Categories
Greinar

Vandasöm sigling

Deila grein

04/07/2022

Vandasöm sigling

Tals­verð óvissa rík­ir um efna­hags­horf­ur á heimsvísu um þess­ar mund­ir og hag­stjórn því vanda­sam­ari en um langt ára­bil. Vand­inn af margþætt­um toga. Nauðsyn­leg­ar efna­hagsaðgerðir stjórn­valda um heim all­an á Covid-19-tím­an­um er lutu að aukn­um rík­is­um­svif­um og rýmri pen­inga­stefnu hafa ýtt und­ir hækk­un á vöru og þjón­ustu. Þessu til viðbót­ar hef­ur árás Rúss­lands inn í Úkraínu haft mik­il áhrif á verðbólgu á heimsvísu, þar sem einn stærsti fram­leiðandi orku ræðst á ríki sem fram­leiðir mikið magn af hveiti til út­flutn­ings. Verð á þess­um nauðsynja­vör­um hef­ur hækkað veru­lega og eru af­leiðing­arn­ar afar nei­kvæðar fyr­ir heims­bú­skap­inn og sér­stak­lega fá­tækri rík­in. Á sama tíma eru mjög ríki enn að fást við far­sótt­ina og hef­ur það lam­andi áhrif fram­leiðslu­keðju heims­ins. Ofan á þetta bæt­ist að skort­ur á vinnu­afli í mörg­um helstu hag­kerf­um heims­ins.

Íslenska hag­kerfið stend­ur traust­um fót­um

Efna­hags­kerfið hef­ur tekið vel við sér eft­ir far­sótt­ina. Drif­kraft­ur hag­kerf­is­ins er góður og spár gera ráð fyr­ir mikl­um hag­vexti í ár eða ríf­lega 5% og rétt um 3% árið 2023. Lausa­fjárstaða þjóðarbús­ins er sterk og veru­lega hef­ur dregið úr at­vinnu­leysi. Eft­ir mik­inn sam­drátt í upp­hafi far­ald­urs­ins er það ferðaþjón­ust­an enn á ný sem dríf­ur hag­vöxt­inn áfram en spár gera ráð fyr­ir að um 1,6 millj­ón ferðamanna muni heim­sækja Ísland á þessu ári. Aðrar út­flutn­ings­grein­ar hafa einnig dafnað vel eins og sjáv­ar­út­veg­ur og stóriðja vegna mik­illa verðhækk­ana á afurðum þess­ara at­vinnu­greina. Að sama skapi er einnig ánægju­legt að sjá að út­flutn­ings­tekj­ur af hug­verkaiðnaðnum hafa auk­ist veru­lega eða farið úr því að nema tæp­um 8% af gjald­eyris­tekj­um í rúm 16% á síðustu árum. Þessi þróun er mik­il­væg í þeirri viðleitni að fjölga stoðunum und­ir ut­an­rík­is­viðskipt­um lands­ins.

Kaup­mátt­ur launa allra á Íslandi hækkaði á ár­inu 2021 og þær skatta­legu aðgerðir sem hef­ur verið hrint í fram­kvæmd miðast all­ar að því að draga úr skatt­byrði hjá þeim sem lægst­ar tekj­ur hafa. Á covid-tím­an­um jókst kaup­mátt­ur um 4,4% að raun­v­irði og var það í sam­ræmi við fyr­ir­ætlan­ir stjórn­valda að verja efna­hag heim­ila og fyr­ir­tækja við upp­haf far­sótt­ar­inn­ar. Í stuttu máli má segja að vel hafi tek­ist til. At­vinnu­leysi mæl­ist nú um 3,8%, skuld­ir heim­il­anna hafa lækkað, hrein skuld­astaða rík­is­sjóðs nem­ur 28,5% af lands­fram­leiðslu og gjald­eyr­is­forðinn nem­ur um 25,5% af lands­fram­leiðslu. Þannig að segja má að staðan sé góð þrátt fyr­ir mikla ágjöf síðustu miss­eri en blik­ur eru á lofti því verðbólgu­horf­ur hafa versnað til skamms tíma.

Auk­in verðbólga víðast hvar í heim­in­um

All­ir helstu seðlabank­ar heims hafa nú hækkað stýri­vexti sína með það að mark­miði að því að draga úr verðbólgu­vænt­ing­um. Verðbólga í Banda­ríkj­un­um í maí mæld­ist 8,6% á árs­grund­velli og er sú mesta í yfir 40 ár. Verðbólg­an á evru­svæðinu er 8,1% og í Bretlandi 7,8%. Mat­arkarf­an á heimsvísu hef­ur hækkað um tæp­an fjórðung. Verð á hveiti á heimsvísu hef­ur hækkað um 56% og mjólkuraf­urðir um 17%.

Ísland hef­ur ekki farið var­hluta af þess­ari þróun, verðbólg­an mæl­ist 8,8% en án hús­næðisliðar­ins er hún 6,5%%. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa einnig auk­ist. Gert er ráð fyr­ir að verðbólga verði um 4,9% árið 2023 og 3,3% árið 2024. Skort­ur hef­ur verið á vinnu­markaði og mik­il eft­ir­spurn eft­ir vinnu­afli. Hækk­un hús­næðisliðar vísi­tölu neyslu­verðs hef­ur haft mest áhrif á þróun verðlags und­an­far­in miss­eri. Fram­boðsvand­inn hef­ur auk­ist á ný vegna stríðsins í Úkraínu og olíu- og hrávöru­verð hef­ur hækkað enn frek­ar.

Meg­in­verk­efni allra leiðandi hag­kerfa verður að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ráðlegg­ur Alþjóðagreiðslu­bank­inn (e. BIS) seðlabönk­um að vera ófeimn­ir að bregðast hratt við til skamms tíma með það að leiðarljósi að til lengri tíma, þá verði búið að snúa verðbólg­unni niður. Agustín Car­stens, banka­stjóri BIS, sagði: „Það er lyk­il­atriði fyr­ir seðlabanka er bregðast skjótt og af festu við áður en verðbólga nær fót­festu.“

