Categories
Greinar

Ný tækifæri í smærri innlendri áfengisframleiðslu

Deila grein

03/02/2021

Ný tækifæri í smærri innlendri áfengisframleiðslu

Mikil gróska hefur verið í innlendri áfengisframleiðslu síðastliðin ár, og þá sérstaklega hjá smærri innlendum framleiðendum á öli og sterku áfengi. Mikil nýsköpun og vöruþróun á sér stað innan veggja þeirra, en hefur þróun á atvinnurekstri þeirra einnig átt sér stað. Þá er sérstaklega átt við jákvæða þróun í átt að ferðaþjónustu. Einnig hafa íslenskir áfengisframleiðendur farið í ákveðna útrás, en íslensk áfengisframleiðsla hefur unnið til alþjóðlegra viðurkenninga og birst á erlendum áfengismörkuðum. Jákvæð landkynning á sér stað með slíkri útrás, en umræddir framleiðendur nýta almennt íslenska sögu og menningu við nýsköpun, þróun og markaðsetningu þeirra. Ásamt þessu hefur áhugi neytenda á innlendri áfengisframleiðslu aukist til muna.

Þrátt fyrir þetta eiga smærri innlendir áfengisframleiðendur enn á brattan að sækja. Þeir eru háðir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) með afkomu sína, en mikið tekjutap felst í því ef verslunin kýs að hafa ekki vörur þeirra til sölu á ákveðnum stöðum. Aukin netverslun neytenda á áfengum vörum frá erlendum netverslunum hefur einnig leitt til neikvæðra áhrifa á samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda, ásamt þeim neikvæðu umhverfisáhrifum og neikvæðu áhrifum á afkomu ríkissjóðs sem fylgir slíkri netverslun. Einnig verður markaðurinn sífellt alþjóðlegri þar sem vörur frá öllum ríkjum heims hafa greiðan aðgang að innlendum markaði. Allt þetta gerir samkeppnishæfi smærri innlendra áfengisframleiðenda gagnvart stórum erlendum og innlendum framleiðendum töluvert verri en má vera. Mikilvægt er að örva innlenda framleiðslu ásamt því að tryggja aukin atvinnutækifæri um land allt.

Undirritaður hefur lagt fram frumvarp fyrir Alþingi um stuðning til smærri innlenda áfengisframleiðendur með afslætti af áfengisgjaldi og leyfi fyrir sölu á framleiðslustað. Frumvarpið er lagt fram með það markmið að styðja við bakið á þessum framleiðendum, tryggja samkeppnishæfi þeirra, stuðla að auknu frelsi á markaðinum, hagstæðari verði til neytenda og auknum atvinnutækifærum um allt land.

Afsláttur af áfengisgjaldi til smærri innlenda áfengisframleiðenda er til þess fallinn að lækka framleiðslukostnað þeirra og með því stuðla að frekari nýsköpun ásamt því að gera þá samkeppnishæfari á markaði. Smærri innlendir áfengisframleiðendur framleiða vörur sínar í minna magni og með því er framleiðslukostnaður þeirra hærri fyrir hvert eintak en hjá stærri framleiðendum. Þessi stærðarhagkvæmi endurspeglast í verðlagningu til neytenda, en vegna þessa neyðast smærri áfengisframleiðendur að selja sínar vörur á hærra verði en þeir stærri. Með þessu er einnig stuðlað að lægri verðlagningu til neytenda, sem gerir vörur smærri innlenda áfengisframleiðanda að ákjósanlegri kost í áfengisinnkaupum. Það er ekki ásættanlegt að innlendar framleiðsluvörur kosti jafnvel þrefalt hærra heldur en innfluttar vörur í áfengisútsölustöðum landsins.

Með leyfi til sölu á framleiðslustað er átt við að smærri innlendir áfengisframleiðendur geti fengið leyfi til að selja framleiðsluvörur sínar á framleiðslustað þeirra eða nærliggjandi húsnæði. Þá er salan bein og milliliðalaus, „beint frá býli“. Í dag bjóða margir smærri framleiðendur upp á skoðunar- og kynningarferðir um framleiðslustaði þeirra. Einnig hafa þeir boðið upp á smökkun á sínum vörum. Þó er smærri innlendum áfengisframleiðendum óheimilt að selja vörur sínar til einstaklinga sem sækja þá heim. Margir hafa gagnrýnt þá staðreynd, þ.e. bæði meðal neytenda og atvinnurekenda. Sem dæmi um aðila má nefna Samtök íslenskra handverksbrugghúsa, sem hafa lagt fram ýmsar góðar hugmyndir um hvernig hægt er að bæta rekstrarumhverfi smærri innlendra áfengisframleiðenda á jákvæðan máta.

