Categories
Greinar

Göngum ekki frá ó­kláruðu verki

Deila grein

06/09/2023

Göngum ekki frá ó­kláruðu verki

Flest okkar þurfa að koma og fara enda vilja sennilega fæst okkar vera alveg föst á sama stað. Í það minnsta þurfum við að eiga þess kost að ferðast hindrunarlítið á milli staða. Það er ólíkt eftir aðstæðum, þörfum og jafnvel tímabilum í lífi fólks hver ferðamátinn er. Ólíkar þarfir og ferðamátar kalla á samfellu í skipulagi og skýra framtíðarsýn. Það þarf að tryggja að innviðirnir tali saman á milli sín og á milli bæjar- og borgarhluta hvort sem um er að ræða eldri byggðir eða ný hverfi. Eitt má ekki vinna gegn öðru.

Tímamót voru mörkuð þegar ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjórum árum. Sáttmála um sameiginlega framtíðarsýn samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Sáttmálinn tekur á ofangreindum þáttum og skýrir hvernig við ætlum að byggja upp skilvirka samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Hvar byggja skal brýr, leggja stofnvegi, stýra umferðarljósum o.s.frv. Það sem meira er að sáttmálinn felur í sér áform um bættar samgöngur fyrir alla ferðamáta, en ekki bara bættar almenningssamgöngur eins og stundum er haldið fram. Uppbygging almenningssamganga er þó gífurlega mikilvægur liður í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega m.t.t. aukinnar fólksfjölgunar og aukins álags á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins síðustu ár. Uppbygging innviða fyrir fjölbreytta ferðamáta stuðlar þá að því að fólk hafi raunverulegt val um þann samgöngumáta sem því hentar, hvort sem það er fjölskyldubíllinn eða almenningssamgöngur. Markmiðið er mjög verðugt, að auka öryggi vegfaranda og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga. Við viljum ekki sitja föst tímum saman í umferðinni í stressi yfir því að ná ekki í börnin í leikskóla eða í vinnu í tæka tíð, geta ekki búið við stofnvegi vegna mengunar eða geta ekki treyst á almenningssamgöngur við leik og störf. Við viljum byggja borg sem mætir kröfum samtímans og horfir til framtíðar.

Nú liggur fyrir vinna í uppfærslu sáttmálans enda ljóst að breytingar á verðlagi og verðbólga hefur áhrif á kostnaðaráætlun sáttmálans eins og komið hefur fram í umræðunni síðustu misseri. Það er eðlileg krafa að vel sé haldið utan um fjármögnun og framkvæmdakostnað sáttmálans og unnið sé að uppfærslu sáttmálans með það fyrir augum að tryggja að vel sé farið með almannafé. Af og frá er þó að slá sáttmálann, sem öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins og ríkið komu sér saman um, út af borðinu vegna efasemda einstakra aðila um verkefnið. Það er nú einu sinni þannig að meginregla íslensk samningaréttar er að samninga skal halda. Höldum áfram að vinna í takt að þessu stóra samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Nú er ekki tíminn til að ganga frá ókláruðu verki þótt á móti blási, eins og fjármálaráðherra orðaði það svo vel nýlega.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raf­magns­leysi

Deila grein

05/09/2023

Raf­magns­leysi

Rafmagn er grundvallarorkugjafi okkar. Það lýsir upp heimili okkar og án þess gæti verið flókið að elda kvöldmatinn, þvo þvott og geyma matvæli. Þá er rafmagn mikilvægt í heilbrigðisþjónustu þar sem það knýr áfram lífsnauðsynleg lækningatæki. Sífellt fleiri rafmagnsbílar koma á göturnar, jafnvel rafmagnsflutningabílar.

Auk þess er rafmagn notað á öllum sviðum atvinnulífsins. Ekkert okkar gæti hugsað sér að lifa lífi án rafmagns líkt og forfeður okkar gerðu áður fyrr. Rafmagnið er okkur í dag jafn mikilvægt og vatnið.

Hvað þarf til?

Hreyfiafl breytinga eru af ýmsum toga en oftar en ekki eru það bæði innri ytri áhrifaþættir sem skapa nýjar þarfir og hraða þróun. Við höfum á undanförnum árum heyrt rætt um framtíðarþarfir á sviði orkumála, hugsanlegan orkuskort, sem í huga margra Íslendinga hljómar sem fjarlægur veruleiki.

En er hann svo fjarlægur?

Við erum lánsöm að búa í landi sem framleiðir endurnýjanlega græna orku. Jafnt og þétt bætist í orkuþörf, ekki bara hér á landi heldur alls staðar í heiminum. Sérfræðingar hafa bent á aukna orkuþörf hér á landi í takt við aukinn fjölda íbúa og vaxandi atvinnulíf. Tryggja þarf að á hverjum tíma sé næg græn orka í boði fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Ég þarf ekki að tíunda í þessari grein hvaða afleiðingar orkuskortur kann að hafa fyrir atvinnuuppbyggingu og fyrirhuguð orkuskipti í landinu.

Að vinna bug á orkuskorti krefst margvíslegra aðgerða. Ekki bara það að virkja meira. Til dæmis þarf að draga úr sóun á orkunni okkar með öflugra dreifikerfi og horfa þarf til notkunar á fleiri nýtingarvalmöguleikum, þ.e. orkukosta á borð við vind, sjávarfall og jafnvel fleiri sem koma til með að vera nýttir í meiri mæli í framtíðinni.

Höfum við brugðist við?

Yfirstandandi stríð og heimsfaraldur hafa hvort á sinn hátt fært okkur nær því að horfast í augu við mikilvægi sjálfbærni þjóðarinnar m.a. í orkumálum. Þannig þurfum við að horfa á heildarþarfir landsins, en um leið að horfa á öryggi innan hvers landshluta og svæðis. Þegar betur er að gáð sjáum við að það búa ekki allir við sömu gæði og öryggi í orkumálum.

