Categories
Fréttir Greinar

Grindavíkin mín

Deila grein

11/11/2024

Grindavíkin mín

Nú um helgina er ár síðan við Grindvíkingar þurftum að rýma Grindavík og sá dagur rennur mér seint úr minni. Það er svo stutt síðan en á sama tíma svo óralangt síðan.

Sjálfur er ég ekki fæddur og uppalinn í Grindavík en það breytir ekki því að ég er og verð alltaf Grindvíkingur, þarna var vel tekið á móti mér og samfélagið var stórkostlegt. Ég sakna ekki andvarans í Grindavík en ég sakna samfélagsins. Ég sem Grindvíkingur hef þurft að svara alls konar spurningum og vangaveltum kjölfar eldsumbrota eins og:

  • Ætlar þú í alvöru að flytja til baka?
  • Af hverju er verið að borga ykkur út og byggja varnargarða? Er ekki nóg að gera annað hvort?
  • Ég vona að það fari hraun yfir bæinn og Grindavík þurrkist út.
  • Þið fenguð nú ótrúlega gott fyrir húsin ykkar, eruði ekki bara sátt?
  • Grindavík er búin og það fer aldrei neinn þangað aftur.
  • Það hafa nú flestir flutt og þið hafið fengið húsin borguð út án þess að greiða sölulaun.
  • Eruð þið að drekka hérna frítt kaffi? Þið Grindvíkingar fáið allt frítt!

Allt eru þetta vangaveltur sem ég hef heyrt og sumar þeirra á fyrstu vikum eftir rýmingu. Ég segi fyrir mitt leyti að ég vil búa í samfélagi sem grípur þá sem lenda í áfalli eins og þessu og er þakklátur fyrir að vera gripinn sem íbúi Grindavíkur.

Grindavík er öflugur sjávarútvegsbær, staður þar sem fjölskyldur hafa lifað og starfað í kynslóðir og byggt upp sterkt samfélag með djúpum rótum í sjávarútvegi og samheldni. Nú stendur Grindavík frammi fyrir gríðarlegum áskorunum. Það er ólýsanlegt áfall fyrir fjölskyldur að missa heimili sín og griðarstað, þau öruggu svæði þar sem þau hafa átt líf sitt og minningar.

Áfallið er að koma fram hægt og rólega, eins og innri bylgja sorgar sem smám saman skellur á, þegar fólk áttar sig á því að það þarf að aðlagast nýjum aðstæðum. Börnin sérstaklega, þau þurfa að koma sér fyrir í nýjum samfélögum, oft fjarri vinum sínum og daglegu lífi sem þau þekktu. Þau missa vini sína, skólaumhverfið sitt og einfaldleikann sem fylgir því að hafa fastan sess í samfélaginu sínu. Þetta reynir á börnin á marga vegu og það kallar á að við leggjum okkur fram um að styðja þau í þessari breytingu, með hlýju og skilningi.

Mikilvægt er að halda möguleikanum opnum að Grindvíkingar geti farið til baka, til bæjarins sem þeir elska. Stjórnvöld þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera þann möguleika raunhæfan. Þangað til þarf að huga vel að grindvíska samfélaginu, hjálpa fjölskyldum að koma undir sig fótunum og bjóða þeim andlega þjónustu sem styrkir þau á þessum erfiðu tímum. Við þurfum að sjá til þess að andleg líðan fólks fái þann stuðning sem hún þarfnast og tryggja að Grindvíkingar upplifi að samfélagið standi með þeim, hvar sem þau eru.

Grindvíkingar eru nú á mjög ólíkum stað varðandi framtíðina. Sumir eru tilbúnir til að snúa aftur heim, aðrir vilja bíða og sjá hvernig málin þróast, á meðan enn aðrir hafa ákveðið að leita á ný mið. Spurningin er: Hvað þarf til að Grindavík geti aftur orðið það samfélag sem það var?

Ein lausn gæti verið að leyfa fólki að hafa afnot af húsum sínum og greiða aðeins lágmarkskostnað fyrir þá dvöl. Með þessu gætu Grindvíkingar sjálfir séð um heimili sín, tryggt að þau standist tímans tönn og þannig aukið líkurnar á því að fólkið snúi aftur í meira mæli. Þetta myndi ekki einungis styrkja samfélagið heldur veita hverjum og einum möguleika á að finna aftur til tengingar við það sem þeir kalla „heima“ í Grindavík.

Til þess að þetta verði mögulegt þarf að skapa aðstæður fyrir fólk til að dvelja þar, hvort sem það er til lengri eða skemmri tíma. Þetta myndi gera Grindvíkingum kleift að finna aftur til öryggis og festa rætur í sinni heimabyggð, að þeim forsendum sem henta þeim best.

Grindavík er ekki bara bær heldur lífsandi sem býr í fólkinu. „Þú tekur kannski Grindavík frá okkur en Grindavík tekur þú ekki úr okkur.“ Við erum Grindvíkingar og hversu langur sem vegurinn verður, viljum við fá samfélagið okkar aftur, því samheldnin og kærleikurinn sem við deilum er ómetanlegur.

Lengi lifi Grindavík!

Vilhjálmur Ragnar Kristjánsson, frambjóðandi á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Það er ekki allt að fara til fjandans!

Deila grein

11/11/2024

Það er ekki allt að fara til fjandans!

Af hverju tölum við niður kennara og annað starfsfólk sem vinnur með börnunum okkar?

Hvers vegna köllum við ábyrga foreldra leiðinlega og tökum umræðu um börn og ungmenni stöðugt útfrá neikvæðustu rannsóknargögnum sem völ er á? Það tapa allir þegar að við tölum niður framtíð landsins.

Í gegnum starf mitt hef ég verið svo heppinn að geta átt samtal við um 12.000 börn og ungmenni, 700 kennara og 1.600 foreldra síðastliðið ár í 80 mismunandi skólum um allt land. Ég tel það mína ábyrgð að stíga inn í þessa umræðu því mín upplifun er síður en svo að það sé allt að fara til fjandans.

