Categories
Fréttir Greinar

Lausnir í stað loforða

Deila grein

14/10/2025

Lausnir í stað loforða

Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar ritar undarlega grein sem birtist í Morgunblaðinu 13. október síðastliðinn. Þar gagnrýnir hann tillögu Framsóknar um að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Það er á mörkunum að grein Sigmars, sem virðist ekki mjög vandlega ígrunduð, sé svaraverð en þar er sleginn kunnuglegur tónn. Enda hafa þingmenn Viðreisnar og raunar fjármálaráðherra fremstur í flokki keppst við að misskilja inntak tillögunnar og markmið. Það er einkennileg pólitík Viðreisnar að vilja ekki ræða lausnir til að leysa vanda íslenskra heimila í því skjóli að það henti ekki pólitískri draumsýn, sem í núverandi ástandi ESB er svo gersamlega úr sér gengin að það er pínlegt á að horfa.

Vandinn

Íslensk heimili hafa of lengi búið við sveiflukenndan lánamarkað. Þegar stýrivextir hækka víkja óverðtryggð lán og verðtryggingin tekur yfir. Í dag eru um 2/3 nýrra íbúðalána verðtryggðir, sem þýðir að skuldir heimila með slík lán hækka í takt við verðbólgu.

Þetta er ekki sjálfbært kerfi og heldur ekki sanngjarnt gagnvart fólki sem vill einfaldlega öruggt og fyrirsjáanlegt húsnæðislán. Þessi veruleiki gerir enn fremur peningastefnu Seðlabankans bitlausa og tefur fyrir lækkun verðbólgu.

Í flestum löndum geta heimili valið löng fasteignalán á föstum vöxtum, og vita fyrir fram hvað þau greiða næstu 20-30 árin. Hér á landi er slíkur kostur ekki fyrir hendi – ekki vegna krónunnar, heldur vegna úrelts regluverks og ónógrar þróunar fjármálamarkaðarins.

Tillaga Framsóknar í hnotskurn

Tillaga Framsóknar gengur út á að skapa skilyrði fyrir óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma – svipuð og þekkjast víða á Norðurlöndum. Nýleg skýrsla dr. Jóns Helga Egilssonar, sem kynnt var í janúar, sýnir að þetta er fýsilegur og framkvæmanlegur kostur, ef stjórnvöld og markaðsaðilar vinna saman að breytingum.

Helstu lykilatriði eru þessi:

Endurskoða þarf reglur um uppgreiðslugjöld. Núverandi reglur letja bankana frá því að bjóða löng föst lán. Með einfaldri breytingu þar má auka fjölbreytni og samkeppni án þess að ríkið taki á sig áhættu.

Þróa markað fyrir vaxtaskiptasamninga. Með slíkum samningum geta bankar tryggt sér fasta fjármögnun til langs tíma – eins og gert er annars staðar á Norðurlöndum – og þannig boðið neytendum stöðugri vexti.

Nýta styrk lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir geta fjárfest í sértryggðum skuldabréfum sem tengjast húsnæðislánum. Það lækkar fjármögnunarkostnað bankanna og skilar lægra vaxtastigi til heimilanna.

Heimatilbúinn vandi – og lausnir fyrir hendi

Þeir sem telja að krónan sé rót alls ills gleyma því að jafnvel innan evrusvæðisins eru vaxtakjör á húsnæðislánum mjög mismunandi milli landa. Þýskaland og Portúgal deila sama gjaldmiðli – en hafa gjörólík vaxtakjör. Það sýnir að gjaldmiðillinn einn ræður ekki úrslitum; regluverk, traust og hagstjórn skipta meira máli.

Við þurfum ekki að afsala okkur stjórn peningamála til að auka stöðugleika. Við þurfum einfaldlega að laga og bæta okkar eigið kerfi. Með markvissum lagabreytingum og aukinni samvinnu við lífeyrissjóði og fjármálageirann getum við byggt upp stöðugt, sanngjarnt og sjálfbært lánakerfi – í íslenskum krónum.

Lausnir í stað loforða

Við í Framsókn trúum á raunhæf skref sem bæta stöðu íslenskra heimila – núna, ekki eftir áratug í bið eftir aðildarviðræðum við ESB.

Evran leysir ekki sjálfkrafa húsnæðisvanda íslenskra fjölskyldna. Hún myndi taka frá okkur stjórn á vöxtum og gengisstefnu, án þess að tryggja betri kjör. Raunhæfar umbætur á innlendum fjármálamarkaði gera það hins vegar.

