Categories
Fréttir

Metfjöldi á Mannamótum ferðaþjónustunnar

Deila grein

08/02/2023

Metfjöldi á Mannamótum ferðaþjónustunnar

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, heimsótti Mannamót, ferðakaupstefnu Markaðsstofa landshlutanna, sem haldið var í Kórnum í Kópavogi á dögunum. Viðburðurinn er sá stærsti sem haldinn er í íslenskri ferðaþjónustu en á annað þúsund manns sótti kaupstefnuna í ár, sem er metfjöldi.

Mannamót markaðsstofanna eru hugsuð sem kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og veitir landsbyggðarfyrirtækjum færi á að kynna starfsemi sína fyrir ferðaþjónustuaðilum sem eru staðsettir víðs vegar um landið. Um 250 fyrirtæki frá öllum landshlutum kynntu starfsemi sína á Mannamótum í ár.

„Það er ánægjulegt að sjá hve margir voru mættir á Mannamót ferðaþjónustunnar í ár og ljóst að það er mikill hugur í fólki. Ísland hefur upp á mikið að bjóða um allt land, allt árið um kring og gaman að sjá hve spennandi og fjölbreyttar leiðir hafa skapast í vetrarferðaþjónustu um allt land síðustu misseri,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Clea Braun viðskiptastjóri hjá Condor og Arnfríður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. - mynd

Jóna Árný Þórðardóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar, Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Clea Braun viðskiptastjóri hjá Condor og Arnfríður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.

Á viðburðinum hitti Lilja meðal annars Cleu Braun, viðskiptastjóra hjá þýska flugfélaginu Condor sem er fyrsta erlenda flugfélagið sem hefur tilkynnt um reglubundið beint flug frá Frankfurt til bæði Egilsstaða og Akureyrar. Flugþróunarsjóður hefur gert samning um að styrkja Condor í því verkefni en markmið sjóðsins er að byggja nýjar flugleiðir til Íslands í gegn um aðra flugvelli en Leifsstöð. Condor mun fljúga beint til Egilsstaða og Akureyrar frá maí til október 2023.

Þá mun svissneska flugfélagið Edelweiss Air fljúga beint til Akureyrar frá Zurich í sumar og hyggur á aukið flug þangað í framtíðinni. Félögin bætast við þau sem fljúga þangað fyrir en hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel hefur verið með leiguflug frá Hollandi til Akureyrar frá árinu 2019 og þá hóf flugfélagið Niceair beint áætlunarflug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife sumarið 2022.

Markaðsstofur landshlutanna eru sex talsins, á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Reykjanesi og á Suðurlandi. Hlutverk þeirra er að samræma markaðs- og kynningarmál í ferðaþjónustu og sinna vinnu við vöruþróun í ferðaþjónustu. Þær starfa með um 900 fyrirtækjum og sveitarfélögum um land allt.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

Ísland og Sameinuðu þjóðirnar í samstarf um farsæld barna

Deila grein

08/02/2023

Ísland og Sameinuðu þjóðirnar í samstarf um farsæld barna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Najat Maalla M’jid, sérlegur sendifulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum, skrifuðu undir samning um samstarf í málefnum barna í New York í gær.

Samningurinn grundvallast á nýjum lögum um farsæld barna og kveður á um þróun á samþættu verklagi og úrræðum til verndar börnum gegn ofbeldi samhliða þróun nýrrar aðferðafræði sem greinir og kortleggur arðsemi samfélaga af því að fjárfesta í betri þjónustu við börn.

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna og fleiri samstarfsaðila á alþjóðavísu munu á næstu árum vinna náið að þessu verkefni í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið ásamt sérstökum stýrihópi alþjóðlegra og íslenskra sérfræðinga.

