Categories
Greinar

Iðkun rafíþrótta og velferð barna

Deila grein

09/04/2025

Iðkun rafíþrótta og velferð barna

Rafíþrótt­ir og fram­gang­ur þeirra hér á landi hef­ur mér hjart­ans mál um langt skeið og í dag mun ég mæla fyr­ir til­lögu okk­ar í Fram­sókn um stofn­un stýri­hóps sem mun hafa það mark­mið að marka stefnu borg­ar­inn­ar varðandi rafíþrótt­ir og iðkun þeirra.

Rafíþrótta­hreyf­ing­in hef­ur það að mark­miði líkt og aðrar íþrótta­hreyf­ing­ar að stuðla að betri heilsu og bættri and­legri líðan barna, sem ég veit fyr­ir víst að skipt­ir alla Íslend­inga máli. Með þetta að leiðarljósi hafa rafíþrótta­fé­lög hér á landi náð að laða til sín um 3.500 iðkend­ur á grunn­skóla­aldri.

Fé­lög sem starf­rækja rafíþrótta­deild­ir núna í Reykja­vík eru Fylk­ir og Ármann. KR starf­rækti hér deild í stutt­an tíma en hún varð frá að hverfa vegna fjár­magns­leys­is og er mik­il eft­ir­sjá að henni.

Um­hverfi rafíþrótta er að mörgu leyti erfitt hér á landi. Starf­semi rafíþrótta­fé­laga hef­ur mætt skiln­ings­leysi hjá for­svars­mönn­um ÍSÍ og hef­ur Reykja­vík­ur­borg ekki enn markað sér stefnu um rafíþrótt­ir og iðkun þeirra meðal barna og ung­linga, þrátt fyr­ir að ÍBR hafi samþykkt að rafíþrótt­ir til­heyri sínu sviði og komið því þannig fyr­ir að keppt er í rafíþrótt­um á Reykja­vík­ur­leik­un­um.

Þessu þarf að breyta og því vill Fram­sókn að Reykja­vík­ur­borg taki þetta mál föst­um tök­um og marki sér stefnu í rafíþrótt­um og iðkun þeirra.

Rök­in fyr­ir því að borg­in taki upp sér­staka stefnu í þess­um mála­flokki eru ein­föld. Með skýrri stefnu um rafíþrótt­ir fyr­ir börn væri stuðlað að því að virkja fjölda af krökk­um sem eru ekki í neinu skipu­lögðu íþrótt­a­starfi eða hafa sýnt lít­inn áhuga á slíku.

Frá stofn­un Rafíþrótta­sam­bands Íslands (RÍSI) hef­ur Fram­sókn stutt dyggi­lega við upp­bygg­ingu skipu­lagðrar starfs­semi rafíþrótta. Ég tel nauðsyn­legt að halda þeirri veg­ferð áfram og tryggja að við náum til stærri hóps krakka með fjöl­breytt­ari nálg­un í íþrótta- og tóm­stunda­mál­um.

Frá­bær und­ir­bún­ing­ur fyr­ir framtíðina

Í ung­dómi Íslands er framtíð lands­ins fal­in og því er það mik­il­vægt mál­efni stjórn­mál­anna að styðja við þroska og hæfi­leika­rækt­un ung­menna. Fjórða iðnbylt­ing­in er haf­in og meiri­hluti þeirra starfa sem nú eru til verður horf­inn eft­ir nokkra ára­tugi. Störf framtíðar­inn­ar munu snú­ast um tölvu­tækni og því er afar mik­il­vægt að börn og ung­ling­ar séu hag­vön að nýta sér hana. Ein vin­sæl­asta dægra­dvöl ís­lenskra krakka og ung­linga er að spila tölvu­spil og geta slík spil bæði gefið þeim tæki­færi til að kynn­ast tölvu­tækni þannig að það nýt­ist þeim á hinum ýms­um sviðum. Iðkun rafíþrótta get­ur kennt börn­um okk­ar að spila tölvu­leiki með ábyrg­um hætti, en eins og ég kom inn á hér að ofan að er mark­mið rafíþrótta­hreyf­ing­ar­inn­ar eins og skil­greint er af Rafíþrótta­sam­bandi Íslands (RÍSÍ) að stuðla að lík­am­legri hreyf­ingu af ýmsu tagi og þjálf­un í taktískri hugs­un og áherslu á and­leg­an und­ir­bún­ing og hollt matræði.

Það hljóm­ar fyr­ir mér eins og frá­bær und­ir­bún­ing­ur fyr­ir framtíðina.

Við stönd­um frammi fyr­ir því verk­efni að mennta okk­ar unga fólk þannig að það og Ísland verði sam­keppn­is­hæft inn í næstu 100 árin og geta rafíþrótt­ir gegnt mik­il­vægu hlut­verki í því sam­bandi.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óboðleg fjármálaáætlun

Deila grein

09/04/2025

Óboðleg fjármálaáætlun

Í síðustu viku lagði rík­is­stjórn­in fram fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2026-2030. Þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar um ábyrgð og gegn­sæi vek­ur áætl­un­in áleitn­ar og al­var­leg­ar spurn­ing­ar um skort á skýr­leika og aðgengi Alþing­is og lands­manna að upp­lýs­ing­um um hvert stefn­ir í fjár­mál­um al­menn­ings og hins op­in­bera næstu ár. Hvaða stofn­an­ir verða lagðar niður? Hver verður stefn­an í gjald­töku auðlinda? Hvar á að hagræða? Hvaða verk­efni á að stöðva?

Blind­flug eða lang­tíma­horf­ur

Í mars 2025 kynnti fjár­málaráðherra skýrslu um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um. Þrátt fyr­ir að veita al­menna yf­ir­sýn um áskor­an­ir næstu ára og ára­tuga fjallaði skýrsl­an því miður hvorki um mik­il­væga þætti eins og vax­andi þrýst­ing frá NATO um hærri út­gjöld til varn­ar­mála, tolla­stríð sem gæti haft áhrif á gengi krón­unn­ar og út­flutn­ing (s.s. ferðaþjón­ustu), né tölu­legt um­fang innviðaskuld­ar sem krefst lang­tíma­fjár­fest­inga. Þessi van­ræksla er mjög baga­leg.