Við höfum öll tækin til að tryggja stöðugri greiðslubyrði, minnka vægi verðtryggingar og bjóða upp á lægri vexti fyrir íslensk heimili. Það krefst pólitísks vilja sem því miður ríkir ekki hjá núverandi ríkisstjórn.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Deila grein

14/10/2025

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Heimshagkerfið er á ákveðnum krossgötum vegna mikilla tækniframfara og átaka. Þjóðartekjur á mann hafa þrátt fyrir það aukist á heimsvísu síðustu þrjá áratugi. Margt fólk upplifir þó að það sé skilið eftir og þetta á sérstaklega við um ungt fólk. Frá Reykjavík til Naíróbí hefur gremja aukist vegna skorts á tækifærum til að eignast eigið húsnæði á viðráðanlegu verði. Heimsbúskapurinn hefur engu að síður sýnt óvænta seiglu. Í upphafi árs var spáð efnahagslægð á alþjóðavísu en það hefur ekki ræst. Meginskýringarnar má rekja til þess að viðskiptahindranir urðu minni en óttast var, atvinnulífið hefur náð að aðlagast betur en búist var við og alþjóðavextir hafa lækkað. Heimsmyndin er þó brothætt, svo sem sjá má af vaxandi eftirspurn eftir gulli, óvissu í tollamálum og yfirverðlögðum eignamörkuðum.

Í þessu umhverfi alþjóðlegrar óvissu og óstöðugleika þurfa íslensk stjórnvöld að beina sjónum að þremur markmiðum: Ná tökum á verðbólgu, styrkja opinber fjármál og tryggja langtímahagvöxt. Ráðast verður í meira afgerandi aðgerðir til að ná verðbólgunni niður. Verðbólgan mælist nú á breiðum grunni og hefur verið þrálát um 4%. Engu að síður er hagkerfið að kólna hratt, þrátt fyrir að launahækkanir hafi mælst miklar og að verðbólguvæntingar séu enn yfir markmiði. Ríkisstjórnin tók ekki þessa þrálátu verðbólgu föstum tökum og leiddi sjálf launahækkanir sem voru yfir almenna markaðnum. Að sama skapi er raunútgjaldaaukning í fjárlagafrumvarpinu en ekki það aðhald sem fjármála- og efnahagsráðherra var búinn að boða. Tekjuaukinn í ár nemur 80 mö.kr. og ef aðhalds hefði verið gætt, þá hefði verið hægt að skila afgangi á fjárlögum strax árið 2025. Hefði ríkisstjórnin sýnt slíka væntingakænsku, þá hefði það haft mjög jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar og lækkað ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Skuldir hins opinbera hafa lækkað umtalsvert á Íslandi síðustu tíu ár. Brýnt er að halda áfram á þeirri vegferð til að vaxtagjöldin lækki hraðar. Jákvæður hagvöxtur er einnig mikilvægur fyrir samfélagið, þar sem hann heldur uppi atvinnu og velsæld. Flest ríki í Evrópu eru að leita að hagvexti til að efla samfélögin sín og lífskjör. Afar erfitt er að átta sig á stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Á síðustu árum hefur hátæknigeirinn og ferðaþjónusta skapað þjóðarbúinu miklar tekjur og framtíðarhorfur eru bjartar, að því gefnu að ríkið fari ekki að setja þannig byrðar á atvinnugreinarnar að þær nái ekki að fjárfesta í framtíðinni.

Á þessum óvissutíma hefur styrk hagstjórn aldrei verið mikilvægari. Ég var sannfærð um að ný ríkisstjórn myndi leggja allt sitt undir í því að ná tökum á verðbólgunni, ríkisfjármálum og efla íslenskt efnahagslíf. Það plan hefur enn ekki litið dagsins ljóst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn sem þjónar fólki, ekki kerfum

Deila grein

13/10/2025

Fram­sókn sem þjónar fólki, ekki kerfum

Ég býð mig fram til ritara Framsóknar af þeirri sannfæringu að framtíð flokksins liggi í því að vera hreyfiafl breytinga sem þjóna fólki – ekki kerfum. Framsókn hefur verið sterkt afl á sveitarstjórnastiginu og leitt umbætur á þjónustu við fjölskyldur og leitt öflögt uppbyggingarstarf. Nú þurfum við að virkja baráttugleðina og nýta þá fjölbreyttu reynslu sem við búum yfir fyrir áframhaldandi framfarir um allt land.

