Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins samtöl sín við íþróttafólk og forsvarsmenn íþróttafélaga nú í byrjun ársins. Fram hafi komið að þörf sé á betri umgjörð um afreksíþróttafólk til að fjármagna keppnis- og æfingaferðir. Aðstæður eru misjafnar hjá íþróttafólki, „t.d. hvað varðar fjárhagsstöðu einstaklinganna sjálfa eða foreldra þeirra og svo eru þeir auðvitað oft háðir vinnuveitendum. Þessa stöðu þarf að jafna og jafnvel innleiða einhverja hvata“.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusambandið skrifuðu nýlega undir samstarfssamning um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs hér á landi. Samhliða var tilkynnt að Vésteinn Hafsteinsson, þjálfari, hafi verið ráðinn til að halda utan um vinnuna við þessa stefnumótun og aðgerða sem eru til þess fallnar að bæta stöðu og réttindi íþróttafólks.
„Því ber auðvitað að fagna sérstaklega og ég vil hvetja okkur öll og þá ráðherra sem að þessu koma áfram til góðra verka þegar að þessum málum kemur,“ sagði Ágúst Bjarni.
Ræða Ágústs Bjarna á Alþingi:
„Virðulegi forseti. Ég ætla að koma hérna upp og fagna góðu verkefni. Á síðasta ári mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Við höfum séð of oft og of víða að það hefur reynst erfitt fyrir okkar góðu íþróttamenn, unga og eldri — fyrir utan það að auðvitað vantar almennilega skilgreiningu á því hverjir teljast til afreksíþróttamanna — að fjármagna keppnis- og æfingaferðir og jafnvel til viðbótar við það að tapa launum á meðan fjarveru stendur. Þarna geta aðstæður verið æðimisjafnar, t.d. hvað varðar fjárhagsstöðu einstaklinganna sjálfa eða foreldra þeirra og svo eru þeir auðvitað oft háðir vinnuveitendum. Þessa stöðu þarf að jafna og jafnvel innleiða einhverja hvata.
Ég var sjálfur á ferð um mitt kjördæmi, Suðvesturkjördæmi, núna í byrjun janúar, og þetta er það sem við heyrum víða, ef ekki alls staðar, í samtölum við íþróttafólkið sjálft og forsvarsmenn íþróttafélaga, að þörf sé á betri umgjörð um þessi mál. Ég tek undir og fagna því mjög að hæstv. mennta- og barnamálaráðherra og Íþrótta- og Ólympíusambandið hafi nýverið skrifað undir samstarfssamning um stefnumörkun og uppbyggingu afreksíþróttastarfs hér á landi. Ég tel að sú tillaga sem ég mælti fyrir hér síðasta haust falli vel að þessu markmiði og þessu verkefni og skapi þá umgjörð sem nauðsynleg er fyrir afreksíþróttastarf þannig að það verði eins og best verður á kosið og afreksíþróttafólkið okkar standi jafnfætis keppinautum sínum um allan heim. Nú er ljóst, það var tilkynnt samhliða, að Vésteinn Hafsteinsson, sem við könnumst auðvitað öll við fyrir afrek hans, muni starfa að þessum málum með íslenskum stjórnvöldum við það að móta aðgerðir sem eru til þess fallnar að bæta stöðu og réttindi þessa fólks. Því ber auðvitað að fagna sérstaklega og ég vil hvetja okkur öll og þá ráðherra sem að þessu koma áfram til góðra verka þegar að þessum málum kemur.“
26/01/2023
„Tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar“Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins, náttúruhamfarir og hversu mikil áhrif þau hafa haft á þjóðarsálina, en á síðustu dögum hafa verið rifjuð upp og minnst atburða síðustu áratuga. Rakti hún viðbrögð og vinnu stjórnvalda við að bregðast við náttúruhamförum og ofanflóðasjóða sérstaklega.