Lítum á þann árangur sem við höfum náð:

  • Árið 2021 voru 60% barna á aldrinum 9-12 ára með aðgang að TikTok og Snapchat. Tveimur árum síðar hafði það hlutfall lækkað niður í 36% á TikTok og 42% á Snapchat. Á báðum miðlum er 13 ára aldurstakmark.
  • Árið 2021 höfðu 42% stúlkna í 8.-10. bekk fengið senda nektarmynd. Það hlutfall var komið niður í 24% árið 2023. Beiðnum um nektarmyndir í sama aldurshópi meðal stúlkna hefur fækkaði úr 51% (2021) í 29% (2023).
  • Hlutfall drengja í 8.-10. bekk sem horfa á klám lækkar úr 61% (2021) í 33% (2023).
  • Hlutfall nemenda sem hafa upplifað einelti á netinu, í símanum eða í tölvuleikjum lækkar einnig bæði meðal drengja og stúlkna 9-18 ára.

Þessi árangur er í boði:

  • Forvarnafræðslu mismunandi aðila sem alltof margir eru fjármagnaðir tímabundið eða án fyrirsjánleika.
  • Kennara um allt land sem vinna sitt starf sannarlega af hugsjón og metnaði.
  • Foreldra sem sýna ábyrgð í verki og taka þátt í skólastarfi barna sinna.
  • Barna og ungmenna sem við dæmum oft út frá neikvæðum gögnum án þess að tala við þau sjálf.

Á ferð minni um landið hef ég fundið fyrir sterku ákalli frá þessum hópum um aukinn stuðning til þess að takast á við nýjar áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í nútíma samfélagi. Til þess að skilja þarfir þessara hópa þurfum að vera tilbúin til að hlusta, setja okkur í þeirra fótspor og aðlaga lausnir að mismunandi þörfum mismunandi hópa.

Höldum áfram að vinna að farsæld barna, þar sem útgangspunkturinn í öllu sem við gerum á að vera barnið og hagsmunir þess. Höldum áfram að tryggja aðgengi að menntun fyrir öll börn. Brúum bilið og höldum áfram að styðja við þátttöku fatlaðra barna. Leggjum áherslu á forvarnir, gagnrýna hugsun, stafræna borgaravitund, miðlalæsi og kynjafræði. Klöppum okkur á bakið fyrir þann árangur sem við höfum náð og höldum áfram þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið á kjörtímabilinu í að efla og styðja við menntun.

Í allri vinnu með börn og ungmenni er mikilvægt að horfa til framtíðar og það gerum við ekki með skyndilausnum. Stórar og nauðsynlegar breytingar geta tekið á, þær geta tekið tíma í framkvæmd og það getur tekið tíma að sjá ávinninginn af þeim. Í menntastefnu til ársins 2030 og í endurskoðun á aðalnámskrá sjáum við að horft er til framtíðar. Höldum áfram þessari vinnu Ásmundar Einars Daðasonar mennta- og barnamálaráðherra og þeirri hugsjón sem hann hefur verið óhræddur við að hrinda í framkvæmd.

Styðjum við kennara og annað starfsfólk skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarfs sem eru fyrirmyndir barnanna okkar! Valdeflum foreldra og höfum trú á næstu kynslóð!

Skúli Bragi Geirdal, sérfræðingur á sviði upplýsinga- og miðlalæsis og í 4. sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Við erum heit, græn og orku­mikil – gerum kröfur um sjálf­bærni, ný­sköpun og betri nýtingu auð­linda!

Deila grein

10/11/2024

Við erum heit, græn og orku­mikil – gerum kröfur um sjálf­bærni, ný­sköpun og betri nýtingu auð­linda!

Við í Suðurkjördæmi búum á heitasta svæði landsins, þar sem fjögur háhitasvæði og jarðvarmavirkjanir veita okkur einstaka orkuauðlind. En það er ekki nóg að nýta þessar auðlindir eingöngu til rafmagnsframleiðslu eða húshitunar – við verðum að gera meiri kröfur um fjölbreyttari og ábyrgari nýtingu þeirra en nú er gert, sem skilar sér í auknum samfélagslegum verðmætum og fjölbreyttum störfum fyrir alla.

Við jarðvarmavinnslu verða til ýmis steinefni, eins og kísill, sem hafa mikla möguleika í framleiðslu á verðmætum iðnaðar- og heilbrigðisvörum. Ef við getum fullnýtt þessi efni hér á landi með nýsköpun og þróun getum við skapað störf á sviði heilsu-, efna- og byggingariðnaðar í Suðurkjördæmi. Slík nýting stuðlar að fjölbreyttara atvinnulífi, eflir sjálfbærni svæðisins og byggir undir sjálfstæði og stöðugleika heimabyggðar.

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi til framtíðar

Sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ættu að vera leiðarljós þegar kemur að nýtingu auðlinda á landsbyggðinni. Með því að nýta glatvarma frá gagnaverum og orkuverum, til dæmis í gróðurhúsaræktun eða öðrum verkefnum, getum við skapað fleiri störf án þess að auka orkunotkun. Þannig eykst fjölbreytni atvinnulífsins og nýsköpun í heimabyggð, sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun og dregur úr álagi á náttúruna.

Stuðningur við fjölbreytt atvinnulíf og samfélagslegan ávinning

Þegar við beinum jarðvarmanýtingu ekki aðeins í rafmagnsframleiðslu heldur einnig í iðnað, landbúnað og heilbrigðistengd verkefni, skapast tækifæri fyrir fjölbreyttara og sjálfbærara atvinnulíf. Þessi fjölbreytta nýting auðlinda getur byggt upp sjálfstæð samfélög þar sem aðstæður fyrir heimamenn styrkjast og ný atvinnutækifæri verða til í heimabyggð.

Þetta hefur ekki einungis efnahagslega þýðingu heldur einnig félagslega. Með því að skapa fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifæri gerum við svæðið aðlaðandi fyrir nýja íbúa, þar með talið unga fólkið sem oft flytur í annað í leit að starfi. Fjölbreyttnin eflir grunnstoðir sveitarfélaganna og bætir lífsgæði íbúa, þar sem fjölbreytt atvinnulíf veitir stöðugleika og sjálfbærni.

Styrking sveitarfélaga og sjálfstæð samfélög

Fjölbreytt nýting á auðlindum stuðlar að því að sveitarfélög í Suðurkjördæmi verði ekki aðeins orkuveitur fyrir aðra landshluta heldur verði sjálfstæð, öflug samfélög með blómstrandi atvinnulífi og sjálfbærum innviðum. Með þessu tryggjum við sterkari byggðir og lífvænleg samfélög, þar sem íbúar sjá tækifæri í þeirri þróun sem fram undan er. Sjálfbær samfélög á landsbyggðinni eru forsenda fyrir sterku og lífvænlegu Íslandi til framtíðar.

