Categories
Fréttir Uncategorized

Bæjarmálafundur Framsóknar í Hveragerði

Deila grein

09/12/2022

Bæjarmálafundur Framsóknar í Hveragerði

Framsókn í Hveragerði býður til bæjarmálafundar á Reykadalur Skáli/Lodge laugardaginn 10. desember kl. 11:00-12:00.

Hittumst og ræðum bæjarmálin yfir rjúkandi kaffibolla í huggulegu umhverfi Reykjadalsskála.

Verið öll velkomin!
Stjórn Framsóknar í Hveragerði 

Categories
Greinar

Margar hendur vinna létt verk

Deila grein

09/12/2022

Margar hendur vinna létt verk

Í aðdraganda kosninga í vor lagði Framsókn í Hveragerði áherslu á velferð fjölskyldunnar og skýra framtíðarsýn við uppbyggingu bæjarins. Áttu þær áherslur samlegð með íbúum í Hveragerði og samstarfsflokki í meirihluta. Meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis hafa nú unnið að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og ber áætlunin glöggt vitni um áherslumálin.

Áætlunin er unnin í góðu samstarfi við bæjarstjóra, skrifstofustjóra og starfsfólk bæjarins. Eins hafa íbúar bæjarins lagt sitt af mörkum með því að senda inn sínar tillögur við fjárhagsáætlun í gegnum íbúagátt bæjarins. Það skal jafnframt tekið fram að öllum bæjarfulltrúum stóð til boða að taka þátt í þessari vinnu en minnihluti Sjálfstæðismanna hafnaði því boði en fjárhagsætlun hefur verið unnin í góðu samstarfi milli fyrrum minni og meirihluta síðustu 10 ár. Áætlunin hefur nú verið samþykkt.

Aukum tekjur

Það er óumflýjanleg staðreynd að reksturinn er þungur og hafa lán verið tekin fyrir rekstrinum. Þessu vill meirihlutinn breyta. Í áætlun 2023-2026 er markmið meirihlutans að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær. Til þess að mæta þessu markmiði þurfum við öll að sýna ráðdeild í rekstri án þess þó að skerða þjónustu við íbúa. Önnur leið í átt að sjálfbærni er að auka tekjur sveitarfélagsins og þar liggja tækifærin.

Fjölskyldan

Málefni fjölskyldunnar voru efst á baugi við vinnu fjárhagsáætlunar sem er í samræmi við málefnasamning meirihlutans. Á árinu 2023 verður haldið áfram að lækka gjöld fyrir leikskólavist. Haustið 2022 ákvað meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis að bjóða upp á eina fría klukkustund á leikskólum bæjarins og haustið 2023 er gert ráð fyrir að gjaldfrjálsar klukkustundir verði orðnar tvær og með því lækka gjöld til foreldra leikskólabarna. Fái 12 mánaða barn ekki pláss á leikskóla verða veittar foreldragreiðslur. Í áætlun er gert ráð fyrir að frístundastyrkur verði hækkaður og lækkun leikskólagjalda og hækkun frístundastyrks verði í áföngum á kjörtímabilinu. Það er skýr framtíðarsýn í fjárfestingum og ber þar helst að nefna framtíðar íþróttamannvirki Hvergerðinga sem mun rísa árið 2023 og uppbyggingu í leik- og grunnskóla.

Framtíðin

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 3. nóvember að ganga til samninga við KPMG vegna úttektar á rekstri sveitarfélagsins en 10 ár eru liðin síðan sambærileg úttekt fór fram. KPMG hefur veitt faglega ráðgjöf vegna vinnu við fjárhagsáætlunina sem lögð hefur verið fram. Sú vinna heldur áfram og verður 10 ára áætlun kynnt á nýju ári. Þrátt fyrir áskoranir fram undan lítur meirihlutinn björtum augum á framtíðina enda tækifærin fjölmörg. Hveragerðisbær er í örum vexti, fram undan eru metnaðarfull verkefni. Mikilvægt er að huga að framtíðinni, setja markmið svo innviðauppbygging haldist í hendur við fjölgun íbúa.

Það er kappsmál meirihlutans að þjónusta íbúa Hveragerðis sem best. Áhersla er lögð á fjölskylduna, stuðning við barnafjölskyldur, hér séu áfram öflugar menntastofnanir, fjölbreytt atvinnulíf, gæða íþrótta- og frístundastarf, heilsuefling sé í hávegum höfð og að ferðaþjónustan og menningin haldi áfram að blómstra.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, oddviti Framsóknar í Hveragerði og forseti bæjarstjórnar.

Greinin birtist á visir.is 9. desember 2022.