Óljós fjár­mála­stefna

Með sama hætti eru for­send­ur ný­fram­lagðrar fjár­mála­stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar til næstu fimm ára (2026-2030) í besta falli óljós­ar. Eins og í skýrslu fjár­málaráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um, sem birt var í mars, er í fjár­mála­stefn­unni lítið sem ekk­ert fjallað um fyr­ir­huguð auk­in út­gjöld til varn­ar­mála næstu ára, sem ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur þó gefið til kynna, nú síðast um liðna helgi.

Þá er eng­an veg­inn fjallað um mögu­leg nei­kvæð áhrif tolla­stríðs á ís­lenskt efna­hags­líf, sér­stak­lega ferðaþjón­ustu. Útlitið er ekki bjart. Það veit fólk sem starfar í grein­inni. Eng­ar tölu­leg­ar for­send­ur eru lagðar fram í því ljósi, sem vek­ur spurn­ing­ar um hvort for­send­ur hag­stjórn­ar séu rétt­ar, hvort tekju- og út­gjalda­for­send­ur stand­ist og hvort af­komu­mark­mið séu raun­hæf.

Óljós fjár­mála­áætl­un

Svo­kölluð fjár­mála­áætl­un er svo enn einn hluti af gang­verki stefnu­mörk­un­ar hins op­in­bera, og kem­ur í kjöl­far fjár­mála­stefnu. Fjár­mála­áætl­un á að veita Alþingi og al­menn­ingi skýra og inni­halds­ríka mynd af þróun út­gjalda og tekna mál­efna­sviða eins og starf­semi fram­halds­skóla, há­skóla, land­búnaðar, sjáv­ar­út­vegs og heil­brigðismála.

Í áætl­un­inni á að birta áhersl­ur, mark­mið og mæli­kv­arða um starf­semi s.s. á sviði mennta- og heil­brigðismála og sýna for­gangs­röðun næstu fimm árin. Nán­ast eng­in slík mark­mið koma fram. Al­menn­ing­ur get­ur eng­an veg­inn áttað sig á hvað ár­angri rík­is­stjórn­in hyggst ná á fyrr­nefnd­um mál­efna­sviðum, enda vant­ar alla mæli­kv­arða.

Alþingi sjálft veit lítið sem ekk­ert og áætl­un­in upp­fyll­ir með engu móti þær kröf­ur sem gera verður til rík­is­valds­ins um vandaða stefnu­mót­un.

Rétt­ur Alþing­is til grunnupp­lýs­inga

Sam­kvæmt lög­um um op­in­ber fjár­mál á Alþingi rétt á aðgangi að skýr­um gögn­um um mark­mið, mæli­kv­arða, tíma­setn­ing­ar og fjár­mögn­un aðgerða inn­an hvers mál­efna­sviðs sem fjalla á um í grein­ar­gerð með fjár­mála­áætl­un. Án þess­ara upp­lýs­inga get­ur þingið ekki rætt grunn­for­send­ur áætl­un­ar­inn­ar, sem dreg­ur úr getu þess til að sinna eft­ir­lits­hlut­verki sínu. Um hvað á að ræða ef ekk­ert markvert kem­ur fram í fjár­mála­áætl­un næstu ára um mark­mið og mæli­kv­arða í starf­semi mál­efna­sviða?

Hagræðing­ar­til­lög­ur og út­gjalda­stefna

Þá vek­ur meiri hátt­ar at­hygli að nán­ast eng­in efn­is­leg um­fjöll­un er í fjár­mála­áætl­un­inni um hagræðing­ar­til­lög­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem þó voru kynnt­ar op­in­ber­lega ný­lega – og rík­is­stjórn­in hef­ur samþykkt. Ekk­ert ligg­ur fyr­ir um hvernig sparnaður upp á tugi millj­arða króna á ári á að nást næstu fimm ár, hvaða stofn­an­ir eigi að sam­eina eða leggja niður, svo dæmi séu tek­in. Útgjalda­for­send­ur áætl­un­ar­inn­ar eru veru­lega ótrygg­ar. Fólk, þ.m.t. op­in­ber­ir starfs­menn, veit ekk­ert um hvað koma skal.

Gilda mark­mið fyrri rík­is­stjórn­ar frá 2024?

Þar sem nán­ast eng­in mark­mið og mæli­kv­arðar koma fram um starf­semi mál­efna­sviða er rétt­mæt spurn­ing hvort mark­mið síðustu fjár­mála­áætl­un­ar, frá vori 2024, gildi enn og eigi að gilda næstu ár. Ef svo er má spyrja hvernig þau passa við nýja út­gjalda­áætl­un og stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Skýrt ósam­ræmi við lög um op­in­ber fjár­mál

Sam­kvæmt 5. og 20. gr. laga um op­in­ber fjár­mál skal fjár­mála­áætl­un inni­halda skýra stefnu­mörk­un fyr­ir hvert mál­efna­svið, ásamt mark­miðum, mæli­kvörðum, fjár­mögn­un og áætlaðri tíma­setn­ingu aðgerða. Hver sá sem hef­ur grunn­færni í lestri, hvað þá grunn­færni í hag­fræði, veit hvað átt er við. Þar sem þessa efn­isþætti vant­ar upp­fyll­ir fjár­mála­áætl­un 2026-2030 ekki laga­leg­ar kröf­ur. Í stað þess að gang­ast við mis­tök­un­um og bæta úr þeim mæt­ir fjár­málaráðherra og stjórn­arþing­menn ábend­ing­un­um með full­yrðing­um sem í besta falli eru hagræðing á sann­leika máls­ins.

Blind­flugið held­ur áfram

Skort­ur á skýr­leika, gegn­sæi og aðgengi að grunnupp­lýs­ing­um í fjár­mála­áætl­un 2026-2030, sér­stak­lega um starf­semi inn­an mál­efna­sviða s.s. land­búnaðar, sjáv­ar­út­vegs, hjúkr­un­ar­heim­ila og mennta­mála, veld­ur óvissu, dreg­ur úr skiln­ingi al­menn­ings og hagaðila á stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar og veik­ir al­mennt traust á stjórn­völd­um.

