Categories
Greinar Uncategorized

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Deila grein

09/11/2022

Samstarf á norðurslóðum heldur áfram

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir: „Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um.“

Sam­starf á norður­slóðum er okk­ur Íslend­ing­um afar mik­il­vægt enda nauðsyn­legt að sam­tal og sam­vinna fari fram um sam­eig­in­leg mál­efni svæðis­ins. Með þeim um­hverf­is­breyt­ing­um sem nú eiga sér stað auk ut­anaðkom­andi áhrifa standa íbú­ar norður­slóða frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um. Mik­il­vægt er að við sem búum þar störf­um sam­an að því að bæta lífs­kjör íbúa á norður­slóðum og styrkja fé­lags­lega og menn­ing­ar­lega þróun á svæðinu.

Eins og mörg­um er kunn­ugt ligg­ur starf Norður­skauts­ráðsins og þing­mannaráðstefn­unn­ar um norður­skauts­mál niðri um þess­ar mund­ir vegna inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Þrátt fyr­ir að form­legt sam­starf liggi niðri sótti þing­manna­nefnd um norður­skauts­mál ráðstefnu um mál­efni norður­skauts­ins sem hald­in var á Græn­landi í sept­em­ber.

Ráðstefn­an var hald­in af danska þing­inu og bar yf­ir­skrift­ina: Ráðstefna þing­manna á norður­slóðum – nor­rænt og norður­am­er­ískt sam­starf. Á ráðstefn­unni komu sam­an þing­menn frá Norður­lönd­un­um og Norður-Am­er­íku og ræddu mál­efni norður­skauts­ins. Þar voru ýmis áhuga­verð verk­efni sem unnið er að á norður­slóðum kynnt með sér­stakri áherslu á Græn­land.

Áhersla á lausn­ir

Til­gang­ur ráðstefn­unn­ar var að deila reynslu og hug­mynd­um, eins og tíðkast hef­ur á þing­mannaráðstefn­unni, sem að jafnaði er hald­in annað hvert ár og hef­ur verið sam­starfs­vett­vang­ur þing­manna aðild­ar­ríkja Norður­skauts­ráðsins frá 1993. Meg­in­viðfangs­efni voru lofts­lags­breyt­ing­ar, sjálf­bær efna­hagsþróun og mann­líf á norður­slóðum. Í því sam­bandi var komið inn á margt áhuga­vert, með áherslu á lausn­ir á áskor­un­um sem fólk á norður­slóðum glím­ir við. Fjallað var um mik­il­vægi þess að íbú­ar við norður­skautið verði í for­ystu við að leita lausna við græna og end­ur­nýj­an­lega orku­öfl­un, fyr­ir stór og smá sam­fé­lög. Dæmi um slík verk­efni eru frek­ari nýt­ing vatns­afls, til­raun­ir með sólarraf­hlöður sem koma skemmti­lega á óvart, rækt­un græn­met­is í gróður­hús­um í Nuuk og hug­mynd­ir um að nýta „jöklamjöl“ til áburðar.

Mörg og mik­il­væg mál­efni

Rétt­indi og varðveisla menn­ing­ar frum­byggja var til umræðu og þar á meðal mik­il­vægi þess að þeir væru sýni­leg­ir í kvik­mynd­um og fjöl­miðlum. Það er svo mik­il­vægt að skoða ver­öld­ina frá sjón­ar­hóli fólks­ins á norður­slóðum. Þá var lögð mik­il áhersla á að halda áfram að yf­ir­stíga mikl­ar fjar­lægðir norður­slóða og byggja upp mögu­leika dreif­býl­is­sam­fé­laga með góðum netteng­ing­um til að efla fjar­heil­brigðis- og vel­ferðarþjón­ustu og ra­f­ræna náms­mögu­leika.

Und­ir­rituð tók þótt í umræðu um geðheil­brigðismál og greindi meðal ann­ars frá ís­lenska for­varn­ar­mód­el­inu í vímu­vörn­um, vinnu að breyt­ing­um í mál­efn­um barna og ný­samþykktri stefnu í geðheil­brigðismál­um. Þar var einnig sagt frá áhuga­verðum rann­sókn­um Græn­lend­inga við að greina þætti sem styrkja geðheil­brigði fólks á norður­slóðum og fjallað um þró­un­ar­verk­efni til sjálfs­efl­ing­ar fólks sem ekki finn­ur sig í skóla­kerf­inu.

