Categories
Fréttir Greinar

Raunhagkerfið, landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið

Deila grein

28/02/2023

Raunhagkerfið, landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið

Við þingmenn Framsóknar nýttum nýliðna kjördæmaviku vel og fórum í góða fundarferð um landið þar sem við héldum fjölda opinna funda ásamt því að heimsækja fólk og fyrirtæki um allt land. Ég hef ávallt lagt mikið upp úr því, hvort sem það er sem kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn líkt og ég var árin 2018-2022 eða sem kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga, að vera í góðu sambandi við kjósendur og nýta þann tíma sem ég hef til að hitta fólk og heimsækja fyrirtæki. Þetta finnst mér alveg sérstaklega mikilvægt, þó ekki sé nema að sjá og kynnast í raun hvað það er sem brennur á fólki og hvar það er sem gera þarf betur. Í byrjun janúar héldum við Willum Þór, heilbrigðisráðherra, opna fundi í okkar kjördæmi, suðvestur, sem voru góðir og vel sóttir. Þar kom ýmislegt gagnlegt fram og margt sem við gátum og getum tekið með inn í okkar störf. Nú var það hins vegar landsbyggðin sem var heimsótt var 14.-17. febrúar síðastliðinn.

Ólíkir hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis?

Ég hef alltaf sagt að það er mikilvægt fyrir okkur þingmenn á höfuðborgarsvæðinu að heimsækja landsbyggðina. Það er ekki bara mikilvægt, því það er líka hollt að sækja íbúa annarra kjördæma heim og heyra hvernig hjartað slær í samfélögum víða um land og hvað það er sem skiptir fólki raunverulegu máli á hverju svæði fyrir sig. Dagskráin var þétt alla þessa daga og var vel skipulögð af okkar góða starfsfólki í samvinnu við fólk í heimabyggð. Það sem hefði kannski ekki átt að koma mér neitt sérstaklega á óvart, en gerði það þó að nokkur leyti, er hversu samofnir hagsmunir íbúa um land allt raunverulega eru. Mér hefur oft fundist af umræðunni að dæma að þessum hópum, það er að segja íbúa landsbyggðar og höfuðborgar sé oft stillt upp sem einhvers konar andstæðingum þegar kemur að stórum málum, líkt og þegar kemur til dæmis að uppbyggingu samgöngumannvirkja. Í lok dags, er staðan einfaldlega þannig að hagsmunirnir eru um margt mjög líkir og ég varð sérstaklega var við það þegar kemur að umræðum um stór mál líkt og orkumál, samgöngur, málefni eldra fólks, uppbyggingu hjúkrunarheimila, vexti og verðbólgu og svo mætti áfram telja. Þetta eru mál sem snerta okkur öll, sama hvar á landinu við búum, bæði í nútíð og til framtíðar.

Það eru verðmæti í því að halda landinu í blómlegri byggð

Þá var það sérstaklega gaman að sjá þá allt það kröftuga atvinnulíf sem býr á landsbyggðinni og það má með sanni segja að raunhagkerfið búi á landsbyggðinni en þar spilar sjávarútvegurinn auðvitað stórt hlutverk. Enda kemur lang stærsti hluti atvinnutekna í sjávarútvegi, það er veiðum og vinnslu, í hlut einstaklinga á landsbyggðinni. Sjávarútvegurinn er ein mikilvægasta atvinnugrein landsins og honum fylgja mörg afleidd störf, hvort sem það eru hefðbundinn störf í hliðargreinum sjávarútvegs eða í nýsköpun tengdum sjávarútvegi. Þá liggja ótal tækifæri fyrir ungt fólk í nýsköpuninni tengdri greininni, þar sem hefðbundnum störfum hefur fækkað í sjávarútvegi en í þeirra stað hafa skapast eftirsóknarverð hátæknistörf. Þá skiptir laxeldi einnig verulegu máli fyrir þjóðarbúið, mikilvægi þess fer einungis vaxandi á komandi árum enda lax einn besti próteingjafinn fyrir ört fjölgandi mannkyn. Fjöldi starfa fylgir laxeldinu, bæði tengdri greininni sjálfri en þá verða einnig verða til mörg afleidd störf með tilheyrandi tækifærum fyrir sveitarfélög sem mörg hver hafa átt undir höggi að sækja. Allt helst þetta í hendur og styður við uppbyggingu fleiri starfa á hverju svæði fyrir sig. Ungt fólk snýr aftur í byggðirnar og aldurspýramídinn hefur tekið jákvæðum breytingum. Mikil gróska er í atvinnu, ferðaþjónustu og menningarstarfsemi á landsbyggðinni en þar er býr einnig landbúnaðurinn sem er undirstöðu atvinnugrein sem styður við fjölda annarra atvinnugreina eins og t.d. ferðaþjónustu. Við sem búum á höfuðborgarsvæðinu gerum okkur ef til vill ekki alltaf nægilega vel grein fyrir mikilvægi allra þeirra starfa sem eru á landsbyggðinni og skapa raunveruleg verðmæti fyrir land og þjóð.

Ég vil þakka kærlega fyrir góða kjördæmaviku og þeim fjölmörgu sem mættu á opna fundi okkar og þeim fyrirtækjum sem tóku vel á móti okkur.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Categories
Fréttir Greinar

Leið til aukinna lífsgæða fyrir alla

Deila grein

27/02/2023

Leið til aukinna lífsgæða fyrir alla

Heim­ilið er mik­il­væg­asti staður í til­veru okk­ar. Það er at­hvarf okk­ar og mik­il­væg­ur þátt­ur í lífs­ham­ingju. Heim­ili er stór hluti af því að finna til ör­ygg­is.

Að eign­ast heim­ili get­ur verið brekka. Mis­brött eft­ir því hvenær við kom­um fyrst inn á hús­næðismarkaðinn. Það ójafn­vægi sem hef­ur ríkt á ís­lensk­um hús­næðismarkaði bitn­ar mis­jafn­lega á kyn­slóðunum. Sum­ir eru svo heppn­ir að flytja úr for­eldra­hús­um þegar fast­eigna­verð er lágt en aðrir minna lán­sam­ir þegar þensla rík­ir á markaðnum.

Jafn­vægi á hús­næðismarkaði er ekki aðeins mik­il­vægt fyr­ir ein­stak­linga og fjöl­skyld­ur. Þær miklu sveifl­ur sem hafa verið og skap­ast af skorti á fram­boði eitt árið og of­fram­boði annað árið hafa mik­il áhrif á allt hag­kerfið, hafa áhrif á verðbólgu og vexti. Það að ná jafn­vægi er því ekki aðeins mik­il­vægt fyr­ir líf ein­stak­linga og fjöl­skyldna held­ur einnig fyr­ir­tæk­in í land­inu.