Rík­is­stjórn­in verður að gera bet­ur. Til að þing­menn geti sinnt lög­bundnu hlut­verki sínu verða að liggja fyr­ir full­nægj­andi gögn í sam­ræmi við ákvæði laga. Þau eru ekki til staðar og er með öllu óboðlegt að keyra málið áfram með þeim hætti sem gert var síðastliðinn mánu­dag í þing­inu.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Deila grein

07/04/2025

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Það er fátt sem sameinar okkur eins og þegar íslenskt íþróttafólk stígur inn á stóra sviðið erlendis. Flest þekkjum við tilfinninguna þegar við setjumst saman fyrir framan sjónvarpið, klædd í landsliðstreyju, með hjartað í buxunum og full af stolti. Við hvetjum íþróttafólkið okkar áfram, lifum okkur inn í leikinn. Fögnum þegar vel gengur, syrgjum saman og styðjum okkar fólk – sama hvar það er í heiminum. Við stöndum saman sem þjóð.

Dýrmætt starf sjálfboðaliða

En það gleymist stundum að í hvert skipti sem íslenskur íþróttamaður stendur á sviðinu, þá standa ótal sjálfboðaliðar að baki hans – ósýnilegir en ómissandi. Á bak við hvert mark, hverja medalíu og hvern leik liggur þrotlaus vinna sem á sér rætur í hverfinu heima. Á íþróttasvæðinu, í félagsheimilinu, á æfingunni, á mótunum – þar eru sjálfboðaliðarnir mættir til að aðstoða, skipuleggja, keyra, moka snjó af vellinum, setja upp rásir, selja vöfflur og svo margt fleira – allt án þess að fá borgað fyrir. Án þessa fólks væru engin landslið – og ekkert EM.

Áætlað er að sjálfboðaliðar í íþróttum vinni um 7,7 milljónir klukkustunda á ári. Verðmæti þeirrar vinnu er metið á yfir 15 milljarða króna á ári ef miðað er við tímagjald upp á um 1.950 kr. Þetta er byggt á greiningum og svörum félaga innan ÍSÍ og UMFÍ og birtist í skýrslu ÍSÍ um sjálfboðaliða 2024. Þetta sýnir svart á hvítu að íslenskt íþróttastarf stendur og fellur með þessu gríðarlega ólaunaða framlagi. Í raun er þetta stærsti „sjóðurinn“ sem hreyfingin byggir á – og hann er algjörlega háður vilja fólks til að gefa vinnu sína. Þó að starfið hafi haldist öflugt lengi, þá standa blikur á lofti.

Stöndum með sjálfboðaliðunum okkar

Vísbendingar eru um að erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa en áður. Sérstaklega í ábyrgðarhlutverk eins og stjórnir og nefndir, fá fólk til að sjá um viðburði og halda utan um starfið. Hluti þess skýrist af auknum kröfum og væntingum – en einnig af því að sjálfboðaliðar búa oft við óljósa réttstöðu og takmarkaðan stuðning. Það dregur úr vilja fólks til þátttöku ef það veit ekki hvaða ábyrgð það ber – eða hvort það fái aðstoð ef eitthvað kemur upp á.

Þess vegna lagði undirrituð fram þingsályktunartillögu um aukið réttaröryggi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með því að skipa starfshóp með fulltrúum úr öllum lykilstofnunum viljum við greina stöðuna, skýra ábyrgð, bæta tryggingavernd, efla fræðslu og styðja við sjálfboðaliða með markvissum hætti.

Það þarf að tryggja að tryggingar séu til staðar – bæði gegn slysum og mögulegri ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis. Að verklýsingar séu skýrar. Að fræðsla og þjálfun sé aðgengileg. Að fólk viti hvað er verið að fara fram á – og hvað það fær til stuðnings. Það mun auka öryggi, draga úr brottfalli og ekki síst – hvetja fleiri til þátttöku.

Við viljum nefnilega hvetja fleiri til þátttöku. Það gerum við með því að gera hlutverk sjálfboðaliða skýrara, bjóða upp á handbækur, kynningar, aðgengi að upplýsingum – og ekki síst: sýna þakklæti. Það getur verið í formi viðurkenninga, fríðinda eða einfaldlega þess að einhver segi „takk fyrir“.

Íþróttahreyfingin hefur ekki efni á því að missa þetta fólk

Það er auðvelt fyrir okkur að fagna og hvetja áfram okkar afreksfólk og landslið Íslands. Við stöndum þétt saman þegar að þau keppa úti í heimi. En til að landsliðið verði til þurfa tugir, jafnvel hundruð sjálfboðaliða að hafa staðið vaktina árum saman. Nú er tími til kominn að við stöndum með fólkinu sem vinnur ósýnilegu vinnuna til að ryðja veginn svo afreksfólkið okkar geti haldið áfram að láta ljós sitt skína og skila árangri í hús.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Komum náminu á Höfn í höfn

Deila grein

05/04/2025

Komum náminu á Höfn í höfn

„Við erum með þrjú gengi sem skiptast á, vinna í klukkutíma í senn við mokstur og niðurbrot á ís. Þannig munum við sigla áfram inn í daginn”, sagði Sveinn Rúnar Kristjánsson á vettvangi aðgerða í kjölfar hrun íshellisins í Breiðamerkurjökli síðastliðið haust.

Í slysinu lést einn ferðamaður. Það minnti harkalega á hversu mikilvæg þekking í leiðsögn er í síbreytilegu umhverfi jökla hér á landi. Þar skiptir fagmennskan öllu. Færni. Reynsla. Ábyrgð.

Þessa þrjá þætti hefur fjallamennskunámið við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á Höfn einmitt lagt mikla áherslu á. Námið er eina sinnar tegundar á Íslandi. Það útskrifar fólk með eftirsótta þekkingu fyrir lykilgrein á Íslandi; ferðaþjónustuna. Slíkt er þarft og ekki síst „höfuðstöðvum“ helstu jökla landsins þar sem ferðamannafjöldi hefur aukist um rúmlega 500% á undanförnum árum.