„Árið 1996 var ofanflóðanefnd komið á fót og löggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tók gildi árið 1997 sem var mikilvægt tímamótaverkefni. Farið var í rannsóknir, hættumat, hönnun og byggingu mannvirkja til að verja íbúabyggð fyrir snjóflóðum og sett upp framkvæmdaáætlun,“ sagði Líneik Anna.
Fór hún yfir að vinna við framkvæmdir og uppkaup á eignum hafi verið gerð á 15 þéttbýlisstöðum á landinu. Er vinnu við varnir lokið við sex þéttbýli.
„Upphaflega sneru verkefni sjóðsins að vörnum vegna ofanflóða og uppkaupa húseigna í samvinnu við sveitarfélög. Hlutverkið hefur nú verið víkkað út og fellur kostnaður við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða einnig undir sjóðinn,“ sagði Líneik Anna.
„Í kjölfar snjóflóða sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði árið 2020 vöknuðum við öll upp við vondan draum um að framkvæmdir væru langt á eftir áætlun. Í framhaldi voru fjárveitingar til framkvæmda ofanflóðasjóðs auknar og stefnan sett á að öllum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum á íbúðabyggð verði lokið árið 2030.“
„Nú legg ég áherslu á að fjárheimildir verði áfram í takti við þessa áætlun um verklok. Það þýðir að það getur þurft að hækka fjárheimildir í takti við hækkanir á framkvæmdakostnaði og breytingar á framkvæmdaþörf í samræmi við nýjustu rannsóknir og uppfært hættumat. Þessu til áréttingar legg ég fram fyrirspurn hér á Alþingi til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um stöðu framkvæmda. Einnig álít ég nú tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar og samspils við ýmsar tryggingar,“ sagði Líneik Anna að lokum.
Ræða Líneikar Önnu í heild sinni:
„Virðulegi forseti. Síðustu daga höfum við rifjað upp og minnst náttúruhamfara sem hafa haft mikil og djúpstæð áhrif á einstaklinga, fjölskyldur, samfélög og raunar þjóðarsálina alla. Stjórnvöld hafa í gegnum tíðina farið í ýmiss konar vinnu til að verjast og bregðast við náttúruhamförum og hér vil ég ræða ofanflóðasjóð sérstaklega.
Árið 1996 var ofanflóðanefnd komið á fót og löggjöf um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tók gildi árið 1997 sem var mikilvægt tímamótaverkefni. Farið var í rannsóknir, hættumat, hönnun og byggingu mannvirkja til að verja íbúabyggð fyrir snjóflóðum og sett upp framkvæmdaáætlun. Framkvæmdir og uppkaup hafa átt sér stað á 15 þéttbýlisstöðum og er lokið á sex þeirra. Upphaflega sneru verkefni sjóðsins að vörnum vegna ofanflóða og uppkaupa húseigna í samvinnu við sveitarfélög. Hlutverkið hefur nú verið víkkað út og fellur kostnaður við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða einnig undir sjóðinn. Í kjölfar snjóflóða sem féllu á Flateyri og í Súgandafirði árið 2020 vöknuðum við öll upp við vondan draum um að framkvæmdir væru langt á eftir áætlun. Í framhaldi voru fjárveitingar til framkvæmda ofanflóðasjóðs auknar og stefnan sett á að öllum framkvæmdaverkefnum til varnar ofanflóðum á íbúðabyggð verði lokið árið 2030.
Nú legg ég áherslu á að fjárheimildir verði áfram í takti við þessa áætlun um verklok. Það þýðir að það getur þurft að hækka fjárheimildir í takti við hækkanir á framkvæmdakostnaði og breytingar á framkvæmdaþörf í samræmi við nýjustu rannsóknir og uppfært hættumat. Þessu til áréttingar legg ég fram fyrirspurn hér á Alþingi til hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um stöðu framkvæmda. Einnig álít ég nú tímabært að uppfæra löggjöfina í ljósi reynslunnar og samspils við ýmsar tryggingar.“
„Aðgerðirnar fá glimrandi einkunn“
25/01/2023
„Aðgerðirnar fá glimrandi einkunn“„Í gær var alþjóðlegur dagur menntunar og á þeim degi bárust okkur gleðifréttir um talsverða fjölgun útskrifaðra kennara hér á landi. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar sem er aukning um 160% frá meðaltali síðustu ára. Þetta eru frábær tíðindi, sérstaklega í ljósi kennaraskorts sem samfélagið hefur glímt við síðustu ár,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.
