Categories
Greinar Uncategorized

Bréf frá Íslandi

Deila grein

13/06/2022

Bréf frá Íslandi

Um þess­ar mund­ir er þess minnst að 250 ár eru liðin frá merk­um vís­inda­leiðangri sem Eng­lend­ing­ur­inn sir Joseph Banks leiddi til Íslands árið 1772. Með hon­um í för og einna fremst­ur þeirra vís­inda­manna sem þátt tóku í leiðangr­in­um var hinn sænski Daniel Soland­er, nátt­úru­fræðing­ur og fyrr­ver­andi nem­andi Linnæ­us­ar við Upp­sala­há­skóla.

Daniel Soland­er fædd­ist árið 1733 í Norður­botni og það kom brátt í ljós að hann var góðum hæfi­leik­um bú­inn. Soland­er er lýst af sam­tíma­fólki sem vin­sæl­um og heill­andi manni sem klædd­ist iðulega lit­rík­um fatnaði. Að loknu námi í Upp­söl­um leiddi vís­inda­starfið Soland­er til Lund­úna þar sem hann hóf störf við Brit­ish Muse­um sem sér­fræðing­ur í flokk­un­ar­kerfi Linnæ­us­ar. Í kjöl­farið varð hann jafn­framt sam­starfsmaður Josephs Banks, hins fræga enska nátt­úru­fræðings. Áður en af Íslands­för­inni varð tóku þeir Banks meðal ann­ars þátt í mikl­um land­könn­un­ar­leiðangri um Kyrra­hafið með Cook kaf­teini og varð Soland­er þá fyrst­ur Svía til að sigla um­hverf­is hnött­inn.

Sir Lawrence, skipið sem bar leiðang­urs­menn frá Bretlandi, sigldi þann 29. ág­úst inn Hafn­ar­fjörð. Soland­er hélt rak­leiðis til Bessastaða á fund stift­amt­manns og amt­manns og hétu emb­ætt­is­menn­irn­ir full­um stuðningi við leiðang­ur­inn. Sir Lawrence fékk m.a. leyfi til að kasta akk­er­um í Hafnar­f­irði, en til þess þurfti leyfi vegna ein­ok­un­ar­versl­un­ar Dana sem enn var við lýði.

Ferðalöng­un­um var tekið með kost­um og kynj­um hér á landi. Þeir nutu fé­lags­skap­ar frammámanna í sam­fé­lag­inu, stunduðu nátt­úru­rann­sókn­ir, söfnuðu ýms­um rit­heim­ild­um og skrá­settu jafn­framt líf og aðbúnað í land­inu í máli og mynd­um. Einn af hápunkt­um leiðang­urs­ins var ferð um Suður­land þar sem m.a. var gengið á Heklu.

Hinn 9. októ­ber 1772 sigldi Sir Lawrence aft­ur frá Hafnar­f­irði og áleiðis til Bret­lands með gögn um nátt­úru, sam­fé­lag og sögu. Þessi til­tölu­lega stutta heim­sókn til Íslands markaði djúp spor.

Með í leiðangr­in­um til Íslands var Uno von Troil sem síðar varð erki­bisk­up í Upp­söl­um. Hann skrifaði bók um ferð þessa, Bref rör­ande en resa till Is­land eða Bréf frá Íslandi, sem var gef­in út árið 1777. Bók Uno von Troil var næstu ár á eft­ir þýdd á þýsku, ensku, frönsku og hol­lensku. Bók­in seld­ist vel og var prentuð í nokkr­um up­p­lög­um. Lýs­ing hans á Íslandi hafði mik­il áhrif í Evr­ópu 18. ald­ar og vakti áhuga ná­granna okk­ar á landi og þjóð.

Áhrifa leiðang­urs­ins varð ekki síst vart í Svíþjóð, þar sem Bréf frá Íslandi átti þátt í að skapa til­finn­ingu fyr­ir djúp­um tengsl­um þjóðanna, í gegn­um tungu­mál, sögu og menn­ingu. Sam­bland af sögu­legri teng­ingu Íslands og Svíþjóðar, for­vitni og fé­lags­lynd­um eig­in­leik­um Soland­ers og von Troils ásamt ein­stakri þekk­ingu þeirra skipti sköp­um fyr­ir leiðang­ur­inn. Menn­irn­ir tveir mynduðu sterk tengsl við ís­lensku gest­gjaf­ana í gegn­um sam­eig­in­leg­an bak­grunn í nor­rænu tungu­máli, menn­ingu og sögu.

Í sam­starfi við menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið mun sænska sendi­ráðið standa fyr­ir mik­illi dag­skrá tengdri rann­sókn­ar­ferð Daniels Soland­ers sem mun standa yfir í tvö ár með þátt­töku um 30 ís­lenskra sam­starfsaðila. Þema verk­efn­is­ins er Soland­er 250 – Bréf frá Íslandi. Tíma­móta­árið ein­kenn­ist af nánu sam­tali lista og vís­inda. Það er þver­menn­ing­ar­legt og opn­ar á sam­tal milli norður­skauts- og Kyrra­hafs­svæðis­ins og inn­an Norður­landa. Tíma­móta­árið lít­ur jafn­framt fram á við, inn í sam­eig­in­lega framtíð okk­ar. Verk­efnið snýst um sam­tal vinaþjóðanna Íslend­inga og Svía um sam­eig­in­lega sögu, sem og lofts­lag, nátt­úru og menn­ingu í fortíð, nútíð og framtíð.

Ein­stök lista­sýn­ing er horn­steinn tíma­móta­árs­ins. Í sam­starfi við Íslenska grafík hef­ur tíu ís­lensk­um lista­mönn­um verið boðið að hug­leiða Ísland, Soland­er og leiðang­ur­inn árið 1772. Lista­menn­irn­ir sem taka þátt í því eru Anna Lín­dal, Aðal­heiður Val­geirs­dótt­ir, Daði Guðbjörns­son, Gíslína Dögg Bjarka­dótt­ir, Guðmund­ur Ármann Sig­ur­jóns­son, Iré­ne Jen­sen, Laura Valent­ino, Soffía Sæ­munds­dótt­ir, Val­gerður Björns­dótt­ir og Vikt­or Hann­es­son. Tíu grafíklista­verk þeirra mynda sýn­ingu sem heit­ir Soland­er 250: Bréf frá Íslandi. Sýn­ing­in verður form­lega vígð í Hafnar­f­irði í ág­úst.

Sýn­ing þessi verður sýnd á ell­efu stöðum víðsveg­ar um Ísland ásamt lista­sýn­ing­unni Para­dise Lost – Daniel Soland­er’s Legacy og inni­held­ur verk eft­ir tíu lista­menn frá Kyrra­hafs­svæðinu sem áður hafa verið sýnd á Nýja-Sjálandi, í Ástr­al­íu og Svíþjóð. Þetta er ein­stak­ur viðburður, sam­tal í gegn­um list milli norður­slóða og Kyrra­hafs, hér á Íslandi. Von­ast er einnig til þess að þetta veki áhuga meðal hinna fjöl­mörgu er­lendu gesta Íslands. Auk þess er ætl­un­in, með öllu verk­efn­inu árin 2022 og 2023, að vekja áhuga og for­vitni barna á nátt­úru­vís­ind­um og stór­kost­legri flóru Íslands. Við send­um vissu­lega bréf frá Íslandi með þönk­um um list­ir og vís­indi, um menn­ing­ar­tengsl og um sam­eig­in­lega framtíð okk­ar!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og

Pär Ahlber­ger sendi­herra Svíþjóðar á Íslandi.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 11. júní 2022

Categories
Fréttir

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Deila grein

09/06/2022

Störf þingsins: Halla Signý og Jóhann Friðrik

Halla Signý Kristjánsdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson voru í störfum þingsins á Alþingi í dag. Halla Signý segir Vestfirðinga eiga Íslandsmet í þolinmæði er kemur að samgöngubótum en nú hillir loks undir aðgerðir enda fullfjármagnaðar framkvæmdir komnar á rekspöl. Metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum upp á 20 milljarða kr. eru nú á áætlun í samræmi við samgönguáætlun til 2024.

