Categories
Greinar Uncategorized

Bréf frá Íslandi

Deila grein

13/06/2022

Bréf frá Íslandi

Um þess­ar mund­ir er þess minnst að 250 ár eru liðin frá merk­um vís­inda­leiðangri sem Eng­lend­ing­ur­inn sir Joseph Banks leiddi til Íslands árið 1772. Með hon­um í för og einna fremst­ur þeirra vís­inda­manna sem þátt tóku í leiðangr­in­um var hinn sænski Daniel Soland­er, nátt­úru­fræðing­ur og fyrr­ver­andi nem­andi Linnæ­us­ar við Upp­sala­há­skóla.

Daniel Soland­er fædd­ist árið 1733 í Norður­botni og það kom brátt í ljós að hann var góðum hæfi­leik­um bú­inn. Soland­er er lýst af sam­tíma­fólki sem vin­sæl­um og heill­andi manni sem klædd­ist iðulega lit­rík­um fatnaði. Að loknu námi í Upp­söl­um leiddi vís­inda­starfið Soland­er til Lund­úna þar sem hann hóf störf við Brit­ish Muse­um sem sér­fræðing­ur í flokk­un­ar­kerfi Linnæ­us­ar. Í kjöl­farið varð hann jafn­framt sam­starfsmaður Josephs Banks, hins fræga enska nátt­úru­fræðings. Áður en af Íslands­för­inni varð tóku þeir Banks meðal ann­ars þátt í mikl­um land­könn­un­ar­leiðangri um Kyrra­hafið með Cook kaf­teini og varð Soland­er þá fyrst­ur Svía til að sigla um­hverf­is hnött­inn.

Sir Lawrence, skipið sem bar leiðang­urs­menn frá Bretlandi, sigldi þann 29. ág­úst inn Hafn­ar­fjörð. Soland­er hélt rak­leiðis til Bessastaða á fund stift­amt­manns og amt­manns og hétu emb­ætt­is­menn­irn­ir full­um stuðningi við leiðang­ur­inn. Sir Lawrence fékk m.a. leyfi til að kasta akk­er­um í Hafnar­f­irði, en til þess þurfti leyfi vegna ein­ok­un­ar­versl­un­ar Dana sem enn var við lýði.

Ferðalöng­un­um var tekið með kost­um og kynj­um hér á landi. Þeir nutu fé­lags­skap­ar frammámanna í sam­fé­lag­inu, stunduðu nátt­úru­rann­sókn­ir, söfnuðu ýms­um rit­heim­ild­um og skrá­settu jafn­framt líf og aðbúnað í land­inu í máli og mynd­um. Einn af hápunkt­um leiðang­urs­ins var ferð um Suður­land þar sem m.a. var gengið á Heklu.

Hinn 9. októ­ber 1772 sigldi Sir Lawrence aft­ur frá Hafnar­f­irði og áleiðis til Bret­lands með gögn um nátt­úru, sam­fé­lag og sögu. Þessi til­tölu­lega stutta heim­sókn til Íslands markaði djúp spor.

Með í leiðangr­in­um til Íslands var Uno von Troil sem síðar varð erki­bisk­up í Upp­söl­um. Hann skrifaði bók um ferð þessa, Bref rör­ande en resa till Is­land eða Bréf frá Íslandi, sem var gef­in út árið 1777. Bók Uno von Troil var næstu ár á eft­ir þýdd á þýsku, ensku, frönsku og hol­lensku. Bók­in seld­ist vel og var prentuð í nokkr­um up­p­lög­um. Lýs­ing hans á Íslandi hafði mik­il áhrif í Evr­ópu 18. ald­ar og vakti áhuga ná­granna okk­ar á landi og þjóð.

Áhrifa leiðang­urs­ins varð ekki síst vart í Svíþjóð, þar sem Bréf frá Íslandi átti þátt í að skapa til­finn­ingu fyr­ir djúp­um tengsl­um þjóðanna, í gegn­um tungu­mál, sögu og menn­ingu. Sam­bland af sögu­legri teng­ingu Íslands og Svíþjóðar, for­vitni og fé­lags­lynd­um eig­in­leik­um Soland­ers og von Troils ásamt ein­stakri þekk­ingu þeirra skipti sköp­um fyr­ir leiðang­ur­inn. Menn­irn­ir tveir mynduðu sterk tengsl við ís­lensku gest­gjaf­ana í gegn­um sam­eig­in­leg­an bak­grunn í nor­rænu tungu­máli, menn­ingu og sögu.

Í sam­starfi við menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið mun sænska sendi­ráðið standa fyr­ir mik­illi dag­skrá tengdri rann­sókn­ar­ferð Daniels Soland­ers sem mun standa yfir í tvö ár með þátt­töku um 30 ís­lenskra sam­starfsaðila. Þema verk­efn­is­ins er Soland­er 250 – Bréf frá Íslandi. Tíma­móta­árið ein­kenn­ist af nánu sam­tali lista og vís­inda. Það er þver­menn­ing­ar­legt og opn­ar á sam­tal milli norður­skauts- og Kyrra­hafs­svæðis­ins og inn­an Norður­landa. Tíma­móta­árið lít­ur jafn­framt fram á við, inn í sam­eig­in­lega framtíð okk­ar. Verk­efnið snýst um sam­tal vinaþjóðanna Íslend­inga og Svía um sam­eig­in­lega sögu, sem og lofts­lag, nátt­úru og menn­ingu í fortíð, nútíð og framtíð.

Ein­stök lista­sýn­ing er horn­steinn tíma­móta­árs­ins. Í sam­starfi við Íslenska grafík hef­ur tíu ís­lensk­um lista­mönn­um verið boðið að hug­leiða Ísland, Soland­er og leiðang­ur­inn árið 1772. Lista­menn­irn­ir sem taka þátt í því eru Anna Lín­dal, Aðal­heiður Val­geirs­dótt­ir, Daði Guðbjörns­son, Gíslína Dögg Bjarka­dótt­ir, Guðmund­ur Ármann Sig­ur­jóns­son, Iré­ne Jen­sen, Laura Valent­ino, Soffía Sæ­munds­dótt­ir, Val­gerður Björns­dótt­ir og Vikt­or Hann­es­son. Tíu grafíklista­verk þeirra mynda sýn­ingu sem heit­ir Soland­er 250: Bréf frá Íslandi. Sýn­ing­in verður form­lega vígð í Hafnar­f­irði í ág­úst.

