Categories
Fréttir

Er vinna í gangi hjá stjórnvöldum við að auka öryggi við dreifingu raforku?

Deila grein

26/05/2017

Er vinna í gangi hjá stjórnvöldum við að auka öryggi við dreifingu raforku?

,,Virðulegi forseti. Þann 17. maí sl. urðu umfangsmiklar rafmagnstruflanir og rafmagnsleysi á öllu austur- og suðausturlandi á svæðinu frá Vopnafirði suður á Kirkjubæjarklaustur. Rafmagnsleysið varði í tvær til þrjár klukkustundir. Það var rakið til kerleka í álverinu á Grundartanga hinum megin á landinu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem rafmagnsleysi á Austurlandi má rekja til bilana í öðrum landshlutum. Rafmagnsleysi af þessu tagi hefur ekki orðið á höfuðborgarsvæðinu í meira en 25 ár, enda er dreifingarkerfið þar sterkt sem betur fer. Til allrar lukku þekkir því stærsti hluti landsmanna ekki af eigin reynslu það gífurlega tjón sem fylgir svona truflunum.
Truflunin sem hér um ræðir var að morgni dags, atvinnulífið var í fullum gangi og tjónið er margþætt. Það verður truflun á allri framleiðslu og þjónustu. Þar fyrir utan verður tjón á dýrum búnaði og vinnustundir tapast. Beint tjón er mikið og óbeinn kostnaður ekki síður, m.a. við að koma framleiðsluferlum í gang og tölvukerfum af stað í fjósum, mjólkurstöðvum, bræðslum, frystihúsum, heilbrigðisþjónustu, verslun, ferðaþjónustunni þegar allir eru að tékka út að morgni, í álveri, skólum o.s.frv. Tjónið er ekki aðeins talið í krónum heldur fylgir líka mikil orkusóun og sóun á umhverfisgæðum.
Þessi staða ætti auðvitað ekki að koma upp á árinu 2017 nema þá við afleit veðurskilyrði eða náttúruhamfarir sem við ráðum ekki við. Það er alls ekki svo að þetta geti einungis gerst á Austurlandi, þetta getur gerst víða á landinu. Ég hef því óskað eftir því við hv. umhverfis- og samgöngunefnd að málið verði tekið til sérstakrar umfjöllunar í nefndinni og þá verði m.a. skoðað hvort einhver hafi það hlutverk að meta það heildartjón sem hlýst af svona truflunum og hvaða vinna (Forseti hringir.) sé í gangi á vegum stjórnvalda til að auka öryggi við dreifingu raforku.”
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins, 26. maí 2017

Categories
Fréttir

Mengunin sem eftir er í Kolgrafafirði er af mannavöldum

Deila grein

23/05/2017

Mengunin sem eftir er í Kolgrafafirði er af mannavöldum

,,Hæstv. forseti. Þegar náttúruvernd ber á góma eru allir sammála um að virðing og umgengni skuli vera í hávegum höfð. Gott og vel. Náttúran skal njóta vafans, sem algengt er að heyra. Þegar ég flutti mína jómfrúrræðu hér á Alþingi á haustdögum 2013 hafði ári áður gengið mikið af síld á fjörur í Kolgrafafirði, svo um munaði. Mín ræða snerist um hvað sagan segði okkur, en til eru heimildir aftur til fyrri hluta síðustu aldar um slíkan síldardauða með nokkuð reglulegu millibili, og hvernig brugðist var við veturinn 2011–2012.
Eitt af því sem ráðist var í og kostaði mikla fjármuni var að urða síldina eða hluta af henni í gryfjum við sjávarmálið. Á síðasta ári var gefin út niðurstaða athugunar á lífríkinu í firðinum frá þessum atburði. Sagði þar að lífríkið væri komið í eðlilegt horf nema hvað grútarmengun væri töluverð úr þessum gryfjum þar sem síldin var urðuð. Af þessu dæmi má ráða að náttúran sér um sig og ekki er alltaf gott að grípa þar inn í. Þessi mengun sem eftir er í Kolgrafafirði er af mannavöldum.
Eyjarnar á Breiðafirði eru margar og var búið á þeim mörgum í gegnum tíðina. Lifði fólkið í friði og sátt af því sem náttúran gaf. Það má segja að eyjunum hafi liðið vel í þeirri sambúð. Í dag eru flestar eyjar komnar í eyði. Á þeim eyjum sem ekki er sinnt er ástandið ekki gott. Mikil hvönn, njóli og annað illgresi auk uppfoks og ágangs sjávar. Einhverjar eyjar eru friðaðar og segja þeir sem til þekkja að þær séu illa farnar. Nokkrir frístundabændur eru farnir að láta fé í eyjar og þá hverfur illgresið og eyjar grænka á ný. Samspil mannsins við náttúruna með nýtingu og virðingu og þekkingu er það sem gefur lífinu gildi. Öfgar eru eitthvað sem náttúrunni gengur betur að höndla en okkur mannfólkinu.”
Sigurður Páll Jónsson í störfum þingsins, 23. maí 2017