„Frá árinu 2008 hafði útskrifuðum kennurum fækkað talsvert og ríkisstjórnin hefur lagt kapp á að koma kennarastéttinni, einni mikilvægustu stétt samfélagsins, aftur á réttan kjöl. Árið 2019 setti menntamálaráðuneytið, sem var þá undir forystu hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur, það í forgang að vinna gegn umræddum skorti.“
Útskrifuðum kennurum hafði frá 2008 fækkað talsvert og því markmiðið að efla kennaranám að nýju, gera það meira aðlaðandi starf en áður.
„Meðal aðgerða má nefna að á lokaári meistaranáms stendur nemendum til boða að fara í launað starfsnám sem og að fá námsstyrk til að ljúka námi á tilsettum tíma. Svo var horft til starfandi kennara og samstarfs þeirra við háskólastofnanir með því að styrkja þá til að stunda nám í starfstengdri leiðsögn og auka færni þeirra til að taka á móti nýliðum,“ sagði Lilja Rannveig. „Niðurstöður verkefnisins eru nú að koma fram og aðgerðirnar fá glimrandi einkunn. Fá störf eru jafn mikilvæg og gefandi og kennarastarfið og við verðum að tryggja að hæfir og kröftugir einstaklingar sjái framtíð í starfinu. Kennarar hafa mikil áhrif á samfélagið og það er mikilvægt að stéttin verði efld,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.
***
Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni:
Hæstv. forseti. Í gær var alþjóðlegur dagur menntunar og á þeim degi bárust okkur gleðifréttir um talsverða fjölgun útskrifaðra kennara hér á landi. Á síðasta ári útskrifuðust 454 kennarar sem er aukning um 160% frá meðaltali síðustu ára. Þetta eru frábær tíðindi, sérstaklega í ljósi kennaraskorts sem samfélagið hefur glímt við síðustu ár. Frá árinu 2008 hafði útskrifuðum kennurum fækkað talsvert og ríkisstjórnin hefur lagt kapp á að koma kennarastéttinni, einni mikilvægustu stétt samfélagsins, aftur á réttan kjöl.
Árið 2019 setti menntamálaráðuneytið, sem var þá undir forystu hæstv. ráðherra Lilju Alfreðsdóttur, það í forgang að vinna gegn umræddum skorti. Strax voru aðgerðir kynntar með það að markmiði að efla kennaranám og gera það áberandi og enn meira aðlaðandi kost en áður. Meðal aðgerða má nefna að á lokaári meistaranáms stendur nemendum til boða að fara í launað starfsnám sem og að fá námsstyrk til að ljúka námi á tilsettum tíma. Svo var horft til starfandi kennara og samstarfs þeirra við háskólastofnanir með því að styrkja þá til að stunda nám í starfstengdri leiðsögn og auka færni þeirra til að taka á móti nýliðum.
Að lokum var samþykkt frumvarp um eitt leyfisbréf í kennarastéttinni sem hefur leitt til aukins sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga sem hefur aukið starfsmöguleika kennara um allt land.
Á þessu kjörtímabili tók hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason við keflinu sem nýr mennta- og barnamálaráðherra og hélt aðgerðunum áfram.
Niðurstöður verkefnisins eru nú að koma fram og aðgerðirnar fá glimrandi einkunn. Fá störf eru jafn mikilvæg og gefandi og kennarastarfið og við verðum að tryggja að hæfir og kröftugir einstaklingar sjái framtíð í starfinu. Kennarar hafa mikil áhrif á samfélagið og það er mikilvægt að stéttin verði efld.