Jóhann Friðrik benti á að áfengislög eru frá 1998 og að margt breyst frá þeim tíma, ekki síst á sviði forvarna og rannsókna. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að fram fari heildarendurskoðun á áfengislögum með að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og síðast sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.

Halla Signý Kristjánsdóttir í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Við Vestfirðingar, líkt og íbúar annarra landshluta, erum háð greiðum samgöngum í okkar daglega lífi alla daga ársins. Með samþjöppun grunnþjónustu og stærri atvinnusvæðum skiptir enn meira máli en áður að hafa greiðar samgöngur og sú þróun er ekki að fara að breytast næstu áratugi. Vestfirðingar eiga örugglega Íslandsmet í þolinmæði þegar kemur að samgöngubótum og nú er útlit fyrir að þeir sem búa og starfa á Vestfjörðum geti farið að anda léttar. 20 milljarða kr. metnaðarfullar samgönguáætlanir á Vestfjörðum eru nú í áætlun og fullfjármagnaðar í samræmi við fimm ára samgönguáætlun, 2020–2024. Upphafið var stórframkvæmd við Dýrafjarðargöng sem kallar á enn meiri framkvæmdir. Já, við skulum tala um Dynjandisheiðina. Framkvæmdir við mikilvægar endurbætur á Vestfjarðavegi um Dynjandisheiði eru þegar hafnar. Í síðustu viku var auglýst útboð á 13 km kafla sem skal vera lokið árið 2024. Þegar þessum kafla lokið erum við að sjá nýframkvæmdir á 25 km kafla á heiðinni. Frá opnun Dýrafjarðarganga hefur ekki alltaf verið auðvelt að halda veginum um heiðinna opnum yfir verstu vetrarmánuðina. Uppbygging vegarins bætir aðstæður til vetrarþjónustu og þegar hann verður tilbúinn verður það raunverulegur möguleiki að halda greiðum samgöngum milli norður- og suðursvæðis allt árið um kring.

Virðulegi forseti. Enn eitt stóra verkefnið er hafið í Gufudalssveit. Það hillir undir að vegur um Teigsskóg verði að veruleika. Vinna við veginn hafin og þar með er séð fyrir áratugadeilur um vegstæðið. Það er ánægjulegt að sjá að þeir sem fengu verkið eru meðvitaðir um að það er verið að vinna á ósnortnu landi og hafa það að leiðarljósi að lágmarka röskun. Víðar er verið að vinna að endurbótum í fjórðungnum og samtals er verið að vinna á nærri 18 km kafla á þessu svæði. Allar þessar endurbætur eru mikilvægar fyrir okkur, hvort sem við búum á Vestfjörðum eða annars staðar á landinu.“

Jóhann Friðrik Friðriksson í störfum þingsins:

„Virðulegi forseti. Eitthvert vinsælasta viðfangsefni hér á þingi ár eftir ár snýr að áfengislöggjöfinni í landinu. Enginn þarf að velkjast í vafa um þá staðreynd að áfengi er alls ekki eins og hver önnur vara. Heilsufarslegur og samfélagslegur skaði af áfengisneyslu er gríðarlegur og veldur umtalsvert meiri skaða en öll önnur vímuefni, enda eina löglega vímuefnið á markaði. Sem betur fer nota flestir áfengi í hófi en rannsóknir sýna að hömlur á aðgengi skila árangri í þeirri viðleitni stjórnvalda að lágmarka óæskileg áhrif á lýðheilsu í landinu. Sem dæmi um frumvörp sem snúa að breytingum á áfengislögum og koma upp í hugann má nefna frumvarp um aðkomu sveitarfélaga að staðarvali áfengisverslana, sala áfengis á framleiðslustað, frumvarp um sölu áfengis á sunnudögum og leyfi til sölu áfengis í íslenskum netverslunum. Mér að vitandi liggur ekki lýðheilsumat til grundvallar þessum frumvörpum. Myndi það vera verulega til bóta og mun ég því leggja slíkt til.

Virðulegi forseti. Sjálfur er ég hlynntur frelsi með ábyrgð og vill því taka fram að í 1. gr. áfengislaga segir, með leyfi forseta: „Tilgangur laga þessara er að vinna gegn misnotkun áfengis.“ Lögin eru frá 1998, en frá þeim tíma hefur margt breyst, sér í lagi á sviði forvarna og rannsókna. Ég tel því mikilvægt að farið verði í heildarendurskoðun á áfengislögum með það að markmiði að taka tillit til samkeppnissjónarmiða, misræmis á milli innlendra og erlendra aðila, en fyrst og fremst þeirra sjónarmiða er snúa að forvörnum, áhrifum áfengisneyslu á börn og unglinga og lýðheilsu í landinu.“

Categories
Fréttir

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Deila grein

09/06/2022

Treystum atvinnu og byggð um land allt

Ingibjörg Isaksen og Stefán Vagn Stefánsson töluðu fyrir hönd Framsóknar í eldhúsdagsumræðum á Alþingi.

Ingibjörg talaði um orkumál, fæðuöryggi og heilbrigðismál. Hún sagði að á síðustu árum hafi verið gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið en það væri ekkert nema fyrir mannauðinn sem þar starfar.

Takk, framlínufólk í heilbrigðiskerfinu!

Covid faraldurinn reyndi mikið á framlínufólkið í heilbrigðiskerfinu, sem lagði á sig ómælda vinnu. Samstaða þess og ósérhlífni hélt heilbrigðiskerfinu gangandi. Sagði hún að við getum seint þakkað þeim nægilega. Nýtti hún tækifærið og sagði takk!

Nauðsynlegt að gefa út ný virkjanaleyfi

Hún sagði að það sé Alþingis að standa vaktina að ná kolefnishlutleysi. Það þurfi fjölbreyttar lausnir í orkumálum; nýjar virkjanir og styrking núverandi virkjana. Nauðsynlegt sé að gefa út ný virkjanaleyfi, því vernd og virkjun geti haldist í hendur. Hún sagði nóg af grænni orku sem mætti nýta í sátt við náttúruna.

Ingibjörg sagði afleiðingar stríðsins í Úkraínu hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir bændur. Það geti leitt til þess að framboð á innlendri vöru dragist saman og leitt til þess að fæðuöryggi verði í hættu. Það þurfi að bregðast við.

Samtal og samvinna leiðarljós í þágu samfélagsins alls

Stefán Vagn fór yfir það sem ríkisstjórninni hefur tekist vel upp með og að nú þurfi að halda áfram. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar.

Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða.

