Categories
Fréttir

Undirrituðu samstarf um faggildingu

Deila grein

26/08/2022

Undirrituðu samstarf um faggildingu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Ulf Hammarström, forstjóri sænsku faggildingarstofunnar SWEDAC, undirrituðu í dag endurnýjað og uppfært samkomulag um samstarf á vettvangi faggildingar. Samkomulagið styður við sameiginlega sýn Norðurlandanna á vegum norrænum ráðherranefndarinnar um að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Faggilding gegnir í því sambandi lykilatriði við að efla samkeppnishæfni og efla traust og fagþekkingu innan norrænu hagkerfanna.

,,Faggilding eykur samkeppnishæfni atvinnulífsins og því er afar ánægjulegt að þessi samningur sé loksins kominn í höfn. Margir hafa komið að undirbúningum og þakka ég þeim sérstaklega fyrir,“ segir Lilja Dögg. 

Faggilding er formleg viðurkenning stjórnvalds á því að tiltekinn aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat á framleiðslu vöru eða þjónustu. Með faggildingu er þannig tryggt að aðilar sem framleiða vörur eða þjónustu í samræmi við tilteknar opinberar kröfur eða tiltekna staðla geti fengið framleiðslu sína vottaða og þannig tryggingu fyrir því að framleiðslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar.

Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að efla faggildingarstarfsemi hér á landi m.a. með því að tryggja að faggildingarsvið Hugverkastofunnar (ISAC) uppfylli viðeigandi kröfur í Evrópureglum með framkvæmd jafningjamats.

Jafningjamat tryggir að faggildingar framkvæmdar hér á landi af faggildingarsviði Hugverkastofunnar verði viðurkenndar á EES-svæðinu og gerir samstarfssamningurinn íslensku faggildingarstofunni ISAC kleift að nálgast faglegan og tæknilegan stuðning við framkvæmd faggildingar hjá einni af stærstu faggildingarstofum í Evrópu. Aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði sem og öðrum mun efla tengsl og styrkja faglegan grundvöll fyrir starfsemi stjórnvalda.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is

Mynd: Stjórnarráðið

Categories
Fréttir

Ánægjuleg heimsókn þingflokks Framsóknar í Hveragerði

Deila grein

25/08/2022

Ánægjuleg heimsókn þingflokks Framsóknar í Hveragerði

Vinnufundur þingflokks Framsóknar fór fram í Veisluhöllinni í Hvergerði fimmtudaginn 25. ágúst. Eftir hádegismat í Gróðurhúsinu, Mathöll Sunnlendinga, heimsótti þingflokkurinn bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar. Helga Kristjánsdóttir, skrifstofustjóri tók á móti hópnum og fór yfir sögu bæjarins. Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknar í Hveragerði fór yfir verkefnin framundan. Í lok vinnufundar kynnti Þórir Haraldsson, framkvæmdastjóri Heilsustofnunar NLFÍ starfsemi stofnunarinnar og framtíðarform um uppbyggingu á svæðinu.

Categories
Fréttir

Heilbrigðisráðherra undirritaði samning um nýbyggingu endurhæfingar Grensás

Deila grein

25/08/2022

Heilbrigðisráðherra undirritaði samning um nýbyggingu endurhæfingar Grensás

Mynd: Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra undirritaði í gær samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu um fullnaðarhönnun 3.800 fermetra viðbyggingar við endurhæfingardeild Grensáss. Ráðherra segir þetta enn einn ánægjulegan áfanga í uppbyggingu betra húsnæðis fyrir Landspítala, sjúklinga og starfsfólk Grensáss og þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Gert er ráð fyrir að hönnunarferlið taki um það bil eitt ár og að því loknu verði unnt að hefja verklegar framkvæmdir.

Nordic Office of Architecture og EFLA urðu hlutskörpust í útboði vegna fullnaðarhönnunarinnar þar sem byggt var á matslíkani og verði. Nýbyggingin mun rísa vestan við núverandi aðalbyggingu endurhæfingardeildarinnar. Með henni munu aðstæður til endurhæfingar gjörbreytast og endurhæfingarrýmum fjölga. Á undanförnum tveimur áratugum hafa orðið miklar breytingar á endurhæfingarstarfsemi í ljósi framfara í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Þannig hefur þeim fjölgað mikið sem nú lifa með fötlun af völdum sjúkdóma og slysa og þörf fyrir öfluga og góða endurhæfingu fer vaxandi.

