Categories
Greinar

Jafnréttismenning

Deila grein

24/10/2018

Jafnréttismenning

24. október hefur allt frá víðfrægum fundi kvenna á Lækjartorgi árið 1975,  verið helgaður baráttunni fyrir jöfnum réttindum á vinnumarkaði, launajafnrétti og auknum aðgangi kvenna að samfélagslegum valdastöðum. Saga kvennafrídagsins er flestum kunn en á þessum degi fyrir 43 árum síðan bentu konur á mikilvægi starfa sinna og vinnuframlags með því að leggja niður launuð og ólaunuð störf. Eðli málsins samkvæmt var samfélagið í lamasessi. Samtakamátturinn þá er enn í fersku minni og hefur æ síðan verið aðalsmerki kvennahreyfingarinnar hér á landi.

Undanfarin ár hefur 24. október verið nýttur til að benda á það sem betur má fara hérlendis, ekki síst þá staðreynd að enn mælist kynbundinn launamunur á íslenskum vinnumarkaði. Lög um jafnlaunavottun tóku gildi í upphafi þessa árs. Þau kveða á um skyldu fyrirtækja og stofnana að undirgangast formlega úttekt og vottun sem staðfestir að stjórnunarkerfi þeirra uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins. Jafnlaunavottun getur þannig endurspeglað metnað fyrirtækja og stofnana sem vilja vera eftirsóttir vinnustaðir og sjá sér hag í að sýna fram á að þau reki launastefnu sem byggist á markvissum og faglegum aðferðum. Jafnlaunastaðallinn er eini sinnar tegundar í heiminum og er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Markmiðið með gerð hans var að þróa leið til að eyða kynbundnum launamun þannig að greidd séu sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, líkt og kveðið hefur verið á um í lögum í áratugi. Þetta verkefni hefur hlotið mikla athygli út fyrir landsteinana og litið er til Íslands sem fyrirmyndar hvað varðar aðgerðir og þróun málaflokksins. Árangur okkar byggist á víðtæku samráði og fyrir það ber að þakka.

Í dag stendur kvennahreyfingin í samstarfi við samtök launafólks fyrir baráttufundi þar sem sjónum er beint að launajafnrétti og öryggi kvenna á vinnustöðum. Stjórnvöld hafa brugðist við #ég líka hreyfingunni með margvíslegum hætti. Verkefnin miða að fyrirbyggjandi aðgerðum og forvörnum en ekki síst að því hvernig megi skapa raunverulega jafnréttismenningu í samfélaginu.

Þrátt fyrir að lög og regluverk um viðbrögð og skyldur atvinnurekenda vegna kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni og ofbeldi á vinnustöðum séu fyrir hendi sýna #ég líka frásagnirnar gríðarlegt umfang vandans sem enn fær að viðgangast. Gallup-könnun sem gerð var í nóvember í fyrra sýnir að nærri helmingur allra kvenna, eða 45%, hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi en 15% karla. #Ég líka frásagnir kvenna af erlendum uppruna um andlegt og líkamlegt ofbeldi á íslenskum vinnumarkaði voru mjög þörf áminning um að hin svokallaða jafnréttismenning hefur ekki náð til allra hópa í okkar samfélagi. Við þurfum að vera meðvituð og vakandi fyrir birtingarmyndum margþættrar mismununar og skoða áhrif stjórnvaldsaðgerða út frá kyni en einnig öðrum þáttum eins og uppruna, kynvitund og kynhneigð.

Í samræmi við þær áherslur fer nú fram vinna innan Stjórnarráðsins sem miðar að frekari útvíkkun jafnréttishugtaksins í íslenskri löggjöf og mótun  heildstæðrar stefnu í jafnréttismálum sem ætlað er að tryggja framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð einstaklinga.

Ég vona að þessar aðgerðir eigi eftir að auka á jafnréttismenningu og marka framfararspor í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna í okkar samfélagi. Baráttu sem hófst fyrir meira en 100 árum síðan og við munum í sameiningu halda áfram.

Til hamingju með daginn!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherrs.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu, jafnrétti kynningarblaði, 24. október 2018.