Sýn­ing þessi verður sýnd á ell­efu stöðum víðsveg­ar um Ísland ásamt lista­sýn­ing­unni Para­dise Lost – Daniel Soland­er’s Legacy og inni­held­ur verk eft­ir tíu lista­menn frá Kyrra­hafs­svæðinu sem áður hafa verið sýnd á Nýja-Sjálandi, í Ástr­al­íu og Svíþjóð. Þetta er ein­stak­ur viðburður, sam­tal í gegn­um list milli norður­slóða og Kyrra­hafs, hér á Íslandi. Von­ast er einnig til þess að þetta veki áhuga meðal hinna fjöl­mörgu er­lendu gesta Íslands. Auk þess er ætl­un­in, með öllu verk­efn­inu árin 2022 og 2023, að vekja áhuga og for­vitni barna á nátt­úru­vís­ind­um og stór­kost­legri flóru Íslands. Við send­um vissu­lega bréf frá Íslandi með þönk­um um list­ir og vís­indi, um menn­ing­ar­tengsl og um sam­eig­in­lega framtíð okk­ar!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og

Pär Ahlber­ger sendi­herra Svíþjóðar á Íslandi.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. júní 2022

Categories
Greinar

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Deila grein

08/06/2022

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Sú staða sem uppi er í heiminum í dag minnir okkur rækilega á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggi í landinu. Innlend framleiðsla mun seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem eftirspurnin krefst. Þó er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum. Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins.

Íslenskir matvælaframleiðendur í ólgusjó

Staða íslenskra bænda er grafalvarleg, svo alvarleg að sársaukamörkum hefur fyrir löngum verið náð. Sauðfjár- og nautgripabændur standa mjög illa og ef ekkert verður að gert þá horfir við algjört hrun í greininni og það mjög hratt. Verð til bænda hefur þróast nær öfugt við vísitölu neysluverðs. Matvælaverð til neytenda hefur hækkað og kemur til með að hækka enn frekar ef ekki verður brugðist rétt við. Verð til kjötframleiðenda hefur lækkað á sama tíma og öll aðföng hafa hækkað verulega. Það er útséð að bændur þurfa að fá afurðaverð hækkað verulega svo hægt sé að halda framleiðslu í jafnvægi, og að óbreyttu kemur það niður á neytendum.

Íslensk matvælaframleiðsla er mikilvæg

Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, þörfina og mikilvægi þess að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytt atvinnulíf. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflu í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu

Undirrituð vilja minna á tillögu okkar í Framsókn að horft verði til þess að heimila afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþága frá samkeppnisreglum, þ.e. heimild til samvinnu og samstarfs, sambærilegum og hafa verið í mjólkuriðnaði síðustu 17 ár. Leið að lausn snýr að afurðastöðvakerfinu og hagræðingu þess. Þá kalla ófyrirséðar breytingar í heiminum á tafarlausar aðgerðir. Það liggur fyrir að sauðfjárbændur þurfa um 40% hækkun á sínu innleggi í haust, aðeins þá til að standa á sléttu. Sama á við um greinarnar, nautakjöt og svínakjöt. Þessum hækkunum er ekki hægt að hrinda út á markaðinn í því efnahagsástandi sem er í dag. Við þurfum að horfa til þess að stjórnvöld komi að málum.

Tökum sprettinn, fellum niður virðisaukaskattinn tímabundið

Þórarinn Ingi lagði inn hugmynd hjá matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær að komið verði á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti til frumframleiðenda. Matvælaráðherra hefur tekið undir að hugmyndin sé vel skoðunarverð og ætlar að koma henni á framfæri við spretthópinn sem hluti af tímabundinni lausn.

Á öll innlegg bænda er lagður virðisaukaskattur og varðandi þær kjötgreinar, sem talað er um hér að ofan, snýr hugmyndin að því að komið verði á undanþágu frá virðisaukaskatti, sem kemur sem útskattur á framleiðandann, til tveggja ára. Þar sem bændur greiða þá ekki útskatt af sínu innleggi en á móti fá þeir innskattinn endurgreiddan, eins og gengur. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll.

Með því að gera innlendar afurðastöðvar öflugri þannig að þær geti hagrætt í rekstri og hækkað verð til frumframleiðenda ásamt því að koma á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti verða íslenskir kjötframleiðendur styrktir án þess að velta hækkunum inn í verð til neytenda. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu kallar á breyttar áherslur og hvetur okkur til að huga enn frekar að innlendri matvælaframleiðslu. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt, nú sem aldrei fyrr.

Hugum að hagsmunum heildarinnar

Framsókn hefur löngum bent á að hagsmunir bænda og neytenda fari saman og nú sem aldrei fyrr verðum við að brýna samvinnu og þrótt. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar. Stjórnvöld geta lagt lið með öflugum aðgerðum.

Aukin samvinna í afurðavinnslu myndi styðja við verðhækkanir á afurðum til bænda. Það er það sem þarf til að efla framleiðsluvilja og getu kjötframleiðenda á Íslandi. Þessar tillögur leiða ekki til hærra matvælaverðs til neytenda og halda því einnig við verðbólguna. Þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda og íslensku þjóðarinnar til framtíðar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson

þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2022

Categories
Greinar

Íslenskan er okkar öflugasta vopn

Deila grein

07/06/2022

Íslenskan er okkar öflugasta vopn

Í mín­um huga er tungu­mál hverr­ar þjóðar henn­ar helsta ger­semi, þar sem öll mann­leg sam­skipti byggj­ast á því. Tungu­málið hafði mik­il­vægt hlut­verk í sjálf­stæðis­bar­áttu ís­lensku þjóðar­inn­ar á sín­um tíma. Segja má að það hafi verið vopn Íslend­inga. Í raun var það helsta rök­semd leiðtoga þjóðar­inn­ar þegar þeir kröfðust sér­stöðu inn­an danska kon­ungs­rík­is­ins. Vegna þeirra öru sam­fé­lags- og tækni­breyt­inga sem orðið hafa síðustu árin, er nauðsyn­legt að huga vel að framþróun tungu­máls­ins. Tækn­in hef­ur þurrkað út fjölda landa­mæra. Við kom­umst nú í fjöl­breytt­ari og nán­ari snert­ingu við aðra menn­ingu og menn­ing­ar­heima en eins og Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or em­er­ít­us, skrif­ar: „… er ein stærsta áskor­un­in sem við stönd­um nú frammi fyr­ir á sviði ís­lenskr­ar menn­ing­ar … að tryggja að leiðir milli ís­lensks menn­ing­ar­heims og annarra menn­ing­ar­heima hald­ist greiðar – í báðar átt­ir – án þess að það verði á kostnað ís­lensk­unn­ar.“

