Categories
Greinar

Skuldaleiðréttingin – stefnumótandi aðgerð

Deila grein

09/12/2013

Skuldaleiðréttingin – stefnumótandi aðgerð

Willum Þór ÞórssonNú hafa niðurstöður sérfræðingahóps ríkisstjórnarinnar um skuldaleiðréttingu verið kynntar.   Í skýrslu hópsins kemur fram stefna ríkisstjórnarinnar, nánari útfærsla á aðgerðum til leiðréttingar á höfuðstól verðtryggðra húsnæðislána.  Aðgerðin er tvíþætt; annars vegar er um að ræða beina leiðréttingu og hins vegar um að ræða lækkun á höfuðstól með skattleysi séreignalífeyrissparnaðar.    Hér er tekið mikilvægt skref í efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar og stórt skref í uppgjöri við hrunið.  Ég vil tala um stefnumótandi aðgerð þar sem við erum komin að framkvæmdaþætti þessa mikla og vandasama verkefnis.   Allt frá hruni fjármálakerfisins töluðum við framsóknarmenn um að ráðast þyrfti í slíkar almennar efnahagslegar aðgerðir.    Síðastliðið kjörtímabil var ýmislegt reynt en heimili með verðtryggð húsnæðislán sátu eftir sem er hvorki sanngjarnt né réttlátt.  Sífellt fleirum varð ljóst að meira þyrfti til.  Segja má að niðurstöður kosninganna hafi endurspeglað þá skoðun og þann vilja sem greina mátti í máli beggja flokka, sem nú mynda ríkisstjórn. Markmiðin um þessa fyrirætlan voru sett fram í stjórnarsáttmálanum, sem er jú hið hefðbundna fyrsta skref þegar unnið er með stefnumótun.  En þar segir:

„ríkisstjórnin muni með markvissum aðgerðum taka á skuldavanda íslenskra heimila sem er til kominn vegna hinnar ófyrirsjáanlegu höfuðstólshækkunar verðtryggðra lána sem leiddi af hruni fjármálakerfisins. Grunnviðmiðið er að ná fram leiðréttingu vegna verðbólguskots áranna 2007-2010 en í því augnamiði má beita bæði beinni niðurfærslu höfuðstóls og skattalegum aðgerðum. Um verður að ræða almenna aðgerð óháð lántökutíma með áherslu á jafnræði.“

Þessu fylgdi ríkisstjórnin síðan eftir með þingsályktunartillögu í  10 liðum þar sem Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að fylgja eftir aðgerðaáætlun til þess að taka á skuldavanda heimila á Íslandi.  Þar var leiðin vörðuð.  Stakar aðgerðir voru eyrnamerktar ráðherrunum, ábyrgðavæddar og tímasettar.  Tveir veigamestu liðirnir í þessari áætlun má segja að hafi verið skuldaleiðréttingin sjálf í útfærslu sérfræðingahópsins og svo vinna sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á neytendalánum.   Nú liggur vinna sérfræðingahópsins um skuldaleiðréttinguna fyrir og ég hvet alla til að kynna sér hana.  Verðtryggingarhópurinn mun svo kynna sínar niðurstöður í kjölfarið nú í desember.

Með þessum almennu efnahagslegu aðgerðum verður forsendubresturinn leiðréttur með jafnræði, sanngirni og réttlæti að leiðarljósi.  Það má alltaf deila um þau viðmið og þau mörk sem sett eru til að ramma slíka vinnu. Aðalatriðið er að ríkisstjórnin boðaði aðgerðir í þágu heimilanna og hefur nú sett fram útfærslu aðgerða í samræmi við stjórnarsáttmálann.  Aðgerðunum er stillt í hóf með samspili niðurfærslunnar og skattleysi séreignasparnaðar en magna þannig um leið jákvæð áhrif á hagkerfið í heild.