Samvinna er lyk­ill að ár­angri

Við gerð lífs­kjara­samn­ing­anna var mik­il áhersla lögð á það í sam­tali verka­lýðsfor­yst­unn­ar, for­ystu sam­taka í at­vinnu­lífi og stjórn­valda að bæta aðstæður á hús­næðismarkaði. Í fram­haldi af því góða sam­tali og sam­starfi hef ég lagt mikla áherslu á að ríkið stígi inn af festu til að fólk geti komið þaki yfir höfuðið, hvort held­ur það er eigið hús­næði eða leigu­hús­næði, og að hús­næðis­kostnaður sé ekki alltof íþyngj­andi og sveifl­urn­ar ekki óbæri­leg­ar.

Stönd­um vörð um lífs­gæði á Íslandi

Í des­em­ber síðastliðnum ákvað rík­is­stjórn­in að grípa til aðgerða í tengsl­um við gerð kjara­samn­inga á al­menn­um vinnu­markaði. Snúa aðgerðirn­ar einkum að stuðningi við lífs­kjör lág- og milli­tekju­fólks með mark­viss­um aðgerðum í hús­næðismál­um og aukn­um stuðningi við barna­fjöl­skyld­ur. Fjölg­un íbúða og upp­bygg­ing í al­menna íbúðakerf­inu með aukn­um stofn­fram­lög­um, end­ur­bæt­ur í hús­næðisstuðningi og bætt rétt­arstaða og hús­næðis­ör­yggi leigj­enda eru meðal þess sem höfuðáhersla er lögð á. Mark­mið þess­ara aðgerða er skýrt og það er að standa vörð um lífs­gæði al­menn­ings á Íslandi.

Hag­kvæm­ar íbúðir á viðráðan­legu verði

Und­an­farna mánuði og vik­ur hef­ur verið unnið að því hörðum hönd­um í innviðaráðuneyt­inu og Hús­næðis- og mann­virkja­stofn­un að und­ir­búa aðgerðir sem miða að því að ná mik­il­vægu jafn­vægi á hús­næðismarkaði. Í fyrra­sum­ar var und­ir­ritaður ramma­samn­ing­ur við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um upp­bygg­ingu hús­næðis. Um ára­mót var síðan und­ir­ritaður samn­ing­ur við Reykja­vík­ur­borg þar sem borg­in skuld­bind­ur sig til að tryggja lóðafram­boð í sam­ræmi við mann­fjölg­un og ríki og borg koma með stofn­fram­lög svo hægt sé að skapa stöðugan og rétt­lát­an leigu­markað. 35% þeirra íbúða sem byggðar verða á næstu árum verða það sem kallað er hag­kvæm­ar íbúðir á viðráðan­legu verði. Þær eru sér­stak­lega ætlaðar þeim sem eru tekju­lægri, ungu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref á íbúðamarkaði og fólki með fötl­un.

Stuðning­ur við fyrstu kaup

Þegar horft er til þess að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði þurfa stjórn­völd að hafa fjöl­breytt tól í verk­færa­k­istu sinni. Sveifl­urn­ar hafa ekki síst áhrif á þá sem eru að koma nýir inn á hús­næðismarkað og því er nauðsyn­legt að styðja sér­stak­lega við þá. Hlut­deild­ar­lán eru mik­il­væg í því til­liti. Þar gefst ungu fólki og tekju­lágu kost­ur á að ríkið eign­ist hlut í fyrstu eign og brúi þannig bilið svo fólk geti komið þaki yfir höfuðið. Nú stend­ur yfir end­ur­skoðun á regl­um er varða hlut­deild­ar­lán með það að mark­miði að aðstoða sér­stak­lega ungt fólk við að flytja úr for­eldra­hús­um eða leigu­hús­næði í eigið.

Mik­il­væg­asta kjara­bót­in

Það mik­il­væga sam­tal sem stjórn­völd hafa átt við for­ystu verka­lýðsfé­lag­anna, at­vinnu­lífið og sveit­ar­fé­lög­in er mik­il­væg­ur grunn­ur fyr­ir þá vinnu sem hef­ur átt sér stað síðustu mánuðina og mun bera ávöxt á næstu miss­er­um. Öll erum við sam­mála um að mik­il­væg­asta kjara­bót­in fyr­ir alla sé að halda hús­næðis­kostnaði í bönd­um. Jafn­vægi á hús­næðismarkaði og lág­ir vext­ir eru tak­markið og því mun­um við ná ef við stönd­um sam­an.

Sigurður Ingi Jóhansson, innviðaráðherra og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Þjóðminjasafn í 160 ár

Deila grein

26/02/2023

Þjóðminjasafn í 160 ár

Um helg­ina verður haldið upp á 160 ára af­mæli Þjóðminja­safns Íslands en safnið telst stofnað 24. fe­brú­ar 1863 þegar Jón Árna­son, þá stifts­bóka­vörður, færði stifts­yf­ir­völd­um bréf frá Helga Sig­urðssyni á Jörfa í Kol­beinsstaðahreppi þess efn­is að hann vilji gefa Íslandi 15 gripi með því for­orði að þeir marki upp­hafið að safni ís­lenskra forn­minja. Á þess­um tíma hafði varðveisla á ís­lensk­um grip­um einkum farið fram í dönsk­um söfn­um, því var vissu­lega um tíma­mót að ræða.

Í fyll­ingu tím­ans hef­ur safnið vaxið með þjóðinni og tekið breyt­ing­um. Þannig var safnið til að mynda yf­ir­leitt nefnt Forn­gripa­safnið fram til 1911 þegar það hlaut lög­form­lega nafnið Þjóðminja­safn Íslands, sem það hef­ur heitið all­ar göt­ur síðan. Safnið hef­ur komið víða við og verið til húsa á ýms­um stöðum, má þar nefna Dóm­kirkj­una, gamla Tugt­húsið við Skóla­vörðustíg, Alþing­is­húsið og Lands­banka­húsið við Aust­ur­stræti þar til safnið fékk aðstöðu á lofti Lands­bóka­safns­ins við Hverf­is­götu árið 1908. Þar átti það eft­ir að vera til húsa í rúm 40 ár. Það var svo við lýðveld­is­stofn­un árið 1944 að Alþingi Íslend­inga ákvað að reisa Þjóðminja­safn­inu eigið hús við Suður­götu í Reykja­vík og flutti safnið þangað árið 1950.

