Categories
Fréttir Greinar

Hug­leiðingar við upp­haf nýs lög­gjafar­þings

Deila grein

17/09/2023

Hug­leiðingar við upp­haf nýs lög­gjafar­þings

Þróun umræðu í samfélaginu síðustu misseri hefur verið um margt umhugsunarverð, stundum byggir umræðan á staðreyndum en oftar en ekki er rangfærslum haldið á lofti. Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og akkúrat nú á tímum falsfrétta að allar þær upplýsingar sem unnið er með hverju sinni sé réttar og sannar. Aðeins þannig getum við átt upplýsta og málefnalega umræðu og talað okkur saman að niðurstöðu mála. Ég lít svo á að það sé siðferðileg skylda okkar sem störfum í stjórnmálum að vanda til verka í allri umræðu og kynna okkur allar staðreyndir mála, aðeins þannig getum við tekið upplýsta ákvörðun. Annars er hættan alltaf á að við missum umræðuna út í ómálefnaleg úthróp og á villigötur. Fólk veigrar sér við að taka þátt í umræðunni með þeim afleiðingum að þeir sem hafa hæst ná að stela umræðunni. Við höfum séð þetta gerast oftar en einu sinni og erum líklega flest sammála að þetta sé ekki jákvæð þróun, við þurfum að gera betur.

Orð bera ábyrgð

Við sem höfum fengið það ábyrgðarmikla hlutverk að sitja á Alþingi gerum það í umboði þjóðarinnar. Almenningur gerir þá sjálfsögðu kröfu að á Alþingi fari fram rökræn og skynsamleg umræða. Orð sem eru látin falla í þingsal eða annars staðar úti í samfélaginu af hálfu þingmanna bera svo sannarlega ábyrgð. Almenningur treystir á og býst við að við þingmenn nálgumst alla umræðu af skynsemi og réttum staðreyndum. Okkar hlutverk er að vinna að umbóta- og framfaramálum fyrir þjóðina og það er skylda okkar sem eigum sæti á Alþingi að vera skynsemisröddin og ekki í sandkassaleik. Það sem af er þessu kjörtímabili höfum við sem störfum á Alþingi unnið í sameiningu þvert á flokka að ýmsum framfaramálum í þágu þjóðarinnar. Við erum ekki alltaf sammála en í gengum nefndirnar höfum við oft talað okkur saman að niðurstöðu. Mig langar því að nýta hér tækifærið og hvetja okkur áfram til góðra verka. Stjórnmálin eru oft skemmtileg en þau eru líka krefjandi og sérstaklega á tímum sem þessum þar sem margir eru með þungan róður. Í gegnum allt lífið færum við ákveðnar fórnir fyrir þær ákvarðanir sem hafa verið teknar. Þetta ferðalag sem lífið er býður ekki alltaf upp á mikla fyrirhyggju frá degi til dags. Við vinnum þó alltaf af sannfæringu og höfum trú á því að það sem við erum að gera sé það rétta í stöðunni hverju sinni.

Fyrir samfélagið

Að lokum vil ég hvetja okkur öll til að nálgast verkefnin fram undan með samvinnuhugsjón að leiðarljósi og nálgast umræðuna út frá skynsemi og með röksemdum og staðreyndum. Við ættum að forðast að benda fingrum í allar áttir og reyna heldur eftir fremsta megni að vinna saman, þó að okkur greini oft á um aðferðarfræðina erum við í grunninn sammála um að halda áfram að skapa gott samfélag og forsendur fyrir okkur til að vaxa og dafna. Við munum ekki ná árangri sem samfélag nema við stöndum saman og þar verður samvinnan alltaf að vera rauði þráðurinn hvort sem er á Alþingi eða annars staðar í samfélaginu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. september 2023.

Categories
Fréttir

Stærsta einstaka áskorunin við gerð fjárlaga 2024 að ná verðbólgu niður!

Deila grein

14/09/2023

Stærsta einstaka áskorunin við gerð fjárlaga 2024 að ná verðbólgu niður!

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar, var talsmaður Framsóknar í fyrstu umræðu fjárlaga á Alþingi fyrir árið 2024 í dag.

Stefán Vagn sagði að augljóst væri að hvernig svo sem skipting fjármuna væri útfærð, yrði hún alltaf umdeild, sjónarmið stjórnmálaflokka á Alþingi væri misjöfn eðli málsins samkvæmt.

„Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi þessa árs. Þessum hraða vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði.
Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 18% frá 2017 að teknu tilliti til skatta og vaxtagjalda. Atvinnuleysi er hverfandi og starfsfólki hefur fjölgað um 19.000 síðustu tvö ár,“ sagði Stefán Vagn.

Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir því að 46 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. En það er rúmlega 73 milljörðum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2023. Það eru hærri tekjur og lægri útgjöld í hlutfalli við umfang hagkerfisins sem skila því.

Verðbólgan hefur reynst þrálátari hér undanfarna mánuði en er ekki séríslenskt fyrirbæri. „Er það stærsta einstaka áskorunin við gerð þessara fjárlaga að ná henni niður,“ sagði Stefán Vagn.

„Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviði og almannaþjónustu einkennir komandi ár þar sem ríkið heldur áfram að leggja lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu.“

Almenn aðhaldskrafa er í fjárlögunum sem nemur 4,6 milljörðum kr. og til viðbótar sértækar aðhaldsaðgerðir sem nema um 3,8 milljörðum. Það eru aðgerðir stjórnvalda til að draga úr útgjaldavexti og sporna við þenslu ásamt útfærslu á 9 milljarða kr. óútfærðum afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028.

Tekjuáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að heildartekjur verði um 1.349 milljarðar eða 29,8% af vergri landsframleiðslu.

„Á tekjuhlið er m.a. gengið út frá forsendum um heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, að farið sé í aukna skattlagningu á ferðaþjónustu og að auka gjaldtöku af fiskeldi,“ sagði Stefán Vagn.

Tekjur ársins fyrir 2024 eru áætlaðar að verða 15,4 milljörðum kr. meiri en í síðustu fjármálaáætlun.

„Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum. Þær eru áætlaðar um 68 milljarðar kr. á næsta ári sem er u.þ.b. tveir þriðju hluti aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi,“ sagði Stefán Vagn.

Fjárfest verði áfram í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.

„Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.478 milljarðar á árinu 2024. Hækkun frá fjárlögum fyrra árs nemur um 143,1 milljarði og vega launa-, gengis- og verðlagsbreytingar þyngst eða um 67,9 milljarðar. Að þeim frátöldum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs um 75,2 milljarða sem nemur um 5,6%. Samtals nemur hækkun rammasettra útgjalda 3,2%,“ sagði Stefán Vagn.

Töluverður hluti hækkunarinnar skýrist af:

  • stórauknum framlögum til byggingar nýs Landspítala og
  • breytinga á framsetningu á stuðningi við orkuskipti, en stuðningurinn færist frá tekjuhlið yfir á gjaldahlið.
  • Þá er gert ráð fyrir 17 milljarða kr. ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti sem útfærðar eru í málefnasviðum ráðuneyta.

Betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs.

Með lækkandi skuldastöðu hefur náðst meginmarkmið fjármálastefnunnar um að stöðva vöxt skulda sem hlutfall af landsframleiðslu og rúmlega það. Áframhaldandi lækkun skulda er hins vegar grundvallaratriði á komandi ári og árum.

„Við þurfum að halda áfram að stækka kökuna, breikka tekjustofnana og fjölga tækifærum á Íslandi. Spenna á vinnumarkaði virðist hafa minnkað undanfarna mánuði. Atvinnuleysi náði lágmarki fyrr á árinu og lausum störfum hefur fækkað. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega og verði um 4% á árinu 2024. Þensla í þjóðarbúinu er í rénum og útlit fyrir að ágætt jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem liggur til grundvallar þessu fjárlagafrumvarpi. Spáin byggist á því að verulega hægi á fólksflutningum til landsins en hröð fólksfjölgun hefur verið megindrifkraftur hagvaxtar undanfarin ár,“ sagði Stefán Vagn.

Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði um 4,9% á næsta ári og fari svo lækkandi enn frekar árið 2025.

„Laun hafa hækkað meira en verðlag undanfarin ár og kaupmáttur launa hefur aukist á ný. Verðbólga leggst að jafnaði þyngst á þau sem hafa lægstar tekjur og mesta framfærslubyrði. Spornað hefur verið við þeirri þróun, m.a. með hækkun viðmiða tekjuskattskerfisins og hækkun bóta. Þannig hafa bætur almannatrygginga verið hækkaðar svo þær haldi í við verðbólgu,“ sagði Stefán Vagn.

Samspil launa, verðbólgu og vaxta er viðkvæmt og krefst ábyrgðar og samstillingar á vinnumarkaði, í opinberum fjármálum og á sviði peningamálastefnu. Hagur heimilanna vænkast samhliða auknum kaupmætti, auknum verðstöðugleika og lægra vaxtastigi.

Samhliða aðhaldi í útgjöldum er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna og má þar nefna að:

  • fyrsta skref verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári líkt og boðað hefur verið þannig að áfram verði hægt að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi á vegakerfinu.
  • Seinna skrefið í nýju barnabótakerfi tekur gildi í ársbyrjun og hækkar framlag til málaflokksins um 1,4 milljarða samhliða breytingum.

Breytingarnar sem hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár hafa tryggt um 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði orðið í óbreyttu kerfi.

Í ársbyrjun er sömuleiðis gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5.000 kr. á mánuði og skattleysismörk hækki um rúmlega 16.000 kr. Einstaklingur með 500.000 kr. í mánaðartekjur mun því greiða um 7.314 kr. minna í skatt í janúar en hann gerði í desember 2023.

Heilbrigðismálin í forgrunni núna líkt og áður!

„Stærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýs Landspítala en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 milljarða kr. og verður tæplega 24 milljarðar á ári. Spítalinn sem rís nú hratt er stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins í sögunni og mun gjörbylta aðstöðu og umgjörð heilbrigðisþjónustu í landinu. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 milljarða kr. að raungildi milli áranna en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna. Framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru aukin um rúma 3,9 milljarða til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðar. Áhersla er lögð á að bæta geðheilbrigðisþjónustu, á lægri greiðsluþátttöku sjúklinga og styrkingu sjúkrasviða á landsbyggðinni. Í krónum talið hafa framlög til heilbrigðismála aukist mest eða sem svarar 50,4 milljörðum frá 2021,“ sagði Stefán Vagn.

Það er mikilvægt að létta skrefin inn á fasteignamarkaðinn – þar skiptir framboð mestu máli!

„Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis en fjöldi íbúða í byggingu er við sögulegt hámark. Þá er gert ráð fyrir 2,3% vexti einkaneyslu og fjárfestingar og spáir Hagstofan áframhaldandi vexti í íbúðafjárfestingu árið 2024. Mikilvægt er að kröftug uppbygging haldi áfram en þar spila sveitarfélögin lykilhlutverk. Ríkið mun sömuleiðis halda áfram að leggja sitt af mörkum með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári,“ sagði Stefán Vagn og bætti við: „Sömuleiðis verður horft til frekari lánsfjárheimilda til hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við 2. umræðu frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að stofnframlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins verði aukin um 5,7 milljarða frá fjárlögum ársins 2023 og nema þá heildarframlög til þeirra um 7,4 milljörðum á árinu 2024.“

Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda nema um 32,6 milljörðum og aukast um 2,4 á milli ára. Niður fellur 4,7 milljarða kr. framlag vegna tímabundinna verkefna í fjárfestingar- og uppbyggingarátaki en á móti er gerð varanleg aukning á framlagi til vegaframkvæmda um 3,6 milljarða.

Í 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2023 var ráðist í aðgerðir til að vinna gegn þenslu og verðbólgu og var 3 milljarða kr. framlagi vegna vegaframkvæmda frestað til ársins 2024 sem kemur nú inn í útgjaldaramma. Þá er gert ráð fyrir 1,4 milljörðum í uppbyggingu varaflugvalla en ráðist var í þá aukningu samhliða innheimtu varaflugvallagjalds.

Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála!

Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála á tímabilinu til að mæta fjölgun nemenda í framhaldsskólum og háskólum. Framlög til nýsköpunar-, rannsókna- og þekkingargreina hafa verið aukin, m.a. með endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.

***

Allt sem tengist fjárlagafrumvarpinu!

Hér að neðan eru fjölbreytt gögn og upplýsingar sem tengjast fjárlagafrumvarpinu. Má þar nefna fylgirit frumvarpsins, skjöl og gögn, greiningar, fréttatilkynningar ráðuneyta, kynningu ráðherra og umfjöllun um frumvarpið í stuttu máli. 

Öll helstu skjöl og gögn sem tengjast frumvarpinu, svo sem myndagögn úr frumvarpinu, ítarefni, töflur, töfluviðaukar og talnagögn fjárlagafrumvarpsins á Excel-formi. 

Á rafrænu mælaborði má bera saman greiningu gjalda í rekstur, tilfærslur og fjárfestingu fyrir árin 2022-2026 samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli um opinber fjármál.

Helstu atriði fjárlagafrumvarps 2024 sett fram með einföldum og skýrum hætti í máli og myndum. Yfirlit á einni síðu og hægt að stækka hverja mynd til að skoða nánar.

Upptaka af kynningu ráðherra á fjárlagafrumvarpi 2024 fyrir blaðamönnum. 

Fréttatilkynningar ráðuneyta sem tengjast efni fjárlagafrumvarps fyrir 2024. 

Öll fjárlagarit á einum stað, frá fjármálastefnu og fjármálaáætlun til frumvarps og samþykktra fjárlaga.


Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024. Fjárlög eru ein af grunnlögum okkar og því afar mikilvægt að við þingmenn náum góðri og djúpri umræðu um frumvarpið hér á Alþingi í haust. Það skiptir miklu máli hvernig því fé sem ríkið hefur yfir að ráða er útdeilt, enda er verið að útdeila takmarkaðri auðlind, ef svo má segja. Mér er það ljóst að sú skipting, hvernig sem hún er útfærð, verður alltaf umdeild, enda eru sjónarmið þeirra flokka sem hér eru á þingi misjöfn eðli málsins samkvæmt. Það er samt mín trú að það sé mun meira sem sameinar okkar sjónarmið í þessum fjárlögum en það sem við erum ósammála um. Það er mikilvægt í þeirri vinnu sem fram undan er að öll sjónarmið heyrist og vinnan í fjárlaganefnd verði markviss og árangursrík á komandi þingvetri. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um frumvarpið eins og það kemur mér fyrir sjónir, virðulegur forseti.

Þróttur íslensks samfélags er mikill um þessar mundir. Ekkert Evrópuríki sem tölur ná til hafði meiri hagvöxt á fyrri helmingi þessa árs. Þessum hraða vexti hafa fylgt mikil umsvif á vinnumarkaði. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um 18% frá 2017 að teknu tilliti til skatta og vaxtagjalda. Atvinnuleysi er hverfandi og starfsfólki hefur fjölgað um 19.000 síðustu tvö ár. Fjárlagafrumvarp ársins 2024 gerir ráð fyrir því að halli verði á rekstri ríkissjóðs sem nemur 46 milljörðum kr. Það er rúmlega 73 milljörðum kr. betri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins 2023 sem rekja má hvort tveggja til hærri tekna og lægri útgjalda í hlutfalli við umfang hagkerfisins. Við erum sem sagt að vaxa út úr vandanum.

Þessi bætta staða ríkisfjármála endurspeglast jafnframt í uppfærðum afkomuhorfum yfirstandandi árs sem gera ráð fyrir jákvæðum frumjöfnuði sem nemur um 47 milljörðum kr. eða um 1,1% af vergri landsframleiðslu og er það tæplega 100 milljörðum kr. betri útkoma en áætlun fjárlaga ársins 2023 gerði ráð fyrir. Frumjöfnuðurinn var þegar orðinn jákvæður á ný í fyrra og nemur batinn yfir 190 milljörðum kr. á milli áranna 2021 og 2022.

Talsverð spenna hefur haldist í hendur við mikinn slátt í hagkerfinu og fylgifiskur þess birtist m.a. í verðbólgu. Hún er ekkert séríslenskt fyrirbæri en hefur þó reynst þrálátari hér undanfarna mánuði, því miður. Við því verður að bregðast og að mínu mati er það stærsta einstaka áskorun okkar við gerð þessara fjárlaga að ná niður verðbólgu og verðbólguvæntingum og vaxtastigi í landinu. Það eru þegar fram komnar vísbendingar um að draga muni úr þenslunni á næstu misserum.

Forgangsröðun í þágu mikilvægra innviði og almannaþjónustu einkennir komandi ár þar sem ríkið heldur áfram að leggja lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu. Það er sama til hvaða greininga horft er, niðurstaðan er sú sama: Ríkissjóður hefur dregið úr vexti eftirspurnar og þar með verðbólgu frá árinu 2022. Þetta fjárlagafrumvarp gerir ráð fyrir að svo verði enn á næsta ári. Ekki aðeins hefur afkomubatinn verði umfram það sem vænta mætti á áhrifum hagsveiflunnar heldur er batinn einn sá mesti sem þekkist meðal þróaðra ríkja.

Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2024 er venju samkvæmt gert ráð fyrir almennri aðhaldskröfu og nemur hún um 4,6 milljörðum kr. Því til viðbótar eru í frumvarpinu sértækar aðhaldsaðgerðir sem nema um 3,8 milljörðum sem skýrast af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr útgjaldavexti og sporna við þenslu ásamt útfærslu á 9 milljarða kr. óútfærðum afkomubætandi ráðstöfunum úr fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Almenn aðhaldskrafa í frumvarpinu er 2% auk 1% viðbótaraðhaldskröfu á ráðuneyti. Skólar hljóta lægri aðhaldskröfu eða 0,5%. Þá eru almanna- og sjúkratryggingar undanskildar ásamt heilbrigðis- og öldrunarstofnunum, löggæsluembættum, fangelsum og dómstólum. Almenna aðhaldskrafan var aukin í fjármálaáætlun til að styðja við markmið um hóflegan vöxt útgjalda og draga úr þenslu. Í því ljósi var einnig gert ráð fyrir frestun fjárfestingarverkefna.

Tekjuáætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að heildartekjur verði um 1.349 milljarðar eða 29,8% af vergri landsframleiðslu. Á tekjuhlið er m.a. gengið út frá forsendum um heildarendurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis, að farið sé í aukna skattlagningu á ferðaþjónustu og að auka gjaldtöku af fiskeldi. Loks gerir tekjuáætlun ráð fyrir áframhaldandi áhrifum ráðstafana sem farið var í á þessu ári, m.a. varaflugvallagjaldinu og breytinga á virðisaukaskattsendurgreiðslum vegna íbúðarhúsnæðis. Samanlagt er áætlað að framangreindar ráðstafanir skili ríkissjóði um 25 milljarða kr. auknum tekjum á næsta ári.

Tekjur ríkissjóðs hafa tekið hratt við sér á grunni hins sterka efnahagsbata og samhliða hefur verið gætt að því að sýna nokkurt aðhald á útgjaldahliðinni. Birtist aðhaldið meðal annars í því að á meðan tekjuhliðin hefur tekið við sér og vaxið hraðar en nemur vexti landsframleiðslunnar eru frumgjöld um hálfu prósentustigi lægri sem hlutfall af vergri landsframleiðslu á árunum 2023 og 2024 en þau voru árið 2022. Með öðrum orðum, það er ekki verið að ráðstafa öllum viðbótartekjum sem leiða af hagsveiflunni í ný og aukin útgjöld heldur er í staðinn verið að nýta þær til að bæta afkomu ríkissjóðs. Tekjur ársins fyrir 2024 eru áætlaðar að verði 15,4 milljörðum meiri en í fjármálaáætlun sem samþykkt var í júní og nemur aukningin 1,2% milli áætlun. Vöxtur útgjalda ríkissjóðs að nafnvirði er þannig að stærstum hluta drifinn áfram af launa- og verðlagsbreytingum en ekki nýjum ákvörðunum. Þær eru áætlaðar um 68 milljarðar kr. á næsta ári sem er u.þ.b. tveir þriðju hluti aukningarinnar á útgjaldahliðinni og eru þær hlutfallslega miklar í sögulegu samhengi.