Búsetuskilyrði jöfnuð enn frekar með skattkerfinu

Stefán Vagn nefndi t.d. verkefnið „Óstaðbundin störf“ og að tryggja þurfi góðar samgöngur um allt land því það skapi fleiri atvinnutækifæri. Hann ræddi hvort ekki væri kominn tími til að nýta skattkerfið til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig mætti t.d. hvetja lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins.

Stefán Vagn sagði engan tíma mega missa að bregðast við vanda bænda, og að mikilvægt sé að taka samtalið en á sama tíma bera virðingu fyrir ólíkum skoðunum. Það sé mikilvægt til þess að ná árangri.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagur: ræða Stefáns Vagns Stefánssonar

Deila grein

09/06/2022

Eldhúsdagur: ræða Stefáns Vagns Stefánssonar

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Mig langar að tala um að halda áfram. Síðastliðin fjögur og hálft ár hefur miklu verið áorkað þrátt fyrir mikinn öldugang. Ríkisstjórninni hefur tekist að rétta skútuna af og sigla henni í rétta átt þrátt fyrir ólgusjó í formi kórónuveirufaraldursins og nú innrásar Rússa í Úkraínu. En við ætlum að halda áfram. Mörg þjóðþrifamál bíða afgreiðslu okkar og það er okkar á Alþingi að vakta þau, breyta og bæta og að lokum afgreiða þau með besta mögulega hætti. Með samtali og samvinnu að leiðarljósi vinnum við best í þágu samfélagsins alls.

Við í Framsókn leggjum áherslu á að setja allt landið á dagskrá, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Það á enginn að mæta afgangi. Okkur ber að sameinast um það markmið að jafna búsetuskilyrði þvert yfir landið. Fólk á ekki að sæta mismunun vegna búsetu í neinni mynd og hvað þá innan stjórnsýslunnar. Í þeirri vinnu eru margir boltar sem við þurfum að grípa. Byggðamál og byggðaþróun eru málaflokkar sem við eigum að gera hátt undir höfði. Í tíð þessarar ríkisstjórnar hafa skref verið stigin í átt að jöfnun búsetuskilyrða. Má þar nefna verkefnið „Óstaðbundin störf“ þar sem opinber störf eru greind á nýjan máta. Eru þau staðbundin eða er hægt að vinna þau hvar sem er? Þau síðarnefndu eiga að vera skilgreind sem störf án staðsetningar, störf sem hægt er að vinna á Sauðárkróki, Ísafirði, Reykjavík eða í Borgarfirði. Þetta verkefni skiptir landsbyggðina miklu máli og getur breytt sviðsmynd Íslands á jákvæðan máta. Einnig velti ég fyrir mér hvort tími sé kominn á að nýta skattkerfið okkar til að jafna búsetuskilyrði enn frekar og aðstöðumun fólks í dreifðari byggðum. Þannig getum við t.d. hvatt lítil og meðalstór fyrirtæki áfram utan höfuðborgarsvæðisins. Með því getum við bætt fjölþætta verðmætasköpun um allt land og fjárfest í fólki. Fordæmin eru til staðar en verkefni sem þetta hefur gefist vel í Noregi þar sem skattkerfið hefur verið nýtt í þágu byggðaþróunar.

Við höfum gert stórátak í samgöngumálum á síðastliðnum árum og höfum háleit markmið um að halda áfram veginn. Það á við bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Fullnægjandi samgöngur eru undirstaða samkeppnishæfs samfélags og velmegunar þjóðarinnar. Með góðum samgöngum komumst við langt í jöfnun búsetuskilyrða en samgöngur eru forsenda byggða og innviða verðmætasköpunar. Hér er mikilvægt að ýta ekki á bremsuna. Við ætlum að gefa í, stytta vegalengdir á milli byggða, efla atvinnusvæði á landinu öllu og bæta umferðaröryggi.

Við í Framsókn trúum á fjölgun fjölbreytilegra atvinnutækifæra þvert yfir landið. Þar spila óstaðbundin störf stóra rullu. Á sömu hlið teningsins má nefna nýsköpun, ferðaþjónustu og spennandi tækifæri í kvikmyndagerð.

Á landsbyggðinni eru landbúnaður og sjávarútvegur burðarstoðir í atvinnulífi og grunnstoðir fæðuöryggis Íslands. Mikilvægt er að standa vörð um þessar starfsgreinar, ekki aðeins fyrir þá sem þar vinna heldur einnig í þágu neytenda og fæðuöryggis þjóðarinnar. Fæðuöryggi er þjóðaröryggismál og við eigum að horfa þannig á málaflokkinn. Í landbúnaði berjast margir í bökkum við að finna rekstrargrundvöll í núverandi stöðu og ekki hefur stríðið í Úkraínu bætt aðstæður með hækkandi kostnaði á aðföngum. Við megum engan tíma missa við að finna lausnir á þeirri stöðu sem bændur lifa við í dag. Vinna þarf með landbúnaði og sjávarútvegi í sátt í leit að lausnum. Mikilvægi sáttar og samvinnu er óumdeilt og þau sjónarmið verða að vera leiðarljós í nýrri vinnu samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu sem matvælaráðherra hefur nú skipað.

Verkefnin fram undan eru misjöfn að stærð og burðum. Með samvinnu, samtali og virðingu fyrir ólíkum skoðunum munum við komast í gegnum þau saman. Það er verkefnið.

Góðir landsmenn. Ég óska þingmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs sumars.

Categories
Fréttir

Eldhúsdagur: ræða Ingibjargar Isaksen

Deila grein

08/06/2022

Eldhúsdagur: ræða Ingibjargar Isaksen

Hæstv. forseti, kæru landsmenn!

Nú líður að lokum þingvetrar. Það hefur verið mikill heiður að fá að starfa í þessum sal í þágu þess að gera samfélagið okkar betra fyrir alla. Verkefnin hafa verið mörg og ólík og hefði ég kosið að fleiri mál hefðu komist í gegn á þessu þingi, en vinna þessa vetrar mun skila sér áfram á næsta þingi. Öll þau mál sem rædd hafa verið hér eru mikilvæg en nokkur standa þó upp úr.

Staðan í orkumálum þjóðarinnar hefur verið mér sérstaklega hugleikin. Svo virðist sem að á síðustu árum hafi fólk, bæði hér inni og í samfélaginu, forðast að ræða orkumál og hefur það leitt til ákveðnar stöðnunar. Útlit er fyrir að sú stöðnun hafi loksins verið rofin.

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram það markmið að Ísland nái kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040 með fullum orkuskiptum og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. Hér er um að ræða göfugt markmið og það er okkar hér á Alþingi að standa vaktina.

En svo hægt sé að ná þeim markmiðum er mikilvægt að horfa á heildarmyndina.

Við þurfum fjölbreyttar lausnir í orkumálum. Nýjar virkjanir, aflaukning virkjana sem þegar eru til staðar, styrking á flutningskerfi raforku og dreifikerfum, og áhersla á bætta orkunýtni og orkusparnað eru allt liðir í því að búa okkur undir framtíðina. Til að mæta orkuþörf er mikilvægt að gefa út ný virkjunarleyfi. Dæmin hafa sannað að vernd og nýting geta haldist í hendur og þangað stefnum við. Á sama tíma og lönd í kringum okkur leita logandi ljósi að nýjum umhverfisvænum orkukostum höfum við aðgang að innlendri grænni orku. Við erum rík af náttúruauðlindum og getum nýtt þær með skynsamlegum og hætti í sátt við náttúruna.