Fram­ar von­um

Á dög­un­um tók ég þátt í fundaröð sendi­nefnd­ar for­seta Íslands með tæknifyr­ir­tækj­um í Banda­ríkj­un­um, þar á meðal Apple, Meta, Amazon, Open AI og Microsoft. Mark­mið fund­anna var að sýna for­svars­fólki fyr­ir­tækj­anna fram á mik­il­vægi þess að ís­lensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýj­ustu tækni­lausn­um og að kynna þær afurðir sem þegar eru til staðar fyr­ir til­stilli mál­tækni­áætl­un­ar ís­lenskra stjórn­valda. Alls staðar var málstað ís­lensk­unn­ar tekið vel og frek­ara sam­starf rætt. Raun­ar fóru viðtök­urn­ar fram úr mín­um björt­ustu von­um.

Mark­mið mál­tækni

Mál­tækni snýst um að þróa kerfi sem geta unnið með og skilið tungu­mál og stuðlað að notk­un þeirra í sam­skipt­um manns, tölvu og annarra tækja sem byggj­ast á sta­f­rænni tækni.

Mark­mið mál­tækni­áætl­un­ar stjórn­valda (2018-2022) er að tryggja að hægt verði að nota ís­lensku í sam­skipt­um við tæki og í allri upp­lýs­inga­vinnslu. For­gangs­verk­efni áætl­un­ar­inn­ar eru þau verk­efni sem mynda nauðsyn­leg­an grunn fyr­ir áfram­hald­andi þróun á mis­mun­andi sviðum mál­tækni fyr­ir ís­lensku. Gerður var samn­ing­ur við sjálf­seign­ar­stofn­un­ina Al­mannaróm um rekst­ur miðstöðvar mál­tækni­áætl­un­ar. Al­mannaróm­ur hef­ur gengið frá sam­starfs­samn­ing­um við hóp rann­sak­enda með sérþekk­ingu á sviði mál­vís­inda og mál­tækni og ber sá hóp­ur nafnið Sam­starf um ís­lenska mál­tækni (SÍM).

Með sam­starfs­samn­ing­um er rann­sak­end­un­um falið að ann­ast fram­kvæmd þeirra verk­efna sem eru til­greind í mál­tækni­áætl­un­inni.

Frá Emblu til yf­ir­lestr­ar

Verk­efni mál­tækni­áætl­un­ar eru flokkuð í tal­grein­ingu, tal­gerv­ingu, vélþýðing­ar, mál­rýni og mál­föng. Með smíði þeirra og inn­leiðingu verður fólki og fyr­ir­tækj­um auðveldað dag­legt líf með ýmsu móti í sam­skipt­um hér inn­an­lands sem og í sam­skipt­um við út­lönd. Yfir 60 sér­fræðing­ar hafa unnið af mikl­um metnaði und­an­far­in ár að eft­ir­töld­um lausn­um sem eru hjartað og sál­in í mál­tækni­verk­efni stjórn­valda. Þess­ar lausn­ir nýt­ast öll­um sem vilja smíða hug­búnaðarlausn­ir sem inni­halda hágæðaís­lensku fyr­ir al­menn­ing og fyr­ir­tæki. Áhersla er lögð á aðgengi að þess­um lausn­um svo að þær nýt­ist öll­um.

Tal­grein­ir: Hug­búnaður sem breyt­ir töluðu máli í rit­mál. Tækniþróun fær­ist í þá átt að við stýr­um tækj­um með tal­skip­un­um, þ.e. með rödd­inni, í stað þess að nota fing­urna.

Tal­gervill: Hug­búnaður sem breyt­ir rituðum texta í talað mál, svo tæk­in geti bæði svarað okk­ur og lesið upp texta á sem eðli­leg­ast­an hátt.

Vélþýðing: Sjálf­virk­ar þýðing­ar milli ís­lensku og annarra tungu­mála sem gerðar eru af tölvu. Vélþýðing­ar flýta fyr­ir þýðing­ar­starfi og gera fjöl­breytt­ari texta aðgengi­lega á ís­lensku.

Mál­rýn­ir: Hug­búnaður sem aðstoðar alla við að vinna með texta á ís­lensku, t.d. leiðrétta vill­ur í staf­setn­ingu, mál­fræði eða orðanotk­un.

Mál­föng: Gagna­söfn og tól sem tengj­ast og nýt­ast í vinnu með mál­tækni fyr­ir ís­lensku. Þau eru meðal ann­ars nauðsyn­leg til þess að greina tungu­málið, safna orðaforða, finna regl­ur og mynstur. Nægi­legt magn viðeig­andi gagna og áreiðan­leg stoðtól eru grunn­ur og for­senda allr­ar þró­un­ar í mál­tækni.

Af hverju skipt­ir þetta máli?

Lífs­gæðin sem við sköp­um okk­ur í framtíðinni byggj­ast á mennt­un, rann­sókn­um og ný­sköp­un – og þeirri lyk­il­for­sendu að við höld­um í við þær öru tækni­breyt­ing­ar sem heim­ur­inn fær­ir okk­ur. Þess vegna verður að vera aðgengi­legt að nota ís­lensku í hug­búnaðarþróun tæknifyr­ir­tækja, hvort held­ur þeirra stóru út í heimi eða þeirra smærri hér á Íslandi. Þá er raun­in sú að tækn­inni í kring­um okk­ur er í aukn­um mæli stýrt af tungu­mál­inu. Þró­un­in er í þá átt að við mun­um í aukn­um mæli ein­fald­lega tala við tæk­in okk­ar. Radd­stýr­ing tækn­inn­ar fær­ir okk­ur ótal tæki­færi til að ein­falda og bæta lífið og get­ur gert dag­leg­ar at­hafn­ir ein­fald­ari og fljót­legri. Við þurf­um að halda áfram að smíða, aðlaga, þróa og rækta sam­starf um mál­tækni og gervi­greind. Það er ljóst að sú vinna skil­ar ár­angri og ís­lenska á fullt er­indi í sta­f­ræna tækni.