24/01/2023
„Heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid“Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, ræddi skýrslu viðbragðsteymis um bráðaþjónustu á Íslandi, núverandi stöðu og framtíðarsýn. Í skýrslunni eru nefnd margvísleg sóknarfæri til að efla og bæta bráðaþjónustu á landsvísu. Svo sem að efla og samræma bráðaþjónustu, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma og styðja við menntun og þjálfun.
„Ein umfangsmesta tillagan er að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, m.a. við sjúkraflutninga og heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum,“ sagði Líneik Anna.
„Vinnan að skýrslunni hefur nú þegar skilað umbótum og í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur að frekari umbótum í bráðaþjónustu á landsvísu.“
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur þegar ráðstafað tæpum 330 millj. kr. til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land.
„Þarna eru líka einfaldari tillögur eins og að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu hjartastuðtækja,“ sagði Líneik Anna.
„Vinna viðbragðsteymisins er afskaplega mikilvægt innlegg í viðbrögð og þróun heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma, ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid með fordæmalausri tíðni bráðra öndunarfærasýkinga,“ sagði Líneik Anna að lokum.
***
Ræða Líneikar Önnu í heild sinni:
Virðulegi forseti. Á fundum velferðarnefndar í síðustu viku var m.a. farið yfir skýrslu viðbragðsteymis um bráðaþjónustu á Íslandi, núverandi stöðu og framtíðarsýn. Vinnan að skýrslunni hefur nú þegar skilað umbótum og í skýrslunni eru settar fram 39 tillögur að frekari umbótum í bráðaþjónustu á landsvísu. Í stuttu máli telur viðbragðsteymið margvísleg sóknarfæri til að efla og bæta bráðaþjónustu á landsvísu. Tillögurnar snúast um að efla og samræma bráðaþjónustu um allt land, auka samvinnu milli stofnana, skilgreina viðmið og viðbragðstíma, styðja við menntun og þjálfun og fleira.
Ein umfangsmesta tillagan er að stofnuð verði bráðafjarheilbrigðismiðstöð þar sem áhersla verði á faglegan stuðning við alla þá viðbragðsaðila sem sinna bráðaþjónustu um allt land, m.a. við sjúkraflutninga og heilbrigðisstarfsfólk í dreifðari byggðum. Þarna eru líka einfaldari tillögur eins og að koma upp miðlægu Íslandskorti með upplýsingum um staðsetningu hjartastuðtækja. Umbótaverkefni sem komin eru í framkvæmd eru t.d. vinna við að fækka komum á bráðamóttöku. Tölur frá Landspítala sýna að það hafi tekist að beina hluta sjúklinga í önnur hentugri úrræði, t.d. með opnun göngudeildar lyflækninga og betri leiðbeiningum um síma þar sem nefnd er betri vegvísun. Þá er unnið að frekari umbótum í vegvísun í heilbrigðisþjónustu þar sem horft er til þess að samræma upplýsingagjöf, auka samvinnu og dreifa álagi á heilbrigðisstofnanir. Þá hefur hæstv. heilbrigðisráðherra þegar ráðstafað tæpum 330 millj. kr. til að bæta tækjabúnað vegna bráðaþjónustu á heilbrigðisstofnunum og heilsugæslustöðvum um allt land. Vinna viðbragðsteymisins er afskaplega mikilvægt innlegg í viðbrögð og þróun heilbrigðiskerfisins til lengri og skemmri tíma, ekki síst núna þegar heilbrigðiskerfi heimsins takast á við nýjan veruleika í kjölfar Covid með fordæmalausri tíðni bráðra öndunarfærasýkinga.
24/01/2023
Ráðast þarf í úttekt á tryggingamarkaði á ÍslandiÁgúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins hvað tryggingafélög hafi hækkað iðgjöld umfram almennar verðlagshækkanir.
„Iðgjöld bílatrygginga heimilanna hækkuðu um 1.840 millj. kr. umfram verðlagshækkanir á fimm árum, eða árin 2016–2021, um 1.093 millj. kr. á lögboðnum tryggingum og 747 milljónir á frjálsum tryggingum,“ sagði Ágúst Bjarni.