Áfram er fjárfest í mikilvægum innviðum og vaxtargreinum hagkerfisins auk þess að bæta og styrkja þjónustu við almenning.

Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.478 milljarðar á árinu 2024. Hækkun frá fjárlögum fyrra árs nemur um 143,1 milljarði og vega launa-, gengis- og verðlagsbreytingar þyngst eða um 67,9 milljarðar. Að þeim frátöldum hækka heildarútgjöld ríkissjóðs um 75,2 milljarða sem nemur um 5,6%. Samtals nemur hækkun rammasettra útgjalda 3,2%. Töluverður hluti hækkunarinnar skýrist annars vegar af stórauknum framlögum til byggingar nýs Landspítala og hins vegar breytinga á framsetningu á stuðningi við orkuskipti, en stuðningurinn færist frá tekjuhlið yfir á gjaldahlið. Þá er gert ráð fyrir 17 milljarða kr. ráðstöfunum til að draga úr útgjaldavexti sem útfærðar eru í málefnasviðum ráðuneyta.

Betri afkoma hefur stutt við þá jákvæðu þróun sem birtist í skuldastöðu ríkissjóðs. Þegar fjármálaáætlun 2021–2025 var lögð fram á fyrsta ári kórónuveirufaraldursins voru horfur á því að skuldahlutfallið yrði um og yfir 50% af vergri landsframleiðslu árin 2023 og 2024. Nú er ljóst að hlutfallið náði hámarki langtum neðar árin 2021 og 2022 og gangi áætlanir eftir mun það lækka smám saman og verða innan við 31% af vergri landsframleiðslu í árslok 2024. Það er meira en 20 prósentustigum lægra hlutfall á næsta ári en viðmið fjármálaáætlunarinnar gerði ráð fyrir.

Með lækkandi skuldastöðu höfum við náð meginmarkmiði fjármálastefnunnar um að stöðva vöxt skulda sem hlutfall af landsframleiðslu og rúmlega það. Áframhaldandi lækkun skulda er hins vegar grundvallaratriði á komandi ári og árum.

Til viðbótar við afkomubatann og aðhald er tónninn því settur með enn frekari aðgerðum. Eitt grundvallaratriðið í því samhengi er að fjármálareglur taka gildi ári fyrr en áætlað var en þeim var tímabundið vikið til hliðar í heimsfaraldrinum. Við þurfum að halda áfram að stækka kökuna, breikka tekjustofnana og fjölga tækifærum á Íslandi. Spenna á vinnumarkaði virðist hafa minnkað undanfarna mánuði. Atvinnuleysi náði lágmarki fyrr á árinu og lausum störfum hefur fækkað. Þjóðhagsspá gerir ráð fyrir að atvinnuleysi aukist lítillega og verði um 4% á árinu 2024. Þensla í þjóðarbúinu er í rénun og útlit fyrir að ágætt jafnvægi náist í þjóðarbúskapnum árið 2024 samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem liggur til grundvallar þessu fjárlagafrumvarpi. Spáin byggist á því að verulega hægi á fólksflutningum til landsins en hröð fólksfjölgun hefur verið megindrifkraftur hagvaxtar undanfarin ár. Það er enn nokkuð í land með að verðbólga verði á ný í samræmi við markmið þótt gert sé ráð fyrir því að hún fari fremur hratt lækkandi.

Raungerist þessar fyrirætlanir skapast forsendur fyrir lækkun vaxta. Lækkun raunvaxta getur stuðlað að áframhaldandi kröftugri fjárfestingu. Samkvæmt þjóðhagsspá er gert ráð fyrir því að verðbólga verði að jafnaði um 4,9% árið 2024 og fari svo lækkandi enn frekar árið þar á eftir.

Laun hafa hækkað meira en verðlag undanfarin ár og kaupmáttur launa hefur aukist á ný. Verðbólga leggst að jafnaði þyngst á þau sem hafa lægstar tekjur og mesta framfærslubyrði. Spornað hefur verið við þeirri þróun, m.a. með hækkun viðmiða tekjuskattskerfisins og hækkun bóta. Þannig hafa bætur almannatrygginga verið hækkaðar svo þær haldi í við verðbólgu.

Þjóðhagsspáin byggir á þeirri forsendu að laun hækki með svipuðum hætti og á árunum 2019–2020 en þá var verðbólga jafnframt lægri en hún er nú. Á þessum grundvelli er talið að kaupmáttur launa vaxi áfram árið 2024 og að vextir geti byrjað að lækka á því ári sem er, eins og áður sagði, gríðarlega mikilvægt fyrir fjölskyldur og heimili og fyrirtæki í landinu. Hagur heimilanna vænkast samhliða auknum kaupmætti, auknum verðstöðugleika og lægra vaxtastigi. Þetta samspil launa, verðbólgu og vaxta er viðkvæmt og krefst ábyrgðar og samstillingar á vinnumarkaði, í opinberum fjármálum og á sviði peningamálastefnu.

Til viðbótar við mikinn viðsnúning á síðustu misserum er, eins og áður sagði, 17 milljarða ráðstafanir útfærðar í frumvarpinu til þess að hægja á vexti útgjalda. Þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður stofnana lækki um 5 milljarða kr. Mun því koma til nokkurrar fækkunar stöðugilda í stofnanakerfinu sem bæði getur komið fram í gegnum starfsmannaveltu eða uppsagnir. Vörður verður þó áfram staðinn um framlínustarfsmenn, m.a. á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála. Þá lækka önnur rekstrargjöld á borð við ferðakostnað auk þess sem lögð verður áhersla á hagkvæmari opinber innkaup en stefnt er á um 4 milljarða hagræðingu með þeim aðgerðum. Enn fremur er aukið aðhald innan ráðuneyta og dregið úr nýjum verkefnum og með því stefnt á 8 milljarða kr. hagræði.

Samhliða aðhaldi í útgjöldum er ráðist í nokkrar aðgerðir á tekjuhlið ríkisfjármálanna og má þar nefna að fyrsta skref verður tekið í breyttri gjaldtöku af ökutækjum og umferð á nýju ári líkt og boðað hefur verið þannig að áfram verði hægt að standa að metnaðarfullri uppbyggingu samhliða nauðsynlegu viðhaldi á vegakerfinu. Seinna skrefið í nýju barnabótakerfi tekur gildi í ársbyrjun og hækkar framlag til málaflokksins um 1,4 milljarða samhliða breytingum. Breytingarnar sem hafa verið innleiddar undanfarin tvö ár hafa tryggt um 3.000 fleiri fjölskyldum barnabætur en raunin hefði orðið í óbreyttu kerfi. Nýju fyrirkomulagi fylgir einnig töluvert hagræði fyrir barnafjölskyldur þar sem stuðningurinn er efldur með hækkun fjárhæða, minni skerðingum og lægri jaðarsköttum. Þá verða einnig teknar upp svokallaðar samtímagreiðslur barnabóta en í því felst að biðtími eftir greiðslum verður aldrei meiri en fjórir mánuðir, en biðtíminn gat áður verið allt að ár frá fæðingu barns. Í ársbyrjun er sömuleiðis gert ráð fyrir að persónuafsláttur hækki um rúmlega 5.000 kr. á mánuði og skattleysismörk hækki um rúmlega 16.000 kr. Einstaklingur með 500.000 kr. í mánaðartekjur mun því greiða um 7.314 kr. minna í skatt í janúar en hann gerði í desember 2023.

Virðulegur forseti. Heilbrigðismálin eru í forgrunni núna líkt og áður. Stærsta einstaka framkvæmdin í frumvarpinu er bygging nýs Landspítala en fjárheimild til verkefnisins er aukin um 10,5 milljarða kr. og verður tæplega 24 milljarðar á ári. Spítalinn sem rís nú hratt er stærsta fjárfestingarverkefni ríkisins í sögunni og mun gjörbylta aðstöðu og umgjörð heilbrigðisþjónustu í landinu. Alls aukast útgjöld til heilbrigðismála um rúmlega 14 milljarða kr. að raungildi milli áranna en auk byggingar Landspítalans má nefna rekstur hjúkrunarrýma, framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga og samninga við sérgreinalækna. Framlög til heilbrigðisstofnana og sjúkratrygginga eru aukin um rúma 3,9 milljarða til að koma til móts við aukna eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu vegna fólksfjölgunar og öldrunar þjóðar. Áhersla er lögð á að bæta geðheilbrigðisþjónustu, á lægri greiðsluþátttöku sjúklinga og styrkingu sjúkrasviða á landsbyggðinni. Í krónum talið hafa framlög til heilbrigðismála aukist mest eða sem svarar 50,4 milljörðum frá 2021.

Það er mikilvægt að létta skrefin inn á fasteignamarkaðinn. Þar skiptir framboð mestu máli samhliða áframhaldandi lækkun verðbólgu sem ætti að fylgja lækkun vaxta. Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er mikill kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis en fjöldi íbúða í byggingu er við sögulegt hámark. Þá er gert ráð fyrir 2,3% vexti einkaneyslu og fjárfestingar og spáir Hagstofan áframhaldandi vexti í íbúðafjárfestingu árið 2024. Mikilvægt er að kröftug uppbygging haldi áfram en þar spila sveitarfélögin lykilhlutverk. Ríkið mun sömuleiðis halda áfram að leggja sitt af mörkum með tvöföldun stofnframlaga til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verði þær 1.000 á ári. Sömuleiðis verður horft til frekari lánsfjárheimilda til hlutdeildarlána í samræmi við þetta markmið en gert er ráð fyrir að áætlanir vegna lánveitinga verði endurmetnar við 2. umræðu frumvarpsins. Þannig er gert ráð fyrir að stofnframlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins verði aukin um 5,7 milljarða frá fjárlögum ársins 2023 og nema þá heildarframlög til þeirra um 7,4 milljörðum á árinu 2024.