Categories
Fréttir

Fæðingarþjónusta á sunnanverðum Vestfjörðum

Deila grein

23/05/2017

Fæðingarþjónusta á sunnanverðum Vestfjörðum

,,Hæstv. forseti. Í fyrstu vil ég taka undir orð hv. samþingmanna minna og hæstv. forseta og taka undir samúðarkveðjur til Breta.
Í fréttum RÚV á dögunum var rætt við ungar mæður á Patreksfirði. Önnur þeirra er varaþingmaður okkar Framsóknarmanna, Lilja Sigurðardóttir. Þær ræddu þá stöðu sem uppi er m.a. á sunnanverðum Vestfjörðum í þjónustu við verðandi mæður og fjölskyldur þeirra. Þar er afar skert fæðingarþjónusta. Verðandi mæður ásamt maka og jafnvel heilu fjölskyldunum þurfa að fara að heiman nokkru áður en barn er væntanlegt í heiminn. Fæðingarþjónusta á sunnanverðum Vestfjörðum og víðar á landinu var skert fyrir nokkrum árum síðan án þess að nokkuð kæmi í staðinn.
Eins og hv. þingmenn vita var forgangsmál okkar Framsóknarmanna á þessum þingvetri að unnið væri að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland og skilgreint hvaða þjónustu ætti að veita víða um landið. Þar undir er m.a. fæðingarþjónusta. Þessi tillaga hefur verið afgreidd út úr hv. velferðarnefnd og 2. umr. um málið hefur farið fram. Það bíður nú atkvæðagreiðslu. Ég hvet til þess að atkvæðagreiðsla um málið fari fram sem fyrst svo unnið verði að þessari mikilvægu stefnumótun.
Í þessari stuttu ræðu minni ætla ég einnig að minnast á þingmál okkar Framsóknarmanna, frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, sem er ætlað að koma til móts við foreldra sem þurfa að dveljast fjarri heimabyggð á meðan beðið er fæðingar barns. Meginmarkmið frumvarpsins er að fæðingarorlof framlengist um þann tíma sem foreldrar þurfa að dveljast fjarri heimabyggð og bíða fæðingar. Því miður virðist vera svo, því stutt er eftir að þingi, að þetta mál nái ekki fram að ganga. Ég vil því nýta þetta tækifæri og hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til að líta til þessa mikilvæga máls og vinna að aðgerðum til hagsbóta fyrir þann hóp sem hér um ræðir.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 23. maí 2017.

Categories
Fréttir

Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Deila grein

23/05/2017

Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

,,Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða málefni Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að gera slíkt hið sama. Hvernig má það vera að hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála átti sig á því í maílok 2017 að skóli sem starfað hefur frá árinu 1930 passar ekki inn í aðalnámskrá framhaldsskóla? Þar sem skólinn passar ekki inn í námskráin samkvæmt nýjum skilgreiningum fær hann ekki viðurkenningu sem einkaskóli og ekki verður gerður nýr þjónustusamningur við skólann. Er skólanum virkilega ekki gefið svigrúm til að laga það sem upp á vantar? Hvað með meðalhóf í stjórnsýslunni?

Á sama tíma liggja fyrir umsóknir frá fleiri nemendum en skólinn getur tekið við á næstu önn. Í 87 ár hefur verið boðið upp á heildstætt nám í hússtjórnargreinum sem þróast hefur í takt við tíðarandann, fjöldi nemenda hefur lokið námi á þessum árum og nýverið voru stofnuð hollvinasamtök skólans til að halda á lofti sögu hans og menningu og styðja við frekari þróun námsins.

Námið hefur nýst vel sem undirbúningur fyrir ýmiss konar formlegt nám en einnig til að byggja upp almenna lífsleikni nemenda. Er það virkilega markmið yfirvalda menntamála að draga eins mikið úr valkostum nemenda og mögulegt er og ýta hverjum einasta nemanda í bóknám, hvort sem það hentar eða ekki? Er það virkilega helsta ráðið við brottfalli úr framhaldsskólanum?

Hver er þá staða Hússtjórnarskólans í Reykjavík nú í maílok 2017 og annars stutts starfsnáms á framhaldsskólastigi? Við þessu hlýtur hv. allsherjar- og menntamálanefnd að þurfa að fá svör áður en þingi lýkur.”

Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins, 23. maí 2017

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Ályktanir vorfundar miðstjórnar 2017

Deila grein

23/05/2017

Ályktanir vorfundar miðstjórnar 2017

Hér að neðan má lesa ályktanir vorfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins haldinn í Reykjavík 20. maí 2017:
Vorfundur miðstjórnar Framsóknar haldinn í Reykjavík 20. maí 2017 ályktar að hvorki Alþingi né ríkisstjórn geta vikið sér undan ábyrgð á því að Neyðarbrautinni sé lokað án þess að aðrir kostir séu í boði.
Vorfundur miðstjórnar Framsóknar haldinn í Reykjavík 20. maí 2017 lýsir áhyggjum yfir stefnuleysi núverandi ríkisstjórnar í skóla-, heilbrigðis- og atvinnumálum.
Vorfundur miðstjórnar Framsóknar haldinn í Reykjavík 20. maí 2017 ályktar að settur verði á fót vinnuhópur til að móta stefnu í málefnum ferðaþjónustunnar. Sú nefnd skal vera fullskipuð innan fjögurra vikna frá 20. maí 2017.
Vorfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins haldinn í Reykjavík 20. maí 2017 felur haustfundi miðstjórnar sem haldinn verður 17.-18. nóvember að boða til flokksþings í fyrrihluta janúar 2018. Leggja á áherslu á undirbúning sveitarstjórnarkosninga. Þær kosningar eru næsta verkefni Framsóknarflokksins.
Yfirlitsræða formanns á vorfundi miðstjórnar.
Myndasafn af Facebook frá fundinum.