Framsókn á að vera flokkur sem leiðir umbætur í opinberri stjórnsýslu. Við eigum að efla sveitarfélögin, treysta þeim til að leysa fleiri verkefni og færa ákvarðanir nær fólkinu. Við vitum að þegar ábyrgðin er skýr, nálægðin meiri og valdið nær íbúunum – þá verður þjónustan betri. Þetta hefur sannað sig í verkefnum sem þegar hafa færst til sveitarfélaga, svo sem á sviði menntamála og þjónustu við fatlað fólk.

Við höfum líka leitt róttækar breytingar í ríkisrekstrinum sjálfum – ekki síst þegar málefni barna voru sett í forgrunn með stofnun barnamálaráðuneytis, sem hefur markað nýja sýn á réttindi og velferð barna. Slíkar kerfisbreytingar sýna að Framsókn getur verið afl framfara og umbóta þegar hugrekki og framtíðarsýn fara saman.

Ég vil sjá að Framsókn ráðist í skipulagða málefnavinnu um það hvernig við gerum íslenska stjórnsýslu skilvirkari, hagkvæmari og betur í stakk búna til að þjónusta fólkið í landinu. Við þurfum að nýta tækifærin sem felast í nýrri tækni – þ.m.t. gervigreind – til að einfalda ferla, stytta biðtíma og bæta upplýsingagjöf til almennings. Tæknin getur gert hið opinbera gagnsærra og aðgengilegra – ef við nýtum hana rétt og með ábyrgð.

Við eigum að vera óhrædd við að leggja til róttækar breytingar þar sem við sjáum að kerfi eru helst til þess fallin að viðhalda sjálfum sér í stað þess að þjónusta samfélagið.

Við þurfum að taka heiðarlegt samtal um stöðu menntakerfisins. Framsókn getur leitt það samtal sem ætti að mínu mati að ala á aukinni virðingu fyrir því verkefni sem það er að kenna börnunum okkar. Það er áhyggjuefni að Ísland standi ekki jafnfætis öðrum þjóðum í alþjóðlegum samanburði og við eigum að taka djörf skref til þess að snúa við þeirri þróun og byggja upp menntakerfi sem byggir á metnaði og framsýni.

Ég vil taka þátt í því að móta starf sem markar Framsókn stöðu sem framtíðarafl í íslenskum stjórnmálum – flokkur sem þjónar fólki, ekki kerfum. Ég býð mig fram til ritara Framsóknar til að vinna að því markmiði í góðri samvinnu með flokksfélögum.

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps og frambjóðandi í embætti ritara Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Varðmenn landsins

Deila grein

09/10/2025

Varðmenn landsins

Þegar við fjölskyldan bjuggum í Boston biðum við alltaf spennt eftir því að íslenska lambið kæmi í verslanir. Þá buðum við gjarnan erlendum gestum í mat til þess að njóta þess saman. Í búðinni kom þó ætíð á óvart að sjá að lambið var nánast ósýnilegt í kjötborðinu. Á meðan rokseldist norski eldislaxinn í næsta rekka í myndskreyttum hátíðlegum konfektkössum.

Bragðið af lambinu sveik þó engan og viðbrögð gesta sannfærðu mig að hægt er að selja alla okkar framleiðslu á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir tækifæri sauðfjárbúskapur á undanhaldi. Safnið í réttum landsins hefur skroppið saman í minni sveit og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun um allt land.

Á afrétt spurði ég efnilegt búmannsefni af hverju hann hafði ekki gerst bóndi og fljótt færðist samtalið að háu jarðaverði og slakri afkomu. Hér þarf að efla skilning á því að það að ungt fólk geti ekki hafið búskap er ekki bara leiðinlegar fréttir fyrir hæfileikaríka einstaklinga eða fjölskyldur. Það er afdrifarík niðurstaða fyrir samfélagið okkar. Til langs tíma. Við þurfum að víkka linsuna og fá alla til að hugleiða: Hvað þýðir minna safn, veikari landbúnaður, fyrir Ísland?

Á undanförnum árum hefur fólki hér á landi fjölgað um fimmtíuþúsund og fjöldi ferðamanna vaxið sömuleiðis. Því er lykil spurning: Ætlum við að fæða samfélagið eða láta innflutning taka yfir? Það hlýtur einnig að vera auðséð í viðsjáverðum heimi þurfa sveitir landsins að vera í sókn. Milljarða viðbótarfjárfesting í öryggismálum í nýjum fjárlögum ætti að horfa til innviðafjárfestingar í landbúnaði.