Kópavogur hefur byggst hratt upp á síðustu tveimur áratugum og því hefur eðlilega fylgt mikil fjárfesting heimila í íbúðarhúsnæði.   Í því ljósi er þetta stórmál fyrir okkar bæjarfélag og mikilvægt að vel takist til með framkvæmdina.   Þessi aðgerð mun marka tímamót og rjúfa kyrrstöðu.  Aðgerð sem ræðst að rótum vandans, of mikilli skuldsetningu heimila, leið til sjálfshjálpar til aukinnar eignamyndunar og hagvaxtar.  Með þessum aðgerðum er það trú mín að Kópavogur muni áfram vaxa og dafna, eins og undanfarna áratugi.   Í janúar mun svo verkefnissjórn félags- og húsnæðismálaráðherra skila tillögum um framtíðarskipan húsnæðismála.

 

Willum Þór Þórsson

Categories
Greinar

Skuldaleiðréttingin: Glíman hafin – en henni er ekki lokið

Deila grein

09/12/2013

Skuldaleiðréttingin: Glíman hafin – en henni er ekki lokið

Silja Dögg GunnarsdóttirDagurinn 30. nóvember var stór dagur og mun eiga sinn sess í sögubókum framtíðarinnar. Þann dag kynnti ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tillögur um skuldaleiðréttingu á verðtryggðum stökkbreyttum húsnæðislánum.

Eignalausa kynslóðin

Alveg síðan að Hrunið varð haustið 2008 hafa heimili landsins beðið eftir aðgerðum. Núverandi ríkisstjórn lofaði aðgerðum því það er mun dýrara fyrir samfélagið að skilja heimilin eftir í skuldum og heila kynslóð eftir eignalausa, en að leysa vandann. Sérfræðingahópurinn að baki skuldaleiðréttingunni hefur nú skilað afar vandaðri skýrslu og á heimasíðu Forsætisráðuneytisins má finna skýrsluna, Spurt og svarað, glærukynninguna og fleira sem að gagni kemur til að átta sig á í hverju aðgerðirnar felast: https://www.forsaetisraduneyti.is/

Leiðréttingin

Leiðréttingin er almenn aðgerð sem felst í að verðtryggð húsnæðislán verða færð niður um fjárhæð  sem svarar verðbótum umfram 4,8% sem féllu til á tímabilinu desember 2007-ágúst 2010. Tekið verður tillit til fyrri úrræða, m.a. 110% leiðarinnar. Hámarksfjárhæð niðurfærslu er 4 milljónir á heimili og leiðréttingin verður gerð á fjórum árum. Þessi leið mun ekki hafa þensluhvetjandi áhrif á samfélagið að mati sérfræðinga. Gert er ráð fyrir að leiðréttingin fari fram um mitt árið 2014 og úrræði séreignarsparnaðar hefjist sama ár. Þeir sem nýta sér bæði úrræðin geta fengið um 20% höfuðstólslækkun fyrir lok árs 2017 að gefnum forsendum um verðbólgu, lánsfjárhæð og launaþróun.

Nær til flestra heimila

Skattfrjálsan séreignasparnað geta allir nýtt sér, ekki bara skuldarar heldur líka ungt fólk sem býr í foreldrahúsum og leigjendur. Með því að bjóða upp á þennan möguleika þá nær aðgerðin til 100 þúsund heimila í landinu af 125 þúsund, en aðeins 21 þúsund heimila eru skuldlaus. Aðrir skulda eða leigja.

Gagnrýnt hefur verið að hátekjufólk muni græða mest á séreignarsparnaðarleiðinni en það er ekki rétt, þar sem þakið er 500 þús. kr. á heimili á ári, sem miðast þá við að samanlögð mánaðarlaun heimilis séu um 700 þús. kr.  Sú staðreynd að þak sé á leiðréttingunni upp á 4 millj. króna tryggir líka að fyrst og fremst sé verið að koma til móts við millistéttina og bæta kjör sem flestra heimila en flestir skulda minna en 25 milljónir króna.