Við þurfum bæði að hugsa til lengri og skemmri tíma þegar við horfum til breytinga. Þá bæði hvað varðar alla heildina og möguleika í stærri og smærri einingum. Það er mitt mat að tækifærin leynast víða, tækifæri sem við eigum að nýta til lengri og skemmri tíma. Hugsanlega getum við einnig styrkt innviði fyrr með breyttu verklagi og betri nýtingu á því sem fyrir er.

Nauðsynlegar úrbætur stjórnvalda

Það skiptir miklu máli að uppbygging raforkukosta og dreifingu raforkunnar geti haldið áfram í takt við stórauknar þarfir. Viðbrögð og geta innra stjórnkerfis okkar er of hægfara og þung. Lagaumhverfi rammaáætlunar þarf að endurskoða því eins og staðan er í dag líða mörg ár frá umsókn um leyfi þar til að rafmagnið skilar sér til notanda. Því þurfum við að kappkosta að vinda ofan af þeim flækjum við ákvarðanatöku, en ekki síður að minnka kostnað við umsýslu þegar við tökum ákvarðanir um orkunýtingu. Þó þannig að ekki verði á nokkurn hátt minnkuð krafa um rannsóknir og náttúruvernd. Löng og farsæl virkjanasaga síðustu 100 ára segir okkur að vernd og nýting geta haldist í hendur.

Einnig er kallað eftir skýrari afstöðu ríkisins til nýtingar á eigin vatnsréttindum. Ég tek heilshugar undir að mikilvægt er skýra þá afstöðu, bæði til lengri og skemmri tíma. Samningaferlið við landeigendur og vatnsréttarhafa er langt og stundum erfiðasti hjallurinn í virkjunarmálum. Í flestum tilfellum þarf að ræða við og ná saman við stóran hóp með ólíkar skoðanir og samningsmarkmið. En það eitt að hefja viðræður við landeigendur um nýtingu orku gæti flýtt nýjum og smærri virkjanakostum til muna. Ríkisvaldið hefur fram til þessa ekki viljað ræða við rekstraraðila um leigu á vatnsréttindum og landnotkun fyrr en verkefni hefur verið samþykkt í nýtingarflokk af Alþingi. Þessu væri hægt að breyta auðveldlega og þar með stytta heildarvinnslutímann á þann hátt að hefja samningaviðræður samhliða ferli rammaáætlunar með fyrirvara um að viðkomandi verkefni verði samþykkt í nýtingarflokk.

Þó að við viljum flýta okkur hægt og vinna eftir vel ígrunduðu ferli vil ég þó í lokin staldra við tímamörk, því vissulega þarf fleira að koma til. Þar vil ég benda á möguleika sem við höfum til að bæta gæði stjórnsýslu er varðar lögbundnar umsagnir, en þar koma fjölmargir aðilar að. Frestir eru langir í ferlinu en þrátt fyrir það þarf ítrekað að lengja tímafresti vegna umsagnaraðila á ýmsum vinnslustigum. Hver frestur hefur mikil áhrif á þann tíma sem ferlið tekur og vinnur gegn okkar markmiðum um frekari orkuöflun. Við þessu þarf að bregðast.

Allt þetta hafa sérfræðingar ítrekað bent á. Orkuþörfin er áríðandi og það blasir við að alvarlegur orkuskortur muni raungerast ef engu er breytt. Umræðan hefur átt sér stað meðal þeirra sem starfa við raforkuframleiðslu og dreifingu og víðar í langan tíma. Það er þó löngu tímabært að ganga í aðgerðir og láta hugmyndir okkar verða að veruleika.

Þörfin varðar ekki einungis atvinnulífið heldur heimilin okkar líka. Við þurfum að nýta orkuna og innviðina skynsamlega, finna leiðir að settu marki og tryggja öllum örugga orku hvar sem þeir búa á landinu. Það hlýtur að vera réttlætismál sem knýr okkur öll áfram. Enginn vill vera rafmagnslaus í miðju óveðri aftur.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. september 2023.

Categories
Fréttir

„Við leggjum grunn að farsældarstefnu til næstu ára“

Deila grein

05/09/2023

„Við leggjum grunn að farsældarstefnu til næstu ára“

Brugðið á leik í hópvinnu á Farsældarþingi - mynd
Brugðið á leik í hópvinnu á Farsældarþingi

Alls tóku yfir 1.100 manns þátt í Farsældarþingi sem mennta- og barnamálaráðuneytið stóð fyrir í Hörpu í dag, þar af voru um 700 manns á staðnum. Á þinginu fór fram víðtækt samtal fagfólks, þjónustuveitenda, stjórnvalda, barna og aðstandenda um farsæld barna og er þingið mikilvægur liður í stefnumótun og áætlanagerð þegar kemur að innleiðingu laga um farsæld barna. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra opnaði þingið og kynnti nýjan vef og mælaborð um farsæld barna.

Fundað var í Silfurbergi og Norðurljósum í Hörpu

Innleiðing farsældarlaganna er í fullum gangi á vettvangi sveitarfélaga, framhaldsskóla, heilbrigðiskerfisins og innan lögreglunnar. Kerfi íþrótta og tómstunda hafa þar einnig miklu hlutverki að gegna. Hefur ráðherra lagt áherslu á gott samtal og samstarf ólíkra aðila og er farsældarþing öflugt tæki til að auðvelda þessum ólíku kerfum að stilla saman strengi með samþættingu og farsæld barna að leiðarljósi.

Það eru 1.000 manns (+ nokkur hundruð með streymi) í Hörpu núna að skipuleggja næstu skref þegar kemur að farsæld barna….