Ísland og Sameinuðu þjóðirnar í samstarf um farsæld barna - mynd

Samstarfið felur m.a. í sér þróun og útgáfu verklags og verkfæra sem vernda börn gegn ofbeldi samhliða því að sýna fram á hagrænan ávinning samfélaga af slíkum aðgerðum. Vonir standa til þess að á grundvelli þessa samstarfs muni fleiri aðildarríki taka þátt í að fjárfesta í þverfaglegri, barnvænni vernd og forvörnum gegn ofbeldi gagnvart börnum.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra:

„Það er engin fjárfesting betri heldur en í börnum – farsæld þeirra skilar sér margfalt út í samfélagið. Síðustu ár höfum við stigið mörg mikilvæg skref í að bæta þjónustu og stuðning fyrir börn og fjölskyldur á Íslandi en meira þarf til. Það er spennandi að finna áhuga innanlands og erlendis á þessu stóra verkefni en það mikilvægasta við þetta formlega alþjóðlega samstarf er aðgengi að og stuðningur frá helstu sérfræðingum á þessu sviði á heimsvísu. Það mun vonandi gera okkur kleift að stíga stærri skref hraðar – allt í þágu farsældar barna og þannig samfélagsins alls.“

Najat Maalla M’jid, sérlegur sendifulltrúi aðalritara Sameinuðu þjóðanna um ofbeldi gegn börnum:

„Ending violence against children through a cross-sectoral, integrated chain of services is an investment with a high return. Building on the experience of Iceland, this important partnership will encourage and invite others to follow this path.“

Á síðasta kjörtímabili hóf mennta- og barnamálaráðherra (þá félags- og barnamálaráðherra) vinnu við undirbúning nýrrar löggjafar sem breyta átti nálgun og verklagi í kringum þjónustu við börn á Íslandi. Þau lög hafa nú tekið gildi og eru lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Snemma í ferlinu lá fyrir að Sameinuðu þjóðirnar hefðu áhuga á verkefninu og var áhuginn bæði á nálguninni við gerð laganna og efni þeirra. Sambærilega löggjöf er ekki að finna á landsvísu neins staðar í heiminum, svo þekkt sé.

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir

„Við getum gert löggjafarþing Íslands skilvirkara“

Deila grein

07/02/2023

„Við getum gert löggjafarþing Íslands skilvirkara“

Halldóra K. Hauksdóttir, varaþingmaður, flutti jómfrúrræðu sína í störfum þingsins. Hún er eggjabóndi og starfar sem lögmaður á velferðarsviði Akureyrarbæjar.

„Sem varaþingmaður hef ég hingað til aðallega gegnt hlutverki áhorfanda og fylgst glöggt með gangi mála. Við að fylgjast með hef ég lengi velt fyrir mér skilvirkni þingsins og vil varpa þeirri spurningu fram hvernig við getum gert löggjafarþing Íslands skilvirkara og þannig náð betri árangri fyrir samfélagið allt,“ sagði Halldóra.

Segir hún að vanti fyrirbyggjandi aðgerðir til að breyta og bæta til framtíðar en orkan fari í að bregðast við aðstæðum. Gott fordæmi um fyrirbyggjandi aðgerðir er vinna mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar.

„Einnig vil ég nýta tækifærið og ræða íslenskan landbúnað, en það er umræða sem oft er á villigötum í samfélaginu. Landbúnaður er ein mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga þótt oft sé sú grein vanmetin.“

„Ýmsir gefa í skyn að búvörusamningurinn sé bæði dýr og ólöglegur þótt hann sé gífurlega mikilvægur fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Enn eitt dæmi um vanmat þrátt fyrir kröftuga vinnu og þrautseigju íslenskra bænda. Einnig hefur oft verið reynt að telja fólki trú um að innlendar landbúnaðarvörur séu óeðlilega dýrar en staðreyndin er sú, samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, að íslensk fjölskylda eyðir 12–13% í matvæli sem hlutfall af heildarútgjöldum heimila sem er sambærilegt nágrannaríkjum okkar og töluvert lægra en meðaltal innan ESB-ríkjanna. Það er því greinilega margt sagt um íslenskan landbúnað sem er ekki á rökum reist,“ sagði Halldóra að lokum.