Þessar breytingar skila sér til neytenda sem og framleiðenda. Við ætlum að styðja við bakið á smærri innlendum áfengisframleiðendum og tryggja samkeppnishæfi þeirra. Þó með ákveðnum þrepaskiptum takmörkunum með lýðheilsusjónarmið til hliðsjónar. Markmið frumvarpsins er ekki að fjölga skemmtistöðum eða auka áfengisneyslu, heldur að tryggja tækifæri smærri innlendra áfengisframleiðenda bæði á innlendum sem erlendum markaði. Með þessum aðferðum heldur ekki verið að finna upp hjólið, en báðar aðferðir eru viðurkenndar meðal nágrannaríkja okkar í átt að þeim markmiðum sem fram hafa komið. Aðferðirnar hafa reynst þeim vel, og þá vona ég að með samþykkt frumvarpsins á Alþingi náum við sama árangri.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Categories
Greinar

Aukin þjónusta við börn – átak í styttingu á biðlistum

Deila grein

28/01/2021

Aukin þjónusta við börn – átak í styttingu á biðlistum

Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir nauðsynlegri þjónustu, ráðgjöf og öðrum úrræðum sem bæta lífsgæði þeirra og allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Það er því ánægjulegt að tillaga mín um að veita 80 milljónum króna til að vinna á biðlistum hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins (GRR) fyrir börn á aldrinum 2-6 ára, hafi verið samþykkt á Alþingi nýlega.

Það þýðir einfaldlega að þjónusta GRR verður aukin til muna og átak gert í styttingu á biðlistum eftir þjónustu fyrir 2-6 ára börn hjá stöðinni. Samhliða þessu erum við að leggja af stað í innleiðingu á stórum kerfisbreytingum þar sem barnið verður hjartað í kerfinu og tryggt verður að samfélagið muni grípa fyrr inn í þegar aðstoðar er þörf.

Undanfarin ár hefur, undir forystu félagsmálaráðuneytisins, verið unnið að undirbúningi lagaumhverfis sem miðar að því að tryggja börnum og aðstandendum þeirra snemmbæran, samþættan stuðning þvert á kerfi. Verkefnið hefur verið unnið í víðtæku samráði við fjölmarga aðila, svo sem önnur ráðuneyti, þingmannanefnd um málefni barna, félagasamtök og almenning. Áhersla þessara breytinga er að tryggja að hin mismunandi þjónustukerfi innan velferðarþjónustunnar vinni betur saman til að tryggja farsæld barna. Ljóst er að fyrrgreindar breytingar, gangi þær eftir, munu hafa veruleg áhrif á biðlista hjá GRR, þar sem fleiri börn munu njóta snemmtæks stuðnings á fyrri þjónustustigum sem ætti að draga úr þörf þeirra fyrir þjónustu stöðvarinnar. Um leið mun skapast svigrúm til að sinna þeim börnum og fjölskyldum þeirra sem hafa miklar eða mjög miklar stuðningsþarfir.

Þá er gaman að segja frá spennandi tilraunaverkefni sem GRR er að vinna að, en stöðin hefur gert samstarfssamning um stofnun landshlutateyma á Suðurlandi og Suðurnesjum. Markmiðið er að auka samvinnu og samráð milli GRR og þjónustuaðila í heimabyggð við greiningu og íhlutun fatlaðra barna. Snúa markmiðin meðal annars að því að stytta biðtíma eftir þjónustu GRR og stuðla að virkari forgangsröðun að þjónustu stofnunarinnar og að tilvísanir til GRR verði í samræmi við þörf fyrir frekari greiningu, að í greiningarferlinu sé samfella í þjónustu við barnið í heimabyggð og stuðningur eftir þörfum frá GRR.

Börnin eiga alltaf að vera hjartað í kerfinu og áhrif þessara breytinga sem við erum að vinna í munu gera okkur mögulegt að setja enn meiri kraft í greiningu og ráðgjöf fyrir þau börn sem hafa miklar þarfir fyrir stuðning. Og það skiptir gríðarlegu máli.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. janúar 2021.

Categories
Greinar

Fjarfundafært

Deila grein

27/01/2021

Fjarfundafært

„Þú ert á mjút“ er líklega setning síðasta árs, enda hefur fjarfundaformið rutt sér hratt og örugglega til rúms sem viðbragð við samkomutakmörkunum. Þessi hraða þróun í fjarfundum mun ef laust nýtast okkur til frambúðar af því að þetta form nýtist einkar vel í stóru og dreif býlu landi. Við höfum ekki aðeins nýtt fjarfundina í vinnunni heldur hefur netið verið mikilvægur gluggi milli fjölskyldu og vina á erfiðum tímum.

Það er ekki langt síðan samfélagið og atvinnulífið hefði lamast algjörlega við samkomutakmarkanir eins og þær sem við höfum búið við að mestu síðasta árið. Lykillinn að því að allir þessir fjarfundir, oft landshorna á milli, hafa getað farið fram, er sú mikla uppbygging sem hefur verið í ljósleiðaratengingum um allt land. Sú stefna sem síðar fékk nafnið Ísland ljóstengt, á upphaf sitt í grein sem ég skrifaði árið 2013 og bar yfirskriftina „Ljós í fjós“. Því verkefni lýkur á þessu ári og þá verða yfir 99% heimila og fyrirtækja með ljósleiðaratengingu, sem er samkvæmt síðustu upplýsingum einsdæmi í heiminum.