Rík­is­stjórn­in leggst á ár­arn­ar með Seðlabank­an­um

Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar verður að koma bönd­um á verðbólg­una. Stjórn­völd hafa þegar farið í mót­vægisaðgerðir sem fel­ast í því að bæt­ur al­manna­trygg­inga hafa verið hækkaðar, ráðist var í sér­stak­an barna­bóta­auka til þeirra sem eiga rétt á tekju­tengd­um barna­bót­um og hús­næðis­bæt­ur voru hækkaðar. Auk­in­held­ur hafa rík­is­stjórn og Seðlabanki lagst sam­eig­in­lega á ár­arn­ar til þess að tak­ast á við hækk­andi verðbólgu. Kynnti rík­is­stjórn­in í því sam­hengi 27 millj­arða aðhaldsaðgerðir í rekstri hins op­in­bera til að draga úr þenslu og verðbólguþrýst­ingi. Stjórn­völd telja afar mik­il­vægt að gera allt sem í þeirra valdi stend­ur til að sporna við verðbólgu. Sam­keppnis­eft­ir­litið hef­ur meðal ann­ars hafið upp­lýs­inga­öfl­un um þróun verðlags á helstu mörkuðum, til að meta hvort verðlags­hækk­an­ir kunni að stafa af ónægu sam­keppn­is­legu aðhaldi eða óeðli­leg­um hvöt­um. Sér­stök áhersla er lögð á dag­vörumarkað, eldsneyt­is­markað og bygg­ing­ar­vörumarkað. Það ger­ir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu auðveld­ara um vik að greina óhag­stæð ytri áhrif á verðþróun eða greina hvort verðhækk­an­ir kunni að stafa af mögu­leg­um sam­keppn­is­bresti á viðkom­andi mörkuðum. Að auki hef­ur verið skipaður vinnu­hóp­ur til að greina gjald­töku og arðsemi bank­anna. Stór hluti af út­gjöld­um heim­il­anna renn­ur til bank­anna, í formi af­borg­ana af hús­næðis-, bíla- og neyslu­lán­um auk vaxta og þjón­ustu­gjalda. Sam­setn­ing þess­ara gjalda er oft flók­in, sem ger­ir sam­an­b­urð erfiðan fyr­ir neyt­end­ur. Því tel ég brýnt að hlut­ur þess­ara þátta verði skoðaður ofan í kjöl­inn, með vís­an til sam­keppn­isþátta og hags­muna neyt­enda. Mark­miðið er að kanna hvort ís­lensk heim­ili greiði meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili í hinum nor­rænu ríkj­un­um. Það er verk að vinna til að ná tök­um á verðbólgu, því að tekju­lægstu heim­il­in og þjóðirn­ar fara iðulega verst út úr mik­illi verðbólgu.

Bjart hand­an sjón­deild­ar­hrings­ins

Þrátt fyr­ir að blik­ur séu á lofti í hag­kerf­inu er full ástæða til bjart­sýni. Efna­hags­um­svif hafa tekið vel við sér eft­ir far­sótt­ina. Hag­vöxt­ur er um 5%, út­flutn­ings­grein­ar sterk­ar sem styðja við gjald­miðil­inn og gjald­eyr­is­forði sem nem­ur um 25% af lands­fram­leiðslu. Að auki er gert ráð fyr­ir að aðhalds­samri pen­inga­stefna og rík­is­fjár­mál muni leiða til þess að á næsta ári lækki verðbólg­an. Í ná­granna­lönd­un­um er mik­ill ótti við að fram und­an sé tíma­bil sam­spils stöðnun­ar og verðbólgu (e. stag­flati­on), en eng­in merki eru uppi um slíka stöðnun í okk­ar hag­kerfi. Nokkr­ir veiga­mikl­ir þætt­ir ættu einnig að vinna með efna­hags­kerf­inu.

Í fyrsta lagi eru heild­ar­skuld­ir rík­is­sjóðs rúm­lega 40% af lands­fram­leiðslu, en til sam­an­b­urðar eru skuld­ir Þýska­lands um 60% og Ítal­íu um 140%. Áætlað er að skulda­hlut­fall rík­is­sjóðs verði komið í 33,4% í árs­lok 2023. Er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs eru mjög lág­ar og auk þess er hrein er­lend staða þjóðarbús­ins með allra besta móti í ljósi mik­illa eigna hag­kerf­is­ins í út­lönd­um. Í öðru lagi er Ísland með sjálf­stæða pen­inga­stefnu sem þýðir að við get­um hreyft stýri­vexti hraðar en mörg önn­ur ríki og sér í lagi í sam­an­b­urði við þau sem eru aðilar að mynt­banda­lagi Evr­ópu. Þess má geta að verðbólga inn­an ein­stakra ríkja banda­lags­ins nem­ur allt að 20%. Ítal­ía greiðir 1,9 pró­sentu­stig­um meira en Þýska­land í vöxt­um af láni til tíu ára, nærri tvö­falt meira en sem nem­ur álag­inu í árs­byrj­un 2021! Ljóst er að sama vaxta­stefn­an á ekki við öll ríki Evr­ópu­sam­bands­ins og munu þau skuld­sett­ustu geta lent í veru­leg­um erfiðleik­um. Í þriðja lagi, vegna góðs geng­is út­flutn­ings­grein­anna hef­ur gjald­miðill­inn okk­ar staðist ágjöf­ina sem felst í óviss­unni. Í fjórða lagi er Ísland stór­fram­leiðandi á þeim vör­um sem vönt­un er á; ann­ars veg­ar mat­væl­um og hins veg­ar orku. Sök­um þessa er verðbólg­an minni en ella væri. Að lok­um, þá hef­ur hag­stjórn­in verið sveigj­an­leg und­an­farið og verið í aðstöðu til að nýta rík­is­fjár­mál­in til að styðja við hag­kerfið á far­sótt­ar­tím­um en draga nú úr þátt­töku þess í út­gjöld­um og fjár­fest­ing­um til að halda aft­ur af verðbólg­unni.

Efna­hags­stjórn­inni næstu miss­eri má líkja við stýra skipi í öldu­róti. Þrátt fyr­ir að skyggnið geti verið slæmt, þá skip­ir mestu máli í hag­stjórn­inni að huga vel að grunn­innviðum og gera það sem þarf. Rík­is­stjórn­in hef­ur sýnt það í verki í gegn­um þann ólgu­sjó sem far­sótt­in var að hún gat far­sæl­lega siglt á milli skers og báru. Næstu aðgerðir í efna­hags­stjórn­inni munu all­ar miða að því að ná utan um verðbólgu­vænt­ing­ar og ef all­ir ákveða að taka þátt í þeirri veg­ferð, þá mun okk­ur farn­ast vel.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 2. júlí 2022.

Categories
Greinar

Eining um stjórn Landspítala

Deila grein

28/06/2022

Eining um stjórn Landspítala

Við stöndum frammi fyrir því að á næstu 20 árum mun Íslendingum yfir 65 ára aldri fjölga um 40 þúsund. Það er ekki valkostur að gera alltaf meira af því sama. Margt sem gekk í fortíð gengur ekki endilega upp í nútíð. Tækni- og vísindaframfarir ásamt vinnuumhverfi sem einkennist af samvinnu og liðsheild eru lykillinn að því að tryggja að þjóðarsjúkrahúsið geti sinnt hlutverki sínu. Landspítalinn verður að aðlagast í samræmi við breyttar þarfir þjóðarinnar. Það var því ánægjulegt að Alþingi samþykkti frumvarp til laga um skipan stjórnar Landspítala.

Rekstur heilbrigðisstofnanna er ekki hefðbundinn fyrirtækjarekstur. Til marks um það hefur nú í lögum verið tryggð aðkoma fagráðs og starfsfólks að stjórninni. Einnig hefur 7 manna notendaráð verið skilgreint til að tryggja rödd notenda þjónustunnar og er það nýmæli og framfaraskref. Gagnvart sjúklingum og starfsfólki Landspítalans mun skipan stjórnar styrkja stefnumótun, rekstur og ákvarðanatöku innan spítalans sem skilar sér í bættu starfsumhverfi, þjónustu og getu kerfisins til að takast á við framtíðaráskoranir.