Ræða Halldóru í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er mikill heiður að fá að halda jómfrúrræðu mína hér á Alþingi. Ég heiti Halldóra Hauksdóttir, ég er búsett á Akureyri, ég er eggjabóndi og starfa sem lögmaður á velferðarsviði Akureyrarbæjar. Sem varaþingmaður hef ég hingað til aðallega gegnt hlutverki áhorfanda og fylgst glöggt með gangi mála. Við að fylgjast með hef ég lengi velt fyrir mér skilvirkni þingsins og vil varpa þeirri spurningu fram hvernig við getum gert löggjafarþing Íslands skilvirkara og þannig náð betri árangri fyrir samfélagið allt. Miklum tíma og mikilli orku er eytt í að bregðast við aðstæðum í stað þess að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir, breyta og bæta til framtíðar. Sem dæmi um slíkt má nefna málefni barna og fjölskyldna, málefni sem stendur mér nærri sem starfsmanni í velferðarþjónustu. Þar hefur hæstv. mennta- og barnamálaráðherra sýnt gott fordæmi með fyrirbyggjandi breytingum til betri framtíðar. Það er engin launung að við getum víða gert betur.

Einnig vil ég nýta tækifærið og ræða íslenskan landbúnað, en það er umræða sem oft er á villigötum í samfélaginu. Landbúnaður er ein mikilvægasta atvinnugrein Íslendinga þótt oft sé sú grein vanmetin. Ýmsir gefa í skyn að búvörusamningurinn sé bæði dýr og ólöglegur þótt hann sé gífurlega mikilvægur fyrir fæðuöryggi þjóðarinnar. Enn eitt dæmi um vanmat þrátt fyrir kröftuga vinnu og þrautseigju íslenskra bænda. Einnig hefur oft verið reynt að telja fólki trú um að innlendar landbúnaðarvörur séu óeðlilega dýrar en staðreyndin er sú, samkvæmt nýjum tölum frá Eurostat, að íslensk fjölskylda eyðir 12–13% í matvæli sem hlutfall af heildarútgjöldum heimila sem er sambærilegt nágrannaríkjum okkar og töluvert lægra en meðaltal innan ESB-ríkjanna. Það er því greinilega margt sagt um íslenskan landbúnað sem er ekki á rökum reist.“

Categories
Fréttir Greinar

Leggjumst öll á árarnar

Deila grein

07/02/2023

Leggjumst öll á árarnar

Verðbólga hef­ur markað umræðu um efna­hags­mál á Íslandi um ára­bil og glímdi Ísland lengi við verðbólgu sem mæld­ist langt um­fram það sem tíðkaðist í lönd­um í kring­um okk­ur.

Und­an­far­in 30 ár eða svo náðist að tempra verðbólg­una meðal ann­ars með þjóðarsátt­inni þegar all­ir lögðust á ár­arn­ar og meiri agi náðist í hag­stjórn, rík­is­fjár­mál­um og pen­inga­mál­um. Þótt verðbólg­an væri stund­um um­fram það sem tíðkaðist í ná­granna­lönd­un­um var hún þó ekki langt um­fram.

Á síðasta ári voru verðbólgu­mæl­ing­ar hér þó ekki um­fram ná­granna­lönd­in og var Ísland á fyrri hluta árs­ins yf­ir­leitt í lægri kant­in­um miðað við sam­an­b­urðarlönd okk­ar. Á tíma­bili mæld­ist sam­ræmd vísi­tala neyslu­verðs í Evr­ópu næst­lægst á Íslandi. Mæld­ist vísi­tal­an aðeins neðar í Sviss. Á síðasta ári urðu veru­leg­ar hækk­an­ir á alþjóðamörkuðum sem staf­ar af berg­máli vegna fram­leiðslu­hnökra frá þeim tíma að far­sótt­in stóð sem hæst og skelfi­legu stríði sem ekki hef­ur þekkst í marg­ar kyn­slóðir og skapað það sem kallað hef­ur verið lífs­kjara­kreppa á Vest­ur­lönd­um. Þannig má segja að verðbólga hafi því miður orðið að inn­flutn­ings­vöru, en á sama tíma hafa áfram orðið inn­lend­ar kostnaðar­hækk­an­ir og gengi krón­unn­ar gefið eft­ir. Það er gam­all sann­leik­ur í hag­fræðinni að verðbólga er af hinu illa og kem­ur verst niður á þeim sem viðkvæm­ast­ir eru, bæði þeim sem minnst hafa á milli hand­anna og þeim sem standa frammi fyr­ir fjár­fest­ingu eins og ungt fólk og fjöl­skyldu­fólk að koma sér upp hús­næði.