Samhliða aukningu hafa ný ferðaþjónustufyritæki sprottið fram og eftirspurn eftir fólki með sérhæfða þekkingu í leiðsögn aukist langt umfram framboð. Svo mikið að ráðuneytisstjórahópur sem lagði mat á aðgerðir í kjölfar slyssins ályktaði sérstaklega; „að auka þyrfti kröfur um menntun og reynslu til þess að starfa í Vatnajökulsþjóðgarði“.

Öflugt nám er einfaldlega forsenda þess að leiðsögn á jökla, sem eru eitt helsta aðdráttarafl landsins, sé vönduð, enda er orðspor okkar sem áfangastaðar undir. Allt annað er áhætta fyrir fólk, fyrirtæki og framtíð ferðaþjónustunnar, greinar sem styður jafnframt blómlega byggð um allt land. Námið er einmitt uppskera kraftmikils fólks sem margt hvert sneri aftur heim í Öræfin með fjölbreytta menntun og reynslu í farteskinu.

Námsbrautinni á hins vegar nú að loka. Kostnaðurinn þykir of mikill. Spurningin ætti þó heldur að vera; hvað kostar Ísland að hafa ekki slíkt nám? Að ógna öryggi ferðaþjónustunnar sem telur í dag rúm átta prósent af landsframleiðslu Íslands. Að draga úr vaxtatækifærum í menntun og atvinnu utan höfuðborgarinnar. Hvernig framtíðarsýn er það?

Við mat á verðmæti námsins þarf einfaldlega að setja hlutina í stærra samhengi; víkka linsuna á vaxtatækifærin sem eru til staðar. Hægt væri að sækja hluta tekna til reksturs námsins frá erlendum nemendum og áhugafólki um útivist, og gefa kost á að nýta ákveðnar einingar þess á háskólastigi. Þetta þekkir undirrituð frá því að hafa byggt upp alþjóðlegt nám við Háskólann í Reykjavík og Harvard.

Til viðbótar við ferðaþjónustu mætti einnig horfa á þverrandi líðan ungs fólks og spyrja; er fjallamennskunám mögulega sproti sem við ættum að leyfa okkur sem þjóð að fjárfesta meira í sem hluta af samfélagsáherslu Íslands í menntun. Vel er þekkt að sú vellíðan og liðsheild sem myndast í samveru á fjöllum er á við margar vítamínssprautur og skapar bæði seiglu og þrótt fyrir verkefnin sem við fáum í fangið í lífsins ólgusjó.

Ég skora á hæstvirtan menntamálaráðherra að gefa náminu svigrúm til þess að finna nýjan farveg í stað þess að hætta stuðningi nú. Til þess þarf plan til eins til þriggja ára á meðan fjölbreyttari tekjugrundvöllur er þróaður. Ég trúi því að þingmenn óháð flokkum horfi sömu augum á málið og að við leggjumst öll á árarnar.

Komum náminu á Höfn í höfn; með langtímahagsmuni og metnaðarfulla sýn fyrir Ísland að leiðarljósi.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Deila grein

03/04/2025

Að bregðast ungu fólki í við­kvæmri stöðu

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að sérstök áhersla verði lögð á að efla geðheilbrigðisþjónustu og styðja fjölbreytt rekstrarform. Þessi loforð eru innantóm, því fyrsta stórtæka aðgerðin í geðheilbrigðismálum nýrrar ríkisstjórnar er að loka Janusi endurhæfingu – úrræði sem hefur í 25 ár þjónustað einn viðkvæmasta hóp samfélagsins; ungt fólk með alvarlegan geðrænan og félagslegan vanda.

Þetta eru ungmenni sem hafa dottið út úr skóla og vinnu. Mörg þeirra með greiningu á einhverfurófi, þunglyndi, kvíða, áfallasögu og félagslega einangrun að baki. Þau hafa leitað víða í kerfinu – og fengið þau svör að úrræði sniðið að þeirra þörfum sé ekki til staðar. Í Janusi endurhæfingu hafa þau fundið skjól, fundið von og náð árangri. Rúmlega 56% (meðaltal) þeirra sem hafa lokið þjónustu síðastliðin 3 ár hafa farið í nám, vinnu eða virka atvinnuleit. Þjónustan sem Janus veitir skjólstæðingum sínum er veitt af sérfræðiteymi með sértæka þekkingu undir forystu geðlæknis með áratuga reynslu. Janus er einstök, þverfagleg og samhæfð þjónusta, sem finnst hvergi annarsstaðar í kerfinu.

Úrræðinu lokað – ekkert sambærilegt tekur við

Nú á að leggja þessa þjónustu niður. Starfsfólki hefur verið sagt upp. Engin sambærileg lausn er tilbúin. Fjöldi ungmenna – sem og þeir sem bíða eftir plássi – standa eftir í algjöru tómarúmi, óvissan um framtíðina þjakar aðstandendur þeirra líka.

Í fyrirspurn á Alþingi á dögunum, spurði ég heilbrigðisráðherra út í hvað taki við fyrir þetta unga fólk. Engin skýr svör fengust. Ekki hvar, ekki hvenær, ekki hvernig! Ekki einu sinni viðurkenning á því hversu alvarleg staðan er þegar ljóst er að ekkert úrræði mun taka á móti þessum viðkvæma og jaðarsetta hópi með sama hætti.

Það sem er einnig alvarlegt er að hvorki heilbrigðisráðherra né stjórnarþingmenn hafa sýnt því sóma að kynna sér starfsemi Janusar endurhæfingar á vettvangi. Fulltrúar Janusar endurhæfingar hafa boðið ráðherrum að koma og skoða aðstöðuna, kynna sér starfsemina. En engin heimsókn hefur orðið að veruleika. Þögnin er ærandi. Ábyrgðarleysið augljóst.

Fagfólk varar við

Geðlæknafélagið, Píeta samtökin, Þroskahjálp, Einhverfusamtökin og fleiri hafa varað við að úrræði á vegum VIRK starfsendurhæfingarsjóðs – sem nú eiga að taka við hlusta af þjónustunni – hafi ekki þá fagþekkingu sem til þarf. Ungmennin sem Janus endurhæfing þjónustar eru ekki tilbúin í hefðbundin atvinnutengd úrræði – þau þurfa fyrst geðræna endurhæfingu, í öruggu og samþættu umhverfi veitta af fagaðilum með sértæka þekkingu, reynslu og tryggum aðgangi að geðlækni.