Gervi­greind­in

Árið 2017 átt sér stað hljóðlát bylt­ing þegar Alp­haZero, gervi­greind­ar­for­ritið sigraði Stockfish, öfl­ug­asta skák­for­rit í heimi. Sig­ur Alp­haZero var af­ger­andi: það vann tutt­ugu og átta leiki, gerði sjö­tíu og tvö jafn­tefli og tapaði engu. Þessi sig­ur markaði tíma­mót í þróun á gervi­greind og ljóst varð að hún yrði part­ur af okk­ar dag­lega lífi. Eitt af því sem liðsinnt get­ur framþróun tungu­mála eins og ís­lensku er ör þróun gervi­greind­ar. Þar fel­ast mörg tæki­færi, sem flest eru ókönnuð enn. Þróun gervi­greind­ar­tækni hef­ur verið ótrú­lega hröð síðustu ár og nú eru kom­in fram kraft­mik­il kerfi sem fær eru um bylt­ing­ar­kennda hluti sem geta haft gríðarleg áhrif á líf fólks og sam­fé­lög. Framtíð tungu­mála í sta­f­ræn­um heimi er samof­in þróun gervi­greind­ar. Íslenska og gervi­greind þurfa hvort á öðru að halda og gervi­greind­arþróun á Íslandi tek­ur stór stökk nú þegar inn­an mál­tækni­verk­efna sem hér eru unn­in. Enn stærri stökk verða svo tek­in í sam­starfi við alþjóðleg tæknifyr­ir­tæki.

Áfram veg­inn

Það er mark­mið okk­ar að ís­lensk­an eigi sér sess í þróun hug­búnaðar- og tækni­lausna hjá helstu tæknifyr­ir­tækj­um heims, og að því vinn­um við í góðri sam­vinnu. Fund­irn­ir með full­trú­um tækn­iris­anna vest­an­hafs gengu von­um fram­ar og voru full­trú­ar þeirra marg­ir þegar bún­ir að kynna sér mál­in vel og komu vel und­ir­bún­ir. Það kom fram á fund­un­um að ár­ang­ur sem við höf­um náð í smíði kjarna­lausna get­ur skilað okk­ur víðtæku sam­starfi á sviðum mál­tækni. Eft­ir­fylgni með fund­un­um er haf­in af hálfu SÍM (Sam­starfs um ís­lenska mál­tækni) og sjálf­seign­ar­stofn­un­ar­inn­ar Al­mannaróms við að koma á frek­ari tengsl­um milli tækni­fólks hér heima og hjá fyr­ir­tækj­un­um til að stuðla að nýt­ingu ís­lensku gagn­anna og sam­vinnu um næstu skref.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 4. júní 2022

Categories
Greinar

Rétt­lát skipting gjald­töku í fisk­eldi

Deila grein

02/06/2022

Rétt­lát skipting gjald­töku í fisk­eldi

Þingsályktunartillaga mín um endurskoðun á reglugerðarumhverfi sjókvíaeldis, með hliðsjón af gjaldtöku af fiskeldi liggur inni í háttvirtri atvinnuveganefnd þingsins. Þessi tillaga var einnig lögð fram í lok síðasta þings og rataði meginefni hennar inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem stendur að mótuð verði heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Tillagan snýr einfaldlega að því að sú endurskoðun feli í sér heildargreiningu á gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga af fiskeldi og tillögur að lagabreytingu sem skýra heimildir til töku gjalda til að standa undir nauðsynlegri þjónustu ríkis og sveitarfélaga af sjókvíaeldi.

KPMG tók saman í vetur fyrir samtök sjávarútvegsfyrirtækja greiningu á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi. Þar má sjá að þessar greinar skila þjóðarbúinu umtalsverðum tekjum. Í greiningunni má líka sjá að skipting tekna á milli ríkis og sveitarfélaga er verulega skökk og hallar þar á sveitarfélögin. Hlutdeild sveitarfélaga í heildargjaldtöku í sjávarútvegi og fiskeldi hefur verið 29% á árunum 2016-2020. Útflutningsverðmæti á eldislaxi jukust um 29% á milli ára og fór vægi hans í 70% útflutningsverðmætis eldisafurða á síðasta árinu. Nú er svo komið að útflutningur á eldislaxi skilar næst mestum verðmætum allra fisktegunda sem fluttar eru frá Íslandi. Á Vestfjörðum eru sveitarfélögin, sem hýsa starfsemina í vexti og sá vöxtur kallar á mikla innviðauppbyggingu.

Hraða þarf innviðauppbyggingu

Sveitarfélögin bera hitann og þungann af uppbyggingu innviða og því er það krafan að þau fái stærri hlut af gjaldtöku stjórnvalda. Matvælaráðherra hefur sett af stað vinnu þar sem raungera á stefnu stjórnvalda um að greina þjóðhagslegan ávinning fiskeldis sem og ávinning þeirra byggðarlaga þar sem fiskeldi er stundað. Í framhaldi þarf að skoða sérstaklega gjaldtöku af fiskeldi og skiptingu þeirra gjalda og vinna að stefnumótun í greininni. Þessi greining fer fram samhliða stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á sviði fiskeldis. Stefnt er að því að mat á stöðu og greining á áhrifum, ávinningi, samkeppnisstöðu og gjaldtöku liggi fyrir á sama tíma og niðurstaða Ríkisendurskoðunar.