Fjárfestingarframlög til samgönguframkvæmda nema um 32,6 milljörðum og aukast um 2,4 á milli ára. Niður fellur 4,7 milljarða kr. framlag vegna tímabundinna verkefna í fjárfestingar- og uppbyggingarátaki en á móti er gerð varanleg aukning á framlagi til vegaframkvæmda um 3,6 milljarða.

Í 2. umræðu fjárlaga fyrir árið 2023 var ráðist í aðgerðir til að vinna gegn þenslu og verðbólgu og var 3 milljarða kr. framlagi vegna vegaframkvæmda frestað til ársins 2024 sem kemur nú inn í útgjaldaramma. Þá er gert ráð fyrir 1,4 milljörðum í uppbyggingu varaflugvalla en ráðist var í þá aukningu samhliða innheimtu varaflugvallagjalds.

Framlög hafa verið aukin um ríflega 4 milljarða til menntamála á tímabilinu til að mæta fjölgun nemenda í framhaldsskólum og háskólum. Framlög til nýsköpunar-, rannsókna- og þekkingargreina hafa verið aukin, m.a. með endurgreiðslum til nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsókna og þróunar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að prósentuhækkun atvinnuleysisbóta verði 4,9% til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga og spá Hagstofunnar um hækkun verðlags á næsta ári. Áætlaður kostnaður vegna hækkunarinnar er um 1,6 milljarðar kr. Áætluð heildarútgjöld vegna hækkunar atvinnuleysisbóta og bóta almannatrygginga eru samanlagt 17,7 milljarðar kr. í fjárlögum ársins 2024.

Virðulegur forseti. Mig langar í lokin aðeins að ræða verklag varðandi fjárlög og framsetningu þeirra. Það er mín skoðun eftir að hafa setið í tvö ár í fjárlaganefnd að það færi ágætlega á því og sennilega betur, til þess að dýpka einmitt þessa umræðu hér í þingsal í dag, ef fjárlaganefnd gæti fengið drögin að fjárlagafrumvarpi um viku fyrr áður en þau eru kynnt, í trúnaði að sjálfsögðu, þannig að nefndarmenn gætu verið búnir að kynna sér betur efni fjárlaganna fyrir þessa umræðu. Það er mín tilfinning og mitt mat að slík breyting yrði klárlega til bóta fyrir alla þá sem í nefndinni sitja og gæfi nefndarmönnum miklum mun betri kost á því að fara dýpra í umræðuna hér í upphafi og yrði einnig góður undirbúningur fyrir starf vetrarins í nefndinni.

Virðulegur forseti. Ég læt þessari yfirferð minni hér í 1. umræðu fjárlaga lokið og bind vonir við og kalla eftir góðu samstarfi nefndarmanna í fjárlaganefnd í áframhaldandi vinnu fyrir fjárlög ársins 2024.“

Categories
Fréttir

Rótgrónar stofnanir víki alltaf fyrir farsæld barna

Deila grein

14/09/2023

Rótgrónar stofnanir víki alltaf fyrir farsæld barna

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í fyrri umferð og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í seinni umferð.

„Til að tryggja að börn nái almennri farsæld og árangri á eigin forsendum þurfum við að vinna alla uppbyggingu næstu kynslóðar í kringum einstaklinginn sjálfan, í kringum börnin sjálf,“ sagði Ásmundur Einar í ræðu sinni og hélt áfram: „Þau eiga ekki að þurfa að passa inn í fyrir fram ákveðna kassa. Þessu þarf að vera öfugt farið; kerfin, menntakerfið og öll þjónustan sem við byggjum upp þarf að passa börnunum, að þau sem þurfa stuðning fái hann og þau sem geta flogið hærra verði efld til þess.“

„Við viljum og munum hlusta og ég óska af einlægni eftir ráðgjöf og liðsinni í þessu risastóra en mikilvæga verkefni“

Ásmundur Einar sagði mikilvægt að ráðist yrði í breytingar í menntakerfinu. Sagði hann breytingarnar tengjast lögum sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021 um farsæld barna.

„Ástríða mín og pólitísk sýn stendur þó ekki til þess að sameina skóla sameininganna vegna. Nú eða hagræða hagræðinganna vegna. Heldur er verkefnið að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri á gæðamenntun og þjónustu.“

Ásmundur Einar sagði ástæðurnar fyrir breytingunum vera þær að of mörg börn og ungmenni næðu ekki fullnægjandi námsárangri, ættu ekki vini eða liði ekki nógu vel.

„Of mörg ungmenni detta úr námi, taka ekki virkan þátt í samfélaginu og þeim börnum sem sýna alvarlega áhættuhegðun fer fjölgandi. Það er nefnilega staðreynd að á Íslandi eiga ekki öll börn jafna möguleika á farsæld.“

Ræða mín í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra. Það er gífurleg uppspretta orku og ástríðu að fá að fylgjast með því…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Miðvikudagur, 13. september 2023

Ræða Ásmundar Einars í heild sinni á Alþingi:

„Kæru landsmenn. Í störfum mínum sem mennta- og barnamálaráðherra fæ ég að hitta mikinn fjölda fólks sem starfar daglega með börnum og ungmennum hér á landi. Ég verð að segja að það er gífurleg uppspretta orku að fá að fylgjast með því öfluga starfi sem fram fer um allt land í þessu efni, að finna kraftinn í frumkvöðlum og ástríðufólki sem vinnur ótrúlega vinnu með okkar mikilvægustu borgurum. Til að tryggja að börn nái almennri farsæld og árangri á eigin forsendum þurfum við að vinna alla uppbyggingu næstu kynslóðar í kringum einstaklinginn sjálfan, í kringum börnin sjálf. Þau eiga ekki að þurfa að passa inn í fyrir fram ákveðna kassa. Þessu þarf að vera öfugt farið; kerfin, menntakerfið og öll þjónustan sem við byggjum upp þarf að passa börnunum, að þau sem þurfa stuðning fái hann og þau sem geta flogið hærra verði efld til þess.

Um þetta snúast einmitt lög sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021 um farsæld barna. Innleiðing þessara laga er gríðarlega umfangsmikil og til að mynda í síðustu viku komu hátt í 1.000 manns saman í Hörpu til að fara yfir stöðu innleiðingarinnar. Það er mikilvægt að þetta gangi vel því að í þeim skugga sem kassar hinna ólíku kerfa skapa grasserar ójöfnuður og mismunun og það er þar sem ástríðufullt starfsfólk örmagnast, frumkvöðlar, börn og fjölskyldur sem með réttum stuðningi hefðu getað blómstrað.

Kæru landsmenn. Af öllu því sem við gerum er skólakerfið ekki bara mest stefnumótandi til framtíðar heldur eru gæði þess og styrkur það langmikilvægasta sem við gerum til að tryggja farsæld næstu kynslóðar. Þar er lagður grunnur að því hvert við stefnum og hvers konar samfélag við viljum byggja upp. Opinber stefnumörkun í menntun er mjög afgerandi í því að tryggja eigi góða menntun og jafnræði barna. Til að ná þessum markmiðum höfum við síðan lagt línurnar um hvaða breytingar þurfa að verða á menntakerfinu til ársins 2030. Það var gert með róttækri menntastefnu sem unnin var í tíð Lilju Alfreðsdóttur sem menntamálaráðherra og samþykkt var hér á Alþingi.

En af hverju markaði menntastefnan ákveðnar breytingar á menntakerfinu? Af hverju þarf að ráðast í breytingar? Ástæðan er einföld: Það eru því miður blikur á lofti. Þrátt fyrir fögur orð og metnað til margra ára í menntakerfinu er staðan sú að of mörg börn og ungmenni ná ekki fullnægjandi námsárangri, eiga ekki vini eða líður ekki nógu vel. Of mörg ungmenni detta úr námi, taka ekki virkan þátt í samfélaginu og þeim börnum sem sýna alvarlega áhættuhegðun fer fjölgandi. Það er nefnilega staðreynd að á Íslandi eiga ekki öll börn jafna möguleika á farsæld, alveg öfugt við þau gildi sem við höfum í hávegum og þau orð sem fram koma í lögum og stefnum.

Kæru landsmenn. Það er á okkar ábyrgð að bæta úr þessari stöðu, á minni ábyrgð sem mennta- og barnamálaráðherra, á ábyrgð ríkisstjórnar og raunar Alþingis alls. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að við byggjum hvert barn hér á landi upp með farsæld, framfarir og seiglu að leiðarljósi, að öll börn njóti sömu tækifæra. Það er á okkar ábyrgð að styðja við kennara og annað frábært starfsfólk sem vinnur með börnunum okkar á hverjum einasta degi. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að menntun, sem nú á tímum er dýrmætustu réttindi hvers samfélags, skili sér raunverulega til þeirra sem réttinn eiga. Til þess að ná því þurfum við breytingar á skólakerfinu, breytingar sem ekki verða gerðar í afmörkuðum kössum hver í sínu horni heldur í samvinnu.

Kæru landsmenn. Nokkur umræða hefur skapast um stöðu framhaldsskólanna síðustu vikur. Ég fagna þessari umræðu og að gefnu tilefni vil ég segja að þær aðgerðir sem unnið er að miða í öllu að því að bregðast við þessari stöðu sem ég hef hér rakið; þeirri staðreynd að of mörg börn eru ekki að ná fullnægjandi árangri og farsæld. Í þessu verkefni erum við að sjálfsögðu háð þeim ramma, þeim fjárheimildum og verkfærum sem úthlutað hefur verið til verkefnisins og það er ekkert leyndarmál að staðan í ríkisfjármálum hefur sett okkur ákveðnar skorður. Tímarnir eru hins vegar að breytast og ótrúlega hröð breyting á stöðu ríkissjóðs til hins betra á að geta gefið okkur tækifæri til að auka fjárfestingu okkar í þessum börnum, m.a. í gegnum framhaldsskólakerfið.

