Categories
Greinar

Sumar­störf fyrir náms­menn

Deila grein

15/05/2020

Sumar­störf fyrir náms­menn

Vegna Covid-19 faraldursins stendur ferðaþjónusta á Íslandi frammi fyrir algjöru hruni, að minnsta kosti tímabundið. Áhrifa faraldursins gætir einnig í öðrum atvinnugreinum og við stöndum frammi fyrir dýpstu kreppu sem við höfum séð í langan tíma. Fjöldi fólks á atvinnuleysisskrá hefur aukist mikið undanfarið, margir eru á hlutabótum en einnig er nokkur fjöldi atvinnulaus. Í slíku árferði er ljóst að minna verður um tímabundin störf í sumar, störf sem námsmenn hafa leitað í á sumrin. Stjórnvöld hafa undanfarnar vikur unnið að aðgerðum til þess að koma til móts við námsmenn, annars vegar með úrræðum tengdum menntakerfinu en einnig með því að skapa störf fyrir námsmenn yfir sumartímann.

Lærum af reynslunni

Við þurfum að læra af reynslunni og nýta þær lausnir sem hafa reynst okkur vel áður. Eftir efnahagshrunið árið 2008 varð ljóst að skynsamleg nýting fjármagns væri að skapa grundvöll til virkni fyrir námsmenn. Samkvæmt könnun Stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem var framkvæmd dagana 6.-8. apríl, var staða stúdenta þá með þeim hætti að útlit var fyrir að um 7.000 stúdentar hefðu ekki tryggt sér atvinnu yfir sumartímann. Verkefni stjórnvalda er að taka þessa stöðu til greina og leysa úr henni á sem skynsamlegastan hátt.

3.400 sumarstörf fyrir námsmenn í fyrstu lotu

Við höfum því farið af stað með átaksverkefni til þess að fjölga störfum fyrir námsmenn yfir sumartímann. Alþingi hefur samþykkt veitingu fjármagns til verkefnisins upp á 2,2 milljarða króna og markmiðið er að skapa 3.400 störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í fyrstu lotu. Átakið er unnið í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og er undirbúningur þegar vel á veg kominn. Sveitarfélögin munu sjálf auglýsa störfin en Vinnumálastofnun mun auglýsa störf á vegum stofnana ríkisins. Störfin verða auglýst opinberlega á næstu dögum og þurfa stofnanir og sveitarfélög að skapa ný störf í tengslum við átakið. Miðað er við ráðningartímabilið frá 1. júní til 31. ágúst.

Þegar hafa verið staðfest rúmlega 1.700 störf við sveitarfélögin, sem þau geta auglýst strax og stofnanir ríkisins hafa skilað inn tillögum að störfum til Vinnumálastofnunar.

Í byrjun næstu viku gerum við svo ráð fyrir að Vinnumálastofnun staðfesti allt að 1.700 störf við stofnanir ríkisins sem verða auglýst í kjölfarið. Ef stofnanir ríkisins skila inn færri tillögum en 1.700, mun samsvarandi fjöldi tillagna frá sveitarfélögunum verða samþykktur, svo heildarfjöldinn mun alltaf nema 3.400 störfum í þessari atrennu. Í byrjun júní mun væntanlega liggja fyrir hversu margir námsmenn hafi sótt um störf bæði hjá ríki og sveitarfélögum og hversu marga námsmenn verður hægt að koma til móts við með þeim úrræðum sem við höfum kynnt.

Við teljum mjög mikilvægt að koma sem flestum námsmönnum í störf þar sem þeir fá bæði reynslu og virkni, ásamt því að skila verðmætum inn í hagkerfið. Ef þau úrræði sem við höfum þegar kynnt duga ekki til við að grípa námsmenn sem eru í vanda yfir sumartímann munum við hiklaust kanna hvort ekki verði hægt að veita meira fjármagni til þess að skapa enn fleiri störf eða finna aðrar leiðir til þess að tryggja framfærslu þessa hóps.