Á und­an­förn­um miss­er­um hafa stjórn­völd kynnt ýms­ar aðgerðir til þess að draga úr áhrif­um verðbólgu á lífs­kjör viðkvæm­ustu hópa sam­fé­lags­ins. Má þar nefna hækk­un bóta al­manna­trygg­inga, hærri hús­næðis­bæt­ur, sér­stak­an barna­bóta­auka, auk­inn slag­kraft í hús­næðismál og fleira. Í mínu ráðuneyti á sér stað mik­il­væg vinna er snýr að sam­keppn­is- og neyt­enda­mál­um, en heil­brigð sam­keppni er grund­vall­ar­atriði í verðmynd­un. Í þeim mál­um er meðal ann­ars unnið að end­ur­skoðun stofnanaum­gj­arðar sam­keppn­is- og neyt­enda­mála með það að mark­miði að efla slag­kraft í þágu neyt­enda. Fjár­mun­ir hafa verið aukn­ir til Neyt­enda­sam­tak­anna til að efla þeirra ágæta starf í þágu neyt­enda, og á næstu vik­um mun ráðuneyti mitt kynna nýtt verk­efni sem mun stuðla að betri upp­lýs­inga­miðlum um verðlagn­ingu til neyt­enda. Þá skipaði ég vinnu­hóp sem hef­ur það hlut­verk að rýna hagnað bank­anna til að kanna hvort neyt­end­ur hér á landi borgi meira fyr­ir fjár­málaþjón­ustu en neyt­end­ur ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um.

Það er gríðarlega mik­il­vægt fyr­ir þjóðfé­lagið að halda verðbólgu í skefj­um og það verk­efni þarf að nálg­ast úr ýms­um átt­um. Ég hef þá trú að ár­ang­ur ná­ist þegar við öll leggj­umst sam­an á ár­arn­ar og róum í sömu átt. Það er til að mynda mik­il­vægt að neyt­end­ur séu á tán­um gagn­vart verðlagn­ingu á vöru og þjón­ustu og fyr­ir­tæki hækki ekki verð um­fram það sem eðli­legt get­ur tal­ist. Slíkt skipt­ir máli fyr­ir lífs­kjör­in í okk­ar góða landi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Tryggjum fæðuöryggi þjóðar

Deila grein

07/02/2023

Tryggjum fæðuöryggi þjóðar

Sjald­an hef­ur fæðuör­yggi skipt okk­ur Íslend­inga meira máli en nú, ófriður í Evr­ópu veg­ur þar þungt í umræðunni, víða eru menn farn­ir að finna fyr­ir vöru­skorti og hækk­andi verði á allri hrávöru.

En hvað þýðir þetta orð, fæðuör­yggi? Þegar talað er um fæðuör­yggi sam­kvæmt skil­grein­ingu mat­vælaráðuneyt­is­ins er átt við að allt fólk, á öll­um tím­um, hafi raun­veru­leg­an og efna­hags­leg­an aðgang að næg­um heil­næm­um og nær­ing­ar­rík­um mat sem full­næg­ir þörf­um þess til að lifa virku og heilsu­sam­legu lífi.

Nú­ver­andi bú­vöru­samn­ing­ar tóku gildi 1. janú­ar 2017. Þeir eru gerðir milli rík­is­ins og Bænda­sam­taka Íslands en þar er fjallað um stjórn á fram­leiðslu búvara og fram­laga til land­búnaðar­ins af hálfu rík­is­ins. Fram­lög á fjár­lög­um vegna bú­vöru­samn­ing­anna í ár hljóða upp á 17,2 milj­arða króna, naut­griparækt fær um 8,4 milj­arða, sauðfjár­rækt 6,2 milj­arða, garðyrkja rúm­an millj­arð og svo erum við með ramma­samn­ing­inn sem hljóðar upp á 1,5 millj­arða króna. Ramma­samn­ing­ur á að taka utan um jarðrækt­ar­styrki og nýliðun svo fátt eitt sé nefnt.

Bú­vöru­samn­ing­arn­ir gilda í 10 ár með tveim­ur end­ur­skoðun­ar­á­kvæðum, fyrst árið 2019 og nú stend­ur þessi síðari end­ur­skoðun fyr­ir dyr­um 2023. Staðreynd­in er sú að krefj­andi tím­ar eru fram und­an í land­búnaði með hækk­un á öll­um aðföng­um til bænda.