Stjórnsýsluúttekt á málefnum fiskeldis

Ríkisendurskoðun hefur samþykkt beiðni matvælaráðherra að stofnunin muni framkvæma úttekt á stjórnsýslu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og undirstofnana þess á sviði fiskeldis. Er ætlunin að úttektin nái yfir alla stjórnsýslu málaflokksins, allt frá undirbúningi löggjafar og setningu afleiddra reglna til eftirlits með starfsemi fyrirtækja í greininni. Áætlun um afmörkun og framkvæmd úttektarinnar er í vinnslu, en áætlað er að niðurstaða hennar verði birt í opinberri skýrslu til Alþingis á haustmánuðum 2022.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á Vísir.is 2. júní 2022

Categories
Greinar

Verðum að gera betur!

Deila grein

01/06/2022

Verðum að gera betur!

Á síðustu árum höfum við fylgst með baráttu foreldra og annarra aðstandenda einstaklinga sem látið hafa lífið þar sem lögregla taldi tilefni til að hefja lögreglurannsókn á orsökum andlátsins. Dæmi eru um að lögregla hafi ekki haft heimild til að upplýsa aðstandendur um framvindu rannsóknar máls vegna þess að t.d. foreldri er ekki sjálft aðili að málinu. En núgildandi ákvæði sakamálalaga gera ekki ráð fyrir því að aðstandendur hafi formlega stöðu á neinn hátt gagnvart lögreglu/ákæruvaldi og þar af leiðandi þröngur stakkur sniðinn við að komast til botns í því hvað varð þess valdandi að viðkomandi lést. Við höfum heyrt af því að foreldrar barna sem eru nýorðnir lögráða hafi verið haldið utan við rannsókn mála, fengið litlar sem engar upplýsingar þar sem réttarstaða þeirra sem aðstandandendur hins látna er ekki tryggð að þessu leiti í ákvæðum sakamálalaga eins og staðan er í dag. Í núgildandi lögum öðlast aðstandendur ekki formlega stöðu á neinn hátt gagnvart lögreglu og hafa þar af leiðandi ekki mörg úrræði til að fylgjast með framgangi rannsóknar hjá lögreglu. Úrbóta er verulega þörf því hagsmunirnir eru veigamiklir fyrir eftirlifandi aðstandendur og með réttu ættu að fá að geta farið þess á leit við lögreglu að fá upplýsingar um rannsókn á andláti og framvindu hennar.

Breytingin sem beðið er eftir

Til umræðu á Alþingi hefur verið frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála og fullnustu refsinga. Það frumvarp felur í sér tímamótabreytingar í þágu réttarstöðu brotaþola en ekki síður gefur lögreglu betri verkfæri í hendurnar til að vinna með. Þá á einnig sjá þá réttarbót sem kallað hefur verið eftir og þar eru að finna ákvæði sem bætir réttarstöðu aðstandenda í þeim tilvikum þar sem rannsókn lögreglu beinist að orsök andláts einstaklings.

Umrædd breyting felur í sér að aðstandanda er heimilt að koma fram sem fyrirsvarsmaður hins látna undir rannsókn málsins hjá lögreglu og í ákveðnum tilvikum unnt að tilnefna fyrirsvarsmanni réttargæslumann. Þessar breytingar varða t.d. aukna upplýsingaskyldu lögreglu til fyrirsvarsmanns og gefur lögreglu heimild til að veita réttargæslumanni aðgangi að gögnum.

Það er afar mikilvægt að þessi breyting verði á löggjöfinni og við gefum aðstandendum þá hugarró við erfiðar aðstæður og mikla sorg að geta verið upplýst um hvernig framvindur með rannsókn á andláti sinna nánustu. Nú þegar höfum við séð hávært ákall um að þessi breyting verði á okkar réttarkerfi til og það er mín einlæga von að við getum komið skikki á þau atriði sem að þessum málum snúa og lögregla geti betur starfað í þeim lagaramma sem gildir um þeirra störf. Ljóst er að núverandi löggjöf gerir lögreglu það afar torvelt að upplýsa aðstandendur um framvindu rannsóknar vegna andláts og því getur, eins og gefur að skilja, mjög erfið staða komið upp beggja vegna borðsins.

Við fengum ákall um breytingar, fylgjum ákallinu eftir og það er mín einlæga von að við sjáum þessa breytingu á löggjöfinni verða að veruleika án tafar! Við eigum að gera betur og átta okkur á mikilvægi þess að við uppfærum löggjöfina í takt við þróun samfélagsins. Við þurfum að læra að horfa og hlusta. Við þurfum að breytast!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, er þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. júní 2022

Categories
Greinar

Rangfærslur um kolefnislosun

Deila grein

27/05/2022

Rangfærslur um kolefnislosun


Kolefnislosun í landbúnaði á Íslandi er metin út frá tveimur þáttum, annars vegar er um að ræða kolefnislosun frá framræstum jarðvegi og hins vegar er losun sem verður vegna annarra þátta innan býlanna. Kolefnislosun frá framræstum jarðvegi hefur verið metin 100% hærri en aðrir þættir innan býlanna og vegur því þungt, svo þungt að margir halda því fram að kolefnisspor íslensks lambakjöts sé meira heldur en innflutts lambakjöts frá Ástralíu, sem er auðvitað fráleitt, enda þarf ekki nema að hugsa það til enda til að sjá að það stenst enga skoðun.

Minni losun en haldið hefur verið fram

Nýlega sendi Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri frá sér skýrslu sem byggir meðal annars á rannsóknum sem gerðar voru á Norðurlandi á kolefnislosun frá framræstu landi. Niðurstöður þeirra rannsókna sýna að fullyrðingar, sem haldið hefur verið á lofti á Íslandi árum saman um losun koltvísýrings og annarra meintra gróðurhúsalofttegunda úr framræstu landi, eru langt frá því að geta staðist. Í skýrslunni segir að losunin sem hér mælist verði að teljast lítil miðað við eldri mælingar sem gerðar hafa verið í framræstum, óræktuðum lífrænum mýrum. Það er full ástæða til að leggja í frekari rannsóknir á þessum málum hér á landi, því það hafa flogið nokkuð háværar fullyrðingar um langtímalosun koltvísýrings úr framræstu landi og mikilvægi þess að endurheimta þau votlendi sem framræst hafa verið á undanförnum áratugum.