Categories
Greinar

Réttu barni bók

Deila grein

24/10/2018

Réttu barni bók

Nú er tími vetrarfríanna hjá íslenskum grunnskólabörnum. Það er kærkomin tilbreyting að líta upp úr námsefninu bæði fyrir nemendur og kennara og vonandi gefst sem flestum færi á að njóta samverustunda í fríinu. Öll viljum við að börnin okkar njóti þeirra möguleika sem lífið hefur upp á að bjóða. Mikilvægt er að þau fái tækifæri til þess að þroskast og blómstra í fjölbreyttum verkefnum.

Lestrarfærni er lykill að lífsgæðum okkar og bækur grundvöllur símenntunar alla ævi. Við vitum að þeirri færni hefur farið hrakandi og ýmislegt hefur þegar verið gert til þess að snúa þeirri þróun við og efla læsi barna og unglinga.

Á dögunum kynntum við aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu til framtíðar. Í liðinni viku mælti ég fyrir frumvarpi sem heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku. Þeirri aðgerð er ætlað að hvetja til aukinnar útgáfu bóka, á prenti og rafrænum miðlum og auka þannig framboð og fjölbreytni efnis fyrir íslenska lesendur.

Til þess að stuðla að bættu læsi þurfa allir aldurshópar, og ekki síst börn og ungmenni, að geta nálgast áhugavert og fjölbreytt lesefni á íslensku.

Gildi bókaútgáfu fyrir þróun tungumálsins okkar er óumdeilt. Útgáfa bóka er ein af mikilvægustu stoðum íslenskrar menningar.

Frá því að land var numið á Íslandi höfum við skrifað og lesið til að skilja okkur sjálf. Það er tungumálið okkar sem geymir þann galdur.

Íslenskan er okkar þjóðtunga og opinbert mál, og okkur ber að tryggja að hægt sé að nota hana á öllum sviðum þjóðlífsins. Til þess eru margar leiðir, sumar umfangsmiklar eins og sú innspýting fyrir íslenska útgáfu sem frumvarpið boðar. Aðrar eru einfaldari og kalla á hugarfarsbreytingu eða aukna meðvitund hjá okkur öllum, eins og að velja oftar að rétta barni bók.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á www.visir.is 22. október 2018.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

Deila grein

21/10/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi (KFNA)

18. Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, haldið á Fljótsdalshéraði þann 20. október 2018, telur brýnt  að áfram verði unnið með stöðugleika, traust og jöfnuð í fyrirrúmi til framtíðar, landi og þjóð til heilla.
Þingið leggur áherslu á að nýrri og metnaðarfyllri byggðaáætlun verði fylgt eftir af fullum þunga og áhersla verði lögð á jöfnuð óháð búsetu. Jafnaður verði húshitunarkostnaður landsmanna og byggð verði upp traust heilbrigðisþjónusta. Standa verður vörð um starfsemi sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana í kjördæminu og stórauka þarf fjölda hjúkrunarrýma og tryggja fjármuni til reksturs þeirra. Þá verður að gera stórátak í geðheilbrigðismálum um land allt til að hlú að þeim sem slíka þjónustu þurfa.
Um leið og þingið fagnar því að búið sé að leggja fram fullfjármagnaða samgönguáætlun þá minnir það á þá miklu þörf sem er í kjördæminu fyrir bættum samgöngum til að rjúfa vetrareinangrun byggðarlaga og styrkja atvinnusvæði innan þess. Því hvetur þingið til þess að leitað verði allra leiða til að flýta sem mest brýnum slíkum verkefnum sem bíða og hefur verið raðað aftar á samgönguáætlun.
Þingið fagnar forystu framsóknar í menntamálum enda er sá málaflokkur ein mikilvægasta stoð samfélagsins. Í þeim efnum minnir þingið á nauðsyn þess að efla hlut iðn- og tæknigreina í menntakerfinu. Þá er brýnt að standa vörð um tungumálið okkar og auka lestur ungmennna.
Þingið lýsir yfir ánægju sinni með þá vinnu sem félagsmálaráðráðherra hefur hafið í húsnæðismálum á landsbyggðinni þar sem meðal annars er horft til þess markaðsbrest sem víða er. Er mikilvægt að þeirri vinnu ljúki sem fyrst.
Þá leggur þingið áherslu á það að atvinnuuppbygging um land allt geti þrifist innan þess regluverks sem gildandi er og ekki sé hægt leggja stein í götu slíkrar uppbyggingar með flækjustigum og óskýrum lagabókstöfum eins og til að mynda í fiskeldi. Regluverk atvinnulífsins þarf að vera einfalt, heilbrigt og skýrt til að uppbygging geti átt sér stað um land allt.
Þingið hvetur ráðherra og ríkisstjórn í samvinnu við verkalýðshreyfinguna að leiða til lykta farsæla lausnir í komandi kjarasamningum sem treysta mun efnahag og hagsæld landsins með jöfnuð og félagshyggju í forgrunni.
Þá minnir þingið á mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið allt og þá miklu þörf sem er fyrir aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til að mæta þeim tímbundnu erfiðleikum sem að landbúnaðinum steðja. Þar þarf framsóknarflokkurinn að stíga fast til jarðar og leiða slíka vinnu. Ekki þarf að fjölyrða neitt um nauðsyn matvælaöryggis fyrir þjóðina og er landbúnaðurinn ein af grunnstoðum í því. Þá þarf að ljúka vinnu við regluverk um eignarhald á bújörðum og stefnu í málefnum ríkisjarða. Þessi mál þola enga bið og hafa þarf hagsmuni bænda að leiðarljósi við hana.
Þá leggur þingið þunga áherslu á að fjölgað verði innkomuleiðum ferðamanna inn í landið með frekari uppbyggingu millilandaflugvalla kjördæmisins, Akureyri og Egilsstöðum, þannig að þeir geti sinnt hlutverki sínu. Isavia verði gerð eigandastefna með þetta í huga þannig að jafnræði sé gætt milli millilandaflugvalla landsins. Þá verði hin svokallaða „Skoska leið“ innleidd þannig að flugsamgöngur á landsbyggðinni geti gengt hlutverki sínu sem almenningssamgöngur sem þær sannarlegu eru fyrir þá sem lengst búa frá höfuðborginni.
***
18. Kjördæmisþing KFNA, haldið á Egilsstöðum þann 20. október 2018, fagnar auknu fjármagni til vegamála í tillögu að samgönguáætlun, en harmar að framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng skuli ekki vera á framkvæmdaáætlun næstu fimm ára og skorar á þingmenn Framsóknarflokksins að sjá til þess að því verði breytt.