Auk matvælaöryggis er landbúnaður mikilvægur fyrir heilsu okkar og atvinnulíf. Ferðamenn koma ekki hingað fyrir innfluttan kjúkling og kókópöffs: Þeir vilja sjá blómlegar sveitir og njóta heilnæmra afurða sem við eigum á heimsmælikvarða. Öflugur ferðaþjónusta hvílir til langs tíma á kröftugum landbúnaði.

Bændur gæta þannig að jafnvægi ólíkra nytja og okkar einstöku náttúru. Þeir þekkja landið líka eins og lófan sinn, ekki síst í gegnum sauðfjárbúskap sem kallar á samvinnu bæði á bæ og fjalli. Hugsunin þeirra að skilja vel við heimkynnin fyrir komandi kynslóðir er bændum eðlislæg og er langtímasýn sem er samfélagi okkar afar dýrmæt.

Með veikum landbúnaði er einmitt hætt við að fjárfestar éti upp landið. Sala auðlinda vatns, jarðefna og jarðhita til erlendra aðila í gegnum jarðasölu er að mörgu leiti til komin vegna krefjandi stöðu bænda. Án öflugra bænda, rennur landið úr greipum okkar og auðlindirnar með. Hægt og bítandi, jörð fyrir jörð.

Að grafa undan bændasamfélögum veikir jafnframt griðarstað menningar okkar, tungu og hefða; þess sem er ekta eða þar sem rætur okkar hvíla. Slíkar rætur eru akkeri á tímum þar sem margt falskt tröllríðum miðlum. Ef við töpum því sem er ekta þá töpum við smátt og smátt sjálfum okkur sem þjóð.

Í stuttu máli sýnir víða linsan okkur, fólkinu í landinu, að bændur vernda fæðuöryggi okkar og heilbirgði. Þeir varðveita menningu okkar, náttúru og nytjar. Þeir eru fjölskyldufyrirtækin sem styrkja samfélög um allt land. Þeir eru samvinnan og seiglan sem við búum að á ögurstundum. Bændur eru einfaldlega varðmenn landsins. Án öflugra bænda raknar annað upp – allt frá öryggi yfir í menningu og atvinnuþróun.

Við þurfum nýja framtíðarsýn sem kemur lambinu í konfektkassana og bæði breikkar og stækkar tækifærin; nýja gullöld. Til þess duga engin vettlingatök. Hér þarf að horfa á endurskoðun tolla, fjárfestingar, raforkumál, aðkomu ríkis í nýliðun, nýsköpun, markaðssókn og margt fleira. Þessir sameiginlegu hagsmunir okkar Íslendinga verðskulda ekki átök, hvorki innan þings né utan. Berjumst saman í landsleik landbúnaðarins; til sigurs.

Stækkum safnið með varðmönnum landsins. Fyrir okkur öll.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismsaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Námslánakerfið – stuðningur eða skuldagildra?

Deila grein

09/10/2025

Námslánakerfið – stuðningur eða skuldagildra?

Námslán á Íslandi hafa lengi verið kynnt sem leið til að tryggja jafnan rétt allra til menntunar, óháð félagslegri stöðu og efnahag. Þessi hugmyndafræði hefur verið meginröksemd fyrir tilvist kerfisins, þó að hægt sé að deila um hversu vel það hafi tekist í framkvæmd.

Fyrir þá sem tóku G-lán fyrir 2010 og H-lán á árunum 2010-2019 er veruleikinn sá að í stað þess að vera stuðningur til náms hefur lánið orðið að lífstíðarbyrði.

Lán hafa, þrátt fyrir áratugalanga niðurgreiðslu, vaxið upp í hærri skuldir en upphaflega voru teknar. Ástæðan er verðtryggingin, sem tryggir að höfuðstóll hækkar í takt við verðbólgu. Einstaklingur sem tók tvö G-lán, upphafleg fjárhæð 4.388.705 og 3.234.098, alls 7.622.803, skuldar í dag 8.330.052 þrátt fyrir að hafa greitt af þessum lánum í 12 ár og er þetta því miður ekki einsdæmi.