Tækifærin eru fjölmörg og við eigum öfluga sögu um verðmætasköpun í kringum þekkingu á jarðvarma til að byggja á. Með því að tengjast háskólum og rannsóknarstofnunum má stuðla að þróun nýrra og ábyrgra lausna fyrir jarðvarmanýtingu og sjálfbæran iðnað. Þannig skapast vettvangur fyrir nýsköpun á sviðum eins og efnafræði, umhverfisverkfræði og grænum iðnaði. Slíkt samstarf gerir svæðinu kleift að nýta þá sérstöðu sem það hefur til að leggja sitt af mörkum í alþjóðlegri umhverfisstefnu og sjálfbærni. Með fjárfestingum í rannsóknastarfsemi og frumkvöðlastarfi getur Suðurkjördæmi orðið leiðandi á sviði sjálfbærrar nýtingar og hringrásarhagkerfis, sem ekki aðeins styrkir svæðisbundinn efnahag heldur einnig heildarþróun Íslands í átt að sjálfbærari framtíð.

Hvatning til fjárfestinga í sjálfbærri framleiðslu

Til að nýta auðlindir Suðurkjördæmis á ábyrgan hátt þarf einnig að stuðla að aukinni fjárfestingu í sjálfbærri framleiðslu og nýsköpun. Samstarf milli stjórnvalda, fjármálastofnana og einkageirans er lykilþáttur í að skapa hagstæða umgjörð fyrir svæðisbundna nýsköpun og efla nýtingu náttúruauðlinda á Suðurnesjum. Markviss fjárfesting í grænum iðnaði getur aukið fjölbreytni í atvinnulífi svæðisins og dregið úr einhæfri nýtingu jarðhitaauðlinda.

Stuðningur við nýsköpun í heilbrigðistækni, líftækni og matvælaframleiðslu getur byggst á jarðvarma og öðrum náttúrulegum auðlindum svæðisins. Með markvissri stefnumörkun og fjárfestingaráætlunum er mögulegt að laða að frumkvöðla og fyrirtæki sem leggja áherslu á umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir. Þannig skapast fjölbreyttara atvinnulíf sem þjónar samfélaginu á margþættan hátt og styrkir efnahagslega sjálfbærni Suðurkjördæmis til framtíðar.

Framtíðin er ábyrg nýting – fyrir samfélagið og komandi kynslóðir

Við skulum gera kröfur um ábyrga og fjölbreytta nýtingu auðlinda í Suðurkjördæmi, þar sem nýsköpun, sjálfbærni og hringrásarhagkerfi ganga hönd í hönd. Með því að skapa tækifæri fyrir fjölbreytt störf og verðmætasköpun tryggjum við að auðlindir okkar þjóni samfélaginu á margbreytilegan hátt. Þetta er framtíðin sem við stefnum að – framtíð þar sem landsbyggðin blómstrar og auðlindir okkar eru nýttar á ábyrgan hátt til hagsbóta fyrir alla.

Halla Hrund Logadóttir og Fida Abu Libdeh eru fyrrverandi orkumálastjóri, orku- og umhverfistæknifræðingur og skipa 1. og 4. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Categories
Fréttir Greinar

Ein­hver sú besta for­vörn sem við eigum

Deila grein

10/11/2024

Ein­hver sú besta for­vörn sem við eigum

Öflugt og fjölbreytt félagsstarf í heimabyggð skapar grunn fyrir einstaklinga til að blómstra og gefa af sér til samfélagsins. Ein af stóru spurningunum sem við skulum ávallt hafa í huga er „Hvernig get ég gefið af mér til samfélagsins?“ Mér þykir ekkert sjálfsagðara en að gefa af mér til samfélagsins sem ól mig upp og mótaði mig. Mín leið til að gefa af mér til samfélagsins hefur fram að þessu fyrst og fremst verið í gegnum ungmennafélagshreyfinguna.

Að mínu mati er ungmennafélagshreyfingin eitthvað það besta sem við eigum í íslensku samfélagi. Út um land allt vinnur hreyfingin ómetanlegt starf sem styrkir og eflir samfélögin með frábæru og fjölbreyttu félags- og íþróttastarfi. Störf sem oft á tíðum eru unnin í sjálfboðavinnu. Enda sjálfboðaliðinn eitthvað það mikilvægasta sem til er í hverju samfélagi.

Skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf er svo frábært á margan hátt en þar eru veigamestu þættirnir efling félagslegrar, andlegrar og líkamlegrar heilsu. Það er því afar mikilvægt að auka þátttöku barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Samhliða því þarf að tryggja að öll börn geti stundað félags- og íþróttastarf. Í þessu samhengi munu ný stofnaðar svæðisstöðvar Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) um land allt gegna lykilhlutverki. Verkefni sem Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, leiddi af mikilli snilld.

Eitt af megin verkefnum svæðisstöðvanna er að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi. Þar er sérstaklega horft til fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna af erlendum uppruna. Stofnun svæðisstöðva er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ og stjórnvalda og er jafnframt einn liður í því stóra verkefni sem stjórnvöld vinna að í lögum um farsæld barna.

Einnig má líta á stofnun svæðisstöðvanna sem mikilvægt byggðaþróunarmál, þá sérstaklega fyrir minni byggðarlög sem reiða sig á fáar hendur í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Svæðisstöðvarnar munu styðja við og þar af leiðandi efla félög á hverjum stað. Ef samfélag ætlar að vaxa þarf ákveðin þjónusta að vera til staðar. Eitt af því fyrsta sem fjölskyldufólk horfir til er hvaða tómstundir eru í boði fyrir börnin. Þess vegna skiptir miklu máli að styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf um land allt.

Stuðningur við ungmennafélagshreyfinguna má ekki vera vanmetin, hann skilar sér margfalt til baka í blómlegra og heilbrigðara samfélagi. Þessi stuðningur hefur kannski aldrei verið mikilvægari en núna enda skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf einhver sú besta forvörn sem við eigum í íslensku samfélagi.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, starfar sem íþrótta- og æskulýðsfulltrúi og skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ís­lenskur land­búnaður er ekki að­eins arf­leifð heldur líka fram­tíð okkar Ís­lendinga

Deila grein

09/11/2024

Ís­lenskur land­búnaður er ekki að­eins arf­leifð heldur líka fram­tíð okkar Ís­lendinga

Íslenskur landbúnaður er ekki aðeins hluti af arfleifð okkar heldur einnig ómissandi þáttur í framtíð landsins, sjálfstæði og fæðuöryggi þjóðarinnar. Hann er grunnstoð blómlegrar byggðar og efnahagslegs stöðugleika fyrir komandi kynslóðir, auk þess að vera burðarás í sjálfbærni og loftslagsaðgerðum. Hann er samofinn menningu okkar og styður beint við vaxandi greinar líkt og ferðaþjónustu sem til langs tíma hvílir á náttúrufegurð landsins og braðgóðum mat úr héraði. Öflugur og fjölbreyttur landbúnaður er líka undirstaða heilsu og velferðar, þar sem heilnæmi innlendrar framleiðslu stuðlar að langlífi og vellíðan þjóðarinnar.