Það er erfitt að sjá þessa ákvörðun sem annað en hugmyndafræðilega aðför að einkaframtaki. Það læðist að grunur – sem ekki er úr lausu lofti gripinn – að ef Janus endurhæfing hefði verið ríkisrekið úrræði, þá væri þetta ekki að gerast. En hér er það ekki kerfið sem þarf að verja – heldur unga fólkið.

Í þjónustukönnunum og viðtölum lýsa þátttakendur hvernig Janus endurhæfing hefur bjargað lífi þeirra, veitt þeim tilgang, sjálfstraust og nýja byrjun. Foreldrar ungmenna segja frá því að þar hafi þau loksins fundið stað sem skilur þarfir barnanna þeirra. Hvers konar samfélag lítur fram hjá þessari reynslu?

Það er siðferðilega rangt – og faglega ábyrgðarlaust – að loka virku úrræði án þess að annað jafngott sé tilbúið. Það er ekki boðlegt að færa slíka þjónustu yfir í almennara kerfi án mats, aðlögunar eða raunverulegs samtals við þá sem þekkja þjónustuna best.

Enn er glugginn opinn

En það er enn tími til stefnu. Heilbrigðisráðherra getur snúið frá þessari ákvörðun. Hún getur gert bráðabirgðasamning, tryggt áframhaldandi starfsemi á meðan unnið er að framtíðarsýn í samstarfi við fagfólk, notendur og aðstandendur.

Við eigum ekki að fórna framtíð ungs fólks fyrir kerfisreglur. Við eigum ekki að þegja þegar þjónusta sem virkar er tekin niður – af því hún er ekki hluti af stóru opinberu myndinni. Við verðum að láta í okkur heyra. Vegna þeirra sem ekki fá rödd – og vegna þess sem í húfi er.

Ef Janusi endurhæfingu verður lokað – þá er það í boði stjórnarmeirihlutans. Ráðamenn bera þá ábyrgð – bæði pólitíska og siðferðilega.

Unga fólkið okkar hefur stofnað undirskriftalista til að mótmæla þessari aðför að lífsbjargandi úrræði þeirra. Sýnum stuðning í verki;

https://island.is/undirskriftalistar/ace3bde9-f921-4833-b2ff-21e966be072d

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar.

Categories
Fréttir Greinar

Verðmætasköpun þjóða ákvarðar lífskjör og hagvöxt

Deila grein

03/04/2025

Verðmætasköpun þjóða ákvarðar lífskjör og hagvöxt

Það sem ræður mestu um lífs­kjör þjóða og getu þeirra til að byggja upp vel­ferðarsam­fé­lög og fjár­festa til framtíðar, er get­an til að skapa verðmæti. Þessi verðmæta­sköp­un er kjarni hag­vaxt­ar, at­vinnu og auk­inna lífs­gæða. Kenn­ing­ar hins skoska hag­fræðings Adams Smith, sem birt­ust árið 1776 í verki hans Auðlegð þjóðanna, leggja grunn­inn að efna­hags­legri hugs­un um hvernig þjóðir auka hag­sæld. Smith lagði mikla áherslu á sér­hæf­ingu og verka­skipt­ingu sem und­ir­stöðu fram­leiðniaukn­ing­ar. Með því að leyfa ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um að sér­hæfa sig í því sem þau gera best og eiga frjáls viðskipti sín á milli skap­ast hvat­ar til ný­sköp­un­ar, auk­inn­ar fram­leiðni og betri nýt­ing­ar auðlinda. Í þessu sam­hengi gegn­ir sam­keppn­is­hæfni þjóðar lyk­il­hlut­verki.

Af hverju að rifja upp þessa klass­ísku hag­fræðikenn­ingu Smiths? Tvennt kem­ur þar til. Ann­ars veg­ar fer Trump-stjórn­in mik­inn þessa dag­ana og hef­ur í hyggju að setja af stað mikið tolla­stríð um heim all­an. Ný-merkan­tíl­ismi Trumps virðist vera að ryðja sér til rúms. Af­leiðing­arn­ar hafa birst okk­ur á öll­um helstu mörkuðum, þar sem hluta­bréfa­verð hef­ur hríðlækkað og gull­verð er í hæstu hæðum. Óvissa á mörkuðum er ráðandi. Af­leiðing­arn­ar fyr­ir ís­lenska hag­kerfið eru óljós­ar en óviss­an dreg­ur úr hag­vexti. Hins veg­ar, þá hef­ur rík­is­stjórn Íslands kynnt aukn­ar álög­ur á okk­ar helstu út­flutn­ings­grein­ar. Mér finnst rétt að greidd séu auðlinda­gjöld í auðlinda­hag­kerfi, en það skipt­ir máli hvernig það er gert og á hvaða tíma­punkti. Eins skipt­ir máli að af­leidd áhrif séu skoðuð gaum­gæfi­lega og ábata­grein­ing sé gerð. Það er ábyrgðarleysi að sinna ekki þess­ari vinnu og líka virðing­ar­leysi gagn­vart þeim sam­fé­lög­um sem reiða sig á af­komu þess­ara at­vinnu­greina. Sam­vinna er lyk­ill­inn að vel­gengni. Ríkið þarf að vera til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Auðlegð Íslands velt­ur á því að sam­keppn­is­staða grunn­atvinnu­greina okk­ar sé sterk. Alþjóðahag­kerfið er á fleygi­ferð þessa dag­ana og óviss­an mik­il. Þess vegna er svo brýnt að vandað sé til verka og ekki sé efnt til óvinafagnaðar. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in sem kynnt var í vik­unni reiðir sig á hóf­leg­an hag­vöxt og lækk­andi verðbólgu. Ef ekki rætt­ist úr hag­vext­in­um, þá er rík­is­fjár­mála­áætl­un­in kom­in í upp­nám.