Categories
Fréttir

Yfirlitsræða formanns á vorfundi miðstjórnar 2017

Deila grein

20/05/2017

Yfirlitsræða formanns á vorfundi miðstjórnar 2017

Fundarstjórar!
Kæru vinir og félagar – sumar í lofti – sól á himni.
Miðstjórnarfundur er góður vettvangur til að líta til baka, taka stöðuna og ákveða hvernig hugsjónum og markmiðum Framsóknarflokksins verði best náð til heilla og hagsbóta fyrir alla landsmenn. Segja hug okkar um það sem okkur finnst að betur megi fara.
Ég fyrir mitt leyti vil segja eftirfarandi; þingflokkur Framsóknarflokksins er afar vel skipaður. Í honum eru tveir fyrrverandi forsætisráðherrar, og þrír aðrir ráðherrar. Hinir þrír sem ekki hafa gengt ráðherraembætti, (ekki ennþá allavega) hafa mikla og góða reynslu af þingstörfum. Og innan okkar góða þingflokksins eru einstaklingar sem hafa haft mikil og góð áhrif á samtímann á Íslandi. Sennilega meiri og betri en flestir aðrir stjórnmálamenn síðari tíma.
En þrátt fyrir að margir almennir flokksmenn viti að þingflokkurinn sé sterkur, finnst ýmsum að það vanti upp á samstöðuna. Það sé augljóst að menn séu ekki samstíga.
Það er rétt, okkur vantar meiri og sterkari samstöðu í þingflokknum. Og það er sú krafa sem almennir félagsmenn eiga með réttu á okkur sem valin hafa verið til forystu í flokknum.
Ég er tilbúinn að vinna með öllum framsóknarmönnum, að því að auka veg og vanda Framsóknarflokksins og framfylgja stefnu hans.
Á síðasta kjörtímabili var lagður grunnur að þeim lífskjarabata sem orðið hefur á Íslandi á undanförnum árum. Það gerðist undir forystu Framsóknarflokksins. – Gleymum því ekki.
Ég vil nota þetta tækifæri hér í dag og spyrja; ímyndið ykkur hvað við gætum gert núna ef okkur auðnaðist að ganga í takt? En það er einmitt það sem ég tel að flokksmenn séu að kalla eftir, þegar þeir segja að það skorti á samstöðuna. Og verðum við í forystu flokksins- stjórn flokksins og þingmenn – ekki að beygja okkur undir þennan vilja og þessa sjálfsögðu kröfu?
Erum við ekki kosin til þess að gera þjóðfélagið betra á forsendum þess sem hugsjónir flokksins grundvallast á; skuldum við ekki flokksmönnum og kjósendum okkar það að starfa saman af heilindum og einurð? Mitt svar er, jú við eigum að gera það.
Ágætu félagar!
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar.
Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi. Þetta stef þekkjum við.
Við boðum að við störfum á grunni samvinnu. En upp koma tilvik þar sem við erum ekki sammála og það er bæði hollt og gott – bæði flokknum og okkur fólkinu sem í honum starfar. Rökræðan skerpir niðurstöðuna.
En í lok dags ákveðum við okkur með lýðræðislegum hætti. Við kjósum og hlítum niðurstöðunni. Við ætlumst til þess að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð í samfélaginu, það á einnig við um flokkinn okkar.
En það virðist ekki öllum gefið að geta sætt sig við það sem flokksmenn ákveða með lýðræðislegum aðferðum. Í Morgunblaðinu í gær mátti lesa hvaða augum sumir líta flokkinn okkar og ákvarðanir okkar flokksmanna.
Þar segir einhver að rán hafi átt sér stað í haust og þeir, sem á að hafa verið rænt frá, fyrirgefi ekki slíkan gjörning, ekki núna, ekki seinna! Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hefur verið viðhaft af minna tilefni.
Það sem ég spyr mig að er; er þetta samvinnumaður sem talar svona, þetta er ekki sérlega framsóknarleg nálgun? Og hvaða fyrirgefningu er verið að tala um, við hvern á að segja „sorrý“? Hin almenna framsóknarmann, meirihluta fulltrúa á flokksþingi?
Á flokksþingi í haust var tekist á. Svo virðist sem sumir líti á niðurstöðu þess þings sem einhvers konar svik við hluta flokksins. Það er að segja, að meirihlutinn hafi svikið minnihlutann. Og nú sé bara spurningin hvenær þau svik verði leiðrétt.
Ég skil vel að einhverjir hafi orðið sárir og það taki tíma að heila þau sár. Ég skil að það geta ekki allir verið ánægðir öllum stundum og ég geri ekki kröfu um slíkt.
En ég á erfitt með að skilja þá sem gera óánægjuna að sínum helsta vin og félaga. Að mínu viti er það ekki í eðli og anda Framsóknarflokksins að standa þannig að málum.
Ástandið gæti vafalítið verið betra í flokknum okkar, en í lifandi flokki – sem vill og ætlar að vera stór flokkur- eiga að rúmast margar skoðanir og stundum mismunandi, þótt grunnstefið sameini okkur.
Sumir hafa valið að koma fram opinberlega og lýsa þeirri skoðun að órói sé mikill í flokknum. Ég veit að það eru skiptar skoðanir, en stundum hefur maður það á tilfinningunni að verið sé að tala upp ágreininginn. Hvaða tilgangi þjónar það?
Við í forystunni höfum eðlilega áhyggjur af þessu en höfum lagt okkur eftir að hlusta og bregðast við eftir atvikum. Við þurfum að finna leiðir til sameiningar en ekki sundrungar. Og allir þurfa að spyrja sig hvernig getur framlag mitt orðið til þess að efla einingu og styrkja flokkinn; hvernig er hægt að leggjast á árar með félögum sínum?
Ég tel að allir þeir sem bjóða sig fram undir merkjum Framsóknarflokksins skuldi almennum félagsmönnum og fylgjendum okkar öllum, að við berjumst sameiginlega fyrir hugsjónum flokksins.
Og það hefur áður verið sagt, og skal hér endurtekið; Framsókn hefur ætíð vegnað best þegar framsóknarfólk stendur saman. Og gleymum því ekki, það á að vera gaman að vera í Framsókn!
Ágætu miðstjórnarmenn!
Það er full þörf á rödd Framsóknarflokksins og hugmyndum hans til að bæta hag þjóðarinnar. Sérstaklega nú þegar svo virðist sem einn flokkur, umfram aðra, stjórni landinu upp á sitt eindæmi.
Sé gengið til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, þarf að hafa afl til að standa í lappirnar. Slíkt afl hefur mér sýnst að viðhengin tvö, Björt framtíð og Viðreisn, hafi ekki.
Viðreisn er útibú frá Sjálfstæðisflokknum, Björt framtíð virðist svo vera orðin útibú frá Viðreisn.
Og í ellefu manna ríkisstjórn sitja sex Sjálfstæðismenn. Og fyrir ekki svo löngu síðan voru 9 af þeim sem eru ráðherrar nú – í Sjálfstæðisflokknum. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur því væna hægri slagsíðu.
Þótt ekki sé langt liðið á kjörtímabilið virðist ljóst hvert stefnir. Ríkisstjórnin hóf starf sitt á því að gefa eftir í baráttunni við eigendur aflandskróna. Ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á því, af hverju það var gert.
Sennilega nenntu menn ekki að hafa vandann hangandi yfir sér lengur, svo gripið sé til gamallar samlíkingar. Þar fengu ýmsir betri kjör en aðrir, þótt búið væri að ákveða á hvaða gengi fjárfestarnir færu út.
Pólitíska þrekið var kannski þrotið, enda óvanur maður í fjármálaráðuneytinu sem taldi sig vera leysa fjármagnshöftin upp á eigin spýtur.
En bara svo því sé haldið til haga, þá fann hann ekki það fræ sem til þurfti til að leysa fjármagnshöftin, hann sáði því ekki, sá ekki um þreskingu, mölun eða bakstur. Honum til upplýsingar var sú vinna öll – unnin á síðasta kjörtímabili undir forystu Framsóknarflokksins. Núverandi fjármálaráðherra vildi hins vegar ólmur gæða sér á afrakstri af annarra manna vinnu.
Og meira af afrekum ríkisstjórnarinnar.
Einkavæðing er að aukast. Reyndar virðist heilbrigðisráðherra ekki hafa hugmynd um að það sé að gerast í heilbrigðiskerfinu, né hvernig hún er tilkomin. Gekk ráðherra svo langt á dögunum að hann sagði í viðtali að það væri ekki endilega plottað um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.
Sem sagt; hann aftekur það ekki með öllu. Það er ekki þægileg tilhugsun að hafa ráðherra sem ekki er klár á því hvenær verið er að plotta, og hvenær ekki.
Menntamálaráðherra er að einkavæða framhaldskóla án umræðu á Alþingi. Þegar upp komst, harmaði hann ótímabæra umræðu um breytingarnar fyrirhuguðu. Það voru hans viðbrögð; sem sagt að einhver skildi vilja ræða hvort færa skyldi Ármúlaskóla inn í einkarekstur. Það voru alveg ótrúlega furðuleg viðbrögð. Hvenær átti að ræða og hverjir máttu ræða breytinguna?
Og allt gerist þetta á vakt ríkisstjórnar sem boðað hefur ný og vandaðri vinnubrögð.
Kæru félagar!
Fyrir hvað stöndum við, fyrir hvað ætlum við að standa. Framsóknarflokkurinn varð hundrað ára í desember í fyrra. Öll þessi hundrað ár hefur starfið í flokknum grundvallast á því sem ég sagði í upphafi; og umfram allt, að hefja manngildi ofar auðgildi.
Ég hef áður sagt það, að ég tel að jöfnuður á Íslandi þurfi jafnvel að vera meiri en víðast hvar annars staðar. Við erum fámenn þjóð í auðugu landi og enginn á að hafa það á tilfinningunni að sumum sé ætlað meira en öðrum á kostnað heildarinnar.