Categories
Greinar

Bækurnar, málið og lesskilningurinn

Deila grein

18/10/2018

Bækurnar, málið og lesskilningurinn

Í vikunni mælti mennta- og menningarmálaráðherra fyrir frumvarpi á Alþingi sem hefur það að markmiði að efla útgáfu bóka á íslensku. Bókaútgáfa hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár og því mikilvægt að spyrna við fótum með markvissum aðgerðum. Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku er liður í heildstæðri nálgun til eflingar íslenskunni. Þar er verið að mæta áskorunum úr mörgum áttum. Meðal aðgerða til að styrkja stöðu íslenskunnar, eru auk stuðnings við útgáfu bóka á íslensku fyrirhugaður stuðningur við einkarekna fjölmiðla, aukin áhersla á íslensku í menntakerfinu og umfangsmikið átaksverkefni á sviði máltækni. Þetta eru fjölþættar aðgerðir en hér dugir heldur ekki annað. Ef takast á að tryggja að íslenskan verði áfram aðalmálið þarf samstillta vinnu margra aðila víða í þjóðfélaginu. Það er alveg ljóst að grundvöllur aðgerðanna er eindreginn vilji stjórnvalda til að tryggja framgang, þróun og framtíð íslenskrar tungu.

Læsi og lesskilningur hafa mikil áhrif á lífsgæði einstaklinga og um leið á samfélagið og samkeppnishæfni þess til framtíðar. Með aðgerðunum nú er verið að fylgja eftir þeirri vinnu sem lögð hefur verið á læsi í skólum. Vísbendingar eru um að sú vinna sé farin að skila árangri eins og sást í niðurstöðum Lesfimiprófanna núna í september, það er frábært.

Aðgengi að fjölbreyttu og áhugaverðu lesefni er grundvallaratriði fyrir þjóð sem ætlar sér að bæta læsi. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur einnig boðað stofnun nýjan barna- og unglingabókasjóðs sem hefji starfsemi á næsta ári enda hefur yngri kynslóðin bent á að auka þurfi framboð af góðum bókum.

Við erum sannfærðar um að heildstæð nálgun til eflingar íslenskunni og nýtt stuðningskerfi fyrir útgáfu bóka á íslensku verður hvatning fyrir útgefendur og rithöfunda. Þá gleðjast bókaorma sem njóta góðs af, en umfram allt bindum við vonir við að aðgerðirnar muni skila auknum áhuga barna- og ungmenna á bókalestri og betra læsi þjóðarinnar.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismenn.