Íslenska sendi­nefnd­in sam­an­stend­ur af þrem­ur þing­mönn­um sem eru, auk und­ir­ritaðrar, Eyj­ólf­ur Ármanns­son og Berg­lind Ósk Guðmunds­dótt­ir. Með nefnd­inni starfar alþjóðarit­ar­inn Arna Gerður Bang. Að hitta full­trúa annarra þjóða á norður­slóðum get­ur aðeins orðið til góðs, sér­stak­lega í því um­róti sem nú á sér stað í heim­in­um. Ég get full­yrt að all­ir ráðstefnu­gest­ir hafi farið heim með mik­il­vægt vega­nesti inn í kom­andi verk­efni og stærra tengslanet en áður.

Lín­eik Anna Sæv­ars­dótt­ir, þingmaður Fram­sókn­ar og formaður þing­manna­nefnd­ar um norður­skauts­mál.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 7. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Öndvegismaður íslenskunnar

Deila grein

09/11/2022

Öndvegismaður íslenskunnar

Um liðna helgi fór fram málþingið Sam­vinna í nútíð og framtíð á Bif­röst í Borg­ar­f­irði sem haldið var í minn­ingu Jóns Sig­urðsson­ar, fyrr­ver­andi ráðherra og for­manns Fram­sókn­ar­flokks­ins. Góðmennið, hug­ljúf­inn, mála­miðlar­inn, skyn­sem­ismaður­inn; hinn ósvikni sam­vinnumaður. Rit­stjór­inn, kenn­ar­inn, doktor­inn, rektor­inn og seðlabanka­stjór­inn eru allt orð sem hægt er að hengja á Jón. Þessi mikli hug­sjónamaður var einnig ís­lensku­fræðing­ur og var með meist­ara­gráðu í kenn­ara­fræðum, mál­efni sem hann lét sig sér­stak­lega mikið varða.

Jón veitti mér inn­blást­ur í starfi mínu sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra og ger­ir enn. Mér er enn í fersku minni þegar ég las grein hans „Íslenska eða Ís-enska“ í fyrsta skipti – en hún birt­ist í Skírni árið 2017. Í grein­inni rek­ur hann þær áskor­an­ir sem tungu­málið okk­ar, ís­lensk­an, stend­ur frammi fyr­ir. Inn­gangs­orð Jóns í grein­inni kjarna staðreynd máls­ins, en þau hljóma svo: „Móður­málið, þjóðtung­an ís­lenska, lif­ir og dafn­ar, breyt­ist og þrosk­ast áfram ef al­menn­ing­ur í land­inu vill, svo lengi sem sú afstaða er al­menn og því aðeins að svo sé. Framtíð þjóðtung­unn­ar er und­ir þessu kom­in. Vilji al­menn­ings um þetta mót­ast ekki síst af for­dæmi og fyr­ir­mynd­um svo­kallaðra mál­stétta. Þær eru sjón­varps- og út­varps­fólk, blaðamenn, sönglista­fólk, kenn­ar­ar, rit­höf­und­ar og skáld, kenni­menn, sviðlista­menn og marg­ir sem gegna for­ystu á op­in­ber­um vett­vangi.“

Þetta eru orð að sönnu og hug­vekja sem hef­ur hvatt mig áfram í störf­um mín­um – þar sem ég hef lagt áherslu á að taka mál­efni ís­lensk­unn­ar föst­um tök­um og hef­ur margt áunn­ist.

Árið 2019 samþykkti Alþingi þings­álykt­un um að efla ís­lensku sem op­in­bert mál á Íslandi og aðgerðaáætl­un sem henni fylgdi. Meg­in­mark­mið henn­ar var að ís­lenska væri notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, ís­lensku­kennsla og mennt­un yrði efld á öll­um skóla­stig­um og að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi yrði tryggð. Fjár­mun­um var einnig for­gangsraðað í að styðja við menn­ingu og skap­andi grein­ar þar sem ís­lenska er aðal­verk­færið, hvort sem um er að ræða bóka­út­gáfu, fjöl­miðla eða annað. Til þess að setja um­fang þeirra aðgerða sem ráðist var í á síðasta kjör­tíma­bili í sam­hengi, þá voru um 10 millj­arðar króna sett­ir í mál­efni ís­lensk­unn­ar.

Okk­ur er al­vara með því að snúa vörn í sókn fyr­ir móður­málið okk­ar og það hef­ur svo sann­ar­lega mikið vatn runnið til sjáv­ar á aðeins fimm árum í þeim efn­um. Það er margt sem kall­ast á við skrif og sýn Jóns við það sem stjórn­völd hafa hrint í fram­kvæmd. En bet­ur má ef duga skal enda verk­efnið stórt sem kall­ar á sam­vinnu okk­ar allra. Í ráðuneyti mínu er nú unnið að upp­færðri aðgerðaáætl­un fyr­ir ís­lensk­una, þar sem meðal ann­ars verður lögð áhersla á aukið aðgengi að ís­lensku í at­vinnu­líf­inu með stór­auknu fram­boði á ís­lensku­kennslu fyr­ir út­lend­inga og að ís­lensk­an verði í fyrsta sæti í al­manna­rými svo eitt­hvað sé nefnt. Fram­lag og vit­und­ar­vakn­ing önd­veg­is­manns ís­lensk­unn­ar, Jóns Sig­urðsson­ar, mun hvetja okk­ur áfram í þeirri vinnu og koma tungu­mál­inu okk­ar til góða um ókomna tíð.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 3. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Römpum upp umræðuna