Einnig verðum við að horf­ast í augu við þá staðreynd að meðal­ald­ur bænda er um 60 ár og nýliðun lít­il í bænda­stétt­inni. Leggja þarf aukið fé til bú­vöru­samn­inga að mínu mati til að stuðla að til­vist bænda í ís­lensk­um land­búnaði. Einnig þarf að setja aukið fé í ramma­samn­ing­inn og vinna mark­visst að því að hvetja ungt og kraft­mikið fólk til starfa í land­búnaði.

Við vit­um það Íslend­ing­ar að okk­ar kjöt er eitt það besta í heimi; mjög lít­il notk­un sýkla­lyfja, ásamt aðgangi að hreinu og tæru vatni og fæði, trygg­ir gæðin í okk­ar mat­væla­fram­leiðslu.

Ég skora því á sam­flokks­menn mína, þing­menn og ráðherra Fram­sókn­ar­flokks­ins, að beita sér fyr­ir því að þessi end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga tryggi styrk­ari stoð und­ir fæðuör­yggi ís­lensku þjóðar­inn­ar.

Anton Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Það er mismunandi heitt

Deila grein

02/02/2023

Það er mismunandi heitt

Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár. Byggðastofnun hefur áður gefið út slíkar skýrslur og hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli, við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land.

Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hve kostnaður er mismunandi eftir landssvæðum og er margt sem skýrir þann mismun.

Húshitun er munaður

Þegar rýnt er í húshitunarkostnað er sem fyrr að munurinn á milli svæða er mun meiri en á raforkuverði. Hann er mikill , miklu meiri en ásættanlegt er. Munurinn á lægsta og hæsta mögulega húshitunarkostnaði er þrefaldur. Þó hefur þessi munur dregist saman m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreif- og flutningskostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla. Margir hafa nýtt sér styrki til að setja upp varmadælur og geta því lækkað hitunarkosnað umtalsvert.

Það sem heldur kemur ekki á óvart er að Vestfirðir tróni á toppi hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey. Gamansagan af Vestfirðingnum sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn og þótti vel sloppið á mögulega enn við.

Sameiginleg auðlind

Við tölum oft um að þeir sem nýti auðlindir sjávarins eigi að greiða fyrir þann aðgang. Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og það hafa ekki allir aðgang að þeirri auðlind. Íslendingar eru lánsamir að hafa aðgang að þessari einstöku auðlind þar sem jarðhitinn er og þegar við hófum orkuskipti í húshitun var það mikil umskipti og nú eru um 90% heimila kynt með jarðhita

Á Vestfjörðum eru kynntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kynntar með olíu sem eykur kostnað og losun gróðurhúsalofttegunda eykst. Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Heitt vatn er að finna víða í fjórðungnum og hann þarf að nýta betur. Til þess þarf að tryggja fjármagn til jarðhitaleitar þannig að hægt verði að rannsaka til hlítar möguleika á jarðhita við rafkyntar hitaveitur. Það er því sérstaklega jákvætt að í fjárlögum næsta árs má finna 150 m.kr fram til jarðhitaleitarátaks á næsta ári. Hér er um að ræða sérstaklega arðbært verkefni á Vestfjörðum þar sem jákvæð niðurstaða slíkra rannsókna myndi draga úr notkun olíu og raforku við húshitun og þar með draga úr losun vegna olíunotkunar. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnu, samfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Að auki eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. febrúar 2023.

Categories
Greinar

Heilsa þjóðar

Deila grein

02/02/2023

Heilsa þjóðar

Þeir sem misst hafa heilsuna, tíma­bundið eða um lengri tíma, þekkja vel hversu dýr­mæt heilsan er. Allt annað lendir í öðru sæti þegar fólk lendir í veikindum og lífs­gæði skerðast veru­lega. Geð­raskanir og stoð­kerfis­vanda­mál eru megin­or­sök ör­orku hér á landi og á­skoranir tengdar lífs­stíls­sjúk­dómum vega þungt í þjónustu heil­brigðis­kerfisins. Aukin á­hersla á lýð­heilsu þjóðarinnar er gríðar­lega mikil­vægt skref til fram­tíðar og þar gegna stjórn­völd mikil­vægu hlut­verki.