Fáist ekki aukið fjármagn og verði ekki farið í ansi róttækar breytingar á landsvísu sem skila sér m.a. í betri nýtingu fjármagns mun það fljótt hafa mikil áhrif. Það er því miður ekki langt í að erfitt verður eða ókleift að auka við stuðning við skóla og nemendur sem þess þurfa. Við stöndum þannig frammi fyrir því að einhverjir skólar munu í náinni framtíð mögulega ekki geta sinnt lögbundinni þjónustu eða menntun vegna fjár- eða húsnæðisskorts, til að mynda til þess að mæta aukningu í starfs- og verknám.

Þetta er krefjandi staða því að breytingar, ekki síst á rótgrónum menntastofnunum, þurfa aðdraganda og umræðu og oftar en ekki eru þetta menntastofnanir sem er fullkomlega eðlilegt að margir beri mjög sterkar tilfinningar til. Ástríða mín og pólitísk sýn stendur þó ekki til að sameina skóla sameininganna vegna, nú eða hagræða hagræðingarinnar vegna, heldur er verkefnið að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri á gæðamenntun og þjónustu. Þar liggur ábyrgðin. Fáist ekki nýtt fjármagn og ef við þurfum að velja milli farsældar og jöfnuðar meðal barna, og mæta þeim áskorunum sem ég nefndi, eða að viðhalda rótgrónum stofnunum þá þurfum við að forgangsraða í þágu barna. Þar höfum við ekkert val.

Kæru landsmenn. Stöndum vörð um hvert barn hér á landi, farsæld, tækifæri, menntun þeirra og líðan. Stöndum vörð um fjölskyldur, foreldra og ekki síst starfsfólkið okkar sem á hverjum degi vinnur að því að tryggja velsæld samfélags okkar til framtíðar. Það er það verkefni sem ég mun óska eftir samstarfi um við ykkur og Alþingi á þessum þingvetri fram undan. Við viljum og við munum hlusta og ég óska af einlægni eftir ráðgjöf og liðsinni í þessu stóra en mikilvæga verkefni. — Góðar stundir.“

***

Categories
Fréttir

Út á hvað ganga eiginlega stjórnmálin í dag?

Deila grein

14/09/2023

Út á hvað ganga eiginlega stjórnmálin í dag?

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í fyrri umferð og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, í seinni umferð.

Lilja Dögg sagði í ræðu sinni viðureignina við verðbólguna verða að ganga eftir svo vextir lækki fyrir heimilin. Sagði hún ríkisstjórnina muna gera allt sem í hennar valdi standi til að vinna bug á henni og telji hún að einhverju leyti séu jákvæð teikn á lofti í baráttunni. Sagði hún sitt ráðuneyti ekki láta sitt eftir liggja í samkeppnis- og neytendamálum.

Ekki einn dropi verður einkavæddur í Landsvirkjun

Lilja Dögg lagði áherslu á auðlindir Íslands og baráttuna um þær í ræðu sinni. Að okkur beri að umgangast auðlindir landsins af sérstakri virðingu og með sjálfbærri nýting þeirra til þess að komandi kynslóðir njóti þeirra. Lilja Dögg sagði það hvellskýrt í sínum huga og Framsóknar að ekki einn vatnsdropi í Landsvirkjun yrði einkavæddur. Hún sagðist sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkj­un muni skipta enn meira máli í framtíðinni. Ísland gæti verið leiðandi á heimsvísu í grænu orkuskiptunum ef við höldum rétt á spilunum með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.

„Opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í,“ sagði Lilja Dögg.

„Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu í grænum orkuskiptum og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orkuskiptin þurfa þó fara leið samvinnunnar, þar sem unnið er með sátt að uppbyggingu.

Stjórnmál eru hreyfiafl sem við verðum að nýta til þess að takast á við þessar áskoranir og fleiri til. Þjóðin verður að sækja fram og fara í grænu orkuskiptin og gera það með ákveðinni sátt að leiðarljósi,“ sagði Lilja Dögg.

Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Í ræðu minni…

Posted by Lilja Dögg Alfreðsdóttir on Miðvikudagur, 13. september 2023

Ræða Lilju Daggar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Nýr árstími er að ganga í garð, hið fallega haust. Fyrir marga markar haustið ákveðin tímamót, nýjar áskoranir og eftirvænting er í loftinu. Það sama á við hér í kvöld í upphafi nýs þings. Því er viðeigandi að spyrja sig: Út á hvað ganga eiginlega stjórnmálin í dag? Ljóst er að baráttuna við verðbólguna mun bera hæst í vetur og þar skiptir mestu máli fyrir heimilin að hún lækki svo vextir geti lækkað. Ríkisstjórnin mun auðvitað gera allt sem í hennar valdi stendur til að vinna bug á verðbólgunni og ég tel að það séu að einhverju leyti jákvæð teikn á lofti í þeirri baráttu. Í því samhengi mun mitt ráðuneyti ekki láta sitt eftir liggja í samkeppnis- og neytendamálum.

Mig langar þessa kvöldstund að víkja að einu framtíðarmáli; auðlindum Íslands og baráttunni um auðlindir Íslands. Snemma á síðustu öld gengu stjórnmálin út á hina pólitísku baráttu við dönsk stjórnvöld, um fullveldið og sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar. Ekkert annað komst að í upphafi síðustu aldar. Um miðbik aldarinnar gekk baráttan út á efnahagslegt sjálfstæði og hvar við vildum staðsetja okkur í alþjóðasamvinnu. Hin nýja sjálfstæða þjóð fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast eignarhald yfir sjávarauðlindinni. Orrusturnar voru nokkrar en sigur hafðist í stríðunum, sem var upphafið að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Utanríkismálin urðu einnig mikið bitbein á þessum tíma þar sem hart var deilt um hina vestrænu samvinnu. Það var mikil framsýni á sínum tíma að taka afgerandi afstöðu með lýðræðisríkjum, gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu og leggja mikla rækt við opin utanríkisviðskipti. Farsæld Íslands er háð nánu samstarfi við þjóðir heimsins um verslun og viðskipti. Þessi pólitíska barátta skilaði landinu miklum auðæfum. Á skömmum tíma var byggt upp öflugt mennta- og heilbrigðiskerfi og undir lok síðustu aldar voru þjóðartekjur á hvern einstakling meðal þeirra hæstu í veröldinni. Gríðarleg umskipti höfðu orðið á mjög stuttum tíma hjá íslensku þjóðinni. Fyrri kynslóðir börðust fyrir betri framtíð lands og þjóðar og við njótum þess svo sannarlega í dag. Þegar samfélag eins og okkar nær svona góðum lífskjörum þá breytast baráttumálin og snúa að því að verja góða stöðu en líka að horfa til framtíðar og sækja fram.

Virðulegur forseti. Ísland býr yfir miklum auðlindum og hagkerfið ber þess merki; gjöful fiskimið, gríðarleg náttúrufegurð, mikið landrými, hreint vatn, endurnýjanleg orka og mikill félagsauður. Þessar auðlindir okkar eru mjög eftirsóknarverðar á heimsvísu og ljóst er að skortur verður á slíkum auðlindum í fyrirsjáanlegri framtíð. Barátta stjórnmálanna í dag snýst um auðlindir landsins og réttláta skiptingu arðs af þeim. Okkur ber að umgangast auðlindir landsins af sérstakri virðingu þar sem vallarsýnin er sjálfbær nýting þeirra.

Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið eigi að losa um hlut sinn í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti til innlendra eða erlendra fjárfesta. Það er alveg skýrt í mínum huga og í huga Framsóknar að ekki einn dropi verður einkavæddur í Landsvirkjun. Opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndartáknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í.

Kæru landsmenn. Við, okkar kynslóð, getum ekki skilað auðu í grænu umskiptunum og látið sem rafmagnið komi til okkar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orkuskiptin þurfa þó að fara leið samvinnunnar þar sem unnið er með sátt að uppbyggingu. Kæru landsmenn. Stjórnmál eru hreyfiafl sem við verðum að nýta til að takast á við þessar áskoranir og fleiri til. Þjóðin verður að sækja fram og fara í grænu orkuskiptin en gera það með ákveðna sátt að leiðarljósi. Það er til mikils að vinna því að í mínum huga er yndislegt að búa á Íslandi. — Eigið góðar stundir.“

***

Categories
Fréttir Greinar

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Deila grein

14/09/2023

Okkar kynslóð getur ekki skilað auðu

Snemma á síðustu öld gengu stjórn­mál­in út á hina póli­tísku bar­áttu við dönsk stjórn­völd, um full­veldið og sjálfs­ákvörðun­ar­rétt þjóðar­inn­ar. Um miðbik ald­ar­inn­ar gekk bar­átt­an út á efna­hags­legt sjálf­stæði og stefnu okk­ar í alþjóðasam­vinnu. Þjóðin fór í stríð við heimsveldi Breta til að öðlast for­ræði yfir sjáv­ar­auðlind­inni og bar­áttu­söngv­ar voru ort­ir á borð við texta Núma Þor­bergs­son­ar: „Þau eru svo eft­ir­sótt Íslands­mið, að ensk­ir þeir vilja oss berj­ast við.“ Sigr­ar unn­ust í þorska­stríðunum, sem var upp­hafið að efna­hags­legu sjálf­stæði þjóðar­inn­ar. Ut­an­rík­is­mál­in urðu einnig mikið bit­bein þjóðar­inn­ar á þess­um tíma, þar sem hart var deilt um hina vest­rænu sam­vinnu. Það var mik­il fram­sýni að taka af­ger­andi stöðu með lýðræðis­ríkj­um, ger­ast stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu og leggja mikla rækt við opin ut­an­rík­is­viðskipti. Far­sæld Íslands er háð nánu sam­starfi við þjóðir heims­ins um versl­un og viðskipti.

Þessi póli­tíska bar­átta skilaði land­inu mikl­um auðæfum. Á skömm­um tíma var byggt upp öfl­ugt mennta- og heil­brigðis­kerfi og und­ir lok síðustu ald­ar voru þjóðar­tekj­ur á hvern ein­stak­ling meðal þeirra allra hæstu í ver­öld­inni. Forfeður og –mæður okk­ar börðust fyr­ir betri framtíð lands og þjóðar og við njót­um þess í dag. Þegar sam­fé­lag eins og okk­ar nær svona góðum lífs­kjör­um, þá breyt­ast bar­áttu­mál­in og snúa að því að verja góða stöðu en líka horfa til framtíðar um með hvaða hætti það er gert.