Þetta er kerfisleg ósanngirni. Þeir sem tóku lán í gamla kerfinu sitja fastir í skuldafeni á meðan nýtt lánakerfi, sem tók gildi 2020, býður upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum og fyrirsjáanlegri greiðslubyrði. Það er gott skref, en það nær aðeins til nýrra lána.

Eldri lánþegar sitja eftir, bundnir við úrelta skilmála sem gera lítið annað en að tryggja að skuldir hækki áfram. Þessir lánþegar sitja eftir í verðtryggingarvítahringnum. Þetta gengur þvert gegn þeim tilgangi sem lánin eiga að þjóna. Eldri lán ættu að fá að fylgja nýjum reglum, svo lánþegar sem þegar hafa lagt sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum menntun og vinnu geti átt raunhæfan möguleika á að greiða niður sínar skuldir eins og nýir lánþegar.

Menntun er fjárfesting fyrir allt samfélagið, hún á ekki að vera fjármálalegt fangelsi. Ef stjórnvöld vilja standa undir þeim gildum sem námslánakerfið var upphaflega byggt á, þá er nauðsynlegt að gera breytingar núna og tryggja að sanngirni ráði ríkjum, óháð því hvenær lánin voru tekin. Ég hvet ríkisstjórnina til að endurskoða þetta strax og gera nauðsynlegar breytingar til að gefa öllum þeim sem hafa tekið námslán kost á að sitja við sama niðurgreiðsluborð.

Díana Hilmarsdóttir, G-lántakandi og bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fögur fyrir­heit sem urðu að engu

Deila grein

09/10/2025

Fögur fyrir­heit sem urðu að engu

Þegar hæstvirtur atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, lagði upp í metnaðarfulla hringferð með Bændasamtökunum síðastliðið vor hugsaði ég með mér að þarna væri ráðherra sem ætlaði að rækta gott samtal við bændastéttina. Þetta fannst mér gefa góð fyrirheit fyrir það sem koma skyldi í málefnum landbúnaðarins á þessu kjörtímabili.

Áður en að þessu kom ritaði Hanna Katrín grein sem birtist á vef Bændablaðsins í byrjun febrúar, þá ný tekin við málefnum landbúnaðarins sem atvinnuvegaráðherra. Þar sagði hún meðal annars svo frá “Það er mér bæði heiður og ánægja að sinna þessum mikilvæga málaflokki og vinna með ykkur að því að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar.”

Það verður ekki annað sagt en að þessi fögru fyrirheit um samvinnu og samtal við bændastéttina hafi nú algjörlega fokið út um gluggann með framlögðum drögum að frumvarpi að nýjum búvörulögum.

Innihald frumvarpsins er eitt en vinnubrögð hæstvirts atvinnuvegaráðherra í þessu máli er svo allt annað mál. Sama hvað fólki kann að finnast um innihald draga að frumvarpi að nýjum búvörulögum, þá verður ekki annað sagt en að sú staðreynd að algjörlega sé gengið fram hjá Bændasamtökunum við vinnslu frumvarpsins er algjörlega óskiljanlegt. Samráð og samvinna sem ítrekað var búið að lofa eins og kom fram í yfirlýsingu stjórnar Bændasamtakanna á dögunum.

Sú staðreynd að ráðherra ákveði að ganga svona til verka þykir mér verulega umhugsunarvert. Með því að leita til bændastéttarinnar við vinnslu frumvarpsins hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau miklu og hörðu viðbrögð sem komið hafa við frumvarpinu undanfarna daga. Hér leikur ráðherra sér að því að skapa glundroða og óánægju sem hefði með lítilli fyrirhöfn verið hægt að koma í veg fyrir með vönduðum vinnubrögðum.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, situr í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sterkt atvinnulíf er grunnur velferðar

Deila grein

09/10/2025

Sterkt atvinnulíf er grunnur velferðar

Þegar vel gengur í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, undirstöðuatvinnugreinum landsbyggðarinnar, þá styrkist íslenskt samfélag í heild. Þessar greinar eru burðarásar í efnahagslífi þjóðarinnar og skapa grundvöll að velferð, verðmætasköpun og sjálfbærni. Ríkissjóður býr ekki til peninga; það gerir fólkið og fyrirtækin sem halda hjólum efnahagslífsins gangandi um allt land.