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Mánudagur, 4. september 2023

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra opnaði formlega nýjan vef um þjónustu í þágu farsældar barna þar sem farið er yfir forsendur og framkvæmd samþættingar þjónustunnar. Þá sýndi hann mælaborð um farsæld barna sem hefur verið í þróun frá árinu 2019 og verður formlega opnað á næstunni. Aðalmarkmiðið með mælaborðinu er að draga fram heildstæða mynd af farsæld barna hér á landi fyrir ríki og sveitarfélög á grundvelli þeirra fjölþættu tölfræðigagna sem til staðar eru.

„Ég er ótrúlega þakklátur þessum mikla fjölda fólks sem tók þátt í Farsældarþinginu vegna þess að það er svo mikilvægt að við heyrum í öllum þessum ólíku aðilum sem starfa með börnum alla daga. Þá vil ég sérstaklega þakka þeim 38 börnum sem voru með okkur hér í dag og tóku þátt í vinnunni. Ég hef lagt á það ríka áherslu að við fylgjumst vel með innleiðingu farsældarlaganna og að við getum samhliða átt opið og hreinskilið samtal, þar sem við gerum upp það sem hefur gengið vel og ræðum hvað hefur síður gengið eftir – og það var meðal annars markmiðið með Farsældarþinginu, ásamt því að við leggjum grunn að farsældarstefnu til næstu ára,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Börn tóku þátt og komu sínum sjónarmiðum að á þinginu

Upptöku af Farsældarþingi má nálgast hér: 

https://vimeo.com/event/3674241/embed

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Deila grein

05/09/2023

Það er borð fyrir báru hjá bönkunum

Ný­verið var kynnt skýrsla um gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna sem er afrakst­ur vinnu starfs­hóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neyt­enda og sam­keppn­isaðstæður á inn­lend­um banka­markaði þar sem m.a. yrði litið til gagn­sæi þókn­ana, vaxta­kostnaðar, gjald­töku og annarra kostnaðarliða sem neyt­end­ur bera. Þá vann hóp­ur­inn einnig grein­ingu á tekju­mynd­un stóru viðskipta­bank­anna þriggja ásamt því að gera sam­an­b­urð á starfs­hátt­um viðskipta­banka á Norður­lönd­un­um með til­liti til tekju­mynd­un­ar, einkum vaxtamun­ar.

Það eru áhuga­verðar niður­stöður sem koma fram í skýrsl­unni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðar­hlut­föll bank­anna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sam­bæri­leg og hjá svipuðum bönk­um á hinum Norður­lönd­un­um. Hins veg­ar hef­ur auk­in hag­kvæmni í rekstri bank­anna og lækk­un sér­staka banka­skatts­ins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neyt­enda, en hins veg­ar komið fram í bættri arðsemi bank­anna. Þá dró skýrsl­an einnig fram að sum þjón­ustu­gjöld eru ógagn­sæ og ekki alltaf ljóst hvað neyt­end­ur eru að greiða fyr­ir. Í því ljósi er meðal ann­ars vert að benda á gjald­töku ís­lensku bank­anna af kortaviðskipt­um í er­lendri mynt sem er dul­in en veg­ur engu að síður þungt í út­gjöld­um heim­il­anna fyr­ir fjár­málaþjón­ustu. Geng­isálag bank­anna á korta­færsl­ur sker sig tölu­vert úr ann­arri gjald­töku því að álagið kem­ur hvergi fram í verðskrám bank­anna og virðist vera breyti­legt milli gjald­miðla og frá ein­um tíma til ann­ars. Með ein­földuðum hætti má áætla að heim­il­in hafi greitt bönk­un­um um 6,6 ma.kr. í geng­isálag ofan á al­mennt gengi árið 2022 fyr­ir það að nota greiðslu­kort sín í er­lend­um færsl­um. Það sem kom mest á óvart var að korta­gengið er óhag­stæðara en svo­kallað seðlag­engi sem al­mennt er óhag­stæðasta gengið hjá bönk­um.

Tals­verð umræða hef­ur spunn­ist um niður­stöður skýrsl­unn­ar og hef­ur meðal ann­ars verið bent á það að vaxtamun­ur heim­ila hafi aldrei verið lægri. Á móti kem­ur hins veg­ar að vaxtamun­ur á fyr­ir­tæki er í há­marki og auðvitað er því velt yfir í verðlagið sem al­menn­ing­ur borg­ar.

Það skipt­ir miklu máli fyr­ir sam­fé­lagið að hér sé starf­rækt öfl­ugt banka­kerfi enda er hlut­verk banka veiga­mikið í að styðja við aukna verðmæta­sköp­un í land­inu. Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur mik­ill hagnaður bank­anna komið til umræðu og hef­ur vakið spurn­ing­ar um jafn­vægi í grein­inni og stöðu neyt­enda. Ég stend við það sem kem­ur fram í skýrsl­unni og tel að bank­arn­ir hafi rými til þess að gera bet­ur við neyt­end­ur, hvort sem það er fólk eða fyr­ir­tæki. Sú arðsemi sem birt­ist í upp­gjör­um bank­anna er mik­il og í ofanálag sýna töl­ur að vaxtamun­ur og arðsemi vaxi enn á þessu ári.