Ein af þeim leiðum sem Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin og Em­bætti land­læknis hafa bent á til þess að efla lýð­heilsu er inn­leiðing lýð­heilsu­mats. Við inn­leiðingu matsins er skoðað á kerfis­bundinn hátt hvaða á­hrif lög­gjöf og stjórn­valds­á­kvarðanir hafa á heilsu þeirra hópa sem verða fyrir á­hrifum. Gildir þá einu hvort um já­kvæð eða nei­kvæð á­hrif er að ræða. Til­gangurinn er að undir­byggja betri á­kvarðana­töku og eftir at­vikum bregðast við með mót­vægis­að­gerðum. Það er því grund­vallar­for­senda að stjórn­völd vinni að því mark­miði með öllum þeim kerfum sem ein­kenna vel­ferðar­ríki. Lög­gjöf hefur haft ó­um­deilan­leg á­hrif á heilsu þjóðarinnar í gegnum tíðina. Í lýð­heilsu­stefnu til 2030 er sér­stak­lega tekið fram að stjórn­völdum beri að hafa lýð­heilsu að leiðar­ljósi við alla á­ætlana­gerð og stefnu­mótun. Inn­leiðingin verður því að vera mark­viss rétt eins og á við um kostnaðar­mat eða mat á á­hrifum á jafn­rétti, svo eitt­hvað sé nefnt.

Á haust­þingi lagði ég fram þings­á­lyktunar­til­lögu þess efnis að ríkis­stjórninni yrði falið að hefja vinnu við að festa í sessi lýð­heilsu­mat hér á landi. Lagt er til að skipaður verði sér­fræði­hópur með þátt­töku fagráðu­neyta, fræða­sam­fé­lags og Em­bættis land­læknis sem síðan legði til leiðir sem tryggja rýni allra frum­varpa sem lögð eru fyrir Al­þingi út frá á­hrifum þeirra á lýð­heilsu þjóðarinnar. Nær­tækast er að horfa til Finn­lands í þessum efnum þar sem Finnar hafa sett sér slíkar á­herslur.

Heilsa okkar er undir­staða lífs­gæða og heilsan verður aldrei metin til fjár. Festum því lýð­heilsu­mat í sessi sem eitt skref í átt að bættri lýð­heilsu hér á landi.

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. febrúar 2023.

Categories
Fréttir

Margt hækkað umfram verðlagshækkanir

Deila grein

01/02/2023

Margt hækkað umfram verðlagshækkanir

„Neytendamál skipta okkur öll máli og sjálfur hef ég aðeins tjáð mig um þau. Ég byrjaði á að fjalla um húsnæðismarkaðinn hér snemma á síðasta ári og hef rætt tryggingamál,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

„Það svar sem ég fékk við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra sýndi að iðgjöld bílatrygginga hafa hækkað umfram verðlagshækkanir. Það kemur auðvitað ofan á allt annað. Hækkandi lán á húsnæðinu okkar, leigan, matarkarfan – þetta er auðvitað eitthvað sem við finnum öll fyrir sem búum hér.“

Ágúst Bjarni fór nýlega yfir stöðu innlendrar netverslunar í samkeppni við erlendar netverslanir sem byggja á tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar í viðtali á RÚV.

„Það er alveg ljóst að þetta er áskorun fyrir innlenda verslun í heild sinni, hún er að keppa við verslun á miklu stærri markaði. En við sjáum það líka að það hafa mörg jákvæð skref verið stigin til handa neytendum. Við getum nefnt tollasamninginn, fríverslunarsamninginn, niðurfellingu tolla og vörugjalda og svo mætti lengi telja. Ég held að við þurfum áfram að vinna í þá átt að tala fyrir tvíhliða tollasamningum,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Við sjáum það líka þegar við rýnum í þessar tölur og það er sérstaklega áhugavert — ég hvet þingmenn til þess að rýna skýrslu frá McKinsey frá árinu 2012 sem fjallar um stöðu innlendrar verslunar og þær áskoranir sem fram undan eru. Þar er rými til að hagræða, ná niður fermetrafjölda í verslun og ná upp raunverulegri stærðarhagkvæmni svo að innlend verslun verði samkeppnishæf við þá erlendu,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Forseti. Neytendamál skipta okkur öll máli og sjálfur hef ég aðeins tjáð mig um þau. Ég byrjaði á að fjalla um húsnæðismarkaðinn hér snemma á síðasta ári og hef rætt tryggingamál. Það svar sem ég fékk við fyrirspurn minni til fjármála- og efnahagsráðherra sýndi að iðgjöld bílatrygginga hafa hækkað umfram verðlagshækkanir. Það kemur auðvitað ofan á allt annað. Hækkandi lán á húsnæðinu okkar, leigan, matarkarfan — þetta er auðvitað eitthvað sem við finnum öll fyrir sem búum hér.

