Categories
Fréttir

Á erfiðleikatímum verðum við að standa saman

Deila grein

19/03/2020

Á erfiðleikatímum verðum við að standa saman

„Þetta er hættuástand sem fá okkar hafa upplifað fyrr. Faraldurinn bitnar hart á öllum norrænu löndunum og virðir engin landamæri. Við slíkar aðstæður er afar mikilvægt að halda heildarsýn og missa ekki sjónar á gagnsemi þess að samhæfa aðgerðir milli landa. Norrænt samstarf og alþjóðlegt samstarf opna á möguleika sem gagnast hverju og einu landanna,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar og forseti Norðurlandaráðs í yfirlýsingu.
Silja Dögg leggur áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um aldraða og aðra sem tilheyra áhættuhópum. Hún hefur skilning á því að yfirvöld neyðist til að grípa til róttækra aðgerða á þessum fordæmalausu tímum.
„Um leið er traustvekjandi að sjá að almenningur á norrænu löndunum treystir því virkilega að yfirvöld taki réttar ákvarðanir. Það sýnir á hve sterkum grunni okkar norrænu samfélög byggja.“
Samfélagsöryggi forgangsmál í Norðurlandaráði
Samfélagsöryggi og samstarf á hættutímum eru mikilvæg svið fyrir Norðurlandaráð. Nú síðast á þingi ráðsins í október 2019 samþykkti það einróma nýtt stefnuskjal um samfélagsöryggi. Í stefnuskjalinu er lagt til að samstarf verði aukið á ýmsum sviðum, meðal annars hvað varðar framfærslu- og heilbrigðisviðbúnað.
„Norrænu löndin eiga nú þegar í frábæru samstarfi á mörgum ólíkum sviðum. Stefnuskjalið inniheldur ýmsar raunhæfar tillögur að því hvernig samstarfið geti orðið enn betra á hættutímum, nokkuð sem Norðurlandaráð vill vinna áfram með,“ segir Silja Dögg.
Starfið heldur áfram á formi fjarfunda
Kórónufaraldurinn sem nú stendur yfir hefur einnig áhrif á störf Norðurlandaráðs. Meðal annars hefur þemaþingi ráðsins, sem fara átti fram 30.–31. mars í Helsinki, verið aflýst og sama gildir um málþing ráðsins í Brussel 17.–18. mars.
Hið pólitíska starf Norðurlandaráðs heldur þó áfram þrátt fyrir faraldurinn. Fjöldi fjarfunda fer fram og undirbúningur að áframhaldandi starfi eftir að faraldrinum linnir er í fullum gangi.

Heimild: norden.org

Categories
Fréttir

Framundan er þétt samvinna Norðurlandanna

Deila grein

19/03/2020

Framundan er þétt samvinna Norðurlandanna

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, átti fjarfund í dag með samstarfsráðherrum Norðurlandanna. Ráðherrarnir leggja áherslu á mikilvægi þéttrar samvinnu og upplýsinga til að mæta þeirri óvissu og áskorunum sem heimurinn tekst á við. Brýnt sé að finna lausnir og bregðast skjótt við til að minnka áhrif á efnahagslífið og auka þjónustu við ríkisborgara Norðurlandanna.
„Síðustu daga höfum við séð hvernig löndin bregðast ólíkt við heima fyrir en við höfum jafnframt séð hve þýðingarmikil norræn samvinna er, sérstaklega þegar kemur að þjónustu við íbúa Norðurlanda. Þar stöndum við sterkt að vígi og þurfum að vinna þétt saman. Öll Norðurlöndin eru með ríkisborgara víða um heim sem vilja koma heim eða munu þurfa á aðstoð að halda seinna meir. Við þurfum á hvort öðru að halda nú sem aldrei fyrr. Þessi fundur er liður í því að sýna samstöðu og samstarfsvilja,“ segir Sigurður Ingi.
Samstarfsráðherrar Norðurlanda voru sammála um að vera áfram í virku sambandi um þær áskoranir sem munu koma upp vegna yfirstandandi aðgerða gegn útbreiðslu COVID-19 veirunnar og nýta styrkleika norræns samstarf til að leysa úr þeim.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Umfangsmesta rannsókn á ferða- og samgönguvenjum landsmanna kynnt