Fjölmenni var við undirritun samningsins og gleðin lá í loftinu yfir þessum tímamótum. Heilbrigðisráðherra færði þakkir þeim fjölmörgu sem sýnt hafa í verki öflugan stuðning við starfsemi Grensáss og nefndi sérstaklega Hollvinasamtök Grensáss sem hafa frá stofnun samtakanna árið 2006 reynst starfseminni ómetanlegur bakhjarl.

Samninginn undirrituðu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fyrir hönd Nýs Landspítala ohf.,  Hallgrímur Þór Sigurðsson fyrir hönd Nordic Office of Architecture og Ólafur Ágúst Ingason fyrir hönd EFLU. Vottar að undirskrift voru Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnar Hollvina Grensáss og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 24. ágúst 2022.

Myndir: Heilbrigðisráðuneytið

Categories
Greinar

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Deila grein

24/08/2022

Not­enda­gjöld í um­ferðinni

Sem hluti af loftlagsstefnu hafa stjórnvöld nú lagt aukna áherslu á orkuskipti í samgöngum. Samliða orkuskiptunum verður þó ekki litið fram hjá að huga þarf að breyttri gjaldtöku í umferðinni, en núverandi gjaldtaka hér á landi er mest í formi eldsneytisgjalds. Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af eldsneytisgjöldum og vörugjöldum ökutækja muni líklega lækka um milljarða króna bara á þessu ári vegna fjölgunar rafbíla.

Í samgönguáætlun sem samþykkt var í fyrra var ákveðið að taka umferðargjald til endurskoðunar samhliða orkuskiptum í samgöngum. Lagt er til að hætt verði með bensín- og dísilgjöld og þess í stað komi einhverskonar notkunargjöld eða veggjöld líkt og tíðkast víða í nágrannalöndum okkar. Með fyrirliggjandi orkuskiptum komumst við ekki hjá því að taka upp þá umræðu hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðar gjaldtöku af umferðinni.

Rangfærslur á samfélagsmiðlum

Í umfjöllun á samfélagsmiðlum undanfarnar vikur hefur komið fram að innheimta gjaldtöku í jarðgöngum sé til þess að fjármagna fyrirhuguð jarðgöng á landinu og hefur verið nefnt að upphæð fyrir hverja ferð verði 300 krónur. Þessi upphæð er algjörlega úr lausu lofti gripin enda hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um fjárhæðir í þessum efnum. Útfærsla á notkunargjaldi í jarðgöngum hefur ekki verið ákveðin, áður en það er gert þarf fyrst að fara fram greiningarvinna. Niðurstöður greiningarvinnu gætu falið í sér mismunandi gjöld eftir staðsetningu, gerð og samfélagsaðstæðum eða afslátt til þeirra sem búa við viðkomandi jarðgöng. Við ákvörðunartöku sem þessa þarf að sjálfsögðu að horfa til sjónarmiða sem eðlilegt og réttmætt þykir að taka tillit til, m.a. jafnræðissjónarmiða.

Færeyska leiðin í gjaldtöku í jarðgöngum.

Í greinargerð með samgönguáætlun 2020 til 2034 segir að stefnt sé að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi sem fjármagna eigi rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga. Þessi leið við framkvæmd jarðganga felur einnig í sér stofnun félags um jarðgangagerð með framlagi frá ríkinu í upphafi en síðan taki notendur þátt í hluta af kostnaði við framkvæmd. En í stefnumótun með endurskoðaðri samgönguáætlun til komandi framtíðar og fjármögnun samgangna var m.a. talað um notendagjöld í jarðgöngum.