Nýlega fór ég í viðtal á RÚV, ásamt hv. þm. Guðbrandi Einarssyni frá Viðreisn, varðandi þá stöðu sem innlend netverslun er í í samkeppni við þá erlendu sem byggir á tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Það er alveg ljóst að þetta er áskorun fyrir innlenda verslun í heild sinni, hún er að keppa við verslun á miklu stærri markaði. En við sjáum það líka að það hafa mörg jákvæð skref verið stigin til handa neytendum. Við getum nefnt tollasamninginn, fríverslunarsamninginn, niðurfellingu tolla og vörugjalda og svo mætti lengi telja. Ég held að við þurfum áfram að vinna í þá átt að tala fyrir tvíhliða tollasamningum.

Við sjáum það líka þegar við rýnum í þessar tölur og það er sérstaklega áhugavert — ég hvet þingmenn til þess að rýna skýrslu frá McKinsey frá árinu 2012 sem fjallar um stöðu innlendrar verslunar og þær áskoranir sem fram undan eru. Þar er rými til að hagræða, ná niður fermetrafjölda í verslun og ná upp raunverulegri stærðarhagkvæmni svo að innlend verslun verði samkeppnishæf við þá erlendu.“

Categories
Fréttir

„Greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn“

Deila grein

01/02/2023

„Greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár frá Byggðastofnun í störfum þingsins.

Orkustofnun hefur unnið upp gögnin um kostnað á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land fyrir Byggðastofnun.

„Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hvað kostnaðurinn er mismunandi eftir landsvæðum og það er margt sem skýrir þann mismun,“ sagði Halla Signý.

Húshitunarkostnaður er mikill á milli svæða og sem fyrr mun meiri en á raforkuverði, er munurinn allt að þrefaldur á lægsta og hæsta verði.

„Þó hefur þessi munur dregist saman, m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreifikostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla,“ sagði Halla Signý.

Vestfirðir tróna á toppnum hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey.

„Gamansagan af Vestfirðingnum, sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn, á mögulega enn við,“ sagði Halla Signý.

„Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og ekki hafa allir aðgang að þeirri auðlind. Á Vestfjörðum eru kyntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kyntar með olíu.“

„Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Því þarf að hraða. Auk þess þarf að ráðast í að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum með sterkari hætti. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnusamfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Auk þess eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Byggðastofnun hefur gefið út skýrslu um samanburð á orkukostnaði heimila fyrir síðasta ár. Hún hefur áður gefið út slíkar skýrslur og hefur fengið Orkustofnun til að reikna út kostnað á ársgrundvelli við raforkunotkun og húshitun á sambærilegum fasteignum víða um land. Það er fátt í þessari skýrslu sem kemur á óvart eða hefur verið dulið varðandi það hvað kostnaðurinn er mismunandi eftir landsvæðum og það er margt sem skýrir þann mismun.

Þegar rýnt er í húshitunarkostnað er munurinn á milli svæða sem fyrr mun meiri en á raforkuverði. Hann er mikill, miklu meiri en ásættanlegt er. Munurinn á lægsta og hæsta mögulega húshitunarkostnaði er þrefaldur. Þó hefur þessi munur dregist saman, m.a. vegna hækkunar niðurgreiðslna á dreifikostnaði, aukinnar samkeppni á raforkusölumarkaði og húshitunarkostnaður hefur lækkað umtalsvert þar sem kynt er með rafmagni með tilkomu varmadæla. Það kemur heldur ekki á óvart að Vestfirðir tróni á toppnum hvað húshitunarkostnað varðar ásamt Grímsey. Gamansagan af Vestfirðingnum, sem var nýfluttur suður og greiddi glaður hitaveitureikninginn fyrir allan stigaganginn, á mögulega enn við.