Þörf á frekari aðgerðum til að leysa vandann

Heimilin eru grunneining samfélagsins. Ef þau virka ekki þá er kyrrstaða. Aðgerðaráætlun í tíu liðum um lausn á skuldavanda heimilanna var samþykkt á Alþingi í sumar: https://www.althingi.is/altext/142/s/0009.html

Skuldaleiðréttingin var aðeins einn liður í þeirri áætlun. Það er ljóst að verkefnin framundan eru fjölmörg. Skuldaleiðréttingin ein og sér leysir ekki vanda allra, en hún er skref í rétta átt. Framundan eru bjartari tímar og nýtt framfaraskeið íslenskrar þjóðar.

 

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Categories
Fréttir

Jólafundur kvennadeildar Framsóknarfélags Reykjavíkur

Deila grein

04/12/2013

Jólafundur kvennadeildar Framsóknarfélags Reykjavíkur

jolafundurKvennadeild Framsóknarfélags Reykjavíkur heldur jólafundinn sinn fimmtudaginn 5. desember í Framsóknarhúsinu að Hverfisgötu 33, kl. 20:00.
Fundurinn verður  með hefðbundnu sniði eins og undanfarin ár – rjúkandi súkkulaði með rjóma, piparkökur, stollen með smjöri og ostar. Málsháttasiðurinn verður í heiðri hafður og biðjum við fólk að muna eftir að taka pakka með sér til fundarins.
Dagskrá:

  1. Guðni Ágústsson les upp úr ný útkominni bók sinni
  2. Guðrún Bryndís Karlsdóttir, sem skipar 2. sæti lista Framsóknarflokksins til borgarstjórnarkosninga les jólasögu
  3. Valgerður Sveinsdóttir, sem skipar 3. sæti lista Framsóknarflokksins til borgarstjórnarkosninga les ljóð
  4. Sigrún Magnúsdóttir, þingmaður stýrir málsháttaatriði
  5. Óvæntar uppákomur

Hlökkum til að sjá ykkur öll í aðventu – og jólaskapi
 
Kvennadeild Framsóknarfélags Reykjavíkur 

Categories
Fréttir

Uppstilling í Norðurþingi

Deila grein

04/12/2013

Uppstilling í Norðurþingi

Toggi-formadurÁ félagsfundi hjá Framsóknarfélagi Þingeyinga s.l. laugardag var samþykkt að stilla upp á B-lista Framsóknarflokks í Norðurþingi. Jafnframt var samþykkt tillaga þess efnis að stjórn félagsins skuli skipa uppstillingarnefnd sem síðan leggur tillögu sína fyrir félagsfund.

Þorgrímur Sigmundsson er formaður Framsóknarfélags Þingeyinga. FRÉTTABRÉFI FRAMSÓKNAR lék forvitni á að vita meira um Þorgrím og fengum hann til að segja okkur eitt og annað af sér og flokksstarfinu.

Hvar ertu fæddur og hvenær?  Ég er fæddur á sjúkrahúsinu á Húsavík 18. apríl 1976. Í logni og glampandi sól.

Við hvað starfar þú?  Ég er verktaki hjá Íslandspósti (landpóstur) og þar áður var ég forvarnarfulltrúi og ráðgjafi hjá félagsþjónustu Norðurþings.

Hvers vegna framsóknarmaður?  Félagshyggju og samvinnuhugsjónin hefur fallið vel að þeim gildum sem ég vil standa fyrir. Hún er laus við öfgar hvort heldur sem er til hægri eða vinstri og felur í sér bæði áherslu á frelsi til athafna sem og sameiginlega ábyrgð á því að allir eigi að geta notið grunnréttinda. Sem endurspeglast t.d. í þeim skilningi að ríkisvaldið getur þurft að koma með afgerandi hætti að uppbyggingu atvinnutækifæra án þess þó að hefta einstaklingsframtakið.