Það er óumflýjanlegt að nýta þurfi tækifæri til grænnar orkuframleiðslu í auknum mæli. Þar getum við náð sátt með tilliti til náttúruverndar, menningarsögulegra minja, hagkvæmni og sjálfbærni.

Þá er beislun vindorku loksins komin á dagskrá fyrir alvöru, en svo hægt sé að nýta vindorkuna þarf öflugra flutningskerfi og vatnsafl sem spilar með. Stefnt er að því að reisa tvo vindorkulundi í landi í eigu Landsvirkjunar. Hér er ríkið að stíga mikilvæg fyrstu skref. Vindorka er bæði hagkvæm og endurnýjanleg og sem slík einn af betri kostum til framtíðar orkuvinnslu.

Í dag státar engin önnur þjóð af jafn háu hlutfalli grænnar orku af heildar orkunotkun og við Íslendingar gerum. Af því getum við verið stolt.

Hæstvirtur innviðaráðherra lagði fram á þessu þingi frumvarp um breytingu á skipulagslögum sem liðkar fyrir framkvæmdir vegna flutningskerfis raforku. Það er gríðarlega brýnt að flutningskerfi raforku sé byggt upp til þess að þjóna markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni og hagkvæmni. Þetta frumvarp þjónar framtíðinni, enda er öflugt flutningskerfi forsenda orkuskipta og árangurs í loftlagsmálum. Styrking flutningskerfis raforku þolir enga bið, en á hverju ári tapast kringum 10 milljarðar króna vegna núverandi flutningskerfis. Hér eru atvinnu- og uppbyggingartækifæri til staðar.

Í upphafi þings vofði heimsfaraldurinn enn yfir en við vorum farin að sjá til lands með von um að heimurinn tæki við sér eftir langan vetur. Strax í kjölfar faraldursins barst okkur önnur áskorun. Innrás Rússa í Úkraínu sem hefur snert okkur öll og afleiðingarnar hafa teygt anga sína hingað.

Úkraína er stærsti kornframleiðandi í Evrópu, sem er undirstaða dýrafóðurs. Skortur á fóðri hér á landi getur valdið framleiðslustöðvun í eggja,- alifugla- og svínarækt og dregur úr framleiðslu í nautgriparækt, mjólkuriðnaði og að einhverju marki í sauðfjárrækt. Einnig standa bændur fyrir erfiðum ákvörðunum eftir miklar verðhækkanir á aðföngum vegna stríðsins.

Staðan er grafalvarleg. Ef ekki verður brugðist við með einhverjum hætti kann framboð á innlendri vöru að dragast verulega saman næstu misseri og þar með ógnað fæðuöryggi landsins.

Mikilvægi fæðuöryggis og íslensks landbúnaðar hefur lengi verið í brennidepli hjá okkur í Framsókn. Standa verður vörð um landbúnaðinn og leita þarf varanlegra lausna á vanda bænda til framtíðar.

Norðmenn hafa brugðist við m.a. með auka greiðslum til bænda sem bæta fyrir óvenjulegar kostnaðarhækkanir á þessu ári. Hæstvirtur matvælaráðherra hefur skipað starfshóp sem á að vinna hratt og örugglega að tillögum til að bregðast við síhækkandi verðlagi á aðföngum til bænda. Ég treysti á að starfshópurinn komi með raunhæfar tillögur.

Þingflokkur Framsóknar hefur rætt þá tillögu að bændur fái undanþágu á virðisaukaskatti á innleggi, sem kemur sem útskattur á framleiðanda, til tveggja ára. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll fyrir bændur þar sem neytendur finna ekki fyrir verðhækkunum. Framsókn hefur einnig beitt sér fyrir að afurðarstöðvar í kjötiðnaði verði heimilað samstarf og samvinnu með því er hægt að ná fram mun meiri hagræðingu innan afurðageirans en nú er.

Áskoranir liggja víðar. Á síðustu árum hefur verið gríðarlegt álag á heilbrigðiskerfið og verkefnabunkinn er stór. Heilbrigðiskerfið væri ekkert ef ekki væri fyrir allan þann mannauð sem við búum yfir. Mönnun heilbrigðisstarfsfólks er viðvarandi áskorun hér heima sem og erlendis.

Covid faraldurinn reyndi mikið á framlínufólkið okkar í heilbrigðiskerfinu, sem lagði á sig ómælda vinnu. Með þeirra samstöðu og ósérhlífni náðist að halda heilbrigðiskerfinu gangandi. Þar léku þrautseigja og útsjónarsemi lykilhlutverk í óeigingjarnri vinnu framlínufólksins okkar. Við getum seint þakkað þeim nægilega. Til þeirra vil ég nýta tækifærið hér og segja takk!

Það getur verið freistandi að leggja mat á heiminn út frá eigin forsendum en þegar unnið er að stórum málum verðum við að geta borið þann þroska að skilja aðstæður annarra og leita sameiginlegra leiða. Ég veit að við hér á Alþingi getum lagst saman á árarnar þvert á flokkslínur til þess að vinna að bættu heilbrigðiskerfi. Með samvinnu og samtali að leiðarstefi getum við komist í gegnum hvaða brimskafla sem er. Við byggjum á góðum grunni en það þarf kraft og þor til þess að halda áfram. Íslenska þjóðin er í eðli sínu jákvæð, úrræðagóð og stendur saman. Það höfum við margsannað.

Kæru landsmenn,

Ég hlakka til áframhaldandi samvinnu. Sumarið tekur nú á móti okkur opnum örmum. Ég vil óska öllum gleðilegs sumars og vona að allir njóti sólarinnar. Við eigum það svo sannarlega skilið.

Categories
Greinar

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Deila grein

08/06/2022

Ekki spretta grös við ein­samlan þurrk

Sú staða sem uppi er í heiminum í dag minnir okkur rækilega á hversu mikilvægt það er að tryggja fæðuöryggi í landinu. Innlend framleiðsla mun seint geta uppfyllt alla þá fjölbreytni sem eftirspurnin krefst. Þó er það ljóst að við getum spýtt verulega í til að tryggja að neytendur hafi ávallt aðgang að góðum og heilnæmum matvælum. Stefna um fæðu- og matvælaöryggi á Íslandi er liður í stefnu almannavarna- og öryggismálum sem er hluti af þjóðaröryggisstefnu landsins.

Íslenskir matvælaframleiðendur í ólgusjó

Staða íslenskra bænda er grafalvarleg, svo alvarleg að sársaukamörkum hefur fyrir löngum verið náð. Sauðfjár- og nautgripabændur standa mjög illa og ef ekkert verður að gert þá horfir við algjört hrun í greininni og það mjög hratt. Verð til bænda hefur þróast nær öfugt við vísitölu neysluverðs. Matvælaverð til neytenda hefur hækkað og kemur til með að hækka enn frekar ef ekki verður brugðist rétt við. Verð til kjötframleiðenda hefur lækkað á sama tíma og öll aðföng hafa hækkað verulega. Það er útséð að bændur þurfa að fá afurðaverð hækkað verulega svo hægt sé að halda framleiðslu í jafnvægi, og að óbreyttu kemur það niður á neytendum.