Sjaldan er einföld lausn á flóknum málum

Meginmarkmið lagasetningarinnar er að styrkja stöðu og hlutverk spítalans í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Landspítalinn er lang stærsti vinnustaður Íslands. Það eru skilgreind um 240 mismunandi störf innan veggja hans, starfsmenn eru um 6000 og heildarvelta hans er um 97 milljarðar á ári. Það er áþekk fjárhæð og mörg stærri félög í Kauphöll Íslands velta. Helstu spítalar Norðurlandanna eru reknir eftir rekstararmódeli þar sem stjórn veitir forstjóra og stjórnendum stuðning og rýni í ákvarðanatöku sinni í samræmi við vilja ráðherra. Slíkt fyrirkomulag tryggir ábyrga og vel ígrundaða ákvarðanatöku. Ekki aðeins út frá rekstri heldur út frá heildarhagsmunum sjúklinga, starfsmanna og þjóðarinnar allrar.

Það er mikilvægt við uppbyggingu íslensks heilbrigðiskerfis að horft sé til erlendra fyrirmynda til þess að læra og tileinka okkur það sem best er gert hjá nágrannaþjóðum okkar. Að stýra heilbrigðisstofnun er flókið og sá sem stendur í stafni hverju sinni þarf að hafa stuðning. Stuðningur þarf að berast úr fleiri en einni átt og því þarf stjórn sem hefur víðtæka reynslu og þekkingu.

Allt að vinna en engu að tapa

Aðlögunarhæfni og þrautseigja heilbrigðiskerfisins hefur margsannað sig og nú síðast í Covid-19 faraldrinum. Stundum þarf að stíga eitt skref aftur á bak til að taka tvö skref áfram. Við höfum sjaldan verið í betri stöðu til að læra af fortíðinni og taka áræðin skref fram á við. Skref sem byggja á traustum og framsýnum rekstri sjúkrahúsa til að undirbúa íslensku þjóðina til framtíðar.

Það hafa allir skilning á því að heilsa þjóðarinnar verður vart metin til fjár. Heilbrigðiskerfið er sameign Íslendinga sem endurspeglaðist í því að í atkvæðagreiðslu þingsins var enginn mótfallinn frumvarpinu. Það er því gleðilegt að jafn breið samstaða hafi náðst um þetta framfararmál til að treysta frekar rekstrargrundvöll Landspítala. Rekstur sem þarf stöðugt að endurmeta til að færa þjóðinni bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. júní 2022.

Categories
Greinar

Hugum vel að samkeppnismálum

Deila grein

27/06/2022

Hugum vel að samkeppnismálum

Á und­an­förn­um ára­tug hef­ur náðst góður ár­ang­ur í stjórn efna­hags­mála á Íslandi. Á þeim tíma hef­ur skuld­astaða rík­is­sjóðs batnað mikið, af­gang­ur af ut­an­rík­is­viðskipt­um og kaup­mátt­ur launa hef­ur auk­ist veru­lega og verðbólgu­töl­ur hald­ist lág­ar í sögu­legu sam­hengi. Ýmsar áskor­an­ir hafa þó skotið upp koll­in­um und­an­far­in tvö ár. Heims­far­ald­ur­inn setti hið venju­bundna líf jarðarbúa á ís með ýms­um rösk­un­um á aðfanga­keðjum og til­heyr­andi áhrif­um á alþjóðaviðskipti. Þá hef­ur óverj­an­leg inn­rás Rússa í Úkraínu mik­il áhrif á verðlagsþróun í heim­in­um öll­um, meðal ann­ars á orku- og fæðukostnað.

Áhrifa þessa er farið að gæta í efna­hags­mál­um víða um ver­öld og hafa verðbólgu­töl­ur hækkað tölu­vert á skömm­um tíma. Áhrif­in af slíkri þróun koma við hvert ein­asta heim­ili í land­inu, sér í lagi tekju­lágt fólk. Gripu stjórn­völd meðal ann­ars til mót­vægisaðgerða með þetta í huga, með sér­tæk­um aðgerðum eins og hækk­un bóta al­manna­trygg­inga, sér­stök­um barna­bóta­auka til þeirra sem eiga rétt á tekju­tengd­um barna­bót­um og hækk­un hús­næðis­bóta. Auk­in­held­ur hafa rík­is­stjórn og Seðlabanki lagst sam­eig­in­lega á ár­arn­ar til þess að tak­ast á við hækk­andi verðbólgu. Kynnti rík­is­stjórn­in í því sam­hengi 27 millj­arða aðhaldsaðgerðir í rekstri hins op­in­bera til að draga úr þenslu og verðbólguþrýst­ingi.

Það er skoðun mín að það sé sam­eig­in­legt verk­efni okk­ar sem sam­fé­lags, að halda aft­ur af verðlags­hækk­un­um eins og kost­ur er. Þar skipta sam­keppn­is­mál miklu. Virk sam­keppni er einn af horn­stein­um efna­hags­legr­ar vel­gengni. Sam­keppnis­eft­ir­litið hef­ur meðal ann­ars hafið upp­lýs­inga­öfl­un um þróun verðlags á helstu mörkuðum, til að meta hvort verðlags­hækk­an­ir kunni að stafa af ónægu sam­keppn­is­legu aðhaldi eða óeðli­leg­um hvöt­um. Mun eft­ir­litið leggja sér­staka áherslu á dag­vörumarkað, eldsneyt­is­markað og bygg­ing­ar­vörumarkað. Það ger­ir Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu auðveld­ara um vik að greina óhag­stæð ytri áhrif á verðþróun og greina hvort verðhækk­an­ir kunni að stafa af mögu­leg­um sam­keppn­is­bresti á viðkom­andi mörkuðum. Í vik­unni samþykkti rík­i­s­tjórn­in einnig til­lögu mína um skip­un vinnu­hóps til að greina gjald­töku og arðsemi bank­anna. Við vit­um að stór hluti af út­gjöld­um heim­il­anna renn­ur til bank­anna, í formi af­borg­ana af hús­næðis-, bíla- og neyslu­lán­um auk vaxta og þjón­ustu­gjalda. Sam­setn­ing þess­ara gjalda er oft flók­in, sem ger­ir sam­an­b­urð erfiðan fyr­ir al­menna neyt­end­ur. Því tel ég brýnt að hlut­ur þess­ara þátta verði skoðaður ofan í kjöl­inn, með vís­an til sam­keppn­isþátta og hags­muna neyt­enda. Mark­miðið er að kanna hvort ís­lensk heim­ili greiði meira fyr­ir al­menna viðskipta­bankaþjón­ustu en heim­ili á hinum Norður­lönd­un­um.

Þrátt fyr­ir stór­ar áskor­an­ir á heimsvísu skipta aðgerðir okk­ar inn­an­lands miklu máli. Ég hvet okk­ur öll til þess að vera á tán­um, því sam­eig­in­lega náum við meiri ár­angri í verk­efn­um líðandi stund­ar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 24. júní 2022.