Stærsta hags­muna­mál sam­fé­lags­ins er að ná verðbólg­unni niður og þar verða all­ir að leggja sitt af mörk­um og er banka­kerfið ekki und­an­skilið því. Sú upp­byggi­lega umræða sem hef­ur átt sér stað í kjöl­far skýrsl­unn­ar er af hinu góða enda snerta neyt­enda­mál okk­ur öll. Sem ráðherra neyt­enda­mála mun ég láta upp­færa skýrsl­una ár­lega til að stuðla að upp­lýstri umræðu um þessi mál, sam­fé­lag­inu til hags­bóta.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinu

Deila grein

04/09/2023

Bankarnir geta gert betur fyrir fólkið í landinu

Í öllum þjóðfélögum er mikilvægt að allir standi neytendavaktina, ekki síst á verðbólgutímum. Nýverið var kynnt skýrsla um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem er afrakstur vinnu starfshóps sem ég skipaði til þess að skoða stöðu neytenda og samkeppnisaðstæður á innlendum bankamarkaði þar sem m.a. yrði litið til gagnsæi þóknana, vaxtakostnaðar, gjaldtöku og annarra kostnaðarliða sem neytendur bera. Þá fól ég hópnum að gera greiningu á tekjumyndun stóru viðskiptabankanna þriggja ásamt því að gera samanburð á starfsháttum viðskiptabanka á Norðurlöndunum með tilliti til tekjumyndunar, einkum vaxtamunar, og hvers kyns þóknana og gjaldtöku af almenningi, sem meðal annars horfði til Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið frá árinu 2018. Hópnum var einnig falið að vinna tillögur.

Bankar eru samfélagslega mikilvægar stofnanir og sterkt bankakerfi er nauðsynlegt til að viðhalda öflugu hagkerfi og atvinnulífi. Það er mikilvægt að bankar njóti almenns trausts í samfélaginu svo þeir geti stuðlað að heilbrigðu viðskiptalífi og þar af leiðandi aukinni verðmætasköpun fyrir samfélagið. Á undanförnum misserum hefur mikill hagnaður bankanna komið til umræðu og hefur vakið hafa upp spurningar um jafnvægi í greininni og stöðu neytenda. Ég tel að þessi nýja skýrsla sé upplýsandi innlegg í þá umræðu.

Meiri vaxtamunur og aukin arðsemi

Það eru áhugaverðar niðurstöður sem koma fram í skýrslunni. Þar ber þó helst að nefna að kostnaðarhlutföll bankanna hafa lækkað á síðustu árum og eru orðin sambærileg og hjá svipuðum bönkum á Norðurlöndunum. Hins vegar hefur aukin hagkvæmni í rekstri bankanna og lækkun sérstaka bankaskattsins ekki skilað sér í minni vaxtamun til neytenda, en hins vegar komið fram í bættri arðsemi bankanna. Þannig er vaxtamunur heildareigna, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af heildareignum banka, töluvert meiri en á Norðurlöndunum þrátt fyrir svipuð kostnaðarhlutföll og svipaða arðsemi síðastliðin tvö ár. Árin 2021 og 2022 náðu bankarnir arðsemismarkmiði sínu eftir að hafa verið undir því í mörg ár þar á undan og var hún svipuð og hjá norrænum bönkum af samfélagslegri stærð.

47 milljarðar í erlendra greiðslumiðlun

Kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar, sem má líkja við pípulagnir fyrir greiðslur, er mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Sökum mikillar notkunar alþjóðlegra greiðslukorta hér á landi er kostnaður við greiðslumiðlun sem hlutfall af landsframleiðslu mun hærri hér en á hinum Norðurlöndunum. Þessi aukni kostnaður við greiðslumiðlun skilar sér í hærra verði á vöru og þjónustu til íslenskra neytenda, sem bera á endanum kostnaðinn. Seðlabankinn áætlar að kostnaður samfélagsins af notkun greiðslumiðla hér á landi á árinu 2021 hafi verið um 47 ma.kr. eða um 1,43% af vergri landsframleiðslu. Þar af var kostnaður vegna greiðslukorta ríflega 20 ma.kr. Greiðslumiðlunin er að miklu leyti á ábyrgð færsluhirða en ekki bankanna, og stærstu færsluhirðar landsins eru í erlendri eigu.

Þörf á meira gegnsæi í verðlagningu

Það kemur fram að útgjöld vegna fjármálaþjónustu (að vaxtagjöldum undanskildum) vegur ekki þungt í heildarútgjöldum heimilanna skv. útgjaldarannsókn Hagstofunnar en þau hafa lækkað að raunvirði. Er áætlað að þau séu áætluð 0,4% af heildarneysluútgjöldum meðalheimilis á Íslandi. Hins vegar eru sum þjónustugjöld ógagnsæ og ekki alltaf ljóst hvað neytendur eru að greiða fyrir. Í því ljósi er meðal annars vert að benda á gjaldtöku íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sem er dulin en vegur engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu. Gengisálag bankanna á kortafærslur sker sig töluvert úr annarri gjaldtöku því að álagið kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars. Hjá dæmigerðu ungu pari getur kostnaður við gengisálag bankanna numið um 30% af heildarkostnaði við bankaþjónustu á ári. Með einfölduðum hætti má áætla að heimilin hafi greitt bönkunum um 6,6 ma.kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum.

Stóru málin og næstu skref

Eins og fram kom að ofan hefur vaxtamunur verið að aukast. Þegar uppgjör bankanna það sem af eru ári eru skoðuð er hann enn að aukast. Ég tel eðlilegt að bankarnir minnki vaxtamuninn og skipti þannig ávinningum með neytendum á sanngjarnari hátt. Sér í lagi þegar að vaxtamunurinn er enn þá að aukast en í árshlutauppgjörum fyrir árið 2023 má sjá hann aukast enn frekar. Það á ekki að vera náttúrulögmál að það halli á neytendur með þessum hætti. Þá er jafnframt mikilvægt að bankarnir bæti gagnsæi í gjaldtöku sinni hjá viðskiptavinum.

Kostnaður við erlendra greiðslumiðlun er of hár, en það er einnig þjóðaröryggismál að Ísland búi að innlendri greiðslumiðlun líkt og önnur ríki. Hefur forsætisráðherra meðal annars boðað frumvarp um innlenda greiðslumiðlun sem myndi auka efnahagslegt þjóðaröryggi Íslands. Jákvæð hliðaráhrif slíkra breytinga væri umtalsverður sparnaður fyrir þjóðfélagið, sem ætti á skila sér í lægra vöruverði til neytenda.