Við undirbúningsvinnuna hefur verið horf til hvernig frændur okkar í Færeyjum hafa farið að við uppbyggingu á jarðgöngum. Í Færeyjum er gjaldtaka í neðansjávargöngum og hafa þar verið stofnuð félög til þess að standa straum af gerð þeirra en vegagerð Færeyja hefur síðan eftirlit með þeim. Veggjald í jarðgöng í Færeyjum eru mishá eftir staðsetningu jarðganga en þau eru allt að 100 DKK en veittir eru afslættir fyrir þá sem nýta þau sér mikið líkt og til íbúa nærliggjandi svæða.

Gjaldtaka af umferð í Noregi frá 1960

Norðmenn hafa innheimt veggjöld til að kosta gerð mannvirkjanna í fjölda ára eða allt frá árinu 1960. Um 1200 jarðgöng af ýmsum stærðum og gerðum eru víðs vegar í Noregi og eru veggjöld sérstaklega innheimt af nokkrum þeirra. Um þriðjungur allra veggjalda í Noregi er innheimtur af umferð á Oslóarsvæðinu, gjaldstöðvar þar eru 83 talsins. Í kringum Osló búa 1,2 milljónir manna eða um fjórðungur íbúa landsins. Upphæðir veggjalda eru misháar eftir umferðarmannvirkjum. Skuldastaða vegna stofnkostnaðar við mannvirkin hefur þar áhrif en dýrara er að fara um ný mannvirki en þau eldri. Gjaldflokkar fara einnig eftir stærð, þunga og eldsneytistegund bíla. Lægri veggjöld eru innheimt af bílum sem hvorki gefa frá sér koldíoxíð né nítrógenoxíð. Þá er líka rukkað mismunandi eftir annatíma umferðar.

Við viljum öll gott samgöngukerfi

Það hefur verið stefna núverandi stjórnvalda að hraða framkvæmdum í samgöngum og byggja upp gott og skilvirkt samgöngukerfi um allt land. Til þess að fjármagna allar þessar framkvæmdir er óhjákvæmilegt að taka upp einhverskonar gjald og hefur verið talað um þrjár leiðir við innheimtu notendagjalda: gjaldtöku á þremur meginstofnæðum til og frá höfuðborginni, samvinnuleið (PPP-verkefni) og gjaldtöku í jarðgöngum.

Útfærsla á gjaldtöku af umferð hér á landi, hvort sem það er um jarðgöng, brýr eða önnur umferðarmannvirki hefur ekki verið ákveðin. Áður en það er gert er eðlilegt að það fari fram gagnrýnin og uppbyggilega umræða um allt land. En niðurstaðan verður að vera sú að þegar umferðagjöld verða tekin til endurskoðunar og tekin upp notkunargjöld, eins og samgönguáætlun sem samþykkt var árið 2019 gerir ráð fyrir, verð horft til jafnræðissjónarmiða íbúa landsins. Þannig höldum við áfram veginn.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. ágúst 2022.

Categories
Fréttir

35 milljónum króna veitt í gæða- og nýsköpunarstyrki

Deila grein

23/08/2022

35 milljónum króna veitt í gæða- og nýsköpunarstyrki

Heilbrigðisráðherra hefur úthlutað tæpum 35 milljónum króna í gæða- og nýsköpunarstyrki til 12 verkefna. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á heilsueflingu og nýtingu nýrra lausna til að auka gæði, þjónustu og hagkvæmni. Verkefnin þurftu að hafa skýran ávinning fyrir heilbrigðisþjónustuna og þann hóp sem þjónustan beinist að. Frestur til að sækja um styrki rann út 1. maí síðastliðinn og bárust 32 umsóknir um fjölbreytt verkefni. Úthlutunarnefnd skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingar. 

Mynd: stjornarradid.is

Prófun á fjarheilbrigðislausn fyrir lungnasjúkdóma og sykursýki

Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Öryggismiðstöðin fengu hæsta styrkinn sem nemur 6 milljónum króna  til að aðlaga, innleiða og prófa fjarheilbrigðishugbúnað frá norsku heilbrigðistæknifyrirtæki í eitt ár. Hugbúnaðurinn tengir saman ýmsar heilbrigðistæknilausnir, s.s. lyfjaskammtara, mælitæki, fræðsluefni og myndsamtöl. Sjúklingar verða með eitt samræmt notendaviðmót þar sem þeir hafa yfirsýn yfir sínar mælingar og upplýsingar. 