Deila grein

19/03/2020

Umfangsmesta rannsókn á ferða- og samgönguvenjum landsmanna kynnt

„Ferðavenjukönnunin er umfangsmesta rannsókn á ferða- og samgönguvenjum landsmanna sem gerð hefur verið. Það er mikill ávinningur fólginn í því að ferðavenjur séu nú mældar samtímis á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, en við það fást samanburðarhæfar niðurstöður. Gögnin sem fást úr þessari könnun eru verðmæt og munu nýtast við stefnumótun og áætlanagerð í samgöngu- og byggðamálum á öllum sviðum hins opinbera. Þær munu einnig nýtast vel í hvers konar greiningar- og rannsóknarvinnu,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Í fyrsta sinn náði ferðavenjukönnunin til alls landsins en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar fjórum sinnum áður fyrir höfuðborgarsvæðið. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samgöngustofa, Isavia og Vegagerðin stóðu að könnuninni fyrir hönd samgönguráðs ásamt Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).
Gallup framkvæmdi könnun á ferðavenjum Íslendinga sem fór fram í október og nóvember 2019 og byggði á 22.790 manna úrtaki. Svarhlutfall var 42,1% sem þykir góð niðurstaða fyrir jafn umfangsmikla könnun og stórt úrtak. Í fyrsta sinn náði ferðavenjukönnunin til alls landsins en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar fjórum sinnum áður fyrir höfuðborgarsvæðið. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samgöngustofa, Isavia og Vegagerðin stóðu að könnuninni fyrir hönd samgönguráðs ásamt Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH).
„Það er ánægjulegt að sjá þessa könnun verða að veruleika. Niðurstöður hennar munu nýtast vel í vinnu við undirbúning samgönguáætlana framtíðar. Þær ákvarðanir sem þar eru teknar skipta gríðarlegu máli, bæði þar sem háar fjárhæðir eru í húfi en ekki síður vegna þess að þær eru lykilþáttur í sjálfbærni byggða og atvinnulífs. Könnunin hjálpar okkur að skilja betur þarfir og væntingar almennings og geta þannig komið betur til móts við þær,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og formaður samgönguráðs.
Ferðavenjur höfuðborgar og landsbyggðar líkar
Í könnuninni voru ferðavenjur fólks mældar fyrir alla samgöngumáta og eru tölur birtar fyrir landið allt, einstaka landshluta, sveitarfélög og hverfi þar sem það á við. Þar sem könnunin nær til alls landsins í fyrsta sinn er nú hægt að bera saman landshluta. Athygli vekur að ferðavenjur höfuðborgarbúa og þeirra sem búa á landsbyggðinni eru merkilega líkar.
Könnunin staðfestir að daglegum ferðum fólks óháð ferðamátum fækkar jafnt og þétt. Þær voru 4,3 að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu árið 2011 en mældust 3,8 nú. Á landsbyggðinni eru farnar 3,6 ferðir að meðaltali. Flestar ferðir voru farnar í Reykjavík og Kópavogi (3,9) en fæstar voru þær á Austurlandi (3,3).
Meðal annarra áhugaverðra niðurstaðna var að konur (3,9) fara fleiri ferðir en karlar (3,6). Á hinn bóginn fara karlar mun fleiri ferðir (43,1) til höfuðborgarsvæðisins af landsbyggðinni en konur (33,9).
Notkun einkabíls minnkar á höfuðborgarsvæðinu
Ef litið er til höfuðborgarsvæðisins sérstaklega sést að notkun hlutfall einkabíls minnkar um 2 prósentustig en notkun almenningssamgangna hækkar í 5%, en það hlutfall hafði haldist nokkuð stöðugt í 4% í öllum fyrri könnunum frá 2002.
Hlutfall ferða með einkabíl (sem bílstjóri eða farþegi) virðist nokkuð svipað í sveitarfélögum um land allt. Í flestum sveitarfélögum er það hlutfall á bilinu 70-80%. Eitt sveitarfélag skar sig þó talsvert úr öðrum, Langanesbyggð. Þar var hlutdeild einkabíls aðeins 35% og þar áberandi meirihluti sem sagðist fara sínar ferðir gangandi.
Sérstaklega var spurt um umhverfisvitund og samgöngur. Í ljós kom að meginþorri landsmanna er sammála þeirri fullyrðingu að þeir „hugsi mikið um hvað þeir geti gert til að draga úr þeim áhrifum sem þeir hafi á loftslagið/umhverfið“. Svör benda til þess að íbúar þéttbýlli svæða hugsi meira um umhverfisáhrif sín en þeir sem búa á dreifbýlli svæðum. Einnig virðast konur hugsa talvert meira um umhverfisáhrif en karlar.
Verðlag hefur mest áhrif á innanlandsflug
Notkun fólks á innanlandsflugi var könnuð sérstaklega. Notkun innanlandsflugs er langmest á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og Austurlandi og undirstrikar mikilvægi ferðamátans fyrir þá landshluta sem fjærst eru höfuðborgarsvæðinu. Aðspurðir í könnuninni sögðu flestir verðlag hafa mest áhrif á það hvort það nýtti innanlandsflug, sérstaklega á þeim svæðum þar sem notkun innanlandsflugs er mest.