Nýja hús­næðið markaði vatna­skil í starf­semi safns­ins en með því gafst kost­ur á að út­víka starf­semi þess. Fram að þeim tíma­punkti sam­an­stóð safn­kost­ur­inn mest­megn­is af jarðfundn­um forn­grip­um, kirkju­grip­um og list­mun­um frá fyrri öld­um. Eft­ir flutn­ing­ana á Suður­göt­um gafst safn­inu kost­ur á að hefja einnig söfn­un á al­menn­um nytja­hlut­um sem ekki voru list­grip­ir, svo sem verk­fær­um og búsáhöld­um af ýmsu tagi sem end­ur­spegluðu dag­legt líf fólks hér á landi og tækni­m­inj­um síðar meir.

Árið 2004 var svo ný­upp­gert Þjóðminja­safn opnað á ný eft­ir gagn­ger­ar end­ur­bæt­ur á hús­næði safns­ins við Suður­götu, hús­næðið eins og við þekkj­um það í dag.

Þjóðminja­safnið gegn­ir lyk­il­hlut­verki sem eitt þriggja höfuðsafna þjóðar­inn­ar með því að ann­ast söfn­un, skrá­setn­ingu, varðveislu og rann­sókn­ir á menn­ing­ar­arfi þjóðar­inn­ar ásamt því að styðja við byggðasöfn og önn­ur minja­söfn. Á sama tíma hef­ur safnið aukið og miðlað þekk­ingu á menn­ing­ar­arfi og sögu þjóðar­inn­ar og gert hana aðgengi­legri fyr­ir gesti og gang­andi með áhuga­verðum hætti. Í dag teyg­ir starf­semi safns­ins sig um allt land, meðal ann­ars með Húsa­safni Þjóðminja­safns Íslands sem veit­ir inn­sýn í húsa­kost þjóðar­inn­ar á seinni öld­um og þróun húsa­gerðar. Það er eng­inn vafi í huga mér að við vær­um fá­tæk­ari sem þjóð ef ekki hefði verið fyr­ir fram­sýni Helga og fleiri um að hefja söfn­un forn­gripa fyr­ir 160 árum. Ég hvet því sem flesta til þess að leggja leið sína í Þjóðminja­safnið um helg­ina þar sem þess­um merk­is­áfanga verður fagnað með fjöl­breyttri dag­skrá fyr­ir alla fjöl­skyld­una.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Anastasia og Borysko

Deila grein

24/02/2023

Anastasia og Borysko

Ár er liðið í dag síðan veru­leik­inn breytt­ist hjá systkin­un­um An­astasiu, átta ára og Bor­ysko, tíu ára. Fyr­ir rétt rúmu ári sóttu þau grunn­skól­ann sinn í Kænug­arði, áhyggju­laus um framtíðina, eins og börn á þess­um aldri eiga skilið. Það mesta sem var að plaga þau var að An­astasia var nán­ast búin að ná full­um tök­um á Für Elise og pí­anó­tím­inn var næsta dag og Bor­ysko var ekki sátt­ur við sitt lið í ensku deild­inni. Hann batt von­ir við leik helgar­inn­ar sem fram und­an var. Hinn 24. fe­brú­ar breytt­ist líf fjöl­skyldu þeirra að ei­lífu. Móðir þeirra flúði með þau en faðir þeirra berst nú í stríðinu.

Von­brigði í Kreml

Árás­ar­stríð Vla­dimírs Pútíns í Úkraínu átti að sýna heim­in­um sterka stöðu her­veld­is Rúss­lands og hversu öfl­ugt hag­kerfið væri, þrátt fyr­ir fall Sov­ét­ríkj­anna árið 1991. Liður í að styrkja rúss­neska heimsveldið var að ná aft­ur Úkraínu. Ræður Pútíns síðustu ár hafa ein­kennst af þess­um heimsveld­is­draum­um hans og gagn­rýni á útþenslu­stefnu Banda­ríkj­anna. Þróun stríðsins í Úkraínu hef­ur verið niður­lægj­andi fyr­ir Pútín að sama skapi og ljóst að Kreml hafði ekki bú­ist við svona kröft­ug­um stuðningi vest­rænna þjóða. All­ir helstu sér­fræðing­ar töldu að Rúss­ar yrðu komn­ir inn í Kænug­arð á þrem­ur dög­um. Það varð hins veg­ar ekki raun­in og segja má að Rúss­ar hafi mis­reiknað sig hrap­al­lega miðað við fyrstu áform þeirra. Kröft­ug mót­spyrna Úkraínu­manna neyddi Rússa á end­an­um til að hörfa frá stór­um landsvæðum en stríðið geis­ar nú í suður- og suðaust­ur­hluta lands­ins. Volodimír Selenskí for­seti Úkraínu ít­rekaði, á ör­ygg­is­ráðstefn­unni í München í síðustu viku, að það væri eng­inn ann­ar val­kost­ur í boði en fullnaðarsig­ur.

Stuðning­ur við Úkraínu mik­il­væg­ur gild­um okk­ar

Vegna inn­rás­ar­inn­ar blas­ir nýr veru­leiki við Evr­ópuþjóðum í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um. Mála­flokk­ur­inn hafði fengið lítið vægi í op­in­berri umræðu og sam­drátt­ur í fram­lög­um marga Evr­ópu­ríkja til varn­ar­mála hafði verið tals­verður. Að sama skapi hafa lyk­il­ríki verið háð Rússlandi um orku­öfl­un. Viðbrögð alþjóðasam­fé­lags­ins hafa verið for­dæma­laus og stuðning­ur við Úkraínu veru­leg­ur. Vel­vild og dygg­ur stuðning­ur banda­rískra stjórn­valda skipta höfuðmáli um gang stríðsins. Evr­ópa er enn og aft­ur al­gjör­lega háð stefnu Banda­ríkj­anna í varn­ar­mál­um. Varn­ar­mála­yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um end­ur­meta her­gögn og birgðir og gera ráð fyr­ir að út­gjöld til varn­ar­mála auk­ist vegna þess kostnaðar sem fylg­ir land­hernaði.