Fjarendurhæfing einstaklinga með hálsáverka

NeckCare Holding ehf.  Fékk 4 milljóna króna styrk til að útvíkka kerfi sem felur í sér hreyfifræðileg próf til að meta ástand einstaklinga sem hafa orðið fyrir hálsskaða. Prófin aðstoða lækna og sjúkraþjálfara í að greina skaðann, komast að rótum hans og sérsníða meðferð fyrir sjúklinginn. Markmið verkefnisins felst í því að sjúklingurinn geti notað kerfið heima og framkvæmt sérsniðnar æfingar. Meðferðaraðili getur stýrt gerð æfinga, erfiðleikastigi og hvaða daga eigi að framkvæma þær. Niðurstöðum æfinganna er hlaðið upp í gagnagrunn til að auðvelda eftirfyld og áframhaldandi meðferð. 

Önnur verkefni

Nokkur verkefni fengu 3 milljóna króna styrki. Þar á meðal er verkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um heilsueflingu kvenna á breytingaskeiði sem ætlað að bæta þekkingu bæði almennings og heilbrigðisstarfsfólks á breytingaskeiði kvenna.

Landspítali fær einnig 3 milljóna króna styrk til reksturs bifreiðar Laufeyjar nærþjónustu. Laufey nærþjónusta hjá geðþjónustu Landspítala þjónar einstaklingum með langvarandi alvarlegan samslátt geð- og fíknisjúkdóma sem hefur veruleg áhrif á heilsu og lífsgæði þar sem starfað er eftir markmiðum batamiðaðrar hugmyndafræði, áhugahvetjandi samtals, geðlæknisfræði og skaðaminnkunar. Bifreiðinni er ætlað að nýtast starfsfólki til að fara í vitjanir og veita með því skjólstæðingum teymisins heilbrigðis- og félagsþjónustu í öruggu og hreinu umhverfi.

Heilbrigðisráðuneytið óskar styrkhöfum til hamingju með árangurinn og góðs gengis í framtíðinni.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 22. ágúst 2022.

Categories
Fréttir

Heilbrigðisráðherra heimsækir heilbrigðisstofnanir

Deila grein

22/08/2022

Heilbrigðisráðherra heimsækir heilbrigðisstofnanir

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra heimsótti í vikunni Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU), fundaði með framkvæmdastjórninni, kynnti sér starfsemi stofnunarinnar og skoðaði nýja hjúkrunarheimilið Móberg sem verður tekið í notkun innan skamms. Heimsóknin markar upphafið að hringferð ráðherra um landið sem mun á næstunni heimsækja heilbrigðisstofnanir í öllum heilbrigðisumdæmum landsins.

Á fundi ráðherra með framkvæmdastjórn kynnti Díana Óskarsdóttir forstjóri HSU helstu stærðir í rekstri stofnunarinnar, þróun starfseminnar og starfsáætlun þessa árs, áherslur í mannauðsmálum og ýmsar nýjungar sem unnið er að meðal annars á sviði heilbrigðistækni og fjarheilbrigðisþjónustu. Markvisst hefur verið unnið að því að styrkja þjónustu sérgreinalækna við stofnunina undanfarið með áherslu á aukna þjónustu við íbúa í heimabyggð og verður áfram haldið á þeirri braut.

Víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) í núverandi mynd varð til við sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja árið 2015 og er þetta víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins. Íbúar á þjónustusvæði HSU eru rúmlega 32.000 en í umdæminu eru einnig fjölmennar sumarhúsabyggðir og fjölsóttir ferðamannastaðir sem setur mark sitt á starfsemi stofnunarinnar, einkum yfir sumartímann. Starfsmenn HSU eru um 650 í 420 stöðugildum.