Byggðamálin hafa lengi verið mér sérstaklega hugleikin. Það er mikilvægt að þau skilyrði séu sköpuð að fólk geti búið og starfað um allt land. Nú stendur yfir vinna við metnaðarfulla byggðaáætlun sem lögð verður fyrir þingið á vormánuðum. Sú áætlun sem nú er í gangi hefur reynst vel og náðst að sameina krafta ólíkra aðila í því að hugsa um hvað það er sem þarf til að byggðir geti dafnað á ólíkum stöðum. Byggðaáætlun er þó ekki eina áætlunin sem snýr að blómlegum byggðum um allt land því samgöngur og fjarskipti leika þar lykilhlutverk. Stórsókn í samgöngum er hafin og metnaðarfullar áætlanir eru um áframhaldandi eflingu fjarskipta um allt land.

Það er aðeins ein leið út kófinu: Áfram, áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. janúar 2021.

Categories
Greinar

Tækifærið gríptu greitt

Deila grein

26/01/2021

Tækifærið gríptu greitt

Ný mennta­stefna legg­ur ríka áherslu á hug­rekki, sköp­un og gagn­rýna hugs­un – eig­in­leika sem flutt hafa fjöll og skapað marg­vís­leg verðmæti fyr­ir sam­fé­lög. Tungu­málið okk­ar geym­ir mörg orð yfir þá ein­stak­linga sem koma auga á nýja mögu­leika og hrinda þeim í fram­kvæmd enda er ís­lensk­an „orða frjó­söm móðir“ eins og Bólu-Hjálm­ar kvað; brautryðjandi, forkólf­ur, hvatamaður, frum­kvöðull, frum­herji, upp­hafsmaður, ný­sköpuður, for­víg­ismaður og nú síðast nýyrðið at­hafna­skáld. Og talandi um skáld. Stein­grím­ur Thor­steins­son var eitt af þjóðskáld­un­um okk­ar. Stein­grím­ur kom víða við í ís­lensku þjóðlífi á nítj­ándu öld. Hann þýddi meðal ann­ars æv­in­týri H.C. And­er­sen og Þúsund og eina nótt og enn þykja snilld­arþýðing­ar hans hent­ug­ar tæki­færis­gjaf­ir handa börn­um. Stein­grím­ur var dygg­ur stuðnings­maður Jóns Sig­urðsson­ar í þjóðfrels­is­bar­átt­unni og lengi rektor Lærða skól­ans í Reykja­vík.

Tæki­færið gríptu greitt,
giftu mun það skapa.
Járnið skaltu hamra heitt,
að hika er sama og tapa.

Þess­ar lín­ur eru úr einu af þekkt­ari kvæðum Stein­gríms og lýsa svo vel eld­móði þeirr­ar kyn­slóðar sem lagði grunn að sam­fé­lag­inu sem við búum við í dag. Kvæðið fang­ar vel þá hugs­un sem ein­kenn­ir frum­kvöðla og eig­in­leik­ana sem þeir þurfa öðrum frem­ur að temja sér. Frum­kvöðlastarf snýst þó ekki ein­göngu um hug­ar­far, held­ur líka um skipu­lag, verk­ferla, þraut­seigju og margt fleira. Hug­ar­far frum­kvöðuls­ins er hægt að læra og styrkja, eins og allt annað. Þess vegna er mik­il­vægt að um­gjörðin sé góð og skapi tæki­færi fyr­ir ungt fólk. Mennta- og menn­ing­ar­málaráðuneytið hef­ur til dæm­is stutt við starf­semi sam­tak­anna Ungra frum­kvöðla í gegn­um árin, enda styður starf þeirra vel við þá stefnu að efla ný­sköp­un­ar- og frum­kvöðlahugs­un nem­enda. Þá fengu á dög­un­um ung­menni í Lang­holts­skóla Íslensku mennta­verðlaun­in fyr­ir framúrsk­ar­andi þró­un­ar­verk­efnið Smiðjan í skap­andi skólaum­hverfi. Mark­miðið er að auka veg þverfag­legra viðfangs­efna með áherslu á sköp­un, lyk­il­hæfni og nýt­ingu upp­lýs­inga­tækni í námi. Ég heim­sótti Smiðjurn­ar í gær og var heilluð af því starfi sem þar er unnið.

Ný mennta­stefna grund­vall­ast á því að nem­end­ur geti beitt rök­vísi, ígrund­un og hafi hug­rekki til að skapa. Í henni er lögð áhersla á sköp­un í öllu skóla­starfi til að stuðla að per­sónu­leg­um þroska, frum­kvæði og ný­sköp­un. Unnið skal með sam­spil gagn­rýn­inn­ar hugs­un­ar og sköp­un­ar til þess að þroska sjálf­stætt gild­is­mat nem­enda, styrkja hæfni til að setja ólík­ar niður­stöður í sam­hengi og efla þroska til sam­fé­lags­leg­ar umræðu. For­senda þess að virkja og viðhalda sköp­un­ar­krafti og -kjarki nem­enda er að þeim sé búið náms­um­hverfi þar sem hvatt er til frum­kvæðis, sjálf­stæðis og skap­andi hugs­un­ar á öll­um sviðum.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. janúar 2021.