  • Við þurfum að tryggja og byggja upp velferðarkerfi sem ríkisvaldið ber ábyrgð á og hlúa að traustum atvinnugreinum, nýjum og gömlum.
  • Við þurfum að halda á ný, merki samvinnuhreyfingarinnar á lofti með hugsjónum samvinnumanna um sannvirði.
  • Við þurfum að tryggja að samfélagið reki samskonar heilbrigðiskerfi fyrir alla, en geri ekki heilsufar manna að verslunarvöru. Hið sama á að gilda um nám.
  • Við þurfum að grundvalla utanríkisstefnu okkar á samstarfi við Norðurlöndin með sérstakri áherslu á vestur norrænt bandalag – með virkri þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna og samvinnu með vestrænum ríkjum.

Þetta er hluti af þeim grunni sem Framsóknarflokkurinn stendur á.
Nú munu vafalítið einhverjir segja að þróunin í veröldinni sé slík, að endurskoða beri stefnu flokksins til samræmis við hana.
En hver er sú stefna, hverjir eru þeir straumar, af hverju erum við að missa; vilja menn feta sig á slóð forseta Bandaríkjanna eða Le Pen í Frakklandi og fleiri úr þeim ranni?
Er einhver í þessum sal sem telur að þar liggi tækifæri Framsóknarflokksins? Er einhver sem telur að með því að víkja frá hefðbundnum gildum flokksins muni fylgið sópast að honum?
Ég trúi því ekki að svo sé. Ég ætla ekki að halda því fram að allt sem Framsóknarflokkurinn hafi gert í gegnum árin sé yfir gagnrýni hafið. En ég ætla hins vegar að leyfa mér að halda því fram að hornsteinn flokksins sé traustur. Og afrek okkar í hundrað ár eru mörg.
Það getur aldrei orðið þannig í samfélagi manna að það komist úr tísku að bæta líf fólks og tryggja því svigrúm til að þroskast og dafna.
Og hvernig höldum við best áfram að bæta hag þjóðarinnar?
Jú – Við erum í þessu saman; gleymum því ekki. Og ekki bara erum við í þessu saman, við völdum að vera í þessu saman. Við völdum að starfa undir merkjum Framsóknarflokksins, við völdum að vinna að bættum hag allra, en ekki hinna fáu.
Við vinnum ekki á forsendum auðvaldsins, heldur manngildisins; hins almenna borgara, hvar sem hann er í samfélaginu, hver sem hann er, og hvaðan sem hann kemur. Við þá vinnu er nauðsynlegt að allt sé uppi á borðum.
Við eigum ekki að líða eitthvert leynimakk – leyndarhyggju. Við höfum ekkert að fela.
Það er til að mynda sjálfsagt í mínum huga að Alþingi láti rannsaka einkavæðingu banka og sölu almannagæða, hver sem þau eru og hvenær sem salan átti sér stað.
Og að mörgu leyti tel ég að það geti verið ein af forsendum þess að auka traust í samfélaginu. Og traust er mikilvægt.
Kæru Framsóknarmenn!
Þegar spurt er; hvað ætlar þú að gera til að gera þjóðfélagið betra, er svarið ekki eitt. Verkefnin eru eins fjölbreytt og þau eru mörg. Og þau eru fjölmörg.
En hvert viljum við stefna, hvert ættum við að stefna. Eins og þið hafið kannski skilið af máli mínu hér að framan, tel ég heillavænlegast að styðjast við þau stef sem Framsóknarflokkurinn grundvallast á, það er okkar stefna.
Okkar markmið hefur alltaf verið að forðast öfgar til hægri og vinstri; á miðjunni höfum við staðið og stöndum þar enn.
Efnahagslegt umhverfi á Íslandi er um þessar mundir með því besta sem sést hefur um langt árabil. Það er ekki núverandi ríkisstjórn að þakka.
Undir forystu Framsóknarflokksins á síðasta kjörtímabili var rofin efnahagsleg kyrrstaða og grunnur lagður að áframhaldandi uppbyggingu á öllum sviðum.
Til að halda áfram á þeirri braut þarf rödd skynseminnar, rödd Framsóknarflokksins. Mig langar nú að tæpa á nokkrum verkefnum sem ég tel brýnt að huga að.
Við eigum að setja í gang vinnuhóp innan málefnastarfs okkar sem útfærir tillögur um róttæka breytingu á skattkerfinu, sem mun tryggja lægra skatthlutfall hjá meðaltekjufólki og þeim sem lægri hafa tekjurnar.
Því sá hópur greiðir hærri skatta hlutfallslega en sambærilegir hópar á Norðurlöndum. Breytingin á líka að leiða til hærri og skýrari stuðnings við barnafjölskyldur.
Með þeim hætti aukum við jöfnuð í samfélaginu og vonandi sátt um skiptingu gæða.
Og eins og leiðréttingin var mjög til hagsbóta fyrir alla sem teljast til millistéttar, munu breytingar á skattkerfinu einnig koma þeim hópi mjög til góða.
Vinnu starfshópsins verði svo lokið á haustdögum þar sem við kynnum til sögunnar okkar leið – B-leiðina.
Og með öðrum breytingum á skattkerfinu munu þeir sem hafa hæstu tekjurnar greiða meira, en þeir sem tekjulægri eru, greiða minna.
Annað verkefni og ekki síður mikilvægt er að endurskoða peningastefnuna. Vextir eru of háir á Íslandi.
Það gengur ekki til lengdar að vaxtastig á Íslandi sé langtum hærra en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hvaða áhrif hafa háir vextir; við höfum fordæmið frá árunum 2004-2008 þegar vextir voru hækkaðir úr hófi fram.
Erlendir spákaupmenn runnu á lyktina og hingað streymdi erlent skammtímafjármagn og þrýsti gengi krónunnar upp fyrir öll skynsamleg mörk. Þetta hefndi sín með miklu gengisfalli með afleiðingum sem öllum ættu að vera kunnar.
Hættan við slíka hávaxtastefnu er sú að það verði ávallt of eða van á gjaldeyrismarkaði – annað hvort sé of miklu fjármagni veitt inn í landið, eða flutt frá því.
Gengi krónunnar verði þar af leiðandi annað tveggja; alltof hátt eða alltof lágt. Það er alveg skýrt í mínum huga að við getum aldrei tryggt langtíma atvinnuuppbyggingu ef samkeppnishæfni útflutningsgreina rokkar til um tugi prósenta á milli ára.