Deila grein

04/11/2022

Römpum upp umræðuna

Í nýlegri kjördæmaviku hittu þingmenn sveitarstjórnarfólk og fólk víða að úr samfélaginu. Ég hef ávallt haft það sem vinnureglu, hvort sem það var á tíma mínum sem sveitarstjórnarfulltrúi í Hafnarfirði eða nú sem þingmaður fyrir Suðvesturkjördæmi, að heimsækja fólk og fyrirtæki á þeirra heimavelli. Fara út á örkina og heyra hvað fólki býr í brjósti. Það er ýmislegt sem liggur fólki á hjarta og það er mikilvægt að vera meðvitaður um að allar ákvarðanir sem teknar eru hjá ríki og sveitarfélögum séu fyrir samfélagið. Ákvarðanir sem slíkar koma ekki með kalda vatninu heldur eru þær teknar með pólitískum áherslum. Uppspretta hugmynda sem síðar verða að ákvörðunum byrja í samtölum við fólk. Því stjórnmálaákvarðanir móta samfélagið og snerta flesta þætti lífs okkar á einn eða annan hátt.

Sveitarfélög sinni nærþjónustu

Umræða um vanfjármögnun málaflokks fatlaðs fólks hefur farið hátt síðustu vikur. Þjónusta við fatlað fólk er nærþjónusta sem á að vera á höndum sveitarfélaga, það þekki ég á eigin skinni. Það er vissulega staðreynd að kostnaður við málaflokkinn hefur aukist gríðarlega á undanförnum árum og ofan á ýmislegt annað, gert rekstur sveitarfélaga þyngri. Staðreyndin er sú að sveitarfélög eru misvel rekin og í sumum tilfella hafa þau einfaldlega verið rekin mjög illa á undanförnum árum og mega því við litlu. Það gleymist oft í umræðunni um fjármál sveitarfélaga að þau eiga að leggja áherslu á að sinna lögbundinni skyldu en ekki gælu verkefnum, lögbundin skylda á ávallt að standa framar öðrum verkefnum. Vissulega hefur þjónusta í málaflokki fatlaðs fólks aukist við flutning hans yfir til sveitarfélaga og kostnaður þar með. Það gerist með meiri nánd og einungis hægt að líta á aukna þjónustu sem framfaraskref. Við sem samfélag hljótum öll að vera sammála um það að veita fötluðu fólki betri þjónustu en gert var hér á árum áður.

Við þurfum að bera virðingu fyrir fólki

Hins vegar ber okkur skylda til þess að fjármagna þessa þjónustu svo vel sé og koma í veg fyrir að kostnaðurinn sligi sveitarfélögin í landinu. Nokkur sveitarfélög hafa haldið þeirri umræðu uppi að skila eigi þjónustu við fatlað fólk aftur til ríkisins. Um slíkan málflutning hef ég þetta að segja; mikilvægt er að í allri umræðu um málaflokk fatlaðs fólks að umræða sé vönduð og af virðingu við það fólk sem þarf á þjónustunni að halda. Á bak við málaflokkinn er fólk, fólk sem á rétt á að njóta sömu lífsgæða og geta gert sömu hluti og okkur flestum þykir svo sjálfsagðir. Það er ekki boðlegt að nota fatlað fólk í pólitískum tilgangi og sem vopn í deilum milli ríkis og sveitarfélaga um meira fjármagn. Þar þurfum við að rísa upp og bera ábyrgð, þau sem raunverulega það gera; sveitarstjórnarfólk og þingmenn.

Höldum umræðunni þar sem hún á heima, það er ótækt að fatlað fólk búi við áhyggjur og upplifunin sé að þau séu baggi á sveitarfélögum. Höldum áfram samtalinu en vöndum til verksins.

Ágúst Bjarni Garðarsson, Alþingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Þýðing nagla­dekkja­gjalds?

Deila grein

04/11/2022

Þýðing nagla­dekkja­gjalds?

Síðustu daga hefur umræða um svokallað „nagladekkjagjald“ litið dagsins ljós eftir að Umhverfisstofnun viðraði hugmyndir um slíkt gjald. Sú hugmynd gengur út á það að sveitarfélögum verði veitt heimild til að rukka ökumenn um gjald þegar þeir keyra á vegum þess á nagladekkjum. Að mati stofnunarinnar er hægt að draga úr svifryksmengun með slíkri aðgerð. Vissulega er svifryksmengun skaðvaldur á lýðheilsu fólks, og okkur ber að tryggja viðunandi umhverfisgæði. Hins vegar staldra margir, af góðri ástæðu, við þessa hugmynd.