Vel­sæld á Íslandi hef­ur auk­ist veru­lega síðustu ára­tugi. Allt bygg­ist þetta á því að verðmæta­sköp­un eigi sér stað í vöru- og þjón­ustu­út­flutn­ingi. Ef þreng­ir að út­flutn­ingi þjóðar­inn­ar, þá minnk­ar hag­sæld hratt. Á óvissu­tím­um þarf að þétta raðirn­ar og styðja við ís­lenska hags­muni, ekki skaða þá. Ef Ísland ætl­ar að tryggja áfram­hald­andi vöxt og lífs­gæði þarf að leggja áherslu á aukna verðmæta­sköp­un. Með því að hlúa að sam­keppn­is­hæfni get­ur þjóðin tryggt sér betri framtíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­arlilja­alf@gmail.com

Greinin birtit fyrst í Morgunblaðinu 3. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíð Öskju­hlíðar

Deila grein

01/04/2025

Fram­tíð Öskju­hlíðar

Nú þegar búið er að ljúka við nauðsynlegar trjáfellingar í Öskjuhlíð til að tryggja flugöryggi Reykjavíkurflugvallar myndast tækifæri til að endurhugsa svæðið sem stendur eftir og skapa þar skilyrði fyrir aukna útivistarmöguleika fyrir almenning. Í dag leggur Framsókn fram tillögu í borgarstjórn um að vinna við framtíðarskipulag á því svæði í Öskjuhlíð þar sem tré hafa verið felld vegna Reykjavíkurflugvallar verði unnin í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið og miði að því að þar verði leik- og útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa.

Tækifæri í mótvægisaðgerð

Með tillögunni er verið að bregðast við því að fella þurfti tré við enda austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar til þess að tryggja rekstaröryggi flugvallarins. Ákveða þarf hvað á að gera við það svæði sem eftir stendur: hvort að þar eigi að gróðursetja aftur tré sem síðar gæti þurft að fella til að tryggja flugöryggi eða hvort við eigum að nýta tækifærið og skipuleggja svæðið til framtíðar sem aðlaðandi grænt svæði fyrir almenning án þess að stofna flugöryggi í hættu?

Það síðarnefnda leggjum við í Framsókn til.

Tækifæri til að skipuleggja leik- og útivistarsvæði

Öskjuhlíðin er vinsælt útivistarsvæði enda staðsett í nálægð við miðbæ Reykjavíkur og fjölmenn hverfi borgarinnar. Það er því mikilvægt að svæðið sé áfram aðlaðandi og nýtist raunverulega sem grænt svæði fyrir almenning. Með vel skipulögðu leiksvæði í Öskjuhlíðinni sem er hannað fyrir alla aldurshópa og í takt við hið náttúrulega umhverfi mætti bregðast við ákalli um fleiri leiksvæði í nálægð við miðbæ Reykjavíkur samhliða því að skapa jákvæða upplifun af þessu græna svæði fyrir ólíka aldurshópa. Ömmur og afar gætu þannig notið svæðisins til jafns við barnabörnin, til dæmis með rólum fyrir börn og fullorðna og svæðum fyrir lautarferðir.

Skipulagsmál hafa bein áhrif á lýðheilsu og hreyfingu. Gott aðgengi að grænum svæðum eykur útivist og góð aðstaða til hreyfingar eykur hreyfingu. Í Öskjuhlíðinni eru göngu- og hjólaleiðir en þar mætti koma upp aðstöðu fyrir hópa sem vilja stunda aðra hreyfingu svo sem jóga eða stunda hugleiðslu í náttúrunni. Mikilvægt er því að framtíðarskipulag svæðisins sé unnið í samstarfi við menningar- og íþróttasvið borgarinnar og sé unnið í samræmi við lýðheilsustefnu borgarinnar. Með skipulaginu væri þannig hægt að skapa frekari aðstæður í nærumhverfinu sem auðvelda fólki að stunda heilbrigða lífshætti og verja tíma úti í náttúrunni.

Tækifæri til útikennslu

Með því að skipuleggja svæðið í samstarfi við skóla- og frístundasvið skapast einstakt tækifæri til að nýta svæðið fyrir skóla- og frístundastarf. Þannig geta börn fengið að taka þátt í að byggja upp svæðið og notað það fyrir leik- og útivist ásamt því að læra um skógrækt og landgræðslu í Öskjuhlíðinni. Í samstarfi við leik- og grunnskóla í nágrenni Öskjuhlíðar væri þá hægt að byggja þar upp útikennslusvæði. Útikennsla er þverfagleg kennsluaðferð sem felur meðal annars í sér tækifæri til að tengja náttúruna við viðfangsefni úr ýmsum námsgreinum samhliða því að stunda hreyfiþjálfun. Í útikennslu læra nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna og nærumhverfið sitt. Einnig væri hægt að koma upp matjurtagörðum á svæðinu til að kenna börnum að rækta matjurtir.

Tækifæri til fræðslu um svæðið

Auk náttúrufegurðar býr Öskjuhlíðin yfir merkilegri sögu og þar eru meðal annars staðsettar jarð- og mannvistarminjar frá stríðsárunum. Sögunni mætti gera hærra undir höfði með því að setja upp sögugöngur eða ratleiki fyrir börn og fullorðna í Öskjuhlíðinni. Þannig gæfist tækifæri til að miðla sögu svæðisins til borgarbúa og gesta borgarinnar ásamt því að styrkja heildarmynd svæðisins í tengslum við þá menningarupplifun sem staðsett er í Perlunni. Á svæðinu mætti einnig koma upp upplýsingaskiltum fyrir almenning um gróðurfar, fuglalíf og dýralíf í Öskjuhlíð.

Möguleikarnir í Öskjuhlíðinni eru óþrjótandi og trjáfellingarnar hafa skapað tækifæri til að skipuleggja leik- og útivistarsvæði sem mætir þörfum fólks á öllum aldri. Með því að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna framtíðarskipulag svæðisins í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið er hægt að móta heildstæða sýn fyrir svæðið sem tekur mið af þekkingu fagsviðana.

Ég vona að borgarstjórn sjái tækifærin sem felast í því að til að skipuleggja framtíðar útivistarperlu í Öskjuhlíð sem eykur útivist, samveru og eflir lýðheilsu.