Íslensk matvælaframleiðsla er mikilvæg

Við í Framsókn höfum ávallt verið óhrædd við að benda á það augljósa, þörfina og mikilvægi þess að styðja og vernda íslenskan landbúnað. Með því að styðja við íslenska landbúnaðarframleiðslu tryggjum við ekki aðeins fæðuöryggi, heldur verndum einnig störf fólks og tryggjum fjölbreytt atvinnulíf. Það gleymist nefnilega oft að þúsundir einstaklinga starfa við matvælaframleiðslu hér á landi. Með því að efla íslenskan landbúnað er hægt að draga úr niðursveiflu í hagkerfinu og um leið tryggja fæðu- og matvælaöryggi í landinu

Undirrituð vilja minna á tillögu okkar í Framsókn að horft verði til þess að heimila afurðastöðvum í kjötiðnaði undanþága frá samkeppnisreglum, þ.e. heimild til samvinnu og samstarfs, sambærilegum og hafa verið í mjólkuriðnaði síðustu 17 ár. Leið að lausn snýr að afurðastöðvakerfinu og hagræðingu þess. Þá kalla ófyrirséðar breytingar í heiminum á tafarlausar aðgerðir. Það liggur fyrir að sauðfjárbændur þurfa um 40% hækkun á sínu innleggi í haust, aðeins þá til að standa á sléttu. Sama á við um greinarnar, nautakjöt og svínakjöt. Þessum hækkunum er ekki hægt að hrinda út á markaðinn í því efnahagsástandi sem er í dag. Við þurfum að horfa til þess að stjórnvöld komi að málum.

Tökum sprettinn, fellum niður virðisaukaskattinn tímabundið

Þórarinn Ingi lagði inn hugmynd hjá matvælaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær að komið verði á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti til frumframleiðenda. Matvælaráðherra hefur tekið undir að hugmyndin sé vel skoðunarverð og ætlar að koma henni á framfæri við spretthópinn sem hluti af tímabundinni lausn.

Á öll innlegg bænda er lagður virðisaukaskattur og varðandi þær kjötgreinar, sem talað er um hér að ofan, snýr hugmyndin að því að komið verði á undanþágu frá virðisaukaskatti, sem kemur sem útskattur á framleiðandann, til tveggja ára. Þar sem bændur greiða þá ekki útskatt af sínu innleggi en á móti fá þeir innskattinn endurgreiddan, eins og gengur. Þannig má tryggja allt annan rekstrargrundvöll.

Með því að gera innlendar afurðastöðvar öflugri þannig að þær geti hagrætt í rekstri og hækkað verð til frumframleiðenda ásamt því að koma á tímabundinni undanþágu frá virðisaukaskatti verða íslenskir kjötframleiðendur styrktir án þess að velta hækkunum inn í verð til neytenda. Heimsfaraldur og stríð í Evrópu kallar á breyttar áherslur og hvetur okkur til að huga enn frekar að innlendri matvælaframleiðslu. Þessar breytingar eiga sér sannarlega tilverurétt, nú sem aldrei fyrr.

Hugum að hagsmunum heildarinnar

Framsókn hefur löngum bent á að hagsmunir bænda og neytenda fari saman og nú sem aldrei fyrr verðum við að brýna samvinnu og þrótt. Aukin hagkvæmni í virðiskeðju búvara er mikilvægt lóð á þær vogarskálar. Stjórnvöld geta lagt lið með öflugum aðgerðum.

Aukin samvinna í afurðavinnslu myndi styðja við verðhækkanir á afurðum til bænda. Það er það sem þarf til að efla framleiðsluvilja og getu kjötframleiðenda á Íslandi. Þessar tillögur leiða ekki til hærra matvælaverðs til neytenda og halda því einnig við verðbólguna. Þannig hugum við að heildarhagsmunum íslenskra neytenda og íslensku þjóðarinnar til framtíðar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson

þingmenn Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. júní 2022

Categories
Greinar

Íslenskan er okkar öflugasta vopn

Deila grein

07/06/2022

Íslenskan er okkar öflugasta vopn

Í mín­um huga er tungu­mál hverr­ar þjóðar henn­ar helsta ger­semi, þar sem öll mann­leg sam­skipti byggj­ast á því. Tungu­málið hafði mik­il­vægt hlut­verk í sjálf­stæðis­bar­áttu ís­lensku þjóðar­inn­ar á sín­um tíma. Segja má að það hafi verið vopn Íslend­inga. Í raun var það helsta rök­semd leiðtoga þjóðar­inn­ar þegar þeir kröfðust sér­stöðu inn­an danska kon­ungs­rík­is­ins. Vegna þeirra öru sam­fé­lags- og tækni­breyt­inga sem orðið hafa síðustu árin, er nauðsyn­legt að huga vel að framþróun tungu­máls­ins. Tækn­in hef­ur þurrkað út fjölda landa­mæra. Við kom­umst nú í fjöl­breytt­ari og nán­ari snert­ingu við aðra menn­ingu og menn­ing­ar­heima en eins og Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or em­er­ít­us, skrif­ar: „… er ein stærsta áskor­un­in sem við stönd­um nú frammi fyr­ir á sviði ís­lenskr­ar menn­ing­ar … að tryggja að leiðir milli ís­lensks menn­ing­ar­heims og annarra menn­ing­ar­heima hald­ist greiðar – í báðar átt­ir – án þess að það verði á kostnað ís­lensk­unn­ar.“

Fram­ar von­um

Á dög­un­um tók ég þátt í fundaröð sendi­nefnd­ar for­seta Íslands með tæknifyr­ir­tækj­um í Banda­ríkj­un­um, þar á meðal Apple, Meta, Amazon, Open AI og Microsoft. Mark­mið fund­anna var að sýna for­svars­fólki fyr­ir­tækj­anna fram á mik­il­vægi þess að ís­lensk tunga eigi sinn sess í þróun á nýj­ustu tækni­lausn­um og að kynna þær afurðir sem þegar eru til staðar fyr­ir til­stilli mál­tækni­áætl­un­ar ís­lenskra stjórn­valda. Alls staðar var málstað ís­lensk­unn­ar tekið vel og frek­ara sam­starf rætt. Raun­ar fóru viðtök­urn­ar fram úr mín­um björt­ustu von­um.

Mark­mið mál­tækni

Mál­tækni snýst um að þróa kerfi sem geta unnið með og skilið tungu­mál og stuðlað að notk­un þeirra í sam­skipt­um manns, tölvu og annarra tækja sem byggj­ast á sta­f­rænni tækni.

Mark­mið mál­tækni­áætl­un­ar stjórn­valda (2018-2022) er að tryggja að hægt verði að nota ís­lensku í sam­skipt­um við tæki og í allri upp­lýs­inga­vinnslu. For­gangs­verk­efni áætl­un­ar­inn­ar eru þau verk­efni sem mynda nauðsyn­leg­an grunn fyr­ir áfram­hald­andi þróun á mis­mun­andi sviðum mál­tækni fyr­ir ís­lensku. Gerður var samn­ing­ur við sjálf­seign­ar­stofn­un­ina Al­mannaróm um rekst­ur miðstöðvar mál­tækni­áætl­un­ar. Al­mannaróm­ur hef­ur gengið frá sam­starfs­samn­ing­um við hóp rann­sak­enda með sérþekk­ingu á sviði mál­vís­inda og mál­tækni og ber sá hóp­ur nafnið Sam­starf um ís­lenska mál­tækni (SÍM).

Með sam­starfs­samn­ing­um er rann­sak­end­un­um falið að ann­ast fram­kvæmd þeirra verk­efna sem eru til­greind í mál­tækni­áætl­un­inni.