Ásmundur Einar Daðasson, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2020

Categories
Fréttir

„Koma sem flestum námsmönnum í störf“

Deila grein

14/05/2020

„Koma sem flestum námsmönnum í störf“

Aðgerðir stjórnvalda vegna sumarnáms og sumarstarfa voru kynntar á fundi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, í Háskólanum í Reykjavík í dag.
„Við viljum tryggja að námsmenn geti nýtt sína krafta á komandi sumri. Íslenskir námsmenn eru stór og fjölbreyttur hópur en það er menntun þeirra og árangur sem leggur grunninn að  framtíðarhagsæld okkar samfélags. Aðgerðir okkar nú miða að því að fjölga valkostum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur sem vilja nýta komandi sumar – til náms eða fjölbreyttra starfa,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
„Við teljum mjög mikilvægt að koma sem flestum námsmönnum í störf þar sem þeir fá bæði reynslu og virkni, ásamt því að skila verðmætum inn í hagkerfið. Samhliða þessum aðgerðum munum við skoða leiðir til að skapa fleiri störf eða grípa til annarra aðgerða, verði þörf á því, en lagt er upp með að við grípum námsmenn með einhvers konar úrræði fyrir miðjan júní,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.
Allir háskólar landsins og alls 15 framhaldsskólar hyggjast bjóða upp á sumarnám í sumar. Breiddin í námsframboði þeirra er afar mikil; þar verður bæði að hægt að taka einingarbæra áfanga sem og fjölbreytt námskeið. Sérstök áhersla er á nám sem nýtist sem undirbúningur fyrir háskólanám, námskeið á sviði iðn- og verknáms, valkosti á sviði símenntunar og færnibrýr fyrir atvinnuleitendur sem vilja skipta um starfsvettvang. Boðið verður upp á nám sem tekur frá einni og upp í tíu vikur.
Upplýsingar um námsframboð skóla verður að finna á heimasíðum þeirra en aðsókn mun ráða því hvaða námsframboð verður endanlega í boði.

2,2 milljarðar kr. í sumarstörf fyrir námsmenn

Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja um 2.2 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn. Markmiðið er að með átakinu verði til 3.400 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga. Um er að ræða fjórum sinnum stærra átak en ráðist var í eftir hrunið, sumrin 2010 og 2011.
Átak þetta er unnið í samvinnu við stofnanir ríkisins og sveitarfélög og er undirbúningur þegar vel á veg kominn. Sveitarfélögin munu sjálf auglýsa störfin en Vinnumálastofnun mun auglýsa störf á vegum stofnana ríkisins. Störfin verða auglýst opinberlega á næstu dögum og þurfa stofnanir og sveitarfélög að skapa ný störf í tengslum við átakið. Miðað er við ráðningartímabilið frá 1. júní til 31. ágúst.
Þegar hafa verið staðfest hafa verið 1.709 störf við sveitarfélögin, sem þau geta auglýst strax. Í byrjun næstu viku er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun staðfesti allt að 1.700 störf við stofnanir ríkisins sem verða auglýst í kjölfarið.
Komi í ljós að þessi fjöldi sumarstarfa og annarra úrræða nái ekki til nægilega margra námsmanna verður leitað leiða til að skapa fleiri störf og/eða tryggja aðrar leiðir til framfærslu.

Mikilvægi rannsókna og vísinda

Auk þessa hafa stjórnvöld einnig veitt auka fjármagni til mikilvægra sjóða á sviði rannsókna og vísinda, vegna COVID-19. Framlög til Nýsköpunarsjóðs námsmanna hafa hækkað verulega og nema alls 485 milljónum kr. í ár. Þá var 700 milljónum kr. veitt í Rannsóknasjóð og Innviðasjóð, og 700 milljónum kr. í Tækniþróunarsjóð.