Greinin birtist fyrst á www.visir.is 17. október 2018.

Categories
Greinar

Hversu mikilvægur er landbúnaður fyrir sveitarfélagið mitt?

Deila grein

16/10/2018

Hversu mikilvægur er landbúnaður fyrir sveitarfélagið mitt?

Ein af grunnstoðum íslensks atvinnu­lífs er landbúnaður. Eyja­­fjörður er rótgróið land­bún­aðar­­hérað með blómlegum byggðum og stórum þjónustu- og úrvinnslufyrirtækjum á sviði landbúnaðar.

Líta má á nýjar og breyttar áherslur t.d. tengdar ESB, niðurfellingu tolla, meiri sveigjanleika við innflutning á fersku kjöti o.fl. þætti sem töluverða ógn við bændur og þeirra starfsemi. En sú ógn einskorðast alls ekki við þá sem vinna í frumgreininni og ætla ég að varpa smá ljósi á mikilvægi landbúnaðar fyrir sveitarfélagið mitt, Dalvíkurbyggð.

Í tölum sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar tók saman um landbúnaðarmál byggðum á Hagstofutölum ársins 2016 kemur fram að í Dalvíkurbyggð eru 39 rekstraraðilar í landbúnaði og er ársvelta bújarðanna rúmlega 900 milljónir króna samtals. Ætla má að hjá hverjum þessara 39 aðila séu að jafnaði 1–3 störf sem skila útsvarstekjum inn í sveitarfélagið. Mörg fyrirtæki í sveitarfélaginu þjónusta landbúnaðinn t.d. í byggingariðnaði, vélaverkstæðin og verslanirnar. Þá kaupa bændur þjónustu og vöru af veitum sveitarfélagsins og greiða fasteignagjöld af byggingum á jörðunum. Eyjafjarðarsvæðið í heild nýtur góðs af og mörg stór úrvinnslufyrirtæki skapa störf og hafa tekjur af landbúnaði.

En það er svo mikið meira en tölur og peningaleg áhrif. Á jörð­unum býr fólk, heldur sín húsdýr og ræktar sína jörð. Þar eru allt upp í þrjár kynslóðir á sama bænum að skapa verðmæti. Og verðmætin mælast ekki síður í félagslífi, samvinnu milli bæja og samkennd með nágrönnunum. Á meðan jarðirnar haldast í byggð og búskap er ásýnd sveitanna fögur og áður nefnd verðmæti til staðar. Það ríkir bjartsýni og trú á framtíðina. Um leið og búskapur leggst af og jarðir fara í eyði eða undir frístundabúsetu þá er erfiðara fyrir þá sem eftir standa að halda úti margvíslegum samfélagsverkefnum. Þess vegna er svo mikilvægt á landsvísu að standa vörð um landið og landbúnaðinn og koma lögum yfir uppkaup auðmanna á heilu sveitunum.

Við í Dalvíkurbyggð erum stolt af okkar bændum og þeirra metnaðarfullu starfsemi sem er mjög mikilvæg fyrir sveitarfélagið. Undanfarin ár hefur verið gaman að fylgjast með hvernig þeir hafa margir hverjir byggt upp og fært vinnsluhætti til nútímans. Ég vona að skilyrði, regluverk og umgjörð um landbúnaðinn verði með þeim hætti í framtíðinni að nýjar kynslóðir sjái áfram tækifæri í að helga sig þessari grundvallar atvinnugrein í okkar þjóðfélagi.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð.