Categories
Greinar

Óhagnaðardrifin leigufélög veita sterka viðspyrnu

Deila grein

23/06/2022

Óhagnaðardrifin leigufélög veita sterka viðspyrnu

Aukið var við framboð leiguíbúða í vikunni þegar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun úthlutaði fyrri úthlutun stofnframlaga fyrir árið 2022. Þetta er mikilvæg innspýting í framboð á leigumarkaði en á þessu ári hafa 550 hagkvæmar leiguíbúðir verið teknar í notkun, það er 40% af öllum nýjum íbúðum sem komið hafa á markað á árinu. Landsbyggðin er stór þátttakandi í uppbyggingu á leiguhúsnæði sem styrkt eru með stofnframlögum.

Mikil eftirspurn hefur verið eftir stofnframlögum en á síðasta ári náðist þó ekki að úthluta öllu því fjármagni sem heimildir voru fyrir í fjárlögum. Var skortur á byggingarhæfum lóðum einna helst skýringin. Stofnframlög skapa hvata til að auka framboð af leiguhúsnæði og er framlag ríkis og sveitarfélaga til kaupa eða byggingar á íbúðum til leigu fyrir einstaklinga sem eru undir tekju- og eignamörkum. Það er sérlega ánægjulegt að sjá að yfir 30 sveitarfélög víða um land sameinast um þessa mikilvægu lausn með því að setja á stofn sameiginlegt óhagnaðardrifið leigufélag og veita þar með sterka viðspyrnu gegn hækkunum á leigumarkaði.

Það er ríkisstjórninni mikið hagsmunamál að stuðla að bættri stöðu fólks. Í gegnum stofnframlög hafa nú þegar verið byggðar 1.550 íbúðir og er annað eins í byggingu. Í fyrri úthlutun ársins 2022 hefur HMS úthlutað 2,6 milljörðum til uppbyggingar á 328 íbúðum en því til viðbótar bætist við framlag frá sveitarfélögum.

Leiguíbúðirnar dreifast víða um land og hefur hlutfall íbúða á landsbyggðinni aldrei verið hærra eða 46%. Af þeim 328 íbúðum sem úthlutun ársins nær til stendur til að byggja 279 nýjar íbúðir en kaupa 49 nýjar og eldri íbúðir. Íbúðirnar verða allar að standast kröfur um hagkvæmni, en með því eru stjórnvöld að skapa hvata fyrir aukið framboð slíkra íbúða. Sameiginleg sýn ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu íbúða til samræmis við þörf til næstu ára mun skipta sköpum að ná og halda jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðarráðherra

Categories
Greinar

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Deila grein

21/06/2022

Á­fram­haldandi stuðningur við ný­sköpun

Hlutverk stjórnvalda er að finna leiðir til að byggja traustan grunn fyrir nýsköpun hér á landi. Stuðningur við nýsköpun hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú og ljóst er að hugvit og nýsköpun eru að verða að styrkri stoð í hagkerfi Íslands. Í dag starfa um 12.000 manns í þessum iðnaði eða um 6% vinnandi fólks í landinu. Hugverka- og nýsköpunariðnaðurinn er vaxandi útflutningsstoð sem treystir á fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Treystir á traust og fyrirsjáanlegt umhverfi. Þetta vita stjórnvöld á Íslandi sem hafa sett sér metnaðarfull markmið sem endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar með það að markmiði að fjölga störfum og gera hugviti hærra undir höfði innan íslensks efnahagslífs.

Framlenging bráðabirgðaákvæða

Þær ívilnanir sem settar voru með bráðabirgðaákvæðum til þess að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldur kórónuveru hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki hér á landi. Ívilnanirnar hafa stuðlað að frekari uppbyggingu öflugrar nýsköpunar í atvinnu og efnahagslífi þjóðarinnar. Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði til, í samræmi við tillögur umsagnaraðila, breytingar á frumvarpinu eins og það lá fyrir að frádráttarhlutfall myndi haldist óbreytt frá því bráðabirgðaákvæði sem hefur verið í gildi en að hámarkskostnaður verði sá sami og lagður var til í frumvarpinu, eða 1.000 milljónir króna í stað 1.100 milljónir króna. Frádráttarhlutfall nýsköpunarfyrirtækja verður því áfram 35 hundraðshlutar frá álögðum tekjuskatti þeirra árin 2021 og 2022 vegna útlagðs kostnaðar á rannsóknar- og þróunarverkefnum. Markmið skattfrádráttar vegna rannsókna- og þróunarverkefna er að efla rannsóknir og þróunarstarf og bæta samkeppnisskilyrði nýsköpunarfyrirtækja. Þær ívilnanir sem felast í bráðabirgðaákvæðum laganna hafa skipt sköpum fyrir nýsköpunarfyrirtæki í þeirri efnahagslegu óvissu sem fylgt hefur heimsfaraldri kórónuveirunnar. Breytingarnar eru því til þess fallnar að koma til móts við:

a) annars vegar við þau sjónarmið sem höfð voru uppi fyrir nefndinni í umræðum um frumvarpið.

b) hins vegar við þá auknu kröfu um ábyrga stjórn ríkisfjármála í ljósi óvissu um efnahagsþætti, svo sem verðbólgu og vaxtahækkanir.

Fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur

Meiri hlutinn telur mikilvægt að samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja sé áfram tryggð eftir því sem dregur úr efnahagslegum áhrifum faraldursins hér á landi og á heimsvísu, en jafnframt að samhliða þessum ívilnunum sé mikilvægt að það fari fram heildarúttekt á árangri þessa verkefnis. Aðeins þannig er hægt að fá nauðsynlegar upplýsingar þannig hægt sé að stýra enn frekar með hvaða hætti fjármunir ríkisins nýtist til þess að efla þróun og rannsóknir á Íslandi. Fyrirsjáanleiki skipti miklu máli þegar komi að fjárfestingum í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og að breytingar á hlutfalli styrkja, þó ekki séu nema að litlu leyti, geti skipt sköpum þegar kemur að því að laða erlenda sem innlenda aðila að fjárfestingu í íslensku hugviti. OECD vinnur nú að greiningu á stöðu nýsköpunariðnaðarins hér á landi og í framhaldi hennar er nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu um greinina og starfsumhverfi hennar til framtíðar. Við fögnum þessum áfanga og áframhaldandi stuðningi við nýsköpun á Íslandi. Grundvöllur efnahagslegrar velgengni ásamt lausnum við áskorunum framtíðarinnar má finna í nýsköpun, rannsóknum og þróun.

Ágúst Bjarni Garðarsson þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi og situr í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. júní 2022.