Stuðningur við landbúnað í takt við hagsmuni almennings

Með því að efla landbúnaðinn og sýna honum þann metnað sem hann á skilið, tryggjum við framtíð landsins okkar á fjölþættan hátt. Það er metnaður og markmið sem ætti að sameina okkur öll. Til að ná slíkri framtíðarsýn er nauðsynlegt að við leggjum rækt við þau skilyrði sem bændur þurfa til að starfa af öryggi og árangri. Þeir þurfa hagstæðari fjármögnunarskilyrði, betri afkomu, hvata fyrir nýliðun og stuðning við sjálfbærar ræktunaraðferðir. Þetta er lykilatriði á tímum þar sem fólki fjölgar en bændum fækkar og hlutfall innflutnings matvæla eykst. Tíminn til að snúa vörn í sókn er ekki á morgun – heldur núna. Íslenskur landbúnaður er ekki fortíðin heldur framtíðin – grunnur sem er þjóðinni allri mikilvægur og okkur má ekki standa á sama um heldur ber að hlúa að.

Landbúnaðarland er takmörkuð auðlind

Landbúnaðarland er takmörkuð auðlind, sérstaklega á Íslandi, þar sem náttúruleg skilyrði til ræktunar eru viðkvæm og bundin við ákveðin svæði. Góðar jarðir eiga að fá þá virðingu sem verðmæt auðlind á skilið og lög og stefnumótun ættu að endurspegla það. Þetta er sérlega mikilvægt nú, þar sem samkeppni um landnotkun eykst stöðugt. Það birtist í tugum vindorkuverkefna sem áhugi er á að reisa um allt land. Við sjáum það í jarðarkaupum til kolefnisbindingar sem munu færast enn í aukana. Við sjáum það í ásókn í auðlindaríkar jarðir vegna jarðhita og vatns. Og við sjáum það í metnaði og auknum umsvifum nýrra greina líkt og ferðaþjónustu.

Í þessu samkeppnisumhverfi er mikilvægt að hafa skýra sýn á framtíð landbúnaðarlands, svo þessi sjónarmið verði sterk í heildarmyndinni, ekki út undan. Með því móti má viðhalda framleiðslugetu landsins og tryggja að við getum áfram ræktað og framleitt mat fyrir þjóðina, á sama tíma og stuðlað er að fjölbreyttu atvinnulífi og styrkri byggð um landið.

Þetta kallar á skýran lagaramma og stefnu sem tryggir gæði og varðveislu landbúnaðarlandsins. Í Noregi þurfa erlendir aðilar, bæði innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), að sækja um leyfi til að eignast landbúnaðarland. Með þessari nálgun vinna Norðmenn að því að tryggja að landbúnaðarland haldist í innlendri nýtingu, með sjálfbærni og fæðuöryggi þjóðarinnar að leiðarljósi. Við Íslendingar ættum að taka þessa hugsun til fyrirmyndar í okkar eigin stefnumótun.

Langtímahugsun lykilatriði

Ég hef áður fjallað um mikilvægi þess að móta skýra stefnu um jarðakaup erlendra aðila (sjá Jarðakaup í nýjum tilgangi). Við þurfum að viðhalda langtímahugsun og finna lausnir þar sem nýting náttúruauðlinda þjónar almannahagsmunum. Ólík nýting getur vel farið saman án þess að ganga á rétt hvors annars. Bújarðir eiga að vera metnar sem samfélagslega verðmætar auðlindir, ekki sem söluvörur fyrir hvern sem er og hvað sem er. Samhliða þessu þarf að skapa skilyrði sem gera landbúnaðinn að eftirsóttum starfsvettvangi, fullan af nýsköpun og krafti metnaðarfulls fólks um allt land.

Þannig getum við byggt sjálfbæran grunn fyrir íslenskan landbúnað, sem mun bæði þjóna komandi kynslóðum og skapa örugg og góð störf fyrir ungt fólk sem vill helga sig búskapnum. Landbúnað sem við erum öll stolt af og er í sókn á Íslandi um ókomna tíð.

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri og skipar 1. sæti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn setur heimilin í fyrsta sæti

Deila grein

08/11/2024

Fram­sókn setur heimilin í fyrsta sæti

Kæri lesandi.

Þann 30. nóvember göngum við að kjörborðinu og veljum okkur fólk til að vera í forystu fyrir íslenskt samfélag næstu fjögur ár. Í þessum kosningum leggjum við í Framsókn þann árangur sem flokkurinn hefur náð í dóm kjósenda og leggjum fram stefnu okkar og framtíðarsýn fyrir íslenskt samfélag. Í þessari grein fjalla ég um hugmyndir okkar um heimilin.

Hagsmunir heimilanna

Frá því ég tók við stjórnartaumunum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hef ég lagt mikla áherslu á að horft verði á efnahagsmálin út frá hagsmunum heimilanna. Þar eru húsnæðismálin í aðalhlutverki. Á síðustu árum hefur Framsókn byggt upp húsnæðiskerfi að norrænni fyrirmynd þar sem áhersla er lögð á að það séu grundvallarréttindi allra að hafa öruggt þak yfir höfuðið. Sterkari rammi utan um leigumarkaðinn með skýrari réttindum leigjanda er eitt af því sem náðst hefur fram á síðustu árum. Það markaði tímamót þegar Framsókn setti fram fyrstu húsnæðisstefnu sem var samþykkt á þingi síðasta vor og felur í sér umbætur sem ég hef tekið eftir að hafa meira að segja ratað inn í loforðalista annarra flokka. En eins og sagt var í minni sveit: Það er ekki eftir það sem búið er.