HSU starfrækir níu heilsugæslustöðvar í umdæminu, sjúkrahús á Selfossi og í Vestmannaeyjum og á Selfossi er opin bráðamóttaka allan sólarhringinn árið um kring. Á Selfossi er ljósmæðrastýrð fæðingarþjónusta og voru fæðingar 70 á síðasta ári. Þar er einnig miðstöð meðgönguverndar og göngudeildarþjónustu við barnshafandi fjölskyldur. Á heilsugæslustöðvunum er veitt grunnþjónusta með áherslu á forvarnir og fræðslu. Þar er móttaka sjúklinga, bráða- og slysaþjónusta, skólaheilsugæsla, heimahjúkrun, meðgöngu- og ungbarnavernd og sálfræðiþjónusta. Á öllum heilsugæslustöðvunum er bráðavakt læknis vegna neyðartilfella og stofnunin annast jafnframt alla sjúkraflutninga á starfssvæði sínu. Geðheilsuteymi HSU tók til starfa árið 2019 og sinnir það einstaklingum 18 ára og eldri sem þurfa á sérhæfðri og þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu að halda.

Hjúkrunarheimilið Móberg

Við HSU á Selfossi eru rekin 42 hjúkrunarrými fyrir aldraða og stofnunin rekur einnig hjúkrunarheimilið Hraunbúðir í Vestmannaeyjum með 32 íbúa. Í lok árs 2019 var tekin fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili í Árborg á bökkum Ölfusár við hlið HSU á Selfossi. Heimilið sem er fyrir 60 íbúa er nánast tilbúið til notkunar og munu fyrstu íbúarnir flytja þangað inn á næstunni. Hjúkrunarheimilið hefur fengið nafnið Móberg og mun HSU annast rekstur þess.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 19. ágúst 2022.

Ljósmyndir: Stjórnarráðið

Categories
Greinar

Snöggt viðbragð í leikskólamálum

Deila grein

22/08/2022

Snöggt viðbragð í leikskólamálum

Í gær samþykktum við í borginni bráðaaðgerðir í leikskólamálum í Reykjavík sem allar miða að því að auka framboð á leikskólaplássum og flýta þannig inntöku barna í leikskóla.

Á sama tíma stendur Reykjavíkurborg fyrir mestu uppbyggingu í áratugi með Brúum bilið-átakinu og mun átakið skila 553 nýjum plássum á þessu ári. Tafir á opnun nýrra skóla hafa leitt til óþolandi vandræða fyrir fjölskyldur sem gerðu ráð fyrir að leikskólavist gæti hafist snemma í haust. Það er miður og við höfum á undanförnum dögum smíðað bráðaaðgerðaáætlun.

Aðgerðirnar eru þessar. Við flýtum opnun Ævintýraborgar á Nauthólsvegi þannig að börnin geti hafið aðlögun í fyrri hluta septembermánaðar. Við ætlum líka að nýta laust húsnæði í Korpuskóla og Bakka í Grafarvogi til að taka við nýjum börnum nú í haust. Þarna skapast 160–200 ný pláss og markmiðið er að opna eftir sex vikur. Við viljum líka skoða nýtingu á frístundaheimilum fyrir leikskólabörn. Við ætlum að fjölga dagforeldrum með því að hækka niðurgreiðslur og fjölga þannig plássum. Tvær nýjar Ævintýraborgir verða pantaðar í september en þær verða tilbúnar á næsta ári.

Við verðum líka að einfalda líf foreldra. Það verður að breyta verklagi við innritun í leikskóla þannig að foreldrar þurfi ekki að hringja um alla borg í leikskólastjóra til að finna pláss. Það felst meðal annars í því að samræma innritunarkerfi Reykjavíkur og sjálfstætt starfandi leikskóla. Frábært starf fer fram á leikskólum Reykjavíkur, þar eru þúsundir barna og hundruð starfsfólks sem verja deginum saman til náms og leiks á hverjum degi. Leikskólagjöldin eru með þeim lægstu og systkinaafslættir eru afar ríflegir.

Við í meirihlutanum í Reykjavík heyrum skýrt ákall foreldra um aðgerðir. Við höfum brugðist við því með snöggu viðbragði. En verkinu er ekki lokið og við höldum áfram að vinna í þágu barna og barnafjölskyldna.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík og formaður Borgarráðs.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 19. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Tímamót fyrir íslenskt tónlistarlíf!

Deila grein

22/08/2022

Tímamót fyrir íslenskt tónlistarlíf!