Heimild: stjr.is

Categories
Greinar

Varlega af stað

Deila grein

14/05/2020

Varlega af stað

Við för­um var­lega af stað í opn­un lands­ins eft­ir að hafa náð ótrú­leg­um tök­um á út­breiðslu veirunn­ar og treyst­um á vís­ind­in. Það er mik­il­vægt að við för­um var­lega og það er mik­il­vægt að við nýt­um þekk­ingu okk­ar á veirunni til að koma hjól­un­um bet­ur af stað. Það verður ekki litið fram hjá því að fjöl­marg­ar fjöl­skyld­ur um allt land eiga mikið und­ir því að gest­ir sæki landið heim að nýju þótt ekki sé hægt að bú­ast við því að kraft­ur­inn verði jafn­mik­ill og síðustu ár.

Ferðaþjón­ust­an hef­ur á nokkr­um árum orðið ein af und­ir­stöðum ís­lenska efna­hags­kerf­is­ins, skapað mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur og veitt mikl­um fjölda fólks at­vinnu og þar með lífsviður­væri. Ferðaþjón­ust­an hef­ur styrkt byggðir lands­ins og komið til viðbót­ar öðrum grunnstoðum: land­búnaði, sjáv­ar­út­vegi og iðnaði. Hún hef­ur opnað augu okk­ar fyr­ir þeim fjár­sjóði sem nátt­úr­an er og þannig breytt gild­is­mati margra.

Ég hef orðið var við að Íslend­ing­ar hlakka til að ferðast um landið sitt í sum­ar. Sól­ar­vörn­in verður kannski ekki alltaf höfð uppi við eins og á sól­ar­strönd­um en eins og við vit­um búa töfr­ar í sam­spili lands­lags og veðurs hvort held­ur það blæs, skín eða úðar. Eft­ir­minni­leg­ustu augna­blik­in eru ekki endi­lega þau sól­ríku.

Þótt Íslend­ing­ar verði dug­leg­ir að ferðast inn­an­lands í sum­ar er ljóst að það kem­ur ekki til með að duga til að verja þau störf sem orðið hafa til í ferðaþjón­ust­unni síðustu árin. Því er það já­kvætt skref og mik­il­vægt að opna landið fyr­ir komu er­lendra gesta um miðjan júní. Áður en það ger­ist hef­ur verið tek­in ákvörðun um að sótt­kví B verði út­víkkuð þannig að kvik­mynda­gerðar­menn og aðrir af­markaðir hóp­ar geti komið til starfa á Íslandi.

Kvik­mynda­gerð hef­ur lengi staðið Fram­sókn nærri og skemmst að minn­ast þess að flokk­ur­inn stóð fyr­ir því að tekið var upp það end­ur­greiðslu­kerfi sem enn er við lýði hér á landi. Það kerfi hef­ur lagt grunn­inn að öfl­ugri kvik­mynda­gerð á Íslandi sem hef­ur mikið menn­ing­ar­legt gildi. Þar að auki hef­ur kvik­mynda­gerðin skapað at­vinnu og tekj­ur og fært ís­lenskt lands­lag inn í aðra menn­ing­ar­heima, hvort sem þeir heita Hollywood eða Bollywood.

Ég finn að fólk tek­ur því fagn­andi að það losni um þau höft sem verið hafa á líf­inu á Íslandi síðustu vik­ur og mánuði. Það er vor í lofti, jafn­vel sum­ar sunn­an und­ir vegg, og við fet­um okk­ur var­lega af stað und­ir leiðsögn sótt­varna­yf­ir­valda. Áfram veg­inn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. maí 2020.