Categories
Greinar

Ís­lenskan mat í skóla

Deila grein

25/01/2021

Ís­lenskan mat í skóla

Börnin okkar eru þau dýrmætustu verðmæti sem við eigum og viljum við þeim allt hið besta. Það á við um menntun, uppeldi og vöxt þeirra og viðgang. Eitt af því sem við erum meðvituð um er að maturinn sem börnin okkar borða sé hollur og næringarríkur. Fræðsluráði Akureyrarbæjar barst erindi fyrir skömmu síðan þar sem dregnar voru þær ályktanir að ekki væri farið eftir tilmælum Landlæknis þegar kemur að viðmiðum varðandi mat í grunn og leikskólum Akureyrar. Í kjölfar þessa er nauðsynlegt að árétta nokkur atriði. Teknir voru upp sjö vikna matseðlar fyrir alla leik og grunnskóla bæjarins, matseðlarnir voru yfirfarnir af næringafræðingi sem reiknaði þá út, út frá næringarþörf barnanna og manneldismarkmiðum. Síðan hafa matseðlarnir verið yfirfarnir og uppskriftum bætt við. Eitt af meginmarkmiðum með sameiginlegum matseðlum er að tryggja að öllum skólabörnum standi til boða hollur og næringaríkur hádegisverður.Það var mikil bragabót þegar þessir matseðlar voru teknir upp en Akureyrarbær gerir þá kröfu að fylgt sé eftir markmiðum Embætti landlæknis. Vissulega má alltaf leitast við að gera enn betur og bókaði fræðsluráð á síðasta fundi sínum að komið yrði á reglubundnum úttektum á matseðlum og gæðum matarins í mötuneytum skólanna.

Heilnæmur íslenskur matur

Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að aðstæður okkar til matvælaframleiðslu eru að mörgu leiti einstakar, lítil notkun sýklalyfja, hreint vatn og hreint loft er eitthvað sem aðrar þjóðir öfunda okkur af og reglur um aðbúnað dýra eru með þeim ströngustu sem þekkjast. Grænmetið, kjötið og mjólkin eru hollustuvara sem við getum verið stolt af. Landbúnaður er öflugur í nærsveitum okkar og mikið af þeirri framleiðslu er síðan fullunnin hér í bænum. Leiðin úr haga í maga er því oft stutt. Akureyrarbær fer í útboð á matvælum og meðal annars var gerður samningur við Kjarnafæði eftir slíkt útboð. Kjarnfæði hefur unnið að því að draga mikið úr óæskilegum aukefnum í sinni framleiðslu. Vöruþróun síðustu ára hefur snúið mikið að því að fækka óþolsvöldum ásamt aukefnum og hefur fyrirtækið verið í fararbroddi þegar kemur að vottunum, bæði innlendum og erlendum. Minna salt og sykur er öllum til heilla hvort sem það er framleiðslufyrirtækjum eða neytendum.

Frasinn „unnar matvörur“ hefur á síðustu árum verið notaður af sumum sem samheiti við óhollustu sem er mikil einföldun. Vinnsla á matvörum er oft nauðsynlegur og eðlilegur hluti af því að gera matvörur heppilegri til neyslu og auka matvælaöryggi. Dæmi um slíkt er t.d. gerilsneyðing á mjólk og framleiðsla á undanrennu og léttmjólk fyrir þá sem kjósa minni fitu. Vinnsla á matvælum er einnig oft til þess fallin að auka geymsluþol sem stuðlar að minni matarsóun. Unnar kjötvörur eru gríðarlega fjölbreyttur flokkur matvæla hafa farið í gegnum mismunandi framleiðsluferla og er stór hluti af daglegri neyslu fólks. Akureyrarbær setur strangar kröfur um heilnæmar unnar kjötvörur í útboð sitt og hefur Kjarnafæði unnið þétt með þeim stóru samstarfsaðilum að heilnæmari matseðli hverju sinni.

Íslenskar hefðir

Við Íslendingar höfum alist upp við alls kyns hefðir, m.a. gagnvart mat. Líkt og hjá öðrum þjóðum hafa matarhefðir okkar þróast með hliðsjón af þeim aðstæðum sem þjóðin bjó við í gegnum aldirnar og eru stór hlut af okkar menningararfleifð. Ég tel afar mikilvægt að við týnum ekki ríkum hefðum í okkar samfélagi eins og sprengidegi, hátíðarmat og þorramat svo dæmi séu tekin. En einmitt þessa dagana eru börnin okkar mörg hver að fá að bragða á þorramat og sum hver í fyrsta sinn. Skólar landsins eiga heiður skilinn fyrir að halda þessum hefðum á lofti og kynna börnin fyrir þessum matvælum sem tengjast þeim.

Vinnsla matvæla er hluti af matvælaframleiðslu. Eins og umræðan hefur verið síðustu ár ekki bara í síðustu viku þá, er aukin áhersla á heilnæmi vara og er það vel, því það er mikilvægt að ný þekking um betri næringu og hollustu skili sér til neytenda allra tegunda matvæla.

Ingibjörg Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður sveitarstjórnarráðs Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. janúar 2021.