Árangur í baráttunni við verðbólgu

Þegar ég settist í stól fjármála- og efnahagsráðherra var það þrennt sem ég lagði megináherslu á. Í algjörum forgangi var að sigrast á verðbólgu með ábyrgum ríkisfjármálum og erum við strax farin að sjá árangurinn af stefnu ríkisstjórnarinnar með lækkun stýrivaxta. Ég lagði einnig mikla áherslu á að leita leiða til að lækka vaxtakostnað ríkisins. Þessi fyrstu tvö áherslumál skipta allan almenning miklu máli en hið þriðja er þó ekki síður mikilvægt: Að skapa grundvöll fyrir óverðtryggð húsnæðislán með lágum föstum vöxtum til lengri tíma.

Evran ekki möguleg án inngöngu í ESB

Það hefur ekki farið fram hjá neinum síðustu áratugina að þegar verðbólga vex og vextir hækka verulega þá hefst hávær umræða um upptöku nýs gjaldmiðils. Það er auðvitað eðlilegt að fólk vilji leita leiða til að auðvelda sér mánaðamótin. Og því er ekki að neita að þeir vextir sem við búum við í dag eru ekki ásættanlegir. Það verður þó að hafa í huga í umræðum um verðbólgu og vexti að upptaka evru er hvorki ákjósanleg og það sem augljósara er, ekki möguleg nema með inngöngu í Evrópusambandið og öllu því sem það ferðalag felur í sér.

Svarið við hárri verðbólgu er leiðinlegt því svarið er einfaldlega ábyrgari hagstjórn.

Óverðtryggð íbúðalán á föstum vöxtum til langs tíma

Fyrir nokkru setti ég af stað vinnu sem miðar að því að skapa grundvöll fyrir því að íslensk heimili geti tekið óverðtryggð húsnæðislán til lengri tíma á föstum hagstæðum vöxtum. Þessi vinna er nú á fyrsta stigi en þó ljóst að til eru leiðir sem gera þetta mögulegt. Við erum nefnilega ekki ein í heiminum og getum lært af nágrannaþjóðum þegar að þessum mikilvæga málaflokki kemur.

Stóra myndin er sú að bankar geta fjármagnað húsnæðislán á óverðtryggðum vöxtum til lengri tíma en þeir bjóða upp á í dag. Með breyttum reglum og þróaðri fjármálamarkaði er hægt að auðvelda bönkum að bjóða upp á slík lán. Stjórnvöld geta bætt regluverkið og liðkað fyrir á fjármálamarkaði til að tryggja hvoru tveggja, líkt og gert er í nágrannalöndum okkar. Slíkt fyrirkomulag er þekkt og ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að tryggja hér á landi. Það er hagsmunamál heimilanna að festa vaxtakjör til lengri tíma þannig að húsnæðislántakendum sé ekki refsað afurvirkt þegar vextir hækka. Fyrirsjáanleiki við fjármögnun húsnæðis skiptir heimilin máli.

Ódýrari matarkarfa

Matarinnkaup eru stór hluti af heimilsbókhaldinu og hefur fólk fundið fyrir hækkunum á henni síðustu misserin. Virðisaukaskattur á matvæli er nú 11%. Við í Framsókn viljum lækka matarreikning heimilanna og lækka virðisaukaskatt á matvælum.

Lækkun mun einnig hafa jákvæð áhrif á matvælaframleiðslu í landinu. Mikilvægt er að ná fullum tökum á verðbólgunni áður en kemur að lækkun. Framsókn horfir til þess að lækkunin komi fram um mitt kjörtímabil.

Réttlátari húsnæðismarkaður

Sá fyrirsjáanleiki sem fylgir óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum til langs tíma er mikilvægur þegar kemur að húsnæðismarkaðnum. Til að skapa réttlátari húsnæðismarkað viljum við í Framsókn byggja á því norræna húsnæðismódeli sem flokkurinn hefur fært í lög á síðustu árum. Við viljum auka fjármagn til hlutdeildarlána til að ungt fólk og tekju- og efnaminna geti eignast húsnæði með þátttöku ríkisins. Hlutdeildarlánin virka þannig að ríkið að gefnum ákveðnum skilyrðum eignast 20% í íbúðinni og þurfa einstaklingar þá einungis að reiða fram 5% af húsnæðisverði til að eignast þak yfir höfuðið.

Við höfum á síðustu árum horft fram á framboðsvanda á húsnæðismarkaði. Allt að þriðjungur nýbygginga síðustu misserin hefur verið reistur fyrir tilstuðlan hins opinbera í gegnum hlutdeildarlánakerfið og almenna íbúðakerfið. Við viljum í samstarfi við sveitarfélög auka framboð, ekki ólíkt því sem er í bígerð í Reykjanesbæ þar sem ríkisland er nýtt til að byggja 800 íbúðir. Þá viljum við stuðla að uppbyggingu hagkvæmar íbúða með sérstökum skattalegum hvötum til húsbyggjenda líkt og lagt er til í nýrri skýrslu Gylfa Zoega og Sigurðar Jóhannessonar um stöðu efnahagsmála.

Við í Framsókn munum á næstu dögum og vikum kynna betur áherslur okkar og sýn fyrir framtíðina. Hægt er að kynna sér stefnu okkar á xb.is

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Allt mannanna verk – orkuöryggi á Ís­landi

Deila grein

08/11/2024

Allt mannanna verk – orkuöryggi á Ís­landi

Raforka er ein af grunnþörfum okkar samfélags og er afhendingaröryggi raforku ekki aðeins grundvallarþjónusta heldur einnig lykilþáttur í daglegu lífi landsmanna og í efnahagslegum vexti og velferð landsins. Það hefur varla vafist fyrir neinum að það sé skortur á raforku hér á landi, sem hamlar frekari vexti og veldur áhyggjum sérfræðinga. Þeir hafa í langa hríð bent á að næstu ár gætu orðið erfið vegna hugsanlegra raforkuskerðinga og takmarkaðs framboðs á raforku.

Leyfum staðreyndum að segja söguna

Umræða um orkumál hefur breyst á undanförnum árum. Sú orðræða að hér sé til næg raforka er að snúast upp í andhverfu sína og einstaklingar og fyrirtæki eru að átta sig á því að það þarf aukna raforku ef við viljum sjá samfélagið okkar vaxa og dafna. Raforka er ríflega fjórðungur þeirrar orku sem notuð er á Íslandi ef miðað er við frumorkunotkun, en innflutt olía er um 15% af orkunotkun á Íslandi. Við erum langt frá því að vera sjálfstæð í orkumálum þegar við notum olíu fyrir meira en 100 milljarða árlega til að knýja verðmætaskapandi starfsemi. Já, það er rétt að heimilin nota einungis um 5% raforkunnar, og tryggja þarf að heimilin fái áfram raforku á sanngjörnu og viðráðanlegu verði. Hins vegar má verðið ekki vera svo lágt að mikil sóun verði í kerfinu þar sem við göngum að raforkunni sem vísri. Hins vegar er það yfirlýst markmið okkar að heimili, ásamt smærri fyrirtækjum, hafi ávallt greitt aðgengi að raforku þó svo að það komi til skerðinga, en í slíkum tilfellum eru það stórnotendur sem líða skerðinguna.