Heimild: stjornarrad.is

Categories
Fréttir

„Samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir“

Deila grein

17/03/2020

„Samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, minnir á að er samgönguáætlun var afgreidd frá Alþingi, fyrir ári síðan, hafi verið samþykkt, með auknum meirihluta og án mótatkvæða, að fela samgönguráðherra að útfæra leiðir til að auka fjármagn í til vegasamgangna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu hennar á Facebook í dag.
„Nú hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra lagt fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.
Þær framkvæmdir sem þar er tilgreint að heimilt verði að bjóða út sem samvinnuverkefni eru:

a. Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá.
b. Hringvegur um Hornafjarðarfljót.
c. Axarvegur.
d. Tvöföldun Hvalfjarðarganga.
e. Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
f. Sundabraut.

Þessi sömu verkefni eru öll tilgreind í samgönguáætlun sem lögð var fram á Alþingi í nóvember 2019,“ segir Líneik Anna.
„Samvinnuleið (PPP-verkefni) getur verið vænlegur kostur til að flýta samgönguframkvæmdum. Í samvinnuverkefni felst að einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur með öðrum hætti áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, með heimild til gjaldtöku fyrir notkun,“ segir Líneik Anna.

„Samvinnuaðferð hentar ekki við allar framkvæmdir. Erlend reynsla og rannsóknir á slíkum framkvæmdum benda til þess að slík verkefni skuli helst vera nýframkvæmdir sem eru umfangsmiklar og vel skilgreindar. Einnig mætti skoða að fara þessa leið varðandi tiltekin umfangsminni verkefni sem fælu þó í sér mikinn ábata í formi styttingar á ferðatíma og/eða vegalengd auk þess sem önnur leið væri í boði.“

„Nauðsynlegt að fá þetta frumvarp fram áður en samgönguáætlun verður afgreidd,“ segir Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Flokksþingi frestað!

Deila grein

13/03/2020

Flokksþingi frestað!

Ágæta Framsóknarfólk,
á fundi Landsstjórnar Framsóknarflokksins þann 12. mars 2020 var samþykkt að fresta 36. Flokksþingi Framsóknarmanna, sem halda átti dagana 18-19. apríl 2020 á Hilton hótel í Reykjavík, vegna COVID-19 faraldursins sem nú gengur yfir hérlendis.
Með þessu tökum við höndum saman með þjóðinni allri í því verkefni að sýna samfélagslega ábyrgð til að veirufaraldur þessi gangi nú yfir sem fyrst. Jafnframt vísaði landsstjórn því til miðstjórnar Framsóknarflokksins að boða til flokksþings að nýju þegar þessu ástandi er lokið og íslenskt samfélag komið í samt lag.
Nú ríður á að íslensk þjóð standi saman sem einn maður og við tökumst á við þetta ástand líkt og við höfum gert í gegnum aldirnar þegar við höfum staðið frammi fyrir erfiðleikum sem steðjað hafa að íslensku samfélagi. Það höfum við margoft gert og gerum slíkt nú með þrautseigju, yfirvegun og samvinnu að leiðarljósi og leiðum þetta ástand til lykta.
Förum eftir fyrirmælum yfirvalda, höldum samfélaginu okkar gangandi og munum að það mun vora að nýju.
Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknarflokksins.