Brú milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis

Oft er látið að því liggja að hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgar fari ekki saman. Sú hugsun er röng. Þvert á móti þarf að byggja trausta brú milli svæðanna þar sem vöxtur og velgengni dreifist um landið. Þegar undirstöðuatvinnugreinarnar dafna á landsbyggðinni nýtur höfuðborgarsvæðið góðs af. Þetta er samverkandi hringrás sem styrkir íslenskt samfélag.

Þrátt fyrir þetta virðist stefna stjórnvalda í garð undirstöðuatvinnugreina í mörgu endurspegla takmarkaðan skilning á mikilvægi þeirra fyrir efnahagslífið í heild. Þegar ákvarðanir eru teknar án fulls skilnings á rekstrarskilyrðum greina sem halda landinu gangandi – til dæmis með hækkun skatta og gjalda, auknu regluverki og óstöðugum ákvarðanatökum – þá veikist samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin á að stuðla að stöðugleika og skynsamlegu starfsumhverfi fyrir atvinnulífið, en of oft hefur breytingum verið hrint í framkvæmd án raunverulegs samráðs og í miklum flýti. Mikilvægast er að skapa rekstrarumhverfi sem er stöðugt og byggist á sanngjörnum forsendum.

Hátt atvinnustig er okkar styrkleiki

Hátt atvinnustig hefur verið eitt af aðalsmerkjum íslensks samfélags. Í mörgum Evrópulöndum hefur atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks, verið þrálátt vandamál um áratugaskeið. Slíkar aðstæður hafa djúpstæð áhrif á einstaklinga og samfélög og geta grafið undan von og trú á framtíðina.

Við höfum notið hárrar atvinnuþátttöku og stöðugleika á vinnumarkaði, en það er ekki sjálfgefið. Að undanförnu höfum við því miður séð störf tapast og atvinnuleysi aukast. Það að hafa vinnu gefur fólki öryggi, sjálfstæði og virðingu. Að missa vinnuna er oft mikið áfall og því ber okkur að sýna skilning og samstöðu með þeim sem standa frammi fyrir slíkum aðstæðum. Við verðum að skapa tækifæri til atvinnu í öllum landshlutum og tryggja að hver og einn geti lifað og starfað þar sem hann kýs, með reisn.

Sterkt samfélag byggist á jafnvægi milli svæða, atvinnugreina og fólks. Við höfum öll hag af því að undirstöðuatvinnugreinar landsbyggðarinnar fái að dafna, því þegar þeim gengur vel, gengur þjóðinni vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Deila grein

07/10/2025

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Við stöndum frammi fyrir risastóru samfélagslegu máli: stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi. Ætlum við að halda áfram að benda hvert á annað – sveitarfélögin, heilbrigðiskerfið, fyrri ríkisstjórnir, núverandi ríkisstjórn, hinn og þennan ráðherra eða ráðamann– eða ætlum við að taka höndum saman og skapa raunverulega þjónustu sem bjargar mannslífum?

Fréttir af sjálfsvígum, alvarlegri vanlíðan, áhættuhegðun og ofbeldisbrotum, sem rekja má að miklu leyti til vanrækslu á geðheilbrigðisþjónustu og úrræðaleysi, eru að verða daglegt brauð á samfélagsmiðlum. Rannsóknir hafa sýnt og sannað að skortur á geðheilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu, ónógur stuðningur í skólum og alltof langir biðlistar hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Árið 2023 voru 47 sjálfsvíg á Íslandi, sem jafngildir um 12,4 á hverja 100.000 íbúa. Fyrstu sex mánuði ársins 2024 voru skráð 22 sjálfsvíg. Þetta eru ekki bara tölur – þetta eru einstaklingar, fjölskyldur og samfélög í sorg.

Staðan hjá börnum er sérstaklega sláandi: Í ágúst 2024 biðu 2.020 börn eftir þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna, samanborið við 738 börn í desember 2021. Tilvísanir hafa nær tvöfaldast á tveimur árum og meðalbiðtími er allt að 12–24 mánuðir. Á þessum tíma gætu börnin verið án nauðsynlegrar hjálpar. Starfsemi geðdeilda og sú vinna sem þar fer fram er oftast góð, en biðin og sá fjölþætti vandi sem við stöndum frammi fyrir kallar á fjölbreyttari úrræði sem geðdeildir hafa því miður ekki upp á að bjóða í dag.

Ísland kallar sig velferðarsamfélag – þá verðum við líka að haga okkur sem slíkt.      