Hvernig hefur vetrarstarfið farið í gang hjá félaginu?  Við hittumst alla laugardagsmorgna í Kiwanishúsinu og ræðum það sem ber hæst hverju sinni hvort heldur sem er í bæjarmálunum eða landsmálunum. Þessir fundir eru alla jafna vel sóttir og oft mikið fjör í umræðunni. Einnig höldum við með reglubundnum hætti sérstaka bæjarmálafundi og erum þá örlítið formlegri, kjörnir fulltrúar gera okkur þá betur grein fyrir gangi mála í sveitarstjórnarmálunum en á hefðbundnum laugardagsfundum. Þessir fundir eru mjög mikilvægir fyrir okkur og gegna lykilhlutverki þegar kemur að því sem nú er svo mjög kallað eftir, þ.e. opnari stjórnsýslu.

HPIM0539Framundan hjá okkur núna er hinn geisivinsæli jólagrautur og verður hann laugardaginn 14. desember í Kiwanishúsinu og þangað eru allir velkomnir. Í framhaldi af samþykkt félagsfundar okkar er uppstillingarnefndin nú að hefja vinnu við að setja saman framboðslista og reikna ég með því að fulltrúaráðið verði kallað saman, nefndinni til stuðnings, til að nýta krafta sem flestra, en í því felst mikill styrkur.

Framsóknarflokkurinn í Norðurþingi hefur alloft staðið sig vel í kosningum, fengið nær 40% atkvæða, hvað eruð þið að gera sem skilar svo góðum árangri?  Þar er margt sem spilar saman og ekkert eitt sem hægt er að draga út fyrir sviga. En nefna má í þessu samhengi öflugt grasrótarstarf, laugardagsfundirnir, bæjarmálafundirnir og almennt góða samfellu í flokksstarfinu. Þá hefur málefnastaða flokksins verið traust og við höfum borið gæfu til að stilla upp öflugum frambjóðendum af báðum kynjum á mismunandi aldri og með ólíka reynslu. Allt þetta hefur skapað góðan grunn fyrir hverjar kosningar.

FRÉTTABRÉF FRAMSÓKNAR óskar Framsóknarfélagi Þingeyinga velfarnaðar í starfi.

 

Categories
Greinar

Evrópusambandið veldur vonbrigðum

Deila grein

03/12/2013

Evrópusambandið veldur vonbrigðum

Gunnar Bragi SveinssonNúna hefur Evrópusambandið brugðist þeim fjölmörgu aðilum sem það hefur gert samninga við um IPA styrki.

Framkvæmdastjórn ESB hefur einhliða og án fyrirvara tilkynnt ákvörðun um að hætta öllum IPA-verkefnum sem hafin voru á Íslandi. Framkvæmdastjórnin mun segja samningum upp með tveggja mánaða fyrirvara og þeim send bréf þess efnis á næstu dögum.

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar kemur utanríkisráðuneytinu í opna skjöldu, í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á gott samstarf við ESB og sérstaklega þegar til þess er litið að framkvæmdastjórnin hefur á fyrri stigum ítrekað gefið til kynna að öllum IPA verkefnum sem hafin væru yrði lokið án tillits til mögulegrar aðildar. Íslenskir og erlendir samstarfsaðilar hafa því haldið áfram að vinna að verkefnum í góðri trú um að Evrópusambandið myndi standa við fyrri ákvarðanir og yfirlýsingar.

Viðsnúningur ESB er óskiljanlegur þar sem ekkert nýtt hefur gerst síðan hlé gert á viðræðum og fyrri ákvörðun var tekin um framtíð IPA styrkjanna.

Þessi vinnubrögð eru forkastanleg að mínu mati og ekki til þess fallinn að lyfta ímynd ESB á Íslandi að neinu leiti.

 

Gunnar Bragi Sveinsson

Categories
Greinar

Skiptir menntun máli í sjávarútvegi?