Categories
Greinar

Samvinna er hugmyndafræði

Deila grein

20/06/2022

Samvinna er hugmyndafræði

Á þess­um hátíðar­degi fögn­um við því að 78 ár eru liðin frá ákvörðun Alþing­is um að stofna lýðveldið Ísland. Hver þjóðhátíðardag­ur mark­ar tíma­mót í sögu lands­ins og veit­ir okk­ur tæki­færi til þess að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Saga ís­lenska lýðveld­is­ins er saga fram­fara. All­ar göt­ur frá stofn­un þess hafa lífs­kjör auk­ist veru­lega og þjóðar­tekj­ur á hvern íbúa eru með þeim mestu í ver­öld­inni. Staða Íslands er sterk í sögu- og alþjóðlegu sam­hengi, þegar flest­ir vel­sæld­ar­mæli­kv­arðar eru kannaðir. Slík­ur ár­ang­ur er ekki sjálf­gef­inn, held­ur ligg­ur þrot­laus vinna kyn­slóðanna sem byggt hef­ur landið hon­um að baki.

Mann­gildi ofar auðgildi

Frjáls­ar kosn­ing­ar eru horn­steinn lýðræðis­sam­fé­lags. Virk lýðræðisþátt­taka er eitt af því sem hef­ur ein­kennt ís­lenskt sam­fé­lag. Marg­ir stíga sín fyrstu skref í fé­lags­störf­um með þátt­töku í starfi stjórn­mála­hreyf­inga með það að leiðarljósi að hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið sitt. Í meira en heila öld hef­ur Fram­sókn fylgt þjóðinni og verið far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að taka þátt í stjórn­mála­starfi. Sýn Fram­sókn­ar grund­vall­ast á sam­vinnu­hug­sjón­inni; að fólk geti náð meiri ár­angri með því að vinna sam­an og aukið styrk sinn. Sam­vinna bygg­ist ekki aðeins á trausti milli aðila held­ur einnig á góðum og mál­efna­leg­um umræðum sem leiðar til far­sælla niðurstaða.

Við trú­um því að jöfn tæki­færi séu eina leiðin til tryggja sann­girni í sam­fé­lag­inu. Brýnt er að dreifa valdi, án til­lits til auðs, stétt­ar, kyns eða annarra breyta. Mann­gildi ofar auðgildi. All­ar rann­sókn­ir sýna að öfl­ugt mennta­kerfi tryggi mest­an jöfnuð og það vilj­um við tryggja.

Ræt­ur sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar og frelsið

Fyrstu regn­hlíf­ar sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar, sam­vinnu­fé­lög­in, litu dags­ins ljós á Bretlandi. Það var hóp­ur vefara árið 1844 í bæn­um Rochdale á Norður-Englandi sem kom á lagg­irn­ar fyrsta sam­vinnu­fé­lag­inu. Vefar­arn­ir stóðu frammi fyr­ir lé­leg­um starfsaðstæðum, bág­um kjör­um og háu hrá­efn­is­verði. Í stað þess að starfa hver í sínu horni form­gerðu þeir sam­vinnu sína með sam­vinnu­fé­lagi, sam­nýttu fram­leiðsluþætti og juku þannig slag­kraft sinn til þess til þess að stunda viðskipti. Þeir opnuðu versl­un, eða kaup­fé­lag, og deildu hlut­deild í vel­gengni versl­un­ar­inn­ar með viðskipta­vin­um sín­um sem meðlim­ir í fé­lag­inu. Viðskipta­vin­irn­ir öðluðust jafn­an at­kvæðarétt í fé­lag­inu og áttu þannig sam­eig­in­legra hags­muna að gæta. Sam­vinnu­fé­lög urðu að sam­hjálp til sjálfs­bjarg­ar og höfðu al­mannaþjón­ustu að leiðarljósi með áherslu á nærum­hverfið. Fyrstu kaup­fé­lög­in voru hluti af þjóðfrels­is­bar­áttu okk­ar Íslend­inga. Bænd­ur í Þing­eyj­ar­sýslu voru vel lesn­ir í evr­ópsk­um frels­is­fræðum og árið 1882 stofnuðu þeir fyrsta kaup­fé­lagið til að ráða sjálf­ir versl­un og viðskip­um. Þar voru all­ir jafn­ir og sam­einaði þetta ný­inn­flutta form sjálf­stæði, fram­fara­vilja og lýðræði. Í kjöl­farið óx sam­vinnu­hreyf­ing­unni fisk­ur um hrygg hér­lend­is, sam­vinnu­fé­lög­um fjölgaði ört um allt land og urðu þau fyrstu keppi­naut­ar er­lendra kaup­manna hér á landi.

Kröf­ur tíðarand­ans

Þrátt fyr­ir áskor­an­ir og öldu­dali, sem sam­vinnu­hreyf­ing­in hér­lend­is gekk í gegn­um á árum áður, hef­ur þörf­in fyr­ir sterka sam­vinnu­hug­sjón sjald­an verið jafn rík og nú. Fyr­ir­mynd­ar­sam­vinnu­fé­lög eru rek­in hér á landi og sam­vinnu­hreyf­ing­in hef­ur haldið áfram að dafna er­lend­is, til að mynda í Evr­ópu og vest­an­hafs. Þannig eru Banda­rík­in merki­leg­ur jarðveg­ur ný­sköp­un­ar í sam­vinnu­starfi. Jafn­vel fyr­ir­tæki í tækni­grein­um, hug­búnaði og fjöl­miðlun sækja fyr­ir­mynd­ir í kaup­fé­lög og gera þannig sam­vinnu og lýðræði að horn­stein­um. Ung­ar og upp­lýst­ar kyn­slóðir okk­ar tíma sækja inn­blást­ur í sam­vinnu­formið og álíta það spenn­andi val­kost til að tak­ast á við áskor­an­ir sam­tímas. Klasa­starf­semi og sam­vinnu­hús af ýmsu tagi eru dæmi um það. Krafa tím­ans er enn meira sjálf­stæði, sterk­ari rétt­ur al­menn­ings og sam­fé­lags, fram­far­ir á öll­um sviðum með lýðræði og jafn­rétti að leiðarljósi – rétt eins og í Þing­eyj­ar­sýslu forðum daga.

Fjöl­breytt­ir far­veg­ir til ár­ang­urs

Með of­an­greint í huga mun viðskiptaráðherra meðal ann­ars hrinda af stað end­ur­skoðun á lög­um um sam­vinnu­fé­lög á kjör­tíma­bil­inu til að auðvelda fólki við að vinna að sam­eig­in­leg­um hug­ar­efn­um sín­um. Sam­vinnu­fé­lags­formið get­ur verið hent­ug­ur far­veg­ur fyr­ir fólk til þess að tak­ast á við áskor­an­ir og bæta sam­fé­lagið. Heim­ur­inn stend­ur frammi fyr­ir fjöl­mörg­um úr­lausn­ar­efn­um sem ekki verða leidd til lykta nema með sam­vinnu, hvort sem um er að ræða í um­hverf­is­mál­um, mennta­mál­um, alþjóðaviðskipt­um eða öðru. Stjórn­völd eiga að tryggja eld­hug­um og hug­sjóna­fólki fjöl­breytta far­vegi til þess að tak­ast sam­eig­in­lega á við slík út­lausn­ar­efni.