    Það þarf að:

  • Fjármagna aðgerðir sem stytta biðlista.
  • Tryggja snemmtæka íhlutun og sálfræðiaðstoð í skólum.
  • Auka aðgengi að þjónustu óháð efnahag eða búsetu.

Ísland stærir sig af því að vera velferðarsamfélag. Förum að haga okkur þannig og gera ráðstafanir til þess að geta staðið undir því. Það er svo mikilvægt að vera með snemmtækar íhlutanir, að geta brugðist við áður en það er orðið of seint, áður en einstaklingurinn er kominn of langt, á verri stað sem getur haft svo afdrifaríkar afleiðingar á einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið. Skólakerfið hefur öskrað á hjálp, velferðarkerfið hefur öskrað á hjálp, heilbrigðiskerfið hefur öskrað á hjálp, foreldrar hafa öskrað á hjálp, börn, ungmenni og fullorðnir hafa öskrað á hjálp.

Þingsályktun um geðheilbrigðisþjónustu til 2030 var samþykkt árið 2022 og setur fram góða framtíðarsýn. En stefnur einar og sér bjarga engum – það þarf raunverulegt plan, fjármagn og framkvæmd.

Við getum breytt þessu. Aðgerðir í dag kosta minna en aðgerðaleysi á morgun. Stöndum saman og tryggjum öllum aðgang að nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu.

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er haldinn 10.október ár hvert og er hann tileinkaður vitund, fræðslu og umræðu um geðheilbrigði um allan heim. Ég vill hvetja alla til að klæðast grænu þennan dag sem táknar von, endurnýjun, jafnvægi, stuðning og samstöðu.

Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja og bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 7. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Deila grein

07/10/2025

Varðveita skal sterka lýðræðishefð á Íslandi

Ísland hefur notið þeirrar gæfu að búa við ríka lýðræðishefð frá stofnun Alþingis árið 930. Stofnun allsherjarþings var merkilegt nýmæli á þeim tíma, án beinnar fyrirmyndar á Norðurlöndum, þar sem þing voru aðeins fyrir afmarkaða landshluta en ekki fyrir heila þjóð. Lögin voru æðsta vald og allir þeim undirgefnir. Alþingi hefur allar götur síðan verið tákn um sjálfsforræði þjóðarinnar og grundvöllur þjóðfrelsisbaráttu. Þessi hefð fyrir lýðræðislegum ákvörðunum og sjálfstæðu réttarkerfi hefur verið burðarás í íslensku þjóðlífi í meira en þúsund ár.

Til að velsæld ríki á Íslandi er nauðsynlegt að efla alþjóðaviðskipti og standa vörð um alþjóðasamvinnu. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið er einn mikilvægasti alþjóðasamningur Íslands frá gildistöku hans árið 1994. Hann tryggir íslenskum almenningi og fyrirtækjum aðgang að innri markaði Evrópu, styrkir neytendavernd og stuðlar að samræmdum leikreglum á mörkuðum. Með samningnum tekur Ísland þátt í sameiginlegum reglum án þess að vera hluti af Evrópusambandinu og heldur þannig stjórn á eigin löggjöf. EES-samstarfið byggist á jafnvægi milli sjálfstæðra ríkja sem skuldbinda sig til samvinnu en framselja ekki alfarið löggjöf sína undir yfirþjóðlegt vald. Það er því mikilvægt að varðveita þetta jafnvægi, þar sem Ísland nýtur ávinnings samstarfsins án þess að fórna fullveldi sínu.

Bókun 35 við EES-samninginn gengur gegn íslenskri lýðræðishefð. Bókun 35 felur í sér að íslensk stjórnvöld viðurkenni forgang EES-réttar fram yfir landslög, sem væri í reynd afsal á löggjafarvaldi Alþingis. Samkvæmt Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseta EFTA-dómstólsins, er innleiðing bókunar 35 ekki formsatriði heldur efnislegt inngrip í stjórnarskrárbundið sjálfstæði ríkisins. Núverandi fyrirkomulag, þar sem íslenskir dómstólar túlka lög í samræmi við EES-samninginn, tryggir bæði réttindi borgaranna og virðingu fyrir þjóðréttarlegum skuldbindingum án þess að grafa undan stjórnarskránni. Samþykkt bókunar 35 væri hins vegar pólitísk yfirlýsing um að Ísland undirgangist yfirþjóðlegt vald yfir eigin lögum. Það myndi veikja stöðu Alþingis sem æðsta handhafa löggjafarvalds og brjóta gegn þeirri sömu lýðræðishefð sem hefur varðveitt sjálfstæði þjóðarinnar í meira en árþúsund.