Sagði hann það alvarlegt mál ef aðeins efnameiri fjölskyldur hefðu efni á líf- og sjúkdómatryggingum, þar sem þær hafi einnig hækkað umfram verðlagshækkanir.
Þessar upplýsingar koma fram í svari við fyrirspurn Ágústs Bjarna til fjármála- og efnahagsráðherra um þróun iðgjalda tryggingafélaga á síðustu árum.
„Af þeim tölum sem ég hef fengið er alveg ljóst að iðgjöld tryggingafélaga eru farin að bíta allhressilega í bókhald heimilanna til viðbótar við aðrar hækkanir sem eru að verða í samfélaginu,“ sagði Ágúst Bjarni.
Nefndi hann dæmi að meðalfjölskylda með bifreið eða bifreiðar og sé jafnframt með eigna- og líftryggingu sé að borga 550.000-700.000 kr. á ári.
„Ég tel, út frá þessum gögnum og því svari sem ég hef undir höndum, þörf á að ráðast í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi þar sem farið yrði ofan í saumana á þessum málum og gerður nauðsynlegur samanburður hér á landi við markaðinn annars staðar á Norðurlöndum þegar kemur að gjaldtöku, rekstri félaganna og þeirri lagaumgjörð sem til staðar er og snertir með beinum hætti þá starfsemi sem hér um ræðir,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.
***
Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni:
Virðulegur forseti. Í byrjun desember sl. barst mér svar við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra um þróun iðgjalda tryggingafélaga á síðustu árum. Almenningur fylgist vel með og tekur eftir þeim hækkunum sem verða hvar sem er í samfélaginu. Fyrirspurnina sendi ég eftir að hafa fengið ábendingar um mikla hækkun frá fjölda fólks. Af þeim tölum sem ég hef fengið er alveg ljóst að iðgjöld tryggingafélaga eru farin að bíta allhressilega í bókhald heimilanna til viðbótar við aðrar hækkanir sem eru að verða í samfélaginu. Dæmi: Meðalfjölskylda sem rekur bifreið eða bifreiðar og er með eigna- og líftryggingu er að borga 550.000–700.000 kr. á ári. Þetta eru háar tölur, virðulegur forseti.
Í ljós kemur í svari við fyrirspurn minni að tryggingafélög hafa hækkað iðgjöld sín umfram almennar verðlagshækkanir. Iðgjöld bílatrygginga heimilanna hækkuðu um 1.840 millj. kr. umfram verðlagshækkanir á fimm árum, eða árin 2016–2021, um 1.093 millj. kr. á lögboðnum tryggingum og 747 milljónir á frjálsum tryggingum. Þá er ég einnig hugsi yfir gjöldum vegna líf- og sjúkdómatrygginga en sé horft til þess sem fram kemur í svarinu sýnist mér að iðgjöld líf- og sjúkdómatrygginga hafi einnig hækkað umfram verðlagshækkanir. Sú staða má aldrei koma upp, ekki undir nokkrum kringumstæðum, að þurfi fólk að draga saman seglin, draga saman í heimilisbókhaldinu, horfi það til þess að segja upp tryggingum sem þessum. Fyrir mér er það alvarlegt mál ef samfélagið er að þróast í þá átt að aðeins þeir efnameiri hafa efni á líf- og sjúkdómatryggingum. Ég tel, út frá þessum gögnum og því svari sem ég hef undir höndum, þörf á að ráðast í úttekt á tryggingamarkaði á Íslandi þar sem farið yrði ofan í saumana á þessum málum og gerður nauðsynlegur samanburður hér á landi við markaðinn annars staðar á Norðurlöndum þegar kemur að gjaldtöku, rekstri félaganna og þeirri lagaumgjörð sem til staðar er og snertir með beinum hætti þá starfsemi sem hér um ræðir.