Raunverulegi kostnaðurinn

Margar vangaveltur vakna varðandi aðgerðina, þýðingu hennar og framkvæmd. Margt er óljóst í þessum efnum, en við getum verið sammála um eitt. Það er að vissulega mun gjaldtaka sem þessi skapa sveitarfélögum aukinn hagnað og dregið að einhverju magni úr svifryksmengun, en við allan plús kemur mínusinn fram einhvers staðar. Hver er kostnaðurinn?

Duldi kostnaðurinn við þessa aðgerð ekki fram í tölum á Excel skjali, enda er ekki hægt að meta hann til verðs. Í raun er hann ekki svo dulinn því við vitum öll tilgang nagladekkja. Að draga úr notkun nagladekkja dregur einnig úr umferðaröryggi.

Engan afslátt af öryggi

Öryggi fólks á alltaf að vera í fararbroddi þegar við ræðum aðgerðir í samgöngum. Sú ætlan að heimila sveitarfélögum val um að leggja gjald á notendur nagladekkja er andstæð umferðaröryggi. Við værum að stuðla að aukinni notkun illa útbúna dekkja í umferðinni. Undirritaður starfaði sem lögreglumaður í 23 ár og hef séð afleiðingar af slæmum dekkjabúnaði bifreiða of oft til að geta talið þau óþörf. Aðstæður á götum Reykjavíkurborgar, þjóðvegum landsins og byggðum um land allt geta óvænt orðið stór hættulegar og þar hafa nagladekk sífellt endurtekið reynst nauðsynlegar. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt þegar það kemur að öryggi fólks í umferðinni.

Frekar viljum við lágmarka alla hættu og draga úr tjóni á ökutækjum, slysum á fólki og dauðaslysum. Hér á landi höfum við náð góðum árangri í umferðaröryggi og höfum ekki efni á því að taka skref til baka í þeim efnum.

Landsbyggðarskattur?

Þá horfir undirritaður sérstaklega til umferðaröryggis einstaklinga sem búa utan höfuðborgarsvæðisins og þurfa reglulega að aka þangað vegna vinnu, til að sækja þjónustu eða hvað annað sem þarf. Plúsinn á Excel skjalinu kemur augljóslega að mestu leyti úr þeirra vasa.

Þess má geta að vinnusóknarsvæði landsbyggðarinnar teljast oft í tugum kílómetra og erfitt er að áætla veður og færð. Allt frá ljúfu logni yfir í frost og rok. Við vitum aldrei fullkomlega hvaða veðrátta mætir þér. Þess vegna verðum við að útbúa ökutækin okkar í samræmi við það. Þessar aðstæður krefjast viðunandi öryggisbúnaðar, þ.á.m. nagladekkja, enda hafa aðstæður hér á landi oft verið til þess fallnar að nagladekk hafa reynst nauðsynleg. Ætla sveitarfélög sér það í alvöru að leggja gjald á fólk sem nauðsynlega þarf á nagladekkjum að halda öryggisins vegna?

Verulega óljós framkvæmd

Að auki má vissulega setja spurningamerki við framkvæmd slíkrar aðgerðar, en hún er með öllu óljós og erfitt er að átta sig á því hvernig hún eigi að vera. Að vísu væri hún nokkuð skrautleg, og þá sérstaklega hvað varðar einstaklinga sem keyra milli sveitarfélaga. Þar koma einstaklingar af landsbyggðinni aftur sérstaklega til álita.

Þegar ég, sem bý í Skagafirði og keyri töluvert til höfuðborgarsvæðisins og til baka vinnunnar vegna, keyri til dæmis til Leifsstöðvar í flug. Förum stuttlega yfir þá ferð:

Ég legg af stað að heiman í Skagafirði, þá yfir í Skagabyggð, Húnabyggð, Húnaþing vestra, Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit, Reykjavíkurborg, Mosfellsbæ, aftur Reykjavíkurborg, þá Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð, Voga, Reykjanesbæ og loks Suðurnesjabæ.

Til að forðast furðulega gjaldtöku yrði undirritaður að vera með tvöfaldan dekkjagang og skipta um dekk á miðri ferð ef sum þessara sveitarfélaga myndu leggja á umrætt gjald. Það liggur fyrir að dæmið gangi ekki upp.

Að sama skapi veltir maður fyrir sér að væntanlega yrði gjaldtakan innt af hverju sveitarfélagi fyrir sig. Spurningin er þá þessi: myndi einstaklingur sem færi í sambærilega ferð að greiða hverju einasta sveitarfélagi gjaldið. Þessi ferð væri orðin töluvert dýrari þar sem bensíngjaldið væri varla það sem ökumaður hefði lengur áhyggjur af.