Categories
Greinar

Viðsnúningurinn er hafinn

Deila grein

09/12/2022

Viðsnúningurinn er hafinn

Á fundi borgarstjórnar í gær var fjárhagsáætlun borgarinnar aðalumræðuefnið. Það eru ávallt ákveðin tímamót þegar að nýr meirihluti, hvort sem er í borgarstjórn, sveitarstjórn eða á Alþingi Íslendinga leggur fram sitt fyrsta frumvarp að fjárhagsáætlun og ekki síður fyrstu fimm ára áætlun í rekstri borgarinnar.

Ljóst er að fjárhagsáætlun nýs meirihluta gefur tóninn varðandi þau verkefni framundan eru í rekstri borgarinnar á þessu nýja kjörtímabili. Stærsta og mesta áskorunin er að stíga á bremsuna á útgjaldahlið borginnar, leita nýrra og fjölbreyttari leiða til að fá meira út úr rekstrinum og þannig stuðla sterkari og sjálfbærari rekstri A hluta borgarinnar á sama tíma og sterk grunnþjónusta er tryggð.

Krefjandi aðstæður

Verkefnið sem RVK-borg stendur frammi fyrir er verðugt og hefur því miður vaxið að umfangi frá því að ársreikningur ársins 2021 lá fyrir með um 3.8 milljarða halla á A hluta. Afkomuspá þessa árs hefur versnað frá hálfsársuppgjöri 2022 .Gert er ráð fyrir að hallinn verði alls 15,3 milljarðar á árinu 2022 – ári sem hefur verið ár áskoranna á heimsvísu, og Reykjavíkurborg hefur svo sannarlega ekki farið varhluta af þeim.

Áframhaldandi áhrif covid heimsfaraldurins á áfangakeðjur í heiminum sem og ógeðfelld innrás Rússa inn í Úkraínu hafa knúið áfram kostnaðarverðshækkanir og hökt í heimshagkerfinu með tilheyrandi hækkun verðbólgu og vaxta. Á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum hefur óvissan aukist samhliða og þannig hríslast niður í hækkandi ávöxtunarkröfur á skuldabréfamörkuðum sem fólk, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög finna fyrir svo um munar.

Það dylst því engum að verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er krefjandi, en er langt í frá óyfirstíganlegt. Sú fjárhagsáætlun sem var samþykkt á fundinum þriðjudaginn s.l. hefur að geyma fjölmargar aðgerðir sem markar upphafið að viðsnúningum í rekstri borgarinnar. Í þessari áætlun er boðað aukið aðhald, aukna ráðdeild og skýrari forgangsröðun til þess styrkja stöðu borgarinnar til lengri tíma. Á sama tíma verður staðið vörð um grunnþjónustu borgarinnar og haldið áfram að fjárfesta í borginni okkar með skipulögðum hætti.

Jákvæðar tölur 2025

Meðal þeirra markmiða og megináherslna sem birtast okkur í fjármálastefnu Reykjavíkurborgar næstu fimm árin eru m.a.:

•Að ná jafnvægi í rekstri A-hluta borgarsjóðs og aðveltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum standi undir fjármögnun fjárfestinga, lántökum og öðrum fjárhagslegum skuldbindingum. Þannig stefnum við á að rekstrarniðurstaða borgarinnar verði jákvæð frá og með árinu 2025.

•Að ná fram lækkun launaútgjalda íhlutfalli af tekjum þannig að hann verði að hámarki 80% af samanlögðum útsvars- og Jöfnunarsjóðstekjum frá og með árinu 2025.

•Að fjármagnsskipan hjá B-hluta fyrirtækjum Reykjavíkurborgar verði grandskoðuð og unnin áætlun um að ná fram eðlilegri arðsemi eigin fjár og hagkvæmri samsetningu eigin fjár, skulda og skuldbindinga.

Aðgerðir sem skipta máli

Samhliða ofangreindu verður umfangsmestu hagræðingaðgerðir borgarinnar frá fjármálahruninu verið hrint í framkvæmd – aðgerðir sem svo sannarlega skipta máli. Þær marka upphafið að nauðsynlegum viðsnúningi til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem eru sett í fjármálaáætlun borgarinnar til ársins 2027.

Strax á næsta ári mun hagræðingarkrafan nema að lágmarki 3,1 milljarði króna og fara vaxandi í komandi árum. Þannig mun hún að lágmarki nema rúmum 5 milljörðum árið 2024 og tæpum 7 milljörðum árið 2025.

Á næsta ári verður gerð 1% hagræðingarkrafa á öll sviðborgarinnar. Að sama skapi verður gerð viðbótarhagræðingarkrafa upp á einn milljarð króna, sem byggð verður á tillögum frá einstökum sviðum.