Íslensk stjórnskipan byggist á því að valdið komi frá þjóðinni og sé bundið við lög sem hún setur sér sjálf. Með því að hafna bókun 35 ver Ísland lýðræðislega hefð sína og þá meginreglu að engin yfirþjóðleg löggjöf skuli hafa forgang fram yfir vilja Alþingis. Að standa vörð um þessa grundvallarreglu er ekki andstaða við Evrópusamvinnu heldur trygging þess að þátttaka Íslands í henni verði áfram á forsendum sterkrar lýðræðishefðar og fullveldis þjóðarinnar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á bak við atvinnuleysi er fólk

Deila grein

04/10/2025

Á bak við atvinnuleysi er fólk

Helsti styrkleiki íslensks samfélags hefur verið hátt atvinnustig og lítið atvinnuleysi. Það hefur einkennt velgengni okkar og skapað traust á framtíðina. Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir óvenjulegum aðstæðum þar sem margir hafa misst atvinnu á stuttum tíma, miklu fleiri en við höfum átt að venjast.

Atvinnumissir er mikið áfall

Svo fátt eitt sé nefnt má vísa til uppsagna á Grundartanga, í sjávarútvegi og iðnaði tengdum honum, lokunar kísilversins á Bakka við Húsavík og falls Play með tilheyrandi afleiðingum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Bak við tölur um atvinnuleysi er fólk af holdi og blóði. Atvinnumissir getur haft gríðarlega alvarleg áhrif fyrir einstaklinga og fjölskyldur, bæði efnahagslega og félagslega, og verður fyrir marga mikið áfall. Samfélagið í heild og stjórnvöld þurfa að sýna samkennd með þeim sem nú standa frammi fyrir þessum aðstæðum og ábyrgð með mótvægisaðgerðum.

Tækifærin eru til staðar

Þrátt fyrir áföllin er ljóst að Ísland býr yfir fjölmörgum styrkleikum og tækifærum. Ef rétt er haldið á málum getum við skapað ný störf, byggt upp verðmætasköpun og tryggt að fólk fái störf þar sem hæfileikar þess nýtast. Við búum yfir miklum mannauði, orkuauðlindum, öflugum sjávarútvegi og ferðaþjónustu, ásamt heilnæmri matvælaframleiðslu sem byggist á hreinleika náttúrunnar og telst með því besta sem þekkist í heiminum. Þetta eru hornsteinar sem við getum treyst á til að byggja sterka framtíð ef skynsamlega er staðið að málum. Atvinna fyrir alla, hefur verið og er eitt af grunngildum íslensks samfélags.

Störf og verðmætasköpun í forgangi

Margir hafa bent á að atvinnustefna ríkisstjórnarinnar virðist fyrst og fremst snúast um auknar álögur á heimili og fyrirtæki. Slíkt er hvorki rétta leiðin til að efla atvinnulífið né til að tryggja fólki störf. Þvert á móti getur það dregið úr fjárfestingum og valdið þannig fækkun starfa. Þess vegna er mikilvægt að ríkisstjórnin bregðist nú skýrt og ákveðið við. Hún þarf að leggja fram aðgerðir sem styðja við þá sem misst hafa vinnuna, hlúa að nýsköpun, efla atvinnu í öllum landshlutum og skapa umhverfi þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta treyst á stöðugleika og sanngjarnt rekstrarumhverfi. Framsókn hefur alltaf lagt áherslu á atvinnu og verðmætasköpun. Við höfum ítrekað lagt áherslu á samvinnu við lausn stærstu viðfangsefna samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur hins vegar kosið að fara aðra leið.

Í dag þurfum við raunhæfa nálgun, samvinnu allra hagaðila, til að snúa af braut vaxandi atvinnuleysis. Í dag þurfum við ekki stór orð, glansandi kynningar eða óraunhæf loforð. Við þurfum jarðbundin og raunsæ stjórnmál sem umfram allt veita fólki von um að betri tímar séu fram undan. Slík stjórnmál byggjast á ábyrgð, samstöðu og því að setja fólk í forgang.

Þannig getum við tryggt að Ísland verði áfram samfélag þar sem velferð og lítið atvinnuleysi eru hornsteinar og framtíðin er byggð á traustum grunni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgumblaðinu 4. október 2025.