Leiðin áfram

Af öllu þessu þá er augljóst að hugmyndin eigi ekki stoð í raunveruleikanum nema þá með það í huga að fólk eigi að neyðast til að greiða enn eitt gjaldið fyrir að geta ferðast í eigið ökutæki.

Það að draga úr svifryksmengun er vissulega göfugt markmið sem við sammælumst um. Hins vegar eru umrædd hugmynd Umhverfisstofnunar slæm. Ef hugsað er um hvernig hægt sé að stuðla að fallegra umhverfi, betri umhverfisgæðum og aukinni lýðheilsu þá varðar það einnig sveitarfélögin og þjónustu þeirra. Þá aðallega hreinsun gatna og gangstétta, sem lengi hefur sætt gagnrýnni t.d. í Reykjavíkurborg. Má vera að Reykjavíkurborg og eftir atvikum önnur sveitarfélög geti staðið betur að hreinsun gatna til að minnka svifryksmengun í sínu nærumhverfi? já ég tel svo vera. Það er leiðin áfram.

Stefán Vagn Stefánsson, Alþingismaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2022.

Categories
Fréttir

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar

Deila grein

03/11/2022

Sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar

Fram undan er sveitarstjórnarráðstefna Framsóknar sem haldin verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 11. nóvember næstkomandi. Framsókn á góðu fylgi að fagna eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar sem kristallast í fjölda fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu.

Sterkari Framsókn

Af B-listum Framsóknar voru kjörnir alls 69 sveitarstjórnarfulltrúar og hafa aldrei verið fleiri í annan tíma. Framsókn bætti við sig yfir landið allt af B-listum 23 sveitarstjórnarfulltrúum. Af blönduðum framboðum voru síðan kjörnir alls 38 sveitarstjórnfulltrúar, flokksbundnir í Framsókn. Þetta gerir samantekið alls 108 sveitarstjórnarfulltrúa um land allt.

Það verður án efa af nægu að taka á ráðstefnunni enda fjölmörg málefni sem brenna á sveitarstjórnarfólki.

mynd: marinatravel.is 3. nóvember 2022

Categories
Greinar Uncategorized

Er ástæða til að lækka fasteignaskatta?

Deila grein

03/11/2022

Er ástæða til að lækka fasteignaskatta?

Fasteignagjöld sveitarfélaganna hafa verið mikið til umræðu undanfarna daga og ekki að ósekju. Fasteignamat fyrir árið 2023 hefur hækkað um tugi prósenta um allt land og miðað við óbreytt álagningarhlutfall þá leiðir hækkun fasteignamats sjálfkrafa til aukinnar skattheimtu óháð öðrum þáttum, s.s. launaþróun á viðkomandi svæði, íbúaþróun eða hvort þjónustuþörf hefur aukist að ráði. Þetta er óheppilegt fyrirkomulag þegar sveiflur eru miklar og fyrirsjáanleikinn lítill sem enginn, hvorki fyrir íbúa sem skattgreiðendur eða fyrir sveitarfélögin sem þurfa að skipuleggja sín útgjöld.

Álögur á húseigendur og fyrirtæki aukast um 400 milljónir

Milli áranna 2022 og 2023 hækkar fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri um 11,7% og íbúðarhúsnæðis um 25,6%. Miðað við óbreytta álagningarprósentu má gera ráð fyrir að tekjur Akureyrarbæjar gætu aukist um tæpar 400 milljónir króna vegna fasteignaskatts á árinu 2023 frá árinu í ár. Með öðrum orðum, heimilin taka á sig aukna og ófyrirséða byrði og fjölskyldur greiða hærra hlutfall af tekjum sínum í fasteignaskatt. Skattbyrði fyrirtækjanna hér í bæ þyngist að sama skapi og fátt sem kemur á móti í rekstrarumhverfi þeirra sem auðveldar þeim að standa undir þessari auknu byrði.

Eiga heimili inni lækkun hjá Akureyrarbæ?

Þegar borin eru saman átta fjölmennustu sveitarfélögin, með 10.000 íbúa eða fleiri, kemur í ljós að Akureyri trónir á toppnum með hæstu álagningarprósentu fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis. Sé horft til síðustu fimm ára og skoðað hver þróunin hefur verið þá er ljóst að hún miðar heilt yfir í sömu átt og þá að sveitarfélögin hafa verið að lækka fasteignaskattsálagninguna. Akureyrarbær rekur hins vegar lestina hvað þessa þróun varðar, þ.e.a.s. fyrir utan Reykjavíkurborg sem hefur framan af verið með lægsta álagningarhlutfallið. Meðaltalslækkun álagningarhlutfalls á 5 ára tímabili hjá hinum sveitarfélögunum er 17,8% en hjá Akureyrarbæ er lækkunin á sama tíma aðeins 5,7%.