Aukið aðhald í þágu neytenda

Það er samfélagslegur ávinningur fólginn í öflugri neytendavakt en sú vakt þarf að vera samvinnuverkefni okkar allra. Þessi skýrsla er liður í því, en sem ráðherra neytendamála hyggst ég láta uppfæra hana árlega í þágu heimila og fyrirtækja í landinu og stuðla þannig að auknu aðhaldi og umræðu um þau kjör sem bjóðast hjá viðskiptabönkunum.

Ég vil þakka starfshópnum fyrir vel unnin störf en hann skipuðu fulltrúar menningar- og viðskiptaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Neytendasamtakanna, Hagsmunasamtaka heimilanna, Alþýðusambands Íslands, Samstaka fjármálafyrirtækja og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Nánari niðurstöður og tillögur er að finna í skýrslunni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. september 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ójafn leikur í samkeppni við innflutning

Deila grein

01/09/2023

Ójafn leikur í samkeppni við innflutning

Um þess­ar mund­ir eru bænd­ur að fara að sækja fé sitt af fjalli og skila inn til slátr­un­ar. Heil­næm­ari fæðu er vart að finna í heim­in­um en ís­lenskt lamba­kjöt. Íslenska sauðféð býr við aðstæður sem eru ein­stak­ar og þekkj­ast ekki víðast hvar. Villi­bráðin sem lif­ir úti í nátt­úr­unni og drekk­ur ís­lenska lind­ar­vatnið. Í land­búnaði hér­lend­is eru sýkla­lyf og eit­ur­efni ekki mæl­an­leg.

Í vor fékk ís­lenskt lamba­kjöt upp­runa­vott­un frá Evr­ópu­sam­band­inu. Um er að ræða vott­un með til­vís­un til upp­runa eða „Protected Designati­on Of Orig­in“ (PDO), og fær ís­lenskt lamba­kjöt nú að bera merki vott­un­ar­inn­ar í markaðssetn­ingu. Það á að stuðla að neyt­enda­vernd, auka virði afurða og koma í veg fyr­ir órétt­mæta viðskipta­hætti.

Inn­flutn­ing­ur á lamba­kjöti hef­ur færst í vöxt á und­an­förn­um árum og er það bæði selt í mat­vöru­versl­un­um hér­lend­is og einnig á veit­inga­markaði, meðal ann­ars mötu­neyt­um og veit­inga­hús­um. Færst hef­ur í vöxt að minni kjötvinnsl­ur kaupi slík­ar afurðir og end­ur­selji á veit­inga­markaði, þíði kjötið sem kem­ur frosið til lands­ins, leggi í krydd­lög og selji svo til stór­eld­húsa og mat­vöru­versl­ana.

Slíkt at­hæfi get­ur verið afar vill­andi fyr­ir neyt­end­ur, þar sem pakkn­ing­ar sem er­lenda lamba­kjötið eru í eru oft á tíðum með ís­lensk­um fánarönd­um eða alla­vega ís­lenskt nafn á kjötvinnsl­unni.

Þú, sem neyt­andi, get­ur ekki verið þess full­viss þegar þú borðar á veit­inga­húsi eða í mötu­neyti á þínum vinnustað að lamba­kjötið sé frá Íslandi. Þetta er sá veru­leiki sem við búum við í dag.

Fjög­ur fyr­ir­tæki skiptu með sér toll­kvóta fyr­ir inn­flutn­ing á 345.000 kg af kinda- eða geita­kjöti á tíma­bil­inu 1. júlí 2022 til 30. júní 2023. Meðal­verð toll­kvót­ans var ein króna. Stjörnugrís ehf. fékk út­hlutað 280.929 kg, Ekr­an ehf. fékk 40.000 kg, Innn­es ehf. 20.000 kg og Sam­kaup 4.071 kg.

Á tíma­bil­inu frá júlí 2022 til og með fe­brú­ar 2023 hafa 14.606 kg af kinda- eða geita­kjöti verið flutt hingað til lands, lang­mest, eða 14.209 kg, frá Spáni.

Hækka þarf taf­ar­laust tolla á inn­flutt lamba­kjöt til þess að verja ís­lenska bænd­ur sem eru að berj­ast fyr­ir til­vist sinni á markaðnum þar sem inn­flytj­end­ur vinna mark­visst að því að und­ir­bjóða ís­lenska bænd­ur.

Með því að setja skorður á inn­flutn­ing­inn og hækka vernd­artolla stuðlum við sem þjóð að betri starfs­skil­yrðum bænda og vinn­um mark­visst að því að tryggja sjálf­bærni og um leið fæðuör­yggi ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar og formaður bæj­ar­ráðs í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31.ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Loft­brú – já­kvæðar fjár­festingar í þágu barna

Deila grein

31/08/2023

Loft­brú – já­kvæðar fjár­festingar í þágu barna

Við Íslendingar leggjum mikla áherslu á öflugt íþróttastarf. Það stuðlar að aukinni heilsu, öflugum forvörnum auk þess sem það eflir félagslegan þroska, og er börnum og ungmennum sérstaklega jákvæð reynsla. Nær öll ungmenni hér á landi stunda einhverja íþrótt og sum jafnvel fleiri en eina. Við sjáum þau jákvæðu áhrif sem virk þátttaka í skipulögðu íþróttastarfi hefur á börnin okkar, áhrif sem fylgja þeim út í lífið.