Categories
Fréttir

Óháð úttekt á Landeyjahöfn

Deila grein

12/03/2020

Óháð úttekt á Landeyjahöfn

Opnun Landeyjahafnar árið 2010 markaði mikil tímamót í samgöngumálum íbúa og fyrirtækja í Vestmannaeyjum. Fyrsta árið nær tvöfaldaðist farþegafjöldi Herjólfs á og fyrir ári síðan var annað framfaraskref stigið þegar fargjöld íbúa í Vestmannaeyjum voru lækkuð og sama gjald tryggt, óháð í hvora höfnina er siglt.
Landeyjahöfn var frá upphafi hönnuð með nýtt skip í huga og til stóð að taka hvort tveggja í notkun á sama tíma, nýja höfn og nýtt skip sem yrði sérhannað fyrir höfnina með a.m.k. 1,5 metra minni djúpristu en gamli Herjólfur. Til stóð að semja um smíði á nýju skipi á síðustu mánuðum ársins 2008 en eftir hrun bankanna voru ekki lengur forsendur til þess. Það hefur legið fyrir að Landeyjahöfn myndi ekki nýtast að fullu fyrr en ný sérhönnuð ferja hæfi þangað siglingar og að ekki yrði hægt að þróa höfnina að fullu fyrr en reynslan af siglingu slíkt skips lægi fyrir.
Nýr Herjólfur hóf siglingar síðastliðið sumar. Skipið hefur þegar sannað gildi sitt, stjórnhæfni þess er góð og ferðum hefur fjölgað. Þá hefur Vestmannaeyjabær tekið við stjórn rekstrarins. Ákveðinni óvissu hefur því þegar verið eytt. Endanlegri þróun Landeyjahafnar er þó ekki lokið og er skiljanlegt að Vestmannaeyinga sé farið að lengja eftir því. Ég hef áður sagt og stend við það að ég hef hug á því að þeirri þróun ljúki sem fyrst. Það er í samræmi við vilja Alþingis sem ályktaði í desember síðastliðnum að hefja óháða úttekt á Landeyjahöfn í samræmi við samgönguáætlun fyrir árin 2019–2033 og fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019–2023 og að henni verði lokið eigi síðar en 31. ágúst 2020.
Ráðuneytið auglýsti því með svokölluðu örútboði eftir óháðum sérfræðingum til að rýna gögn Vegagerðarinnar og rannsóknir sem hafa verið gerðar á Landeyjahöfn og koma með vel rökstuddar og skilgreindar tillögur til úrbóta sem væri hægt að framkvæma strax eða prófa í líkani. Örútboð er fljótvirk útboðsaðferð og í samræmi við innkaupareglur.
Tillögurnar verða nýttar til að sníða útboð til endurbóta á höfninni. Mikilvægt er að úttektin einskorðist ekki aðeins við gögn og rannsóknir varðandi dýpi Landeyjahafnar heldur verði einnig litið til annarra þátta sem geta haft áhrif á nýtingu hafnarinnar. Ég bind vonir við að hægt verði að ráðast strax í úrbætur að lokinni úttektinni. Ef í ljós kemur að rannsaka þurfi einstaka lausnir betur, verður það gert. Það yrði annað sjálfstætt verk.
Það er brýnt að vandað verði til verka þegar aflað er svara um hvað þurfi að gera til að tryggja að Landeyjahöfn geti þjónað hlutverki sínu að fullu. Svörin þurfa að byggja á skilningi á þeim flóknu aðstæðum sem eru við höfnina og vandaðri greiningu. Það mun skila mestum árangri til framtíðar. Áfram veginn.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.
 