Við þurfum að leita nýrra lausna í peningastefnumálum og nýrrar samstillingar í hagstjórn þar sem ekki er ofuráhersla á vexti líkt og verið hefur hin síðari ár heldur verði hugað að mörgum þáttum samtímis.
Ein leið að því er stofnun Stöðugleikasjóðs sem myndi styðja við hagstjórn og ríkisfjármál – til að tryggja hér meiri stöðugleika.
Þriðja stóra verkefnið eru byggðamálin. Á sama tíma og við vinnum að auknum jöfnuði þurfum við að tryggja með okkar stefnu að Ísland allt verði byggt og þar sé lífvænlegt að búa og starfa. Það munu núverandi stjórnarflokkar tæplega gera.
Nú á þenslutímum er kjörið tækifæri að fara í kröftuga uppbyggingu innviða á landbyggðinni. Það eru því miður stór landsvæði þar sem hagvöxtur mælist ekki 6-7%.
Þess vegna ættum við – á þeim svæðum – að byggja upp samgöngur, fjarskipti, dreifikerfi rafmagns og búa í haginn fyrir framtíðina, án þess að auka þenslu.
En það þarf fleira að koma til – heilbrigðisstofnanir og skólar þurfa uppbyggingarstefnu ekki stöðnun eða niðurskurð.
Ólíkt þeirri sýn sem birtist í fjármála- stefnu og -áætlunum hægri stjórnarinnar.
Fjórða verkefnið eru húsnæðismálin. Á síðasta kjörtímabili breyttum við lagaumgjörð húsnæðismála.
Lög um fyrstu fasteign voru samþykkt og hafa nú þegar skilað góðum árangri fyrir fyrstu kaupendur. sem m.a. sést á því að aldrei fyrr hafi verið fleiri fyrstu kaupendur á markaði – og það þrátt fyrir hátt húsnæðisverð, lítið framboð og háa vexti.
Næsta skref á að vera að bjóða þeim sem misstu íbúðir sínar í hruninu sambærilegan stuðning með frumvarpi um aðra fasteign.
Húsnæðissamvinnufélög hafa fengið nýjan og betri grundvöll – nú þarf með samstilltu átaki að hvetja til þess að fólk nýti sér þessa leið til að eignast þak yfir höfuðið. Um leið og við eflum eina sterka millistétt í landinu eigum við að stefna að því að sem flestir eigi sitt eigið húsnæði – í því felst mesta öryggið og traustur sparnaður.
En um leið erum við búin að tryggja með breytingum á húsnæðislöggjöfinni grundvöll fyrir þá sem vilja eða þurfa að leigja.
Fimmta verkefnið sem ég tel rétt að við hugum sérstaklega að og beitum okkur fyrir er að skipuleggja fjármálakerfið. Bankakerfið er stórt á Íslandi, sennilega of stórt.
Við endurskipulagninguna þarf að skoða hvort skynsamlegt sé að aðskilja viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingar. En einnig hvernig banka við viljum hafa. Mörgum hefur þótt skorta á að fjármálafyrirtækin séu þjónar fólksins og fyrirtækja. Mörgum finnst að þau séu frekar herrar – því þarf að breyta.
Í Landsbankanum liggur mikið eigið fé – umfram það sem skynsamlegt er og þarf – sem ég tel að mætti minnka og nota afraksturinn m.a. í uppbyggingu innviða.
Jafnframt verður að tryggja að eignarhlutur ríkisins í þeim banka verði ráðandi. Við sáum hvað gerðist þegar allt bankakerfið var komið í hendur einkafjárfesta; það hrundi. Og gríðarlegur kostnaður lenti á ríkinu og almenningi. Ef stjórnvöld geta komið í veg fyrir þvílík ósköp sem hér riðu yfir haustið 2008, þá eiga þau að gera það.
Af þeim orsökum tel ég rétt að menn haldi að sér höndum við sölu Landsbankans. Og hreinlega taki þá ákvörðun að selja hann ekki – í það minnsta að sinni.
Þetta eru að sjálfsögðu ekki einu málin sem berjast þarf fyrir, þau eru miklu fleiri.
Þar má nefna jafnan aðgang allra að heilbrigðisþjónustu án tillits til efnahags, jafnt aðgengi að námi, málefni þeirra sem minna mega sín, ellilífeyrisþegar, öryrkjar, uppbygging innviða og að sjálfsögðu umhverfismál. Því hvaða framsóknarmaður styður ekki uppgræðslu lands og skynsamlega sjálfbæra nýtingu auðlinda – hvort sem er í vatni, á landi eða í lofti?
Og var það ekki á okkar vakt sem mikilvægasti Alþjóðasamningur síðari ára var undirritaður – Parísarsamningurinn um loftslagsmál. Ég man ekki betur.
En allt eru þetta mál sem ættu að vera baráttumál miðjuflokka á öllum tímum.
Hin tvö fyrstu sem ég nefndi, skattamálin og vextirnir eru þó mest aðkallandi og fara verður í þau og klára.
Með sambærilegum hætti og þegar við framsóknarmenn kynntum leiðréttinguna, áætlun um afnám hafta, breytingar á húsnæðislöggjöfinni og fyrstu fasteign, svo nokkur verkefni séu nefnd. Það er ekki nóg að segjast ætla að gera hlutina, það verður að ganga í verkið.
Kæru vinir að lokum þetta!
Ég lít svo á að allir framsóknarmenn séu vinir mínir. Mér vitanlega á ég enga óvini í Framsóknarflokknum. Ég tel að við séum öll sammála um stefnu flokksins. Þótt ágreiningur kunni að vera um menn, þá ætti hann ekki að vera um málefnin.
Ég lít á alla framsóknarmenn eins – óháð því hvernig menn greiddu atkvæði á flokksþingi í haust. Mér hefur fundist bæði gaman og gefandi að starfa fyrir Framsóknarflokkinn. Í öllum þeim störfum sem flokksmenn hafa falið mér hef ég leitast við að gera mitt besta. Það mun ég gera áfram.
Við ykkur miðstjórnarmenn og alla aðra framsóknarmenn vil ég segja – þakka ykkur fyrir allt. Takk fyrir ykkar frábæru vinnu og samstarf. Án ykkar væri ekkert starf – engin Framsóknarflokkur. Allir í flokknum eru jafn mikilvægir. Og munum það kæru vinir – það er þörf á öflugum Framsóknarflokki og við erum sterkust þegar við stöndum saman.