Sam­fé­lag er sam­vinnu­verk­efni

Tæp­um 106 árum frá því að Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn var stofnaður, höld­um við enn tryggð við þá sam­vinnu­hug­sjón sem flokk­ur­inn spratt upp úr. Það er ekki sjálfsagt fyr­ir stjórn­mála­afl að ná svo háum aldri. Fram­sókn er fjölda­hreyf­ing og 13.000 fé­lag­ar í flokkn­um, hring­inn í kring­um landið, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna sam­vinnu­hug­sjón­inni braut­ar­gengi og stuðla að upp­byggi­leg­um stjórn­mál­um út frá miðjunni. Sem miðju­flokk­ur legg­ur Fram­sókn áherslu á praktísk­ar og öfga­laus­ar lausn­ir sem eru til þess falln­ar að bæta líf fólks ásamt því að geta unnið með ólík­um stjórn­mála­flokk­um til þess að bæta sam­fé­lagið ásamt því að sýna sterka for­ystu í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi. Það hef­ur flokk­ur­inn margoft gert með góðum ár­angri; að brúa bilið milli ólíkra sjón­ar­miða við aðra flokka til þess að ná ár­angri fyr­ir land og þjóð. Við í Fram­sókn segj­um gjarn­an að sam­fé­lag sé sam­vinnu­verk­efni og í því er fólg­inn mik­ill sann­leik­ur.

Vilji fólks­ins

Stjórn­mála­flokk­ur þarf á hverj­um tíma að geta rýnt sjálf­an sig með gagn­rýn­um hætti, aðlag­ast nýj­um áskor­un­um sam­tím­ans, hlustað á grasrót sína og virt vilja fé­lags­manna. Það sama á við um þjóðfé­lag sem vill ná langt. Sú staðreynd að við get­um fjöl­mennt á sam­kom­ur víða um land til þess að fagna þess­um merka áfanga, sem full­veldið er í sögu þjóðar­inn­ar, er ekki sjálf­gefið. Sú elja og þraut­seigja sem forfeður okk­ar sýndu í sjálf­stæðis­bar­áttu þjóðar­inn­ar lagði grunn­inn að þeim stað sem við erum á í dag. Lýðveldið Ísland á sér bjarta framtíð og Fram­sókn mun halda áfram að vinna í þágu sam­fé­lags­ins með hug­mynda­fræði sam­vinn­unn­ar að leiðarljósi. Þau tæki­færi sem eru fyr­ir hendi til þess að sækja fram fyr­ir sam­fé­lagið eru fjöl­mörg. Það er okk­ar sam­eig­in­lega verk­efni sem þjóðar að grípa þau og tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð meðal þjóða heims og fagni full­veldi sínu um ókomna tíð. Í þess­um efn­um geym­ir saga sam­vinnu­starfs á Íslandi og víðar um ver­öld­ina dýr­mæta lær­dóma – fjár­sjóð á veg­ferð okk­ar til framtíðar. Við ósk­um lands­mönn­um öll­um gleðilegr­ar þjóðhátíðar.

Sig­urður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra og rit­ari Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 17. júní 2022.

Categories
Greinar

Níu ára stöðnun rofin

Deila grein

20/06/2022

Níu ára stöðnun rofin

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. Við viljum að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftlagsvánni og ætlum okkur að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins. Við höfum jafnframt sett okkur markmið um að Íslands nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Þetta eru góð markmið en umhverfisvernd felst ekki síður í því að vernda loftslagið og það gerist ekki nema með orkuskiptum. Orkuskipti eru ríkur þáttur í framlagi Íslands til að ná árangri í baráttunni við loftlagsvánna. En svo þeim markmiðum sé náð verðum við að tryggja aðgang að grænni orku með sjálfbærri þróun að leiðarljósi.

Hvaðan kemur orka framtíðarinnar?

Það liggur fyrir að auka þarf framboð á innlendri, endurnýjanlegri orku svo hægt sé að leysa af hólmi aðflutta orkugjafa líkt og olíu. En mikilvægt er að sátt ríki um þær virkjanir sem þarf til þess að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins samhliða því að horft sé til betri orkunýtingar, þá þarf að koma í veg fyrir tap á orku úr orkukerfinu ásamt því að bæta nýtingu á þeim virkjunum sem fyrir eru. Vernd og friðun á tilteknum landsvæðum er nauðsynleg, en gæta þarf varúðar þegar ákveðið er að friðlýsa stór svæði til framtíðar. Enn er ósvarað um hvaðan orka framtíðarinnar eigi að koma og það er komandi kynslóða að taka ákvarðanir um það. Þó að með rammaáætlun nú séu ekki teknar ákvarðanir að setja tiltekin svæði í vernd þýðir það þó ekki að þau eigi að fara í nýtingu heldur skiljum við þær ákvarðanir eftir fyrir þingmenn framtíðarinnar. Orkusjálfstæði þjóða verður sífellt mikilvægara í kvikum heimi og nauðsynlegt að þjóðir geti brugðist hratt við breyttum forsendum.

Varfærin skref stigin með rammaáætlun

Rammaáætlunin er mikilvægt stjórntæki sem varðar vernd svæða og orkunýtingu og sem vert er að halda í og styrkja enn frekar. Hún nær yfir helstu orkulindir landsins og í meðferð hennar á að taka tillit til ólíkra hagsmuna á breiðum grundvelli. Því miður hefur það tafið framfarir hversu lengi rammaáætlun hefur staðið föst í þinginu því það er nauðsynlegt að fá hreyfingu á málin svo við getum staðið við skuldbindingar okkar. Það er mikilvægt að við nýtum landið okkar af varfærni því við viljum að komandi kynslóðir fái áfram að njóta náttúru landsins. Okkar dýrmætasti arfur til komandi kynslóða er hrein og tær náttúra, en svo við getum skilað af okkur arfinum með þeim hætti þurfum við að skipuleggja hvernig við göngum um náttúru landsins með skýrri framtíðarsýn. Rammaáætlun er ætlað að tryggja að nýting landsvæða byggist á langtímasjónarmiðum og víðtæku samráði um verndargildi náttúru og menningar, hagkvæmni og arðsemi. Lýðræðislegu ferli rammaáætlunar er nú lokið og langþráðu markmiði hefur verið náð.

Biðflokkur er ekki nýting

Í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans hefur kostum í biðflokki verið fjölgað. Betra fer á því að virkjunarkostir séu flokkaðir í biðflokk heldur en verndar eða nýtingarflokk á meðan frekari gagna er aflað. Mikilvægt er að samfélagsleg áhrif og óvissa um raunveruleg áhrif framkvæmda á náttúru og lífríki liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um hvort svæði eigi að fara í verndar eða nýtingaflokk. Ég vil árétta að þó svæði séu flutt í biðflokk þýðir ekki að þau séu sjálfkrafa komin í nýtingarflokk eða verndarflokk heldur er verið að endurmeta og endurskoða þessa kosti. Svæði geta aftur verið færð í fyrri flokka en það er langt síðan að fyrri verkefnastjórn gerði tillögu um þessi svæði og eðlilegt að þau séu endurskoðuð.