Vest­ur­lönd voru ít­rekað vöruð við þess­ari þróun

Vest­ur­lönd voru margoft vöruð við stjórn­ar­hátt­um Pútíns. Eft­ir að Rúss­ar yf­ir­tóku Krímskaga var gripið til aðgerða. Því miður töldu Vest­ur­lönd að efna­hags­refsiaðgerðirn­ar myndu duga til að koma í veg fyr­ir frek­ari átök, en þær voru veik­ar og dugðu skammt. Bók blaðakon­unn­ar Önnu Polit­kovskayu um Rúss­land Pútíns sem var gef­in út árið 2004, fjall­ar mjög ít­ar­lega um ein­ræðis­stjórn­hætti Pútíns. Bók Önnu fékk verðskuldaða at­hygli en í kjöl­farið var Anna myrt 7. októ­ber, 2006 á af­mæl­is­degi Pútíns. Hann fékk til­kynn­ing­una um morðið þegar þau Ang­ela Merkel, kansl­ari Þýska­lands, funduðu í Kreml. Haft hef­ur verið eft­ir Merkel að Pút­in hafi vilj­andi látið hvísla þessu að sér í þeim til­gangi að ögra henni! Fleira má nefna í þessu sam­hengi, eins og bar­áttu fjár­fest­is­ins Bills Browders fyr­ir rétt­læti vegna Ser­geis Magnit­skys, en sá síðar­nefndi var ná­inn sam­starfsmaður Browders og lést í fang­elsi í Rússlandi. Í fram­hald­inu samþykkti banda­ríska þingið Magnit­sky-lög­in, en þau fela í sér fjár­hags­leg­ar refsiaðgerðir gagn­vart rúss­nesk­um viðskipta­jöfr­um. Mörg fleiri dæmi má nefna, þar sem Vest­ur­lönd voru vöruð við þeirri þróun sem átti sér stað í Rússlandi Pútíns.

Þjóðarör­ygg­is­stefna Íslands bygg­ist á traust­um stoðum

Ísland hef­ur tekið þátt af full­um þunga í aðgerðum banda­lags­ríkj­anna og stutt mynd­ar­lega við Úkraínu með ýms­um móti, meðal ann­ars með mót­töku flótta­fólks sem hingað hef­ur leitað í ör­uggt skjól. Í amstri hvers­dags­ins vill það kannski gleym­ast að sú sam­fé­lags­gerð sem við búum við, byggð á frelsi, lýðræði og mann­rétt­ind­um, er ekki sjálf­sögð. Inn­rás Rússa er grimmi­leg áminn­ing um það. Fram­sýn­ar ákv­arðanir ís­lenskra stjórn­mála­manna, um að taka sér stöðu með lýðræðis­ríkj­um með því að gera Ísland að stofn­ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins árið 1949 og und­ir­rita tví­hliða varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in 1951, voru heilla­drjúg skref fyr­ir ís­lenska hags­muni. Þau mynda enn hryggj­ar­stykkið í ut­an­rík­is­stefnu okk­ar. Íslend­ing­ar eiga áfram að taka virk­an þátt í varn­ar- og ör­ygg­is­sam­starfi með banda­lagsþjóðum sín­um og standa vörð um þau gildi sem við reis­um sam­fé­lag okk­ar á. Þjóðarör­ygg­is­stefna Íslands frá ár­inu 2016 hef­ur þjónað okk­ur vel. Megin­áhersl­an er sem fyrr á aðild okk­ar að Atlants­hafs­banda­lag­inu, tví­hliða varn­ar­samn­ing við Banda­rík­in ásamt aðild okk­ar að Sam­einuðu þjóðunum og nánu sam­starfi Norður­land­anna. Land­fræðileg staða Íslands held­ur áfram að skipta sköp­um í Norður-Atlants­haf­inu og við eig­um að halda áfram að styrkja þjóðarör­ygg­is­stefn­una.

Loka­orð

Þúsund­ir barna á borð við An­astasiu og Bor­ysko hafa leitað skjóls um all­an heim. Við eig­um að vera stolt af því að hafa veitt yfir 2500 kon­um og börn­um skjól frá þessu grimmi­lega árás­ar­stríði Pútíns. Við eig­um að halda áfram að leggja okk­ar af mörk­um til að lina þján­ing­ar þeirra sem eru á flótta. Gera má ráð fyr­ir að stríðið verði lang­vinnt og það reyni á þraut­seigju Vest­ur­landa. Höf­um ætíð í heiðri frelsi og lýðræði en stríðið snýst um þau gildi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Dýralæknar á Íslandi

Deila grein

24/02/2023

Dýralæknar á Íslandi

Dýralæknar gegna mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi við umönnun dýra. Margar áskoranir hafa verið til staðar þar sem erfiðlega hefur gengið að manna dýralæknaþjónustu en síðustu ár hefur hörgull á dýralæknum hér á landi verið mikið í umræðunni. Tengist sú umræða sérstaklega þeirri miklu umræðu um fæðuöryggi þjóðarinnar. Skortur á dýralæknum getur m.a. haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir aðgengi bænda og almennings að dýralæknaþjónustu sem gætu haft alvarleg og óafturkræf áhrif á heilsu og velferð dýra, auk fjárhagslegs tjóns fyrir bændur. Að þessu tilefni hef ég nú lagt fram tvær þingsályktunartillögur sem snúa að mönnun og starfsaðstæðum dýralækna hér á landi.

Skortur á dýralæknum og ívilnanir

Fyrri tillagan snýr að því að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í samráði við matvælaráðherra og innviðaráðherra, að vinna skýrslu með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Byggðastofnunar um sérstakar tímabundnar ívilnanir um endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi. En í 27. gr. laga um Menntasjóð námsmanna nr. 60/2020, er að finna heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er ætluð til þess að gefa ráðherra tækifæri til þess að bregðast við ástandi þar sem skortur er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur á fólki með tiltekna menntun með því að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til þess að sækja sér téða menntun, eða til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Til þess að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þurfa að liggja fyrir upplýsingar um viðvarandi skort í ákveðinni starfsstétt eða að hann sé fyrirsjáanlegur. Þar með er gert ráð fyrir að undirbúin sé skýrsla sem byggi meðal annars á framangreindum upplýsingum; unnin af stjórnvöldum í samráði við hlutaðeigandi atvinnurekendur eða samtök atvinnurekenda. Tilgangur skýrslunnar er að varpa ljósi á aðstæður og greina þörf á viðbrögðum við skorti eða fyrirsjáanlegum skorti innan starfsstétta dýralækna.