Categories
Greinar

Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum

Deila grein

24/01/2021

Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum

Það er til­efni til að vera bjart­sýn. Ljós er við enda gang­anna með til­komu bólu­efn­is og við vit­um að betri tím­ar eru í vænd­um. Það eru uppi von­ir um að hag­vöxt­ur á heimsvísu muni taka veru­lega við sér vegna tækni­fram­fara. Á Íslandi hafa fram­lög til ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þekk­ing­ar­greina aldrei verið um­fangs­meiri en á þessu ári. Mark­mið stefn­unn­ar eru skýr: Skapa fleiri störf í þekk­ing­ar­grein­um. Megin­á­stæða þess að stjórn­völd fara í þessa veg­ferð er að við höf­um trú á framtíðinni og vilj­um fjár­festa í henni. Fjár­fest­ing­in er arðbær, fjöldi nýrra starfa verður til og fjöl­breytni at­vinnu­lífs­ins eykst. Sam­vinna sveit­ar­fé­laga, mennta­stofn­ana, vís­inda­sam­fé­lags og at­vinnu­lífs­ins verður kjarn­inn í nýrri klasa­stefnu til framtíðar og trygg­ir betri nýt­ingu fjár­muna.

Fjár­fest­ing­in nær 3% af lands­fram­leiðslu

Aukn­ing rík­is­fram­laga til ný­sköp­un­ar, rann­sókna og þekk­ing­ar­greina hef­ur hækkað um 78% frá 2019. Hér fer sam­an kraft­ur hins op­in­bera og at­vinnu­lífs­ins, þar sem end­ur­greiðslur hafa verið aukn­ar til muna og fyr­ir­tæki í þess­um geira, sem stunda öfl­ug­ar rann­sókn­ir og þró­un­ar­starf, hafa þegar nýtt. Tíma­setn­ing­in á þess­ari stefnu­mörk­un er rétt og eyk­ur lík­urn­ar á því að hlut­fall starfa í þekk­ing­ar­grein­um fari vax­andi á kom­andi árum. Mest­ur vöxt­ur hef­ur verið í tæknifyr­ir­tækj­um á heimsvísu og mun hann halda áfram sök­um þess að tækn­inotk­un hef­ur auk­ist mikið á tím­um kór­ónu­veirunn­ar, hvort sem á við um fjar­kennslu, net­versl­un eða fjar­fundi. Ljóst er að marg­ir eru að nýta tíma sinn bet­ur vegna tækn­inn­ar og þróa nýj­ar aðferðir við störf sín. Sum­ir ganga svo langt að segja að á aðeins nokkr­um mánuðum hafi sta­f­ræn þekk­ing auk­ist meira en nokk­ur hafi gert sér von­ir um á 10 árum og kalla það „10-ára tæknis­tökk­breyt­ing­una“. Afar lík­legt er að mark­miðið um fram­lag hins op­in­bera til rann­sókn­ar og þró­un­ar verði 3% af lands­fram­leiðslu í ár. Þetta mark­mið þótti draum­kennt fyr­ir ekki svo löngu.

Rann­sókna­sjóður aldrei stærri

Til­kynnt hef­ur verið um út­hlut­un styrkja Rann­sókna­sjóðs fyr­ir árið 2021. Alls hljóta 82 ný verk­efni styrk sem er mesti fjöldi frá upp­hafi og jafn­framt hef­ur heild­ar­upp­hæð sem út­hlutað er aldrei verið hærri. Fram­lög til Rann­sókna­sjóðs hafa hækkað en hann er leiðandi sam­keppn­is­sjóður hér á landi sem hef­ur verið starf­rækt­ur frá ár­inu 2004. Hlut­verk sjóðsins er að styrkja vís­inda­rann­sókn­ir og rann­sókn­artengt fram­halds­nám á Íslandi. Síðustu ár hafa fjár­fram­lög til sjóðsins verið um 2,5 millj­arðar kr. en í sam­ræmi við stefnu Vís­inda- og tækni­ráðs sem samþykkt var á síðasta ári voru fjár­veit­ing­ar til sjóðsins hækkaðar í 3,7 millj­arða kr. fyr­ir þetta ár. Árið 2020 var einnig veitt aukafram­lag til sjóðsins vegna áhrifa Covid-19, alls 775,6 millj­ón­ir kr. Styrk­veit­ing­ar til nýrra verk­efna nema á þessu ári 1,3 millj­örðum kr., en þar sem verk­efn­in eru al­mennt til þriggja ára verður heild­ar­fram­lag vegna þeirra um 4 millj­arðar kr. á ár­un­um 2021-2023. Auk nýrra verk­efna koma tæp­lega 2 millj­arðar kr. til greiðslu á ár­inu vegna styrkja til eldri verk­efna. Rann­sókna­sjóður styrk­ir einnig þátt­töku ís­lenskra aðila í mörg­um alþjóðlega sam­fjár­mögnuðum verk­efn­um. Það er afar ánægju­legt að fylgj­ast með verk­efn­un­um og eru þau fjöl­breytt; hátíðni­kerfi; nátt­úru­vá, mer­gæxli, utangena­erfðir og sam­lífi manna og ör­vera.

Við lif­um sann­ar­lega á áhuga­verðum tím­um og það er að birta til!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Willum Þór Þórsson, formaður Þingflokks Framsóknarmanna og formaður fjár­laga­nefnd­ar Alþingis.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2021.