Ljóst er að starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað talsvert umfram lýðfræðilega þróun. Ein af þeim aðgerðum sem mun skipta verulegu máli í að ná betri árangri í rekstri borgarinnar er krafan um hagræðingu í starfsmannahaldi til næstu ára, þar á meðal með aðhaldi í ráðningum samhliða því að leitað verði leiða til samræmingu á verkefnum og breytingar eða niðurlagningu þjónustu.

Framtíðin engu að síður björt

Í þessari vinnu verður þó sérstaklega hugað að mönnun í grunnþjónustu þar sem ávallt skal tryggt að áætluð mannaflþörf samþykktra fjárheimilda sé til staðar.

Þrátt fyrir þær rekstrarlegu áskoranir í rekstri borgarinnar og þær tímabæru hagræðingaraðgerðir sem af þeim leiða, er framtíð Reykjavíkurborgar engu að síður björt. Borgin er þrátt fyrir allt burðug og með eignarhald á góðum fyrirtækjum sem styðja við rekstur hennar. Því eru tækifæri til þess að bæta borgina okkar enn frekar og auka samkeppnishæfni hennar líkt og boðað er í fjárhagsáætlun næstu ára.

•Með uppfærðri húsnæðisáætlun borgarinnar í samningum við Húsnæðis og mannvirkjastofnun verður framboð af lóðum stóraukið í samræmi við stefnu okkar í Framsókn. Mikill þungi verður lagður í að tryggja að þær verði byggingarhæfar á sem skemmstum tíma .

•Uppbygging á nýjum skólum og leikskólum verður í forgangi og tryggt verður að viðhaldsáætlun vegna mannvirkja borgarinnar, sér í lagi skólahúsnæðis, verði vel unnin.

•Útsvar verður ekki hækkað á næstu árum og fasteignaskattar á atvinnuhús verða lækkaðir í lok kjörtímabilsins.

•Fá fram leiðréttingu á fjármögnun verkefna sem fluttst hafa frá ríkinu til borgarinnar, en þar er um að ræða verulegar upphæðir sem miklu skipta.

Ég hlakka til þess að vinna að þessum markmiðum með samstarfsfólki mínu í Borgarstjórn og sækja fram fyrir Reykjavíkurborg. Áskoranir borgarinnar munum við takast á við af festu og í góðri samvinnu. Ég er bjartsýnn á að við munum ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem birtast okkur í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og á sama tíma gera borgina okkar enn betri en hún var í gær.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. desember 2022.

Categories
Greinar

Áfram veginn í Borgarbyggð – sveitarfélag í sókn

Deila grein

09/12/2022

Áfram veginn í Borgarbyggð – sveitarfélag í sókn

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar ásamt áætlun um fjárheimildir fyrir árin 2024 til 2026 var samþykkt í sveitarstjórn miðvikudaginn 7. desember. Í þeirri áætlun sem nú hefur verið samþykkt var lögð höfuð áhersla á undirbyggja sókn í sveitarfélaginu. Stöðugt framboð á nýjum lóðum bæði fyrir almenning og atvinnulíf, endurnýjun grunnskóla, stækkun leikskóla, uppbygging íþróttamannvirkja og gatnagerð rísa hæst í þeim áformum. Allt eru þetta fjárfestingar sem eru til þess fallnar að styrkja lífskjör og bæta búsetuskilyrði í Borgarbyggð.

Fjárhagsstaða Borgarbyggðar er sterk en afgangur af rekstri er lítill. Þó freistandi hafi verið að lækka álögur á íbúa í fjárhagsáætlun fyrir 2023 varð sú ákvörðun ofan á að treysta afkomu og fjárhagsgrunn sveitarfélagsins. Þar vegur þungt að framundan er veruleg fjárfestingarþörf og fyrir liggja metnaðarfull uppbyggingaráform sem góð samstaða hefur verið um. Framundan er vinna þar sem allt kapp verður lagt á að tekjur hækki umfram kostnað og hugað að einföldun bæði rekstrar og eignsafns. Þá er mikilvægt að stöðugt endurmat sé á nýtingu tækifæra til hagræðingar og skynsamlegrar ráðstöfunar fjármuna. Ljóst er að til að viðhalda jafnvægi í rekstri næstu árin samhliða áformum um fjárfestingar er nauðsynlegt að standa vörð um tekjustofna sveitarfélagsins.

Verkefnið framundan er að treysta og einfalda reksturinn

Rekstrarumhverfi sveitarfélaga er viðkvæmt og rekstrarkostnaður eykst frá ári til árs. Laun og launatengd gjöld eru langstærsti kostnaðurliðurinn í rekstri sveitarfélagsins. Á yfirstandandi ári má ætla að um 56,4% af öllum tekjum sveitarfélagsins hafi verið ráðstafað í laun.