Deila grein

03/12/2013

Skiptir menntun máli í sjávarútvegi?

Líneik Anna SævarsdóttirÞegar sérfræðingar í menntamálum spá fyrir um hvers konar hæfni sé mikilvægust í nánustu framtíð er niðurstaðan færni í mannlegum samskiptum og skapandi en jafnframt gagnrýnin hugsun. Auðvitað fylgir svo mikilvægi tæknikunnáttu og læsis, ekki einungis á bókina heldur líka á umhverfið. Þá er samfélagsleg þátttaka og persónuleg ábyrgð einnig lykilfærni. Það er engin spurning að þetta á við í sjávarútvegi eins og annars staðar. Á síðustu árum höfum við í raun séð að þessi færni skiptir máli því þrátt fyrir að heildar aflamagn úr sjó hafi hætt að aukast hefur verðmætaauking haldið áfram með sköpunarkraftinum og því að tengja saman þekkingu á mismunandi sviðum. Þannig er stöðugt unnið að nýsköpun sem byggir á gamalli og nýrri þekkingu okkar Íslendinga á sjávarútvegi.

Menntað vinnuafl þarf að koma eftir fjölbreyttum leiðum í gegnum nám sem er beintengt greininni en ekki síður í gegnum ólíkar námsleiðir á framhalds- og háskólastigi. Það er mikilvægt að bjóða áfram upp á öflugt sérhæft nám s.s. sjávarútvegsfræði, skipstjórn, vélvirkjun, matvælafræði og fiskvinnslu. Þetta er mikilvægt bæði fyrir fólk sem kemur beint til starfa og einnig fyrir þá sem vilja góða þekkingu á greininni sem viðbót eða undirbúning fyrir annað nám. Sjávarútvegurinn þarf einnig á allra handa iðn- og háskólamenntun í öðrum greinum að halda til að þróast áfram s.s. rafvirkjun, tölvunarfræði, verkfræði, hönnun, sagnfræði, markaðsfræði. Í raun er erfitt að sjá fræðigrein sem ekki getur tengst sjávarútvegi á einhvern hátt.

Þeir sem starfa í greininni þurfa að hafa aðgang að fjölbreyttri símenntun, í formi sérhæfðra námskeiða en jafnframt er mikilvægt að hafa góðan aðgang að námi sem skólakerfið býður upp á t.d. í gegnum fjarnám sem mögulegt er að stunda með starfi.

Hvernig má svo efla hið margumrædda samstarf skóla og atvinnulífs? Hvernig verður áhugi vakinn?  Það þarf öflugra upplýsingastreymi í þjóðfélaginu um það sem er að gerast í sjávarútvegi bæði þeim hefðbundna og eins í nýsköpun bæði í greininni sjálfri og þjónustuiðnaði.  Áhugavert væri að byggja upp verkefnabanka tengdan sjávarútvegi á vefnum sem hentar með mismundandi námsefni á grunnskóla og framhaldskólastigi, þar sem finna mætti einfaldar efnafræðitilraunir, söguverkefni, stærðfræðiverkefni og ótal önnur verkefni.  Fræðsla fyrir kennara í framhalds- og grunnskólum væri mikilvæg eftirfylgni við slíkt verkefni. Slík nálgun þar sem sjávarútvegur tengist mörgum námsgreinum er mun vænlegri til að vekja áhuga en sérstök námsgrein um sjávarútveg.  Vettvangsheimsóknir og starfskynningar eru líka mikilvægar þar sem þeim verður við komið.  Þá mætti tvinna saman kynningu á sjávarútvegi og ferðaþjónustu, með áhugaverðum sýningum á nútíma atvinnuháttum.

Á háskólastiginu tel ég aftur á móti skilvirkustu samstarfsfletina liggja í gegnum samstarf um lokaverkefni nemenda, þar er mikilvægt að fólk starfandi við veiðar og vinnslu leggi fram hugmyndir að verkefnum sem ýmist er hægt að vinna innan veggja skólanna eða á vettangi í samstarfi háskóla og fyrirtækja.