Categories
Greinar

Hæfileikar barna í Fellahverfi

Deila grein

21/01/2021

Hæfileikar barna í Fellahverfi

Í upphafi kjörtímabilsins einsetti ég mér að móta sterkari umgjörð í skólakerfinu fyrir börn með annað móðurmál en íslensku. Við höfum sterkar vísbendingar um að hægt sé að gera betur og þegar er í gangi markviss vinna í þá veru. Ástæðan er einföld: Öll börn eiga jafnan rétt á tækifærum til að blómstra í leik og starfi og það er skylda samfélagsins að veita þeim stuðning sem þurfa. Tungumálið er lykillinn að samfélaginu og þeir sem ekki ná tökum á því eru í lakari samfélagsstöðu en hinir. Þess vegna þarf að tryggja með öllum tiltækum ráðum góða íslenskukunnáttu allra barna.

Fögnum fjölbreytni í nemendahópum

Á liðnu ári voru kynnt drög að heildstæðri stefnu og tillögur að markvissum aðgerðum til að styrkja stöðu barna með annað móðurmál en íslensku. Þar er meginhugsunin sú, að fjölbreytni í nemendahópum skuli fagna enda efli hún skólastarfi og ólíkir styrkleikar barna skapi margvísleg tækifæri til framþróunar. Slíkt leiði á endanum til betri menntunar fyrir alla. Rík áhersla er á þennan þátt í nýrri menntastefnu fyrir árin 2020-2030.

Nýverið var ýtt úr vör metnaðarfullu verkefni í þessum anda fyrir börn í Fellahverfi í Breiðholti. Þar búa börn með mjög fjölbreyttan bakgrunn og það segir sitt um fjölbreytileikann, að í leik- og grunnskólum eru jafnan töluð um 30 mismunandi tungumál. Um er að ræða þriggja ára samstarfsverkefni lykilaðila; nemenda, skólafólks og -stofnana í hverfinu, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, félags- og barnamálaráðuneytisins, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Þjónustumiðstöðvar Breiðholts og skrifstofu skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur.

Markmið verkefnisins er að auka hæfni í íslensku, efla málþroska og styrkja sjálfsmynd barnanna sem um ræðir. Stuðla að aukinni málörvun, meiri orðaforða og betri lesskilningi. Þá á að tryggja betur en áður snemmbæran stuðning við börn, samstarf skóla og frístundaheimila og samfellu í stuðningi milli skólastiga. Þannig á að stuðla að því, að börn í Fellahverfi njóti sömu tækfæra og önnur til menntunar. Verkefnið á að verða fyrirmynd sambærilegra verkefna um allt land og stefnt er að því að nýta reynsluna til að fræða kennara og starfsfólk skóla og frístundaheimila um þær aðferðir sem nýtast best börnum með annað móðurmál en íslensku.

Ný hugsun í málefnum barna

Félags- og barnamálaráðherra vinnur nú að tímamóta aðgerðum í þágu barna, þar sem þjónusta við börn verður stóraukinn og ný hugsun innleidd. Vilji ráðherra stendur til þess að börn njóti fyrsta flokks þjónustu og stuðnings, þar sem ólík kerfi vinni saman með skilvirkum hætti að velferð barnsins. Menntakerfið er einn þeirra hornsteina sem leggja grunninn að framtíð barna og því er brýnt að skólarnir taki mið af ólíkum þörfum í samfélaginu. Að öðrum kosti gætu stórir hópa barna orðið útundan, með neikvæðum afleiðingum fyrir þau sjálf og samfélagið allt. Það er skylda stjórnvalda að laða fram hæfileika allra barna í samfélaginu og finna fjölbreyttum eiginleikum þeirra farveg.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. janúar 2021.

Categories
Greinar

Kvikmyndagerð getur vaxið áfram

Deila grein

20/01/2021

Kvikmyndagerð getur vaxið áfram

Áhrif heims­far­ald­urs á menn­ingu og skap­andi grein­ar um heim all­an hafa verið gríðarleg. Aðstæðurn­ar hafa dregið fram styrk og veik­leika ólíkra greina, en jafn­framt gert fleir­um ljóst hversu efna­hags­legt fót­spor þeirra er stórt.

Mörg ríki leita nú leiða til að efla hug­vits­grein­ar á borð við kvik­mynda-, tón­list­ar- og leikjaiðnað og aðrar list­grein­ar. Tekj­ur þess­ara greina á heimsvísu nema hundraðföld­um þjóðar­tekj­um Íslend­inga, eða um 2 trilljón­um Banda­ríkja­dala á ári. Að auki knýja þær áfram ný­sköp­un og skapa virðis­auka inn­an annarra greina.