Krafan um gæði þjónustu eykst í kjarnastarfsemi sveitarfélagsins og mikilvægt er að sveitarfélagið hafi getu til þess að standast þær kröfur sem bæði íbúar og starfólk gerir til umhverfisins. Svigrúm og geta sveitarfélagsins til að sinna verkefnum og viðhaldi sem falla ekki undir kjarnastarfsemi og lögbundna þjónustu er ekki mikil. Framsóknarflokkurinn væntir góðs samstarfs innan sveitarstjórnar og við íbúa um það verkefni að treysta og einfalda rekstur sveitarfélagsins með áherslu á kjarnastarfsemi og grunnþjónustu. Framsækni er nauðsynleg til að takast á við nýjar áskoranir og byggja upp til framtíðar. Mikilvægt er að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvarðan með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Þannig höldum við áfram að bæta þjónustu við íbúa en getum um leið fjárfest í auknum lífsgæðum.

Gatnagerð og hönnun árið 2023

Þá er öllum ljóst að lítið má út af bregða varðandi afkomu sveitarfélagsins til að draga verði verulega úr fjárfestingum. Á sama hátt má segja að ef vel tekst til í rekstri þá geti skapast svigrúm til að taka enn stærri skref í fjárfestingum og lækka álögur á íbúa. Fjárfestingar þurfa að taka mið af aðstæðum á fjármagnsmarkaði og vinnumarkaði. Miðað við þá áætlun sem nú liggur fyrir fer skuldaviðmið samkvæmt reglugerð hæst í 112% í lok tímabilsins en það stendur nú í kringum 65%. Samkvæmt viðmiðum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga skal það vera undir 150%.

Ef þau áform sem lagt er upp með ganga eftir verður rekstur A og B hluta sveitarfélagsins hallalaus á árinu 2024 en lítilsháttar halli árin 2025 og 2026.

Aðstæður í dag eru ekki hagfelldar til að ráðast í verulega lántöku. Áform sveitarfélagsins taka mið af því að árið 2023 og 2024 verði lagt kapp á að ljúka grunnvinnu svo ráðast megi í fjárfestingar þegar aðstæður skapast. Mikilvægt er að vanda vel til allrar grunnvinnu, hönnunar og skipulags en það er ein aðal forsenda fyrir því að kostnaðaráætlanir standist. Það þýðir samt ekki að mikilvægum verkefnum verði slegið á frest og á árinu 2023 en gert er ráð fyrir fjárfestingum og framkvæmdum fyrir 566 m.kr. Þar er helst að nefna að 333 m.kr verður varið í húsnæðismál og 226 m.kr. gatna- og stígagerð.

Næg verkefni bíða og inni í fjárfestingaráætlun þessa kjörtímabils eru meðal annars stækkun leikskólans Uglukletts, endurnýjun Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum, bygging knatthúss í Borgarnesi, endurbætur slökkvistöðvar, gatnagerð, fyrsti áfangi að stækkun íþróttahúss ásamt því sem jafnt og þétt verður viðhaldið framboði á lóðum.

Sú áætlun sem nú hefur verið samþykkt var unninn í þéttu og góðu samstarfi allra fulltrúa í sveitarstjórn. Vinna sem hefur einkennst af mikilli samstöðu, góðu samtali og sameiginlegum vilja til að stefna á uppbyggingu og vöxt í sveitarfélaginu. Fulltrúar Framsóknar í sveitarstjórn eru bjarstýnir og fullir tilhlökkunar að takast á við fjölbreytt og spennandi verkefni sem miða öll að því að gera gott samfélag enn betra.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknar í Borgarbyggð

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 8. desember 2022.

Categories
Fréttir

Möndlugrautur Framsóknar í Árborg

Deila grein

08/12/2022

Möndlugrautur Framsóknar í Árborg

Framsókn í Árborg býður upp á möndlugraut í Framsóknarhúsinu Eyravegi 15, laugardaginn 10. desember kl. 11:00-12:00. Bæjarfulltrúar og nefndarfólk Framsóknar í Árborg taka á móti gestum.

Categories
Fréttir

Velta íslenskrar kvikmyndagerðar aukist um 85%

Deila grein

08/12/2022

Velta íslenskrar kvikmyndagerðar aukist um 85%

Mik­il gróska hef­ur verið í ís­lenskri kvik­mynda­gerð síðustu fimm ár og hef­ur velta í geir­an­um auk­ist um 85% á þessu tíma­bili og er nú u.þ.b. 30 millj­arðar króna.