Categories
Fréttir

„Börn og samgöngur“

Deila grein

13/05/2020

„Börn og samgöngur“

Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, gerði í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í gær, að umtalsefni afhendingu umboðsmanns barna og hóps ungmenna ríkisstjórninni niðurstöðu barnaþings sem haldið var í nóvember sl.
„Barnaþing er nú orðið fastur liður í tilverunni. Til þess var stofnað með lögum og skal það haldið annað hvert ár með þátttöku barna og ungmenna hvaðanæva að af landinu. Áherslur stjórnvalda á aukin áhrif barna og ungmenna koma víða fram og vil ég í dag draga athygli ykkar að merkilegu málþingi sem var einnig haldið í nóvember.“
„Það þing hafði yfirskriftina Börn og samgöngur. Það eru tíðindi því að samkoma af þessu tagi hefur ekki verið haldin áður. Þrátt fyrir að börn séu stórnotendur samgöngukerfisins er hvergi minnst á þau í gildandi samgönguáætlun og aðeins tæpt á ungmennum. Börn ferðast með bílum, börn fljúga, börn hjóla, börn ganga, börn sigla og börn ferðast með strætó. Þeirra sjónarmið þurfa að koma fram líkt og annarra. Þess vegna var eitt af umbótaverkefnum samgönguráðs að koma sérstökum kafla um börn og samgöngur inn í samgönguáætlun.“
„Hagsmunir barna í umferðinni eru á margan hátt ólíkir hagsmunum þeirra sem eldri eru sem og hegðun þeirra í umferðinni. Okkur veitir ekki af liðsinni barna, að fá skoðanir þeirra fram og varpa sýn á hugmyndir þeirra sem þekkja kerfið í dag og eru líka framtíðarnotendur.
Nú hefur samráð þess vegna bæst inn í verkferla samgönguráðs við undirbúning samgönguáætlunar. Samtal við fólk á öllum aldri um allt land er mikilvægt til að samræma sjónarmið.
Hæstv. forseti. Í fyrsta fjárfestingarpakka ríkisstjórnarinnar verða til 1.000 störf næstu árin vegna framkvæmda við samgöngumannvirki og það verður svo til þess að eignamyndun ríkisins eykst. Og athugið að þetta er allt fyrir utan gildandi samgönguáætlun. Við erum stórhuga og í miklum framkvæmdum. Það er á okkar ábyrgð að hafa ungmenni með í ráðum. Þau þurfa að lifa við ákvarðanir okkar inn í framtíðina,“ sagði Þórunn að lokum.

Categories
Greinar

Nýsköpunarstofa fyrir námsfólk í Hafnarfirði

Deila grein

13/05/2020

Nýsköpunarstofa fyrir námsfólk í Hafnarfirði

Nýverið ákvað Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, að verja 2.200 milljónum króna til að fjölga störfum fyrir námsmenn í sumar og munu þau skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga. Í síðustu viku samþykkti bæjarráð Hafnarfjarðar að skapa 250 ný sumarstörf fyrir hafnfirskt námsfólk og frumkvöðla og er ákvörðunin liður í nýsamþykktri aðgerðaáætlun bæjarfélagsins vegna COVID-19.

Öllum sviðum bæjarfélagsins var falið að taka saman lista yfir afmörkuð verkefni sem einkum mætti bjóða hafnfirsku námsfólki og frumkvöðlum til vinnslu í tímabundnum störfum. Í heild bárust 80 verkefnatillögur frá sviðunum. Horft er sérstaklega til nýrra og nýstárlegra verkefna þar sem nýta má menntun og færni þátttakenda á sviði umhverfis- og framkvæmdamála, upplýsingatækni, fræðslumála, fjölskyldumála, menningarmála, íþróttamála og heilsueflandi samfélags. Starfsemin mun fara fram í fallegu húsnæði gamla Lækjarskóla við Lækinn, þar sem hópurinn mun fá aðstöðu ásamt því að hafa aðgengi að sérfræðingum Hafnarfjarðarbæjar.

Við vitum ekki hvernig störf framtíðarinnar koma til með að líta út og við lifum á tímum þar sem öll tækniþróun og aðrar samfélagslegar breytingar gerast á ógnarhraða. Nýsköpun er ekki sérstök atvinnugrein, heldur á nýsköpun sér stað í öllum atvinnugreinum og alls staðar. Við teljum að nýta megi þá starfsemi sem hér er boðuð til nýjunga og umbóta í starfsemi bæjarins sem síðar gagnast samfélaginu öllu; koma auga á áður óséð tækifæri til þróunar á öllum sviðum. Með þessu erum við að fjárfesta til framtíðar og um leið að tryggja unga fólkinu okkar hér í Hafnarfirði góð sumarstörf.

Í þeim krefjandi aðstæðum sem samfélagið allt tekst nú á við, verður gaman að fylgjast með þessari starfsemi í sumar og vonandi sjá hana vaxa og dafna til framtíðar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 13. maí 2020.