Sum­ar skap­andi grein­ar hafa blómstrað í heims­far­aldr­in­um. Þar má nefna leikjaiðnað og aukna alþjóðlega eft­ir­spurn eft­ir kvik­mynduðu efni og tónlist, gegn­um streym­isveit­ur af ýms­um toga. Mis­jafnt er hve mikl­ar tekj­ur skila sér til rétt­hafa, en öll­um er ljóst að mik­il tæki­færi eru til staðar. Þannig er því spáð að tón­list­ar­geir­inn muni tvö­fald­ast að efna­legu verðmæti á næstu árum og á Íslandi hef­ur kvik­myndaiðnaður aldrei verið jafn um­svifa­mik­ill og í fyrra. Þar kom margt til, því auk fag­legra þátta voru ytri aðstæður hag­stæðar fyr­ir er­lenda fram­leiðend­ur. End­ur­greiðslu­kerfið er gott og geng­isþróun var þeim hag­stæð. Ísland var jafn­framt eitt fárra landa sem buðu fulla þjón­ustu, á meðan sum voru nán­ast lokuð vegna heims­far­ald­urs. Hér tókst grein­inni að þróa og tryggja fram­kvæmd á skýr­um sótt­varn­a­regl­um á kvik­mynda­tökustað, halda verk­efn­um gang­andi og laða til lands­ins ný – t.d. banda­rísku MasterClass-net­nám­skeiðsröðina sem ís­lensk­ir kvik­mynda­gerðar­menn hafa unnið og tekið upp í tón­list­ar­hús­inu Hörpu.

Það er mik­il­vægt að Ísland styrki stöðu sína á vax­andi kvik­mynda­markaði. Efli um­gjörð kvik­mynda­fram­leiðslu, byggi á sömu prinsipp­um og áður en taki virk­an þátt í alþjóðlegri sam­keppni um kvik­mynda­verk­efni. Ein­falt end­ur­greiðslu­kerfi er meðal þess sem við eig­um að rækta enn frek­ar. Við ætt­um að hækka end­ur­greiðslu­hlut­fallið, eða nota það sem sveiflu­jafn­ara á móti geng­isþróun. Hlut­fallið gæti orðið allt að 35% þegar staða krón­unn­ar er sterk en að lág­marki 25% þegar krón­an er veik­ari. Einnig mætti hugsa sér stig­hækk­andi end­ur­greiðslur eft­ir stærð verk­efna til að laða stærri verk­efni til lands­ins. Mik­il­vægt er þó að end­ur­greiðslu­kerfið sé sjálf­bært. Þá er brýnt að hraða af­greiðslu mála, til að lág­marka kostnað fram­leiðenda við brú­ar­fjármögn­un sem stend­ur verk­efn­um fyr­ir þrif­um.

Marg­ir alþjóðleg­ir kvik­mynda­fram­leiðend­ur hafa einnig kallað eft­ir betri aðstöðu til upp­töku inn­an­húss árið um kring – kvik­mynda­veri sem í bland við sterk­ara end­ur­greiðslu­kerfi myndi styrkja sam­keppn­is­stöðu Íslands og tryggja okk­ur stærri hlut en áður í tekju- og at­vinnu­skap­andi verk­efn­um. Það er ekki eft­ir neinu að bíða – byrj­um strax.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. janúar 2021.

Categories
Greinar

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Deila grein

07/01/2021

Eitt sund­kort í allar laugar landsins?

Á dögunum rakst ég á grein sem ber heitið „Mikilvægi þess að börnin fari oft í sund og jafnvel stundi sund í tómstundarstarfi.” eftir Guðmund Hafþórsson. Í grófum dráttum fjallar greinin um hversu mikilvæg og góð hreyfing sundið er. Þetta er hreyfing sem þú getur stundað alla ævina, hreyfing sem eykur liðleika og bætir líkamsstöðununa.

Ég tengdi vel við þessa grein enda æfði ég sund á árum áður og bý enn að þeirri frábæru þjálfun. Eftir að hafa lesið greinina rifjaðist upp fyrir mér hugmynd sem ég fékk fyrir nokkru um að gera sundkort í sundlaugar landsins miðlæg. Upphaflega hugmyndin var reyndar sú að nágrannasveitarfélög tækju sig saman og biðu upp á sundkort svæðisbundið. En hvers vegna ekki að taka þetta lengra og bjóða upp á sundkort sem nær yfir allt landið?

Eins og kemur fram í greinninni sem vitnað er til hér að ofan er sund ákaflega góð hreyfing sem hentar fjölbreyttum aldurshópi alla ævi. Sundlaugarnar hafa líka upp á svo margt að bjóða, hvort sem það er sundlaugin sjálf til að synda í, heitu pottarnir, gufan eða rennibrautin. Ekki síst er það félagslegi þátturinn. Samverustund fjölskyldunnar, hitta fólk í pottinum og eiga þar góðar samræður eða bara að njóta kyrrðarinnar þegar enginn annar er.

En hvert væri markmið miðlægs sundkorts? Markmið miðlægs sundkorts væri að auka þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, stuðla að heilsubót og afþreyingu á hagkvæmari máta. Margir hverjir sem sundstaðina sækja reglulega eiga sundkort í fjölmörgum sundlaugum jafnvel víðsvegar um landið. Hver og einn á eflaust sína uppáhalds hverfislaug eða bæjarlaug en með miðlægu sundkorti eykst fjölbreytnin til heilsubótar og afþreyingar. Með aukinni rafrænni þjónustu væri hægt að losa okkur við samanvöðluð pappírskortin úr veskinu og eiga eitt kort í allar laugar með appi í símanum.