Ef við setjum okkur í hóp með fjórum fjölmennustu sveitarfélögunum (Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjanesbæ) þá hefur álagður fasteignaskattur hlutfallslega hækkað mest hjá Akureyrarbæ á þessu sama tímabili. Tekjur vegna fasteignaskatta hafa með öðrum orðum aukist meira hér þrátt fyrir þá staðreynd að fólksfjölgun hefur verið hægari en í hinum sveitarfélögum, ef frá er talinn Hafnarfjörður, sem gerir samanburðinn enn óhagstæðari fyrir Akureyri. Ef við horfum til næstu þriggja sveitarfélaga á eftir okkur í stærð (Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Árborgar) þá hafa tekjur þeirra vegna fasteignaskatta aukist meira í samanburði við Akureyri, en þar hefur fólksfjölgun hins vegar verið mun hraðari, sem skýrir að stórum hluta auknar tekjur.

Við skerum okkur því sannarlega úr og ekki víst að það sé jákvæður samanburður. Það er vissulega einn af grunnþáttum í starfi bæjarstjórnar að ábyrg fjármálastjórn sé höfð að leiðarljósi. Það ætti þó ekki síður að vera kappsmál bæjarfulltrúa að gæta hófs í gjaldtöku og skattheimtu á íbúa – og á einhverjum tímapunkti hlýtur það að vera sanngirnismál að sækja ekki síauknar tekjur frá heimilum og fyrirtækjum frá ári til árs. Við vitum ekki enn hvaða ákvörðun önnur fjölmennari sveitarfélög koma til með að taka í sinni fjárhagsáætlanagerð en kjörnir fulltrúar flestra þeirra sveitarfélaga sem hér hafa verið nefnd gáfu það þó út í vor að álagningarprósentan yrði lækkuð í takt við hækkun fasteignamats.

Getum við lækkað fasteignaskatta?

Ein stærsta áskorunin í þeirri fjárhagsáætlanagerð sem nú stendur yfir er vaxtaumhverfi núlíðandi stundar. Rétt viðbrögð við þeirri áskorun er hins vegar að fara varlega í fjárfestingar sem kalla á miklar lántökur, aukinn rekstrarkostnað og aukinn fjármagnskostnað. Rétt viðbrögð, gagnvart íbúum okkar, er að horfa til mótvægisaðgerða sem verja lífskjör heimilanna. Í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi þá eigum við að horfa til þess hvort við getum lækkað álagningarhlutfall fasteignagjalda til móts við hækkun fasteignamats, þannig að álagningin, að teknu tilliti til verðlags, hækki ekki milli ára.

Í vikunni var fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir árin 2023 – 2026 lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir óbreyttri álagningarprósentu fasteignaskatts og þar með auknum útgjöldum heimila og fyrirtækja. Við bæjarfulltrúar Framsóknar lögðum hins vegar til að þetta yrði endurskoðað áður en fjárhagsáætlunin er lögð fram til seinni umræðu. Ég á raunar ekki von á öðru en að meirihlutinn skoði það vel og leiti leiða til þess að lækka álögur á bæjarbúa, enda gefur málefnasamningurinn frá í vor ekki tilefni til annars en bjartsýni í þeim efnum.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Framtíðarsýn í atvinnumálum