Þá er í 28. gr. sömu laga að finna heimild til ráðherra til að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána hjá lánþegum búsettum á svæðum skilgreindum í samráði við Byggðastofnun, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Heimildin er af sama meiði og að framan hefur verið rakinn, þ.e. til að gefa ráðherra tækifæri til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á sérmenntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Má rekja fyrirmyndina til Noregs þar sem kennarar sem starfa í hinum dreifðari byggðum, Finnmörk eða Norður-Tromsfylki, eiga möguleika á að fá afskrifaðan hluta af námslánum sínum ef þeir starfa sem kennarar í 50% starfi samfellt í a.m.k. tólf mánuði. Til þess að ráðherra geti ákveðið sérstaka tímabundna ívilnun þarf að liggja fyrir tillaga frá sveitarfélagi eða sveitarfélögum um þörf á menntuðu fólki í byggð sinni. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að undirbúin sé skýrsla unnin af Byggðastofnun í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Markmið og efni tillögunnar snýr að því að gerð verði skýrsla sem tiltekur upplýsingar um það hvaða áhrif skortur á dýralæknum muni hafa á íslenskan landbúnað og atvinnuhætti í íslenskum landbúnaði á næstunni sem og til framtíðar. Þá er markmiðið jafnframt að varpa ljósi á aðstæður í hinum dreifðari byggðum þar sem skortur er á dýralæknum og stór eftirlitssvæði eru á höndum fárra. Full þörf er á að löggjafinn gæti þess að ívilnandi aðgerðir stjórnvalda nýtist öllum á grundvelli sjónarmiða um jafnræði og að þær tali beint inn í byggða- og atvinnustefnu út um allt land.

Vaktakerfi dýralækna

Seinni tillagan fjallar um stofnun starfshóps um heildarendurskoðun á vaktakerfi dýralækna en í tillögunni er lagt til að fela matvælaráðherra að setja af stað vinnu til að greina þjónustu dýralækna hér á landi. Á meðal dýralækna er almenn óánægja með vaktafyrirkomulag og bakvaktaálag starfsstéttarinnar og hefur svo verið um allnokkra hríð. Á það við um allt land og einskorðast ekki við eitt svæði eða dreifðari byggðir. Stórdýravaktin, sem m.a. snertir á fæðuöryggi þjóðarinnar og eins velferð dýra, hefur verið rekin með miklum halla undanfarin ár þar sem greiðslur úr vaktasjóðum duga skammt. Þetta hefur gert það verkum að ekki hefur tekist að manna t.a.m. höfuðborgarsvæðið, og leita þarf til umdæma í næsta nágrenni til að manna bakvaktir. Í hinum dreifðari byggðum eru einstaka svæði einungis með einn dýralækni á vakt allt árið um kring með því gríðarlega bakvaktarálagi sem því fylgir. Sum staðar á landinu eru eftirlitssvæðin svo stór að einn dýralæknir getur með engu móti sinnt starfi sínu. Skipulag vaktamála er á ábyrgð Matvælastofnunar. Það er hins vegar ljóst að stofnuninni hefur ekki tekist að uppfylla hlutverk sitt í að skipuleggja bakvaktir í samráði við dýralækna á öllum svæðum, og þar með tryggja nauðsynlega grunnþjónustu um land allt. Dýralæknar eru meðvitaðir um skyldur sínar þegar kemur að því að hjálpa dýrum í neyð. Hins vegar séu tilfellin of mörg þar sem dýralæknar eru settir í vonlausa stöðu gagnvart þeim starfsskyldum sem á herðar þeirra eru lagðar. Nágrannaþjóðir okkar í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi hafa öll sett af stað umfangsmikla vinnu við að greina vandann og þær áskoranir sem fylgja því að færri dýralæknar fást í störf úti á landi, og um leið færri dýralæknar sem gefi kost á sér í bakvaktaþjónustu. Það er því afar mikilvægt að farið verði í þá vinnu og snýr markmið og efni tillögunnar þar með að því að hrundið verði af stað heildarendurskoðun á dýralæknaþjónustu hér á landi.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. febrúar 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Mikil­vægi strand­svæðis­skipu­lags

Deila grein

23/02/2023

Mikil­vægi strand­svæðis­skipu­lags

Strax í árdaga sjókvíeldis fyrir vestan og austan fóru sveitarfélög á svæðinu að kalla eftir að það yrði gert strandsvæðisskipulag fyrir þau svæði sem þá þegar var búið að ákveða af stjórnvöldum að hentuðu fyrir eldið. Hafist var handa við að loka stærsta hluta strandlengjunnar þannig eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, á Vestfjörðum og í Eyjafirði.

Sveitarfélögin kölluðu sterkt eftir aðkomu að skipulagi þeirra að hvernig svæðum yrðu úthlutað. Fjórðungssamband Vestfirðinga sendi t.d. inn umsögn um fiskeldislögin sem voru í smíðum árið 2008 og bentu á að aðgengi að strandsvæðum væri auðlind til framtíðar litið. Aðgengi sveitarfélaga á Vestfjörðum að skipulagi nýtingar þeirra væri því mikilvægt enda Vestfirðir með 1/3 af strandlengju Íslands. Afstaðan var skýr að það ætti að líta á aðkomu sveitarfélaga að skipulagi strandsvæða á sama hátt og sveitarfélög komi að skipulagi nýtingu annarra auðlinda, s.s. jarðhita og vatnsorku.

Á þetta var ekki fallist. Þó kom fram í meirihlutaáliti atvinnunefndar það sjónarmið og lögð til sú breyting á frumvarpinu að leitað yrði umsagnar viðkomandi sveitarfélags við svæðaskiptingu fiskeldis, við staðbundið bann við starfsemi og við veitingu rekstrarleyfis. Í framhaldi reyndu sveitarfélögin ítrekað að koma skoðununum sínum á framfæri næstu árin við þær breytingar sem voru gerðar á fiskeldislögum og öðrum lögum sem snéru að auðlindanýtingu fjarða á svæðinu.

Lög um skipulag haf-og strandsvæða

Sveitarfélögum var loks 2018 hleypt að borðinu þegar lög um skipulag haf- og strandsvæða voru samþykkt í þriðju atrennu. Fjórðungssamband Vestfirðinga hafði þá í rúman áratug bent ítrekað á mikilvægi þess fyrir svæðið. Markmið laganna voru m.a. að nýting og vernd auðlinda haf- og strandsvæða yrði í samræmi við skipulag sem hefði efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi að leiðarljósi.

Það var svo á árinu 2019 sem svæðisráð voru endanlega skipuð og hafa þegar skilað tillögu inn til innviðaráðuneytisins sem staðfestir strandsvæðisskipulagið.