 
 

Categories
Fréttir

Mik­il­væg­asta sam­fé­lags­verk­efnið á þess­um tíma­punkti er að tryggja að skólastarf rask­ist sem minnst

Deila grein

11/03/2020

Mik­il­væg­asta sam­fé­lags­verk­efnið á þess­um tíma­punkti er að tryggja að skólastarf rask­ist sem minnst

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, segir í yfirlýsingu í gær að rétt viðbrögð ráði mestu um áhrif áfalla. „Yfirvofandi hættu þarf að mæta með mikilli röggsemi, en einnig er mikilvægt er að horfa á samhengi hlutanna svo fyrstu viðbrögð verði ekki þau einu. Fyrsta skrefið í baráttunni við kórónaveiruna sem orsakar COVID-19 snýr að heilsuvernd, enda nauðsynlegt að hefta útbreiðslu hennar.“

Mennta­kerfið: Kennsla held­ur áfram
„Eitt mik­il­væg­asta sam­fé­lags­verk­efnið á þess­um tíma­punkti er að tryggja að skólastarf rask­ist sem minnst. Skóla­stjórn­end­ur og kenn­ar­ar hafa sýnt mikla yf­ir­veg­un við þess­ar óvenju­legu aðstæður, þar sem mark­miðið er að halda uppi starf­sem­inni eins lengi og unnt er. Í upp­færðum áætl­un­um skól­anna er gert ráð fyr­ir ýms­um aðstæðum; hlut­verki kenn­ara í fjar­kennslu og heima­námi ef sam­komu­bann tek­ur gildi, líðan nem­enda og stuðningi við þá sem mest þurfa á að halda. Von­andi þarf ekki að grípa til þeirra aðgerða sem hafa verið und­ir­bún­ar, en það er mjög traust­vekj­andi að vita af þeirri und­ir­bún­ings­vinnu sem þegar hef­ur verið unn­in,“ segir Lilja Dögg í grein í Morgunblaðinu í gær.

Vet­ur­inn er að hopa og fram und­an eru jafn­dæg­ur að vori. Ég er sann­færð um að í sam­ein­ingu náum við tök­um á COVID-19. Við verðum að for­gangsraða í þágu sam­fé­lags­ins, því eins og John Stu­art Mill sagði: „Þegar til lengd­ar læt­ur, velt­ur gildi rík­is­ins á mann­gild­um þegn­anna.“

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi þakkar viðbragðsaðilum og almenningi fyrir viðbrögðin

Deila grein

11/03/2020

Sigurður Ingi þakkar viðbragðsaðilum og almenningi fyrir viðbrögðin

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, segir í yfirlýsingu í gær að kortlagning sé í gangi um auknar hafnarframkvæmdir til að byggja undir framtíðartekjur og útflutning. „Í fluginu erum við að horfa til öryggissjónarmiða og að opna fleiri gáttir til landsins. Í vegaframkvæmdum eru fjölmörg verkefni tilbúin og hægt að klára á styttri tíma. Á næstunni mun ég leggja fram frumvarp um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem getur stuðlað að enn öflugri fjárfestingargetu til framtíðar.“
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær aðgerðir til að bregðast við kólnun í íslensku efnhagslífi og áhrifum af COVID-19 veirunni. Það eru fordæmalausar aðstæður þar sem óvissan er mikil. Ljóst er að forsendur fjármálastefnunnar eru brostnar og ný áætlun væntanleg um miðjan maí. Sigurður Ingi kynnti, ásamt forystumönnum hinna stjórnarflokkanna, tillögur á fundi í Ráðherrabústaðnum. Þær fela það meðal annars í sér að veita á fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
Sigurður Ingi þakkaði viðbragðsaðilum hvernig tekið hefði verið á útbreiðslu COVID-19 veirunnar og almenningi fyrir viðbrögðin. Hann ítrekaði að fólk ætti að reyna að lifa sem eðlilegustu lífi innan breyttra aðstæðna en taka tillit til regla og leiðbeininga heilbrigðisyfirvalda um smitvarnir og hreinlæti. Hann treysti heilbrigðiskerfinu til að takast á við heilbrigðisvána en aðgerðir ríkisins væru miðaðar að því að taka utan um fyrirtækin í landinu.

Categories
Fréttir

Hver er arðsemi repjuræktunar?