Í vik­unni voru drög að fyrstu op­in­beru stefn­unni á sviði tón­list­ar á Íslandi, ásamt frum­varps­drög­um um heild­ar­lög­gjöf um tónlist, sett í opið sam­ráð. Mik­il vinna hef­ur verið lögð í að kort­leggja um­hverfi tón­list­ar í land­inu und­an­far­in miss­eri og því virki­lega ánægju­legt að geta kynnt afrakst­ur þeirr­ar vinnu.

Með nýrri lög­gjöf og stefnu verður um­gjörð tón­list­ar styrkt veru­lega. Mark­mið lag­anna verður að efla tón­list­ar­líf um land allt, bæta starfs­um­hverfi tón­listar­fólks og styðja við upp­bygg­ingu tón­list­ariðnaðar hér á landi. Með laga­setn­ing­unni verður sett­ur heildarrammi utan um aðkomu hins op­in­bera að tónlist og um­gjörð sett utan um rekst­ur og hlut­verk nýrr­ar Tón­list­armiðstöðvar, nýs Tón­list­ar­sjóðs og Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar Íslands. Í lög­un­um er einnig ákvæði um nýtt tón­list­ar­ráð.

Lög­in byggj­ast á drög­um að tón­list­ar­stefnu sem er fyrsta op­in­bera stefn­an um mál­efni tón­list­ar á Íslandi. Stefn­an inni­held­ur framtíðar­sýn og mark­mið tón­list­ar til árs­ins 2030 auk aðgerða sem mótaðar hafa verið sem liður í að ná til­sett­um mark­miðum. Aðgerðaáætl­un stefn­unn­ar verður í tveim­ur hlut­um. Fyrri hluti gild­ir fyr­ir árin 2023-2026 og síðar verður mótuð aðgerðaáætl­un fyr­ir árin 2027-2030. Sér­stök áhersla verður lögð á tón­list­ar­menn­ingu og -mennt­un, tónlist sem skap­andi at­vinnu­grein sem og út­flutn­ing á ís­lenskri tónlist.

Þá tek­ur ný Tón­list­armiðstöð við hlut­verk­um Útflutn­ings­skrif­stofu ís­lenskr­ar tón­list­ar (ÚTÓN) og Íslenskr­ar tón­verka­miðstöðvar og nýr Tón­list­ar­sjóður verður til með sam­ein­ingu nú­ver­andi Tón­list­ar­sjóðs, Hljóðrita­sjóðs og Útflutn­ings­sjóðs ís­lenskr­ar tón­list­ar. Þetta mun ein­falda sjóðafyr­ir­komu­lag tón­list­ar og auka skil­virkni og slag­kraft í stuðningi við ís­lenska tónlist.

Strax á næsta ári verða fjár­fram­lög til tón­list­ar auk­in um 150 m.kr. til að fram­fylgja nýrri stefnu og árið 2025 er stefnt að því að fram­lög til tón­list­ar verði 250 m.kr. hærri en þau eru í ár.

Of­an­greint er í sam­ræmi við stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þar sem fram kem­ur að ætl­un­in sé að tryggja und­ir­stöður ís­lensks menn­ing­ar- og list­a­lífs og skapa ný tæki­færi fyr­ir ís­lenska lista­menn. Aðgengi að menn­ingu er mik­il­væg­ur þátt­ur þess og máli skipt­ir að all­ir lands­menn geti notið lista og menn­ing­ar og tekið þátt í slíku starfi. Íslenskt tón­listar­fólk hef­ur tekið virk­an þátt í að móta dag­legt líf okk­ar með verk­um sín­um. Ég er stolt og þakk­lát fyr­ir fram­lag þeirra til ís­lenskr­ar menn­ing­ar og er sann­færð um að þau skref sem tek­in verða með nýrri stefnu og lög­um verði til þess að blása enn frek­ari vindi í segl ís­lenskr­ar tón­list­ar, stuðla að því að fleiri geti starfað við tónlist í fullu starfi og auðgað líf okk­ar enn frek­ar.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Sjálfstæði á óvissutímum