Skipulagið unnið í opnu og aðgengilegu ferli

Strandsvæðisskipulagið er unnið undir forystu og stjórn Skipulagsstofnunar með aðkomu fulltrúa sveitastjórnar á svæðinu. Svæðisráð um strandsvæðaskipulag bera svo ábyrgð á gerð þess. Skipulagið er því unnið í samvinnu ríkis og sveitarfélaga og leggur grunn að leyfisveitingum fyrir framkvæmdum og annarri starfsemi á því svæði sem skipulagið nær til og í vinnunni var miðað við að hún væri opin og aðgengileg bæði almennings og hagsmunaaðila. Aðkoma heimamanna er nauðsynleg eins og í annarri skipulagsvinnu fyrir svæðið.

Strandsvæðisskipulagið er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði í fjörðum og flóum utan netlaga þar sem sett er fram stefna um framtíðarnýtingu og vernd svæðisins. Það getur falið í sér nýtingu svæða til eldis nytjastofna, efnistöku eða ferðaþjónustu, verndun eða samgönguleiða. Við mótun strandsvæðisskipulagsins var umhverfismati beitt til að tryggja að skipulagið stuðli að sjálfbærri þróun og dragi þannig úr neikvæðum áhrifum þess á umhverfið og því fléttað inn í vinnu svæðisráðs. Afurðin er fædd og bíður blessunar innviðaráðuneytisins.

Skipulagið unnið af þekkingu

Þegar tillögurnar lágu fyrir bárust fjölmargar umsagnir líkt og gengur og gerist skipulagsferli, enda verið að skipuleggja þessi svæði í fyrsta sinni. Það er gott að sjá slíkan áhuga og einnig hægt að segja að kynning á tillögunum hafi gengið vel. Það verður ekki annað séð en að skipulagið hafi verið unnið af þekkingu og með ráðgjöf frá til þess bærum aðilum bæði með þekkingu heimamanna og stofnunum sem eru með sérfræðiþekkingu á lífríkinu og skipulagsgerð.

Það er von mín að staðfesting fáist innan tímaramma á mikilvægu skipulagi strandsvæðisskipulags og að í kjölfarið verið fleiri strandsvæði skipulögð hringinn í kringum landið.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. febrúar 2023.

Categories
Fréttir

„Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll!“

Deila grein

22/02/2023

„Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll!“

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, fór yfir komandi viðræður um endurskoðun búvörusamninga í störfum þingsins. Vildi hún brýna matvælaráðherra til að hlusta á þarfir og kröfur bænda. Íslenskir neytendur vilja „búa við fæðuöryggi þar sem framleiðsluhvatar eru miklir og við líðum aldrei skort á innlendum matvælum. Við sjáum augljósa þörf fyrir stuðning frá ríkinu bæði í formi framlaga og tollverndar. Öll umræða um að breyta kerfinu og taka út greiðslur sem eru beintengdar framleiðslu er aðeins til þess fallin að veikja stoðir landbúnaðarins og þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt og sauðfjárrækt.“

„Óframleiðslutengdur stuðningur eða grænar greiðslur tryggja ekki næga framleiðslu með skilvirkum hætti. Með minni stuðningi komum við í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun í greininni. Öflugur stuðningur og skilvirkt kerfi tryggir grundvöll til upphafs og áframhalds matvælaframleiðslu. Við sjáum að fjárfestingin í búskap er töluverð. Vextir eru kringum 10% af jarðalánum, sem er virkilega mikið umhugsunarefni. Hvernig ætlumst við til þess að tryggja endurnýjun á þessum forsendum?“

„Tryggja þarf öfluga tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins, sem er bæði hagsmunamál bænda og neytenda. Öll umræða um að það hækki verð til neytenda er á villigötum og markmiðið á að vera að tryggja framleiðslu afurða. Þá eflum við ekki landbúnað með því að draga úr stuðningi við eina grein í þágu annarrar. Við Íslendingar stærum okkur af því að við búum við gæði og heilnæmi í matvælunum okkar, það byggir jú á íslenskum landbúnaði. Hættan er að þau gæði hverfi ef landbúnaðurinn fær ekki þá virðingu og þann stuðning sem hann á skilið. — Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar í heild sinni á Alþingi:

„Í dag hófst búgreinaþing og því er vert að ræða komandi endurskoðun búvörusamninga. Nauðsynlegt er að samningar séu bændum og matvælaframleiðslu landsins til hagsbóta og því vil ég brýna hæstv. matvælaráðherra í þeim efnum. Hlusta þarf á þarfir og kröfur bænda. Það skiptir ekki bara máli fyrir þá heldur einnig fyrir samfélagið allt. Við viljum búa við fæðuöryggi þar sem framleiðsluhvatar eru miklir og við líðum aldrei skort á innlendum matvælum. Við sjáum augljósa þörf fyrir stuðning frá ríkinu bæði í formi framlaga og tollverndar. Öll umræða um að breyta kerfinu og taka út greiðslur sem eru beintengdar framleiðslu er aðeins til þess fallin að veikja stoðir landbúnaðarins og þá sérstaklega þegar kemur að nautgriparækt og sauðfjárrækt. Óframleiðslutengdur stuðningur eða grænar greiðslur tryggja ekki næga framleiðslu með skilvirkum hætti. Með minni stuðningi komum við í veg fyrir nauðsynlega endurnýjun í greininni. Öflugur stuðningur og skilvirkt kerfi tryggir grundvöll til upphafs og áframhalds matvælaframleiðslu. Við sjáum að fjárfestingin í búskap er töluverð. Vextir eru kringum 10% af jarðalánum, sem er virkilega mikið umhugsunarefni. Hvernig ætlumst við til þess að tryggja endurnýjun á þessum forsendum? Tryggja þarf öfluga tollvernd og endurskoðun verðlagsgrunnsins, sem er bæði hagsmunamál bænda og neytenda. Öll umræða um að það hækki verð til neytenda er á villigötum og markmiðið á að vera að tryggja framleiðslu afurða. Þá eflum við ekki landbúnað með því að draga úr stuðningi við eina grein í þágu annarrar. Við Íslendingar stærum okkur af því að við búum við gæði og heilnæmi í matvælunum okkar, það byggir jú á íslenskum landbúnaði. Hættan er að þau gæði hverfi ef landbúnaðurinn fær ekki þá virðingu og þann stuðning sem hann á skilið. — Gerum þetta almennilega í eitt skipti fyrir öll.“

Categories
Fréttir

Er nám bara fyrir þá ríku?