Íþróttaiðkun getur þó verið kostnaðarsöm. Foreldrar og forráðamenn greiða æfingagjöld auk þess sem annar kostnaður fellur til líkt og kaup á viðeigandi búnaði, keppnis- og/eða æfingaferðir til að tryggja að börn þeirra eflist áfram í þeirri íþrótt sem það kýs. Af augljósum ástæðum hafa ríkið og sveitarfélög reynt að styrkja áframhaldandi iðkun barna og ungmenna, en kostnaður fjölskyldna er þó alltaf til staðar. Öll viljum við að börn og ungmenni geti stundað sína íþrótt eða tómstund óháð efnahag eða búsetu.

Íþróttaferðir um landið

Staðsetning íþróttamóta barna og ungmenna dreifist um allt land. Hlutfallslega eiga þau þó flest sér stað innan höfuðborgarsvæðisins. Þetta á við um flestar íþróttir hvort sem um er að ræða fótbolta, handbolta, sund, körfubolta o.s.frv. Margar þessar íþróttaferðir kosta sitt, og aðstæður fjölskyldna eru mismunandi. Þá á það sérstaklega við um fjölskyldur sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem ungmenni ferðast reglulega vegna íþróttaiðkunar sinnar. Þessi kostnaður vindur oft upp á sig og getur reynst íþyngjandi. Sem dæmi kostar keppnisferð ungrar stúlku frá Akureyri til Reykjavíkur um 30.000 kr. og geta ferðirnar verið allt að 5-7 yfir keppnistímabilið, jafnvel fleiri.

Rannsóknir á íþróttastarfi víða um heim hafa sýnt að íslensk lið keppa sjaldnar miðað við það sem tíðkast í öðrum löndum. Til að tryggja samkeppnishæfni á alþjóðarskala er stefna sérsambandanna nú orðin sú að fjölga leikjum og lengja keppnistímabil í samræmi við það sem tíðkast erlendis. Þetta er ánægjuleg þróun og mun efla ungmennin okkar enn frekar í sinni iðkun. Hins vegar fylgir þessu gríðarlegur kostnaður en sem dæmi hafa KSÍ og HSÍ fjölgað leikjum um allt að sjö á hverju tímabili.

Frekari útvíkkun Loftbrúarinnar

Með tilkomu Loftbrúarinnar var fólki sem býr á landsbyggðinni gert kleift að sækja höfuðborgarsvæðið heim á lægri fluggjöldum en ella með veitingu 40% afsláttar af fargjaldi fyrir áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu. Með því bættist aðgengi landsbyggðar að miðlægri þjónustu í höfuðborginni til muna.

En eru fleiri tækifæri falin í Loftbrúnni? Undirrituð vill sjá úrræðið útvíkkað frekar á þann veg að Loftbrúin verði nýtt til handa íþróttafólki til að lækka þann kostnað sem felst í íþróttaferðum barna og ungmenna sem skilar sér í lægri ferða- og keppniskostnaði barnsins, fjölskyldunni í hag, ásamt styttri ferðatíma og auknu öryggi iðkenda. Þannig stuðlum við að því að fleiri geti sótt slíkar ferðir og náð frekari árangri á sínu sviði.

Styrkjum jákvæð áhrif

Við í Framsókn höfum ávallt talað fyrir mikilvægi þess að íþrótta- og tómstundariðkun sé aðgengileg öllum börnum og ungmennum óháð búsetu, fjárhag eða annarra utanaðkomandi aðstæðna, enda er hún mikilvægur þáttur í þroska og uppvexti þeirra.

Með frekari útvíkkun Loftbrúar í þágu barna og ungmenna sem ferðast um landið til að keppa höldum við áfram að styðja við það frábæra starf sem á sér stað innan íþróttafélaganna okkar. Fjárfesting í íþróttastarfi barna og ungmenna er fjárfesting í forvörnum, heilsueflingu og félagslegum þroska þeirra. Slík fjárfesting skilar sér margfalt til baka.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Tökum saman á nei­kvæðum á­hrifum snjall­síma!

Deila grein

31/08/2023

Tökum saman á nei­kvæðum á­hrifum snjall­síma!

Flest þekkjum við þau áhrif og tæknibreytingar sem þróun snjallsíma hefur haft á líf okkar, við erum orðin vön því að hafa allar upplýsingar, bæði gagnlegar og ógagnlegar við höndina. Við þekkjum líka flest hversu auðvelt það er að ánetjast símanum og eyða miklu meira tíma en við viljum í marklausu vafri um samfélagsmiðla og vefsíður. Langflest börn í dag eiga síma alveg eins og við fullorðna fólkið, eða 95% barna í 4.–7. bekk og 98% barna í 8.–10. bekk. Símunum fylgja auðvitað ýmsir kostir en líka áskoranir sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Nýjar rannsóknir benda til þess að mikil aukning sé í skjátíma, sérstaklega hjá börnum, og að aukningin hafi meðal annars neikvæð áhrif á svefn ásamt andlegri og líkamlegri heilsu barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólumbæta námsárangur, sérstaklega hjá nemendum sem eru með slakan námsárangur.

Stuðlum gegn neikvæðum áhrifum farsímanotkunar á börn

Þess vegna hef ég kynnt í ríkisstjórn þá ákvörðun að setja af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Reglurnar verðaunnar í víðtæku samráði við foreldra og börn, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara og aðra hagaðila, og gert ráð fyrir að þær verði nýttar sem leiðbeinandi viðmið fyrir grunnskóla við setningu skólareglna um farsímanotkun. Eitt meginstefið þar er að tryggja fullnægjandi fræðslu um símanotkun og forvarnir til að stuðla gegn þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem hún getur haft í skólum.