Frá Emblu til yf­ir­lestr­ar

Verk­efni mál­tækni­áætl­un­ar eru flokkuð í tal­grein­ingu, tal­gerv­ingu, vélþýðing­ar, mál­rýni og mál­föng. Með smíði þeirra og inn­leiðingu verður fólki og fyr­ir­tækj­um auðveldað dag­legt líf með ýmsu móti í sam­skipt­um hér inn­an­lands sem og í sam­skipt­um við út­lönd. Yfir 60 sér­fræðing­ar hafa unnið af mikl­um metnaði und­an­far­in ár að eft­ir­töld­um lausn­um sem eru hjartað og sál­in í mál­tækni­verk­efni stjórn­valda. Þess­ar lausn­ir nýt­ast öll­um sem vilja smíða hug­búnaðarlausn­ir sem inni­halda hágæðaís­lensku fyr­ir al­menn­ing og fyr­ir­tæki. Áhersla er lögð á aðgengi að þess­um lausn­um svo að þær nýt­ist öll­um.

Tal­grein­ir: Hug­búnaður sem breyt­ir töluðu máli í rit­mál. Tækniþróun fær­ist í þá átt að við stýr­um tækj­um með tal­skip­un­um, þ.e. með rödd­inni, í stað þess að nota fing­urna.

Tal­gervill: Hug­búnaður sem breyt­ir rituðum texta í talað mál, svo tæk­in geti bæði svarað okk­ur og lesið upp texta á sem eðli­leg­ast­an hátt.

Vélþýðing: Sjálf­virk­ar þýðing­ar milli ís­lensku og annarra tungu­mála sem gerðar eru af tölvu. Vélþýðing­ar flýta fyr­ir þýðing­ar­starfi og gera fjöl­breytt­ari texta aðgengi­lega á ís­lensku.

Mál­rýn­ir: Hug­búnaður sem aðstoðar alla við að vinna með texta á ís­lensku, t.d. leiðrétta vill­ur í staf­setn­ingu, mál­fræði eða orðanotk­un.

Mál­föng: Gagna­söfn og tól sem tengj­ast og nýt­ast í vinnu með mál­tækni fyr­ir ís­lensku. Þau eru meðal ann­ars nauðsyn­leg til þess að greina tungu­málið, safna orðaforða, finna regl­ur og mynstur. Nægi­legt magn viðeig­andi gagna og áreiðan­leg stoðtól eru grunn­ur og for­senda allr­ar þró­un­ar í mál­tækni.

Af hverju skipt­ir þetta máli?

Lífs­gæðin sem við sköp­um okk­ur í framtíðinni byggj­ast á mennt­un, rann­sókn­um og ný­sköp­un – og þeirri lyk­il­for­sendu að við höld­um í við þær öru tækni­breyt­ing­ar sem heim­ur­inn fær­ir okk­ur. Þess vegna verður að vera aðgengi­legt að nota ís­lensku í hug­búnaðarþróun tæknifyr­ir­tækja, hvort held­ur þeirra stóru út í heimi eða þeirra smærri hér á Íslandi. Þá er raun­in sú að tækn­inni í kring­um okk­ur er í aukn­um mæli stýrt af tungu­mál­inu. Þró­un­in er í þá átt að við mun­um í aukn­um mæli ein­fald­lega tala við tæk­in okk­ar. Radd­stýr­ing tækn­inn­ar fær­ir okk­ur ótal tæki­færi til að ein­falda og bæta lífið og get­ur gert dag­leg­ar at­hafn­ir ein­fald­ari og fljót­legri. Við þurf­um að halda áfram að smíða, aðlaga, þróa og rækta sam­starf um mál­tækni og gervi­greind. Það er ljóst að sú vinna skil­ar ár­angri og ís­lenska á fullt er­indi í sta­f­ræna tækni.

Gervi­greind­in

Árið 2017 átt sér stað hljóðlát bylt­ing þegar Alp­haZero, gervi­greind­ar­for­ritið sigraði Stockfish, öfl­ug­asta skák­for­rit í heimi. Sig­ur Alp­haZero var af­ger­andi: það vann tutt­ugu og átta leiki, gerði sjö­tíu og tvö jafn­tefli og tapaði engu. Þessi sig­ur markaði tíma­mót í þróun á gervi­greind og ljóst varð að hún yrði part­ur af okk­ar dag­lega lífi. Eitt af því sem liðsinnt get­ur framþróun tungu­mála eins og ís­lensku er ör þróun gervi­greind­ar. Þar fel­ast mörg tæki­færi, sem flest eru ókönnuð enn. Þróun gervi­greind­ar­tækni hef­ur verið ótrú­lega hröð síðustu ár og nú eru kom­in fram kraft­mik­il kerfi sem fær eru um bylt­ing­ar­kennda hluti sem geta haft gríðarleg áhrif á líf fólks og sam­fé­lög. Framtíð tungu­mála í sta­f­ræn­um heimi er samof­in þróun gervi­greind­ar. Íslenska og gervi­greind þurfa hvort á öðru að halda og gervi­greind­arþróun á Íslandi tek­ur stór stökk nú þegar inn­an mál­tækni­verk­efna sem hér eru unn­in. Enn stærri stökk verða svo tek­in í sam­starfi við alþjóðleg tæknifyr­ir­tæki.

Áfram veg­inn

Það er mark­mið okk­ar að ís­lensk­an eigi sér sess í þróun hug­búnaðar- og tækni­lausna hjá helstu tæknifyr­ir­tækj­um heims, og að því vinn­um við í góðri sam­vinnu. Fund­irn­ir með full­trú­um tækn­iris­anna vest­an­hafs gengu von­um fram­ar og voru full­trú­ar þeirra marg­ir þegar bún­ir að kynna sér mál­in vel og komu vel und­ir­bún­ir. Það kom fram á fund­un­um að ár­ang­ur sem við höf­um náð í smíði kjarna­lausna get­ur skilað okk­ur víðtæku sam­starfi á sviðum mál­tækni. Eft­ir­fylgni með fund­un­um er haf­in af hálfu SÍM (Sam­starfs um ís­lenska mál­tækni) og sjálf­seign­ar­stofn­un­ar­inn­ar Al­mannaróms við að koma á frek­ari tengsl­um milli tækni­fólks hér heima og hjá fyr­ir­tækj­un­um til að stuðla að nýt­ingu ís­lensku gagn­anna og sam­vinnu um næstu skref.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir

menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 4. júní 2022

Categories
Fréttir

Einar verður borgar­stjóri árið 2024

Deila grein

07/06/2022

Einar verður borgar­stjóri árið 2024

Nýr meirihlutasáttmáli í borgarstjórn var kynntur í Elliðaárdal í gær mánudaginn 6. júní. Sáttmálinn endurspeglar vel þær breytingar sem Framsókn boðaði fyrir kosningar.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, mun taka við sem borgarstjóri í ársbyrjun 2024 og verður þar af leiðandi fyrsti borgarstjóri Framsóknar!

Um meirihlutann og málefnasamninginn segir Einar:

“Hér hafi verið fjórir ólíkir flokkar með ólíkar stefnur í mörgum málum en þó með sameiginlega sýn í mörgum öðrum málum. Kosningabaráttan hafi hins vegar leitt í ljós kröfu um breytingar í húsnæðismálum, samgöngumálum og ýmsum velferðarmálum.”

