þau þurfa að lifa við ákvarðanir okkar inn í framtíðina,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Fréttir

Aflétting ferðatakmarkana mikilvægt skref

Deila grein

12/05/2020

Aflétting ferðatakmarkana mikilvægt skref

Ríkisstjórnin ákvað í morgun að stefna að því að eigi síðar en 15. júní næstkomandi geti þeir sem koma til landsins farið í COVID-19 próf á Keflavíkurflugvelli. Reynist það neikvætt þurfi þeir ekki að fara í 2ja vikna sóttkví. Þá er gert ráð fyrir að nýleg vottorð um sýnatöku erlendis verði einnig tekin til greina meti sóttvarnalæknir þau áreiðanleg. Þessi tímasetning er með fyrirvara um að áætlanir um afléttingu takmarkana innanlands gangi eftir og með hliðsjón af þróun faraldursins hérlendis og erlendis.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir að aflétting ferðatakmarkana, sé mikilvægt skref, sérstaklega þar sem íslenska ríkið geri þetta á eigin forsendum.
„Ég held að þetta sé mikilvægt og sérstaklega af því að við getum gert þetta á okkar eigin forsendum. Það er svona yfirlýsing um að heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðiskerfið okkar, ræður við það sem við höfum verið að kljást við og með því að taka þetta skref þá segjum við: „Verið velkomin en með þeim takmörkunum sem að við setjum,“ sagði Sigurður Ingi.
„Við erum með þessari ákvörðun svolítið að taka ákvarðanir á eigin forsendum og byggja þær áfram á þessum vísindalega þekkingargrunni og gera þetta í takt við hvernig við afléttum innlendum takmörkunum.“
Fyrirhugað er að veirufræðideild Landspítala annist sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og greiningu. Niðurstaða á að geta legið fyrir samdægurs og er gert ráð fyrir að farþegar geti farið til síns heima eða á gististað uns hún liggur fyrir.
Fyrirkomulagið verður endurmetið þegar tveggja vikna reynsla er komin á það, m.a. út frá því hvort herða þurfi aftur aðgerðir eða hvort frekari tilslakanir séu forsvaranlegar. Ef skimun á Keflavíkurflugvelli reynist vel þarf einnig að huga að fyrirkomulagi á öðrum landamærastöðvum.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Styrkjum fæðuöryggi þjóðarinnar – spörum kolefnisspor!

Deila grein

12/05/2020

Styrkjum fæðuöryggi þjóðarinnar – spörum kolefnisspor!

„Fæðuöryggi er hugtak sem margir kannast orðið við, ekki síst í umræðu um farsóttir og náttúruhamfarir sem er raunveruleg stöðug ógn eins og við finnum vel fyrir þessar vikurnar. Framboð á matvælum mun að óbreyttu ekki haldast í hendur við fjölgun jarðarbúa á næstu áratugum,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Flutningur á matvælum heimshorna á milli fjölgar kolefnissporum og eykur afföll miðað við að fæðunnar sé neytt sem næst framleiðslustöð. Að þessu sögðu þá er það skylda okkar að leita allra leiða til að auka sjálfbærni landsins hvað fæðuframleiðslu varðar og þar með tryggja öryggi þjóðarinnar og að sjálfsögðu að draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum eins og hægt er. Eitt af því sem við gætum gert og eigum að gera til að ná þessum markmiðum, þ.e. að bæta fæðuöryggi og ekki síst draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum, er að koma til móts við grænmetisbændur varðandi flutningsverð á raforku,“ sagði Silja Dögg.
Silja Dögg sagði Íslendinga hafa einblínt hingað til á hefðbundnar fiskveiðar og landbúnað í umræðu um fæðuöryggi. Sagðist hún vilja sjá horft einnig til þátta eins og t.d. til þörungaframleiðslu í meira mæli,  en úr þörungum má framleiða olíu, næringarríka fæðu fyrir menn og dýr og góðan áburð.
Að lokum vildi Silja Dögg taka undir orð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, í yfirlýsingu, um fæðuöruggi, frá því í gær. Í henni kemur fram hvatning til stjórnvalda og allra landsmanna að taka fæðuöryggi þjóðarinnar föstum tökum:

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill skora á stjórnvöld að tryggja til framtíðar þá grunnþætti er mestu skipta varðandi fæðuöryggi þjóðarinnar. Þar má nefna eignarhald á jörðum, varðveislu ræktunarlands, tollvernd sem heldur, og almenna þekkingu og viðurkenningu á hæfi mismunandi landgerða til mismunandi landnota, ekki síst matvælaframleiðslu. […] Stuðla þarf að aukinni fjölbreytni í matvælaframleiðslu, m.a. með því að styðja við ylrækt, garðyrkju og kornrækt. Miklir vannýttir möguleikar eru varðandi nýtingu íslensks korns bæði í manneldi og búfjárrækt. Í ylræktinni eru frábær tækifæri til að nýta hreinar orku- og vatnsauðlindir til að framleiða úrvals matvæli og blóm sem gleðja.“