Þá hafa einnig kostir sem ekki áttu heima í biðflokki verið teknir út. Athugasemdir komu fram að fjölmarga virkjunarkosti væri að finna í biðflokki áætlunarinnar sem enginn virkjunaraðili hafi óskað eftir mati á. Um er að ræða 28 virkjunarkosti, ýmist til nýtingar vatnsafls eða jarðhita. Ástæða þess að viðkomandi virkjunarkostir eru flokkaðir í biðflokk er fyrst og fremst sú að ekki eru til nægjanleg gögn um viðkomandi virkjunarkost og því ekki nægilegar forsendur til að hægt sé að leggja til flokkun í verndarflokk eða nýtingarflokk. Á meðan virkjunarkosturinn flokkast í biðflokk eru takmörk lögð á aðra landnýtingu á svæðinu.

Þannig eru dæmi um að ekki sé hægt að friðlýsa virkjunarkosti í verndarflokki gegn orkuvinnslu þar sem virkjunarkostur innan sama svæðis er í biðflokki. Því mætti segja að viðkomandi virkjunarkostur sé að vissu leyti fastur í biðflokki þar sem enginn virkjunaraðili er að vinna í þróun hans og þar á meðal öflun nauðsynlegra gagna til að hægt sé að leggja til endanlega flokkun í vernd eða nýtingu.

Framtíðin býr í vindinum

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru. Fjölbreytni í orkuöflun stuðlar að bættu orkuöryggi og sveigjanleika orkukerfisins. Þó að Ísland búi enn yfir óbeisluðu vatnsafli

og jarðvarma, er skynsamlegt að auka fjölbreytni í orkugjöfum með hagnýtingu vindorku og annarra nýrra endurnýjanlegra orkukosta fyrir raforkuvinnslu. Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu.

Vindorkukostinum í Búrfellslundi var í meðförum þingsins færður úr biðflokki í nýtingarflokk. Meiri hlutinn nefndarinnar taldi að Búrfellslundur geti verið mikilvægur hluti þess að tryggja betur nýtingu þeirra vatnsaflsvirkjana sem fyrir eru á svæðinu auk þess sem það rennir styrkari stoðum undir orkuöryggi. Öll sú orka sem býr í vindinum getur verið lykilþáttur þegar kemur að því að tappa af þeim þrýstingi sem skapast hefur á kerfið síðustu ár vegna tafa í afgreiðslu á rammanum. Framtíðin býr svo sannarlega í vindinum.

Við þurfum að horfa til framtíðar

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildar orkunotkun og við Íslendingar gerum og af því getum við verið stolt. Langan tíma tekur að virkja nýja orkukosti, langtímaáætlanir þurfa að gera ráð fyrir orkukostum til að mæta framtíðarþörfum og auka þannig fyrirsjáanleika og stöðugleika. Því skiptir gríðarlegu máli að sú stöðnun sem ríkt hefur síðustu níu ár hafi verið rofin aðeins þannig er hægt að halda áfram nauðsynlegri vinnu. Möguleikar til þess að ná loftlagsmarkmiðum og orkuskiptum lifir nú áfram.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. júní 2022.

Categories
Greinar

Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi

Deila grein

15/06/2022

Ný straumhvörf í kvikmyndagerð á Íslandi

Straum­hvörf urðu í um­hverfi kvik­mynda­gerðar árið 1999 þegar lög um end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar á Íslandi voru samþykkt. Með þeim var rekstr­ar­um­hverfi kvik­mynda­geir­ans eflt með 12% end­ur­greiðslu­hlut­falli á fram­leiðslu­kostnaði hér­lend­is. Síðan þá hef­ur alþjóðleg sam­keppni á þessu sviði auk­ist til muna og fleiri ríki hafa fetað í fót­spor Íslands þegar kem­ur að því að auka sam­keppn­is­hæfni kvik­mynda­geir­ans með það að mark­miði að laða að er­lend verk­efni og efla inn­lenda fram­leiðslu. Það er í takt við þá áherslu stjórn­valda víða í heim­in­um að efla skap­andi grein­ar og hug­vits­drif­in hag­kerfi sem skara fram úr.

Það er skýr sýn rík­is­stjórn­ar­inn­ar að Ísland eigi að vera í far­ar­broddi í því að efla skap­andi grein­ar og hug­verka­drif­inn iðnað. Með það í huga er ánægju­legt að segja frá að frum­varp um hækk­un end­ur­greiðslu­hlut­falls úr 25% í 35% í kvik­mynda­gerð er nú á loka­metr­um þings­ins. Mark­mið þess er að styðja enn frek­ar við grein­ina með hærri end­ur­greiðslum til að stuðla að því að fleiri stór verk­efni verði unn­in al­farið á Íslandi. Verk­efn­in þurfa að upp­fylla þrjú ný skil­yrði til að eiga kost á 35% end­ur­greiðslu. Í fyrsta lagi verða þau að vera að lág­marki 350 m.kr að stærð, starfs­dag­ar hér á landi þurfa að vera að lág­marki 30 og fjöldi starfs­manna sem vinna beint að verk­efn­inu þarf að vera að lág­marki 50.

Mark­mið laga­setn­ing­ar­inn­ar frá 1999 hef­ur gengið eft­ir en um­svif kvik­mynda­gerðar hafa auk­ist all­ar göt­ur síðan. Kvik­mynda­gerð hef­ur verið áber­andi í ís­lensku menn­ing­ar- og at­vinnu­lífi og hef­ur velta grein­ar­inn­ar þre­fald­ast und­an­far­inn ára­tug og nem­ur nú um 30 millj­örðum króna á árs­grund­velli en vel á fjórða þúsund starfa við kvik­mynda­gerð. Sí­fellt fleira ungt fólk starfar við skap­andi grein­ar eins og kvik­mynda­gerðina enda er starfs­um­hverfið fjöl­breytt og spenn­andi og ýmis tæki­færi til starfsþró­un­ar hér inn­an­lands sem og er­lend­is. Þá er einnig óþarft að telja upp öll þau stór­verk sem tek­in hafa verið upp að hluta hér á landi með til­heyr­andi já­kvæðum áhrif­um á ferðaþjón­ust­una og ímynd lands­ins. Þannig kom til dæm­is fram í könn­un Ferðamála­stofu frá sept­em­ber 2020 að 39% þeirra sem svöruðu sögðu að ís­lenskt lands­lag í hreyfi­mynda­efni, þ.e. kvik­mynd­um, sjón­varpsþátt­um og tón­list­ar­mynd­bönd­um, hefði m.a. haft áhrif á val á áfangastað.