Það er tækifæri sem ætti að nýta!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á­kvarðanir teknar í Reykja­vík – af­leiðingarnar skella á okkur

Deila grein

31/03/2025

Á­kvarðanir teknar í Reykja­vík – af­leiðingarnar skella á okkur

Við sveitarstjórnarmenn Framsóknar lýsum yfir alvarlegum áhyggjum af fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Tillagan ber með sér skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegsins fyrir atvinnulíf og byggðafestu vítt og breitt um landið.

Sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífi fjölda sveitarfélaga og á mörgum stöðum einfaldlega lífæð samfélagsins. Því vekur það furðu og vonbrigði að lagafrumvarp skuli lagt fram án þess að nein greining hafi farið fram á áhrifum þess á sjávarútvegssveitarfélög, atvinnulíf eða byggðir landsins.

Samkvæmt 129. grein sveitarstjórnarlaga ber að meta sérstaklega áhrif lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga. Þetta hefur ekki verið gert, sem er bæði ólöglegt og óábyrgt. Þessi vinnubrögð skapa vantraust og veikja tengsl ríkis og sveitarfélaga – á sama tíma og við þurfum á nánu og traustu samstarfi að halda.

Við tökum undir gagnrýni Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem hafa lýst eindreginni andstöðu við frumvarpið. Ríkisstjórnin hefur ekki metið áhrif þessarar auknu skattheimtu á sjávarútvegssamfélög og afleiðingar sem skattheimtan getur leitt til. Slík óvissa er óásættanleg – og óverjandi að löggjafinn ákveði að fara þessa leið án upplýstrar umræðu og samráðs við þá sem breytingarnar varða hvað mest.

Byggðarlögin og fólkið á bak við sjávarútveginn

Þegar skattbyrði á lykilatvinnuveg, sem sjávarútvegurinn er víða um land, er aukin án greiningar og samráðs, eru það þau sem búa og starfa í sjávarbyggðum sem bera skaðann. Það er verulegt hagsmunamál að tryggja jafnvægi milli þjóðhagslegra tekna og sjálfbærs atvinnulífs í sjávarbyggðum. Með þessari tillögu virðist ríkisvaldið snúa baki við þeirri ábyrgð.

Auk þess gagnrýnum við harðlega þá staðreynd að umsagnarfrestur vegna málsins er einungis tíu dagar. Svo skammur frestur gerir sveitarfélögum nær ókleift að vinna málið faglega og bera það upp í sveitarstjórn til að senda frá sér rökstudda umsögn. Þetta dregur úr gæðum ákvarðanatöku og skaðar traustið á stjórnsýslunni.

Farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika

Við skorum á ríkisstjórnina að staldra við og hefja raunverulegt samtal við hagaðila – samtal sem byggir á greiningum, staðreyndum og gagnkvæmri virðingu. Tillögur um veiðigjöld verða að taka mið af áhrifum þeirra – ekki aðeins á ríkissjóð, heldur á þau samfélög sem sjávarútvegurinn heldur uppi.

Við krefjumst þess að þessi tillaga verði endurskoðuð frá grunni – í þágu skynsemi, sanngirni og framtíðar byggða um allt land.

  • Anton Guðmundsson – oddviti Framsóknar – Suðurnesjabæ
  • Ásgerður Kristín Gylfadóttir – oddviti Framsóknar – Hornafirði
  • Ásrún Helga Kristinsdóttir – oddviti Framsóknar – Grindavíkurbæ
  • Axel Örn Sveinbjörnsson – oddviti Framsóknar – Vopnafjarðarhreppi
  • Hjálmar Bogi Hafliðason – oddviti Framsóknar – Norðurþingi
  • Hrund Pétursdóttir – bæjarfulltrúi Framsóknar – Skagafirði
  • Jónína Brynjólfsdóttir – oddviti Framsóknar – Múlaþingi
  • Monika Margrét Stefánsdóttir – bæjarfulltrúi Framsóknar – Dalvíkurbyggð
  • Sunna Hlín Jóhannesdóttir – oddviti Framsóknar – Akureyri
  • Þuríður Lillý Sigurðardóttir – bæjarfulltrúi Framsóknar – Fjarðabyggð

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Að­för að lands­byggðinni – og til­raun til að slá ryki í augu al­mennings

Deila grein

31/03/2025

Að­för að lands­byggðinni – og til­raun til að slá ryki í augu al­mennings

Það er ekki hægt að tala um sátt í sjávarútvegi þegar aðgerðir stjórnvalda beinast ekki gegn þeim sem bera mesta ábyrgð heldur bitna í reynd á fólkinu og byggðunum sem atvinnugreinin heldur uppi.

Áform ríkisstjórnarinnar um aukna skattlagningu í sjávarútvegi eru kynnt eins og ráðist sé gegn stórútgerðinni. En þegar grannt er skoðað kemur annað í ljós: það er ekki stórútgerðin sem verður fyrir mestu höggi heldur smærri útgerðir, vinnslur og samfélög í dreifðum byggðum landsins.

Sem dæmi má nefna sveitarfélög líkt og Grýtubakkahrepp, Langanesbyggð og Vopnafjörð sem reiða sig að miklu leyti á útgerð og vinnslu sem helstu stoðir atvinnulífsins. Útsvarstekjur, störf og samfélagsleg velferð byggjast á þeirri starfsemi. Þegar höggið kemur utan frá – í gegnum illa ígrundaðar skattabreytingar sem ekki hafa verið metnar til fulls – þá hefur það ekki eingöngu áhrif á stórútgerðina heldur bitnar fyrst og fremst á fjölskyldum sem sjá fram á óvissu með framtíðina í sinni heimabyggð.

Það er ábyrgð stjórnvalda að meta áhrif aðgerða áður en þau verða að lögum. Það hefur ekki verið gert. Engin heildstæð greining liggur fyrir á áhrifum breytinganna á atvinnulíf í smærri byggðarlögum, engin úttekt á rekstrargrundvelli vinnslufyrirtækja sem nú standa frammi fyrir nýjum álögum. Slíkt verklag er bæði óábyrgt og óboðlegt.