Categories
Fréttir

„Þar á fókusinn að vera“

Deila grein

12/05/2020

„Þar á fókusinn að vera“

„Það er ljóst að hlutabótaleiðin snýst fyrst og fremst um að verja störf fólks í landinu á miklum óvissu tímum og eiga að tryggja áframhaldandi ráðningasamband. Þar á fókusinn að vera,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í Facebook-færslu í dag.
„Á fundi velferðarnefndar í gær voru rædd skilyrði um hlutabætur. Öll nefndin lýsti yfir miklum vonbrigðum með að fyrirtæki hafi reynt að fá launafólk til að samþykkja þátttöku í úrræðinu án þess að um rekstrarvanda væri að ræða eins og skýrt er í þeirri leið sem samþykkt hefur verið. Á sama tíma og nokkur fyrirtæki setur fólk á hlutabætur þá greiðir það sér arð á meðan,“ sagði Halla Signý.
„Það er ljóst að skýr skilaboð frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar og annarra stjórnmálamanna hefur leitt til þess að nokkur fyrirtæki sem hafa verið að nýta sér þessa leið þrátt fyrir að geta á sama tíma greitt út arð, hafa horfið frá því og skilað ríkisstuðningi. Það er vel og skilaboðin skila sér skýrt í frumvarpi sem félagsmálaráðherra hyggst leggja fram í vikunni,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Samgöngur eru grunnstoð efnahagskerfisins“

Deila grein

06/05/2020

„Samgöngur eru grunnstoð efnahagskerfisins“

„Góðar samgöngur leggja grunn að samkeppnishæfni þjóðarinnar og lífsgæðum í landinu. Þegar samgönguáætlun er lögð fram hefur langt og mikið ferli átt sér stað. Framkvæmdir detta ekki niður úr loftinu eins og einhverjum virtist detta í hug við umræðu í þinginu í gær,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, í störfum þingsins á Alþingi í dag.

„Aðdragandinn felst í samráði og samtali svo hægt sé að forgangsraða og vinna faglega að framlagningu áætlunarinnar. Sviðið er vítt og tekur yfir fjáröflun og útgjöld til allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála og siglingamála, þar með talið almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála, umhverfismála og samgöngugreina. Málaflokkurinn snertir í raun alla þætti þjóðfélagsins og þar með alla íbúa landsins. Þess vegna er samtal og samráð um þessi mál mikilvægt. Það liggur þó algjörlega ljóst fyrir að ekki fá allir sínar ýtrustu óskir uppfylltar. Þrátt fyrir stóraukin framlög undanfarin ár til framkvæmda, viðhalds vega og hafna er enn langt í land.“

Frumvarp hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem var til umfjöllunar hér í gær og snýr að leið sem kallast samvinnuleið í framkvæmdum, opnar okkur leið til að flýta framkvæmdum og koma verkefnum framar í framkvæmdaröðinni. Það er gróði fyrir okkur öll en ljóst er að innviðafjárfestingar verða lykilþáttur í aðgerðum stjórnvalda til að stemma stigu við efnahagsáhrifum heimsfaraldursins. Það er því dauðafæri fyrir okkur núna að efla atvinnulíf, auka störf og styrkja innviði innlenda hagkerfisins en stærsti ávinningurinn verður alltaf fyrir notandann, ekki bara að hann geti valið um leið heldur eykur það öryggi okkar allra. Það er það sem við eigum að hafa á oddinum þegar við tölum um samgöngur og samgöngukerfið okkar,“ sagði Þórunn í lokin.

Categories
Fréttir

„Rothögg fyrir fjöldamargar litlar fjölskylduútgerðir“

Deila grein

06/05/2020

„Rothögg fyrir fjöldamargar litlar fjölskylduútgerðir“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, segir að sjómenn telji að meira sé af grásleppu en talið sé og að þeir kalli eftir að ráðgjöf Hafró verði endurmetin. Þetta koma fram í ræðu hennar í störfum þingsins á Alþingi í dag. Grásleppuveiðar verið stöðvaðar þar sem að 4.600 tonna veiðiráðgjöf hefur verið náð eftir mokveiði við norðan- og austanvert landið.
„Grásleppuveiði hefur verið stunduð víða um land og er það áberandi að þessar veiðar eru orðnar stór þáttur í útgerð á mörgum stöðum og halda sér betur í veikari byggðum eins og á Ströndum, í Búðardal og á Brjánslæk svo einhver svæði séu nefnd,“ sagði Halla Signý.

„Þessar veiðar voru ekki hafnar núna við innanverðan Breiðafjörð og í Stykkishólmi biðu um 20 útgerðir eftir að opnað yrði á svæðið. Nú á að opna það svæði eftir 20. maí og leyfa veiðar í allt að 15 daga. Í Stykkishólmi er að jafnaði 120 manns sem fá vinnu á gráslepputímanum og þar er komið að fimmtungur heildaraflans að landi undanfarin ár er grásleppa. Kvótakerfi í grásleppu er ekki svarið þar sem byggðasjónarmið vantar inn í kvótakerfið.“

„Það gefur augaleið að ofan í Covid-ástandið er þetta rothögg fyrir fjöldamargar litlar fjölskylduútgerðir sem margar hverjar halda lífi í byggðum landsins. Það hefði átt að gefa þessari ákvörðun tíma, mæta henni með mótvægisaðgerðum eða endurmeta ráðgjöf. Það er lágmark að þessir 15 dagar í Breiðafirði verði tryggðir. Smábátaútgerðir munu þurfa að snúa sér fyrr að strandveiðum en þar hefur heildaraflamarkið verið skert um 1.000 tonn og ásókn stóreykst í þetta kerfi við þá ákvörðun að loka fyrir grásleppuveiði.
Virðulegi forseti. Fordæmalausir tímar kalla á önnur sjónarmið og nýjar nálganir,“ sagði Halla Signý að lokum.