Einnig hef­ur skap­ast mik­il at­vinna í geir­an­um og vinna á fjórða þúsund ein­stak­ling­ar við kvik­mynda­gerð á Íslandi í dag seg­ir í til­kynn­ingu á vef Stjórn­ar­ráðsins í dag. 

„Grósk­an í kvik­mynda­gerð er ein­stök. Ég er þakk­lát fyr­ir þann víðtæka stuðning sem að málið hef­ur fengið á Alþingi, bæði með því að hækka end­ur­greiðslurn­ar í sum­ar í allt að 35% og nú með því að færa aukið fjár­magn und­ir end­ur­greiðsluliðinn. Ég hef sterka sann­fær­ingu fyr­ir því að stuðning­ur við skap­andi grein­ar hafi já­kvæð marg­föld­un­ar­áhrif á sam­fé­lagið og er viss um að þessi breyt­ing muni efla inn­lenda kvik­mynda­gerð og draga stór er­lend fjár­fest­ing­ar­verk­efni til lands­ins,“ er haft eft­ir Lilju Dögg Al­freðsdótt­ur, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra í til­kynn­ing­unni.

Berdreymi í leikstjórn Guðmundar Arnar Guðmundssonar er ein þeirra íslensku …

Ber­d­reymi í leik­stjórn Guðmund­ar Arn­ar Guðmunds­son­ar er ein þeirra ís­lensku kvik­mynda sem kom fyr­ir sjón­ir al­menn­ings á þessu herr­ans ári 2022. Ljós­mynd/​Aðsend

Fleiri er­lend verk­efni

Stjórn­völd hafa markað fram­sækna stefnu til að styðja við ís­lenska kvik­mynda­gerð og fjár­magn til end­ur­greiðslna vegna kvik­mynda­gerðar á Íslandi er aukið um fjóra millj­arða króna fyr­ir aðra umræðu fjár­laga 2023. Stuðning­ur við kvik­mynda­fram­leiðslu ger­ir það að verk­um að verk­efni sem hafa fengið vil­yrði frá kvik­mynda­sjóð geta nú haf­ist á áætluðum tíma.

Velt­an jókst á milli ár­anna 2019 og 2020 um 50% eða um 6,5 millj­arða og frá ár­inu 2021 jókst velt­an um 7% frá 2020, en sú aukn­ing skýrst að hluta vegna fleiri er­lendra verk­efna. Árið í ár er síðan geysi­lega gott, með aukn­ingu frá 2021 upp á 25% eða um 2,9 millj­arða króna. 

Fréttin birtist fyrst á mbl.is 7. desember 2022.

Mynd: mbl.is

Categories
Greinar

Sam­þætting þjónustu við eldra fólk

Deila grein

08/12/2022

Sam­þætting þjónustu við eldra fólk

Á síðasta kjörtímabili var mikil vinna lögð í breytingu á þjónustu í þágu farsældar barna. Útkoman úr þeirri vinnu voru farsældarlögin svokölluðu og innleiðing á þeim er farin á stað og lofar góðu. Samstarf um aukna þjónustu í þágu farsældar barna er framtíðarstef í velferð barna til að vaxa sem fullgildir einstaklingar í íslensku samfélagi. Þegar þessar breytingar verða að fullu virkjaðar má búast við miklum framförum í þjónustu við börn. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið sjálf. Þeir sem vinna í þjónustu barna hafa fagnað þessari hugarfarsbreytingu sem lengi hefur verið kallað eftir og þegar var farið að talað um að nýta þessa hugmyndafræði þessa fyrir aðra þjónustuhópa.

Það hefur nú verið gert

Heilbrigðisráðherra ásamt félags- og vinnumarkaðsráðherra ýttu í gær úr vör drög að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Um er að ræða heild­ar­end­ur­skoðun þjón­ustu við aldraða og eru fimm þætt­ir lagðir til grund­vall­ar: Samþætt­ing, virkni, upp­lýs­ing, þróun og heim­ili. Ber verkefnið heitið – Gott að eldast. Líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar.

Heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa svo sannarlega tekið verkefnið af fullri alvöru upp á sína arma og stendur til að leggja fram þingsályktunartillögu á komandi vorþingi sem felur í sér aðgerðaráætlun um samþættingu á þjónustu við eldra fólk með það að markmiðið að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi, hvort sem um ræðir heimaþjónustu á vegum sveitarfélaga eða heilbrigðisþjónustu. Um er að ræða samfélagslegt umbótaverkefni sem á að efla þjónustu við eldra fólk og auka samvinnu og samþættingu milli heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu.