Deila grein

11/03/2020

Hver er arðsemi repjuræktunar?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur skipað starfshóp um ræktun og nýtingu orkujurta, s.s. repju. Verkefni hópsins er að kanna forsendur fyrir stórtækri og sjálfbærri ræktun orkujurta á Íslandi til framleiðslu á lífdísil og öðrum afurðum, t.d. fóðurmjöli, áburði og stönglum.
„Efling akuryrkju, ræktun orkujurta og nýting repjuolíu getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á margvíslegan hátt. Rannsóknir sýna að hægt er að framleiða hér á landi lífdísil úr repjuolíu sem nýta megi sem eldsneyti á þorra þeirra véla sem gerðar eru fyrir dísilolíu úr jarðolíu. Íslensk framleiðsla sparar innflutning og vinnsla afurðanna skapar atvinnu og eykur sjálfbærni,“ segir ráðherra.
Samgöngustofa og þar á undan Siglingastofnun hefur um langt skeið unnið að rannsóknum á ræktun orkujurta á Íslandi og nýtingu þeirra. Gerðar hafa verið tilraunir með repjuræktun sem hafa gefist vel. Ræktun og notkun repjuolíu væri hagkvæm um leið og hún hafi jákvæð áhrif á umhverfið.
Tilraunir Samgöngustofu benda til þess að repjudísill gefi við brennslu sambærilega orku og hefðbundin dísilolía. Stór markaður er fyrir repjuolíu sem lífdísil, en íslenski fiskiskipaflotinn brennir til dæmis árlega alls um 160 þúsund tonnum af dísilolíu. Reynslan hefur sýnt að hver hektari lands í repjurækt gefur af sér um eitt tonn af repjuolíu. Miðað við 10% íblöndun þyrfti því að rækta repju á um 16.000 hekturum lands.
Sömuleiðis metur Samgöngustofa ávinning felast í ræktun repju í landgræðslu. Tækifæri felast í aukinni akuryrkju sem hefur náð nokkurri hylli íslenskra bænda á undanförnum árum og áratugum. Ræktun á innlendu fóðri sem áður var talin utan seilingar fyrir Íslendinga, hefur verið stunduð með ágætum árangri í öllum landshlutum og verður sífellt stærri þáttur í fóðuröflun bænda. Það eykur möguleika landbúnaðar og gæti orðið mikilvæg nýsköpun hér á landi. Ávinningurinn fer eftir því landi sem valið er en hann er mestur á ógrónu landi svo sem á íslenskum söndum.
Meginverkefni sérfræðingahópsins er annars vegar að greina framleiðslu og framleiðsluverð repjuræktunar ásamt flutningskostnaði og öðrum kostnaði við ræktunina, þ.m.t. hver væru hagkvæmustu ræktunarsvæði landsins. Hins vegar að leggja mat á mögulegan markað fyrir repjuafurðir og markaðsverð. Það verður einnig hlutverk hópsins að vinna að því að uppfylla markmið í þingsályktun Alþingis frá árinu 2017 um að árið 2030 verði 5-10% eldsneytis íslenska skipaflotans íblandað lífeldsneyti.
Starfshópurinn mun skila tillögum og drögum að aðgerðaáætlun fyrir lok september á þessu ári.

Categories
Fréttir

„Við leggjum áherslu á gott samstarf og góð viðbrögð“

Deila grein

10/03/2020

„Við leggjum áherslu á gott samstarf og góð viðbrögð“

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að beita sér fyrir markvissum aðgerðum til að mæta efnahagslegum áhrifum COVID-19. Aðgerðirnar miða að því að draga úr tjóni, tryggja að neikvæð áhrif á atvinnulíf og efnahag vari sem skemmst og skapa aðstæður fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfarið. Þá var tilkynnt að vegna gjörbreyttra efnahagslegra forsendna yrði fjármálaáætlun lögð fram í maí.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í morgun:

„Við erum að gera þetta til að reyna að taka utan um þennan vanda. Heilbrigðiskerfið mun taka utan um heilbrigðisvána. Aðgerðir ríkisins munu taka utan um fyrirtækin í landinu og stjórnvöld munu eiga samstarf við sveitarfélög og fyrirtæki í landinu. Við leggjum áherslu á gott samstarf og góð viðbrögð. Þá er staða okkar býsna góð þegar því er lokið.“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar, segir í grein í Morgunblaðinu í dag:

„Rétt viðbrögð ráða mestu um áhrif áfalla. Yf­ir­vof­andi hættu þarf að mæta með mik­illi rögg­semi, en einnig er mik­il­vægt er að horfa á sam­hengi hlut­anna svo fyrstu viðbrögð verði ekki þau einu. Fyrsta skrefið í bar­átt­unni við kór­óna­veiruna sem or­sak­ar COVID-19 snýr að heilsu­vernd, enda nauðsyn­legt að hefta út­breiðslu henn­ar. Sam­hliða þarf að huga að efna­hags­leg­um og ekki síður fé­lags­leg­um viðbrögðum. Nei­kvæð efna­hags­leg áhrif veirunn­ar eru ein­hver þau mestu sem alþjóðakerfið hef­ur séð í lang­an tíma. Þess vegna þarf um­fang efna­hagsaðgerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar að vera veru­legt.“

Lífsgæði varin
COVID-19 faraldurinn mun hafa bein áhrif á atvinnulíf og stöðu ríkissjóðs. Geta þjóðarbúsins til að takast á við vandann er góð, en þó er ljóst að hagkerfið er berskjaldað fyrir ytri áhrifum af þeim toga sem hér um ræðir. Þegar má merkja áhrif faraldursins í efnahagslífinu.
Markviss og traust viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar. Til að verja íslenskt efnahagslíf mun ríkisstjórnin beita sér fyrir eftirfarandi aðgerðum:

  1. Fyrirtækjum sem lenda í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verði veitt svigrúm, t.d. með lengri fresti til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum.
  2. Skoðað verði að fella tímabundið niður tekjuöflun sem er íþyngjandi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, t.d. gistináttaskatt sem verður afnuminn tímabundið.
  3. Markaðsátaki verður hleypt af stokkunum erlendis þegar aðstæður skapast til þess að kynna Ísland sem áfangastað, auk átaks til að hvetja til ferðalaga Íslendinga innanlands.
  4. Gripið verði til ráðstafana sem örvað geta einkaneyslu og eftirspurn, t.d. með skatta- eða stuðningskerfum.
  5. Aukinn kraftur verði settur í framkvæmdir á vegum opinberra aðila á yfirstandandi ári og þeim næstu.
  6. Efnt verði til virks samráðs milli stjórnvalda og samtaka fjármálafyrirtækja um viðbrögð þeirra við fyrirsjáanlegum lausafjár- og greiðsluörðugleikum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
  7. Innstæður ÍL-sjóðs í Seðlabankanum verði fluttar á innlánsreikninga í bönkum til að styðja við svigrúm banka og lánardrottna til að veita viðskiptamönnum sínum lánafyrirgreiðslu.

Fjármálaáætlun frestað
Sökum gjörbreyttra efnahagshorfa eru forsendur gildandi ríkisfjármálastefnu brostnar og er vinna við endurskoðun stefnunnar hafin. Fjármálaráðherra mun fara þess á leit við Alþingi að hún verði tekin til umfjöllunar samhliða fjármálaáætlun, sem verði frestað. Áætlunin ætti að óbreyttu að koma fram fyrir 1. apríl en stefnt er að því að leggja hana fram eftir miðjan maí, enda hafi þá nauðsynlegar forsendur skýrst.
Samhliða vinnu við endurskoðun fjármálastefnu er unnið að sérstöku fjárfestingarátaki sem felur í sér verulega hækkun á fjárfestingastigi ríkissjóðs á næstu árum. Áætlunin gerir m.a. ráð fyrir sölu Íslandsbanka að hluta eða öllu leyti á áætlunartímabilinu, en þó eingöngu ef aðstæður til sölu eru hagfelldar. Á vorþingi verður lagt fram frumvarp um afmarkaðar samstarfsfjárfestingar í vegamálum og þannig stuðlað að enn öflugri fjárfestingargetu til framtíðar.