23/01/2023
Sonja verkefnastjóri Þingflokks FramsóknarSonja Lind E. Eyglóardóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Þingflokks Framsóknar. Hún lauk BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2020 og fékk verðlaun Viðskiptaráðs Íslands fyrir framúrskarandi námsárangur í grunnnámi. Sonja útskrifast með ML í lögfræði frá sama skóla nú í lok janúar 2023.
Sonja hefur starfað sem starfsmaður þingflokks Framsóknar frá árinu 2020. Áður en hún kom til starfa fyrir þingflokk Framsóknar vann hún hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, þá hefur Sonja víðtæka reynslu í hótel- og veitingarekstri. Sonja hefur tekið þátt í félagsstörfum fyrir Framsókn, hún hefur m.a. verið formaður Framsóknarfélags Borgarfjarðar og Mýra, þá situr hún í fræðslu og kynningarnefnd Framsóknar og Velferðarnefnd Borgarbyggðar.
Sonja er 41 árs, gift Pavle Estrajher umhverfis- og náttúrufræðingi og er búsett í Borgarnesi.
Hádegishleðsla Framsóknar í Reykjavík
23/01/2023
Hádegishleðsla Framsóknar í ReykjavíkVið hefjum vordagskrána í hádeginu á föstudaginn á opnum fundi með þingmönnum og borgarfulltrúum Framsóknar í Reykjavík á Bryggjunni Brugghúsi, Grandagarði 8. Við hefjum leik á slaginu kl. 12:00.
Gestir geta keypt súpu og brauð á hagstæðu verði.
Hlökkum til að sjá þig!
Lilja Dögg, Ásmundur Einar, Einar Þorsteins, Árelía Eydís, Magnea Gná, Aðalsteinn Haukur og Þorvaldur Daníels
23/01/2023
Samvinna mun lágmarka áhrif sem válynd veður hafa óhjákvæmilega á samgöngur um háveturLagðar hafa verið fram sex úrbótatillögur til að tryggja snör og fumlaus viðbrögð við erfiðar veðuraðstæður, líkt og þær sem sköpuðust í desember sl. Tillögurnar eru settar fram í skýrslu starfshóps, sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, skipaði en hlutverk hópsins var að greina atburðarásina 19. og 20. desember og hvað hefði betur mátt fara.
Tillögur starfshópsins eru í sex liðum:
- Áætlun verði gerð um hvaða tækjabúnaður er nauðsynlegur við aðstæður sem þessar og um samnýtingu tækjabúnaðar ólíkra aðila á svæðinu.
- Vaktstöð Vegagerðarinnar fái heimild til nauðsynlegra framkvæmda innan fyrirfram skilgreinda marka þegar aðstæður eru illviðráðanlegar.
- Vegagerðin, í samráði við ríkislögreglustjóra, setji saman verkferla um ákvarðanatöku og framkvæmd lokunar og opnunar vega, við aðstæður þegar lögregla ákveður að beita heimildum til lokunar.
- Vegagerðin setji saman verkferla um miðlun upplýsinga til almennings, hagaðila og viðbragðsaðila, hvort sem samhæfingarstöð hefur verið virkjuð eða ekki.
- Ráðherra veiti Vegagerðinni skýra heimild til að fjarlægja ökutæki sem hindra snjómokstur, trufla umferð eða vinnu við veg.