Þjónusta á forsendum þjónustuþega

Þjóðin er að eldast og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar kallar á að samfélagið þurfi að aðlagast með. Við þurfum að leita nýrra og lausnamiðaðri leiða ásamt því að auka samvinnu og samtal. Það er mikilvægt að þjónusta sé veitt þegar hennar er þörf á forsendum fólksins sjálfs. Forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stórt hlutverk í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar til framtíðar. Við viljum að fólki geti látið sig hlakka til efri áranna og síðustu áratugir ævinnar eiga að vera meðal þeirra allra bestu. Það er fátt verðmætara samfélaginu en að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. Líkt og með breytingar í þágu farsældar barna er þetta verkefni sem nú er hafið arðbært fyrir þjóðfélagið. En mesti ábatinn er að þegar þessi hugmyndafræði verður komin inn í alla þjónustu sem snýr að eldra fólki því þá verður heldur betur gott að eldast á Íslandi.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. desember 2022.

Categories
Fréttir

Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu

Deila grein

07/12/2022

Ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi verið eitt stærsta álagspróf á heilbrigðiskerfið á síðari tíma.

„Okkur er öllum ljóst að það þarf að taka breytingum til að fylgja hraðri þróun og mæta breyttum þörfum samfélagsins,“ sagði Ingibjörg.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu sé réttlætismál og það verði að tryggja þann aðgang og ná stöðugleika innan heilbrigðiskerfisins.

„Langvarandi samningsleysi og langir biðlistar hindra aðgengi og auka ójöfnuð og því er nauðsynlegt að þessi verkefni séu leyst. Að þessu sögðu er algjört forgangsmál að við náum að semja við þá sem veita þjónustu utan sjúkrahúsa,“ sagði Ingibjörg.

Auka verði fjárframlag ríkisins til heilbrigðismála og skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi til framtíðar.

„Nýlega náðust samningar um aðgerðir vegna legslímuflakks, sem er virkilega ánægjulegt. Í 2. umr. fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir rúmlega 12 milljarða viðbótarframlagi til heilbrigðismála þar sem verið er að fjárfesta í breytingum og umbótum til framtíðar og styrkja grunnkerfi heilbrigðisþjónustunnar. Einnig er þar gert ráð fyrir 750 milljónum sem eru eyrnamerktar í liðskiptaaðgerðir,“ sagði Ingibjörg.

Farið hefur verið í verkefni til að efla menntun heilbrigðisstarfsmanna og fjölga þeim og m.a. með nýrri reglugerð um sérnám lækna. Eins verður hámarksaldur heilbrigðisstarfsfólks hækkaður.

„Viðamikil vinna er komin af stað um að bæta heilbrigðisþjónustu eldra fólks, stuðla að bættri lýðheilsu og forvarnastarfsemi. Ásamt þessu hefur endurhæfingarþjónusta verið efld. Eins og þið heyrið eru verkefnin ærin en algerlega augljóst að hér er ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Heilbrigðiskerfið hefur verið undir miklu álagi síðastliðin ár og okkur er öllum ljóst að það þarf að taka breytingum til að fylgja hraðri þróun og mæta breyttum þörfum samfélagsins. Eitt stærsta álagspróf síðari tíma var heimsfaraldur kórónuveirunnar. Í þeim faraldri sáum við dugnað og krafta okkar heilbrigðisstarfsmanna sem lyftu grettistaki og stóðust það próf með glæsibrag. Þó finnur kerfið enn fyrir eftirköstum faraldursins sem og öðrum útistandandi verkefnum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál og það þarf að tryggja þann aðgang og ná stöðugleika innan heilbrigðiskerfisins. Langvarandi samningsleysi og langir biðlistar hindra aðgengi og auka ójöfnuð og því er nauðsynlegt að þessi verkefni séu leyst. Að þessu sögðu er algjört forgangsmál að við náum að semja við þá sem veita þjónustu utan sjúkrahúsa. Einnig þurfum við að auka fjárframlag ríkisins til heilbrigðismála og skapa eftirsóknarvert starfsumhverfi til framtíðar. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekið mikilvæg skref í átt að þessum markmiðum á því eina ári sem hann hefur gegnt embætti. Nýlega náðust samningar um aðgerðir vegna legslímuflakks, sem er virkilega ánægjulegt. Í 2. umr. fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir rúmlega 12 milljarða viðbótarframlagi til heilbrigðismála þar sem verið er að fjárfesta í breytingum og umbótum til framtíðar og styrkja grunnkerfi heilbrigðisþjónustunnar. Einnig er þar gert ráð fyrir 750 milljónum sem eru eyrnamerktar í liðskiptaaðgerðir. Farið hefur verið í verkefni til að efla menntun heilbrigðisstarfsmanna og fjölga þeim og m.a. með nýrri reglugerð um sérnám lækna. Ásamt þessu verður hámarksaldur heilbrigðisstarfsfólks hækkaður. Viðamikil vinna er komin af stað um að bæta heilbrigðisþjónustu eldra fólks, stuðla að bættri lýðheilsu og forvarnastarfsemi. Ásamt þessu hefur endurhæfingarþjónusta verið efld. (Forseti hringir.) Eins og þið heyrið eru verkefnin ærin en algerlega augljóst að hér er ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu.“