Hærra end­ur­greiðslu­hlut­fall hér á landi mun því valda nýj­um straum­hvörf­um í kvik­mynda­gerð hér á landi og auka verðmæta­sköp­un þjóðarbús­ins. Með kvik­mynda­stefnu fyr­ir Ísland til árs­ins 2030 hafa stjórn­völd markað skýra sýn til að ná ár­angri í þess­um efn­um – enda hef­ur Ísland mannauðinn, nátt­úr­una og innviðina til þess að vera framúrsk­ar­andi kvik­mynda­land sem við get­um verið stolt af. Ég er þakk­lát fyr­ir þann þver­póli­tíska stuðning sem er að teikn­ast upp við málið á Alþingi Íslend­inga og er ég sann­færð um að málið muni hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið okk­ar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 15. júní 2022

Categories
Greinar

Gerum bæinn okkar að snyrtilegasta bæ landsins með sameiginlegu átaki

Deila grein

13/06/2022

Gerum bæinn okkar að snyrtilegasta bæ landsins með sameiginlegu átaki

Þau sem hafa starfað með mér í pólitík vita að umgengnismál í umhverfi okkar brenna á mér. Þess vegna fagna ég því að í málefnasamningi meirihlutans sé komið inn á þetta þó ég hefði viljað sjá kveðið fastar að orði. Það þarf að kortleggja hvar ábyrgðin liggur og hvaða verkferlum við getum beitt. Gámar með útrunnin stöðuleyfi, númeralausir bílar út um allan bæ, iðnaðar- og atvinnulóðir fullar af drasli og dóti sem ætti frekar heima innandyra eða í förgun heyra vonandi bráðlega sögunni til. Atvinnustarfsemi og íbúðabyggð verða að geta farið saman ef við ætlum að halda áfram að byggja hér upp sterkt atvinnusvæði.

Ég settist í umhverfis- og mannvirkjaráð fyrir áramót og talaði þar fyrir því að farið væri í úttekt á þessum málum. Þegar ráðið tók fyrir fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra þann 11. febrúar síðastliðinn var bókað: ,,Óskar ráðið eftir því að upplýsinga sé aflað um heimildir og ábyrgðarskiptingu milli umhverfis- og mannvirkjasviðs, þjónustu- og skipulagssviðs og heilbrigðiseftirlitsins”. Enn hefur ekkert sést af þeirri vinnu en nauðsynlegt er að kortleggja hvar ábyrgðin liggur nákvæmlega.

Umræðan í bænum verður sífellt háværari

Við í Framsókn heimsóttum fjölda fyrirtækja í vor og bar þetta málefni oftar en einu sinni á góma. Í einu iðnaðarhverfinu spurði mig eigandi fyrirtækis hvort við ætluðum ekki að gera eitthvað í þessum málum. Bærinn væri að kafna úr rusli og bætti við að um leið og honum yrði gert að taka til á lóð sinni myndi hann hiklaust gera það. Þetta þarf bara að koma við veskið hjá fólki sagði hann.

Það hlýtur að vera hluti af markaðssetningu bæjarins að gera gangskör í þessum málum og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja að hafa snyrtilegt í kringum sig og sjálfsagður hluti af þeirra markaðssetningu. Sem betur fer eru mörg fyrirtæki í bænum sem ganga mjög snyrtilega um og eru öðrum til fyrirmyndar og því skal haldið til haga að Akureyrarbær er alls ekki saklaus hér.

Hvað getum við gert?

Þegar umhverfis- og mannvirkjaráð fékk kynningu á drögum af nýsamþykktri umhverfis- og loftlagsstefnu benti ég á að umgengnisþátturinn fengi alltof lítið vægi og svo aftur á vinnufundi með bæjarstjórn um stefnuna. Lagði ég til að bætt yrði við sjötta kaflanum sem tæki á umgengni en því miður fékk það ekki hljómgrunn. Meginstefið í stefnunni eru loftlags- og úrgangsmál sem er vel en það eina sem ég fann sem kemst næst því sem ég tala um er: ,,Til að bæta nærumhverfi íbúa er mikilvægt að reglulega fari fram hreinsunarátak í bænum” Þetta snýst ekki um reglulegt hreinsunarátak, við þurfum að breyta umgengninni til framtíðar og koma upp verkferlum til þess.

Nú er verið að auglýsa starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og ætla ég alls ekki að kasta rýrð á það starf sem þar er unnið en með nýju fólki koma oft nýjar áherslur. Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra er að finna samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Verkfærið virðist vera til og nú verðum við að sýna þor til að beita þessari samþykkt og leita annarra lausna í bland við hana til að hreinsa bæinn okkar.

Nýsamþykkt umhverfis- og loftlagsstefna: https://fundargatt.akureyri.is/meetingsearch/displaydocument.aspx?itemid=D3cao4JFs0qFOXlkdcBlQQ&meetingid=e73HToNif0uYXtIOyP4e8g1&filename=Umhverfis-og%20loftlagsstefnan%20mai%202022.pdf&cc=Document

Samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra: https://www.hne.is/static/files/HNE/Samningar/samthykkt-um-umgengni-og-thrifnad-utan-huss-a-starfssvaedi-hne-nr.-463-2002.pdf

Sunna Hlín Jóhannesdóttir er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. júní 2022.

Categories
Greinar

Á­fram veginn á Vest­fjörðum

Deila grein

13/06/2022

Á­fram veginn á Vest­fjörðum

Við Vestfirðingar líkt og íbúar annarra landshluta erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir nú enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og útséð með að sú þróun komi til með að breytast næstu áratugi.

Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að bið eftir samgöngubótum en nú er útlit fyrir að þeir sem búa og stafa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. Framkvæmdir síðustu fimm ára eru þakkaverðar en við Vestfirðingar verðum þó ávallt að vera í baráttugírnum ef við viljum komast til jafns við aðra landshluta hvað varðar nútíma samgöngur.

Milljarða framkvæmdir

Tuttugu milljarð króna metnaðarfullar og langþráðar samgönguframkvæmdir á Vestfjörðum eru nú á áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við 5 ára samgönguáætlun 2020-2024. Á þessu fimm ára tímabili verður fjárfest í vegaframkvæmdum fyrir 18,2 milljarða kr., höfnum og sjóvörnum fyrir tæpan 1,5 milljarð kr. og flugvöllum fyrir 212 milljónir kr. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir.

Já tölum um Dynjandisheiðina

Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi yfir Dynjandisheiði eru nú þegar hafnar. Nýlega var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024, frá Norðdalsá og um háheiðina sem skal vera lokið árið 2024. Þá er lokið fyrsta áfanga, þegar unnir voru 12 km kaflar annars vegar við Þverdalsá og hins vegar kafli fyrir Meðalnesið. Þegar þessum hluta er lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á um 25 km kafla.

Frá opnum Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt halda veginum um heiðina opnum yfir verstu veðramánuðina. Þessi uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður og suðursvæðisins allt árið um kring.

Vegabætur í Gufudalssveit

Þá er enn eitt stórverkefnið hafið í Gufudalssveit og það hillir undir að vegur um Teigskóg verði loksins að veruleika. Vinna er hafin við veginn og þar með er séð fyrir endann á áratuga deilu um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun.

Víðar er unnið að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla í þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir þjóðina í heild sinni, hvort sem það er vegna verðmætra þjóðartekna sem verða til á Vestfjörðum, byggðasjónarmiða eða ferðaþjónustu. Allt hjálpar þetta hvort öðru.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. júní 2022