Deila grein

01/11/2022

Framtíðarsýn í atvinnumálum

Á yfirstandandi ári náði Mosfellsbær þeim merka áfanga að komast yfir 13 þúsund manns í íbúafjölda, sem er merkilegur áfangi.
Sér í lagi ef við spólum rúma tvo áratugi aftur í tímann eða í kringum aldamót, þá voru íbúar rétt um 6 þúsund. Á þeim tíma voru Leirvogstungu- og Helgafellshverfin enn fjarlægur draumur, sama má segja um Krikahverfið. Eini grunnskóli bæjarins var þá Varmárskóli og aðeins ein almenningssundlaug, okkar kæra Varmárlaug.
Á árinu 1999 leit Atvinnu- og ferðamálastefna fyrir Mosfellsbæ dagsins ljós, var hún gerð til fjögurra ára eða til ársins 2003, með yfirskriftina „Mosfellsbær – heit sveit með sögu“. Síðan hefur heilmikið vatn runnið til sjávar og Mosfellsbær tekið á sig gjörbreytta mynd, með rúmlega tvöfalt fleiri íbúa.
Það er því hægt að fullyrða að Mosfellsbær er sveitarfélag í miklum vexti, ef áætlanir ganga eftir þá mun vöxturinn áfram vera með svipuðum hraða næstu árin. Í dag stöndum við frammi fyrir því að mikil uppbygging á nýju hverfi mun hefjast innan skamms á Blikastaðalandinu. Eins og kynnt hefur verið þá verða fyrstu húsin sem rísa í Blikastaðalandinu á atvinnusvæði sem verður umfangsmeira en við eigum almennt að venjast í Mosfellsbæ. Nú er því lag að móta framtíðarsýn fyrir atvinnu- og nýsköpun í Mosfellsbæ til að skapa það umhverfi sem okkur hugnast helst í þeim málum til framtíðar. Með tilkomu nýrrar atvinnu- og nýsköpunarnefndar þá verða þau verkefni tekin föstum tökum og meðal fyrstu verkefna nefndarinnar verður að leiða vinnu við heildar atvinnu- og nýsköpunarstefnu fyrir Mosfellsbæ.
Þetta er einstakt tækifæri á tímum mikilla breytinga. Tæknibreytingar, umhverfismál, almenningssamgöngur, fjarvinna og stytting vinnuvikunnar hafa haft og munu hafa áhrif á það hvernig fólk kýs að búa og starfa. Við eigum kost á því í þessari vinnu að velta fyrir okkur hvernig samfélag við viljum skapa. Hvað er það í okkar nærumhverfi sem skiptir okkur mestu máli? Hvernig mun Mosfellsbær líta út eftir önnur 20 ár og hvaða áherslur verða hjá íbúum þess tíma?
Í dag er fjöldi fyrirtækja með starfsemi í Mosfellsbæ og þurfum við að hlúa vel að þeim. Vissulega er litið á höfuðborgarsvæðið sem eitt atvinnusvæði, en Mosfellsbær hefur fulla burði til að styrkja sína stöðu sína enn frekar sem eftirsóknarverður kostur fyrir fyrirtæki til að reka starfsemi sína. Tækifærin eru til staðar, það er okkar að stuðla að því að búa til farveg sem ýtir enn frekar undir nýsköpun og framtakssemi.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst á mosfellingi.is 27. október 2022.

Categories
Greinar

Að reka sveitarfélag

Deila grein

01/11/2022

Að reka sveitarfélag

Á síðustu vikum hefur sveitarstjórnarfólk af öllu landinu komið saman til að fjalla um rekstur og málefni sveitarfélaga.
Í lok september var haldið Landsþing sambands íslenskra sveitarfélaga og í október var fjármálaráðstefna.
Það er mjög gagnlegt fyrir fólk sem kemur að því að stýra þessum mikilvægu innviðum um allt land að hittast og bera saman bækur sínar. Bæði kjörnir fulltrúar og bæjar- og sveitarstjórar. Áskoranirnar eru miklar en það sést best á því að sveitarfélögum sem uppfylla ekki lágmarksviðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur fjölgað um helming nú í kjölfar heimsfaraldursins. Mosfellsbær er sem betur fer ekki í þeim hópi.
Hluti af skýringunum á þessum rekstrarerfiðleikum er flutningur á málaflokki fatlaðs fólks til sveitarfélaga fyrir um 10 árum. Síðan þá hefur þjónustan þróast í samræmi við breytingar á lögum og verið verið nútímavædd og kostnaðurinn að sama skapi aukist mikið án aukningar á mótframlagi frá ríkinu. Breyting á þjónustu skýrir líka aukinn kostnað í fleiri málaflokkum. Þar er hægt að nefna leikskólamál. Kostnaður sveitarfélaga vegna leikskóla eru um 60 milljarðar króna á landsvísu.
Á síðustu áratugum hafa sveitarfélög byggt upp leikskóla sem standast nútímakröfur þar sem vistunartími hefur verið lengdur bæði með tilliti til aldurs barna og einnig með tilliti til lengdar á vistunartíma. Nú heyrir það til undantekninga ef börn eru ekki komin á leikskóla á öðru aldursári og að þau dvelji þar að minnsta kosti í átta tíma á dag. Hluti af skýringunni á erfiðum rekstri sveitafélaga er líka mikil fólksfjölgun og fjárfestingarþörf sem fylgir henni. Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur til að mynda fjölgað um rúmlega 30 þúsund á síðustu 10 árum.

Ég er með þessum skrifum ekki að leggja til neina töfralausn á rekstri sveitarfélaga. Því miður. Heldur er ég frekar að deila þeim upplýsingum sem liggja fyrir og hugleiðingum þeim tengdum. Mér finnst mikilvægt að þau sem taka að sér að taka ákvarðanir um rekstur okkar sameiginlegu sjóða upplýsi um það hvernig gengur og af hverju ekki er hægt að gera allt fyrir alla strax.
En ég er hinsvegar bjartsýn á að okkur muni áfram farnast vel hér í Mosfellsbæ við það krefjandi verkefni að takast á við mikla fjölgun íbúa á sama tíma og við nútímavæðum og bætum þjónustuna.
Það þýðir að við þurfum að vera skynsöm og forgangsraða með tilliti til fjárfestingargetu hverju sinni. Það þýðir líka að við þurfum að leggja áherslu á stefnumótun þannig að við vitum hvert við erum að fara og með samtalinu finnum við út úr því hvernig á að komast þangað.