Með góðri og fjölbreyttri menntun, þrautseigju og áhuga getum við lengi haldið áfram að skapa meiri verðmæti í sjávarútveginum.

 

Líneik Anna Sævarsdóttir

Greinin birtist í Útvegsblaðinu þar sem þemað var menntun.

Categories
Greinar

Hvati til sparnaðar

Deila grein

02/12/2013

Hvati til sparnaðar

Elsa Lára ArnardóttirSparnaður er mikilvægur fyrir okkur öll, sama hvort við reynum að spara fyrir hlutum sem okkur langar til að eignast, eða þegar við söfnum okkur fyrir útborgun í stærri hluti, eins og t.d. húsnæði.

Það er staðreynd að undanfarin ár hafa margir átt erfitt með að ná endum saman. Það hefur líka verið mörgum ómögulegt að eiga einhverjar auka krónur til að leggja til hliðar. Hvati til sparnaðar hefur einfaldlega ekki verið fyrir hendi.

Í nóvember lagði ég fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Samkvæmt frumvarpinu eiga þeir sem leggja fé til hliðar vegna húsnæðiskaupa, húsnæðisbygginga eða verulegra endurbóta á húsnæði rétt á sérstökum skattaafslætti. Afslátt upp á 20% af innleggi hvers tekjuárs, en þó aldrei hærri fjárhæð en 200 þúsund krónur. Ef frumvarpið nær í gegn, þá kemur það til viðbótar öðrum opinberum úrræðum, sem eiga að auðvelda fólki að eignast húsnæði, eins og til dæmis vaxtabótakerfið gerir.

Sparnaðurinn verður lagður inn á sérstakan húsnæðissparnaðarreikning, og getur hver maður aðeins átt einn slíkan reikning. Reikningarnir skulu vera bundnir til 10 ára frá þeim tíma er fyrst var lagt inn á reikninginn. Færi reikningseigandi sönnur á kaup íbúðarhúsnæðis til eigin búsetu, eða að hafin sé bygging, eða verulegar endurbætur sem nemi a.m.k. 20% af fasteignamati slíks húsnæðis, skal heildarinneignin vera honum laus til ráðstöfunar að því marki sem nemur kostnaði vegna þessa, enda séu þá full tvö ár liðin frá því að sparnaður hófst.

Lagt er til að reglubundinn sparnaður til húsnæðisöflunar sem stofnað er til fyrir 34 ára aldur í formi samningsbundinna innlána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum veiti reikningseiganda skattafslátt innan vissra marka. Sparnaðurinn verði að lágmarki bundinn í tvö ár ef viðkomandi sýnir með óyggjandi hætti fram á öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota, þar með talið búseturéttar, eða að hafin sé bygging eða verulegar endurbætur slíks húsnæðis, en annars verði heildarinneignin laus til frjálsrar ráðstöfunar að liðnum tíu árum. Tilgangur frumvarpsins er jafnframt sá að hvetja til almenns sparnaðar vegna eigin fjárframlags til öflunar íbúðarhúsnæðis.

Sams konar átak var gert með lögum nr. 49/1985 um húsnæðissparnaðarreikninga sem eru fallin úr gildi, en af þeim er tekið mið í þessu frumvarpi, þó með nokkrum breytingum. Munurinn felst m.a. í því að í þessu frumvarpi eru ekki eins ítarleg ákvæði um form og efni þeirra samninga sem um ræðir. Þess í stað er ráðherra falið að setja nánari reglur bæði um form og efni sem ætla verður að hann geri að höfðu samráði við Samtök fjármálafyrirtækja og aðra hlutaðeigandi aðila. Einnig er lagt til að vaxtatekjur af umræddum reikningum verði undanþegnar fjármagnstekjuskatti.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að börn undir 16 ára aldri sem ekki teljast sjálfstæðir skattaðilar geti notið skattafsláttarins og jafnframt að því sem óráðstafað er verði ráðstafað til framfærenda þess að jöfnu séu framfærendur tveir.