Við í Framsókn höfum ítrekað bent á að svigrúm sé til aukinna auðlindagjalda – en slíkar breytingar verða að byggjast á vandaðri greiningu, fyrirsjáanleika og samstöðu. Sjávarútvegurinn er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs. Viljum við í alvöru taka slíka stoð og raska rekstraröryggi hennar með óundirbúnum hætti?

Það sem verra er – það virðist ekki einu sinni hafa verið raunverulegur vilji til samráðs við hagsmunaaðila áður en málið var kynnt. Þetta mál er eitt stærsta hagsmunamál síðari ára og á sama tíma leyfir núverandi ríkisstjórn sér að takmarka verulega umsagnarfrest. Þegar upp er staðið má setja spurningarmerki hvort raunverulegur samvinnuvilji sé yfirhöfuð fyrir hendi. Slíkt er að mínu mati áfellisdómur yfir verklagi stjórnvalda.

Maður spyr sig, af hverju liggur svona á, þetta mál er risavaxið og algerlega óljóst á þessum tímapunkti hvaða áhrif þetta muni hafa til lengri tíma. Auðlindin á að vera í eigu þjóðarinnar, fyrir hana á að greiða sanngjarnt verð, um það eru allir sammála. En til að ná langþráðri sátt um sjávarútveginn og þeim álögum sem við teljum réttlætanlegt að hann beri, verðum við að byggja umræðuna á staðreyndum, hafa öll gögn upp á borði og vanda okkur áður en lengra er haldið.

Við getum gert betur. Við eigum að gera betur.

Ingibjörg Isaksend, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Deila grein

29/03/2025

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Nú á dög­un­um mælti ég ásamt þing­flokki Fram­sókn­ar fyr­ir þings­álykt­un um að tak­marka jarðakaup er­lendra aðila. Til­lög­unni er ætlað að tryggja lang­tíma­hags­muni Íslands með því að verja auðlind­ir þjóðar­inn­ar fyr­ir of víðtæku eign­ar­haldi er­lendra fyr­ir­tækja og ein­stak­linga.

Alþjóðleg eft­ir­spurn vek­ur spurn­ing­ar um ís­lenskt eign­ar­hald

Í kjöl­far auk­inn­ar alþjóðlegr­ar eft­ir­spurn­ar eft­ir nátt­úru­auðlind­um hef­ur áhugi er­lendra aðila á ís­lensk­um jörðum auk­ist veru­lega. Þetta á sér­stak­lega við um jarðir sem hafa verðmæt vatns­rétt­indi eða aðgang að orku­auðlind­um á borð við jarðhita og vindorku, eða svæði sem eru rík af jarðefn­um. Gott dæmi um slík­an áhuga er ný­leg jarðakaup á Mýr­dalss­andi, þar sem stefnt er að meiri hátt­ar út­flutn­ingi jarðefna.

Upp­haf­lega voru ís­lensk lög um nýt­ingu jarðefna sett í þeim til­gangi að tryggja bænd­um og Vega­gerðinni aðgang að sandi og möl til fram­kvæmda inn­an­lands – ekki til út­flutn­ings. Mark­miðið var aldrei að selja Ísland bók­staf­lega úr landi.

Gæt­um að auðlind­um okk­ar til framtíðar

Til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir að at­vinnu­vegaráðherra skipi sér­fræðihóp, í sam­ráði við aðra ráðherra, til að und­ir­búa frum­varp um frek­ari tak­mark­an­ir á jarðakaup­um er­lendra aðila. Mark­mið þess er að tryggja að eign­ar­hald á ís­lensk­um auðlind­um verði áfram að meg­in­stefnu ís­lenskt.

Um leið verði Íslandi áfram haldið opnu fyr­ir alþjóðleg­um viðskipt­um og er­lendri fjár­fest­ingu, en þá frem­ur með nýt­ing­ar­leyf­um en beinu eign­ar­haldi er­lendra aðila á landi og auðlind­um.

Sér­fræðihóp­ur skipaður til að móta skýra stefnu

Í ljósi geopóli­tískra hags­muna og víðtækra framtíðaráhrifa er nauðsyn­legt að stjórn­völd taki af­ger­andi skref til að móta skýra og mark­vissa stefnu á þessu sviði. Sögu­leg­ar bar­átt­ur Íslend­inga fyr­ir eign­ar­haldi á nátt­úru­auðlind­um, svo sem land­helg­is­bar­átt­an og stofn­un Lands­virkj­un­ar, eru góðar fyr­ir­mynd­ir um hvernig tryggja megi lang­tíma­hags­muni þjóðar­inn­ar.

Nýt­ing­ar­leyfi – leið til að laða að er­lenda fjár­fest­ingu án þess að tapa auðlind­um

Þótt alþjóðleg viðskipti séu lyk­ill­inn að vel­meg­un Íslands og mik­il­væg upp­spretta at­vinnu­sköp­un­ar þýðir það ekki að auðlind­ir lands­ins þurfi að selja úr landi án eft­ir­lits. Reynsl­an frá öðrum lönd­um, til dæm­is Ástr­al­íu, sýn­ir að hægt er að laða að er­lenda fjár­fest­ingu með því að veita nýt­ing­ar­leyfi án þess að glata stjórn á auðlind­un­um sjálf­um. Mörg ríki inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa þegar gripið til mun rót­tæk­ari ráðstaf­ana en Ísland til þess að verja land sitt og auðlind­ir.

Stefna til framtíðar

Ljóst er að eign­ar­hald á auðlind­um lands­ins mun gegna lyk­il­hlut­verki við að tryggja efna­hags­lega vel­ferð og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar í alþjóðasam­fé­lag­inu. Þings­álykt­un­ar­til­lag­an er því mik­il­væg­ur grunn­ur að ábyrgri auðlinda­stjórn sem get­ur komið í veg fyr­ir að kom­andi kyn­slóðir líti til baka með eft­ir­sjá yfir því hvernig Íslend­ing­ar nú­tím­ans gættu lands­ins okk­ar og auðlinda.

Rækt­um framtíðina og stuðlum að sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda lands­ins, styrk­ingu lands­byggðar­inn­ar og öfl­ugri vel­ferð þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2025.