Skiptar skoðanir

Það er vissulega margt sem er verulega jákvætt við nýja tækni en við þurfum að kunna að umgangast hana eins og allt annað. Við þurfum að vinna gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu. Skjánotkun er mikil hérlendis og fer vaxandi, sérstaklega hjá börnum. Skoðanir eru skiptar í samfélaginu og skólareglur misjafnar eða jafnvel ekki til staðar. Markmiðið með þeirri vinnu sem nú fer af stað er að skilgreina viðmið fyrir grunnskóla og auka fræðslu í þessum efnum til að bregðast við þessari þróun með farsæld barna að leiðarljósi, og hjálpa þeim þannig að bregðast við og umgangast þessa tækni af ábyrgð og þekkingu.

Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Réttlátari húsnæðismarkaður

Deila grein

31/08/2023

Réttlátari húsnæðismarkaður

Á haustþingi lít­ur dags­ins ljós þings­álykt­un­ar­til­laga um hús­næðis­stefnu fyr­ir Ísland en stefn­an var kynnt á Hús­næðisþingi í gær. Það kann að hljóma ein­kenni­lega en það verður í fyrsta sinn sem slík til­laga er lögð fyr­ir Alþingi Íslend­inga. Helsta ástæðan fyr­ir því að slík til­laga hef­ur aldrei áður litið dags­ins ljós er lík­ast til sú að það er ekki fyrr en með nýju innviðaráðuneyti sem hús­næðis- og mann­virkja­mál, skipu­lags­mál og sveit­ar­stjórn­ar­mál eru í fyrsta sinn öll und­ir ábyrgðarsviði eins og sama ráðherr­ans.

Markaður­inn þarf aðstoð

Drög að hús­næðis­stefnu hafa verið í sam­ráðsgátt stjórn­valda síðustu vik­ur og lýk­ur hinu opna sam­ráði mánu­dag­inn 4. sept­em­ber. Meg­in­inn­tak stefn­unn­ar er að hús­næði sé hluti af vel­ferð okk­ar allra. Við þurf­um öll þak yfir höfuðið. Segja má að sú stefna, eða stefnu­leysi, sem ríkt hef­ur feli í stuttu máli í sér að hinn frjálsi markaður eigi að sjá um hús­næðis­stefn­una með lög­mál­um markaðar­ins. Mín skoðun er sú að málið sé ekki svo ein­falt þegar um er að ræða grunnþarf­ir mann­eskj­unn­ar sem hús­næði er svo sann­ar­lega. Það eru og verða alltaf ein­stak­ling­ar og fjöl­skyld­ur sem eiga ein­hverra hluta vegna erfitt með að eign­ast þak yfir höfuðið. Við get­um sem sam­fé­lag ekki snúið blinda aug­anu að þeirri staðreynd. Við erum nor­rænt vel­ferðarsam­fé­lag og get­um lært mikið af frænd­um okk­ar ann­ars staðar á Norður­lönd­um sem hafa þróað öfl­ugt kerfi í kring­um hús­næðismál, ekki síst út frá vel­ferðarsjón­ar­miðum.

Kyn­slóðarúll­ett­an

Stærsta verk­efni stjórn­mál­anna nú er að ná bönd­um á verðbólgu og skapa aðstæður fyr­ir lægri vexti. Það er því stór­kost­legt efna­hags­legt verk­efni að byggja upp hús­næðismarkað sem er laus við þess­ar ýktu sveifl­ur sem við höf­um búið við síðustu ár og ára­tugi, ýkt­ar sveifl­ur á verði hús­næðis sem koma af full­um þunga inn í hús­næðislið vísi­töl­unn­ar sem ekki hef­ur náðst samstaða um að breyta. Því miður. Þess­ar ýktu sveifl­ur búa til eins kon­ar kyn­slóðarúll­ettu sem ger­ir það að verk­um að það að koma þaki yfir höfuðið leggst á órétt­lát­an hátt mis­jafn­lega á kyn­slóðir fyrstu kaup­enda.

Tvenns kon­ar mark­mið

Hús­næðis­stefn­an fel­ur í sér tvenns kon­ar mark­mið. Ann­ars veg­ar mark­miðið um að ná jafn­vægi á hús­næðismarkaði til lengri tíma með því að vinna upp þá upp­bygg­ing­ar­skuld sem orðið hef­ur til eft­ir frostið í kjöl­far banka­hruns­ins og ófull­nægj­andi fram­boðs lóða. Sú yf­ir­sýn sem við höf­um öðlast með þétt­ara sam­starfi rík­is, sveit­ar­fé­laga og bygg­ing­araðila er mik­il­væg­ur grunn­ur til að standa á til að ná þess­um mark­miðum til lengri tíma. Nauðsyn­legt er talið að byggja 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Hins veg­ar er um að ræða skamm­tíma­mark­mið sem miða að því að taka utan um þá hópa sem veik­ast standa fjár­hags­lega og eiga í erfiðleik­um með að eign­ast eða leigja hús­næði. Við vinnu við fjár­mála­áætl­un til árs­ins 2028 var aukið veru­lega við stuðning við hús­næðis­upp­bygg­ingu, bæði með hækk­un stofn­fram­laga til bygg­ing­ar hag­kvæms hús­næðis á viðráðan­legu verði og með breyt­ing­um á skil­mál­um hlut­deild­ar­lána.

Línu­dans á tím­um verðbólgu

Upp­bygg­ing á tím­um verðbólgu er línu­dans. Gæta verður að því að auka ekki á þenslu á sama tíma og vinna verður gegn hús­næðis­skorti sem leiðir til hækk­un­ar á hús­næðis­verði og þar af leiðandi hærri verðbólgu. Þau verk­færi sem eru í verk­færa­k­istu hins op­in­bera og þróuð hafa verið frá því Fram­sókn hélt um tauma í fé­lags­málaráðuneyt­inu árin 2013-2016 og síðar 2017-2021 hafa reynst vel í yf­ir­stand­andi vinnu og munu gera það áfram. Í þeirri kistu er að finna tæki til að skapa jafn­vægi fram­boðs og eft­ir­spurn­ar.