Eflaust höfum við áttað okkur enn betur á því hversu mikilvægar sundlaugarnar eru okkur eftir að þær lokuðu tímabundið vegna Covid. Ég mun áfram bíða eftir að mín uppáhalds sundlaug opni en nú er unnið að endurbótum búningsklefa Sundlaugarinnar Laugaskarði í Hveragerði. Það verða eflaust fagnarðarfundir þegar fastagestir hennar geta farið að mæta aftur að framkvæmdum loknum í apríl. Heppilegt væri að geta notað sundkortið sitt á meðan í t.d nágrannasveitarfélaginu Ölfusi. Það væri nú reyndar líka heppilegt ef Hveragerði og Ölfus væru eitt og sama sveitarfélagið en það er efni í aðra grein.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn í Hveragerði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. janúar 2021.

Categories
Greinar

Heimsborg við hafið

Deila grein

07/01/2021

Heimsborg við hafið

Sam­fé­lög verða til úr mörg­um ólík­um þátt­um. Aðstæður eru mót­andi þátt­ur, ekki síst þar sem lands­lag ramm­ar inn bæj­ar­stæði á stór­feng­leg­an en jafn­framt ráðandi hátt. Menn­ing og at­vinnu­hætt­ir ráðast líka af legu sam­fé­laga, í okk­ar til­viki aðgengi að lands­ins gæðum – fiski­miðum, vatni, orku og á síðari tím­um at­vinnu­skap­andi nátt­úru – og sam­göng­um á hverj­um tíma.

Fáir bæir eru feg­urri eða eiga merk­ari sögu en Seyðis­fjörður. Milli him­in­hárra fjalla hef­ur byggst upp öfl­ugt sam­fé­lag, menn­ing­ar­leg­ur horn­steinn og sögu­fræg­ur staður. Þar kom í land fyrsti síma­streng­ur­inn sem tengdi Ísland við um­heim­inn og þaðan hafa ferðalang­ar lengi lagt yfir hafið og gera enn. Teng­ing­in við um­heim­inn er þar sterk og í raun má segja að Seyðis­fjörður sé heims­borg í dul­ar­gervi. Fjöldi er­lendra lista­manna hef­ur dvalið við list­sköp­un í lengri eða skemmri tíma, þar eru veit­ingastaðir á heims­mæli­kv­arða, mann­lífið er blóm­legt og Seyðis­fjörður geym­ir sögu­fræg­ar bygg­ing­ar af er­lend­um upp­runa – lit­rík, nor­skættuð timb­ur­hús frá fyrstu ára­tug­um 20. ald­ar­inn­ar gera Seyðis­fjörð ein­stak­an meðal bæja á Íslandi. Mörg þeirra hafa mikið menn­ing­ar­sögu­legt gildi og njóta friðunar í sam­ræmi við það. Sum hafa fengið glæsi­lega and­lits­lyft­ingu á und­an­förn­um árum og eig­end­ur varið ómæld­um tíma og fé í varðveislu þeirra.

Aur­skriðurn­ar sem féllu á bæ­inn skömmu fyr­ir jól skutu Íslend­ing­um öll­um skelk í bringu og þjóðin fylgd­ist agndofa með frétt­um. Ótrú­leg mildi var að ekki yrði mann­tjón í ham­förun­um og engu lík­ara en al­mættið hafi staðið vörð um bæj­ar­búa. Þeirra bíður nú það verk­efni að bæta hið ver­ald­lega og menn­ing­ar­lega tjón sem varð, græða sár­in og standa sam­an. Stjórn­völd hafa heitið því að styðja Seyðfirðinga og vinna við hreins­un og end­ur­reisn er haf­in.

Brýnt er að bjarga sem mestu af per­sónu­leg­um verðmæt­um íbúa, og jafn­framt er mik­il­vægt fyr­ir sam­fé­lagið að menn­ing­ar­arf­ur­inn glat­ist ekki. Þúsund­ir sögu­legra ljós­mynda í eigu Tækni­m­inja­safns­ins fund­ust heil­ar í aurn­um og vinna við björg­un úr safn­kost­in­um hef­ur gengið vel. Það er menn­ing­in sem ger­ir okk­ur mennsk og hana ber okk­ur að varðveita.

Í dag sæki ég Seyðfirðinga heim, ásamt þjóðminja­verði og for­stjóra Minja­stofn­un­ar, til að sjá aðstæður með eig­in aug­um. Ég er full eft­ir­vænt­ing­ar að hitta kraft­mikið heima­fólk, en kvíði því jafn­framt ör­lítið að standa frammi fyr­ir eyðilegg­ing­unni sem hef­ur orðið. Við vit­um að hús­in geyma merka sögu, bæði fjöl­skyldna og sam­fé­lags­ins alls og það er okk­ar skylda að sýna aðstæðunum áfram virðingu. Það hafa all­ir hlutaðeig­end­ur sann­ar­lega gert hingað til og svo verður áfram. Það mun Þjóðminja­safnið gera sem og Minja­stofn­un, en báðar stofn­an­irn­ar gegna lyk­il­hlut­verki við viðgerð húsa og safn­gripa.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, varaformaður Framsóknar og mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. janúar 2021.