***

Categories
Fréttir

Ekki lá fyrir leyfi um lokun neyðarbrautarinnar

Deila grein

16/05/2017

Ekki lá fyrir leyfi um lokun neyðarbrautarinnar

,,Hæstv. forseti. Fyrir þessu þingi liggur þingsályktunartillaga þingflokks Framsóknarflokksins þess efnis að neyðarbraut á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný. Þessa ályktun lögðum við fram á sínum tíma vitandi það að enn var mögulegt að tryggja aukið öryggi landsmanna með opnun hennar. Fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn hafa staðið vaktina í þessu máli, komið með tillögur að lausnum sem allir hagsmunaaðilar geta unað við. Þeim hefur verið hafnað. Lausnirnar snúa m.a. að því að byggja þannig að komist verði hjá hindrun við neyðarbrautina.
Hæstv. forseti. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að ekki lá fyrir leyfi um lokun neyðarbrautarinnar enda hafi áhættumat vegna lokunar hennar ekki verið gert. Ítrekað hafa Framsókn og flugvallarvinir bókað um það að í niðurstöðu Samgöngustofu frá 1. júní 2015, um áhættumatsskýrslu Isavia vegna fyrirhugaðrar lokunar neyðarbrautarinnar, kemur m.a. fram að áhættumatið nái hvorki til áhrifa á flugvallakerfið í landinu í heild sinni, neyðarskipulags Almannavarna né áhrifa á sjúkraflutninga og að gera þurfi sérstakt áhættumat ef það á að loka brautinni.
Þá liggur fyrir sú niðurstaða Alþjóðaflugmálastofnunarinnar að forsendur útreiknings á nothæfisstuðli voru rangar í skýrslu Eflu en Félag íslenskra atvinnuflugmanna sendi bréf þess efnis til samgönguráðherra um miðjan mars sl.
Hæstv. forseti. Vinnubrögð í þessu mikilvæga máli virðast hafa verið fyrir neðan allar hellur. Ekki hefur verið hlustað á málflutning aðila með sérþekkingu á sviði flugöryggismála. Er ekki ástæða til þess að hlusta á málflutning öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, svo dæmi sé tekið? Eða ætlum við í þessu máli eins og svo allt of mörgum öðrum að grípa til álits sérfræðinga einungis þegar það hentar? Þá spyr ég: Hverjum hentar það og hvenær, hæstv. forseti? Myndi það ekki henta okkur öllum alveg ágætlega að setja öryggið á oddinn og gæta hagsmuna landsmanna allra? Ég hvet ráðherra og viðeigandi yfirvöld til að taka málið til skoðunar hið snarasta.”
Hér má hlusta á Þórunni Egilsdóttur í störfum þingsins, 16. maí 2017.
 