Categories
Greinar

Áfram veginn

Deila grein

13/05/2020

Áfram veginn

Ríkisstjórnin kynnti í dag áætlun sína um opnun landsins frá fimmtánda júní. Það er gríðarlega mikilvægt skref fyrir Ísland og íslenska ferðaþjónustu. Það er ekki síst merki um mikinn árangur sem íslenskt heilbrigðis- og vísindafólk hefur náð í baráttunni við kórónuveiruna á síðustu mánuðum. Ákvörðunin um opnun landsins byggist á því að vísindin telja okkur í það góðri stöðu að við getum tekið á móti gestum að nýju.

Við höfum á síðustu vikum og mánuðum notið leiðsagnar þríeykisins og munum gera það áfram. Það var gifturík ákvörðun að gefa vísindafólkinu eftir stýrið í þessum leiðangri. Kraftur þekkingarinnar í heilbrigðisvísindum hér á landi, öguð vinnubrögð lögreglumanna og annarra í smitrakningarteyminu og samstaða og samhugur þjóðarinnar eru grunnurinn að þeim árangri sem náðst hefur. Við verðum áfram árvökul, það mun ekki breytast þótt landið verði opnað, reynsla okkar er okkur dýrmæt í þeim skrefum sem stigin verða.

Þrátt fyrir þessa mikilvægu ákvörðun er ljóst að við verðum áfram að huga vel að smitvörnum. Þar er handþvotturinn mikilvægastur. Það er líka brýnt að við virðum rými hvert annars og minnkum þannig hættuna á smitum. Það á reyndar ekki aðeins við um kórónuveiruna heldur aðra smitsjúkdóma.

Ég hef áður ritað um mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið. Ferðaþjónustan er líka gríðarlega mikilvæg fyrir byggðir landsins. Segja má að hún sé lífæð byggðanna með allri sinni starfsemi vítt og breitt um landið og styðji þannig við aðrar mikilvægar atvinnugreinar eins og landbúnað og sjávarútveg. Opnun landsins veitir von um að þessi lífæð fái að nýju aukinn þrótt til að vinna að viðspyrnu landsins alls.

Einnig er vert að minnast á það að sóttkví B var útvíkkuð og nær nú einnig til ferða vísindamanna, blaðamanna, æfinga íþróttaliða og síðast en ekki síst til kvikmyndagerðarfólks sem hyggur á tökur hér á landi. Áhugi kvikmyndagerðarfólks á landinu hefur lengi verið mikil og nú undanfarið hefur áhuginn aukist þar sem flest lönd hafa lokað landamærum sínum vegna veirunnar.

Rétt er að taka fram að ákvörðun um opnun landsins er tekin eftir að hafa fengið ráð frá því fólki sem leitt hefur baráttuna gegn kórónuveirunni. Þótt skrefin séu stór þá eru þau varfærin og verða metin á reglubundinn hátt. Við förum áfram varlega en bjóðum gesti velkomna. Þannig höldum við áfram veginn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. maí 2020.