Aldís Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. október 2022.

Categories
Greinar

Smá veröld í risaheimi stafrænnar tækni

Deila grein

01/11/2022

Smá veröld í risaheimi stafrænnar tækni

Stafræn tækni er komin til að vera með sínum kostum og göllum. Það er þó engum blöðum um það að fletta að hún hefur töluverð áhrif á hegðun okkar og andlega líðan. Í gegnum algóritma stýra miðlarnir því sem við sjáum og smám saman verður veröld okkar ótrúlega smá í risaheimi stafrænnar tækni; einhvers konar bergmálshellir. Þetta gæti að einhverju leyti útskýrt aukningu á líkamlegu-, kynferðis- og stafrænu ofbeldi meðal ungmenna ásamt minna þoli en áður gagnvart fjölbreytileika.

Í samantekt, sem unnin er úr gögnum Rannsóknar og Greiningu frá árinu 2021, kemur fram að mikilvægi þess að taka samtalið við börn um stafræn samskipti hefur aldrei verið meiri. Ýmis teikn eru á lofti um skaðlega notkun og má þar nefna andstyggileg skilaboð og sendingar á ögrandi myndum. Sem dæmi segjast rúmlega helmingur stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda nektarmyndir og rúmlega 30% hafa sent slíkar myndir. Auk þess eru sífellt færri sem meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða.

Það hefur verið sýnt fram á fylgni milli aukinnar stafrænnar notkunar ungmenna og hrakandi andlegrar heilsu, en með óhóflegri notkun geta ungmenni átt á hættu að þróa með sér kvíða, þunglyndi og truflun á svefni svo dæmi séu tekin. Þessi stöðugi samanburður, óraunhæfar fyrirmyndir, að gera ekki greinarmun á net- og raunsjálfi, áhrifavaldar sem telja okkur trú um að við þurfum hitt og þetta til að vera hamingjusöm, ofuráhersla á veraldlega hluti og fleiri hlutir spila þar stórt hlutverk.

Ofurseld markaðsöflunum

Að baki stafrænna miðla eru stór fyrirtæki með sérfræðinga á hverju strái sem vita nákvæmlega hvernig á að gera okkur háð þessari tækni og hafa áhrif á neytendahegðun okkar. Þetta þekkjum við fullorðna fólkið líka og ættum því auðveldlega að geta sett okkur í spor barna og ungmenna sem eru að feta sín fyrstu skref í stafrænum heimi. Það þarf að auka fræðslu um óbeina markaðssetningu, vöruinnskot, áhrifavalda-markaðsetningu, hvernig markaðsskilaboð elta okkur á miðlunum og síðast en ekki síst um það hvernig viðskiptamódel samskiptamiðla virka. Auðvitað er óskastaðan sú að foreldrar ræði þessi mál við börnin sín en við, hinn almenni íbúi, erum einnig að fóta okkur í nýjum stafrænum heimi. Þess vegna er mikilvægt að við leggjum sérstaka áherslu á stafrænt læsi barna og ungmenna í nýrri lýðheilsustefnu Akureyrarbæjar.

Hjá Akureyrarbæ starfa 7 frábærir forvarna- og félagsmálafulltrúar sem sem ná mjög vel til barna og ungmenna sveitarfélagsins. Þeir aðlaga starf sitt hverjum tíma og hafa sem dæmi notað til þess niðurstöður úr rannsóknum á lýðheilsu barna á Akureyri og aðlaga sitt starf að þeim miðlum sem ungmenni styðjast við þá stundina. Nýtum þann mannauð og eflum stafrænt læsi barna og ungmenna.

Mæli sérstaklega með þessari grein Skúla Braga Geirdal sem hefur rannsakað þessi mál betur í gegnum starf sitt sem verkefnastjóri miðlalæsis hjá Fjömiðlanefnd. (sjá á akureyri.net)

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 28. október 2022.

Categories
Fréttir

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Deila grein

31/10/2022

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Nú eru kjördæmisþing allra Framsóknarfélaga landsins afstaðin og miðstjórnarfulltrúar hafa því verið kjörnir. Upplýsingar um haustfund miðstjórnar er að finna hér fyrir neðan. Það stefnir í virkilega góða mætingu og eru aðalmenn í miðstjórn því hvattir til að bóka hótelherbergi sem fyrst.