Undanfarin ár hefur staðan í lónum verið lægri en oft áður, sem hefur kallað á tíðari og lengri skerðingar gagnvart stórnotendum. Sumir myndu segja, „er það ekki allt í lagi? Fyrirtækin mega alveg við því,“ og gera líklega ráð fyrir því þar sem þau eru með samning um skerðanlega raforku, sem er mjög mikilvægur til að fullnýta kerfið okkar.

Skerðingar hafa afleiðingar

Í mínum huga snýst þetta um hvernig samfélag við viljum búa í. Frekari skerðingar á stórnotendur hafa afleiðingar. Framleiðsla minnkar samhliða því að útflutningur minnkar, sem leiðir til þess að útflutningstekjur lækka. Vegna skerðinga á afhendingu raforku á fyrri hluta ársins töpuðust útflutningstekjur upp á 14-17 milljarða króna. Í þessu ástandi neyðast fyrirtæki eins og fiskimjölsverksmiðjur til að keyra starfsemi sína áfram á olíu.

Sviðsmyndin er einföld; græn orka út og mengandi orka inn = öfug orkuskipti og glötuð tækifæri til atvinnuuppbyggingar.

Skortur á raforku hefur því víðtæk áhrif, ekki síst á atvinnulífið á landsbyggðinni, þar sem mikilvægar þjónustugreinar treysta á stöðuga raforkuafhendingu. Með því að tryggja fyrirtækjum stöðugan aðgang að endurnýjanlegri raforku tryggjum við tækifæri til frekari vaxtar um land allt, sinnum skyldum okkar gagnvart markmiðum í loftlagsmálum og verðum minna háð sveiflum í alþjóðlegu orkuverði.

Aðgerðir fyrir framtíðina

Það er ýmislegt sem þarf að gera til að afstýra skorti á raforku og tryggja áframhaldandi vöxt.

Við þurfum að huga að eflingu flutningskerfisins. Sterkara og öflugra flutningskerfi tryggir öruggan flutning raforkunnar um land allt og gerir okkur kleift að besta heildarnýtingu raforkukerfisins.

Við þurfum að draga úr sóun. Við þurfum að bera virðingu fyrir auðlindunum okkar og nýta þær skynsamlega til að draga úr losun og stuðla að sjálfbærni.

Við þurfum að leysa flækjur hvað varðar feril framkvæmda frá umsókn alveg til nýtingar. Það er brýnt að næsta ríkisstjórn taki til og einfaldi leyfisveitingaferli fyrir virkjanir, sem er orðið allt of flókið og tímafrekt. Rafræn þjónusta og samræmd vefgátt leyfisveitinga myndu spara tíma og auka skilvirkni. Slík aðgerð er nauðsynleg

Við þurfum að auka orkuframleiðslu á Íslandi. Við búum við aragrúa tækifæra hér á landi og við eigum að nýta möguleika vatnsafls, vindorku, jarðvarma og nýrrar tækni sem gæti opnað dyr að nýjum orkuöflum. Auka þarf framboð nýrra virkjana, halda áfram með fyrstu skrefin í vindorku. Marka þarf stefnu í vindorkumálum en mikilvægt er að huga að staðsetningu vindorkuvera og horfa frekar til færri staða en fleiri. Um leið þurfum við að átta okkur á því að þó vindorkan hjálpi til, þá er hún ekki endanleg lausn við framboðsskorti á raforku, enda þarf að sveiflujafna hana að hluta til með fyrirsjánlegu afli, en þar er vatnsaflið raunhæfasti kosturinn.

Framsókn vinnur í þágu framtíðarinnar

Í ljósi breytinganna sem við sjáum í heiminu í dag er ljóst að tíminn til aðgerða er núna. Hvert þreif í átt að sjálfbærum orkuskiptum og orkuöryggi skiptir öllu máli fyrir framtíð okkar og láta okkur í té að lifa í samfélagi sem er ekki aðeins sterkt heldur einnig tilbúið að mæta áskorunum tímans. Við þurfum að standa saman og hlusta á sérfræðinga á sviði orkumála, til að tryggja nægt framboð á raforku, orkuöryggi og gæði raforu til framtíðar. Orkumál okkar eru ekki aðeins tal um megavött og gígavattstundir heldur grundvallarþáttur sem hefur áhrif á alla þætti lífsins.

Við í Framsókn erum reiðubúin til þess að standa vörð um og efla orkuöflun landsins. Slík verkefni skapa ekki aðeins störf, heldur stuðla að auknu orkuöryggi sem hefur jákvæð áhrif á hagkerfið í heild sinni.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og oddviti lista flokksins í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Húsnæðismál eru hagstjórnarmál

Deila grein

07/11/2024

Húsnæðismál eru hagstjórnarmál

Stærsta verk­efni efna­hags­stjórn­ar­inn­ar er að ná niður vöxt­um og verðbólgu. Það hef­ur verið ánægju­legt að sjá aðgerðir til að ná niður verðbólgu skila ár­angri. Þannig hef­ur hún lækkað úr 10,2% þegar hún mæld­ist hæst, niður í 5,1%. Síðasta vaxta­ákvörðun Seðlabank­ans var já­kvætt skref í átt að lægri vöxt­um, en lægri vext­ir eru stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja. Það hef­ur eng­um dulist að hús­næðisliður­inn hef­ur vegið þungt í verðbólgu­mæl­ing­um und­an­far­in miss­eri en vísi­tala neyslu­verðs án hús­næðis var um 2,8% í síðustu mæl­ingu.