Deila grein

22/02/2023

Er nám bara fyrir þá ríku?

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, fór yfir aðstöðumun þeirra sem fara í atvinnuflugmannsnám hér á landi og þeirra sem fara í skipstjórnarnám, það nám er inni í hinu hefðbundna menntakerfi og láns hæft að fullu. Er ekki vilji til að tryggja aðgengi menntunar fyrir sem flesta, óháð efnahag og bakgrunni, hér á landi spurði Jóhann Friðrik í störfum þingsins.

„Atvinnuflugmannsnám hér á landi hefur verið kennt um árabil enda eru skilyrði hér til flugnáms með því besta sem gerist í heiminum. Allir eru sammála um mikilvægi þess að námið sé til staðar hérlendis. Æfingasvæði hér á landi er opið, veður fjölbreytt og innviðir góðir, þótt ákjósanlegra væri að hér væri sérstakur æfingaflugvöllur fyrir flugnám. Flugnám er mjög krefjandi enda ábyrgðin mikil. Það er því ekki á það bætandi fyrir nemendur að Menntasjóður skuli aðeins veita námslán fyrir sirka einum fjórða af heildarkostnaði lánsins. Mér skilst að það kosti um 14,5 millj. kr. að klára atvinnuflugmannsnám hér á landi í dag. Fyrirkomulagið er t.d. annað í Noregi og raunar er mjög sérstakt að ef nemandi ákveður að fara í skipstjórnarnám hér á landi er námið inni í hinu hefðbundna menntakerfi, en ef nemandinn vill fara í flugnám þá er það ekki á færi nema þeirra sem hafa verulega sterkt bakland,“ sagði Jóhann Friðrik.

„Laun flugmanna eru mjög góð og því ættu endurheimtur af námslánum að vera með því besta sem gerist. Því er við að bæta að í flugstefnu fyrir Ísland, sem samþykkt hefur verið á Alþingi, er lögð þung áhersla á það að flugnám verði fært inn í hið hefðbundna menntakerfi.

Ég vil því brýna stjórnvöld og hvetja þau til dáða að klára þetta mikilvæga mál. Enginn þarf að velkjast í vafa um mikilvægi flugs á Íslandi og þar eigum við að vera í forystu,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.


Ræða Jóhanns Friðriks í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Hér á landi viljum við tryggja aðgengi menntunar fyrir sem flesta, óháð efnahag og bakgrunni. En í sumum tilfellum virðist nám vera bara fyrir þá ríku. Atvinnuflugmannsnám hér á landi hefur verið kennt um árabil enda eru skilyrði hér til flugnáms með því besta sem gerist í heiminum. Allir eru sammála um mikilvægi þess að námið sé til staðar hérlendis. Æfingasvæði hér á landi er opið, veður fjölbreytt og innviðir góðir, þótt ákjósanlegra væri að hér væri sérstakur æfingaflugvöllur fyrir flugnám. Flugnám er mjög krefjandi enda ábyrgðin mikil. Það er því ekki á það bætandi fyrir nemendur að Menntasjóður skuli aðeins veita námslán fyrir sirka einum fjórða af heildarkostnaði lánsins. Mér skilst að það kosti um 14,5 millj. kr. að klára atvinnuflugmannsnám hér á landi í dag. Fyrirkomulagið er t.d. annað í Noregi og raunar er mjög sérstakt að ef nemandi ákveður að fara í skipstjórnarnám hér á landi er námið inni í hinu hefðbundna menntakerfi, en ef nemandinn vill fara í flugnám þá er það ekki á færi nema þeirra sem hafa verulega sterkt bakland. Laun flugmanna eru mjög góð og því ættu endurheimtur af námslánum að vera með því besta sem gerist. Því er við að bæta að í flugstefnu fyrir Ísland, sem samþykkt hefur verið á Alþingi, er lögð þung áhersla á það að flugnám verði fært inn í hið hefðbundna menntakerfi.

Ég vil því brýna stjórnvöld og hvetja þau til dáða að klára þetta mikilvæga mál. Enginn þarf að velkjast í vafa um mikilvægi flugs á Íslandi og þar eigum við að vera í forystu.“

Categories
Fréttir

Hvers vegna er skammtíma hvati til að fækka notendum?

Deila grein

22/02/2023

Hvers vegna er skammtíma hvati til að fækka notendum?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls á jöfnun raforkukostnaðar í störfum þingsins. Eins og allir vita eru í landinu eru tvær gjaldskrár vegna dreifingar rafmagns, dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Staðreyndin er sú að íbúar og og fyrirtæki í dreifbýli borga umtalsvert meira fyrir dreifingu raforku en þéttbýlisbúar.

„Ríkisstjórnin hefur gert vel í að jafna dreifikostnaðinn undanfarin misseri en samt sem áður er innbyggð óvissa í fyrirkomulagið eins og það er. Bæði almenna jöfnunin og samningar við garðyrkjubændur byggja á skiptingu á ákveðinni fjárveitingu milli þeirra sem njóta jöfnunarinnar. Þannig er enginn hvati til að fjölga notendum í dreifbýli – má raunar segja að þverrt á móti sé skammtíma hvati til að fækka notendum,“ sagði Líneik Anna.

Líneik Anna bendir á að það yrði allra hagur að horfa á heildarmyndina og til lengri tíma væri það hagur allra að fjölga notendum í dreifbýlinu. Kostnaðurinn myndi lækka vegna dreifingar á fleiri notendur og um leið þörfina fyrir jöfnunargreiðslur úr ríkissjóði.

„Stjórnvöld verða því að halda áfram að leita betri og fyrirsjáanlegri lausna við jöfnun dreifikostnaðar raforku, hvort sem er til almennra notenda eða í stuðningi við orkufreka framleiðslu eins og garðyrkju. Í því sambandi er rétt að rifja upp að samkvæmt stjórnarsáttmála er ætlunin að auka grænmetisframleiðslu með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar,“ sagði Líneik Anna.

„Dreifikerfi í jörð, þrífösun rafmagns og fyrirsjáanleiki í dreifikostnaðar raforku eru brýnustu hagsmunamálin fyrir fyrirtækin sem staðsett eru í dreifbýlinu jafnt fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og á öðrum sviðum.