Deila grein

22/08/2022

Sjálfstæði á óvissutímum

Orku­mál og sjálf­bærni þeirra hafa verið í brenni­depli vegna hlýn­un­ar jarðar um nokkra hríð. Í kjöl­farið á inn­rás Rússa í Úkraínu og deil­um þeirra við Evr­ópu­sam­bandið vegna refsiaðgerða er kom­in upp óviss­ustaða í orku­mál­um í álf­unni. Ekk­ert ríki í heim­in­um flyt­ur út jafn mikið gas og Rúss­land, en um helm­ing­ur alls gass sem notað er inn­an ESB kem­ur frá Rússlandi. Staðan er nú þannig að ekki er víst að Evr­ópa muni eiga nóg af gasi fyr­ir kom­andi vet­ur. Skort­ur á gasi í Evr­ópu leiðir til sam­drátt­ar með til­heyr­andi af­leiðing­um fyr­ir fyr­ir­tæki og fjöl­skyld­ur. Sam­kvæmt spám gæti verg lands­fram­leiðsla í ESB-ríkj­um lækkað um allt að 1,5% ef vet­ur­inn verður harður með al­var­leg­um trufl­un­um á gasbirgðum. Talað er um að þýsk­ur iðnaður gæti staðið frammi fyr­ir al­var­legri ógn vegna skorts á orku. Orku­verð á heimsvísu hef­ur hækkað veru­lega og hækkað fram­færslu­kostnað Evr­ópu­búa. Frá því snemma á síðasta ári hef­ur heims­markaðsverð á olíu tvö­fald­ast, verð á kol­um nærri fjór­fald­ast og verð á evr­ópsku jarðgasi nán­ast sjö­fald­ast. Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn ger­ir ráð fyr­ir að fram­færslu­kostnaður heim­ila hækki að meðaltali um 7% miðað við það sem gert var ráð fyr­ir snemma árs 2021. Sum ríki skera sig þó úr en talið er að fram­færslu­kostnaður heim­ila í Eistlandi geti hækkað um allt að 20%.

Reyn­ir á sam­stöðu inn­an ESB

Í síðasta mánuði lagði fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins fram til­lögu til að sporna við gasskorti á þá leið að aðild­ar­rík­in drægju úr gasnotk­un um 15% næsta vet­ur. Til­lag­an hef­ur sætt nokk­urri and­stöðu inn­an sam­bands­ins en Spán­verj­ar, Grikk­ir, Portú­gal­ar, Ítal­ir, Pól­verj­ar og Kýp­verj­ar eru meðal ann­ars and­víg­ir áætl­un­inni og halda því fram að eitt yf­ir­grips­mikið mark­mið sé ósann­gjarnt miðað við mis­mun­andi orku­sam­setn­ingu aðild­ar­ríkj­anna. Fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins met­ur ástandið það al­var­legt að huga þurfi að því hvort sam­drátt­ur­inn þurfi að vera lög­boðinn inn­an sam­bands­ins. Það er greini­legt að fram und­an eru erfiðar samn­ingaviðræður milli ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins þar sem reyna mun á sam­stöðu þeirra.

Ísland nýt­ur sér­stöðu í orku­mál­um

Ég vil í þessu sam­bandi vekja máls á því að það skipt­ir veru­legu máli að vera sjálf­bær á sem flest­um sviðum. Á meðan ná­grann­ar okk­ar í Evr­ópu sjá fram á harðan vet­ur í orku­mál­um stönd­um við mun bet­ur að vígi. Við Íslend­ing­ar höf­um gríðar­mik­il tæki­færi þegar kem­ur að því að búa til græna orku og þar get­um við gert enn bet­ur. Aðgerðir í lofts­lags­mál­um til að ná kol­efn­is­hlut­leysi hafa fram­kallað græna iðnbylt­ingu um all­an heim og við erum meðvituð um mik­il­vægi þess að hraða um­skipt­um yfir í græna end­ur­nýj­an­lega orku. Það er verðugt mark­mið og raun­hæft að Ísland verði fyrst ríkja óháð jarðefna­eldsneyti árið 2040 en ávinn­ing­ur­inn af því að venja okk­ur af jarðefna­eldsneyti er ekki aðeins fyr­ir lofts­lagið, held­ur skipt­ir það máli fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar til lengri tíma litið. Orku­ör­yggi er þjóðarör­ygg­is­mál, við Íslend­ing­ar erum óþægi­lega háð inn­flutt­um orku­gjöf­um á viss­um sviðum og mik­il­vægt að við drög­um úr inn­flutn­ingi á orku­gjöf­um. Orku­ör­yggi kall­ar á aukna raf­orku­fram­leiðslu og öfl­ugra flutn­ings- og dreifi­kerfi sem aft­ur kall­ar á heild­rænt skipu­lag orku­kerf­is­ins og samþætt­ingu verk­ferla. Þá þarf einnig að mæta orkuþörf­inni með bættri ork­u­nýt­ingu og aukn­um orku­sparnaði.