Categories
Fréttir

„Stórt og mikilvægt skref í áttina að því að bæta líðan barnanna okkar“

Deila grein

07/12/2022

„Stórt og mikilvægt skref í áttina að því að bæta líðan barnanna okkar“

„Virðulegi forseti. Í haust hafa borist fréttir af ofbeldi og einelti meðal barna. Margir í samfélaginu hrukku við en því miður er hér ekki um einsdæmi að ræða. Það eru til börn sem beita ofbeldi og þá eru til börn sem verða fyrir ofbeldi,“ sagði Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Með öllum tiltækum ráðum verður að uppræta þetta samfélagslega mein og á öllum stigum. Aðaláherslan hefur verið á aðstoða fórnarlamba ofbeldis, en það er ekki síður mikilvægt að veita viðeigandi fræðslu og stuðning til þeirra sem beita ofbeldi.

„Þeir sem beita ofbeldi eiga oft og tíðum við einhvern innri vanda að stríða og því er mikilvægt að þeir einstaklingar fái rétta leiðsögn og stuðning út í lífið. Með öðrum orðum, það er jafn mikilvægt að aðstoða þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir ofbeldi,“ sagði Hafdís Hrönn.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði á dögunum samning til styrktar Veru, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun. Samningurinn snýr að stuðningi við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi.

Vera er heildstætt langtímameðferðarúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu sem rekið eru af Vímulausri æsku. Samtökin stofnuðu Foreldrahús árið 1999 en kjarnastarfsemi þess er ráðgjöf, meðferð og fræðsla.

„Þessi samningur sem gerður var við Veru er stórt og mikilvægt skref í áttina að því að bæta líðan barnanna okkar en hér er um að ræða lið í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.“

„Markmið stjórnvalda gegn ofbeldi er m.a. að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. Mikilvægt er að allar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki sérstaklega til forvarna og fræðslu,“ sagði Hafdís Hrönn að lokum.


Ræða Hafdísar Hrannar:

„Virðulegi forseti. Í haust hafa borist fréttir af ofbeldi og einelti meðal barna. Margir í samfélaginu hrukku við en því miður er hér ekki um einsdæmi að ræða. Það eru til börn sem beita ofbeldi og þá eru til börn sem verða fyrir ofbeldi. Um er að ræða samfélagslegt mein sem er mikilvægt að uppræta með öllum tiltækum ráðum og þrátt fyrir að það séu ekki vísbendingar að börn verði ofbeldisfull þegar þau verða eldri er engu að síður þörf á að grípa inn í. Það er mikilvægt að leita allra leiða til að stöðva ofbeldi í samfélaginu á öllum stigum. Lengi hefur aðaláherslan verið að veita þeim sem verður fyrir ofbeldi aðstoð og það er vissulega nauðsynlegt, enda er það gríðarlegt áfall að verða fyrir ofbeldi, en það er ekki síður mikilvægt að veita viðeigandi fræðslu og stuðning til þeirra sem beita ofbeldi. Þeir sem beita ofbeldi eiga oft og tíðum við einhvern innri vanda að stríða og því er mikilvægt að þeir einstaklingar fái rétta leiðsögn og stuðning út í lífið. Með öðrum orðum, það er jafn mikilvægt að aðstoða þá sem beita ofbeldi og þá sem verða fyrir ofbeldi.

Í síðustu viku undirritaði Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, samning til styrktar Veru, úrræðis Foreldrahúss fyrir börn í áhættuhegðun. Samningurinn snýr að stuðningi við börn sem eru þolendur ofbeldis eða sem beita ofbeldi. Vera er heildstætt langtímameðferðarúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu sem rekið eru af Vímulausri æsku. Samtökin stofnuðu Foreldrahús árið 1999 en kjarnastarfsemi þess er ráðgjöf, meðferð og fræðsla. Í Foreldrahúsi er starfrækt fjölskylduráðgjöf, foreldrahópar, foreldranámskeið, sjálfstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga og stuðningsmeðferð við ungmenni í vímuefnavanda. Þessi samningur sem gerður var við Veru er stórt og mikilvægt skref í áttina að því að bæta líðan barnanna okkar en hér er um að ræða lið í aðgerðum stjórnvalda til að sporna gegn ofbeldi og samþætta þjónustu í þágu farsældar barna. Markmið stjórnvalda gegn ofbeldi er m.a. að koma á markvissri fræðslu og forvörnum gegn hvers konar ofbeldi, einkum í skólakerfinu, á íþrótta- og æskulýðsvettvanginum, á vinnustöðum og í stafrænum heimi. Mikilvægt er að allar aðgerðir sem lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi taki sérstaklega til forvarna og fræðslu.