Categories
Fréttir

Aflétting ferðatakmarkana mikilvægt skref

Deila grein

12/05/2020

Aflétting ferðatakmarkana mikilvægt skref

Ríkisstjórnin ákvað í morgun að stefna að því að eigi síðar en 15. júní næstkomandi geti þeir sem koma til landsins farið í COVID-19 próf á Keflavíkurflugvelli. Reynist það neikvætt þurfi þeir ekki að fara í 2ja vikna sóttkví. Þá er gert ráð fyrir að nýleg vottorð um sýnatöku erlendis verði einnig tekin til greina meti sóttvarnalæknir þau áreiðanleg. Þessi tímasetning er með fyrirvara um að áætlanir um afléttingu takmarkana innanlands gangi eftir og með hliðsjón af þróun faraldursins hérlendis og erlendis.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, segir að aflétting ferðatakmarkana, sé mikilvægt skref, sérstaklega þar sem íslenska ríkið geri þetta á eigin forsendum.
„Ég held að þetta sé mikilvægt og sérstaklega af því að við getum gert þetta á okkar eigin forsendum. Það er svona yfirlýsing um að heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðiskerfið okkar, ræður við það sem við höfum verið að kljást við og með því að taka þetta skref þá segjum við: „Verið velkomin en með þeim takmörkunum sem að við setjum,“ sagði Sigurður Ingi.
„Við erum með þessari ákvörðun svolítið að taka ákvarðanir á eigin forsendum og byggja þær áfram á þessum vísindalega þekkingargrunni og gera þetta í takt við hvernig við afléttum innlendum takmörkunum.“
Fyrirhugað er að veirufræðideild Landspítala annist sýnatöku á Keflavíkurflugvelli og greiningu. Niðurstaða á að geta legið fyrir samdægurs og er gert ráð fyrir að farþegar geti farið til síns heima eða á gististað uns hún liggur fyrir.
Fyrirkomulagið verður endurmetið þegar tveggja vikna reynsla er komin á það, m.a. út frá því hvort herða þurfi aftur aðgerðir eða hvort frekari tilslakanir séu forsvaranlegar. Ef skimun á Keflavíkurflugvelli reynist vel þarf einnig að huga að fyrirkomulagi á öðrum landamærastöðvum.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Styrkjum fæðuöryggi þjóðarinnar – spörum kolefnisspor!

Deila grein

12/05/2020

Styrkjum fæðuöryggi þjóðarinnar – spörum kolefnisspor!

„Fæðuöryggi er hugtak sem margir kannast orðið við, ekki síst í umræðu um farsóttir og náttúruhamfarir sem er raunveruleg stöðug ógn eins og við finnum vel fyrir þessar vikurnar. Framboð á matvælum mun að óbreyttu ekki haldast í hendur við fjölgun jarðarbúa á næstu áratugum,“ sagði Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Suðurkjördæmi, í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í dag.
„Flutningur á matvælum heimshorna á milli fjölgar kolefnissporum og eykur afföll miðað við að fæðunnar sé neytt sem næst framleiðslustöð. Að þessu sögðu þá er það skylda okkar að leita allra leiða til að auka sjálfbærni landsins hvað fæðuframleiðslu varðar og þar með tryggja öryggi þjóðarinnar og að sjálfsögðu að draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum eins og hægt er. Eitt af því sem við gætum gert og eigum að gera til að ná þessum markmiðum, þ.e. að bæta fæðuöryggi og ekki síst draga úr neikvæðum loftslagsáhrifum, er að koma til móts við grænmetisbændur varðandi flutningsverð á raforku,“ sagði Silja Dögg.
Silja Dögg sagði Íslendinga hafa einblínt hingað til á hefðbundnar fiskveiðar og landbúnað í umræðu um fæðuöryggi. Sagðist hún vilja sjá horft einnig til þátta eins og t.d. til þörungaframleiðslu í meira mæli,  en úr þörungum má framleiða olíu, næringarríka fæðu fyrir menn og dýr og góðan áburð.
Að lokum vildi Silja Dögg taka undir orð sveitarstjórnar Bláskógabyggðar, í yfirlýsingu, um fæðuöruggi, frá því í gær. Í henni kemur fram hvatning til stjórnvalda og allra landsmanna að taka fæðuöryggi þjóðarinnar föstum tökum:

„Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill skora á stjórnvöld að tryggja til framtíðar þá grunnþætti er mestu skipta varðandi fæðuöryggi þjóðarinnar. Þar má nefna eignarhald á jörðum, varðveislu ræktunarlands, tollvernd sem heldur, og almenna þekkingu og viðurkenningu á hæfi mismunandi landgerða til mismunandi landnota, ekki síst matvælaframleiðslu. […] Stuðla þarf að aukinni fjölbreytni í matvælaframleiðslu, m.a. með því að styðja við ylrækt, garðyrkju og kornrækt. Miklir vannýttir möguleikar eru varðandi nýtingu íslensks korns bæði í manneldi og búfjárrækt. Í ylræktinni eru frábær tækifæri til að nýta hreinar orku- og vatnsauðlindir til að framleiða úrvals matvæli og blóm sem gleðja.“