Greinin birtist fyrst á www.bbl.is 16. október 2018

Categories
Fréttir

Þingflokkur og landsstjórn funduðu á Hellu

Deila grein

13/10/2018

Þingflokkur og landsstjórn funduðu á Hellu

Landsstjórn og þingflokkur  Framsóknarflokksins funduðu á Hellu um helgina. Fundurinn er liður í flokksstarfinu og hluti undirbúnings fyrir fyrirhugaðan miðstjórnarfund í nóvember. 
Farið var yfir áherslumál þingflokks og landsstjórnar. Áherslan verður á húsnæðismálin, kjaramálin, málefni barna, menntamál og fjölskyldna.  Mótun stefnu í málefnum aldraðra er í farvatninu, vinna skal áfram að bættum kjörum öryrkja og leggja áherslu á forvarnir í öllum aldurshópum
Fundurinn lagði áherslu á að innleiða svissnesku leiðina og að afnema verðtryggingu.
Byggðamál eru í brennidepli og mikilvægi íslensks landbúnaðar, matvælaöryggi er þjóðinni dýrmætt og ljóst að dómur hæstaréttar kallar á viðbrögð við innflutningi á hráu kjöti. Íslensk stjórnvöld þurfa að taka upp viðræður við Evrópusambandið um matvælalöggjöf.
Eigendastefna opinberra fyrirtækja þarf að vera gagnsæ og þjóna þörfum landsmanna betur.
Fundurinn lagði ríka áherslu á mikilvægi samgangna, þær eru grunnur að velferð þjóðarinnar og framþróunar atvinnulífs. Nú hefur verið lögð fram fjármögnuð samgönguáætlun, með stefnumótun til framtíðar, sem nauðsynlegt er að fylgja eftir svo árangur náist.

Categories
Greinar

Gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði

Deila grein

08/10/2018

Gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur síðastliðið þriðjudagskvöld sýndi slæman aðbúnað erlends verkafólks hér á landi og margvísleg brot gegn því og lét örugglega engan ósnortinn. Hver sem stundar atvinnurekstur á þeim forsendum að brjóta á vinnandi fólki, búa því slæmar aðstæður og svíkja það um kaup og kjör kemur óorði á heilar atvinnugreinar og skaðar orðspor Íslands sem þjóðar meðal þjóða. Slík háttsemi er vandamál allra, grefur undan heiðarlegri atvinnustarfsemi og ýtir undir tortryggni á vinnumarkaði. Það þarf að efla eftirlit, auka samvinnu til að taka heildstætt á þessum málum og herða viðurlög gagnvart þeim sem ábyrgir eru.

Síðastliðið vor samþykkti Alþingi lög sem varða erlendar starfsmannaleigur og fela í sér auknar heimildir Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar til eftirlits, auk víðtækari heimilda til upplýsingamiðlunar til ríkisskattstjóra og lögreglu. Lögin eru afrakstur samstarfs stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Markmiðið er að tryggja að l starfskjör starfsmanna sem sendir eru tímabundið hingað til lands séu í samræmi við íslensk lög og kjarasamninga og að bæta yfirsýn stjórnvalda yfir eðli og umfang þessara mála. Skammt er liðið frá gildistöku laganna en þeim er ætlað að torvelda brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Meðal þess sem mér fannst sláandi í þættinum var hvað þeir aðilar sem hafa skýran ásetning um að brjóta á vinnandi fólki virðast beita til þess margvíslegum aðferðum. Til að upplýsa og fyrirbyggja brot þarf virkt samstarf margra aðila. Fulltrúar atvinnurekenda og launafólks eru á einu máli um að brot eins og hér um ræðir verða ekki liðin og ég veit að vilji allra aðila sem þurfa að vinna saman til að uppræta þennan vanda er fyrir hendi.

Nýlega kynnti ég fyrir ríkisstjórn ákvörðun mína um aukna samvinnu til að sporna gegn félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði. Í framhaldinu kallaði ég til samstarfs fulltrúa verkalýðsfélaga, atvinnurekenda, skattayfirvalda, lögreglu og fleiri stofnana sem og fleiri ráðuneyta til að efla samstarf um aukið eftirlit og meta þörf á lagabreytingum. Háttsemi af þeim toga sem þarna kom fram á ekki að líðast.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. október 2018.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