- Gerðar verði tilteknar breytingar á viðbragðsáætlun Vegagerðarinnar vegna Reykjanesbrautar í ljósi reynslunnar í desember. Í skýrslunni eru tiltekin nokkur atriði, s.s. að endurmeta þurfi staðsetningu lokunarpósta, skilgreina eigi skilvirkara samstarf við lögreglu og kanna eigi hvort skilgreina þurfi varaleiðir til að halda opnum þrátt fyrir lokun Reykjanesbrautar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Tillögur starfshópsins eru gagnlegar og munu nýtast þegar í stað við að gera nauðsynlegar breytingar á viðbragðsáætlun og skipulagi samskipta. Þá hyggst ég virkja heimild umferðarlaga sem veitir Vegagerðinni heimild til að láta færa ökutæki sem valda truflunum við snjómokstur. Í skýrslunni er farið vel yfir atburðarásina og fulltrúar Vegagerðarinnar og lögregluyfirvalda hafa lagt sitt að mörkum til að finna leiðir til að bæta viðbragð við aðstæður sem þessar. Með samvinnu að leiðarljósi er það verkefni okkar að lágmarka eins kostur er þau áhrif sem válynd veður hafa óhjákvæmilega á samgöngur um hávetur.“
Ekki hægt að koma í veg fyrir lokun – en betur hefði mátt standa að snjómokstri
Í skýrslunni segir að starfshópurinn telji að ekki hefði verið hægt að koma algerlega í veg fyrir lokun Reykjanesbrautarinnar, þegar horft væri til veðuraðstæðna á umræddu tímabili, og lögbundinna hlutverka Vegagerðarinnar og lögreglu er snúa að öryggi vegfarenda.
Starfshópurinn kemst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að þótt Vegagerðin hafi fullnýtt mannskap og tæki til snjómoksturs á tímabilinu „hefði mátt betur átt standa að snjómokstri á Reykjanesbraut. Með fleiri tiltækum snjómoksturstækjum og snarpara viðbragði við að fjarlægja bíla sem sátu fastir í snjó hefði mátt stytta þann tíma sem brautin var lokuð. Þá hefði jafnframt mátt stytta lokunartímann ef til staðar hefðu verið tæki sem henta betur í að ryðja vegamót á brautinni en þau tæki sem Vegagerðin hafði yfir að ráða í slíka vinnu.“
Starfshópurinn telur að mögulega hefði verið hægt að opna Reykjanesbraut fyrr á mánudeginum ef sérstaklega hefði verið auglýst að leiðir til Grindavíkur og Voga væru ófærar þar sem öll áhersla hafði tímabundið verið lögð á að halda leiðinni til flugstöðvarinnar opinni á kostnað moksturs leiða til aðliggjandi byggðarlaga. Til þess hefði þó þurft mjög markvissa upplýsingaveitu til vegfarenda ásamt skýrri umferðarstjórn inn á og út af Reykjanesbrautinni.
Í skýrslunni telur starfshópurinn mikilvægt að halda því til haga að um leið og Reykjanesbraut þjónar stærsta alþjóðaflugvelli landsins þjóni hún einnig byggðarlögum sem tengjast brautinni. Á sama tíma og barist hafi verið við að halda Reykjanesbrautinni opinni voru vegir að og í byggðarlögum við brautina ófærir.
Starfshópurinn bendir á að þegar veðuraðstæður væru með þessum hætti væri þörf á að forgangsraða snjómokstri. Eðlilegt væri að skilgreina og skýra hversu mikil áhersla skuli vera á að halda leiðinni að flugstöðinni opinni, jafnvel á kostnað annarra verkefna.
Sem dæmi megi nefna að á meðan veðrið gekk yfir voru sjúkrabílar og lögregla kölluð til í hús sem ófært var að og þurftu viðbragðsaðilar m.a. að nýta sér aðstoð snjóbíls björgunar-sveitar til að sinna útköllum. Við forgangsröðun snjómoksturs verði að huga að getu viðbragðsaðila til að bregðast við neyðaraðstæðum. Hugsanlegt væri að minni tæki sem henti betur til snjómoksturs í hringtorgum gætu tryggt öryggi að þessu leyti með betri hætti.
Um starfshópinn
Starfshópurinn var skipaður fulltrúum frá Vegagerðinni, Ríkislögreglustjóra, lögreglustjóranum á Suðurnesjum og innviðaráðuneytinu. Fulltrúi ráðuneytisins stýrði vinnu hópsins. Hópurinn var skipaður fyrir jól strax eftir ófærðina 19. og 20. desember og átti að skila niðurstöðum innan mánaðar.
Samráð var haft við fjölmarga hagaðila við undirbúning skýrslunnar, þ.á m. fulltrúa Isavia, Landsbjargar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sveitarfélaga á svæðinu, Samtaka ferðaþjónustunnar. Þá var leitað sérfræðiálits hjá Einari Sveinbjörnssyni, veðurfræðingi.