Til að ná þessu fram er mik­il­vægt að unnið sé í sem mestri sátt um vernd og nýt­ingu landsvæða og nátt­úru­auðlinda. Okk­ar verk­efni nú er að leita leiða í sam­ein­ingu og sátt um hvernig við ætl­um að fram­leiða okk­ar grænu orku, hvort sem það er með vatns­afli, vindorku eða öðrum aðferðum.

Ágúst Bjarni Garðars­son, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. ágúst 2022.

Categories
Fréttir

Ingvar Gíslason látinn

Deila grein

19/08/2022

Ingvar Gíslason látinn

Ingvar Gíslason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, er látinn. Ingvar lést sl. miðvikudag á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi, 96 ára að aldri.

Ingvar fæddist í Nesi í Norðfirði 28. mars 1926. Foreldrar hans voru hjónin Gísli Hjálmarsson Kristjánsson útgerðarmaður og Fanný Kristín Ingvarsdóttir húsmóðir.

Ingvar lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1947. Hann stundaði nám í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1947-1948 og í sagnfræði við háskólann í Leeds á Englandi 1948-1949. Hann lauk lögfræðiprófi við Háskóla Íslands árið 1956. Héraðsdómslögmaður varð hann 1962.

Ingvar gegndi ýmsum störfum eftir námið og var m.a. skrifstofustjóri Framsóknarflokksins á Akureyri 1957-1963 og stundaði jafnframt ýmis lögfræðistörf.

Ingvar var árið 1961 kjörinn á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn og var alþingismaður Norðurlandskjördæmis eystra frá 1961 til 1987. Árið 1980 var Ingvar skipaður menntamálaráðherra og gegndi því embætti til 1983. Hann var forseti neðri deildar Alþingis á árunum 1978-1979 og 1983-1987. Hann var formaður þingflokks Framsóknarmanna 1979-1980.

Ingvar sat um árabil í stjórn atvinnubótasjóðs, síðar atvinnujöfnunarsjóðs. Hann átti m.a. sæti í rannsóknaráði, í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og sat í húsafriðunarnefnd 1974-1983.

Ingvar átti sæti í Kröflunefnd 1974-1980. Hann var fulltrúi á þingi Evrópuráðsins 1971-1980 og 1983-1987 og sat nokkur ár í forsætisnefnd þess. Hann var í útvarpsréttarnefnd og í stjórn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í mörg ár.

Þá var Ingvar um skeið í úthlutunarnefnd starfslauna rithöfunda. Ingvar var einnig ritstjóri tímarita og blaða, m.a. Stúdentablaðsins, Vikutíðinda og var ritstjóri Tímans 1987-1991. Hann ritaði fjölda greina í blöð og tímarit og birt voru eftir hann nokkur ljóð. Hlaut hann verðlaun í ljóðasamkeppni á vegum menningarmálanefndar Akureyrar 1989. Árið 2016 sendi hann frá sér bókina Úr lausblaðabók – Ljóðævi.

Eiginkona Ingvars var Ólöf Auður Erlingsdóttir, fædd 1928, dáin 2005. Börn þeirra eru: Fanný, Erlingur Páll, Gísli, Sigríður og Auður Inga.

Við Framsóknarfólk minnumst ráðherra og alþingismanns með djúpri virðingu og þakklæti fyrir störf í þágu Framsóknarflokksins og þjóðarinnar.

Framsóknarfólk vottar aðstandendum innilega samúð.