Ísland býr yfir mikl­um auðlind­um og ljóst er að skort­ur verður á slíku í fyr­ir­sjá­an­legri framtíð. Okk­ur ber því enn rík­ari skylda til að um­gang­ast auðlind­irn­ar af sér­stakri virðingu þar sem vall­ar­sýn­in er sjálf­bær nýt­ing.

Reglu­lega skjóta upp koll­in­um hug­mynd­ir um að ríkið losi um hluti í Lands­virkj­un með ein­um eða öðrum hætti. Í raun er það hvell­skýrt í mín­um huga og okk­ar í Fram­sókn: það verður ekki einn vatns­dropi einka­vædd­ur í Lands­virkj­un. Um slíka ráðstöf­un yrði aldrei sam­fé­lags­leg sátt á Íslandi, enda þjón­ar slíkt ekki hags­mun­um okk­ar til framtíðar.

Það er skoðun mín að al­mennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þess­um at­vinnu­rekstri, en það er eng­um vafa und­ir­orpið að op­in­bert eign­ar­hald á Lands­virkj­un hef­ur reynst þjóðinni far­sælt og er í raun fyr­ir­mynd­ar tákn­mynd þess blandaða markaðshag­kerf­is sem við búum í.

Ég er sann­færð um að eign­ar­hald þjóðar­inn­ar á Lands­virkj­un muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frek­ari orku­öfl­un til að standa und­ir auk­inni lífs­gæðasókn í land­inu, enn traust­ari rík­is­fjár­mál­um og þeim grænu orku­skipt­um sem stuðla þarf að í þágu lofts­lags­mála. Þar get­um við Íslend­ing­ar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höld­um rétt á spil­un­um, með Lands­virkj­un okk­ar allra í broddi fylk­ing­ar.

Við, okk­ar kyn­slóð, get­um ekki skilað auðu og látið sem raf­magnið komi til okk­ar úr engu og af sjálfu sér. Grænu orku­skipt­in þurfa þó að vera unn­in á grund­velli sam­vinn­unn­ar enda eru virkj­an­ir og orku­mann­virki vanda­sam­ar stór­fram­kvæmd­ir. Það er til mik­ils að vinna ef rétt er haldið á spil­um, í þágu ís­lenskra hags­muna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2023.

Categories
Fréttir

Áframhald á framkvæmd Kvikmyndastefnu fyrir Ísland

Deila grein

12/09/2023

Áframhald á framkvæmd Kvikmyndastefnu fyrir Ísland

Í nýkynntu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 eru áætluð framlög til kvikmyndamála 3.915,6 m.kr. Þar af munu framlög til Kvikmyndasjóðs nema 1.114,3 m.kr. Í fjárlögum ársins 2023 var framlagið 1.288,9 m.kr. Breytingarnar skýrast annars vegar af því að tímabundinni hækkun á framlagi til að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði til framleiðslustyrkja úr Kvikmyndasjóði fellur niður og hins vegar af kröfu um aukið aðhald í ríkisfjármálum.

Mynd 1: Heildarframlög til kvikmyndamála árin 2017 –2024 á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Um er að ræða framlög til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Kvikmyndasjóðs, endurgreiðslukerfis í kvikmyndagerð og Kvikmyndasafns Íslands. Fjárhæðir fyrir árin 2023 og 2024 eru án endanlegra upphæða í endurgreiðslukerfi kvikmynda sem liggja fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga á haustin og ráðast af endanlegu umfangi kvikmyndaverkefna.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2024 verður 113 m.kr. af 500 m.kr. tímabundnu fjárfestingarframlagi til menningarmála vegna heimsfaraldursins varið til Kvikmyndasjóðs en framlaginu var frestað í fjárlagafrumvarpi ársins 2023 sem hluta af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þess að sporna gegn þenslu í efnahagslífinu. Þá verður 50 m.kr. af framlaginu varið til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og 20 m.kr. til Kvikmyndasafns Íslands vegna áframhaldandi vinnu við aðgerðir í Kvikmyndastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem Lilja Alfreðsdóttir menningarráðherra kynnti árið 2020.

Tæpur 1,3 milljarður í viðbótarframlög í Kvikmyndasjóð

Árin 2021 og 2022 var í fjárlögum úthlutað aukalega 460 m.kr., hvort ár um sig, í Kvikmyndasjóð auk 50 m.kr. viðbótarframlags til Kvikmyndamiðstöðvar vegna sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar vegna heimsfaraldurs. Þá er sjóðnum veitt 250 m.kr. aukaframlag á þessu ári til þess að standa undir fjármögnun verkefna sem þegar höfðu hlotið vilyrði eða notið skuldbindinga með samningi. Samtals munu tímabundin viðbótarframlög til Kvikmyndasjóðs vegna heimsfaraldursins og önnur aukaframlög nema 1.298 m.kr. fyrir tímabilið 2021-2024.

Mynd 2: Framlög í kvikmyndasjóð árin 2017-2024.

Áætluð framlög í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar árið 2024 eru 2.493,9 m.kr. Lækkun frá 2023 skýrist af framvindu verkefnisins True Detective sem var stærsta kvikmyndaverkefni hér á landi hingað til. Endanleg fjárhæð í endurgreiðslur í kvikmyndagerð hefur ákvarðast í fjáraukalögum hvers árs, þegar umfang verkefna á ársgrundvelli liggur fyrir.

Mynd 3: Framlög til endurgreiðslna árin 2017-2024. Fjárhæðir fyrir árin 2023 og 2024 eru án endanlegra upphæða í endurgreiðslukerfi kvikmynda sem liggja fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga á haustin og ráðast af endanlegu umfangi kvikmyndaverkefna. 

Endurgreiðslukerfinu var komið á árið 1999 og hafa umsvif kvikmyndagerðar aukist verulega, sérstaklega á síðustu árum, en endurgreiðslur vegna innlendra sem og erlendra verkefna hafa aukist. Á árinu 2022 nam hlutfall endurgreiðslna til innlendra verkefna 44% og 56% til erlendra.

Góður gangur í framkvæmd Kvikmyndastefnunnar

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt áherslu á að efla umhverfi kvikmyndagerðar á Íslandi í samræmi við Kvikmyndastefnu fyrir Ísland 2020-2030. Má þar meðal annars nefna hækkun endurgreiðsluhlutfalls í kvikmyndagerð úr 25% í 35%, tímabundin viðbótarframlög í Kvikmyndasjóð vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aukin framlög til náms í kvikmyndagerð á framhaldsskólastigi.

Fyrstu kvikmyndadeild landsins á háskólastigi við Listaháskóla Íslands var komið á laggirnar. Þar er nú boðið upp á 180 eininga BA nám með kjörsvið í leikstjórn, handritsgerð, framleiðslu, kvikmyndatöku, klippingu eða hljóðtækni. Þá hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands unnið að ýmsum verkefnum í samræmi við stefnuna sem snúa meðal annars að eflingu kvikmyndalæsis. Einnig má nefna vinnusmiðjur, mælaborð í samvinnu við fagfélög og áframhaldandi samstarf við fagfélög um bætt vinnuumhverfi og fleira.

Nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis og starfslaunasjóður kvikmyndahöfunda

Á þingmálaskrá menningar- og viðskiptaráðherra fyrir þingveturinn 2023-2024 er að finna frumvarp til laga um breytingu á kvikmyndalögum um framleiðslustyrki til lokafjármögnunar. Með frumvarpinu verður komið á nýjum styrkjaflokki innan Kvikmyndasjóðs sem ætlað er að styðja við framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Með breytingunni verður Kvikmyndasjóði heimilt að veita styrki með svipuðum skilyrðum um endurheimt og Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn enda er fyrirmynd breytinganna sótt þangað.

Þá ráðgerir menningar- og viðskiptaráðherra að kynna nýjan starfslaunasjóð kvikmyndahöfunda sem hluta af endurskoðun á starfslaunakerfi listamanna, en unnið hefur verið að breytingum á kerfinu sem ráðgert er að innleiða á næstu árum. Ofantaldar aðgerðir eru hluti af aðgerðum kvikmyndastefnu.

Sjá einnig: Fjárlagafrumvarpið fyrir 2024

Heimild: stjr.is

Categories
Greinar

Fjármögnun búnaðar vegna almannavarna á herðum einstakra sveitarfélaga

Deila grein

12/09/2023

Fjármögnun búnaðar vegna almannavarna á herðum einstakra sveitarfélaga

Síðustu ár hefur umræðan um búnaðarmál og menntun slökkviliða stöðugt aukist í tengslum við gróðurelda og aðrar almannavarnir. Í tengslum við þá umræðu voru skipaðir einhverjir starfshópan og nefndir m.a. var skipuð nefnd af ráðherra árið 2020 til að fara yfir þessi mál sem í framhaldinu skilaði inn skýrslu til HMS. Nefndina skipuðu reynslumiklir slökkviliðstjórar en sömuleiðis höfðu aðkomu af nefndinni aðilar frá Ríkislögreglustjóra, Almannavörnum, Landhelgisgæslunni og HMS.

Í þeirri skýrslu var m.a. nákvæmlega farið yfir búnaðarþörf í tengslum við viðbrögð m.v. landssvæðaskiptingu, forvarnarstarf og tækifæri sem gætu falist í sameiginlegum búnaði slökkviliða til að bregðast við gróðureldum. Því miður þá virðist sem ekki hafi verið unnið frekar með þá skýrslu eða aðrar þær tillögur sem var skilað inn eins og lagt var upp með. Í áhættumati almannavarna (2011) kemur fram að gróðureldahætta á Íslandi hafi aukist. Með hlýnandi veðurfari, breytingum á landbúnaði minnkandi beit og aukinni skógrækt hafa aðstæður breyst mikið á síðustu árum. Jafnfram hefur heilsárs búsetu á frístundasvæðum aukist í tengslum við þróun um störf óháð staðsetningu

Gróðureldar eru náttúruvá og ber að skilgreina sem slíka

Starfssvæði slökkviliðs Borgarbyggðar er dæmi um eitt áhættumesta gróðureldasvæði á landinu, sama má segja um starfssvæði Brunavarna Árnessýslu.En staðreyndin er sú að sveitarfélög eru almennt ekki nægilega vel í stakk búin búnaðarlega séð til að kljást við gróðurelda hér á landi. Í slökkvilið Borgarbyggðar býr mikil fagþekking ásamt sérþekkingu á viðbrögðum við gróðureldum sem hefur skapast með reynslu. Það blasir því við að tækifæri er til þess að í Borgarbyggð er upplagt svæði fyrir starfsstöð fyrir menntun fyrir slökkviliðsfólk.