Heimild: stjr.is
Ný Þjóðarhöll – staðan og næstu skref
16/01/2023
Ný Þjóðarhöll – staðan og næstu skrefNý þjóðarhöll mun umbylta umgjörð í kringum landsliðsfólk í fjölmörgum íþróttagreinum, stórbæta aðstöðu fyrir börn og ungmenni og aðra íþróttaiðkendur auk þess að vera fjölnota hús fyrir þjóðina alla samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar. Hún verður 19.000m2 að stærð, mun taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 manns á tónleikum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynntu í dag stöðu og næstu skref við byggingu nýrrar Þjóðarhallar í Laugardalnum.
Frá blaðamannafundi ríkis og borgar
Þjóðarhöllin verður fjölnota mannvirki fyrir íþróttir, menningu, kennslu og viðburði. Í skýrslu framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll kemur fram að í höllinni verði fjölnota gólf og sæti verði að hluta til hreyfanleg þannig að unnt sé að nýta megnið af gólfi Þjóðarhallar frá degi til dags til íþróttaæfinga en höllin rúmi sömuleiðis stóra íþróttaviðburði, landsliðsleiki og tónleika. Einnig mun Þjóðarhöllin uppfylla kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda þannig að hægt verði að spila leiki á stórmótum hér á landi.
Gert er ráð fyrir útdraganlegum stúkum sem alla jafna verða inndregnar svo unnt verði að nýta gólfið til íþróttaiðkunar samkvæmt skýrslu framkvæmdanefndar
Notendur verða íþróttafélög, landsliðshópar sérsambanda fyrir æfingar og keppni, skólar í nágrenninu, háskólar fyrir íþróttakennslu og ýmsir viðburðahaldarar. Þá er ætlunin að höllin sé aðgengileg almenningi til eflingar lýðheilsu með ýmsum æfingamöguleikum, auk veitingareksturs. Gert er ráð fyrir góðri tengingu og flæði milli Þjóðarhallar, Laugardalshallar og Frjálsíþróttahallar fyrir iðkendur, gesti og starfsfólk. Staðsetning hennar verður sunnan Laugardalshallar upp að Suðurlandsbraut. Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdar er um 15 ma. kr.
Staðsetning Þjóðarhallar samkvæmt skýrslu framkvæmdanefndar
Vinna að deiliskipulagi stendur yfir. Samhliða er unnið að undirbúningi útboðs á hönnun og framkvæmd annars vegar og eftirliti hins vegar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í byrjun árs 2024 með verklokum haustið 2025.
Nánari upplýsingar um næstu skref er að finna í skýrslu framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll.
Heimild: stjr.is
Hönnunarsjóður stækkar
16/01/2023
Hönnunarsjóður stækkarFramlög til Hönnunarsjóðs nema alls 80 milljónum kr. árið 2023 og hækka um 30 milljónir kr. frá fyrra ári. Stefnumótun í málefnum hönnunar og arkitektúrs verður kynnt á næstu vikum.
„Við viljum auka slagkraft og áhrif Hönnunarsjóðs sem er mikilvægur liður í að efla verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs hér á landi. Fyrir tilstilli framlaga sjóðsins hefur mörgum spennandi nýskapandi verkefnum verið hrint í framkvæmd og þau hjól halda mörg áfram að snúast af krafti. Styrkur úr Hönnunarsjóði er mikilvæg lyftistöng og viðurkenning, og oft fyrsta skref að einhverju stærra,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Hlutverk Hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Sjóðurinn styrkir einnig kynningar- og markaðsstarf hér á landi og erlendis með það að markmiði að auka útflutning. Opið er fyrir umsóknir í sjóðinn en umsóknafrestur vegna fyrri úthlutunar hans er til 7. febrúar nk.
Sjá nánar á vef Hönnunarsjóðs.
Heimild: stjr.is