Ýmsu hef­ur verið komið til leiðar á und­an­förn­um árum í hús­næðismál­um. Þannig hef­ur ríkið til dæm­is stutt mynd­ar­lega við upp­bygg­ingu í al­menna íbúðakerf­inu með stofn­fram­lög­um sem eru ætluð til að treysta hús­næðis­ör­yggi og tryggja viðráðan­leg­an hús­næðis­kostnað tekju­lægri heim­ila. Hlut­deild­ar­lán­un­um var einnig komið á, sem nýt­ast til dæm­is fyrstu kaup­end­um. Hús­næðisstuðning­ur fyr­ir for­eldra í leigu­hús­næði var auk­inn. Sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur, sam­tals upp á 5,5 ma. kr., var greidd­ur út 2024 vegna vaxta­gjalda af íbúðalán­um 2023, en stuðning­ur­inn náði til 56 þúsund ein­stak­linga. Heim­ild­ir líf­eyr­is­sjóða til fjár­fest­inga í íbúðar­hús­næði voru rýmkaðar veru­lega. Hús­næðis­ör­yggi og rétt­arstaða leigj­enda var auk­in með breyt­ingu á húsa­leigu­lög­um. Sveit­ar­fé­lög fengu aukn­ar heim­ild­ir til að tíma­binda upp­bygg­ing­ar­heim­ild­ir til að tryggja að bygg­ingaráform gangi eft­ir. Rekstr­ar­leyf­is­skyld gist­ing í íbúðar­hús­næði var gerð óheim­il og eft­ir­lit með heimag­ist­ingu aukið.

Þrátt fyr­ir að mikið hafi verið byggt á und­an­förn­um árum og hlut­fall þeirra sem eiga eigið hús­næði aldrei verið hærra, þarf að byggja meira. Þar skipt­ir höfuðmáli að tryggja næg­ar bygg­ing­ar­hæf­ar lóðir í sveit­ar­fé­lög­um, sér­stak­lega á höfuðborg­ar­svæðinu. Ríki og sveit­ar­fé­lög hafa verið að taka hönd­um sam­an með þetta að mark­miði. Má þar nefna að Reykja­vík reið á vaðið og und­ir­ritaði tíma­móta­samn­ing við ríkið um hús­næðis­upp­bygg­ingu um 16.000 íbúða á næstu 10 árum, eða allt að 2.000 íbúða á ári næstu fimm árin. Í borg­inni hafa hús­næðis- og lóðamál verið sett í for­gang með Fram­sókn í broddi fylk­ing­ar, meðal ann­ars með því að ryðja nýtt land. Má til dæm­is nefna nýj­ar lóðir sem unnið er að á Kjal­ar­nesi og í Úlfarsár­dal ásamt Keldna­land­inu, sem er í um­hverf­is­mati, en um 2.600 íbúðir eru í bygg­ingu í borg­inni og um 12.000 íbúðir eru á lóðum sem eru í skipu­lags­ferli. Slík skipu­lags­vinna á hendi sveit­ar­fé­lag­anna verður að ganga smurt fyr­ir sig enda er verk­efnið fram und­an að tryggja að upp­bygg­ingaráform raun­ger­ist. Hag­stæðari fjár­mögn­un­ar­kostnaður sem mun fylgja lækk­andi stýri­vöxt­um skipt­ir einnig höfuðmáli í því sam­hengi. Hús­næðismál eru stórt hag­stjórn­ar­mál og á hús­næðismarkaði þarf að ríkja heil­brigt jafn­vægi. Aukið fram­boð á hús­næði er lyk­ill­inn að auknu jafn­vægi á markaðnum í dag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Við erum að ná árangri

Deila grein

07/11/2024

Við erum að ná árangri

Íslensku menntaverðlaunin heiðra þau sem eru leiðandi í íslensku skólasamfélagi. Einstökum fyrirmyndum er veitt sú viðurkenning sem þau eiga skilið og mikilvægu framlagi þeirra til menntamála á Íslandi er fagnað. Þau sem hljóta verðlaunin gegna lykilhlutverki í að styrkja eldmóð og hvatningu allra þeirra sem vinna að uppbyggingu og þróun menntakerfisins hér á landi.

Tilnefningar til verðlaunanna í ár endurspegla þá nýsköpun og metnað sem einkennir íslenskt skólasamfélag – ekki síst þá elju og fagmennsku sem kennarar um land allt sýna á degi hverjum. Þannig minna verðlaunin okkur á það grundvallarhlutverk sem kennarar gegna í íslensku samfélagi, sem hjarta menntakerfisins.

Íslensku menntaverðlaunin 2024 varpa skýru ljósi á þá þróun og fjölbreytni sem íslenskt menntakerfi hefur tileinkað sér. Fellaskóli hlaut verðlaunin fyrir framúrskarandi starf með börnum af erlendum uppruna, þar sem áhersla er lögð á tengsl við fjölskyldur og jöfn tækifæri fyrir alla nemendur til að njóta sín og þróa hæfileika sína. Verkefnið endurspeglar virði fjölmenningar og veitir öðrum skólum innblástur til að styðja fjölbreyttan nemendahóp á eigin forsendum.

Verkmenntaskólinn á Austurlandi fékk verðlaun fyrir verkefni sem opnar grunnskólanemendum dyr að fjölbreyttu iðn- og verknámi framhaldsskólans, og stuðlar þannig að sveigjanleika og tengingu við atvinnulífið. Kennarinn Hrafnhildur Sigurðardóttir í Sjálandsskóla hlaut verðlaunin fyrir nýstárlegar kennsluaðferðir í útinámi, þar sem hún leggur áherslu á tengsl við náttúru og samvinnu við nemendur. Helgafellsskóli fékk verðlaun fyrir verkefnið Snjallræði, þar sem nemendur á öllum skólastigum takast á við skapandi hönnunaráskoranir sem þjálfa þá í gagnrýninni hugsun og hópvinnu. Hvatningarverðlaun hlutu Bergmann Guðmundsson, verkefnisstjóri við Brekkuskóla og Hans Rúnar Snorrason, kennari við Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit. Þeir hafa með leiðsögn og stuðningi eflt kennara og nemendur um allt land til að nýta upplýsingatækni á markvissan hátt. Framlag þeirra styrkir kennsluhætti og eykur færni skólanna í að nota tæknina á skapandi og gagnlegan hátt, sem er mikilvægt fyrir framtíð íslenskrar menntunar.

Íslensku menntaverðlaunin minna okkur á að við þurfum menntakerfi sem horfir fram á veginn, ekki til fortíðar. Við þurfum kerfi sem tekur mið af fjölbreyttum nemendahópum, sveigjanleika í námsleiðum og kennsluaðferðum sem henta samfélagi í hraðri þróun. Hugmyndir um gamaldags kennsluhætti, aðgreiningu nemenda eða samræmd próf sem meta færni nemenda örfáum sinnum yfir námsferilinn eru ekki þær lausnir sem undirbúa börnin okkar fyrir þann breytilega heim sem mun mæta þeim.