Gróðureldar eru náttúruvá og ber að skilgreina sem slíka.

Viðbrögð við gróðureldum eiga sannarlega heima undir fjármagnsstoðum Almannavarna ríkisíns en ekki sveitarfélögum eins og núverandi skipulag gerir ráð fyrir. Ég þykist vita að sveitarfélögi í landinu eru fús til samstarfs í þessum málum en það er gríðarlega brýnt að unnið verði að markmiðum um sameiginlegan gróðureldabúnað og viðhaldsfjármagn með aðkomu hins opinbera.

Sveitarfélögin viðbragðsaðilar á þjóðvegi 1

Árið 2000 var björgun úr bílflökum skilgreind sem hlutverk slökkviliða, það voru jákvæðar breytingar enda slökkviliðsmenn með góða þekkingu á slíkum aðgerðum. Fjármögnun á nauðsynlegum björgunarbúnaði eins og klippum og glennum eru í dag á herðum hvers sveitarfélags fyrir sig. Umferð hefur aukist mikið síðust ár samhliða fjölgun ferðamanna og á aðeins eftir að vaxa. Þjóðuvegur 1 rennur í gegnum eða meðfram sveitarfélögum sem hafa ekkert bolmagn til að takast á við þá fjárfestingu sem slíkt viðbragð gerir ráð fyrir.

Viðbragðsaðilar treysta á að sá búnaður sem þarf til björgunar á starfssvæði hvers slökkviliðs sé góður. Staðan í dag er sú að á mörgum svæðum eru tækin gömul og ráða ekki við verkefnin og þróun bíla. Á yfirstandandi ári hefur samkvæmt slökkviliðsstjóra í Borgarbyggð t.a.m þurft að beita klippum 8 sinnum við björgun úr bílflökum í sveitarfélaginu.

Þeir einstaklingar sem starfa í viðbragðsgeiranum hafa áhyggjur af því að endurnýjun á búnaði sé ekki í takt við fjölgu ferðamanna og meiri umferð. Öryggi slökkviliðsmanna, viðbragðsaðila og vegfarenda þarf að tryggja.

Nauðynlegt er að ráðast sem fyrst í endurskilgreiningu á hlutverki og ábyrgð sveitarfélaga þegar kemur að fjármögnun búnaðar og viðbragðs tengt almannavörnum.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð og formaður stjórnar SSV.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. september 2023.

Categories
Greinar

Gjaldeyrisskapandi hagkerfi í Fjarðabyggð en tekjurnar skila sér illa til baka

Deila grein

10/09/2023

Gjaldeyrisskapandi hagkerfi í Fjarðabyggð en tekjurnar skila sér illa til baka

Ríkisstjórn Íslands kom til Egilsstaða í lok ágúst og átti þar góðan fund með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi. Þar var farið yfir helstu áherslumál sveitarfélaga og þær aðgerðir sem brýnt er að ráðast í sem fyrst til að samfélögin geti haldið áfram að vaxa og dafna. Þar er Fjarðabyggð ekki undanskilin, síðustu misseri hefur farið fram mikil uppbygging og búum við í ört stækkandi samfélagi.

Öflugt atvinnulíf og ört stækkandi samfélag

Atvinnulífið blómstrar sem aldrei fyrr og atvinnuleysi með því minnsta sem hægt er að finna eða 0,9%. Fjarðabyggð er það sveitarfélag sem hefur hvað hæðstu meðaltekjur á íbúa og jafnframt eitt fárra sveitarfélaga sem hefur meirihluta tekna sinna af framleiðslu.

Það er kannski ekki skrítið þar sem hér fer fram mikil framleiðsla á ýmsum varning og þá einna helst í sjávarútvegi, laxeldi og álframleiðslu. Það er gaman að segja frá því að Fjarðabyggð framleiðir 35,5 % af öllu því áli sem framleitt er á Íslandi, verðmæti á útfluttu áli frá Fjarðaáli eru 143 milljarðar og útfluttar sjávarafurðir ásamt fiskeldi frá Austurlandi eru að verðmæti 86,4 milljarðar sem eru 21,7 % af heildar útflutningi á Íslandi og er stór hlutur þess framleiddur í Fjarðabyggð.

Lítið sem kemur til baka og Suðurfjarðarvegur á þrotum

Því miður er staðan þó sú að aðeins lítill hluti þeirra tekna sem við skilum í þjóðarbúið skilar sér aftur til Fjarðabyggðar. Við höfum til að mynda kallað eftir því að framkvæmdum við Suðurfjarðarveg verði flýtt. Meðal annars vegna þungaflutninga sem fara hér um svæðið og þjónustu sem þarf að sinna með þungum tækjum, auk þess er vegkaflinn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar hættulegasti kaflinn á Þjóðvegi 1. Þetta er vegur sem tengir samfélagið okkar saman, Fjarðabyggð. Þar keyra íbúar Suðurfjarða á milli til að sækja vinnu, þjónustu og menntun svo eitthvað sé nefnt.

Ég skrifaði grein fyrr á árinu um mikilvægi þess að framkvæmdum við Suðurfjarðarveg yrði flýtt í nýrri samgönguáætlun. Það varð raunin en betur má ef duga skal því fyrstu framkvæmdir við hann eru ekki á áætlun fyrr en árið 2027, við getum ekki unað við þá bið. Fyrsti kafli Suðurfjarðarvegar sem á að hefja framkvæmdir við samkvæmt samgönguáætlun er Reyðarfjarðarbotn sem er vel þar sem brúin yfir Sléttuá er ein umferðaþyngsta einbreiða brú á Íslandi og strangar þungatakmarkanir á henni mjög hamlandi.

Ástand Suðurfjarðarvegar er farið að standa ákveðnum kjörnum Fjarðabyggðar fyrir þrifum, þar má tildæmis nefna Fáskrúðsfjörð sem er orðin einskonar eyland við hertar þyngdartakmarkanir á brú yfir Sléttuá og brú í botni Fáskrúðsfjarðar. Þetta stöðvaði þá uppbyggingu sem framundan var í Fáskrúðsfirði því ekki er hægt að koma krana á svæðið.

Að þetta sé staðan árið 2023 er ekki boðlegt. Á Fáskrúðsfirði er næg atvinna og góðir innviðir, nóg pláss í grunn- og leikskóla og fullt af lausum skipulögðum byggingarlóðum. Þetta hefur líka áhrif á atvinnulífið en þarna er blómlegur sjávarútvegur og fiskeldi sem oft þarf að þjónusta með þungum tækjum og krönum sem ekki er hægt að koma á svæðið. Það er mín trú að þingið taki þetta til umfjöllunar í haust og sjái og skilji þá erfiðu stöðu sem við erum komin í. Framkvæmdir við Suðurfjarðarveg voru settar á frest fyrir tæpum tuttugu árum, þá var þörf en nú er nauðsyn.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og skipulagsnefndar.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 9. september 2023.

Categories
Fréttir

Gunnar nýr formaður SUF

Deila grein

06/09/2023

Gunnar nýr formaður SUF

Liðna helgi fór fram 48. Sambandsþing Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) á Sauðárkróki. Þar sat ungt Framsóknarfólk og vann öflugt málefnastarf ásamt því að kjósa sér nýja stjórn og nýjan formann, Gunnar Ásgrímsson. Fráfarandi formaður SUF er Unnur Þöll Benediktsdóttir en hún hefur gegnt formennsku nú í tvö kjörtímabil.

Gunnar, nýr formaður, er 23 ára Skagfirðingur sem stundar nám í kennslufræði við Háskóla íslands og starfar sem stuðningsfulltrúi í Háteigsskóla. Gunnar hefur verið virkur í félagsstarfi flokksins og innan sambandsins síðan 2018, og síðustu þrjú árin setið í framkvæmdastjórn SUF, fyrst sem ritari en síðustu tvö ár sem varaformaður undir formennsku fráfarandi formanns, Unnar Þallar.

„Ég hlakka mikið til komandi starfsárs, við erum með flotta stjórn sem ég hef mikla trú á, en það eru stór verkefni framundan í vetur. Það verður flokksþing hjá Framsókn í vor þar sem við í SUF munum svo sannarlega láta í okkur heyra, eins og á öðrum viðburðum flokksins síðustu ár. Helstu verkefnin munu því tengjast málefnastarfinu okkar en einnig má búast við fjölbreyttu viðburðastarfi hjá okkur. Það hefur heppnast vel að halda svokölluð Skuggaráðuneyti, þar sem ungt Framsóknarfólk fær að spjalla við ráðherrana okkar, en einnig þeir Örfundir sem við höfum átt með þingmönnum og sveitarstjórnarfólki um hin ýmsu mál. Má því búast við miklu þetta ár og hvet ég því áhugasöm um að mæta á viðburði hjá okkur í vetur.“ – Gunnar Ásgrímsson.

Mörg deilu- og hitamál voru rædd á þinginu, þar á meðal útlendingamál, samgöngusáttmáli, heilbrigðismál, menntamál og hvalveiðar. Allar ályktanir þingsins verða birtar á samfélagsmiðlum SUF og hér á vefnum á næstu dögum.