Betri kortlagning

Í skýrslunni segir að til að kortleggja sem næst raunverulega langtíma kolefnislosun í framræstu ræktarlandi á Íslandi þurfi að gera átak í að mæla hana skipulega sem víðast. Væntanlega þarf samkvæmt þessi að mæla út frá mismunandi jarðvegi og á mismunandi landsvæðum. Það er mjög mikilvægt að frekari og stöðug vöktun fari fram á þeim þætti um allt land, það er mikilvægt ekki síst til þegar horft er til markmiða stjórnvalda í loftlagsmálum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður

Greinin birtist fyrist í Bændablaðinu 25. maí 2022

Categories
Greinar

Mörg þúsund heimili í farvatninu

Deila grein

27/05/2022

Mörg þúsund heimili í farvatninu

Síðustu misseri hefur orðið tíðrætt í samfélaginu um þá grafalvarlegu stöðu sem ríkt hefur á húsnæðismarkaðnum hér á landi og kallað hefur verið eftir tafarlausum aðgerðum. Í febrúar síðastliðinn skipaði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra starfshóp um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði. Í síðustu viku skilað hópurinn af sér 28 tillögum í sjö málaflokkum. Á grundvelli þessara tillagna munu stjórnvöld nú þegar leggja áherslu á aukna uppbyggingu íbúða, endurbættan húsnæðisstuðning og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Langþráð yfirsýn

Með tilkomu skýrslunnar höfum við loks bæði góð og rétt verkfæri í höndunum. Nú í fyrsta sinn er til staðar yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn með betri upplýsingum. Með þeim er hægt að vinna raunhæfa aðgerðaáætlun til fimm ára og húsnæðisstefnu til fimmtán ára. Gerð er tillaga um húsnæðisáætlun um fyrir allt landið og sérstök áhersla lögð á áframhaldandi uppbyggingu almenna íbúðakerfisins og endurskoðun opinbers húsnæðisstuðnings. Húsnæðisöryggi og jafnt aðgengi allra að hagkvæmu húsnæði á viðráðanlegu verði verður sérstakt forgangsmál. Til þess að ná þeim markmiðum á að setja á fót starfshóp ríkis og sveitarfélaga með aðild aðila vinnumarkaðarins um endurskoðun á húsnæðisstuðningskerfum í samræmi við markmið og greiningar í skýrslu starfshópsins en þar kemur meðal annars fram að taka þurfi opinberan húsnæðisstuðning til heildstæðrar endurskoðunar og tryggja að hann nýtist fyrst og fremst þeim sem á þurfa að halda.

Aukin uppbygging íbúða

Niðurstaða þarfagreiningar sveitarfélaga í húsnæðisáætlunum er að byggja þarf um 35.000 íbúðir á næstu tíu árum til að mæta fólksfjölgun en þess ber að geta að í þeirri greiningu er ekki gert ráð fyrir uppbyggingu til að mæta uppsafnaðri þörf sem í maí 2021 var metin um 4.500 íbúðir. Til þess að nálgast stöðugleika á húsnæðismarkaði þarf framboð íbúða og uppbygging að vera í takt við þörf. Til þess að hægt sé að ná þessum markmiðum þarf húsnæðisáætlun fyrir landið allt. En ein meginforsenda þess að stuðla að stöðugleika í húsnæðismálum og tryggja nauðsynlega uppbyggingu er að ríki og sveitarfélög sameinist um sýn og stefnu í húsnæðismálum til lengri tíma.

Því er ánægjulegt að segja frá því að ríkið og Samband íslenskra sveitarfélaga munu nú þegar hefja viðræður um rammasamning um byggingu 4.000 íbúða árlega á landsvísu næstu fimm árin og 3.500 íbúða árlega næstu fimm ár þar á eftir. Í þeirri vinnu verður sértaklega horft til þeirra markmiða sem sett eru fram í tillögum starfshópsins en þær er meðal annars að félagslegt húsnæði nemi að jafnaði 5% nýrra íbúða og hagkvæmt húsnæði sé sem næst 30% með sérstakri áherslu á almenna íbúðarkerfið. Sé horft til höfuðborgarsvæðisins er nauðsynlegt að taka upp svæðisskipulagið sem gildir til ársins 2040 svo gera megi öllum sveitarfélögum á svæðinu kleift að taka þátt í því mikla verkefni sem fram undan er í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landinu öllu. Samhliða þéttingu byggðar þarf að vera svigrúm til að brjóta nýtt land svo byggja megi hratt og vel fyrir alla hópa samfélagsins.

Virkur og heilbrigður leigumarkaður

Þá er mikilvægt að tryggja réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda. Opinber gögn sýna að staða leigjenda er lakari en staða þeirra sem búa í eigin húsnæði og almennt telja leigjendur sig búa við minna húsnæðisöryggi en fólk í eigið húsnæði. Leigjendur búa við þyngri fjárhagslegri byrði húsnæðiskostnaðar og töluvert hærra hlutfall leigjenda en eigenda býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Inn á þessi atriði er komið í skýrslu starfshópsins og lagðar fram tillögur um virkan og heilbrigðan leigumarkað sem raunverulegan valkost. Meðal annars með því að endurskoða ákvæði húsaleigulaga með það að markmiði að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Jafnvægi er lykillinn

Á sama tíma og ég fagna vinnu starfshópsins og þeirri mikilvægu greiningarvinnu sem þar er hvet ég innviðaráðherra áfram til góðra verka, en mörg þau verkefni sem nú liggja fyrir eru á verksviði hans. Þetta er gott skref þar sem við erum nú í fyrsta sinn er verið að horfa til framtíðar í húsnæðismálum. Í fyrsta sinn er verið að styðjast við mannfjöldaspár og bera saman við húsnæðisáætlanir sveitarfélaga. Í fyrsta sinn er verið að setja fram aðgerðaáætlun líkt og í samgönguáætlun og stefnu til 15 ára. Allt undir forystu Framsóknar og í ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra. Það er mín einlæga von að við förum að sjá til lands í húsnæðismálum hér á landi, því jafnvægi á húsnæðismarkaði er samfélaginu öllu mikilvægt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður

Greinin birtist fyrst á mbl.is 26. maí 2022

Categories
Greinar

Tökum flugið í ferðaþjónustu!

Deila grein

27/05/2022

Tökum flugið í ferðaþjónustu!