Innstæða á húsnæðissparnaðarreikningi er undanþegin aðför skuldheimtumanna. Við andlát innstæðueiganda rennur innstæðan til dánarbúsins án bindingar.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Categories
Fréttir

Tillögur kynntar í ríkisstjórn

Deila grein

29/11/2013

Tillögur kynntar í ríkisstjórn

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSérfræðingahópur um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána skilaði ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna niðurstöðum sínum á fundi klukkan níu í morgun. Að því búnu kynnti forsætisráðherra tillögurnar í ríkisstjórn. Ríkisstjórnin samþykkti að halda áfram vinnu við undirbúning að framkvæmd tillagnanna, m.a. smíði lagafrumvarpa á grundvelli þeirra.
Útfærsla tillagnanna felur í sér viðamestu efnahagsaðgerð ríkisstjórnarinnar til þessa.
Tillögurnar og aðgerðaráætlunin verða kynntar á sérstökum fréttamannafundi á morgun eftir að þær hafa fengið umfjöllun hjá þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Tillögurnar verða síðan kynntar á vef ráðuneytisins í framhaldinu.
Sérfræðingahópurinn var skipaður 16. ágúst sl. undir formennsku Sigurðar Hannessonar. Hópurinn hefur síðan unnið að tillögum um útfærslu og framkvæmd höfuðstólslækkunar verðtryggðra húsnæðislána. Hópurinn byggði vinnu sína á þeim forsendum sem fram komu í þingsályktun sem samþykkt var í júní sl., þ.e. að leiðrétta skyldi þann forsendubrest sem heimili urðu fyrir vegna verðbólguskots áranna 2007-2010. Skipaðir voru fjórir undirhópar sérfræðinganefndarinnar sem unnið hafa samhliða henni að útfærslu einstakra þátta. Einnig hafa utanaðkomandi sérfræðingar verið fengnir til að vinna afmarkaða hluta t.d. mat á efnahagslegum áhrifum. Samhliða vinnu sérfræðingahópsins hefur verið unnið að gerð frumvarps um höfuðstólsleiðréttingar sem ríkisstjórnin væntir að geta lagt fram á yfirstandandi þingi.

Categories
Fréttir

Ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundi

Deila grein

28/11/2013

Ræða Sigmundar Davíðs á miðstjórnarfundi

Sigmundur Davíð GunnlaugssonSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, ávarpaði miðstjórn flokksins á Selfossi. Hlýða má á ræðu hans hér.
Raeda Sigmundar
Miðstjórnarfundurinn var mjög fjölsóttur og mikill hugur í mönnum. Á fundinum var sérstaklega til umræðu félagsstarf flokksins á komandi starfsári. Kosið var í fastanefndir miðstjórnar þ.e. í fræðslu- og kynningarnefnd og í málefnanefnd.

Categories
Greinar

Hlutdeildarsetning á makríl

Deila grein

25/11/2013

Hlutdeildarsetning á makríl

Sigurður Ingi JóhannssonNokkur umræða hefur verið undanfarna daga vegna fyrirhugaðrar hlutdeildarsetningar á makríl. Mismálefnaleg er hún og ekki alltaf farið rétt með staðreyndir. Ég fagna þeim áhuga sem málið fær, mér finnst margt áhugavert hafa komið fram. Aftur á móti finnst mér líka mjög varhugavert að margir fara af stað með misstaðreyndar fullyrðingar sem haldið er fram af mikilli sannfæringu. Spurt hefur verið í sátt við hverja sé unnið í sjávarútvegi. Og hvort til álita komi að úthluta makríl á uppboðsmarkaði. Svarið er: ég vil að sem flestir verði sáttir, og já ég hef íhugað uppboðsleiðina. En það eru ríki sem hafa prófað að fara þá leið, til dæmis Eistland og Rússland, en bæði fallið frá henni.