„Og ég held að það sé óhætt að segja að við náðum mjög vel saman utan um þessi mál í okkar viðræðum. Og er þakklátur fyrir það að við vorum öll lausnamiðuð, samstarfsfús og mjög einbeitt í því að ná saman texta sem tryggir áframhaldandi vegferð í borginni, velferð og aukna uppbyggingu í húsnæðismálum.“

Meirihlutasáttmálinn, sem telur 33 síður, en á fyrstu síðum hans er farið yfir fyrstu breytingarnar sem á að ráðast í.

Meirihlutasáttmáli í borgarstjórn 2022-2026

Categories
Fréttir

Framsókn í meirihluta í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps

Deila grein

03/06/2022

Framsókn í meirihluta í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps

B-listi Framsóknar og annarra framfarasinna og D-listi Sjálfstæðisflokks og óháðra hafa komist að samkomulagi um meirihlutasamstarf á komandi kjörtímabili 2022-2026 í sameinuðu sveitarfélagi Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps. Guðmundur Haukur Jakobsson og Auðunn Steinn Sigurðsson undirrituðu samkomulagið í Hrútey í gær.

Samstarfið mun byggja á stefnuskrám framboðanna. Lögð verður áhersla á gott samstarf allra kjörinna fulltrúa, starfsmanna sveitarfélagsins og íbúa þess.

Boðað hefur verið til fyrsta fundar nýrrar sveitarstjórnar þann 7. júní kl. 17:00 í Dalsmynni.

Guðmundur Haukur Jakobsson, oddviti D-listans, verður forseti sveitarstjórnar og Auðunn Steinn Sigurðsson, oddviti B-listans, verður formaður byggðaráðs.

Frekari upplýsingar um kosningarnar af vefnum kosningasaga:

Eftirtaldir listar voru í framboði til í kosningunum 2022: Framsóknar og annarra framfarasinna, Sjálfstæðismanna og óháðra, Gerum þetta saman og H-listinn.

Sjálfstæðismenn og óháðir hlutu 4 sveitarstjórnarmenn, Framsókn og aðrir framfarasinnar 3, H-listinn 1 og Gerum þetta saman 1. H-listann vantaði 11 atkvæði til að fella fjórða mann D-listans.

Úrslit:

Blönduós og Húnavatnshr.Atkv.%Fltr.
B-listi Framsókn o.fl.24931.72%3
D-listi Sjálfstæðism.o.fl.29637.71%4
G-listi Gerum þetta saman10012.74%1
H-listinn14017.83%1
Samtals gild atkvæði785100.00%9
Auðir seðlar131.62%
Ógild atkvæði30.37%
Samtals greidd atkvæði80183.70%
Kjósendur á kjörskrá957
Kjörnir sveitarstjórnarmennAtkv.
1. Guðmundur Haukur Jakobsson (D)296
2. Auðunn Steinn Sigurðsson (B)249
3. Ragnhildur Haraldsdóttir (D)148
4. Jón Gíslason (H)140
5. Elín Aradóttir (B)125
6. Edda Brynleifsdóttir (G)100
7. Zophonías Ari Lárusson (D)99
8. Grímur Rúnar Lárusson (B)83
9. Birgir Þór Haraldsson (D)74
Næstir innvantar
Berglind Hlín Halldórsdóttir (H)11
Erla Gunnarsdóttir (B)48
Sverrir Þór Sverrisson (G)51
Categories
Fréttir

Við treystum öll á Landhelgisgæsluna!

Deila grein

02/06/2022

Við treystum öll á Landhelgisgæsluna!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, tók þátt í umræðu á Alþingi um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslandi. Sagði hún mikilvægt að þegar komi að því að vera með hagræðingarkröfu á stoðir og störf þeirra sem er falið að tryggja öryggi og björgun hér á landi, verði að stíga varðlega til jarðar. Er það mat hennar að gjörsamlega ómögulegt sé að viðhafa slíka kröfu þegar kemur að slíkri stoð Íslendinga, öryggi og björgun.

„Þurfum að búa vel að öryggi okkar Íslendinga í sínu víðasta samhengi og við gerum það ekki með því að draga alltaf úr og sýna málaflokknum skilningsleysi,“ sagði Hafdís Hrönn.

Upphaflegt hlutverk Landhelgisgæslu Íslands var fyrst og fremst að tryggja yfirráð Íslands yfir fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar og standa vörð um efnahagslögsöguna. Hlutverkið hefur hins vegar breyst í tímanna rás og áherslan á björgunar og leitarstörf ásamt sjúkraflutningum bæði á sjó og á landi orðið ríkari. Ljóst er að bæta þarf nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru flugvélarinnar TF-SIF á Íslandsmiðum.

Lögbundin verkefni LHG eru talin upp í 4. gr. laga nr. 52/2006. Meðal þeirra verkefna eru aðkallandi sjúkraflutningar og aðstoð við almannavarnir. Í gildi er samningur milli Landhelgisgæslunnar og Sjúkratrygginga Íslands um sjúkraflutning með þyrlum á flugsvæði sjúkraflugs á norður- og austursvæði landsins auk Vestmannaeyja og Vestfjarða, vegna erfiðra veðurskilyrða. Aðeins um 10% af öllum sjúkraflutningum með þyrlum Landhelgisgæslunnar falla undir þennan samning.

„Í samfélaginu okkar er uppi rík krafa um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Vegna þess hve fá við erum og byggðin dreifð, er þetta göfuga markmið langsótt. Hins vegar er heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga gott og það eru leiðir til að jafna aðgengi landsmanna að þeirri sérhæfðu þjónustu sem ekki er raunhæft að halda úti í hverju héraði fyrir sig. Annað úrræði sem þekkist víða í vestrænum heimi er notkun á sjúkraþyrlum sem bæði geta stytt flutningstíma til muna ásamt því að koma viðbragðsaðilum fyrr til skjólstæðinga. Þyrlur sem sinna þessu hlutverki eru gríðarlega góð viðbót við það kerfi sem við nú þegar höfum en um er að ræða mikið og stórt skref í þá átt að jafna og tryggja aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustunni okkar allra. Þá er jákvætt að segja frá því að starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 þar sem aðkoma Landhelgisgæslunnar var m.a. til skoðunar. Staðan hefur ekki verið ásættanleg m.a. í Vestmannaeyjum og biðin eftir utanspítalaþjónustu vegna tímalengdar hefur reynst dýrkeypt og við þurfum að koma í veg fyrir að tjón skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins verði meira vegna þess að við höfum ekki tólin og tækin til að tryggja tafarlausa þjónustu til þeirra sem á henni þurfa. Uppfærum umræðuna og tökum hana af alvöru hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar. Það er spurning hvort ekki sé kominn tími á að ein þyrla LHG sé með fasta staðsetningu á landsbyggðinni t.d. á Suðurlandi á sama tíma og að varðskipið Freyja er með staðsetningu á Norðurlandi.“

„Við treystum öll á Landhelgisgæsluna! En gæslan treystir líka á okkur og við verðum að axla ábyrgð í þeim efnum,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.

***

Ræða Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur í heild sinni í umræðu um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands:

„Virðulegi forseti!