Eft­ir áskor­an­ir und­an­far­inna ára erum við far­in að hefja okk­ur til flugs í ferðaþjón­ust­unni á ný. Seigla ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu og stuðningsaðgerðir stjórn­valda hafa gert það að verk­um að end­ur­reisn grein­ar­inn­ar með sjálf­bærni að leiðarljósi er mögu­leg. Og um leið end­ur­reisn efna­hags­lífs­ins og bættra lífs­kjara hér á landi. Tím­inn í far­aldr­in­um var vel nýtt­ur, bæði hjá stjórn­völd­um sem og hjá fyr­ir­tækj­un­um sjálf­um.

Hvað varðar aðgerðir stjórn­valda ber til dæm­is að nefna stofn­un áfangastaðastofa í hverj­um lands­hluta, stór aukn­ar fjár­fest­ing­ar í innviðum, bæði sam­göngu­innviðum og innviðum á ferðamanna­stöðum svo þeir verði bet­ur í stakk bún­ir til að taka á móti aukn­um fjölda gesta á ný.

Ferðaþjón­usta er burðarás í ís­lensku efna­hags­lífi og er at­vinnu­grein sem get­ur skapað mik­il út­flutn­ings­verðmæti á skömm­um tíma. Eitt helsta mark­mið stjórn­valda á sviði ferðaþjón­ustu er að árið 2030 eyði ferðamenn 700 millj­örðum króna hér á landi. Eitt helsta for­gangs­verk­efnið nú í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er að klára vinnu við að móta nýja aðgerðaáætl­un á sviði ferðamála á grunni Framtíðar­sýn­ar og leiðarljóss ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030 þar sem áhersla er lögð á sjálf­bærni á öll­um sviðum. Mik­il­vægt er að leggja áherslu á ávinn­ing heima­manna um allt land, í því sam­bandi er dreif­ing ferðamanna lyk­il­atriði. En ójöfn dreif­ing ferðamanna um landið hef­ur verið ein mesta áskor­un ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu frá upp­hafi. Mikið er í húfi, t.a.m. betri nýt­ing innviða, bætt bú­setu­skil­yrði og lífs­gæði heima­manna, betri rekstr­ar- og fjár­fest­ing­ar­skil­yrði fyr­ir­tækja og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf um land allt. Greitt milli­landa­flug skipt­ir í þessu sam­hengi miklu máli og hafa ánægju­leg­ar frétt­ir borist af því að und­an­förnu með stofn­un flug­fé­lags­ins Nicea­ir sem mun fljúga beint frá Ak­ur­eyri.

Aðgerðir á fyrstu mánuðum hins nýja ráðuneyt­is hafa meðal ann­ars ein­kennst af of­an­töldu. Tím­inn hef­ur verið vel nýtt­ur og meðal ann­ars auk­inn slag­kraft­ur var sett­ur með 550 m.kr fram­lagi í alþjóðlega markaðsverk­efnið „Sam­an í sókn“ sem haf­ur það að mark­miði að styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar. Samn­ing­ur var gerður um markaðssetn­ingu á Norður- og Aust­ur­landi sem væn­leg­um áfanga­stöðum fyr­ir beint milli­landa­flug. Tæp­um 600 m.kr. út­hlutað úr fram­kvæmda­sjóði ferðamannastaða til að bæta innviði og auka getu svæðanna til að taka á móti ferðamanna­mönn­um, tvær reglu­gerðir und­ir­ritaðar til að koma móts við erfiða lausa­fjár­stöðu fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu vegna af­leiðinga heims­far­ald­urs. Þá mælti ég í vik­unni einnig fyr­ir breyt­ingu á lög­um um Ferðaábyrgðasjóð en með breyt­ing­unni verður láns­tími lána sjóðsins lengd­ur úr 6 árum í 10 ár sem auðveld­ar ferðaskrif­stof­um að standa við af­borg­an­ir, nú þegar viðspyrna ferðaþjón­ust­unn­ar er haf­in af fullu krafti.

Það er ánægju­legt að heyra þá bjart­sýni sem rík­ir víða í ferðaþjón­ust­unni, bók­un­arstaðan er góð og mik­ill áhugi er á því að heim­sækja landið okk­ar. Íslensk ferðaþjón­usta er á heims­mæli­kv­arða og þar vilj­um við styrkja hana enn frek­ar í sessi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

ferðamálaráðherra og varaformaður Framsókar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 27. maí 2022

Categories
Greinar

Ertu í góðu sambandi?

Deila grein

25/05/2022

Ertu í góðu sambandi?

Hvernig er sambandið þitt? Ertu í góðu og tryggu sambandi? Þá er ég ekki að tala um hjúskaparstöðu – heldur fjarskiptasamband. Það er nefnilega svo að það hefur ekki verið sjálfsagt á Íslandi að vera í sambandi við umheiminn. En það er mikilvægt að tryggja að fólk búi við fjarskiptaöryggi og því hef ég hvatt lengi til þess að styrkja fjarskipti í dreifbýli.

Það var því sérstaklega ánægjulegt að heyra af kynningu Neyðarlínunnar og farsímafyrirtækjanna Nova, Vodafone og Símans sem hafa tekið höndum saman um að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslandi. Þetta skapar aukið öryggi þar sem víðar verður hægt að ná sambandi við neyðarnúmerið 112 og önnur símanúmer.

Brýndi ég fyrir nýjum ráðherra fjarskiptamála, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, í vetur að hún myndi láta fjarskiptamál í dreifbýli sig sérstaklega varða. Áður hafði verkefnið verið undir forystu Sigurðar Inga Jóhannssonar, þáverandi samgönguráðherra og formanns Framsóknar og mikil vinna lögð í landsátakið „Ísland ljóstengt“. Við í Framsókn höfum mikið talað um mikilvægi uppbyggingu opinberra aðila á fjarskiptaaðstöðu á undanförnum árum. Ríkið hefur styrkt með beinum hætti tengingu um 6.000 lögheimila og annarra styrkhæfra staða í dreifbýli landsins og stuðlað óbeint að tengingu þúsunda sumarhúsa og annarra bygginga. Þetta landsátak hefur þegar bylt forsendum búsetu og atvinnurekstrar í sveitum landsins.