Categories
Fréttir

Arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum

Deila grein

04/05/2017

Arðgreiðslur Landsvirkjunar gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður

,,Hæstv. forseti. Ég ætla að tala um Landsvirkjun. Ég fékk loksins svar við fyrirspurninni, sá það í gær. Umhverfis- og orkumál sem og matvælaframleiðsla eru hin stóru mál framtíðarinnar. Ísland er mjög framarlega í heiminum í framleiðslu á nýtingu grænnar orku, þ.e. virkjun fallvatna og jarðvarma. Á þeim sviðum hefur orðið til gríðarleg þekking hér á landi á síðastliðnum áratugum sem okkur ber að miðla eftir bestu getu til annarra þjóða. Hlutverk okkar í ýmsum þróunarsamvinnuverkefnum eru til að mynda á þeim sviðum, sem er vel, auk miðlunar á þekkingu varðandi landgræðslu, sjávarútveg og síðast en ekki síst í jafnréttismál, svo eitthvað sé nefnt.
Víkjum aftur að orkuframleiðslunni hér á landi og framtíðarsýn hvað varðar eigandastefnu orkufyrirtækja. Landsvirkjun er gríðarlega öflugt orkufyrirtæki í eigu þjóðarinnar. Starfsemi Landsvirkjunar hefur haft jákvæð áhrif á lífsgæði á Íslandi, bæði með auknu öryggi, afhendingu á raforku og miklum gjaldeyristekjum. Þau lífsgæði sem við höfum hér í formi tiltölulega ódýrrar grænnar orku eru alls ekki sjálfsögð. Því er það samfélagslega afar mikilvægt að Landsvirkjun verði áfram í eigu ríkisins.
Í svari sem ég fékk frá hæstv. fjármálaráðherra nýlega um eigandastefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart Landsvirkjun kemur fram að ekki standi til að einkavæða fyrirtækið að hluta eða öllu leyti. Það eru mjög góðar fréttir. Hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins um að Landsvirkjun verði áfram í eigu íslenska ríkisins. Í greinargerð málsins kemur m.a. fram að forstjóri Landsvirkjunar hefur bent á að fjárhagsleg staða fyrirtækisins verði sífellt sterkari og arðsemi aukist. Í lok ársins 2016 var eiginfjárhlutfall landsvirkjunar 45,4% og hefur aldrei verið hærra. Þetta mun leiða til þess að arðgreiðslur í sameiginlegan sjóð landsmanna munu fara stighækkandi. Þær gætu numið allt að 10–20 milljörðum kr. á næstu þremur til fjórum árum. Ríkisstjórnin áformar að setja fram eigandastefnu fyrir Landsvirkjun, það kom fram í svari ráðherra, og það er því afar mikilvægt á þeim tímapunkti að vilji Alþingis gagnvart þessu máli komi skýrt fram.”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins, 3. maí 2017.