Margar hugmyndir hafa skotið upp kollinum um sanngjarna deilingu makrílkvótans og tekjur af ráðstöfuninni. Reynsla okkar og annarra ríkja hefur sýnt að kvótakerfi, með framseljanlegum aflaheimildum á grundvelli veiðireynslu, er mjög hagkvæmt.

Það má benda ágætum fyrrverandi sjávarútvegsráðherrum á þá staðreynd að makrílveiðikerfinu var nánast læst á grundvelli veiðireynslu árið 2010. Nú, þegar sex ára veiðireynsla liggur fyrir og væntingar, sem meðal annars hafa skilað sér í verðmætri uppbyggingu og fjárfestingum í búnaði, er örðugt að stíga fram og segja að veiðireynslan hafi litla eða enga þýðingu. Það hefði á þessum tímapunkti, sem kerfinu var lokað, verið hægt að fara uppboðsleiðina hefðu menn haft til þess pólitískan kjark. Mér finnst líklegt að þessu verði svarað með því að ekki hafi verið til staðar samkomulag um makrílinn við önnur strandríki og því ekki hægt að fara í þá aðgerð. Þau rök halda ekki. Í kolmunna, sem er flökkustofn og stýrt með strandríkjasamningi, var aflahlutdeildum úthlutað til skipa áður en samningur um skiptingu milli strandríkjanna náðist.

Mér finnst aftur á móti spennandi að horfa að einhverju leyti til þess hvernig var skipt árið 2010 og hvort það geti að hluta til verið grunnur að skiptingu heimilda. Mjög gott starf var unnið á síðasta kjörtímabili í að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar með kröfum um vinnslu á makríl til manneldis. Mér finnst einnig áhugavert að horfa til þess við útdeilingu réttindanna. Hugað var að fjölbreytileika og byggðasjónarmiðum í þeim reglum sem í kerfinu hafa gilt. Mér finnst æskilegt að réttindaskiptingin taki mið af því.

Við skulum hafa í huga að hefðu stóru útgerðirnar ekki haldið til makrílveiða á undanförnum árum hefði samningsstaða Íslands í makríldeilunni nánast verið vonlaus. Við skulum einnig hafa í huga hvernig hagkvæmast er fyrir þjóðina að veiðunum sé stýrt. Það er nefnilega svo að makríllinn er ekki raunverulegt verðmæti fyrr en hann er kominn úr sjó. Þjóðin, sem eigandi auðlindarinnar, hlýtur að gera kröfu um hámarksarðsemi af henni. Þessum áhrifum vil ég ná fram með því að leggja til hlutdeildasetningu á makríl. Ég hyggst ekki leggja til að kvótinn verði seldur hæstbjóðanda á uppboði; líklegast yrðu það þá fáir stórir aðilar sem fengju allt. Ég hyggst leggja til að verðmætin verði leigð til þeirra sem þau hafa skapað; verði það niðurstaðan hefði þjóðin leigugjald af veiðum á makríl til framtíðar.

Það er almennt viðurkennt að hámarksarðsemi í kvótakerfum næst með framseljanlegum aflaheimildum. Það er mikilvægt að þeir sem hyggjast nýta þá auðlind sem makríllinn er hafi tækifæri til að nota til þess bestu skipin til að stýra veiðum á hagkvæmasta tíma og treysta markaði. Ég tek undir að huga þarf að öðrum þáttum, eins og hvort einhverjir sækist eftir heimildum, eingöngu til þess að hagnast á þeim með sölu, en ekki nýta þær til verðmætasköpunar. Ég er mjög tilbúinn í umræðu um hvernig við getum komið í veg fyrir slíkt.
Sigurður Ingi Jóhannsson