Upphaflegt hlutverk Landhelgisgæslu Íslands var fyrst og fremst að tryggja yfirráð Íslands yfir fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar og standa vörð um efnahagslögsöguna. Hlutverkið hefur hins vegar breyst í tímanna rás og áherslan á björgunar og leitarstörf ásamt sjúkraflutningum bæði á sjó og á landi orðið ríkari.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er lagt áherslu á að stjórnendur Landhelgisgæslu Íslands leiti allra leiða til að hagræða í rekstri stofnunarinnar. Skoða þurfi gaumgæfilega áhrif ýmissa tækniframfara og sjálfvirknimöguleika á mannaflaþörf við einstök störf. Horfa þurfi til ólíkra álagspunkta og haga mannahaldi í samræmi við það. Sérstaklega þurfi að gæta að því að starfsemi stoðdeilda sé haldið í lágmarki þannig að mönnun skipa og loftfara sé hámörkuð. Þá telur Ríkisendurskoðun vera tækifæri til að einfalda rekstrarfyrirkomulag vaktstöðvar siglinga.

Fyrir nefndinni kom fram að Landhelgisgæslan hafi hagkvæmni að leiðarljósi og leiti sífellt leiða til hagræðingar innan þeirra marka sem viðmið um viðbragðsgetu, lög og reglugerðir og kjarasamningar leyfa. Landhelgisgæslan hafi jafnframt verið leiðandi í að nýta nýjustu tækni í starfsemi sinni með tilheyrandi hagræðingu. Megi þar nefna fjareftirlit með efnahagslögsögunni, nýtingu snjallforrita og notkun ómannaðra loftfara. Landhelgisgæslan taki jafnframt þátt í þróun tækninýjunga og að vorið 2021 hafi nýtt vaktakerfi verið innleitt í stjórnstöðvum sem veita svigrúm til að aðlaga mönnun enn frekari að álagi hvers tíma.

Þá ber að nefna að huga verður að mikilvægi starfsaldurslista flugmanna sem eru mikilvægt öryggisatriði, og jafnvel enn mikilvægara í tilfelli flugmanna Landhelgisgæslunnar sem starfa oft undir gríðarlegu álagi, standa í framlínu í björgunaraðgerðum þar sem mannslíf eru iðulega í húfi og fljúga loftförum við afar krefjandi aðstæður með veikt og slasað fólk. Það þarf að huga vel að þessu þegar við tölum um að hagræða.

Finnst mikilvægt – þegar kemur að því að vera með hagræðingarkröfu á þær stoðir og störf þeirra sem er falið að tryggja öryggi og björgun hér á landi – AÐ VARLEGA SÉ STIGIÐ TIL JARÐAR og að mínu mati er gjörsamlega galið að við séum með slíka kröfu þegar kemur að þessum málaflokki. Þurfum að búa vel að öryggi okkar Íslendinga í sínu víðasta samhengi og við gerum það ekki með því að draga alltaf úr og sýna málaflokknum skilningsleysi.

Virðulegi forseti,
Ljóst er að bæta þarf nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru flugvélarinnar TF-SIF á Íslandsmiðum. Skortur á raunsærri langtímaáætlanagerð þegar kemur að rekstri og fjárfestingum í skipakosti LHG reynist alvarlegur veikleiki í starfsemi gæslunnar. Þá segir að því er varðar flugkost LHG þurfi að gera raunhæfar áætlanir um fjárfestingar og rekstur loftfara svo að viðunandi björgunargeta sé tryggð. Í skýrslunni er SKÝRT tekið fram að mikilvægt sé að TF-SIF sé FYRST OG FREMST notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis í ljósi meginhlutverks LHG sem er að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu VIÐ ÍSLAND.
Í áliti háttvirtrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur fram að TF-SIF sé stóran hluta ársins í útleigu til verkefna á vegum Landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu. Flugstundir TF-SIF ættu að vera í meirihluta hér á landi og umfang eftirlits gæslunnar í lofti hreinlega krefst þess að TF-SIF sem er útbúin myndavélum og öðrum tæknibúnaði sem margfaldi eftirlits- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar. Flugvélin sé því lykileining við eftirlit og löggæslu á hafinu og því ljóst að ekki sé hægt að halda uppi viðunandi eftirliti þegar flugvélin er ekki til staðar. Tek undir með sjónarmiðum háttvirtrar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar kemur að því að tryggja þurfi viðveru TF-SIF hér á landi allt árið svo að eftirlit með landhelginni sé bætt svo að tryggja megi fullnægjandi öryggis- og þjónustustig á hafinu umhverfis Ísland.

Virðulegi forseti,
Lögbundin verkefni LHG eru talin upp í 4. gr. laga nr. 52/2006. Meðal þeirra verkefna eru aðkallandi sjúkraflutningar og aðstoð við almannavarnir. Ég velti fyrir mér hvert hlutverk Þyrlu LHG er varðandi almenna sjúkraflutninga þar sem vegalengdir eru langar eða ómögulegar.
Í gildi er samningur milli Landhelgisgæslunnar og Sjúkratrygginga Íslands um sjúkraflutning með þyrlum á flugsvæði sjúkraflugs á norður- og austursvæði landsins auk Vestmannaeyja og Vestfjarða, vegna erfiðra veðurskilyrða. Til þess þurfum við einnig að huga að því að tryggja viðunandi lendingaraðstæður fyrir þyrlur víða um land. Aðeins um 10% af öllum sjúkraflutningum með þyrlum Landhelgisgæslunnar falla undir þennan samning. Á Suðurlandi nánast þrefaldast fólksfjöldi landshlutans yfir sumartímann og því þurfum við að vera vel í stakk búin til að bregðast við með réttum hætti og búa viðbragðsaðilum okkar þær aðstæður og búnaði að fumlaus vinnubrögð séu sjálfsögð.

Í samfélaginu okkar er uppi rík krafa um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Vegna þess hve fá við erum og byggðin dreifð, er þetta göfuga markmið langsótt. Hins vegar er heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga gott og það eru leiðir til að jafna aðgengi landsmanna að þeirri sérhæfðu þjónustu sem ekki er raunhæft að halda úti í hverju héraði fyrir sig. Annað úrræði sem þekkist víða í vestrænum heimi er notkun á sjúkraþyrlum sem bæði geta stytt flutningstíma til muna ásamt því að koma viðbragðsaðilum fyrr til skjólstæðinga. Þyrlur sem sinna þessu hlutverki eru gríðarlega góð viðbót við það kerfi sem við nú þegar höfum en um er að ræða mikið og stórt skref í þá átt að jafna og tryggja aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustunni okkar allra. Þá er jákvætt að segja frá því að starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði skýrslunni Aukin aðkoma þyrlna að sjúkraflugi í ágúst 2018 þar sem aðkoma Landhelgisgæslunnar var m.a. til skoðunar. Staðan hefur ekki verið ásættanleg m.a. í Vestmannaeyjum og biðin eftir utanspítalaþjónustu vegna tímalengdar hefur reynst dýrkeypt og við þurfum að koma í veg fyrir að tjón skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins verði meira vegna þess að við höfum ekki tólin og tækin til að tryggja tafarlausa þjónustu til þeirra sem á henni þurfa.
Uppfærum umræðuna og tökum hana af alvöru hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar. Það er spurning hvort ekki sé kominn tími á að ein þyrla LHG sé með fasta staðsetningu á landsbyggðinni t.d. á Suðurlandi á sama tíma og að varðskipið Freyja er með staðsetningu á Norðurlandi.

Virðulegi forseti,
Við treystum öll á Landhelgisgæsluna! En gæslan treystir líka á okkur og við verðum að axla ábyrgð í þeim efnum!“