Mik­il­vægt að tryggja ör­yggi leigj­enda

Eitt af því sem verk­tak­ar hafa gagn­rýnt er að verið sé að leggja áherslu á upp­bygg­ingu þroskaðs leigu­markaðar. Þess má geta að leigu­markaður­inn á Íslandi er gjör­ólík­ur því sem þekk­ist hjá hinum nor­rænu þjóðunum. Hann er mun minni og ein­kenn­ist miklu síður af óhagnaðardrifn­um leigu­fé­lög­um. Þeir sem hafa sökkt sér ofan í aðstæður á ís­lensk­um leigu­markaði kom­ast fljótt að því að það sem ein­kenn­ir hann er óör­yggi leigj­enda og er ekki óal­gengt að heyra sög­ur af fólki sem þarf að vera í stöðugum flutn­ing­um milli skóla­hverfa til að tryggja börn­um sín­um þak yfir höfuðið. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að fólk eigi helst að eiga frek­ar en leigja en við get­um ekki horft fram hjá því að alltaf er ein­hver hóp­ur fólks sem annaðhvort vill eða verður að búa í leigu­hús­næði. Það er óá­byrgt að láta sem þessi hóp­ur sé ekki til þótt hann sé ekki stór.

Kæri les­andi.

Fátt er mik­il­væg­ara fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag en það að skapa for­send­ur fyr­ir rétt­lát­ari hús­næðismarkaði. Stór skref hafa verið stig­in á síðustu árum og ný hús­næðis­stefna verður mik­il­væg­ur liður í því að bæta lífs­kjör á Íslandi. Hús­næðismál eru ekki aðeins spurn­ing um vel­ferð held­ur einnig stórt efna­hags­mál. Aukið fram­boð nýrra íbúða á næstu árum er nauðsyn­legt til þess að koma á jafn­vægi á hús­næðismarkaði til framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. ágúst 2023.

Categories
Fréttir

Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál

Deila grein

30/08/2023

Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, flutti opnunarræðu á fjölmennu húsnæðisþingi sem haldið var í morgun á vegum innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) undir yfirskriftinni „Heimili handa hálfri milljón“. Ráðherra kynnti þar drög að fyrstu heildarstefnu í húsnæðismálum til 15 ára og aðgerðaáætlunar til 5 ára. Drög að húsnæðisstefnunni og aðgerðaáætlun er nú í samráðsgátt og hægt að senda umsagnir og ábendingar til og með 4. september. Þingsályktun um stefnuna verður lögð fram á haustþingi.

Réttlátari húsnæðismarkaður

Í ræðu sinni sagði Sigurður markmiðið vera að skapa réttlátari húsnæðismarkað. Tryggja þurfi aðgengi að öruggu húsnæði – grundvallarþörf hvers einstaklings. Þá þurfi að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði, að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu og huga að húsnæðisöryggi leigjenda.

„Til lengri tíma þurfum við að fjölga íbúðum af öllum gerðum til að mæta íbúafjölgun og skapa þannig jafnvægi á húsnæðismarkaði. Sú yfirsýn sem við höfum öðlast með þéttara samstarfi ríkis, sveitarfélaga og byggingaraðila er mikilvægur grunnur til að standa á til að ná þessum markmiðum til lengri tíma. Til skemmri tíma að styðja við tekju- og eignaminni, ungt fólk og fyrstu kaupendur á fasteignamarkaði með ólíkum leiðum, t.d. samkeppnishæfari hlutdeildarlánum til að hjálpa fólki að eignast eigið húsnæði og hækkun stofnframlaga til byggingar hagkvæms leiguhúsnæðis á viðráðanlegu verði. Þannig eflum við almennan leigumarkað og bætum húsnæðisöryggi leigjenda,“ sagði Sigurður Ingi.

Á þinginu fór Sigurður Ingi yfir megindrætti í drögum að nýrri húsnæðisstefnu. „Húsnæðismál eru í senn velferðarmál og efnahagsmál. Því er mikilvægt að stjórnvöld móti skýra langtímastefnu með aðgerðaáætlun. Megininntak stefnunnar er að húsnæði sé hluti af velferð okkar allra. Við þurfum öll þak yfir höfuðið.“

Sjö lykilviðfangsefni

Í drögum að húsnæðisstefnu eru skilgreind sjö lykilviðfangsefni 

  1. Stöðugleiki á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf.
  2. Skilvirk stjórnsýsla á sviði húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmála.
  3. Greinargóðar upplýsingar um húsnæðis-, mannvirkja- og skipulagsmál byggðar á áreiðanlegum tæknilegum innviðum.
  4. Sérhæfðar lausnir til að mæta áskorunum á landsbyggðinni.
  5. Markviss húsnæðisstuðningur sem er afmarkaður við þau sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði.
  6. Aukið húsnæðisöryggi leigjenda og bættar rauntímaupplýsingar um leigumarkaðinn.
  7. Sjálfbær þróun, gæði og rekjanleiki í mannvirkjagerð.

Markmið og 44 aðgerðir

Þá hafa verið skilgrein fjögur markmið og 44 aðgerðir sem skiptast niður á markmiðin.

  • Auka jafnvægi á húsnæðismarkaði – 10 aðgerðir 
  • Gera stjórnsýslu skilvirkari og auka gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið – 15 aðgerðir 
  • Bæta húsnæðisöryggi þeirra sem standa höllum fæti á húsnæðismarkaði – 13 aðgerðir
  • Stuðla að virkum vinnumarkaði um land allt – 6 aðgerðir

Húsnæðisþingið var sent út í beinu streymi og innan skamms verður hægt að horfa á öll ávörp og kynningar á vef þingsins – husnaedisthing.is

Heimild: stjr.is