Deila grein

07/10/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

18. Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS), haldið í Þingborg í Flóahreppi, laugardaginn 6. október, lýsir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og þann stjórnarsáttmála sem samstarfið byggir á. Þingið lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Ráðherrum flokksins hafa verið falin mikilvæg og stór málefni en þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu í heild og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.
Mikil sóknarfæri eru í Suðurkjördæmi og liggja tækifærin víða. Ör íbúafjölgun á svæðinu með miklum vaxtaverkjum samhliða sprengingu í fjölgun ferðamanna reynir mjög á alla innviði. Helst má nefna heilbrigðisþjónustu, en mikilvægt er að samræmd heilbrigðistefna sé unnin fyrir landið með hliðsjón af þörfum allra landsmanna. Auk þess er afar brýnt að auka fjármuni til löggæslu í kjördæminu til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna bæði erlendra og innlendra.
Kjördæmisþingið fagnar tillögu samgönguráðherra að samgönguáætlun. Þýðingarmikið er að hún er fjármögnuð um leið. Ljóst er þó að væntingar voru um hraðari uppbygginu á Suðurlandi en þarna birtist. KSFS fagnar þeirri umræðu sem snýr að umferðaröryggi og styður skoðun á þeim möguleika að göngum í gegnum Reynisfjall og nýrri Ölfusárbrú við Selfoss verði flýtt með innheimtu vegatolla. Jafnframt er lögð rík áhersla á að einbreiðar brýr í kjördæminu heyri sögunni til enda eru þær dauðagildrur í þeim umferðarþunga sem nú er staðreyndin.
Í gegnum árin hefur ekki verið gefið jafnt til allra landsmanna og eru helsta dæmið um það sú mismunun sem í verðlagningu á flutningi á raforku. Þessi mismunum stendur uppbyggingu landsbyggðarinnar fyrir þrifum og nú þegar ríkistjórnin hefur samþykkt háleit markmið um orkuskipti í samgöngum er rétt að Alþingi Íslendinga taki af skarið leiðrétti þetta misrétti með lagasetningu. Eðlilegt væri að landið væri allt eitt gjaldsvæði eins og í símaþjónustu.
Framsókn vill öflugt menntakerfi þar sem ný tækifæri eru sköpuð á umbreytingartímum. Kjördæmisþing KSFS fagnar áherslum mennta- og menningarmálaráðherra við að efla menntakerfið á öllum skólastigum með auknum fjárframlögum til að auka gæði náms.
Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á að lausnir í húsnæðismálum eins og kynntar voru í stjórnasáttmálanum nái fram að ganga og er þá afnám verðtryggingar af lánum einn veigamesti liðurinn í því. Erfiðleikar við að koma sér upp eigin húsnæði eru eitt alvarlegasta vandamálið í íslensku samfélagi og á því þarf núverandi ríkisstjórn að taka. Einnig er mjög brýnt að taka á stórkostlegum vanda á húsaleigumarkaði hið fyrsta.
Leggja þarf áherslu á í komandi kjarasamningum að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk hafa setið eftir. Með þessu næðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.
Standa þarf vörð um íslenskan landbúnað og fylgja fast eftir ákvæðum í stjórnarsáttmálanum um greinina. Koma þarf til móts við þann tímabundna vanda sem nú er uppi í sauðfjár- og loðdýrarækt.
Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á í ljósi þeirrar náttúruvár sem er í kjördæminu að lokið verði við stofnun hamfarasjóðs sem fyrirhugað er að leysi viðlagatryggingu og A- deild bjargráðsjóðs af hólmi.
 

Categories
Greinar

Sendiherrar íslenskunnar

Deila grein

05/10/2018

Sendiherrar íslenskunnar

Alþjóðlegur dagur kennara er í dag, 5. október. Af því tilefni var haldið skólamálaþing á vegum Kennarasambands Íslands í gær undir yfirskriftinni »Íslenska er stórmál«. Eftir veruna þar fyllist ég enn meiri bjartsýni fyrir hönd íslenskrar tungu, þar kom fram mikill einhugur og ástríða fyrir framtíð íslenskunnar og þeim möguleikum sem í henni felast. Á málþinginu var skrifað undir viljayfirlýsingu um mikilvægi íslensks máls en að henni standa auk Kennarasambandsins, forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtökin Heimili og skóli. Markmið þessarar yfirlýsingar er að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á íslenskunni, stuðla að virkri notkun tungumálsins og vinna að jákvæðari viðhorfum, ekki síst barna og unglinga, til íslenskrar tungu.

Á málþinginu voru einnig kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar Sigríðar Sigurjónsdóttur og Eiríks Rögnvaldssonar á stafrænum áhrifum alþjóðamáls á íslensku. Þar er meðal annars fjallað um net- og snjalltækjanotkun barna, viðhorf þeirra og áhuga á ensku, málkunnáttu og málumhverfi. Þær tölur sem kynntar voru eru úr netkönnun meðal barna á aldrinum 3-12 ára og veita þær afar forvitnilegar vísbendingar um þá hröðu þróun sem nú á sér stað í málumhverfi okkar. Það vakti athygli mína að samkvæmt þeim tölum nota 19% þriggja til fimm ára barna netið á hverjum degi, og 8% þeirra barna byrjuðu að nota snjalltæki fyrir eins árs aldur. Þetta er tímamótarannsókn en henni er ekki lokið og úrvinnsla gagna raunar nýhafin en þessar fyrstu niðurstöður eru sannarlega umhugsunarverðar. Það bendir ýmislegt til þess að viðhorf barna og ungmenna til íslensku sé að breytast og því er mikilvægt að gefa gaum.

Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og það eru kennarar einnig. Kennarar eru einir af mikilvægustu áhrifavöldum sem unga fólkið okkar kemst í tæri við. Þeir skipta sköpum fyrir framtíð íslenskunnar og góð þekking þeirra, áhugi og ástríða fyrir tungumálinu getur svo auðveldlega smitast til nemenda. Þeir geta verið, svo vísað sé til orða frú Vigdísar Finnbogadóttur, sendiherrar íslenskunnar. Það er dýrmætt að kennarar taki virkan þátt í því að snúa vörn í sókn fyrir tungumálið okkar. Við höfum greint frá fjölþættum aðgerðum stjórnvalda er einmitt miða að því og þar gegnir menntakerfið og kennarar lykilhlutverki.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. október 2018.

Categories
Greinar

Upp úr skotgröfunum

Deila grein

03/10/2018

Upp úr skotgröfunum

Umræður um laxeldi á Íslandi hafa náð hápunkti sínum síðustu vikur. Það er eins og maður hafi verið að fylgjast með dramatískum framhaldsþætti frá unglingaskóla í Bandaríkjunum. Hver þáttur hefur einkennst af upphrópunum, og atburðarásin snýst alltaf um það sama, en maður horfir samt. Laxeldi er atvinnugrein sem hefur verið stunduð víða um heim í mörg ár. Í nágrannalöndum okkar Noregi og Færeyjum hefur hún náð að þróast í að vera umhverfisvæn matvælaframleiðsla þar sem miklar kröfur eru gerðar.

Ný atvinnugrein

Árið 2004 var merk ákvörðun tekin af stjórnvöldum þar sem ákveðið var hvar óhætt væri fyrir umhverfið að stunda fiskeldi. Byrjað var á að loka stærstum hluta strandlengjunnar þannig að eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, Vestfjörðum og í Eyjafirði. Það var gert til að vernda þær ár þar sem stundaðar eru veiðar á villtum laxastofni landsins. Einnig til að passa upp á hagsmuni veiðiréttarhafa en fyrst og fremst til þess að vernda viðkvæman laxastofn sem hér lifir.

Síðan þá hafa stjórnvöld innleitt strangari reglur í takt við það sem tíðkast erlendis. Enn má gera betur og herða umhverfiskröfur og efla eftirlit, eitthvað sem sum fiskeldisfyrirtæki hafa kallað eftir sjálf. Það er því grátlegt að þegar vilji bæði stjórnvalda og fyrirtækjanna sem stunda þessa framleiðslu er að halda allar ströngustu reglur, skuli uppbyggingin ganga svo brösuglega. Efnahagslegur ábati fyrir þjóðina er svo gríðarlegur, talinn í tugum milljarða þegar þessi framleiðsla verður komin á fullan skrið.

Vestfirðingar hafa löngum verið duglegir við að bjarga sér. Sem betur fer var kerfið ekki komið til sögunnar þegar þeir ýttu úr vör og sóttu björg í bú. Nú ætlar kerfið og hin óskiljanlega umræða að setja strik í reikninginn.

Raunveruleikaþáttur

Það er okkur nauðsynlegt að skipta um í gír í umræðunni úr dramatíkinni í raunveruleikaþátt. Þegar um jafnstóra atvinnugrein er að ræða verðum við að leyfa henni að njóta sannmælis. Umræðan þarf að komast upp úr skotgröfunum og í eðlilegan farveg.

Stjórnvöld eiga að tryggja umgjörð sem byggir á ströngum umhverfisreglum og heilbrigðisstuðlum og tryggja að þegar fyrirtæki hafa uppfyllt allar kröfur stjórnvalda, haldi þau leyfi sem gefin eru út. Með ströngu en skilvirku lagaumhverfi getum við skapað framtíðaratvinnugrein grundvöll öllum til ábata.

Halla Kristín Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. október 2018.