Umræða um skólakerfið hefur verið hávær síðustu misserin, ég fagna því að fleiri stjórnmálaflokkar séu loksins að átta sig mikilvægi þess að fjárfesta tíma og fjármunum í börnin okkar. Á sama tíma hef ég áhyggjur af skammsýnum hugmyndum, einfeldningslegum lausnum á flóknum áskorunum sem byggja á úreltri hugmyndafræði og draga okkur áratugi aftur í tímann.

Skólinn er staður fyrir öll börn, hann er okkar helsta og mikilvægasta jöfnunartæki. Horfum til framtíðar!

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og skipar 1. sæti fyrir Framsókn í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á að banna rauða jóla­sveininn?

Deila grein

06/11/2024

Á að banna rauða jóla­sveininn?

Það er virkilega ánægjulegt að þrumuræða Sigurðar Inga í leiðtogaumræðum á RÚV hafi vakið fólk til umhugsunar um hvert umræðan um útlendingamál er komin, þar sem öllu er blandað saman.

Framsóknarfólk um land allt hefur haft miklar áhyggjur af vaxandi kröfum Sjálfstæðismanna er snýr að þessum málaflokki, aðgreiningu barna í skólum og flóttamannabúðir. Það er eins og það sé komin einhver keppni við Miðflokkinn, sem toppaði vitleysuna einmitt í tíðræddum þætti með orðunum um að við „ættum ekki að hjálpa Rússum að tæma Úkraínu“, ég skil vel að langlundargeð Sigurðar Inga hafi sprungið.

Að auki höfum við horft upp á það að Flokkur fólksins hefur ýjað að því að skella í lás á landamærunum og að við hverfum algjörlega frá því að taka á móti fólki í neyð. Sömuleiðis hefur daður Samfylkingar og Kristrúnar Frostadóttur við auknar kröfur komið okkur á óvart.

Lítið vandamál í stóra samhenginu

Svo því sé haldið til haga þá er Framsóknarfólk ekki að tala um að galopna landamærin eða gefa einhvern afslátt af öryggi og löggæslu í landinu, nú eða leggja ekki áherslu á íslenskukennslu og menningu þjóðar. Því fer fjarri. Það er brýnna nú en oft áður að auka löggæslu og efla gæslu á landamærum. Í því verkefni megum við engan tíma missa.

25% þjóðarinnar eru annað hvort innflytjendur eða íslenskir ríkisborgarar sem eru afkomendur innflytjenda að öllu eða sumu leyti. Það er nú bara þannig að 98% þeirra sem hafa komið til landsins á undanförnum árum er fólk frá Evrópu sem kemur hingað að vinna í gegnum EES samninginn og síðan eru það 2% sem koma frá stríðshrjáðum svæðum. Staðreyndin er sú að einungis 0,24% er að koma annars staðar frá. Hluti þeirra sem koma ekki frá Evrópu gegnum EES eða frá Úkraínu er síðan fólk sem t.d. giftist hingað til lands og kemur frá löndum eins og Bandaríkjunum, Argentínu, Filipseyjum og Ástralíu bara svo eitthvað sé nefnt.

Þurfum að bregðast við, þegar þörf er á

Alvarleiki umræðunnar, sem hefur fengið að vaxa óáreitt, felst í því að setja alla undir sama hatt og tala um eitthvað stórkostlegt útlendingavandamál. Við sættum okkur ekki lengur við að þessi stóri hópur sé gerður hornreka í íslensku samfélagi og talað um sem eitthvert vandamál . Við þurfum að aðgreina umræðuna. Við þurfum að bregðast við, þar sem þörf er á. Það á ekki við um þau 98% sem hingað hafa komið á undanförnum árum, eru í vinnu og borga til samfélagsins skatta og gjöld. Það á ekki við um þá sem hingað hafa komið frá stríðshrjáðum svæðum og Alþingi Íslendinga samþykkti samróma að opna landamærin fyrir, eins og nágranna þjóðir okkar gerðu.

Við þurfum að bregðast við þeim áskorunum sem eru í hælisleitendakerfinu okkar en í kjölfar nýrrar lagasetningar hefur kostnaður í þeim málaflokki farið úr 28 ma.kr. á ári í 14 ma.kr., fer hratt lækkandi og umsóknum hefur fækkað verulega.

Við eigum að hafa stjórn á landamærunum en ekki loka þeim. Við eigum að taka við fólki frá stríðshrjáðum löndum, sérstaklega börnum og þeirra foreldrum sem þrá frið. Við eigum að gefa öllum börnum tækifæri á að læra tungumálið, eignast vini og verða hluti af samfélaginu en ekki aðskilja þau frá „okkar“ börnum eins og þau séu ekki þess verðug að vera með „okkar“ börnum.

Aðrir menningarheimar

Þrumuræða Sigurðar Inga féll ekki af himnum ofan, heldur endurspeglar hún vaxandi áhyggjur meðal Framsóknarfólks með umræðuna í samfélaginu. Meðan aðrir flokkar hafa ekki viljað styðja okkur í að leggja meira fjármagn til menningar og tungu íslensku þjóðarinnar þá hafa þeir haft miklar áhyggjur af „blöndun menningarheima“, hvað sem það á nú að vera. Munum að við erum jú þjóð innflytjenda frá Norðurlöndum, Bretlandi og Írlandi. Samvinnuhjarta Framsóknarfólks slær með menningu þjóðarinnar, en rétt eins og við eigum okkar jólasveina, Grýlu og Leppalúða, þá höfum við líka tekið á móti rauða jólasveininum. Í raun er það þannig að rétt eins og menningarstraumar fljóta um heiminn og auðga líf okkar, þá kemur fólk líka til Íslands sem auðgar menningu okkar og líf.

Rétt eins og okkur dettur ekki í hug að banna rauða jólasveininn þá á okkur ekki að detta í hug að banna fólki af erlendum uppruna að koma og njóta þess að búa á Íslandi. Er ekki bara best að búa á Íslandi? Síðustu ár hafa Íslendingar líka snúið aftur heim í meira mæli en frá landinu og eitthvað hlýtur það að segja okkur.

Það er ekki útlendingavandamál á Íslandi, heldur tækifæri til að vaxa sem þjóð í auðlegð og menningu.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður og oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. nóvember 2024.