Einnig var kosið í nýja stjórn SUF og er hún eftirfarandi:

  • Ágúst Guðjónsson
  • Berglind Sunna Bragadóttir
  • Díana Íva Gunnarsdóttir
  • Hafdís Lára Halldórsdóttir
  • Heiðdís Geirsdóttir
  • Hrafn Splidt Þorvaldsson
  • Inga Berta Bergsdóttir
  • Karel Bergmann Gunnarsson
  • Mikael Jens Halldórsson
  • Ólöf Rún Pétursdóttir
  • Skúli Bragi Geirdal
  • Urður Björg Gísladóttir

Á nýliðnu Sambandsþingi var unnið öflugt málefnastarf þar sem málefnum var skipt upp í fjóra flokka. Eftirfarandi eru þær ályktanir sem samþykktar voru á 48. Sambandsþingi SUF. 

Innviði, umhverfi, orka og loftslag

  • Ungt Framsóknarfólk vill að veiðar á hvölum verði lagðar af.
  • Ungt Framsóknarfólk telur brýnt að styðja við styrkingu innviða fjölfarinna ferðamannastaða á Íslandi til að þola ágang ásamt því að eðlilega dreifingu ferðafólks um allt land verði tryggð með því að leggja áherslu á staði sem færri ferðamenn sækja heim vegna ófullnægjandi innviða.
  • Ungt Framsóknarfólk styður samgöngusáttmála Höfuðborgarsvæðisins enda felur sáttmálinn í sér bættar samgöngur fyrir alla ferðamáta sem minnka eiga tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun.
  • Ungt Framsóknarfólk telur að huga eigi að betri nýtingu þeirrar raforku sem nú þegar er framleidd með jafnari nýtingu utan álagstíma. Til dæmis með vetnisframleiðslu að nóttu til.
  • Ungt Framsóknarfólk styður markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi og full orkuskipti eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti. Til að það markmið nái fram að ganga verður að auka framboð raforku í landinu og hvetur ungt Framsóknarfólk því ríkisstjórnina til þess að skoða frekari virkjunarkosti með sjálfbærni í huga.
  • Ungt framsóknarfólk vill minna á að í lok áratugarins þurfa öll ríki heimsins að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Því er nauðsynlegt að heimsmarkmiðin verði höfð enn frekar að leiðarljósi í vinnu ríkis og sveitarfélaga sem og fyrirtækja.
  • Ungt Framsóknarfólk vill að settar verði hömlur á hækkun leiguverðs húsnæðis í langtíma útleigu yfir fyrirfram ákveðið tímabil og samhliða verði þróun húsaleigubóta látin fylgja verðlagsþróun.

Heilbrigði og málefni eldra fólks

  • Ungt Framsóknarfólk vill að lausasala ólyfseðilskyldra lyfja verði gerð heimil í almennum verslunum.
  • Ungt Framsóknarfólk hvetur heilbrigðisráðherra til þess að tryggja getu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til þess að starfrækja á ný heilsugæslusel á Suðurnesjum samfara auknum áherslum á aðgengi og fyrirbyggjandi þjónustu í heilbrigðiskerfinu.
  • Ungt Framsóknarfólk skorar á háskólaráðherra að fullfjármagna nám í heilabilunarráðgjöf við Háskólann á Akureyri
  • Ungt Framsóknarfólk vill heimila blóðgjöf einstaklinga óháð kynhneigð og kynlífshegðun blóðgjafanna. Núverandi reglugerð er úrelt og útilokar stóran hóp hugsanlegra blóðgjafa ásamt því að hún er lituð af fordómum gagnvart hinsegin fólki
  • Ungt Framsóknarfólk vill ókeypis getnaðarvarnir fyrir fólk yngra en 25 ára á Íslandi.
  • Ungt Framsóknarfólk hvetur ráðuneyti háskólamála að nýta menntasjóð námsmanna til að efla stöðu heilbrigðisstarfsmanna á landsbyggðinni.
  • Ungt Framsóknarfólk fagnar því að samningar hafið náðst við ségreinalækna.
  • Ungt Framsóknarfólk fagnar því að sjúkratryggingar Íslands hækka greiðsluþátttöku til tannréttinga.
  • Ungt Framsóknarfólk vill að tryggt verði að heilsugæslur um allt land séu vel tækjum búnar og ákjósanlegur vinnustaður. Einnig leggur ungt Framsóknarfólk áherslu á að heilsugæslustöðvar séu vel aðgengilegar um allt land.

Efnahagur, utanríkismál, stjórnskipan, menning, mannréttindi og málefni innflytjenda

  • Ungt Framsóknarfólk vill að þau fornu íslensku handrit sem eru enn í vörslu í Danmörku verði flutt heim. Meðal þeirra sjöhundruð handrita sem eru enn eftir í Danmörku eru Heimskringla Snorra Sturlusonar, Snorra-Eddu handrit og Reykjabók Njálu sem er elsta heillega handrit Njálu. Það er táknrænt fyrir hina íslensku þjóð að þessum menningararfi verði skilað.
  • Ungt Framsóknarfólk hvetur stjórnvöld til þess að stytta og einfalda umsóknarferli fyrir dvalar- og atvinnuleyfi hérlendis.
  • Ungt Framsóknarfólk telur brýnt að skýrt sé kveðið á um hvað taki við eftir að einstaklingi er synjað um alþjóðlega vernd og grunnþjónusta fellur niður.
  • Ungt Framsóknarfólk ítrekar að skattþrep tekjuskatts verði endurskoðuð með reglubundnum hætti í samræmi við launaþróun, sem léttir skattbyrði lág- & meðaltekjufólks.

Atvinna, menntun og börn

  • Ungt Framsóknarfólk telur að hækka þurfi frítekjumark Menntasjóðs námsmanna í samræmi við verðlags- og launaþróun. Einstaklingar eiga ekki að verða fyrir óhóflegum skerðingum vinni þeir með námi.
  • Ungt Framsóknarfólk telur að þörf sé á auka stafræna miðlun kennsluefnis og fjölga þeim námsleiðum sem í boði eru í stafrænu námi og fjarnámi í ríkisreknum háskólum. Aðgengi að námi á ekki að vera háð búsetu, fjárhag eða fjölskylduaðstæðum.
  • Ungt Framsóknarfólk telur að viðurkenna þurfi leikskóla sem fyrsta skólastigið af löggjafanum. 
  • Ungt Framsóknarfólk telur að endurskoða þurfi stöðu dönskukennslu sem skyldufag í grunn- og framhaldsskólum
  • Ungt Framsóknarfólk telur að efla þurfi vægi samfélagsgreina og lífsleikni í aðalnámskrá grunnskólanna.

Unni Þöll er þakkað fyrir vel unnin störf!

Í dag skila ég af mér minu stærsta verkefni hingað til, formennsku í Sambandi ungra Framsóknarmanna. Ég óska nýrri…

Posted by Unnur Þöll Benediktsdóttir on Sunnudagur, 3. september 2023
Categories
Fréttir Greinar

Ekki einn dropi einka­væddur í Lands­virkjun

Deila grein

06/09/2023

Ekki einn dropi einka­væddur í Lands­virkjun

Allar götur frá stofnun árið 1965 hefur Landsvirkjun í almannaeigu verið burðarás í íslensku atvinnulífi og stuðlað að nýtingu orkuauðlinda landsins til að standa undir aukinni verðmætasköpun í íslensku efnahagslífi. Virkjanir og orkumannvirki eru vandasamar stórframkvæmdir sem fólk hefur sterkar skoðanir á og snerta samspil við náttúruvernd, byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Þrátt fyrir umdeilt eðli virkjanaframkvæmda, tel ég að það sé þó eitt sem mikil meirihluti þjóðarinnar geti verið sammála um: að Landsvirkjun verði áfram í fullri samfélagslegri eigu.

Reglulega skjóta upp kollinum hugmyndir um að ríkið losi um hluti í Landsvirkjun með einum eða öðrum hætti, nú síðast í þættinum Dagmál á vefnum MBL. Þar viðraði forstjóri Kauphallarinnar leiðir til þess að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, meðal annars með að ríkið seldi 20% hlut í Landsvirkjun sem væri til þess fallið að laða að erlenda fjárfesta bæði vegna stærðar félagsins en einnig vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun.

Ég get tekið undir með forstjóra Kauphallarinnar að það sé mikilvægt að efla hlutabréfamarkaðinn á Íslandi, dýpka hann, fjölga félögum og stuðla að skilvirkari verðmyndum íslenskra fyrirtækja. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með fjölgun félaga í Kauphöllinni undanfarin ár sem gefur fólki fleiri kosti á að fjárfesta í íslensku atvinnulífi með greiðum hætti.

Hins vegar er ég ósammála forstjóra Kaupahallarinnar að Landsvirkjun eigi að vera kostur í því að dýpka hlutabréfamarkaðinn til þess að laða að erlenda fjárfesta, meðal annars einmitt vegna þeirrar sérstöðu sem fyrirtækið hefur í orkuöflun hér á landi og því þjóðhagslega mikilvæga hlutverki sem fyrirtækið gegnir fyrir land og þjóð. Í raun er það hvellskýrt í mínum huga og okkar í Framsókn: það verður ekki einn vatnsdropi einkavæddur í Landsvirkjun. Um slíka ráðstöfun yrði aldrei samfélagsleg sátt á Íslandi, enda þjónar slíkt ekki hagsmunum okkar til framtíðar.

Það er skoðun mín að almennt eigi ríkið ekki að standa í hinum og þessum atvinnurekstri, en það er engum vafa undirorpið að opinbert eignarhald á Landsvirkjun hefur reynst þjóðinni farsælt og er í raun fyrirmyndar táknmynd þess blandaða markaðshagkerfis sem við búum í. Þess vegna á ekki að ráðast í breytingar eignarhaldinu, breytinganna vegna. Ég er sannfærð um að eignarhald þjóðarinnar á Landsvirkjun muni skipta enn meira máli í framtíðinni, þar sem ráðast þarf í frekari orkuöflun til að standa undir aukinni lífsgæðasókn í landinu, enn traustari ríkisfjármálum og þeim grænu orkuskiptum sem stuðla þarf að í þágu loftslagsmála. Þar getum við Íslendingar orðið leiðandi á heimsvísu ef við höldum rétt á spilunum, með Landsvirkjun okkar allra í broddi fylkingar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2023.