Virðulegi forseti. Við tölum oft um að þeir sem nýti auðlindir sjávar eigi að greiða fyrir það með arði. Aðgangur að heitu vatni er auðlindanýting og ekki hafa allir aðgang að þeirri auðlind. Á Vestfjörðum eru kyntar hitaveitur, raforkuöryggi er ótryggt og vegna þess eru þessar hitaveitur oft kyntar með olíu.

Í tillögum starfshóps um raforkumál á Vestfjörðum kom fram að mikilvægt væri að kanna sérstaklega möguleika á aukinni jarðhitanýtingu til húshitunar í fjórðungnum. Því þarf að hraða. Auk þess þarf að ráðast í að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum með sterkari hætti. Raforka er forsenda þess að uppbygging atvinnusamfélaga og orkuskipta verði á svæðinu. Auk þess eykur það jafnræði íbúa á svæðinu gagnvart öðrum íbúum landsins.“

Categories
Fréttir

Er ekki þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu?

Deila grein

01/02/2023

Er ekki þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu?

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins áform umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Frumvarpinu er ætlað að skylda söluaðila eldsneytis eigi birgðir að jafngildi notkunar til 90 daga.

„Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri skipast veður skjótt í lofti. Eldgos, heimsfaraldur og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti en nægt framboð er forsenda öryggis á fjöldamörgum sviðum og gæti fljótt stefnt í óefni í samfélaginu ef skortur yrði á jarðefnaeldsneyti,“ sagði Ingibjörg.

Minnti hún á markmið Íslands að verða óháð jarðefnaeldsneyti hér á landi, en fram að því eigi að hafa tiltækar olíubirgðir á landinu. Telur Ingibjörg að skoða verði hvort ekki sé þörf á birgðastöðum á fleiri stöðum á landinu.

„Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast, hvort sem er hér á landi eða í heiminum öllum, og því mikilvægt að við séum ekki með öll eggin í sömu körfu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis. Við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist hér á suðvesturhorninu að flugvellir lokist. Eldgos á Reykjanesi og óveður undanfarnar vikur eru ágætisáminning fyrir okkur um það,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í síðustu viku kynnti hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samráðsgátt áform um frumvarp til laga um neyðarbirgðir eldsneytis. Samkvæmt frumvarpinu er áformað að leggja skyldu á söluaðila eldsneytis, að þeir viðhaldi jarðefnaeldsneytisbirgðum sem jafngildi notkun til 90 daga. Líkt og við höfum orðið óþægilega vör við síðustu misseri skipast veður skjótt í lofti. Eldgos, heimsfaraldur og stríð geta valdið aðstæðum þar sem lífsnauðsynlegar vörur verða af skornum skammti en nægt framboð er forsenda öryggis á fjöldamörgum sviðum og gæti fljótt stefnt í óefni í samfélaginu ef skortur yrði á jarðefnaeldsneyti.

Markmið okkar til framtíðar er auðvitað að verða óháð jarðefnaeldsneyti hér á landi en enn er nokkuð í það að þeim markmiðum verði náð. Þar til orkuskiptum hefur verið náð þurfum við að hafa tiltækar olíubirgðir hér á landi. En einmitt í þessu samhengi langar mig að minnast hér á mikilvægi þess að landið sé allt tengt, að við þessa vinnu sem og annað, þegar hugað er að neyðarbirgðum, verði skoðað hvort ekki sé þörf á að koma upp birgðastöð á fleiri stöðum á landinu. Við vitum aldrei hvaða aðstæður geta skapast, hvort sem er hér á landi eða í heiminum öllum, og því mikilvægt að við séum ekki með öll eggin í sömu körfu. Hér er ég ekki síst að horfa til flugvélaeldsneytis. Við þurfum að vera við því búin að þannig aðstæður skapist hér á suðvesturhorninu að flugvellir lokist. Eldgos á Reykjanesi og óveður undanfarnar vikur eru ágætisáminning fyrir okkur um það.“