Nýsköpun, orkuskipti, nýliðun og öll framtíð dreifðra byggða er háð því að orka fáist, hún sé afhent á öruggan hátt og á samkeppnishæfu verði,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Að lokinni vel heppnaðri kjördæmaviku er kominn tími á eina af mínum reglulegu ræðum um jöfnun raforkukostnaðar.
Í landinu eru tvær gjaldskrár vegna dreifingar rafmagns, dreifbýlisverð og þéttbýlisverð. Íbúar og fyrirtæki í dreifbýli borga umtalsvert meira fyrir dreifingu raforku en þéttbýlisbúar.

Ríkisstjórnin hefur gert vel í að jafna dreifikostnaðinn undanfarin misseri en samt sem áður er innbyggð óvissa í fyrirkomulagið eins og það er. Bæði almenna jöfnunin og samningar við garðyrkjubændur byggja á skiptingu á ákveðinni fjárveitingu milli þeirra sem njóta jöfnunarinnar. Þannig er enginn hvati til að fjölga notendum í dreifbýli – má raunar segja að þverrt á móti sé skammtíma hvati til að fækka notendum. Ef aftur á móti væri litið á heildarmyndina og til langtíma sjónarmiða væri það allra hagur að fjölga notendum í dreifbýli því þá skiptist dreifikostnaðurinn á fleiri notendur, verðið gæti lækkað og um leið þörfin fyrir jöfnunargreiðslur úr ríkissjóði.
Stjórnvöld verða því að halda áfram að leita betri og fyrirsjáanlegri lausna við jöfnun dreifikostnaðar raforku, hvort sem er til almennra notenda eða í stuðningi við orkufreka framleiðslu eins og garðyrkju. Í því sambandi er rétt að rifja upp að samkvæmt stjórnarsáttmála er ætlunin að auka grænmetisframleiðslu með föstu niðurgreiðsluhlutfalli á raforkuverði til ylræktar.

Dreifikerfi í jörð, þrífösun rafmagns og fyrirsjáanleiki í dreifikostnaði raforku eru brýnustu hagsmunamálin fyrir fyrirtækin sem staðsett eru í dreifbýlinu jafnt fyrirtæki í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu og á öðrum sviðum.

Nýsköpun, orkuskipti, nýliðun og öll framtíð dreifðra byggða er háð því að orka fáist, hún sé afhent á öruggan hátt og á samkeppnishæfu verði.“

Categories
Fréttir

„Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu“

Deila grein

21/02/2023

„Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Landsbyggðin hefur áþreifanlega fundið fyrir lítilli nýliðun sérfræðilækna undanfarin ár. Sama saga á við hjá fjölmörgum öðrum þjóðum. „Það er áskorun að finna nýjar leiðir, nýta þann mannauð sem við búum að í dag, hlúa að honum eftir mikið álag undanfarin ár, en einnig að fjölga heilbrigðisstarfsfólki,“ sagði Ingibjörg.

„Margir neyðast til að gera sér ferð til höfuðborgarinnar til að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu, jafnvel einungis til þess að fara til augnlæknis með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn,“ sagði Ingibjörg.

„Sérfræðilæknar hafa sinnt þjónustu víðs vegar um landið í samstarfi við heilbrigðisstofnanir um land allt. Það er mikilvægt að það haldi áfram, en í því ljósi er einnig mikilvægt að skapa umgjörð, ná samningum við sérfræðilækna og nýta tækni í fjarheilbrigðisþjónustu þó svo að hún muni aldrei koma í staðinn fyrir persónulega þjónustu.“

„Hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur sett á laggirnar starfshóp sem vinnur að aðgerðum til að bæta mönnun sérhæfðs starfsfólks heilbrigðisumdæma Vestfjarða og Austurlands. Þetta er gert ásamt því að farið hefur verið í aðgerðir innan heilbrigðisráðuneytisins til að bæta nýliðun og mönnun sérfræðilækna utan höfuðborgarsvæðisins. Starfshópi verkefnisins Öflug sjúkrahúsþjónusta í dreifbýli er ætlað að skoða viðeigandi lausnir á hverju svæði fyrir sig og hvernig best er að bregðast við mönnunarvanda á landsbyggðinni með skilvirkum máta, með samvinnu sjúkrahúsa að leiðarljósi. Starfshópurinn mun einnig taka þætti á borð við vaktþjónustu, þjálfunarmöguleika, sérnámsmöguleika og fleira til athugunar í sinni vinnu. Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í lögunum stendur að allir eigi jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Við erum auðvitað meðvituð um að ekki er hægt að veita alla þjónustu alls staðar á landinu en vissulega er hægt að gera betur. Landsbyggðin hefur áþreifanlega fundið fyrir lítilli nýliðun sérfræðilækna undanfarin ár. Margir neyðast til að gera sér ferð til höfuðborgarinnar til að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu, jafnvel einungis til þess að fara til augnlæknis með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Margar þjóðir glíma við sama verkefni og við hér á Íslandi; að efla og fjölga heilbrigðisstarfsfólki. Það er áskorun að finna nýjar leiðir, nýta þann mannauð sem við búum að í dag, hlúa að honum eftir mikið álag undanfarin ár, en einnig að fjölga heilbrigðisstarfsfólki.

Sérfræðilæknar hafa sinnt þjónustu víðs vegar um landið í samstarfi við heilbrigðisstofnanir um land allt. Það er mikilvægt að það haldi áfram, en í því ljósi er einnig mikilvægt að skapa umgjörð, ná samningum við sérfræðilækna og nýta tækni í fjarheilbrigðisþjónustu þó svo að hún muni aldrei koma í staðinn fyrir persónulega þjónustu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur sett á laggirnar starfshóp sem vinnur að aðgerðum til að bæta mönnun sérhæfðs starfsfólks heilbrigðisumdæma Vestfjarða og Austurlands. Þetta er gert ásamt því að farið hefur verið í aðgerðir innan heilbrigðisráðuneytisins til að bæta nýliðun og mönnun sérfræðilækna utan höfuðborgarsvæðisins. Starfshópi verkefnisins Öflug sjúkrahúsþjónusta í dreifbýli er ætlað að skoða viðeigandi lausnir á hverju svæði fyrir sig og hvernig best er að bregðast við mönnunarvanda á landsbyggðinni með skilvirkum máta, með samvinnu sjúkrahúsa að leiðarljósi. Starfshópurinn mun einnig taka þætti á borð við vaktþjónustu, þjálfunarmöguleika, sérnámsmöguleika og fleira til athugunar í sinni vinnu. Við megum aldrei hætta vinnu okkar í átt að því að jafna heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Tækifærin eru svo sannarlega til staðar.“