Categories
Fréttir

Það verður gott að eldast á Íslandi

Deila grein

07/12/2022

Það verður gott að eldast á Íslandi

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins að á síðasta kjörtímabili hafi farið fram mikil vinna til breytinga á þjónustu í þágu farsældar barna. Vinnan skilaði sér í farsældarlögunum og er innleiðing þeirra þegar farin af stað.

„Samstarf um aukna þjónustu í þágu farsældar barna er framtíðarstef í velferð barna til að vaxa sem fullgildir fullorðnir einstaklingar í íslensku samfélagi,“ sagði Halla Signý.

„Þegar þessar breytingar verða virkjaðar má búast við miklum framförum í þjónustu við börn. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið sjálft. Þeir sem vinna við þjónustu barna hafa fagnað þessari hugarfarsbreytingu sem lengi hefur verið kallað eftir og þegar var farið að tala um að nýta þessa hugmyndafræði fyrir aðra þjónustuhópa. Það hefur nú verið gert.“

„Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra ýttu í gær úr vör drögum að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Um er að ræða heildarendurskoðun þjónustu við aldraðra og eru fimm þætti lagðar til grundvallar: Samþætting, virkni, upplýsing, þróun og heimili,“ sagði Halla Signý.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar. Lögð verður fram þingsályktunartillögu á komandi vorþingi sem felur í sér aðgerðaáætlun um samþættingu á þjónustu við eldra fólk með að markmiði að tryggja því þjónustu við hæfi.

„Forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stórt hlutverk í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar til framtíðar. Það er fátt verðmætara samfélaginu en að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. Líkt og með breytingar í þágu farsældar barna er þetta arðbært verkefni fyrir þjóðfélagið en mesti ábatinn er þegar þessi hugmyndafræði verður komin inn í alla þjónustu sem snýr að eldra fólki því þá verður heldur betur gott að eldast á Íslandi,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar:

„Virðulegi forseti. Á síðasta kjörtímabili var mikil vinna lögð í breytingar á þjónustu í þágu farsældar barna. Útkoman úr þeirri vinnu voru farsældarlögin svokölluðu og innleiðing á þeim er þegar farin af stað og lofar góðu. Samstarf um aukna þjónustu í þágu farsældar barna er framtíðarstef í velferð barna til að vaxa sem fullgildir fullorðnir einstaklingar í íslensku samfélagi. Þegar þessar breytingar verða virkjaðar má búast við miklum framförum í þjónustu við börn. Samfella í þjónustu skilar betri niðurstöðu fyrir barnið og samfélagið sjálft. Þeir sem vinna við þjónustu barna hafa fagnað þessari hugarfarsbreytingu sem lengi hefur verið kallað eftir og þegar var farið að tala um að nýta þessa hugmyndafræði fyrir aðra þjónustuhópa. Það hefur nú verið gert. Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra ýttu í gær úr vör drögum að aðgerðaáætlun til fjögurra ára um þjónustu við eldra fólk. Um er að ræða heildarendurskoðun þjónustu við aldraðra og eru fimm þætti lagðar til grundvallar: Samþætting, virkni, upplýsing, þróun og heimili. Líkt og kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar. Heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið hafa svo sannarlega tekið verkefnið upp á sína arma og stendur til að leggja fram þingsályktunartillögu á komandi vorþingi sem felur í sér aðgerðaáætlun um samþættingu á þjónustu við eldra fólk með það að markmiði að tryggja því þjónustu við hæfi.

Virðulegi forseti. Forvarnir, heilsuefling og endurhæfing spila stórt hlutverk í heilbrigðri öldrun þjóðarinnar til framtíðar. Það er fátt verðmætara samfélaginu en að viðhalda færni og virkni einstaklingsins. Líkt og með breytingar í þágu farsældar barna er þetta arðbært verkefni fyrir þjóðfélagið en mesti ábatinn er þegar þessi hugmyndafræði verður komin inn í alla þjónustu sem snýr að eldra fólki því þá verður heldur betur gott að eldast á Íslandi.“