Categories
Fréttir

Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra

Deila grein

04/05/2017

Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra

,,Hæstv. forseti. Þann 1. maí sl. tók nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga gildi samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi sl. sumar. Þetta er eitt af þeim málum sem afgreitt var í þverpólitískri sátt frá hv. velferðarnefnd. Eitt af markmiðum þessara lagabreytinga er að verja langveika sjúklinga fyrir háum kostnaði vegna meðferðar við sjúkdómum, sjúklinga sem hingað til hafa þurft að greiða mjög mikinn kostnað vegna veikinda sinna. Öll höfum við heyrt umræðuna og þörfina á því að þessu greiðsluþátttökukerfi yrði breytt til hins betra.
Þessi lagabreyting um nýtt greiðsluþátttökukerfi sjúklinga er skref í rétta átt þótt enn sé talsvert í land og mun ég beina umræðunni að þeim þáttum sem við Framsóknarmenn leggjum áherslu á sem næstu skref í þessum efnum.
Fyrst ætla ég aðeins að fjalla um vinnslu málsins í hv. velferðarnefnd síðasta sumar en við efnislega vinnslu málsins var það m.a. gagnrýnt að greiðsluþátttökukerfið næði ekki til allrar heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt þessu nýja greiðsluþátttökukerfi eru t.d. tannlækningar, sálfræðiþjónusta, ferðakostnaður og hjálpartæki utan kerfisins. Við vinnslu málsins innan hv. velferðarnefndar töldu nefndarmenn æskilegt að allur kostnaður af heilbrigðisþjónustu og lyfjum félli undir eitt greiðsluþátttökukerfi. Með samþykkt frumvarpsins og gildistöku laganna náðum við þó á síðasta kjörtímabili að stíga skref í rétta átt og fella sjúkraiðju og talþjálfun undir almenna kerfið. Í nefndaráliti hv. velferðarnefndar í fyrravor var skýrt kveðið á um að stefna ætti í þá átt að fella enn fleiri tegundir heilbrigðisþjónustu undir greiðsluþátttökukerfið en þá yrði að auka verulega fjárveitingar til málaflokksins.
Ég ætla að fá að lesa örlítinn bút úr nefndaráliti hv. velferðarnefndar frá því í fyrrasumar. Þar stendur, með leyfi forseta:
„Jafnframt stendur til að greiðsluþátttaka sjúklinga verði minni en ráðgert var í fyrrnefndum drögum að reglugerð. Endanlegar tölur ráðast af fjárlögum næsta árs en miðað er við að almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.
Nefndin fagnar yfirlýsingu ráðherra og telur sig hafa fullvissu fyrir því að auknir fjármunir komi til í fjáraukalögum þessa árs og fjárlögum ársins 2017 sem leiði til þess að heilsugæslan verði styrkt og almennar hámarksgreiðslur sjúkratryggðra verði ekki hærri en 50.000 kr. á ári.“
50.000 kr. þakið var forsenda þess að þverpólitísk sátt næðist um málið innan nefndarinnar á síðasta kjörtímabili en núna, í nýja greiðsluþátttökukerfinu, er þakið í einhverjum tilvikum 70.000 á ári. Það er ekki sú upphæð sem sátt náðist um. Ég er þess fullviss, miðað við umræðuna í velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili, að ekki hefði náðst þverpólitísk sátt um afgreiðslu þessa frumvarps ef 70.000 kr. þakið hefði verið lagt fram þegar unnið var að málinu.
Virðulegur forseti. Þegar við skoðum ríkisfjármálaáætlun, nánar tiltekið á bls. 299 og 300 þar sem fjallað er um greiðsluþátttökukerfið, eru framtíðarmarkmið þessara aðgerða nokkuð óljós. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í þau framtíðaráform sem eru uppi varðandi frekari aðgerðir í greiðsluþátttökukerfi sjúklinga. Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að einstaklingar með langvinna sjúkdóma eigi kost á gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi áður en þetta kjörtímabil er á enda? Það er nefnilega nógu erfitt fyrir einstaklinga að missa heilsuna, jafnvel vinnuna, þegar erfið veikindi herja á. Mikilvæg skref eru stigin með nýju greiðsluþátttökukerfi en ganga þarf lengra.
Einnig spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann ætli sér að sameina greiðsluþátttökukerfi vegna heilbrigðis- og lyfjakostnaðar á þessu kjörtímabili. Samspil þessara tveggja kerfa gerir að verkum að í of mörgum tilvikum þurfa sjúklingar oft að greiða of mikinn kostnað þrátt fyrir að við séum búin að innleiða nýtt greiðsluþátttökukerfi með lægra þaki en áður hefur verið.
Að lokum spyr ég hvort hæstv. heilbrigðisráðherra ætli að bæta fleiri þáttum heilbrigðisþjónustu í greiðsluþátttökukerfið og í hvaða skrefum það verði þá gert. Þar get ég nefnt þætti eins og að koma í auknum mæli til móts við ferðakostnað einstaklinga sem þurfa að sækja þjónustu á heilbrigðisstofnunum eða spítalanum í Reykjavík og þurfa margsinnis að koma til Reykjavíkur og fá þjónustu. Á að koma meira til móts við þessa einstaklinga? Hvað með tannlækningar og sálfræðiþjónustu?
Í þessari umræðu hef ég farið yfir helstu þætti sem unnið var að í hv. velferðarnefnd sl. vor. Þar voru fyrstu skrefin stigin en fast kveðið á um í nefndaráliti hv. velferðarnefndar (Forseti hringir.) að ganga yrði lengra og því kalla ég eftir svörum hér.”

Elsa Lára Arnardóttir

Ræða Elsu Láru Arnardóttur, 3. maí 2017.

Categories
Fréttir

Tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum forkaupsrétt?

Deila grein

26/04/2017

Tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum forkaupsrétt?

„Hæstv. forseti. Í störfum þingsins þann 5. apríl síðastliðinn fagnaði ég því að forsvarsmenn HB Granda hefðu farið í viðræður við bæjarstjórn Akraness og Faxaflóahafnir um framtíðaráform fyrirtækisins á Akranesi. Ég ræddi mikilvægi þess að allir aðilar tækju þátt í þessum viðræðum af heilum hug því að um væri að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi og bæjarfélagið Akranes. Í störfum þingsins ræddi ég jafnframt um að ef þessar viðræður bæjarstjórnar Akraness og Faxaflóahafna við kvótahæsta fyrirtæki landsins, þ.e. HB Granda, skiluðu ekki árangri blasti við að endurskoða þyrfti það kvótakerfi sem við búum við í dag. Skoða þyrfti hvort hægt væri með skýrari hætti að tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum að nýta sér forkaupsrétt í þeim kvóta sem fyrir er svo ákvörðun sem þessi ógnaði ekki atvinnuöryggi fjölda einstaklinga.
Í fréttum þann 20. apríl sl. tók hv. þm. Páll Magnússon, sem jafnframt er formaður hv. atvinnuveganefndar Alþingis, í svipaðan streng og sagði nauðsynlegt að breyta lögum um stjórn fiskveiða til að tryggja þá byggðafestu sem gert er ráð fyrir í lögunum. Hátt í 100 manns missa vinnuna ef HB Grandi hættir landvinnslu á Akranesi.
Hv. þm. Haraldur Benediktsson, sem er 1. þm. Norðvesturkjördæmis, tók undir þessi orð hv. þm. Páls Magnússonar og sagði að lög um stjórn fiskveiða væru til skoðunar innan stjórnkerfisins í ljósi þess að hátt í eitt hundrað manns missi vinnuna ef HB Grandi hætti landvinnslu á Akranesi. Það yrði grundvallarbreyting ef HB Grandi flytti starfsemi frá Akranesi til Reykjavíkur.
Mig langar að nýta þetta tækifæri og fagna orðum þessara hv. þingmanna. Ég vona svo sannarlega að fleiri hv. þingmenn hér geta tekið undir þessi orð okkar.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 25. apríl 2017.