Fólk verður að geta búið við tryggt fjarskiptasamband heima hjá sér og hef ég ýtt á eftir þessum málum. Með það að leiðarljósi lagði ég fram tvær fyrirspurnir á Alþingi vegna stöðu fjarskipta í dreifbýli. Svör framkvæmdavaldsins sýndu svo að enn væri mikið verk óunnið. Til þess að gera fólki kleift að lesa úr tölunum sem fram komu í svörunum við fyrirspurn minni hef ég sett þær upp á sérstakri síðu.

Jafnframt talaði ég fyrir því hvað símasamband er mikilvægt öryggisatriði og mikilvægt í daglegu lífi nú þegar ljósleiðari hefur verið lagður í dreifbýli um allt land. Í mörgum sveitarfélögum er staðan sú að á mörgum heimilum í dreifbýlinu er lítið eða ekkert símasamband. Það þýðir að ekki er möguleiki á að ná í foreldra eða forráðamenn ef eitthvað kemur upp á hjá börnunum í skólanum. Það þýðir að ekki er möguleiki fyrir íbúa að hringja á aðstoð ef eitthvað kemur upp á. 

Verðandi foreldrar verða því að fara að heiman mörgum dögum fyrir fæðingu vegna þess að þau geta ekki treyst á að ná sambandi við viðbragðsaðila. Eins eiga íbúar ekki möguleika á því að nota rafræn skilríki heima hjá sér því innskráningarbeiðnin er löngu útrunnin þegar hún loksins kemur í símann. Íbúar sem búa á þessum svæðum hafa fengið þau skilaboð að fjarskiptafyrirtækjum þyki það of kostnaðarsamt að bæta farsímasamband á fámennum svæðum. En Neyðarlínan hefur nú tryggt í samstarfi við farsímafélögin, sem setja upp sendibúnað á staðnum með opinberum fjárstyrk, að farsímar viðskiptavina farsímafélaganna hafi jafnan aðgang að sendinum. Þetta fyrirkomulag tryggir að símasamband næst jafn greiðlega hjá viðskiptavinum allra farsímafélaganna.

Neyðarlínan mun ákveða hvar þörf er á uppsetningu sendis og í framhaldi af því er farsímafélag valið til að annast verkefnið. Tilgangurinn og markmiðið er enda að stuðla að því að koma á farsímaþjónustu þannig að sem víðast er hægt að hringja í 112 til þess að kalla eftir hjálp.

Þetta er mikilvægt og tímabært að viðeigandi aðilar taki höndum saman um að tryggja gott farsímasamband á fáförnum og afskekktum stöðum á Íslandi. Það tryggir aukið öryggi að víðar verði hægt að ná sambandi við neyðarnúmerið 112 og önnur símanúmer.

Hér er jafnframt tryggður grundvöllur þess að byggja enn frekar á óstaðbundnum störfum.

Það er bjargföst trú mín að öflugir fjarskiptainnviðir séu forsenda búsetu og fjölbreyttrar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. maí 2022.

Categories
Greinar

Ívilnanir Menntasjóðs vegna skorts á sérmenntuðu fólki

Deila grein

25/05/2022

Ívilnanir Menntasjóðs vegna skorts á sérmenntuðu fólki

Víða um land hefur verið erfitt að manna ákveðnar starfsstéttir, stéttir sem nauðsynlegar eru til að halda uppi ákveðinni grunnþjónustu við íbúa samfélagsins. Ákall er víða á landsbyggðinni eftir heilbrigðismenntuðu fólki, læknum og hjúkrunarfræðingum, sérfræðingum í geðheilsuteymin sem og sérfræðingum á ýmsum sviðum atvinnulífsins.

Ívilnanir Menntasjóðs til sérstakra staða

Frumvarp Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, um Menntasjóð námsmanna var samþykkt á Alþingi á vorþingi 2020. Um er að ræða heildarendurskoðun á námslánakerfinu og miðar að því að jafna stuðning ríkisins til námsmanna. Í lögum um Menntasjóð er til staðar heimild um tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána á skilgreindum svæðum. Um er að ræða mikilvægt nýmæli þegar stór svæði eiga í vandræðum með að manna ákveðnar stöður og þörf er á að koma þessu ákvæði í virkni. Til þess að nýta þessa ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi að skortur sé á einstaklingum með menntun í ákveðinni starfsstétt og sá einstaklingur sem þiggur ívilnun þarf að hafa lokið prófgráðu í viðkomandi námsgrein. Þá eru gerðar kröfur um að minnsta kosti 50% starfshlutfall og lengd búsetu að lágmarki tvö ár.

Þörfin er skýr, verkfærið þarf að brýna

Undirrituð lagði fram fyrirspurn til ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um þessar tímabundnu ívilnanir við endurgreiðslu námslána og lagði út frá því hvort komið sé að þeim tímapunkti að auglýsa þessar framangreindu ívilnanir.

Í svari ráðherra við fyrirspurn minni á Alþingi kemur fram að engin skýrsla sé fyrirliggjandi um viðvarandi skort í starfsstétt. Því sé ekki tilefni til þess að auglýsa tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina enda liggi ekki fyrir hjá Byggðastofnun skilgreining á hvaða svæði væru þarna undir. Af þessu tilefni aflaði ég mér upplýsinga frá Byggðastofnun, þar hefur mér verið sagt að vinna sé að fara af stað um þetta mikilvæga mál og er von mín að innan fárra mánaða verði það komið í framkvæmd.

Mikilvæg byggðaaðgerð

Það þarf ekki að fjölyrða um hversu mikilvæg byggðaaðgerð þessi heimild er. Hvati fyrir byggðarlög sem eiga í stöðugri baráttu við að ná til sín fólki til að sinna mikilvægum störfum og halda uppi grunnþjónustu ásamt keppninni við að ná til sín sérmenntuðu fólk úr öðrum atvinnugreinum til að halda uppi öflugu samfélagi. Þessar ívilnanir efla samkeppnishæfni sveitarfélaga og mikilvægt er að þær verði nýttar sem fyrst þar sem þeirra er þörf.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar í NV kjördæmi.

Greinin birtist fyrst á Skessuhorni 24. maí 2022