Categories
Fréttir

„Þar á fókusinn að vera“

Deila grein

12/05/2020

„Þar á fókusinn að vera“

„Það er ljóst að hlutabótaleiðin snýst fyrst og fremst um að verja störf fólks í landinu á miklum óvissu tímum og eiga að tryggja áframhaldandi ráðningasamband. Þar á fókusinn að vera,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í Facebook-færslu í dag.
„Á fundi velferðarnefndar í gær voru rædd skilyrði um hlutabætur. Öll nefndin lýsti yfir miklum vonbrigðum með að fyrirtæki hafi reynt að fá launafólk til að samþykkja þátttöku í úrræðinu án þess að um rekstrarvanda væri að ræða eins og skýrt er í þeirri leið sem samþykkt hefur verið. Á sama tíma og nokkur fyrirtæki setur fólk á hlutabætur þá greiðir það sér arð á meðan,“ sagði Halla Signý.
„Það er ljóst að skýr skilaboð frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar og annarra stjórnmálamanna hefur leitt til þess að nokkur fyrirtæki sem hafa verið að nýta sér þessa leið þrátt fyrir að geta á sama tíma greitt út arð, hafa horfið frá því og skilað ríkisstuðningi. Það er vel og skilaboðin skila sér skýrt í frumvarpi sem félagsmálaráðherra hyggst leggja fram í vikunni,“ sagði Halla Signý.

Categories
Greinar

Lærdómssamfélagið

Deila grein

12/05/2020

Lærdómssamfélagið

Skólafólk lyfti grettistaki þegar takmarkanir á skólastarfi komu til framkvæmda snemma í mars. Kennarar og stjórnendur þurftu á augabragði að umbylta öllu skólastarfi og koma til móts við nemendur, svo námsframvindan yrði fyrir sem minnstum skaða. Skólar brugðust ólíkt við eftir aðstæðum, og færðu sig mismikið yfir í rafræna kennslu og samskipti. Alls staðar voru þó stigin stór þróunarskref, sem skólarnir geta nýtt sér þegar kórónutímabilinu lýkur.

Rafræn samskipti hafa þróast hratt síðustu misseri. Mikill ávinningur felst í því fyrir samfélagið allt að nýta tæknina. Samvinna getur orðið skilvirkari og þátttakendur virðast oft einbeittari, fólk virðist frekar mæta á réttum tíma á fjarfundi en hefðbundna, pappír sparast og umferð minnkar, svo dæmi séu nefnd. Öllum er ljóst, að aukið tæknilæsi skapar grundvöll fyrir margbreytilegar tæknilausnir.

Ekkert kemur þó í stað beinna samskipta milli nemenda, kennara og annars starfsfólks skólanna. Góðir kennarar og skólastjórnendur eru ómetanlegir. Skólasamfélagið á hverjum stað er einkar mikilvægt fyrir félagslegan þroska, geðheilbrigði, færni í samskiptum og almennt nám. Skólinn er vettvangur barna til að hitta og spegla sig í jafningjum sínum og starfsfólki. Þetta á ekki síst við þá sem standa höllum fæti og líklega muna flestir eftir góðum kennara sem hafði varanlega góð áhrif á líf þeirra. Þess vegna er skólasamfélagið, með sinni mannlegu nánd og tengsl í fyrirrúmi, eitt af því dýrmætasta sem íslenskt menntakerfi á.

Tækniþróun og iðnbyltingar munu ekki leysa kennarann af hólmi. Skólastarf byggir á öflugu lærdómssamfélagi þar sem skólafólk, nemendur og foreldrar mynda jákvæða og uppbyggilega menningu. Það er ástæða til að fagna auknu tæknilæsi, sem styður við jákvætt og uppbyggilegt skólastarf á öllum skólastigum. Kennarar og skólastjórnendur halda áfram mikilvægi sínu, því eitt af því sem kemur fram hjá nemendum á COVID-tímum er söknuður í lærdómssamfélagið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. maí 2020.